Ferill 165. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 165 . mál.


179. Frumvarp til laga


um atvinnuréttindi útlendinga.

(Lagt fyrir Alþingi á 118. löggjafarþingi 1994.)


I. KAFLI

Gildissvið og orðskýringar.

1. gr.

    Ákvæði laga þessara gilda um atvinnuréttindi útlendinga á Íslandi.
    

2. gr.

    Í lögum þessum merkir:
     Atvinnuleyfi: Leyfi sem félagsmálaráðherra veitir útlendingi til að starfa á Íslandi eða atvinnurekanda til að ráða útlending í starf.
     Tímabundið atvinnuleyfi: Leyfi veitt atvinnurekanda til að ráða útlending til starfa.
     Óbundið atvinnuleyfi: Leyfi veitt útlendingi til að vinna á Íslandi.
     Atvinnuleyfi vegna námsdvalar og vistráðningar: Atvinnuleyfi erlendra námsmanna í íslenskum skólum eða vegna samninga um vist á heimili.
     Atvinnuleyfi til bráðabirgða: Leyfi veitt atvinnurekanda til að ráða til bráðabirgða útlendinga, einn eða fleiri, að uppfylltum tilteknum skilyrðum.
     Atvinnurekstrarleyfi: Leyfi til að vinna sjálfstætt eða starfrækja fyrirtæki.
     Atvinnurekandi: Einstaklingur eða fyrirtæki sem er með atvinnurekstur hér á landi án tillits til þess hvernig rekstrarformi og eignarhaldi er háttað.
     Útlendingur: Einstaklingur sem ekki hefur íslenskan ríkisborgararétt.
    

II. KAFLI

Almenn ákvæði.

3. gr.

    Veiting leyfa samkvæmt lögum þessum heyrir undir félagsmálaráðherra.
    Ráðherra er heimilt að fela opinberri stofnun að gefa út atvinnuleyfi samkvæmt nánari ákvæðum sem sett skulu í reglugerð.
    Viðskiptaráðherra veitir atvinnurekstrarleyfi til útlendinga sem eiga lögheimili eða eru búsettir erlendis, sbr. ákvæði laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri.
    

4. gr.

    Óheimilt er hverjum manni, félagi eða stofnun, sem rekur atvinnu eða starfrækir fyrirtæki, hverju nafni sem það nefnist, að ráða útlending til starfa, hvort heldur er um langan tíma eða skamman, eða hlutast til um að útlendingur flytjist til landsins í því skyni án atvinnuleyfis. Slíkt leyfi skal liggja fyrir áður en útlendingur kemur í fyrsta skipti til starfa á Íslandi.
    Útlendingi er óheimilt að ráða sig í vinnu eða starfa sjálfstætt nema leyfi hafi verið veitt samkvæmt lögum þessum eða lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri.
    Útlendingar, sem falla undir ákvæði 13. og 14. gr., eru undanþegnir ákvæðum 1. og 2. mgr. þessarar greinar.
    

5. gr.

    Óheimilt er að veita útlendingi leyfi samkvæmt lögum þessum sem hefur ekki dvalarleyfi hér á landi samkvæmt lögum um eftirlit með útlendingum eða hefur verið gert að fara af landi brott.
    

6. gr.

    Leyfi samkvæmt lögum þessum má binda öllum þeim skilyrðum um löggæslu, hollustuhætti, framfærslu, iðnnám eða aðra sérmenntun og sérhvað annað sem ráðherra telur nauðsynlegt eða heppilegt ríkis eða almennings vegna.
    Atvinnuleyfi veitir rétt til að vinna á Íslandi samkvæmt þeim reglum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði.
    

III. KAFLI

Atvinnuleyfi.

7. gr.

Tímabundið atvinnuleyfi.

    Tímabundið atvinnuleyfi er veitt atvinnurekanda til að ráða útlending til starfa. Skilyrði þess að atvinnuleyfi megi veita samkvæmt þessari grein eru eftirfarandi:
    að kunnáttumenn verði ekki fengnir innan lands, atvinnuvegi landsins skorti vinnuafl eða aðrar sérstakar ástæður mæli með leyfisveitingu,
    að fyrir liggi umsögn stéttarfélags á staðnum í hlutaðeigandi starfsgrein eða viðkomandi landssambands,
    að fyrir liggi undirskrifaður ráðningarsamningur til tiltekins tíma eða verkefnis sem tryggi erlendum starfsmanni laun og önnur starfskjör til jafns við heimamenn, sbr. lög um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda; í ráðningarsamningi skal einnig vera ákvæði um flutning hlutaðeigandi frá Íslandi að starfstíma loknum, svo og um greiðslur ferðakostnaðar og heimflutning í veikindum eða við óvænt ráðningarslit sem starfsmaður á ekki sök á,
    að fyrir liggi heilbrigðisvottorð hlutaðeigandi starfsmanns ásamt yfirlýsingu um síðasta dvalarstað áður en komið er til landsins.
    Atvinnuleyfi, sem veitt er í fyrsta skipti samkvæmt þessari grein, skal eigi veitt til lengri tíma en eins árs. Heimilt er að framlengja það um allt að tvö ár í senn enda séu uppfyllt skilyrði sem fram koma í a-c-liðum.
    Umsögn, sbr. b-lið 1. mgr., skal liggja fyrir innan 14 daga frá móttöku umsagnaraðila á umsókn um atvinnuleyfi.
    Áður en atvinnuleyfi er veitt samkvæmt þessari grein rannsakar vinnumálaskrifstofa félagsmálaráðuneytisins sjálfstætt atvinnuástand á hlutaðeigandi stað séu slíkar upplýsingar ekki þegar fyrir hendi.
    Heimilt er að veita útlendingi, sem er ríkisborgari í ríki sem hefur gert samning við íslensk stjórnvöld um atvinnuréttindi eða er aðili að alþjóðasamningum um félagsleg réttindi sem Ísland hefur fullgilt, leyfi til að stunda atvinnu á Íslandi í lengri tíma en greinir í 2. mgr.
    

8. gr.

Óbundið atvinnuleyfi.

    Heimilt er að veita útlendingi óbundið atvinnuleyfi hafi hann samfellt átt lögheimili á Íslandi í þrjú ár.
    Skilyrði þess að leyfi megi veita samkvæmt þessari grein eru eftirfarandi:
    að áður hafi verið veitt leyfi skv. 7. gr.,
    að hlutaðeigandi útlendingur hafi öðlast ótímabundið dvalarleyfi á Íslandi, sbr. lög um eftirlit með útlendingum.
    Heimilt er að veita útlendingi, er hefur fengið landvist hér á landi sem flóttamaður, atvinnuleyfi samkvæmt þessari grein.
    Leyfi samkvæmt þessari grein gildir meðan útlendingur hefur hér fasta búsetu.
    Ef ástæða þykir til er heimilt að afturkalla atvinnuleyfi sem veitt er samkvæmt þessari grein.
    

9. gr.

Atvinnurekstrarleyfi.

    Útlendingur, sem á lögheimili á Íslandi, getur fengið leyfi til að starfa sjálfstætt eða starfrækja fyrirtæki að uppfylltum neðangreindum skilyrðum:
    að umsækjandi sé fjárráða og hafi forræði á búi sínu,
    að leitað hafi verið umsagnar hlutaðeigandi heildarsamtaka aðila vinnumarkaðarins um umsóknina.
    Leyfi samkvæmt þessari grein er bundið við ákveðna starfsemi. Sé hún háð heimild annarra stjórnvalda skal umsækjandi leggja fram vottorð þess stjórnvalds um að hann geti fengið leyfi til starfseminnar. Ekki skal veita atvinnurekstrarleyfi í fyrsta skipti til lengri tíma en þriggja ára. Við endurnýjun er heimilt að veita slíkt leyfi til ótakmarkaðs tíma.
    Heimilt er að synja manni um atvinnurekstrarleyfi hafi hann verið sviptur starfsréttindum, sbr. ákvæði 2. mgr. 68. gr. almennra hegningarlaga.
    Umsögn, sbr. b-lið 1. mgr., skal liggja fyrir innan 14 daga frá móttöku umsagnaraðila á umsókn um atvinnurekstrarleyfi.
    

10. gr.

Atvinnuleyfi vegna námsdvalar.

    Heimilt er að veita útlendingi, sem stundar fullt nám við íslenskan skóla samkvæmt vottorði frá hlutaðeigandi skóla, leyfi til að stunda vinnu í tengslum við nám, með námi eða í námsleyfum.
    Skilyrði fyrir veitingu leyfis samkvæmt þessari grein er framvísun innritunarvottorðs hlutaðeigandi skóla og umsögn stéttarfélags eða viðkomandi landssambands. Leyfi skal ekki veitt til lengri tíma en eins árs í senn.
    Nánar skal kveðið á um atvinnuleyfi útlendinga, sem hafa lokið prófum frá íslenskum skólum, í reglugerð.
    

11. gr.

Atvinnuleyfi vegna vistráðningar.

    Heimilt er að veita leyfi til að ráða útlending í vist á íslensku heimili. Skilyrði fyrir veitingu leyfis er að fyrir liggi skriflegur samningur á milli aðila þar sem fram kemur gildistími samnings, hlunnindi að því er varðar fæði og húsnæði, daglegur vinnutími, daglegur og vikulegur hvíldartími og réttur til að stunda nám. Fæði og húsnæði skal vera ókeypis. Útlendingur, sem óskað er eftir að ráða samkvæmt þessari grein, skal hafa náð 17 ára aldri og ekki vera eldri en 30 ára.
    Félagsmálaráðuneytið skal ákveða upphæð vasapeninga sem greiða skal útlendingi sem ráðinn hefur verið í vist skv. 1. mgr.
    Ráðuneytinu er heimilt að veita stofnunum, fyrirtækjum og einstaklingum heimild til milligöngu um og eftirlit með ráðningum skv. 1. mgr. Aðilum, sem fá slíka heimild, er skylt að veita stjórnvöldum upplýsingar um þessa starfsemi ef eftir þeim er leitað. Ráðuneytið skal gefa út nauðsynleg eyðublöð vegna samninga um vistráðningu. Á eyðublaðið skal prenta upplýsingar um ábyrgð þess sem ræður til sín útlending í vist, m.a. í sambandi við sjúkra- og slysatryggingar.
    Óheimilt er að veita leyfi til ráðningar sama einstaklings skv. 1. mgr. nema til eins árs.

