Ferill 153. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 153 . mál.


166. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Flm.: Jóhanna Sigurðardóttir.



1. gr.


    Í stað orðsins „fimm“ í 7. tölul. 1. mgr. 31. gr. kemur: þremur.

2. gr.


    Við 56. gr. bætist ný málsgrein er orðast svo:
    Við yfirtöku félaga, þ.e. þegar félag kaupir það stóran hlut í öðru félagi að það nær yfirráðum, haldast skattaleg réttindi og skyldur beggja félaganna óbreytt. Sama á við þegar einstaklingar yfirtaka félag.
    

3. gr.

    57. gr. A orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. 56. gr. og 57. gr. er ekki heimilt að flytja rekstrartap milli félaga, þar með taldar eftirstöðvar rekstrartaps frá fyrri árum, sbr. 7. tölul. 31. gr.
    Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 56. gr. er ekki heimilt að nýta rekstrartap félags sem yfirtekið er, þar með taldar eftirstöðvar rekstrartapa frá fyrri árum, ef skattyfirvöld telja ljóst að skattasniðganga hafi verið meginmarkmið yfirtökunnar.

4. gr.

    Fyrirsögn 56.–57. gr. A verður: Sameining og yfirtaka félaga.

5. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu á árinu 1995 á tekjur ársins 1994.

Greinargerð.


    Ónotuð rekstrartöp voru á árinu 1994 samkvæmt álagningu 86 milljarðar króna og höfðu þá hækkað um 20 milljarða króna á síðustu tveimur árum. Hér er um að ræða fortíðarvanda fyrirtækja sem verður framtíðarvandi skattþegnanna í landinu. Slík rekstrartöp hafa m.a. verið nýtt af velstæðum fyrirtækjum sem kaupa til sín illa stödd eða gjaldþrota fyrirtæki fyrir óverulegar fjárhæðir. Þessi rekstrartöp nýta fyrirtækin síðan til frádráttar hagnaði og draga þannig úr skattgreiðslum sínum til samfélagsins. Svo langt er gengið að þessi töp eru auglýst til sölu.
    Með lögum nr. 85/1991 var heimild félaga, sem sameinast til að nýta sér rekstrartap, takmörkuð nokkuð. Meðal annars var gert að skilyrði að félög, sem sameinuðust, störfuðu í skyldum atvinnurekstri og jafnframt að allt yfirfært tap hefði myndast í sams konar rekstri og það félag sem við tæki hefði með höndum. Fljótlega kom í ljós að menn fundu ýmsar leiðir til að fara fram hjá ákvæðinu, t.d. með því að láta það félag, sem tapið hafði myndast í, halda áfram rekstri en ekki félagið með hagnaðinn eins og ákvæðið gerir ráð fyrir. Þá hefur einnig allnokkuð borið á því að í stað þess að sameinast hafi félög, sem sýna mikinn hagnað, keypt nægilega stóran hlut til að öðlast yfirráð í félögum sem átt hafa uppsafnað tap. Síðan hefur tilgangi síðarnefnda félagsins verið breytt og yfirtökufélagið þannig í raun getað nýtt sér hið uppsafnaða tap. Þótt um alls óskyldan rekstur hafi verið að ræða hefur 57. gr. A ekki náð yfir þessi tilvik þar sem ekki er um raunverulega sameiningu að ræða.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að heimildir fyrirtækja til að nýta sér rekstrartöp verði mjög þrengdar. Í fyrsta lagi er lögð til sú breyting á 31. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt að heimild fyrirtækis til að nýta sér rekstrartap nái aðeins þrjú ár aftur í tímann í stað fimm ára eins og reglan er í dag. Sú breyting mun draga verulega úr ónotuðum rekstrartöpum í framtíðinni. Þá er reynt að bæta úr annmörkum núverandi 57. gr. A á tvennan hátt. Annars vegar er gert ráð fyrir að greininni verði breytt á þann hátt að fyrirtækjum verði ekki lengur heimilt að kaupa upp rekstrartap annarra fyrirtækja með því að sameinast þeim. Hins vegar er lagt til að sett verði í lögin ný ákvæði um yfirtöku þannig að skattyfirvöld geti neitað um frádrátt vegna rekstrartaps ef þeim þykir ljóst að skattasniðganga hafi verið meginmarkmiðið með yfirtöku. Í samræmi við þessar síðastnefndu breytingar er fyrirsögn 56.–57. gr. A breytt.