Ferill 147. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 147 . mál.


174. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995.)



1. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
        2. málsl. 1. tölul. orðast svo: Hér með teljast þeir menn sem atvinnu stunda hér á landi, eða um borð í loftfari eða skipi sem skráð er hér á landi, þar með talið á grundvelli samninga um útleigu á vinnuafli, þótt dvöl þeirra eða starf vari 183 daga samtals eða skemur á sérhverju 12 mánaða tímabili.
    9. tölul. orðast svo: Allir aðilar sem eiga eignir hér á landi skv. 4.–8. tölul. skulu greiða eignarskatt af þeim eignum.

2. gr.


    Í stað fjárhæðarinnar „328.500“ í 2. málsl. 3. mgr. 17. gr. laganna kemur: 341.377.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 30. gr. laganna:
    4. tölul. A-liðar 1. mgr. fellur brott.
    Í stað fjárhæðanna „126.000“ og „252.000“ í 1. málsl. 2. tölul. B-liðar 1. mgr. kemur:130.939 og 261.878.
    Í stað fjárhæðanna „100.000“ og „200.000“ í 1. mgr. 4. tölul. 1. mgr. B-liðar kemur: 103.920 og 207.840.
    Í stað fjárhæðanna „21.000.000“ og „42.000.000“ í 2. mgr. kemur: 21.823.200 og 43.646.400.
    Í stað fjárhæðarinnar „25.000“ í 4. mgr. kemur: 25.980.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 68. gr. laganna:
    Í stað fjárhæðarinnar „282.264“ í 1. mgr. A-liðar kemur: 294.528.
    Í stað fjárhæðarinnar „660“ í 4. mgr. B-liðar kemur: 689.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 69. gr. laganna:
    Í stað fjárhæðanna „8.886“, „27.564“ og „28.917“ í 1. mgr. A-liðar kemur: 9.272, 28.768 og 30.176.
    Í stað fjárhæðanna „66.723“, „70.941“ og „28.917“ í 2. mgr. A-liðar kemur: 69.624, 74.024 og 30.176.
    8. mgr. A-liðar fellur brott.
    Í stað fjárhæðanna „89.284“ og „96.784“ í 2. mgr. B-liðar kemur: 93.164 og 100.990.
    3. mgr. B-liðar orðast svo:
                  Barnabótaauki skv. 2. mgr. skerðist í jöfnu hlutfalli við tekjuskattsstofn umfram 1.141.042 kr. hjá hjónum og umfram 570.521 kr. hjá einstæðu foreldri. Frá tekjuskattsstofni í þessu sambandi er eigi heimilt að draga tekjur skv. 2. og 3. tölul. A-liðar og 2., 3. og 4. tölul. B-liðar 1. mgr. 30. gr. Skerðingarhlutfallið skal vera 6% með einu barni, 11% með tveimur börnum og 15% með þremur börnum eða fleiri.
    Í stað fjárhæðanna „4.017.000“ og „6.026.000“ í 4. mgr. B-liðar kemur: 4.174.466 og 6.262.219.
    Í stað fjárhæðanna „359.698“, „519.467“ og „643.235“ í 3. mgr. C-liðar kemur: 411.209, 539.830 og 668.450.
    Í stað 1. málsl. 4. mgr. C-liðar koma tveir nýir málsliðir er orðast svo: Vaxtabætur skal ákvarða þannig að frá vaxtagjöldum, eins og þau eru skilgreind í 3. mgr., skal draga fjárhæð sem svarar til 6% af tekjuskattsstofni. Frá tekjuskattsstofni í þessu sambandi er eigi heimilt að draga tekjur skv. 2. og 3. tölul. A-liðar og 2., 3. og 4. tölul. B-liðar 1. mgr. 30. gr.
    Í stað fjárhæðanna „2.976.267“ og „4.933.677“ í 3. málsl. 4. mgr. C-liðar kemur: 3.092.937 og 5.127.077.
    Í stað fjárhæðanna „135.035“, „173.664“ og „223.310“ í 5. málsl. 4. mgr. C-liðar kemur: 140.903, 181.212 og 233.015.
    Í stað fjárhæðarinnar „500“ í lokamálsl. 4. mgr. C-liðar kemur: 520.

6. gr.

    Við 2. mgr. 3. tölul. 74. gr. laganna bætist nýr málsliður er orðast svo: Þó skal ár hvert heimilt að færa niður verð bifreiða um 10% af því verði sem þær voru taldar til eignar hjá framteljanda árið áður.

7. gr.

    Í stað fjárhæðanna „1.183.000“ og „2.366.000“ í 1. mgr. 78. gr. laganna kemur: 1.229.374 og 2.458.748.

8. gr.

    Í stað fjárhæðarinnar „3.514.000“ í 83. gr. laganna kemur: 3.651.749.

9. gr.

    Orðið „skriflega“ í 1. mgr. 91. gr. laganna fellur brott.

10. gr.

    Í stað orðsins „nafnnúmers“ í 4. mgr. 92. gr. laganna kemur: kennitölu.

11. gr.

