Ferill 566. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 566 . mál.


879. Frumvarp til laga



um breyting á lögum um birtingu laga og stjórnvaldaerinda, nr. 64 16. desember 1943.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993–94.)



1. gr.


    Við 1. mgr. 2. gr. laganna bætist: Einnig skal þar birta reglur sem opinberum stjórnvöldum og stofnunum, öðrum en ráðuneytum, er falið lögum samkvæmt að gefa út.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Er því ætlað að gera þeim opinberu stjórnvöldum og stofnunum, öðrum en ráðuneytum, sem er falið að gefa út reglur um tiltekin málefni samkvæmt ákvæðum í lögum, mögulegt að birta í B-deild Stjórnartíðinda þær reglur er þau setja. Eins og málum er nú háttað er einungis unnt að birta í B-deild Stjórnartíðinda reglugerðir og annars konar reglur sem gefnar eru út af ráðherra og ráðuneyti. Hafa opinber stjórnvöld og stofnanir því ekki átt þess kost að koma slíkum reglum eða upplýsingum um þær á framfæri í Stjórnartíðindum. Það verður hins vegar að telja til hagræðis að unnt sé að leita slíkra reglna í sama riti og er að finna þær reglur sem útgefnar eru af ráðuneytum. Hefur því verið valinn sá kostur að leggja til að heimila þessum opinberu stjórnvöldum og stofnunum að birta í B-deild Stjórnartíðinda þær reglur sem þeim ber lögum samkvæmt að gefa út.
    Með því að lögbinda á þennan hátt að birtar skuli í B-deild Stjórnartíðinda slíkar reglur er ljóst að fyrirmæli þau sem í þeim felast taka gildi og hafa bindandi verkanir á sama hátt og reglugerðir og auglýsingar sem gefnar eru út af ráðuneyutum, sbr. 7. gr. laganna.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á


lögum nr. 64/1943, um birtingu laga og stjórnvaldaerinda.


    Samkvæmt frumvarpinu skal framvegis birta í Stjórnartíðindum allar reglur sem opinberum stjórnvöldum og stofnunum, öðrum en ráðuneytum, er falið lögum samkvæmt að gefa út. Samkvæmt gildandi lögum eru einungis reglur sem gefnar eru út af ráðherrum og ráðuneytum birtar í Stjórnartíðindum.
    Heildarkostnaður við rekstur Stjórnartíðinda nemur 23,7 m.kr. samkvæmt fjárlögum fyrir árið 1994. Þar af nema sértekjur um 15 m.kr. og framlag úr ríkissjóði 8,7 m.kr. Samkvæmt upplýsingum dóms- og kirkjumálaráðuneytis er óljóst hvaða áhrif þessi lagabreyting mun hafa á umfang Stjórnartíðinda. Í mörgum tilfellum munu stofnanir einfaldlega birta reglur í eigin nafni sem áður voru birtar í nafni viðkomandi ráðuneytis.
    Að mati fjármálaráðuneytis mun frumvarp þetta hafa í för með sér árlegan kostnaðarauka fyrir ríkissjóð sem nemur 1–2 m.kr. að jafnaði.