Alþjóðaviðskiptastofnunin

20. fundur
Mánudaginn 12. júní 1995, kl. 22:07:34 (720)

[22:07]
     Pétur H. Blöndal :
    Herra forseti. Við erum hér að ræða eitt af stærri málum sem fyrir Alþingi hafa komið að mínu mati og hér er um að ræða mjög róttæka breytingu. Ég vil benda mönnum á það. Hér er nefnilega verið að opna það sem áður var bannað og það er náttúrlega alltaf mikið rót og veldur ugg í brjóstum margra. Menn óttast nýjungar því þeir vita hvað þeir hafa. Hér er auk þess um mjög flókinn málaflokk að ræða.
    Það kom fram í umræðum áður að menn voru að efast um það að ég hefði skrifað undir meirihlutaálit efh.- og viðskn. án fyrirvara. Ég skrifaði undir án fyrirvara og ég hef engan fyrirvara á minni afstöðu. Það er nefnilega þannig að ég get ekki vænst þess að aðrir 62 þingmenn taki upp mínar skoðanir hráar og menn þurfa alltaf að leita að málamiðlunum og ég tel að hér hafi fundist málamiðlun sem er svoleiðis margfalt betri heldur en sú staða sem við höfum í dag að ég samþykki þær tillögur sem hér hafa verið lagðar fram.
    Staða bænda er mjög slæm, hún er verulega slæm, sérstaklega sauðfjárbænda og ég skil vel ugg þeirra og ótta við innflutning á landbúnaðarvörum í þessari stöðu. Það er nauðsynlegt að gera langtímaáætlun um aðlögun bænda að markaði. Ég aftur á móti held að það sé líka nauðsynlegt að þeir fái einhverja samkeppni til þess að þeir fái þessa aðlögun fyrr en seinna. Þau 3% sem gert er ráð fyrir að flutt verði inn eru nægilega lítið til þess að staða bænda ætti ekki að versna neitt mikið við þennan innflutning, en þau eru líka nægilega mikið til þess að neytendur og bændur verði varir við nýjar erlendar vörur og bændur finni fyrir þeirri samkeppni sem af þessu leiðir sem mun hvetja þá til dáða og gera þeim kleift að standa upp úr þeirri öskustó sem langvarandi styrkir hafa komið þeim í.
    Á fundi efh.- og viðskn. komu margir umsagnaraðilar og þeir voru allir sammála um það að þetta frv. hefði engin áhrif og mundi ekki leiða til neins innflutnings. Það var áður en meiri hluti efh.- og viðskn. kom með þá brtt. sem liggur fyrir á þskj. 70 og ég vil lesa hér, með leyfi forseta:
    ,,Við úthlutun tollkvóta hefur ráðherra hliðsjón af því hvort nægilegt framboð af viðkomandi vörum á hæfilegu verði er til staðar og hvort innflutningsmagn í tollkvótum IIIA og IIIB hafi náð þeim mörkum sem þar eru sett.``
    Þetta er mjög veigamikið atriði. Þarna er nefnilega gert ráð fyrir því að tollurinn fari niður í 50% eða helming af þeim magntolli sem getið er um í viðauka I. Síðan er það spurning sem ég hef nokkuð mikið velt fyrir mér hvort þessi heimild til ráðherra sé nægilega sterk. Að mínu mati getur landbrh. ekki sniðgengið vilja löggjafans sem kemur fram í þeim orðum að það eigi að hafa hliðsjón af því að innflutningsmagn í tollkvótum IIIA og IIIB hafi náð þeim mörkum sem þar eru sett. Hann getur ekki horft fram hjá þessu þannig að vörur munu verða fluttar inn með 50% afslætti af magntolli. Ég hef reiknað nokkrar út og mér segir svo til, ef ég nefni egg sem dæmi, en samkvæmt upplýsingum forstjóra Hagkaupa, sem kom fyrir nefndina, kosta þau 79 kr. á kg og 50% af magntolli á þau mundi verða 121 kr. og 50 aurar, samanlagt 200 kr. og 50 aurar. Samkvæmt upplýsingum Neytendasamtakanna er innlent verð 263 kr. og samkvæmt upplýsingum Framleiðsluráðs landbúnaðarins er innlent verð 291 kr. Hvort tveggja er umtalsvert yfir

