Ferill 127. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 127 . mál.


855. Skýrsla



fjármálaráðherra um áhrif 14% virðisaukaskatts á bóka-, blaða- og tímaritaútgáfu, samkvæmt beiðni.

    Í þessari skýrslu er að beiðni Alþingis leitast við að draga fram áhrif álagningar 14% virðisaukaskatts á bóka-, blaða- og tímaritaútgáfu og er fyrst og fremst byggt á gögnum frá embætti ríkisskattstjóra um veltu í viðkomandi atvinnugreinum (upplýsingar frá fyrirtækjunum sjálfum) auk skýrslna frá Þjóðhagsstofnun um afkomu einstakra atvinnugreina. Skattlagningin kom til framkvæmda á miðju ári 1993. Til að fá marktækan samanburð milli ára var talið nauðsynlegt að fyrir lægju upplýsingar um ýmis þau atriði sem spurt er um fyrir að minnsta kosti tvö heil ár, þ.e. árin 1994 og 1995. Af þessum sökum hefur ekki verið unnt að svara fyrirspurninni fyrr og er beðist velvirðingar á því.
    Rétt er að benda á að ekki er unnt að svara með óyggjandi hætti hvaða áhrif breyting á tilteknum skatti, svo sem virðisaukaskatti, kann að hafa haft á afkomu eða umsvif í einstökum atvinnugreinum. Ástæðan er einfaldlega sú að þessi áhrif er ekki hægt að einangra frá öðrum þáttum sem einnig hafa áhrif á framvinduna. Hér skiptir því máli hvernig framvinda efnahagsmála almennt hefur verið, kaupmáttarþróun almennings, verðlagsþróun o.fl. auk hugsanlega sérstakra aðstæðna í einstökum atvinnugreinum. Af þessum ástæðum hefur hér verið farin sú leið að draga upp mynd af afkomu og veltu í þeim atvinnugreinum sem fást við bóka-, blaða- og tímaritaútgáfu og bera þróunina saman við aðrar atvinnugreinar. Jafnframt er reynt að draga ályktanir svo sem fyrirliggjandi upplýsingar gefa tilefni til og nálgast þannig svör við spurningunum.

1.    Aðdragandi.
    Í lok árs 1992 samþykkti Alþingi umfangsmiklar breytingar í skattamálum þar sem meðal annars var kveðið á um verulega fækkun undanþága frá virðisaukaskatti. Frá 1. janúar 1993 hefur verið lagður 14% virðisaukaskattur á húshitunarkostnað og frá 1. júlí 1993 á afnotagjöld sjónvarps og útvarps, íslenskar bækur, blöð og tímarit. Rökin fyrir þessum breytingum voru að mikill fjöldi undanþága torveldaði skatteftirlit og stuðlaði að undanskotum. Auk þess voru ekki talin sjáanleg rök fyrir því að undanþágur í íslenska virðisaukaskattkerfinu ættu að vera víðtækari en hjá öðrum þjóðum. Þannig eru bækur, blöð og tímarit víðast hvar skattlögð í Evrópu, oftast í lægra þrepi en almennar vörur og þjónusta. Álagning 14% virðisaukaskatts á íslenskar bækur, blöð og tímarit er þannig í fullu samræmi við ríkjandi stefnu Evrópuríkja í skattamálum.
    Rétt er að vekja athygli á því að samkvæmt upphaflegu lögunum um virðisaukaskatt sem tóku gildi í ársbyrjun 1990 var lagður 24,5% virðisaukaskattur á bækur, en áður báru þær 25% söluskatt. Haustið 1990 var ákveðið að undanþiggja bækur virðisaukaskatti. Sú ákvörðun að leggja 14% virðisaukaskatt á íslenskar bækur árið 1993 felur í sér mun minni skattlagningu en var á dögum söluskattsins. Auk þess safnaðist söluskattur upp í verði bóka þar sem hann var einnig lagður á aðföng og því voru áhrif hans á skattlagningu mun meiri en af 14% virðisaukaskatti. Framleiðsla og sala dagblaða og tímarita var hins vegar undanþegin virðisaukaskatti fram til ársins 1993 og söluskatti þar áður.

