Ferill 94. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 94 . mál.


96. Frumvarp til laga



um framhaldsskóla.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995.)



I. KAFLI


Gildissvið.


1. gr.


    Lög þessi taka til skólastarfs á framhaldsskólastigi er tekur við af skyldunámsstigi og allt til háskólastigs, sbr. 2. gr. laga nr. 55/1974, um skólakerfi. Framhaldsskólar er samnefni þeirra skóla er undir lög þessi falla. Þeir eru: fjölbrautaskólar, iðn- og verkmenntaskólar og menntaskólar, svo og skólar sem veita sérhæft nám á framhaldsskólastigi. Einstakar skólastofnanir geta borið sérstakt nafn, t.d. tengt stað, hefð eða sérstöku hlutverki. Setja skal reglugerð um sérskóla sem starfa samkvæmt lögum þessum.

II. KAFLI


Hlutverk.


2. gr.


    Hlutverk framhaldsskóla er að stuðla að alhliða þroska allra nemenda svo að þeir verði sem best búnir undir að taka virkan þátt í lýðræðisþjóðfélagi. Framhaldsskólinn býr nemendur undir störf í atvinnulífinu og frekara nám.
    Framhaldsskólinn skal leitast við að efla ábyrgðarkennd, víðsýni, frumkvæði, sjálfstraust og umburðarlyndi nemenda, þjálfa þá í öguðum og sjálfstæðum vinnubrögðum og gagnrýninni hugsun, kenna þeim að njóta menningarlegra verðmæta og hvetja til stöðugrar þekkingarleitar.

III. KAFLI


Starfstími.


3. gr.


    Árlegur starfstími nemenda í framhaldsskólum skal eigi vera skemmri en níu mánuðir. Þar af skulu kennsludagar ekki vera færri en 150. Menntamálaráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um starfstíma skóla og leyfisdaga.

IV. KAFLI


Stjórnun.


4. gr.


    Menntamálaráðherra fer með yfirstjórn þeirra mála er lög þessi taka til og ber ábyrgð á aðalnámskrá, eftirliti með skólastarfi og námsefni, ráðgjöf um kennslu og þróunarstarf í framhaldsskólum og söfnun og dreifingu upplýsinga um skólastarf. Menntamálaráðherra setur reglugerð um framkvæmd einstakra þátta sem hér eru nefndir.
    Menntamálaráðherra gerir tillögur um fjárveitingu á fjárlögum til hvers skóla og annast fjárhagslegt eftirlit, svo og eftirlit með því að framhaldsskólar hafi fullnægjandi aðstöðu hvað varðar húsnæði og búnað.

5. gr.


    Samstarfsnefnd framhaldsskóla, skipuð skólameisturum og rektorum undir forsæti menntamálaráðherra eða staðgengils hans, fjallar um sameiginleg málefni framhaldsskóla og samræmir störf þeirra.

6. gr.


    Menntamálaráðherra skipar skólanefnd við framhaldsskóla til fjögurra ára í senn. Ráðherra getur heimilað sveitarstjórn/sveitarstjórnum að tveir eða fleiri skólar sameinist um eina skólanefnd.
    Í skólanefnd skulu sitja fimm menn. Tveir eru skipaðir samkvæmt tilnefningu sveitarstjórnar/sveitarstjórna og þrír án tilnefningar og skulu þeir að jafnaði búsettir í sveitarfélagi sem á aðild að skólanum. Nefndin kýs sér formann til eins árs í senn. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Áheyrnarfulltrúar eru tveir með málfrelsi og tillögurétt, annar tilnefndur af kennurum skólans en hinn af nemendafélagi skólans. Áheyrnarfulltrúar skulu tilnefndir til eins árs í senn. Skólameistari situr fundi skólanefndar með málfrelsi og tillögurétt. Hann er framkvæmdastjóri nefndarinnar.
    Sé um sérskóla að ræða skal setja ákvæði í reglugerð um skipan skólanefndar.

7. gr.


    Skólanefnd markar áherslur í starfi skólans. Hún gerir árlega starfs- og fjárhagsáætlun fyrir skólann til þriggja ára sem háð er samþykki menntamálaráðherra. Skólanefnd gerir í upphafi hvers árs fjárhagsáætlun í samræmi við niðurstöður fjárlaga og fylgist með að henni sé framfylgt. Skólanefnd skal gera menntamálaráðuneytinu grein fyrir rekstrarstöðu skólans a.m.k. tvisvar á ári, þ.e. í febrúar og ágúst.
    Skólanefnd ákveður upphæð gjalda er nemendum er gert að greiða við innritun í framhaldsskóla, svo sem innritunargjöld, efnisgjöld, pappírsgjöld og hlut nemenda í efniskostnaði vegna verklegrar kennslu í samræmi við reglur er menntamálaráðherra setur. Halda skal bókhald um fjárreiður þessar. Um endurskoðun gilda sömu reglur og um annan rekstur.
    Heimilt er skólanefnd að stofna sérstaka sjóði við framhaldsskóla. Skal um þá sett skipulagsskrá, leitað staðfestingar á henni og hún birt í Stjórnartíðindum.
    Menntamálaráðherra setur reglugerð um skipan og störf skólanefnda.

8. gr.


    Skólameistari veitir skólanum forstöðu. Hann stjórnar daglegum rekstri og starfi framhaldsskóla og gætir þess að skólastarfið sé í samræmi við lög, reglugerðir, aðalnámskrá og önnur gildandi fyrirmæli á hverjum tíma. Hann ber ábyrgð á að fylgt sé fjárhagsáætlun skólans og hefur frumkvæði að gerð skólanámskrár og umbótastarfi innan skólans.
    Skólaráð skal vera skólameistara til aðstoðar við stjórn skóla. Skólameistari er oddviti skólaráðs sem auk hans skal skipað fulltrúum kennara og nemenda, svo og aðstoðarskólameistara og áfangastjóra starfi þeir við skólann. Heimilt er að setja í reglugerð nánari ákvæði um skipan skólaráðs, verksvið þess, starfstíma og starfshætti.

9. gr.


    Almennur kennarafundur í framhaldsskóla fjallar um stefnumörkun í starfi skólans, um námsskipan, kennsluhætti, þar með talið námsmat, og aðra starfsemi og kemur tillögum sínum á framfæri við skólanefnd og skólaráð. Kennarafund skal halda eigi sjaldnar en fjórum sinnum á hverju skólaári. Skylt er skólameistara að halda kennarafund ef fulltrúar kennara í skólaráði eða þriðjungur fastra kennara skólans krefjast þess.

10. gr.


    Í hverjum framhaldsskóla skal starfa nemendaráð sem er fulltrúi nemenda í hagsmunamálum þeirra. Nemendaráð hefur tillögu- og umsagnarrétt um markmið náms, námsefni og kennslutilhögun í skóla sínum. Almenn samtök nemenda í hverjum skóla, nemendafélög, setja reglur um skipan, starfssvið og starfshætti nemendaráðs.
    Gjöld til nemendasjóða eru ákveðin af nemendafélögum skóla sem sjá um innheimtu og meðferð fjárins. Bókhald nemendafélags skal háð sömu endurskoðun og aðrar fjárreiður skólans.

V. KAFLI


Starfsfólk.


11. gr.


    Um fjölda starfsmanna og skiptingu starfa fer eftir stærð og gerð skóla og fjárveitingu hverju sinni.
    Menntamálaráðherra ræður skólameistara til fimm ára í senn að fenginni tillögu hlutaðeigandi skólanefndar. Kennari sem ráðinn er skólameistari skal fá leyfi frá kennarastarfi sínu þann tíma er hann gegnir starfi skólameistara.
    Skólameistari ræður kennara, námsráðgjafa, starfsfólk skólasafns og aðra starfsmenn skólans að höfðu samráði við skólanefnd. Skólameistari ræður aðstoðarskólameistara til fimm ára í senn og áfangastjóra til allt að fjögurra ára og deildarstjóra til tveggja ára að höfðu samráði við skólanefnd.
    Um skilyrði þess að vera ráðinn skólameistari eða kennari við framhaldsskóla fer eftir ákvæðum gildandi laga um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum framhaldsskólakennara. Setja skal í reglugerð ákvæði um menntun og starfssvið námsráðgjafa og starfsfólks skólasafna. Setja má í reglugerð ákvæði um menntun og starfssvið annarra starfsmanna.
    Menntamálaráðherra setur skólameistara og kennurum erindisbréf, svo og öðrum starfsmönnum skóla eftir því sem við á.

12. gr.


    Hafi kennari starfað a.m.k. í fimm ár og óski að fá sérstakt námsorlof til að efla þekkingu sína og kennarahæfni skal hann senda skólanefnd og menntamálaráðuneyti beiðni um námsorlof ásamt greinargerð um hvernig hann hyggst verja námsorlofstímanum. Ráðuneytið getur veitt honum námsorlof allt að einu ári á föstum embættislaunum.
    Menntamálaráðherra getur veitt kennara, er nýtur námsorlofs, styrk til að standa straum af kostnaði við ferðalög og námsdvöl í sambandi við námsorlofið ef hann ver því til að stunda reglulegt nám við viðurkennda menntastofnun eða til námsferðar njóti hann ekki sambærilegs styrks frá öðrum. Að loknu námsorlofi er kennurum skylt að senda ráðuneytinu skýrslu um störf sín á námsorlofstíma.
    Ákvæði þessarar greinar taka einnig til skólameistara og annarra stjórnenda skóla. Menntamálaráðherra setur reglugerð um framkvæmd námsorlofs kennara.

13. gr.


    Í öllum framhaldsskólum skal rækja heilsuvernd. Sé heilsugæslustöð starfandi í nágrenni skólans skal fela henni að annast heilsuverndina.
    Héraðslæknar hafa umsjón með þessari starfsemi undir yfirstjórn heilbrigðisstjórnar og líta eftir að aðbúnaður og aðstaða nemenda og starfsmanna sé viðhlítandi. Starfsfólk við heilsuvernd í skólum skal hafa náið samstarf við skólameistara um framkvæmdina.

14. gr.


    Nemendum í framhaldsskóla skal standa til boða ráðgjöf og leiðsögn um náms- og starfsval og persónuleg mál er snerta nám þeirra og skólavist. Slíka þjónustu veita námsráðgjafar, kennarar og annað starfsfólk eftir því sem við á.

VI. KAFLI


Inntökuskilyrði.


15. gr.


    Allir sem lokið hafa grunnskólanámi eða hlotið jafngilda undirstöðumenntun skulu eiga kost á að hefja nám í framhaldsskóla.
    Inntaka nemenda á einstakar námsbrautir framhaldsskólans ákvarðast af þeim kröfum sem gerðar eru í viðkomandi námi. Í reglugerð skal kveðið á um lágmarkskröfur um námsárangur í einstökum greinum og greinaflokkum við lok grunnskóla og starfsþjálfun þar sem hennar er krafist. Heimilt er skólameistara, að undangengnu mati, að veita nemanda sem orðinn er 18 ára gamall inngöngu á einstakar námsbrautir framhaldsskóla þótt hann uppfylli ekki lágmarkskröfur um námsárangur við lok grunnskóla.
    Nemendum, sem ekki hafa náð tilskildum árangri við lok grunnskóla, skal standa til boða fornám eða nám í sérstökum deildum á framhaldsskólastigi. Inntaka nemenda í framhaldsskóla er á ábyrgð skólameistara.

VII. KAFLI


Námsskipan.


16. gr.


    Námsbrautir framhaldsskóla skiptast í starfsnámsbrautir, bóknámsbrautir, listnámsbrautir og almenna námsbraut. Af öllum námsbrautum skulu vera leiðir til frekara náms, annaðhvort beinar eða með skilgreindri viðbót náms.
    Á starfsnámsbrautum er nám í löggiltum iðngreinum og annað starfsnám. Í reglugerð skal kveðið á um hverjar skuli vera löggiltar starfsgreinar.
    Bóknámsbrautir veita undirbúning að námi á háskólastigi. Bóknámsbrautir eru þrjár: tungumálabraut, félagsfræðabraut og náttúrufræðabraut.
    Listnámsbrautir veita undirbúning að frekara námi í listgreinum í sérskólum eða í skólum á háskólastigi.
    Almenn námsbraut veitir undirbúning fyrir nám á bók-, list- og starfsnámsbrautum og getur jafnframt verið hluti af því námi.
    Stofnun nýrra námsbrauta er háð samþykki menntamálaráðherra.
    Menntamálaráðherra setur reglugerð um framkvæmd ákvæða þessarar greinar.

17. gr.


    Námsbrautir framhaldsskóla skulu skipulagðar í samræmi við lokamarkmið námsins. Þær skiptast í brautarkjarna, kjörsvið og frjálst val. Hlutfall milli þessara þátta er ákveðið í aðalnámskrá og getur verið mismunandi eftir brautum.
    Brautarkjarni er skyldunám brautar. Þar eru sérgreinar brautarinnar og námsgreinar sem stuðla að almennri menntun og búa nemendur undir þátttöku í samfélaginu.
    Kjörsvið er frekari sérhæfing á brautinni. Það er skipulagt sem heild, ýmist með samröðun námsáfanga eða í stórum heildstæðum áföngum með áherslu á fræðileg viðfangsefni. Starfsnám og viðurkennt listnám á framhaldsskólastigi má meta til kjörsviðs í námi á bóknámsbrautum að uppfylltum skilyrðum sem tilgreind eru í aðalnámskrá.
    Frjálst val námsgreina, sem skilgreindar eru í aðalnámskrá framhaldsskóla og kenndar eru í viðkomandi skóla, gefur nemendum kost á að kynnast list-, verk- og fræðasviðum að eigin vali.

18. gr.


    Menntamálaráðherra getur heimilað stofnun og starfrækslu fornáms við framhaldsskóla. Fornám er skipulagt sem eins árs nám fyrir nemendur sem ekki hafa náð tilskildum árangri á grunnskólaprófi. Menntamálaráðherra setur nánari reglur um fornám og skilyrði fyrir stofnun þess.

19. gr.


    Á framhaldsskólastigi skal veita fötluðum nemendum samkvæmt skilgreiningu á hugtakinu fatlaður í 2. gr. laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðra, kennslu og sérstakan stuðning í námi. Látin skal í té sérfræðileg aðstoð og nauðsynlegur aðbúnaður eftir því sem þörf krefur að mati menntamálaráðuneytisins. Fatlaðir nemendur skulu stunda nám við hlið annarra nemenda eftir því sem kostur er.
    Menntamálaráðherra getur heimilað stofnun sérstakra deilda við framhaldsskóla fyrir fatlaða nemendur. Menntamálaráðherra setur reglugerð með nánari ákvæðum um kennslu og nám fatlaðra nemenda í framhaldsskólum.

20. gr.


    Nemendur sem hafa annað móðurmál en íslensku eiga rétt á sérstakri kennslu í íslensku. Menntamálaráðherra getur heimilað að stofnað verði til sérstaks grunnnáms í íslensku við framhaldsskóla fyrir þessa nemendur. Íslenskir nemendur sem hafa dvalist langdvölum erlendis og hafa þar af leiðandi litla kunnáttu í móðurmálinu skulu eiga kost á sérstakri kennslu í íslensku. Í reglugerð skal kveðið nánar á um rétt þessara nemenda til kennslu í íslensku, svo og um tilhögun og mat á náminu. Einnig skal í reglugerð kveðið á um rétt heyrnarlausra nemenda til sérstakrar íslenskukennslu.

VIII. KAFLI


Námskrár og mat.


21. gr.


    Aðalnámskrá, er menntamálaráðherra setur, er meginviðmiðun skólastarfs. Í henni eru útfærð markmið framhaldsskóla og skilgreind markmið einstakra námsbrauta og námsgreina, svo og námslok. Í aðalnámskrá skulu vera almennar reglur um réttindi og skyldur nemenda.
    Í aðalnámskrá skal kveðið á um uppbyggingu einstakra námsbrauta, samhengi í námi og meðallengd námstíma á hverri braut. Þar er ákveðinn lágmarksfjöldi kennslustunda í einstökum námsgreinum og inntak í megindráttum.
    Í aðalnámskrá skal mælt fyrir um námsmat, þar með talin próf og vitnisburð. Þar komi fram hvaða kröfur nemandi þarf að uppfylla til þess að hann teljist hafa lokið einstökum áföngum náms með fullnægjandi árangri og lágmarkskröfur til þess að standast tiltekin lokapróf. Þar skal kveðið á um hversu oft nemandi má endurtaka próf og birtar reglur um rétt nemenda til að sjá prófúrlausnir sínar.
    Í aðalnámskrá eru ákvæði um mat á starfsþjálfun sé hún hluti námsins, mat á námi þegar nemendur flytjast milli skóla og skilyrði þess að flytjast milli námsbrauta. Í aðalnámskrá skal setja viðmiðunarreglur um skólanámskrár og mat á skólastarfi.
    Tilkynning um gildistöku aðalnámskrár eða hluta hennar skal birt í Stjórnartíðindum.

22. gr.


    Í hverjum skóla skal gefa út skólanámskrá þar sem gerð er grein fyrir námsframboði, lengd og innihaldi námsáfanga og skiptingu námsgreina á námsannir og/eða námsár. Þar skal einnig gerð grein fyrir áherslum í starfi skólans, kennsluháttum, námsmati og stjórnunarháttum, svo sem gæðastjórnun.
    Í skólanámskrá geri skólar grein fyrir hvernig ná skuli því markmiði framhaldsskóla að námið stuðli að alhliða þroska nemenda svo að þeir verði sem best búnir undir að taka virkan þátt í lýðræðisþjóðfélagi. Skólanámskrá skal samþykkt af skólanefnd sem fylgist með framkvæmd hennar.

23. gr.


    Sérhver framhaldsskóli skal innleiða aðferðir til að meta skólastarfið, þar á meðal kennslu- og stjórnunarhætti, samskipti innan skólans og tengsl við aðila utan skólans. Á fimm ára fresti skal utanaðkomandi aðili gera úttekt á sjálfsmatsaðferðum skóla.

24. gr.


    Almennt námsmat í framhaldsskóla er í höndum kennara og deildarstjóra. Matið byggir á markmiðum skólastarfs sem kveðið er á um í aðalnámskrá og skólanámskrá.
    Lokapróf úr framhaldsskóla, svo sem stúdentspróf og burtfararpróf af starfsmenntabrautum, er veitt geta rétt til frekara náms eða réttindi til starfa, skulu vera samræmd í tilteknum greinum sem nánar er kveðið á um í reglugerð. Í reglugerð skal einnig kveðið nánar á um framkvæmd samræmdra prófa í framhaldsskólum, svo og sveinsprófa.

IX. KAFLI


Starfsnám.


25. gr.


    Starfsnám skal stuðla að almennri menntun nemenda, veita þeim undirbúning til tiltekinna starfa og innsýn í hlutverk fyrirtækja og starfsfólks í atvinnulífi. Náminu er jafnframt ætlað að hvetja nemendur til að viðhalda þekkingu sinni og bæta við hana með endurmenntun eða áframhaldandi námi.
    Starfsnám skiptist á skóla og vinnustað eða fer eingöngu fram í skóla. Námið er bóklegt og verklegt og skal mynda sem samfelldasta heild svo að nemendur fái betur skilið tengsl fræðilegra og hagnýtra þátta. Áhersla skal lögð á að innihald starfsnáms taki mið af þörfum starfsgreina fyrir fagmenntun starfsfólks á hverjum tíma.

26. gr.


    Menntamálaráðherra skipar samstarfsnefnd um starfsnám á framhaldsskólastigi til fjögurra ára í senn. Nefndin skal skipuð 18 fulltrúum, þar af 12 tilnefndum af eftirtöldum aðilum atvinnulífs: fimm frá Alþýðusambandi Íslands, þar af skal einn vera fulltrúi nema, einn frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, fimm frá Vinnuveitendasambandi Íslands og einn frá Vinnumálasambandi samvinnufélaga. Leitast skal við að fulltrúar atvinnulífsins komi úr sem flestum atvinnugreinum. Auk þess sitja í nefndinni einn fulltrúi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, tveir fulltrúar tilnefndir sameiginlega af samtökum kennara og skólastjórnenda, og skal annar þeirra vera starfsmenntakennari en hinn stjórnandi starfsmenntaskóla, og þrír fulltrúar skipaðir án tilnefningar. Menntamálaráðherra skipar formann nefndarinnar.
    Samtök atvinnurekenda, launþega og sveitarfélaga greiða kostnað af störfum fulltrúa sinna í samstarfsnefndinni en menntamálaráðuneytið greiðir kostnað af störfum fulltrúa menntamálaráðherra og leggur nefndinni til skrifstofuþjónustu.

27. gr.


    Samstarfsnefnd um starfsnám á framhaldsskólastigi stuðlar að tengslum skóla og atvinnulífs og er menntamálaráðherra til ráðuneytis um stefnumótun í starfsnámi og setningu almennra reglna um skipan og framkvæmd starfsnáms. Nefndin gerir tillögur um skipan starfsgreina í starfsgreinaflokka í samráði við samtök atvinnurekenda og launþega í viðkomandi greinum, forgangsröðun verkefna í starfsnámi svo og sérstakar tilraunir og þróunarverkefni. Nefndin setur sér starfsreglur sem öðlast gildi við staðfestingu menntamálaráðherra.

28. gr.


    Menntamálaráðherra skipar til fjögurra ára í senn starfsgreinaráð fyrir starfsgreinaflokka eða starfsgreinar. Í starfsgreinaráði skulu eiga sæti fulltrúar tilnefndir af samtökum atvinnurekenda og launþega í viðkomandi starfsgreinum og einn fulltrúi menntamálaráðherra. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Allar starfsgreinar, sem njóta fræðslu á framhaldsskólastigi, skulu eiga kost á fulltrúaaðild að starfsgreinaráði og skal gætt jafnræðis milli fulltrúa atvinnurekenda og launþega. Formaður skal kjörinn úr hópi fulltrúa til tveggja ára í senn. Ef ekki tekst að skipa starfsgreinaráð er menntamálaráðherra heimilt að skipa tímabundið sérstaka starfshópa til að sinna verkefnum starfsgreinaráðs.
    Samtök atvinnurekenda og launþega greiða kostnað af störfum fulltrúa sinna í starfsgreinaráði og menntamálaráðuneytið greiðir kostnað af störfum fulltrúa menntamálaráðherra og af sérfræðilegri vinnu við námskrárgerð.

29. gr.


    Starfsgreinaráð skilgreinir þarfir starfsgreina fyrir kunnáttu og hæfni starfsmanna og setur fram markmið starfsnáms.
    Starfsgreinaráð gerir tillögur um uppbyggingu starfsnáms og námskrá í sérgreinum viðkomandi starfsnáms, svo og um tilhögun námsmats, þar með talin sveinspróf og eftirlit með gæðum kennslu og námsefnis. Það gerir einnig tillögur að skiptingu náms í skóla og á vinnustað, svo og reglum um vinnustaðanám, viðurkenningu á vinnustöðum til að taka nema í starfsþjálfun eða á námssamning og aðstöðu, búnað og kennarakost skóla sem annast starfsnám.
    Starfsgreinaráð skal hafa frumkvæði að tillögugerð um breytta skipan náms og vera stjórnvöldum til ráðuneytis í málum er varða menntun í starfsgreinum er undir ráðið heyra.
    Að fengnum tillögum starfsgreinaráðs gefur menntamálaráðherra út námskrá í sérgreinum starfsnáms sem hluta af aðalnámskrá framhaldsskóla og reglur um framkvæmd starfsnáms í einstökum starfsgreinum.

30. gr.


    Til að stuðla að sem bestu samstarfi skóla og atvinnulífs er skólanefnd heimilt að setja á fót eina eða fleiri ráðgjafarnefndir við skóla með fulltrúum atvinnulífs í viðkomandi byggðarlagi og skal gætt jafnræðis milli fulltrúa atvinnurekenda og launþega. Skólar leiti til starfsgreinaráða um tilnefningar fulltrúa í ráðgjafarnefndir í byggðarlagi.

31. gr.


