Ferill 31. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 31 . mál.


31. Tillaga til þingsályktunar



um úttekt á tekju- og eignaskiptingu í þjóðfélaginu og samræmingu á launakjörum.

Flm.: Jóhanna Sigurðardóttir.



    Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að skipa nefnd sem hafi það verkefni að gera heildarúttekt á þróun tekju- og eignaskiptingar í þjóðfélaginu sl. tíu ár. Jafnframt skal nefndin leggja mat á hvaða leiðir eru best færar til að jafna kjör í þjóðfélaginu og endur meta störf láglaunahópa, einnig hvernig betur megi beita jöfnunaraðgerðum af hálfu stjórnvalda. Markmiðið er að auka hlut láglaunahópa í tekjuskiptingunni og stuðla að jafnrétti kynja í launamálum. Enn fremur skal nefndin leggja fram tillögur um aðferðir sem tryggi að heildarlaunagreiðslur, þar með talið yfirborganir, hlunnindi, föst og óunnin yfirvinna og hvers konar aðrar greiðslur er mynda heildarlaunakjör, verði felldar inn í op inbera launataxta.
    Í nefndinni eigi sæti einn fulltrúi frá hverjum eftirtaldra aðila: Hagstofu Íslands, Þjóð hagsstofnun og fjármálaráðuneyti, svo og aðilum vinnumarkaðarins. Skal nefndin í starfi sínu hafa samráð við kjararannsóknarnefnd og kjararannsóknarnefnd opinberra starfs manna.
    Úttektin á tekju- og eignaskiptingunni, sem mat og tillögur nefndar skulu grundvallast á, skal miða að því að upplýsa eftirfarandi þætti:
     1.     Dreifingu atvinnutekna eftir atvinnugreinum og starfsgreinum eins og kostur er, kyni og tekjuhópum annars vegar og launatöxtum, yfirborgunum, hlunnindagreiðsl um og öðrum greiðslum hins vegar.
     2.     Upplýsingar um þróun launaskriðs eftir því sem kostur er á milli starfsgreina, á almenna vinnumarkaðnum annars vegar og hjá hinu opinbera hins vegar.
     3.     Upplýsingar um launagreiðslur hjá hinu opinbera, skipt eftir kyni, dagvinnu, fastri yfirvinnu og annarri yfirvinnu, bílagreiðslum og öðrum hlunnindum.
     4.     Samanburð á launum og öðrum kjörum sambærilegra láglaunahópa eða starfsstétta er starfa hjá hinu opinbera annars vegar og á almenna markaðinum hins vegar.
     5.     Upplýsingar um neysluútgjöld einhleypra, einstæðra foreldra og vísitölufjölskyldunnar, skipt eftir tekjuhópum. Þar skal m.a. koma fram hlutfall matarútgjalda í heild arútgjöldum annars vegar og útgjöld vegna rafmagns og hita hins vegar, skipt eftir landshlutum.
     6.     Þróun á hlut launa í framleiðslukostnaði fyrirtækja, skipt eftir atvinnugreinum.
     7.     Þróun eigna skipt eftir tekjuhópum og kyni annars vegar og fasteignum, ökutækjum, peningalegri eign og hreinni eign hins vegar.
    Niðurstöður nefndarinnar skal leggja fyrir Alþingi á haustþingi 1995.
    Kostnaður greiðist úr ríkissjóði.

Greinargerð.