2.     Tekjur ríkissjóðs af 14% VSK á bækur, blöð og tímarit.
    Fyrsta spurningin snýr að þeim tekjum sem skattlagning bóka, blaða og tímarita hefur skilað í ríkissjóð. Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra var innheimta virðisaukaskatts af bóka-, blaða- og tímaritaútgáfu sem hér segir á tímabilinu 1. júlí 1993 til ársloka 1995 (tölur fyrir 1993 eru ekki sambærilegar við 1994 og 1995 því að þær eru aðeins fyrir síðari hluta ársins):

Virðisaukaskattur af bókum, blöðum og tímaritum.


Í milljónum króna     
1993
1994 1995


I.     Atvgr. 284. Útgáfa blaða, bóka og tímarita:
    Útskattur, 14%     
234
417 415
    Innskattur, áætlun     
165
245 237
    Nettóskil     
69
172 178

II.    Atvgr. 623. Bóka- og ritfangaverslun:
    Útskattur, 14%     
93
185 191
    Innskattur, áætlun     
77
146 150
    Nettóskil     
16
39 41

III.    Atvgr. 281, 282 og 282. Prentun, prentmyndagerð, bókband:
    Útskattur, 14%     
10
16 17
    Innskattur, áætlun     
4
7 7
    Nettóskil     
6
9 10

IV.     Samtals 1)
    Útskattur, 14%     
337
618 623
    Innskattur, áætlun 2)     
246
398 394
    Nettóskil     
91
220 229
    
1)    Í þetta yfirlit vantar sölutölur verslana, eins og söluturna, bensínstöðva og stórmarkaða, en sala þeirra hefur farið vaxandi á undanförnum árum.
2)    Innskattur atvinnugreina er ekki sundurliðaður eftir því hvort um er að ræða sölu/framleiðslu á vöru eða þjónustu með 14% VSK eða 24½% VSK. Hér er sú skipting áætluð sem hlutfall af veltu.

    Af þessu yfirliti má ráða að árlegar virðisaukaskatttekjur ríkissjóðs af sölu íslenskra bóka, blaða og tímarita nemi rúmlega 600 m.kr. brúttó og liðlega 200 m.kr. nettó. Inn í þessar tölur vantar hins vegar eins og segir í athugasemd með töflunni sölutölur verslana, eins og söluturna, bensínstöðva og stórmarkaða. Lauslega áætlað má því reikna með að skattlagningin skili nálægt 700 m.kr. brúttó þegar allt er talið, en um 300 m.kr. að teknu tilliti til innskattsfrádráttar. Rétt er að nefna að lágar veltutölur í prentiðnaði skýrast af því að prentþjónusta ber 24,5% virðisaukaskatt sem myndar innskattsfrádrátt hjá útgáfunum. Einnig má benda á að erlendar bækur bera 24,5% virðisaukaskatt.

3.     Fjöldi útgáfufyrirtækja og velta prentiðnaðar.
    Til að nálgast svar við spurningunni um áhrif skattlagningarinnar á afkomu fyrirtækjanna, sölu og almenn umsvif voru skoðaðar tölur um veltu og fjölda fyrirtækja annars vegar og afkomu hins vegar. Hér verður þó að ítreka að þessar upplýsingar gefa ekki óyggjandi svör við spurningunum þar sem ekki er hægt að greina áhrif skattlagningarinnar frá öðrum atriðum, svo sem almennu efnahagsástandi o.fl.
    Lítum fyrst á veltu- og fjöldatölur. Miðað er við tölur síðari árshelmings hvers undangenginna þriggja ára skipt eftir innheimtutímabilum, þ.e. veltu í júlí og ágúst (4. tímabil), september og október (5. tímabil) og nóvember og desember (6. tímabil). Þannig ætti að fást þokkalegt yfirlit yfir þróunina frá því að 14% virðisaukaskattur var tekinn upp á íslenskar bækur, blöð og tímarit um mitt ár 1993.