    Menntamálaráðherra getur, að fenginni umsögn starfsgreinaráðs og stofnaðila, gert framhaldsskóla eða deild í framhaldsskóla að kjarnaskóla um lengri eða skemmri tíma. Í samráði við starfsgreinaráð hefur kjarnaskóli forgöngu um að þróa námsefni, námsskipan og kennsluaðferðir í starfsnámi og aðstoðar aðra skóla og fyrirtæki við umbætur í kennslu og þjálfun á viðkomandi sviði.
    Í samningi, er menntamálaráðherra gerir við þá stofnun er tekur að sér hlutverk kjarnaskóla, skal verkefnið skilgreint, stjórnun þess, lengd samningstíma og hvernig úttekt þess skuli háttað. Hagsmunaaðilar á vinnumarkaði geta átt aðild að slíkum samningi.

32. gr.


    Verknám og starfsþjálfun á vinnustað byggir á ákvæðum aðalnámskrár og reglum um vinnustaðanám í viðkomandi starfsgrein. Um vinnustaðanám skal gera sérstakan starfsþjálfunarsamning milli skóla og vinnustaðar eða námssamning milli nema og vinnuveitanda.
    Námssamningur skal undirritaður við upphaf vinnustaðanáms og staðfestur innan eins mánaðar. Þar skal tilgreindur reynslu- og gildistími samningsins. Ákvæði um laun og önnur starfskjör skulu vera í samræmi við gildandi kjarasamninga að því er varðar nema í viðkomandi starfsnámi.
    Í reglugerð, sem menntamálaráðherra setur, skulu vera ákvæði um starfsþjálfunarsamninga. Þar skal einnig kveðið á um form, staðfestingu og skráningu námssamninga, svo og samningsslit og meðferð ágreiningsefna er upp kunna að koma varðandi framkvæmd samnings. Áður en reglugerð þessi er sett skal leitað umsagnar aðila vinnumarkaðar og samtaka nemenda.

X. KAFLI


Fullorðinsfræðsla og endurmenntun.


33. gr.


    Menntamálaráðherra getur heimilað framhaldsskóla að bjóða nám í öldungadeildum. Nám í öldungadeildum skal vera jafngilt námi á einstökum námsleiðum framhaldsskólans, en skipulagning náms og kennsluhættir taki mið af því að um fullorðna nemendur er að ræða.
    Fyrir kennslu í slíku námi skulu nemendur greiða gjald sem nemur sem næst þriðjungi kennslulauna. Menntamálaráðherra setur reglur um hlutdeild öldungadeildarnemenda í efniskostnaði. Nánari ákvæði um þessa starfsemi skulu sett í reglugerð.

34. gr.


    Framhaldsskóla er heimilt, með samþykki menntamálaráðherra, að starfrækja endurmenntunarnámskeið eða annars konar nám í samráði eða samvinnu við faggreinafélög, stéttarfélög, atvinnurekendur eða aðra hagsmuna- eða áhugahópa, t.d. með farskólasniði.
    Halda skal kostnaði vegna þessara námskeiða aðgreindum frá öðrum rekstri skólans og skal hann greiddur að fullu af þeim aðilum er að námskeiðum standa með skólanum eða með þátttökugjöldum.
    Gera skal samning milli samstarfsaðila og skólans þar sem gengið er frá fyrirkomulagi og full greiðsla kostnaðar tryggð.

35. gr.


    Framhaldsskóla er heimilt með samþykki menntamálaráðherra að stofna í samvinnu við sveitarfélög, faggreinafélög, stéttarfélög, atvinnurekendur eða aðra hagsmuna- og áhugahópa fullorðinsfræðslumiðstöð, sbr. 33. og 34. gr. Samstarfsaðilar skulu gera með sér samning um starfsemina. Nánari ákvæði um þessa starfsemi skal setja í reglugerð.

XI. KAFLI


Skólasafn.


36. gr.


    Í öllum framhaldsskólum skal vera skólasafn. Hlutverk þess er að vera upplýsingamiðstöð fyrir nemendur og kennara. Það skal búið bókum og nýsigögnum auk annars safnkosts sem tengist kennslugreinum skóla. Í tengslum við húsnæði skólasafns skal vera lesaðstaða með aðgangi að upplýsingaritum á skólasafni.
    Í starfsemi skólasafns skal leggja áherslu á að þjálfa nemendur í sjálfstæðri leit upplýsinga og notkun gagnabanka.

XII. KAFLI


Stofnun og bygging framhaldsskóla.


37. gr.


    Ríki eða sveitarfélög, eitt eða fleiri, geta haft frumkvæði að stofnun nýs framhaldsskóla en skóli verður þó eigi stofnaður nema með samþykki Alþingis. Ákvæði þetta á þó ekki við um skóla sem stofnaðir kunna að verða samkvæmt ákvæðum 41. gr.
    Standi ríki og sveitarfélag/félög sameiginlega að stofnun framhaldsskóla skal gera samning milli aðila um nýframkvæmdir, stofnbúnað og endurbyggingu húsnæðis, sem ríki og sveitarfélög samþykkja að standa að, vegna framhaldsskóla. Þar skulu m.a. vera ákvæði um stjórn framkvæmda, byggingarhraða og greiðslustreymi. Heimilt er að fela sveitarfélögum, sem aðild eiga að framhaldsskóla, að fara með undirbúning og umsjón með byggingarframkvæmdum.
    Samningar um framkvæmdir skulu undirritaðir af menntamálaráðherra og fjármálaráðherra annars vegar og hlutaðeigandi sveitarstjórn eða sveitarstjórnum hins vegar. Fjármálaráðherra skal kynna fjárlaganefnd slíka samninga.
    Kostnaður við byggingarframkvæmdir, aðrar framkvæmdir á lóð og stofnbúnað framhaldsskóla og heimavista við þá skiptist þannig að ríkissjóður greiðir 60% áætlaðs kostnaðar samkvæmt viðmiðunarreglum (normkostnaður) þegar sveitarfélag eða sveitarfélög annast undirbúning og verkframkvæmd. Hlutur sveitarfélags eða sveitarfélaga er þá sá hluti kostnaðar sem ríkissjóður greiðir ekki. Lóðir undir framhaldsskóla skulu sveitarfélög leggja til án kvaða eða gjalda. Þegar ríkissjóður ber ábyrgð á undirbúningi verks og stjórnar framkvæmdum, án íhlutunar sveitarfélags eða sveitarfélaga, greiðir sveitarfélag eða sveitarfélög 40% miðað við normkostnað en ríkissjóður hinn hlutann. Heimilt er ráðuneytinu að semja um aðra kostnaðaraðild þegar um búnað verknámshúsnæðis er að ræða að fengnu samþykki fjárlaganefndar.
    Ákveði Alþingi að stofna skóla án aðildar sveitarfélags eða sveitarfélaga greiðist allur stofnkostnaður úr ríkissjóði.
    Þar sem heimavistir verða reistar í tengslum við framhaldsskóla má gerð húsnæðis og búnaðar miðast við að nýta megi aðstöðuna til gistihúsarekstrar utan reglulegs skólatíma. Um umframkostnað, sem af því kann að leiða, skal samið sérstaklega milli byggingaraðila. Um notkun heimavistarhúsnæðis utan skólatíma skal gerður sérstakur samningur og hann staðfestur af menntamálaráðuneytinu.
    Menntamálaráðherra skal í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga setja viðmiðunarreglur um stærð og gerð húsnæðis fyrir framhaldsskóla og málsmeðferð varðandi undirbúning framkvæmda samkvæmt þessari grein. Menntamálaráðuneytið skal að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga setja reglur um viðmiðun stofnkostnaðar og búnaðar (norm) er skipting áætlaðs byggingarkostnaðar miðist við.

38. gr.


    Skólamannvirki þau, sem lög þessi taka til, skulu vera eign ríkis og sveitarfélaga í sömu hlutföllum og stofnkostnaður er greiddur eða hefur verið greiddur sé um eldra húsnæði að ræða.
    Verði húsnæði framhaldsskóla ráðstafað til annarra nota en framhaldsskólanáms skulu eignaraðilar gera með sér samkomulag þar um. Verði eign seld öðrum hvorum eignaraðila skal hún metin af dómkvöddum mönnum.

XIII. KAFLI


Rekstur framhaldsskóla.


39. gr.


    Ríkissjóður greiðir samkvæmt lögum þessum rekstrarkostnað framhaldsskóla. Hver skóli er sjálfstæð rekstrareining og hefur sérstaka fjárveitingu á fjárlögum. Menntamálaráðherra gerir tillögur til fjárveitingar á fjárlögum til hvers skóla á grundvelli samþykktrar kennslu- og fjárhagsáætlunar skólans til þriggja ára. Áætlun þessi skal endurskoðuð árlega með tilliti til nemendafjölda skólans.
    Ríkissjóður greiðir allan launakostnað vegna kennslu, stjórnunar og annarra starfa. Menntamálaráðherra skal gefa út reglugerð þar sem settar eru fram reglur (reiknilíkan) til að reikna út kennslukostnað skóla. Við útreikninga þessa skal miðað við fjölda nemenda, lengd og tegund náms, fjölda kennslustunda á viku samkvæmt aðalnámskrá, kostnað sem leiðir af kjarasamningum og annað sem kann að skipta máli. Í reglugerð þessari skulu einnig vera viðmiðunarreglur um framlög til annarra starfa en kennslu.
    Auk launakostnaðar greiðir ríkissjóður annan rekstrarkostnað skóla, svo og viðhald húsa og tækja. Rekstrarframlag er greitt til skóla samkvæmt ákvæðum í samningi er gerður skal við menntamálaráðuneytið. Heimilt er skólanefnd, ef þörf krefur, að millifæra fé af rekstrarlið fjárlaga til launaliðar og af launalið til rekstrarliðar.
    Meiri háttar viðhald framhaldsskóla í eigu ríkissjóðs skal greitt af sérstakri fjárveitingu til þessa verkefnis sem ákveðin er í fjárlögum í samræmi við sérstaka viðhaldsáætlun til þriggja ára í senn sem menntamálaráðherra gerir. Um undirbúning viðhaldsframkvæmda og umsjón með þeim fer með sama hætti og aðrar slíkar framkvæmdir á vegum ríkisins.
    Heimilt er að ráða sérstakan fjármálafulltrúa til þess að annast fjárreiður skóla og bókhald og starfar hann undir stjórn skólameistara.

40. gr.


    Þar sem talið er nauðsynlegt að reka heimavist við framhaldsskóla er ríkið rekur greiðir ríkissjóður kostnað við umsjón og almennan rekstur. Nemendur bera sjálfir hluta sérgreinds kostnaðar í heimavistum og rekstri mötuneyta samkvæmt sérstökum reglum sem menntamálaráðherra setur.
    Skólameistari hefur umsjón með rekstri heimavistar og mötuneytis nemenda.

XIV. KAFLI


Ýmis ákvæði.


41. gr.


    Einkaaðilar eða samtök geta stofnað og rekið skóla á framhaldsskólastigi.
    Menntamálaráðherra getur veitt slíkum skólum viðurkenningu á grundvelli laga og reglugerða er varða framhaldsskóla og rekstur þeirra að uppfylltum skilyrðum sem sett skulu í reglugerð.
    Ekki eiga einkaskólar kröfu til styrks af almannafé. Alþingi ákveður framlag ríkissjóðs til þessara skóla. Njóti einkaskólar framlags af opinberu fé skal gerður verksamningur milli menntamálaráðherra og rekstraraðila skólans um fjárveitingu, rekstur, stjórnun og eigur eftir því sem við á.

42. gr.


    Samtök atvinnurekenda og launþega geta gerst aðilar að stofnun og/eða rekstri framhaldsskóla eða hluta hans. Um slíka aðild skal gerður samningur milli aðila er kveði á um framlög og aðild að stjórnun hans, ef um slíkt á að vera að ræða.

43. gr.


    Heimilt er að nýta skólahúsnæði til félagsstarfsemi utan reglulegs skólatíma enda greiðist fyrir leiga sem nemur a.m.k. kostnaði fyrir rafmagn, hita, ræstingu og vörslu. Skólanefnd setur almennar reglur um slíka ráðstöfun skólahúsnæðis.
    Hagnaði af leigu skólahúsnæðis og heimavista, sbr. 40. gr., skal verja til viðhalds og endurnýjunar húsnæðis og búnaðar.

44. gr.


    Menntamálaráðherra getur heimilað framhaldsskóla að gera tilraunir með ákveðna þætti skólastarfs með undanþágu frá ákvæðum laga þessara og reglugerðum er settar kunna að verða samkvæmt þeim.
    Um fjárframlög til tilraunastarfs af þessu tagi fer samkvæmt ákvörðun Alþingis hverju sinni. Slíkum tilraunum skulu ávallt sett eðlileg tímamörk og í leyfi kveðið á um úttekt að tilraun lokinni.

45. gr.


    Árlega skal veita fé á fjárlögum til Þróunarsjóðs framhaldsskóla og heyrir hann undir menntamálaráðherra sem setur reglur um styrkveitingar úr sjóðnum.

46. gr.


    Menntamálaráðherra gerir Alþingi grein fyrir framkvæmd skólastarfs í framhaldsskólum landsins á þriggja ára fresti.

XV. KAFLI


Gildistaka, brottfallin lög o.fl.


47. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. ágúst 1996 og skulu komin að fullu til framkvæmda í upphafi skólaársins 2000–2001.

48. gr.


    Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um framhaldsskóla, nr. 57/1988, með áorðnum breytingum, lög um fiskvinnsluskóla, nr. 55/1971, með áorðnum breytingum, og lög um almenna fullorðinsfræðslu, nr. 47/1992.

Ákvæði til bráðabirgða.


I.


    Ákvæði í 24. gr. um samræmd lokapróf úr framhaldsskóla skulu ekki komin að fullu til framkvæmda fyrr en skólaárið 2000–2001.

II.


    Ákvæði um starfsnám í 25.–32. gr. skulu vera komin til fullra framkvæmda innan fjögurra ára frá gildistöku laga þessara. Menntamálaráðherra setur í reglugerð áætlun um framkvæmd ákvæða greina þessara að höfðu samráði við samstarfsnefnd um starfsnám á framhaldsskólastigi, sbr. 26. gr. Ef þörf þykir skal fara fram endurskoðun þessara lagagreina í kjölfar úttektar á framkvæmd þeirra.

III.


    Næstu fjögur ár frá gildistöku laganna getur menntamálaráðherra veitt heimild til að umsækjandi gangi undir verklegt sveinspróf í löggiltri iðngrein án undangengins skólanáms enda liggi fyrir: (a) vottorð um að viðkomandi hafi unnið við iðnina í 10 ár undir stjórn meistara; (b) vottorð iðnmeistara um að hann telji umsækjanda hæfan til að gangast undir sveinspróf og (c) umsagnir viðkomandi sveinafélags og starfsgreinaráðs. Standist umsækjandi prófið öðlast hann sveinsbréf sem veitir þó ekki rétt til inngöngu í meistaraskóla.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Það frumvarp, sem hér liggur fyrir, var upphaflega samið af nefnd um mótun menntastefnu sem Ólafur G. Einarsson, þáverandi menntamálaráðherra, skipaði 11. mars 1992. Nefndin skilaði áfangaskýrslu í janúar 1993 þar sem gerð var grein fyrir helstu hugmyndum nefndarinnar og lokaskýrslu skilaði nefndin í júlí 1994. Frumvarp til laga um framhaldsskóla var lagt fram til kynningar á 117. löggjafarþingi 1993–94. Í kjölfar umræðna og umsagna voru gerðar nokkrar breytingar á frumvarpinu og var það síðan lagt fram aftur nokkuð breytt á 118. löggjafarþingi 1994–95 en hlaut ekki afgreiðslu.
    Að loknum stjórnarskiptum í lok apríl 1995 fól Björn Bjarnason menntamálaráðherra alþingismönnunum Sigríði Önnu Þórðardóttur og Hjálmari Árnasyni að fara yfir frumvarpið og skiluðu þau niðurstöðum sínum með bréfi dags. 11. ágúst 1995. Síðan var frumvarpið yfirfarið af embættismönnum í menntamálaráðuneytinu og það fært í endanlegan búning.
    Helstu breytingar sem gerðar hafa verið á frumvarpinu eru þessar:
    3. gr. er breytt þannig að gert er ráð fyrir að árlegur starfstími framhaldsskóla verði eigi skemmri en níu mánuðir en samkvæmt greininni í upphaflegri mynd var kveðið á um nákvæmlega níu mánuði. Þessi breyting er gerð til þess að opna möguleika á því að lengja starfstíma skóla umfram níu mánuði, t.d. ef farið verður inn á þá braut að starfrækja skóla að sumarlagi sem nokkuð hefur verið rætt um.
    Í 1. mgr. 4. gr. er bætt við ákvæði um að ráðherra skuli setja reglugerð um framkvæmd greinarinnar. Heimild þessi lýtur að því að ráðherra geti með reglugerð mælt fyrir um framkvæmd þeirra þátta sem tíundaðir eru í lagaákvæðinu. Þar koma m.a. til álita reglur um agamál, framkvæmd eftirlits og hvernig staðið skuli að öflun og dreifingu upplýsinga.
    Við 6. gr. er bætt ákvæði þess efnis að um skólanefndir sérskóla skuli ákveðið í reglugerð, sbr. 1. gr. frumvarpsins, en slíkt ákvæði var ekki í fyrri gerð þess og er heldur ekki í núgildandi lögum. Þetta er nauðsynlegt vegna þess að sú samsetning skólanefndar, sem kveðið er á um í lögunum, hentar ekki fyrir sérskóla sem þjóna landinu öllu. Starfsemi sérskóla er yfirleitt mjög sérhæfð og því eðlilegt að í skólanefndum slíkra skóla eigi sæti fulltrúar sem eru kunnugir viðkomandi starfssviði.
    Í 9. gr. er bætt inn orðunum: og kemur tillögum sínum á framfæri við skólanefnd og skólaráð. Almennur kennarafundur er vettvangur þar sem kennarar geta haft áhrif á stefnumótun og þróun innra starfs skólans, þar með talin þróun skólanámskrár. Það er því mikilvægt að taka af öll tvímæli um það að ályktanir og tillögur, sem kennarafundur samþykkir, skuli berast skólanefnd og skólaráði til umfjöllunar.
    Í 11. gr. hefur heitið „skólasafnverðir“ verið tekið út og í staðinn kemur starfsfólk skólasafns. Samstarfshópur bókasafnsfræðinga í framhaldsskólum gerði athugasemd við notkun heitisins skólasafnvörður og telur heppilegra að nota hugtakið starfsfólk bókasafna. Á bókasöfnum framhaldsskólanna vinna bókasafnsfræðingar og aðstoðarfólk með mismikla menntun. Telur samstarfshópurinn „að starfsheitið skólasafnvörður gefi villandi hugmyndir um starfssvið þeirra sem vinna á bókasöfnum sem felst aðallega í skipulagningu og miðlun upplýsinga“.
                  Þróunin á undanförnum árum hefur verið sú að starfsemin á bókasöfnum skóla hefur breyst verulega og er nú fjölþættari en áður var, enda er nú frekar talað um skólasafn en bókasafn. Því er lagt til að notað verði hugtakið starfsfólk skólasafna.
    Í 12. gr. er ákvæði um umsóknarfrest fyrir námsorlof kennara tekið út, en eðlilegra þykir að umsóknarfrestur verði tilgreindur í reglugerð.
    16. gr. er breytt. Bætt er við einni tegund námsbrauta, listnámsbrautum. Það sem sagði í greininni um próf er fellt út en heitin stúdentspróf og burtfararpróf af starfsmenntabrautum eru tekin inn í 24. gr. Þá er ákvæði um nám til meistaraprófs fellt út en þetta nám er eðlilegur hluti náms í framhaldsskóla og því ekki ástæða til að taka það fram sérstaklega. Í greininni var kveðið á um að almenn námsbraut skyldi vera hluti af námi á bók- og starfsnámsbrautum en orðalagi er breytt þannig að þessi möguleiki er fyrir hendi en ekki skilyrði. Ákvæði um að við stofnun námsbrauta skuli tekið mið af eðlilegri sérhæfingu og verkaskiptingu framhaldsskólanna er tekið út en í staðinn kemur ákvæði um að stofnun nýrra námsbrauta skuli háð samþykki menntamálaráðherra.
    Í 2. mgr. 17. gr. er felldur brott málsliðurinn: Áherslur í almennum greinum skulu miðast við lokamarkmið námsbrautar. Í 1. málsl. greinarinnar segir að námsbrautir framhaldsskóla skuli skipulagðar í samræmi við lokamarkmið námsins.
    Í 1. málsl. 20. gr. eru felld brott orðin: sem öðru tungumáli. Með málsliðnum er lögð áhersla á að þeir nemendur, sem hér eiga hlut að máli, skuli eiga kost á sérstakri kennslu í íslensku og er ekki ástæða til að auðkenna íslensku fyrir það fólk sem hér um ræðir sérstaklega. Bætt er við ákvæði um íslenska nemendur sem dvalist hafa lengi erlendis og hafa takmarkaða kunnáttu í íslensku. Einnig er bætt við ákvæði um rétt heyrnarlausra nemenda til sérstakrar kennslu í íslensku og skýra hin nýju ákvæði sig sjálf.
    Í 21. gr. er bætt við ákvæði þess efnis að tilkynningu um gildistöku aðalnámskrár eða hluta hennar skuli birta í Stjórnartíðindum. Slíkt ákvæði var ekki í fyrra frumvarpi og er ekki heldur í núgildandi lögum. Námskrár eru taldar vera ígildi reglugerða en aðferðir við birtingu þeirra hafa verið nokkuð á reiki. Hér er tekinn af allur vafi í málinu.
    Í 24. gr. er bætt inn eftirfarandi: svo sem stúdentspróf og burtfararpróf af starfsmenntabrautum, sbr. 5. tölul. hér að framan. Felld er brott setningin: „Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála hefur umsjón með gerð samræmdra prófa fyrir framhaldsskóla og úrvinnslu samræmdra lokaprófa.“ Er talið eðlilegt að fleiri geti komið að þessu máli en ein opinber stofnun. Þá er tekið fram að í reglugerð skuli kveðið á um framkvæmd samræmdra prófa og sveinsprófa.
    Í 26. gr. var kveðið á um að fimm fulltrúar skyldu skipaðir í samstarfsnefnd um starfsnám á framhaldsskólastigi án tilnefningar. Þessu er breytt þannig að tveir verði tilnefndir af samtökum kennara og skólastjórnenda og þrír án tilnefningar. Þessi breyting felur í sér að samtök kennara og skólastjórnenda tilnefna fulltrúa í samstarfsnefndina úr sínum röðum beint en ráðherra verður ekki gert að velja tvo fulltrúa úr þessum samtökum eins og kveðið var á um í fyrri gerð greinarinnar.
    Í 33. gr. eru felld brott orðin: fyrir nemendur 20 ára og eldri, og einnig orðin: og kennslugögn.
                  Aldurstakmarkið er fellt brott vegna þess að í ljós hafa komið tilvik þar sem nauðsynlegt er að heimila yngra fólki aðgang að öldungadeildum. Sem dæmi um þetta eru nemendur sem eru komnir að því að ljúka námi en geta af einhverjum ástæðum ekki tekið áfanga í dagskóla sem þeim er skylt að taka. Hins vegar er þessi áfangi í boði í öldungadeild, e.t.v. í öðrum skóla. Gert er ráð fyrir að um aðgang að öldungadeildum verði sett skýr ákvæði í reglugerð.
                  Ákvæðið um að nemendur í öldungadeild skuli greiða fyrir námsgögn er einnig fellt brott vegna þess að það er almenn regla í framhaldsskólum að nemendur skuli bera kostnað vegna kennslugagna sjálfir og því ætti að vera óþarft að taka það fram í lögum fyrir þennan hóp nemenda sérstaklega.
    35. gr. er ný. Ákvæði greinarinnar gefa framhaldsskólum heimild til að stofna í samvinnu við sveitarfélög, faggreinafélög, stéttarfélög, atvinnurekendur og aðra hagsmuna- og áhugahópa fullorðinsfræðslumiðstöð til þess að starfrækja endurmenntunarnámskeið eða annars konar nám sem fjallað er um í 33. og 34. gr.
                  Þessari grein er bætt inn vegna þess að slíkar miðstöðvar geta orðið markviss og öflugur þáttur í alhliða uppbyggingu og þróun viðkomandi byggðarlags. Verksvið þeirra fellur að mestu utan hefðbundinna verkefna framhaldsskólanna og með starfsemi þeirra er leitast við að fullnægja þörf fyrir menntun og þjálfun sem ekki er sinnt með öðrum hætti. Auk þess er með þessum hætti leitast við að efla samstarf skóla og atvinnulífs. Annars staðar á Norðurlöndum hefur fengist jákvæð reynsla af rekstri þjónustumiðstöðva af þessum toga auk þess sem þær hafa haft jákvæð áhrif á þróun framhaldsskólanna.
    41. gr. sem var 40. gr. er ítarlegri en áður. Samkvæmt greininni geta einstaklingar eða samtök stofnað og rekið einkaskóla og menntamálaráðherra getur veitt þeim viðurkenningu til starfa að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Þá er kveðið á um það að njóti einkaskóli styrks af opinberu fé skuli gerður verksamningur milli menntamálaráðherra og rekstraraðila skólans um þau atriði starfseminnar sem eðlilegt þykir að binda í sérstökum samningi.
                  Eins og nú er háttað starfa fjölmargir einkaskólar í landinu og með þessari lagagrein er ekki verið að leggja stein í götu þeirra sem vilja koma á fót slíkri starfsemi. Fræðsla, sem þessir skólar bjóða, er mjög misjöfn að gæðum og ekki er gert ráð fyrir neinu opinberu eftirliti með henni hér eftir frekar en hingað til. Hins vegar er gert ráð fyrir að þeir sem þess óska geti sótt um viðurkenningu menntamálaráðherra á starfseminni og ef hún fæst mundi það væntanlega styrkja hana og vekja á henni aukið traust. Gert er ráð fyrir að skilyrði, sem uppfylla þarf til þess að hljóta viðurkenningu, verði skilgreind í reglugerð.
    Greinin um Samvinnuskólann og Verslunarskóla Íslands sem var 42. gr. er felld brott. Er það gert með vísan til 41. gr. sem veitir heimildir til að semja við skólana á þeim forsendum sem getið er í greininni.
    Í 48. gr. er bætt við ákvæðum þess efnis að lög um almenna fullorðinsfræðslu, nr. 47/1992, og lög um fiskvinnsluskóla, nr. 55/1971, verði felld úr gildi.
                  Lög um almenna fullorðinsfræðslu, nr. 47/1992, átti að endurskoða samkvæmt ákvæði í 16. gr. laganna eigi síðar en þremur árum eftir gildistöku þeirra. Lögin hafa reynst gölluð og þau hafa ekki komið til framkvæmda nema að takmörkuðu leyti. Við samningu þessa frumvarps hefur því verið leitast við að finna flestum þeim verkefnum sem lögin taka til stað innan framhaldsskólakerfisins.
                  Lög um almenna fullorðinsfræðslu taka til eftirtalinna þátta:
         
    
    náms á grunn-, framhalds- eða háskólastigi sem skipulagt er sérstaklega fyrir fullorðna og ekki er fjallað um í öðrum lögum,
         
    
    almennrar lýðfræðslu og tómstundanáms sem ekki fellur undir a-lið,
         
    
    þróunarstarfs innan almennrar fullorðinsfræðslu.
                            Miðað við þær breytingar sem gerðar hafa verið á frumvarpi til laga um framhaldsskóla verður ekki annað séð en að megnið af þeirri starfsemi sem að framan er lýst rúmist innan þess ramma sem frumvarpið markar og því er lagt til að lögin verði felld úr gildi. Ekki er hér tekin afstaða til fjármögnunar verkefna sem falla undir b-lið, sbr. 11. og 12. gr. laganna um menntunarsjóð fullorðinna.