    Í stað 4. mgr. 96. gr. laganna koma þrjár nýjar málsgreinar er orðast svo:
    Sé gerð breyting á framtali eða sköttum eftir álagningu eða fari fram ný skattákvörðun, sbr. 1. og 2. mgr. þessarar greinar, skal skattstjóri gera skattaðila eða þeim, sem framtalsskyldan hvílir á, viðvart um fyrirhugaðar breytingar og af hvaða ástæðum þær eru gerðar, og senda tilkynningu um það skriflega. Skattstjóri skal veita skattaðila a.m.k. 15 daga, frest frá póstlagningu tilkynningar um fyrirhugaðar breytingar, til að tjá sig skriflega um efni máls og leggja fram viðbótargögn áður en úrskurður er kveðinn upp.
    Skattstjóri skal innan tveggja mánaða að jafnaði kveða upp rökstuddan úrskurð um endurákvörðun álagningar og senda hann í ábyrgðarbréfi til skattaðila eða þess sem framtalsskyldan hvílir á. Tilkynning um skattbreytingu skal send viðkomandi innheimtumanni ríkissjóðs við uppkvaðningu úrskurðar. Samrit úrskurðar skal samtímis sent ríkisskattstjóra.
    Úrskurði skattstjóra um endurákvörðun skv. 5. mgr. má skjóta til yfirskattanefndar, eftir ákvæðum laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.

12. gr.

    Orðin „eða innan 30 daga frá póstlagningardegi tilkynningar um endurákvörðun“ í 1. málsl. 1. mgr. 99. gr. laganna falla brott.

13. gr.

    Á eftir orðinu „gjalda“ í 4. mgr. 110. gr. laganna kemur: að frádregnum bótum samkvæmt 69. gr.

14. gr.

    Í stað „4. tölul.“ í 120. gr. laganna kemur: 3. tölul.

15. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 121. gr. laganna:
    1. og 2. mgr. falla brott.
    3. mgr. orðast svo:
                  Við mismun, sem í ljós kemur á álögðum tekjuskatti manna og staðgreiðslu samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 34. gr. þeirra laga, og stafar af of lágri staðgreiðslu, skal bæta 2,5% álagi. Við mismun, sem rætur á að rekja til of hárrar staðgreiðslu, skal með sama hætti bæta 2,5% álagi.

16. gr.

    122. gr. laganna fellur brott.

17. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda sem hér segir:
    9., 10., 14., 15. og 16. gr. koma til framkvæmda þegar í stað.
    a-liður 3. gr. kemur til framkvæmda 1. janúar 1996.
    1. gr. kemur til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 1997 vegna tekna á árinu 1996 og eigna í lok þess árs.
    2. gr., b-, c-, d- og e-liður 3. gr., 4., 5., 6., 7., 8. og 13. gr. koma til framkvæmda við álagningu tekju- og eignarskatts á árinu 1996 vegna tekna á árinu 1995 og eigna í lok þess árs og við ákvörðun bóta á árinu 1996.
    11. og 12. gr. koma til framkvæmda frá og með 1. janúar 1997. Þó skulu mál þar sem skattstjóri hefur boðað breytingar á grundvelli 4. mgr. 96. gr., eins og sú málsgrein hljóðaði fyrir það tímamark, fara eftir eldri reglum.

18. gr.

    Við lögin bætast fimm ákvæði til bráðabirgða er orðast svo:

I.


Sérstakur tekjuskattur manna.


    Á tekjuskattsstofn manna vegna tekna á árinu 1996, skal á árinu 1997 leggja sérstakan tekjuskatt eins og nánar greinir í ákvæði þessu.
    Á tekjuskattsstofn einstaklinga umfram 2.805.840 kr., eða tekjuskattsstofn hjóna umfram 5.611.680 kr., skal reikna sérstakan 5% tekjuskatt.
    Ef hjón hafa bæði tekjuskattsstofn umfram 2.805.840 kr. reiknast þeim sinn hlutinn hvoru hins sérstaka tekjuskatts. Sé tekjuskattsstofn annars hjóna lægri en 2.805.840 kr. reiknast hinu hjóna allur sérstaki tekjuskatturinn.
    Sérstakur tekjuskattur samkvæmt ákvæði þessu skal ekki innheimtur með staðgreiðslu opinberra gjalda.

II.


Fyrirframgreiðsla manna á sérstökum tekjuskatti.


    Fyrirframgreiðsla upp í væntanlega álagningu sérstaks tekjuskatts ársins 1997 skal fara fram með fimm jöfnum mánaðarlegum greiðslum mánuðina ágúst til desember 1996. Fyrirframgreiðslan skal vera 5% af tekjuskattsstofni samkvæmt skattframtali ársins 1996 vegna tekna á árinu 1995 umfram 2.805.840 kr. hjá einstaklingi og umfram 5.611.680 kr. hjá hjónum.
    Gjalddagar fyrirframgreiðslu skv. 1. mgr. skulu vera fyrsti dagur mánaðanna ágúst til og með desember. Um framkvæmd fyrirframgreiðslunnar skal kveða nánar á í reglugerð.
    Heimilt er gjaldanda að sækja um lækkun á fyrirframgreiðslu sem honum hefur verið gert að greiða skv. 1. mgr. Umsókn um slíka lækkun skal senda skattstjóra er úrskurðar um lækkun greiðsluskyldunnar.
    Skattstjóri skal að jafnaði ekki taka til greina umsókn gjaldanda nema hann geti sýnt fram á að veruleg tekjulækkun hafi orðið hjá honum milli ára. Ríkisskattstjóri setur nánari reglur um þetta atriði.
    Nú kemur í ljós við álagningu á sérstökum tekjuskatti að fyrirframgreiðsla samkvæmt ákvæði þessu hefur verið of há, og skal við mismuninn bæta 2,5% álagi.

