Ferill 175. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 175 . mál.


194. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 42/1983, um Landsvirkjun, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996.)



1. gr.

    Við 2. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Landsvirkjun er heimilt að hagnýta þá þekkingu sem fyrirtækið ræður yfir á sviði orkumála með verktöku og sölu tækniþekkingar og annarrar sérþekkingar til annarra aðila hér á landi, og með því að stofna og eiga hlut í og taka að sér verkefni fyrir fyrirtæki erlendis, sem annast rannsóknir, ráðgjöf eða aðra þjónustu á sviði orkumála eða aðra starfsemi tengda orkumálum.

2. gr.

    5. gr. laganna orðast svo:
    Ríkissjóður, Reykjavíkurborg og Akureyrarbær hafa lagt Landsvirkjun til eigendaframlög í formi stofnframlaga, sbr. 4. gr. og sameignarsamning aðila frá 27. febrúar 1981, og í formi sérstakra eiginfjárframlaga.
    Landsvirkjun greiðir eigendum arð af eigendaframlögum skv. 1. mgr. og af eigendaframlögum sem eigendur kunna síðar að leggja fram til Landsvirkjunar.
    Eigendaframlög skv. 1. mgr., svo sem þau hafa verið endurmetin miðað við 31. desember 1995, sbr. samning eignaraðila frá 28. október 1996 um breytingu á sameignarsamningi aðila, og eigendaframlög, er síðar kunna að verða lögð fram, skulu framreiknuð til verðlags hvers tíma samkvæmt byggingarvísitölu og ákveður ársfundur Landsvirkjunar, að fenginni tillögu stjórnar, arðgreiðslu sem hundraðshluta þeirrar fjárhæðar.
    Arðgreiðslan skal ákveðin með hliðsjón af afkomu fyrirtækisins og yfirfærðum hagnaði frá fyrri árum.

3. gr.

    8. gr. laganna orðast svo:
    Stjórn Landsvirkjunar skal skipuð sjö mönnum. Ráðherra orkumála skipar þrjá stjórnarmenn, borgarstjórn Reykjavíkur kýs þrjá stjórnarmenn og bæjarstjórn Akureyrar kýs einn. Ráðherra orkumála skipar formann stjórnarinnar úr hópi þeirra stjórnarmanna sem hann skipar. Á stjórnarfundum skal atkvæði formanns vega tvöfalt.
    Varamenn, jafnmargir, skulu kosnir og skipaðir á sama hátt.
    Kjörtímabil stjórnarinnar skal vera eitt ár í senn, frá ársfundi Landsvirkjunar á viðkomandi ári til ársfundar á næsta ári.
    Ársfundur ákveður þóknun stjórnarmanna.
    Nánari ákvæði um starfshætti stjórnarinnar skulu sett í reglugerð.

4. gr.

    9. gr. laganna orðast svo:
    Stjórn Landsvirkjunar ræður forstjóra er veitir fyrirtækinu forstöðu. Forstjóri skal eiga sæti á stjórnarfundum.
    Stjórn Landsvirkjunar fer með málefni fyrirtækisins og skal annast um að skipulag fyrirtækisins og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi. Stjórn og forstjóri fara með stjórn fyrirtækisins.
    Forstjóri annast daglegan rekstur fyrirtækisins og skal í þeim efnum fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem stjórnin hefur gefið. Daglegur rekstur tekur ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða mikils háttar. Slíkar ráðstafanir getur forstjóri aðeins gert samkvæmt sérstakri heimild frá stjórn, nema ekki sé unnt að bíða ákvarðana stjórnar án verulegs óhagræðis fyrir starfsemi fyrirtækisins. Í slíkum tilvikum skal stjórn tafarlaust tilkynnt um ráðstöfunina.
    Stjórn Landsvirkjunar skal annast um að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna fyrirtækisins. Forstjóri skal sjá um að bókhald fyrirtækisins sé fært í samræmi við lög og venjur og meðferð eigna fyrirtækisins sé með tryggilegum hætti.
    Einungis stjórn Landsvirkjunar getur veitt prókúruumboð.
    Stjórnarmenn og fastráðnir starfsmenn Landsvirkjunar hafa réttindi og skyldur opinberra sýslunarmanna.
    Nánari ákvæði um starfssvið stjórnar og forstjóra skulu sett í reglugerð.