12. gr.

Atvinnuleyfi til bráðabirgða.

    Heimilt er að veita atvinnurekanda nafnlaust atvinnuleyfi til bráðabirgða. Við útgáfu slíkra atvinnuleyfa skal gætt ákvæða 1.–4. mgr. 7. gr. að undanskildum c- og d-liðum 1. mgr.
    Áður en útlendingur, sem hefur verið heimilað að ráða skv. 1. mgr., kemur til landsins ber að fá leyfi útlendingaeftirlitsins til landgöngu.
    Atvinnurekandi, sem hefur fengið heimild til ráðningar samkvæmt þessari grein, skal leggja fram tilskilin gögn innan 14 daga frá komu útlendingsins til landsins, sbr. c- og d-liðum 1. mgr. 7. gr.
    

IV. KAFLI

Undanþágur.

13. gr.

    Ekki þarf að sækja um leyfi samkvæmt lögum þessum fyrir:
    Ríkisborgara í ríkjum sem eiga aðild að samningi um Evrópska efnahagssvæðið hafi þeir fengið dvalarleyfi eða afhent manntalsskrifstofu norrænt flutningsvottorð.
    Útlendinga sem hafa verið íslenskir ríkisborgarar frá fæðingu en hafa misst íslenskan ríkisborgararétt.
    Útlendinga í einkaþjónustu sendimanna erlendra ríkja.
    

14. gr.

    Eftirtaldir útlendingar eru undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi vegna vinnu í allt að fjórar vikur á ári hér á landi:
    Vísindamenn og fyrirlesarar að því leyti sem varðar kennslu eða hliðstæða starfsemi.
    Listamenn að undanskildum hljóðfæraleikurum sem ráða sig til starfa á veitingahúsum.
    Íþróttaþjálfarar.
    Fulltrúar í viðskiptaerindum fyrir fyrirtæki sem ekki hafa útibú hérlendis.
    Ökumenn fólksflutningabifreiða sem skráðar eru í erlendu ríki enda hafi þeir komið með erlenda ferðamenn í bifreiðunum til landsins.
    Blaða- og fréttamenn erlendra fjölmiðla sem eru í þjónustu fyrirtækja sem ekki hafa starfsstöð á Íslandi.
    Sérhæfðir starfsmenn, ráðgjafar og leiðbeinendur sem vinna að samsetningu, uppsetningu, eftirliti eða viðgerð tækja eru undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi vegna vinnu í allt að 10 daga á ári hér á landi.
    

V. KAFLI

Viðurlög og afturköllun atvinnuleyfa.

15. gr.

    Brot gegn lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim varða þann sektum er hefur útlending í vinnu án leyfis, svo og útlending er starfar án leyfis. Sömu refsingu varðar það ef ekki eru haldin skilyrði eða brotin ákvæði er sett kunna verða í leyfi sem veitt eru samkvæmt lögum þessum.
    Hafi aðili hlutast til um að útlendingur, sem hefur verið synjað um atvinnuleyfi, flytjist til landsins til að taka hann í þjónustu sína ber þeim aðila að sjá um brottflutning slíks erlends starfsmanns innan þess tíma sem ráðherra tiltekur ríkissjóði að kostnaðarlausu.
    

16. gr.

    Heimilt er að afturkalla leyfi sem veitt eru samkvæmt lögum þessum ef brotin eru ákvæði laganna eða skilyrðum, sem sett eru í leyfum, er ekki fullnægt, svo og ef veruleg breyting verður á leyfistímanum á eftirspurn og framboði vinnuafls.
    

17. gr.

    Ef útlendingur stundar atvinnu eða atvinnurekstur hér á landi í andstöðu við ákvæði laga þessara er útlendingaeftirlitinu heimilt að vísa honum úr landi, sbr. ákvæði laga um eftirlit með útlendingum.
    

18. gr.

    Mál út af brotum gegn lögum þessum skulu sæta opinberri meðferð.
    

VI. KAFLI

Ýmis ákvæði og gildistaka.

19. gr.

    Þegar það á við skal tilkynna útlendingi leyfisveitingu eða synjun er hann varðar. Allar leyfisveitingar og synjanir skulu tilkynntar útlendingaeftirlitinu.
    Við útgáfu atvinnuleyfis skal afhenda útlendingi, eða umboðsmanni hans, skírteini þar sem fram koma upplýsingar um réttindi hans til að stunda vinnu á Íslandi. Í skírteininu skulu vera nauðsynlegar persónuupplýsingar. Útlendingur skal hafa skírteinið tiltækt og framvísa því ef löggæslumaður óskar þess. Heimilt er að krefja umsækjanda um atvinnuleyfi um endurgjald fyrir skírteinið. Endurgjaldið skal ekki vera hærra en sem nemur kostnaði við útgáfu þess.

20. gr.

    Félagsmálaráðuneytið skal árlega leita álits helstu samtaka atvinnurekanda og launafólks á stefnu sem fylgt er við veitingu atvinnuleyfa til ráðningar á útlendingum til starfa á Íslandi.
    Ráðuneytið útbýr og dreifir prentuðum upplýsingum til sendiráða Íslands og annarra er þess óska. Greint skal frá reglum um dvalarleyfi, almennum launakjörum, vinnutíma, aðbúnaði við vinnu hér á landi, sköttum og opinberum gjöldum, rétti til yfirfærslu fjármuna, réttindum og skyldum sem erlent starfsfólk tekst á hendur við ráðningu í vinnu. Það skal enn fremur gefa út nauðsynleg eyðublöð vegna umsókna um atvinnuleyfi.
    

21. gr.

    Í reglugerð getur ráðherra sett nánari fyrirmæli um framkvæmd laga þessara.
    

22. gr.

    Með lögum þessum eru úr gildi numin lög nr. 26/1982, með síðari breytingum, um atvinnuréttindi útlendinga.
    

23. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

Inngangur.

    Á undanförnum árum hafa orðið miklar breytingar á samskiptum Íslendinga við aðrar þjóðir. Sífellt hefur orðið algengara að Íslendingar flytjist til annarra landa til lengri eða skemmri búsetu. Ástæðurnar eru margvíslegar. Atvinna og nám eru sennilega þeirra algengastar. Þetta gildir einnig um erlenda ríkisborgara. Ýmislegt hefur stuðlað að þessari þróun. Skipta þar mestu greiðari samgöngur og alþjóðasamningar sem auðvelda fólki að setjast að og fá leyfi til að vinna í öðrum löndum. Í þessu sambandi má nefna samning Norðurlanda um sameiginlegan vinnumarkað sem var undirritaður árið 1982. Aðild Íslands að félagsmálasáttmála Evrópu árið 1976 einfaldaði formsatriði varðandi leyfi til að vinna í öðrum aðildarríkjum sáttmálans. Mest áhrif munu samt verða af gildistöku samningsins um Evrópska efnahagssvæðið í ársbyrjun 1994. Í ljósi framangreindra breytinga er endurskoðun laga um atvinnuréttindi útlendinga orðin tímabær.
    Félagsmálaráðherra skipaði 9. nóvember 1993 nefnd til að endurskoða gildandi lög um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 26/1982. Í nefndina voru skipuð: Jóhann Jóhannsson, starfsmaður útlendingaeftirlitsins, samkvæmt tilnefningu dómsmálaráðherra, Jón H. Magnússon, lögfræðingur VSÍ, samkvæmt tilnefningu Vinnuveitendasambands Íslands, og Lára V. Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri ASÍ, samkvæmt tilnefningu Alþýðusambands Íslands. Halldór Grönvold, skrifstofustjóri ASÍ, tók sæti Láru 1. september 1994.
    Félagsmálaráðherra skipaði Gylfa Kristinsson, deildarstjóra í félagsmálaráðuneytinu, formann nefndarinnar. Nefndin hélt samtals 24 fundi.
    Auk þess að endurskoða lög um atvinnuréttindi útlendinga var nefndinni falið að taka sérstaklega til athugunar ákvæði um útgáfu sjálfstæðra atvinnurekstrarleyfa og atvinnuleyfi útlendinga er stunda nám í skólum sem íslenska ríkið á eða styrkir, einnig hvort ástæða sé til að gera frekari greinarmun en nú er gerður á atvinnuleyfum eftir störfum eða starfstíma. Með tilliti til laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, laga nr. 34/1991, var enn fremur talið nauðsynlegt að taka til endurskoðunar gildissvið laga um atvinnuréttindi útlendinga. Loks var endurskoðunarnefndinni falið að setja fram tillögur um einföldun á útgáfu atvinnuleyfa. Að öðru leyti var nefndinni í sjálfsvald sett hvaða ákvæði gildandi laga um atvinnuréttindi útlendinga hún teldi nauðsynlegt að endurskoða.
    Endurskoðunarnefndin hóf starf sitt með því að kynna sér gildandi lög í næstu nágrannalöndum um útgáfu atvinnuleyfa vegna ráðningar erlendra ríkisborgara. Fyrir hana voru einnig lagðar athugasemdir sérfræðinganefndar Evrópuráðsins sem fer yfir skýrslur um framkvæmd ákvæða félagsmálasáttmála Evrópu. Fjallað er um atvinnuleyfi í 18. gr. sáttmálans. Sérfræðingar Evrópuráðsins hafa gagnrýnt ákvæði íslensku laganna um atvinnuleyfi útlendinga og talið þau vera fremur ströng. Nefndin hefur einnig haft til athugunar ákvæði samþykkta Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um réttindi og aðbúnað farandverkamanna.
    Við endurskoðun laganna fékk nefndin á fund sinn Hörð Lárusson, deildarstjóra í menntamálaráðuneyti, Jón Ögmund Þormóðsson, skrifstofustjóra í iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, og Signýju Sen, fulltrúa við embætti lögreglustjórans í Reykjavík. Enn fremur hafði formaður nefndarinnar samband við Dögg Pálsdóttur, skrifstofustjóra í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, og fulltrúa samgönguráðuneytis.

Helstu nýmæli.

