Ferill 337. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 337 . mál.


592. Skýrsla



um norrænt samstarf frá febrúar 1995 til desember 1995.

1.    Inngangur.
    Miklar breytingar á norrænu samstarfi hafa einkennt undanfarið starfsár. Í kjölfar nýrrar stefnumótunar í norrænu samstarfi, sem samþykkt var á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík í mars sl., var hafin vinna við breytingar á Helsinki-sáttmálanum og samþykktum Norðurlandaráðs. Þessari vinnu, auk breytinga á skipulagi og starfsemi Norðurlandaráðs, lauk á árinu.
    Á þingi ráðsins í Reykjavík var skýrslan „Nýir tímar í norrænni samvinnu” lögð fram og samþykkt. Skýrslan hefur að geyma tillögur um markmið, inntak og form norrænnar samvinnu í nánustu framtíð og rekur pólitískar forsendur og ný áhrif innan Norðurlandasamstarfsins. Með skýrslunni var samþykkt að endurnýja bæri samstarfið og aðlaga það nútímanum og einnig að gera það hagkvæmara og markvissara. Nauðsynlegt væri að hleypa nýju lífi í starfshættina og laga þá að nýjum aðstæðum sem sköpuðust í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslnanna í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð um aðild að ESB. Norræn samvinna er ekki talin valkostur andspænis, heldur hluti af, víðtækari evrópskri samvinnu. Nauðsynlegt er talið að tryggja öllum aðildarríkjum og sjálfsstjórnarsvæðum áframhaldandi jafnræði innan ramma norrænnar samvinnu, hvernig sem tengslum þeirra við ESB og EES er háttað.
    Mikilvægur þáttur í umbótastarfinu er að samvinnan tengist meira stjórnmálaflokkunum og með augljósari hætti en áður. Því ber að styrkja frekar það flokkasamstarf í norrænni samvinnu sem verið hefur á undanförnum árum.
    Norrænu samstarfi framtíðarinnar er beint að þremur meginsviðum, samvinnu innan Norðurlanda, milli Norðurlanda og Evrópu/ESB/EES og samvinnu Norðurlanda og grannsvæða þeirra.
    Samvinna innan Norðurlanda byggist á og stuðlar að þróun gilda sem allar Norðurlandaþjóðirnar eiga sameiginleg og koma helst fram í skyldleika menningar og tungumála, svipaðri afstöðu til lýðræðis, góðu umhverfi og helstu félagslegu réttindum. Um er að ræða samstarf í þjóðfélagsmálum, sem stuðlar að þróun sameiginlegra norrænna gilda, og á þeim sviðum þar sem samnorrænar lausnir gagnast Norðurlandabúum betur en þjóðbundnar lausnir eða alþjóðlegt fyrirkomulag.
    Norðurlönd og Evrópa/ESB/EES fjalla aðallega um samstarf í málum sem fyrst og fremst eru mikilvæg fyrir starfið innan ESB/EES þar sem gildismat og hagsmunir Norðurlandanna fara saman. Norræn samvinna skal mynda grundvöll frumkvæðis í þeim málum sem ríkin óska eftir að hafa áhrif á í Evrópu. Norræn samvinna skal einnig stuðla að því að samræma framgang tilskipana og annarra reglna ESB/EES. Auk þess skal norræn samvinna stuðla að tengslum milli Norðurlanda og sjálfsstjórnarsvæða sem eiga aðild að Evrópusambandinu og þeirra ríkja sem tengjast Evrópusamvinnu með EES-samningnum eða öðrum samningum.
    Þróunin á grannsvæðum Norðurlanda, þ.e. á Eystrasaltssvæðinu og heimskautssvæðinu, skiptir miklu pólitísku máli fyrir Norðurlönd. Aukin samvinna við Eystrasaltsríkin og norðvesturhéruð Rússlands er mikilvægt framlag til stöðugleika og lýðræðis á svæðinu. Sjálfbær þróun byggist m.a. á ábyrgri nýtingu náttúruauðlinda með tilliti til hinna sérstöku aðstæðna og hagsmuna frumbyggja á heimskautssvæðinu.
    Í skýrslunni er einnig kafli um tillögur að skipulagi Norðurlandaráðs en þeim var allmikið breytt í meðförum forsætisnefndar. Nefndaskipan í Norðurlandaráði var breytt á þann hátt að fagnefndirnar voru lagðar niður, frá og með áramótum 1995/1996, og í stað þeirra stofnaðar þrjár stórar nefndir byggðar á fyrrgreindum meginsviðum, þ.e. Norðurlandanefnd, Evrópunefnd og nærsvæðanefnd. Forsætisnefnd er stækkuð og auk þess er stofnuð eftirlitsnefnd Norðurlandaráðs.
    Jafnframt var ákveðið að flokkasamstarfið yrði aukið og að forustuhlutverk Norðurlandaráðs eflt. Breytingar og þróun á tilhögun funda Norðurlandaráðs voru ákveðnar að því leyti að ráðið heldur eitt árlegt þing í stað tveggja áður þar sem almennar umræður fara fram en reglubundið þing skal framvegis haldið að hausti og formennska og embættistími miðast við almanaksár. Þemaráðstefnur eru haldnar til viðbótar þingi Norðurlandaráðs í þeim tilgangi að fjalla sérstaklega um mál sem snerta eitt eða fleiri af þremur meginviðfangsefnum norrænnar samvinnu. Einnig var ákveðið að bjóða þeim aðilum, sem taka þátt í starfi ESB, einkum norrænum fulltrúum á Evrópuþinginu, fulltrúum í Evrópunefnd norrænu þjóðþinganna eða samsvarandi stofnunum og jafnvel fulltrúum fagnefnda hinna einstöku þjóðþinga, að taka þátt í aukaþingum og þemaráðstefnum.
    Á árinu var enn fremur ákveðið að samræma og koma á fót sameiginlegri upplýsinga- og útgáfustefnu fyrir allt norrænt samstarf á vegum Norðurlandaráðs og norrænu ráðherranefndarinnar. Þetta mun verða auðveldara í framkvæmd því að einnig var ákveðið á árinu að flytja skrifstofu forsætisnefndar Norðurlandaráðs, sem frá upphafi hefur verið staðsett í Stokkhólmi, til Kaupmannahafnar undir sama þak og skrifstofur norrænu ráðherranefndarinnar. Með þessu er bæði stefnt að hagræðingu í rekstri þessara tveggja stærstu stofnana Norðurlandasamstarfsins og reynt að auðvelda samráð og samstarf embættismanna þeirra.
    Á starfsárinu var Helskinki-sáttmálanum, grundvallarreglum norræns samstarfs, breytt til samræmis við þær nýju áherslur í norrænni samvinnu sem hafa verið raktar.
    Norrænu samstarfsráðherrarnir tilnefndu í mars sl. vinnuhóp til að gera úttekt á þeim norrænu stofnunum sem fá fjárveitingu frá norrænu ráðherranefndinni. Vinnuhópurinn var skipaður norrænum embættismönnum og fulltrúi Íslands í hópnum var Eiður Guðnason, sendiherra í Noregi. Hópnum var ætlað að gera úttekt á öllum norrænum stofnunum með tilliti til hugtaksins „Norrænt notagildi“. Af þeim stofnunum, sem úttektin tók til, var lagt til að 19 stofnanir yrðu færðar af fjárlögum norrænu ráðherranefndarinnar og þá ýmist lagðar niður eða lagt til að einstök lönd tækju yfir rekstur þeirra. Eftir að skýrslan var lögð fram og hún samþykkt á þingi Norðurlandaráðs í Kuopio í nóvember var stofnunum og ráðherranefndum gefinn kostur á að koma með umsögn á úttektinni. Norrænu samstarfsráðherrarnir munu taka endanlega afstöðu til skýrslunnar og hvernig hugmyndir hennar verða framkvæmdar í mars 1996.
    Ísland fór með formennsku í Norðurlandaráði á starfsárinu og tók Geir H. Haarde við forsetastóli á þingi Norðurlandaráðs í febrúar 1995. Eftir breytingar á Helsinki-sáttmálanum fara nú forsetaskipti fram um áramót og tók Danmörk við formennskunni í Norðurlandaráði um áramótin 1995/1996.