III.


    Um sérstakan tekjuskatt, samkvæmt bráðabirgðaákvæði I og II, skulu ákvæði VIII.–XIII. kafla laganna gilda eftir því sem við getur átt.

IV.


Niðurfærsla bifreiða.


    Við niðurfærslu á verði bifreiða sem ekki eru notaðar í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, sbr. 2. mgr. 3. tölul. 74. gr. skal við gerð skattframtals 1996 vegna eigna í árslok 1995 heimilt til viðbótar að færa niður verð bifreiða sem hér segir:
    Bifreiðar keyptar 1993 um 5% af kaupverði.
    Bifreiðar keyptar 1992 eða fyrr um 10% af kaupverði.
    

V.


Frádráttur vegna greiðslna úr lífeyrissjóðum.


    Við ákvörðun tekjuskattsstofns vegna álagningar tekjuskatts á árinu 1997 vegna tekna á árinu 1996 hjá mönnum sem eru 70 ára eða eldri má draga 7,5% af greiddum lífeyri úr lífeyrissjóðum skv. 2. gr. laga nr. 55/1980. Frádráttur þessi gildir með sama hætti við ákvörðun staðgreiðslu opinberra gjalda vegna staðgreiðsluskyldra greiðslna sem inntar eru af hendi á árinu 1996.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


Yfirlit.


    Fjögur atriði ber hæst á sviði skattamála á haustþingi.
    Í fyrsta lagi eru skattbreytingar sem tengjast ákvörðun Alþingis síðastliðið vor um að framlag launþega í lífeyrissjóði verði undanþegið tekjuskatti. Þessi ákvörðun var í samræmi við yfirlýsingu fyrri ríkisstjórnar til þess að greiða fyrir gerð kjarasamninga ASÍ og VSÍ í febrúar. Skattfrelsi lífeyrisiðgjalda er afar viðamikil og kostnaðarsöm aðgerð og í yfirlýsingunni kom fram að hún kallaði á sérstakar viðnámsaðgerðir á tekju- eða gjaldahlið til þess að koma í veg fyrir aukinn hallarekstur ríkissjóðs.
    Í öðru lagi er sú mikilvæga stefnumörkun ríkisstjórnarinnar að afnema sjálfvirkni eða sjálfvirka tengingu skatta, útgjalda, afsláttar- og bótagreiðslna við verð- eða launavísitölur.
    Í þriðja lagi er áformað að breyta og treysta fjármögnun Atvinnuleysistryggingasjóðs með því að skipta því tryggingagjaldi sem nú er lagt á atvinnureksturinn í tvennt og láta stærri hluta þess renna til sjóðsins þannig að gjaldið standi að fullu undir fjármögnun hans.
    Í fjórða lagi er fyrirhugað að taka upp fjármagnstekjuskatt á næsta ári.

Fjármögnun skattfrelsis lífeyrisiðgjalda launþega.


    Talið er að skattfrelsi lífeyrisiðgjalda launþega leiði til 1.600 m.kr. tekjulækkunar ríkissjóðs þegar upp er staðið. Ríkisstjórnin ákvað að tekjuöflun vegna þessa skiptist milli fyrirtækja og einstaklinga. Hvað fyrirtækin snertir er áformað að hækka tryggingagjald af atvinnurekstri um 0,5%, en það skilar um 1 milljarði króna í tekjum. Um þá breytingu er fjallað í sérstöku frumvarpi.
    Samhliða því að sjálfvirk uppfærsla ýmissa liða á tekju- og gjaldahlið fjárlaga verður afnumin verða afsláttar- og bótafjárhæðir í tekjuskattskerfinu ekki hækkaðar á næsta ári. Á móti vega breytingar á greiðslum barnabótaauka sem fela í sér lækkun tekjuskerðingar, en þessi aðgerð kemur einkum tekjulágum barnafjölskyldum til góða. Nettóáhrif þessara tveggja aðgerða á afkomu ríkissjóðs eru nálægt hálfum milljarði króna. Einnig er áformað að framlengja álagningu 5% sérstaks tekjuskatts í eitt ár, en það skilar um 300 m.kr. tekjuauka á næsta ári.
    Þar sem hér er eingöngu gert ráð fyrir tekjuöflun til að vega upp tekjutap vegna skattfrelsis lífeyrisiðgjalda verður heildarskattbyrði ríkissjóðs óbreytt eða lítillega lægri milli áranna 1995 og 1996. Skattbyrði einstaklinga lækkar vegna áhrifa skattfrelsis lífeyrisiðgjalda og fyrirhugaðra breytinga á útreikningi og greiðslu barnabótaauka. Skattbyrði atvinnurekstrar mun hins vegar þyngjast vegna hækkunar tryggingagjalds.
    Hér á eftir er í stuttu máli fjallað um einstaka þætti þessara breytinga, en um nánari skýringar vísast til athugasemda við einstakar greinar.

Afnám sjálfvirkni í skattkerfinu.


