Ferill 65. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 65 . mál.


65. Beiðni um skýrslu



frá forsætisráðherra um útbreiðslu fíkniefna og þróun ofbeldis.

Frá Jóhönnu Sigurðardóttur, Ástu R. Jóhannesdóttur, Rannveigu Guðmundsdóttur,


Kristínu Ástgeirsdóttur, Svanfríði Jónasdóttur, Guðnýju Guðbjörnsdóttur,


Gísla S. Einarssyni, Lilju Á. Guðmundsdóttur, Guðmundi Árna Stefánssyni


og Kristínu Halldórsdóttur.



    Með vísan til 46. gr. laga um þingsköp Alþingis óskum við undirritaðir alþingismenn eftir því að forsætisráðherra flytji Alþingi skýrslu um stöðu og útbreiðslu ofbeldis og fíkniefna í þjóðfélaginu. Jafnframt er þess óskað að Alþingi verði gerð grein fyrir því hvort ríkisstjórnin hyggist grípa til sérstakra aðgerða til að sporna við ofbeldi og fyrirbyggja dreifingu, innflutning og neyslu fíkniefna.
    Í skýrslunni verði leitast við að svara eftirtöldum spurningum:

     Um fíkniefnamál:
    Hvernig hefur þróun fíkniefnaneyslu verið hér á landi sl. fimm ár og hvernig má ætla að hún dreifist eftir aldurshópum, kyni og tegundum fíkniefna?
    Hvert má ætla að umfang neyslunnar sé:
         
    
    árin 1990–1995 samanborið við árin 1985–1990,
         
    
    miðað við önnur Norðurlönd?
    Hversu mikið má áætla að flutt hafi verið inn af ólöglegum fíkniefnum sl. 10 ár, hvert er verðmæti þeirra og hve mikið hefur verið gert upptækt á því tímabili?
                  Sundurliðun óskast eftir árum og tegund fíkniefna.
    Hve mikill hefur upptækur hagnaður af sölu ávana- og fíkniefna verið árin 1990– 1995 samanborið við árin 1985–1990? Að hve miklu leyti hefur honum verið ráðstafað til forvarna í fíkniefnamálum?
    Er hægt að áætla hver margir hafi beðið varanlegt heilsutjón af ávana- og fíkniefnaneyslu sl. 10 ár?
    Hvaða breytingar hafa orðið á fjölda innlagna á meðferðarstofnanir vegna ávana- og fíkniefnaneyslu árin 1990–1995 samanborið við árin 1985–1990, skipt eftir aldri og kyni?
    Hversu mörg dauðsföll og afbrot má rekja til fíkniefnaneyslu árlega sl. 10 ár?
    Hvað má áætla að fíkniefnaneysla kosti í beinum fjármunum:
         
    
    ríki og sveitarfélög,
         
    
    einstakling sem neytir slíkra efna daglega?
    Hversu oft hefur verið gripið til þess ráðs að nota tálbeitur við rannsókn fíkniefnamála og telja sérfræðingar það vera álitlegan kost til að upplýsa fíkniefnamál?
    Hvernig er háttað sérþjálfun starfsfólks á sviði fíkniefnamála og má ætla að toll- og löggæsla hafi á að skipa fullkomnum tækjabúnaði til að takast á við fíkniefnavandann? Hversu margir starfa að fíkniefnamálum og hver er áætluð mannaflaþörf í þeim málaflokki á næstu árum?
    Hversu margir dómar hafa fallið vegna fíkniefnabrota síðustu fimm ár? Hversu margir dómar hafa kveðið á um fangelsisvist á sama tíma? Hversu margir dómar hafa kveðið á um önnur úrræði og þá hver? Hversu margir sektardómar hafa verið felldir og hversu hátt hlutfall sekta hefur innheimst?
    Hvaða rannsóknir hafa verið gerðar á tengslum fíkniefnabrota og annarra afbrota?
    Eru fíkniefnaneytendur líklegri en aðrir til að fremja afbrot? Ef svo er, hvaða afbrot helst?
    Hvaða reynsla hefur orðið af lögleiðingu fíkniefna, t.d. í Hollandi, með tilliti til afbrotamálefna?
    Hvert er talið aðgengi unglinga á aldrinum 14 til 20 ára að fíkniefnum? Hvaða úrræðum er helst að beita til að fyrirbyggja aðgengi að þeim?
    Er til þess vitað eða ástæða til að ætla að vændi sé stundað á Íslandi? Hefur verið kannað eða er ástæða til að ætla að fíkniefnaneytendur fjármagni neyslu sína með vændi?
    Hvað má áætla um umfang slíks? Er það bundið við einstaklinga eða er um skipulagða starfsemi að ræða?
    Hefur krakk-kókaín verið gert upptækt hér á landi? Er talin ástæða til að óttast að það nái útbreiðslu hér? Til hvaða úrræða hefur verið gripið til að sporna við því að síkt efni nái útbreiðslu?
    Hversu útbreidd má ætla að neysla alsælu sé hér á landi? Hversu oft og í hve miklu magni hefur efnið verið gert upptækt hér á landi?
    Hefur verið gripið til aðgerða til að uppfræða þá hópa sem helst neyta þess og helstu áhættuhópa um afleiðingar neyslunnar?
    Hvernig er fræðslu um fíkniefnamál og afleiðingar fíkniefnaneyslu háttað í:
         
