Ferill 217. máls. Ferill 218. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 217. og 218 . mál.


834. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 131/1990, um Háskóla Íslands, og um frv. til l. um breyt. á l. um Háskólann á Akureyri, nr. 51/1992, með síðari breytingu.

Frá 2. minni hluta menntamálanefndar.



    Á síðustu árum hafa ákvarðanir stjórnvalda valdið því að almenningi er nú í ríkari mæli gert að greiða fyrir opinbera þjónustu sem áður var veitt endurgjaldslaust. Vegna þeirrar meginreglu að stjórnsýslan er lögbundin þarf skýra lagaheimild til slíkrar gjaldtöku. Þegar um er að ræða einfalda lagaheimild til töku þjónustugjalds, eins og gert er ráð fyrir í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Háskóla Íslands, á gjaldið almennt ekki að vera hærra en sá kostnaður sem hlýst af því að veita umrædda þjónustu. Með öðrum orðum er einungis heimilt að taka gjald til að standa straum af þeim kostnaði sem heimildin kveður á um, í þessu tilviki skrásetningu. Kostnaðurinn verður að vera í nánum og efnislegum tengslum við þá þjónustu sem gjaldandinn er að greiða fyrir.
    Skólaárið 1992–1993 knúðu stjórnvöld Háskólann til að innheimta mun hærri skráningargjöld af stúdentum en áður hafði þekkst og það án þess að gera að fullu grein fyrir hvaða kostnaði þessi gjöld áttu að standa undir. Síðar var reynt að flokka þá útgjaldaliði Háskólans sem hægt var að flokka sem kostnað við skráningu. Samkvæmt áliti umboðsmanns Alþingis nr. 836/1993 og með hliðsjón af upplýsingum frá Háskóla Íslands er kostnaðurinn við skrásetningu hvers nemanda sem hér segir (í krónum):
—    Nemendaskrá, skrifstofa
2.188

—    Póstsendingar vegna námsferilsyfirlits
  140

—    Auglýsingar vegna skráningar
   43

—    Kennsluskrá
  500

    Hins vegar kemur í ljós að ýmislegt annað fær að fljóta með í útreikninginn sem á engan hátt er hægt að fella undir kostnað við skrásetningu, svo sem kostnaður af námsráðgjöf og námskynningu, prófgæslu og prófdómurum, aðgangi nemenda að tölvum, útprentun hjá Reiknistofnun o.s.frv.
    Með því að samþykkja þessa fjárhæð, 24.000 kr., sem tilgreind er í frumvarpinu sem kostnaður við skrásetningu, er löggjafinn að fallast á að þeir kostnaðarliðir, sem gefur að líta í fylgiskjali sem rökstuðning við fjárhæð skrásetningargjaldsins, séu raunverulegur kostnaður við skrásetningu. Má því í raun segja að þetta háa gjald, sem stúdentar við Háskóla Íslands þurfa að greiða, geti verið lognið á undan storminum því að ávallt verður hægt að vísa til þess að Alþingi hafi lögfest þessa kostnaðarliði sem raunverulegan kostnað við skrásetningu.
    Grundvallarspurning, sem Alþingi verður að svara, er hvort um raunverulegan kostnað við skrásetningu sé að ræða eða hvort verið sé að fara bakdyraleiðina að því að koma á skólagjöldum á Íslandi. Um það verða greidd atkvæði.
    Í ljósi þessa leggur 2. minni hluti fram breytingartillögur við frumvörpin á sérstökum þingskjölum.
    Svanfríður Jónasdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hún samþykk áliti þessu.

Alþingi, 23. apríl 1996.



Lúðvík Bergvinsson,

Sigríður Jóhannesdóttir.


frsm.