    Eftirfarandi greinargerð fylgdi frumvarpinu þegar það var lagt fram á 118. löggjafarþingi 1994–95. Tilvísunum í einstakar greinar frumvarpsins hefur verið breytt þar sem greinanúmerum hefur verið breytt. Auk þess hefur mynd um skipulag framhaldsskólans samkvæmt fyrri gerð frumvarpsins verið felld brott:
    Frumvarp þetta var samið af nefnd sem Ólafur G. Einarsson menntamálaráðherra skipaði 11. mars 1992 til að endurskoða lög um grunn- og framhaldsskóla og móta menntastefnu. Nefnd um mótun menntastefnu skilaði áfangaskýrslu í janúar 1993 og voru þar reifaðar helstu hugmyndir hennar um áherslur í skólastarfi. Var skýrslan víða kynnt og send fjölmörgum aðilum til umsagnar. Frumvarpið var unnið á grundvelli áfangaskýrslunnar, umsagna um hana og viðræðna við fjölmarga aðila. Í lokaskýrslu nefndarinnar er sett fram heildstæð skólastefna fyrir grunn- og framhaldsskóla. Nefnd um mótun menntastefnu skipuðu: Sigríður Anna Þórðardóttir alþingismaður, formaður nefndarinnar, Arnar Þórisson viðskiptafræðingur, Árni Sigfússon borgarfulltrúi, Björn Búi Jónsson, kennari við Menntaskólann í Reykjavík, Björn L. Halldórsson lögfræðingur, Halldóra J. Rafnar, menntamálafulltrúi VSÍ, Haukur Helgason, skólastjóri Öldutúnsskóla í Hafnarfirði, Helgi Jónasson, fræðslustjóri Reykjanesumdæmis, Ingibjörg Guðmundsdóttir, fræðslufulltrúi MFA, Ingimundur Sigurpálsson, bæjarstjóri í Garðabæ, Linda Rós Mikaelsdóttir, kennari í Álftamýrarskóla í Reykjavík, María Þ. Gunnlaugsdóttir, aðstoðarskólameistari Flensborgarskóla í Hafnarfirði, Ólafur H. Jóhannsson, endurmenntunarstjóri Kennaraháskóla Íslands, Sigurveig Sæmundsdóttir, kennari í Hofsstaðaskóla í Garðabæ, Sólrún Jensdóttir, skrifstofustjóri í menntamálaráðuneytinu, Stefán Baldursson, skrifstofustjóri í menntamálaráðuneytinu, Trausti Þorsteinsson, fræðslustjóri Norðurlandsumdæmis eystra, Þórleifur Jónsson, viðskiptafræðingur hjá Samtökum iðnaðarins.
    Með nefndinni störfuðu Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir, ráðgjafi menntamálaráðherra í skólamálum, og Kristrún Ísaksdóttir og Margrét Harðardóttir, deildarsérfræðingar í menntamálaráðuneytinu. Þá starfaði Guðríður Sigurðardóttir ráðuneytisstjóri með nefndinni til loka janúar 1993. Auk þess veittu Hörður Lárusson, deildarstjóri framhaldsskóladeildar, og fleiri starfsmenn skrifstofu menntamála og vísinda nefndinni ýmis góð ráð og ábendingar.
    Tillaga að frumvarpi til laga um framhaldsskóla var samþykkt samhljóða á fundi nefndarinnar 15. febrúar 1993. Björn Búi Jónsson og María Þ. Gunnlaugsdóttir skiluðu séráliti um 3. gr. og 3. efnisgr. 16. gr. og Björn Halldórsson tók ekki afstöðu til þáverandi 37. gr.
    Frumvarpsdrög nefndarinnar voru kynnt helstu hagsmunaaðilum í febrúar og marsmánuði 1994. Gerðar voru breytingar á frumvarpinu með hliðsjón af ábendingum þessara aðila og það síðan lagt fyrir til kynningar á Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993–94. Með hliðsjón af opinberri umræðu frá þeim tíma hafa enn verið gerðar nokkrar breytingar á frumvarpinu. Fallið hefur verið frá fyrirhugaðri lengingu á skólaárinu úr níu mánuðum í tíu og lágmarksfjöldi kennsludaga lækkaður úr 160 í 150. Jafnframt er fallið frá fækkun námsára til stúdentsprófs og öll ákvæði um lengd námstíma tekin út (16. gr.). Auk þess er kveðið á um það í 16. gr. að nám á almennri námsbraut skuli metið sem hluti af námi á bók- og starfsnámsbrautum. Í frumvarpið var bætt nýrri grein um rétt nemenda, sem hafa annað móðurmál en íslensku, til sérstakrar íslenskukennslu (20. gr.). Einnig hefur verið bætt inn ákvæði um að sveitarfélög skuli leggja til lóðir fyrir framhaldsskóla, án kvaða eða gjalda (37. gr.), ásamt því að í grein um rekstur framhaldsskólans hefur verið bætt inn heimildarákvæði um að skólanefnd geti fært fé á milli rekstrar- og launaliða fjárlaga (39. gr.).

Heildarendurskoðun grunn- og framhaldsskólalaga.
    Síðastliðin tvö ár hefur verið unnið að heildarendurskoðun á lögum um grunn- og framhaldsskóla á vegum menntamálaráðuneytis. Við endurskoðunina var tekið mið af rannsóknum sem til eru um þessi skólastig og viðhorfum til skólastarfs innan lands og utan, svo og reynslu kennara, skólastjórnenda, aðila atvinnulífs og almennings af skólastarfi og árangri þess.
    Endurskoðun grunnskólalaga felur í sér breytingu á stjórnun grunnskóla sem er afleiðing af áætlaðri yfirfærslu grunnskólans til sveitarfélaga. Jafnframt er gert ráð fyrir að við endurskoðun námskrár fyrir grunn- og framhaldsskóla verði hugað meira að tengslum beggja skólastiga og reynt að líta á skólagöngu nemenda frá upphafi grunnskóla til loka framhaldsskóla sem heildstætt ferli þar sem nemendur þroskast og verða sjálfstæðari eftir því sem lengra dregur í náminu. Skólarnir eru uppeldis- og menntastofnanir sem gegna veigamiklu hlutverki í því að vekja ungt fólk til ábyrgrar og virkrar þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi.

Staða framhaldsskólans í dag.
    Kröfur til framhaldsskólans hafa breyst mjög á síðastliðnum árum. Breiður hópur nemenda sækir nú nám í framhaldsskóla og lætur nærri að um 85% árgangs hefji þar nám. Hér er um að ræða alþjóðlega þróun en aukin aðsókn að framhaldsskólanámi hér á landi hófst skömmu fyrir 1970. Frá miðjum áttunda áratugnum var sú skólagerð sem nú er ríkjandi á framhaldsskólastiginu að byrja að þróast þótt ekki væri nein heildarlöggjöf til um þetta skólastig. Víða um land voru stofnaðir fjölbrautaskólar eða aðrir framhaldsskólar sem ætlað var að bjóða fjölbreyttar námsleiðir á sviði bók- og starfsnáms. Markmið með stofnun fjölbrautaskóla var að tengja saman námshefðir bóknáms og starfsnáms með það að leiðarljósi að gera báðum jafnhátt undir höfði. Óhætt er að fullyrða að þessu marki hafi ekki verið náð því að vægi bóknáms hefur í raun stóraukist og mikil áhersla verið lögð á nám á bóknámsbrautum til stúdentsprófs. Tölur um brottfall nemenda benda til þess að stór hluti nemendahópsins fái ekki nám við hæfi í framhaldsskólum. Í skýrslunni „Námsferill í framhaldsskóla“ kemur t.d. fram að í árgangi nemenda sem fæddir eru 1969 hafa 58% pilta og 50% stúlkna ýmist ekki farið í framhaldsskóla, hætt námi eða ekki tekist að ljúka því við 22 ára aldur, þ.e. sex árum eftir að þeir luku grunnskóla.
    Í skýrslu OECD frá árinu 1987 um menntastefnu á Íslandi er bent á að framhaldsskólinn sé það stig íslenska skólakerfisins þar sem mest skortir ákveðna og formlega stefnu. Þar segir m.a. að framhaldsskólar hafi ekki „verið skuldbundnir til að fylgja afmarkaðri stefnu“ og að aðstandendur framhaldsskólanna „greini enn á um í hverju framhaldsmenntun skuli vera fólgin og hver skuli vera markmið hennar og skipulag“ . Nú sjö árum síðar á þessi gagnrýni enn við rök að styðjast þrátt fyrir að sett hafi verið lög um framhaldsskóla. Gildandi lög um framhaldsskóla voru samþykkt árið 1988 og þeim síðan breytt árið 1989. Þar voru m.a. afnumin öll inntökuskilyrði á einstakar brautir framhaldsskóla. Afnám inntökuskilyrða samkvæmt þessum lögum og fækkun samræmdra prófa við lok grunnskóla hefur fært grunnskólanemendum þau skilaboð að námsárangur í grunnskóla skipti litlu um námsmöguleika og árangur á síðari skólastigum. Framhaldsskólakennarar hafa kvartað yfir ónógum undirbúningi nemenda úr grunnskólum og því að stór hluti nemenda sem skráðir eru á lengri bók- og starfsnámsbrautir sé ekki fær um að takast á við settar námskröfur. Að öðru leyti var gildandi framhaldsskólalögum fyrst og fremst ætlað að setja ramma utan um það skólastarf sem þegar fór fram í framhaldsskólum og hafa því haft lítil mótandi áhrif á innihald þess og skipan.

Skýr stefna um markmið, skipulag og framkvæmd náms.
    Það frumvarp, sem nú er lagt fram, felur í sér breytingu frá gildandi lögum þar sem nú er mörkuð skýr stefna um skólastarf á framhaldsskólastigi, hlutverk þess, skipulag og starfshætti. Í hlutverkagrein frumvarpsins (2. gr.) er lögð aukin áhersla á almennt menntunarhlutverk framhaldsskólans, auk þess sem honum er áfram ætlað að búa nemendur undir störf í atvinnulífi og áframhaldandi nám. Þau námsmarkmið framhaldsskólans, sem einkum eiga að stuðla að almennri menntun nemenda og búa þá undir virka þátttöku í lýðræðissamfélagi, eru sameiginleg á öllum námsbrautum. Þau skulu skilgreind í aðalnámskrá en skólum ætlað að útfæra þau eftir aðstæðum, bæði í sérstökum námsáföngum og sem hluta af námi í einstökum námsgreinum.
    Markmiðum og skipulagi framhaldsmenntunar eru gerð mun nákvæmari skil í frumvarpi þessu (VI. og VII. kafli) en í gildandi lögum. Lögð er áhersla á skýrari námsuppbyggingu í framhaldsskólum og breyttar áherslur í námsframboði. Frumvarpið kveður á um að öllum nemendum sem lokið hafa grunnskólanámi skuli tryggður aðgangur að námi í framhaldsskóla en sett eru ákveðin inntökuskilyrði á námsbrautir hans (15. gr.). Kveðið er á um mismunandi tegundir námsbrauta og hlutverk þeirra (16. gr.), lögð áhersla á að allar námsbrautir framhaldsskólans skuli skipulagðar í samræmi við lokamarkmið námsins (17. gr.) en horfið frá því ákvæði gildandi laga að námsefni og kennsla hvers áfanga skuli nýtast sem hluti af námi á sem flestum námsbrautum. Nemendur, sem ekki hafa tilskilinn undirbúning til að hefja nám á námsbrautum framhaldsskóla, skulu eiga kost á eins árs fornámi (15. og 18. gr.). Loks er kveðið á um að fötluðum nemendum skuli standa til boða nám í sérstökum deildum (19. gr.) og er þar um að ræða lögfestingu á námsframboði sem hefur verið að þróast á síðustu árum.
    Í VIII. kafla frumvarpsins er fjallað um framkvæmd skólastarfs í framhaldsskólum. Þar eru ákvæði um aðalnámskrá framhaldsskóla (21. gr.) sem skólastarf á framhaldsskólastigi byggist á. Í henni skal skilgreint allt nám sem í boði er í hinu opinbera framhaldsskólakerfi og markmið einstakra námsbrauta og uppbygging þeirra, svo og markmið einstakra námsgreina og námsþátta. Skólanámskrár (22. gr.) skulu unnar í skólunum undir faglegri forustu skólameistara og er ætlað að útfæra nánar markmið aðalnámskrár fyrir hið daglega skólastarf svo og að marka áherslur í starfi skólans. Skólanámskrá er hvort tveggja í senn innra stjórntæki skóla og upplýsingarit fyrir nemendur og almenning um áherslur í starfi skólans, skipulag og sérstöðu. Í þessum kafla frumvarpsins er og kveðið á um að skólar skuli taka upp aðferðir til að meta innra starf sitt (23. gr.) en í nágrannalöndunum er lögð mikil áhersla á innra gæðamat sem fyrst og fremst er í höndum starfsfólks skólanna og þykir gefa góða raun í bættu skólastarfi.
    Frumvarpið felur einnig í sér nýja stefnumörkun um starfsnám á framhaldsskólastigi, stjórnun þess og framkvæmd (IX. kafli). Þar er gert ráð fyrir mun virkari þátttöku aðila atvinnulífs í tillögugerð og stefnumótun og skapaður vettvangur fyrir samstarf aðila atvinnulífs og skólamanna um framkvæmd starfsnáms.

Tengsl skóla og samfélags.
    Í skýrslu OECD kom fram að einangrun skólanna var talin mikið vandamál í íslensku skólakerfi. Í henni fólst ábending til íslenskra stjórnvalda um að efla bæri tengsl menntunar við samfélagið í heild, „þ.e. tengsl við fjölskylduna, vinnumarkaðinn og menninguna“ . Nefnd OECD taldi nám í framhaldsskólum vera yfirborðskennt, þar væri „lítið tillit tekið til þarfa sérhvers einstaklings eða þarfa hins íslenska vinnumarkaðar“ og að samráð skorti milli háskóla og framhaldsskóla.
    Í frumvarpi til laga um framhaldsskóla eru skapaðar forsendur til að auka tengsl framhaldsskólans við það þjóðfélag sem hann þjónar. Stefnt er að því að gera skólastarfið sýnilegra og vinna þannig að auknum skilningi á starfi skólanna, m.a. með aukinni upplýsingamiðlun til almennings. Skólar skulu gefa út skólanámskrá sem veitir upplýsingar um áherslur skólans og starfshætti (22. gr.) en menntamálaráðuneyti er falið að dreifa upplýsingum um skólastarf í framhaldsskólum (4. gr.). Einnig eru tengsl skólanna við nánasta umhverfi aukin verulega með breyttu hlutverki skólanefnda. Skólanefnd skipa fimm fulltrúar úr sveitarfélögum sem að skólanum standa, tilnefndir af sveitarstjórn og menntamálaráðherra. Nefndin fær nú það hlutverk að ákveða áherslur í starfi skólans og fylgjast með því að stefnumótuninni sé framfylgt. Þannig eru ákvarðanir um innra starf skólanna ekki teknar einhliða af skólafólki heldur ber því á hverjum tíma að rökstyðja stefnumörkun skólans fyrir fulltrúum þess samfélags sem skólinn þjónar. Tengsl framhaldsskólans við atvinnulífið eru einnig stóraukin með aukinni aðild fulltrúa þess að stefnumótun, stjórnun og framkvæmd starfsnáms. Þá eru skapaðar forsendur til betri tengsla framhaldsskóla og háskóla með tilkomu samræmdra lokaprófa úr framhaldsskóla. Gert er ráð fyrir að val á greinum til samræmdra stúdentsprófa og prófkröfur verði ákvarðaðar m.a. í samráði við fulltrúa háskólastigsins.

Ábyrgð og stjórnun: aukið sjálfstæði skóla.
    Stefnt er að því að auka sjálfstæði skólanna um ákvarðanatöku í eigin málefnum. Forsenda fyrir auknu sjálfstæði skólanna er að stjórn þeirra verði styrkari. Í frumvarpinu er þess freistað að tengja betur völd og ábyrgð en hingað til hefur verið gert og afmarka eins og kostur er hlutverk og ábyrgð skólameistara og skólanefndar en völd skólanefndar eru aukin frá því sem nú er.
     Skólameistarar eru forstöðumenn skóla og bera ábyrgð á faglegri stjórnun og daglegum rekstri (8. gr.). Ráðningarvald skólameistara er aukið þar sem ráðning starfsmanna er nú að öllu leyti á þeirra ábyrgð (11. gr.). Hins vegar er æviráðning skólameistara afnumin og gert ráð fyrir að þeir verði ráðnir eingöngu til fimm ára í senn (11. gr.). Skólameisturum til stuðnings við stjórnun skóla eru skólaráð, sem einkum er ætlað að fjalla um innri málefni skólans og mál einstakra nemenda, og skólanefndir.
     Skólanefndir fá aukna ábyrgð á stjórnun skóla. Þeim er ætlað að marka áherslur í starfi skólans, m.a. með því að samþykkja skólanámskrá sem unnin er af fagfólki skólans. Þær gera árlega starfs- og fjárhagsáætlanir til þriggja ára og senda menntamálaráðuneyti til samþykkis og fylgjast með að skólahald sé í samræmi við faglega stefnumörkun (þ.e. skólanámskrá) og samþykktan fjárhagsramma sem skólanum er ætlað að starfa eftir (7. gr. og 22. gr.). Þannig má segja að núverandi valdsvið ráðuneytis sé að hluta til sett í hendur skólanefndar. Skólameistari er framkvæmdastjóri skólanefndar, undirbýr fundi hennar og fylgir eftir ákvörðunum hennar. Nýmæli er að skólanefndir skili árlega starfs- og fjárhagsáætlun til ráðherra til þriggja ára í senn. Þess er vænst að aukin festa náist í starfi skólanna þegar starfsáætlanir eru unnar nokkur ár fram í tímann þó svo að þær kunni að verða endurskoðaðar ef forsendur breytast milli ára.
    Gert er ráð fyrir aukinni verkaskiptingu framhaldsskóla og að þeir sérhæfi sig í framboði tiltekinna námsbrauta og kjörsviða (16. gr.). Verkaskipting er talin forsenda þess að unnt verði að halda uppi í landinu framhaldsskólanámi sem stenst alþjóðlegar kröfur um gæði, ekki síst þá kröfu að kennslan sé í höndum kennara sem hafa sérhæfða menntun til kennslu í viðkomandi námsgreinum. Menntamálaráðuneytið veitir skólum heimild til að halda uppi tilteknu námi með því að samþykkja starfs- og fjárhagsáætlun skóla.
    Í frumvarpinu er nýjung er varðar fjárveitingar til skóla þar sem gert er ráð fyrir að menntamálaráðherra setji sérstaka reglugerð er kveði á um hvernig kennslukostnaður skóla skuli reiknaður (39. gr.). Þar með er horfið frá því að setja fastar viðmiðanir í lög. Þess í stað er reynt að nálgast kennslukostnað einstakra skóla með hjálp reiknilíkans. Þróun hlutlægra aðferða við að reikna út fjárveitingar til skóla og aukin stjórnunarábyrgð í skólum er forsenda þess að unnt verði að auka sjálfstæði skóla og koma á valddreifingu í skólakerfinu.

Öflugra innra skólastarf.
    Innra starf framhaldsskóla er fyrst og fremst mótað af skólameisturum, kennurum og öðru starfsfólki skólanna. Brýnt er að skólafólk fái hvatningu til að leggja sitt af mörkum til að skólastarfið verði sem metnaðarfyllst. Fulltrúum OECD þótti sem andrúmsloft í íslenskum framhaldsskólum væri óþvingað og notalegt, en að námi og kennsluháttum væri í ýmsu ábótavant.
    Í frumvarpi þessu eru ákvæði sem miða að því að auka frumkvæði og ábyrgð skólafólks á mótun innra starfs skólanna og hvetja til umbótastarfs í skólum. Ber þar fyrst að nefna ákvæði um skólanámskrá (22. gr.) sem unnin skal af starfsfólki skólanna, undir faglegri forystu skólameistara. Vinna við gerð skólanámskrár er mikilvægur þáttur í gæðastjórnun hvers skóla. Í öðru lagi eru í frumvarpinu ákvæði um reglulegt sjálfsmat starfsfólks á starfsháttum skóla (23. gr.) sem gerir skólastjórnendur, kennara og annað starfsfólk ábyrgt fyrir því að fram fari stöðug endurskoðun á innra starfi skólans. Í þriðja lagi er í frumvarpinu lögð áhersla á stöðugt þróunar- og tilraunastarf til að efla skólastarf á framhaldsskólastigi. Gert er ráð fyrir að stofnaður verði sérstakur þróunarsjóður fyrir framhaldsskóla (45. gr.) þar sem skólar geti sótt um styrki og er þannig hvatt til nýbreytnistarfa í skólum. Einnig er ákvæði um að menntamálaráðherra geti veitt skólum heimild til að gera tilraunir með ákveðna þætti skólastarfs með undanþágu frá ákvæðum laga (44. gr.). Skilyrði fyrir slíkri heimild er að tilraunin sé takmörkuð við tiltekinn tíma og að úttekt verði gerð á árangri hennar.
    Brýnt er að auka endurmenntun kennara í framhaldsskólum þar sem öflug og skipuleg endurmenntun er mikilvæg leið til að innleiða nýja starfshætti í skólum. Huga þarf að því hvernig betur megi tengja endurmenntun kennara við þarfir skólans á hverjum tíma.

