Ferill 205. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 205 . mál.


266. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, sbr. lög nr. 1/1992 og lög nr. 50/1994.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995.)



1. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
    Í stað 7. tölul. koma þrír töluliðir er orðast svo:
          7.    Leyfi til verðbréfamiðlunar 75.000 kr.
          8.     Leyfi til vátryggingarmiðlunar 75.000 kr.
          9.     Bráðabirgðaleyfi til vátryggingarmiðlunar 10.000 kr.
    Á eftir 20. tölul., er verður 22. tölul., koma 4 nýir töluliðir er orðast svo:
         22.     Áfengisinnflutningsleyfi 15.000 kr.
         23.     Áfengisheildsöluleyfi 30.000 kr.
         24.    Árlegt eftirlitsgjald þeirra sem hafa leyfi til innflutnings og heildsölu með áfengi og tóbak, sbr. lög nr. 63/1969 með síðari breytingum 5.000 kr.
         25.    Árlegt eftirlitsgjald framleiðenda áfengis 50.000 kr.
    Töluröð annarra töluliða breytist í samræmi við breytingar skv. a- og b-liðum.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
    Í stað 1. tölul. koma tveir töluliðir er orðast svo:
         1.     Skráning hlutafélags og samvinnufélags 150.000 kr.
         2.     Skráning einkahlutafélags 75.000 kr.
    Á eftir 4. tölul., sem verður 5. tölul., kemur nýr töluliður sem verður 6. tölul., er orðast svo: Umskráning hlutafélaga í einkahlutafélög og einkahlutafélaga í hlutafélög 10.000 kr.
    Töluröð annarra töluliða breytist í samræmi við breytingar skv. a- og b-liðum.
    

3. gr.


    1. mgr. 15. gr. laganna orðast svo:
    Fyrir að afgreiða útlend fiskiskip sem koma hingað einvörðungu vegna fiskveiða og vöru- og flutningaskip sem koma frá útlöndum og fyrir að láta af hendi þau skilríki er skipið á að fá hér á landi skal greiða 20 kr. af hverju brúttótonni skipsins. Hálft brúttótonn eða þar yfir telst heilt. Af farþegaskipum skal greiða helmingi lægra gjald.
    

4. gr.


    Við 16. gr. bætist ný málsgrein er orðast svo:
    Fyrir eftirgerð af hljóðupptökum skal greiða eftirfarandi gjald:
    Fyrir eftirgerð af hljóðupptöku, 90 mín. 400 kr.
    Fyrir eftirgerð hljóðupptöku, 60 mín. 350 kr.

5. gr.

