Ferill 102. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 102 . mál.


107. Frumvarp til laga



um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995.)



1. gr.

    Lög þessi taka til eftirtalinna starfsheita:
    verkfræðinga,
    tæknifræðinga,
    arkitekta (húsameistara),
    byggingafræðinga,
    húsgagna- og innanhússhönnuða,
    iðnfræðinga,
    landslagshönnuða og
    skipulagsfræðinga.
    

2. gr.

    Rétt til að nota starfsheiti þau sem lög þessi taka til eða orð sem fela í sér þau heiti hafa þeir menn einir sem fengið hafa til þess leyfi ráðherra, sbr. 3. gr., eða þeir sem fengið hafa staðfestingu ráðherra á leyfi til að bera samsvarandi starfsheiti sem veitt hefur verið í ríki sem er aðili að samningi um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. 4. gr.
    

3. gr.

    Engum má veita leyfi það er um ræðir í 2. gr. nema hann hafi lokið fullnaðarprófi í viðkomandi starfsgrein.
    Fagfélög þeirra starfsgreina sem lög þessi taka til skulu setja sér reglur um hvaða nám teljist leiða til fullnaðarprófs í viðkomandi starfsgrein. Þær reglur skulu taka gildi þegar þær hafa verið staðfestar af ráðherra og birtar í Stjórnartíðindum. Rétt til að öðlast leyfi hafa þeir sem lokið hafa námi samkvæmt greindum reglum að mati ráðherra að fenginni umsögn viðkomandi fagfélags.
    

4. gr.

    Ráðherra skal staðfesta leyfi til að bera starfsheiti sem lög þessi taka til samkvæmt umsókn ríkisborgara frá ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins ef viðkomandi leggur fram vottorð frá ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins sem uppfyllir skilyrði:
    tilskipunar 85/384/EBE ef um arkitekt er að ræða.
    tilskipunar 89/48/EBE ef um aðrar starfsstéttir er að ræða.
    

5. gr.

    Ráðherra sker úr ágreiningi sem rísa kann um notkun starfsheita.
    

6. gr.

    Ráðherra skal halda skrá um þá sem fengið hafa leyfi til að bera starfsheiti samkvæmt lögum þessum.
    

7. gr.

    Ráðherra skal með reglugerð setja nánari ákvæði um rétt manna til að bera starfsheiti samkvæmt lögum þessum.
    

8. gr.

    Brot gegn lögum þessum varða sektum.
    

9. gr.

    EES-gerðir sem vísað er til í lögum þessum eru birtar í sérritinu EES-gerðir, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 31/1993, nr. S 34 á bls. 1–8 og bls. 125–140.
    

10. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 62 5. september 1986, um rétt manna til að kalla sig verkfræðinga, húsameistara, landslagshönnuði, húsgagna- og innanhússhönnuði, tæknifræðinga eða byggingafræðinga, og lög nr. 46 11. maí 1982, um rétt manna til að kalla sig iðnfræðinga.
    

Ákvæði til bráðabirgða.


    Ákvæði laga þessara breyta ekki rétti þeim sem menn hafa öðlast til að nota starfsheiti þau sem lög þessi taka til fyrir gildistöku laga þessara.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I.


    Hinn 3. maí 1994 skipaði iðnaðarráðherra starfshóp vegna breytinga sem nauðsynlegar eru á lögum nr. 62/1986, um rétt manna til að kalla sig verkfræðinga, húsameistara, landslagshönnuði, húsgagna- og innanhússhönnuði, tæknifræðinga eða byggingafræðinga.
    Í starfshópinn voru skipuð Gunnar Viðar, lögfræðingur í iðnaðarráðuneytinu, sem jafnframt var formaður hópsins, Hörður Lárusson, deildarstjóri í menntamálaráðuneytinu, Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, deildarstjóri í umhverfisráðuneytinu, og Vífill Oddsson verkfræðingur. Jafnframt tóku Jakob Líndal arkitekt, Páll Á. Jónsson tæknifræðingur og Guðleifur M. Kristmundsson verkfræðingur þátt í störfum starfshópsins og sátu nokkra fundi hans.
    Starfshópurinn skilaði drögum að frumvarpi hinn 22. nóvember 1994.
    Frumvarpið var lagt fyrir Alþingi á 118. löggjafarþingi 1994 en varð eigi útrætt. Það er nú lagt fram með þeirri einu breytingu að 2. mgr. 4. gr. frumvarpsins er felld niður, sbr. athugasemdir við 4. gr. hér á eftir.
    

II.