    Ein veigamesta breyting samkvæmt þessu frumvarpi felst í afnámi sjálfvirkrar uppfærslu ýmissa afsláttar- og bótaliða í takt við verð- eða launavísitölur. Þessi tillaga er í samræmi við þá almennu stefnumörkun ríkisstjórnarinnar að hverfa frá slíkum viðmiðunum á sem flestum sviðum. Þess í stað verða breytingar á þessum liðum að sjálfstæðri ákvörðun við fjárlagagerð hverju sinni líkt og tíðkast í öðrum löndum.
    Sjálfvirk verðuppfærsla ýmissa liða í skattkerfinu hefur verið við lýði í mörg ár. Rökin fyrir þessari sjálfvirkni voru þau að á tímum mikillar verðbólgu væri nauðsynlegt að beita ákvæðum af þessu tagi til þess að koma í veg fyrir að skattbyrði breyttist verulega af völdum verðbólgu frá því sem stjórnvöld hefðu ákveðið við samþykkt fjárlaga. Þessi rök voru skiljanleg með hliðsjón af því að verðbólgan var allt frá 20% þegar best lét og upp í 80–90% á ári. Án verðuppfærslu hefðu innbyrðis skatthlutföll raskast verulega.
    Þessar aðstæður hafa nú breyst. Verðbólgan er nú komin á svipað stig og í helstu nágrannaríkjum okkar og því eru ekki lengur rök fyrir sjálfvirkri verðuppfærslu. Af þessum sökum er eðlilegt að taka upp svipað fyrirkomulag og gildir í öðrum ríkjum og gera breytingar á hinum ýmsu þáttum skattkerfisins að sjálfstæðri ákvörðun stjórnvalda við fjárlagagerð hverju sinni. Það er megininntak þeirrar tillögu sem hér er gerð.
    Sú viðbótartillaga að afsláttar- og bótafjárhæðir haldist óbreyttar á næsta ári er gerð til þess að vega upp á móti fyrrnefndu tekjutapi vegna skattfrelsis lífeyrisiðgjalda. Til þess að styrkja stöðu barnafjölskyldna með þunga framfærslubyrði og jafnframt draga úr jaðaráhrifum tekjuskattskerfisins er hins vegar samhliða gert ráð fyrir að draga úr tekjuskerðingu barnabótaauka.
    Barnabótakerfið er tvíþætt, annars vegar almennar barnabætur óháðar tekjum og hins vegar barnabótaauki sem er tekjutengdur. Samkvæmt gildandi lögum lækkar barnabótaauki hlutfallslega í takt við hækkandi tekjur. Þannig lendir þriggja barna fjölskylda með tekjur undir meðallagi í 18% „jaðarskatti“ og fjögurra barna fjölskylda í 22% „jaðarskatti“ til viðbótar við 42% tekjuskatt og útsvar miðað við gildandi lög, eða í 60–64% jaðaráhrifum samtals.
    Samkvæmt þessum tillögum lækka skerðingarhlutföllin um 3% með fyrstu þremur börnunum, þ.e. um 1% með hverju barni. Jafnframt er gert ráð fyrir að setja hámark á jaðaráhrifin sem miðist við 15%. Þetta jafngildir því að fella alfarið niður skerðingu barnabótaauka með fjórða barni og þar umfram. Jaðarskattur fyrrnefndra fjölskyldna lækkar þannig í 57% í báðum tilvikum og barnabæturnar hækka umtalsvert, eða úr 4.400 í 7.500 krónur á mánuði vegna þriggja barna og úr tæplega 8.000 krónum í rúmlega 15.000 krónur á mánuði vegna fjögurra barna, eða um 3–7 þúsund krónur á mánuði sé miðað við 200 þúsund króna mánaðartekjur. Áætlað er að ákvörðun um óbreyttar bótafjárhæðir á næsta ári spari ríkissjóði um 1.000 m.kr. frá því sem almenn verðuppfærsla hefði kostað. Á móti vegur hækkun barnabótaaukans sem kostar um 500 m.kr. Þegar upp er staðið styrkir þessi ákvörðun afkomu ríkissjóðs um 500 m.kr. á ári frá því sem ella hefði orðið.
    Þótt hér sé gerð tillaga um óbreyttan persónuafslátt í krónum talið á næsta ári munu skattleysismörkin engu að síður hækka. Ástæðan er sú að skattfrelsi lífeyrisiðgjalda jafngildir í reynd lækkun tekjuskattshlutfallsins um rúmlega 1½%. Jafnframt er rétt að hafa í huga að markmiðið með því að undanþiggja greiðslur einstaklinga í lífeyrissjóði skattskyldu er ekki að lækka almenna skattbyrði í sjálfu sér heldur að efla lífeyrissparnað, styrkja lífeyrissjóðakerfið og koma varanlega í veg fyrir tvísköttun þar sem lífeyrisgreiðslur eru skattlagðar við útborgun þeirra. Skattleysismörkin munu því hækka úr 59.700 krónum í dag í rúmlega 60.300 krónur á síðari hluta næsta árs. Til samanburðar má nefna að ef persónuafsláttur hefði fylgt almennri verðlagsþróun á þessu tímabili án tillits til áhrifa skattfrelsis lífeyrisiðgjalda hefðu skattleysismörkin orðið heldur lægri á næsta ári en þessar tillögur gera ráð fyrir.
    Enn fremur er rétt að vekja athygli á því að afnám sjálfvirkrar verðuppfærslu birtist ekki einungis í tekjuskattskerfinu heldur víðar. Þannig mun bensíngjald haldast óbreytt á næsta ári, en það hefur til þessa verið tengt byggingarvísitölu. Sömu sögu er að segja af bifreiðagjaldi sem hefur breyst tvisvar á ári í samræmi við breytingar á byggingarvísitölu. Loks má nefna sérstakt gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra sem einnig hefur hækkað sjálfvirkt í takt við vísitölur, en verður nú óbreytt á milli ára. Þannig er fylgt samræmdri stefnu hvað varðar afnám sjálfvirkni jafnt á tekju- og gjaldahlið fjárlagafrumvarps.

