Ferill 597. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 597 . mál.


1195. Svar



félagsmálaráðherra við fyrirspurn Guðrúnar J. Halldórsdóttur um námskeið fyrir atvinnulausa.

    Hve miklum fjárhæðum hefur Atvinnuleysistryggingasjóður varið til að styrkja námskeiðahald fyrir atvinnulausa árin 1990, 1991, 1992 og 1993? Hvaða aðilar hafa hlotið þessa styrki og til hvaða verkefna?
                  Óskað er eftir upplýsingum um umfang hvers verkefnis (stundafjöldi og þátttakendafjöldi) og hve há upphæð hefur runnið til hvers verkefnis?

    Árið 1990 var varið 1.000.000 kr. til Námsflokka Reykjavíkur. Tekið skal fram að um var að ræða fyrstu styrkveitingu úr sjóðnum til námskeiðahalds. Samkvæmt upplýsingum Námsflokka Reykjavíkur voru 149 skráðir á námskeiðin og 51 lauk þeim. Ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um skiptingu þátttakenda milli námskeiða og skiptingu kostnaðar.
    Árið 1991 og 1992 voru engir styrkir veittir.
    Árið 1993 voru veittir eftirtaldir styrkir:
    a. Til Menningar- og fræðslusambands alþýðu 14.500.000 kr. Haldin voru 188 námskeið fyrir 884 þátttakendur. 2.025 viðurkenningarskjöl voru gefin út. Námskeiðin voru um tölvunotkun, almenn skrifstofustörf, verslunarreikning, vaxta- og verðbréfareikning, vélritun, ferðaþjónustu, sölumennsku, bókfærslu, markaðssetningu, gæðastýringu, tungumál, sjálfstyrkingu, réttindi og skyldur atvinnulausra, fjármál heimila, atvinnuumsóknir, mannleg samskipti, fatasaum og matreiðslu. Hvert námskeið var 20 stundir. Tekið skal fram að sjóðurinn hefur óskað eftir því að Menningar- og fræðslusamband alþýðu leggi fyrir 10. júlí nk. fram skýrslu um skiptingu þátttakenda á námskeið og kostnað við hvert þeirra.
    b. Til Iðntæknistofnunar 650.000 kr. Haldin voru fjögur námskeið um stofnun og rekstur smáfyrirtækja og voru þátttakendur 37. Hvert námskeið var 36–40 stundir og heildarkostnaður á þátttakanda 17.568 kr.
    c. Samþykkt var að veita Námsflokkum Reykjavíkur styrk að fjárhæð 1.500.000 kr. Hann hefur ekki verið greiddur enn þá og engar upplýsingar hafa borist um hvort haldin hafi verið námskeið fyrir atvinnulausa á vegum námsflokkanna.
    Að lokum er rétt að taka fram að ekki bárust umsóknir frá öðrum en ofangreindum aðilum um styrki til námskeiðahalda árin 1990–1993 og að ákvæði um að þátttaka í námskeiðum geti stytt biðtíma bótagreiðslna kom ekki inn í lög um atvinnuleysistryggingar fyrr en með lögum nr. 93/1993.

    Eftir hvaða reglum er fé veitt úr sjóðnum til námskeiða fyrir atvinnulausa og hvernig eru þær reglur ákveðnar?
    Hvað ræður vali á námsefni sem styrkhæft er og styttir biðtíma bótagreiðslna?

    Samkvæmt 3. mgr. 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 93/1993, með síðari breytingum, skal stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs setja reglur um veitingu styrkja til starfsþjálfunarnámskeiða. Samkvæmt upplýsingum sjóðsins hafa slíkar reglur ekki enn þá verið settar en stjórn sjóðsins hefur nú til athugunar að setja slíkar reglur. Hefur stjórnin fram að þessu metið hverja umsókn fyrir sig með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem fram koma í 1. mgr. 5. gr. reglugerðar um greiðslu atvinnuleysisbóta, nr. 247/1993, að um sé að ræða námskeið þar sem kennt er námsefni sem nýst getur hinum atvinnulausa við atvinnuleit. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. áðurnefndrar reglugerðar skal stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs útbúa skrá yfir þau námskeið sem skert geta biðtíma milli atvinnuleysistímabila, sbr. 1. mgr. sömu greinar, og senda úthlutunarnefndum. Samkvæmt upplýsingum sjóðsins sækja námskeiðshaldarar um að komast inn á þennan lista og hefur beiðni þar að lútandi hingað til ekki verið hafnað.

    Eru uppi áform um að breyta reglum sjóðsins um biðtíma bótagreiðslna og þá í hvaða veru?
    Þann 2. mars sl. skipaði félagsmálaráðherra starfshóp undir formennsku Láru V. Júlíusdóttur hdl. til að fara yfir þjónustu- og öryggiskerfi atvinnulausra. Nánar tiltekið var starfshópnum m.a. falið að kanna sérstaklega réttindi atvinnulausra með tilliti til starfsmenntunar og námsframboðs. Þegar niðurstöður starfshópsins liggja fyrir mun væntanlega verða tekin afstaða til þess hvort lagðar verði til breytingar á reglum um biðtíma bótagreiðslna.