Ferill 295. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 295 . mál.


921. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um málefni aldraðra, nr. 82/1989, með síðari breytingum, og lögum nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga.

(Eftir 2. umr., 8. apríl.)



Breyting á lögum nr. 82/1989, um málefni aldraðra.


1. gr.


    Í stað orðsins „heilbrigðismálaráði“ í 1. mgr. og „heilbrigðismálaráðs“ í 2. mgr. 5. gr. laganna kemur: samstarfsráði heilsugæslustöðva og samstarfsráðs heilsugæslustöðva.
    Á eftir 5. gr. laganna kemur ný grein, 5. gr. a, svohljóðandi:
                  Sveitarstjórnum á starfssvæði heilsugæslustöðvar er heimilt að kjósa sameiginlega fimm eða sjö manna öldrunarmálaráð sem annist verkefni öldrunarnefndar. Öldrunarmálaráð gerir tillögur um verkefni sín til hlutaðeigandi sveitarstjórna. Í starfi sínu skal öldrunarmálaráð hafa samvinnu við félagsmálanefndir eða félagsmálaráð hlutaðeigandi sveitarstjórna og stjórn heilsugæslustöðvar eftir því sem kostur er.
                  Ákvæði 3. og 4. mgr. 5. gr. gilda um öldrunarmálaráð eftir því sem við á.

Breyting á lögum nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga.


2. gr.


    Við 39. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
                  Ákveði sveitarstjórn að fela sérstöku öldrunarmálaráði stjórn öldrunarmála, á grundvelli heimildar í lögum um málefni aldraðra, breytir það engu um þann rétt sem aldraðir eiga samkvæmt lögum þessum, þar á meðal hvað varðar málsmeðferð og málskot.
    40. gr. laganna orðast svo:
                  Félagsmálanefnd, eða öldrunarmálaráð, skal leitast við að tryggja framboð á hentugu húsnæði fyrir aldraða og jafnframt skipuleggja félagslega heimaþjónustu.

3. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.