Eftirlit með skólastarfi.
    Á síðustu árum hafa aukist mjög kröfur um eftirlitsskyldu stjórnvalda með skólahaldi þannig að tryggt verði að allir skólar uppfylli lágmarksgæðakröfur. Frumvarpið gerir ráð fyrir að eftirlit með skólastarfi verði aukið á öllum stigum framhaldsskólakerfisins. Skólum er gert skylt að veita skólanefnd, nemendum og aðstandendum þeirra reglulega upplýsingar um skólastarfið, m.a. með útgáfu skólanámskrár (22. gr.). Einnig skulu þeir taka upp viðurkenndar aðferðir til að meta skólastarfið innan frá en slíkt mat verður m.a. hægt að tengja aðferðum altækrar gæðastjórnunar eða innleiðslu vottunarhæfra gæðakerfa (23. gr.). Úttekt skal gerð á sjálfsmatsaðferðum skóla á fimm ára fresti af utanaðkomandi aðila. Nánar er kveðið á um eftirlitsskyldu menntamálaráðuneytis, en það ber ábyrgð á ytra eftirliti með skólastarfi og námsefni, svo og dreifingu upplýsinga um skólastarf (4. gr.). Gert er ráð fyrir samræmdum lokaprófum í framhaldsskólum (24. gr.) en það er sjálfsagt réttlætismál fyrir nemendur, foreldra, viðtökuskóla og atvinnulíf að lokapróf allra framhaldsskóla séu jafngild. Loks er í frumvarpinu kveðið á um að menntamálaráðherra geri Alþingi grein fyrir framkvæmd skólastarfs í framhaldsskólum landsins á þriggja ára fresti (46. gr.) en brýnt er að Alþingi fylgist reglulega með framkvæmd skólahalds í landinu. Reglubundið eftirlit með skólastarfi og árangri þess miðar að því að tryggja að nám í framhaldsskólum sé í samræmi við lög, reglugerðir og aðalnámskrá.

Réttur allra nemenda til náms — samræmdar námskröfur.
    Nokkuð virðist skorta á að nemendum framhaldsskólans sé tryggt nám við hæfi þrátt fyrir að gildandi lög kveði á um rétt allra nemenda til náms. Lögin hafa verið túlkuð á þann veg að nemendur eigi rétt á að hefja hvaða nám sem er á framhaldsskólastigi óháð árangri í grunnskóla. Skólar hafa ekki verið í stakk búnir til að veita stórum hópi nemenda viðhlítandi þjónustu, mikið fall er við upphaf framhaldsskóla, nemendur eru oft mun lengur að ljúka námi en námskrá segir til um og margir hverfa frá námi án formlegra námsloka. Meðfylgjandi mynd sýnir hlutfall þeirra nemenda sem ekki hafa lokið námi sex árum eftir grunnskólapróf. Þar kemur fram að íslenskir nemendur virðast skila sér álíka vel inn í framhaldsskóla og í nágrannalöndum, Danmörku og Noregi. Hins vegar ljúka hlutfallslega mun færri nemendur skilgreindum prófum í framhaldsskóla hér á landi. Þessi vandi hefur að sumu leyti ekki verið sýnilegur í íslensku samfélagi því að ungu fólki hefur reynst auðvelt að fá vinnu þótt það hafi ekki haft formlegt lokapróf sem býr það undir ákveðin störf á vinnumarkaðnum. Með samdrætti á vinnumarkaði hefur orðið breyting í þessu efni og kröfur um árangur af skólastarfi hafa aukist.








(Stólparit, myndað.)












    Það er sjálfsagður réttur nemanda að innritast í nám sem hæfir undirbúningi hans og áhugasviði og líklegt er að hann geti lokið á eðlilegum námstíma. Talið er að helst megi koma til móts við námsþarfir þeirra nemenda sem nú hverfa frá námi með aukinni fjölbreytni í starfsnámi og stefna ber að því að efla verulega námsframboð framhaldsskólans á því sviði. Til að gera námsval markvissara eru sett inntökuskilyrði á námsbrautir framhaldsskólans (15. gr.). Þau skulu vera sveigjanleg og í samræmi við kröfur sem gerðar eru á viðkomandi braut þannig að hægt verði að taka tillit til mismunandi undirbúnings nemenda í einstökum námsgreinum. Einnig er gert ráð fyrir að nemendum standi til boða námsráðgjöf til að auðvelda námsval í upphafi náms og á síðari stigum þess (14. gr.). Með inntökuskilyrðum, námsráðgjöf og aukinni áherslu á náms- og starfsfræðslu í unglingadeildum grunnskóla skapast forsendur fyrir því að nemendur velji sér nám í framhaldsskóla sem hentar námsundirbúningi þeirra og áhugasviði.
    Það er einnig sjálfsagður réttur nemenda að nám sé sambærilegt að gæðum milli framhaldsskóla og að lokapróf úr framhaldsskólum séu jafngild hvar sem þau eru tekin. Gagnrýnt hefur verið að það skorti á samræmingu í námsframboði og námskröfum milli framhaldsskóla og jafnvel innan sama skóla. Markmiðssetning, kennsla, próf og námsmat er að öllu leyti í höndum einstakra kennara án þess að þessu frelsi skóla og kennara sé fylgt eftir með virku ytra eftirliti. Til að tryggja jafnan rétt nemenda til sambærilegs náms, óháð því hvar það er stundað, gerir frumvarpið ráð fyrir að lokapróf úr framhaldsskólum verði samræmd í tilteknum námsgreinum (24. gr.). Samræmt námsmat felur í sér virkt ytra eftirlit með því að nám og kennsla byggi á ákvæðum aðalnámskrár (21. gr.) en gert er ráð fyrir að ásamt skólamönnum komi ýmsir aðrir aðilar þjóðfélagsins, svo sem úr háskóla og atvinnulífi, að ákvörðun námsmarkmiða fyrir framhaldsskóla. Skýr markmiðssetning í aðalnámskrá og skólanámskrám skólanna veitir nemendum og foreldrum upplýsingar um innihald náms á hverri námsbraut, svo og um starfshætti einstakra skóla. Þannig er tryggður réttur nemanda til að fá upplýsingar um það nám sem hann hyggst leggja stund á. Ákvæði um sjálfsmat skólanna og utanaðkomandi úttekt á þeim aðferðum sem skólinn beitir eiga að tryggja að almenningur fái upplýsingar um hvernig faglegum vinnubrögðum innan skólanna er háttað (23. gr.).

Aukin fjölbreytni í námsframboði.
    Eitt af meginmarkmiðum frumvarpsins eru breyttar áherslur í námsframboði framhaldsskólans. Framhaldsskólinn er opinn öllum nemendum sem ljúka grunnskóla og stefnt að því að nemendum standi til boða námsleiðir við hæfi.
    Námsleiðir framhaldsskólans verða:
     Námsbrautir framhaldsskólans: bóknám, starfsnám, almennt nám.
         
    
     Bóknámsbrautum til stúdentsprófs er fækkað úr þrettán í þrjár að grunni til. Nemendur hafa þó talsvert val milli kjörsviða og geta þannig sérhæft sig á síðari stigum námsins á svipaðan hátt og gerist í núverandi kerfi.
         
    
     Starfsnámsbrautir eru fjölmargar, mislangar og ólíkar að uppbyggingu. Auk hefðbundins starfsnáms á lengri námsbrautum er gert ráð fyrir mikilli uppbyggingu á einnar til fjögurra anna starfsnámi. Slíkt nám er ætlað nemendum sem vilja skjót námslok og komast sem fyrst út í atvinnulífið. Í styttra starfsnámi verða mjög hagnýtar áherslur en jafnframt þarf að tryggja að námið nýtist nemendum ef þeir ætla að halda áfram skólagöngu þótt síðar verði. Á sumar stuttar starfsnámsbrautir geta nemendur jafnvel innritast án þess að uppfylla inntökuskilyrði á aðrar námsbrautir framhaldsskólans.
         
    
     Almenn námsbraut til framhaldsskólaprófs er ný braut, ætluð nemendum sem eru óráðnir í vali á námsbraut eða skortir undirbúning til að innritast á þá námsbraut sem þeir kjósa. Nám á almennri námsbraut er að hluta til metið inn á aðrar brautir framhaldsskólans. Viðfangsefni á almennri námsbraut er að stórum hluta val og því má tengja nám á brautinni við stutt starfsnám þannig að nemendur ljúki hvoru tveggja í senn.
     Fornám er eins árs nám, ætlað nemendum sem koma úr grunnskóla með mjög slakan undirbúning og þurfa mikinn stuðning og persónulega ráðgjöf. Að loknu fornámi geta nemendur tekið stutt starfsnám eða þreytt á ný samræmt lokapróf úr grunnskóla til að geta hafið nám á námsbrautum framhaldsskóla.
     Nám í sérstökum deildum er ætlað fötluðum nemendum sem ekki geta nýtt sér námsframboð framhaldsskólans. Um er að ræða nám sem þegar er fyrir hendi í skólakerfinu en hefur ekki fengið formlega viðurkenningu.
     Inntökuskilyrði verði sett á námsbrautir framhaldsskólans. Þau eiga að vera sveigjanleg, mismunandi eftir brautum, og taka mið af uppbyggingu námsins og lokamarkmiðum. Til viðmiðunar verði einkunnir á samræmdu grunnskólaprófi og skólaeinkunnir úr grunnskóla, bæði samtala einkunna í nokkrum völdum námsgreinum og einstakar einkunnir tiltekinna námsgreina. Þannig verði t.d. hægt að miða við árangur í verklegri grein við inntöku á starfsnámsbrautir. Val greina og lágmarkseinkunnir skulu miðast við námskröfur sem gerðar eru á viðkomandi námsbraut. Nánari ákvæði um inntökuskilyrði á einstakar námsbrautir verða sett í reglugerð.
    Inntökuskilyrði á námsbrautir framhaldsskóla auka líkur á að nemendur innritist í nám sem þeir hafa forsendur til að stunda með fullnægjandi árangri og ljúka á þeim námstíma sem kveðið er á um í námskrá. Hægt verður að miða námskröfur á einstökum námsbrautum við undirbúning nemenda úr grunnskóla. Gera má ráð fyrir sanngjarnari starfsháttum í framhaldsskólum þegar kröfur til nemenda eru í samræmi við námsgetu þeirra og undirbúning.
    Nefnd um mótun menntastefnu leggur til að fram fari endurskoðun á uppbyggingu og innihaldi náms í framhaldsskóla. Við upphaf náms á einstökum brautum þarf að gera ráð fyrir tilteknum undirbúningi nemenda. Á undanförnum árum virðist sem námsefni grunnskóla hafi í auknum mæli færst upp á fyrsta ár framhaldsskólans. Fyrir suma nemendur er oft um hreina endurtekningu að ræða, aðrir nemendur hafa ekki forsendur til að takast á við settar námskröfur. Á þessu þarf að verða sú breyting að nám verði samfellt ferli, einnig þegar nemendur flytjast milli skólastiga.

Efling starfsnáms.
    Megináhersla er lögð á starfsnám í frumvarpinu. A.m.k. þrír af hverjum fjórum nemendum sem nú sækja nám í framhaldsskólum skrá sig á almennar bóknámsbrautir og aðeins lítill hluti árgangs útskrifast af starfsmenntabrautum. Breyttar áherslur í námsframboði framhaldsskólanna á næstu árum þurfa fyrst og fremst að beinast að uppbyggingu á sviði starfsnáms. Íslendingar standa frammi fyrir breyttum ytri aðstæðum í efnahags- og atvinnulífi. Aðild að samningi um evrópskt efnahagssvæði knýr á um uppbyggingu atvinnulífs sem stenst alþjóðlega samkeppni. Menntakerfið gegnir lykilhlutverki í þeirri uppbyggingu, ekki síst starfsmenntun á framhaldsskólastigi. Stofna þarf nýjar námsbrautir í starfsnámi og aðlaga það nám sem fyrir er breyttum aðstæðum. Mikilvægt er að starfsnám verði eftirsótt, ekki síst af góðu námsfólki. Stefnt skal að því að gera róttæka endurskoðun á starfsmenntabrautum og m.a. að opna leið til stúdentsprófs fyrir nemendur sem ljúka starfsnámi (16. gr.).
    Í frumvarpinu eru stefnumótandi ákvæði um markmið og uppbyggingu starfsnáms sem skal vera í sem bestu samræmi við kröfur sem gerðar eru á vinnumarkaði um menntun starfsfólks (25. gr.). Til að slíkt takist þarf að treysta tengsl atvinnulífs og skólakerfis. Því er gert ráð fyrir stóraukinni þátttöku aðila atvinnulífs í nefndum og ráðum sem ætlað er að annast stefnumörkun í starfsnámi og gera tillögur til ráðherra um tilhögun þess og framkvæmd. Sérstakri ráðgjafarnefnd, samstarfsnefnd um starfsnám á framhaldsskólastigi, sem í situr jafn fjöldi fulltrúa frá samtökum atvinnurekenda, samtökum launþega og hinu opinbera, er ætlað að vera menntamálaráðherra til ráðuneytis um stefnumótun á sviði starfsnáms (26. og 27. gr.). Tillögugerð um innihald og uppbyggingu starfsnáms í einstökum greinum verður í höndum svonefndra starfsgreinaráða sem er ætlað að gegna lykilhlutverki í stjórnun starfsnáms (28. og 29. gr.). Aðilar atvinnulífs eiga meirihlutaaðild að starfsgreinaráði en um þátttöku þeirra í ákvörðunum um starfsnám í skólakerfinu er ávallt haldið þeirri reglu að jafnræðis sé gætt í fjölda fulltrúa frá samtökum atvinnurekenda og samtökum launþega.
    Gert er ráð fyrir að skólar hafi áfram sjálfstæði um framkvæmd starfsnáms, en skapaður er möguleiki á að aðilar atvinnulífs geti haft áhrif á framkvæmdina í samvinnu við skólamenn. Þannig er gert ráð fyrir að skólar sem sinna starfsnámi geti sett á fót sérstakar ráðgjafarnefndir (30. gr.) með fulltrúum atvinnulífs, en einnig geta aðilar á vinnumarkaði tekið þátt í kjarnaskólaverkefni í samvinnu við skóla og menntamálaráðuneyti. Kjarnaskóli er eins konar þróunarskóli (eða þróunardeild) fyrir tilteknar greinar starfsnáms (31. gr.). Kjarnaskóli starfar í nánum tengslum við starfsgreinaráð. Einnig er í frumvarpi þessu gert ráð fyrir að samtök atvinnurekenda og launþega geti gerst aðilar að stofnun og/eða rekstri framhaldsskóla.

Fullorðinsfræðsla.
    Í frumvarpinu er áfram gert ráð fyrir öldungadeildarnámi á vegum framhaldsskóla (33. gr.) en sérstaklega tekið fram að skipulag náms og kennsla skuli sniðin að þörfum fullorðinna nemenda. Stefnt er að aukinni fjölbreytni í námsframboði öldungadeilda, einkum í starfsnámi. Einnig er gert ráð fyrir að fullorðnum nemendum sem hafa litla skólagöngu að baki verði boðið grunnnám í öldungadeildum. Með fjölbreyttara námi fær öldungadeildarhugtakið víðari merkingu.
    Hægt verður að heimila framhaldsskólum að efna til endurmenntunarnámskeiða eða annars náms og nýta þannig aðstöðu, kennarakost og tækjabúnað. Forsenda slíkrar starfsemi er að trygging fáist fyrir fullri greiðslu kostnaðar sem af hlýst (34. gr.).

Starfstími skóla.
    Bæði meðal almennings og skólafólks hefur komið fram mikil gagnrýni á nýtingu starfstíma í framhaldsskólum. Bent er á að einungis sé kennt í u.þ.b. 130 daga á ári og að 6–8 vikur af árlegum starfstíma fari í prófahald og frágang prófa. Nauðsynlegt er talið að starfstími framhaldsskóla verði betur nýttur í þágu nemenda. Til að tryggja nemendum fleiri kennsludaga á ári en verið hefur er lagaákvæði í gildandi lögum breytt á þann veg að starfstími skóla er hér skilgreindur sem starfstími nemenda í skóla. Kveðið er á um að starfstími framhaldsskólanemenda skuli vera fullir níu mánuðir og tilgreindur lágmarksfjöldi kennsludaga. Þannig er réttur nemenda til náms og kennslu lagður til grundvallar skilgreiningu á starfstíma framhaldsskólans.
    Ljóst er að þessi skilgreining á starfstíma skóla kallar á breytta kjarasamninga við kennara því að í gildandi kjarasamningum er einungis gert ráð fyrir 34 vinnuvikum kennara á ári innan skólanna. Þörf er á að skilgreina starfstíma í kjarasamingum kennara á ný. Kennarasamtök hafa þegar lýst yfir vilja til að ganga til samninga um breyttar skilgreiningar á starfstíma kennara.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Samkvæmt lögum nr. 55/1974 mynda allir skólar, sem kostaðir eru eða styrktir að hálfu leyti eða meira af almennu fé, samfellt skólakerfi sem skiptist í þrjú stig: skyldunámsstig, framhaldsskólastig og háskólastig.
    Greinin er óbreytt frá gildandi lögum að öðru leyti en því að fellt er brott ákvæði um framhaldsdeildir grunnskóla. Framvegis tilheyrir allt skólahald á framhaldsskólastigi framhaldsskóla. Eðlilegt þykir að draga skörp skil á milli grunn- og framhaldsskólastigs þó af hagkvæmnisástæðum kunni í einstaka tilvikum að verða stofnað til útibúa frá framhaldsskóla í tengslum við grunnskóla eða jafnvel stofnað til sérstaks skólahalds á framhaldsskólastigi í húsnæði grunnskóla. Fari slík starfsemi fram í húsnæði grunnskóla verður að gera ráð fyrir sérstökum samningi um reksturinn.

Um 2. gr.


    Markmiðsgrein laganna leggur grunn að almennu og sérhæfðu menntunarhlutverki framhaldsskólans. Gert er ráð fyrir að framhaldsskólinn sinni öllum ungmennum sem lokið hafa námi í grunnskóla og veiti þeim undirbúning fyrir líf, starf og frekara nám. Í aðalnámskrá skulu meginmarkmið framhaldsskólans skilgreind nánar og endurspeglast síðan í skólanámskrám og störfum einstakra skóla.
    Lögð er áhersla á mikilvægt hlutverk framhaldsskólans í almennri menntun og félagslegu uppeldi nemenda. Í starfi skólans skal leggja áherslu á jafna stöðu kynjanna hvað varðar undirbúning undir virka þátttöku í samfélaginu, fjölskyldulífi og atvinnulífi. Skólinn á einnig að vera vettvangur fyrir kynningu þjóðlegra og alþjóðlegra menningarverðmæta. Með vali viðfangsefna og starfsháttum skal stefnt að því að þroska með nemendum ábyrgðarkennd, víðsýni og umburðarlyndi, hvetja þá til sjálfstrausts og frumkvæðis og þjálfa þá í öguðum og sjálfstæðum vinnubrögðum og gagnrýninni hugsun. Loks er framhaldsskólanum ætlað að hvetja nemendur til stöðugrar þekkingarleitar eftir að formlegri skólagöngu lýkur.

Um 3. gr.


    Lagt er til að hinn níu mánaða starfstími framhaldsskóla verði betur nýttur til kennslu en verið hefur. Kennsludögum verði fjölgað í 150, en prófatími jafnframt styttur. Hinn almenni lágmarkstími sem miðað er við er níu mánuðir en því haldið opnu að skólar geti bætt við sumarönn.
    Margoft hefur verið bent á, bæði af skólafólki og almenningi, að starfstíma í framhaldsskólum mætti nýta betur en nú er. Gagnrýnt hefur verið hversu kennslutíminn er stuttur, prófatíminn langur og frítími nemenda kringum jól og í maímánuði langur. Í flestum framhaldsskólum er einungis kennt í um 13 vikur á önn eða í sex mánuði á níu mánuða starfstíma skóla og til prófahalds er varið 6–8 vikum á ári.
    Almennt hefja framhaldsskólar starfsemi sína 1. september. Meðal skólafólks í framhaldsskólum hefur verið gagnrýnt hversu haustönn og vorönn eru mislangar og bent hefur verið á þann kost að hefja kennslu á haustönn þegar í ágústmánuði. Samkvæmt frumvarpsgreininni er ekkert því til fyrirstöðu að skólar geti hafið kennslu t.d. 21. ágúst og að nemendur ljúki störfum fyrr að vori sem því nemur eða 20. maí. Einnig gætu skólar haldið áfram því fyrirkomulagi að hefja kennslu 1. september og að nemendur starfi þá til 31. maí. Í síðustu kjarasamningum er gert ráð fyrir að skólar geti kallað kennara til starfa samtals fjóra daga fyrir upphaf eða eftir lok skólaárs. Jafnframt var í síðustu kjarasamningum samið um 175 kennslu- og prófdaga innan níu mánaða starfstíma skóla.
    Gert er ráð fyrir að menntamálaráðherra setji reglugerð um starfstíma framhaldsskóla, þ.e. skóladagatal, þar sem fram komi hverjir eru leyfisdagar nemenda á starfstíma skóla.

Um 4. gr.


    Greinin kveður á um ábyrgð menntamálaráðherra á yfirstjórn menntunar á framhaldsskólastigi. Þannig gefur hann út aðalnámskrá og sér um eftirlit með skólastarfi. Eftirlit með skólastarfi beinist að því að skólar framfylgi í starfi sínu ákvæðum laga, reglugerða og aðalnámskrár. Einnig þykir rétt að fylgst verði betur með gæðum námsefnis á framhaldsskólastigi en hingað til hefur tíðkast vegna augljóss mikilvægis þess í námi og kennslu.
    Bætt er inn ákvæði um söfnun og dreifingu upplýsinga um skólastarf til almennings og opinberra aðila. Þar er m.a. um að ræða útgáfu ýmiss konar upplýsingarita, t.d. með tölfræðilegum upplýsingum um skólastarf. Upplýsingakrafa á íslensk stjórnvöld erlendis frá hefur stóraukist með auknu alþjóðasamstarfi. Sem dæmi má nefna þátttöku Íslendinga í Eurydice, tölvugagnabanka um menntamál í kjölfar samnings um EES.
    Menntamálaráðherra er einnig falið að hafa eftirlit með því að framhaldsskólar hafi fullnægjandi aðstöðu að því er húsnæði og búnað varðar. Í greininni er kveðið á um eftirlitsskyldu ráðuneytis varðandi fjárhag skólanna, húsnæði þeirra og búnað en þar er um nýmæli að ræða frá núgildandi lögum.
    Menntamálaráðherra setur reglugerð um framkvæmd þeirra atriða sem fram koma í greininni.

Um 5. gr.


    Gert er ráð fyrir að samstarfsnefnd framhaldsskóla sé fyrst og fremst til ráðgjafar varðandi málefni framhaldsskólastigsins og vettvangur þessara aðila til samræmingar og samstarfs. Fellt er brott ákvæði í gildandi lögum um heimild til þess að skipta landinu í afmörkuð framhaldsskólasvæði. Gert er ráð fyrir að nemendur eigi ótvíræðan rétt á að hefja nám í framhaldsskóla óháð búsetu.

Um 6. gr.