Framlenging sérstaks 5% tekjuskatts.


    Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að skipa nefnd til þess að endurskoða tekjuskattskerfið, meðal annars í ljósi jaðaráhrifa þess o.fl. Nefndin verður skipuð fulltrúum flokkanna og aðila vinnumarkaðarins og er ætlað að ljúka störfum á síðari hluta árs 1996. Álagning sérstaks 5% tekjuskatts hefur verið umdeild, ekki síst með hliðsjón af hækkun á jaðarhlutfalli tekjuskatts, en álagning hans var á sínum tíma ákveðin til tveggja ára. Þessi skattlagning kemur því óhjákvæmilega til umræðu í fyrrgreindri nefnd. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að framlengja þessa skattlagningu í eitt ár, eða til loka árs 1996.

Skattfrelsi lífeyrisgreiðslna.


    Fyrir síðustu áramót voru lögfestar breytingar sem ætlað var að mæta tvísköttun lífeyrissparnaðar. Þessar breytingar gerðu ráð fyrir að hluti (15%) útgreidds lífeyris til einstaklinga 70 ára og eldri yrði undanþeginn tekjuskatti. Með fyrrnefndri ákvörðun um almennt skattfrelsi lífeyrisiðgjalda eru ekki lengur forsendur fyrir þessari tilhögun. Lagt er til að þessi regla verði afnumin í tveimur jöfnum áföngum á árunum 1996 og 1997. Þessi ákvörðun hefur ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs þar sem þær fjárhæðir sem sparast renna til lífeyristrygginga.

Rýmri afskriftareglur bifreiða.


    Samkvæmt gildandi lögum eru bifreiðar taldar fram til eignarskatts á kaup- og kostnaðarverði án heimildar til niðurfærslu. Þessi regla var ekki ósanngjörn þegar verðbólga var mikil hér á landi. Í kjölfar minni verðbólgu er hins vegar eðlilegt að endurskoða þessa reglu þar sem almennar verðbreytingar vega engan veginn upp á móti verðfalli bifreiða ár hvert. Hér er lagt til að heimila 10% afskrift bifreiða á ári. Jafnframt er gert ráð fyrir allt að 10% viðbótarafskrift eldri bifreiða.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lagðar eru til tvær breytingar á 3. gr. laganna, sem fjallar um takmarkaða skattskyldu.
    Annars vegar eru lagðar til breytingar á 1. tölul. greinarinnar. Um langt skeið hefur alþjóðleg útleiga vinnuafls leitt til ýmissa vandkvæða í skattframkvæmd. Hér er um það að ræða að rekstraraðili sem óskar eftir því að ráða erlent vinnuafl í skemmri tíma en 183 daga ræður starfskraft í gegnum erlendan millilið. Milliliðurinn gefur sig út fyrir að vera vinnuveitandi og leigir út vinnuaflið til rekstraraðilans. Með breytingunni er gert ráð fyrir að launþegi sem þannig hagar til um verði skattskyldur hér á landi á grundvelli 3. gr. Launagreiðandi hans (hinn innlendi rekstraraðili) ber ábyrgð á staðgreiðslu af launum hans eins og annarra launamanna sem hér starfa tímabundið. Þetta er í samræmi við sambærileg ákvæði tvísköttunarsamninga og er lagt til að tekin verði af tvímæli um að menn sem svo háttar um sem að framan er lýst verði ótvírætt taldir skattskyldir hér á landi. Sú regla er í samræmi við gildandi framkvæmd og því ekki breyting að því leyti.
    Hins vegar eru lagðar til breytingar á 9. tölul. greinarinnar, en samkvæmt þeim tölulið greiða aðilar (bæði einstaklingar og lögaðilar) sem búsettir eru erlendis en eiga eignir hér á landi ekki af þeim eignarskatt, nema eignirnar gefi af sér skattskyldar tekjur. Með því að hafa lögheimili erlendis hafa menn ekki þurft að greiða eignarskatt af eignum sínum hér á landi, nema um arðberandi eignir sé að ræða. Breytingin hefur það í för með sér að eignarskattur greiðist af skattskyldum eignum óháð því hvort eignirnar gefa af sér tekjur eða ekki. Hingað til hafa allar þessar eignir verið framtalsskyldar og því hefur breytingin ekki í för með sér neinar breytingar á framtalsskilum. Eignarskattur þeirra sem falla undir takmarkaða skattskyldu reiknast þannig að frá þessum eignum má draga þær skuldir sem hvíla á þeim, sbr. 3. mgr. 76. gr. laganna. Á hinn bóginn virkar fríeignamark laganna ekki í þessum tilvikum.
    Með þessari breytingu er stefnt að því að rétta af ákveðið misræmi og mismunun í skattlagningu á þessu sviði. Þeir erlendis búsettir aðilar sem koma til með að þurfa að greiða eignarskatt hér á landi vegna hins nýja ákvæðis gætu, m.a. vegna ákvæða í tvísköttunarsamningum heimalands þeirra við Ísland, hafa þurft að greiða eignarskatta til heimalandsins einmitt á þeim grundvelli að skattinum væri ekki til að dreifa hér á landi. Þannig breytti hin nýja skipan óverulega skattlagningu hjá þeim. Í ljósi þess hvernig háttað er skráningu þeirra eigna sem hér um ræðir er erfitt að áætla tekjuauka ríkissjóðs, en ljóst er að hann er einhver.