því verði sem ég er búinn að reikna út, að heildsöluverðið innflutt með tollum yrði 200 kr. rúmar. Ef við tökum ost sem dæmi er innkaupsverð sem Neytendasamtökin nefna 360 kr. en ég hef upplýsingar og hef séð verðtöflu frá Bandaríkjunum sem segir mér að verðið þar sé u.þ.b. 200 kr. á kg og 50% af magntolli á ost, magntollurinn er 430 kr., eru 215 kr. þannig að verðið yrði 415 kr. með tolli. Samkvæmt upplýsingum Neytendasamtakanna, sem lagðar voru fyrir nefndina, þá er innlent verð 545 kr., þ.e. þó nokkuð yfir, og samkvæmt upplýsingum Framleiðsluráðs landbúnaðarins er innlent verð 445 kr. Hvort tveggja yfir þessum verðum sem við erum að tala um. Ef við nefnum svínakótilettur þá er innkaupsverð samkvæmt Neytendasamtökunum 453 kr., samkvæmt forstjóra Hagkaups 463 kr. 50% af magntollinum, sem er 775 kr., eru 388 kr. Að því gefnu mundi heildsöluverð komið til landsins verða 840--850. Samkvæmt upplýsingum Neytendasamtakanna er heildsöluverð á Íslandi núna 824 kr. og samkvæmt Framleiðsluráði er það 825 kr. Þar liggur erlenda verðið reyndar yfir um 2%.
    Herra forseti. Það sem mun gerast að mínu mati er það að duglegir innflytjendur munu finna lægri verð en hér hafa verið nefnd. Það er nefnilega þannig að þessi verð sem bæði forstjóri Hagkaupa gaf upp og Neytendasamtökin eru verð sem hafa fengist með einföldum fyrirspurnum. En þegar menn fara að huga að því að ná fram viðskiptum þá geri ég ráð fyrir að duglegir innflytjendur muni ná fram verðum sem eru enn lægri. Það mun leiða til þess að það verða vonandi og væntanlega flutt inn þau 3% sem gert er ráð fyrir. Auk þess eru þeir tollar sem hér eru nefndir fastir í krónutölu en ekki verðtryggðir og þar sem gera má ráð fyrir einhverri, reyndar veikri, verðbólgu þá mun þessi tollur hægt og bítandi lækka.
    Afstaða mín í þessu máli eins og ég gat um áðan er sú að ég skrifa undir þetta nefndarálit án fyrirvara. Að sjálfsögðu byggir það á þeim upplýsingum sem komu fram í nefndinni, bæði frá Framleiðsluráði landbúnaðarins, Neytendasamtökunum o.fl.
    Hér kom fram áðan í umræðu að einn nefndarmanna gat um þær umræður sem fram hefðu farið í efn.- og viðskn. og er þar um að ræða hv. þm. og frsm. 2. minni hluta, Ágúst Einarsson. Hann hefur eflaust ekki gert sér grein fyrir því hvaða afleiðingar slíkar upplýsingar um umræður hafa því ef umræður í efh.- og viðskn. eiga að vera ræddar opinberlega á Alþingi þá er náttúrlega ljóst að það verða engar umræður í efh.- og viðskn. Ég treysti því að hv. þm. muni gæta þess í framtíðinni að koma ekki með svona upplýsingar. Ég geri ekki mikinn ágreining um þetta og skil vel að menn átti sig kannski ekki alveg á þessu. En það er náttúrlega ljóst að í efh.- og viðskn. eru menn að leita að bestu lausninni og þar af leiðandi hljóta menn að velta upp öllum þeim lausnum sem þeim dettur í hug og geta þá væntanlega fundið bestu lausnina allir saman með því að hver komi með sínar hugmyndir.
    Herra forseti. Eins og ég gat um áðan þá er þetta eitt af stærri málum og þetta er mjög róttæk breyting og ég skil vel ótta þeirra bænda og annarra framleiðenda á landbúnaðarvörum við þessa breytingu. Ég held að við þingmenn verðum að taka tillit til þessa ótta og að við verðum að fara mildilega í þessu máli og ég held að frv. eins og það er orðið með breytingum sé skref í þá átt.