Ferill 416. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 416 . mál.


623. Skýrsla



félagsmálaráðherra um 80. Alþjóðavinnumálaþingið í Genf 1993.


(Lögð fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993–94.)



1. INNGANGUR

    Á árinu 1994 er þess minnst að 75 ár eru liðin frá því Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO) hóf starfsemi sína árið 1919. Á þeim tíma var ástandið í mörgum ríkjum heimsins hörmulegt. Heimstyrjöldin fyrri hafði skilið eftir sviðna jörð, margar helstu borgir Evrópu voru í rúst og milljónir manna áttu um sárt að binda vegna missis ástvina og eigna. Atvinnuleysi var landlægt. Viðfangsefni viðreisnar og umbóta blöstu við hvert sem litið var. Ákveðið var að bæta sérstökum kafla inn í friðarsamningana, sem kenndir eru við Versali, um stofnun sem hefði forustu um félagslegar umbætur í heiminum. Kaflinn varð síðar kjarninn í stofnskrá Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.
    Tuttugu og fimm árum síðar var svipað umhorfs. Aftur hafði verið háð heimsstyrjöld með tilheyrandi tortímingu og eymd milljóna manna. Alþjóðavinnumálaþingið var kallað saman eftir nokkurt hlé til fundar í Fíladelfíu í Bandaríkjunum. Á þinginu var samþykkt yfirlýsing 10. maí 1944, Fíladelfíuyfirlýsingin, sem mótað hefur störf Alþjóðavinnumálastofnunarinnar frá lokum seinna stríðs. Í henni eru dregnar fram þær grundvallarreglur sem starfsemi stofnunarinnar byggir á: að vinna er ekki verslunarvara; að málfrelsi og félagafrelsi er frumskilyrði framfara; að fátækt, hvar sem er, stofnar hagsæld um víða veröld í voða; að baráttu gegn skorti þarf að heyja með óbilandi þrótti innan hvers þjóðfélags og með stöðugri og samræmdri alþjóðlegri viðleitni þar sem fulltrúar atvinnurekenda og launafólks eru jafnréttháir fulltrúum ríkisstjórna og sameinast um að vinna að því með frjálsum umræðum og lýðræðislegum ákvörðunum að auka sameiginlega hagsæld.
    Þótt nú séu aðrar aðstæður en á árunum 1919 og 1944 eru blikur á lofti. Hrun Ráðstjórnarríkjanna hefur raskað ógnarjafnvæginu sem komst á við lok seinni heimstyrjaldarinnar. Stjórnmálaleg upplausn ríkir í Austur-Evrópu. Miskunnarlaust stríð er háð við dyraþrep Evrópubúa í Bosníu. Í okkar heimshluta er efnahagskreppa sem hefur leitt af sér meira atvinnuleysi en dæmi eru um síðastliðna áratugi. Og í þetta skipti hefur það knúð dyra hjá íslenskum heimilum. Leita þarf allt aftur til kreppuáranna til að finna hliðstæðu.
    Við þessar aðstæður er eðlilegt að þeirri spurningu sé varpað fram hvað Alþjóðavinnumálastofnunin geti gert. Það er ljóst að stofnunin stendur á tímamótum. Forstjóri alþjóðavinnumálaskrifstofunnar í Genf og stjórnarnefnd ILO gera sér grein fyrir þessu. Á síðustu árum hefur stefna og starfsemi stofnunarinnar komið aftur og aftur til umfjöllunar. Samning alþjóðareglna á sviði félags- og vinnumála var á dagskrá Alþjóðavinnumálaþingsins árið 1984. Stjórnarnefndin skipaði vinnunefnd til að gera úttekt á þessu málefni árið 1987. Í framhaldi af ábendingum nefndarinnar hafa á undanförnum árum verið gerðar mikilvægar breytingar á starfsemi skrifstofunnar í Genf og skipulagi Alþjóðavinnumálaþingsins.
    Þrátt fyrir umtalsverðar umbætur þurfa markmið og leiðir að vera til stöðugrar umræðu, svo og val á forgangsverkefnum. Hafa verður að leiðarljósi aðsteðjandi vandamál aðildarríkjanna og leiðir til lausnar á þeim. Nú á tímum felast þau fyrst og fremst í fátækt, félagslegu misrétti á milli einstaklinga sem og þjóða, brot á mannréttindum og umhverfisspjöll. Skortur á vinnu, sem skapar tekjur, er grundvallarástæðan fyrir fátækt og félagslegu misrétti. Það er viðeigandi þegar framangreindra tímamóta í starfi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar verður minnst að taka til endurmats skipulag, stefnu og aðferðir ILO. Ríkisstjórnir Norðurlanda hyggjast stuðla að því með þátttöku sinni í starfi stofnunarinnar.
    Í skýrslu þeirri, sem hér með er lögð fyrir Alþingi, er gerð grein fyrir málefnum sem voru á dagskrá 80. Alþjóðavinnumálaþingsins sem háð var dagana 2.–22. júní 1993. Framvinda þingsins var með svipuðum hætti og undanfarin ár. Af fastanefndum dregur starf þingnefndar um framkvæmd alþjóðasamþykkta alltaf að sér athygli fulltrúa. Hún fjallar um brot aðilarríkjanna á stofnskrá og samþykktum ILO. Í skýrslunni er gerð grein fyrir störfum nefndarinnar og sagt frá athugasemdum sem sérfræðinganefnd stofnunarinnar hefur gert við framkvæmd Íslands á skuldbindandi reglum sem settar hafa verið á vettvangi stofnunarinnar.
    Áskorun, sem fyrrverandi forsætisráðherra Indlands, Rajiv Gandhi, setti fram í ræðu þegar hann heimsótti Alþjóðavinnumálaþingið árið 1985, bar árangur á þessu 80. Alþjóðavinnumálaþingi. Í ræðu sem forsætisráðherrann flutti lagði hann til að ILO hefði forustu um að setja reglur sem koma í veg fyrir hliðstæða atburði og áttu sér stað í Bhopal á Indlandi þar sem stórfellt iðnaðarslys átti sér stað. Þingið afgreiddi alþjóðasamþykkt um varnir gegn iðnaðarslysum. Gerð er grein fyrir helstu atriðum samþykktarinnar og hún er birt í heild sinni sem fylgiskjal I með þessari skýrslu. Tillaga með samþykktinni er fylgiskjal II.
    Auk framangreindra málefna átti sér stað fyrri umræða um réttindi þeirra sem vinna hlutastörf. Stefnt er að því að afgreiða samþykkt og tillögu um þetta málefni á 81. Alþjóðavinnumálaþinginu 1994. Þingið fjallaði enn fremur um tækni- og þróunaraðstoð ILO og kynþáttaaðskilnaðarstefnuna í Suður-Afríku. Loks afgreiddi þingið þingsályktun um félagslegt öryggi og afleiðingar atvinnuleysis og fátæktar.
    Af hagkvæmnisástæðum er nokkur grein gerð fyrir starfi félagsmálaráðuneytisins að framkvæmd félagsmálasáttmála Evrópu í fylgiskjölum og viðaukum við skýrsluna. Sagt er frá samskiptum stjórnvalda við Evrópuráðið vegna framkvæmdar á 5. gr. félagsmálasáttmálans um félagafrelsi. Einnig er að finna stutta lýsingu á breytingum sem samþykkt hefur verið að gera á nokkrum ákvæðum sáttmálans. Loks er að finna í fylgiskjölum skýrslunnar athugasemdir sem sérfræðinganefnd Evrópuráðsins hefur gert við framkvæmd Íslands á skuldbindandi ákvæðum sáttmálans á árunum 1990 og 1991.
    Í lok nóvember 1993 fjallaði nefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna í fyrsta skipi um framkvæmd Íslands á samningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Þar sem félagsmálaráðuneytið átti þátt í að semja skýrslu um framkvæmd samningsins og sendi fulltrúa til að eiga skoðanaskipti við nefnd Sameinuðu þjóðanna eru helstu niðurstöðum nefndarinnar gerð skil í viðauka III.
    Með vísan til 19. gr. stofnskrár Alþjóðavinnumálastofnunarinnar er hér með lögð fyrir Alþingi skýrsla um 80. Alþjóðavinnumálaþingið og birt alþjóðasamþykkt nr. 174, um ráðstafanir til að koma í veg fyrir meiri háttar iðnaðarslys, sem þingið afgreiddi.


2. 80. ALÞJÓÐAVINNUMÁLAÞINGIÐ 1993

2.1. SKIPULAG OG ÞÁTTTAKA

    Áttugasta Alþjóðavinnumálaþingið var formlega sett miðvikudaginn 2. júní 1993. Samtals tóku þátt í þinginu um það bil 2.000 fulltrúar ríkisstjórna, atvinnurekanda og launafólks. Aðilarríkjum hefur fjölgað mikið frá því að Ráðstjórnarríkin leystust upp. Þau eru nú 164 og sendu fleiri en nokkru sinni áður fulltrúa til þingsins eða 155.
    Forseti þingsins var kjörinn félags- og vinnumálaráðherra Egyptalands, Assem Abdel Hak Saleh. Varaforsetar voru kjörnir úr röðum þeirra þriggja hópa sem eiga fulltrúa á þinginu. Kosnir voru ríkisstjórnarfulltrúi Hvíta-Rússlandi, George Badey, Ashraf W. Tabani, fulltrúi atvinnurekenda í Pakistan, og Manuel Bustos Huerta frá Síle en í sæti hans settist síðar Charles Gray, fulltrúi launafólks í Bandaríkjunum.
    Sendinefnd Íslands skipuðu eftirtaldir:
    Frá félagsmálaráðuneyti: Gylfi Kristinsson, deildarstjóri í félagsmálaráðuneytinu, og Eyjólfur Sæmundsson, forstjóri Vinnueftirlits ríkisins, sem var varamaður hans. Frá utanríkisráðuneyti: Kjartan Jóhannsson, sendiherra Íslands hjá alþjóðastofnunum í Genf. Varamenn voru: Lilja Ólafsdóttir sendiráðunautur og Stefán Jóhannesson sendiráðsritari. Á þingtímanum voru þau bæði starfsmenn fastanefndar Íslands í Genf. Fulltrúar atvinnurekenda: Hrafnhildur Stefánsdóttir, lögfræðingur VSÍ. Varamaður hennar var Jón H. Magnússon, lögfræðingur VSÍ. Fulltrúar launafólks: Benedikt Davíðsson, forseti Alþýðusambands Íslands. Varamaður hans var Bryndís Hlöðversdóttir, lögfræðingur ASÍ. Fulltrúar samtaka aðila vinnumarkaðarins skiptu með sér þátttöku í þinginu þannig að varamaður leysti aðalmann af hólmi þegar u.þ.b. helmingur þingtímans var liðinn.
    Á dagskrá þingsins voru eftirtalin málefni:
    Skýrsla forstjóra og stjórnarnefndar.
    Fjárhags- og framkvæmdaáætlun til næstu tveggja ára.
    Framkvæmd alþjóðasamþykkta og tillagna.
    Drög að alþjóðasamþykkt um varnir gegn meiri háttar iðnaðarslysum.
    Félagslegt öryggi þeirra sem vinna hlutastörf (fyrri umræða).
    Tæknisamvinna og þróunaraðstoð.
    Kynþáttaaðskilnaðarstefnan.
    Tillögur til þingsályktunar.
    Á 79. Alþjóðavinnumálaþinginu varð sú breyting að fulltrúar þeirra þriggja hópa, sem aðild eiga að þinginu, komu saman til óformlegra funda daginn fyrir formlega setningu Alþjóðavinnumálaþingsins. Á fundunum var gengið frá tilnefningum fulltrúa til setu í þingnefndum. Þessu fyrirkomulagi var haldið á 80. þinginu og þar með gátu nefndastörf hafist mun fyrr en á fyrri þingum. Samþykkt var stofnun eftirtalinna þingnefnda: fjárhagsnefndar, nefndar um framkvæmd alþjóðasamþykkta og tillagna, ályktunarnefndar, nefndar sem fjallaði um tækniaðstoð, nefndar sem hafði til umfjöllunar drög að alþjóðasamþykkt um varnir gegn meiri háttar iðnaðarslysum, nefndar um félagslegt öryggi þeirra sem vinna hlutastörf, þingskapanefndar og nefndar um framvindu þingsins. Fulltrúar Íslands tóku þátt í nefnd um framkvæmd alþjóðasamþykkta, fjárhagsnefnd, ályktunarnefnd, nefnd sem hafði til umfjöllunar drög að alþjóðasamþykkt um varnir gegn meiri háttar iðnaðarslysum og nefnd um félagslegt öryggi þeirra sem vinna hlutastörf.
    Sérstakur heiðursgestur forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar, Michel Hansenne, og Alþjóðavinnumálaþingsins var Carlos S. Menem, forseti Argentínu.

2.2. SKÝRSLA FORSTJÓRA

    Störf á Alþjóðavinnumálaþinginu fara fram á tveimur stöðum. Í þingnefndum og á allsherjarþinginu. Á allsherjarþinginu eru samankomnir allir atkvæðisbærir þingfulltrúar til að taka þátt í öllum meiri háttar ákvörðunum sem snerta starfsemi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Þar fara einnig fram umræður um skýrslu forstjóra og stjórnarnefndar. Að öllu jöfnu er skýrsla forstjóra í tveimur hlutum. Annar hlutinn er um starf alþjóðavinnumálaskrifstofunnar en hinn um afmarkað málefni sem snertir félags- og vinnumál. Yfirleitt snúast almennar umræður á allsherjarþinginu um þennan hluta skýrslu forstjóra. Á 80. Alþjóðavinnumálaþinginu var viðfangsefni forstjórans, Michel Hansenne, almannatryggingar og félagsleg vernd.
    Í skýrslu forstjórans er dregið fram mikilvægi almannatrygginga að því er varðar að tryggja fólki lágmarkstekjur til framfæris. Þetta sé sérstaklega mikilvægt í atvinnuleysi og veikindum eða vegna fötlunar eða aldurs. Í skýrslunni er vakin athygli á því að aðsteðjandi kreppa og skuldasöfnun margra ríkja á undanförnum árum hafi leitt til þess að ríkisstjórnir hafi freistast til að stöðva frekari þróun almannatryggingakerfisins og jafnvel draga úr félagslegri vernd sem það veitir þegnunum. Þetta skerðir lífskjör og getur stofnað í hættu þeirri öflugu þróun í átt til lýðræðis sem hefur átt sér stað á undanförnum árum. Forstjórinn leggur áherslu á samræmda stefnumótun í félags- og vinnumálum og að hún þurfi að taka mið af markmiðum sem sett eru í efnahagsstefnu og þróun í átt til lýðræðis. Bent er á að afrakstur atvinnulífsins og skattstofn ríkisins hafi afgerandi áhrif á tækifæri til menntunar og félagslega vernd. Þróun efnahagslífsins er nauðsynleg forsenda félagslegra umbóta en aðgerðir á öðrum sviðum geta haft mikið að segja, t.d. aðgerðir sveitarfélaga, samvinnufélaga, trúfélaga o.s.frv.
    Í skýrslunni er hvatt til umbóta í stjórnsýslu, t.d. að greint verði betur á milli verkefna ríkisstjórna og tyggingastofnana og að atvinnurekendum og hinum tryggðu verði gefið betra tækifæri til að hafa áhrif á ákvarðanatöku. Stefna í almannatryggingum eigi að taka mið af sameiginlegri ábyrgð einstaklinga, atvinnurekanda, fjölskyldunnar og ríkisins og fela í sér stuðning sem tryggi viðunandi lífsafkomu. Stefnan getur falist í þremur þáttum: kerfi sem tryggir lágmarksafkomu sem er fjármagnað af ríkinu með sköttum, kerfi sem byggi á skyldutryggingu með framlögum frá atvinnurekendum og hinum tryggðu sem veiti nánar tilgreindar bætur og í þriðja lagi valfrjálsu kerfi er feli í sér umframvernd og sé fjármagnað af framlögum frá einstaklingum.
    Samtals tóku 285 ræðumenn þátt í umræðum á allsherjarþingi Alþjóðavinnumálaþingsins. Af ræðumönnum voru 125 ráðherrar. Í ræðunum var tekið undir það með forstjóranum að mikilvægt sé að standa vörð um það velferðarkerfi sem byggt hefur verið upp á Vesturlöndum og stuðla að umbótum þess í þróunarríkjunum. Hinu sé ekki að leyna að efnahagskreppa og fátækt hafi sett strik í reikninginn. Aukinn hagvöxtur og minna atvinnuleysi sé forsenda frekari umbóta.
    Á síðustu dögum þingsins flutti forstjóri ILO, Michel Hansenne, ræðu þar sem hann dró saman helstu atriði sem fram koma í ræðum þingfulltrúa. Í ræðu sinni vakti forstjórinn athygli á því að lok 80. Alþjóðavinnumálaþingsins mörkuðu upphaf breytinga á skipulagi þingsins. Þingið hafi samþykkt breytingar á þingsköpum sem opni tækifæri til að gera það skilvirkara og styttra. Af þessu leiði sparnað bæði fyrir stofnunina og aðildarríkin.
    Forstjórinn gerði að umtalsefni athugasemdir og ábendingar sem komu fram í máli ræðumanna á allsherjarþinginu varðandi skýrslu hans um almannatryggingar og félagslega vernd. Hann vitnaði til orða Reich, vinnumálaráðherra Bandaríkjanna, sem varpaði fram þeirri spurningu hvort velja ætti á milli ójöfnuðar og atvinnusköpunar. Hansenne taldi að hér væri um að ræða hina sígildu togstreitu um það hvort hefði forgang, efnahagsumbætur eða félagsmál. Hann vísaði til þess að margir ræðumenn hefðu talað um tengslin á milli hagvaxtar og félagslegrar verndar og skoðanir væru skiptar. Það sé ljóst að að teknu tilliti til þjóðarframleiðslu séu áherslur ríkja mismunandi. Mikill munur geti verið á framlögum þjóða, sem hafa sömu þjóðartekjur, til félagsmála. Spurningin sé því oftar en ekki um forgangsröð frekar en efnahag.

2.3. UMRÆÐUR UM KJÖRBRÉF

    Í kjörbréfanefnd eiga einungis sæti þrír fulltrúar. Hún er þar með fámennasta nefnd þingsins. Á 80. Alþjóðavinnumálaþinginu áttu eftirtaldir sæti í nefndinni: John Ausman, ríkisstjórnarfulltrúi frá Kanada, formaður. Enn fremur sátu í nefndinni Funes de Rioja, fulltrúi atvinnurekenda í Argentínu, og Grey, fulltrúi launafólks í Bandaríkjum Norður-Ameríku.
    Nefndin fjallaði um kærur vegna sendinefndar Saír, fulltrúa launafólks í sendinefndum frá El Salvador, Grænhöfðaeyjum, Kóreu, Litáen, Mið-Afríkulýðveldinu, Níkaragva, Póllandi, Súdan, Tékklandi og Tógó. Kært var vegna ráðgjafa launafólks í sendinefnd Rúmeníu, enn fremur vegna fulltrúa atvinnurekenda í sendinefnd Alsír.
    Yfirleitt fjalla kærurnar um það að ekki hafi verið rétt staðið að vali fulltrúa í sendinefndirnar. Í stofnskránni er kveðið á um rétt helstu samtaka atvinnurekenda og launafólks til að senda fulltrúa á þingið. Stundum er ekki ljóst hvaða samtök geta gert tilkall til að eiga fulltrúa í sendinefndum á Alþjóðavinnumálaþinginu og verður það tilefni deilna.
    Nefndin var sammála um að taka öll kjörbréf gild. Þegar kjörbréfanefnd er sammála um að viðurkenna kjörbréf getur allsherjarþingið ekki breytt þeirri niðurstöðu.

2.4. FJÁRMÁL

    Í fjárhagsnefnd sitja einungis fulltrúar ríkisstjórna. Nefndin hélt tvo fundi 3. og 4. júní. Formaður var kjörinn Chotard frá Frakklandi og Shah M. Farid frá Bangladess. Fulltrúi Íslands var Gylfi Kristinsson deildarstjóri.
    Fyrir nefndinni lágu drög að fjárhags- og starfsáætlun fyrir árin 1994–95 auk nokkurra annarra málefna. Þeirra á meðal var tillaga frá stjórnarnefndinni um breytingar á reglugerð stofnunarinnar um fjármál, þ.e. að því er varðar afgreiðslu á ógreiddum árgjöldum. Venjuleg viðbrögð við drætti á greiðslu árgjalds er að hlutaðeigandi aðildarríki glatar atkvæðisrétti á Alþjóðavinnumálaþinginu. Breytingar stjórnarnefndarinnar fólust í að skerpa þessa reglu.
    Þingið samþykkti tillögu fjárhagsnefndar um að árgjald Króatíu verði 0,13% af heildarárgjöldum aðildarríkjanna, Slóveníu 0,09% og Bosníu-Herzegóvínu 0,04%. Árgjald Júgóslavíu minnkar sem þessu nemur. Þess skal getið að 70 aðildarríki greiða lágmarkshlutdeild sem er 0,01%. Bandaríkin greiða 25% en árgjald Íslands er 0,03%.
    Samkvæmt fjárhagsáætluninni, sem þingið samþykkti, verða heildarútgjöld Alþjóðavinnumálastofnunarinnar á framangreindu tveggja ára tímabili 466.510.000 Bandaríkjadalir eða 676.439.500 svissneskir frankar. Í þessu felst að árgjald Íslands vegna ársins 1994 er 101.466 svissneskir frankar. Frá þeirri upphæð dragast 462 frankar vegna skilvísra skila á árgjaldi ársins 1992. Árgjaldið verður því 101.004 svissneskir frankar.
    Enda þótt gagnrýni hafi komið fram á tillögu fjárhagsnefndar var hún samþykkt af allsherjarþinginu með 380 atkvæðum gegn 6. Alls sátu 26 fulltrúar hjá við atkvæðagreiðsluna.

2.5. FRAMKVÆMD SAMÞYKKTA OG TILLAGNA

    Kjarninn í starfi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar er setning alþjóðasamþykkta og tillagna á sviði félags- og vinnumála þar sem kveðið er á um lágmarkskröfur á þessu sviði. Rík áhersla er lögð á eftirlit með því að aðildarríkin fari eftir þeim samþykktum sem þau hafa fullgilt. Í höfuðatriðum eru það þrír aðilar sem gegna þessu eftirlitshlutverki, nefnd 20 sérfræðinga sem hlotið hafa alþjóðlega viðurkenningu fyrir framlag sitt til félags- og vinnumála, nefnd um félagafrelsi og nefnd á Alþjóðavinnumálaþinginu sem fjallar um framkvæmd alþjóðasamþykkta. Sú er fjölmennust nefnda Alþjóðavinnumálaþingsins. Á 80. Alþjóðavinnumálaþinginu sátu í nefndinni 212 fulltrúar með atkvæðisrétti: 109 fulltrúar ríkisstjórna, 22 fulltrúar atvinnurekenda og 81 fulltrúi launafólks. Auk þess sátu 115 áheyrnarfulltrúar fundi nefndarinnar. Þannig sátu oft á tíðum á fundunum rúmlega 320 fulltrúar.
    Formaður var kosinn Perez del Castillo, fulltrúi ríkisstjórnar Úrúgvæ.
    Varaformenn voru kosnir þeir sömu og undanfarin vinnumálaþing: Alfred Wisskirchen, fulltrúi atvinnurekenda í Þýskalandi, og Willy Peirens, fulltrúi launafólks í Belgíu. Af hálfu Íslands sátu í nefndinni Bryndís Hlöðversdóttir og Gylfi Kristinsson.

Almennar umræður.

