Aðgerðir til að draga úr ofbeldisdýrkun

Mánudaginn 10. mars 1997, kl. 15:35:22 (4229)

1997-03-10 15:35:22# 121. lþ. 86.8 fundur 298. mál: #A aðgerðir til að draga úr ofbeldisdýrkun# þál., SK
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur

[15:35]

Svanhildur Kaaber:

Hæstv. forseti. Í þáltill. sem hér liggur fyrir til umræðu er fjallað um aðgerðir til að draga úr ofbeldisdýrkun og framboði á ofbeldisefni. Hér er leitast við að taka á afar mikilvægu máli sem hefur valdið áhyggjum fjölmargra, ekki síst úr hópi foreldra og kennara ungra barna og unglinga. Tillagan er sérstaklega skipulega fram sett og vel unnin og full ástæða er til að þakka flutningsmönnum hennar fyrir að koma henni á dagskrá.

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir sannanlegan vilja okkar allra til að búa börnum okkar og unglingum kjöraðstæður heima fyrir eru allt of margir sem ekki eiga þess nokkurn kost að sjá til að þau séu alla jafna undir handarjaðri fullorðinna þann hluta vökutíma síns sem þau eru ekki í skólanum eða skipulögðu tómstundastarfi. Því miður hefur verið þannig búið að okkar samfélagi að flestir ef ekki allir foreldrar þurfa að vinna langan vinnudag til að sjá sér og sínum farborða og almennt búskaparbasl flestra foreldra gerir þeim ekki kleift að sinna uppeldi barna sinna á sama hátt og áður var. Þar með er ekki sagt að ungir foreldrar leggi minni metnað í umönnun og uppeldi barna sinna eða vilji síður en eldri kynslóðir koma börnum sínum til manns og ala þau upp í því að verða hamingjusamir og sjálfstæðir einstaklingar. Við verðum einfaldlega að átta okkur á því að veröldin er önnur nú en áður var og við verðum að viðurkenna fyrir sjálfum okkur og öðrum að á þeirri forsendu verður að bregðast öðruvísi við og takast á annan hátt á við hinar nýju aðstæður sem uppeldi eru búnar.

Okkur hefur sennilega flestum þótt fram undir þetta sem íslenskt samfélag væri ekki stærra en svo að við ættum þess í sameiningu kost að hafa yfir það nokkra yfirsýn. Við höfum líka e.t.v. vænst þess í of miklum mæli að samheldni í fjölskyldum, nálægðin í litlu þjóðfélagi og eðlislæg samábyrgð fólks fleytti okkur fram hjá þeim boðaföllum sem riðu yfir stórþjóðirnar, en svo er því miður ekki. Það er dapurleg staðreynd að árásargirni og ofbeldi hefur færst í aukana og kemur fram miklu víðar en almennt hefur verið talið eins og við heyrðum m.a. í umræðum hér á Alþingi í skýrslu dómsmrh. sem lögð var fram í sl. viku.

Hver ætli verði nú framtíðarsýn þess ungmennis sem fylgist daglega með ótrúlega vinsælum sjónvarpsþáttum þar sem búinn er til einhvers konar veruleiki vísindaskáldsagna sem sýnir skelfilegar geimverur eyða öllu sem fyrir þeim verður með hrottafengnu ofbeldi? Hvernig á það ungmenni að líta framtíðina björtum augum, hlakka til að takast á við hana og finna sér náms- og starfsvettvang sem mun gera þá framtíð fýsilega? Hvernig á barn sem sér fólk drepið og limlest hópum saman í ofsafengnum slagsmálum kvikmyndanna læra að leysa ágreining og jafna deilumál með því að leita lausna sem allir aðilar máls geta sætt sig við? Hvernig á það að læra að sýna umburðarlyndi, réttsýni og þolinmæði? Hvernig á barn sem sér ofbeldi beitt og það látið óátalið í hverjum sjónvarpsþættinum af öðrum að átta sig á þeirri skyldu alls fólks í siðmenntuðu samfélagi að sýna samábyrgð og umhyggju fyrir öllu lífi? Hvernig á barn eða ungmenni að átta sig á því hvað er réttlæti þegar tilgangurinn virðist oftar en ekki helga meðalið og góðu karlarnir beita ekki síður ofsafengnu ofbeldi en hinir?

Í fylgiskjölum með þáltill. er vitnað í fjölmargar skýrslur og rannsóknir og m.a. gerð grein fyrir nokkrum kenningum um ofbeldi úr skýrslu umboðsmanns barna um ofbeldi í sjónvarpi sem er frá því í október 1996. Þar er líka mjög athyglisverð umfjöllun um áhrif ofbeldisefnis í sjónvarpi. M.a. er vitnað í skýrslu Eisenhower-nefndarinnar þar sem reynt var m.a. að skoða hvaða áhrif sjónvarpsofbeldi hefði á heimssýn manna gagnvart ofbeldi. Nefndin fékk frægan fjölmiðlafræðing, George Gerbner, til liðs við sig. Helstu niðurstöðurnar úr innihaldskönnun Gerbners um sjónvarpsofbeldi eru mjög umhugsunarverðar. Ég ætla ekki að tíunda þær allar hér, en mig langar til þess að vitna í fimm þeirra með leyfi forseta. Þar segir:

,,Þrátt fyrir að fortíðin og nútíðin í sjónvarpsþáttum einkennist af ofbeldi einkennist framtíðin af enn meira ofbeldi. Þrátt fyrir að hægt sé að láta lífið fyrir tilstilli ofbeldis virðast slagsmál ekki valda mönnum teljandi sársauka eða óþægindum. Þeir sem verða vitni að beitingu ofbeldis grípa sjaldnast í taumana. Þeir sem beita aðra ofbeldi virðast ekkert hafa áhyggjur af hugsanlegri refsingu. Og ,,góðu gæjarnir`` eru alveg jafnmiklir ofbeldisseggir og ,,vondu gæjarnir``. Þeir beita iðulega ofbeldi ef tilgangurinn helgar meðalið.``

Nú megum við ekki, virðulegi forseti, vaða í þeirri villu að áhrif ofbeldisefnis í fjölmiðlum hafi ekki nákvæmlega sömu afleiðingar hér á landi og úti í hinum stóra heimi. Enda hafa ágætir íslenskir fjölmiðlafræðingar vakið athygli á hugsanlegum áhrifum ofbeldisefnis hér á landi ekki síður en erlendir fræðingar hafa tekið þau mál til umfjöllunar. Mig langar í þessu sambandi til að vekja máls á þeirri þróun sem íslenskir kennarar hafa undanfarin ár margsinnis bent á, en það er sá vandi sem fram kemur í skólastarfinu þegar nemendurnir, jafnvel yngstu börnin, beita hreinlega í auknum mæli ofbeldi í samskiptum við aðra nemendur og í samskiptum við kennara sína og annað starfsfólk skólanna. Það er umhugsunarvert og það er ógnvekjandi að horfa á lítið barn ganga í skrokk á bekkjarsystkinum sínum eða kennara sínum af minnsta tilefni. Hér er ekki verið að tala um það sem mætti kalla venjulegan ágreining hressilegra krakka heldur hreint og beint ofbeldi, öskur, árásir, barsmíðar, jafnvel með einhverju tilteknu barefli þannig að stórsér á þeim sem fyrir verður.

Fyrir nokkrum árum þegar ég starfaði sjálf í grunnskóla kom upp í kennarahópnum sem ég starfaði með umræða um hvað við sæjum mikla breytingu á yngstu nemendum skólanna frá þeim tíma þegar við byrjuðum okkar kennsluferil. Það ber að taka fram að flestir í þessum hópi voru reyndir kennarar með margra ára ef ekki áratuga starfsreynslu að baki. Við vorum sammála um að yngstu nemendurnir yrðu órólegri með ári hverju. Þeim veittist sífellt erfiðara og erfiðara að hlýða einföldum fyrirmælum, sitja kyrr, hlusta, fylgja þeim umgengnisreglum sem settar voru í skólastarfinu. Í rauninni undruðumst við þetta þar sem okkur var fullkunnugt um hvað mikil áhersla er lögð einmitt á þessi atriði í leikskólunum þar sem mjög markviss undirbúningur undir skólagönguna í grunnskóla fer fram. Því miður hefur ástandið hríðversnað á þeim árum sem liðin eru síðan þessi kennarahópur ræddi málin. Ekki síst hefur, eins og ég sagði áður, orðið meira og meira áberandi hvað börn og unglingar missa oft stjórn á skapi sínu og beita miklu oftar en áður alvarlegu ofbeldi ef ekki fer allt að þeirra skapi.

Þáltill. sem hér liggur fyrir miðar að því að ríkisstjórnin undirbúi ályktun um aðgerðir til að draga úr framboði efnis þar sem ofbeldið er sýnt, sérstaklega efni og athöfnum sem telja má líklegt að börn og unglingar verði fyrir áhrifum af. Auðvitað verður að beita sjálfsögðum og augljósum aðgerðum sem margsinnis hafa verið nefndar, svo sem því að sjá til þess að sónvarpsefni sem hugsanlega felur í sér ofbeldi í einhverri mynd sé sýnt á þeim tíma dagskrár að ólíklegt sé að börn og unglingar horfi á það. Einnig með því að merkja slíkt efni nákvæmlega, bæði í dagskrárkynningu og í blaðaauglýsingum. En aðrar aðgerðir eru ekki síður nauðsynlegar. Ég tel að jafnframt verði að byggja upp markvisst forvarnastarf fyrst og fremst með aðstoð og stuðningi við foreldra og aðra uppalendur og í skólanum. Það mætti t.d. gera með foreldranámskeiðum og með eflingu markvissra foreldrahópa eins og tíðkast víða erlendis. Í slíkum starfshópum geta foreldrar rætt uppeldi barna sinna og uppeldisaðferðir, leitað stuðnings og ráða hjá öðrum foreldrum sem eiga börn á svipuðum aldri, samræmt aðgerðir sínar og ákvarðanir, t.d. um sjónvarpsnotkun barna sinna. (Forseti hringir.)

Annað mikilvægt skref væri að veita ungu fólki sem ekki nýtur þess aðhalds sem skólastarf eða vinna gefur aukna ráðgjöf og meiri stuðning.

Í þriðja lagi má leitast við að koma í veg fyrir áhrif ofbeldis með því að efla kvikmyndaeftirlit og auka stjórnun á því efni sem sýnt er í fjölmiðlum.

Í fjórða og síðasta lagi, herra forseti, er e.t.v. mikilvægast af öllu að tryggja markvissa og gagnrýna umfjöllun um fjölmiðlun. Það þarf að efla listrænan skilning og það þarf að kenna ungu fólki að lesa og skilja myndmál og stuðla þannig að því að börn og unglingar læri að greina á milli ofbeldis og eðlilegrar hegðunar. Þar held ég að sé komið að mikilvægu verkefni fjölmiðlanna sjálfra auk skólakerfisins, foreldra og annars fullorðins fólks.

Ég lýsi eindregnum stuðningi við að þáltill. þessi nái fram að ganga.