    Flestir eru sammála um að misréttið í tekju- og eignaskiptingunni í þjóðfélaginu sé orðið gífurlegt og enginn þekki orðið lengur frumskóg launa- og kjaramála í þjóðfélaginu.
    Jafnt og þétt hefur á síðustu áratugum þróast hér tvöfalt launakerfi. Í fyrsta lagi er um að ræða sýnilega launakerfið sem samið er um í kjarasamningum sem að stærstum hluta láglaunafólk þiggur laun samkvæmt. Í öðru lagi er það neðanjarðarkerfið í launakjörun um sem byggir á einstaklingsbundum samningum launþega við vinnuveitanda sinn í formi yfirborgana og hvers kyns hlunnindagreiðslna sem fæstir geta hent reiður á. Slíkt tvöfalt launakerfi býður heim miklu misrétti í þjóðfélaginu, auk þess sem öll viðleitni til að bæta kjör tekjulægstu hópa sérstaklega hefur reynst erfið þar sem allur raunhæfur sam anburður á raunverulegum launakjörum í þjóðfélaginu er ekki fyrir hendi.
    Þótt viðmiðanir úr skattframtölum séu ýmsum annmörkum háðar gefa þau þá mynd að launamunur þeirra lægst og hæst launuðu geti verið 20–25-faldur. Dreifing atvinnutekna hér á landi 1986–90 sem Þjóðhagsstofnun hefur tekið saman sýnir einnig að hlutur þeirra tekjuhæstu í þjóðfélaginu hefur vaxið en hlutur meðal- og lágtekjufólks hefur minnkað. Á árinu 1990 voru launatekjur þess fimmta hluta fólks á vinnumarkaðnum, sem hæstar hafði tekjurnar, tæp 44% af heildaratvinnutekjum, meðan hlutur þess fimmta hluta fólks á vinnumarkaði, sem lægstar hafði tekjurnar, var innan við 4%. Tveir þættir skekkja nokkuð þessa mynd ef reynt er að meta ráðstöfunartekjur. Í fyrsta lagi eru það áhrif jöfnunaraðgerða hins opinbera, svo og ráðstöfunartekjur eftir skatt, og hins vegar gífurlegur skattundandráttur í þjóðfélaginu, en gera má ráð fyrir að stærstur hluti undan skots liggi hjá tekjuhærri hluta þjóðarinnar.
    Allar kannanir benda líka til að allt of lítið hafi gengið að jafna launakjör kynjanna fyrir sambærileg störf í þjóðfélaginu. Bæði virðist svo að yfirborganir og hlunnindi á al menna vinnumarkaðinum og hjá hinu opinbera gangi frekar til karla en kvenna og einnig hitt að í sumum tilvikum, þegar bornar eru saman hefðbundnar kvennastarfsgreinar og hefðbundnar starfsgreinar karla sem krefjast sambærilegs námstíma, virðist einnig vera um verulegan launamismun að ræða. Í þessari tillögu til þingsályktunar er m.a. lagt til að störf láglaunahópa verði endurmetin. Brýnt er að gera könnun á því og meta hvort, og þá hvers vegna, láglaunastörf, ekki síst hefðbundin kvennastörf, séu metin óeðlilega lágt til launa miðað við önnur sambærileg störf á vinnumarkaðinum. Við mat á láglaunastörf um þyrfti að athuga sérstaklega hvort starfsreynsla við heimilisstörf sé eðlilega metin við röðun í launaflokka þegar um skyld störf á vinnumarkaðinum er að ræða, svo sem um önnunar- og uppeldisstörf. Til grundvallar í starfsmati ætti einnig að leggja þætti eins og ábyrgð, á jafnt mannlegum sem efnislegum verðmætum, vinnuálag, áhættu, hæfni, óþrifnað, erfiði, menntun, starfsþjálfun, starfsreynslu og aðra þá þætti sem áhrif hafa á kaup og kjör. Á sama hátt er eðlilegt að meta hvort hlutdeild láglaunahópa í tekjuskipt ingunni í þjóðfélaginu sé óeðlilega lág miðað við vinnuframlag. Við þann samanburð er nauðsynlegt að taka með yfirborganir og alla aðra kaupauka og kjaraþætti sem áhrif hafa í hverri starfsgrein á dagvinnutekjur annars vegar og heildarlaunatekjur hins vegar.
    Ljóst er einnig að hið opinbera hefur í samkeppni við hinn almenna vinnumarkað tekið þátt í þessu tvöfalda launakerfi þar sem stöðuheiti, föst yfirvinna og bílahlunnindi eru notuð til að bæta lág laun sem samið er um í kjarasamningum. Í athugun, sem gerð var fyrir nokkrum árum, kom einnig fram að að stærstum hluta renna þessar aukagreiðslur til karla, en um 90% komu í hlut karla sem störfuðu hjá hinu opinbera meðan um 10% komu í hlut kvenna.
    Til að hægt sé með raunhæfum hætti að jafna kjör í þjóðfélaginu, jafnt að bæta kjör láglaunahópa og jafna kjör kvenna og karla fyrir sambærileg störf, er nauðsynlegt að Alþingi og ríkisvaldið grípi til aðgerða sem stuðli að opnu launakerfi þar sem heildarlauna greiðslur og kjör verði sýnileg. Það er forsendan fyrir því að hægt sé að jafna eigna- og tekjuskiptinguna í landinu, bæði með jöfnunaraðgerðum hjá hinu opinbera sem og með því að bæta hlut láglaunahópa á raunhæfan hátt í kjarasamningum.
    Sama er uppi á teningnum hvort sem litið er til eigna- eða tekjuskiptingarinnar í þjóð félaginu. Samkvæmt framtölum 1993 eru um 9.800 hjón og einstaklingar með að meðal tali 2,7 milljónir kr. í skuldir umfram eignir á sama tíma og 320 hjón og einstaklingar eiga hver um sig að meðaltali 103 milljónir kr. í eignir umfram skuldir. Af því eiga þau um 43 milljónir kr. í skattfrjálsum peningalegum eignum.
    Af ofansögðu er ljóst að misréttið í eigna- og tekjuskiptingunni er hrikalegt og virðist fara vaxandi. Það er því löngu orðið tímabært að reynt sé að leita raunhæfra leiða til að jafna eigna- og tekjuskiptinguna í þjóðfélaginu.