    Umræður í nefndinni byggja á skýrslu sérfræðinganefndar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um framkvæmd alþjóðasamþykkta og tillagna. Umræðunum má skipt í þrennt. Nefndin byrjar á því að ræða um það sem kemur fram í almenna hluta skýrslunnar. Þar næst er skipst á skoðunum um niðurstöður af athugun sérfræðinganna á skýrslum aðildarríkjanna um framkvæmd á tiltekinni alþjóðasamþykkt sem ekki hefur verið fullgilt. Meginhluti nefndarstarfsins felst hins vegar í því að ræða framkvæmd einstakra aðildarríkja á fullgiltum samþykktum.
    Fjöldi þingfulltrúa tók til máls í almennum umræðum. Flestir gerðu að umtalsefni samskipti þingnefndar um framkvæmd alþjóðasamþykkta og sérfræðinganefndarinnar. Samskipti þessara tveggja nefnda, sem gegna lykilhlutverki í eftirlitskerfi ILO, hafa komið til umfjöllunar á síðustu þremur vinnumálaþingum. Það sem hratt umræðunni af stað var gagnrýni fulltrúa atvinnurekanda á túlkun sérfræðinganefndarinnar á alþjóðasamþykkt nr. 87, um félagafrelsi. Fulltrúinn var þeirrar skoðunar að sérfræðinganefndin beiti of rúmri lögskýringaraðferð þegar hún túlkar ákvæði samþykkarinnar, einkum að því er varðar vernd réttarins til að gera verkfall.
    Sérfræðinganefndin brást við þessum ummælum með yfirlýsingu þess efnis að svo fremi sem aðildarríki óski ekki eftir úrskurði Alþjóðadómstólsins í Haag á túlkun ILO-samþykkta, eins og heimilt er samkvæmt stofnskrá Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sé það túlkun hennar sem gildi. Ekki vildu allir viðurkenna þessa skoðun og töldu að taka ætti tillit til sjónarmiða sem koma fram í þingnefndinni. Einnig var vakin athygli á ákvæði í 2. mgr. 37. gr. stofnskrár ILO sem heimilar stofnun sérstaks gerðardóms er skeri úr ágreiningi um túlkun á samþykktum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Á síðasta þingi árið 1992 var samþykkt að fela alþjóðavinnumálaskrifstofunni í Genf að taka saman skýrslu um hugsanlega beitingu ákvæða í 2. mgr. 37. gr. stofnskrárinnar. Skýrslan var lögð fyrir þingnefndina til athugunar.
    Þar sem hér er um áhugavert málefni að ræða sem kemur til með að setja svip á almennar umræður í þingnefnd um framkvæmd alþjóðasamþykkta er rétt að gera því nokkur skil.
    Skýrsla aðþjóðavinnumálaskrifstofunnar er í þremur hlutum. Í fyrsta hlutanum er rifjað upp markmiðið með ákvæðum 2. mgr. 37. gr. stofnskrárinnar. Í öðrum hluta er fjallað um það hvernig fengist hefur verið við túlkun á alþjóðasamþykktum ILO fram til þessa. Þriðji hlutinn er um gagnsemi þess að skipa gerðardóminn sem gert er ráð fyrir í 2. mgr. 37. gr. og hvort sú leið bæti núverandi eftirlitskerfi.
    Ákvæði 2. mgr. 37. gr. er svohljóðandi:
    „Þrátt fyrir ákvæði 1. tölul. þessarar greinar getur stjórnarnefndin samið og lagt fyrir allsherjarþingið til samþykkis reglur um stofnun dómstóls sem ætlað er að veita skjóta úrlausn á sérhverjum ágreiningi og vafaatriði sem varða skýringu á alþjóðasamþykkt og stjórnarnefndin vísar til hans eða til hans er vísað samkvæmt ákvæðum alþjóðasamþykktar. Allir dómar og álitsgerðir Alþjóðadómstólsins skulu vera bindandi fyrir þann dómstól sem stofnaður er samkvæmt þessum tölulið. Sérhver úrskurður, sem slíkur dómstóll kveður upp, skal sendur aðildarríkjum stofnunarinnar, og þær athugasemdir, sem þau kunna að hafa við hann að gera, skulu lagðar fyrir allsherjarþingið.“
    Þetta ákvæði var tekið upp í stofnskrá ILO árið 1946 með það að markmiði að veita stjórnarnefndinni heimild til að setja á laggirnar gerðardóm sem gæti með skjótum hætti skorið úr öllum ágreiningsmálum varðandi túlkun á samþykktum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Í greinargerð með breytingartillögu á stofnskránni var tekið fram að Alþjóðadómstólinn í Haag hafi einn vald til að skera úr ágreiningi varðandi stofnskrá ILO. Þessu væri ekki þannig varið með samþykktirnar sem fjalla um afmörkuð tæknileg atriði.
    Þegar ákveðið var að endurskoða stofnskrána og setja inn ákvæði um gerðardóm árið 1945 höfðu vandamál í sambandi við túlkun á samþykktum ILO verði mjög fá. Raunar hafði einungis einu máli af þessu tagi verið vísað til Alþjóðadómstólsins í Haag, þ.e. árið 1932. Það fjallaði um það hvort samþykkt nr. 4, um næturvinnu kvenna frá árinu 1919, tæki til kvenna sem skipuðu stöðu verkstjóra og annarra yfirmanna í fyrirtækjum, sem voru innan gildissviðs samþykktarinnar, og væru ekki ráðnar til erfiðisvinnu. Hálfri öld síðar hefur hvorki reynt á ákvæðið um áfrýjun til Alþjóðadómstólsins í Genf né ákvæði í 2. mgr. 37. gr. stofnskrárinnar um sérstakan gerðardóm.
    Í skýrslu alþjóðavinnumálaskrifstofunnar er þetta þakkað því að með árunum hafi þróast kerfi sem hafi reynst þess megnugt að leysa úr aðsteðjandi vandamálum án þess að fara flóknar leiðir til að fá fram álit Alþjóðadómstólsins. Þetta kerfi byggist á þremur stofnunum: alþjóðavinnumálaskrifstofunni, sérfræðinganefndinni og Alþjóðavinnumálaþinginu, fyrst og fremst á þingnefndinni um framkvæmd alþjóðasamþykkta. Í þessu sambandi er vitnað til greinargerðar alþjóðavinnumálaskrifstofunnar frá árinu 1921 þar sem fjallað er um starf skrifstofunnar á þessu sviði. Þar segir m.a. að skrifstofan hafi svarað fyrirspurnum frá aðildarríkjunum um það hvort túlkun þeirra sé í samræmi við túlkun stofnunarinnar. Skrifstofan hafi talið það vera hlutverk sitt að sinna slíkum fyrirspurnum og byggt svör sín á tiltækum skýringargögnum. Svör alþjóðavinnumálaskrifstofunnar, sem síðan hafa verið birt í fréttabréfi ILO, hafi aldrei orðið að ágreiningsefni. Þessi háttur hafi verið á hafður án athugasemda þar til árið 1982. Á 220. fundi stjórnarnefndar ILO hafi fulltrúi Ítalíu vakið máls á því hvort hér væri rétt að málum staðið og einkum tengslum slíkra túlkana og starfs sérfræðinganefndarinnar. Þetta málefni kom aftur til umfjöllunar á 224. fundi stjórnarnefndarinnar og í framhaldi af henni var hætt að beita slíkum túlkunum.
    Þrátt fyrir ítarlegar umræður um eftirlitskerfi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar komst þingnefndin ekki að neinni ákveðinni niðurstöðu, t.d. þeirri að stofna gerðardóm. Talsmaður launafólks í Noregi, Nandrup Dahl, hélt ræðu í nafni heildarsamtaka launafólks í Danmörku, Finnlandi, á Íslandi og í Noregi og Svíþjóð. Í ræðunni leggur hann að jöfnu ákvæðið í 2. mgr. 37. gr. stofnskrárinnar og hliðstæð ákvæði í öðrum milliríkjasamningum. Aðrir talsmenn, t.d. ríkisstjórnarfulltrúar Ástralíu, Bandaríkjanna og Sviss, höfðu efasemdir um nauðsyn þess að setja upp gerðardóm. Nefndin var hins vegar sammála um að þetta málefni þurfi nánari athugun og frekari umræður.
    Annað atriði, sem kom fram í ræðum margra fulltrúa, snerti aukinn vanda ríkisstjórna við að senda skýrslur um framkvæmd alþjóðasamþykkta innan tilskilins tíma sem er 15. október ár hvert. Þetta vandamál hefur vaxið í réttu hlutfalli við fjölgun alþjóðasamþykkta og fleiri fullgildingar. Þess má geta að fulltrúi Íslands, sem hélt ræðu fyrir hönd Norðurlandanna á 79. Alþjóðavinnumálaþinginu, vakti máls á þessu. Í ræðu talsmanns forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar kom fram að stjórnarnefndinni verður falið að kanna möguleika þess að breyta tilhöguninni á skýrslugjöfinni. Markmiðið er að létta vinnu ríkisstjórna aðildarríkjanna við skýrslugerðina og bæta tækifæri eftirlitsstofnana ILO til að fylgjast með framkvæmdinni á alþjóðasamþykktunum. Því var einnig lofað að skýrsla sérfræðinganefndar stofnunarinnar, sem fylgist með framkvæmd samþykktanna, verði send aðildarríkjunum með betri fyrirvara fyrir Alþjóðavinnumálaþingið en a.m.k. síðustu árin.
    Flestar ræðurnar, sem haldnar voru við almennu umræðurnar, fjölluðu um eftirtalin málefni: Grundvallarreglur sem ber að fylgja við ákvörðun um samningu nýrra samþykkta, að nýjar samþykktir taki mið af aðstæðum alls staðar í heiminum og framkvæmd alþjóðasamþykkta.
    Þingnefndin fjallaði um sérstaka skýrslu sem sérfræðinganefndin tók saman um framkvæmd alþjóðasamþykktar nr. 156, um starfsmenn með fjölskylduábyrgð. Fulltrúi íslensks launafólks á þinginu, Bryndís Hlöðversdóttir, tók þátt í umræðum um skýrsluna. Í ræðu hennar kom m.a. fram hvatning til íslenskra stjórnvalda um að fullgilda samþykktina.

Umfjöllun um framkvæmd einstakra aðildarríkja á alþjóðasamþykktum.

    Að venju var mestum hluta starfstíma nefndarinnar varið til að fjalla um framkvæmd aðildarríkjanna á alþjóðasamþykktum, um athugasemdir sem sérfræðinganefndin gerir við framkvæmd aðildarríkjanna á ákvæðum í stofnskrá Alþjóðavinnumálastofnunarinnar eða í samþykktum sem hafa verið afgreiddar af Alþjóðavinnumálaþinginu. Athugasemdirnar eru í árlegri skýrslu sérfræðinganefndarinnar til Alþjóðavinnumálaþingsins sem lengist með hverju ári og var að þessu sinni 531 blaðsíða. Þar sem athugasemdirnar eru mun fleiri en nokkur kostur er á að taka til umfjöllunar á þinginu vinnur þingnefndin eftir skrá yfir mál sem fulltrúar aðila vinnumarkaðarins koma sér saman um að tekin verði til athugunar í nefndinni. Venjulega tekst nefndinni að fjalla um 50 til 60 mál á þingtímanum. Vel er fylgst með því að nýjar alþjóðasamþykktir séu kynntar löggjafarsamkomum aðildarríkjanna innan tilskilins frests sem er eitt ár og í undantekningartilvikum 18 mánuðir. Aðildarríkin eru krafin skýringa á því ef um óhóflegan drátt er að ræða á samningu skýrslna um framkvæmd fullgiltra alþjóðasamþykkta. Sérstök áhersla er lögð á skýrslur um framkvæmd alþjóðasamþykkta nr. 87, um félagafrelsi, og nr. 98, um samningafrelsi, en þær eru taldar meðal grundvallarsamþykkta ILO.
    Stærsti hluti skýrslu sérfræðinganefndarinnar fjallar um neikvæða hluti, þ.e. vanrækslu aðildarríkjanna á að uppfylla skuldbindingar samkvæmt stofnskrá og alþjóðasamþykktum. Þess er þó einnig gætt að geta þess sem vel gert þótt það taki minna rými. Í skýrslunni hefur verið venja að birta skrá yfir aðildarríki sem hafa sýnt í verki að þau hafa tekið tillit til ábendinga sérfræðinganna. Að þessu sinni voru á skránni 42 aðildarríki auk tveggja sjálfstjórnarsvæða. Af Norðurlöndunum hlutu Danmörk og Svíþjóð þann heiður að taka taka þar sæti.

Sérstakar ábendingar.

    Ýmsum viðurlögum er beitt í þingnefndinni til að freista þess að fá aðildarríkin til að sjá að sér og bæta framkvæmd á ákvæðum alþjóðasamþykkta sem þau hafa brotið. Alþjóðavinnumálastofnunin getur ekki þvingað aðildarríkin með valdi til að fara eftir ábendingum sínum. Þess í stað er höfðað til heiðurs hlutaðeigandi og skapað viðhorf meðal annarra aðildarríkja til verknaðarins. Hörðustu viðurlögin felast í því að aðildarríkis er getið í svonefndum sérstaka hluta skýrslu nefndar um framkvæmd alþjóðasamþykkta til allsherjarþings vinnumálaþingsins. Á þinginu 1992 hlaut Súdan þennan vafasama heiður og aftur á 80. Alþjóðavinnumálaþinginu 1993. Það var vegna meintra brota á alþjóðasamþykkt nr. 29, um nauðungarvinnu. Svo virðist sem ríkisstjórn Súdan láti sig litlu skipta álit samfélags þjóðanna á framkvæmd alþjóðasamþykkta sem snerta grundvallarmannréttindi.
    Ríkisstjórn Maynmar (Burma) var skipað í flokk með Súdan vegna brota á alþjóðasamþykkt nr. 87, um félagafrelsi. Í umsögn þingnefndarinnar er ríkisstjórnin hvött til að grípa til nauðsynlegra aðgerða til að tryggja framkvæmd samþykktarinnar.

Önnur kærumál.

    Málefni ákveðinna ríkja koma árlega til umfjöllunar í þingnefnd Alþjóðavinnumálaþingsins um framkvæmd alþjóðasamþykkta. Þau eiga það sameiginlegt að virðing stjórnvalda fyrir lýðræði og mannréttindum er vægast sagt mjög takmörkuð. Yfirleitt eru þessi ríki utan þess menningarsvæðis sem Ísland tilheyrir. Það vekur því alltaf nokkra forvitni þegar málefni vestrænna ríkja koma til umræðu í nefndinni. Undanfarin ár hefur áhuginn einkum beinst að samskiptum stjórnvalda í Stóra-Bretlandi við starfsmenn í fjarskiptamiðstöðinni Cheltenham á Englandi. Í framhaldi af eindregnum tilmælum Alþjóðavinnumálaþingsins hafa aðilar þeirrar deilu ræðst við og svo virðist sem niðurstaða sé í vændum. Ekki þótti því ástæða til að setja það að þessu sinni á dagskrá þingnefndarinnar. Það var þess vegna annað kærumál sem dró að sér athygli. Um var að ræða kæru bandalags starfsmanna ríkis og bæja í Svíþjóð.
    Í kærunni til Alþjóðavinnumálastofnunarinnar er því haldið fram að sænska ríkisstjórnin hafi brotið ákvæði alþjóðasamþykktar nr. 98, um samningafrelsi, þegar lagt var bann við samningum um fulla greiðslu dagpeninga í veikindaleyfi. Af hálfu ríkisstjórnarinnar kom fram að hún verði að draga úr kostnaði og sjá til þess að þegnarnir njóti hliðstæðrar verndar almannatryggingakerfisins að þessu leyti.

Athugasemdir við framkvæmd Íslands á fullgiltum alþjóðasamþykktum.

    Í skýrslu sérfræðinganefndar til 80. Alþjóðavinnumálaþingsins er ekki að þessu sinni að finna athugasemdir við framkvæmd Íslands á fullgiltum alþjóðasamþykktum. Þess ber þó að geta að ekki eru allar athugasemdir, sem sérfræðinganefndin gerir, birtar í skýrslunni. Í mörgum tilvikum eru þær sendar beint hlutaðeigandi ríkisstjórn í tengslum við ósk um skýrslur um framkvæmd alþjóðasamþykkta. Í slíku bréfi, sem barst félagsmálaráðuneytinu 8. júní 1993, koma fram athugasemdir við framkvæmd eftirfarandi alþjóðasamþykkta:

Alþjóðasamþykkt nr. 98, um réttinn til að semja sameiginlega.

    Efnislega segir í athugasemdum sérfræðinganefndarinnar við framkvæmd Íslands á alþjóðasamþykkt nr. 98, um réttinn til að semja sameiginlega, að nefndin veiti athygli niðurstöðu nefndar ILO um félagafrelsi varðandi kærumál nr. 1563 (279. skýrsla, 344.–380. mgr. — nóvember 1991, og 284. skýrsla, 22. mgr. — nóvember 1992) varðandi lög um afnám umsaminnar launahækkunar til Bandalags háskólamenntaðra starfsmanna ríkisins (BHMR). Nefndin kveðst enn fremur veita athygli athugasemdum frá BHMR, dags. 26. nóvember og 9. desember 1992, dómi Hæstaréttar í máli nr. 129/1991 og bréfi ríkisstjórnarinnar (félagsmálaráðuneytis), dags. 27. febrúar 1993.
    Fram kemur að nefndin tekur eftir að BHMR telji enn:
    1. að takmarkanir sem felast í bráðabirgðalögum nr. 89/1990 hafi verið víðtækari og hafi mun lengri áhrif en gefið er til kynna í kærumáli 1563 og feli jafnvel í sér afnám margra ákvæða sem samið hafi verið um í fyrri kjarasamningi,
    2. að ríkisstjórnin hafi aftur komið í veg fyrir að samningaviðræðum lyki með gerð nýs kjarasamnings með því að setja skilyrði,
    3. að fjögur ágreiningsmál á milli BHMR og fjármálaráðuneytisins hafi farið fyrir Félagsdóm sem bendi til að ekki fylgi hugur máli af hálfu ríkisstjórnarinnar.
    Sérfræðinganefndin kveðst einnig veita athygli dómi Hæstaréttar Íslands í máli 129/1992 sem tók til umfjöllunar hvort bráðabirgðalögin brytu í bága við stjórnarskrána. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að bráðabirgðalögin væru að ýmsu leyti ekki í samræmi við stjórnarskrána, virtu meðal annars ekki grundvallarreglu hennar um jafnræði. Dómurinn komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að lögin væru í sjálfu sér ekki brot á stjórnarskránni.
    Fram kemur að sérfræðinganefndin hefur fjallað um bréf ríkisstjórnarinnar frá 17. febrúar 1993. Í því kemur fram að nokkur aðildarfélög BHMR hafi undirritað kjarasamning fyrir tímabilið 1. maí 1992 til 28. febrúar 1993 og að þrjú aðildarfélög hafi undirritað samninginn með fyrirvara. Sérfræðinganefndin kveðst, eins og nefnd um félagafrelsi, taka eftir að níu lagasetningar í kjaradeilum á 10 árum sýni að það ríki erfiðleikar í samskiptum aðila á vinnumarkaði. Nefndin kveðst einnig telja að hlutaðeigandi aðilar verði að semja í góðri trú með það að markmiði að ná samningum. Þess vegna fari nefndin þess á leit við ríkisstjórnina að hún gefi í næstu skýrslu upplýsingar um aðgerðir sem gripið hefur verið til í því skyni að tryggja að samningar um kaup og kjör geti farið fram án afskipta ríkisvaldsins.

Alþjóðasamþykkt nr. 100, um jöfn laun karla og kvenna fyrir jafnverðmæt störf.

    Í framangreindu bréfi alþjóðavinnumálaskrifstofunnar frá 8. júní 1993 er fjallað um athugasemdir sérfræðinganefndarinnar við framkvæmd Íslands á alþjóðasamþykkt nr. 100, um jöfn laun karla og kvenna fyrir jafnverðmæt störf. Þessar athugasemdir birtust í skýrslu nefndarinnar til 79. Alþjóðavinnumálaþingsins og er gerð grein fyrir þeim í skýrslu félagsmálaráðherra til Alþingis um þingið sem lögð var fram í mars 1993.

2.6. RÁÐSTAFANIR TIL AÐ KOMA Í VEG FYRIR
MEIRI HÁTTAR IÐNAÐARSLYS

    Í skýrslu félagsmálaráðherra til Alþingis um 79. Alþjóðavinnumálaþingið 1992 var gerð grein fyrir fyrri umræðu um ráðstafanir til að hindra meiri háttar iðnaðarslys. Þess var getið að stjórnarnefnd ILO hafi ákveðið að taka þetta málefni á dagskrá Alþjóðavinnumálaþingsins í framhaldi af heimsókn og ræðu Rajiv Gandhi, fyrrum forsætisráðherra Indlands, á 71. þinginu árið 1985. Í ræðu sinni gerði forsætisráðherrann að umtalsefni iðnaðarslysið í Bhopal þar sem fjöldi manns lést og þúsundir biðu varanlegan skaða. Gandhi hvatti til þess að Alþjóðavinnumálastofnunin setti reglur sem drægju úr hættunni á að atburðirnir í Bhopal endurtækju sig. Stjórnarnefndin varð við þessari áskorun og setti þetta málefni á dagskrá 79. vinnumálaþingsins sem lauk fyrri umræðu um drög að alþjóðasamþykkt og tillögu um ráðstafanir til að koma í veg fyrir meiri háttar iðnaðarslys.
    Á 80. þinginu var málefnið til síðari umræðu í sérstakri þingnefnd. Í starfi nefndarinnar tóku þátt 136 fulltrúar, þar af voru 55 fulltrúar ríkisstjórna, 40 fulltrúar atvinnurekenda og 41 fulltrúi launafólks.
    Nefndin kaus á fyrsta fundi sínum sama formann og við fyrri umræðu fulltrúa ríkisstjórnar Indónesíu, Payaman J. Simandjuntak. Varaformenn voru kosnir P. Campbell, fulltrúi atvinnurekanda frá Stóra-Bretlandi, og S. Mayman, fulltrúi launafólks frá Ástralíu. Fulltrúi ríkisstjórnar Bandaríkjanna, T. Seymour, var kosinn ritari og sem slíkur flutti hann allsherjarþinginu skýrslu nefndarinnar. Af hálfu Íslands tóku Eyjólfur Sæmundsson, forstjóri Vinnueftirlits ríkisins, þátt í starfi nefndarinnar.
    Í samræmi við 39. grein í þingsköpum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar hafði alþjóðavinnumálaskrifstofan í Genf sent aðildarríkjunum með nokkrum fyrirvara drög að alþjóðasamþykkt og tillögu sem voru byggð á niðurstöðum 79. þingsins. Við upphaf nefndarstarfsins vakti fulltrúi forstjóra skrifstofunnar athygli á nokkrum breytingum sem höfðu verið gerðar á drögunum frá síðasta vinnumálaþingi. Þetta gerði textana skýrari án þess þó að fela í sér efnisbreytingu. Breytingarnar tóku m.a. til hugtaksins „verulega hættulegur staður“ og „hættumörk“. Auk þess var gildissviði 4. gr. breytt þannig að stjórnvöld skuli ekki einungis hafa samráð við helst samtök aðila vinnumarkaðarins við framkvæmd samþykktarinnar heldur einnig aðra hlutaðeigandi aðila. Undir þetta gætu fallið t.d. umhverfisverndarsamtök. Að öðru leyti var um að ræða smærri lagfæringar sem höfðu að markmiði að gera rökréttari tilvísanir á milli greina. Ein breyting var gerð á drögum að tillögu um varnir gegn meiri háttar iðnaðarslysum. Hún felst í því að bætt er inn tilvísun til leiðbeiningarreglna eins og þær voru birtar árið 1991 án þess að geta hugsanlegrar seinni útgáfu á þeim. Þetta er nauðsynlegt til að komast fram hjá mögulegum vandamálum við endurskoðun á leiðbeiningarreglunum. Að öðrum kosti gæti slík endurskoðun leitt til breytinga á tillögunni án þess að fylgt hafi verið venjulegum reglum ILO.
    Í framsöguræðu fulltrúa atvinnurekenda kom fram von um að nefndin starfaði ötullega að verkefni sínu þannig að unnt yrði að afgreiða nægilega sveigjanlega alþjóðasamþykkt. Samþykktin yrði að skapa tækifæri til að nálgast varnir gegn meiri háttar iðnaðarslysum á mismunandi vegu sem tækju mið af ólíkum aðstæðum aðildarríkjanna. Það væri mikilvægt að forðast að binda sig við eina lausn. Hann benti enn fremur á að eftir fyrri umræðu væri umræðum ekki lokið um nokkur ákvæði sem atvinnurekendur væru andvígir. Við þessa síðari umræðu yrði að finna lausn sem aðilar gætu sætt sig við. Fulltrúi atvinnurekanda benti í þessu sambandi á orðalagið „næstum stórslys“ og „verulega hættulegur staður“. Að því er varðaði tillöguna vakti hann athygli á tengslunum við leiðbeiningarreglurnar sem áður er getið. Auk þess var hann þeirrar skoðunar að nánar þyrfti að ræða um líffræðilega áhrifavalda.
    Talsmaður launafólks lýsti ánægju sinni með drögin að alþjóðasamþykkt og tillögu en varaði við því að í þeim fælust ákveðnar takmarkanir þegar um væri að ræða mat á hættu í tengslum við meiri háttar slys. Hún nefndi dæmi sem samtök launafólks teldu lýsa aðstæðum sem ætti að hafa til hliðsjónar við samningu samþykktarinnar. Fyrsta dæmið snerti „næstum stórslys“ við kjarnorkuver og annað nýlegan bruna leikfangaverksmiðju. Talsmaðurinn taldi að samgöngur ættu að falla innan gildissviðs samþykktarinnar, annað væri í andstöðu við aðfararorð hennar þar sem væri lögð áhersla á víðtækar aðgerðir til að koma í veg fyrir meiri háttar iðnaðarslys. Hann gerði að umtalsefni, eins og fulltrúi atvinnurekenda, líffræðilega áhrifavalda og taldi það mjög mikilvægt málefni sem krefðist nánari athugunar. Fulltrúinn fjallaði um breytingar sem skrifstofan hafði gert á drögunum sem lágu fyrir nefndinni og var þeirrar skoðunar að þær væru meira en einungis smávægilegar leiðréttingar eða spurning um samræmingu.
    Fulltrúar ríkisstjórna, sem tóku til máls við almennar umræður í nefndinni, voru þegar á heildina er litið ánægðir með drögin að samþykktinni og tillögunni. Lögð var áhersla á mikilvægi þess að aðildarríkin notuðu samræmdar aðgerðir þegar um væri að ræða varnir gegn meiri háttar iðnaðarslysum. En jafnframt væri nauðsynlegur ákveðinn sveigjanleiki sem gerði sem flestum aðildarríkjum kleift að fullgilda samþykktina. Ýmsir bentu á að gæta yrði samræmis við aðra hliðstæða alþjóðasamninga. Í því sambandi var sérstaklega nefndur samningurinn um iðnaðarslys sem hefðu áhrif yfir landamæri sem Efnahagsstofnun Sameinuðu þjóðanna fyrir Evrópu hefur nýlega afgreitt.
    Samvinna tókst á milli hóps iðnaðarríkja annarra en aðildarríkja Evrópubandalagsins. Í þeim hópi voru fulltrúar ríkisstjórna Ástralíu, Bandaríkjanna, EFTA-ríkjanna, Kanada, Nýja-Sjálands og Ungverjalands. Fulltrúar Evrópubandalagsins höfðu náið samráð sín á milli en ljóst var að meðal þeirra voru skiptar skoðanir.
    Í alþjóðasamþykkt um varnir gegn meiri háttar iðnaðarslysum eru sex kaflar. Í fyrsta kaflanum eru ákvæði um gildissvið og þar er einnig að finna orðskýringar. Í 1. gr. segir að markmið samþykktarinnar sé að koma í veg fyrir stórslys af völdum hættulegra efna. Í henni er einnig að finna undantekningar. Rétt er að vekja á því athygli að flutningar eru undanskildir gildissviði samþykktarinnar. Þetta atriði varð tilefni til umfangsmikilla umræðna bæði við fyrri og seinni umræðu.

Helstu ákvæði samþykktarinnar.