Heildarvelta og fjöldi fyrirtækja í prentun, bóka- og blaðaútgáfu 1993–1995.


Skipt eftir innheimtutímabilum VSK.



                   

- 1 9 9 3 -

- 1 9 9 4 -

- 1 9 9 5 -


                   
4.
5. 6. 4. 5. 6. 4. 5. 6.


I. Prentun (281):
Fjöldi fyrirtækja, 24,5% VSK 1)
183
186 176 158 162 180 171 185 186
Velta alls, m.kr.
520
635 801 553 658 873 639 750 927

Samanlögð velta júlí–des., m.kr.
1.956 2.084 2.316
Hækkun milli ára, %
6,5 11,1

II. Bókaútgáfa, bókaverslun (284,623)2):
Fjöldi fyrirtækja, 14% VSK
186
228 233 227 240 258 234 245 293
Velta, m.kr.
467
719 1.151 569 775 1.113 557 762 1.173

Samanlögð velta júlí–des., m.kr.
2.337 2.457 2.492
Hækkun milli ára, %
5,1 1,4
    
1)    Hverfandi fjöldi fyrirtækja í þessari atvinnugrein selur bækur, blöð og tímarit í smásölu, heldur er hér fyrst og fremst um sölu á prentþjónustu að ræða, en hún ber 24,5% skatt.
2)    Hér er um að ræða veltu með 14% virðisaukaskatti í atvgr. 284, bóka- og blaðaútgáfu og atvgr. 623, bókaverslun. Einnig þarf að hafa í huga að bóka- og blaðasala hefur aukist umtalsvert í öðrum tegundum verslunar á undanförnum árum, einkum þó stórmörkuðum.

    Þó að þessar tölur þurfi að skoða með nokkrum fyrirvara vegna tilfærslu milli tímabila er ekkert sem bendir til að fyrirtækjum hafi fækkað í þessum greinum á undanförnum árum. Þvert á móti hefur fyrirtækjum sem gefa út og selja bækur, blöð og tímarit fjölgað um rúmlega 19% frá árinu 1993. Þá hefur velta þessara fyrirtækja aukist þegar á heildina er litið þrátt fyrir að ljóst sé að nokkur tilflutningur hefur átt sér stað yfir í aðrar tegundir verslunar, eins og stórmarkaði. Svipuð þróun er í prentþjónustu. Þessar tölur einar og sér gefa hvorki til kynna að álagning 14% virðisaukaskatts hafi stuðlað að fækkun fyrirtækja í þessum greinum né samdrætti í veltu þeirra.

4.     Afkoma prentsmiðja og útgáfufyrirtækja.
    Þjóðhagsstofnun gaf nýlega út skýrslu um afkomu einstakra atvinnugreina á árinu 1993 (Atvinnuvegaskýrsla 1993; febrúar 1996). Heildaruppgjörs fyrir árið 1994 er hins vegar ekki að vænta fyrr en undir lok þessa árs. Meðal þess sem er að finna í skýrslunni eru yfirlit yfir hagnað atvinnugreina af reglulegri starfsemi í hlutfalli við rekstrartekjur allt aftur til ársins 1983. Hér eru birtar tölur fyrir tímabilið 1988 til 1993. Enn fremur hefur stofnunin gefið út sérstaka skýrslu um afkomu einstakra atvinnugreina sem byggir á athugun á ársreikningum 1.440 fyrirtækja fyrir árin 1993 og 1994, sbr. meðfylgjandi töflu. Rétt er að árétta að um er að ræða úrtaksathugun en ekki heildarúttekt á afkomu greinanna.

Hagnaður af reglulegri starfsemi sem % af rekstrartekjum 1988–1993.