2.    Íslandsdeild Norðurlandaráðs.
2.1    Fulltrúar í Íslandsdeild Norðurlandaráðs.
    Hinn 22. desember 1994 kaus Alþingi eftirtalda þingmenn til setu í Norðurlandaráði: Árna M. Mathiesen, Geir H. Haarde, Halldór Ásgrímsson, Hjörleif Guttormsson, Kristínu Einarsdóttur og Sigríði A. Þórðardóttur. Varamenn voru kosnir: Árni Johnsen, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, Ingi Björn Albertsson, Petrína Baldursdóttir, Svavar Gestsson, Sturla Böðvarsson og Valgerður Sverrisdóttir. 13. janúar 1995 skipti Íslandsdeild með sér verkum á fundi þannig að Halldór Ásgrímsson var kosinn formaður, tilnefndur í forsætisnefnd Norðurlandaráðs og endurkosinn í laganefnd, Geir H. Haarde var kosinn varaformaður deildarinnar og tilnefndur í forsætisnefnd, Guðmundur Árni Stefánsson var kosinn í menningarmálanefnd og tilnefndur sem formaður hennar, Árni M. Mathiesen var endurkosinn í fjárlaganefnd og tilnefndur í ritstjórnarnefnd Nordisk Kontakt, Sigríður A. Þórðardóttir var endurkosin í félagsmálanefnd, Hjörleifur Guttormsson var endurkosinn í efnahagsmálanefnd og Kristín Einarsdóttir var endurkosin í umhverfismálanefnd og tilnefnd í ritstjórnarnefnd tímaritsins Nordisk Kontakt.
    Á Norðurlandaráðsþinginu í Reykjavík 27. febrúar til 2. mars 1995 var kosið í trúnaðarstöður í samræmi við framanefndar tilnefningar Íslandsdeildar. Guðmundur Árni Stefánsson var kosinn formaður menningarmálanefndar og Hjörleifur Guttormsson endurkosinn í kjörnefnd og einnig til áframhaldandi setu í forsætisnefnd sem fulltrúi flokkahóps vinstrisósíalista. Sigríður A. Þórðardóttir var einnig endurkosin í kjörnefnd.
    Þingkosningar foru fram á Íslandi 8. apríl 1995. Eftir kosningarnar þurfti að kjósa á ný þingmenn til setu í Norðurlandaráði og 13. júní 1995 voru eftirtaldir þingmenn kosnir til setu í Íslandsdeild Norðurlandaráðs fram til þess tíma að ný kosning fer fram á eftirfarandi reglulegu Alþingi: Geir H. Haarde, Guðmundur Árni Stefánsson, Hjörleifur Guttormsson, Sigríður A. Þórðardóttir, Siv Friðleifsdóttir, Sturla Böðvarsson og Valgerður Sverrisdóttir. Varamenn voru kosnir: Arnbjörg Sveinsdóttir, Árni Johnsen, Árni M. Mathiesen, Guðni Ágústsson, Ísólfur Gylfi Pálmason og Steingrímur J. Sigfússon. Á fundi Íslandsdeildar Norðurlandaráðs 14. júní 1995 skipti Íslandsdeild með sér verkum á fundi þannig að Valgerður Sverrisdóttir var kosin formaður, tilnefnd í forsætisnefnd Norðurlandaráðs, í laganefnd og ritstjórnarnefnd tímaritsins Nordisk Kontakt, Hjörleifur Guttormsson var kosinn varaformaður deildarinnar og tilnefndur í efnahagsmálanefnd og í kjörnefnd Norðurlandaráðs á vegum flokkahóps vinstrisósíalista, en sat áfram í forsætisnefnd Norðurlandaráðs sem fulltrúi flokkahóps vinstrisósíalista, Geir H. Haarde var tilnefndur í forsætisnefnd Norðurlandaráðs, Guðmundur Árni Stefánsson var tilnefndur í félagsmálanefnd, Sigríður A. Þórðardóttir var tilnefnd í menningarmálanefnd, í ritstjórn tímaritsins Nordisk Kontakt og í kjörnefnd á vegum flokkahóps hægrimanna, Sturla Böðvarsson var tilnefndur í umhverfisnefnd og Siv Friðleifsdóttir var tilnefnd í fjárlaganefnd.
    Um áramótin 1995/1996 gekk Hjörleifur Guttormsson úr Íslandsdeild Norðurlandaráðs og í hans stað var kosinn Steingrímur J. Sigfússon, varamaður hans er Svavar Gestsson. Á fundi Íslandsdeildar Norðurlandaráðs 22. janúar 1996 var Guðmundur Árni Stefánsson kosinn nýr varaformaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Breytingar á Helsinki-sáttmálanum og samþykktum Norðurlandaráðs sem gengu í gildi um áramót kváðu á um að flokkahópar í Norðurlandaráði skyldu framvegis tilnefna fulltrúa landanna í trúnaðarstöður. Á þingi Norðurlandaráðs í Kuopio var nefndarskipan ráðsins breytt, eins og áður hefur komið fram, og sitja fulltrúar Íslandsdeildar í eftirfarandi nefndum: Valgerður Sverrisdóttir, Geir H. Haarde og Guðmundur Árni Stefánsson sitja í forsætisnefnd Norðurlandaráðs. Siv Friðleifsdóttir er annar tveggja varaformanna Evrópunefndar Norðurlandaráðs og í henni situr einnig Sigríður A. Þórðardóttir. Steingrímur J. Sigfússon situr í Norðurlandanefnd og Sturla Böðvarsson situr í nærsvæðanefnd Norðurlandaráðs. Sigríður A. Þórðardóttir situr einnig í eftirlitsnefnd Norðurlandaráðs. Breytingar þessar tóku gildi 1. janúar 1996.
    Geir H. Haarde var kjörinn formaður flokkahóps hægrimanna í nóvember 1995.

2.2     Störf Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Íslandsdeild Norðurlandaráðs hélt 13 fundi á starfsárinu. Fyrstu tveimur mánuðum ársins var varið til undirbúnings þingi Norðurlandaráðs sem haldið var í Reykjavík dagana 27. febrúar til 2. mars. Um þinghaldið og skipulag þess sá skrifstofa Íslandsdeildar Norðurlandaráðs í samvinnu við ráðstefnudeild Ferðaskrifstofu Íslands. Þingið var haldið í Háskólabíói en skrifstofuaðstaða leigð á 3. hæð Bændahallarinnar á Hótel Sögu. Á milli Hótel Sögu og Háskólabíós var færður upp tjaldgangur sem skýldi fólki fyrir veðri og vindum. Þátttakendur á þingi Norðurlandaráðs voru rúmlega 1.000 talsins og fór þinghaldið fram sem skyldi. Kostnaður af þinghaldinu var rúmlega 20 millj. ísl. kr.
    Á starfsárinu var framtíð norræns samstarfs og breyting á skipulagi Norðurlandaráðs helst í brennidepli í störfum Íslandsdeildar. Var mikið fjallað um væntanlegar breytingar á fundum Íslandsdeildar og færði deildin fram ákveðin sjónarmið um breytingarnar á fundi forsætisnefndar Norðurlandaráðs í október 1995. Var að nokkru tekið tillit til þeirra sjónarmiða.
    Vegna úttektar norrænu ráðherranefndarinnar á öllum norrænum stofnunum var Halldóri Ásgrímssyni samstarfsráðherra, Eiði Guðnasyni, sendiherra og fulltrúa Íslands í úttektarnefndinni, og Snjólaugu Ólafsdóttur skrifstofustjóra boðið á fund Íslandsdeildar til að ræða þessi mál. Eiður Guðnason gerði grein fyrir þeim atriðum sem sérstaklega er litið til við úttektina og þegar norrænt notagildi stofnana er metið. Umræður urðu um framtíð þeirra norrænu stofnana sem eru staðsettar á Íslandi, Norræna hússins í Reykjavík og Norrænu eldfjallastöðvarinnar. Á sama fundi var nokkuð rætt við norræna samstarfsráðherrann um hvernig samstarf Norðurlandanna á vettvangi Sameinuðu þjóðanna er háttað en nokkuð bar á því að norrænt samstarf væri sniðgengið á kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kína sumarið 1995.
    Norrænir fréttamannastyrkir voru á árinu veittir þremur íslenskum fréttamönnum. Samanlagt var styrkupphæðin 75.000 sænskar krónur. Íslandsdeild ákvað að eftirgreindir fréttamenn hlytu styrki: Kári Jónasson, Kristín Marja Baldursdóttir og Þröstur Haraldsson.
    Árið 1992 var ákveðið að veita þingmönnum frá Eystrasaltsríkjunum, Póllandi og Rússlandi norrænan styrk til að heimsækja Norðurlönd, kynna sér framkvæmd lýðræðis og þingræðis og auka við faglega þekkingu sína. Á árinu 1995 heimsótti einn hópur þingmanna Ísland. Þau málefni sem sérstaklega voru kynnt hér á landi voru sveitarstjórnarmál, menningarmál og utanríkismál.
    Sigríður A. Þórðardóttir, Hjörleifur Guttormsson, Valgerður Sverrisdóttir heimsóttu norrænar stofnanir sem staðsettar eru á Íslandi, Norræna húsið og Norrænu eldfjallstöðina, til að kanna viðbrögð þeirra við skýrslunni um norrænt notagildi. Fram kom hjá báðum aðilum að þeir töldu vinnubrögð við skýrsluna ekki hafa verið nógu ítarleg og samantektin yfirborðsleg en einnig að erfitt væri að leggja sama mælikvarða á allar norrænar stofnar, án tillits til þess um hvað þær fjölluðu í störfum sínum.
    Íslandsdeildin ákvað að standa fyrir ráðstefnu um Schengen og norrænt vegabréfasamstarf 23. febrúar 1996 á Flughótelinu í Keflavík.
    Starfsmenn skrifstofu Íslandsdeildar á starfsárinu voru Elín Flygenring, forstöðumaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, og Lene Hjaltason, deildarsérfræðingur.

2.3    Formennska Íslands.
    Á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík 27. febrúar 1995 tók Geir H. Haarde við starfi forseta Norðurlandaráðs. Gegndi hann því til 1. janúar 1996 þar eð reglum um skiptingu á formennskulandi var breytt eins og síðar verður vikið að. Skiptin fara nú fram um áramót en frá upphafi hafa þau farið fram á reglulegu þingi Norðurlandaráðs. Geir lagði fram fyrir forsætisnefnd skýrslu um þau atriði sem hann hafði áhuga á að sérstaklega yrði unnið að á starfsárinu. Fyrst og fremst lagði hann áherslu á að skipan og starfsháttum norræns samstarfs yrði breytt og að þeim breytingum yrði lokið á starfsárinu. Í annan stað lagði hann áherslu á að Norðurlandaráð mundi auka samstarf heimskautsríkja og að þingmannanefnd sú, sem Norðurlandaráð hefði komið á með þátttöku Bandaríkjanna, Kanada, Rússlands og Evrópuþingsins, mundi starfa ötullega að því að ríkisstjórnirnar settu upp norðurheimskautsráð. Í þriðja lagi lagði forsetinn áherslu á að alþjóðasamstarf innan Norðurlandasamstarfsins yrði styrkt og að þrátt fyrir að þrjú af fimm Norðurlöndum væru fulltrúar í ESB mundi hið nána norræna samstarf, sem átt hefur sér stað innan Sameinuðu þjóðanna, halda áfram. Lagði hann til að Norðurlandaráð héldi þemafundi um ýmis málefni þar sem Norðurlönd gætu átt sérstakt samstarf innan alþjóðastofnana, m.a. hvað varðaði norrænt samstarf á hafréttarsvæðum, varnarsamstarf í Evrópu, lagasamstarf, samstarf um mannréttindamál og menningarmálasamstarf. Í fjórða lagi lagði hann áherslu á að upplýsingaflæði milli Norðurlanda og Evrópusambandsins yrði aukið til muna og að sett yrði á stofn norræn upplýsingaskrifstofa í Brüssel sem sæi um að safna upplýsingum sem hefðu sérstakt gildi fyrir norrænt samstarf, fyrir Norðurlandaráð og norrænu ráðherranefndina og koma upplýsingum um norrænt samstarf á framfæri við aðila í Evrópusamstarfi.
    Sem forseti Norðurlandaráðs heimsótti Geir H. Haarde þing Evrópuráðsins í Strassborg, ávarpaði það og átti fund m.a. með forseta þingsins, Miquel Martuinez. Einnig heimsótti hann Evrópuþingið í Brussel, átti þar fundi með þingmönnum og hitti sérstaklega að máli forseta Evrópuþingsins, Klaus Hänsch.
    Á árinu átti Geir einnig fundi með forsætisráðherrum Danmerkur, Noregs og Finnlands, Poul Nyrup Rasmussen, Gro Harlem Brundtlandt og Pavo Lipponen. Á þeim fundum var framtíð norræna samstarfsins rædd og önnur norræn pólitísk málefni. Þá flutti hann ræðu á norrænni kynningarráðstefnu í Kiev í Úkraínu.
    Í júní 1995 var Geir H. Haarde kjörinn formaður þingmannanefndar um heimskautsmálefni og tók hann þar við af Halldóri Ásgrímssyni, núverandi utanríkisráðherra og norrænum samstarfsráðherra. Nefndin hefur á tímabilinu haldið tvo fundi auk fimm norrænna undirbúningsfunda en aðrir norrænir þingmenn í nefndinni eru Birgitta Dahl, forseti sænska þingsins, og Jan P. Syse, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs.