    19. gr. laganna fellur brott.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Þegar lög þessi hafa hlotið staðfestingu er heimilt að fella meginmál þeirra inn í lög nr. 88 31. desember 1991, um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum, og gefa þau út svo breytt.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu eru ráðgerðar nokkrar breytingar á lögum um aukatekjur ríkissjóðs.
    Í fyrsta lagi er lagt er til að kveðið verði á um gjald fyrir leyfi til vátryggingarmiðlunar, en með lögum nr. 60/1994, um vátryggingarstarfsemi og reglugerð nr. 473/1994, voru sett ákvæði um starfsemi vátryggingarmiðlara. Skipuð hefur verið prófnefnd vátryggingarmiðlara sem hefur undirbúið námskeið fyrir þá sem vilja afla sér starfsréttinda sem vátryggingarmiðlarar og munu fyrstu starfsleyfin væntanlega verða veitt vorið 1996.
    Í öðru lagi er ráðgert að innheimta sérstakt leyfisgjald fyrir áfengisinnflutning og áfengisheildsölu og eftirlitsgjald með þeim sem fengið hafa slík leyfi eða framleiðsluleyfi.
    Í þriðja lagi er um að ræða breytingar sem miða að því að samræma ákvæði 15. gr. laganna um afgreiðslugjald skipa við nýjar reglur um mælingar skipa.
    Í fjórða lagi er fyrirhugað að taka sérstakt gjald fyrir eftirgerð af hljóðupptökum m.a. með vísan til 14. gr. laga um meðferð einkamála, en þar er kveðið á um að meðan mál er til meðferðar hjá dómstólum, er dómara skylt gegn greiðslu gjalds að láta viðkomandi í té eftirgerð af hljóðupptöku eða myndbandsupptöku ef þess er óskað.
    Að lokum er lagt til að fellt verði niður ákvæði um heimild fjármálaráðherra til að ákveða hækkun gjaldanna í samræmi við breytingar á vísitölu vöru og þjónustu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lagðar eru til nokkrar breytingar á 11. gr. laganna, en í því ákvæði er að finna gjöld fyrir leyfi fyrir atvinnustarfsemi og tengd leyfi.
    Að tillögu viðskiptaráðuneytis er lagt til að í stað 7. tölul. koma þrír töluliðir. Með lögum nr. 60 frá 11. maí 1994, um vátryggingarstarfsemi, voru m.a. sett ákvæði um vátryggingarmiðlun og vátryggingarmiðlara. Engin ákvæði eru í gildandi lögum um leyfisgjald fyrir vátryggingarmiðlun og fellur gjald fyrir slíkt leyfi samkvæmt gildandi lögum undir hið almenna ákvæði 23. tölul. 11. gr. laganna, þar sem kveðið er á um að fyrir önnur leyfi en um getur í 1.–22. tölul. greinarinnar skuli greiða 5.000 kr. Lagt er til að gjald fyrir leyfi til vátryggingarmiðlunar verði 75.000 kr. Þá er lagt til að gjald fyrir bráðabirgðaleyfi til vátryggingarmiðlunar verði 10.000 kr. Þar sem leyfi til verðbréfamiðlunar þykir eðlislíkt leyfi til vátryggingarmiðlunar er lagt til að gjald fyrir slíkt leyfi verði hækkað úr 50.000 kr. í 75.000 kr.
    Með lögum nr. 95/1995, um breyting á áfengislögum, nr. 63/1969, voru rýmkaðar heimildir til framleiðslu, innflutnings og heildsölu með áfengi. Gjald fyrir leyfi til framleiðslu áfengis er nú 100.000 kr. og hefur það verið innheimt árlega. Lagt er til að bætt verði inn ákvæðum um gjald fyrir áfengisinnflutningsleyfi sem verður 15.000 kr. og áfengisheildsöluleyfi sem verður 30.000 kr. Í áfengisinnflutningsleyfi felst eingöngu heimild til innflutnings til eigin nota í atvinnuskyni svo sem fyrir veitingahús. Í áfengisheildsöluleyfi felst auk leyfis til innflutnings heimild til að selja áfengi til þeirra sem stunda smásölu með áfengi samkvæmt lögum. Í 3. gr. laga nr. 95/1995, um breyting á áfengislögunum, er kveðið á um eftirlit með starfsemi leyfishafa sem felst m.a. í því að fylgjast með að sala leyfishafa á áfengi verði í samræmi við 11. gr. áfengislaga. Þá er gert ráð fyrir að vegna áfengisverslunar verði haldið uppi sérstöku eftirliti og skráningu á þeim sem heimildir hafa til að stunda þessi viðskipti. Þessu eftirliti og skráningu fylgir óhjákvæmilega nokkur kostnaður sem væntanlega verður verulega meiri en þær tekjur sem ætla má að innheimtist með gjaldtöku þessari. Gert er ráð fyrir að eftirlitsgjaldið verði innheimt árlega af framleiðendum, innflytjendum og áfengisheildsölum.

Um 2. gr.


    Að tillögu viðskiptaráðuneytisins eru lagðar til breytingar á 13. gr. laganna.
    Annars vegar er lagt til að gjald fyrir skráningu samvinnufélaga og hlutafélaga verði hækkað úr 100.000 kr. í 150.000 kr. Jafnframt er lagt til að gjald fyrir skráningu einkahlutafélags verði lækkað úr 100.000 kr. í 75.000 kr.
    Hins vegar er lagt til að sett verði sérstakt ákvæði um gjald fyrir umskráningar hlutafélaga í einkahlutafélög og öfugt.

Um 3. gr.


    Að tillögu samgönguráðuneytisins eru lagðar til breytingar á 15. gr. laganna, þar sem kveðið er á um afgreiðslugjald skipa. Vegna breyttra reglna um mælingar skipa sem tóku gildi 18. júlí 1994, sem fela það í sér að mælingar skipa verða miðaðar við brúttótonn, er vegna samræmis lagt til að gjaldtakan miðist við brúttótonn í stað nettórúmlesta og að gjaldhlutfallið verði lækkað um 35,8% vegna þessara breyttu reglna. Gert er ráð fyrir að heildartekjur af gjaldinu haldist þær sömu og fyrir breytingar á mælingareglum.

Um 4. gr.


    Hér er lagt til að sett verði í lögin ákvæði um innheimtu gjalds fyrir eftirgerð af hljóðupptöku m.a. með vísan til 2. mgr. 14. gr. laga um meðferð einkamála, sbr. 1. gr. laga nr. 38/1994, um breytingu á þeim lögum. Fjárhæðir þær sem hér eru lagðar til byggja á upplýsingum um útlagðan kostnað við eftirgerð af hljóðupptökum.

Um 5. gr.


    Í þessari grein er lagt til að felld verði niður ákvæði um heimild fjármálaráðherra til að hækka grunngjöld samkvæmt lögunum í samræmi við breytingar á vísitölu vöru og þjónustu. Breytingin er í samræmi við þá stefnumörkun ríkisstjórnarinnar að afnema sjálfvirkni eða sjálfvirka tengingu skatta, útgjalda, afsláttar- og bótagreiðslna við verð- eða launavísitölur.

Um 6. gr.


    Gert er ráð fyrir að lögin öðlist þegar gildi. Samkvæmt 2. mgr. greinarinnar er ráðgert að breytingar sem gerðar hafa verið á lögunum verði felldar inn í lögin og þau gefin út að nýju svo breytt.