    Frumvarp það, sem hér er lagt öðru sinni fyrir Alþingi, er árangur starfs framangreindrar nefndar sem endurskoðaði ákvæði laga um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 26/1982. Nefndin hefur lagt megináherslu á að samstæðum efnisþáttum sé skipað í sama kafla frumvarpsins. Þannig er fjallað um gildissvið og orðskýringar í I. kafla og almenn ákvæði í II. kafla. Í III. kafla er fjallað um atvinnuleyfi. Rétt er að vekja athygli á þeirri breytingu að betur er greint á milli einstakra flokka atvinnuleyfa en gert er í gildandi lögum. Fjallað er um hvern flokk atvinnuleyfa í sérstakri grein. Í hlutaðeigandi grein er fjallað um skilyrði fyrir veitingu atvinnuleyfis og til hversu langs tíma það skuli veitt. Í kaflanum er að finna ákvæði um tvo nýja flokka atvinnuleyfa. Lagt er til að nú þurfi erlendir ríkisborgarar, sem hér dvelja vegna náms, að sækja um atvinnuleyfi vilji þeir stunda vinnu með námi eða í leyfum. Enn fremur er lagt til að sérstök atvinnuleyfi verði veitt vegna ráðningar í vist á íslensk heimili. Hér er um að ræða svonefnda au pair ráðningu.
    Í IV. kafla frumvarpsins er fjallað um undanþágur. Í honum er greint á milli tveggja tegunda af undanþágum. Tekið er mið af samningi um Evrópskt efnahagssvæði og tillögum sem hafa verið til umfjöllunar í GATT-samningum um þjónustuviðskipti.
    Ákvæði V. kafla, um viðurlög og afturköllun atvinnuleyfa, og VI. kafla, sem hefur að geyma ýmis ákvæði, eru í öllum höfuðatriðum óbreytt frá hliðstæðum ákvæðum í gildandi lögum.
    Helstu nýmæli frumvarpsins felast í eftirfarandi:
     Þrír flokkar atvinnuleyfa: Greint er á milli þriggja tegunda atvinnuleyfa. Tímabundið atvinnuleyfi er veitt atvinnurekanda til ráðningar útlendings til ákveðins starfs um tiltekinn tíma. Óbundið atvinnuleyfi er veitt útlendingi til að vinna á Íslandi. Atvinnurekstrarleyfi felur í sér leyfi til að vinna sjálfstætt eða starfrækja fyrirtæki. Að auki er gert ráð fyrir sérstökum atvinnuleyfum vegna erlendra námsmanna sem stunda nám í íslenskum skólum og vegna einstaklinga sem ráða sig í vist á íslensk heimili (au pair ráðningar).
     Tveir flokkar undanþágna: Lagt er til að undanþágur frá kröfu um atvinnuleyfi verði tvenns konar. Varanlegar undanþágur, t.d. fyrir EES-borgara og starfsmenn sendimanna erlendra ríkja. Tímabundnar undanþágur verði einnig tvenns konar. Vegna vinnu hér á landi sem stendur í allt að fjórar vikur á ári. Í þessu tilviki er tekið mið af tillögum sem eru til umfjöllunar í þeim hluta GATT-viðræðnanna sem eru um þjónustuviðskipti. Undanþágan tekur annars vegar m.a. til vísindamanna og fyrirlesara, listamanna, íþróttaþjálfara og blaða- og fréttamanna. Hins vegar eru tilteknir leiðbeinendur og ráðgjafar undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi vegna vinnu hér á landi sem stendur í allt að 10 daga á ári.
     Ákvæðið um atvinnurekstrarleyfi: Lagt er til að krafa um atvinnurekstrarleyfi verði tekin upp að nýju. Veiting atvinnurekstrarleyfa verður þar með á vegum tveggja ráðuneyta. Félagsmálaráðherra veitir útlendingum með lögheimili hér á landi atvinnurekstrarleyfi. Viðskiptaráðherra fer með útgáfu atvinnurekstrarleyfa til útlendinga sem eiga lögheimili erlendis eða eru búsettir þar. Um þau leyfi gilda ákvæði laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri.
    

Kynning á frumvarpinu og umsagnir.

    Frá því frumvarp þetta var fyrst lagt fyrir Alþingi í apríl 1994 hefur það verið kynnt fyrir hagsmunaaðilum. Það var kynnt á tveimur fundum sem félagsmálaráðuneytið stóð fyrir. Í fyrsta lagi var haldinn opinn kynningarfundur 5. maí sl. Á það var lögð áhersla að erlendir ríkisborgarar, sem búsettir voru hérlendis og vildu kynna sér efni frumvarpsins, mættu á fundinn. Frumvarpið var enn fremur á dagskrá samráðsfundar ráðuneytisins með helstu samtökum á vinnumarkaði vegna undirbúnings almennrar stefnumörkunar varðandi ráðningu erlends starfsfólks, sbr. 4. gr. gildandi laga um atvinnuréttindi útlendinga. Á fundunum komu fram ýmsar athugasemdir og ábendingar um það sem betur mætti fara í frumvarpinu og er gerð grein fyrir þeim síðar í þessum kafla.
    Félagsmálaráðuneytið sendi frumvarpið út til umsagnar hagsmunasamtaka, sbr. skrá í fskj. IV. Umsagnir bárust frá eftirtöldum: Alþýðusambandi Íslands (ASÍ), Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja (BSRB), Bandalagi háskólamenntaðra starfsmanna ríkisins (BHMR), Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu, Jafnréttisráði, menntamálaráðuneytinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, samgönguráðuneytinu, Samtökum iðnaðarins, Vélstjórafélagi Íslands og Vinnumálasambandinu.
    BSRB, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið, Jafnréttisráð, Samband íslenskra sveitarfélaga og samgönguráðuneytið gera ekki athugasemdir við frumvarpið.
    Eftirfarandi athugasemdir við frumvarpið komu fram:
    BHMR telur að frumvarpið feli í sér nokkra þrengingu á þeim hugmyndum um réttarreglur sem liggja að baki samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Hins vegar er bandalagið þeirrar skoðunar að frumvarpið feli í sér aukið frjálsræði og skýrari réttarreglur gagnvart öðrum útlendingum.
     Um 4. gr.
    BHMR gerir athugasemd við ákvæði um gildissvið laganna. Bandalagið telur einkennilegt að láta lögin taka til allra útlendinga en hafa undanþáguákvæði í 13. gr. sem m.a. taka til borgara frá aðildarríkjum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.
     Um b-lið 7. gr.
    Miðstjórn ASÍ leggur mikla áherslu á ákvæði b-liðar 7. gr. um að leita þurfi umsagnar stéttarfélags varðandi veitingu tímabundins atvinnuleyfis. Miðstjórnin bendir á að með gildistöku samningsins um Evrópska efnahagssvæðið hafi stéttarfélögin misst nær alla möguleika á að hafa áhrif á aðstreymi útlendinga inn á vinnumarkaðinn þar sem ákvæði um skyldu til að leita umsagnar stéttarfélaga sé ekki að finna í samningnum. Hér sé því um að ræða verulega breytingu frá því fyrirkomulagi sem ríkt hefur hér á landi í mörg ár. Nauðsynlegt sé að stéttarfélögin hafi tækifæri til að hafa áhrif á þessi mál svo að ekki verði um misnotkun að ræða.
    BHMR telur óeðlilegt að veita stéttarfélögum vald til að hafna atvinnuleyfum útlendinga á grundvelli atvinnuástands. Bandalagið telur eðlilegra að fagstéttarfélög hafi eftirlit með því að útlendingar uppfylli fagleg hæfniskilyrði ekki síður en Íslendingar til að stunda þau störf sem gera sérstakar kröfur um faglegt hæfi. Í því sambandi telur bandalagið mikilvægt að stéttarfélögin fái vitneskju um alla útlendinga sem óska eftir atvinnuleyfi hér á landi í því skyni að bjóða þeim félagsaðild og tryggja þeim lögbundin lágmarkskjör samkvæmt viðkomandi kjarasamningum stéttarfélaganna.
    Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga leggur áherslu á að veitt verði tímabundið hjúkrunarleyfi af heilbrigðis- og tryggingaráðuneytinu um leið og veitt er tímabundið atvinnuleyfi. Áður en slíkt leyfi verði veitt komi til kasta hjúkrunarráðs að meta hæfni erlendra einstaklinga sem sótt er um leyfi til að ráða til starfa hérlendis.
    Samtök iðnaðarins eru sammála sérálitinu og leggja til að vinnumálaskrifstofa félagsmálaráðuneytisins sé umsagnaraðili um það þegar sótt er um að ráða útlending til starfa á Íslandi en ekki hlutaðeigandi stéttarfélag.
    Vélstjórafélag Ísland er þeirrar skoðunar að umsagnarréttur stéttarfélags, þar sem fram komi álit á atvinnuástandi í viðkomandi atvinnugrein, sé eðlilegur varnagli áður en atvinnuleyfi er veitt.
    Vinnumálasambandið er sammála sérálitinu og telur að efla beri vinnumálaskrifstofu félagsmálaráðuneytisins. Sambandið bendir á að með því að fela vinnumálaskrifstofunni og ráðgjafarnefnd hennar umsagnarrétt um veitingu atvinnuleyfis muni faglegt mat á atvinnuástandinu aukast. Það vekur á því athygli að skrifstofan geti haft samband við stéttarfélög ef þurfa þykir og kannað hug þeirra til veitingar atvinnuleyfa. Vinnumálasambandið vekur athygli á því að báðir aðilar vinnumarkaðarins eigi fulltrúa í ráðgjafarnefnd vinnumálaskrifstofunnar og að formaður nefndarinnar sé annar varaforseti ASÍ og fulltrúi ASÍ í ráðgjafarnefndinni sé fyrrverandi varaforseti Alþýðusambandsins.
    Þátttakendur í opnum kynningarfundi félagsmálaráðuneytisins voru sammála um að umsagnarréttur stéttarfélaga væri úrelt fyrirbrigði sem ætti að leggja niður. Á fundinum kom fram ósk um að í stað umsagnarréttar komi almennara fyrirkomulag eða að umsagnarrétturinn verði takmarkaður við heildarsamtök launafólks.
     Um 8. gr.
    ASÍ leggur til að sett verði ákvæði í greinina um skyldu til að leita umsagnar stéttarfélags um umsókn um óbundið atvinnuleyfi. Rök Alþýðusambandsins fyrir þeirri breytingu koma fram hér að framan þar sem fjallað er um athugasemdir við 7. gr.
     Um 9. gr.
    BHMR gerir hliðstæðar athugasemdir við 9. gr. og 7. gr. Bandalagið telur óskiljanlegt hvers vegna aðlar vinnumarkaðarins eigi að gefa umsögn um atvinnurekstrarleyfi. Hins vegar telur það mikilvægt að gerðar séu sömu kröfur um faglegt hæfi útlendinga í atvinnurekstri og Íslendinga. BHMR telur þess vegna eðlilegt að hlutaðeigandi fagstéttarfélög eigi að ganga úr skugga um að viðkomandi uppfylli skilyrði laga um faglegt hæfi.
    Vinnumálasambandið leggur til að vinnumálaskrifstofu félagsmálaráðuneytisins verði falið að fara með umsagnarrétt um atvinnurekstrarleyfi.
    Á opnum fundi félagsmálaráðuneytisins var vakin athygli á því að óeðlilegt væri að hlutaðeigandi samtök atvinnurekenda og launafólks fái umsagnarrétt um umsóknir um atvinnurekstrarleyfi. Það sé vafasamt að hugsanlegir samkeppnisaðilar fái veður af því hvað umsækjandi hyggst taka sér fyrir hendur með sjálfstæðum rekstri.
     Um 10. gr.
    Menntamálaráðuneytið telur að ákvæði greinarinnar muni væntanlega þrengja atvinnumöguleika erlendra námsmanna í tengslum við nám og í námsleyfum. Í sambandi við þetta bendir ráðuneytið á að slík þrenging gæti haft áhrif á möguleika þessara námsmanna til að standa straum af kostnaði við námsdvölina. Ráðuneytið lítur þó svo á að þetta sé vinnumarkaðsmál.
    Á samráðsfundi félagsmálaráðuneytisins og aðila vinnumarkaðarins var spurt um það hvort vinnan þurfi að vera liður í námi hlutaðeigandi námsmanns til þess að atvinnuleyfi verði veitt. Ef svo sé ekki þurfi að breyta orðalagi greinarinnar.
     Um 14. gr.
    Miðstjórn ASÍ gerir í umsögn sinni að umtalsefni umfjöllun um hugtakið listamaður í athugasemdum við 14. gr. frumvarpsins. Í athugasemdunum er lagt til að hugtakið listamaður verði túlkað rúmt og taki til hljómlistarmanna. Miðstjórnin getur ekki fallist á þessa túlkun. Hún bendir á að starfstími erlendra hljómlistarmanna hér á landi er oft og tíðum stuttur einkum að því er varðar hljómlistarmenn sem stunda tónlistarflutning á veitingahúsum. Fram kemur ótti við að sú undanþága frá atvinnuleyfi, sem felst í 14. gr., leiði til óeðlilegs aðstreymis erlendra hljómlistarmanna sem takmarki atvinnumöguleika innlendra aðila. Í umsögninni segir að erlendir hljómlistarmenn, sem nytu góðs af undanþágunni, starfi oft hjá fyrirtækjum sem eru á mörkum hins opinbera hagkerfis. Miðstjórnin telur þau rök í athugasemdunum veigalítil sem byggjast á því að erfitt sé að framfylgja kröfunni um atvinnuleyfi í þessum tilvikum. Hún vill að reglur um störf erlendra hljómlistarmanna hér á landi verði hertar í því skyni að hindra undanskot á sköttum til hins opinbera. Niðurstaða miðstjórnarinnar er að undanþágan frá atvinnuleyfi taki ekki til hljómlistarmanna á veitingahúsum.
    Á opnum fundi félagsmálaráðuneytsins kom fram gagnrýni á ákvæði greinarinnar. Á því var vakin athygli að vísindamenn og fyrirlesarar komi yfirleitt hingað til lands til lengri dvalar en 10 daga. Nær væri að miða undanþágu frá kröfu um atvinnuleyfi við einn til tvo mánuði.
     Um 15. gr.
    Miðstjórn ASÍ telur að ákvæði vanti í lögin um eftirlit og umsjón með því að fylgt sé ákvæðum laga um atvinnuréttindi útlendinga og telur hún að á því hafi verið misbrestur undanfarin ár. Því er lagt til að sett verði í frumvarpið skýr ákvæði um eftirlit með framkvæmd laganna.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í hliðstæðri grein í gildandi lögum er tekið fram að þau gildi ekki um ríkisborgara tiltekinna landa. Hér er gert ráð fyrir að lögin taki til allra sem ekki hafa íslenskan ríkisborgararétt. Í IV. kafla eru ákvæði sem heimila að vikið sé frá þeirri meginreglu laganna að erlendir ríkisborgarar þurfi að fá sérstakt leyfi til að starfa hér á landi.
    