Um 2. gr.


    Í þessari grein eru lagðar til breytingar á fjárhæðum í 17. gr. laganna í samræmi við aðrar breytingar á fjárhæðum í frumvarpinu. Þannig er lagt til að festar verði í lögunum þær fjárhæðir sem lagðar voru til grundvallar við álagningu tekjuskatts í ár. Um forsendur þessa vísast til almennra athugasemda.

Um 3. gr.


    Lagðar eru til tvær breytingar á 30. gr. laganna sem fjallar um frádrátt frá tekjum manna sem ekki stafa af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi.
    Annars vegar er í a-lið gert ráð fyrir að 15% frádráttur af greiddum lífeyri til manna sem eru 70 ára og eldri falli niður þann 1. janúar 1996. Þá er í bráðabirgðaákvæði V gert ráð fyrir að frádrátturinn eins og hann er samkvæmt gildandi lögum verði lækkaður niður í 7,5% frá og með 1. janúar 1996 og verði þannig við staðgreiðslu á árinu 1996 og við álagningu tekjuskatts á árinu 1997. Þetta byggir á því að þegar frádráttur þessi var settur í lög var það gert í þeim tilgangi að afnema meinta tvísköttun lífeyrissparnaðar. Síðan þessi regla var lögfest hafa verið sett í lögin ákvæði sem heimila frádrátt frá skattskyldum tekjum vegna iðgjalda í lífeyrissjóði. Með hliðsjón af því að sá frádráttur er ekki að fullu kominn til framkvæmda þykir eðlilegt að 15% frádrátturinn sé felldur niður í tveimur áföngum eins og að framan er lýst.
    Hins vegar eru í b-, c-, d- og e-lið greinarinnar lagðar til breytingar á fjárhæðum í samræmi við aðrar sambærilegar breytingar á fjárhæðum í frumvarpinu. Þannig er lagt til að festar verði í lögunum sömu fjárhæðir og lagðar voru til grundvallar við álagningu í ár. Um forsendur þessa vísast til almennra athugasemda.

Um 4. gr.


    Í þessari grein eru lagðar til breytingar á fjárhæðum persónu- og sjómannaafsláttar í samræmi við aðrar breytingar á fjárhæðum í lögunum. Lagt er til að fjárhæðirnar verði þær sömu og á síðari hluta ársins 1995. Um forsendur vísast til almennra athugasemda.

Um 5. gr.


    Hér eru lagðar til breytingar á 69. gr. sem hefur að geyma bótaákvæði laganna. Þær breytingar sem lagðar eru til í a-, b-, d-, f-, g-, i- og j-liðum eru allt breytingar á fjárhæðum og er þar um að ræða breytingar sem eru sambærilegar við aðrar breytingar á fjárhæðum í frumvarpinu. Þannig er ekki verið að hækka eða lækka þær fjárhæðir sem notaðar voru við síðustu útgreiðslu bóta, heldur lagt til að þær fjárhæðir verði festar inn í lögunum. Um forsendur vísast til almennra athugasemda.
    Í c-lið er lagt til að felld verði niður 8. mgr. A-liðar, en í því ákvæði er kveðið á um skuldajöfnun á móti barnabótum. Með lögum nr. 147/1994 voru gerðar nokkrar breytingar á skuldajöfnunarákvæðum 69. gr., sem höfðu það í för með sér að rýmkaðar voru heimildir til skuldajöfnunar frá því sem verið hafði. Við þær breytingar láðist að fella brott 8. mgr. A-liðar, þannig að í 8. og 11. mgr. gildandi ákvæðis A-liðar eru misvísandi ákvæði um skuldajöfnuð. Í samræmi við lagabreytinguna sem gerð var með lögum nr. 147/1994 er því lagt til að felld verði niður 8. mgr. A-liðar.
    Í e-lið er lögð til breyting á þeim reglum sem gilda um ákvörðun á barnabótaauka. Í gildandi lögum er kveðið á um að barnabótaauki skerðist miðað við tekjur þannig að með fyrsta barni sé skerðingarhlutfallið 7%, með öðru barni 6%, með þriðja barni 5% og 4% með börnum umfram þrjú. Til að slá á þessi jaðaráhrif er lögð til breyting á þessu ákvæði laganna. Þannig er gert ráð fyrir að skerðingarhlutfallið með einu barni verði 6%, með tveimur börnum verði skerðingarhlutfallið 11% og með þremur börnum eða fleiri verði skerðingarhlutfallið 15%. Þannig getur skerðingarhlutfallið hæst orðið 15%, en ekkert þak er sem fyrr segir á skerðingarhlutfallinu samkvæmt gildandi reglum.
    Að lokum eru í h-lið lagðar til breytingar á framsetningu tekjutengingarreglu vaxtabótaákvæðisins. Þannig er gert ráð fyrir að í stað þess að telja upp í greininni þá frádráttarliði sem er heimilt að draga frá við ákvörðun tekjuskerðingarstofns verði taldir verði upp þeir frádráttarliðir sem ekki er heimilt að draga frá, en sú framsetning er viðhöfð í sambærilegu ákvæði barnabótaaukaákvæðisins. Ekki er hér um að ræða efnislega breytingu heldur einungis breyting á framsetningu til samræmis við barnabótaaukaákvæðið í B-lið greinarinnar.