3.    Starfsemi nefndar Norðurlandaráðs.
3.1    Forsætisnefnd.
    Á þingi Norðurlandaráðs 27. febrúar 1995 í Reykjavík tók Geir H. Haarde við sem forseti Norðurlandaráðs af Per Olof Håkansson. Vegna nýrra reglna um breytingar á starfsháttum Norðurlandaráðs fara skipti forseta og val í trúnaðarstöður innan Norðurlandaráðs nú fram um áramót í stað vorþinganna áður. Fulltrúi Íslandsdeildar í forsætisnefnd var í febrúar 1995, auks Geirs, Halldór Ásgrímsson, en Hjörleifur Guttormsson sat í nefndinni á vegum flokkahóps vinstrisósíalista. Í júní 1995 kom Valgerður Sverrisdóttir inn sem fulltrúi Íslandsdeildar, en Halldór Ásgrímsson tók við stöðu utanríkisráðherra og norræns samstarfsráðherra. Á þingi Norðurlandaráðs í Kuopio í nóvember 1995 fór fram kjör í trúnaðarstöður og vegna breyttra starfshátta fór kjörið nú fram á vegum flokkahópa Norðurlandaráðs. Frá áramótum sitja af Íslands hálfu í forsætisnefnd Geir H. Haarde frá flokkahópi hægrimanna, Valgerður Sverrisdóttir frá flokkahópi miðjumanna og Guðmundur Árni Stefánsson frá flokkahópi sósíaldemókrata.
    Forsætisnefnd hélt 15 fundi á starfsárinu. Auk þess hélt nefndin tvisvar fundi með norrænu forsætisráðherrunum í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Reykjavík og Kuopio. Aðalumræðuefni þeirra funda var framtíð norræns samstarfs eftir ESB-þjóðaratkvæðagreiðslurnar, heimskautssamstarfið og breytingar á norrænum stofnunum. Forsætisnefnd átti einnig fund með samstarfsráðherrum Norðurlanda.
    Forsætisnefnd setti vinnuhóp til að vinna úr hugmyndum um framtíð norræns samstarfs sem lagðar voru fram á þingi ráðsins í Reykjavík undir yfirskriftinni „Nýir tímar í norrænni samvinnu“. Vinnuhópurinn samanstóð af einum aðila frá hverjum flokkahópi innan forsætisnefndar, auk forseta Norðurlandaráðs, Geirs H. Haarde, sem var formaður hópsins. Hópurinn lagði fram skýrslu á fundi forsætisnefndar í júní sem var samþykkt. Aðalatriði þeirra tillagna voru:
—    forsætisnefnd er stjórnarnefnd Norðurlandaráðs með 11–13 fulltrúa,
—    nefndirnar í ráðinu eiga að fjalla um þrjú höfuðatriði norrænnar samvinnu framtíðarinnar, Norðurlandamálin, Evrópumálin og nærsvæðamálin; nefndirnar geta stofnað undirnefndir eða vinnuhópa eftir þörfum og einnig vinnuhópa sín á milli,
—    sérstök eftirlitsnefnd er stofnuð,
—    verkefni fjárlaganefndar færast yfir til forsætisnefndar.
    Á grundvelli þessara tillagna var útbúin forsætisnefndartillaga sem lögð var til samþykktar fyrir aukaþing Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn 29. september 1995.
    Hjörleifur Guttormsson studdi ekki tillöguna og lagði vinstrisósíalíski flokkahópurinn fram sérstaka þingmannatillögu um hvernig skipuleggja ætti nefndir ráðsins. Einnig var fjallað um hana á aukaþingi ráðsins í september. Samkvæmt þeirri tillögu skyldi samstarfið skiptast í menningarmálanefnd, borgarapólitíska nefnd og umhverfisnefnd og einnig Evrópunefnd og nærsvæðanefnd. Tillagan var ekki samþykkt.
    Eftir aukaþing Norðurlandaráðs hélt vinnan með skipan og breytingu á skipulagi Norðurlandaráðs áfram innan forsætisnefndar. Nefndin lagði fram forsætisnefndartillögu um breytingar á starfsreglum Norðurlandaráðs sem samþykkt var á 47. þingi Norðurlandaráðs í Kuopio. Þar með var lokið vinnu við endurskoðun á Norðurlandasamstarfinu í bili.
    Á þingi ráðsins í Reykjavík voru samþykkt tilmæli, sem fjallað hafði verið um sem tillögur í forsætisnefnd, um breytingar á Helsinki-sáttmálanum, eins og áður er getið, og um markmið og forgangsröðun hvað snertir fjárlög fyrir árið 1996. Einnig um að ráðstefnu Norðurlandaráðs um Sameinuðu þjóðirnar verði fylgt eftir. Á sama þingi voru einnig teknar ákvarðanir um innri málefni sem fjallað hafði verið um í forsætisnefnd, en þær voru um norræna samvinnu á nýjum tímum og um sendimenn sem boða velvild. (Sjá nánar fylgiskjal I.)
    Á 47. þingi Norðurlandaráðs í Kuopio voru samþykkt tilmæli byggð á ráðherranefndartillögu um mat á norrænum samstarfsstofnunum, eins og áður hefur verið rakið. Ein ákvörðun um innri málefni var einnig tekin á því þingi en hún fjallaði um breytingar á starfsháttum Norðurlandaráðs.
    Forsætisnefnd tók í apríl ákvörðun um að skrifstofa Norðurlandaráðs, sem staðsett hefur verið í Stokkhólmi frá upphafi, skyldi flytjast til Kaupmannahafnar á árinu 1996 í sama húsnæði og skrifstofa norrænu ráðherranefndarinnar er í. Samstarfsráðherrarnir studdu þessa tillögu. Tilgangur þessarar ákvörðunar er að einfalda Norðurlandasamstarfið og ná aukinni samræmingu í vinnu þessara tveggja skrifstofa og þar með mynda skýrari heild Norðurlandasamstarfsins út á við. Í tengslum við þessa breytingu verður lögð áhersla á sameiginlega kynningar- og upplýsingastefnu Norðurlandaráðs og norrænu ráðherranefndarinnar.
    Forsætisnefnd hélt áfram tengslum sínum við alþjóðastofnarnir, bæði í Evrópu og á nærsvæðunum. Þingmönnum frá Eystrasaltríkjunum var boðið til Norðurlandanna að kynna sér störf þinganna, eins og áður er frá greint. 25 styrkir voru veittir til þessa á árinu.
    Í september tók forsætisnefnd þátt í 4. þingmannaráðstefnu Eystrasaltsríkjanna sem haldin var á Borgundarhólmi. Hún var skipulögð af Norðurlandaráði og aðalefnið var stefna ESB fyrir Eystrasaltssvæðið, lýðræði og mannréttindi ásamt öryggismálum. Á þeirri ráðstefnu flutti Geir H. Haarde, forseti Norðurlandaráðs, aðalræðuna, en Klaus Hänsch, forseti Evrópuþingsins, og Sergei Krylov, varautanríkisráðherra Rússlands, fluttu einnig ræður. Geir stjórnaði einnig nefnd um gerð lokaályktunar ráðstefnunnar.
    Í desember var fundur milli forsætisnefndar Norðurlandaráðs og fulltrúa forsætisnefndar Evrópuráðsins. Á fundinum voru gefnar gagnkvæmar upplýsingar um starfsemi ráðanna og rætt um stækkun Evrópuráðsins til austurs.
    Fjárhagsrammi forsætisnefndar fyrir árið 1996 verður 39 millj. sænskar krónur. Skrifstofa forsætisnefndar Norðurlandaráðs í Stokkhólmi er nú með 28 starfsmenn. Ísland greiðir 1,1% til þessara fjárlaga.

3.2    Laganefnd.
    Fulltrúi Ísland í laganefndinni var Halldór Ásgrímsson en 13. júní tók Valgerður Sverrisdóttir við sæti hans. Laganefnd var lögð niður um áramótin. Laganefndin fjallaði um tvær ráðherranefndartillögur sem samþykktar voru á þingi ráðsins í Reykjavík en það var samstarfsverkefni á sviði jafnréttismála árin 1995–2000 og framkvæmdaáætlun fyrir fjármálaþjónustu. Þrjár þingmannatillögur á 46. þinginu voru samþykktar, um undirbúningsnefnd fyrir kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Peking, norrænt upplýsinganet um mannréttindi og norræna samvinnu á sviði hafréttarmála. (Sjá nánar um innihald tilmælanna í fylgiskjali I.)
    Á 47. þingi Norðurlandaráðs í Kuopio voru samþykkt tvö tilmæli sem byggðust á þingmannatillögum, annað um löggjafarsamstarf í framtíðinni og hitt um jafna réttarstöðu norrænna ríkisborgara með tilliti til umboðsmanna þjóðþinga Norðurlandanna. (Sjá nánar fylgiskjal III.)
    Laganefnd hélt átta fundi á starfsárinu og þar af einn sameiginlegan fund með dómsmálaráðherrum 29. júní 1995 þar sem m.a. var fjallað um Schengen-samninginn, framtíðarlöggjafarsamstarf Norðurlandanna, ríkjaráðstefnu ESB 1996 og málefni er hafa með fjölskyldurétt að gera. Í nóvember átti nefndin fund með norrænum ráðherrum sem fara með mál flóttamanna og innflytjenda.
    Laganefndin tók þátt í ráðstefnu Evrópuráðsins um jafnrétti í febrúar þar sem undirbúin var sameiginleg afstaða til kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Peking. Nefndin átti einnig fulltrúa á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Peking um jafnréttismál og tók hann þátt bæði í opinberu ráðstefnunni og hinni óopinberu.