    Í samþykktinni er sú skylda lögð á herðar atvinnurekanda að skilgreina þætti í starfsemi hlutaðeigandi fyrirtækis sem gæti valdið stórslysi og bera ábyrgð á tilkynningu um það til stjórnvalda. Atvinnurekandinn skal á sannanlegan hátt koma upp öryggiskerfi með mati á hugsanlegum hættum, tækniupplýsingum, skipulegu viðhaldi og athugunum. Öryggiskerfið skal taka til allrar starfseminnar og fela í sér fræðslu starfsmanna, kaup á öryggistækjum og hlífðarbúnaði, yfirlit yfir stjórnunarsvið starfsmanna og mat á vinnutíma og mönnun fyrirtækisins. Það er lagt í vald atvinnurekanda að gera áætlanir um aðgerðir í neyðartilvikum, reglulega æfingu þeirra og endurskoðun. Stjórnvöldum skulu veittar upplýsingar um þessi atriði. Áætlanir um neyðaraðgerðir skulu samdar í samráði við starfsmenn og trúnaðarmenn þeirra. Gefa skal fulltrúum stjórnvalda tækifæri til að tjá sig. Öryggiskerfið og neyðaraðgerðirnar mynda grundvöll öryggisskýrslu sem reglulega skal endurskoða. Hún skal vera til reiðu fyrir stjórnvöld ef þau óska eftir að kynna sér efni hennar. Þar sem slys á sér stað skal atvinnurekandi svo fjótt sem auðið er tilkynna það hlutaðeigandi stjórnvöldum. Eftir tiltekinn frest skal atvinnurekandinn einnig taka saman ítarlega skýrslu. Í henni skal meðal annars upplýsa um ástæður slyssins og hvað hafi verið gert til að draga úr áhrifum þess. Stjórnvöld skulu einnig eiga aðgang að skýrslu um það þegar hættuástand skapast án þess að slys hafi hlotist af.
    Gefa skal starfsmönnum og trúnaðarmönnum þeirra tækifæri til að tjá sig við skipulagningu á öryggiskerfi, samningu öryggisskýrslu, gerð neyðaráætlana og samningu á slysaskýrslum. Þetta á að vera þeim og trúnaðarmönnum þeirra tiltækt. Áhersla er á það lögð að þeir njóti fræðslu og þjálfunar sem hafi að markmiði að koma í veg fyrir og bregðast við stórslysum. Starfsmenn hafa rétt til að grípa til aðgerða sem að þeirra mati miða að því að koma í veg fyrir meiri háttar slys án þess að atvinnurekandi geti notað slíkt gegn þeim. Starfsmenn hafa enn fremur rétt til að upplýsa stjórnvöld um hugsanlegar hættur. Starfmönnum er skylt að fylgja þeim leiðbeiningarreglum sem settar eru í fyrirbyggjandi áætlunum og áætlunum um viðbrögð í neyðartilvikum.
    Á grundvelli upplýsinga frá atvinnurekendum skulu stjórnvöld leitast við að tiltækar séu áætlanir um almannavarnir sem veiti almenningi og umhverfi og hlutaðeigandi atvinnustarfsemi vernd. Stjórnvöld skulu enn fremur sjá til þess að gefið sé merki til að aðvara almenning um að hættuástand hafi skapast. Þau skulu einnig veita almenningi upplýsingar um það hvernig skuli bregðast við slíku ástandi. Stjórnvöld skulu loks móta heildarstefnu og sjá til þess að henni sé hrundið í framkvæmd um það hvernig komið sé í veg fyrir og brugðist við meiri háttar iðnaðarslysi í næsta umhverfi starfsemi sem getur skapað hættuástand. Fram kemur að stjórnvöld skuli hafa starfsmenn sem eru hæfir til að rannsaka og meta fyrirtæki og fylgja eftir kröfum sem settar eru í samþykktinni.
    Í 22. gr. er að finna ákvæði um ábyrgð útflutningslands. Það skal hafa tiltækar fyrir innflutningslönd upplýsingar um bann við notkun efna, tækni eða framleiðsluferli sem getur valdið slysum. Upplýst skal um ástæður fyrir banninu. Með þessu ákvæði vilja fátækari ríki freista þess að koma í veg fyrir að hin betur stæðari flytji út til hinna fyrrnefndu framleiðslu sem hin síðarnefndu vilja losa sig við vegna annarrar hættu á meiri háttar iðnaðarslysum.
    Fulltrúi launafólks á Indlandi fjallaði um bætur til þeirra sem bíða skaða af meiri háttar iðnaðarslysum. Hann vakti athygli á því að með slysinu í Bhopal hafi margir starfsmenn misst heimili og aðrar eignir og það sem er verðmætast, þ.e. heilsuna. Fulltrúinn upplýsti að það hefði tekið mjög langan tíma fyrir þetta fólk að fá bætur og raunar er hluti þeirra enn ógreiddur. Hann lagði því til að í samþykktinni yrði grein sem fjallaði um þetta atriði. Bæði atvinnurekendur og margir fulltrúar ríkisstjórna voru því andvígir að grein um þetta efni yrði sett í samþykktina. Þeir töldu að þetta atriði félli utan gildissviðs samþykktar sem fyrst og fremst fjallar um aðgerðir til að koma í veg fyrir meiri háttar iðnaðarslys. Þar að auki var bent á ýmis lögfræðileg álitamál sem tengjast bótakröfum sem nauðsynlegt væri að kanna nánar. Eftir langar umræður féllst meiri hluti fulltrúa ríkisstjórna á það með talsmönnum launafólks að setja ákvæði um skaðabætur í tillöguna sem hvetur aðildarríkin til að stofna kerfi sem skal tryggja að greiðsla skaðabóta berist hlutaðeigandi sem fyrst í hendur.
    Umræðurnar í nefndinni við þessa aðra umræðu fylgdu þekktu mynstri. Það voru fyrst og fremst skiptar skoðanir á milli fulltrúa atvinnurekenda og fulltrúa launafólks. Engin ný ágreiningsmál komu upp utan spurningin um greiðslu skaðabóta. Allir fulltrúar virtust vera sammála um nauðsyn þess að vinnumálaþingið afgreiddi alþjóðasamþykkt og tillögu um þetta málefni. Vilji til að leita lausna á ágreiningsmálum setti svip sinn á nefndarstarfið. Enda varð niðurstaðan sú að samþykktin og tillagan hlutu góðan stuðning á allsherjarþinginu. Samþykktin hlaut stuðning 355 fulltrúa, fimm voru á móti og 23 sátu hjá. Tillagan var samþykkt með 351 atkvæði, fjórir voru á móti og 19 sátu hjá. Margir fulltrúar ríkisstjórna kváðust ætla að mæla með því að samþykktin verði fullgilt sem fyrst.
    Samþykkin í heild er birt sem fylgiskjal I.
    Í tillögunni, sem birt er sem fylgiskjal II, er að finna nánari útfærslu á ákvæðum samþykktarinnar.
    Nefna má að umhverfisráðherra hefur skipað nefnd til að semja frumvarp til laga eða reglur um þetta efni í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Félagsmálaráðuneytið á fulltrúa í nefndinni.

2.7. RÉTTINDI ÞEIRRA SEM VINNA HLUTASTARF

    Réttindi þeirra sem vinna hlutastarf var til fyrri umræðu á þinginu og um þetta málefni var fjallað í þingnefnd. Í henni áttu sæti 141 fulltrúi, þar af voru 54 fulltrúar ríkisstjórna, 43 fulltrúar atvinnurekenda og 44 fulltrúar launafólks. Formaður var kjörinn fulltrúi ríkisstjórnar Hollands, Max Rod. Hann hefur gegnt öðrum trúnaðarstörfum á Alþjóðavinnumálaþinginu. Rod hefur m.a. verið tvívegis kjörinn formaður nefndar um framkvæmd alþjóðasamþykkta og var til þess tekið hversu vel hann gengdi því starfi. Varaformenn voru kjörnir B. Noakes, fulltrúi atvinnurekenda frá Ástralíu, og Van de Burg, fulltrúi launafólks í Hollandi. Fulltrúi Kýpur, L. Samuel, var kjörinn ritari. Hrafnhildur Stefánsdóttir og Jón H. Magnússon tóku þátt í störfum nefndarinnar.
    Til grundvallar umræðum í nefndinni lágu tvær skýrslur sem alþjóðavinnumálaskrifstofan hafði tekið saman um lög, reglur og ákvæði kjarasamninga í aðildarríkjunum um réttindi og skyldur fólks í hlutastörfum. Í máli fulltrúa skrifstofunnar kom fram að milljónir manna á vinnumarkaði í iðnríkjunum vinna hlutastarf, þ.e. vinna styttri vikulegan vinnutíma en 40 stundir. Þetta form er ekki eins útbreitt í þróunarríkjunum. Þrátt fyrir það virðast þau hafa áhuga á þessu málefni ef dæma má af undirtektum sem hugmyndin fékk í spurningaskrám vinnumálaskrifstofunnar í Genf. Niðurstaðan var að 90% voru fylgjandi því að Alþjóðavinnumálaþingið setti reglur um þetta efni, þar af voru 60% aðildarríkjanna því fylgjandi að ILO afgreiddi alþjóðasamþykkt og tillögu. Fulltrúi ILO vakti athygli á því að skilgreining á hugtakinu „hlutavinna“ væri verðugt viðfangsefni svo og setning reglna á þessu sviði. Hann lagði ríka áherslu á að setning reglna mætti ekki skerða réttindi sem þessi hópur hefur öðlast með öðrum reglum eða samningum. Markmið alþjóðavinnumálaskrifstofunnar væri tvíþætt. Að stuðla að fjölgun hlutastarfa og vernda réttindi þeirra sem þeim gegndu. Fram kom að uppi er ágreiningur um að setja þak á upphæð launa og lengd vinnutíma til þess að öðlast rétt samkvæmt ákvæðum hugsanlegrar alþjóðasamþykktar.
    Fram kom í máli talsmanns fulltrúa launafólks að fólki, sem vinnur hlutastarf, fer fjölgandi. Við umfjöllun um þetta starfsform verði að halda í heiðri grundvallarregluna um tækifæri til að velja starf af frjálsum og fúsum vilja. Stefna í atvinnumálum verði að taka tillit til þeirra sem vinna hlutastarf og stuðla að atvinnuöryggi þeirra, kjörum og að þeir njóti sömu reglna í sambandi við vinnuumhverfi. Einnig kom fram að starfsmenn í hlutastörfum verði að fá sömu meðhöndlun, fulla vernd og sömu tækifæri og aðrir starfsmenn án tillits til vinnutíma þeirra. Ekki mætti þvinga starfsmenn til að vinna hlutastarf vegna verkefnaskorts — það á að vera sjálfstætt val. Enn fremur eigi þetta skipulag vinnu ekki leiða til keppni á milli þeirra sem vinna fullan vinnutíma og þeirra sem gegna starfi að hluta.
    Talsmaður atvinnurekenda minnti á að þeir hafi verið því andvígir að setja þetta málefni á dagskrá alþjóðavinnumálaþingsins. Hann hélt því fram að málið snerist bæði um að vernda þessa skipan vinnunnar og stuðla að fjölgun hlutastarfa. Þetta vinnuform væri nauðsynlegt til að mæta þörfum atvinnulífsins. Hann benti m.a. á þörfina fyrir sveigjanlegt vinnuform í ýmsum þjónustugreinum, einkum í minni fyrirtækjum. Hann lýsti andstöðu við alþjóðasamþykkt um þetta efni og óttaðist að hún mundi leiða til minni sveigjanleika og aukins kostnaðar. Þar að auki væri það ekki ásættanlegt að ILO setti reglur sem nær eingöngu ættu við iðnríki, einkum í Vestur-Evrópu.
    Helstu atriði í drögum að alþjóðasamþykkt eru skilgreiningar og gildissvið. Um þetta voru langar umræður sem lauk með skýrari reglum um það til hverra samþykktin tekur.
    Annað atriði sem var mikið til umfjöllunar voru undanþágur. Fulltrúar launafólks vildu takmarka þær sem mest. Atvinnurekendur voru á annarri skoðun og kváðu drögin ósveigjanleg.
    Stærsti hluti draganna er um skyldur aðildarríkjanna að því er varðar þá sem vinna hlutastarf. Sá hluti varð einnig tilefni til deilna á milli fulltrúa atvinnurekenda og launafólks. Drög alþjóðavinnumálaskrifstofunnar hafa að geyma ákvæði um það hvaða réttindi þeir sem vinna hlutastarf skuli hafa með hliðsjón af réttindum fullvinnandi starfsmanna. Skylda aðildarríkja til að stuðla að fjölgun hlutastarfa var annað málefni sem olli deilum. Atvinnurekendur voru hlynntir slíku ákvæði en fulltrúar launafólks og nokkrir fulltrúar ríksstjórna voru því andvígir. Drögin að samþykktinni voru samþykkt til annarrar umræðu á næsta Alþjóðavinnumálaþingi eftir langar umræður.

2.8. ÞRÓUNARAÐSTOÐ ALÞJÓÐAVINNUMÁLASTOFNUNARINNAR

    Eitt af þeim málefnum, sem voru á dagskrá 80. Alþjóðavinnumálaþingsins, var aðstoð stofnunarinnar við þróunarríki. Alþjóðavinnumálskrifstofan hafði fyrir þingið tekið saman skýrslu um þetta efni sem lögð var til grundvallar í umræðum í þingnefnd. Formaður hennar var kosinn fulltrúi ríkisstjórnar Síle, Jose Luis Ilabaca. Varaformenn voru kosnir William Brett, fulltrúi atvinnurekenda í Stóra-Bretlandi, og Joël Kaswara, fulltrúi launafólks í Úganda.
    Við umræður í nefndinni kom fram stuðningur við stefnu sem ILO hefur fylgt við þróunaraðstoð og hefur verið löguð að breyttum aðstæðum í heiminum. Sérstaklega var getið um viðleitni til að veita aðstoð við tiltekin vel skilgreind viðfangsefni sem hefur gefið góða raun. Fram kom að alþjóðavinnumálaskrifstofan hefur áætlanir um skipun 14 nýrra vinnuhópa sem bera ábyrgð á tilteknum heimshlutum og svæðum. Alls verða 128 sérfræðingar ráðnir til að taka þátt í störfum hópanna. Samstaða ríkti um mikilvægi þríhliða samstarfs, ríkisvalds, atvinnurekenda og launafólks við framkvæmd þróunaraðstoðar. Fram komu áhyggjur vegna minnkandi tekna Alþjóðavinnumálastofnunarinnar til þróunaraðstoðar.

2.9. ÞINGSÁLYKTANIR

    Á Alþjóðavinnumálaþinginu er heimilt að leggja fram tillögur til þingsályktunar um önnur málefni en þau sem eru á dagskrá enda fjalli þau um málefni sem snerti starfssvið stofnunarinnar. Tillögur til þingsályktunar skulu hafa borist forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar 15 dögum fyrir þingsetningu. Um þessar tillögur er fjallað í ályktunarnefnd (Resolutions Committee) sem er ein af fastanefndum þingsins.
    Ályktunarnefndin er „pólitískasta“ nefnd Alþjóðavinnumálaþingsins. Hún hefur á undanförnum árum endurspeglað spennu á milli fylgismanna ólíkra hagkerfa og einstakra aðildarríkja. Starf nefndarinnar var lamað um þriggja ára skeið. Því olli deila Araba og Ísraela vegna hernumdu svæðanna í Palestínu. Hún var leyst með því að ástandið á hernumdu svæðunum var sett á dagskrá allsherjarþingsins. Síðastliðin þrjú ár hefur hálfum degi allsherjarþingins verið varið í umræður um þetta málefni. Frá þeim tíma hefur verið tiltölulega góður vinnufriður í nefndinni. Af minnkandi flokkadráttum hefur leitt minni áhugi fyrir þátttöku í henni. Við upphaf nefndarstarfsins áttu engu að síður 126 fulltrúar sæti í nefndinni, þar af voru 54 fulltrúar ríkisstjórna, 30 fulltrúar atvinnurekenda og 42 fulltrúar launafólks.
    Formaður ályktunarnefndar var kosinn fulltrúi ríkisstjórnar Ítalíu, Mascia. Varaformenn voru Castle, atvinnurekendafulltrúi frá Stóra-Bretlandi, og Tapiola, fulltrúi launafólks í Finnlandi. Af hálfu Íslands tóku þátt í starfi nefndarinnar Stefán H. Jóhannesson og Gylfi Kristinsson.
    Nefndinni bárust samtals 17 tillögur til þingsályktunar. Norðurlöndin lögðu ekki fram tillögu að þessu sinni. Eftir athugun á efni tillagnanna voru nokkrar sameinaðar. Samkvæmt verklagsreglum nefndarinnar voru greidd atkvæði um það í hvaða forgangsröð tillögurnar yrðu afgreiddar. Niðurstöður atkvæðagreiðslunnar voru:
    Félagslegt öryggi og afleiðingar atvinnuleysis og fátæktar (tillagan hlaut 19.939 vegin atkvæði).
    75 ára afmæli Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (15.602 vegin atkvæði).
    Framlag Alþjóðavinnumálastofnunarinnar til aðgerða Sameinuðu þjóðanna til verndar mannréttindum (12.199 vegin atkvæði).
    Endurskoðun og endurnýjun alþjóðasamþykkta ILO (12.141 vegið atkvæði).
    Hlutverk Alþjóðavinnumálastofnunarinnar við að afnema vinnu barna (11.596 vegin atkvæði).
    Við umræður um tillöguna um félagslegt öryggi og afleiðingar atvinnuleysis og fátæktar komu fram 70 breytingartillögur. Einungis hluti þeirra var samþykktur eftir ræðuhöld sem stóðu dögum saman. Í inngangsorðum ályktunarinnar er vísað til yfirlýsingar ILO, sem kennd er við bandarísku borgina Fíladelfíu, og skýrslu forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar um almannatryggingar þar sem lögð er áhersla á aðgerðir til að vernda félagsleg réttindi og öryggi og á þann hátt skapa forsendur fyrir hagsæld og friði í heiminum. Bent er á að á tímum breytinga í stjórnmálum og efnhagsmálum megi lítið út af bregða þannig að ekki verði stofnað í hættu félagslegri stöðu fólks og lífsafkomu. Í innganginum er einnig lögð áhersla á að mikilvæg forsenda fyrir félagslegum umbótum sé skilvirkt efnahagslíf og hagvöxtur. Loks eru látnar í ljós áhyggjur af afturför í mörgum þróunarríkjum. Þar af leiðandi sé það forgangsverkefni í starfsáætlun Alþjóðavinnumálastofnunarinnar fyrir árin 1994–95 að sporna við vaxandi fátækt. Lýst er yfir stuðningi við þýðingarmikið hlutverk ILO í sambandi við leiðtogafundinn um félagslega þróun sem haldinn verður í Kaupmannahöfn árið 1995.
    Ekki tókst að þessu sinni að afgreiða fleiri tillögur.

2.10. ÖNNUR MÁLEFNI

    Á 80. Alþjóðavinnumálaþinginu var fjallað um nokkur önnur málefni en þau sem lýst hefur verið hér að framan. Nefna má eftirfarandi dæmi:

Kynþáttaaðskilnaðarstefnan.

    Frá árinu 1980 hefur stefna stjórnvalda í Suður-Afríku í málefnum kynþátta, sem þar búa, verið til umfjöllunar í sérstakri nefnd á Alþjóðavinnumálaþinginu. Starf nefndarinnar byggir á yfirlýsingu um þetta efni sem var endurskoðuð árið 1988 og aftur 1991 í því skyni að taka út allar tilvísanir til Namibíu. Fjöldi fulltrúa í nefndinni hefur verið takmarkaður. Á þinginu áttu 48 fulltrúar með atkvæðisrétt sæti í henni, þ.e. 18 fulltrúar ríkisstjórna, 10 fulltrúar atvinnurekenda og 20 fulltrúar launafólks. Vinnumálaráðherra Úganda, Ejalu, var kosinn formaður nefndarinnar. Fulltrúi ríkisstjórnar Finnlands sat í nefndinni fyrir hönd ríkisstjórna Norðurlanda. Nefndin hélt samtals sex fundi. Að venju lá skýrsla forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar í Genf til grundvallar umræðum. Talsmaður launafólks í nefndinni hélt langa ræðu þar sem m.a. var vakin athygli á tillögu um frjálsar kosningar í Suður-Afríku 27. apríl 1994. Um væri að ræða mjög jákvætt skref í þá átt að afnema kerfi kynþáttaaðskilnaðar sem hefur verið við lýði í Suður-Afríku um áratuga skeið. Niðurstaða hans var þó sú að enn væri of snemmt að fella úr gildi yfirlýsingu ILO um kynþáttaaðskilnaðarstefnuna. Talsmaður atvinnurekenda lýsti þeirri von að jákvæð þróun í málefnum Suður-Afríku leiddi til þess að ekki reyndist lengur þörf fyrir nefndina og hægt yrði að leggja hana niður.

Aðbúnaður launafólks á hernumdu arabísku svæðunum.

    Fyrr í þessari skýrslu er að því vikið að á árunum 1986–1989 voru miklir flokkadrættir í ályktunarnefnd Alþjóðavinnumálaþingsins vegna ástandsins í Palestínu og á öðrum arabískum svæðum sem eru undir stjórn Ísraels. Starf nefndarinnar var svo til lamað á 75. og 76. Alþjóðavinnumálaþinginu. Ljóst var að leita yrði lausnar á þessu vandamáli. Hún fannst og felst í því að undanfarin þrjú ár hefur hálfum degi allsherjarþings vinnumálaþingsins verið varið til umræðna um aðstæður Palestínumanna á svæðum sem lúta stjórn Ísraels. Á 80. Alþjóðavinnumálaþinginu fóru þessar umræður fram 10. júní. Þær byggðust mest á skýrslu forstjóra um ferð fulltrúa Alþjóðavinnumálastofnunarinnar til þessara svæða dagana 18.–31. mars 1993. Þess má geta að frá árinu 1978 hefur ILO verið eina alþjóðastofnunin sem hefur fengið tækifæri til að senda sendinefndir til hernámssvæðanna, m.a. til að kynna sér aðstæður í atvinnulífinu og til að meta hvernig fylgt hefur verið eftir tilmælum um úrbætur.

Samstarf við fulltrúa annarra ríkja.

    Alþjóðavinnumálastofnunin er í hópi stærstu stofnana Sameinuðu þjóðanna. Af ársþingum sérstofnana Sameinuðu þjóðanna er Alþjóðavinnumálaþingið fjölmennast. Þessu veldur samstarfið innan vébanda stofnunarinnar á milli hinna þriggja aðila sem samkvæmt stofnskrá eiga rétt til að taka þátt í störfum hennar, þ.e. ríkisstjórnir, heildarsamtök atvinnurekenda og heildarsamtök launafólks. Á undanförnum árum hefur samstarf ríkisstjórnarfulltrúa frá Norðurlöndum og vestrænum iðnaðarríkjum auðveldað Íslendingum þátttöku í Alþjóðavinnumálaþinginu. Fámenn þjóð getur ekki með sama hætti og stórþjóðir sent fjölmennar sendinefndir til þingsins og þar með haft fulltrúa í öllum nefndum þess. Þar af leiðandi hafa Íslendingar notið góðs af miðlun upplýsinga frá traustum samstarfsaðilum og tekið þátt í málatilbúnaði eftir efnum og ástæðum.
    Ekki er laust við að þýða í alþjóðasamþykktum og umsóknir frændþjóðanna á Norðurlöndunum um inngöngu í Evrópubandalagið hafi beint samstarfsáhuga þeirra og annarra vestrænna ríkja í aðrar áttir og breytt áherslum. Ef til vill verða Íslendingar að búa sig undir það að þurfa að leggja fram meiri vinnu og mannafla til að halda sínum hlut í alþjóðastofnunum og þingum sem eru haldin á þeirra vegum.
    Á 80. Alþjóðavinnumálaþinginu komu fulltrúar ríkisstjórna Norðurlanda saman til vikulegra funda. Á þeim var rætt um stöðu mála í þingnefndum og undirbúnar ræður sem fluttar voru í þeirra nafni. Auk þess voru haldnir reglulega samráðsfundir fulltrúa vestrænna iðnríkja (svonefndur IMEC-hópur). Á þessu þingi var einkum fjallað um tillögur til breytinga á starfsemi ILO og eftirlitskerfi stofnunarinnar á fundum hópsins.



Fylgiskjal I.


Samþykkt nr. 174, um ráðstafanir til að koma í veg
fyrir meiri háttar iðnaðarslys.

    Allsherjarþing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem kom saman til 80. þingsetu sinnar í Genf 2. júní 1993 eftir kvaðningu stjórnarnefndar alþjóðavinnumálaskrifstofunnar,
    gefur gaum að viðkomandi alþjóðasamþykktum og tillögum og samþykkt og tillögu um öryggi og hollustuhætti við vinnu frá 1981 og samþykkt og tillögu um öryggi við notkun efna frá 1990, og leggur áherslu á að teknar séu ákvarðanir um samræmdar ráðstafanir hvað þetta varðar á alþjóðavettvangi, og
    gefur einnig gaum að starfsreglum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um ráðstafanir til að koma í veg fyrir meiri háttar iðnaðarslys, sem gefnar voru út 1991, og
    tekur tillit til þess að tryggja verður að hvers konar viðeigandi ráðstafanir séu gerðar til að:
    koma í veg fyrir meiri háttar slys;
    draga úr hættu á meiri háttar slysum;
    draga úr áhrifum meiri háttar slysa, og
    gefur gaum að orsökum slíkra slysa, svo sem mistökum við skipulagningu, mistökum einstaklinga, bilun búnaðar, frávikum frá venjulegum starfsaðstæðum, utanaðkomandi truflunum og náttúruhamförum, og
    tekur tillit til nauðsynjar samvinnu, hvað snertir alþjóðlega áætlun um öryggi varðandi kemísk efni, á vegum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, umhverfisáætlunar Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, svo og við aðrar hlutaðeigandi samstarfsstofnanir ríkisstjórna, og
    þar eð þingið hefur samþykkt tilteknar ábendingar um ráðstafanir til að koma í veg fyrir meiri háttar iðnaðarslys, sem er fjórða mál á dagskrá þessa þings, og
    þar eð þingið hefur ákveðið að þessar ábendingar skuli gerðar í formi alþjóðasamþykktar,
    gerir þingið í dag, 22. júní 1993, eftirfarandi samþykkt sem nefna má Samþykkt um ráðstafanir til að koma í veg fyrir meiri háttar iðnaðarslys, 1993.

I. Gildissvið og skilgreiningar.
1. gr.

    Markmið þessarar samþykktar er að koma í veg fyrir meiri háttar slys þar sem við sögu koma hættuleg efni og draga úr áhrifum slíkra slysa.
    Þessi samþykkt nær til staða þar sem meiri háttar hætta er fyrir hendi.
    Samþykktin nær ekki til:
         
    
    kjarnorkustöðva og stöðva þar sem unnin eru geislavirk efni, að undanteknum þeim stöðum þar sem farið er með ógeislavirk efni í slíkum stöðvum;
         
    
    herstöðva;
         
    
    flutninga utan stöðva nema um lagnir.
    Aðildarríki, sem fullgildir þessa samþykkt, er heimilt, að höfðu samráði við aðila vinnumarkaðarins og aðra hlutaðeigandi aðila, að undanskilja frá ákvæðum samþykktarinnar stöðvar eða atvinnugreinar þar sem jafngildar ráðstafanir til varnar eru gerðar.

2. gr.

    Ef sérstök og veruleg vandamál koma upp og ekki reynist unnt að beita án tafar öllum þeim ráðstöfunum til varnar og forvarna sem gert er ráð fyrir í samþykktinni ber aðildarríki að gera áætlanir, í samráði við aðila vinnumarkaðarins og aðra hlutaðeigandi aðila, um framkvæmd framangreindra ráðstafana smám saman innan tiltekins tíma.

3. gr.

    Hvað varðar þessa samþykkt merkir hugtakið:
    „hættulegt efni“ efni eða efnablöndu sem veldur hættu vegna efnafræði-, eðlisfræði- eða eiturefnafræðilegra eiginleika, annaðhvort eitt sér eða ásamt öðrum efnum;
    „hættumörk“ það magn tiltekins hættulegs efnis eða flokks efna sem tilgreind eru í landslögum miðað við tilteknar aðstæður og eru til marks um stað þar sem veruleg hætta er á ferðum ef farið er yfir það magn;
    „verulega hættulegur staður“ stað þar sem framleitt er, unnið, meðhöndlað, notað, eytt eða geymt, annaðhvort um stundarsakir eða varanlega, eitt eða fleiri hættuleg efni eða flokkur efna í því magni að það fari fram úr hættumörkum;
    „meiri háttar slys“ skyndilegt atvik — svo sem meiri háttar útstreymi, útgeislun, eldsvoða eða sprengingu — í starfsemi staðar þar sem um er að ræða meiri háttar hættu þar sem við sögu koma eitt eða fleiri hættuleg efni og veldur starfsmönnum, almenningi eða umhverfinu alvarlegri hættu, hvort sem hún er yfirvofandi eða kemur fram síðar;
    „öryggisskýrsla“ skriflega framsetningu upplýsinga á sviði tækni, stjórnunar og framkvæmda sem nær til hættu á stað þar sem gera má ráð fyrir meiri háttar hættu, og stjórnun á slíku, og er forsenda fyrir þeim ráðstöfunum sem eru gerðar til að tryggja öryggi staðarins;
    „næstum stórslys“ hvers konar skyndilegan atburð þar sem við sögu koma eitt eða fleiri hættuleg efni sem hefðu getað valdið meiri háttar slysi ef ekki hefðu komið til mildandi áhrif.