    Frumvarpi því sem hér er lagt fram er ætlað að koma í stað laga nr. 62/1986, um rétt manna til að kalla sig verkfræðinga, húsameistara, landslagshönnuði, húsgagna- og innanhússhönnuði, tæknifræðinga eða byggingafræðinga, og laga nr. 46 11. maí 1982, um rétt manna til að kalla sig iðnfræðinga, en þessi tvenn lög fjalla um starfsheiti sem falla undir svið iðnaðarráðuneytisins. Núgildandi lög um þau starfsheiti hafa verið í stöðugri þróun frá 1937 þegar lög nr. 24/1937, um rétt manna til að kalla sig verkfræðinga, húsameistara eða iðnfræðinga, voru sett. Þeim lögum var breytt 1963 með lögum nr. 44/1963. Sú breyting fólst í því að í stað starfsheitisins iðnfræðingur var starfsheitið tæknifræðingur tekið upp. Lögunum var aftur breytt 1968, sbr. lög nr. 73/1968, og starfsheitið byggingafræðingur tekið upp. Það starfsheiti hafði fallið undir starfsheitið iðnfræðingur en var ekki talið falla undir starfsheitið tæknifræðingur. Lögunum var enn breytt 1986 og 1989 og upp voru tekin starfsheitin húsgagna- og innahússhönnuður og landslagshönnuður, sbr. lög nr. 62/1986 og lög nr. 44/1989. Sérlög voru sett 1982 um starfsheitið iðnfræðingur og skyldi það starfsheiti koma í stað starfsheitisins iðntæknir sem ekki hafði verið lögverndað, sbr. lög nr. 46/1982.
    Ástæða þess að ráðuneytið telur þörf á nýjum lögum um starfsheiti þau sem undir það falla er margþætt. Í fyrsta lagi hefur borist ósk frá Félagi skipulagsfræðinga um að starfsheitið skipulagsfræðingur verði lögverndað. Í öðru lagi óskuðu samtök verkfræðinga, tæknifræðinga og arkitekta eftir endurskoðun á lögum nr. 62/1986, aðallega vegna þess mikla kostnaðar sem féll á einstaklinga sem þurftu að sækja um leyfi til að bera starfsheitin verkfræðingur, tæknifræðingur og arkitekt skv. 10. gr. laga nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, eins og hún hljóðaði fyrir breytingu með 1. gr. laga nr. 50/1994. Þótti sá kostnaður óeðlilegur í ljósi þess að ekki er um starfsréttindi að ræða heldur eingöngu rétt til að bera ákveðið starfsheiti. Í þriðja lagi hefur ríkt ágreiningur um það hver hafi endanlegt úrskurðarvald um það hverjir hafi rétt samkvæmt núgildandi lögum til að bera ákveðin starfsheiti. Síðast en ekki síst hafa tvær tilskipanir ESB áhrif á þær reglur sem nú eru í gildi og gera breytingar nauðsynlegar. Nánar tiltekið er hér um að ræða tilskipun nr. 89/48/EBE um almennt kerfi til viðurkenningar á prófskírteinum sem veitt eru að lokinni sérfræðimenntun og starfsþjálfun á æðra skólastigi sem staðið hefur að minnsta kosti í þrjú ár og tilskipun nr. 85/384 um gagnkvæma viðurkenningu á prófskírteinum, vottorðum og öðrum vitnisburði um formlega menntun og hæfi í byggingarlist, að meðtöldum ráðstöfunum er auðvelda að staðfesturéttar og réttar til að veita þjónustu sé neytt.
    Eitt meginmarkmið frumvarpsins er þannig að tryggja að samræmdar reglur gildi um hver hafi rétt til að nota starfsheiti sem falla undir svið iðnaðarráðuneytisins, auk þess að gæta þeirra skuldbindinga sem Ísland hefur tekið á sig með þátttöku í samningi um hið Evrópska efnahagssvæði. Þannig er gert ráð fyrir að réttur til starfsheitis geti stofnast á tvennan máta, við útgáfu leyfis af hálfu ráðherra eða við staðfestingu ráðherra á sams konar leyfi sem gefið hefur verið út erlendis. Viðkomandi fagfélögum er falið að setja skýrar reglur um hvaða nám teljist uppfylla kröfur þær sem gerðar eru hér á landi og þær reglur skulu staðfestar af ráðherra. Ráðherra hefur síðan úrskurðarvald ef til ágreinings kemur um hvort einstaklingur uppfylli skilyrði laganna um rétt til að bera ákveðið starfsheiti.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að lögin taki til allra starfsheita sem ráðuneytið hefur umsjón með, þ.e. bæði starfsheita sem nú er kveðið á um í lögum nr. 62/1986 og lögum nr. 46/1982. Enn fremur er lagt til að starfsheitið skipulagsfræðingur verði lögverndað en svo hefur ekki verið.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er talið upp til hvaða starfsstétta lögin taki. Er hér um að ræða sömu starfsstéttir og nú eru lögverndaðar, svo sem að framan greinir, en jafnframt er lagt til að starfsheitið skipulagsfræðingur verði lögverndað. Fallið er frá því að hafa dönsk eða önnur erlend heiti á viðkomandi starfsstéttum inni í frumvarpstextanum, en ekki er um neina efnislega breytingu að ræða. Þykir óþarfi og fremur til lýta að hafa erlend heiti inni í lagatexta. Að því er varðar arkitekta eru hér nefnd tvö heiti á þeirri starfstétt sem bæði verður að telja íslensk. Orðið húsameistari er notað í núgildandi lögum en er vart að finna annars staðar í íslenskum lögum. Þvert á móti hefur orðið arkitekt orðið ofan á til dæmis í byggingarlögum, skipulagslögum og reglugerðum um þau málefni. Sama má segja um starfandi arkitekta að undantekning er ef þeir nota orðið húsameistari um starfsheiti sitt. Loks má nefna að fagfélag þeirra kallast Arkitektafélag Íslands. Ástæðu þessa má ef til vill rekja til þess að hætta kann að vera á að menn rugli saman orðunum húsameistari annars vegar og húsasmíðameistari hins vegar. Hér er því verið að viðurkenna þá málþróun sem orðið hefur, en heitinu húsameistari er engu að síður haldið í frumvarpinu þannig að mönnum verður áfram frjálst að nota það heiti sem það kjósa.
    