Um 6. gr.


    Samhliða þeirri lágu verðbólgu sem verið hefur hér á landi á undanförnum árum hafa reglur um verðmat bifreiða einstaklinga til eignarskatts sætt gagnrýni. Samkvæmt gildandi reglum skal telja bifreiðar til eignar á kaup- og kostnaðarverði. Staðreyndin er sú að við lága verðbólgu er slík regla ósanngjörn, þar sem verðfall bifreiða er umtalsvert á hverju ári. Þannig endurspeglar það verð bifreiðar sem fært er á framtali engan veginn markaðsverð þeirra, nema í þeim tilvikum þegar bifreið er nýkeypt. Í ljósi þess er lögð til breyting á 2. mgr. 3. tölul. 74. gr. þannig að heimilt verður að færa niður verðmæti bifreiðar með 10% árlegri niðurfærslu. Þessi breyting tekur gildi frá og með næstu áramótum vegna bifreiðareignar í lok þessa árs. Í bráðabirgðaákvæði eru sérreglur um eldri bifreiðar og niðurfærslu á þeim, en samkvæmt því verður heimilt að færa verð þeirra niður með hærra hlutfalli í eitt skipti það er við framtal ársins 1996.
    Regla sú sem hér er lögð til er að bifreiðaeigendur skuli færa á framtali sínu niður verð bifreiða sinna um 10% af því verði sem fært var í framtali fyrra árs. Þannig er gert ráð fyrir að niðurfærslugrunnurinn verði alltaf það verð sem var á framtali fyrra árs. Þessi regla hefur það í för með sér að bifreiðar sem keyptar eru á tekjuári verður ekki heimilt að niðurfæra í framtali vegna þess árs, enda þykja rök ekki standa til þess þar sem að líklega er um óverulega verðrýrnun að ræða. Tekið skal fram að regla þessi á að sjálfsögðu einungis við um þær bifreiðar sem ekki eru notaðar í atvinnurekstri.
    

Um 7. og 8. gr.


    Í þessari grein eru lagðar til breytingar á viðmiðunarfjárhæðum við ákvörðun á eignarskatti í samræmi við aðrar sambærilegar breytingar í frumvarpinu. Lagt er til að festar verði í lögunum þær fjárhæðir sem voru lagðar til grundvallar við álagningu í ár. Um forsendur vísast til almennra athugasemda.

Um 9. gr.


    Í þessari grein er lagt til að fellt verði niður orðið „skriflega“ í 1. mgr. 91. gr. Með því er verið að skapa grundvöll undir breytt framtalsskil með hliðsjón af þeirri tækni sem hefur verið að ryðja sér til rúms og kennd hefur verið við pappírslaus viðskipti.

Um 10. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 11. og 12. gr.


    Við álagningu skattstjóra verða ákveðin þáttaskil í málsmeðferð. Með þeim breytingum sem lagðar eru til í 11. og 12. gr. er gert ráð fyrir að aðgreind verði betur málsmeðferð fyrir og eftir álagningu opinberra gjalda. Lagt er til að í 4.–6. mgr. 96. gr. verði ítarlega kveðið á um málsmeðferð eftir álagningu. Tilgangur þessara breytinga er að stytta feril málsmeðferðar hjá skattstjóra eftir álagningu. Engin breyting er lögð til varðandi málsmeðferð fyrir álagningu né meðferð skattframtals sem berst eigi á réttum tíma. Breytingarnar miða að því að auka skilvirkni skattstjórnsýslu, en án þess þó að skerða réttaröryggi skattborgara. Engar breytingar verða á rannsóknar- eða rökstuðningsskyldu skattstjóra né andmælarétti skattborgara. Breytingarnar eiga að leiða til tíma- og vinnusparnaðar bæði hjá skattstjórum og skattaðilum. Í framkvæmd hefur verið talið að mál séu nokkuð þung í vöfum eftir álagningu. Við kæruúrskurð skattstjóra verða sjaldnast miklar breytingar, þar sem allar málsástæður, lagarök og gögn hafa að jafnaði komið fram þegar endurákvörðun álagningar hefur verið boðuð. Tekið skal fram að þegar skattaðila eru tilkynntar fyrirhugaðar breytingar á skattframtali hans eru þær breytingar rökstuddar og sama gildir um endurákvörðun álagningar.
    Ferill mála samkvæmt gildandi reglum er eftirfarandi:
    fyrirspurn skattstjóra,
    svar skattaðila,
    tilkynning skattstjóra um fyrirhugaðar breytingar,
    viðbótargögn og andmæli skattaðila,
    endurákvörðun skattstjóra á opinberum gjöldum,
    kæra skattaðila,
    úrskurður skattstjóra sem síðan er kæranlegur til yfirskattanefndar.
    Verði þær breytingar sem hér eru lagðar til að lögum verður ferill máls þessi:
    fyrirspurn skattstjóra,
    svar skattaðila,
    tilkynning skattstjóra um fyrirhugaðar breytingar,
    viðbótargögn og andmæli skattaðila,
—    úrskurður skattstjóra um endurákvörðun á opinberum gjöldum sem er þá kæranlegur til yfirskattanefndar.
    Frestur til að andmæla fyrirhuguðum breytingum er hér ákveðinn að lágmarki 15 dagar, en í framkvæmd hefur frestur þessi að jafnaði verið 7–15 dagar. Til samanburðar má geta þess að í Danmörku er frestur þessi 15 dagar.
    Endurákvörðun skattstjóra verður því gerð með formlegum úrskurði sem er kæranlegur til yfirskattanefndar.