Um 2. gr.

    Í greininni er fjallað um orð og hugtök sem notuð eru í frumvarpinu. Greinin þarfnast ekki skýringa.
    

Um 3. gr.

    Tekið er fram að veiting atvinnuleyfa heyri til verksviðs félagsmálaráðherra. Í greininni er félagsmálaráðherra heimilað að fela opinberri stofnun útgáfu atvinnuleyfa á grundvelli laganna og reglugerða sem kunna að verða settar með stoð í þeim. Hér er gert ráð fyrir að félagsmálaráðherra geti t.d. veitt stofnun sem fjallar um vinnumál eða jafnvel opinberri vinnumiðlun heimild til að annast útgáfu atvinnuleyfa. Þeirri leið er einnig haldið opinni að hægt sé að sameina útgáfu atvinnu- og dvalarleyfis á einum stað, t.d. hjá útlendingaeftirliti, enda þótt formleg leyfisveiting verði hjá félagsmálaráðherra eða stofnun sem heyrir undir félagsmálaráðuneytið. Það er nauðsynlegt að við veitingu atvinnuleyfa sé tekið tillit til ástands og horfa á vinnumarkaði. Sérþekking á aðstæðum á vinnumarkaði er í félagsmálaráðuneytinu sem ráðuneyti vinnumála.
    Í 3. mgr. er tekið fram að viðskiptaráðherra fari með heimild til að veita útlendingum, sem eiga lögheimili erlendis, leyfi til að stunda atvinnurekstur á Íslandi, sbr. ákvæði í 8. tölul. 4. gr. laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri. Nánar er fjallað um þetta í athugasemdum við 9. gr.
    

Um 4. gr.

    Samkvæmt greininni er óheimilt að ráða útlending til starfa á Íslandi án þess að leyfi fyrir ráðningunni hafi áður verið veitt af til þess bæru stjórnvaldi. Í 3. mgr. er vísað til 13. og 14. gr. Þar er að finna nokkrar undantekningar frá þessari meginreglu laganna. Að undantekinni 3. mgr. samsvarar greinin 2. gr. gildandi laga.
    

Um 5. gr.

    Ákvæði greinarinnar er að finna í 3. gr. gildandi laga.
    

Um 6. gr.

    Ákvæði greinarinnar er óbreytt frá ákvæði í 10. gr. gildandi laga.
    

Um 7. gr.

    Í inngangi kemur fram að í frumvarpi þessu er greint á milli þriggja tegunda atvinnuleyfa. Samkvæmt greininni er lagt til að það sem áður var kallað atvinnuleyfi verði nú kallað tímabundið atvinnuleyfi. Þetta heiti gefur betur til kynna að um er að ræða mjög takmarkaða heimild til að stunda atvinnu á Íslandi. Skilyrði fyrir veitingu tímabundins atvinnuleyfis eru í öllum meginatriðum þau sömu og eru í gildandi lögum um veitingu atvinnuleyfa. Í greininni er að finna skilyrði fyrir veitingu leyfisins og einnig eru ákvæði um réttindi sem heimilt er að veita. Tekið er fram að heimilt er að veita það til eins árs í fyrsta skipti. Þetta er hliðstætt ákvæði í gildandi lögum. Nýmæli greinarinnar felst í heimild til að framlengja fyrsta leyfi um tvö ár. Eftir að leyfi hefur verið gefið út tvívegis á grundvelli greinarinnar getur útlendingur sótt um óbundið atvinnuleyfi samkvæmt ákvæðum 8. gr.
    Í upphaflegri gerð frumvarpsins, sem lögð var fyrir Alþingi til kynningar í apríl 1994, var gert ráð fyrir að ákvæði gildandi laga um umsagnarrétt hlutaðeigandi stéttarfélags yrði óbreytt. Í umsögnum og athugasemdum, sem borist hafa endurskoðunarnefndinni, hefur þetta verið gagnrýnt. Ýmist hefur verið lagt til að umsagnarrétturinn verði felldur niður eða tekið undir tillögu fulltrúa VSÍ í endurskoðunarnefndinni um að hann verði fenginn ráðgjafarnefnd vinnumálaskrifstofunnar, sbr. sérálit sem fram kemur í fskj. I um orðalag b-liðar. Endurskoðunarnefndin hefur rætt þetta efni ítarlega á fundum sínum. Niðurstaða hennar er leggja til að í stað þess að það sé gert að skilyrði að leitað skuli umsagnar annaðhvort hlutaðeigandi stéttarfélags eða landssambands ef ekki er stéttarfélag á staðnum verði umsagnarrétturinn bundinn við hlutaðeigandi stéttarfélag eða landssamband. Með þessari breytingu er opnuð sú leið að umsagnarréttur geti færst til landssambands. Slík þróun gæti leitt til þess að við mat á umsókn um atvinnuleyfi verði frekar tekið tillit til atvinnuástands á landinu öllu en tíðkast hefur fram til þessa. Á það skal lögð áhersla að fulltrúi VSÍ stendur við fyrri tillögur sem koma fram í áðurnefndu séráliti í fskj. I. Tekið skal fram að hann er einnig andvígur umsagnarrétti hlutaðeigandi landssambands.
    Í niðurlagi greinarinnar er stjórnvöldum veitt heimild til að veita tilteknum útlendingum atvinnuleyfi til lengri tíma en greinir í 2. mgr. Hér er fyrst og fremst um tvo hópa að ræða. Í fyrsta lagi er átt við ríkisborgara í aðildarríkjum félagsmálasáttmála Evrópu, annarra en þeirra sem eru aðilar að samningi um Evrópska efnahagssvæðið. Þau lönd, sem hér um ræðir, eru Kýpur, Malta og Tyrkland. Lagt er til að gildistími fyrsta atvinnuleyfis vegna borgara í þessum löndum verði tvö ár enda njóti Íslendingar hliðstæðra réttinda í þessum löndum. Í öðru lagi getur komið til álita að veita borgurum í ríkjum sem gera gagnkvæma samninga við Ísland um atvinnuleyfi rýmri rétt enda fái Íslendingar sama rétt í þeim löndum.
    

Um 8. gr.