    Á skipan skólanefnda er gerð sú breyting frá gildandi lögum að fækkað er úr sjö fulltrúum í fimm. Fulltrúar sveitarfélaga verða tveir í stað þriggja en rétt þykir að gefa sveitarstjórn, þar sem framhaldsskóli er, möguleika til verulegra áhrifa á skólann þótt sveitarstjórn greiði ekki rekstrarkostnað hans. Fulltrúar ríkisins verða nú þrír í stað eins áður og er gert ráð fyrir að þeir séu að jafnaði búsettir í sveitarfélagi/sveitarfélögum sem að skólanum standa. Reglan á að vera sú að allir fulltrúar skólanefndar komi af því svæði sem sækir nám til skólans en ekki þykir t.d. rétt að ætlast til þess að skipaður skólanefndarfulltrúi þurfi að víkja sæti ef hann flyst út fyrir bæjarfélagið. Með aukinni verkaskiptingu má gera ráð fyrir að skólar þjóni stóru svæði, jafnvel öllu landinu í einstökum greinum. Í þeim tilvikum kann að þykja rétt að skólanefndarmenn komi víðar að. Lagt er til að við skipun fulltrúa menntamálaráðherra í skólanefnd verði m.a. leitað til aðila úr atvinnulífi hlutaðeigandi sveitarfélaga. Gert er ráð fyrir að í reglugerð séu sett ákvæði um skipan skólanefnda sérskóla. Einn fulltrúi nemenda og einn fulltrúi starfsmanna skóla verða áheyrnarfulltrúar.
    Þar sem verkefni skólanefndar er m.a. að fjalla um mannaráðningar og námsframboð skólans er talið hætt við hagsmunaárekstrum með skipun fulltrúa starfsmanna í skólanefnd. Auk þess má telja óeðlilegt að undirmenn skólameistara séu með setu sinni í skólanefnd settir yfir hann í krafti atkvæðisréttar síns. Því þykir rétt að starfsmenn skóla hafi einungis einn áheyrnarfulltrúa í skólanefnd með málfrelsi og tillögurétti.
    Kveðið er á um að ráðherra geti heimilað sveitarstjórn/sveitarstjórnum að tveir eða fleiri skólar sameinist um eina skólanefnd, en slíkt hefur verið rætt t.d. á Austurlandi.

Um 7. gr.


    Gert er ráð fyrir að verkefni skólanefndar verði umfangsmeiri en gildandi lög gera ráð fyrir. Gagnrýnt hefur verið að í gildandi lögum um framhaldsskóla sé verkaskipting skólameistara og skólanefndar óljós. Í frumvarpinu er reynt að skerpa þessi skil. Skólanefnd gerir ár hvert starfs- og fjárhagsáætlun fyrir skólann til þriggja ára í senn og sendir hana menntamálaráðherra. Skólanefnd er ætlað að marka stefnu skólans og sérstöðu. Þannig er t.d. gert ráð fyrir að skólanámskrá, sem unnin er af starfsfólki skólans að frumkvæði skólameistara (sbr. 8. og 22. gr.), þarfnist samþykkis skólanefndar. Skólanefnd fylgist náið með fjármálum skólans og gerir menntamálaráðuneytinu grein fyrir rekstarstöðu skólans tvisvar á ári, þ.e. í febrúar og ágúst.
    Fagleg forusta í daglegu starfi skólans er hins vegar með öllu í höndum skólameistara, svo og starfsmannaráðningar í samráði við skólanefnd. Skólameistari er framkvæmdastjóri skólanefndar og undirbýr tillögur að starfs- og fjárhagsáætlun og leggur fyrir skólanefnd.
    Skólanefnd ákveður upphæð gjalda sem nemendum er gert að greiða við innritun í framhaldsskóla svo og gjaldtöku af nemendum vegna verklegrar kennslu. Gert er ráð fyrir að menntamálaráðherra setji nánari reglur um innheimtu gjalda af nemendum.
    Allar fjárreiður framhaldsskóla eru nú háðar endurskoðun löggilts endurskoðanda og staðfestingu Ríkisendurskoðunar. Gildir það einnig um innheimt gjöld er nemendum er gert að greiða.

Um 8. gr.


    Sú breyting er frá gildandi lögum að hér er sérstaklega kveðið á um faglega forustu skólameistara. Hann hefur frumkvæði að gerð skólanámskrár og er þannig leiðandi í faglegu umbótastarfi innan skólans. Skólaráð er nýtt heiti á skólastjórn en verksvið þess er að aðstoða skólameistara við stjórn skóla, einkum þá hlið sem snýr að samskiptum nemenda við starfsfólk skólans.

Um 9. gr.


    Hér eru sett nokkuð fyllri ákvæði um kennarafundi en eru í gildandi lögum. Almennur kennarafundur er vettvangur þar sem kennarar geta haft áhrif á stefnumótun og þróun innra starfs skólans, þar með er talin þróun skólanámskrárgerðar. Því er mikilvægt að ályktanir og tillögur, sem kennarafundur samþykkir, berist skólanefnd og skólaráði til umfjöllunar. Talið er rétt að lögbinda lágmarkstíðni kennarafunda við tvo fundi á önn að jafnaði, ekki síst í ljósi þess að formleg áhrif starfsmanna í skólanefnd verða nú minni en áður. Þá er skólameistara skylt að halda kennarafund ef fulltrúar kennara í skólaráði eða þriðjungur starfandi kennara skólans krefst þess.

Um 10. gr.


    Ekki er lengur gert ráð fyrir að nemendaráð geri tillögu til skólanefndar um upphæð nemendasjóðsgjalda. Gjöld til nemendasjóðs eru ákveðin af nemendafélagi skólans sem sér um innheimtu þeirra.
    Allar fjárreiður framhaldsskóla eru nú háðar endurskoðun löggilds endurskoðanda og staðfestingu Ríkisendurskoðunar. Gildir það einnig um innheimt gjöld er nemendum er gert að greiða.

Um 11. gr.


    Gert er ráð fyrir að horfið verði frá setningu og skipun í stöður við framhaldsskóla. Þess í stað verði ráðningu starfsmanna hagað með sama hætti og almennt er nú orðið um ríkisstarfsmenn, þ.e. ráðning til starfa er samkvæmt ráðningarsamningi, en skipanir í stöður ævilangt sæta vaxandi gagnrýni og ýmis vandkvæði fylgja því ráðningarformi.
    Ráðningartími skólameistara miðast við fimm ár og gert er ráð fyrir að heimilt verði að endurráða í starfið að undangenginni auglýsingu. Vakin er sérstök athygli á ákvæði um rétt kennara sem ráðinn er skólameistari til að halda kennarastöðu sinni meðan hann gegnir starfi skólameistara. Þar sem ráðning er til ákveðins tíma þykir rétt að tryggja starf með þessum hætti og stuðla þannig að því að hæfir kennarar fáist til stjórnunarstarfa þar sem þeir eiga öruggt kennslustarf að ráðningartíma loknum.
    Skólameistari ræður aðra starfsmenn skóla að höfðu samráði við skólanefnd. Er ráðningarvald skólameistara aukið frá því sem nú er þar sem ekki þarf lengur að leita staðfestingar menntamálaráðherra á ráðningum við framhaldsskóla. Er þetta liður í því að efla sjálfstæði einstakra skóla. Gert er ráð fyrir að menntamálaráðherra setji skólameistara, kennurum og fleiri starfsmönnum skóla erindisbréf, en tryggja þarf að erindisbréfin gefi skólum möguleika á að starfa samkvæmt aðferðum altækrar gæðastjórnunar.

Um 12. gr.


    Greinin er óbreytt frá 14. gr. gildandi laga að öðru leyti en því að í stað „orlofs“ er talað um námsorlof og ákvæðið um frest til að skila umsóknum er fellt niður. Er gert ráð fyrir að umsóknarfrestur verði ákveðinn í reglugerð.

Um 13. gr.


    Greinin kveður á um rétt nemenda til heilbrigðisþjónustu meðan þeir eru við nám í framhaldsskóla. Sú breyting er gerð frá gildandi ákvæðum að nú er ótvírætt kveðið á um að nærliggjandi heilsugæslustöð skuli annast þetta starf í umsjá viðkomandi héraðslæknis.

Um 14. gr.


    Greinin kveður á um rétt nemenda til námsráðgjafar en námsráðgjöf hefur eflst í framhaldsskólum á undanförnum árum. Nemendur skulu eiga kost á hvoru tveggja, ráðgjöf um náms- og starfsval á ýmsum stigum námsins sem og leiðsögn og liðsinni í persónulegum málum er snerta námið og skólann. Námsráðgjafar, kennarar og annað starfsfólk veita þessa þjónustu. Í því sambandi er brýnt að efla hlutverk umsjónarkennara í framhaldsskólum.

Um 15. gr.


    Gert er ráð fyrir að öll ungmenni eigi kost á námi á framhaldsskólastigi að loknum grunnskóla og í boði verði nám sem henti nemendum með ólíkan undirbúning, námsgetu og áhugasvið. Möguleikar nemenda í vali á námsleiðum eru í samræmi við undirbúning og námsárangur nemenda úr grunnskóla eða undirbúning sem þeir hafa aflað sér með öðrum hætti.
     Inntökuskilyrði á einstakar námsbrautir miðast fyrst og fremst við að nemendur hafi nægilegan undirbúning til þess að takast á við nám viðkomandi brautar og geti náð lokamarkmiðum hennar á eðlilegum námstíma. Inntökuskilyrði verða því breytileg eftir námsbrautum. Þau miðast við einkunnir á samræmdum prófum grunnskóla og skólaeinkunnir. Ýmist er um að ræða meðaleinkunn nokkurra tiltekinna námsgreina eða lokaeinkunn einstakra greina. Val greina, sem inntökuskilyrði eru miðuð við, verður í samræmi við áherslur á námsbrautinni. Í starfsnámi verður m.a. hægt að miða við einkunnir í verklegum greinum.
    Rétt þykir að heimila skólum, ef sérstök rök mæla með því, að veita nemanda sem orðinn er 18 ára gamall inngöngu á einstakar námsbrautir án þess að hann fullnægi almennum inntökuskilyrðum. Áður en slík heimild er veitt ber að meta stöðu nemandans og skera þannig úr um það hvort hann hefur raunhæfa möguleika til að takast á við nám á viðkomandi námsbraut.
    Þeim sem ekki hafa náð tilskildum lágmarksárangri við lok grunnskóla til að innritast á einstakar námsbrautir skal standa til boða fornám eða nám í sérstökum deildum sem ætlað er fötluðum nemendum.

Um 16. gr.


    Gert er ráð fyrir að nám að loknu grunnskólaprófi sé skipulagt á mismunandi námsbrautum. Markmið með námi á öllum námsbrautum er að veita almenna menntun sem býr nemendur undir líf í lýðræðisþjóðfélagi og sérhæfða menntun sem er markviss undirbúningur fyrir frekara nám og/eða störf í þjóðfélaginu.
    Um er að ræða ferns konar námsbrautir: bóknámsbrautir sem veita undirbúning fyrir nám á háskólastigi og lýkur með stúdentsprófi, starfsnámsbrautir til skilgreindra lokaprófa sem búa nemendur undir tiltekin störf í atvinnulífinu, listnámsbrautir sem veita undirbúning fyrir frekara nám í listgreinum í sérskólum eða í skólum á háskólastigi og getur lokið með stúdentsprófi og almenna námsbraut sem býr nemendur undir frekara nám á öðrum námsbrautum eða er skilgreindur hluti af námi á starfs-, list- eða bóknámsbrautum. Almennri námsbraut lýkur með prófi sem skilgreint verður í reglugerð.
    Í gildandi námskrá fyrir framhaldsskóla eru skilgreindar þrettán bóknámsbrautir til stúdentsprófs og þykir rétt að fækka þeim. Gert er ráð fyrir að bóknámsbrautirnar verði þrjár, þ.e. að einungis verði skilgreindir þrír brautarkjarnar í bóknámi, en kjarnanám hinna þrettán brauta er svo líkt að einföldun er vel möguleg. Fækkun námsbrauta auðveldar skipulagningu náms í skólum, eykur samræmi milli einstakra skóla og gefur möguleika á markvissu eftirliti með námsárangri nemenda. Á einstaka brautum er síðan hægt að bjóða mismunandi kjörsvið og hafa því nemendur möguleika á fjölbreytni í vali.
    Stofnun nýrra námsbrauta er háð samþykki menntamálaráðherra. Skólar geta farið ólíkar leiðir við útfærslu einstakra námsbrauta. Ef um er að ræða veruleg frávik frá því sem kveðið er á um í námskrá að mati menntamálaráðuneytisins er nauðsynlegt að fá samþykki menntamálaráðherra fyrir breytingunni. Gert er ráð fyrir aukinni verkaskiptingu framhaldsskóla og að þeir sérhæfi sig í framboði tiltekinna námsbrauta og kjörsviða. Nemandi velur þannig skóla með tilliti til námsframboðs. Þegar skólum er veitt leyfi til að bjóða tiltekið nám skal tekið mið af sérstökum aðstæðum í skóla og byggðarlagi, fjölda nemenda í skólanum, aðbúnaði og kennarakosti skólans. Verkaskipting er talin forsenda þess að unnt verði að halda uppi í landinu framhaldsskólanámi sem stenst alþjóðlegar kröfur um gæði, ekki síst þá kröfu að kennslan sé í höndum kennara sem hafa sérhæfða menntun til kennslu í viðkomandi námsgreinum.

Um 17. gr.


    Allt nám í framhaldsskóla skal byggt upp í samræmi við lokamarkmið námsins og skiptast í brautarkjarna, kjörsvið og frjálst val. Þar sem lokamarkmið einstakra námsbrauta eru ólík má gera ráð fyrir mismunandi hlutföllum einstakra þátta eftir brautum. Þannig er lögð mikil áhersla á bóklegar og verklegar valgreinar á almennri námsbraut og eru þær a.m.k. helmingur námsins á brautinni. Á almennri námsbraut er t.d. mögulegt að taka stutta starfsnámsbraut sem kjörsvið. Á bóknámsbrautum til stúdentsprófs er brautarkjarni u.þ.b. 60% námsins, kjörsvið u.þ.b. 30% þess og frjálst val u.þ.b. 10%. Þar velja nemendur námsbraut í upphafi náms og síðan kjörsvið innan brautarinnar. Með ákveðnu frelsi í samsetningu brautarkjarna og kjörsviðs í námi til stúdentsprófs er reynt að gera stúdentsprófið sveigjanlegra án þess að slaka á kröfum í námsgreinum brautarkjarnans. Á starfsnámsbrautum getur hlutfallið milli brautarkjarna, kjörsviðs og frjáls vals verið mismunandi, enda eru starfsnámsbrautir innbyrðis ólíkar meðal annars með tilliti til uppbyggingar og námslengdar.
     Brautarkjarni tekur til námsgreina sem stuðla að almennri menntun nemenda og undirbúningi fyrir þátttöku í samfélaginu og til sérgreina brautar sem gefa námsbrautinni sérstöðu gagnvart öðrum brautum.
    Almennar námsgreinar og námsþættir í brautarkjarna geta verið mismunandi eftir brautum og áherslur ólíkar, hagnýtar og fræðilegar, eftir því hvert lokamarkmið brautarinnar er. Á öllum lengri námsbrautum skal kennd íslenska, stærðfræði, enska og eitt Norðurlandamál. Vægi einstakra greina er ólíkt eftir brautum en tryggt skal að nemendur í námi til samræmds stúdentsprófs leggi stund á a.m.k. tvær af kjarnagreinunum íslensku, ensku og stærðfræði öll ár framhaldsskólans. Nemendur skulu öðlast þjálfun í að tjá sig munnlega og skriflega og læra að beita nútímatækni, t.d. tölvu, við lausn daglegra verkefna. Einnig skulu koma til námsþættir sem stuðla að því að gera nemendur hæfa til að lifa í lýðræðisþjóðfélagi og dýpka skilning þeirra á samfélaginu, svo sem sögulegum forsendum, atvinnuháttum, menningu og listum, náttúru og umhverfi, hagfræði og auðlindum jarðar, samskiptum, fjölskylduábyrgð og einstaklingsskyldum. Þessi hluti almenna námsins nefnist ratvísikjarni og skulu markmið hans skilgreind í aðalnámskrá framhaldsskóla. Skólar geta hagað útfærslu námsmarkmiða ratvísikjarna á mismunandi vegu. Í skólanámskrá skal vera lýsing á þeirri útfærslu en námsþættir ratvísikjarna skulu kenndir ýmist sem sérstakir áfangar eða samþættir kennslu einstakra námsgreina.
    Sérgreinar brautar í starfsnámi eru bóklegar og verklegar sérgreinar starfs eða starfssviðs. Í bóknámi til stúdentsprófs eru sérgreinar t.d. þriðja tungumál og aukin áhersla á tiltekin fræðasvið, t.d. náttúrufræðigreinar og stærðfræði á náttúrufræðabraut eða tungumál á málabraut þar sem nemendur kynnast m.a. aðferðafræði fræðasviðanna og eru búnir undir frekara nám á háskólastigi. Á listnámsbrautum eru sérgreinar t.d. ákveðnar undirstöðugreinar á viðkomandi listsviði. Samsetning sérgreina einstakra brauta og áherslur í innihaldi verða ákvarðaðar í aðalnámskrá fyrir framhaldsskóla. Gert er ráð fyrir að aðilar atvinnulífs skilgreini sérgreinahluta náms á starfsnámsbrautum, sbr. IX. kafla frumvarps þessa, sem fjallar um starfsnám.
     Kjörsvið brautar felur í sér frekari sérhæfingu á sviði brautarinnar. Í starfsnámi gæti kjörsvið ýmist falið í sér sérhæfingu verklegs náms með tilliti til starfa, t.d. val á milli útivinnu á byggingarstað (mótauppsláttur, grófsmíði), innivinnu (fínsmíði, innréttingavinna á verkstæði) og véltrésmíði á námsbraut fyrir húsasmiði. Einnig gæti verið um að ræða dýpkun á sérsviðum, svo sem í efnisfræði, hönnun, teikningum, tölvustýringum, sögu og félagsfræði starfsgreinarinnar, eða samþætt verkefni á borð við vöruþróun í samstarfi við fyrirtæki. Sé sama starfsnám í boði í nokkrum skólum gætu þeir boðið fram mismunandi kjörsvið.
    Kjörsvið á bóknámsbrautum til stúdentsprófs gefur nemendum tækifærki til að kafa dýpra í einstök námssvið tengd sérgreinum brautarinnar og þar með fá þeir markvissan undirbúning fyrir tiltekið nám á háskólastigi. Nám á kjörsviði á jafnframt að tryggja að nemandi, sem lokið hefur stúdentsprófi, hafi öðlast þjálfun í sjálfstæðum vinnubrögðum og innsýn í aðferðafræði vísinda með því að kynnast vel viðfangsefnum tiltekins fræðasviðs. Á kjörsviði félagsfræðabrautar geta nemendur t.d. valið á milli sérhæfingar á sviði hagfræði, almennrar félagsfræði, sálarfræði, fjölmiðlafræði o.fl.; á kjörsviði málabrautar geta nemendur sérhæft sig í fornmálum, nýmálum o.fl.; á kjörsviði náttúrufræðabrautar geta nemendur sérhæft sig á sviði líffræði, eðlisfræði, stærðfræði o.fl., svipað og nú gerist á hinum mismunandi námsbrautum framhaldsskólans.
    Kjörsvið á listnámsbrautum er frekari sérhæfing í listgrein, t.d. tónlist eða myndlist, og getur farið fram við viðurkennda listaskóla að hluta til eða að öllu leyti.
    Gefa þarf nemendum kost á að taka kjörsvið af öðrum brautum ef þeir hafa uppfyllt ákveðin skilyrði sem skilgreind eru í aðalnámskrá. Þannig gæti nemandi á náttúrufræðabraut hugsanlega tekið kjörsvið í sálarfræði. Einnig verði hugað að þeim möguleika að nemendur, sem hafa lokið öðru námi á framhaldsskólastigi, t.d. starfsnámi, fái það nám eða hluta þess metið sem ígildi kjörsviðs.
     Frjálst val á lengri námsbrautum framhaldsskóla gefur nemendum tækifæri til að kynnast ólíkum námsgreinum, t.d. matreiðslu, listasögu, tónlist, heimspeki og forritun. Með því að leggja stund á ólíkar námsgreinar að eigin vali gefst nemendum kostur á að sinna eigin áhugasviði og víkka sjóndeildarhringinn. Einnig gæti nemandi notað frjálst val til að bæta við kjörsvið sitt.

Um 18. gr.


     Fornám er ætlað nemendum sem lokið hafa grunnskóla án þess að ná lágmarksárangri og geta ekki hafið nám á námsbrautum framhaldsskóla án frekari undirbúnings (sbr. 15. gr.). Námið miðar að því að byggja upp sjálfstraust nemenda og efla færni þeirra í almennum námsgreinum þannig að þeir geti hafið nám á námsbrautum framhaldsskóla og hafi möguleika til að standa sig þar. Ráðgjöf og ýmiss konar stuðningur við nemendur gegna veigamiklu hlutverki í fornámi. Í aðalnámskrá skulu vera rammareglur um innhald og uppbyggingu fornáms en líklega mun útfærsla þess verða ólík eftir skólum og samsetningu nemendahópa.
    Ljóst er að skortur er á námsframboði fyrir nemendur sem ekki tekst að ljúka grunnskóla með lágmarksárangri og undanfarin ár hefur verið tvísýnt um hvort unnt yrði að uppfylla þörf nemenda fyrir fornám. Tryggja þarf að slíkt námstilboð sé til staðar og þykir rétt að það sé við framhaldsskóla en ekki grunnskóla þannig að allur árgangurinn færist á milli skólastiga samtímis. Nánari ákvæði um stofnun, rekstur og fyrirkomulag fornáms skulu sett í reglugerð.

Um 19. gr.


    Ákvæði greinarinnar eru að mestu samhljóða ákvæðum 30. gr. gildandi laga þó með þeirri breytingu að felld er brott heimild til stofnunar sérskóla fyrir þroskahefta nemendur, en þess í stað kemur heimild til stofnunar sérstakra deilda fyrir fatlaða nemendur.
    Gert er ráð fyrir að áfram verði stefnt að því að kenna fötluðum nemendum í almennum framhaldsskólum svo sem frekast er unnt og veita þeim nauðsynlegan aðbúnað og sérfræðilega aðstoð í því skyni. Hugsanlegt er að stærri skólar sérhæfi sig í þjónustu við fatlaða nemendur. Þegar er kominn vísir að þjónustumiðstöð fyrir fatlaða framhaldsskólanemendur við Menntaskólann við Hamrahlíð og gæti reynsla sem skapast hefur þar nýst öðrum skólum.
    Með námi í sérstökum deildum er átt við ýmiss konar nám sem sniðið er fyrir nemendur með sérþarfir sem þurfa sérstakt námstilboð. Námið veitir nemendum almennan undirbúning fyrir lífið og getur einnig miðað að því að búa þá undir atvinnuþátttöku. Í Iðnskólanum í Reykjavík hefur í nokkur ár verið rekin slík starfsdeild með góðum árangri. Mikilvægt er að þetta nám hljóti viðurkenningu í framhaldsskólakerfinu og að fatlaðir nemendur eigi kost á námstilboði sem býr þá undir verkefni daglegs lífs og þátttöku í þjóðfélaginu. Þróun þessa námstilboðs þarf að taka mið af aðstæðum þar sem það verður sett á fót.

Um 20. gr.


    Nemendum í framhaldsskóla sem hafa takmarkaða kunnáttu í íslensku fer fjölgandi. Í stórum dráttum er um þrjá hópa nemenda að ræða:
    Nemendur af erlendum uppruna sem flytjast hingað til lands eftir að þeir hafa náð þeim aldri að ólíklegt er að þeir geti náð fullkomnu valdi á íslensku máli.
    Nemendur sem eru íslenskir ríkisborgarar en hafa dvalist langdvölum erlendis og hafa þar af leiðandi takmarkaða kunnáttu í íslensku.
    Heyrnarlausir nemendur sem vegna heyrnarleysis hafa ekki tök á að tileinka sér íslensku á sama hátt og heyrandi og heyrandi börn heyrnarlausra foreldra.
    Ekki er raunhæft að gera sömu kröfur til þessara nemenda hvað varðar íslenskt mál og gerðar eru til íslenskra nemenda sem alist hafa upp hér á landi og gengið í íslenska skóla.
    Á undanförnum árum hefur nemendum af erlendum uppruna fjölgað í skólakerfinu. Könnun, sem gerð var haustið 1993 um fjölda nemenda í framhaldsskólum, leiddi í ljós að í framhaldsskólum voru um 23 erlendir nemendur sem þurftu á viðbótarkennslu í íslensku að halda. Má gera ráð fyrir að þeir erlendu nemendur, sem eru við nám í framhaldsskólunum, séu þeir sem best eru staddir í íslensku og athygli vekur að fæstir erlendu nemendanna eru á bóknámsbraut.
    Annars staðar á Norðurlöndum skila mun færri nýbúar sér í framhaldsskólana en landsmenn almennt og er ástæða þess rakin til tungumálaerfiðleika, einangrunar í samfélaginu og takmarkaðrar þekkingar, m.a. á menntakerfinu. Í Noregi geta nýbúar sótt sérstakt nám í norsku, norsku 2, sem kemur í stað móðurmálskennslu í norsku.
    Íslenskir nemendur, sem dvalist hafa langdvölum erlendis, eiga oft í erfiðleikum með ákveðna þætti íslensks máls og því nauðsynlegt að þeir eigi kost á námi í íslensku sem hentar stöðu þeirra í greininni.
    Heyrnarlausir nemendur eiga erfitt með að fylgja öðrum nemendum í framhaldsnámi vegna lélegrar undirstöðukunnáttu í íslensku sem leiðir af heyrnarleysi þeirra.
    Gert er ráð fyrir að nemendur af erlendum uppruna og heyrnarlausir nemendur sem náð hafa nokkru valdi á íslensku eigi kost á sérstökum námsáföngum í íslensku.

