Ferill 306. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 306 . mál.


420. Frumvarp til laga



um breytingar á ýmsum lögum vegna nýrra mælingareglna skipa.

(Lagt fyrir Alþingi á 118. löggjafarþingi 1994.)



1. gr.


Breytingar á lögum um vitamál, nr. 56/1981, með síðari breytingum.


    11. gr. laganna orðast svo:
    Vitagjald skal greitt af brúttótonnatölu skips.
    Af öllum íslenskum skipum, stærri en 10 brúttótonn, skal greitt vitagjald einu sinni á ári. Af öllum erlendum skipum, sem setja farþega eða vörur á land, skal greitt vitagjald við hverja komu til landsins sem svarar til 1/ 4 hluta af almenna vitagjaldinu, mest fjórum sinnum á ári.

2. gr.


Breytingar á lögum um lögskráningu sjómanna, nr. 43/1987,



með síðari breytingum.

    1. mgr. 2. gr. laganna orðast svo:
    Skylt er að lögskrá alla skipverja sem ráðnir eru til starfa á íslenskum skipum sem eru 12 brúttótonn eða stærri.
    

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er flutt að tillögu nefndar sem samgönguráðherra skipaði 1. mars 1994 til að gera tillögur til samgönguráðuneytis um nauðsynlegar breytingar á lögum og reglugerðum vegna breyttra reglna um mælingar skipa sem tóku gildi 18. júlí sl., sbr. reglur um mælingu skipa nr. 244/1987 með breytingu nr. 294/1993. Í nefndinni áttu sæti Helgi Jóhannesson, deild arstjóri í samgönguráðuneytinu, sem jafnframt var formaður nefndarinnar, Einar Hermannsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra kaupskipaútgerða, Gylfi Ísaksson, verkfræðingur frá Hafnasambandi sveitarfélaga, Jónas Haraldsson, skrifstofustjóri Landsambands íslenskra út vegsmanna, Páll Hjartarson, deildarstjóri hjá Siglingamálastofnun ríkisins, og Rúnar Guðjóns son, deildarstjóri í samgönguráðuneytinu, sem jafnframt var ritari nefndarinnar.
    Reglur nr. 244/1987 um mælingar skipa kveða á um að frá og með 1. júlí 1987 skuli mæla skip samkvæmt alþjóðasamþykkt um mælingu skipa (International Convention on Tonnage Measurement of Ships) sem undirrituð var í London 23. júní 1969 og tók gildi 18. júlí 1982. Hins vegar er miðað við að nýjar mælingareglur taki ekki til gamalla skipa fyrr en 1. janúar 1994, þ.e. annarra gamalla skipa en þeirra sem ekki eru gerðar breytingar á eftir 1. júlí 1987 og sem ekki hefur verið óskað endurmælingar á.
    Með reglugerð nr. 294/1994 um breytingu á reglum nr. 244/1984 var gildistöku gagnvart gömlum skipum frestað til 18. júlí 1994, þ.e. 12 árum frá gildistöku alþjóðasamþykktarinnar frá 1969. Alþjóðasamþykktin tekur til allra skipa er stunda alþjóðlegar siglingar, eru lengri en 24 metrar og skráð eru hér á landi. Ísland var aðili að þessari alþjóðasamþykkt og hefur skuld bundið sig til að taka upp reglur hennar, en auglýsing um gildistöku alþjóðasamnings um mæl ingar skipa var birt í C-deild Stjórnartíðinda nr. 11/1987.
    Með nýjum mælingareglum alþjóðasamþykktarinnar frá 1969 er tekin upp mælieiningin brúttótonn (Gross tons — GT) í stað mælieiningarinnar brúttórúmlest (Gross register tons — GRT) sem ákveðin var með alþjóðasamþykkt sem undirrituð var í Ósló 10. júní 1947. Mælinga aðferðir og mælieiningar þessara alþjóðasamþykkta eru mismunandi og í sumum tilfellum mæl ast skip samkvæmt nýrri samþykktinni miklu stærri en samkvæmt þeirri eldri.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Samkvæmt 10. gr. laga um vitamál, nr. 56/1981, skal greiða vitagjald af skipum sem sigla við Íslandsstrendur og hafa hér viðkomu. Tekjum af vitagjaldi má einungis ráðstafa til að standa straum af kostnaði við rekstur Vitastofnunar Íslands. Á árinu 1992 voru tekjur af vitagjaldi 44.909 þús. kr. og kostnaður af rekstri Vitastofnunar Íslands 105.000 þús. kr. Gjaldið er tekið af öllum íslenskum skipum á skipaskrá einu sinni á ári og er miðað við brúttórúmlestatölu skips eins og hún er mest. Það er nú 90,00 kr. á hverja brúttórúmlest og á að greiða fyrir 1. apríl ár hvert, en lögreglustjórar og tollstjórinn í Reykjavík annast innheimtu þess. Erlend skip sem setja farþega eða vörur á land greiða vitagjald við hverja komu til landsins sem svarar 1/ 5 af vitagjaldinu, mest fimm sinnum á ári.
    Í 1. mgr. er lagt til að 11. gr. laga um vitamál verði breytt þannig að taka vitagjalds verði miðuð við brúttótonnatölu skips í stað brúttórúmlestatölu þess.
    Í 2. mgr. er lagt til að erlend skip greiði vitagjald sem svarar til 1/ 4 af vitagjaldinu, en ekki 1/ 5 eins og nú er. Þá er lagt til að fellt verði niður það ákvæði laganna að heimilt sé í reglugerð að ákveða lægra vitagjald fyrir erlend skemmtiferðaskip.
    

Um 2. gr.


    Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að skylt verði að lögskrá alla skipverja sem ráðnir eru til starfa á íslenskum skipum sem eru 12 brúttótonn eða stærri. Núgildandi reglur miða við 12 rúm lestir brúttó í þessu efni.
    

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.
    

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:
    

Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum


vegna nýrra mælingareglna skipa.


    Með frumvarpinu er ákvæðum ýmissa laga breytt þannig að mælieining skipa miðist við brúttótonn (gross tons) í stað brúttórúmlesta (gross register tons).
    Frumvarpið hefur ekki í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.