    Ákvæði greinarinnar fjallar að efni til um óbundið atvinnuleyfi eða það sem kallað er sjálfstætt atvinnuleyfi í gildandi lögum. Í frumvarpinu felst veruleg breyting frá núverandi fyrirkomulagi. Lagt er til að það verði viðurkennt að útlendingur, sem hefur dvalið hérlendis í þrjú ár, hafi fest rætur á Íslandi. Eftir þrjú ár geti útlendingur sótt um óbundið atvinnuleyfi, þ.e. leyfi sem er veitt honum persónulega en ekki atvinnurekanda.
    Annað nýmæli felst í einföldun á skilyrðum fyrir óbundnu atvinnuleyfi. Fellt er niður ákvæði um þörf atvinnuveganna fyrir vinnuafl og krafa um umsögn stéttarfélags. Um þetta atriði varð ágreiningur í nefndinni sem endurskoðaði lögin. Fulltrúi ASÍ vildi að útgáfa óbundins atvinnuleyfis væri bundin því skilyrði að fyrir lægi umsögn stéttarfélags.
    Einnig er tekið upp ákvæði í 3. mgr. um heimild til að veita flóttamönnum óbundið atvinnuleyfi. Við skilgreiningu á því hverjir teljist flóttamenn er stuðst við skilgreiningu samnings Sameinuðu þjóðanna um flóttamenn frá 28. júlí 1951 og kvótaflóttamenn. Með kvótaflóttamönnum er átt við tiltekinn fjölda flóttamanna sem stjórnvöld heimila landvist.
    

Um 9. gr.

    Ákvæði um atvinnurekstrarleyfi var að finna í lögum nr. 26/1982. Ákvæðið var fellt úr lögunum með lögum nr. 69/1993. Þetta virðist hafa verið gert vegna notkunarleysis. Nefndin, sem samdi frumvarpið, telur rétt að taka að nýju upp í lög ákvæði um að útlendingar þurfi í öllum tilvikum leyfi stjórnvalda til að starfa sjálfstætt eða stunda atvinnurekstur hér á landi. Rökin fyrir þessu eru aðallega tvíþætt. Nefndin telur óeðlilegt að útlendingar, sem hyggjast stofna til rekstrar hér á landi, eigi greiðari aðgang að atvinnulífi og vinnumarkaði en þeir sem ráða sig til almennra starfa. Hér þarf að gera hliðstæðar kröfur. Enn fremur telur nefndin þetta nauðsynlegt til að auðvelda eftirlitsaðilum, fyrst og fremst útlendingaeftirlitinu, að rækja lögbundið eftirlitsstarf.
    Nefndin gerir það að tillögu sinni að útgáfa atvinnurekstrarleyfis verði í höndum tveggja aðila, félagsmálaráðuneytis og viðskiptaráðuneytis. Útgáfa hvors ráðuneytis um sig fari eftir búsetu hlutaðeigandi einstaklings. Þannig annist viðskiptaráðuneyti útgáfu allra atvinnurekstrarleyfa útlendinga sem eru búsettir erlendis, sbr. ákvæði laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri. Í 8. tölul. 4. gr. laganna er kveðið á um það að einstaklingur, sem er búsettur erlendis, geti ekki unnið sjálfstætt eða starfrækt eigið atvinnufyrirtæki eða tekið þátt í fyrirtæki með ótakmarkaðri ábyrgð nema með leyfi viðskiptaráðherra.
    Nefndin hefur kynnt sér ákvæði laga um útgáfu ýmiss konar leyfa sem fela í sér rétt til að standa fyrir atvinnustarfsemi. Í fæstum tilvikum eru ákvæði í þessum lögum sem gera íslenskan ríkisborgararétt að skilyrði fyrir leyfi til atvinnurekstrar. Hún leggur til að í stað þess að breyta þessum lagaákvæðum verði það gert að skilyrði að hlutaðeigandi útlendingur hafi atvinnurekstrarleyfi. Framkvæmdin verði þannig að áður en slíkt leyfi er endanlega gefið út veiti félagsmálaráðuneytið atvinnurekstrarleyfið á grundvelli vottorðs hlutaðeigandi stjórnvalds um að það telji útlendinginn uppfylla öll skilyrði til að standa fyrir viðkomandi rekstri. Rétt er að taka fram að hér er fyrst og fremst um að ræða útlendinga sem búsettir eru hérlendis en þeim ber samkvæmt framansögðu að afla sér atvinnurekstrarleyfis hjá félagsmálaráðuneytinu eða þeim aðila sem það hefur falið að annast útgáfu slíkra leyfa. Skylda til að tilkynna útgáfu slíkra leyfa til útlendingaeftirlitsins tekur hins vegar til beggja ráðuneytanna, þ.e. félagsmálaráðuneytis og viðskiptaráðuneytis.
    

Um 10. gr.

    Í gildandi lögum eru útlendingar, sem stunda nám í skólum sem íslenska ríkið á eða styrkir, undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi. Við framkvæmd hafa komið upp ýmis vandamál í sambandi við túlkun, einkum á því hvaða nám veiti undanþágu frá kröfu um atvinnuleyfi. Þar af leiðandi er gerð tillaga um að allir útlendingar, sem ekki falla undir ákvæði IV. kafla, þurfi atvinnuleyfi. Í upphaflegri gerð frumvarpsins var gert ráð fyrir að veiting leyfis samkvæmt greininni yrði bundin því skilyrði að um væri að ræða fullt nám samkvæmt skilgreiningu hlutaðeigandi stjórnvalda skólamála. Við nánari athugun hefur komið í ljós að þetta orðalag getur skapað vanda. Þar af leiðandi er nú lagt til að það verði hlutverk hlutaðeigandi skóla að votta hvað teljist fullt nám. Athygli endurskoðunarnefndarinnar var einnig vakin á því að orðalagið „í tengslum við nám“ setti stjórnvöldum mjög þröngar skorður að því er varðar veitingu leyfis samkvæmt greininni. Nefndin varð því sammála um að bæta við greinina orðunum „með námi“. Gert er ráð fyrir að slíkt leyfi verði veitt allt að einu ári í senn enda þótt innritunarvottorð muni í flestum tilvikum kveða á um innritun í nám sem stendur eina önn. Krafa er gerð um það að umsögn stéttarfélags eða landssambands liggi fyrir áður en atvinnuleyfi er gefið út samkvæmt greininni. Í athugasemdum við 7. gr. kemur fram að fulltrúi VSÍ í endurskoðunarnefndinni er andvígur umsagnarrétti stéttarfélags eða hlutaðeigandi landssambands um umsóknir um atvinnuleyfi. Þessi afstaða gildir einnig um hliðstætt ákvæði í 10. gr., sbr. fskj. I. Hér er því gerð tillaga um hertari reglur en samtímis gert ráð fyrir að þeim verði beitt af sanngirni. Markmiðið er fyrst og fremst að koma í veg fyrir misnotkun og gera stjórnvöldum kleift að hafa yfirsýn yfir þennan hóp útlendinga.
    

Um 11. gr.

    Í greininni er fjallað um vistráðningar á heimili. Á undanförnum áratugum hefur það tíðkast að ungt fólk hefur ráðið sig í vist á heimili erlendis, þ.e. gerst au pair. Þessi þróun hefur náð hingað til lands. Íslenskum ungmennum, sem hafa farið með þessum hætti til útlanda, hefur fjölgað mjög mikið. Sama á við um erlend ungmenni sem hafa leitað eftir því að komast í vist á íslensk heimili. Þótt hér sé um að ræða góða hugmynd sem byggir á því að gefa ungu fólki tækifæri til að kynnast öðrum þjóðum var reynslan misjöfn. Upp kom ágreiningur um lengd vinnutíma, vasapeninga og önnur hlunnindi. Í því skyni að festa í sessi þetta ráðningarform átti Evrópuráðið frumkvæði að því að gerður var samningur um þetta efni. Í honum er að finna reglur um réttindi og skyldur aðila. Helstu ákvæði samningsins eru tekin upp í greinina. Nefndin, sem samdi frumvarpið, leggur til að Ísland fullgildi samning Evrópuráðsins um au pair ráðningar.
    Í greininni er tekið fram að félagsmálaráðuneytið ákveði upphæð vasapeninga sem greiða skal þeim sem ræður sig í vist. Veturinn 1993–1994 lögðu félagsmálaráðuneytið og útlendingaeftirlitið til að upphæð vasapeninga skyldi vera 20.000 kr. á mánuði. Við ákvörðun á þeirri upphæð var höfð hliðsjón af kjarasamningi Starfsmannafélagsins Sóknar, upphæð atvinnuleysisbóta og daglegum vinnutíma þess vistráðna.
    Í 3. mgr. er gert ráð fyrir að félagsmálaráðuneytinu sé heimilt að veita ýmsum aðilum heimild til að hafa milligöngu um vistráðningar. Aðilar, sem fá slíka heimild, skulu vera skyldir til að hafa eftirlit með því að ákvæði samninga á milli aðila um vistráðninguna verði haldin. Þetta er í samræmi við samning Evrópuráðsins um au pair ráðningar. Lagt er til að ráðuneytið útbúi sérstök eyðublöð vegna samninga um vistráðningar sem samningsaðilar noti. Þar komi fram þau atriði sem tilgreind eru í 1. mgr. Í málsgreininni er sérstaklega tekið fram að á eyðublaðið skuli prenta upplýsingar um ábyrgð þess sem ræður útlending í vist, m.a. í sambandi við sjúkra- og slysatryggingar. Um þetta atriði er fjallað í 10. gr. samningsins um au pair ráðningar. Þar er almenna reglan sú að viðtakandi útlendings í vist skal tryggja þann vistráðna á eigin kostnað sé hann ekki þegar tryggður á grundvelli laga, reglna eða samninga um félagslegt öryggi.
    

Um 12. gr.

    Ákvæði greinarinnar er hliðstætt ákvæði í 3. mgr. 3. gr. gildandi laga. Lagt er til að þess verði krafist að sótt verði um atvinnuleyfi fyrir útlending, sem komið hefur til landsins vegna leyfis er hefur verið veitt á grundvelli greinarinnar, í síðasta lagi tveimur vikum eftir komu til Íslands.
    

Um 13. gr.