Um 21. gr.


     Aðalnámskrá framhaldsskóla er meginviðmiðun skólastarfs á framhaldsskólastigi og því mikilvægt stjórntæki yfirvalda menntamála. Aðalnámskrá inniheldur ákvæði um réttindi og skyldur nemenda í framhaldsskólum.
    Í aðalnámskrá er gerð grein fyrir uppbyggingu náms á einstökum námsbrautum. Með ákvæðum um samhengi í námi á hverri námsbraut er gert ráð fyrir að námið sé byggt upp sem samfellt ferli frá upphafi til loka og hugsað sem ein heild þar sem hver þáttur styður annan. Við gerð aðalnámskrár þarf einnig að huga að samfellu í námi á milli grunn- og framhaldsskólastigs.
    Í aðalnámskrá skulu vera ákvæði um námsmat í framhaldsskólum, almennt námsmat og lokamat. Hvers konar mati skuli beitt og hvaða námskröfur skuli gera til nemenda til að geta lokið tilteknum áföngum náms eða til lokaprófa. Þar skal einnig tilgreindur réttur nemenda til próftöku og til að sjá eigin prófúrlausnir.
    Aðalnámskrá kveður á um hvernig nám skuli metið milli námsbrauta og einstakra skóla, svo og hverju nemendur þurfa að bæta við sig í námi við þann flutning, en gert er ráð fyrir að skilgreindar verði brýr milli námsbrauta framhaldsskólans. Einnig skulu í aðalnámskrá settar reglur um skólanámskrár og mat á skólastarfi.
    Tilkynningu um gildistöku aðalnámskrár eða hluta hennar skal birta í Stjórnartíðindum. Slíkt ákvæði var ekki í fyrra frumvarpi og er ekki heldur í núgildandi lögum. Námskrár eru taldar hafa ígildi reglugerða en aðferðir við birtingu þeirra hafa verið nokkuð á reiki. Hér er tekin af allur vafi í málinu.

Um 22. gr.


     Skólanámskrá er stjórntæki skólameistara og skólanefndar á sama hátt og aðalnámskrá er stjórntæki fyrir fræðsluyfirvöld. Í skólanámskrá er gerð grein fyrir stefnumörkun skólans, sérstökum áherslum í starfi, skipulagi náms í skólanum og kennsluháttum. Einnig veitir skólanámskrá nemendum og almenningi upplýsingar um skólann og skólastarfið en skólanámskrá er ætlað að lýsa sérstöðu skólans gagnvart öðrum framhaldsskólum.
    Í fyrstu setningu greinarinnar er kveðið á um að í skólanámskrá skuli kveðið á um skiptingu námsgreina á námsannir eða námsár. Enda þótt í greininni sé talað um námsáfanga þá gildir jafnt um skóla sem starfa eftir áfangakerfi og skóla sem starfa eftir bekkjarkerfi að þeir skuli gera í skólanámskrá grein fyrir skiptingu námsgreina á námsannir eða námsár miðað við eðlilega námsframvindu nemenda. Þetta kemur ekki í veg fyrir að einstakir nemendur geti tekið áfanga í annarri röð en þarna kemur fram eins og t.d. á við um nemendur sem eru að hraða námi sínu eða seinka.
    Vinna við gerð skólanámskrár er mikilvægur þáttur í gæðastjórnun hvers skóla því að starfsmenn skólans vinna í sameiningu að skólanámskrá, að frumkvæði og á ábyrgð skólameistara. Leggja þarf skólanámskrá fyrir skólanefnd til samþykktar áður en skólar geta hafið störf á grundvelli hennar.

Um 23. gr.


    Á síðustu árum hafa verið teknar upp margvíslegar sjálfsmatsaðferðir í skólum til að bæta árangur skólastarfsins. Gert er ráð fyrir að skólar styðjist við aðferðir sem þróaðar hafa verið og gefist hafa vel. Þá er gert ráð fyrir að skólar geti innleitt aðferðafræði altækrar gæðastjórnunar eða notkun viðurkenndra gæðakerfa sem byggja á alþjóðlega viðurkenndum stöðlum.
    Ekki eru tilgreindar ákveðnar aðferðir við að taka út sjálfsmat skóla en þess vænst að stuðst verði við viðurkenndar aðferðir sem þróaðar hafa verið í öðrum löndum í þessu skyni. Þegar skólar innleiða stöðluð gæðakerfi er gert ráð fyrir að viðurkenndir vottunaraðilar geti vottað notkun slíkra gæðakerfa.

Um 24. gr.


    Gert er ráð fyrir að lokapróf af námsbrautum framhaldsskóla verði samræmd í tilteknum greinum sem nánar er kveðið á um í reglugerð. Slíkt mun gera kröfu til meira samræmis í námi milli skóla, en allt námsframboð framhaldsskólans skal skilgreint í aðalnámskrá.
    Gert er ráð fyrir að lokapróf í starfsnámi verði undirbúin í samráði og/eða samvinnu við aðila atvinnulífsins samkvæmt nánari tillögum frá viðkomandi starfsgreinaráðum.

Um 25. gr.


    Greinin fjallar um hlutverk starfsnáms á framhaldsskólastigi. Kveðið er á um að innihald starfsnáms skuli taka mið af kröfum atvinnulífs um fagmenntun starfsfólks og stuðla jafnframt að almennri menntun nemenda og jákvæðu viðhorfi til símenntunar. Áhersla er lögð á að námið sé skipulagt sem heild þannig að hver þáttur námsins styðji annan og að verknámið fari fram við raunverulegar aðstæður eftir því sem kostur er. Stuðlað skal að kerfisbundinni víxlverkun náms í skóla og á vinnustað eftir því sem við verður komið.

Um 26. gr.


     Samstarfsnefnd um starfsnám á framhaldsskólastigi er ætlað að vera menntamálaráðherra til ráðuneytis í stefnumótandi ákvörðunum um starfsnám þannig að áherslur í náminu séu í samhengi við atvinnuþróun í landinu á hverjum tíma. Eigi starfsnám að vera í samræmi við áherslur í atvinnulífi þjóðarinnar þarf að sameina krafta ólíkra aðila við mótun starfsmenntastefnu. Því er horfið frá því að binda ráðgjöf til ráðherra um stefnumörkun í starfsnámi við einstaka atvinnuvegi eða starfsgreinasvið eins og verið hefur. Samstarfsnefnd um starfsnám leysir þannig af hólmi iðnfræðsluráð, fræðsluráð sjávarútvegs og fræðsluráð ferðamála sem starfað hafa samkvæmt lögum nr. 58/1988, um framhaldsskóla.
    Í nýrri skipan á stjórnun starfsnáms er tekið mið af stjórnkerfi starfsmenntunar í nálægum löndum en í Danmörku og Þýskalandi eru starfandi slíkar samstarfsnefndir stjórnvalda og aðila vinnumarkaðar. Um er að ræða fjölmennar nefndir þar sem hver aðili um sig á u.þ.b. 1 / 3 hluta fulltrúa, þ.e. hið opinbera, samtök atvinnurekenda og samtök launþega. Reynt er að fylgja þessari reglu við val á fulltrúum í samstarfsnefndina. Þeir eru 18 alls, sex tilnefndir af samtökum atvinnurekenda, sex tilnefndir af samtökum launþega, tveir tilnefndir sameiginlega af samtökum kennara og skólastjórnenda og fjórir eru fulltrúar hins opinbera.
    Mikilvægt er að í samstarfsnefndinni sitji fulltrúar sem flestra atvinnugreina þannig að vettvangur myndist fyrir breiða yfirsýn yfir málefni starfsnáms. Ljóst er að ekki er hægt að tryggja fulltrúum allra hagsmunasamtaka á vinnumarkaði setu í samstarfsnefndinni. Leitað skal til heildarsamtaka atvinnurekenda og launþega um tilnefningar í nefndina og er ætlast til að þessir aðilar hafi með sér samráð um tilnefningar og tryggi þannig sem flestum starfssviðum aðild að nefndinni.
    Af hálfu hins opinbera sitja í nefndinni einn fulltrúi frá samtökum sveitarfélaga og þrír fulltrúar sem menntamálaráðherra skipar án tilnefningar. Mikilvægt er að fulltrúar ráðherra hafi reynslu og þekkingu á skóla- og fræðslumálum. Þessir fulltrúar sitja í nefndinni sem fulltrúar hins opinbera en ekki sem fulltrúar tiltekinna hagsmunasamtaka. Einnig er gert ráð fyrir að ráðherra noti möguleika sína á beinni skipan í nefndina til að kalla til fulltrúa starfssviða sem sýnt er að ekki muni eiga fulltrúa í nefndinni eða til að auka vægi fulltrúa fyrir tiltekin svið atvinnulífs sem talið er að þurfi að sinna sérstaklega á skipunartímabili nefndarinnar. Dæmi um hið fyrrnefnda er landbúnaður, dæmi um hið síðarnefnda eru sjávarútvegur, matvælaiðnaður og ferðamál. Þessir fulltrúar gætu t.d. komið úr viðkomandi fagráðuneytum eða þau haft milligöngu um að finna þá.
    Með nýju stjórnkerfi starfsmenntunar er lögð áhersla á sameiginlega ábyrgð aðila atvinnulífs og hins opinbera á mótun starfsmenntastefnu. Því er talið eðlilegt að tilnefningaraðilar í atvinnulífi greiði kostnað vegna setu fulltrúa sinna á fundum nefndarinnar. Gert er ráð fyrir því að menntamálaráðuneytið veiti nefndinni skrifstofu- og ritaraþjónustu og haldi utan um störf nefndarinnar að öðru leyti.

Um 27. gr.


     Samstarfsnefnd um starfsnám er samstarfsvettvangur aðila atvinnulífs og hins opinbera og er m.a. ætlað að gera tillögur um hvernig efla megi tengsl atvinnulífs og skóla. Samstarfsnefndin er jafnframt vettvangur þar sem fjallað er um heildarstefnumörkun í málefnum starfsnáms á framhaldsskólastigi, en mikilvægt er að slík stefnumörkun byggi á mati á þörfum í atvinnulífi á hverjum tíma.
    Ætlast er til að nefndin sýni frumkvæði í störfum sínum og geri tillögur til umbóta þar sem hún telur þess þörf. Þetta gildir jafnt um viðbrögð við sérstökum aðkallandi vanda og áætlanir til lengri tíma.
    Gert er ráð fyrir að samstarfsnefndin sé ráðgefandi um setningu almennra reglna um málefni starfsnáms, gefi ráð um forgangsröðun verkefna í starfsnámi með tilliti til fjárlaga og sé til ráðuneytis varðandi ákvarðanir um sérstakar tilraunir og þróunarverkefni á sviði starfsnáms.
    Þá skal nefndin gera tillögur til menntamálaráðherra um flokkun starfsgreina fyrir starfsgreinaráð en flokkunin skal gerð í samráði við samtök atvinnurekenda og launþega í viðkomandi starfsgreinum.

Um 28. gr.


     Starfsgreinaráð koma í stað fræðslunefnda í núverandi stjórnkerfi löggiltra iðngreina. Aðilar vinnumarkaðar tilnefna meiri hluta fulltrúa í starfsgreinaráð og skal tryggja jafnt hlutfall fulltrúa atvinnurekenda og launþega í ráðunum. Í hverju starfsgreinaráði situr einn fulltrúi ráðherra. Skal hann hafa þekkingu á starfsnámi og er ætlast til að hann aðstoði við að koma hugmyndum aðila atvinnulífs í það form sem hentar skólastarfi. Fulltrúi ráðherra getur verið starfsnámskennari eða annar sérfræðingur í málefnum starfsnáms og/eða námskrárgerðar.
    Tryggja þarf að sérhver atvinnugrein, sem nýtur fræðslu á framhaldsskólastigi, eigi kost á fulltrúaaðild að starfsgreinaráði. Hér er um að ræða verulega breytingu frá núgildandi skipulagi þar sem lögbundin aðild að tillögugerð um skipan náms í starfsgrein er einungis á sviði löggiltra iðngreina. Með því að veita fulltrúum allra starfsgreina á framhaldsskólastigi kost á aðild að starfsgreinaráðum er verið að auka möguleika samtaka atvinnulífsins á að hafa áhrif á skipan starfsnáms. Þetta gildir einnig um stjórnun náms í löggiltum iðngreinum en þar verða áhrifin meiri og beinni en núverandi skipulag gerir ráð fyrir. Aðilar vinnumarkaðar eiga aðeins tvo af fimm fulltrúum í starfandi fræðslunefndum fyrir iðngreinaflokka og skal iðnfræðsluráð tilnefna þá auk eins fulltrúa starfsnámskennara. Menntamálaráðherra skipar formann og ritara fræðslunefnda og er mælst til þess í gildandi lögum að sömu menn sinni þessum hlutverkum í öllum nefndunum. Margar iðngreinar eiga því ekki beina aðild að fræðslunefnd, aðeins fagnefnd sem undirbýr mál fyrir fræðslunefnd viðkomandi iðngreinaflokks. Í frumvarpi þessu er tryggð bein tilnefning samtaka á vinnumarkaði á fulltrúum í starfsgreinaráð. Hver starfsgrein á kost á fulltrúaaðild og í ráðunum sitja nánast einvörðungu fulltrúar aðila atvinnulífs.
    Fjöldi starfsgreinaráða fer fyrst og fremst eftir því hvernig starfsgreinar eru flokkaðar og er mikils um vert að aðilar í starfsgreinum séu sáttir við þá flokkun. Starfsgreinaráð geta verið mismunandi fjölmenn og fer stærð þeirra eftir því hversu margar starfsgreinar heyra undir ráðið og ákvörðun samtaka atvinnurekenda og launþega sem að ráðunum standa um fjölda fulltrúa fyrir hverja starfsgrein.
    Gert er ráð fyrir að nokkur tími líði frá gildistöku nýrra laga og þar til öll starfsgreinaráð hafa tekið til starfa. Að líkindum er breytingin einföldust á sviði löggiltra iðngreina þar sem fræðslunefndir hafa þegar sinnt hluta þeirra viðfangsefna sem starfsgreinaráðum er ætlað auk þess sem sumir iðngreinaflokkar hafa nú þegar mikil umsvif í endurmenntun og hafa komið sér upp fræðsluhópum eða jafnvel stofnunum sem vinna að menntunarmálum greinanna. Í öðrum starfsgreinum getur breytingin átt sér stað mishratt, allt eftir áhuga, möguleikum og framtaksvilja aðila vinnumarkaðar, svo og möguleikum menntamálaráðuneytis til að fylgja breytingunum eftir með auknum umsvifum á sviði starfsnáms. Í bráðabirgðaákvæði frumvarps þessa er kveðið á um að menntamálaráðherra setji í reglugerð hvernig standa skuli að því að koma ákvæðum um starfsnám til framkvæmda.
    Vinnuframlag aðila einstakra starfsgreina mun eðli máls samkvæmt verða mismunandi og m.a. háð áhuga aðila á menntunarmálum greinarinnar. Mikilvægt er að tryggja að starfsnámið líði ekki fyrir það ef einhverjar starfsgreinar sýna ekki það frumkvæði sem vænst er. Því er gert ráð fyrir að menntamálaráðherra geti skipað tímabundið sérstaka starfshópa til að sinna verkefnum starfsgreinaráðs ef ekki tekst að mynda slíkt ráð.
    Eðlilegt þykir að ákveðin fjárhagsleg ábyrgð fylgi auknum möguleikum aðila vinnumarkaðar til frumkvæðis og beinna áhrifa á ákvarðanatöku um skipan starfsnáms. Því er gert ráð fyrir að starfsgreinasamtök greiði kostnað af hefðbundnum nefndarstörfum fulltrúa sinna í starfsgreinaráði. Lögð er áhersla á að menntamálaráðuneytið veiti ráðunum sérfræðilega þjónustu og aðstoð við að laga tillögur þeirra og hugmyndir að eðli skólastarfs. Menntamálaráðherra kostar gerð námskrár í sérgreinum starfsnáms eins og aðra hluta aðalnámskrár framhaldsskóla.

Um 29. gr.


     Starfsgreinaráð skilgreinir þá hæfni sem atvinnulífið krefst af starfsfólki í einstökum starfsgreinum en slík skilgreining liggur til grundvallar skipulagi starfsnáms. Tillögur og ábendingar starfsgreinaráðs til menntamálaráðherra byggja á skilgreindum hæfnikröfum.
    Starfsgreinaráð setur fram markmið starfsnáms, þ.e. skilgreinir hvaða kunnáttu og færni nemi þarf að hafa tileinkað sér við lok námsins. Skilgreining þessi tekur fyrst og fremst til bóklegra og verklegra sérgreina en gert er ráð fyrir að starfsgreinaráð taki einnig afstöðu til markmiða almennra bóknámsgreina eins og þau eru skilgreind í aðalnámskrá og geri tillögur um hvernig megi sveigja þau að lokamarkmiðum viðkomandi námsbrautar. Í sumum tilvikum kann starfsgreinaráð að leggja til að sérstakar áherslur verði lagðar í kennslu einstakra greina. Sem dæmi um slíkt væri áhersla á fagensku í námi í bílgreinum.
    Starfsgreinaráð gerir tillögur um uppbyggingu starfsnáms, þ.e. hvernig námið skuli saman sett og hvert skuli vera innihald þess í grófum dráttum. Með tillögum að námskrá í sérgreinum starfsnáms er átt við að starfsgreinaráð skilgreini nákvæmlega markmið einstakra námsþátta er tilheyra sérgreinum starfsnáms. Fyrir þá vinnu skal starfsgreinaráði standa til boða sérfræðiþjónusta af hálfu menntamálaráðuneytis.
    Starfsgreinaráð gerir einnig tillögur að reglum um námsmat í sérgreinum viðkomandi starfsnáms, þ.e. hvernig gengið skuli úr skugga um að nemandinn hafi staðist tiltekna áfanga náms og geti haldið áfram. Einnig gerir starfsgreinaráð tillögu um tilhögun lokamats. Þar er annars vegar átt við í hvaða greinum starfsnáms skuli prófað samræmt og hverjir skuli koma að því mati. Hins vegar er átt við hvenær lokamat eigi að fara fram (við lok skólanáms eða vinnustaðanáms eða e.t.v. hvort tveggja). Starfsgreinaráð gerir einnig tillögur til menntamálaráðherra um hvernig háttað skuli eftirliti með gæðum skólastarfs og vinnustaðanáms.
    Starfsgreinaráð gerir tillögu að skiptingu náms á skóla og vinnustað, svo og að reglum um atriði er varða nám á vinnustöðum. Það gerir tillögu að reglum um hvaða skilyrði vinnustaðir þurfa að uppfylla til að taka nema í starfsþjálfun eða á námssamning, svo sem kröfur til leiðbeinenda, um tækjakost, hvort og hvernig fleiri en eitt fyrirtæki geta skipt á milli sín þjálfun einstakra nema o.s.frv. Starfsgreinaráð gerir einnig tillögu að reglum um hvaða kennsluaðstöðu og tækjabúnað skólar sem annast tiltekið starfsnám skulu hafa yfir að ráða og hvaða sérstöku kröfur gera skuli til kennara til að kenna viðkomandi starfsnám.
    Gert er ráð fyrir að starfsgreinaráð hafi frumkvæði að tillögugerð um breytta skipan náms í þeim starfsgreinum er undir ráðið heyra og sé stjórnvöldum til ráðuneytis að öðru leyti. Þannig getur ráðið verið ráðgefandi um ráðstöfun fjár vegna tækjakaupa, námsgagnagerðar o.fl. í viðkomandi starfsnámi og gert tillögur um stofnun nýrra námsbrauta og inntökuskilyrði í viðkomandi starfsnám. Einnig er gert ráð fyrir að starfsgreinaráð tilnefni fulltrúa í ráðgjafarnefndir í byggðarlagi, sbr. 30. gr. Loks er þess að vænta að starfsgreinaráð stuðli að sem bestum námsaðstæðum á vinnustað og að fyrirtæki í greininni taki nema í starfsþjálfun samkvæmt ákvæðum aðalnámskrár.
    Menntamálaráðherra gefur út námskrá í sérgreinum starfsnáms, sem hluta af aðalnámskrá framhaldsskóla, svo og reglur um framkvæmd starfsnáms í viðkomandi starfsgreinum að fengnum tillögum starfsgreinaráðs.

Um 30. gr.


    Gert er ráð fyrir að skólanefnd sé heimilt að setja á fót sérstakar ráðgjafarnefndir við skóla til að stuðla að bættu samstarfi skóla og atvinnulífs í viðkomandi byggðarlagi. Slíkar nefndir gætu veitt skólamönnum aðstoð við að útfæra skólanámskrá í starfsnámi á grundvelli aðalnámskrár. Nefndirnar geta verið misstórar og haft ólíkt hlutverk eftir skólum. Við skóla með fjölmennar starfsnámsdeildir getur ein nefnd verið til samráðs við hverja deild og í litlum skólum getur verið ein ráðgjafarnefnd fyrir allan skólann. Að undanförnu hefur Iðnskólinn í Reykjavík haft ráðgjafaraðila af þessum toga í ýmsum greinum og er sú reynsla talin lofa góðu.
    Í þessum ráðgjafarnefndum skulu vera jafnmargir fulltrúar launþega og atvinnurekenda og er gert ráð fyrir að skólar leiti til viðkomandi starfsgreinaráða með beiðni um tilnefningar. Með því að starfsgreinaráð hafi milligöngu um tilnefningu fulltrúa úr atvinnulífi í byggðarlaginu eru tryggð ákveðin tengsl milli ráðgjafarnefndar og starfsgreinaráðs. Ákvarðanir starfsgreinaráðs eiga greiðari leið inn í skólana þegar fulltrúar atvinnulífs og skóla geta rætt þær og útfært á sameiginlegum vettvangi. Það fer eftir hlutverki nefndarinnar í hverjum skóla hverjir veljast til setu í henni af skólans hálfu en eðlilegt er að þar sitji a.m.k. fulltrúar frá yfirstjórn og fagkennurum og e.t.v. fulltrúi nemenda.
    Ráðgjafarnefndir samkvæmt lögum þessum eru á ábyrgð viðkomandi skóla, sem ber kostnað af störfum þeirra, nema um annað semjist milli aðila.

Um 31. gr.


    Grein þessi er nýmæli en með ákvæðum hennar geta framhaldsskólar eða einstakar deildir þeirra fengið sérstakt hlutverk sem kjarnaskóli, þ.e. tilrauna- og þróunarskóli í starfsnámi. Kjarnaskólar geta verið mismunandi, enda um að ræða þróunarverkefni sem tekur mið af ólíkum þörfum og aðstæðum starfsgreina og/eða atvinnuvega.
    Gera þarf sérstakt samkomulag milli menntamálaráðuneytis og viðkomandi skóla þar sem kveðið er á um tímalengd verkefnisins og stjórnun þess, þar með talda skiptingu hlutverka og ábyrgðar á milli aðila, svo og hvernig úttekt á árangri skuli hagað.
    Í kjarnaskóla fer fram þróun á námsefni, námsskipan, kennsluaðferðum og námsmati í viðkomandi starfsnámi. Skólar sem veita menntun á sama sviði eiga að geta leitað til kjarnaskóla um leiðsögn og ráðgjöf m.a. varðandi skipulag námsins, námsefni og kennsluhætti sem og sérstök þróunarverkefni. Þannig er kjarnaskóli hugsaður sem þróunar- og þjónustustofnun fyrir allt landið.

Um 32. gr.


