Ferill 581. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 581 . mál.


900. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993–94.)



1. gr.

    10. gr. laganna orðast svo:
    Fyrir útgáfu leyfa og skírteina vegna veitingar atvinnuréttinda og tengdra réttinda skal greiða 5.000 kr.
    Fyrir endurnýjun leyfa og skírteina skv. 1. mgr. skal greiða 1.000 kr.
    Ráðherra er heimilt í reglugerð að kveða á um gjöld fyrir að þreyta próf til að öðlast atvinnuréttindi eða tengd réttindi.

2. gr.

    Við 14. gr. laganna bætist nýr töluliður er orðast svo:
12.     Vélrænar fyrirspurnir úr þinglýsingabókum     300 kr.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við útgáfu leyfa og skírteina sem gefin eru út frá þeim tíma.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Hér er lögð til breyting á lögum sem sett voru á haustþingi 1991. Með þeim lögum voru í megindráttum lögfest þau ákvæði sem áður höfðu verið í reglugerð nr. 644/1989 um aukatekjur ríkissjóðs hvað varðar gjöld fyrir veitingu atvinnuréttinda og tengdra réttinda.
    Gjaldtaka þessi hefur sætt mikilli gagnrýni, enda frekar í hærri kantinum miðað við þann kostnað sem býr að baki leyfisveitingum af þessu tagi. Verður að hafa í huga að hér er almennt um persónubundin réttindi einstaklinga að ræða. Í ljósi þessa er lögð til sú breyting að sama gjald verði tekið fyrir öll leyfi af þessum toga, eða 5.000 kr. Fjárhæð þessi er hugsuð til að mæta, a.m.k. að nokkru leyti þeim kostnaði sem ríkissjóður hefur af útgáfu leyfanna. Gera má ráð fyrir að þessi breyting muni kosta ríkissjóð u.þ.b. 10 millj. kr. Þá er lagt til að gjald fyrir endurnýjun leyfa verði 1.000 kr. við hverja endurnýjun eða endurútgáfu.
    Í 2. gr. er síðan lagt til nýmæli er lýtur að gjaldtöku fyrir upplýsingar sem aflað er á vélrænan hátt úr þinglýsingabókum. Þinglýsingar eru nú tölvuvæddar og er fyrirhugað að þeir sem þurfa á upplýsingum að halda úr þinglýsingabókum geti sjálfir með vélrænum hætti skoðað og prentað upplýsingar úr þeim. Samkvæmt gildandi lögum kostar veðbókarvottorð 800 kr. Hér er lagt til að tölvufyrirspurn kosti 300 kr. sem hefur í för með sér að lögmenn, fasteignasalar og lánastofnanir munu og aðrir þeir sem mikið nota veðbókarvottorð sjá sér hag án efa í því að fá tölvuaðgang að þinglýsingabókum. Ætla má að vélrænar fyrirspurnir verði bornar upp í meira mæli en beiðnir um veðbókarvottorð hingað til. Um þetta er þó erfitt að spá en gert er ráð fyrir óbreyttum tekjum af þessum lið.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni felst að sama gjald verður innheimt fyrir veitingar allra atvinnuréttinda eða leyfa þar að lútandi. Í stað þess að telja upp einstök leyfi þar sem gjaldtakan er mismunandi er lagt til að eitt og sama gjald verði tekið fyrir útgáfu leyfa af þessum toga. Breyting þessi felur í sér eftirfarandi breytingar á gjaldtöku:
    
Var
Verður
1.     Leyfi til málflutnings fyrir Hæstarétti
75.000 5.000
2.     Leyfi til málflutnings fyrir héraðsdómi
50.000 5.000
3.     Leyfi til að stunda almennar lækningar
5.000 5.000
4.     Leyfi til að stunda sérfræðilækningar
75.000 5.000
5.     Leyfi til að stunda almennar tannlækningar
50.000 5.000
6.     Leyfi til að stunda sérfræðitannlækningar
75.000 5.000
7.     Lyfsöluleyfi
75.000 5.000
8.     Leyfi til tæknifræðinga, verkfræðinga, arkitekta, lyfjafræðinga,
    viðskiptafræðinga og hagfræðinga
25.000 5.000
9.     Löggilding manns um ævitíð (dómtúlkar, skjalaþýðendur,
    endurskoðendur o.fl.)
25.000 5.000
10.     Löggilding manns um óákveðinn tíma
5.000 5.000
11.     Meistarabréf
25.000 5.000
12.     Sveinsbréf
5.000 5.000
13.     Atvinnuskírteini skipstjórnarmanna A
11.000 5.000
14.     Atvinnuskírteini skipstjórnarmanna B
13.000 5.000
15.     Atvinnuskírteini skipstjórnarmanna C
14.000 5.000
16.     Vélstjórnarskírteini
13.000 5.000
17.     Flugnema- og svifflugmannsskírteini
5.000 5.000
18.     Einkaflugmannsskírteini
6.000 5.000
19.     Atvinnuflugmannsskírteini III. fl.
15.000 5.000
20.     Atvinnuflugmannsskírteini II. fl.
20.000 5.000
21.     Atvinnuflugmannsskírteini I. fl.
25.000 5.000
22.     Flugvéltækna-, flugvélstjóra- og flugumferðarstjóraskírteini
25.000 5.000
23.     Skírteini til kvikmyndasýninga:
    a.     staðbundin skírteini
5.000 5.000
    b.     sveinsskírteini
5.000 5.000
    c.     meistaraskírteini
5.000 5.000
24.     Naglabyssuskírteini
5.000 5.000
25.     Skírteini fyrir suðumenn
5.000 5.000
26.     Önnur leyfi af svipuðum toga er valdsmenn eða Stjórnarráð
    gefa út nema gjald sé ákveðið í sérstökum lögum eða
    stjórnvaldsfyrirmælum
5.000 5.000
    Í 3. mgr. er kveðið á um heimild til handa ráðherra að ákveða með reglugerð að innheimt verði sérstök próftökugjöld þegar halda þarf próf til að skera úr um hvort menn fái tiltekin atvinnuréttindi eða tengd réttindi. Próftökugjöldum þessum er eingöngu ætlað að standa straum af kostnaði við það að halda próf af þessu tagi.

Um 2. gr.


    Um skýringar vísast til almennrar athugasemda.

Um 3. gr.


    Gildistökuákvæði. Eigi er gert ráð fyrir að ákvæði frumvarpsins hafi afturvirk áhrif heldur komi til framkvæmda varðandi leyfi og skírteini sem gefin eru út eftir gildistökuna.