    Í IV. kafla frumvarpsins er að finna ákvæði sem heimila undanþágur frá kröfu um atvinnuleyfi. Undanþágurnar eru tvenns konar. Annars vegar eru tilteknir einstaklingar undanþegnir kröfunni. Þeir eru taldir upp í greininni. Hins vegar eru aðilar sem hyggjast starfa hér á landi um mjög takmarkaðan tíma. Um þessa einstaklinga er fjallað í 14. gr.
    Efnislega er að finna hliðstæð ákvæði í 11. gr. gildandi laga. Við hana hefur þó verið bætt ákvæði sem er í 1. gr. gildandi laga sem undanþiggur borgara í aðildarríkjum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið kröfu um atvinnuleyfi. Áður hefur verið getið um breytingar í sambandi við erlenda námsmenn.
    

Um 14. gr.

    Greinin er nýmæli. Samkvæmt henni eru ýmsir einstaklingar undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi enda starfi þeir ekki hér á landi lengur en í fjórar vikur á hverju 12 mánaða tímabili. Í upphaflegri gerð frumvarpsins var gert ráð fyrir að undanþágan gilti um vinnu í 10 daga hér á landi á hverju 12 mánaða tímabili. Athugasemdir komu fram við þetta atriði og var lagt til að tíminn yrði lengdur. Sú hefur orðið niðurstaðan en jafnframt hefur ákvæði, sem upphaflega var í e-lið, verið flutt í 2. mgr. og er þar miðað við 10 daga vinnu eins og gert var í upphaflegri gerð frumvarpsins.
    Markmið greinarinnar er tvíþætt. Annars vegar er verið að undanþiggja ýmsa einstaklinga kröfu um atvinnuleyfi komi þeir hingað til lands vegna vísinda, fræðslu, lista eða í viðskipaerindum. Reynslan sýnir að í þessum tilvikum er mjög erfitt að framfylgja kröfum um atvinnuleyfi. Í öðru lagi er verið að færa íslenska löggjöf nær löggjöf nágrannalandanna um atvinnuleyfi. Þriðja atriðinu má bæta við en það lýtur að samningaviðræðum um tollamál (GATT-viðræðum). Samkvæmt drögum að samkomulagi um þjónustuviðskipti er gert ráð fyrir að undanþiggja útlendinga í viðskiptaerindum kröfu um atvinnuleyfi.
    A–d-liðir skýra sig að mestu sjálfir. Lagt er til að hugtakið listamaður í b-lið verði túlkað rúmt þannig að það taki t.d. til kvikmyndagerðarmanna, fjöllistamanna o.s.frv. Þótt hljóðfæraleikarar á veitingahúsum séu undanþegnir b-lið greinarinnar gildir undanþágan um hljómlistarmenn sem koma fram opinberlega gegn innheimtu sérstaks aðgangseyris eða álags á venjubundinn aðgangseyri.
    Rétt er að taka fram að með íþróttaþjálfurum í c-lið er ekki átt við íþróttakennara sem starfa við skóla, heldur þjálfara sem eru ráðnir til íþróttafélaga eða samtaka til að þjálfa keppendur.
    Í d-lið er vísað til fulltrúa í viðskiptaerindum fyrir fyrirtæki sem ekki hafa útibú hérlendis. Á það er lögð áhersla að stafliðurinn tekur fyrst og fremst til þeirra sem eru að kynna vöru og þjónustu. Markmiðið er ekki að gera hvers kyns sölumönnum auðveldara að athafna sig hér á landi í samkeppni við verslunar- og þjónustufyrirtæki sem greiða hér skatta og önnur gjöld til að standa undir rekstri þjóðfélagsins.
    E-liður tekur mið af fjölbreyttari samgöngum til og frá landinu. Lagt er til að ökumenn fólksflutningabifreiða, sem skráðar eru erlendis, séu undanskildir kröfu um atvinnuleyfi enda séu þeir að koma til landsins með ferðahópa. Í framkvæmd munu þessir útlendingar ekki hafa verið krafðir um atvinnuleyfi enda í mörgum tilvikum erfitt að færa sönnur á að þeir séu í raun í vinnu hér á landi. Ákvæðið er hliðstætt ákvæðum í lögum annarra ríkja, t.d. sænsku lögunum. Það hefur verið borið undir samgönguráðuneytið sem hefur ekki gert athugasemdir.
    F-liður er hliðstæður ákvæðum í norskum og sænskum lögum.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að starfsmenn, ráðgjafar og leiðbeinendur, sem vinna við uppsetningu, eftirlit og viðgerð tækja, þurfi ekki atvinnuleyfi vegna vinnu í 10 daga hér á landi á hverju 12 mánaða tímabili. Hér er fyrst og fremst um að ræða tilvik þegar tæki eru seld hingað til lands með ábyrgð seljanda á hinu selda en ábyrgðin er háð því skilyrði að uppsetning, prófanir og tímabundið eftirlit sé í höndum sérhæfðra starfsmanna seljanda eða annarra sem hann viðurkennir í þessu skyni.
    Fulltrúi VSÍ lagði til að greint yrði á milli annars vegar sérhæfðra starfsmanna, ráðgjafa og leiðbeinanda sem vinna að samsetningu og uppsetningu tækja og þeirra sem annast eftirlit eða viðgerð tækja. Hann lagði til að ákvæði 1. mgr. taki til fyrrnefndu starfsmannanna og þeir yrðu undanþegir kröfu um atvinnuleyfi vegna vinnu í allt að fjórar vikur á ári hér á landi. Síðarnefndu starfsmennirnir verði undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi vegna vinnu í allt að 10 daga á ári hér á landi. Í þessu sambandi vakti hann athygli á ákvæðum norsku útlendingalaganna þar sem starfsmenn, sem fjallað er um í 2. mgr. frumvarpsins, eru undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi vegna vinnu í allt að þrjá mánuði á ári. Hliðstætt ákvæði er að finna í dönsku lögunum um atvinnuleyfi. Hann lagði áherslu á að íslensk löggjöf yrði færð nær dönsku og norsku lögunum að þessu leyti.
    Rétt er að taka fram að ef útlendingur verður uppvís að því að misnota heimildarákvæði greinarinnar er hægt að vísa honum úr landi á grundvelli ákvæða í 3. tölul. 11. gr. laga um eftirlit með útlendingum.
    

Um 15. gr.

    Í almennum inngangi hér að framan kemur fram að ákvæði V. kafla um viðurlög og afturköllun atvinnuleyfa eru í öllum höfuðatriðum óbreytt frá gildandi lögum. Um er að ræða smávægilegar breytingar á orðalagi og samræmingu við önnur lög, fyrst og fremst lög um eftirlit með útlendingum.
    Ákvæði greinarinnar er óbreytt frá ákvæði 1. mgr. 12. gr. gildandi laga.
    

Um 16. gr.

    Ákvæði greinarinnar er óbreytt frá ákvæði 4. mgr. 12. gr. gildandi laga.
    

Um 17. gr.

    Efnislega er ákvæði greinarinnar í 13. gr. gildandi laga. Hér er lögð til sú breyting að í stað þess að félagsmálaráðherra annist flutning þeirra útlendinga, sem stunda atvinnu eða atvinnurekstur í andstöðu við lögin, úr landi verði það hlutverk útlendingaeftirlitsins. Útlendingaeftirlitið mundi vísa þeim útlendingum úr landi á grundvelli 11. gr. laga um eftirlit með útlendingum.

Um 18. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.
    

Um 19. gr.

    Efnislega er ákvæði 1. mgr. að finna í 3. mgr. 12. gr. gildandi laga. Um er að ræða að útlendingur fái vitneskju um afgreiðslu sem mál hans fá í þeim tilvikum þegar umsækjandi um atvinnuleyfi er annar en hann sjálfur. Orðalagið „þegar það á við“ vísar til þess að það getur verið erfiðleikum bundið fyrir stjórnvöld að upplýsa útlending, sem er búsettur í öðru landi, um veitingu eða synjun umsókna um leyfi er hann varðar.
    Lagt er til að félagsmálaráðuneytið og útlendingaeftirlitið láti hanna sérstök skírteini fyrir útlendinga sem fá atvinnu- og dvalarleyfi. Útlendingur skal ætíð hafa skírteinið handbært og framvísa því sé þess óskað af fulltrúum eftirlitsstofnana. Skírteini þessi skulu afhent af útlendingaeftirlitinu, eða umboðsmönnum þess, þ.e. hjá hlutaðeigandi lögreglustjórum eða sýslumönnum. Á skírteininu skal koma fram að útgefendur eru félagsmálaráðuneytið og útlendingaeftirlitið. Nefndin leggur til að heimilt verði að taka endurgjald af umsækjanda atvinnuleyfa sem ýmist er atvinnurekandi eða hlutaðeigandi útlendingur. Það skal þó eigi vera hærra en sem nemur kostnaði við útgáfu þeirra. Taka skal mið af verðlagningu hliðstæðra skírteina sem gefin eru út af hinu opinbera, t.d. af endurgjaldi vegna útgáfu ökuskírteinis.
    

Um 20. gr.

    Ákvæði greinarinnar er svo til óbreytt frá gildandi lögum. Rétt þykir að hlutaðeigandi stjórnvald, félagsmálaráðuneytið, leiti álits helstu samtaka atvinnurekenda og launafólks á stefnu sem fylgt verður við veitingu atvinnuleyfa vegna ráðningar útlendinga til starfa á Íslandi. Þetta er jafnvel talið enn nauðsynlegra verði útgáfa atvinnuleyfa falin stofnun, t.d. á vegum félagsmálaráðuneytisins. Við það breytist hlutverk ráðuneytisins frá því að vera framkvæmdaraðili í að móta almenna stefnu í þessum málum.
    

Um 21. gr.

    Í greininni felst heimild fyrir ráðherra til að setja nánari fyrirmæli um framkvæmd laganna í reglugerð.
    

Um 22. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.
    

Um 23. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal I.

    

Sérálit Jóns H. Magnússonar um breytingu

á orðalagi 7. og 10. gr. frumvarpsins, dags. 26. mars 1994.

         Jón H. Magnússon leggur til að b-liður 1. mgr. 7. gr. orðist svo: „að fyrir liggi umsögn ráðgjafarnefndar vinnumálaskrifstofu félagsmálaráðuneytisins.“
    Í niðurlagi 1. mgr. 10. gr. falli niður orðin: „og umsögn stéttarfélags“.

Athugasemdir.