    
    grunnskólum,
         
    
    framhaldsskólum,
         
    
    félagsmiðstöðvum ungs fólks?
    Hefur verið miðlað markvissri fræðslu til foreldra um fíkniefnamál? Ef svo er, hvernig og í hve miklum mæli?
    Hafa verið gerðar athuganir á áhrifum fíkniefnaneyslu á fjölskyldur fíkniefnaneytenda? Ef svo er, hverjar voru niðurstöður og hvernig á að bregðast við þeim?
    Til hvaða aðgerða hyggst ríkisstjórnin grípa til að fyrirbyggja dreifingu, innflutning og neyslu fíkniefna?
    Eru áform uppi um að fela einu ráðuneyti ábyrgð þessa málaflokks eða styrkja toll- og löggæslu í þessu skyni?

     Um afbrot almennt:
    Eru afbrot hlutfallslega tíðari í þéttbýli en dreifbýli? Hvaða rannsóknir liggja fyrir um þau mál?
    Hver er framtíðarsýn og stefnumótun ríkisstjórnarinnar varðandi:
         
    
    afbrotamál,
         
    
    löggæslumál,
         
    
    forvarnir (langtíma- og skammtímaforvarnir)?
    Hafa breytingar verið gerðar á löggæsluformi samhliða breytingum í þjóðfélaginu? Ef svo er, hverjar og hjá hvaða lögregluliðum?
    Hvaða úrræðum hefur verið beitt gagnvart ungum afbrotamönnum, hverjir hafa yfirstjórn slíkra úrræða og hvaða árangri hafa þau úrræði skilað?
    Hvaða rannsóknir hafa verið gerðar á þessum úrræðum?
    Hefur verið gerð rannsókn á því hvort aukið atvinnuleysi hér á landi undanfarin ár hafi tengst auknum fjölda afbrota? Ef svo er, hvaða afbrotum helst? Hvaða rannsóknir hafa verið gerðar á þessum málum?
    Hvernig er staðið að rannsóknum á ofbeldisverkum?
    Hver er tíðni ofbeldisverka hér á landi og samanburður við önnur lönd?
    Hversu margir þeirra sem sitja af sér refsidóma brjóta af sér á nýjan leik?
    Hversu háu hlutfalli refsifanga á undanförnum árum hefur verið gert að sitja af sér ítrekaða refsingu?
    Hver er meðalaldur refsifanga og meðallengd refsidóma fyrir helstu ofbeldisbrot?
    Hefur verið gerður samanburður á afbrotamálefnum hérlendis og erlendis?
    Er sú þróun sem orðið hefur hérlendis undanfarin ár á einhvern hátt sambærileg þróuninni erlendis?
    Hvaða rannsóknir eru fyrirliggjandi um þessi mál hér á landi?
    Hafa verið gerðar kannanir á viðhorfum almennra borgara til afbrota og lögreglumála?
    Hafi slíkar rannsóknir verið gerðar, hverjar urðu niðurstöðurnar?
    Hvernig er háttað vinnu í forvarnarmálum og þeim úrræðum sem fyrir hendi eru í afbrotamálum?
    Hvar fer heildarstjórnun slíkra úrræða fram og eru þau samhæfð í öllum byggðarlögum?
    Hver er kyn- og aldursdreifing þolenda og gerenda ofbeldisbrota, þar með talin kynferðisbrot?
    Hvernig hefur ofbeldi breyst á undanförnum árum með tilliti til alvarleika og þess hvar því er beitt?
    Hvaða aðferðum er algengast að beitt sé við ofbeldisverk og hverjar eru helstu orsakir ofbeldis?
    Hvernig hefur þróunin orðið á sl. 10 árum á fjölda kynferðisbrota og aldur gerenda og þolenda?
    Hve margir dómar hafa fallið vegna kynferðisbrota sl. 10 ár? Hversu margir dómar hafa kveðið á um fangavist? Hversu margir dómar hafa kveðið á um önnur úrræði og þá hver? Hversu margir sektardómar hafa verið felldir og hversu hátt hlutfall sekta hefur innheimst?
    Hvernig er búið að þolendum kynferðisbrota og er áformað að herða refsingu fyrir kynferðisbrot?
    Hvaða breytingar urðu með nýjum skaðabótalögum í sambandi við rétt fórnarlamba ofbeldis til skaðabóta? Hefur hann rýrnað?
    Hvaða breytingar hafa orðið á áverkum af völdum ofbeldis sem meðhöndlaðir hafa verið á sjúkrahúsum síðustu 20 ár, sundurliðaðar eftir árum, varðandi eftirfarandi:
         