3.3     Menningarmálanefnd.
    Fulltrúi Íslands í menningarmálanefnd til 13. júní 1995 var Guðmundur Árni Stefánsson og var hann jafnframt formaður hennar. Eftir myndun nýrrar Íslandsdeildar tók Sigríður A. Þórðardóttir við sem fulltrúi hennar í menningarmálanefndinni.
     Menningarmálanefndin hélt sjö fundi á starfsárinu. Sameiginlegur fundur með menningar- og menntamálaráðherrum ásamt stjórn norræna menningarmálasjóðsins var haldinn tvisvar á árinu. Menningarmálanefnd Norðurlandaráðs var lögð niður um áramót.
    Á 46. þingi Norðurlandaráðs voru samþykkt fimm tilmæli byggð á tillögum sem fjallað hafði verið um í menningarmálanefnd: Tilmæli um viðhorfamótandi störf fyrir börn og ungmenni með liðsinni fjölmiðla, tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs, sjálfsstjórnarsvæðin og Samahéruðin, aukna norræna samvinnu á bókmenntasviði, norrænu hljómsveitina og heildarstuðning til samstarfsstofnana norrænu námsflokkafélaganna voru samþykkt ásamt tillögu um norræn markmið sem miðar að opnari stjórnarháttum í ESB. (Sjá nánar fylgiskjal I.)
    Á þingi Norðurlandaráðs í Kuopio í nóvember 1995 var fjallað um ráðherranefndartillögu um starfsáætlun um norræna barna- og unglingamenningu og var hún samþykkt. Einnig voru samþykktar þingmannatillögur um samvinnu um menntun túlka og þýðenda innan ESB og um þróun mála og menningarkenndar barna sem tengjast tveimur eða fleirum menningarheimum. (Sjá nánar fylgiskjal III.)

3.4    Félagsmálanefnd.
    Fulltrúi Íslands í félagsmálanefnd til 13. júní 1995 var Sigríður A. Þórðardóttir en þá tók Guðmundur Árni Stefánsson við af henni og var hann jafnframt kjörinn formaður hennar.
    Félagsmálanefnd hélt fimm fundi á starfsárinu. Nefndin starfaði einnig í þremur vinnuhópum sem fjölluðu um málefni ESB, um málefni Eystrasaltsríkja og um málefni Sameinuðu þjóðanna. Félagsmálanefnd var lögð niður um áramót.
    Félagsmálanefndin hélt uppi töluverðum samskiptum við alþjóðastofnanir og sótti formaður hennar, Guðmundur Árni Stefánsson, ýmsar ráðstefnur og fundi, m.a. á vegum Sameinuðu þjóðanna og samtaka Eystrasaltsríkja. Nefndin skipulagði í samvinnu við laganefndina ráðstefnu um málefni flóttamanna á Norðurlöndum en hún var haldin í Finnlandi um miðjan janúar 1996 þrátt fyrir að nefndin hefði þá verið lögð niður.
    Á 46. þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík í mars 1995 var fjallað um ráðherranefndartillögu sem afgreidd hafði verið frá félagsmálanefndinni um áætlun um samvinnu Norðurlandaráðs á sviði vinnumarkaðs og vinnuumhverfis. Einnig var fjallað um þingmannatillögurnar, um auknar áherslur á sviði heilbrigðismálastefnu í baráttunni gegn tóbaksreykingum og um aðstöðu og lífskjör hreyfihamlaðra á Norðurlöndum. Tillögur þessar voru allar samþykktar á þinginu. (Sjá fylgiskjal I.)
    Á þingi ráðsins í Kuopio voru tvær þingmannatillögur um félagsleg málefni samþykktar. Þær fjölluðu um aukna samvinnu norrænna athvarfa fyrir sjómenn og um þjálfun upplýsingagjafa um ávana- og fíkniefni á grannsvæðum Norðurlanda. (Sjá fylgiskjal III.)
3.5    Umhverfisnefnd.
    Fulltrúi Íslands í umhverfisnefnd var Kristín Einarsdóttir en 13. júní 1995 tók Sturla Böðvarsson við af henni.
    Umhverfismálanefnd hélt sex fundi á árinu og einnig stóð hún að ráðstefnu, í samvinnu við efnahagsmálanefnd, um orku- og umhverfismál í Ósló 31. janúar til 1. febrúar 1995.
    Umhverfisnefnd var lögð niður um áramótin 1995/96.
    Á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík í mars 1995 var fjallað um tvær ráðherranefndartillögur um umhverfismál, um stofnun náttúru- og umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs og um sameiginlega framkvæmdaáætlun um byggðastefnu 1995–99. Þessar tillögur voru samþykktar sem tilmæli ásamt þingmannatillögu um norræna samræmingu ýmissa sviða umhverfisnefndar.
    Á 47. þingi ráðsins í nóvember voru samþykkt fjögur tilmæli byggð á þremur ráðherranefndartillögum. Þau fjölluðu um framkvæmdaáætlun fyrir norræna samvinnu á sviði land- og skógarnytja 1996–2000, um stofnfjáraukningu í norræna umhverfisfjármögnunarfélaginu NEFCO, um framkvæmdaráætlun um samvinnu á norðurheimskautssvæðinu og um áhrif þjóðþinga og samvinnu á norðurheimskautssvæðinu. Einnig voru samþykkt tilmæli byggð á þingmannatillögu um lögbundin umhverfisgjöld og skatta í ESB og um svæðisbundna samvinnu á sviði orkumála. (Sjá fylgiskjal III.)

3.6    Efnahagsmálanefnd.
    Í efnahagsmálanefnd var Hjörleifur Guttormsson fulltrúi Íslandsdeildar, allt þar til um áramót 1995–1996 en þá var nefndin lögð niður.
    Nefndin hélt fimm fundi á árinu og áttu allnokkur samskipti við alþjóðastofnarnir.
    Á þingi ráðsins í Reykjavík voru samþykkt tilmæli byggð á tveimur þingmannatillögum en þau fjölluðu um áætlun um eflingu félagslegra sjónarmiða og umhverfissjónarmiða innan alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) og önnur tilmæli um ráðstafanir til að bæta möguleika kvenna til að stofna fyrirtæki. Hjörleifur Guttormsson var fyrsti flutningsmaður þeirrar tillögu. (Sjá nánar fylgiskjal I.)
    Ekki var fjallað um tillögur sem verið höfðu í meðferð efnahagsmálanefndar á 47. þingi ráðsins í Kuopio.

3.7    Fjárlaganefnd.
    Árni M. Mathiesen var fulltrúi Íslandsdeildar í fjárlaganefnd fram til 13. júní 1995 en þá tók Siv Friðleifsdóttir við af honum.
    Fjárlaganefnd hélt sex fundi á árinu og átti fund með formanni norrænu samstarfsráðherranna, Marianne Jelved. Nefndin var lögð niður um áramót.
    Á 47. þingi Norðurlandaráðs í Kuopio í nóvember 1995 voru samþykkt fjögur tilmæli, þrjú þeirra byggð á ráðherranefndartillögu um fjárlög norrænu ráðherranefndarinnar fyrir árið 1996, en þau fjölluðu um framhald umbótarferilsins í norrænni samvinnu, um staðfestingu fjárlaga fyrir árið 1996 og um skýrslugerð ráðherranefndarinnar til Norðurlandaráðs. Einnig voru samþykkt tilmæli byggð á þingmannatillögu og þau fjölluðu um betri upplýsingar um löggjöf annars staðar á Norðurlöndum.
    Á þinginu í Kuopio voru einnig teknar ákvarðanir um innri málefni, en tillögur að tveimur þeirra höfðu verið í umfjöllun fjárlaganefndar, önnur um norræna samvinnu í þjóðþingunum og hin um ársreikninga og skýrslu endurskoðanda Norðurlandaráðs. (Sjá fylgiskjal III.)
3.8    Verðlaun Norðurlandaráðs.
    Verðlaun Norðurlandaráðs eru nú þrenns konar, bókmenntaverðlaun, tónlistarverðlaun og náttúru- og umhverfisverðlaun.
    Bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs hefur verið úthlutað á hverju ári síðan 1962 og eru veitt fyrir bókmenntaverk sem ritað hefur verið á einu Norðurlandamálanna. Markmið verðlaunanna er að auka áhuga fyrir bókmenntum og tungumálum nágrannaþjóðanna.
    Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 1995 hlaut íslenski rithöfundurinn Einar Már Guðmundsson fyrir bók sína „Englar alheimsins“.
    Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs voru fyrst veitt árið 1965 og fram til ársins 1988 voru þau einungis afhent annað hvert ár. Síðan 1990 hafa verðlaunin verið veitt á ári hverju og eru þau veitt annað hvert ár til tónskálda og hin árin til þeirra er leika tónlist.
    Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs fyrir árið 1995 hlaut Eric Ericsson, sænskur kórstjórnandi, fyrir störf sín í þágu tónlistarinnar.
    Á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík 1995 voru samþykkt tilmæli um að Norðurlandaráð skyldi veita náttúru- og umhverfisverðlaun á hverju ári.
    Verðlaunin á að veita aðila sem hefur sett mark sitt á náttúru- og umhverfisvernd á Norðurlöndum eða til hóps fólks, samtaka, fjölmiðla, fyrirtækis eða stofnunar sem hefur í störfum sínum tekist að sýna í verki tillit til náttúrunnar á aðdáunarverðan hátt.
    Verðlaunin voru fyrst veitt í tengslum við 47. þing Norðurlandaráðs 14. nóvember 1995 í Kuopio og hlaut þau verðlaun sænski efnafræðingurinn Torleif Ingelög.
    Verðlaun Norðurlandaráðs eru að upphæð 350.000 danskar krónur hvert. Geir H. Haarde, þáverandi forseti Norðurlandaráðs, afhenti öll verðlaunin.

