Ferill 518. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 518 . mál.


951. Frumvarp til laga



um breyting á lögum um framboð og kjör forseta Íslands, nr. 36 12. febrúar 1945, með síðari breytingu.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995–96.)



1. gr.

    Í stað orðanna „á kjörskrá“ í 4. gr. lagann kemur: kosningarbærir.
    

2. gr.

    Í stað „128. gr.“ í 1. mgr. 14. gr. laganna, eins og henni var breytt með 2. gr. laga nr. 39/1963, kemur: 120. gr.
    

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Samkvæmt 4. gr. laga um framboð og kjör forseta Íslands skal framboði til forsetakjörs skilað til dóms- og kirkjumálaráðuneytis ásamt samþykki forsetaefnis, nægilegri tölu meðmælenda og vottorðum yfirkjörstjórna um að þeir séu á kjörskrá eigi síðar en fimm vikum fyrir kjördag.
    Samkvæmt 1. gr. sömu laga fer um kjörskrár til afnota við kjör forseta á sama hátt og við alþingiskosningar.
    Til skamms tíma voru kjörskrár við alþingiskosningar lagðar fram tveimur mánuðum fyrir kjördag. Ákvæði þessu var breytt 1991 þannig að kjörskrá skyldi lögð fram eigi síðar en 24 dögum fyrir kjördag. Þessu var svo breytt 1995 þannig að kjörskrá skal nú leggja fram eigi síðar en tíu dögum fyrir kjördag. Jafnframt er kjörskrá nú miðuð við skráð lögheimili samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár þremur vikum fyrir kjördag.
    Samkvæmt þessu mun engin kjörskrá liggja frammi þegar meðmælendalistum vegna forsetaframboðs verður skilað til yfirkjörstjórna til athugunar. Yfirkjörstjórnir munu því ekki hafa útgefnar kjörskrár til að styðjast við við vottun sína. Er því lagt til að ákvæði um vottun yfirkjörstjórna verði breytt þannig að í stað þess að yfirkjörstjórnirnar votti að meðmælendurnir séu á kjörskrá votti þær að meðmælendurnir séu kosningarbærir svo sem segir í 5. gr. stjórnarskrárinnar.
    Kosningarbærir við alþingiskosningar, og þá jafnframt við forsetakjör, eru samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga um kosningar til Alþingis allir íslenskir ríkisborgarar 18 ára og eldri sem lögheimili eiga hér á landi. Einnig eru þeir ríkisborgarar, sem hér hafa átt lögheimili en búsettir eru erlendis, kosningarbærir samkvæmt nánari reglum í 2. mgr. 1. gr. Þjóðskrá Hagstofunnar heldur skrá um alla sem lögheimili eiga hér á landi. Þar eru og á skrá þeir sem átt hafa lögheimili hér og halda kosningarrétti í átta ár frá því þeir fluttu af landinu. Þá heldur Hagstofan sérstaka skrá um þá sem lengur hafa búið erlendis og sótt hafa um að halda kosningarrétti, sbr. 2. mgr. 15. gr. kosningalaga, svo og danska ríkisborgara sem njóta jafnréttis á við íslenska ríkisborgara.
    Í stað þess að styðjast við framlagðar kjörskrár verða yfirkjörstjórnir því að styðjast við upplýsingar frá þjóðskrá Hagstofunnar um hverjir eru kosningarbærir er þeir votta um það.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að 4. gr. laga um framboð og kjör forseta Íslands verði breytt þannig að í stað þess að vottun yfirkjörstjórna feli í sér að meðmælendur við forsetaframboð séu á kjörskrá komi vottun um að þeir séu kosningarbærir. Þá er lagt til að leiðrétt verði tilvísun sem er í 14. gr. laganna, þar sem vísað er í 128. gr. laga um kosningar til Alþingis. Í staðinn komi tilvísun í 120. gr. þeirra laga en greinatölu kosningalaganna var breytt að þessu leyti með lagabreytingu 1984.



Fylgiskjal.
    
    
Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um framboð og kjör


forseta Íslands, nr. 36 12. febrúar 1945, með síðari breytingum.


    Með frumvarpi þessu er verið að laga lögin að breyttum aðstæðum. Í stað þess að yfirkjörstjórnir beri meðmælendalista vegna forsetaframboðs saman við kjörskrár munu þær bera þá saman við þjóðskrá, enda verða kjörskrár ekki tilbúnar á þeim tíma þegar yfirfara á meðmælendalistana.
    Að mati Hagstofu Íslands mun það ekki hafa neinn aukakostnað í för með sér að yfirkjörstjórnir styðjist við upplýsingar úr þjóðskrá um hverjir eru kosningarbærir.