    Þegar í aðalnámskrá er kveðið á um að hluti starfsnáms fari fram á vinnustað fer um það nám samkvæmt ákvæðum aðalnámskrár og reglum um vinnustaðanám sem ráðherra hefur sett að fenginni tillögu viðkomandi starfsgreinaráðs. Um vinnustaðanám skal ýmist gerður sérstakur starfsþjálfunarsamningur á milli skóla og vinnustaðar eða námssamningur á milli nema og vinnuveitanda.
     Starfsþjálfunarsamningur er gerður milli skóla og einstakra fyrirtækja eða stofnana. Þar er kveðið á um að viðkomandi stofnun taki tiltekinn fjölda nemenda skólans til starfsþjálfunar í ákveðinn tíma. Í samningnum kunna einnig að vera ákvæði um hvers konar leiðsögn nemar skulu hljóta á starfsþjálfunartímanum. Dæmi um starfsþjálfunarsamninga eru t.d. samningar um þjálfun nema í sjúkraliðanámi og matartækninámi.
     Námssamningur skal undirritaður af báðum samningsaðilum, nema og vinnuveitanda, við upphaf vinnustaðanáms og staðfestur innan eins mánaðar af fulltrúa menntamálaráðherra. Reynslutími er yfirleitt að hámarki sex mánuðir frá upphafi samningstímans en hann skal tilgreindur sérstaklega, svo og gildistími samningsins. Laun og önnur starfskjör nema á samningstíma skulu vera í samræmi við gildandi kjarasamninga og lög. Dæmi um námssamninga eru meistarasamningar á sviði löggiltra iðngreina.
    Menntamálaráðherra setur reglugerð um náms- og starfsþjálfunarsamninga. Þar kemur fram hvernig námssamningur skuli líta út, hverjir skuli undirrita hann, hver beri ábyrgð á að senda samninginn til staðfestingar og hvaða aðili skuli staðfesta samninginn fyrir hönd ráðherra. Einnig skal þar kveðið á um hvernig standa skuli að samningsslitum, t.d. hvernig skuli fara með málið ef samningi er slitið án samkomulags. Þar skulu einnig vera ákvæði um meðferð ágreiningsefna er upp kunna að koma varðandi framkvæmd samningsins. Um reglugerð þessa skal leitað umsagnar aðila vinnumarkaðar og samtaka nemenda en þar er átt við heildarsamtök atvinnulífsins og samtök nema í viðkomandi greinum.

Um 33. gr.


    Eitt af einkennum nútímaþjóðfélags er sérmenntun til tiltekinna starfa og kröfur á einstaklinga um að geta brugðist við breyttum aðstæðum á vinnustað. Þannig er líklegt að kröfur um framboð á almennri og sérhæfðri fræðslu á framhaldsskólastigi fyrir fullorðna aukist á komandi árum. Þar að auki benda upplýsingar úr könnuninni „Námsferill í framhaldsskóla“ til mikils brotthvarfs nemenda úr námi í íslenskum framhaldsskólum og mikill fjöldi fólks með litla skólagöngu að baki er á almennum vinnumarkaði. Í upplýsingum, sem birtar hafa verið um fjölda atvinnulausra, kemur í ljós að atvinnuleysi er mest á meðal þeirra sem hafa litla formlega skólagöngu. Því er afar brýnt að einstaklingar, sem ýmist hafa aldrei farið í framhaldsskóla eða hafa hætt í framhaldsskóla án skilgreindra námsloka, eigi kost á að sækja nám á framhaldsskólastigi.
    Námsframboð öldungadeilda þarf að endurskoða, breikka og m.a. bæta við hagnýtum námsleiðum. Er þar einkum átt við nám á tveimur sviðum. Í fyrsta lagi ber að leggja áherslu á uppbyggingu starfsnámsbrauta fyrir fullorðið fólk, þ.e. hagnýtt nám sem veitir undirbúning til tiltekinna starfa á vinnumarkaði. Þetta þarf að gerast jafnhliða almennri uppbyggingu starfsnáms á framhaldsskólastigi. Í öðru lagi er mikil þörf á að skipuleggja sérstakt grunn- og upprifjunarnám fyrir fullorðna, þ.e. nám fyrir fólk sem ekki hefur lokið formlegum prófum, hefur jafnvel ekki grunnskólapróf og þarf mikinn stuðning í grunngreinum. Slíkt nám væri ætlað þeim sem ekki náðu valdi á undirstöðuatriðum í grunnskóla á sínum tíma eða hafa ekki stundað skólanám lengi.
    Það er staðreynd að fullorðnir einstaklingar nálgast viðfangsefnin á annan hátt en unglingar. Því er mikilvægt að kennsla og skipulag náms í öldungadeildum framhaldsskóla taki mið af námsþörfum fullorðinna. Hins vegar er lögð áhersla á að nám í öldungadeildum sé jafngilt námi í almennum framhaldsskólum. Þar er átt við að náminu ljúki með sambærilegum prófum og að gerðar séu sömu kunnáttu- og færnikröfur til hinna fullorðnu nemenda þrátt fyrir að skipulag og innihald náms og kennslu kunni að vera ólíkt vegna þeirrar reynslu sem fullorðnir hafa er þeir hefja námið.
    Öldungadeildir eru fyrst og fremst ætlaðar fullorðnum, en samt þykir ekki rétt að binda í lögum lágmarksaldur til að sækja öldungadeild.

Um 34. gr.


    Í framhaldsskólum er víða dýrmæt aðstaða sem rétt þykir að nýta til fullnustu. Það á ekki síst við um skóla sem sinna starfsnámi og hafa oft yfir að ráða sérhæfðri kennsluaðstöðu og kennslukröftum. Þess vegna þykir rétt að heimila framhaldsskólum að starfrækja endurmenntunarnámskeið og annað nám í samráði við faggreinafélög, stéttarfélög, atvinnurekendur eða aðra hagsmuna- eða áhugahópa. Kostnaður af námskeiðshaldi þessu er greiddur af neytendum, þ.e. þeim sem nýta sér kennsluna.
    Á undanförnum árum hefur verið tekin upp kennsla með farskólasniði á vegum einstakra framhaldsskóla á landsbyggðinni. Þar er átt við ýmiss konar námskeiðahald í héraði eða byggðarlagi. Með námskeiðahaldi af þessu tagi er hægt að koma til móts við þarfir íbúa fyrir námskeið á sviði fullorðinsfræðslu eða endurmenntunar. Á vegum farskóla hefur að mestu verið í boði nám skv. 34. gr. frumvarps þessa, þ.e. endurmenntunarnámskeið, en einnig ýmiss konar tómstundanámskeið. Þátttakendur greiða að fullu kostnað af þessum námskeiðum.

Um 35. gr.


    Fullorðinsfræðslumiðstöðvar sem hér er gert ráð fyrir eru samstarfsverkefni framhaldsskóla og ýmissa aðila í því byggðarlagi sem skólinn þjónar. Þeim er fyrst og fremst ætlað að veita þjónustu sem fellur utan hefðbundinna verkefna framhaldsskólans. Þær eiga að koma til móts við þarfir íbúanna fyrir námskeið innan fullorðinsfræðslu og endurmenntunar eins og farskólar og námsflokkar hafa gert, en gætu auk þess veitt náms- og starfsráðgjöf fyrir fullorðna og aðstoðað fyrirtæki og stofnanir við þjálfun starfsfólks. Slíkar miðstöðvar geta orðið markviss og öflugur þáttur í alhliða uppbyggingu og þróun viðkomandi byggðarlags. Vísi að slíkri starfsemi er þegar að finna hérlendis, t.d. er Farskóli Norðurlands vestra samstarfsverkefni nokkurra aðila sem hafa gert með sér samkomulag um starfsemina.
    Annars staðar á Norðurlöndum hefur þegar fengist jákvæð reynsla af rekstri þjónustumiðstöðva af þessum toga, ekki síst í baráttunni gegn atvinnuleysi. Enn fremur hefur starfsemi miðstöðvanna haft jákvæð áhrif á þróun framhaldsskólanna og stuðlað að bættu samstarfi skóla og atvinnulífs.

Um 36. gr.


    Á undanförnum árum hefur orðið mikil breyting á aðstöðu margra framhaldsskóla með tilkomu vandaðra skólasafna og hafa bókasafnsfræðingar haft forustu í því uppbyggingarstarfi. Skólasafn er einn af hornsteinum skólastarfs í framhaldsskólum og er mjög mikilvægt bæði nemendum og kennurum í daglegu starfi.
    Áhersla er lögð á að skólasafnið verði virkur þáttur í fræðslustarfi framhaldsskólans og að þar verði nemendur þjálfaðir í sjálfstæðri þekkingarleit og öflun upplýsinga, m.a. með aðgangi að heimildaritum og gagnabönkum. Sífellt aukast möguleikar á upplýsingamiðlun í tölvutæku formi og er mikilvægt að nemendur í framhaldsskóla fái að kynnast sem flestum aðferðum upplýsingaöflunar.

Um 37. gr.


    Felld eru brott ákvæði úr gildandi lögum um að ríkissjóður skuli kosta byggingu heimavista að fullu og að heimilt sé að víkja frá meginreglu um skiptingu stofnkostnaðar þegar um fámenn sveitarfélög er að ræða. Er nú gert ráð fyrir að kostnaðarhlutdeild ríkissjóðs við byggingu heimavista sé sú sama og við byggingarframkvæmdir og stofnbúnað framhaldsskóla, þ.e. 60%. Rétt þykir að kveða skýrt á um að sveitarfélög er njóta þess hagræðis að hafa framhaldsskóla staðsettan í sveitarfélaginu skuli leggja honum til lóðir án gjalda eða lóðaleigu en að kostnaður við að gera lóðina byggingarhæfa teljist til stofnkostnaðar skólans. Ekki þykir æskilegt að veita heimild í lögum frá almennum reglum um kostnaðarskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga enda talið að slíkt geti leitt til óhagkvæmni í fjárfestingum. Gert er ráð fyrir að samið verði um það milli ríkis og sveitarfélaga hvernig sveitarfélögum verði bætt aukin þátttaka í kostnaði við byggingu heimavista.
    Þá er ákveðið að setja skuli reglugerð um normkostnað framhaldsskólahúsnæðis sem skipting áætlaðs stofnkostnaðar milli framkvæmdaaðila verði miðuð við. Einnig skal setja í reglugerð viðmiðunarreglur um stærð og gerð húsnæðis framhaldsskóla. Gert er ráð fyrir að allur undirbúningur verði í höndum framkvæmdaraðila.

Um 38. gr.


    Greinin er óbreytt frá 4. gr. gildandi laga og kveður á um eignaraðild að fasteignum skóla á framhaldsskólastigi og málsmeðferð ef þær verða teknar til annarra nota eða seldar öðrum hvorum eignaraðila.

Um 39. gr.


    Gert er ráð fyrir að ríkið greiði áfram rekstrarkostnað framhaldsskóla. Tölulegar viðmiðanir fyrir kennslumagn á hvern nemanda og fjölda í námshópum sem eru í núgildandi lögum eru teknar út, en í staðinn er kveðið á um að reikniregla (reiknilíkan) fyrir fjárveitingar til kennslu verði sett í reglugerð. Reiknireglunni er ætlað að reikna út raunverulegan kostnað við þá starfsemi sem nauðsynleg er talin og heimiluð er. Þessari aðferð hefur verið beitt í ýmsum löndum og hefur hún gefið allgóða raun. Með því að taka hana upp hér er verið að gera tilraun til að gera ákvarðanir um fjárveitingar eins hlutlægar og kostur er. Ljóst er að reikniregla af þessu tagi er háð stöðugri endurskoðun og þess vegna eðlilegra að efnisatriði séu bundin í reglugerð en í lögum.
    Gert er ráð fyrir að rekstarframlag verði áfram greitt beint til skóla samkvæmt samningi er menntamálaráðuneytið gerir við hvern skóla fyrir sig. Þessi háttur var tekinn upp við gildistöku núgildandi laga og gerðu ýmsir skólar slíkan samning í ársbyrjun 1990. Reynslan af þessu fyrirkomulagi hefur verið góð og haft ýmsa hagræðingu í för með sér fyrir skólana og þess vegna er gert ráð fyrir að halda því áfram. Bætt er inn ákvæði um að skólanefnd sé heimilt að millifæra fé af rekstrarlið fjárlaga til launaliðar og af launalið til rekstrarliðar.
    Gert er ráð fyrir að til grundvallar fjárveitingum til viðhalds liggi sérstök viðhaldsáætlun er ráðuneytið geri. Þannig ætti að fást betra yfirlit yfir heildarþörfina og skapast möguleikar á að nýta betur það fjármagn sem ætlað er til viðhalds hverju sinni og tryggja að verk sem byrjað er á verði lokið á sem skemmstum tíma.

Um 40. gr.


    Greinin er að mestu efnislega samhljóða 33. gr. gildandi laga en felld út ákvæði er ekki eiga við um heimavistir og mötuneyti. Ákvæði um kostnaðarþátttöku nemenda af efniskaupum vegna verklegrar kennslu hefur flust í 7. gr. frumvarpsins og ákvæði um hagnað af leigu skólahúsnæðis er í 43. gr. Fellt er út ákvæði um kostnaðarþátttöku nemenda í skipulögðum skólaakstri. Að jafnaði bera nemendur sjálfir kostnað af ferðum til og frá skóla. Ef um er að ræða verulegan kostnað fer eftir ákvæðum laga um ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði, nr. 23/1989. Skólameistari skal einn hafa umsjón með rekstri heimavistar og mötuneytis, í stað skólameistara og skólanefndar í gildandi lögum. Er sú breyting í samræmi við þá stefnu að í lögum sé skýrt kveðið á um ábyrgð skólameistara á daglegu starfi skólans.

Um 41. gr.


    Samkvæmt þessari grein er einkaaðilum heimilt að stofna og reka skóla eða bjóða upp á skilgreint nám sem eðli sínu samkvæmt á heima á framhaldsskólastigi. Hér getur bæði verið um að ræða nám sem veitir formleg réttindi og nám sem miðar að því að veita nemendum undirbúning til starfa á tilteknu sviði eða almenna menntun.
    Einkaskólar geta sótt um viðurkenningu til menntamálaráðherra ef þeir telja sér hag í því. Viðurkenningu skal veita með hliðsjón af ákvæðum laga og reglugerða sem gilda á hverjum tíma fyrir framhaldsskóla og felur m.a. í sér að námið er háð eftirliti menntamálaráðherra, stefnir að skilgreindum markmiðum og fer fram samkvæmt námskrá sem er í samræmi við almennar reglur sem menntamálaráðherra setur.
    Einkaskólar eiga ekki kröfu á framlögum af opinberu fé og aðeins Alþingi getur ákveðið framlög til þeirra. Í greininni er gert ráð fyrir að ef Alþingi ákveður að veita einkaskóla styrk til starfsemi sinnar þá skuli menntamálaráðherra og rekstraraðilar skólans gera verksamning um greiðslu fjárframlags, skilyrði sem framlagið er háð og önnur þau atriði sem máli kunna að skipta að mati samningsaðila.

Um 42. gr.


    Með ákvæðum greinar þessarar er veitt heimild til þess að semja við samtök atvinnurekenda og launþega í einstökum starfsgreinum eða starfsgreinaflokkum um að þeir gerist virkir þátttakendur í stofnun og rekstri framhaldsskóla. Slíkri heimild er ætlað að stuðla að því að atvinnulífinu gefist kostur á að hafa áhrif á skipulag og starfshætti skóla er sinna starfsnámi. Gert er ráð fyrir að samtök atvinnurekenda og launþega taki sameiginlega þátt í slíkum rekstri en sú stefna sem mörkuð hefur verið um aukna aðild atvinnulífs að starfsnámi gengur út frá því að ávallt sé gætt jafnræðis milli þessara aðila þegar um er að ræða þátttöku í mótun og framkvæmd starfsnáms.
    Á grundvelli breytingar á lögum um framhaldsskóla sem samþykkt var á vorþingi 1992 hefur þegar verið tekið upp slíkt samstarf við aðila vinnumarkaðar í tilraunaskyni með undirritun samnings um stjórnun og rekstur Fræðslumiðstöðvar bílgreina í Borgarholtsskóla. Fræðslumiðstöðin verður rekin sameiginlega af menntamálaráðuneyti og fulltrúum samtaka atvinnurekenda og launþega í bílgreinum og er fyrsta tilraunin um rekstur starfsmenntaskóla í samvinnu hins opinbera og aðila atvinnulífs. Ætlunin er að þar fari fram bæði grunn- og endurmenntun á sviði bílgreina auk þess sem til stendur að bjóða styttra nám í stoðgreinum bílgreina svo sem vinnu á dekkjaverkstæði, smurningsvinnu o.fl.

Um 43. gr.


    Greinin er samhljóða 39. gr. gildandi laga, nema kveðið er á um hvernig skuli verja hagnaði sem fæst af leigu skólahúsnæðis og heimavista. Það ákvæði er efnislega samhljóða 3. mgr. 33. gr. gildandi laga.

Um 44. gr.


    Rétt þykir að gera ráð fyrir að skólar geti borið fram óskir um að gera tilraunir með nýjungar í skólastarfi sem verði að víkja frá ákvæðum laga og reglugerða. Með ákvæðum greinar þessarar er menntamálaráðherra veitt heimild til að veita slíkar undanþágur en jafnframt sett takmörk varðandi tímalengd og kveðið á um að ávallt skuli fara fram úttekt á slíkum tilraunum að þeim loknum.

Um 45. gr.


    Grein þessi er nýmæli og gerir ráð fyrir að stofnaður verði sérstakur Þróunarsjóður framhaldsskóla og að sjóðurinn heyri undir menntamálaráðherra. Sjóði þessum er ætlað að hvetja til þróunarstarfs í skólum og á sviði fullorðinsfræðslu og standa undir kostnaði sem af hlýst. Nýbreytnistarf er mikilvægur þáttur í starfi skólanna og mikilvægt að skólum sem sýna frumkvæði og vilja til að þróa nýjungar í skólastarfi verði gert það kleift. Til að sjóðurinn nýtist sem best þarf að setja úthlutunarreglur þar sem tilgreind eru skilyrði sem skólar þurfa að uppfylla til að geta fengið úthlutað úr sjóðnum.

Um 46. gr.


    Grein þessi er nýmæli og gerir ráð fyrir að menntamálaráðherra geri Alþingi grein fyrir framkvæmd skólastarfs á framhaldsskólastigi á þriggja ára fresti. Mikilvægt er talið að Alþingi fylgist með reglubundnum hætti með framkvæmd skólastarfs í grunn- og framhaldsskólum. Forsenda fyrir slíkri umfjöllun er að fyrir liggi ítarlegar upplýsingar um framkvæmd skólastarfs og árangur af því. Gert er ráð fyrir að það verði hluti af eftirlitsskyldu menntamálaráðuneytis að afla reglulega upplýsinga úr skólum og standa fyrir því að gerðar verði rannsóknir og úttektir á tilteknum þáttum skólastarfs.

Um 47. gr.


    Kveðið er á um að lögin taki gildi skólaárið 1996–97. Þörf er á nokkrum aðlögunartíma áður en ýmis ákvæði laganna, svo sem um samræmd lokapróf og starfsnám, geta komið að fullu til framkvæmda. Gert er ráð fyrir að þau komi ekki að fullu til framkvæmda fyrr en skólaárið 2000–2001, sbr. bráðabirgðaákvæði.

Um 48. gr.


    Við gildistöku laganna falla brott gildandi lög um framhaldsskóla, nr. 57/1988, ásamt áorðnum breytingum á þeim með lögum nr. 107/1988, nr. 72/1989 og nr. 81/1993, lög um fiskvinnsluskóla, nr. 55/1971, með áorðnum breytingum, og lög um almenna fullorðinsfræðslu, nr. 47/1992.

Um ákvæði til bráðabirgða I.


    Óhjákvæmilegt þykir að veita skólum aðlögunartíma að samræmdum lokaprófum þar sem kennsla nemenda frá byrjun skólagöngu hlýtur að taka mið af slíkri samræmingu. Er því miðað við að ákvæði 24. gr. verði ekki komið að fullu til framkvæmda fyrr en skólaárið 2000–2001.

Um ákvæði til bráðabirgða II.


    Ljóst þykir að nokkur tími muni líða þar til tekist hefur að koma ákvæðum 25.–32. gr. um breytt fyrirkomulag starfsnáms í framhaldsskólum til fullra framkvæmda. Gert er ráð fyrir að menntamálaráðherra leggi fram framkvæmdaáætlun þar um sem unnin verði í samráði við samstarfsnefnd um starfsnám á framhaldsskólastigi, sbr. 26. gr. Þannig verði skilgreind ákveðin skref í þeirri þróun að auka aðild fulltrúa vinnumarkaðar að skipulagningu starfsnáms í framhaldsskólum. Breytingin mun væntanlega verða einföldust á sviði löggiltra iðngreina og ganga fyrst í gegn þar. Í flestum öðrum greinum er í núverandi skipulagi ekki um að ræða formlega aðild að skipulagningu starfsnáms og því er um verulega breytingu að ræða sem verður að framkvæma í ákveðnum þrepum og í samræmi við áætlanir um forgangsverkefni á sviði starfsnáms í framhaldsskólum. Gert er ráð fyrir að sérstök úttekt verði gerð á framkvæmd starfsnáms samkvæmt nýju skipulagi innan fjögurra ára frá því að það hefur komist til fullra framkvæmda.

Um ákvæði til bráðabirgða III.


    Loks er bráðabirgðaákvæði um að sú heimild í gildandi lögum að iðnaðarmenn er unnið hafa við iðnina í 10 ár geti sótt um að gangast undir verklegt próf án skólanáms gildi aðeins í fjögur ár frá gildistöku laga þessara.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um framhaldsskóla.


    Frumvarpið var upphaflega samið af nefnd um mótun menntastefnu sem menntamálaráðherra skipaði á árinu 1992 og var lagt fram til kynningar á 117. löggjafarþingi 1993–1994. Í kjölfar umræðna voru gerðar nokkrar breytingar á frumvarpinu og það lagt fram á 118. löggjafarþingi 1994–1995 en hlaut ekki afgreiðslu. Frumvarpið hefur nú verið endurskoðað og gerðar á því nokkrar breytingar. Hér á eftir er reynt að meta áhrif frumvarpsins á kostnað við framhaldsskóla umfram forsendur fjárlagafrumvarps 1996.
    Í frumvarpinu og athugasemdum við það er lítið fjallað um fjárhagslegar forsendur fyrir ýmsum breytingum sem lagðar eru til eða hugsanleg áhrif á nemendafjölda o.fl. Óvissuþættir eru því margir og hefur fjármálaráðuneytið, í samráði við menntamálaráðuneyti, í mörgum tilfellum gefið sér forsendur til að geta metið kostnaðaráhrif. Í umsögninni er fyrst yfirlit þar sem tíundaðir eru þættir sem talið er að muni hafa áhrif á útgjöld. Því næst eru nánari skýringar á þeim kostnaðarþáttum sem nefndir eru í yfirlitinu.