         

Ársreikningar


         

- Atvinnuvegaskýrsla ÞHS -

fyrirtækja


              1988
1989
1990 1991 1992 1993 1993  1994



Prentun, útgáfa, sala bóka,
 blaða og tímarita     
0,0
-0,3 5,1 3,6 2,7 -0,4 0,2 4,2

Prentun (atvgr. 281)     
1,1
2,0 5,6 6,8 6,9 2,7 3,2 6,2
Bóka- og blaðaútgáfa (atvgr. 284)     
0,0
2,0 4,3 2,2 0,6 -3,7 -3,7 1,8
Bókaverslanir (atvgr. 623)     
-1,8
-9,5 6,1 1,7 1,2 2,9 2,2 0,3

Til samanburðar:
Allar greinar     
-2,2
0,0 4,3 0,8 -0,7 -0,3 0,0 3,8
Smásöluverslun (atvgr. 617-629)     
-3,1
0,4 3,5 1,1 1,2 0,9 1,8 2,9
Stórmarkaðir (atvgr. 629)     
-4,1
-0,5 2,8 0,5 -2,0 0,2 1,2 3,3
Skemmtanir, menningamál (atvgr. 851-859)     
-2,5
-1,4 3,7 5,1 7,1 5,1


    Samkvæmt þessum upplýsingum hefur afkoma í prentþjónustu, bóka-, blaða- og tímaritaútgáfu verið nokkuð misjöfn eftir einstökum greinum. Prentþjónusta stendur greinilega best að vígi, en bóka- og blaðaútgáfa og -sala heldur lakar. Þó er athyglisvert að afkoma allra þessara greina batnar verulega í kjölfar upptöku virðisaukaskatts árið 1990. Þar gætir vafalaust áhrifa þess að greinarnar hafa getað nýtt sér innskattsfrádráttinn, en sá möguleiki var ekki fyrir hendi í söluskattskerfinu.
    Einnig er athyglisvert að afkoma greinanna batnar umtalsvert milli áranna 1993 og 1994. Þótt hér gæti vafalaust að einhverju leyti áhrifa batnandi efnahagsástands gefa þessar tölur ekki tilefni til að ætla að álagning virðisaukaskatts hafi valdið þungum búsifjum. Þá er rétt að vekja athygli á því að afkoma þeirra greina sem fást við prentun og sölu bóka og tímarita sýnist að jafnaði hafa verið betri en afkoma annarra greina á þessu tímabili.