Um 13. gr.


    Í 110. gr. laganna er kveðið á um gjalddaga. Nú er það svo að þann 1. ágúst ár hvert er fyrsti gjalddagi álagningar opinberra gjalda, en hún er samkvæmt lagagreininni innheimt á fimm gjalddögum. Þann 1. ágúst eru jafnframt greiddar út barnabætur, vaxtabætur, barnabótaauki og inneign vegna ofgreiddrar staðgreiðslu. Í mörgum tilvikum eru þessar greiðslur hærri í krónum talið en sá hluti álagningar sem í gjalddaga fellur 1. ágúst. Staðan er þá þannig að ríkissjóður borgar út 1. ágúst mismun bóta og gjaldfallinnar álagningar, en innheimtir síðan á fjórum gjalddögum eftirstöðvar álagningarinnar. Með hliðsjón af þessu er hér lögð til breyting á 110. gr. laganna, þannig að bótum verði jafnað upp í álagningu þann 1. ágúst ár hvert áður en eftirstöðvum er dreift á gjalddaga. Þannig mun fækka til muna þeim tilvikum þar sem verið er að dreifa á fimm gjalddaga tiltölulega lágum fjárhæðum.

Um 14. gr.


    Hér er lögð til lagfæring á lagatilvísun í 120. gr., en gerð var breyting á þessari grein með lögum nr. 147/1994. Í frumvarpi til þeirra laga voru lagðar til breytingar á 30. gr. sem ekki náðu fram að ganga, en þá láðist í meðförum Alþingis að gera lagfæringar á greinatilvísun í 120. gr. til samræmis við það.

Um 15. gr.


    Lagðar eru til breytingar á 121. gr. laganna, en í því ákvæði er annars vegar kveðið á um verðuppfærslu bóta- og afsláttarfjárhæða og hins vegar verðbætur á ofgreidda eða vangreidda staðgreiðslu. Í a-lið er gert er ráð fyrir að afnumin verði sjálfvirk vísitölubinding bóta- og afsláttarfjárhæða. Um forsendur vísast til almennra athugasemda. Varðandi mismun staðgreiðslu og álagningar er gert ráð í b-lið fyrir að við hann bætist 2,5% álag hvort heldur um er að ræða skuld eða inneign. En samkvæmt gildandi lögum er þessi mismunur verðbættur samkvæmt lánskjaravísitölu.

Um 16. gr.


    Í þessari grein er lagt til að 122. gr. laganna, þar sem kveðið er á um skattvísitölu, verði felld niður í samræmi við þær breytingar sem lagðar eru til á fjárhæðum laganna. Um forsendur vísast til almennra athugasemda.

Um 17. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 18. gr.


Um bráðabirgðaákvæði I, II og III.


    Samkvæmt þessum ákvæðum er gert ráð fyrir að sérstaki tekjuskatturinn verði framlengdur um eitt ár. Gert er ráð fyrir að fjárhæðir ákvæðanna verði þær sömu og verða við álagningu sérstaks tekjuskatts á næsta ári og eru ákvæðin sambærileg og núgildandi ákvæði um sérstaka tekjuskattinn.

Um bráðabirgðaákvæði IV.


    Í þessu ákvæði er kveðið á um niðurfærslu bifreiða sem keyptar voru á árinu 1993 og fyrr. Í 6. gr. frumvarpsins er kveðið á um niðurfærslu bifreiða. Það ákvæði kemur til framkvæmda við álagningu á næsta ári vegna bifreiðaeignar í lok þessa árs. Með hliðsjón af því að bifreiðar hafa verið færðar til eignar á kaup- og kostnaðarverði eru margar bifreiðar sem keyptar hafa verið á liðnum árum eignfærðar í framtali á verði sem er talsvert yfir markaðsverði, því verðmæti bifreiða rýrnar eðli máls samkvæmt með tímanum. Í bráðabirgðaákvæði þessu er gert ráð fyrir að við framtal næsta árs verði auk niðurfærslu samkvæmt þeirri reglu sem lögð er til í 6. gr. frumvarpsins heimilt að færa niður verð eldri bifreiða með hærra hlutfalli, þannig að til viðbótar við 10% niðurfærsluna megi færa niður verð bifreiða sem keyptar voru á árinu 1993 um 5% og verð bifreiða sem keyptar voru á árinu 1992 eða fyrr um 10%.

Um bráðabirgðaákvæði V.


    Í þessu ákvæði er lagt til að frádráttur sem lífeyrisþegar fá vegna lífeyris sem þeir fá greiddan úr lífeyrissjóðum skuli á árinu 1996 lækka úr 15%, sem nú er, í 7,5% af greiddum lífeyri. Samkvæmt a-lið 3. gr. fellur þessi 15% frádráttarheimild úr lögum frá og með 1. janúar 1996.