II. Almenn atriði.
4. gr.

    1. Sérhvert aðildarríki mótar, framkvæmir og endurskoðar reglulega samræmda stefnu hvað varðar verndun starfsmanna, almennings og umhverfisins fyrir hættu á meiri háttar slysi með tilliti til landslaga, reglugerða, aðstæðna og venja og í samráði við aðila vinnumarkaðarins og aðra hlutaðeigandi aðila.
    2. Stefnu þessa skal framkvæma með aðgerðum til varnar og forvarna á vinnustöðum þar sem meiri háttar hætta er fyrir hendi og, þar sem því verður við komið, stuðla að notkun bestu fáanlegrar öryggistækni.

5. gr.

    1. Hlutaðeigandi stjórnvald eða aðili, sem hlutaðaeigandi stjórnvald hefur samþykkt eða viðurkennt, skal, að höfðu samráði við aðila vinnumarkaðarins og aðra hagsmunaaðila, koma upp kerfi til greiningar á vinnustöðum, sem valda meiri háttar áhættu samkvæmt skilgreiningu í 3. gr. c sem byggist á skrá yfir hættuleg efni eða flokkun hættulegra efna eða hvort tveggja, ásamt viðeigandi hættumörkum samkvæmt landslögum og reglugerðum eða alþjóðlegum stöðlum.
    2. Endurskoða skal og endurnýja reglulega kerfi það sem tilgreint var í 1. tölul. hér að framan.

6. gr.

    Hlutaðeigandi stjórnvald skal, að höfðu samráði við aðila vinnumarkaðarins, gera sérstakar ráðstafanir til að vernda upplýsingar, sem veittar eru í trúnaði skv. 8., 12., 13. eða 14. gr., ef líklegt þykir að uppljóstrun þeirra gæti valdið fyrirtæki atvinnurekanda tjóni, svo fremi þetta ákvæði valdi ekki starfsmönnum, almenningi eða umhverfinu verulegri hættu.

III. Skyldur atvinnurekenda.


7. gr.

SKILGREINING


    Atvinnurekendur skulu skilgreina sérhvern vinnustað undir stjórn þeirra þar sem um er að ræða verulega hættulegan stað samkvæmt kerfi því sem lýst er í 5. gr.

8. gr.

TILKYNNINGAR


    1. Atvinnurekendur skulu tilkynna hlutaðeigandi stjórnvaldi um mjög hættulegan vinnustað sem þeir hafa skilgreint:
    innan tiltekins tíma ef vinnustaðurinn er þegar fyrir hendi;
    áður en nýr vinnustaður er tekinn í notkun.
    2. Atvinnurekendur skulu einnig tilkynna hlutaðeigandi stjórnvaldi áður en mjög hættulegum vinnustað er lokað fyrir fullt og allt.

9. gr.

TILHÖGUN Á VINNUSTAÐ


    Hvað viðkemur sérhverjum mjög hættulegum vinnustað ber atvinnurekendum að koma á fót og viðhalda skráningarkerfi um eftirlit með áhættuvöldum sem er m.a. fólgið í:
    skilgreiningu og greiningu áhættuþátta og áhættumati, m.a. hvað varðar hugsanlega gagnverkun efna;
    tæknilegum ráðstöfunum, m.a. hönnun, öryggiskerfum, byggingu, vali á efnum, rekstri, viðhaldi og kerfisbundinni skoðun vinnustaðarins;
    ráðstöfunum hvað snertir skipulag og þjálfun starfsmanna, að leggja til tæki til að tryggja öryggi þeirra, starfsmannafjölda, vinnutíma, skilgreiningu á starfssviði og stjórnun utanaðkomandi verktaka og íhlaupamanna á vinnustað;
    neyðaráætlunum og ráðstöfunum, m.a.:
        i.    undirbúningi virkra neyðaráætlana og ráðstafana á staðnum, þar með taldar neyðarráðstafanir vegna læknishjálpar sem unnt er að hrinda í framkvæmd ef meiri háttar slys verður eða hætta er á slíku, svo og reglubundnum prófunum og mati á virkni þeirra og endurskoðun eftir þörfum;
        ii.    að veita upplýsingar um hugsanleg slys og neyðaráætlanir á staðnum í þágu stjórnvalda og aðila sem sjá um að gera neyðaráætlanir og ráðstafanir til verndar almenningi og umhverfinu utan vinnustaðarins;
    ráðstöfunum til að draga úr afleiðingum meiri háttar slysa;
    samráði við starfsmenn og fulltrúa þeirra;
    endurbótum á kerfinu, m.a. ráðstöfunum til öflunar upplýsinga og að greina atburði þegar slys hafa orðið eða þegar legið hefur við slysi.

10. gr.
ÖRYGGISSKÝRSLA

    1. Atvinnurekendum ber að gera öryggisskýrslu sem byggð er á kröfum sem eru settar fram í 9. gr.
    2. Gera skal slíka skýrslu:
    ef um er að ræða mjög hættulega vinnustaði sem eru þegar fyrir hendi, innan tiltekins tíma eftir tilkynningu samkvæmt fyrirmælum landslaga eða reglugerða;
    ef um er að ræða nýjan mjög hættulegan vinnustað, áður en hann er tekinn í notkun.

11. gr.

    Atvinnurekendum ber að endurskoða, endurnýja og breyta öryggisskýrslunni:
    ef breytingar eru gerðar sem hafa veruleg áhrif á öryggi á vinnustað eða ferli eða magn hættulegra efna sem eru til staðar;
    ef þróun tækniþekkingar eða mat á áhættuþáttum mæla með því;
    með því millibili sem fyrir er mælt í landslögum eða reglugerðum;
    samkvæmt beiðni hlutaðeigandi stjórnvalds.

12. gr.

    Atvinnurekendum ber að senda til eða hafa til reiðu fyrir hlutaðeigandi stjórnvald öryggisskýrslur sem tilgreindar eru í 10. og 11. gr.

13. gr.

TILKYNNINGAR UM SLYS


    Atvinnurekendum ber að tilkynna hlutaðeigandi stjórnvaldi og öðrum aðilum sem tilgreindir eru í því skyni án tafar þegar meiri háttar slys verður.

14. gr.

    1. Atvinnurekendum ber, innan tiltekins tíma frá því að meiri háttar slys verður, að gefa hlutaðeigandi stjórnvaldi nákvæma skýrslu þar sem fram kemur nákvæm greining á orsökum slyssins og lýst er hvaða áhrif það hefur haft á staðnum þá þegar og hvað gert hefur verið til að draga úr áhrifum þess.
    2. Í skýrslunni skal tilgreina tillögur um ráðstafanir sem gripið skal til í því skyni að koma í veg fyrir að slysið endurtaki sig.

IV. Ábyrgð hlutaðeigandi stjórnvalda.
15. gr.
NEYÐARÁÆTLANIR UTAN VINNUSTAÐAR

    Að teknu tilliti til upplýsinga atvinnurekanda skal hlutaðeigandi stjórnvald tryggja að gerðar séu neyðaráætlanir og ráðstafanir til verndar almenningi og umhverfinu utan hvers verulega hættulegs vinnustaðar, að þær séu endurskoðaðar með viðeigandi millibili og samræmdar aðgerðum hlutaðeigandi stjórnvalda og aðila.

16. gr.

    Hlutaðeigandi stjórnvaldi ber að tryggja að:
    upplýsingum um ráðstafanir í öryggismálum og rétt viðbrögð við meiri háttar slysum sé dreift til þess hluta almennings sem líklegt er að meiri háttar slys hafi áhrif á, án þess að slíkir aðilar hafi beðið um slíkar upplýsingar, svo og að slíkar upplýsingar séu endurnýjaðar og þeim dreift á ný með viðeigandi millibili;
    viðvörun sé gefin án tafar ef meiri háttar slys verður;
    þeim upplýsingum, sem krafist er samkvæmt a- og b-liðum hér að framan, sé dreift til hlutaðeigandi ríkja, ef meiri háttar slys gæti haft áhrif yfir landamæri, í því skyni að stuðla að samvinnu og samræmingu aðgerða.


17. gr.
STAÐSETNING VERULEGA HÆTTULEGRA VINNUSTAÐA

    Hlutaðeigandi stjórnvaldi ber að ákveða samræmda stefnu um staðsetningu þannig að þeir vinnustaðir sem mikil hætta stafar af séu staðsettir í hæfilegri fjarlægð frá hverfum með öðrum vinnustöðum, íbúðabyggð og þjónustustofnunum almennings, svo og að viðeigandi ráðstafanir séu gerðar varðandi þá vinnustaði sem eru þegar fyrir hendi. Stefnan skal endurspegla þau almennu ákvæði sem tilgreind eru í II. hluta samþykktarinnar.


18. gr.
SKOÐUN

    1. Hlutaðeigandi stjórnvaldi ber að hafa á að skipa starfsfólki, sem hefur hlotið viðeigandi menntun og þjálfun, býr yfir nægilegri færni og nýtur fullnægjandi tæknilegrar og faglegrar aðstoðar til að skoða, rannsaka, meta og veita ráðleggingar í þeim efnum sem fjallað er um í þessari samþykkt, svo og að tryggja að starfsemin sé í samræmi við landslög og reglugerðir í hverju tilviki.
    2. Fulltrúar atvinnurekanda og fulltrúar starfsmanna á mjög hættulegum vinnustað skulu fá tækifæri til að fylgja eftirlitsmönnum sem hafa eftirlit með framkvæmd þeirra ráðstafana sem lýst er í þessari samþykkt, nema eftirlitsmenn telji að það geti spillt fyrir framkvæmd skyldustarfa þeirra samkvæmt almennum starfsreglum hlutaðeigandi stjórnvalds.

19. gr.

    Hlutaðeigandi stjórnvald hefur rétt til að banna hvers konar starfsemi sem veldur yfirvofandi hættu á meiri háttar slysi.

IV. Réttindi og skyldur starfsmanna og trúnaðarmanna þeirra.
20. gr.

    Haft skal samráð við starfsmenn á mjög hættulegum vinnustað og trúnaðarmenn þeirra á viðeigandi samstarfsvettvangi í því skyni að tryggja öruggar vinnureglur. Einkum skulu starfsmenn og trúnaðarmenn þeirra:
    fá fullnægjandi og viðunandi upplýsingar um þær hættur sem eru fyrir hendi á mjög hættulegum vinnustað og hverjar afleiðingar þær gætu haft;
    fá upplýsingar um hvers konar fyrirskipanir, leiðbeiningar eða tilmæli frá hlutaðeigandi stjórnvaldi;
    vera hafðir með í ráðum við gerð eftirtalinna gagna og hafa aðgang að þeim:
        i.    öryggisskýrslna;
        ii.    neyðaráætlana og neyðarráðstafana;
        iii.    slysaskýrslna;
    fá reglulega tilsögn og þjálfun í starfsaðferðum og ráðstöfunum til að koma í veg fyrir meiri háttar slys og hafa hemil á þróun sem líklegt er að kunni að leiða til meiri háttar slyss, svo og í neyðarráðstöfunum sem gripið skal til ef meiri háttar slys verður;
    að því leyti sem starfssvið þeirra segir til um og án þess að fyrirgera stöðu sinni, gera ráðstafanir til úrbóta og, ef nauðsyn krefur, hindra starfsemi þar sem þeir hafa ástæðu til að ætla, samkvæmt þjálfun sinni og reynslu, að hætta sé á meiri háttar slysi og tilkynna það verkstjóra eða gefa viðvörun, eftir því sem við á, áður en gripið er til slíkra aðgerða eða eins fljótt og við verður komið eftir að til þeirra hefur verið gripið;
    ræða við atvinnurekandann um hvers konar hugsanlega hættu sem þeir telja að gæti valdið meiri háttar slysi, enda hafi þeir rétt til að tilkynna hlutaðeigandi stjórnvaldi um slíka hættu.

21. gr.

    Starfsmenn, sem starfa á mjög hættulegum vinnustað, skulu:
    fara að öllum starfsreglum og grípa til þeirra ráðstafana sem við eiga til að koma í veg fyrir meiri háttar slys og hafa hemil á þróun sem gæti leitt til meiri háttar slyss á mjög hættulegum vinnustað;
    hlíta öllum neyðarráðstöfunum ef meiri háttar slys verður.

VI. Ábyrgð útflutningsríkja.
22. gr.

    Ef notkun hættulegra efna, tækni eða ferla er bönnuð í útflutningsríki vegna hættu á meiri háttar slysi skal útflutningsríkið koma upplýsingum um slíkt bann og ástæður fyrir því til innflutningsríkisins.

VII. Lokaákvæði.
23. gr.

    Formlegar fullgildingar þessarar samþykktar skulu sendar forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar til skrásetningar.

24. gr.

    1. Þessi samþykkt skal einungis vera bindandi fyrir þau aðildarríki Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem hafa látið forstjórann skrá fullgildingar sínar.
    2. Hún gengur í gildi tólf mánuðum eftir að fullgildingar tveggja aðildarríkja hafa verið skráðar hjá forstjóranum.
    3. Síðan gengur samþykktin í gildi að því er snertir hvert aðildarríki tólf mánuðum eftir að fullgilding þess hefur verið skráð.

25. gr.

    1. Aðildarríki, sem fullgilt hefur samþykkt þessa, getur sagt henni upp að liðnum tíu árum frá fyrstu gildistöku hennar. Tilkynningu um uppsögn skal senda forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar til skrásetningar. Slík uppsögn öðlast ekki gildi fyrr en ár er liðið frá skrásetningardegi hennar.
    2. Sérhvert aðildarríki, sem fullgilt hefur samþykkt þessa en notfærir sér ekki innan árs frá lokum tíu ára tímabilsins, sem um getur í fyrri tölulið, rétt þann til uppsagnar sem kveðið er á um í þessari grein, skal bundið af henni í annað tíu ára tímabil, en síðan getur það sagt henni upp að loknu hverju tíu ára tímabili í samræmi við ákvæði þessarar greinar.

26. gr.

    1. Forstjóri alþjóðavinnumálaskrifstofunnar skal tilkynna öllum aðildarríkjum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar skráningu allra fullgildinga og uppsagna sem aðildarríki stofnunarinnar hafa sent honum.
    2. Þegar forstjórinn tilkynnir aðildarríkjum stofnunarinnar skrásetningu annarrar fullgildingarinnar, sem honum berst, skal hann vekja athygli þeirra á því hvaða dag samþykktin gangi í gildi.

27. gr.

    Forstjóri alþjóðavinnumálaskrifstofunnar skal senda aðalritara Sameinuðu þjóðanna til skrásetningar, skv. 102. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna, allar upplýsingar um fullgildingar og uppsagnir sem hann hefur skrásett í samræmi við ákvæði undanfarandi greina.

28. gr.

    Þegar stjórn alþjóðavinnumálaskrifstofunnar kann að álíta það nauðsynlegt skal hún leggja fyrir allsherjarþingið skýrslu um framkvæmd þessarar samþykktar og athuga jafnframt hvort æskilegt sé að setja á dagskrá þingsins endurskoðun hennar allrar eða hluta hennar.

29. gr.

    1. Ef þingið gerir nýja samþykkt, sem breytir þessari samþykkt að öllu eða nokkru leyti, og sú samþykkt mælir ekki fyrir um á annan veg, skal:
    fullgilding aðildarríkis á hinni nýju samþykkt ipso jure hafa í för með sér tafarlausa uppsögn þessarar samþykktar, þrátt fyrir ákvæði 25. gr. hér að framan, ef hin nýja samþykkt öðlast gildi og þá frá þeim tíma þegar það gerist;
    aðildarríkjum ekki heimilt að fullgilda þessa samþykkt eftir að hin nýja samþykkt hefur öðlast gildi.
    2. Þessi samþykkt skal, hvað sem öðru líður, halda gildi sínu hvað snertir form og efni í þeim aðildarríkjum sem hafa fullgilt hana en ekki hina nýju samþykkt.

30. gr.

    Enskur og franskur texti þessarar samþykktar er jafngildur.




Fylgiskjal II.


Tillaga nr. 180, um ráðstafanir til að koma í veg
fyrir meiri háttar iðnaðarslys.

    Allsherjarþing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem kom saman til 80. þingsetu sinnar í Genf 2. júní 1993 eftir kvaðningu stjórnarnefndar alþjóðavinnumálaskrifstofunnar,
    þar eð þingið hefur samþykkt tilteknar ábendingar um ráðstafanir til að koma í veg fyrir meiri háttar iðnaðarslys, sem er fjórða mál á dagskrá þessa þings, og
    þar eð þingið hefur ákveðið að þessar ábendingar skuli gerðar í formi tillögu sem kemur til viðbótar við alþjóðasamþykkt um ráðstafanir til að koma í veg fyrir meiri háttar iðnaðarslys,
    gerir þingið í dag, 22 . júní 1993, eftirfarandi tillögu sem nefna má Tillögu um ráðstafanir til að koma í veg fyrir meiri háttar iðnaðarslys, 1993.

    1. Ákvæðum þessarar tillögu skyldi beitt ásamt ákvæðum Samþykktar um ráðstafanir til að koma í veg fyrir meiri háttar iðnaðarslys, 1993 (hér eftir nefnd „Samþykktin“).
    2.     (1) Alþjóðavinnumálastofnunin ætti, í samvinnu við aðrar hlutaðeigandi alþjóðlegar samstarfsstofnanir ríkisstjórna og aðrar stofnanir, að stuðla að alþjóðlegum upplýsingaskiptum um:
    góðar öryggisreglur á mjög hættulegum vinnustöðum, m.a. um stjórnun öryggismála og öryggi í vinnuferlinu;
    meiri háttar slys;
    hvað lærst hefur þegar legið hefur við slysi;
    tækni og ferli sem eru bönnuð vegna öryggis og hollustuhátta;
    skipulagningu læknisfræðilegrar og tæknilegrar aðstoðar eftir að meiri háttar slys hefur orðið;
    aðferðir og ráðstafanir sem hlutaðeigandi stjórnvöld beita til að hrinda í framkvæmd ákvæðum Samþykktarinnar og þessarar Tillögu.
    (2) Aðildarríkin ættu, að svo miklu leyti sem því verður við komið, að koma upplýsingum um það efni sem tilgreint er í tölulið (1) til alþjóðavinnumálaskrifstofunnar.
    3. Stefna stjórnvalda, sem gert er ráð fyrir samkvæmt samþykktinni, landslögum og reglugerðum eða öðrum ráðstöfunum til að framkvæma hana, skyldi eftir því sem við á, vera í samræmi við starfsreglur Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um ráðstafanir til að koma í veg fyrir meiri háttar iðnaðarslys sem gefnar voru út 1991.
    4. Aðildarríkin ættu að marka stefnu sem hefur það að markmiði að takast á við meiri háttar hættu, áhættuvalda og afleiðingar þeirra á þeim sviðum og í tengslum við þá starfsemi sem ákvæði samþykktarinnar ná ekki til samkvæmt 3. mgr. 1. gr.
    5. Aðildarríkin ættu að viðurkenna að meiri háttar slys gæti haft alvarleg áhrif á líf manna og umhverfið og hvetja til að komið verði á kerfum til að greiða starfsmönnum bætur svo skjótt sem auðið er eftir að slys hefur orðið og huga að áhrifum slyssins á almenning og umhverfið.
    6. Samkvæmt þríhliða yfirlýsingu um meginreglur varðandi fjölþjóðafyrirtæki og félagsmálastefnu, sem stjórnarnefnd alþjóðavinnumálaskrifstofunnar hefur samþykkt, ættu landsfyrirtæki eða fjölþjóðafyrirtæki, sem starfa á fleiri en einum stað, að gera öryggisráðstafanir til að koma í veg fyrir meiri háttar slys og hafa stjórn á þróun mála, sem líklegt er að gætu valdið meiri háttar slysi, án mismununar, til handa starfsmönnum á öllum vinnustöðum sínum á hvaða stað eða í hvaða landi þá er að finna.



Fylgiskjal III.


Skipan stjórnarnefndar alþjóðavinnumálaskrifstofunnar


kjörtímabilið 1993–1996.



Fulltrúar ríkisstjórna.



    Fastafulltrúar sem eru tilnefndir af eftir-
    töldum 10 aðaliðnaðaríkjum:

         Bandaríkin,
         Brasilía,
         Frakkland,
         Indland,
         Ítalía,
         Japan,
         Kína,
         Rússland,
         Sambandslýðveldið Þýskaland,
         Stóra-Bretland.

Aðildarríki sem eru kjörin til að nefna aðalfulltrúa:
    Argentína,
    Ástralía,
    Gana,
    Indónesía,
    Íran,
    Kenía,
    Kongó,
    Mexíkó,
    Nígaragva,
    Níger,
    Noregur,
    Kvatar,
    Rúmenía,
    Simbabve,
    Síle,
    Tékkneska lýðveldið,
    Túnis,
    Venesúela.

Aðildarríki sem eru kjörin til að tilnefna varafulltrúa:
    Egyptaland,
    Filippseyjar,
    Gabon,
    Holland,
    Kanada,
    Kúba,
    Malí,
    Máritanía,
    Nýja-Sjáland,
    Pakistan,
    Panama,
    Póland,
    Portúgal,
    Spánn,
    Súdan,
    Svasíland,
    Ungverjaland,
    Úrúgvæ.

Fulltrúar atvinnurekenda.

Aðalfulltrúar:

J. Aka-Angui (Fílabeinsströndin)
M. Eurnekian (Argentína)
A. Gazarin (Egyptaland)
G. Hultin (Finnland)
A. Katz (Bandaríki Norður-Ameríku)
A. Mackie (Stóra-Bretland)
M. Nasr (Líbanon)
B. Noakes (Ástralía)
J. Oechslin (Frakkland)
T. Owuor (Kenya)
J. Santos Neves Filho (Brasilía)
A. W. Tabani (Pakistan)
R. Thüsing (Þýskaland)
H. Tsujino (Japan) Varafulltrúar:

J. Aboughe-Obame (Gabon)
L. P. Anand (Indía)
F. Diaz Garaycoa (Ekvador)
C. Hak (Holland)
J. C. Halliwell (Kanada)
I. C. Imoisili (Nígería)
J. S. Lacasa-Aso (Spánn)
T. Makeka (Lesótó)
E. Millette (Trinidad og Tobago)
A. R. D. Mokzhani (Malasía)
Ould Sidi Mohamed (Máritanía)
J. de Regil (Mexíkó)
L. Sasso-Mazzufferi (Ítalía)
O. Touré (Malí)

Fulltrúar launafólks.



Aðalfulltrúar:

M. Ben Seddik (Marokkó)
W. Brett (Stóra-Bretland)
I. Doucouré (Malí)
U. Engelen-Kefer (Þýskaland)
R. Falbr (Tékkland)
M. Ferguson (Ástralía)
C. Gray (Bandaríkin)
S. Itoh (Japan)
J. Mugalla (Kenýa)
H. Naik (Indland)
J. Parrot (Kanada)
A. Sanchez Madariaga (Mexíkó)
K. Tapiola (Finnland)
G. Vera (Venesúela)

Varafulltrúar:

C. Agyei (Gana)
K. Ahmed (Pakistan)
O. Bargas (Brasilía)
R. Briesch (Frakkland)
Y. Kara (Ísrael)
I. Kochkov (Rússland)
I. Mayaki (Nígería)
D. Mendoza (Filippseyjar)
Z. Rampak (Malasía)
J. Sandos (Central African Republic)
G. Sibanda (Simbabve)
L. Trotman (Barbados)
R. Vanni (Ítalía)
T. Wojcik (Pólland)


Fylgiskjal IV.

Fulltrúar Íslands á Alþjóðavinnumálaþinginu 1945–1993.


    Samkvæmt 3. gr. 1. tölul. stofnskrár Alþjóðavinnumálastofnunarinnar skal allsherjarþing fulltrúa aðildarríkjanna koma saman til fundar þegar þörf krefur þó eigi sjaldnar en einu sinni á ári. Tekið er fram að þar eigi sæti fjórir fulltrúar frá hverju ríki. Tveir skulu vera fulltrúar hlutaðeigandi ríkisstjórnar og annar hinna tveggja fulltrúi atvinnurekenda en hinn fulltrúi launafólks. Hin síðari ár hefur Alþjóðavinnumálaþingið komið undantekningarlaust saman í Genf í Sviss. Þingið stendur u.þ.b. þrjár vikur. Frá og með 81. þinginu 1994 er gert ráð fyrir að þingið styttist um fimm daga. Á nokkra ára fresti eru haldin aukaþing sem hafa verið helguð málefnum skipverja.
    Í 3. gr. 2. tölul. stofnskrárinnar kemur fram að hver fulltrúi getur haft með sér ráðgjafa en þeir mega ekki vera fleiri en tveir um hvert málefni sem er á dagskrá þingsins. Með fullgildingu stofnskrárinnar skuldbindur aðildarríki sig til þess að skipa fulltrúa aðila vinnumarkaðarins í sendinefnd til þátttöku í Alþjóðavinnumálaþinginu í samráði við helstu samtök atvinnurekenda og launafólks, sbr. 5. tölul. 3. gr. Við skipun fulltrúa aðila vinnumarkaðarins í sendinefnd Íslands hefur frá upphafi verið haft samráð við Alþýðusamband Íslands (ASÍ) og Vinnuveitendasamband Íslands (VSÍ). Embættismenn úr félagsmálaráðuneyti (félmrn.) og utanríkisráðuneyti (utanrrn.) hafa verið fulltrúar ríkisstjórnarinnar í nefndinni.
    Hér á eftir fer skrá yfir þátttöku af hálfu Íslands í Alþjóðavinnumálaþinginu. Hún er frá árinu 1945 þegar aðild Íslands var samþykkt á 27. þinginu í París til ársins 1993. Þess skal getið að árið 1970 var stofnuð fastanefnd Íslands í Genf. Þeir fulltrúar utanríkisráðuneytisins, sem hafa sótt þingið frá þeim tíma, voru í öllum tilvikum starfsmenn fastanefndarinnar. Einnig er rétt að vekja á því athygli að nokkur undanfarin ár hafa fulltrúar samtaka aðila vinnumarkaðarins skipt með sér þátttöku í þinginu þannig að varamaður leysti aðalmann af hólmi þegar u.þ.b. helmingur þingtímans er liðinn.