5.     Ýmis atriði.
    Fjöldi útgefinna bóka, blaða og tímarita.
Ekki liggja fyrir tölur á reiðum höndum um eintakafjölda útgefinna bóka, blaða og tímarita. Samkvæmt upplýsingum Landsbókasafns Íslands - Háskólasafns er hins vegar hægt að nálgast hve margir titlar hafa verið gefnir út. Þessar tölur sýna að fjöldi bókatitla nam um 1.600 hvort ár 1990 og 1991, náði hámarki í 1.740 árið 1992, en hefur síðan farið minnkandi, í 1.520 árið 1993 og 1.427 árið 1994. Einnig er athyglisvert að fjöldi tímarita hefur stóraukist undanfarin ár, eða úr 562 árið 1990 í 629 árið 1993 og 938 árið 1994. Sömu þróunar gætir í útgáfu blaða, en þeim hefur fjölgað um tæplega þriðjung frá árinu 1990.
    Þótt þessar upplýsingar gefi takmarkaðar vísbendingar um heildarfjölda útgefinna bóka, blaða og tímarita, þ.e. bæði fjölda titla og seld eintök, virðist sem fyrr erfitt að álykta að þær endurspegli neikvæð áhrif álagningar virðisaukaskatts. En sem fyrr segir er erfitt að draga einhlítar ályktanir af þessu talnaefni.
     Fjöldi starfa. Ekki liggja fyrir upplýsingar um fjölda starfa í þessum atvinnugreinum eftir árið 1993. Hins vegar hefur störfuð í öllum þessum greinum fækkað frá árinu 1990, um tæplega 9% í heild, eða sem svarar til 200 ársverka. Hér gætir ekki áhrifa virðisaukaskattsins því að hann var ekki lagður á fyrr en á miðju ári 1993 sem fyrr segir. Þessi þróun endurspeglar vafalaust áhrif erfiðs efnahagsástands á þessu tímabili sem hefur kallað á samdrátt og aukna hagræðingu í þessum greinum. Ekki má heldur gleyma stóraukinni tölvunotkun sem á sinn þátt í þessari þróun.
     Fjöldi gjaldþrota, afkoma rithöfunda o.fl. Upplýsingar um fjölda gjaldþrota eftir atvinnugreinum liggja ekki fyrir á sundurliðuðu formi. Hins vegar sýna tölur Hagstofu Íslands að gjaldþrotum fyrirtækja hefur almennt fjölgað á undanförnum árum. Þó virðist hafa hægt verulega á þessari þróun milli áranna 1993 og 1994, en fjöldi gjaldþrota fyrirtækja hélst nánast óbreyttur milli ára. Þá liggja heldur ekki fyrir upplýsingar um afkomu rithöfunda eða um hvort og í hvaða mæli verkefni tengd bóka- og blaðaútgáfu kunna að hafa flust úr landi.
     Hefur ríkissjóður tapað fé vegna samdráttar o.s.frv.? Af þeim upplýsingum sem hér hefur verið fjallað um er ekki unnt að draga þá ályktun að velta fyrirtækja hafi minnkað frá árinu 1993. Þvert á móti jókst veltan talsvert milli áranna 1993 og 1994 og einnig nokkuð, þó minna, milli 1994 og 1995. Samkvæmt því má ætla að tekjur ríkissjóðs hafi fremur aukist en hitt, eins og fram kemur fyrr í þessari skýrslu.
    Samkeppnisstaðan. Á undanförnum árum hafa átt stað umfangsmiklar breytingar á skattlagningu fyrirtækja á öllum sviðum. Árið 1990 var álagningarkerfi launatengdra gjalda umbylt með upptöku tryggingagjalds í stað margra smærri gjalda. Þá hafa orðið miklar breytingar á tekjuskattlagningu fyrirtækja, jafnframt því að skatthlutfallið hefur verið lækkað um þriðjung, úr 50% í 33%. Síðast en ekki síst var aðstöðugjaldið fellt niður á árinu 1993, en við það dró verulega úr mismunun milli einstakra atvinnugreina. Þegar allt er lagt saman hafa skattar íslenskra fyrirtækja því lækkað verulega á undanförnum árum og óhætt er að fullyrða að skattalegt umhverfi atvinnulífsins sé síst lakara en gerist í nágrannalöndunum. Samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja, jafnt innbyrðis og gagnvart erlendum keppinautum, hefur þannig gjörbreyst. Þessi bættu skilyrði nýtast að sjálfsögðu jafnt prentsmiðjum, bókaútgáfum og bóksölum eins og öðrum fyrirtækjum. Ljóst er að staða bókaútgefenda og tengdrar starfsemi er að því leyti betri í dag en var fyrir daga virðisaukaskattsins. Jafnframt má benda á að ýmislegt annað menningarefni í beinni samkeppni við bækur, blöð og tímarit ber 24½% virðisaukaskatt, sbr. hljómplötur, geisladiskar, myndbönd o.fl.

6.     Niðurstaða.
    Enn er rétt að ítreka þá fyrirvara sem hér hafa verið nefndir, bæði við ýmsar þær upplýsingar sem hér hafa verið settar fram og eins að ógerlegt er að greina sérstaklega áhrif virðisaukaskatts frá öðrum áhrifum. Því er óvarlegt að draga of miklar ályktanir af þessu efni. Hins vegar virðist við skoðun á þessu talnaefni ekki ástæða til að ætla að álagning virðisaukaskatts á þessar tilteknu atvinnugreinar hafi rýrt stöðu þeirra.