Ferill 377. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 377 . mál.


1178. Nefndarálit



um frv. til l. um umboðsmann barna.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fékk á fund sinn til viðræðna Ragnheiði Thorlacius hdl., Drífu Pálsdóttur, skrifstofustjóra í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, Braga Guðbrandsson, aðstoðarmann félagsmálaráðherra, Hrólf Kjartansson, deildarstjóra í menntamálaráðuneytinu, Ármann Snævarr prófessor og Þorlák Karlsson frá Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Lögmannafélagi Íslands, biskupi Íslands, sifjalaganefnd, barnaverndarráði, samtökunum Barnaheill, Bernskunni – Íslandsdeild OMEP, Félagi íslenskra barnalækna, Heimili og skóla, Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar, Kennarasambandi Íslands, Félagi einstæðra foreldra, Dómarafélagi Íslands, landsnefnd um ár fjölskyldunnar og samtökunum Barnaheillum.
    Hugmyndir um stofnun embættis umboðmanns barna hér á landi komu fyrst fram árið 1978 í greinargerð með þingsályktunartillögu sem þingmenn Alþýðuflokksins fluttu um umbætur í málefnum barna. Drög að lögum um umboðsmann barna komu frá sifjalaganefnd í greinargerð með frumvarpi til barnalaga árið 1981. Á 109. löggjafarþingi árið 1986 var lagt fram frumvarp til laga um embætti umboðsmanns barna og var það endurflutt á 110. löggjafarþingi en varð þá ekki útrætt. Annað frumvarp um umboðsmann barna var flutt á 113. löggjafarþingi árið 1990 og endurflutt árið eftir en var þá vísað til ríkisstjórnar að tillögu allsherjarnefndar.
    Í frumvarpi þessu er tekið mið af þeim frumvörpum er áður hafa verið flutt um þetta efni og getið er hér að framan þótt ýmsu sé nú skipað á annan veg. Höfð hefur verið hliðsjón af reynslu norrænna þjóða af starfsemi umboðsmanns barna, einkum Norðmanna sem settu á stofn slíkt embætti með lögum árið 1981.
    Markmið frumvarpsins er að hér á landi verði starfandi óháður embættismaður sem vinni að því að fullt tillit verði tekið til réttinda, hagsmuna og þarfa barna jafnt hjá opinberum aðilum sem einkaaðilum. Er honum ætlað að vera málsvari eða talsmaður allra barna í samfélaginu og að eiga frumkvæði að gagnrýnni og stefnumarkandi umræðu um stöðu barna í þjóðfélaginu.
    Gert er ráð fyrir að umboðsmaður barna starfi á sviði stjórnsýslunnar og er það í samræmi við skipan mála í Noregi og Svíþjóð. Þá er gert ráð fyrir að embætti hans heyri undir forsætisráðuneyti í því skyni að tryggja hlutleysi hans gagnvart fagráðuneytum. Um boð- eða eftirlitsvald forsætisráðuneytisins verður þó ekki að ræða þar sem því er aðeins ætlað að hafa eftirlit með fjárreiðum embættisins. Er ljóst að tillögur, ábendingar eða gagnrýni umboðsmanns barna geta beinst að ríkjandi stjórnvöldum á hverjum tíma og því er umboðsmanni barna nauðsyn á sjálfstæði í starfi.
    Umboðsmanni barna er hvorki ætlað að taka til meðferðar mál sem heyra undir verksvið umboðsmanns Alþingis né mál sem eru til meðferðar hjá dómstólum eða stjórnvöldum. Þó má benda á að fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu að þrátt fyrir að verkefni umboðsmanns barna varði hagsmuni ótiltekins fjölda barna er ekkert sem hindrar að hann vekji athygli á, geri athugasemdir eða setji fram tillögur í tilefni af niðurstöðu stjórnvalds eða dómstóls sé niðurstaða þess eðlis að hún varði hag eða réttindi barna almennt.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali.
    Lögð er til breyting á 1. gr. sem felst í að frumvarpið hefjist á ákvæði um að stofna skuli embætti umboðsmanns barna og þykir það eðlilegt með tilliti til þess að um nýtt embætti er að ræða. Þá er bætt við þá þætti sem falla undir meginhlutverk umboðsmanns sem skal vera að bæta hag barna og standa vörð um hagsmuni, þarfir og réttindi þeirra eftir því sem nánar segir í frumvarpinu.