Félagsmálaráðherra:     Alþjóðavinnumálaþing:     Fulltrúar:
Finnur Jónsson     27. þing, París 1945    Þórhallur Ásgeirsson (utanrrn.)
félagsmálaráðherra     29. þing, Montreal 1946     Thor Thors (utanrrn.)
1944–1947          Þórhallur Ásgeirsson (utanrrn.)
         Kjartan Thors (VSÍ)
         Pétur G. Guðmundsson (ASÍ)
Stefán Jóh. Stefánsson     30. þing, Genf 1947     Finnur Jónsson (félmrn.)
félagsmálaráðherra          Jónas Guðmundsson (félmrn.)
1947–1949          Benedikt Gröndal (VSÍ)
         Björn Bjarnason (ASÍ)
    31. þing, San Francisco     Jónas Guðmundsson (félmrn.)
    1948     Jón S. Ólafsson (félmrn.)
    32. þing, Genf 1949     Jónas Guðmundsson (félmrn.)
         Jón S. Ólafsson (félmrn.)
         Sigurður Jónsson (VSÍ)
         Magnús Ástmarsson (ASÍ)
Félagsmálaráðherra:     Alþjóðavinnumálaþing:     Fulltrúar:
Steingrímur Steinþórsson     33. þing, Genf 1950     Jónas Guðmundsson (félmrn.)
félagsmálaráðherra          Haraldur Kröyer (utanrrn.)
1950–1956     35. þing, Genf 1952     Jónas Guðmundsson (félmrn.)
         Jón S. Ólafsson (félmrn.)
         Kjartan Thors (VSÍ)
         Magnús Ástmarsson (ASÍ)
    38. þing, Genf 1955     Hjálmar Vilhjálmsson (félmrn.)
         Jón S. Ólafsson (félmrn.)
         Eyjólfur Jóhannsson (VSÍ)
         Eðvarð Sigurðsson (ASÍ)
Hannibal Valdimarsson     40. þing, Genf 1957     Hannibal Valdimarsson (félmrn.)
félagsmálaráðherra          Jón S. Ólafsson (félmrn.)
1956–1958          Kjartan Thors (VSÍ)
         Eðvarð Sigurðsson (ASÍ)
Eggert G. Þorsteinsson     50. þing, Genf 1966     Eggert G. Þorsteinsson (félmrn.)
félagsmálaráðherra          Jón S. Ólafsson (félmrn.)
1965–1970          Kjartan Thors (VSÍ)
         Björgvin Sigurðsson (VSÍ)
         Hannibal Valdimarsson (ASÍ)
         Snorri Jónsson (ASÍ)
Hannibal Valdimarsson     57. þing, Genf 1972     Hannibal Valdimarsson (félmrn.)
félagsmálaráðherra          Jón S. Ólafsson (félmrn.)
1971–1973          Einar Benediktsson (utanrrn.)
         Kristján Ragnarsson (VSÍ)
         Snorri Jónsson (ASÍ)
Björn Jónsson     59. þing, Genf 1974     Jón S. Ólafsson (félmrn.)
félagsmálaráðherra          Einar Benediktsson (utanrrn.)
1973–1974          Ólafur Jónsson (VSÍ)
         Snorri Jónsson (ASÍ)
Gunnar Thoroddsen     63. þing, Genf 1977     Gunnar Thoroddsen (félmrn.)
félagsmálaráðherra          Haraldur Kröyer (utanrrn.)
1974–1978         Kornelíus Sigmundsson (utanrrn.)
    64. þing, Genf 1978     Jón S. Ólafsson (félmrn.)
         Haraldur Kröyer (utanrrn.)
         Jón H. Bergs (VSÍ)
         Snorri Jónsson (ASÍ)
         Ásmundur Stefánsson (ASÍ)
Magnús H. Magnússon     65. þing, Genf 1979     Haraldur Kröyer (utanrrn.)
félagsmálaráðherra          Tómas Karlsson (utanrrn.)
1978–1980
Félagsmálaráðherra:     Alþjóðavinnumálaþing:     Fulltrúar:
Svavar Gestsson     66. þing, Genf 1980     Jón S. Ólafsson (félmrn.)
félagsmálaráðherra          Tómas Karlsson (utanrrn.)     
1980–1983     67. þing, Genf 1981     Svavar Gestsson (félmrn.)
         Jón S. Ólafsson (félmrn.)
         Hannes Jónsson (utanrrn.)     
         Skúli Jónsson (VSÍ)
         Kristín Mantila (ASÍ)
    68. þing, Genf 1982     Jón S. Ólafsson (félmrn.)
         Hannes Jónsson (utanrrn.)
         Kristín Mantila (ASÍ)
Alexander Stefánsson     69. þing, Genf 1983     Jón S. Ólafsson (félmrn.)
félagsmálaráðherra          Hannes Jónsson (utanrrn.)
1983–1987          Magnús Gunnarsson (VSÍ)
         Björn Björnsson (ASÍ)
    70. þing, Genf 1984     Jón S. Ólafsson (félmrn.)
         Hannes Hafstein (utanrrn.)
         Kristján Þorbergsson (VSÍ)
         Lára V. Júlíusdóttir (ASÍ)
    71. þing, Genf 1985     Gylfi Kristinsson (félmrn.)
         Hannes Hafstein (utanrrn.)
         Kristján Þorbergsson (VSÍ)
         Lára V. Júlíusdóttir (ASÍ)
    72. þing, Genf 1986     Alexander Stefánsson (félmrn.)
         Hallgrímur Dalberg (félmrn.)
         Gylfi Kristinsson (félmrn.)
         Hannes Hafstein (utanrrn.)
         Kristján Þorbergsson (VSÍ)
        Guðmundur J. Guðmundsson (ASÍ)
    73. þing, Genf 1987     Gylfi Kristinsson (félmrn.)
         Kristinn Árnason (utanrrn.)
         Kristján Þorbergsson (VSÍ)
        Guðmundur J. Guðmundsson (ASÍ)
Jóhanna Sigurðardóttir     75. þing Genf 1988     Jóhanna Sigurðardóttir (félmrn.)
félagsmálaráðherra          Hallgrímur Dalberg (félmrn.)
1987–          Gylfi Kristinsson (félmrn.)
        Sverrir Haukur Gunnlaugsson (utanrrn.)
        Kristinn Árnason (utanrrn.)     
         Jón H. Magnússon (VSÍ)     
        Guðmundur J. Guðmundsson (ASÍ)
Félagsmálaráðherra:     Alþjóðavinnumálaþing:     Fulltrúar:
    76. þing, Genf 1989     Jóhanna Sigurðardóttir (félmrn.)
         Gylfi Kristinsson (félmrn.)
         Eyjólfur Sæmundsson (félmrn.)
        Sverrir Haukur Gunnlaugsson (utanrrn.)     
        Kristinn Árnason (utanrrn.)     
        Bjarnveig Eiríksdóttir (utanrrn.)
        Hrafnhildur Stefánsdóttir (VSÍ)
        Jón H. Magnússon (VSÍ)     
        Ásmundur Stefánsson (ASÍ)
        Guðmundur J. Guðmundsson (ASÍ)
    77. þing, Genf 1990     Gylfi Kristinsson (félmrn.)     
         Eyjólfur Sæmundsson (félmrn.)
         Kjartan Jóhannsson (utan          rrn.)     
         Kristinn F. Árnason (utanrrn.)     
         Stefán Jóhannesson (utanrrn.)
         Hrafnhildur Stefánsdóttir (VSÍ)
         Jón H. Magnússon (VSÍ)
         Þráinn Hallgrímsson (ASÍ)
        Guðmundur J. Guðmundsson (ASÍ)
    78. þing, Genf 1991     Jóhanna Sigurðardóttir (félmrn.)
         Gylfi Kristinsson (félmrn.)
         Kjartan Jóhannsson (utanrrn.)     
         Kristinn F. Árnason (utanrrn.)     
         Stefán Jóhannesson (utanrrn.)
         Hrafnhildur Stefánsdóttir (VSÍ)
         Jón H. Magnússon (VSÍ)     
        Guðmundur J. Guðmundsson (ASÍ)
         Þráinn Hallgrímsson (ASÍ)
    79. þing, Genf 1992     Gylfi Kristinsson (félmrn.)
         Eyjólfur Sæmundsson (félmrn.)
         Kjartan Jóhannsson (utanrrn.)     
         Kristinn F. Árnason (utanrrn.)     
         Stefán Jóhannesson (utanrrn.)
         Margrét Viðar (utanrrn.)
         Hrafnhildur Stefánsdóttir (VSÍ)
         Jón H. Magnússon (VSÍ)     
         Þráinn Hallgrímsson (ASÍ)
         Þórunn Sveinbjörnsdóttir (ASÍ)
Félagsmálaráðherra:     Alþjóðavinnumálaþing:     Fulltrúar:
    80. þing, Genf 1993     Gylfi Kristinsson (félmrn.)
         Eyjólfur Sæmundsson (félmrn.)
        Kjartan Jóhannsson (utanrrn.)     
         Lilja Ólafsdóttir (utanrrn.)     
         Stefán Jóhannesson (utanrrn.)
         Hrafnhildur Stefánsdóttir (VSÍ)
         Jón H. Magnússon (VSÍ)
         Benedikt Davíðsson (ASÍ)
         Bryndís Hlöðversdóttir (ASÍ)




Fylgiskjal V.


Skýrsla um starf nefndar sem fer með málefni Alþjóðavinnumálastofnunarinnar


og framkvæmd félagsmálasáttmála Evrópu á árinu 1993.


    Á 61. Alþjóðavinnumálaþinginu, sem haldið var í Genf árið 1976, var afgreidd samþykkt nr. 144, um um samstarf ríkisvalds og aðila vinnumarkaðarins um framkvæmd alþjóðlegra reglna á sviði vinnumála. Ísland fullgilti samþykktina árið 1981. Samþykktin endurspeglar það samstarf fulltrúa ríkisstjórna og aðila vinnumarkaðarins sem fram fer innan Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og skapar henni sérstöðu meðal annarra stofnana sem starfa innan vébanda Sameinuðu þjóðanna. Í öllum nefndum og ráðum stofnunarinnar eiga sæti fulltrúar ríkisstjórna, atvinnurekenda og launafólks. Í anda samþykktar nr. 144 var skipuð 16. apríl 1982 samstarfsnefnd ríkisvaldsins og aðila vinnumarkaðarins sem fjallar um samskipti Íslands við Alþjóðavinnumálastofnunina. Á árinu 1993 skipuðu eftirtaldir nefndina: Fulltrúi Alþýðusambands Íslands, Bryndís Hlöðversdóttir, lögræðingur ASÍ, fulltrúi Vinnuveitendasambands Íslands, Hrafnhildur Stefánsdóttir, lögfræðingur VSÍ, og fulltrúi félagsmálaráðuneytisins og jafnframt formaður nefndarinnar, Gylfi Kristinsson deildarstjóri.
    Verkefni nefndarinnar á árinu 1993 voru svipuð og næstu ár á undan, þ.e. að fara yfir drög að skýrslum til alþjóðavinnumálaskrifstofunnar í Genf um framkvæmd fullgiltra alþjóðasamþykkta, svara spurningaskrám sem skrifstofan sendir aðildarríkjunum þegar undirbúin eru drög að nýjum samþykktum og fjalla um athugasemdir sem sérfræðinganefnd ILO gerir við framkvæmd á alþjóðasamþykktum. Nefndin ræðir einnig framkvæmd Íslands á ákvæðum félagsmálasáttmála Evrópu.
    Nefnd um samskipti Íslands við Alþjóðavinnumálastofnunina hélt á árinu 1993 samtals 14 fundi. Helstu viðfangsefni nefndarinnar voru:

a. Skýrslur um framkvæmd alþjóðasamþykkta á sviði vinnumála.
    Samkvæmt 22. gr. stofnskrár Alþjóðavinnumálastofnunarinnar er aðildarríki skylt að gefa stofnuninni skýrslur um framkvæmd alþjóðasamþykkta. Þessi skylda er tvíþætt. Í fyrsta lagi skulu aðildarríkin gefa ILO reglulega skýrslur um framkvæmd þeirra samþykkta sem þau hafa fullgilt. Í öðru lagi getur stjórnarnefnd ILO falið alþjóðavinnumálaskrifstofunni að óska eftir skýrslum frá aðildarríkjunum um framkvæmd ákvæða í öðrum samþykktum sem þau hafa ekki fullgilt. Lagt er til í 5. gr. tillögu nr. 152, um samstarf um framkvæmd alþjóðlegra reglna á sviði vinnumála, að stjórnvöld hafi samráð við aðila vinnumarkaðarins um samningu þessara skýrslna.
    Á árinu 1993 undirbjó ILO-nefndin skýrslur ríkisstjórnarinnar um framkvæmd eftirfarandi alþjóðasamþykkta sem Ísland hefur fullgilt:
    Alþjóðasamþykkt nr. 2, um ráðstafanir gegn atvinnuleysi.
    Alþjóðasamþykkt nr. 29, um nauðungarvinnu eða skylduvinnu.
    Alþjóðasamþykkt nr. 98, um samningafrelsi.
    Alþjóðasamþykkt nr. 100, um jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf.
    Alþjóðasamþykkt nr. 108, um persónuskírteini sjómanna.
    Alþjóðasamþykkt nr. 122, um stefnu í atvinnumálum.
         Alþjóðasamþykkt nr. 139, um varnir gegn og eftirlit með áhættu í starfi vegna krabbameinsvaldandi efna.
    Alþjóðasamþykkt nr. 155, um öryggi og heilbrigði við vinnu og starfsumhverfi.
    Alþjóðasamþykkt nr. 159, um starfsendurhæfingu og atvinnumál fatlaðra.
    Af framangreindum níu skýrslum eru fjórar svonefndar fyrstu skýrslur. Í því felst að um er að ræða fyrstu skýrslu Íslands um framkvæmd á hlutaðeigandi samþykkt. Fyrsta skýrsla er að öllu jöfnu viðameiri en þær sem á eftir fylgja. Í henni þarf að gera ítarlega grein fyrir lögum, reglugerðum og ákvæðum í kjarasamningum sem snerta efni samþykktarinnar. Á árinu 1993 voru alþjóðavinnumálaskrifstofunni sendar fyrstu skýrslur um framkvæmd alþjóðasamþykkta nr. 122, 139, 155 og 159.

b. Skýrsla um 79. Alþjóðavinnumálaþingið 1992.
    Aðild að Alþjóðavinnumálastofnuninni fylgir sú skylda að kynna löggjafarsamkomu þær samþykktir sem Alþjóðavinnumálaþingin hafa afgreitt. Á Ísland er þetta ákvæði uppfyllt með þeim hætti að félagsmálaráðherra gefur Alþingi skýrslu um Alþjóðavinnumálaþingin. Í skýrslunum eru birtar í íslenskri þýðingu þær samþykktir, tillögur og ályktanir sem þingin hafa afgreitt. Á árinu 1993 var haft samráð við ILO-nefndina um skýrslu félagsmálaráðherra um 79. Alþjóðavinnumálaþingið sem haldið var 1992. Það þing afgreiddi nýja alþjóðasamþykkt um verndun launakrafna við gjaldþrot atvinnurekanda.
    79. Alþjóðavinnumálaþingið lauk fyrri umræðu um drög að nýrri alþjóðasamþykkt um aðgerðir til að hindra meiri háttar stórslys.

c. Undirbúningur fyrir þátttöku í 80. Alþjóðavinnumálaþinginu.
    ILO-nefndin fjallaði á fundum sínum fyrri hluta árs 1993 um dagskrármál 80. Alþjóðavinnumálaþingsins. Á fundunum var farið yfir drög að alþjóðasamþykkt um varnir gegn meiri háttar iðnaðarslysum. Enn fremur var farið yfir skýrslur sem alþjóðavinnumálaskrifstofan hafði tekið saman til undirbúnings umræðum um helstu dagskrármál vinnumálaþingsins.

d. Félagsmálasáttmáli Evrópu.
    Umfjöllun um aðild Íslands að félagsmálasáttmála Evrópu er meðal verkefna sem falin hafa verið ILO-nefndinni. Á árinu 1993 voru það einkum þrjú atriði sem voru á dagskrá nefndarinnar. Við upphaf ársins var lokið við að afgreiða drög að skýrslu Íslands um framkvæmd á ákvæðum félagsmálasáttmála Evrópu á árunum 1990 og 1991.
    Þess skal getið að að ráðherranefnd Evrópuráðsins samþykkti á fundi sínum 17. september 1992 að breyta til reynslu fyrirkomulagi á skýrslugjöf um framkvæmd sáttmálans. Samkvæmt 21. gr. sáttmálans skal þetta gert á tveggja ára fresti. Samkvæmt því hafa aðildarríkin tekið saman annað hvert ár skýrslu um framkvæmd allra fullgiltra ákvæða sáttmálans. Enn fremur hefur þeim verið skipt í tvo hópa og hafa ríkjahóparnir skipst á um að senda Evrópuráðinu skýrslur sínar. Þetta breytist þannig að nú skal til reynslu í næstu fjögur ár taka saman skýrslu á hverju ári um tiltekinn fjölda greina. Aðildarríkin munu í raun skila skýrslu á tveimur árum um framkvæmd ákvæða sáttmálans. Af breytingunni leiðir að sérfræðinganefndin getur nú samtímis lagt mat á framkvæmd allra aðildarríkjanna á ákvæðum sáttmálans. Það ætti að leiða til þess að betri samanburður fæst á framkvæmd ríkjanna á sáttmálanum.
    Í samræmi við breyttar reglur um skýrslur um framkvæmd á félagsmálasáttmálanum óskaði Evrópuráðið eftir skýrslu um framkvæmd á eftirtöldum greinum sáttmálans:
    12. gr., um rétt til félagslegs öryggis.
    13. gr., um rétt til félagslegrar aðstoðar og læknishjálpar (svör við spurningum).
    16. gr., um rétt fjölskyldunnar til félagslegrar, lagalegar og efnahagslegrar verndar, svör við spurningum.
    17. gr., um rétt mæðra og barna til félagslegrar og efnahagslegrar verndar.
    18. gr., um rétt til að stunda arðbært starf í landi annars samningsaðilans.
    ILO-nefndin vann á árinu að gerð draga að skýrslu um framkvæmd þessara greina. Skýrslan var send Evrópuráðinu 4. október 1993.

Athugasemdir við framkvæmd Íslands á ákvæðum félagsmálasáttmálans.


    Eins og greint er frá í skýrslu félagsmálaráðherra til Alþingis um 78. Alþjóðavinnumálaþingið 1991 bárust íslenskum stjórnvöldum í lok janúar 1992 athugasemdir sem nefnd óháðra sérfræðinga á vegum Evrópuráðsins gerir við framkvæmd Íslands á ákvæðum félagsmálasáttmála Evrópu á árunum 1988 og 1989. ILO-nefndin fjallaði um þessar athugasemdir í tengslum við fundi embættismannanefndar á vegum Evrópuráðsins sem fer yfir skýrslu sérfræðinganna. Með samþykkt bókunar við félagsmálasáttmálann haustið 1991 breytist hlutverk embættimannanefndarinnar þannig að henni er nú falið að velja þau tilvik, þar sem ákvæði félagsmálasáttmálans eru brotin að mati sérfræðinganefndarinnar, og leggja fyrir ráðherranefnd ráðsins að hún samþykki sérstök tilmæli til hlutaðeigandi ríkisstjórnar um úrbætur. Áður leit embættismannanefndin á það sem hlutverk sitt að túlka ákvæði sáttmálans. Sérfræðinganefndin fær hins vegar afdráttarlausara vald til að leggja lagalegt mat á framkvæmd aðildarríkja sáttmálans. Á fundum ILO-nefndarinnar var einkum rætt um athugasemdir sérfræðinganefndar Evrópuráðsins við 5. gr. félagsmálasáttmálans, um félagafrelsi, og 6. gr. sem m.a. er um rétt til að semja um kaup og kjör.

Endurskoðun félagsmálasáttmálans.


    Á árinu 1993 var fram haldið því verki sem hafið var árið 1990 þegar fundur evrópskra félagsmálaráðherra samþykkti tillögu Lalumiere, framkvæmdastjóra Evrópuráðsins, um endurskoðun á ákvæðum félagsmálasáttmálans. Í framhaldi af samþykkt tillögunnar var hafin endurskoðun sáttmálans af sérstakri nefnd á vegum Evrópuráðsins. Nefndin afgreiddi árið 1991 drög að bókun við félagsmálasáttmálann þar sem skýrar er kveðið á um hlutverk sérfræðinganefndar Evrópuráðsins. Í henni er einnig kveðið skýrar á um verkefni nefndar sem í eiga sæti fulltrúar aðildarríkja sáttmálans. Á vettvangi ILO-nefndarinnar var á árinu 1993 fyrst og fremst fjallað um drög að bókun við sáttmálann sem veitir heildarsamtökum vinnumarkaðarins rétt til að kæra framkvæmd sáttmálans til Evrópuráðsins. Um er að ræða svipað fyrirkomulag og nú tíðkast hjá Alþjóðavinnumálastofnuninni. Einnig hefur ILO-nefndin fjallað um tillögur um breytingar á einstökum efnisgreinum sáttmálans sem hafa verið á dagskrá endurskoðunarnefndarinnar.


Viðauki I.

Athugasemdir sérfræðinganefndar Evrópuráðsins við skýrslu Íslands um fram-
kvæmd félagsmálasáttmála Evrópu á árunum 1990 og 1991.

    Hér eru birtar athugasemdir sem nefnd óháðra sérfræðinga á vegum Evrópuráðsins hefur gert við framkvæmd Íslands á ákvæðum félagsmálasáttmála Evrópu á árunum 1990 og 1991. Athugasemdirnar eru birtar í skýrslu sérfræðinganefndarinnar European Social Charter, Committee of Independent Experts of the European Social Charter, Conclusions XIII-1, Strasbourg 1994. Það skal tekið fram að athugasemdir sérfræðinganefndarinnar eru ekki tilfærðar orðrétt heldur er um að ræða efnislega samantekt nema annað sé tekið fram. Tilvitnuð ákvæði sáttmálans eru einnig stytt.
    Framsetningin er í tveimur hlutum. Í fyrri hlutanum er að finna almennar athugasemdir sérfræðinganefndarinnar sem snerta Ísland. Í seinni hlutanum er samantekt þar sem gerð er grein fyrir því hvaða ákvæði Ísland telst að mati sérfræðinganefndarinnar framfylgja í samræmi við ákvæði sáttmálans og í hvaða tilvikum nauðsynlegt er að endurskoða framkvæmdina.
    Tekið skal fram að ráðherranefnd Evrópuráðsins samþykkti á 497. fundi í september 1993 að breyta framkvæmd á ákvæðum um skýrslur aðildarríkja félagsmálasáttmálans. Samkvæmt henni var óskað eftir skýrslu um framkvæmd á fyrstu sex greinum sáttmálans. Auk þess var óskað eftir skýrslum um framkvæmd þeirra greina þar sem sérfræðinganefndin hafði áður komist að neikvæðri niðurstöðu um framkvæmdina. Þar af leiðandi er það yfirlit yfir athugasemdir sérfræðinganefndarinnar, sem hér er birt, ekki fyllilega sambærilegt við hliðstæð yfirlit sem áður hafa verið birt í skýrslu félagsmálaráðherra til Alþingis. Við þetta má bæta að íslensk stjórnvöld sendu Evrópuráðinu í ársbyrjun 1993 skýrslu um framkvæmd annarra fullgiltra greina sáttmálans.

Almennar athugasemdir sérfræðinganefndarinnar.

Félagafrelsi og samningafrelsi.

    Í skýrslu sinni gerir sérfræðinganefndin sérstaklega að umtalsefni framkvæmd ákvæða félagsmálasáttmálans um félagafrelsi og samningafrelsi. Hún minnir á að 5. og 6. gr., sem tryggja annars vegar félagafrelsi og hins vegar rétt heildarsamtaka til að gera kjarasamninga, teljast tryggja tvenn af mikilvægustu réttindum sáttmálans og vera hluti af megininntaki hans sem getið er í 20. gr. Nefndin vekur athygli á því að ríkjum, sem fullgilda sáttmálann, er ekki skylt að hlíta ákvæðum þessara greina þrátt fyrir mikilvægi þeirra í því skyni að tryggja réttindi launafólks og atvinnurekenda. Hún tekur fram að Grikkir og Tyrkir hafa ekki samþykkt þessi ákvæði og Austurríki og Lúxemborg hafa ekki samþykkt 4. mgr. 6. gr. Nefndin lætur í ljós von um að þessar aðildarþjóðir sjái sér fært að samþykkja öll ákvæðin í náinni framtíð. Hún gefur því einnig gaum að Portúgalar hafa samþykkt 4. mgr. 6. gr. með fyrirvara hvað snertir verkbann, en slíkt er bannað samkvæmt ákvæðum stjórnarskrár Portúgals, og að Hollendingar hafa samþykkt 4. mgr. 6. gr. með fyrirvara hvað snertir verkfallsrétt opinberra starfsmanna. Hún minnir á að ríkisstjórn Hollands gerir ráð fyrir að afnema þennan fyrirvara í náinni framtíð og gefur því gaum að í Hollandi eru í raun, eins og sakir standa nú, engar hömlur á verkfallsrétti opinberra starfsmanna.
    Sérfræðinganefndin víkur að endurskoðun félagsmálasáttmálans og telur mikilvægt að við efnislega endurskoðun sáttmálans, sem fer nú fram á vegum nefndar um félagsmálasáttmálann (Charte-rel-nefndarinnar), verði hugað að því að skylda aðildarþjóðirnar til að samþykkja 5. og 6. gr.
    Síðan segir: „Nefndin hefur ávallt haldið því fram að 5. gr. tryggi jafnt neikvæða og jákvæða þætti félagafrelsisins og því ætti ekki að skylda neinn til að ganga í verkalýðsfélag eða tiltekið verkalýðsfélag.
    Nefndin minnir á að þar af leiðandi hafi það ávallt verið skoðun hennar að sá háttur sumra fyrirtækja að ráða aðeins til starfa félaga í tilteknu verkalýðsfélagi jafngilti takmörkun á rétti til að stofna félög og félagafrelsi. Nefndin vísar til almennra athugasemda sinna í Niðurstöðum VIII þar sem segir: „Engin aðildarþjóð má láta undir höfuð leggjast að hafa til reiðu réttarúrræði eða viðurlög vegna starfshátta sem hefta ótilhlýðilega frelsi til að stofna eða ganga í verklýðsfélög“ (bls. 77). Hún vísar einnig til Niðurstaðna XI-1, þar sem segir: „... frelsi til að ganga í verkalýðsfélög, sem tryggt er í 5. gr. sáttmálans, felur óhjákvæmilega í sér að ekki er um að ræða neins konar skyldu til að ganga í eða vera félagi í verkalýðsfélagi ...“ (bls. 78).
    Nefndin fagnar því úrskurði mannréttindadómstóls Evrópu í máli Sigurðar A. Sigurjónssonar gegn ríkisstjórn Íslands (mál nr. 24/1992/369/443) þar sem rétturinn staðfestir hinn neikvæða þátt 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu (félagafrelsi, þar með talinn rétt til að stofna og ganga í verklýðsfélög). Hún gefur því gaum að málið snertir rétt leigubílstjóra til að ganga ekki í félag, ástand sem nefndin hefur gagnrýnt um árabil, og gefur gaum að því að dómstóllinn vitnaði í niðurstöður nefndarinnar í 35. gr. dómsins frá 30. júní 1993.
    Í þessu sambandi veitir nefndin því athygli með ánægju að löggjöf á Norður-Írlandi hefur nú verið færð til samræmis við löggjöf í Stóra-Bretlandi þannig að nú er fyrirtækjum bannað að ráða aðeins í vinnu þá sem eiga aðild að tilteknu verkalýðsfélagi.
    Jafnframt því vitnar hún í niðurstöður sínar varðandi 5. gr., Frakkland, og gefur gaum að því að þrátt fyrir að frönsk löggjöf samræmist ákvæðum sáttmálans eru uppi efasemdir um ástandið í reynd í tveimur atvinnugreinum. Nefndin mun halda áfram að fylgjast með framgangi mála hvað snertir þann sið fyrirtækja í aðildarríkjunum að ráða aðeins til starfa félaga úr tilteknu verkalýðsfélagi og vonast til að í næstu skýrslum aðildarríkjanna um 5. gr. komi fram ítarlegar og nákvæmar upplýsingar um þetta mál, bæði hvað snertir löggjöf og framkvæmd.
    Við lestur skýrslna skv. 5. og 6. gr. hefur nefndin einnig orðið þess vör að stjórnvöld í mörgum löndum hafa í vaxandi mæli lagt hömlur á þau réttindi sem tryggð eru með þessum ákvæðum. Þannig hafa í Stóra-Bretlandi verði gerðar breytingar á lögum sem valda því að ákvæði laganna jafngilda hömlum á rétti verkalýðsfélaga til að stjórna eigin málum; í Noregi gripu stjórnvöld í taumana og bönnuðu verkfall og fyrirskipuðu bindandi gerðardóm í vinnudeilu í olíuiðnaðinum; í Frakklandi heimila lög að eins dags laun séu dregin af launum ríkisstarfsmanna þótt verkfall standi styttra en einn dag; á Íslandi settu stjórnvöld bráðabirgðalög til að fresta launahækkunum sem samið hafði verið um í almennum kjarasamningum; og í Hollandi fyrirskipaði Hæstiréttur (að vísu utan viðmiðunartímans) takmörkun á tímalengd verkfalls á þeim forsendum að það væri ólöglegt vegna þess að það skaðaði þriðja aðila.