    
    heildarfjölda mála,
         
    
    fjölda innlagna,
         
    
    alvarleika miðað við læknisfræðilegu staðlana AIS og ISS; óskað er tölulegra upplýsinga ásamt helstu útskýringum á læknisfræðilegu mati,
         
    
    kyn- og aldursskiptingu ofbeldisþola?

    Þess er óskað að skýrslan verði tekin til umræðu á Alþingi fljótlega eftir að henni hefur verið útbýtt meðal þingmanna.

Greinargerð.


    Markmiðið með beiðni þessari um skýrslu frá forsætisráðherra um útbreiðslu ofbeldis og fíkniefna í þjóðfélaginu er að Alþingi fái ítarlega greinargerð sem gefi þingheimi heilsteypta yfirsýn yfir þennan málaflokk og innsýn í þau vandamál sem honum fylgja. Slíkar upplýsingar mundu gefa Alþingi möguleika á að meta hvort þau úrræði, sem beitt hefur verið hér á landi til að sporna við fjölgun afbrota, hafi skilað tilsettum árangri og til hvaða annarra úrræða væri hægt að grípa. Umfang og áhrif afbrota hefur breyst mjög mikið samhliða þjóðfélagsbreytingum. Umfjöllun fjölmiðla um afbrot og tengda málaflokka hefur aukist verulega að undanförnu og er nær daglega fjallað um einhver afbrotatengd málefni. Umræðan hér á landi hefur þó eingöngu verið bundin við þau afbrot sem tilkynnt hafa verið til lögreglu en hlutfall þeirra í heildarbrotum er óljós. Það er ljóst að nauðsynlegt er að safna sem ítarlegustum upplýsingum um afbrotamálefni til að hægt sé að taka ákvarðanir um aðgerðir. Vegna fámennis hér á landi eru möguleikar til að sporna við frekari fjölgun afbrota meiri en hjá fjölmennari þjóðum. Ef vitað er um fjölda og virkni afbrotamanna er hægt að skipuleggja störf þeirra sem með einum eða öðrum hætti koma að afbrotamálum með skilvirkari og kostnaðarminni hætti.
    Margar rannsóknir hafa verið gerðar á þróun afbrota erlendis og er þar að finna upplýsingar sem gætu nýst hér á landi. Hefur komið fram í viðtölum við þá sem helst vinna að þessum málum hérlendis að staða þessa málaflokks sé á margar hátt hliðstæð því sem var fyrir um fimm árum annars staðar á Norðurlöndum og fyrir 10 árum í Bandaríkjunum. Þróunin hefur verið misalvarleg, en sem dæmi má nefna að samhliða aukinni dreifingu á krakk-kókaíni fjölgaði morðum mjög í Bandaríkjunum og var hægt að tengja það neyslu þess efnis.
    Í ljósi þessara upplýsinga og þeirrar þróunar sem síðan hefur orðið í fyrrnefndum löndum telja skýrslubeiðendur mjög brýnt að gera ítarlega úttekt á þessum málum hérlendis. Þar sem ofbeldis- og fíkniefnamál falla með einum eða öðrum hætti undir mörg ráðuneyti er beiðni þessari um skýrslu beint til forsætisráðherra.