    Með frumvarpi til laga um vinnumiðlun, sem kynnt hefur verið í ríkisstjórn og verður væntanlega til umfjöllunar á Alþingi á sama tíma og þetta frumvarp, er gert ráð fyrir eflingu starfsemi vinnumálaskrifstofu félagsmálaráðuneytisins og auknu hlutverki ráðgjafarnefndar vinnumálaskrifstofunnar. Með miðlægu gagnavinnslukerfi til vinnumiðlunar og úrvinnslu gagna um atvinnuástand og atvinnuleysi, sem verður tekið í notkun í haust, verður gjörbylting að því er varðar möguleika á því að fylgjast með þróun og breytingum á vinnumarkaði á landinu öllu. Verða þá ráðgjafarnefndin, vinnumálaskrifstofan og vinnumiðlanir betur í stakk búnar til þess að fylgjast með og bregðast við breytingum á vinnumarkaðnum. Aukast þá jafnframt möguleikar á því að útvega vinnuafl frá öðrum stöðum innan lands í stað þess að flytja inn vinnuafl.
    Einstök stéttarfélög geta ekki haft sömu yfirsýn yfir vinnumarkaðinn og er því eðlilegt með tilliti til framangreinds að umsagnarrétturinn sé færður frá þeim til ráðgjafarnefndar vinnumálaskrifstofunnar þar sem í ráðgjafarnefndinni eiga sæti fulltrúar heildarsamtaka launþega á almennum vinnumarkaði og í opinberri þjónustu auk fulltrúa samtaka atvinnurekenda. Það er einnig hlutverk ráðgjafarnefndarinnar að fylgjast með atvinnuástandi og atvinnuhorfum og gera tillögur til úrbóta.
    Í a-lið 1. mgr. 7. gr. er gert ráð fyrir að umsóknir séu vegnar og metnar miðað við þarfir á landsvísu en ekki aðeins út frá staðbundnum aðstæðum eins og umsagnarrétturinn í b-lið gerir ráð fyrir. Aðstæður og möguleikar til upplýsingaöflunar um ástand og horfur á vinnumarkaði hafa breyst svo mikið að ástæða er til þess að breyta reglunum til samræmis við það og fella niður umsagnarrétt staðbundinna stéttarfélaga.


Fylgiskjal II.

Samanburður á útgefnum atvinnuleyfum 1992–1994.*


    Í jan.     1992 voru útg.     70 ný atv.l. og     101 framl.
    Í jan.     1993 voru útg.     47 ný atv.l. og     74 framl.
    Í jan.     1994 voru útg.     13 ný atv.l. og     75 framl.
    Í febr.     1992 voru útg.     144 ný atv.l. og     178 framl.
    Í febr.     1993 voru útg.     26 ný atv.l. og     79 framl.
    Í febr.     1994 voru útg.     17 ný atv.l. og     65 framl.
    Í mars     1992 voru útg.     62 ný atv.l. og     96 framl.
    Í mars     1993 voru útg.     34 ný atv.l. og     93 framl.
    Í mars     1994 voru útg.     18 ný atv.l. og     51 framl.
    Í apríl     1992 voru útg.     17 ný atv.l. og     56 framl.
    Í apríl     1993 voru útg.     13 ný atv.l. og     60 framl.
    Í apríl     1994 voru útg.     13 ný atv.l. og     29 framl.
    Í maí     1992 voru útg.     52 ný atv.l. og     181 framl.
    Í maí     1993 voru útg.     42 ný atv.l. og     115 framl.
    Í maí     1994 voru útg.     20 ný atv.l. og     79 framl.
    Í júní     1992 voru útg.     32 ný atv.l. og     217 framl.
    Í júní     1993 voru útg.     31 ný atv.l. og     147 framl.
    Í júní     1994 voru útg.     30 ný atv.l. og     98 framl.
    Í júlí     1992 voru útg.     29 ný atv.l. og     113 framl.
    Í júlí     1993 voru útg.     15 ný atv.l. og     113 framl.
    Í júlí     1994 voru útg.     13 ný atv.l. og     55 framl.
    Í ágúst     1992 voru útg.     1 ný atv.l. og     85 framl.
    Í ágúst     1993 voru útg.     37 ný atv.l. og     106 framl.
    Í sept.     1992 voru útg.     54 ný atv.l. og     168 framl.
    Í sept.     1993 voru útg.     38 ný atv.l. og     83 framl.
    Í okt.     1992 voru útg.     42 ný atv.l. og     77 framl.
    Í okt.     1993 voru útg.     47 ný atv.l. og     64 framl.
    Í nóv.     1992 voru útg.     109 ný atv.l. og     35 framl.
    Í nóv.     1993 voru útg.     54 ný atv.l. og     94 framl.
    Í des.     1992 voru útg.     63 ný atv.l. og     117 framl.
    Í des.     1993 voru útg.     54 ný atv.l. og     93 framl.
    
    Á árinu 1993 voru gefin út 438 atvinnuleyfi og 1.121 leyfi voru framlengd.
    Á árinu 1992 voru gefin út 601 ný atvinnuleyfi og 1.424 leyfi voru framlengd.

    * Hinn 1. janúar 1994 gekk í gildi samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið. Frá þeim tíma féll niður skylda til að sækja um atvinnuleyfi vegna ríkisborgara í aðildarríkjum EES.


Fylgiskjal III.

    

Evrópusamningur um „AU PAIR“- vistun.

         Ríkisstjórnir þær, sem undirritað hafa samning þennan og aðilar eru að Evrópuráðinu,
    álíta að markmið Evrópuráðsins sé að koma á nánari einingu meðal aðila þess með það fyrir augum að auðvelda félagslegar framfarir;
    benda á að í Evrópu er sífellt stækkandi hópur ungs fólks, sérstaklega stúlkur, sem heldur á erlenda grund til starfa sem „au pair“;
    álíta, án þess að slíkt beri í sér neina gagnrýni á þetta fyrirkomulag, að ráðlegt sé fyrir alla samningsaðila að skilgreina og flokka forsendur slíkrar vistunar;
    álíta að vistun „au pair“ sé áríðandi félagslegt vandamál í aðildarlöndunum og orsaki lagaleg, siðferðileg, og efnahagsleg vandkvæði sem ná út fyrir landamæri og draga dám af sérkennum hverrar Evrópuþjóðar;
    álíta að fólk, er vistast sem „au pair“, falli hvorki undir skilgreiningar um námsmenn eða almenna starfsmenn, heldur undir sérstaka skilgreiningu, sem vísar til stöðu beggja og þess vegna sé eðlilegt að gera viðeigandi ráðstafanir þeim til handa;
    viðurkenna sérstaklega þörfina á því að tryggja „au pair“ fullnægjandi félagslega vernd á grundvelli félagsmálasáttmála Evrópu;
    álíta að stór hópur þessa fólks sé undir lögaldri, njóti ekki stuðnings fjölskyldu sinnar um langa hríð og ætti þess vegna að njóta sérstakrar verndar varðandi þær fjárhagslegu og siðferðilegu aðstæður er ríkja í móttökulandinu;
    álíta að einungis stjórnvöld geti fullkomlega tryggt og haft eftirlit með framkvæmd slíkra grundvallaratriða;
    eru sannfærðar um þörfina fyrir slíka samhæfingu innan ramma Evrópuráðsins,
    eru ásáttar um eftirfarandi atriði:
    

1. gr.

    Samningsaðilar skuldbinda sig, hver í sínu landi, til að stuðla að framkvæmd ákvæða þessa samnings í þeim mæli sem unnt er.
    

2. gr.

    „Au pair“-vistun er tímabundin móttaka fjölskyldna, í skiptum fyrir ákveðna þjónustu, á ungum, erlendum einstaklingum, sem koma til þess að auka tungumálakunnáttu sína og jafnvel faglega þekkingu, jafnframt því að víkka menningarlegan sjóndeildarhring sinn með því að öðlast meiri þekkingu á landi því sem þeir koma til.
    Slíkir ungir, erlendir einstaklingar nefnast hér eftir „au pair“.
    

3. gr.

    „Au pair“-vistun skal í upphafi aðeins gilda til eins árs en hins vegar er heimilt að framlengja vistunina en þó þannig að dvölin standi aldrei lengur en tvö ár.
    

4. gr.

    „Au pair“ skal hafa náð 17 ára aldri en skal þó ekki vera eldri en 30 ára.
    Stjórnvöldum í móttökulandi er þó heimilt að veita undanþágu frá efri aldursmörkum í einstökum tilvikum og skal færa gild rök fyrir slíkum undanþágum.
    

5. gr.

    „Au pair“ skal framvísa læknisvottorði, útgefnu ekki síðar en þremur mánuðum fyrir vistun þar sem almennu heilbrigðisástandi viðkomandi „au pair“ er lýst.

6. gr.

    „Au pair“ og móttökufjölskyldan skulu gera með sér samning um réttindi og skyldur beggja á grundvelli skilgreininga á réttindum og skyldum í samningi þessum. Samningurinn skal vera skriflegur og undirritaður af báðum aðilum, annaðhvort sem einstakt skjal eða staðfestur í bréfum á milli málsaðila, helst áður en „au pair“ yfirgefur lögheimili sitt í heimalandinu og í síðasta lagi í fyrstu viku vistunar.
    Afrit af samningi þeim, sem nefndur er í fyrri málsgrein, skal vera í vörslu hlutaðeigandi stjórnvalda í móttökulandinu eða í vörslu stofnunar sem þau kjósa.
    

7. gr.

    Í samningi þeim, sem vísað er til í 6. gr., skal vera m.a. skilgreining á því á hvern hátt „au pair“ skal taka þátt í lífi móttökufjölskyldunnar, jafnframt því að tryggja sjálfstæði viðkomandi „au pair“ að vissu marki.
    

8. gr.

    „Au pair“ skal njóta ókeypis fæðis og gistingar hjá móttökufjölskyldunni og hafa sér herbergi í þeim tilvikum þar sem slíkt er unnt.
    Tryggja skal „au pair“ nægjanlegan tíma til tungumálanáms ásamt því að gera viðkomandi kleift að sinna menningarlegum og faglegum áhugamálum og skal vinnutími miðast við það.
    „Au pair“ skal hafa einn frídag í viku hið minnsta sem falli á sunnudag a.m.k. einu sinni í mánuði og skal veita „au pair“ tækifæri til að sinna trúarbrögðum sínum.
    Greiða skal „au pair“ ákveðna upphæð sem vasapeninga og skulu upphæðin og greiðslutími ákvarðast á grundvelli samningsins sem getið er í 6. gr.
    

9. gr.