Athugasemdir sérfræðinganefndarinnar við framkvæmd einstakra greina sáttmálans:

1. gr.

     1. mgr., um að allir menn skuli eiga þess kost að vinna fyrir sér í starfi sem þeir hafa sjálfir valið.
    * Við lestur skýrslu Íslands gefur nefndin því gaum að aðeins hefur orðið smávægileg aukning á hagvexti á viðkomandi tímabili. Atvinnuleysi var 1,7% að meðaltali 1990 en féll niður í 1,5% að meðaltali 1991. Nefndin veitir því athygli að atvinnuleysi kvenna minnkaði (úr 2,3% 1990 í 1,7% 1991) og minni munur varð á þessum tölum fyrir karla og konur.
    Nefndin veitir einnig athygli þeim árangri sem náðst hefur í baráttunni við verðbólgu og að gerður var hóflegur samningur um kaupgjald og verðlag í febrúar 1990, en markmiðið með honum var að stuðla að hagvexti og tryggja að störfum fækkaði ekki.
    Nefndin óskar þess að fá áfram upplýsingar um þróun þessara mála.

     2. mgr., um að réttur verkafólks til að vinna fyrir sér í starfi sem það hefur valið sér sé verndaður á raunhæfan hátt.
    * Nefndin gefur gaum að því í skýrslu Íslands að engar breytingar hafa verið gerðar hvað snertir bann við nauðungarvinnu. Hún ítrekar því jákvæða niðurstöðu sína hvað þetta snertir.
    Hvað snertir útrýmingu misréttis til vinnu gefur nefndin gaum að setningu nýrra laga (nr. 28) 1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla sem gefur fyrri ákvörðunum aukið vægi og snýr m.a. við sönnunarbyrðinni í málum sem skotið er til kærunefndar þar eð svo er mælt fyrir (í 6. gr.) að hlutaðeigandi vinnuveitandi skuli sanna fyrir nefndinni að ákvörðun hans hafi byggst á öðrum ástæðum en kynferði; kærunefndinni er einnig falið að sinna nokkrum af verkefnum Jafnréttisráðs og komið skal á fót jafnréttisnefndum í sveitarfélögum. Nefndin gefur einnig gaum að málum sem skotið hefur verið til nefndarinnar síðan í júlí 1991, en þau snerust öll um meinta mismunum við mannaráðningar.
    Nefndin óskar þess að fá upplýsingar um störf kærunefndar hvað snertir misrétti til starfa, svo og um störf Jafnréttisráðs og jafnréttisnefnda sveitarfélaga.
    Nefndin veitir því einnig athygli að í 17. gr. laga nr. 28 frá 1991 eru ákvæði þess efnis að félagsmálaráðherra skuli leggja fyrir Alþingi fjögurra ára áætlun um jafnréttismál og gefa Alþingi skýrslu um stöðu mála með tilliti til endurskoðunar áætlunarinnar sem fram skal fara á tveggja ára fresti. Nefndin óskar þess að fá upplýsingar um hvernig áætluninni miðar fram og, ef við á, um inntak skýrslu félagsmálaráðherra til Alþingis.
    Nefndin tekur fram að henni hafi einnig borist upplýsingar frá Alþjóðavinnumálastofnuninni (ILO) þess efnis að ríkisstjórnin hafi samþykkt aðra fjögurra ára áætlun (1991–1994) um ráðstafanir til að tryggja jafnrétti kynjanna, einkum með því að bæta stöðu kvenna á vinnumarkaðnum, og hún óskar því eftir að fá upplýsingar um efni áætlunarinnar, framkvæmd hennar og þann árangur sem náðst hefur. Hún óskar einnig eftir að fá almennar upplýsingar um árangur af ýmsum ráðstöfunum sem gerðar hafa verið til að hamla gegn misrétti milli karla og kvenna til vinnu.
    Fram kemur að nefndin hefur í fyrri niðurstöðum sínum (Niðurstöður XII-I, 2. mgr., 1. gr., bls. 54) einnig óskað eftir upplýsingum um ráðstafanir sem gerðar hafa verið til að hvetja til þess að fólk fái jöfn tækifæri til vinnu og jafnan aðgang að atvinnugreinum án mismununar sökum þjóðernis, stjórnmálaskoðana eða kynþáttar (spurning 1 á eyðublaðinu). Í skýrslunni er vitnað í 233. gr. hegningarlaga og lög nr. 55/1980 sem mæla svo fyrir að engum starfsmanni mega greiða lægri laun en um hefur verið samið í almennum kjarasamningum og að ríkisstjórnin telji að þessi ákvæði nægi til að tryggja að ákvæðum 2. mgr. 1. gr. verði framfylgt.
    Nefndin er þeirrar skoðunar að ákvæði laganna frá 1980, sem tryggja ekki einu sinni jafnrétti til launa, tryggi hvorki jafnan aðgang að vinnu né jöfn tækifæri til að fá vinnu. Enn fremur hefur nefndin þegar gefið því gaum (sjá fyrri niðurstöður) að 233. gr. hegningarlaga nái ekki til misréttis til vinnu. Nefndin óskar eftir að fá upplýsingar um hvort þessu ákvæði hegningarlaga hefur nokkurn tíma verið beitt varðandi misrétti til vinnu; hún óskar einnig eftir því að fá upplýsingar um hvernig ástandið er í raun og spyr hvort íslensk stjórnvöld hyggist gera viðeigandi ráðstafanir á þessu sviði.
    Meðan beðið er eftir þeim upplýsingum sem óskað er eftir ítrekar nefndin jákvæða niðurstöðu sína en setur fyrirvara vegna mikilvægis þeirra spurninga sem enn er ósvarað.

     3. mgr., um ókeypis vinnumiðlun fyrir allt verkafólk.
    * Nefndin kveður engar breytingar hafa orðið á aðstæðum sem hún taldi áður í samræmi við ákvæði sáttmálans. Með hliðsjón af auknu atvinnuleysi frá því haustið 1988 óskar hún eftir upplýsingum um miðlun vinnu með aðstoð opinberrar vinnumiðlunar og vinnumiðlana á vegum einkaaðila.

2. gr.

     1. mgr., um skyldu samningsaðila til að sjá til þess að daglegur og vikulegur vinnustundafjöldi sé hæfilegur og markvissa styttingu vinnuvikunnar.
    * Nefndin kveðst veita því athygli að kjararannsóknarnefnd hafi tekið upp aðferðir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar við útreikning á vinnutíma. Niðurstöður nefndarinnar leiða í ljós að meðal vinnutími árið 1990 var 37,3 stundir og 36,9 stundir árið 1991.
    Hún tekur hins vegar fram að þessar upplýsingar séu ekki í samræmi við það sem komi fram í árbók ILO um hagtölur vinnumarkaðarins árið 1992. Þar kemur fram að meðalvinnutími árið 1991 á Íslandi hafi verið 46,5 stundir.
    Sérfræðinganefndin telur að munurinn geti falist í þeirri staðreynd að tölur ILO taka ekki til allra þeirra starfsgreina sem könnun kjararannsóknarnefndar tekur til. Nefndin fer þess vega á leit við stjórnvöld að þau láti í té upplýsingar um vinnutíma einstakra starfsgreina.
    Nefndin veitti því enn fremur athygli að ekki komu fram upplýsingar um vinnutíma sjómanna í skýrslu Íslands. Hún óskar eftir slíkum upplýsingum í næstu skýrslu.
    Nefndin kveðst hafa veitt því athygli í fyrri skýrslum Íslands að ríkisstjórninni er „ljóst að flest vinnandi fólk vinnur langan vinnutíma“ og að hún hafi skipað sérstakan starfshóp 1987 til að gera tillögur sem skyldu leiða til styttingar hans. Nefndin gefur gaum að því að tillögum starfshópsins — þar sem bent er á tiltekin svið þar sem aðilar vinnumarkaðarins geta tekið á málum með samkomulagi, t.d. um lækkun yfirvinnukaups og hækkun dagvinnukaups, svo og ráðstafanir sem ríkisstjórnin gæti gripið til, svo sem að takmarka yfirvinnutíma með lögum — var vísað til aðila vinnumarkaðarins til umsagnar. Nefndin óskaði eftir að fá upplýsingar um þær ráðstafanir sem íslenska ríkisstjórnin og aðilar vinnumarkaðarins hafa gripið til í því skyni að fækka vinnutímum í samræmi við tillögur starfshópsins. Um leið og sérfræðinganefndin harmar að þessar upplýsingar hafa ekki borist endurtekur hún ósk sína.

3. gr.

     1. mgr., um útgáfu öryggis- og heilbrigðisreglugerða.
    * Í skýrslu Íslands er ekki að finna upplýsingar um efni heilbrigðis- og öryggisreglugerða sem gefnar voru út 1988 og 1989 eins og óskað hafði verið eftir í síðustu niðurstöðum. Hún ítrekar því ósk sína þess efnis og vonast til að næsta skýrsla hafi að geyma slíkar upplýsingar.
    Nefndin gefur gaum að upplýsingum í skýrslunni um reglugerð um flokkun, merkingu og notkun hættulegra efna og efnasambanda sem gefin var út 1990.
    Hún veitir því einnig athygli að í undirbúningi er að gefa út reglugerð um að skylda seljendur kemískra efna til að gefa út leiðbeiningar handa notendum slíkra efna. Nefndin óskar að fá upplýsingar um framvindu þessarar tillögu.
    Nefndin gefur því einnig gaum að hvorki í síðustu skýrslu né hinum fyrri hefur komið fram hvort heilbrigðis- og öryggisreglugerðir nái einnig til þeirra sem starfa sjálfstætt. Hún vísar til fordæmisréttar sem mælir svo fyrir að ekki sé unnt að líta svo á að ástandið sé viðunandi hvað snertir öruggar og heilnæma vinnuaðstæður ef þær ná hvorki til sjálfstætt starfandi fólks í landbúnaði, iðnaði og verslun, né fjölskyldna þeirra (Niðurstöður II, bls. 12).
    Nefndin spyr því hvort heilbrigðis- og öryggisreglugerðir nái til þeirra sem starfa sjálfstætt. Hún óskar einnig eftir upplýsingum að hve miklu leyti reglugerðin nái til starfa á vegum hins opinbera.
    Meðan beðið er eftir þeim upplýsingum sem óskað er eftir ítrekar nefndin jákvæða niðurstöðu sína en setur fyrirvara vegna mikilvægis þeirra spurninga sem enn er ósvarað.

    2. mgr., um eftirlit með framkvæmd öryggis- og heilbrigðisreglugerða.
    * Nefndin veitir því athygli í skýrslu Íslands að fjöldi kannana, sem fram fóru á viðmiðunartímanum, var svipaður og á fyrra tímabili.
    Nefndin harmar að í skýrslunni skuli ekki vera neinar hagtölur um atvinnusjúkdóma, svo sem hún hafði óskað eftir í fyrri niðurstöðum sínum og vonaðist því eftir að fá í síðustu skýrslu.
    Nefndin gefur gaum að svari ríkisstjórnar Íslands við ósk hennar um hagtölur um vinnuslys. Hún er þeirrar skoðunar að hagtölurnar virðist benda til verulegrar aukningar á fjölda vinnuslysa (739 voru tilkynnt til Vinnueftirlits ríkisins 1990, 422 árið 1989 og 399 árið 1988), en í skýrslunni er gefin sú skýring að aukning á tíðni stafi af breytingu á reglugerð frá 1990 um tilkynningarskyldu varðandi vinnuslys. Auk þess veitir nefndin því athygli að u.þ.b. 12.000 vinnuslys eru skráð árlega hjá slysadeildum sjúkrahúsa.
    Nefndin lýsir áhyggjum sínum yfir þessu og spyr að hve miklu leyti breytingar á tilkynningakerfinu hafi valdið aukningu á þessari hagtölu. Hún óskar einnig eftir upplýsingum um efni reglugerðar um tilkynningarskyldu hvað varðar vinnuslys og þær breytingar sem fyrirhugaðar eru svo að Vinnueftirliti ríkisins verði kleift að fá upplýsingar um öll vinnuslys. Nefndin óskar einnig eftir að fá upplýsingar um fjölda tilvika um atvinnusjúkdóma sem þegar hefur verið óskað eftir.
    Meðan beðið er eftir þeim nákvæmu upplýsingum, sem nefndin gerir kröfu um, ítrekar hún jákvæða niðurstöðu sína, en setur fyrirvara vegna mikilvægis þeirra spurninga sem enn er ósvarað.

     3. mgr., um samráð við aðila vinnumarkaðarins um ráðstafanir sem ætlað er að bæta öryggi og heilbrigði á vinnustöðum.
    * Nefndin gefur því gaum að í skýrslu Íslands segir að nýjum reglugerðum og frumkvæði varðandi heilbrigði og öryggi við vinnu séu að jafnaði hrundið í framkvæmd að höfðu samráði við fulltrúa aðila vinnumarkaðarins.
    Í fyrri niðurstöðum sínum sagði nefndin að ástandið teldist viðunandi síðan hún fékk 2. skýrslu Íslands í hendur (7. umferð) þar eð þátttaka fulltrúa aðila vinnumarkaðarins við samningu reglugerðar til að framfylgja lögum nr. 46/1980, um vinnuvernd og vinnuaðstæður, hafði verið tryggð með setu þeirra í stjórnarnefnd sem stofnuð var samkvæmt þessum lögum. Hins vegar hefur ríkisstjórn Íslands ekki gefið neinar upplýsingar um störf stjórnarnefndarinnar. Nefndin ítrekar því ósk sína um slíkar upplýsingar í næstu skýrslu. Hún ítrekar jákvæða niðurstöðu sína með fyrirvara um ofangreint atriði.

4. gr.

     1. mgr., um rétt verkafólks til kaups sem veiti því og fjölskyldum þess sómasamleg lífskjör.
    * Nefndin gefur gaum að upplýsingum sem fram koma í skýrslu Íslands. Hún harmar að enn skuli ekki hafa reynst mögulegt að gefa nefndinni upplýsingar um meðallaun á Íslandi eftir því sem fram kemur í skýrslunni. Nefndin gerir sér grein fyrir því að erfitt kann að reynast að gefa slíkar upplýsingar en óskar eftir því að í næstu skýrslu verði nákvæmari upplýsingar um laun sem ná til stærri hóps launafólks en þær sem fram koma í síðustu skýrslu, svo að nefndinni verði kleift að komast að raun um hver lágmarkslaun ættu að vera.
    Nefndin veitir því athygli að samkvæmt skýrslunni eru „atvinnutekjur“ ekki eina tekjuöflunarleiðin; hún óskar því upplýsinga um aðrar tekjuöflunarleiðir og áhrif skatta á lægstu tekjur.

     3. mgr., um viðurkenningu á rétti karla og kvenna til sama kaups fyrir jafnverðmæt störf.
    * Nefndin gefur því gaum að á Íslandi voru sett ný lög, nr. 28/1991, um jafna stöðu og jafnrétti kvenna og karla, á viðmiðunartímanum. Hún gefur því gaum að stofnuð hefur verið sérstök kærunefnd til að rannsaka meint brot á jafnréttislögunum og gera tillögur til aðila á grundvelli niðurstaðna sinna. Nefndin gefur gaum að því að þótt niðurstöður kærunefndar séu ekki bindandi fyrir aðila er kærunefndinni heimilt að höfða mál til að afla formlegrar viðurkenningar á lagalegum rétti sóknaraðila.
    Nefndin veitir því athygli að sönnunarbyrði hefur verið snúið við í málum vegna meintrar kynferðislegrar mismununar sem skotið er til kærunefndar. Sönnunarbyrðin hefur nú færst á hendur vinnuveitanda að sanna að sú meðferð, sem kært var yfir, hafi ekki byggst á kynferði sóknaraðila. Nefndin veitir þessum umbótum athygli og óskar eftir upplýsingum í þessu skyni hvort sönnunarbyrði hefur einnig verið snúið við í þeim málum sem sóknaraðili beinir fremur til almennra dómstóla en kærunefndar.
    Nefndin gefur gaum að svari við fyrri spurningum um hvaða leiðir eru færar fyrir mann sem höfðar mál vegna meintrar kynferðislegrar mismununar án íhlutunar kærunefndar. Einstaklingur getur óskað eftir því að þær ráðstafanir, meðferð eða ákvæði, sem vefengd eru, verði lýst ógild, auk þess sem hann krefst bóta, en kærunefndin getur aðeins krafist bóta og fullrar viðurkenningar á öllum lagalegum rétti sóknaraðila.
    Hvað viðvíkur bótum fyrir ósanngjarna uppsögn úr starfi (t.d. vegna óskar um jöfn laun) veitir nefndin því athygli að í hinni nýju löggjöf um jafnrétti kynjanna til vinnu er gert ráð fyrir því að nú sé heimilt að dæma mönnum bætur vegna skaða á mannorði, óþæginda eða röskunar á stöðu og persónulegum högum, auk bóta vegna fjárhagstjóns. Nefndin gefur því gaum að hér er um að ræða úrbætur (en áður takmörkuðust bætur við fjárhagstjón). Með tilliti til fordæmisréttar (Niðurstöður IX, bls. 44; XII-1, bls. 96), sem gerir ráð fyrir því, ef endurráðning er ekki möguleg, að skaðabætur verði að nægja til að hafa hemil á vinnuveitanda og veita starfsmanni bætur, vill nefndin fá upplýst hvort lög takmarka upphæð bóta sem veittar kunna að verða og, ef svo er, hver slík takmörk eru.
    Með hliðsjón af þeirri óvissu, sem ríkir varðandi bætur, ákvað nefndin að fresta því að skrá niðurstöðu sína þangað til hún hefði fengið í hendur þær upplýsingar sem óskað hefur verið eftir.
    Samkvæmt upplýsingum fengnum úr athugasemdum sérfræðinganefndar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar 1992, samkvæmt ákvæðum alþjóðasamþykktar nr. 100 (um jöfn laun karla og kvenna fyrir jafnverðmæt störf, 1951) og alþjóðasamþykktar nr. 111 (um misrétti með tilliti til atvinnu og starfs, 1958) svo og samkvæmt beinum tilmælum samkvæmt ákvæðum alþjóðasamþykktar nr. 111, gefur nefndin gaum að því að ráðgert er að gera könnun á launum og fríðindum kvenna og karla í fimm stórum ríkisstofnunum, en þetta er þáttur í fjögurra ára áætlun í jafnréttismálum. Nefndin hefur einnig sömu heimildir fyrir því að nú stendur yfir fimm ára verkefni um jöfn laun í því skyni að safna fáanlegum gögnum um mismunun kvenna og karla til launa, að grafast fyrir um orsakir hennar og gera tillögur um að ryðja úr vegi hindrunum fyrir jöfnum launakjörum. Þetta er liður í framkvæmdaáætlun um norræna samvinnu um jafnrétti kvenna og karla (1989–1993). Nefndin æskir þess að fá upplýsingar um niðurstöður beggja þessara verkefna.

    4. mgr., um rétt verkafólks til hæfilegs uppsagnarfrests.
    * Sérfræðinganefndin kveðst veita athygli upplýsingum í skýrslu Íslands um að starfsmaður í hlutastarfi, sem hafi sama atvinnurekanda, njóti sama réttar og starfsmaður í fullu starfi að því er varðar uppsagnarfrest, þ.e. starfsmaður, sem hefur unnið 775 stundir síðustu 12 mánuði á rétt á eins mánaðar uppsagnarfresti. Nefndin óskar eftir því að fá vitneskju um uppsagnarrétt starfsmanna sem vinna skemur en 15 stundir á viku (þ.e. minna en 775 stundir samtals undanfarna 12 mánuði) og hvaða uppsagnarrétt starfsmaður (í fullu starfi og hlutastarfi) hefur sem unnið hefur skemur en 12 mánuði.
    Niðurstaða nefndarinnar er að Ísland standi við skuldbindingar samkvæmt málsgreininni.

5. gr.

     Greinin fjallar um réttinn til að stofna félög.
    * Um framkvæmd þessarar greinar segir orðrétt: „Nefndin gerir sér grein fyrir því að þótt skýrslan varpi frekara ljósi á núverandi reglur sem gilda um lög um stéttarfélög hefur ekki orðið nein breyting á því ástandi sem hún hefur gagnrýnt áður að sé ekki í samræmi við óvefengdan fordæmisrétt hennar. Hún veitir því sérstaka athygli að bæði ríkisstjórnin og Alþýðusamband Íslands hafna þeirri skoðun að 5. gr. veiti ekki aðeins jákvæðan rétt til að stofna félög heldur einnig neikvæðan rétt hvað snertir félagafrelsi, en Vinnuveitendasamband Íslands tekur undir skoðun nefndarinnar.
    Hvað snertir atvinnuleysistryggingar gefur nefndin því gaum að stofnuð hefur verið nefnd sem endurskoða skal rétt til atvinnuleysisbóta. Nefndin óskar að fá upplýsingar um niðurstöðu þeirrar endurskoðunar en er enn þeirrar skoðunar að ákvæðin, sem útiloka þá sem eiga ekki aðild að verkalýðsfélagi frá því að fá atvinnuleysisbætur, þótt framlög til slíkra sjóða séu fengin úr opinberum sjóðum og innheimt með launaskatti, séu ekki í samræmi við 5. gr. sáttmálans.
    Hún gefur því einnig gaum, hvað snertir almenna spurningu, að Ísland hefur enga sérstaka skipaskrá auk venjulegrar skrár yfir siglingar.

6. gr.


    2. mgr., um að stuðlað sé að frjálsum samningaumleitunum milli vinnuveitenda og verkalýðsfélaga til að ákvarða laun og vinnuskilyrði með heildarsamningum.
    * Nefndin veitir því athygli í skýrslu Íslands að í febrúar 1990 komu ríkisstjórnin og hinir ýmsu aðilar vinnumarkaðarins sér saman um það, að höfðu samráði og að loknum samningaviðræðum, að hafa hemil á launahækkunum á tímum vaxandi verðbólgu og aukins atvinnuleysis.
    Nefndin gefur gaum að því að þjóðarsáttin átti að vera í gildi þangað til í september 1991, en megintilgangurinn með henni var að stuðla að efnahagslegri viðreisn með því að hafa hemil á launahækkunum og gera ráðstafanir til að stofna sérstaka launamálanefnd.
    Nefndin gaf gaum að því að í ágúst 1990, eftir að Bandalag háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna (BHMR) hafnaði að sætta sig við ákvæði þjóðarsáttar, frestaði ríkisstjórnin launahækkunum sem koma skyldu til framkvæmda samkvæmt almennum kjarasamningi milli ríkisstjórnarinnar og BHMR í því skyni að koma í veg fyrir víxlhækkanir launa og verðlags og vernda áætlunina um viðreisn efnahagslífsins. Hún gefur einnig gaum að niðurstöðum sérfræðinganefndar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar hvað varðar kæru BHMR þar sem vefengt er að umrædd lög séu í samræmi við stjórnarskrána. Það sem einkum vekur athygli er að þótt sérfræðinganefnd Alþjóðavinnumálastofnunarinnar hafi viðurkennt að nauðsynlegt kunni að reynast, vegna brýnna þjóðarhagsmuna, að leggja hömlur á gerða kjarasamninga er nauðsynlegt að slíkar hömlur vari aðeins um stuttan tíma og um leið séu gerðar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja lífskjör launafólks.
    Nefndin hefur einnig fengið þær upplýsingar frá Alþjóðavinnumálastofnuninni að Hæstiréttur Íslands hafi komist að þeirri niðurstöðu, þótt utan viðmiðunartímans væri, að þótt ákvæði bráðabirgðalaganna samræmdust stjórnarskránni væru þau í vissum skilningi ósamrýmanleg meginreglum stjórnarskrárinnar um jafnræði, og var niðurstaða dómsins sú að BHMR ætti kröfu á bótum. Nefndin óskar eftir því að í næstu skýrslu komi fram upplýsingar um framvindu og þróun viðræðna í því skyni að gera almennan kjarasamning við þetta félag.
    Eftir að hafa vitnað í óvefengdan fordæmisrétt — sem síðast var vitnað til í Niðurstöðum XII-I (bls. 120 og áfram) — að teknu tilliti til tímabils samráðs, sem leiddi til þess að aðilar vinnumarkaðarins gerðu með sér samning, sem hafði það markmið að hafa hemil á launahækkunum í tiltekinn tíma í því skyni að stuðla að viðreisn efnahagslífsins komst nefndin að þeirri niðurstöðu að ríkisstjórnin fylgdi enn þessu ákvæði sáttmálans. Hins vegar óskar nefndin eftir staðfestingu á því að þessi bráðabirgðalög hafi síðar verið felld úr gildi í samræmi við skýr ákvæði samningsins.
    Loks vekur það athygli nefndarinnar að fá það svar við almennri spurningu um alþjóðlega skipaskrá sem send var aðildarríkjunum skv. 5. gr. að Ísland hefur ekki slíkt ákvæði.

     3. mgr., um skipulag sáttafyrirkomulags og gerðardóma eftir samkomulagi við lausn vinnudeilna.
    * Sérfræðinganefndin kveðst veita því athygli í íslensku skýrslunni að til viðbótar við ákvæði í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði og milli opinberra starfamanna og ríkis og sveitarfélaga eru í gildi lagaákvæði um sáttanefndir og gerðardóma til að leysa úr ágreiningsefnum sem upp koma í samningaviðræðum. Nefndin tekur einnig eftir að aðilar vinnumarkaðarins geta, ef þeir sjálfir kjósa, skotið deilu til gerðardóms, en þessi leið er mjög sjaldan valin. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að Ísland standi við skuldbindingar samkvæmt málsgreininni.

