Ferill 121. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 121 . mál.


1121. Nefndarálit



um frv. til l. um stofnun hlutafélags um Lyfjaverslun ríkisins og heimild til sölu hlutabréfa í því félagi.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Efnahags- og viðskiptanefnd afgreiddi frá sér frumvarp til laga um Lyfjaverslun ríkisins snemma þessa vorþings þótt dregist hafi að málið kæmi til endanlegrar afgreiðslu. Undirritaðir nefndarmenn stóðu að afgreiðslu frumvarpsins ásamt öðrum nefndarmönnum og rituðu undir nefndarálit með fyrirvara. Við meðferð málsins í nefnd var komið til móts við sjónarmið þeirra nefndarmanna sem gagnrýndu hvernig staðið hefur verið að einkavæðingu á ríkisfyrirtækjum og breytingartillaga lögð fram þar sem gert er ráð fyrir því að stjórnvöld þurfi að leita heimildar Alþingis eigi að selja meira en helming hlutafjár í hinu fyrirhugaða hlutafélagi. Með þeirri tillögu töldu undirritaðir nefndarmenn að verið væri að milda málið þótt vandi starfsfólksins væri óleystur.
    Síðan málið var afgreitt í sátt frá nefndinni, þó með alvarlegum fyrirvörum væri, hefur mikið vatn runnið til sjávar sem leiðir til þess að undirritaðir nefndarmenn draga stuðning sinn við málið til baka og geta ekki staðið að þeirri einkavæðingu sem fyrirhuguð er á Lyfjaverslun ríkisins.
    Í nóvember sl. gaf fjármálaráðherra út yfirlýsingu í tengslum við kjarasamninga um viðræður ríkisins og BSRB um samskipti þessara aðila. Að mati BSRB áttu þær m.a. að ná til einkavæðingaráforma ríkisstjórnarinnar. Það dróst á langinn að viðræður hæfust en nú standa þær yfir og eru í góðum farvegi að mati forustumanna BSRB. Það er ljóst að sala eða breyting á ríkisfyrirtækjum hefur áhrif á stöðu og kjör ríkisstarfsmanna og því er í hæsta máta óeðlilegt að standa að frekari einkavæðingu meðan þessar viðræður eiga sér stað. Ríkisstarfsmenn óttast að fyrirhugaðar breytingar hafi í för með sér fækkun starfa, launalækkun og réttindamissi í kjölfar þess að fólk neyðist til að skipta um stéttarfélög. Það varð reynslan af þeim breytingum sem átti að knýja í gegn hjá Strætisvögnum Reykjavíkur en sem kunnugt er var Reykjavíkuríhaldið neytt til að hætta við þau áform. Ríkisstjórnin ætti að læra af þeirri reynslu og hætta við áform um einkavæðingu Lyfjaverslunar ríkisins.
    Fulltrúar þeirra stéttarfélaga, sem komu á fund nefndarinnar, fullyrtu að breytingar þær, sem felast í 3. gr. frumvarpsins og vísa til réttinda og skyldna opinberra starfsmanna, feli í sér stjórnarskrárbrot. Í undirbúningi eru málaferli vegna sambærilegra breytinga á réttindum starfsmanna hjá Síldarverksmiðjum ríkisins. Þar er komin enn ein ástæðan til að fresta þessu máli. Rétt er að bíða niðurstöðu dómstóla, enda óþolandi að ríkið skuli sífellt standa í málaferlum við starfsmenn sína. Falli dómur ríkinu í óhag kann það að kosta ríkissjóð tugi milljóna síðar meir.
    Þá er að nefna þann tíma sem valinn er til einkavæðingarinnar. Samdráttur ríkir í efnahagsmálum og ótrúlegt verður að teljast að sanngjarnt verð fáist fyrir eignir ríkisins á tímum sem þessum. Því er óskynsamlegt út frá almannahagsmunum að leggja út í breytingar og rétt að bíða betri tíma og hærra verðs verði það niðurstaða Alþingis síðar meir að rétt sé að gera breytingar á Lyfjaversluninni.
    Síðast en ekki síst er reynslan af einkavæðingaráformum ríkisstjórnarinnar með þeim hætti að Alþingi hlýtur að segja hingað og ekki lengra. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um söluna á Síldarverksmiðjum ríkisins kemur fram hörð gagnrýni á hvernig staðið hefur verið að málum auk þess sem þau mál eru nú fyrir dómstólum. Einkavæðingin þarfnast því skoðunar af hálfu Alþingis. Margt bendir til að verksmiðjurnar — eign almennings í landinu — hafi verið afhentar á silfurfati og við höfum horft upp á núverandi eigendur stinga gróða síðasta árs í eigin vasa. Þetta eru ólíðandi vinnubrögð og því ber ríkisstjórninni að hætta við fyrirhuguð áform um frekari einkavæðingu. Óvissunni um framtíð Lyfjaverslunar ríkisins og framtíð starfsmanna hennar verður að linna með því að Alþingi vísi málinu aftur til föðurhúsanna. Því leggja undirritaðir nefndarmenn til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Alþingi, 28. apríl 1994.



Kristín Ástgeirsdóttir,

Steingrímur J. Sigfússon.


frsm.