4.    Þing Norðurlandaráðs.
4.1    46. þing Norðurlandaráðs.
    46. þing Norðurlandaráðs var haldið í Reykjavík 27. febrúar til 2. mars 1995. Þar var fjallað um 24 þingmannatillögur, fimm ráðherranefndartillögur og 35 fyrirspurnir. Þingmanna- og ráðherranefndartillögurnar urðu að 22 nýjum tilmælum til ríkisstjórnar Norðurlanda og norrænu ráðherranefndarinnar.
    Þingið einkenndist af umræðu um breyttar aðstæður í norrænni samvinnu eftir inngöngu Finna og Svía í Evrópusambandið. Í almennu umræðunum var mikil áhersla lögð á að Noregur og Ísland yrðu, í gegnum EES-samninginn, einnig virkir þátttakendur í því samstarfi sem á sér stað í Evrópu og þar með mundi norrænt samstarf lifa áfram en í breyttu formi.
    Poul Nyrup Rasmussen, forsætisráðherra Dana, flutti inngangsræðu almennu stjórnmálaumræðanna. Hann lagði áherslu á að ekki væri hægt að efast um hlutverk norrænnar samvinnu því að þrátt fyrir að löndin hefðu valið ólíkar leiðir í Evrópusamstarfinu hefðu áhugamál þeirra og hagsmunir aldrei fallið þéttar saman en nú. Hann taldi hið norræna félagslega mynstur geta orðið fyrirmynd í Evrópu og nefndi mikilvægi þess að það hefði stuðning fólksins. Varðandi tungumálasamvinnuna taldi forsætisráðherrann að jafnvel þótt auðvelt væri að nota ensku væru Norðurlandamálin betri og að nauðsynlegt væri að vinna áætlun til langs tíma um samstarf um norræn tungumál. Rasmussen taldi mikilvægt að öll norrænu löndin tengdust Schengen-samstarfinu svo að ekki kæmi til nýrra landamæra innan Norðurlanda eða milli þeirra og Evrópu. Varðandi heimskautssamstarfið taldi hann mikilvægt að ríkisstjórnirnar settu á stofn heimskautsráð.
    Nýr forseti Norðurlandaráðs, Geir H. Haarde, lagði í inngangsræðu sinni áherslu á að norrænt samstarf héldi áfram með breyttum áherslum og að það ætti að skiptast í þrjá flokka, samstarf innan og milli Norðurlandanna, samstarf við nærsvæðin og Evrópusamstarfið. Hann taldi mikilvægt að heimskautsráð yrði stofnað með ákveðnum þingmannaáhrifum. Hann nefndi einnig mikilvægi norræns samstarfs innan alþjóðasamtaka.
    Í almennum umræðum tóku 70 þingmenn og ráðherrar til máls. Að þeim umræðum loknum tóku við málefni nefndanna. Samþykktir ráðsins og þær fyrirspurnir sem íslensku fulltrúarnir í ráðinu báru fram á árinu fylgja skýrslunni sem fylgiskjöl.
    Um málefni nefndanna og þær tillögur er fram voru lagðar á 46. þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík er nánar fjallað í 3. kafla í sambandi við hverja nefnd fyrir sig.

4.2    5. aukaþing Norðurlandaráðs.
    Norðurlandaráð hélt 5. aukaþing sitt í Kaupmannahöfn 29. september. Ráðið var kallað saman til aukaþings til þess að fjalla um forsætisnefndartillögu og um nýtt skipulag og nýja vinnuhætti fyrir Norðurlandaráð. Einnig var fjallað um þingmannatillögu um nefndaskipan og ráðherratillögu um breytingar á Helsinki-sáttmálanum. Um allar þessar tillögur var fjallað í einu lagi. Á þinginu var samþykkt að breyta nefndaskipan á grundvelli þess sem ákveðið var á þingi ráðsins í Reykjavík, þ.e. að samstarfið skuli í framtíðinni beinast að þremur meginsviðum: norræna samstarfinu innbyrðis, Norðurlöndum og Evrópusamstarfinu og Norðurlöndum og nærsvæðunum. Í samræmi við þessa ákvörðun var ákveðið að stofna þrjár meginnefndir, Norðurlandanefnd, Evrópunefnd og nærsvæðanefnd. Einnig var ákveðið að forsætisnefnd yrði styrkt sem stjórnunartæki og að þingin yrðu helguð mikilvægum pólitískum málum. Fyrir utan þessar þrjár nýju nefndir og forsætisnefnd var einnig stofnuð kjörnefnd og eftirlitsnefnd Norðurlandaráðs.
    Í þingmannatillögunni um nefndaskipan, sem þingmenn flokkahóps vinstrisósíalista lögðu fram, var lagt til eftirfarandi: Evrópunefnd yrði stofnuð og mannréttindanefnd einnig en menningar-, umhverfis- og efnahagsnefnd mundu halda áfram að starfa. Starfsemi fjárlaganefndar mundi færast yfir til forsætisnefndar. Tillagan var ekki samþykkt.
    Ráðherranefndartillaga um breytingu á Helsinki-sáttmálanum var samþykkt á þinginu. Ný regla um jafnræði borgaranna á Norðurlöndum til að búa, ferðast og starfa þar var færð inn í sáttmálann. Aðrar breytingar á sáttmálanum voru gerðar í samræmi við breytingar á skipan Norðurlandasamstarfsins.
    Í umræðunum tóku 30 þingmenn og ráðherrar til máls. Geir H. Haarde, forseti Norðurlandaráðs, taldi breytingarnar afar mikilvægar og þótt erfiðlega hefði gengið að koma þeim í tillöguform væri mjög mikilvægt að þær nytu stuðnings þriggja stærstu flokkahópanna. Af hálfu Íslendinga tóku auk hans þátt í umræðunum Hjörleifur Guttormsson, Valgerður Sverrisdóttir og Siv Friðleifsdóttir.
    Samþykktirnar fylgja skýrslu þessari sem fylgiskjal II.

4.3     47. þing Norðurlandaráðs.
    Norðurlandaráð hélt 47. þing sitt í Kuopio í Finnlandi 13.–15. nóvember 1995 og var það í fjórða og síðasta sinn sem haldið var reglulegt þing bæði að hausti og vori.
    Almennar umræður voru helgaðar utanríkis- og varnarmálum ásamt Evrópumálunum.
    Danski utanríkisráðherrann Niels Helveg Petersen flutti skýrslu um utanríkis- og varnarmál fyrir hönd norrænu utanríkisráðherranna. Hann tók fram að ætlunin væri að Norðurlönd og norrænt samstarf fengju verðugan sess í evrópskri og alþjóðlegri þróun. Með því að Norðurlönd tækju virkan þátt í ESB og EES væri hægt að fá fram norrænar áherslur en þá væri einnig mikilvægt að málin yrðu tekin upp í norræna samstarfinu á byrjunarskeiði. Petersen lagði mikla áherslu á samstarf við Eystrasaltslöndin og Rússland. Einnig bæri að leggja áherslu á heimskautssvæðið.
    Geir H. Haarde, forseti Norðurlandaráðs, lagði áherslu á að deilurnar í fyrrum Júgóslavíu yrðu leystar sem fyrst og benti á mikilvægi norrænna sjónarmiða við friðarumleitarnir þar. Fyrir utan Evrópusamstarfið væri norrænt samstarf í alþjóðastofnunum afar mikilvægt og Norðurlöndin ættu að leggja áherslu á að þau sem svæði gætu orðið nokkurs konar fyrirmynd svæðasamstarfs annars staðar í Evrópu. Einnig nefndi hann mikilvægi heimskautssamstarfsins.
    Auk forseta Norðurlandaráðs töluðu af Íslands hálfu Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra og norrænn samstarfsráðherra Íslands, og alþingismennirnir Valgerður Sverrisdóttir, Hjörleifur Guttormsson og Sigríður A. Þórðardóttir.
    Á þinginu fór fram umræða um og afgreiðsla fjárlaga norræna samstarfsins fyrir árið 1996. Nánar er greint frá innihaldi tillögunnar í kafla 3.7.
    Að lokum fór fram afgreiðsla annarra nefnda Norðurlandaráðs. Auk fjárlagatillagnanna voru lagðar fram þrjár ráðherranefndartillögur og sex þingmannatillögur sem allar voru samþykktar. Um tillögurnar er fjallað í 3. kafla í samhengi við umfjöllun um hverja nefnd fyrir sig. Samþykktirnar fylgja skýrslunni sem fylgiskjal III.

Alþingi, 23. febr. 1996.



Valgerður Sverrisdóttir,

Guðmundur Árni Stefánsson,

Geir H. Haarde.


form.

varaform.



Steingrímur J. Sigfússon.

Sigríður A. Þórðardóttir.

Sturla Böðvarsson.



Siv Friðleifsdóttir.


Fylgiskjal I.


Tilmæli, umsagnir og ákvarðanir um innri málefni,


samþykktar á 46. þingi Norðurlandaráðs.


(Reykjavík, 27. febrúar til 2. mars 1995.)



Tilmæli:

Nr. 1/1995.


Samstarfsverkefni á sviði jafnréttismála 1995–2000 (B 146/j).


    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
—    að hún samþykki norrænt samstarfsverkefni á sviði jafnréttismála 1995–2000, en síðan verði gefin út framkvæmdaáætlun árlega, unnin í samráði við Norðurlandaráð,
—    að hún geri nákvæma grein fyrir fjárhagslegum afleiðingum samstarfsverkefnisins.

Nr. 2/1995.


Framkvæmdaáætlun fyrir fjármálaþjónustu (B 149/j).


    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
—    að hún samþykki tillögu um norræna framkvæmdaáætlun um fjármálaþjónustu og taki sérstakt tillit til þess hvað nefndin hefur lagt til hvað snertir framkvæmdina og þær viðbætur sem nefndin hefur lagt til.

Nr. 3/1995.


Undirbúningsnefnd fyrir kvennaráðstefnu


Sameinuðu þjóðanna í Peking (A1100/j).


    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
—    að hún skipi ásamt Norðurlandaráði starfshóp til þess að samræma undirbúning Norðurlandaþjóða fyrir fjórðu kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldin verður í Peking.

Nr. 4/1995.


Norrænt upplýsinganet um mannréttindi (A 1099/j).