     4. mgr., um rétt verkafólks og vinnuveitenda á sameiginlegum aðgerðum þegar hagsmunaárekstrar verða.
    * Nefndin kveðst gefa gaum skýringum sem fram koma í skýrslu Íslands að því er varðar skrá yfir starfsmenn sem gegna störfum, sem nauðsynleg eru til að veita lágmarksþjónustu í sambandi við vernd á eignum og einstaklingum. Þessir starfsmenn hafa ekki rétt til að gera verkfall. Nefndin væntir þess að hliðstæð skrá haldi áfram að berast Evrópuráðinu á öðru tveggja opinberu tungumáli ráðsins. Sérfræðinganefndin óskar eftir upplýsingum um það með hvaða hætti samtök starfsmanna eru höfð með í ráðum þegar skráin er samin, þ.e. aðild að ákvörðun um starfshópa og fjölda starfsmanna sem hún tekur til.
    Í skýrslunni segir að sérfræðinganefndin harmi það að ákvæði laga nr. 94/1986 haldi áfram að takmarka rétt opinberra starfsmanna til að boða verkfall í því skyni að ná kjarasamningi. Nefndin minnir á fordæmisrétt í þessu sambandi þar sem slíkar takmarkanir eru óaðgengilegar. Nefndin telur því að aðstæður að þessu leyti séu ekki í samræmi við þetta ákvæði sáttmálans.
    Nefndin harmar einnig að sjá í skýrslunni að ríkisstjórnin staðfestir að rétturinn til að boða verkfall er eingöngu í höndum stéttarfélags. Hún minnir á að samkvæmt ákvæðum sáttmálans eiga starfsmenn rétt til að boða verkfall jafnvel þótt þeir séu ekki í stéttarfélagi. Niðurstaða nefndarinnar er sú að aðstæður að þessu leyti haldi áfram að vera í ósamræmi við ákvæði 4. mgr. 6. gr. sáttmálans.


13. gr.

    1. mgr., um að sérhverjum manni, sem hefur ónóg fjárráð og getur ekki aflað þeirra af eigin rammleik, verði veitt næg aðstoð.
    * Nefndin gefur gaum að þeim upplýsingum um lög nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, sem er að finna í skýrslu Íslands. Hún gerir sér grein fyrir því að með lögunum er breytt uppbyggingu og stjórn félagslegrar þjónustu. Hún gerir sér einnig grein fyrir því að sveitarstjórnir bera ábyrgð á stjórnun og framkvæmd félagslegrar þjónustu, m.a. félagslegrar aðstoðar, innan umdæmis síns og ber þeim að skipa nefnd um félagslega þjónustu í þessu skyni. Nefndin gefur gaum að því að í lögunum segir að fjárhagsaðstoð sveitarfélags skuli vera eins víðtæk og nauðsynlegt er talið og gæti verið í formi láns eða styrks. Hún gefur gaum að því að reglugerðir um veitingu fjárhagsaðstoðar eru settar í sveitarfélögunum, að félagsmálaráðuneytið aðstoðar við setningu slíkra reglna og skyldar sveitarstjórnir til að leggja reglurnar fyrir ráðuneytið. Nefndin óskar eftir að fá frekari upplýsingar um slíkar reglugerðir, t.d. hvaða skilyrði nefndir um félagslega þjónustu setja í slíkum tilvikum.
    Það vekur sérstaka athygli nefndarinnar að í lögum nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, eru ákvæði um að koma á fót áfrýjunaraðila, úrskurðarnefnd félagsþjónustu. Hún gefur gaum að því að í nefndinni sitja þrír menn, gerðardómari, sem Hæstiréttur skipar, einn maður sem félagsmálaráðuneytið skipar og annar sem Samband íslenskra sveitarfélaga skipar.
    Nefndin gefur gaum að því að skv. 65. gr. laganna getur maður áfrýjað úrskurði nefndar um félagslega þjónustu varðandi aðstoð til úrskurðarnefndar félagsþjónustu.
    Nefndin gefur einnig gaum að því að í 67. gr. laganna segir að úrskurður úrskurðarnefndar félagsþjónustu sé lokaúrskurður stjórnvalda. Hún óskar að fá staðfestingu á því að þetta ákvæði útiloki ekki lögsögu dómstóla á þessu sviði. Ef svo er vill nefndin ganga úr skugga um sjálfstæði úrskurðarnefndar félagsþjónustu og óskar í því skyni eftir upplýsingum um hver skipar nefndarmenn, hvaða hæfniskröfur þeir verða að uppfylla, hverjar eru starfsreglur nefndarinnar, hvort hún geti gengið í berhögg við ákvörðun um að veita ekki aðstoð sem miðast við málsatvik o.s.frv.
    Nefndin ákvað að fresta því að skrá niðurstöður þangað til hún hefur fengið þær upplýsingar sem hún óskar eftir.

16. gr.

     Greinin fjallar um rétt fjölskyldunnar til félagslegrar, lagalegrar og efnahagslegrar verndar.
    * Nefndin gefur gaum að svörum í skýrslu Íslands við ýmsum spurningum sem hún hefur sett fram.
    Nefndin gefur gaum að því að lögum um fjölskyldubætur hefur verið breytt með lögum nr. 85/1991, en í þeim eru ákvæði þess efnis að barnabætur einstæðra foreldra eru verulega hærri en slíkar bætur til handa hjónum eða sambýlisfólki og að barnabætur eru einnig hærri vegna barna yngri en 7 ára. Hún gerir sér einnig grein fyrir því að fjárhæð fjölskyldubóta virðist hæfileg.
    Hins vegar vekur það athygli hennar að slíkar bætur eru aðeins greiddar vegna barna undir sextán ára aldri. Hún spyr hvort aðrar bætur séu veittar vegna barna á framfæri sem orðin eru sextán ára eða eldri.
    Nefndin gefur einnig gaum að því að sett hafa verið þrenn ný lög á sviði barna og fjölskyldna eða þau hafa gengið í gildi síðan viðmiðunartímanum lauk. Hvað snertir fyrstu lögin (lög um vernd barna og ungmenna, nr. 58/1992) gerir nefndin sér grein fyrir því að ákvæði um ættleiðingu hafa verið gerð skýrari í því skyni að tryggja lagalegan rétt allra hlutaðeigandi aðila.
    Hvað snertir hin tvenn lögin (barnalög, nr. 20/1992, og lög um leikskóla, nr. 48/1991) vonast nefndin til að fá eintak af þeim á einu hinna opinberu tungumála Evrópuráðsins ásamt íslensku skýrslunni.
    Loks minnist nefndin þess að hún hefur látið þess getið í fyrri niðurstöðum sínum að stofnað hefur verið kerfi sem auðvelda skal fjölskyldum íbúðakaup og hún hefði óskað eftir að fá hagnýtar upplýsingar um framkvæmd þeirra ráðstafana. Þar eð ríkisstjórnin hefur ekki svarað þeirri spurningu verður nefndin að ítreka hana.
    Nefndin telur að í skýrslunni hafi verið svarað að nokkru leyti spurningum B og D á eyðublaðinu með því að upplýsa nefndina um nýja löggjöf á þessu sviði, en hún óskar þess að fá í næstu skýrslu ítarlegri svör við öllum spurningunum á eyðublaðinu, einkum B, D og F.
    Nefndin ákvað að fresta því að skrá niðurstöður þangað til hún hefur fengið þær upplýsingar sem hún hefur beðið um.

18. gr.

         2. mgr., um einföldun gildandi formsatriða varðandi veitingu atvinnuleyfa og niðurfellingu gjalda sem erlendu verkafólki og atvinnurekendum er gert að greiða.
    * Nefndin minnist þess að hún hefur komist að þeirri niðurstöðu áður að Ísland hafi ekki fullnægt ákvæðum í 2. og 3. mgr. 18. gr. þar eð Ísland hefur aldrei tilkynnt um neina tilslökun varðandi þær ströngu reglur sem gilda um ráðningu ríkisborgara annarra aðildarríkja til vinnu.
    Nefndin gefur gaum að upplýsingum þess efnis að heildarendurskoðun fari nú fram á gildandi lögum með tilliti til gildistöku EES-samningsins. Hún lætur í ljós þá von að þessi endurskoðun leiði í náinni framtíð til tilslökunar á reglugerðum varðandi ráðningu ríkisborgara aðildarríkjanna til vinnu, hvort sem þau eiga aðild að þessum samningi eða ekki, svo og hvað varðar einföldun á formsatriðum.
    Þar eð ekki hefur orðið nein breyting á ástandinu á viðmiðunartímanum hlýtur nefndin að ítreka neikvæða niðurstöðu sína.

     Tekið skal fram að Ísland hefur ekki undirgengist skuldbindingar samkvæmt eftirtöldum greinum:

2. gr.

     2. mgr., um veitingu almennra frídaga með kaupi.
    4. mgr., um að verkafólki, sem vinnur hættuleg eða óheilnæm störf, séu veittir aukafrídagar eða vinnutími þess styttur.


7. gr.

     Greinin fjallar um rétt barna og ungmenna til verndar.

8. gr.

     Greinin fjallar um rétt vinnandi kvenna til verndar.

9. gr.

     Greinin fjallar um rétt til leiðbeininga um stöðuval.

10. gr.

     Greinin fjalla um rétt til starfsþjálfunar.

19. gr.

     Greinin fjallar um rétt farandverkafólks og fjölskyldna þess til verndar og aðstoðar.



Viðauki II.

Samskipti íslenskra stjórnvalda og Evrópuráðsins vegna
framkvæmdar á 5. gr. félagsmálasáttmálans um félagafrelsi.

    Á undanförnum árum hefur sérfræðinganefnd Evrópuráðsins (Committee of Independent Experts) gagnrýnt íslensk stjórnvöld fyrir framkvæmd á nokkrum ákvæðum í félagsmálasáttmála Evrópu (European Social Charter). Gerð hefur verið grein fyrir þessari gagnrýni í fylgiskjölum og viðaukum við skýrslur félagsmálaráðherra til Alþingis um þing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem haldið er í Genf á ári hverju. Sérfræðinganefndin hefur m.a. gagnrýnt framkvæmd Íslands á 5. gr. félagsmálasáttmálans um félagafrelsi.
    Allmiklar umræður áttu sér stað í íslensku þjóðfélagi um félagafrelsi á árinu 1993. Eitt af því sem virkaði hvetjandi á umræðuna var dómur mannréttindadómstóls Evrópu (European Court of Human Rights) í máli Sigurðar Sigurjónssonar gegn Íslandi (mál nr. 24/1992/369/443). Dómur féll hinn 30. júní 1993. Í dómsorði segir m.a. að lögbundin skylduaðild að stéttarfélagi brjóti í bága við 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu (Convention for the Protection of Human Rights and Fundamental Freedoms) um félagafrelsi. Hér var um að ræða dóm í máli sem Sigurður A. Sigurjónsson hafði skotið til mannréttindadómstólsins vegna ákvæða í lögum nr. 77/1989, um að aðild að bifreiðastjórafélaginu Frama þurfi til að fá eða halda akstursleyfi. Á undanförnum tveimur áratugum hefur mátt merkja breytingar á hugmyndum um félagafrelsi. Dómurinn endurspeglar með vissum hætti þessa þróun. Hennar hefur m.a. gætt í nefnd Evrópuráðsins, sem í sitja embættismenn frá ríkjum sem hafa fullgilt félagsmálasáttmála Evrópu (Governmental Committee of the European Social Charter). Innan nefndarinnar hefur undanfarin ár verið ágreiningur um gildissvið 5. greinar sáttmálans sem að ýmsu leyti er hliðstæð 11. gr. mannréttindasáttmálans. Félagsmálasáttmáli Evrópu er einn af grundvallarsáttmálum Evrópuráðsins á sviði félags- og vinnumála. Í forsendum dóms mannréttindadómstólsins er vikið að þessum sáttmála, svo og umræðum í framangreindri nefnd sem nefna má embættismannanefnd sem fjallar um framkvæmd félagsmálasáttmálans. Þar sem félagsmálasáttmálann og embættismannanefndina hefur borið á góma í umræðum sem hafa átt sér stað í framhaldi af dómi mannréttindadómstólsins þykir tímabært að gera nokkra grein fyrir gagnrýni sem sérfræðinganefnd, er fjallar um skýrslur aðildarríkja félagsmálasáttmálans, hefur sett fram varðandi framkvæmd Íslands á ákvæði 5. gr. sáttmálans um félagafrelsi. Enn fremur er fjallað um umræður í embættismannanefndinni um þessa gagnrýni sérfræðinganna. Fyrst er gerð grein fyrir ákvæðum í félagsmálasáttmálanum um framkvæmd sáttmálans og eftirliti með því að staðið sé við skuldbindingar sem í honum felast.

Fullgilding og skuldbindingar Íslands.

    Í stofnskrá Evrópuráðsins er m.a. kveðið á um það markmið ráðsins að vinna að framförum á sviði efnahags- og félagsmála og frekari framkvæmd mannréttinda og mannfrelsis. Að þessu yfirlýsta markmiði Evrópuráðsins hefur verið unnið með ýmsu móti allt frá stofnun ráðsins árið 1949 til þessa dags. Einn þátturinn í þessu starfi var samning félagsmálasáttmála Evrópu, sem undirritaður var í Tórínó á Ítalíu 18. október 1961, eftir u.þ.b. sjö ára undirbúningsstarf.
    Á 96. löggjafarþingi árið 1974–75 var lögð fyrir Alþingi þingsályktunartillaga um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að fullgilda félagsmálasáttmálann fyrir Íslands hönd. Alþingi veitti þessa heimild 14. maí 1975. 15. janúar 1976 var gengið frá aðild Íslands að sáttmálanum. Í fullgildingarskjali var með vísan til 2. mgr. 20. gr. tekið fram að Ísland telji sig bundið af ákvæðum sem talin voru upp. Á meðal þeirra var 5. gr. sáttmálans um félagafrelsi.
    Lengst af hafa eftirtalin ríki verið skuldbundin af félagsmálasáttmála Evrópu: Austurríki, Bretland, Danmörk, Frakkland, Grikkland, Írland, Ísland, Ítalía, Holland, Kýpur, Noregur, Sambandslýðveldið Þýskaland, Spánn og Svíþjóð. Á síðustu árum hafa eftirtalin ríki bæst í hópinn: Malta (1988), Tyrkland (1989), Belgía (1990), Finnland (1991), Portúgal (1991) og Lúxemborg (1991). Nokkur ríki Austur-Evrópu hafa látið í ljós áhuga á fullgildingu, þeirra á meðal Ungverjaland, Tékkland og Pólland.

Helstu ákvæði um eftirlit með framkvæmd sáttmálans.

    Eftirlit Evrópuráðsins með því að ákvæðum sáttmálans sé fylgt felst í eftirfarandi: Nefnd óháðra sérfræðinga (The Committee of Independent Experts), skýrslum aðildarríkjanna, nefnd fulltrúa þeirra ríkja sem hafa fullgilt sáttmálann (The Governmental Committee) og ráðherranefnd Evrópuráðsins (The Committee of Ministers).
    Fjallað er um nefnd óháðra sérfræðinga (The Committee of Independent Experts) í 25. gr. sáttmálans. Sérfræðinganefndina skipa nú sjö menn sem ráðherranefnd Evrópuráðsins skipar til sex ára. Skipunin er byggð á tilnefningum aðildarríkjanna. Ráðherranefndin kýs síðan tilskilinn fjölda úr hópi þeirra einstaklinga sem aðildarríkin hafa tilnefnt.
    Samkvæmt reglum, sem hafa lengst af gilt, skulu aðildarríki félagsmálasáttmálans taka saman skýrslur á tveggja ára fresti um framkvæmd á fullgiltum ákvæðum sáttmálans. Samkvæmt verklagsreglu var aðildarríkjunum skipt í tvo hópa og skiluðu þeir skýrslum sitt hvort árið. Ísland var í hópi með Bretlandi, Danmörku, Grikklandi, Hollandi, Noregi og Svíþjóð.
    Í 27. gr. félagsmálasáttmálans er fjallað um undirnefnd félagsmálanefndar ráðherranefndar Evrópuráðsins (The Govermental Committee). Aðildarríki sáttmálans tilnefna hvert um sig einn embættismann til setu í þessari nefnd og hefur hún til hægðarauka verið nefnd embættismannanefndin. Samkvæmt greininni skal leggja skýrslur aðildarríkja sáttmálans og niðurstöður sérfræðinganefndarinnar fyrir þessa undirnefnd.
    Á grundvelli 29. gr. félagsmálasáttmálans getur ráðherranefndin (The Committee of Ministers) lagt hvers kyns nauðsynlegar tillögur fyrir sérhvern samningsaðila á grundvelli skýrslu undirnefndarinnar og að höfðu samráði við þingmannanefndina (The Consulative Assembly). Allt fram til ársins 1993 var þetta ákvæði óvirkt. Ráðherranefndin hafði aldrei beint tillögum til aðildarríkjanna um úrbætur á framkvæmd ákvæða í félagsmálasáttmálanum.

Tengslin milli sérfræðinganefndarinnar og embættismannanefndarinnar.

    Í 24. gr. félagsmálasáttmálans er að finna ákvæði um hlutverk sérfræðinganefndarinnar. Þar segir efnislega að skýrslur, sem aðildarríkin taka saman um framkvæmd félagsmálasáttmálans, skuli athugaðar af sérfræðinganefndinni.
    Í 25. gr. er hlutverk embættismannanefndarinnar skilgreint. Þar segir efnislega að skýrslur samningsaðilanna og niðurstöður sérfræðinganefndarinnar skuli leggja fyrir nefndina til athugunar. Síðar segir að embættismannanefndin skuli leggja fyrir ráðherranefndina skýrslu um niðurstöður sínar og láta fylgja henni skýrslu sérfræðinganefndarinnar.
    Við þetta má bæta að samkvæmt 28. gr. skal framkvæmdastjóri Evrópuráðsins senda þingmannanefnd Evrópuráðsins niðurstöður sérfræðinganefndarinnar. Þingmannanefndin skal senda ráðherranefndinni álit sitt á þessum niðurstöðum.
    Þessi fáorðu ákvæði um hlutverk sérfræðinganefndarinnar og embættismannanefndarinnar eru orsökin fyrir ágreiningi sem uppi hefur verið um túlkun á ákvæðum félagsmálasáttmálans. Embættismannanefndin hefur lengst af litið á það sem sitt hlutverk að túlka ákvæði sáttmálans. Það hefur hún gert og lagt niðurstöðuna fyrir ráðherranefnd Evrópuráðsins sem ekki hefur gert athugasemdir.

Ágreiningur um túlkun á gildissviði 5. gr. um félagafrelsi.

    Meðal þeirra greina sem Ísland hefur skuldbundið sig til að framkvæma er 5. gr. félagsmálasáttmálans um réttinn til að stofna félög sem er svohljóðandi:
    „Í því skyni að tryggja og stuðla að frelsi verkafólks og vinnuveitenda til að stofna staðbundin félög, landsfélög eða fjölþjóðleg sambönd til að gæta hagsmuna þeirra á sviði efnahags- og félagsmála og til að ganga í slík félög skuldbinda samningsaðilar sig til að sjá um að landslög skerði ekki það frelsi né að þeim verði beitt til að skerða það. Í landslögum eða reglugerðum skal ákveða að hve miklu leyti trygging sú, sem þessi grein veitir, skuli taka til lögreglunnar. Það skal einnig ákvarðast í landslögum eða reglugerðum að hve miklu leyti tryggingin, sem grein þessi gerir ráð fyrir, skuli ná til manna í herþjónustu.“
    Í umræðu á vettvangi Evrópuráðsins hefur verið fjallað um tengsl 5. gr. sáttmálans við ákvæði 2. mgr. 1. gr. þar sem kveðið er á um að aðildarríki skuldbindi sig til að vernda á raunhæfan hátt rétt verkafólks til þess að vinna fyrir sér í starfi sem það hefur valið sér. Ástæðan er sú að í II. kafla í viðauka við félagsmálasáttmálann er að finna nánari skýringar á gildissviði sáttmálans. Um 2. mgr. 1. gr. segir að ekki skuli túlka ákvæði greinarinnar á þann hátt að það banni eða heimili nokkur ákvæði eða venju varðandi kröfu um aðild að stéttarfélagi. Því hefur verið haldið fram að ekki sé hægt að líta svo á að ákvæðið takmarkist við 2. mgr. 1. gr. heldur verði að túlka félagsmálasáttmálann í heild með hliðsjón af ákvæðinu og þar með 5. gr. einnig. Með öðrum orðum: Ákvæðið hefur verið túlkað þannig að sáttmálinn eigi að vera hlutlaus gagnvart ákvæðum í lögum eða kjarasamningum sem m.a. kveða á um forgang félagsmanna stéttarfélaga til vinnu. Af því leiði að ákvæðið verndi ekki rétt manna til að standa utan stéttarfélaga. Á 50. fundi embættismannanefndarinnar, sem haldinn var í mars 1988, voru átta fulltrúar á þessari skoðun, fjórir voru á móti og einn sat hjá.
    Sérfræðinganefnd Evrópuráðsins hefur verið á annarri skoðun. Hún telur að sérhver félaganauðung, sem komið sé á með lögum, sé ósamrýmanleg skyldum ríkja skv. 5. gr. Út frá almennum sjónarmiðum líti nefndin svo á að öllum launamönnum eigi skv. 5. gr. að vera frjálst að ákveða sjálfir hvaða félagi eða hagsmunasamtökum þeir kjósa að taka þátt í.
    

Gagnrýni á framkvæmd Íslands á ákvæði 5. gr.

    Árið 1981 fór ráðherranefnd Evrópuráðsins þess á leit við aðildarríki félagsmálasáttmálans að þau gæfu upplýsingar í næstu skýrslu sinni um framkvæmd á tilteknum atriðum varðandi ákvæði í 5. gr. félagsmálasáttmálans um félagafrelsi. Í skýrslu sérfræðinganefndarinnar árið 1983 er komist að þeirri niðurstöðu að Ísland uppfylli skuldbindingar sem fólgnar eru í 5. gr. Nefndin óskar þó eftir nánari upplýsingum um lög og rétt um félagafrelsi hér á landi.
    Í skýrslu sérfræðinganefndarinnar árið 1985 kemur fram að samkvæmt síðustu skýrslu Íslands verði allir launamenn á Íslandi að vera félagar í stéttarfélagi í hlutaðeigandi starfsgrein. Þeir verði enn fremur að greiða stéttarfélagsgjald frá 0,8–2% af launum sínum. Með tilliti til þessara nýju upplýsinga verði nefndin að hverfa frá fyrri niðurstöðu sinni og álíta að framkvæmd Íslands sé ekki í samræmi við ákvæði 5. gr. hvað þetta varðar.
    Í skýrslu Íslands um framkvæmd á fullgiltum ákvæðum félagsmálasáttmála Evrópu, sem tók til tímabilsins 1. janúar 1984 til 31. desember 1985, er því mótmælt að um sé að ræða brot á 5. gr. sáttmálans. Í skýrslunni er því haldið fram að með fullgildingu greinarinnar hafi Ísland skuldbundið sig til að virða jákvætt félagsfrelsi, þ.e. réttinn til að stofna og vera í félögum. Ekki mætti túlka 5. gr. þannig að hún feli í sér neikvætt félagsfrelsi.
    Sérfræðinganefndin endurtók fyrri afstöðu í skýrslu 1987 og komst að þeirri niðurstöðu að staða mála væri óbreytt og þar af leiðandi væri um að ræða brot á 5. gr. sáttmálans.
    Í mars 1989 sendu íslensk stjórnvöld Evrópuráðinu skýrslu þar sem sérstaklega er fjallað um framkvæmd á 5. gr. og gerð ítarleg grein fyrir ákvæðum í lögum og kjarasamningum sem snerta aðild að stéttarfélögum. Þar er tekið fram að réttur manna til að standa utan félaga væri ekki tryggður í lögum.
    Viðbrögð sérfræðinganefndarinnar við þessari skýrslu voru harkaleg sérstaklega að því er varðar ákvæði í lögum um atvinnuleysistryggingasjóð sem gerðu aðild að stéttarfélagi að skilyrði fyrir rétti til atvinnuleysisbóta. Gerð er grein fyrir athugsemdum sérfræðinganna í viðauka IV við skýrslu félagsmálaráðherra um 76. Alþjóðavinnumálaþingið 1989, bls. 44. Skýrslan var lögð fyrir Alþingi í mars 1990.
    Í nefndri skýrslu sérfræðinganefndarinnar, sem barst árið 1989, er vísað til túlkunar Hæstaréttar í desember 1988 á 73. gr. stjórnarskrárinnar. Síðan segir: „Nefndin taldi — með tilliti til þess að frelsi manna til að ganga í stéttarfélög, sem tryggt sé með ákvæðum 5. gr. sáttmálans, hljóti að fela í sér að menn séu ekki með neinum hætti skyldir til að gerðast eða vera áfram félagar í stéttarfélagi — að skortur á viðeigandi vernd slíks frelsis í landslögum geti ekki talist samrýmast ákvæðum 5. gr. sáttmálans. Skiptir þá ekki máli hvort það stafi af því að viðeigandi lög hafi ekki verið sett eða því að fordæmisréttur löghelgar athæfi sem brýtur í bága við rétt manna til að mynda félög.“
    Í athugasemdum sérfræðinganefndarinnar segir enn fremur:
    „— Samkvæmt lögum nr. 64/1981, um atvinnuleysistryggingasjóð, eiga aðeins félagar í stéttarfélögum rétt á atvinnuleysisbótum. Það að svipta launamann rétti til fjárhagslegrar verndar ef hann er atvinnulaus er óverjandi ráðstöfun sem hefur þann tilgang að neyða hann til að ganga í eða vera áfram félagi í stéttarfélagi. Með tilliti til þessa hafi nefndin komist að þeirri niðurstöðu að lögin brjóti í bága við anda og bókstaf 5. gr. sáttmálans.
    — Varðandi ákvæði í flestum kjarasamningum á Íslandi, þess efnis að félagar í stéttarfélögum skuli ganga fyrir um vinnu, benti nefndin á að enda þótt heimild til slíkrar ráðstöfunar sé ekki að finna í lögum hafi slík forgangsréttarákvæði verið staðfest fyrir Félagsdómi. Nefndin telur að slíkar lögþvingarnir gagnvart launamönnum, sem óska ekki eftir að vera félagar í stéttarfélögum, geti ekki talist vera í samræmi við ákvæði 5. gr. sáttmálans um rétt manna til að mynda með sér félög.
    — Nefndin hafði veitt því athygli að í almennum kjarasamningum fólks, sem starfar við iðnaðar- og verslunarstörf, eru ákvæði þess efnis að viðkomandi fyrirtækjum sé ekki heimilt að ráð til starfa aðra en félaga í því stéttarfélagi sem það semur við um kaup og kjör (closed shop). Nefndin telur að lagasetning (eða skortur á lagasetningu), sem heimilar slíka ráðstöfun og sé í mótsögn við eðli þess frelsis að stofna félag sem verndað sé með ákvæðum 5. gr., geti ekki talist til þess fallin að tryggja virka framkvæmd þeirrar meginreglu sem fólgin er í greininni.“
    Í næstu skýrslu sem íslensk stjórnvöld sendu um framkvæmd á ákvæðum félagsmálasáttmála Evrópu, sem tók til tímabilsins 1. janúar 1988 til 31. desember 1989, er niðurstöðum sérfræðinganefndarinnar mótmælt. Þar er eftirfarandi tekið fram:
    1. Að mati íslenskra stjórnvalda hefur sérfræðinganefndin ekki lagt fram fullnægjandi gögn sem heimili henni að túlka ákvæði 5. gr. með þeim hætti sem hún gerir. Í því sambandi er bent á ákvæði 31. og 32. gr. Vínarsamningsins um túlkun alþjóðasamninga.
    2. Vakin er á því athygli að ekki séu í lögum ákvæði sem þvingi fólk til að ganga í félög. Bent er á að ákvæði um forgang til vinnu hafi orðið til í frjálsum samningum aðila vinnumarkaðarins.
    3. Niðurstöðum nefndarinnar að því er varðar lög um atvinnuleysistryggingar er einnig mótmælt. Bent er á framangreind rök og enn fremur vakin athygli á því að til Atvinnuleysistryggingasjóðs hafi verið stofnað sem hluta af kjarasamningi eftir langvinnt verkfall.
    Þrátt fyrir ítarlegar greinargerðir af hálfu íslenskra stjórnvalda hefur sérfræðinganefndin ekki breytt afstöðu sinni.
    Annað hefur verið uppi á teningnum að því er varðar embættismannanefndina. Áður er komið fram að hún hafi fjallað um túlkun sérfræðinganefndarinnar á gildissviði 5. gr. og athugasemdir við framkvæmd Íslands á ákvæðum 5. gr. Á 55. fundi nefndarinnar, sem haldinn var dagana 13. til 17. nóvember 1989, komu þessi mál til umfjöllunar. Ákveðið var að nefndin tæki afstöðu til eftirfarandi spurninga:
     1. Er íslensk löggjöf, sem bannar ekki forgangsréttarákvæði í kjarasamningum, í samræmi við ákvæði 5. gr. félagsmálasáttmálans? Sjö töldu að löggjöfin væri samræmi við sáttmálann, fimm voru á móti og tveir sátu hjá.
     2. Í flestum kjarasamningum á Íslandi eru forgangsréttarákvæði. Er sú staðreynd í samræmi við sáttmálann? Sjö töldu að þetta væri í samræmi við sáttmálann, átta voru á móti.
     3. Er íslensk löggjöf, sem gerir aðild að stéttarfélagi að skilyrði fyrir atvinnuleysisbótum í samræmi við sáttmálann? Sjö töldu löggjöfina vera í samræmi við sáttmálann, átta voru á móti.
    Niðurstaðan varð sú að nefndin tók ekki afstöðu varðandi Ísland þar sem aukinn meiri hluti þarf að vera fylgjandi tillögum sem fela í sér túlkun á ákvæðum sáttmálans.
    Fram til þess hefur embættismannanefndin ekki séð ástæðu til þess að leggja fyrir ráðherranefndina að íslenskum stjórnvöldum verði sendar tillögur um úrbætur á framkvæmd samningsins, sbr. ákvæði 29. gr. félagsmálasáttmálans.