Um 2. gr.


    Hér er kveðið á um lögverndun þeirra starfsheita sem frumvarpið nær til. Svo sem fram kemur í greininni geta menn öðlast rétt til að bera starfsheiti eftir tveimur leiðum. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að ráðherra gefi út leyfi ef menn uppfylla þau skilyrði sem fram koma í 3. gr. frumvarpsins og er þar gert ráð fyrir sömu framkvæmd og er að finna í núgildandi lögum, nr. 62/1986. Hér er hins vegar um breytingu að ræða að því er varðar iðnfræðinga samkvæmt. lögum nr. 46/1982, en þar er gert ráð fyrir að þeir sem lokið hafa fullnaðarprófi í iðnfræði frá Tækniskóla Íslands hafi rétt til að kalla sig iðnfræðinga án sérstaks leyfis ráðherra. Rétt þykir að sama regla gildi um allar starfsstéttir sem lögin taka til. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að ráðherra staðfesti erlend leyfi ef menn uppfylla þau skilyrði sem fram koma í 4. gr. frumvarpsins. Þar er um nýjung að ræða en framkvæmdin er engu að síður svipuð því sem nú tíðkast.

Um 3. gr.


    Hér er fjallað um leyfisveitingar ráðherra í 1. mgr. en skilyrði til að öðlast leyfi er að menn hafi lokið fullnaðarprófi í viðkomandi starfsgrein. Í 2. mgr. er síðan gert ráð fyrir að viðkomandi fagfélög setji sér reglur um hvaða nám, sem lokið hefur með prófgráðu, teljist vera fullnaðarmenntun í skilningi frumvarpsins. Ekki þótti rétt að tiltaka í lagatexta nöfn viðkomandi fagfélaga þar sem slíkt kann að vera breytingum háð. Þau fagfélög sem eiga við í dag eru Arkitektafélag Íslands, Verkfræðingafélag Íslands, Tæknifræðingafélag Íslands, Byggingafræðingafélag Íslands, Félag húsgagna- og innanhússarkitekta, Iðnfræðingafélag Íslands, Félag íslenskra landslagsarkitekta og Félag skipulagsfræðinga. Gert er ráð fyrir að ráðherra staðfesti reglur félaganna og öðlast reglurnar ekki gildi fyrr en sú staðfesting hefur átt sér stað og reglurnar verið birtar.
    Loks er kveðið á um að þeir sem hafa hlotið tilskilda menntun eigi rétt á leyfi til að bera starfsheiti. Er undir ráðherra komið hvenær þessu skilyrði telst fullnægt, en honum ber að leita umsagnar viðkomandi fagfélags áður en ákvörðun er tekin. Er hér um sömu reglu að ræða og er að finna í núgildandi lögum, nr. 62/1986, að því er flestar starfsstéttir varðar, en nefndarmenn voru sammála um að heppilegast væri að ráðuneytið hefði lokaorðið í þessu sambandi ef ágreiningur risi. Er slík regla enda í samræmi við reglur tilskipana ESB sem hér er verið að lögfesta.
    