    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
—    að hún liðsinni norrænum mannréttindastofnununum fimm við að koma á fót upplýsinganeti milli stofnananna, þannig að öll ríkin hafi gagn af samstarfinu, með útgáfu upplýsinga- og kennsluefnis, ráðstefnum, námskeiðum, námsstefnum og dvöl á lýðháskólum, sýningum og notkun rafeindabúnaðar (tölva o.s.frv.).

Nr. 5/1995.


Norræn samvinna á sviði hafréttarmála (A 1106/j).


    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
1.    að hún auki norræna samvinnu við Sjóréttarstofnunina í Ósló sem verði einnig látin taka til norrænnar samvinnu á sviði hafréttarmála,
2.    að komið verði á fót nauðsynlegum fjölda stöðugilda til að sinna þeim verkefnum sem vinna þarf við samræmingu norrænna sjónarmiða á sviði hafréttarmála,
3.    að auk norrænnar samvinnu á sviði hafréttarmála verði unnið að samræmingu á þessu sviði ásamt Eystrasaltsríkjunum og öðrum grannsvæðum Norðurlanda, einkum á Eystrasaltssvæðinu.

Nr. 6/1995.


Viðhorfamótandi störf fyrir börn og ungmenni með liðsinni fjölmiðla (A 1098/k).


    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
—    að hún hafi frumkvæði að því að a.m.k. árlega verði framleiddir útvarpsþættir, sjónvarpsþættir eða kvikmyndir í þágu barna og ungmenna þar sem beitt sé skemmtun og nútímalegum aðferðum við viðhorfamótun í því skyni að draga úr og koma í veg fyrir einelti, ofbeldi, kynþáttahatur og misnotkun áfengis og fíkniefna meðal barna og ungmenna,
—    að hún meti samnorrænar aðgerðir sem miða að því að takmarka aðgengi að sjónvarpsþáttum og kvikmyndum, jafnt á sjónvarpsrásum og kapalkerfum í hverju landi, svo og hvað snertir dreifingu myndabanda og tölvuleikja á Norðurlöndum.

Nr. 7/1995.


Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs, sjálfsstjórnarsvæðin


og Samahéruðin (A 1073/k).


    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
—    að hún endurskoði hvort tilhögun tilnefninga og reglur þær sem gilda um tónlistarverðlaunin séu nógu góðar til þess að tryggja að unnt sé að tilnefna tónskáld og tónlistarmenn frá sjálfsstjórnarsvæðunum og Samahéruðunum til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs. Breyting á tilhögun tilnefninga má ekki valda verulega auknum stjórnunarkostnaði við verðlaunin.

Nr. 8/1995.


Aukin norræn samvinna á sviði bókmennta (A 1082/k).


    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
—    að hún hafi frumkvæði að skyndikönnun á samvinnu á sviði bókmennta á Norðurlöndum í framtíðinni og meti m.a.:
        —    forsendur fyrir skjótari útgáfu tilnefndra verka á öðrum Norðurlandamálum, með sérstöku tilliti til íslensku, færeysku og grænlensku,
        —    möguleika á því að gefa verðlaunabækurnar út á einhverju af heimsmálunum.

Nr. 9/1995.


Norræna hljómsveitin (A 1089/k).


    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
1.    að hún veiti norrænu hljómsveitinni árlegan rekstrarstyrk í tvö ár, 500.000 danskar krónur á ári, að því tilskildu að frumkvöðlarnir haldi áfram rekstri hennar, hvað snertir starfsemi og fjármál, með sama hætti og á reynslutímanum frá 1993 til 1995,
2.    að hún feli NOMUS að semja skipulagsskrá og fjárhagsáætlun fyrir norrænu hljómsveitina fyrir 1. ágúst 1995,
3.    að hún meti hver árlegur rekstrarstyrkur norrænu hljómsveitarinnar skal vera miðað við skipulagsskrá og fjárhagsáætlun NOMUS.

Nr. 10/1995.


Heildarstuðningur til samstarfsstofnana norrænu


námsflokkafélaganna (A 1093/k).


    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
—    að hún geri ráðstafanir til að heildarfjárveitingin til samstarfsstofnana norrænu námsflokkafélaganna fái að halda sér, einnig eftir 1995.

Nr. 11/1995.


Norræn markmið sem miða að opnari stjórnarháttum


í Evrópusambandinu (ESB) (A1095/k).


    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
1.    að hún setji sér norræn markmið um hvernig gera megi stjórnarhætti innan ESB opnari,
2.    að hún vinni að því að á grundvelli sameiginlegra norrænna markmiða að koma á opnum stjórnarháttum innan ESB/EES sem samrýmist meginreglum Norðurlanda á þessu sviði.

Nr. 12/1995.


Norræn samræming ýmissa sviða umhverfisverndar (A 1104/m).


    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
—    að með tilliti til þess sem fram kemur í umræðum í ráðinu, svo og með tilliti til þess sem fram kemur í þessu nefndaráliti, verði unnið að því við endurskoðun á umhverfisverndarstefnu Norðurlanda að styrkja starfið með því að stofna til sameiginlegra framkvæmdaáætlana um náttúruvernd á hinum ýmsu sviðum.

Nr. 13/1995.


Stofnun náttúru- og umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs (B 150/m).


    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
—    að hún stofni til árlegra norrænna verðlauna, sem nefnist Náttúruverndar- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs, í samræmi við tillögu ráðherranefndarinnar, B/150/m, og með tilliti til þeirra sjónarmiða sem fram koma í áliti umhverfismálanefndar.

Nr. 14/1995.


Sameiginleg framkvæmdaáætlun á sviði


byggðastefnu 1995–1999 (B 147/m).


    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
—    að hún taki ákvörðun um sameiginlega norræna framkvæmdaáætlun á sviði byggðastefnu 1995–99 í samræmi við tillögu ráðherranefndarinnar, B 147/m, og með tilliti til þeirra sjónarmiða sem fram koma í áliti umhverfismálanefndar.

Nr. 15/1995.


Áætlun um eflingu félagslegra sjónarmiða og umhverfissjónarmiða innan


Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) (A 1075/e og A 1077/e).


    Norðurlandaráð mælist til þess við ríkisstjórnir Norðurlanda:
—    að þær móti áætlun um hvernig heppilegast sé að starfa saman í því skyni að stuðla að sem bestum félagslegum og umhverfislegum aðstæðum meðal viðskiptaþjóða okkar, m.a. með því að rannsaka með hvaða hætti unnt sé að fá Alþjóðaviðskiptastofnunina til að samþykkja ákvæði um félagsleg og umhverfisleg atriði og með því að tryggja sem best samræmi í þessum málum í starfi stofnana eins og Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) og Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD).

Nr. 16/1995.


Ráðstafanir til að bæta möguleika kvenna


til að stofna fyrirtæki (A 1079/e).


    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
—    að hún kanni hvaða ráðstafanir eru gerðar á Norðurlöndum nú um stundir með tilliti til kvenna og leggja til aðgerðir til að bæta möguleika kvenna á því að stofna og reka fyrirtæki.

Nr. 17/1995.


Breytingar á Helsinki-sáttmálanum (A 1102/p, A 1097/p, rek. 20/1994/p).


    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina og ríkisstjórnir Norðurlanda:
—    að þær vinni að því í samráði við forsætisnefnd Norðurlandaráðs að semja ráðherranefndartillögu um nauðsynlegar breytingar á Helsinki-sáttmálanum sem tekin verði til meðferðar á 47. þingi Norðurlandaráðs.

Nr. 18/1995.


Markmið og forgangsröðun hvað snertir fjárlög fyrir árið 1996


(A 1102/p, A 1097, rek 20/1994/p).


    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
—    að hún leggi þau markmið og forgangsröðun sem lögð var til í skýrslunni „Norræn samvinna á nýjum tímum“ til grundvallar við skipulagningu og gerð fjárlaga fyrir norræna samstarfið 1996.

Nr. 19/1995.


Ráðstefnu Norðurlandaráðs um Sameinuðu þjóðirnar fylgt eftir (A 1101/p).


    Norðurlandaráð mælist til þess við ríkisstjórnir Norðurlanda:
—    að þær gefi gaum að og fylgi eftir tillögum í lokaskjali ráðstefnu Norðurlandaráðs um Sameinuðu þjóðirnar í Helsinki 10.–12. janúar 1995 í tengslum við almenna viðleitni til að betrumbæta stofnunina, einkum með tilliti til fundar æðstu manna á sviði félagsmála, sem haldinn verður 6.–12. mars 1995 í Kaupmannahöfn, og fjórðu kvennaráðstefnunnar sem haldin verður 4.–15. september 1995 í Peking.

Nr. 20/1995.


Áætlun um samvinnu Norðurlandsráðs á sviði vinnumarkaðar


og vinnuumhverfis (B 148/s).


    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
—    að hún staðfesti „Áætlun um samvinnu Norðurlandaráðs á sviði vinnumarkaðar og vinnuumhverfis 1995–2000“ í samræmi við ráðherranefndartillögu B 148/s þar sem tekið verði tillit til þeirra sjónarmiða sem fram komu í áliti félagsmálanefndar.

Nr. 21/1995.


Auknar áherslur á sviði heilbrigðismálastefnu í


baráttunni gegn tóbaksreykingum (A 1069/s).


    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina og ríkisstjórnir Norðurlanda:
—    að þær leggi megináherslu á forvarnir gegn tóbaksreykingum í heilbrigðismálastefnu sinni í hverju ríki, á vettvangi Norðurlanda og á alþjóðavettvangi.

Nr. 22/1995.


Aðstæður og lífskjör hreyfihamlaðra á Norðurlöndum (A 1094/s).


    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
—    að hún geri úttekt á ástandi og lífskjörum hreyfihamlaðra með tilliti til staðalreglna Sameinuðu þjóðanna.

Umsagnir:

Nr. 1/1995.


Umsögn Norðurlandaráðs (forsætisnefndarinnar) um tilkynningu um tilmæli


31/2992/p hvað snertir samvinnu á norðurheimskautssvæðinu.


    Norðurlandaráð beinir þeim tilmælum til norrænu ráðherranefndarinnar:
—    að hún semji, á grundvelli umfjöllunar á 46. þingi ráðsins, ráðherranefndartillögu í formi áætlunar um samvinnu á norðurheimskautssvæðinu,
—    að starfið fari fram í náinni samvinnu stofnana Norðurlandaráðs og samstarfsnefndar um norðurheimskautssvæðið og
—    að tillaga um áætlunina verði send Norðurlandaráði svo að það geti tekið hana til meðferðar á 47. þingi sínu.