Breytingar á ákvæðum félagsmálasáttmálans.

    Á fundi evrópskra félagsmálaráðherra, sem haldinn var í Rómaborg 5. nóvember 1990, var samþykkt að frumkvæði framkvæmdastjóra Evrópuráðsins að endurskoða ákvæði í félagsmálasáttmála Evrópu. Ráðherranefnd ráðsins var falið að hrinda í framkvæmd nauðsynlegum aðgerðum þannig að hægt yrði að afgreiða tillögur um breytingar á 30. ára afmæli sáttmálans í október 1991. Ákveðið var að stofna endurskoðunarnefnd (Committee on the European Social Charter — Charte-rel). Öllum aðildarríkjum Evrópuráðsins var boðið að taka þátt í störfum nefndarinnar. Fyrsti fundur hennar var haldinn dagana 5.–7. febrúar 1991. Nefndin afgreiddi til ráðherranefndarinnar um sumarið drög að viðauka við sáttmálann.
    Á afmælisfundi, sem haldinn var í tilefni 30. ára afmælis félagsmálasáttmálans, í Tórínó á Ítalíu var viðaukinn við sáttmálann opnaður til undirritunar. Með honum eru gerðar m.a. þær breytingar að sérfræðinganefndinni er falið að meta út frá lögfræðilegum sjónarmiðum hvort löggjöf og framkvæmd ríkja samkvæmt skýrslum þeirra samræmist skyldum þeirra samkvæmt sáttmálanum. Rétt er að leggja áherslu á að orðið meta er notað í stað orðsins túlka.
    Samkvæmt viðaukanum er hlutverk embættismannanefndarinnar að semja skrá yfir brot á sáttmálanum sem kalla á tilmæli ráðherranefndar Evrópuráðsins til hlutaðeigandi aðildarríkis (individual recommendation). Nefndin getur vefengt álit sérfræðinganefndarinnar út frá efnahagslegum, félagslegum og öðrum rökum.
    Á áðurnefndum fundi í Tórínó var jafnframt samþykkt tillaga sem fól í sér áskorun til hlutaðeigandi stofnana og nefnda um að þau færu að vinna í samræmi við þær breytingar sem felast í viðaukanum.
    Þessi áskorun var tekin í fyrsta skipti til umræðu í embættismannanefndinni á 62. fundi hennar sem haldinn var dagana 20. til 24. janúar 1992. Jafnframt voru lögð fram drög að nýjum verklagsreglum nefndarinnar. Samkvæmt þeim var gert ráð fyrir að hverfa frá fyrri túlkunum nefndarinnar og afstöðu til framkvæmdar einstakra ríkja á ákvæðum sáttmálans. Þessu mótmæltu nokkur ríki og töldu ekki verjandi að taka upp vinnureglur sem studdust við ákvæði í viðauka sem ekki hafði verið formlega fullgiltur af aðildarríkjunum. Ísland var í þessum hópi. Reglurnar voru engu að síður knúðar fram með atkvæðagreiðslu þar sem knappur meiri hluti var fyrir breytingum. Nefndin hefur því starfað eftir nýjum verklagsreglum frá og með framangreindum 62. fundi. Það skal upplýst að öll 20 aðildarríki sáttmálans þurfa að fullgilda viðaukann þannig að hann gangi í gildi. Þegar þetta er skrifað hafa fimm ríki fullgilt hann, þ.e. Holland, Kýpur, Portúgal, Noregur og Svíþjóð.

Viðvaranir (warnings).

    Fyrst í stað eftir að embættismannanefndin byrjaði að vinna eftir nýjum verklagsreglum kom í ljós að hún var mjög treg að samþykkja tillögur um að leggja fyrir ráðherranefndina að ákvæði 29. gr. yrði beitt um tilmæli til aðildarríkjanna um úrbætur á framkvæmd ákvæða sáttmálans enda þótt fulltrúum væri ljóst að aðgerða væri þörf. Þar af leiðandi kom fram sú uppástunga að nefndin tæki upp það sem kallað var viðvörun (warning). Í henni átti að felast ábending til hlutaðeigandi ríkisstjórnar um það að ef ekki yrðu gerðar úrbætur gæti ríkisstjórnin búist við því að embættismannanefndin samþykkti að leggja fyrir ráðherranefndina að gripið yrði til aðgerða í samræmi við 29. gr. sáttmálans. Viðvörunin átti að vera mál á milli nefndarinnar og hlutaðeigandi ríkisstjórnar. Þetta átti hins vegar eftir að breytast. Þegar embættismannanefndin hafði lokið fyrri hluta 12. yfirferðar yfir skýrslur aðildarríkjanna kom fram tillaga um að getið yrði viðvarana í skýrslu nefndarinnar til ráðherranefndar Evrópuráðsins. Þessu var mótmælt og bent á að þetta hugtak hafi enga lagalega stoð, hvorki í sáttmálanum sjálfum né í viðaukum við hann. Þótt þessum rökum hafi ekki verið mótmælt greiddu 10 fulltrúar því atkvæði á 66. fundi nefndarinnar, 12.–13. október 1992, að gerð skyldi grein fyrir viðvörunum í skýrslu hennar til ráðherranefndarinnar, fjórir voru á móti og tveir sátu hjá. Það vakti því nokkra furðu þegar mannréttindadómstóll Evrópu notar þetta hugtak sem fyllingarefni þegar hann kemst að þeirri niðurstöðu í dómi sínum í máli Sigurðar Sigurjónssonar að 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu taki til réttarins til að standa utan félaga. Með orðinu fyllingarefni er átt við gögn sem dómstóllinn hefur til hliðsjónar þegar hann kemst að ákveðinni niðurstöðu í túlkun á ákvæðum mannréttindasáttmálans. Þess skal getið að embættismannanefndin samþykkti við 12. yfirferð yfir skýrslur ríkja í hópi I að leggja í níu tilvikum fyrir ráðherranefndina að ákvæðum 29. gr. sáttmálans um tilmæli yrði beitt. Nefndin samþykkti viðvaranir í 43 tilvikum. Embættismannanefndin hefur samþykkt að taka áðurnefndar verklagsreglur, ekki síst ákvæði þeirra um viðvörun, til endurskoðunar á fundi í mars 1994.

Afstaða íslenskra stjórnvalda.

    Þegar kom fram á árið 1992 var ljóst að þeim ríkjum hafði fjölgað í embættismannanefndinni sem töldu að 5. gr. félagsmálasáttmálans taki til réttarins til að standa utan félaga. Aðildarríkjum sáttmálans í Suður-Evrópu hafði fjölgað. Þessar þjóðir búa við aðrar hefðir í félaga- og vinnurétti en ríki í Mið- og Norður-Evrópu. Einnig höfðu 11 af 12 aðildarríkjum Evrópubandalagsins samþykkt yfirlýsingu 9. desember 1989 um grundvallarréttindi launafólks. Í 11. gr. yfirlýsingarinnar er tekið fram að sérhver atvinnurekandi og launamaður eigi rétt á að stofna og vera í félagi og einnig að vera utan félaga. Íslenskum stjórnvöldum þótti því tímabært að árétta afstöðu sína til þessa málefnis.
    Í bréfi, sem félagsmálaráðherra skrifaði framkvæmdastjóra Evrópuráðsins 8. október 1992, er vakin á því athygli að ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og félagsmálasáttmála Evrópu um félagafrelsi séu ekki eins orðuð. Þar af leiðandi sé ekki hægt að byggja á niðurstöðu mannréttindanefndarinnar og mannréttindadómstólsins þegar ákvæði félagsmálasáttmálans um félagafrelsi er til umfjöllunar. Minnt er á niðurstöðu 50. fundar embættismannanefndarinnar, sem haldinn var 7. til 9. mars 1988, þar sem nefndin telur að rétturinn til að standa utan félaga falli utan gildissviðs 5. gr. félagsmálasáttmálans. Tekið er fram að íslensk stjórnvöld séu sammála þessari túlkun embættismannanefndarinnar. Lagt er til að fram fari athugun á framkvæmd aðildarríkjanna á 5. gr. og á grundvelli hennar fari fram skoðanaskipti á milli sérfræðinganefndar Evrópuráðsins og embættismannanefndarinnar og reynt að komast að niðurstöðu í ágreiningsmálinu um gildissvið 5. gr. sem hafi valdið lagalegri óvissu á undanförnum árum.
    Í bréfi félagsmálaráðherra er tekið fram að það sé ekki ásættanlegt af hálfu íslenskra stjórnvalda að aukið sé við skuldbindingar samkvæmt félagsmálasáttmálanum umfram það sem greinilega komi fram í texta sáttmálans. Ráðherra leggur áherslu á það að í 5. gr. felist sú höfuðskuldbinding að samningsaðilar skuli tryggja að samtök aðila vinnumarkaðarins hafi eðlilegan starfsgrundvöll og að á milli þeirra ríki ákveðið jafnvægi. Bent er á að allgóður friður hafi ríkt um samskiptareglur á íslenskum vinnumarkaði sem ýmist byggist á settum lögum eða ákvæðum í kjarasamningum. Stjórnvöld hafi þar af leiðandi ekki í hyggju að grípa til neina þeirra aðgerða sem kunni að raska því jafnvægi sem ríkt hafi í samskiptum aðila vinnumarkaðarins undanfarin rúmlega 50 ár.

Engin tilmæli til íslenskra stjórnvalda.

    Fyrr í þessari greinargerð kemur fram að við lok fyrri hluta 12. yfirferðar yfir skýrslur ríkja í hópi I, sem voru á 65. og 66. fundi embættismannanefndarinnar í september og október 1992, var staðfest í níu tilvikum að leggja fyrir ráðherranefndina að ákvæðum 29. gr. félagsmálasáttmálans um tilmæli yrði beitt. Nefndin samþykkti viðvaranir í 43 tilvikum. Á það ber að leggja áherslu að tillögur, sem fram komu í embættismannanefndinni, um að leggja fyrir ráðherranefndina að íslenskum stjórnvöldum yrðu send tilmæli á grundvelli 29. gr. sáttmálans, fengu ekki tilskilinn stuðning. Nefndin samþykkti viðvaranir til íslenskra stjórnvalda í sjö tilvikum. Þessi tilvik snerta framkvæmd 5. gr., 4. mgr. 6. gr., 4. mgr. 13. gr., 16. gr. og 2. og 3. mgr. 18. gr. Viðvaranirnar byggjast á athugasemdum sérfræðinganefndarinnar. Gerð er grein fyrir athugasemdum sérfræðinganefndarinnar í viðauka III í skýrslu félagsmálaráðherra um 78. Alþjóðavinnumálaþingið í Genf 1991, bls. 54–67. Skýrslan var lögð fyrir Alþingi í mars 1992.


Fskj.

    Hér er birt orðrétt bréf sem félagsmálaráðherra sendi framkvæmdastjóra Evrópuráðsins til áréttingar á afstöðu íslenskra stjórnvalda til gildissviðs 5. gr. félagsmálasáttmálans.

„Framkvæmdastjóri Evrópuráðsins,
Reykjavík, 8. október 1992.

frú Lalumiere,
Evrópuráðinu,
Strasbourg.

    Efni: Framkvæmd Íslands á ákvæði 5. gr. félagsmálasáttmála Evrópu.

    Á fundi fulltrúa ríkisstjórna aðildarríkja að félagsmálasáttmála Evrópu, sem haldinn var dagana 7. til 11. september 1992, stóð skrifstofa Evrópráðsins fyrir því að skýrslu mannréttindanefndar Evrópuráðsins var dreift á fundinum. Hér er um að ræða skýrslu mannréttindanefndarinnar vegna máls nr. 16230/90, Sigurður A. Sigurjónsson gegn Íslandi. Í skýrslunni er fjallað um kæru á hendur ríkisstjórn Íslands vegna ætlaðra brota á 9., 10., 11. og 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Í stuttu máli fjallar kæran um mjög sértækt mál þar sem ágreiningsefnið er skylduaðild að stéttarfélagi leigubifreiðastjóra. Að þessu tilefni skal eftirfarandi tekið fram:
    Framangreind kæra snertir mannréttindasáttmála Evrópu. Í nefnd ríkisstjórnarfulltrúa aðildarríkja félagsmálasáttmála Evrópu er fjallað um félagsmálasáttmála Evrópu en ekki mannréttindasáttmála Evrópu.
    Ákvæði 5. gr. félagsmálasáttmála Evrópu og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um félagafrelsi hafa mismunandi orðalag. Þar af leiðandi er ekki fallist á að túlkun mannréttindanefndar og mannréttindadómstóls Evrópuráðsins á ákvæði mannréttindasáttmálans um félagafrelsi hafi fordæmisgildi varðandi túlkun á 5. gr. félagssáttmála Evrópu um félagafrelsi.
    Á 50. fundi fulltrúa aðildarríkja félagsmálasáttmála Evrópu, sem haldinn var dagana 7. til 9. mars 1988, var gildissvið 5. gr. félagsmálasáttmálans brotið til mergjar. Fyrir nefndinni lágu öll tiltæk viðurkennd skjöl til að skýra ákvæði 5. gr., sbr. 31. og 32. gr. Vínarsamnings um alþjóðasamninga. Einnig mætti lögfræðilegur ráðunautur Evrópuráðsins á fund nefndarinnar. Eftir ítarlegar umræður komst aukinn meiri hluti nefndarinnar að þeirri niðurstöðu að svonefnt „neikvætt félagafrelsi“ falli utan gildissviðs greinarinnar. Íslensk stjórnvöld eru sammála þessari niðurstöðu og hafa haft hana til hliðsjónar við framkvæmd 5. gr. sáttmálans.
    Minnt er á að lengi hefur verið ágreiningur á milli sérfræðinganefndar Evrópuráðsins og meiri hluta þeirra sem eiga sæti í nefnd fulltrúa ríkisstjórna aðildarríkja félagsmálasáttmálans um gildissvið 5. gr. sáttmálans. Með hliðsjón af því telja íslensk stjórnvöld rétt að fram fari athugun á framkvæmd 5. gr. í öllum aðildarríkjum sáttmálans og á grundvelli þeirrar athugunar eigi sér stað skoðanaskipti á milli þessara tveggja nefnda og reynt verði að komast að niðurstöðu í þessu ágreiningsmáli sem hefur valdið lagalegri óvissu á undanförum árum.
    Það er ekki ásættanlegt að aukið sé við skuldbindingar samkvæmt félagsmálasáttmálanum umfram það sem greinilega kemur fram í texta sáttmálans. Ef samningsaðilar eru reiðubúnir til láta félagsmálasáttmálann taka til fleiri sviða eða auka við réttindi sem hægt er að sækja á grundvelli sáttmálans ber að gera það með sérstökum viðaukum sem annaðhvort breyta ákvæðum sáttmálans eða eru viðaukar við sjálft meginmál hans.
    Áhersla er á það lögð að í 5. gr. félagsmálasáttmálans felist sú höfuðskuldbinding að samningsaðilar skuli tryggja að samtök aðila vinnumarkaðarins hafi eðlilegan starfsgrundvöll og að á milli þeirra ríki ákveðið jafnvægi. Á því er vakin athygli að allgóður friður hafi ríkt um samskiptareglur á íslenskum vinnumarkaði sem ýmist byggjast á settum lögum eða ákvæðum í kjarasamningum. Þar af leiðandi hefur ríkisstjórnin ekki í hyggju að grípa til neina þeirra aðgerða sem kunna að raska því jafnvægi sem ríkt hefur í samskiptum aðila vinnumarkaðarins undanfarin rúmlega 50 ár.
    Vegna gagnrýni sérfræðinganefndarinnar á ákvæði í 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, laga nr. 64/1981, skal upplýst að skipuð hefur verið nefnd til að endurskoða rétt manna til atvinnuleysisbóta. Nefndinni hefur verið gerð grein fyrir athugasemdum Evrópuráðsins við lögin.

Virðingarfyllst,



Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra.“





Viðauki III.


Athugasemdir við framkvæmd Íslands á samningi um efnahagsleg,


félagsleg og menningarleg réttindi.


    Dagana 25. til 26. nóvember 1993 var fyrsta skýrsla Íslands um framkvæmd á alþjóðasamningi um efnhagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi tekin til umfjöllunar á fundi hlutaðeigandi sérfræðinganefndar Sameinuðu þjóðanna. Í sérfræðinganefndinni eru 20 fulltrúar. Fundurinn var haldinn í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í Evrópu sem eru í Þjóðabandalagshöllinni í Genf. Í sendinefnd Íslands voru: Dögg Pálsdóttir, skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, Guðmundur Helgason, sendiráðsritari í fastanefnd Íslands í Genf, Guðný Helgadóttir, deildarstjóri í menntamálaráðuneytinu, og Gylfi Kristinsson, deildarstjóri í félagsmálaráðuneytinu. Ísland fullgilti samninginn árið 1979.
    Niðurstaða sérfræðinganefndar Sameinuðu þjóðanna er eftirfarandi:
    „1. Nefndin fjallaði um upphaflega skýrslu Íslands (E/1990/5/Add. 6 og E/1990/5/Add. 14) um þau réttindi sem tilgreind eru í 1.–15. gr. Alþjóðasamnings um efnahags-, félags- og menningarleg réttindi á 30., 31. og 32. fundi sínum, en fundirnir voru haldnir 25. og 26. nóvember 1993 og samþykkti eftirfarandi umsögn.

A. Inngangur.

    2. Nefndin fagnar því að hafa fengið nákvæma skýrslu ríkisstjórnarinnar, sem samin var í samræmi við leiðbeiningar nefndarinnar, svo og jákvæðum viðræðum hennar við sendinefndina. Hún lýsir yfir ánægju sinni með þær upplýsingar sem fram koma í skýrslunni, svo og þær upplýsingar sem sendinefndin hefur gefið sem svar við bæði skriflegum og munnlegum spurningum á meðan á umfjöllun um skýrsluna stóð, en þær gerðu nefndinni kleift að fá víðtæka yfirsýn yfir það að hve miklu leyti Ísland hefur staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt Alþjóðasamningi um efnahags-, félags- og menningarleg réttindi. Nefndin er þakklát fyrir að hafa fengið skrifleg svör ríkisstjórnar Íslands við þeim spurningum sem hún lagði fram. Nefndin telur að tilhögun og inntak viðræðna hennar og ríkisstjórnar Íslands sé til fyrirmyndar. Nefndin harmar hins vegar að upphafleg skýrsla barst henni nokkuð seint.

B. Jákvæð atriði.

    3. Nefndin fagnar þeim ráðstöfunum sem ríkisstjórn Íslands hefur gert í því skyni að tryggja þau réttindi sem viðurkennd eru í alþjóðasáttmálanum. Hún lýsir ánægju einnig yfir því að ríkisstjórn Íslands hefur í störfum sínum lagt áherslu á að stuðla að og vernda efnahags-, félags- og menningarleg réttindi í samræmi við þær skuldbindingar sem hún hefur undirgengist samkvæmt ákvæðum 2. gr. sáttmálans og að ríkistjórnin hefur á undanförnum árum stuðlað að setningu ýmissa mikilvægra laga sem snerta þessi réttindi beint.
    4. Í þessu sambandi lýsir nefndin sérstakri ánægju sinni með það að lög nr. 28/1991, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, tryggja almennt jafnrétti karla og kvenna en ekki aðeins hvað snertir launagreiðslur eins og raunin hafði verið áður en lögin voru samþykkt. Nefndin telur einnig athyglisvert að stofnað skyldi Jafnréttisráð í því skyni að tryggja að jafnréttislögunum væri framfylgt með eðlilegum hætti og móta þá stefnu sem sem stjórnvöld framfylgja varðandi jafnrétti kynjanna. Nefndin fagnar stofnun nefndar sem tekur á móti og rannsakar kvartanir um meint tilvik um misrétti kynjanna. Varðandi ráðstafanir, sem gerðar hafa verið til að fullnægja ákvæðum 3. til 7. gr. alþjóðasamningsins veitti nefndin athygli starfi kjararannsóknarnefndar og því að ríkisstjórnin samþykkti 1988 jafnréttisáætlanir að frumkvæði Jafnréttisráðs og félagsmálaráðuneytisins, en ráðuneytum og ríkisstofnunum er ætlað að hrinda þeim í framkvæmd.
    5. Nefndin lýsir ánægju sinni með umfang og gæði þeirrar þjónustu sem veitt er allri þjóðinni, einkum hinum öldruðu, hvað snertir almannatryggingar, fjölskylduvernd, heilsugæslu og menntun.
    6. Nefndin er ánægð með þá breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar (lög nr. 69/1993) sem, gagnstætt fyrri lögum, tryggja einnig þeim bætur sem eiga ekki aðild að verkalýðsfélagi. Nefndin er einnig þakklát fyrir upplýsingar þess efnis að allir launamenn á aldrinum 16 til 71 árs, sem eru búsettir á Íslandi, eiga rétt á atvinnuleysisbótum svo fremi þeir hafi á undanförnum 12 mánuðum unnið samtals a.m.k. 425 dagvinnustundir í tryggingarskyldri vinnu, svo og að nú eiga þeir sem starfa sjálfstætt rétt á bótum.

C. Atriði og vandkvæði sem hindra að sáttmálanum sé framfylgt.

    7. Nefndin gerir sér ljós þau vandkvæði sem Íslendingar eiga við að glíma hvað snertir óheftan verkfallsrétt samkvæmt ákvæðum 8. gr. sáttmálans, en stjórnvöld gefa þá skýringu að efnahagslíf Íslands sé mjög háð fiskveiðum. Nefndin er þeirrar skoðunar að þessar aðstæður leysi stjórnvöld ekki undan þeirri skyldu að gera ráðstafanir til að tryggja með tímanum full réttindi sem viðurkennd eru í sáttmálanum, þar með talinn verkfallsrétt.

D. Helstu áhyggjuefni.

    8. Nefndin veitir því athygli að þrátt fyrir að löggjafinn hafi gert fjölmargar ráðstafanir til að tryggja jafnrétti kynjanna þekkist enn misrétti milli karla og kvenna í reynd, einkum hvað varðar þau réttindi sem tilgreind eru í 6. og 7. gr. sáttmálans. Nefndin hvetur ríkisstjórnina til að halda áfram viðleitni sinni til að koma í veg fyrir þann mun á launakjörum karla og kvenna sem enn er við lýði.

E. Tilmæli og tillögur.

    9. Nefndin mælir með því að stjórnvöld virði báða mannréttindasáttmálana jafnmikið hvað snertir lagagildi þeirri í landinu; ef ráðstafanir eru gerðar til að taka upp í landslögum ákvæði um almenn og pólitísk réttindi verði hugað að svipuðum ráðstöfunum varðandi efnahags-, félags- og menningarleg réttindi.
    10. Nefndin leggur áherslu á að frekari ráðstafanir verði gerðar til að tryggja að ákvæði sáttmálans verði betur kynnt, einkum meðal lögmanna og hjá dómstólum.
    11. Nefndin hvetur til þess að stjórnvöld hlíti nákvæmlega ákvæðum 16. og 17. gr. sáttmálans um kynningarskyldu og að önnur áfangaskýrslan berist nefndinni innan þeirra tímamarka sem hún ákveður.
Neðanmálsgrein: 1
     Setu- og atkvæðisrétt á Alþjóðavinnumálaþinginu eiga fulltrúar ríkisstjórna, atvinnurekenda og launafólks. Í því skyni að jafna áhrif þessara þriggja hópa eru greidd atkvæði margfölduð með ákveðnum stuðli sem tekur mið af fjölda fulltrúa hvers hóps um sig á þinginu eða í hlutaðeigandi þingnefnd. Af þessari ástæðu virðast atkvæðatölur vera í litlu samræmi við fjölda þingfulltrúa.