Yfirlit.
    Í frumvarpi þessu eru margir þættir sem kunna að hafa veruleg áhrif á kostnað. Ekki eru þeir allir metnir í fjárhæðum en reynt er að draga fram það sem mun leiða til breytinga á útgjöldum. Talnalegt mat miðast við kostnað á ársgrundvelli þegar viðkomandi ákvæði er að fullu komið til framkvæmda. Kostnaðarauki ríkissjóðs vegna þeirra þátta í rekstri framhaldsskóla sem lagt hefur verið talnalegt mat á í umsögn þessari er talinn nema að lágmarki um 215 m.kr. en getur orðið allt að 340 m.kr. Það nemur 5–7,5% af heildarrekstrarfjárveitingu til framhaldsskóla í frumvarpi til fjárlaga 1996. Ekki var lagt talnalegt mat á viðhalds- og stofnkostnað. Lögð er rík áhersla á að kostnaðaráhrifin geta orðið mun víðtækari en þessar tölur segja til um þar sem ógerlegt er að meta allar breytingar til fjárhæða og margar forsendur sem liggja til grundvallar áætlun um útgjaldaauka geta verið umdeilanlegar. Matið byggist á þeim atriðum sem talin eru upp hér á eftir og skýrð nánar í texta, svo og öðrum smærri þáttum sem ekki eru tilgreind hér.
    Starfstími framhaldsskóla. Gert er ráð fyrir að starfstími nemenda verði eigi skemmri en níu mánuðir og kennsludagar að lágmarki 150 á ári. Samkvæmt kjarasamningi við kennarasamtökin sem gerður var vorið 1995 skulu kennslu- og prófdagar vera 175 á ári og hefur verið tekið tillit til aukins kostnaðar vegna fjölgunar kennsludaga í frumvarpi til fjárlaga 1996.
    Breytt námsskipan. Áætlaður útgjaldaauki er 140–195 m.kr. en þar er um að ræða aukinn kostnað vegna fornáms og almennrar námsbrautar.
    Þjónusta við fatlaða. Gert er ráð fyrir að kostnaðarauki verði 40–80 m.kr. vegna aukinnar þjónustu við fatlaða með stofnun sérdeilda innan framhaldsskólanna.
    Sérstök íslenskukennsla. Kostnaður við sérstaka íslenskukennslu nemenda sem eiga annað móðurmál en íslensku, hafa dvalið langdvölum erlendis eða eru heyrnarlausir getur orðið nokkur.
    Aðalnámskrá. Aðalnámskrá er meginviðmiðun skólastarfsins og er með henni unnt að hafa veruleg áhrif á rekstrarútgjöld framhaldsskóla. Samning aðalnámskrár veldur tímabundnum kostnaði meðan að því verki er unnið. Að auki skal hver skóli gefa út skólanámskrá en það kallar á einhvern aukinn kostnað.
    Mat á skólastarfi. Samkvæmt frumvarpinu skal sérhver framhaldsskóli taka upp aðferðir til að meta skólastarfið. Á fimm ára fresti skal fara fram mat á sjálfsmatsaðferðum einstakra skóla af utanaðkomandi aðila. Einnig skulu lokapróf vera samræmd í tilteknum greinum. Aukinn kostnaður við mat á skólum og skólastarfi er talinn geta orðið 20–40 m.kr.
    Starfsnám. Í frumvarpinu er lögð aukin áhersla á starfsnám en kennsla nemenda í starfsnámi er að jafnaði um 50% dýrari en kennsla nemenda í bóknámi. Fjölgun nemenda í starfsnámi mun auka kostnað en á móti kemur að gert er ráð fyrir að starfsnámsbrautir verði almennt styttri en nú er.
    Öldungadeildir og endurmenntun. Aukin áhersla á starfsnám getur aukið kostnað við öldungadeildir.
    Stofnun og bygging framhaldsskóla. Fellt er niður ákvæði um að ríkissjóður greiði að fullu byggingu heimavista og sparar það fyrirsjáanlega kostnað.
    Stjórnun og starfslið. Aukið hlutverk skólanefnda gæti aukið kostnað eitthvað. Skylda til að veita námsráðgjöf getur haft í för með sér 15–25 m.kr. kostnaðarauka að því gefnu að námsráðgjöfin aukist um 30–50%. Aukin námsráðgjöf gæti lækkað kennslukostnað eitthvað.
    Þróunarstarf. Telja má víst að þróunar- og uppbyggingarstarf o.fl. muni leiða til aukins kostnaðar, a.m.k. í upphafi.
    Einkaskólar og sumarskóli. Gert er ráð fyrir möguleika til að reka sumarskóla en þar sem ekki liggur fyrir með hvaða hætti rekstri hans yrði hagað er ekki unnt að meta kostnað. Breytt ákvæði um framhaldsskóla sem reknir eru af einkaaðilum og samtökum eru ekki talin hafa áhrif á kostnað.

1. Starfstími framhaldsskóla.
    Í 3. gr. frumvarpsins er kveðið á um að starfstími nemenda í framhaldsskólum skuli eigi vera skemmri en 9 mánuðir og að kennsludagar skuli ekki vera færri en 150. Þetta er efnislega samhljóða núgildandi lögum að því frátöldu að kveðið er á um lágmarksfjölda kennsludaga. Til skamms tíma var miðað við 34 vikna starfstíma skóla í kjarasamningum kennara en í reynd hafa kennsluvikur yfirleitt verið 26 til 28. Í kjarasamningi sem gerður var við kennara vorið 1995 var samið um 175 kennslu- og prófadaga á ári. Í frumvarpi til fjárlaga 1996 er kennslukostnaður miðaður við þann dagafjölda.

2. Breytt námsskipan.
    Gert er ráð fyrir að námsbrautir framhaldsskólans verði almenn braut, listnámsbrautir, bóknámsbrautir og starfsnámsbrautir. Að auki skal boðið upp á fornám fyrir þá sem ekki hafa náð tilskildum árangri við lok grunnskóla. Mjög erfitt er að áætla breytingar á núverandi kostnaði nema með því að gefa sér forsendur um hvernig nemendur úr grunnskóla skiptast á brautir framhaldsskóla. Gera má ráð fyrir að um 10–15% nemenda fari í fornám áður en þeir hefja nám á námsbrautum framhaldsskóla. Miðað við reynslu undanfarinna ára má ætla að um 50% nemenda fari í bóknám, hlutfall verknámsnemenda verði óbreytt eða um 30% og um 20% fari fyrst á almenna braut. Ekki liggur fyrir mat á fjölda sem færi í listnám en talið er að hópurinn verði ekki stór í upphafi. Þeir sem færu á almenna braut munu ljúka námi með prófi eða færa sig að prófi loknu yfir á aðrar brautir og er gert ráð fyrir að flestir haldi áfram.
    Áætla má að kostnaður aukist um 90–135 m.kr. vegna fornáms. Er þá miðað við að 400–600 nemendur fari í fornám á hverju ári, meðalfjöldi í hóp sé 12 miðað við að námið fari fram í flestöllum skólum, kostnaður á hóp verði að meðaltali um 3,6 m.kr. og að niður falli fornám og 0-áfangar sem boðið hefur verið upp á og er talið að kosti um 30–35 m.kr.
    Áætla má að kostnaðarauki vegna almennrar brautar geti orðið 50–60 m.kr. Er þá miðað við að nemendur verði 700–800 og komi að hluta til af öðrum námsbrautum, meðalfjöldi í hóp verði 15–18 enda sé námið boðið víða, kennslan verði að mestu bókleg, meðalnámstími verði eitt misseri og meðalfjöldi í hóp á öðrum námsbrautum lækki lítillega.
    Ekki eru áætlaðar breytingar á kostnaði vegna bóknámsbrauta og talið að kostnaðarauki vegna listnámsbrautar verði óverulegur í upphafi. Ekki er lagt mat á hugsanlegan kostnaðarauka vegna starfsnáms en ef nemendum í starfsnámi fjölgar eins og stefnt er að, eykst bæði rekstrarkostnaður og stofnkostnaður. Að auki er líklegt að fjölbreyttara námsframboð og aukinn stuðningur við nemendur hækki hlutfall þeirra sem fara í framhaldsskóla en það er nú um 85%. Á Norðurlöndunum er hlutfallið 86–93%. Þegar á heildina er litið er því áætlað að útgjaldaauki vegna breyttrar námsskipunar verði 140–195 m.kr. miðað við framangreindar forsendur. Í 16. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir verulegri fækkun bóknámsbrauta, eða úr þrettán í þrjár. Þá verður stofnun nýrra námsbrauta háð samþykki menntamálaráðuneytis og er gert ráð fyrir aukinni verkaskiptingu og sérhæfingu framhaldsskóla. Þetta getur lækkað kennslukostnað en ógerningur er að leggja tölulegt mat á sparnað.

3. Þjónusta við fatlaða.
    Kveðið er á um þjónustu við fatlaða nemendur með svipuðum hætti og gert er í núgildandi lögum með einni undantekningu. Í stað þess að heimilt sé að stofna sérskóla fyrir þroskahefta nemendur er miðað við að menntamálaráðherra geti heimilað stofnun sérstakra deilda við framhaldsskóla fyrir fatlaða nemendur. Kostnaður við slíkar deildir getur verið verulegur og stafar hann af breytingum sem þarf að gera á húsnæði, smæð námshópa og mikilli þörf fyrir aðstoð. Kostnaðarauki getur verið mismikill eftir því hvort um er að ræða líkamlega eða andlega fatlaða nemendur. Um 75 m.kr. er veitt til sérkennslu og ýmiss konar þjónustu við fatlaða í framhaldsskólunum samkvæmt fjárlagafrumvarpi 1996. Talin er mikil þörf fyrir aukna þjónustu við fatlaða og má gera ráð fyrir að fötluðum nemendum fjölgi verði þjónusta framhaldsskóla við þá aukin. Hér er áætlað að rekstrarkostnaður vegna þessara nemenda aukist á næstu árum um 50–100%, eða um 40–80 m.kr. Ekki er lagt mat á aukinn stofnkostnað en víða þarf að gera endurbætur á húsnæði til að bæta aðgengi fatlaðra.

4. Sérstök íslenskukennsla.
    Í 20. gr. er kveðið á um rétt nemenda til sérstakrar kennslu í íslensku, sé móðurmál þeirra annað en íslenska, hafi þeir dvalið langdvölum erlendis eða séu heyrnarlausir. Samkvæmt greininni getur menntamálaráðherra heimilað að stofnað verði til sérstaks grunnnáms í íslensku við framhaldsskóla fyrir nemendur sem hafa annað móðurmál en íslensku. Ekki liggja fyrir upplýsingar um fjölda þeirra sem hafa dvalið langdvölum erlendis eða eru heyrnarlausir og þyrftu á sérstakri íslenskukennslu að halda. Þar sem óljóst er hve margir nemendur verða og hvernig staðið yrði að slíkri kennslu er ekki lagt mat á áhrif á kostnað. Útgjaldaauki gæti hins vegar orðið nokkur, sérstaklega ef kennslan fer fram í mörgum skólum og fámennum námshópum.

5. Aðalnámskrá.
    Aðalnámskrá er meginviðmiðun skólastarfsins. Þar er kveðið á um uppbyggingu námsbrauta, lágmarksfjölda vikulegra kennslustunda, inntak námsgreina, meðallengd námstíma á hverri braut, námsmat og kröfur um námsárangur o.s.frv. Með aðalnámskrá er því unnt að hafa veruleg áhrif á kostnað. Ekki liggja fyrir drög að henni og því er hér gert ráð fyrir að hún auki ekki kostnað frá því sem gert er ráð fyrir í frumvarpi til fjárlaga 1996.
    Ákvæði um rekstrarkostnað eru hliðstæð og í gildandi lögum með nokkrum undantekningum. Samkvæmt gildandi lögum skal miða fjárveitingar við grunntölu kennslustunda á nemanda í bóknámi að viðbættum þeim stundafjölda sem talin er þörf á vegna verknáms, sérnáms og sérstakra aðstæðna. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sett verði reglugerð um útreikning á kennslukostnaði skóla sem miðist við fjölda nemenda, lengd og tegund náms, fjölda kennslustunda á viku samkvæmt aðalnámskrá o.fl. Ekki er gert ráð fyrir að þessi lagabreyting leiði til aukins kostnaðar framhaldsskóla. Rétt er að vekja athygli á að upplýsingar um nemendafjölda í framhaldsskólum, sérstaklega áfangaskólum, eru ekki ætíð nægilega traustar til þess að unnt sé að ákveða fjárveitingar á grundvelli þeirra einna. Hluti nemenda hverfur frá námi þegar líður á skólaárið auk þess sem tímasókn þeirra er mismikil eftir því hvaða nám þeir stunda eða hvar þeir eru staddir í námi. Breytt lagaákvæði getur auðveldað að taka tillit til þessa.
    Hver skóli skal gefa út skólanámskrá skv. 22. gr., en það er nýlunda. Þar skal gera grein fyrir námsframboði, lengd og innihaldi námsáfanga o.fl. Skólanámskrá byggist á aðalnámskrá, lögum og reglugerðum um framhaldsskóla og hefur því ekki bein áhrif á rekstrarútgjöld skólans. Nú þegar er lögð töluverð vinna í gerð námsvísa skólanna, en gera má ráð fyrir að útgjöld munu aukast tímabundið vegna samningu á námskrá skóla.

6. Mat á skólastarfi.
    Í 23. gr. er fjallað um mat á skólastarfi og er það tvíþætt. Annars vegar er gert ráð fyrir að skólar taki upp kerfisbundið sjálfsmat til að bæta árangur skólastarfsins. Ætla má að þetta kalli á aukna vinnu í skólum í upphafi en á móti ætti það aðhald sem slíkt mat hefur í för með sér að leiða til hagræðingar þegar litið er til lengri tíma. Hins vegar er kveðið á um að á fimm ára fresti skal utanaðkomandi aðili gera úttekt á sjálfsmatsaðferðum skóla. Gera má ráð fyrir að þetta geti kostað allt að 1 m.kr. fyrir hvern skóla og að u.þ.b. 8–10 skólar yrðu metnir á ári. Kostnaðarauki við mat á skólum yrði þá um 10–20 m.kr.
    Samkvæmt frumvarpinu verða tekin upp samræmd próf á framhaldsskólastigi, en ekki er ljóst í hve mörgum greinum. Kostnaður við hvert samræmt próf í grunnskólum er um 4 m.kr. Ætla má að kostnaður fyrir hvert samræmt próf á framhaldsskólastigi verði 3–5 m.kr. Ef prófað verður í 3–4 kjarnagreinum í framhaldsskólum er kostnaðaraukinn 10–20 m.kr. Einnig er hugsanlegt að tekin verði upp einfaldari samræmd próf á einstökum brautum.

7. Starfsnám.
    Í frumvarpinu er lögð áhersla á að auka og efla starfsnám. Gert er ráð fyrir að aðilar vinnumarkaðarins hafi áhrif á uppbyggingu námsins með þátttöku í samstarfsnefnd um starfsnám og starfsgreinaráðum. Við setningu námskrár verði tekið mið af umfjöllun og tillögum samstarfsnefndar og starfsgreinaráða. Gert er ráð fyrir að starfsnámsbrautir verði almennt styttri en nú er en á móti er ætlunin að byggja upp nýjar brautir og aðlaga það nám sem fyrir er breyttum aðstæðum. Útilokað er að meta kostnað vegna þessara breytinga fyrr en drög að námskrá liggja fyrir og ljóst hvernig starfsnám mun breytast. Gera má ráð fyrir einhverjum kostnaðarauka vegna nýrra nefnda.
    
8. Öldungadeildir og endurmenntun.
    Samkvæmt frumvarpinu getur menntamálaráðherra heimilað framhaldsskóla að bjóða nám í öldungadeildum. Í gildandi lögum segir að bjóða skuli nám hliðstætt því sem er á námsbrautum skólans en í frumvarpinu er kveðið á um að nám í öldungadeildum skuli vera jafngilt námi á einstökum námsleiðum framhaldsskólans. Meðal annars er ætlunin að leggja meiri áherslu á uppbyggingu starfsnámsbrauta í öldungadeildum. Þetta getur haft kostnaðarauka í för með sér en ekki er hér lagt mat á hve mikill hann gæti orðið. Ákvæði um kostnaðarþátttöku öldungadeildanema er óbreytt, þ.e. að nemandi greiðir sem næst þriðjungi kennslulauna auk efniskostnaðar og kennslugagna.
    Ákvæðum um kostnað vegna endurmenntunarnámskeiða er einnig breytt til samræmis við framkvæmdina eins og hún er, en gert er ráð fyrir að allur kostnaður vegna endurmenntunarnámskeiða sé annaðhvort greiddur af þeim sem standa með skólanum að slíkum námskeiðum eða með þátttökugjöldum. Samkvæmt gildandi lögum miðast námsgjöld við að nemendur greiði að minnsta kosti þriðjung kostnaðar og er kostnaðaraðild ríkissjóðs háð samþykki menntamálaráðherra.

9. Stofnun og bygging framhaldsskóla.
    Ákvæði um stofnun og byggingu framhaldsskóla eru hliðstæð og í gildandi lögum en fellt er niður ákvæði 6. mgr. 3. gr. núgildandi laga þar sem vísað er í lög nr. 49/1967, um skólakostnað, enda eru þau lög úr gildi fallin. Í stað þess er gert ráð fyrir að menntamálaráðherra hafi samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga um málsmeðferð varðandi undirbúning framkvæmda. Í 37. gr. frumvarpsins segir að til stofnkostnaðar framhaldsskóla skuli telja byggingarframkvæmdir, aðrar framkvæmdir á lóð og stofnbúnað framhaldsskóla. Kveðið er skýrt á um að sveitarfélög skuli leggja til lóðir undir framhaldsskóla án kvaða eða gjalda.
    Fellt er niður ákvæði um að ríkissjóður greiði að fullu byggingu heimavistar en þess í stað er gert ráð fyrir að ríkissjóður greiði 60% og sveitarfélög 40%. Þetta sparar ríkissjóði útgjöld, enda leiði það ekki til aukins áhuga sveitarfélaga á byggingu heimavista. Að auki er í 34. gr. frumvarpsins kveðið á um skólasöfn en þar er sagt að í tengslum við húsnæði skuli vera lesaðstaða. Ekki liggur fyrir úttekt á kostnaði við að uppfylla þetta ákvæði, en það er talið kalla á verulegan kostnað þar sem lesaðstöðu er ábótavant í mjög mörgum skólum.

10. Stjórnun og starfslið.
    Fækkað er í skólanefndum framhaldsskóla um tvo fulltrúa en á móti er þeim ætlað víðtækara hlutverk. Á móti er gert ráð fyrir tveimur áheyrnarfulltrúum og má ætla að farið verði fram á greiðslur vegna fundasetu þeirra. Kostnaður gæti aukist af þessum sökum.
    Í 13. gr., sem fjallar um heilsuvernd, er gerð sú breyting að í stað þess að heimilt sé að fela heilsugæslustöð að annast heilsuvernd í skólanum, verður slíkt skylt. Kostnaður skóla vegna heilsugæslu er ekki mikill og er ætlað að kostnaðaráhrif vegna þessarar breytingar verði hverfandi.
    Í frumvarpinu er kveðið á um rétt nemenda til námsráðgjafar og má ætla að það auki eftirspurn eftir ráðgjöfinni. Ekki liggja fyrir upplýsingar um núverandi kostnað framhaldsskóla vegna námsráðgjafar, þar sem henni er iðulega sinnt af kennurum gegn lækkun kennsluskyldu. Talið er að þessi kostnaður nemi um 50 m.kr. á ári. Ef miðað er við 30–50% aukningu ráðgjafar er kostnaðaraukinn 15–25 m.kr. Aukin námsráðgjöf getur leitt til þess að nemendur velji sér nám við hæfi, þeir þurfi síður að endurtaka námsáfanga og kennslukostnaður lækki af þeim sökum.
    Að lokum er rétt að benda á að jafnvíðtækar skipulagsbreytingar og hér eru boðaðar hafa í för með sér mikla vinnu við þróun og frekari útfærslu. Sú vinna yrði mest í upphafi en minnkaði síðan þar til breytt fyrirkomulag hefði að fullu verið tekið upp. Í 4. gr. er að auki gert ráð fyrir víðtækara hlutverki menntamálaráðuneytis varðandi eftirlit, ráðgjöf um kennslu- og þróunarstörf o.fl. og má ætla að það leiði til útgjaldaauka.

11. Þróunarstarf.
    Í 31. gr. er kveðið á um að menntamálaráðherra geti gert deild eða skóla að kjarnaskóla sem þróar námsefni, námsskipan og kennsluaðferðir. Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að skólar sem veita menntun á sama sviði og kjarnaskóli eiga að geta leitað til hans um leiðsögn og ráðgjöf þannig að kjarnaskóli verði þróunar- og þjónustustofnun fyrir allt landið. Skóli sem valinn verður sem kjarnaskóli þarf því væntanlega viðbótarframlag til að annast verkefni sem því fylgja. Hugsanlegur kostnaður fer eftir því hvernig þetta verður framkvæmt og í hve miklum mæli. Á móti kostnaðarauka má ætla að þetta hafi í för með sér sparnað þegar til lengri tíma er litið þar sem sérhæfing skóla eykst og uppbygging náms yrði markvissari.
    Samkvæmt frumvarpinu getur menntamálaráðherra veitt framhaldsskólum heimild til að gera tilraunir með ákveðna þætti skólastarfs með undanþágu frá ákvæðum laga og reglugerða um framhaldsskóla. Ekki er hægt að meta kostnað vegna þessa.
    Í 45. gr. er kveðið á um að stofna skuli Þróunarsjóð framhaldsskóla. Fjárveiting til sjóðsins er ákveðin í fjárlögum hverju sinni. Þetta þarf ekki að leiða til kostnaðarauka því á móti falla niður ýmsar fjárveitingar á fjárlagalið 319 Framhaldsskólar, almennt, eins og t.d. Nýjungar í skólastarfi en framlag til verkefnisins er 15,8 m.kr. í frumvarpi til fjárlaga 1996.

12. Einkaskólar og sumarskóli.
    Sérstök lagaákvæði um Verslunarskóla Íslands og Samvinnuskóla eru felld út, en í þeirra stað gerir frumvarpið ráð fyrir almennum ákvæðum um skóla sem reknir eru af einkaaðilum eða samtökum. Ekki er gert ráð fyrir að kostnaður ríkisins aukist af þessum sökum. Við bætist nýtt ákvæði um að samtök atvinnurekenda og launþega geti gerst aðilar að stofnun og rekstri framhaldsskóla eða hluta hans. Kostnaðaráhrif þessa eru óljós en ætti að geta leitt til sparnaðar og nánari tengsla við atvinnulífið.
    Samkvæmt 3. gr. er gert ráð fyrir að árlegur starfstími nemenda geti verið lengri en níu mánuðir. Þetta opnar möguleika á rekstri sumarskóla. Þar sem ekkert liggur fyrir um rekstur slíks skóla, er ekki unnt að meta kostnað við hann.
Neðanmálsgrein: 1
1      Jón Torfi Jónasson (1992): Námsferill í framhaldsskóla. Helstu niðurstöður. Félagsvísindastofnun. Töflur 4.1 og 4.3.
Neðanmálsgrein: 2
2      Menntamálaráðuneytið/OECD (1987): Menntamálanefnd: Skýrsla um menntastefnu á Íslandi. Efnahags- og framfarastofnunin, bls. 21.
Neðanmálsgrein: 3
3      Menntamálaráðuneytið/OECD (1987): bls. 21.
Neðanmálsgrein: 4
4      Menntamálaráðuneytið/OECD (1987): bls. 40.
Neðanmálsgrein: 5
5      Menntamálaráðuneytið/OECD (1987): bls. 22.
Neðanmálsgrein: 6
6      Menntamálaráðuneytið/OECD (1987): bls. 21–22.
Neðanmálsgrein: 7
7      Jón Torfi Jónasson (1992): Vöxtur menntunar á Íslandi og tengsl hennar við atvinnulíf. Menntun og atvinnulíf. Sammennt og Félagsvísindastofnun, bls. 59.
Neðanmálsgrein: 8
8      Í fyrri gerð frumvarpsins var hér mynd af skipulagi skólakerfisins sem felld hefur verið brott.
Neðanmálsgrein: 9
9      Samkvæmt námsferilsskýrslunni hafði um 35% af árgangnum lokið stúdentsprófi við 22 ára aldur, en einungis 8% höfðu lokið iðnnámi eða öðru starfsnámi. Jón Torfi Jónasson (1992).
Neðanmálsgrein: 10
10      Sbr. 34.–36. gr. í lögum nr. 668/1992 um starfsmenntun í Danmörku (Lov om erhvervsuddannelser) og 54.–56. gr. í þýsku starfs-
    menntalögunum (Berufsbildungsgesetz) frá 14. ágúst 1969 (með áorðnum breytingum).
Neðanmálsgrein: 11
11     Þetta er t.d. í samræmi við það sem tíðkast um kostnað af störfum „Erhvervsuddannelserådet“ í Danmörku, þar sem lögð er áhersla á að áhrifum á stefnu og framkvæmd fylgi einnig fjárhagsleg ábyrgð.
Neðanmálsgrein: 12
12     Æskilegt er að hver starfsgrein hafi auk þessa sérstaka fagnefnd eða fræðsluhóp sem vinnur að menntunarmálum greinarinnar og verði starfsgreinaráði til fulltingis.
Neðanmálsgrein: 13
13      Hér má nefna Prenttæknistofnun, Rafiðnaðarskólann, fræðsluráð málmiðnaðarins, fræðsluráð byggingargreina og eftirmenntun bílgreina.