    Lagðar eru til nokkrar breytingar á 2. gr. Í greinargerð með frumvarpinu er gert ráð fyrir að sami einstaklingur gegni embættinu að jafnaði ekki lengur en 10 ár eða tvö skipunartímabil. Er lagt til að þessari reglu verði bætt við texta 1. mgr. 2. gr. með þeirri viðbót að skipa megi umboðsmanninn að nýju til fimm ára án auglýsingar en þó ekki oftar nema alveg sérstaklega standi á. Breytingin á 2. mgr. 2. gr. felst annars vegar í að fellt er brott hæfisskilyrði umboðsmanns um 30 ára aldur. Þykir það óþarflega strangt gagnvart hæfum einstaklingum sem að öðru leyti uppfylla hæfisreglur frumvarpsins. Þá er lagt til að í stað hugtaksins „lögum“ verði notað „lögfræði“ svo sem þetta embættispróf heitir. Loks er lagt til að við 3. mgr. bætist nýr málsliður þar sem tekið verði fram að umboðsmanni verði óheimilt að takast á hendur verkefni ósamrýmanleg starfi hans. Er hér sem dæmi átt við sæti í stjórn félags eða stofnunar sem fjallar um málefni barna eða t.d. rekur uppeldisstofnun og er þá oft um að ræða launalaus störf.
                  Varðandi embættisskilyrði umboðsmanns bárust nefndinni ábendingar í umsögnum um að æskilegt geti verið að umboðsmaður hafi sérþekkingu á málefnum barna vegna menntunar sinnar eða starfsþekkingar.
    Lagðar eru til breytingar á 3. gr. Í fyrsta lagi er lögð til breyting á 1. mgr. þannig að notað verði hugtakið „stjórnvald“ í stað „stjórnsýsluhafi“ og er það í samræmi við ný stjórnsýslulög, nr. 37/1993. Aðrar breytingar á 1. mgr. eru ekki efnislegar. Í öðru lagi eru lagðar til þær efnislegu breytingar á c-lið 2. mgr. að bætt verði við því hlutverki umboðsmanns að benda á að þjóðréttarsamningar sem varða réttindi og velferð barna verði fullgiltir. Þykir full þörf á að kveða á um þetta atriði í texta frumvarpsins enda verðugt verkefni fyrir umboðsmann barna að fylgja slíku eftir. Í þriðja lagi er lögð til smávægileg breyting á d-lið þannig að vísað verði til þess að umboðsmaður skuli bregðast við með tiltækum úrræðum telji hann að brotið hafi verið gegn réttindum, þörfum eða hagsmunum barna í samfélaginu. Í fjórða lagi er lagt til að nýr stafliður bætist við 2. mgr. 3. gr. þar sem umboðsmanni verði falið að stuðla að því að kynna almenningi gildandi rétt um málefni barna og beita sér fyrir rannsóknum á því sviði.
    Breytingin á 4. gr. felst í að bætt er við að ábendingar, sem beint er til umboðsmanns með það í huga að hann taki mál til meðferðar, skuli vera rökstuddar m.a. með það í huga að stemma stigu fyrir tilhæfulausum klögumálum.
    Efnislegar breytingar við 5. gr. eru aðeins þær að bætt er við 1. mgr. þeirri takmörkun á upplýsingarétti umboðsmanns barna að gerður er fyrirvari um upplýsingar sem varða öryggi ríkisins eða utanríkismál sem leynt skulu fara nema með leyfi viðkomandi ráðherra. Er hliðstæðar takmarkanir að finna lögum nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis.
    Loks er lögð til sú breyting á 8. gr. að ráðherra leiti tillagna umboðsmanns barna áður en reglur um starfshætti hans verða settar í reglugerð.
    Einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til að flytja breytingartillögur eða fylgja þeim sem fram kunna að koma.
    Jón Helgason og Kristinn H. Gunnarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 29. apríl 1994.



Sólveig Pétursdóttir,

Gísli S. Einarsson.

Ey. Kon. Jónsson.


form., frsm.



Tómas Ingi Olrich.

Anna Ólafsdóttir Björnsson.

Ingi Björn Albertsson,


með fyrirvara.



Ólafur Þ. Þórðarson,


með fyrirvara.