Nr. 2/1995.


Umsögn Norðurlandaráðs (fjárlaganefndar) um skýrslu norrænu


ráðherranefndarinnar um norræna samvinnu 1994 (C 1).


    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
—    að hún taki tillit til þeirra sjónarmiða sem fram koma í greinargerð fjárlaganefndar, svo og meðfylgjandi umsögnum fagnefnda.

Ákvarðanir um innri málefni:

Nr. 1/1995.


Norræn samvinna á nýjum tímum (A 1102/p).


    Norðurlandaráð hefur tekið eftirfarandi ákvarðanir um innri málefni:
—    að samþykkja markmið og forgangsröðun í skýrslunni „Norræn samvinna á nýjum tímum“ og meginatriði tillagnanna um fyrirkomulag og skipulag samstarfsins,
—    að miða við það sem segir í skýrslunni hvað snertir áframhaldandi framkvæmd tillagnanna,
—    að senda 47. þingi Norðurlandaráðs í Kuopio skýrslu um framgang umbótastarfsins ásamt tillögum um ákveðnar breytingar á starfsháttum ráðsins.

Nr. 2/1995.


Sendimenn sem boða velvild (A 1088/p).


    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
—    að hún ræði með opnum huga markmiðin með þingfulltrúatillögu um sendimenn sem boða velvild, í ljósi yfirstandandi athugunar á upplýsinga- og útgáfustarfi Norðurlandaráðs.



Fylgiskjal II.


Tilmæli, umsagnir og ákvarðanir um innri málefni sem


samþykktar voru á 5. aukaþingi Norðurlandaráðs.


(Kaupmannahöfn, 29. september 1995.)



Tilmæli:

Nr. 23/1995.


Breytingar á Helsinki-sáttmálanum.


    Norðurlandaráð mælist til þess við ríkisstjórnir Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar:
—    að þær geri þær breytingar á 2., 48., 51., 52., 53., 54. og 55. gr. sem tilgreindar eru í Viðauka 3 með forsætisnefndartillögu A 117/p.

Ákvarðanir um innri málefni:

Nr. 3/1995.


Nýtt skipulag og nýir starfshættir Norðurlandaráðs.


    Norðurlandaráð samþykkir eftirfarandi ákvörðun um innri málefni:
—    að samþykkja tillögu forsætisnefndarinnar um nýtt skipulag og nýja starfshætti Norðurlandaráðs en fella þingfulltrúatillögu A 1116/p.

Nr. 4/1995.


Breytingar á vinnureglum Norðurlandaráðs.


    Norðurlandaráð felur forsætisnefndinni:
—    að senda 47. þingi Norðurlandaráðs í Kuopio tillögu um breytingar á vinnureglum ráðsins o.fl. á grundvelli ákvörðunar ráðsins á 5. aukaþingi um nýtt skipulag og nýja starfshætti og breytingar á Helsinki-sáttmálanum.
Fylgiskjal III.



Tilmæli og ákvarðanir um innri málefni, samþykktar


á 47. þingi Norðurlandaráðs.


(Kuopio, 13.–15. nóvember 1995.)



Tilmæli:

Nr. 24/1995.


Framhald umbótaferlisins í norrænni samvinnu (C 2; B 151/b).


    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
—    að hún sjái til þess að tækifæri gefist til að fylgja eftir á farsælan hátt umbótaferlinu „Norræn samvinna á nýjum tímum“, að málinu verði hraðað eins og kostur er, hér eftir sem hingað til, að pólitískum áherslum frá vorinu 1995 verði fylgt eftir með samræmdum hætti og að í fjárlögum verði gert ráð fyrir tilteknum sveigjanleika. Norðurlandaráð er þeirrar eindregnu skoðunar að forsætisnefndinni og nýkjörnum fastanefndum þess eigi að gefast tækifæri til að ræða forgangsröðun við ráðherranefndina. Í þessu sambandi skal grundvöllur viðræðna einnig vera skýrslan „Norræn nytsemi“ ásamt tillögu um aukna fjármögnun notenda (þjónustugjöld), svo og breytingartillögur.

Nr. 25/1995.


Staðfesting fjárlaga fyrir árið 1996 (C 2; B 151/b).


    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
—    að hún geri eftirfarandi breytingar á fjárlagafrumvarpi fyrir árið 1996:
        a.    Sérstök fjárveiting, „heildarframlag“, verði ætluð til stuðnings alþýðufræðslu og námsflokkum undir liðnum „2.2 Tímabundnar áætlanir og almennar stuðningsaðgerðir“. „Heildarframlagið“ nemi 2,6 milljónum danskra króna. Fjármögnun verði með þeim hætti að liðurinn „2.2.3 Stýrihópur fyrir fyrir fullorðinsfræðslu og alþýðufræðslu“ verði skorinn niður um 2,6 milljónir danskra króna.
        b.    Undir liðnum „1.3.5 Norræna ungmennanefndin“ skal verja 80% (3,8 milljónum danskra króna) af fjárveitingunni, sem nemur samtals 4,7 milljónum danskra króna, til almennra stuðningsaðgerða fyrir norræn barna- og ungmennasamtök.
        c.    Aukin fjárveiting til Norræna alþýðusafnaðarins, 350.000 danskar krónur, en jafnframt því er liður „4.4 Bygginga- og húsnæðisgeirinn“ skorinn niður um 350.000 danskar krónur.

Nr. 26/1995.


Skýrslugjöf ráðherranefndarinnar til


Norðurlandaráðs (C 2; B 151/b).


    Norðurlandaráð leggur til að Norræna ráðherranefndin taki tillit til eftirfarandi:
—    að ráðið og stofnanir þess óska eftir því án tafar að hefja viðræður við ráðherranefndina um hvernig starfsskýrsla, ársreikningur og tillögur um starfsáætlun og frumvarp til fjárlaga skuli meðhöndluð eftir breytta tímasetningu þegar ársþing verður haldið að hausti til; umræðan á fyrst og fremst snúast um eftirfarandi:
        —    að meginreglan sé sú að ráðinu og stofnunum þess gefist tækifæri til þess í tæka tíð að ræða áætlanir, forgangsröðun og áhrif á fjárlög þannig að hægt sé að taka tillit til þess,
        —    að ráðherranefndin veiti ráðinu upplýsingar jafnóðum, án þess að bið verði á, hvað snertir ársreikning liðins árs, yfirfærslu fjár til verkefna, fjárhagsspá o.fl.,
        —    að pólitískum stjórntækjum í formi starfsáætlunar og fjárlaga verði breytt og þau gerð einfaldari, bæði hvað snertir innihald og form, til þess að koma betur til móts við kröfur um yfirsýn og auðvelda þar með áframhaldandi umbótastarf: að fjármunum hinna norrænu fjárlaga verði beint að þeim sviðum sem njóta forgangs.

Nr. 27/1995.


Betri upplýsingar um löggjöf annarra norrænna ríkja (A 1121/b).


    Norðurlandaráð mælist til þess við ríkisstjórnir Norðurlanda:
—    að þær kynni lög og reglugerðir annarra Norðurlanda þegar þjóðþingin fjalla um lagafrumvörp.

Nr. 28/1995.


Mat á norrænum samstarfsstofnunum (B 156/p).


    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
—    að hún veiti Norðurlandaráði aðgang að niðurstöðum yfirstandandi umsagnarferlis um úttektarskýrsluna á samnorrænum stofnunum, ásamt þeim ályktunum sem af henni má draga,
—    að hún gefi ráðinu tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, jafnvel áður en samstarfsráðherrarnir leggja línurnar fyrir fjárlög norrænnar samvinnu fyrir árið 1997 og
—    að hún gefi stofnunum ráðsins upplýsingar um áframhaldandi athugun á stofnununum.

Nr. 29/1995.


Framkvæmdaáætlun fyrir norræna samvinnu á sviði


land- og skógarnytja 1996–2000 (B 154/m).


    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
—    að hún staðfesti framkvæmdaáætlunina um samvinnu á sviði land- og skógarnytja 1996–2000, í samræmi við ráðherranefndartillögu (B 154/m), með tilliti til þeirra sjónarmiða sem komu fram í áliti umhverfismálanefndar,
—    að ráðherranefndin í fjárlögum sínum fyrir árið 1997 og síðan á meðan framkvæmdaáætlunin stendur yfir leggi til nauðsynlega fjármuni, u.þ.b. 23 milljónir danskra króna árið 1995, til norrænnar samvinnu á sviði land- og skógarnytja 1996–2000.

Nr. 30/1995.


Stofnfjáraukning í Norræna umhverfisfjármögnunar-


félaginu (NEFCO) (B 155/m).


    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
—    að hún auki stofnfé Norræna umhverfisfjármögnunarfélagsins og geri breytingar á 2., 3. og 10. gr. í lögum félagsins í samræmi við ráðherranefndartillögu (B 155/m) og taki tillit til þeirra sjónarmiða sem fram komu í tillögum umhverfismálanefndar.

Nr. 31/1995.


Framkvæmdaáætlun um samvinnu á norður-


heimskautssvæðinu (B157/m).


    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
—    að hún staðfesti framkvæmdaáætlun um samvinnu á norðurheimskautssvæðinu í samræmi við ráðherranefndartillögu (B 157/m) og taki tillit til þeirra sjónarmiða sem fram komu í tillögum umhverfismálanefndar og
—    að ráðherranefndin í fjárlögum sínum fyrir árið 1997 og í síðari fjárlögum leggi fram fé til samræmingar í norrænum aðgerðum á norðurheimskautssvæðinu og að fjárframlög séu nægilega mikil til að hvetja til viðbótarframlaga frá fjármögnunaraðilum í einstökum ríkjum og á alþjóðavettvangi.

Nr. 32/1995.


Áhrif þjóðþinga á samvinnu á norður-


heimskautssvæðinu (B 157/m).


    Norðurlandaráð mælist til þess við ríkisstjórnir Norðurlanda:
—    að í yfirstandandi viðræðum ríkisstjórnanna um stofnun norðurheimskautsráðs stuðli þær að því að komið sé á samskiptaháttum í formi fastanefndar þingmanna sem geri mögulegar hnitmiðaðar viðræður milli ríkisstjórna og þjóðþinga þeirra landa sem liggja að norðurheimskautinu og
—    að þær stuðli að því að norðurheimskautsráðinu sé lögð til fastaskrifstofa og að starfsemi hennar verði fjármögnuð með sameiginlegum árlegum fjárlögum sem aðildarríki ráðsins leggi fram fjármuni til samkvæmt samkomulagi sínu um skiptingu slíkra framlaga sín á milli.