    „Au pair“ skal inna af hendi þjónustu er felist í þátttöku í daglegum heimilisverkum. Tíminn, sem notaður er til slíkra starfa, skal almennt ekki vera lengri en fimm klukkustundir á dag.
    

10. gr.

    Í Viðauka I við samning þennan skulu allir samningsaðilar geta þeirra réttinda sem „au pair“ nýtur í löndum þeirra ef veikindi, barnsburð eða slys ber að höndum.
    Ef og að því leyti sem réttindi þau, sem getið er í Viðauka I, eru ekki tryggð til handa „au pair“ á grundvelli laga um félagslegt öryggi eða á grundvelli annarra opinberra reglugerða, með tilvísan til alþjóðlegra samninga eða réttarreglna Evrópubandalagsins, skal fjárráða aðili í móttökufjölskyldu tryggja „au pair“ á eigin kostnað.
    Samningsaðilar skulu tilkynna hverjar þær breytingar sem kunna að verða gerðar á réttindum þeim sem skilgreind eru í Viðauka I, skv. 2. mgr. 19. gr.
    

11. gr.

    Í því tilviki að samningur hafi verið gerður skv. 6. gr., án þess að samningstíminn sé skilgreindur, skal samningsaðilum heimilt að segja honum upp með tveggja vikna fyrirvara.
    Báðum samningsaðilum er heimilt að segja samningnum upp fyrirvaralaust, þrátt fyrir að samningstíminn sé skilgreindur, ef um alvarlegt brot er að ræða af hendi annars hvors samningsaðila, eða vegna alvarlegra kringumstæðna sem krefjast fyrirvaralausrar uppsagnar.
    

12. gr.

    Hlutaðeigandi stjórnvöld í ríkjum samningsaðila skulu hver um sig tilnefna opinbera aðila, eða einkaaðila, til að sjá um málefni er varða „au pair“-vistun.
    

13. gr.

    Samningsaðilar skulu senda skýrslu á fimm ára fresti til aðalritara Evrópuráðsins, á þann hátt er ákvarðast af ráðherranefndinni, um framkvæmd ákvæðanna í 1.–12. gr. þessa samnings.
    Skýrslur samningsaðila skulu lagðar fyrir nefnd Evrópuráðsins um félagsmál til athugunar.
    Nefnd Evrópuráðsins um félagsmál skal gefa ráðherranefndinni skýrslu um niðurstöður sínar; og er jafnframt heimilt að gera tillögur með það að markmiði
         
    
    að bæta framkvæmd samningsins;
         
    
    að lagfæra eða auka við ákvæði hans.
    

14. gr.

    Aðildarríkjum Evrópuráðsins er frjálst að undirrita samning þennan og gerast samningsaðilar annaðhvort með
         
    
    undirritun án fyrirvara um fullgildingu eða samþykki, eða
         
    
    undirritun með fyrirvara um fullgildingu eða samþykki og fylgi fullgilding og samþykki síðar.
    Fullgildingar- eða staðfestingarskjöl skal afhenda aðalritara Evrópuráðsins.
    

15. gr.

    Samningur þessi tekur gildi einum mánuði eftir að þrír aðilar að Evrópuráðinu hafa undirritað hann með þeim skilyrðum sem sett eru fram í 14. gr.
    Að því er varðar aðildarríki, sem undirrita samninginn án fyrirvara um fullgildingu eða samþykki, tekur samningurinn gildi einum mánuði eftir undirritun hans, eða eftir dagsetningu afhendingar fullgildingar- eða staðfestingarskjala.
    

16. gr.

    Eftir að samningur þessi tekur gildi, getur ráðherranefnd Evrópuráðsins boðið sérhverju ríki, sem ekki er aðili að Evrópuráðinu, aukaðild að samningi þessum.
    Slík aukaðild tekur gildi einum mánuði eftir dagsetningu afhendingar aðildarskjala til aðalritara Evrópuráðsins.
    

17. gr.

    Sérhvert aðildarríki getur við undirritun eða við afhendingu fullgildingar- eða staðfestingarskjala og aukaaðildarríki við afhendingu aðildarskjala skilgreint það eða þau svæði sem samningur þessi nær til.
    Sérhvert aðildarríki getur, við afhendingu fullgildingar- eða staðfestingarskjala eða síðar, eða ríki með aukaðild, við afhendingu aukaaðildarskjala, með skriflegri yfirlýsingu til aðalritara Evrópuráðsins, framlengt samning þennan til eins eða fleiri svæða tilgreindra í yfirlýsingu og sé það jafnframt ábyrgt fyrir alþjóðlegum samskiptum viðkomandi svæða eða með umboð til að skuldbinda þau.
    Sérhverja yfirlýsingu, sem gerð er skv. 2. mgr. um tiltekin svæði, má draga til baka samkvæmt málsmeðferð sem skilgreind er í 20. gr. þessa samnings.
    

18. gr.

    Sérhvert aðildarríki getur við undirritun eða við afhendingu fullgildingar- eða staðfestingarskjala, eða sérhvert aukaaðildarríki við afhendingu aukaaðildarskjala, lýst yfir að það muni hagnýta sér fyrirvara sem tilgreindir eru í Viðauka II við samning þennan. Aðrir fyrirvarar gilda ekki.
    Sérhvert aðildarríki eða samningsaðili getur dregið til baka að fullu eða að hluta fyrirvara sem gerðir hafa verið á grundvelli 1. mgr. og skal það gert með skriflegri yfirlýsingu til aðalritara Evrópuráðsins. Gildistími slíkrar yfirlýsingar hefst á þeim degi sem hún er móttekin.
    

19. gr.

    Sérhvert aðildarríki skal við undirritun eða við afhendingu fullgildingar- eða staðfestingarskjala, eða aukaaðildarríki við afhendingu aukaaðildarskjala, tilkynna þau réttindi sem skrá á í Viðauka I samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 10. gr.
    Sérhver tilkynning, sem vísað er til í 3. mgr. 10. gr., skal vera skrifleg til aðalritara Evrópuráðsins og dagsetja skal gildistöku slíkrar tilkynningar.
    

20. gr.

    Gildistími þessa samnings skal vera ótakmarkaður.
    Sérhver samningsaðili getur fyrir sitt leyti sagt upp samningi þessum og skal það gert með skriflegri tilkynningu til aðalritara Evrópuráðsins.
    Slík uppsögn tekur gildi sex mánuðum frá þeim degi er aðalritari Evrópuráðsins móttekur tilkynningu þar um.
    

21. gr.

    Aðalritari Evrópuráðsins skal tilkynna aðildarríkjum ráðsins og sérhverju ríki með aukaaðild að samningi þessum um:
    sérhverja undirritun án fyrirvara um fullgildingu eða staðfestingu;
    sérhverja undirritun með fyrirvara um fullgildingu eða staðfestingu;
    afhendingu skjala um fullgildingu, staðfestingu eða aukaaðild;
    skráningu réttinda í Viðauka I;
    dagsetningar gildistöku samnings þessa skv. 15. gr. þar um;
    mótteknar yfirlýsingar um framkvæmd ákvæða 2. og 3. mgr. í 17. gr.;
    sérhvern fyrirvara um framkvæmd ákvæða í 1. mgr. 18. gr.;
    afturköllun sérhvers fyrirvara um framkvæmd ákvæða í 2. mgr. 18. gr.;
    sérhverja móttekna tilkynningu um framkvæmd ákvæða í 2. mgr. 19. gr.;
    sérhverja tilkynningu um framkvæmd ákvæða í 20. gr. og um dagsetningar þær er úrsögn tekur gildi.
    

22. gr.

    Bókun við samning þennan skal vera óskiptur hluti hans.
    Þessu til staðfestu hafa undirritaðir undirritað sáttmála þennan með fullu umboði.
    Gert í Strassborg hinn 24. dag nóvembermánaðar, 1969, á ensku og frönsku og skulu báðir textarnir vera jafngildir. Samningurinn er gerður í einu eintaki sem varðveita skal í skjalasafni Evrópuráðsins. Aðalrritari Evrópuráðsins skal senda sérhverjum samnings- og aukaaðildaraðila staðfest endurrit hans.



Fylgiskjal IV.

Skrá yfir umsagnaraðila.


    Fjármálaráðuneytið, Hagstofa Íslands, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið, landbúnaðarráðuneytið, menntamálaráðuneytið, samgönguráðuneytið, utanríkisráðuneytið, Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Bandalag háskólamenntaðra starfsmanna ríkisins, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Félag íslenskra hljómlistarmanna, Félag leiðsögumanna, Félag íslenskra sjúkraþjálfara, Félag nýrra Íslendinga, Hjúkrunarfélag Íslands, Jafnréttisráð, Kennarasamband Íslands, Landssamband iðnverkafólks, Landssamband íslenskra verslunarmanna, Landssamband vörubifreiðastjóra, Málm- og skipasmíðasamband Íslands, ráðgjafarnefnd vinnumálaskrifstofu, Verslunarmannafélag Reykjavíkur, Samband byggingarmanna, Samband ískenskra kaupskipaútgerða, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök filippeyskra kvenna Samtök iðnaðarins, Starfsmannafélag Sókn, stúdentaráð Háskóla Íslands, Sjómannasamband Íslands, Vélstjórafélag Íslands, Stéttarsamband bænda, útlendingaeftirlitið, Verkamannafélagið Dagsbrún, Verkamannasamband Íslands, Vinnumálasambandið,Vinnuveitendasamband Íslands, Þjónustusamband Íslands og Æskulýðssamband Íslands.


Fylgiskjal V.
    
Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:
    

Umsögn um frumvarp til laga um atvinnuréttindi útlendinga.


    Frumvarpi þessu er ætlað að leysa af hólmi gildandi lög nr. 26/1982, um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum. Því er skipt í kafla þar sem samstæðum efnisþáttum er raðað saman. Efnislega hefur frumvarpið í för með sér þrenns konar breytingar:
—    Greint er á milli þriggja flokka atvinnuleyfa, þ.e. tíma- og ótímabundinna og sérstakra leyfa til útlendra námsmanna.
—    Á sama hátt er undanþágum frá kröfu um atvinnuleyfi skipt í tvennt, þ.e. í varanlegar og tímabundnar.
—    Atvinnurekstrarleyfi hér á landi til handa útlendingum eru tekin upp að nýju.
    Ekki verður séð að frumvarpi þessu fylgi aukinn kostnaður fyrir ríkissjóð.