Um 4. gr.


    Regla sú sem hér er lagt til að verði lögfest felur í sér nýjung að því er þessar starfsstéttir varðar. Samkvæmt tilskipunum þeim sem nefndar eru í greininni ber að viðurkenna starfsréttindi manna sem koma frá öðrum ríkjum innan EES enda uppfylli menntun sú sem þeir hafa ákveðin lágmarksskilyrði sem nánar eru tilgreind í tilskipununum. Hlutverk ráðherra yrði hér að sannreyna gildi slíkra vottorða og kanna hvort öllum skilyrðum sé fullnægt. Ef svo er ber ráðherra að staðfesta leyfi. Gert er ráð fyrir að sett verði reglugerð þar sem nánar verði tilgreind þau vottorð sem leggja þarf fram og hvaða kröfur séu gerðar til menntunar og starfsreynslu til að hljóta staðfestingu á leyfi til að bera starfsheiti.
    Felld er niður úr fyrra frumvarpi 2. mgr. þessarar greinar um að ráðherra skuli skylt í þessum tilvikum að leita umsagnar viðkomandi fagfélags þar eð slíkt er talið geta brotið í bága við EES-reglur. Engu að síður er gert ráð fyrir samráði við fagfélög ef nauðsyn krefur þar sem þar er að finna sérþekkingu á því námi og störfum sem í boði eru erlendis.
    

Um 5. gr.


    Í núgildandi lögum er sambærilegt ákvæði við það sem hér er lagt til að verði lögfest, en þrengra að því leyti að það er bundið við ágreining um orðið „ingeniör“, sbr. 9. gr. laganna. Samkvæmt greinargerð sem fylgdi frumvarpi til laga nr. 44/1963, um rétt manna til að kalla sig verkfræðinga, húsameistara eða tæknifræðinga, þar sem ákvæði þetta kom fyrst fram, var tilgangurinn sá að koma í veg fyrir að tæknifræðingar gætu notað orðið „ingeniör“ þannig í samsettum starfsheitum að valdið gæti villu og ekki þannig að stæld væru þau heiti sem verkfræðingar einir mega bera.
    Hér er lagt til að ákvæði þetta verði víkkað út þannig að ráðherra geti skorið úr um ágreining sem kann að rísa vegna notkunar annarra starfsheita eða samsetningar á orðum sem gefa ákveðin starfsheiti til kynna. Ágreiningur af þessu tagi hefur komið upp og ljóst er að fremur má búast við að þeim tilfellum fjölgi eftir því sem þjóðfélagið verður fjölbreyttara og leiðum til menntunar fjölgar. Eðlilegt þykir að ráðherra verði fengið vald til að skera úr ágreiningi af þessu tagi.
    

Um 6. gr.


    Hér er gert ráð fyrir að haldin verði skrá yfir alla þá sem fá leyfi til að bera starfsheiti eftir gildistöku laganna. Skrá sem þessi hefur ekki verið haldin hingað til, en rétt þykir að taka upp slíkt verklag.
    

Um 7.–10. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.
    

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Ekki er ætlunin að breyta réttarstöðu þeirra manna sem hafa fullgild leyfi til að bera viðkomandi starfsheiti.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:



Umsögn um frumvarp til laga um löggildingu nokkurra starfsheita


sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum.


    Eins og kemur fram í athugasemdum við frumvarpið tekur það til allra starfsheita sem iðnaðarráðuneytið hefur umsjón með og kveðið er á um í lögum nr. 62/1986, um rétt manna til að kalla sig verkfræðinga, húsameistara, landslagshönnuði, húsgagna- og innanhússhönnuði, tæknifræðinga eða byggingarfræðinga, og lögum nr. 46/1982, um rétt manna til að kalla sig iðnfræðinga. Auk þessara starfsheita er lagt til að við verði bætt starfsheitinu skipulagsfræðingur sem ekki hefur verið lögverndað fram að þessu.
    Meginmarkmið þessarar lagasetningar er að samræma reglur um hver hafi rétt til að nota starfsheiti sem falla undir iðnaðarráðuneytið, taka af vafa um það hver hafi endanlegt úrskurðarvald um það hverjir hafi rétt til að bera ákveðin starfsheiti, en ágreiningur hefur verið um það. Þá eru breytingarnar nauðsynlegar til þess að taka tillit til tveggja tilskipana ESB sem hafa áhrif á þær reglur sem nú eru í gildi.
    Ekki er að sjá að þessi lagabreyting hafi áhrif til kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.