Nr. 33/1995.


Lögbundin umhverfisgjöld og -skattar í ESB (A 1108/m).


    Norðurlandaráð mælist til þess við ríkisstjórnir Norðurlanda:
—    að þær haldi áfram að stuðla að því innan ESB að komið verði á lögbundnum koltvísýringsskatti ásamt hertum og bindandi kröfum um útblástur loftmengandi efna, m.a. köfnunarefnisoxíða og brennisteinsoxíða.

Nr. 34/1995.


Svæðisbundin samvinna á sviði orkumála (A 1119/m).


    Norðurlandaráð mælist til þess við ríkisstjórnir Norðurlanda:
—    að þær stofni til áætlunar, í samráði við Eystrasaltsríkin og Rússland, um að koma á fót svæðisbundnu visthæfu orkukerfi sem væri, að svo miklu leyti sem við verður komið, byggt á nýtingu endurnýjanlegra orkulinda og
—    að þáttur í því að koma áætluninni á fót verði að kanna skilyrðin fyrir jarðgaskerfi með jarðgasi fengnu frá Noregi og Rússlandi þar með talið lagningu jarðgaslagnar frá Noregi um Svíþjóð til Finnlands, svo og með hvaða skilyrðum Eystrasaltsríkin geti tengst slíku kerfi.

Nr. 35/1995.


Starfsáætlun um norræna barna- og


unglingamenningu (NB 153/k).


    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
—    að hún staðfesti tillögu um starfsáætlun um samvinnu á sviði norrænnar barna- og unglingamenningar fyrir árin 1996–2000, með þeim fyrirvara að ráðherranefndin vinni áfram að gerð tillögunnar um starfsáætlun um samvinnu á sviði barna- og unglingamenningar (B 153/k) og leggi fram á næsta þingi Norðurlandaráðs endurskoðaða tillögu, þar sem m.a. er tekið tillit til eftirtalinna atriða:
        —    að leitað verði eftir framlögum norrænna menntamála- og rannsóknamálaráðherra til samvinnu á sviði barna- og unglingamenningar og að þau verði hluti af áætluninni,
        —    að menningarmálanefndin styðji ekki stofnun sjóðsins „Lifandi Norðurlönd“,
        —    að menningarmálanefndin er hikandi um stofnun stýrihóps fyrir barna- og unglingamenningu,
        —    að menningarmálanefndin æskir þess að ekki verði dregið úr því grunnframlagi sem veitt hefur verið til barna- og unglingasamtaka frá því sem nú er,
        —    að mótuð verði norræn stefna um menningarþróun í þeim samfélögum Norðurlanda þar sem finnast margir menningarkimar,
        —    að norræna ráðherranefndin veiti Norðurlandaráði stöðugt upplýsingar um framvindu starfsáætlunarinnar.

Nr. 36/1995.


Samvinna um menntun túlka og þýðenda innan ESB (A 1086/k).


    Norðurlandaráð mælist til þess við ríkisstjórnir Norðurlanda:
—    að þær vinni að því í samvinnu við hlutaðeigandi stofnanir ESB að auka samvinnu um menntun í því skyni að fullnægja sem fyrst þörfinni fyrir túlka og þýðendur í Norðurlandamálum.

Nr. 37/1995.


Þróun mál- og menningarkenndar barna sem tengjast


tveim eða fleiri menningarheimum (A 1112/k).


    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
—    að hún geri sérstakar ráðstafanir til að stuðla að möguleikum norrænna barna, sem tengjast tveim eða fleiri menningarheimum, til að þróa með sér hinar mismunandi hliðar á málfars- og menningarlegum einkennum sínum innan þess kerfis sem býður upp á hreyfanleika nemenda og kennara og hins norræna tölvunetkerfis milli skóla á sviði norrænnar samvinnu.

Nr. 38/1995.


Norrænt löggjafarstarf í framtíðinni (A 1114/j).


    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
—    að norræn samvinna um löggjöf haldi áfram í sama mæli og áður,
—    að Norðurlandaþjóðir kynni hver annarri um markmið og efni löggjafar áður en hún er samþykkt og leiti upplýsinga um að hve miklu leyti svipaðar ráðstafanir hafi verið gerðar annars staðar á Norðurlöndum,
—    að Norðurlandaþjóðir hefji snemma samvinnu þegar undirbúin er löggjöf sem nær til norrænna þegna,
—    að Norðurlandaþjóðir stuðli að því, við framkvæmd reglugerða ESB og reglugerða sem leiðir af samningnum um EES, að svo miklu leyti sem hægt er og í samræmi við þær skyldur sem hvíla á einstökum ríkjum, að slíkar reglugerðir séu framkvæmdar með sama hætti á öllum Norðurlöndum í því skyni að stofna eða varðveita samræmi hins norræna réttarkerfis á sem flestum sviðum stjórnsýslunnar,
—    að framkvæmd sams konar reglugerða verði með sama hætti að svo miklu leyti sem unnt er, þ.e. hlíti sömu meginreglum,
—    að dómsmálaráðherrar Norðurlanda gefi ráðinu skýrslu árlega um hvaða ný lög hafi verið samþykkt og gengið í gildi á árinu á Norðurlöndum og geri grein fyrir framtíðaráætlunum í hverju ríki og á vettvangi Norðurlanda.

Nr. 39/1995.


Jöfn réttarstaða norrænna ríkisborgara með tilliti til


umboðsmanna þjóðþinga Norðurlanda (A 1122/j).


    Norðurlandaráð mælist til þess við ríkisstjórnir Norðurlanda:
—    að þær stofni til samvinnu til að sjá til þess að yfirvöld á Norðurlöndum stuðli að því að skipa málum með þeim hætti að umboðsmönnum þjóðþinganna sé kleift að að hafa eftirlit með því að réttarstaða norrænna ríkisborgara sé samkvæmt því sem ætlast er til eins og fram kemur í 2. gr. Helsinki-sáttmálans.

Nr. 40/1995.


Aukin samvinna norrænna athvarfa fyrir sjómenn (A 1110/s).


    Norðurlandaráð mælist til þess við ríkisstjórnir Norðurlanda:
—    að þær geri ráðstafanir til að styrkja og auka norræna samvinnu milli norrænna athvarfa fyrir sjómenn fyrir tilstilli norræna sjómannakirkjuráðsins og styðji hina mikilvægu starfsemi þess erlendis í þágu norrænna ríkisborgara.

Nr. 41/1995.


Þjálfun upplýsingagjafa um ávana- og fíkniefni


á grannsvæðum Norðurlanda (A 1118/s).


    Norðurlandaráð mælist til þess við norrænu ráðherranefndina:
—    að hún stofni til þjálfunar ungmenna á grannsvæðum Norðurlanda sem upplýsingagjafa um ávana- og fíkniefni í náinni samvinnu við norrænu tengiliðanefndina um ávana- og fíkniefnamál og önnur hlutaðeigandi stjórnvöld, stofnanir og samtök á Norðurlöndum og grannsvæðum þeirra sem taka þátt í baráttunni gegn ávana- og fíkniefnum.

Ákvarðanir um innri málefni:

Nr. 4/1995.


Norræna samvinna í þjóðþingunum (A 1121/b)


(eftirlitshlutverk fjárlaganefndar).


    Norðurlandaráð samþykkir:
—    að forsætisnefndinni verði fengið það hlutverk að bera ábyrgð á því að koma á betri tengslum milli norrænnar samvinnu — Norðurlandaráðs — og starfsins á vettvangi þjóðþinga Norðurlanda, þingflokka og stjórnmálaflokka á Norðurlöndum. Forsætisnefndinni ber að taka tillit til þeirra tillagna sem komið hafa fram við athugun fjárlaganefndar.

Nr. 5/1995.


Ársreikningur og skýrsla endurskoðenda


Norðurlandaráðs (C 9/b).


    Norðurlandaráð samþykkir:
—    að tekið verði á þeim brotalömum í stjórnun á starfsemi ráðsins sem endurskoðendur hafa gagnrýnt.

Nr. 6/1995.


Breytingar á starfsháttum Norðurlandaráðs (A 1120/p).


    Norðurlandaráð samþykkir:
—    að viðurkenna tillögu forsætisnefndar um breytingar á starfsháttum Norðurlandaráðs (A 1120/p: fylgiskjal),
—    að breytingar á starfsháttum gangi í gildi sama dag og breytingar á Helsinki-sáttmálanum ganga í gildi.



Fylgiskjal IV.


Fyrirspurnir til ráðherranefnda og ríkisstjórna Norðurlanda


frá fulltrúum Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.



Hjörleifur Guttormsson:
    Fyrirspurn E12/1995 til ráðherranefndar Norðurlanda og ríkisstjórna Danmerkur, Svíþjóðar og Finnlands fyrir 46. þing Norðurlandaráðs um samnorrænt vegabréfasvæði á Norðurlöndum.
Hjörleifur Guttormsson:
    Fyrirspurn E14/1995 til ráðherranefndar Norðurlanda fyrir 46. þing Norðurlandaráðs um norræna sáttmála og samnorrænar skýringar á ESB-rétti á sviði félagslegs öryggis.
Neðanmálsgrein: 1
    Tilmæli 1–22/1995, ásamt samþykktum um innri málefni, nr. 1–2/1995, sjá skýrslu um 46. þing Norðurlandaráðs sem haldið var árið 1995.
    Tilmæli 23/1995, ásamt ákvörðunum um innri málefni, nr. 3 og 4/1995, sjá skýrslu um 5. aukaþing Norðurlandaráðs sem haldið var árið 1995.
Neðanmálsgrein: 2
    Tilmæli 1–22/1995, ásamt samþykktum um innri málefni, nr. 1 og 2/1995, sjá skýrslu um 46. þing Norðurlandaráðs sem haldið var árið 1995.
    Tilmæli 23/1995, ásamt ákvörðunum um innri málefni, nr. 3 og 4/1995, sjá skýrslu um 5. aukaþing Norðurlandaráðs sem haldið var árið 1995.