5. gr.

    10. gr. laganna orðast svo:
    Halda skal í aprílmánuði ár hvert ársfund Landsvirkjunar. Á ársfundi skulu tekin fyrir þessi mál:
    Skýrsla stjórnar um starfsemi Landsvirkjunar síðastliðið starfsár.
    Ársreikningur Landsvirkjunar fyrir liðið reikningsár ásamt skýrslu endurskoðanda fyrirtækisins lagður fram til staðfestingar.
    Ákvörðun um arðgreiðslur til eigenda Landsvirkjunar og um aðra meðferð hagnaðar eða taps Landsvirkjunar á reikningsárinu.
    Ákvörðun um þóknun til stjórnarmanna fyrir liðið kjörtímabil.
    Lýst kjöri stjórnar.
    Kosning löggilts endurskoðanda eða endurskoðunarfélags.
    Umræður um önnur mál.
    Rétt til setu á ársfundi eiga einn fulltrúi hvers eignaraðila, stjórn og forstjóri Landsvirkjunar og löggiltur endurskoðandi fyrirtækisins. Ráðherra orkumála tilnefnir fulltrúa ríkissjóðs á ársfundinum. Atkvæðisréttur eignaraðila á ársfundi skal vera í samræmi við eignarhluta hvers þeirra.
    Nánari ákvæði um fundarsköp og starfssvið ársfundar skal setja í reglugerð.

6. gr.

    11. gr. laganna orðast svo:
    Halda skal sérstakan samráðsfund Landsvirkjunar þegar að loknum ársfundi fyrirtækisins ár hvert. Fulltrúar á samráðsfundi skulu vera sem hér segir:
    Fjórir menn tilnefndir af ráðherra orkumála, fjórir menn kosnir af Reykjavíkurborg og fjórir menn kosnir af Akureyrarbæ. Þá skulu hver hinna einstöku landshlutasamtaka sveitarfélaga eiga rétt á að kjósa á aðalfundi sínum fjóra menn til setu á samráðsfundinum. Í reglugerð skal nánar kveðið á um kosningu fulltrúa á samráðsfund. Varamenn skulu skipaðir eða kosnir á sama hátt og aðalmenn.
    Verði um að ræða fjölgun eignaraðila skal taka skipan samráðsfundar til endurskoðunar.
    Stjórn og forstjóri Landsvirkjunar skulu sitja samráðsfundinn.
    Á samráðsfundinum skal kynna afkomu Landsvirkjunar og áætlanir og ræða þau atriði er þar koma fram. Skal þar sérstaklega fjalla um mál er varða öryggi í vinnslu og flutning raforku um landið, svo og atriði er varða raforkuverð. Þá skal á samráðsfundi ræða raforkumál er varða einstaka landshluta eftir því sem ástæða er til.
    Nánari ákvæði um fundarsköp og starfssvið samráðsfunda skal setja í reglugerð.

7. gr.

    12. gr. laganna orðast svo:
    Starfsár Landsvirkjunar og reikningsár er almanaksárið.
    Stjórn Landsvirkjunar og forstjóri skulu semja ársreikning fyrir hvert reikningsár og skal hann gerður samkvæmt lögum og góðri reikningsskilavenju og skal hafa að geyma rekstrarreikning, efnahagsreikning, fjárstreymisyfirlit og skýringar.
    Ársfundur Landsvirkjunar kýs löggiltan endurskoðanda eða endurskoðunarfélag til að endurskoða reikninga fyrirtækisins.
    Endurskoðandi skal endurskoða ársreikning Landsvirkjunar í samræmi við lög og góða endurskoðunarvenju og í því sambandi kanna bókhaldsgögn fyrirtækisins og aðra þætti er varða rekstur þess og stöðu. Endurskoðandi skal að lokinni endurskoðun árita ársreikninginn og skal áritunin fylgja ársreikningnum sem skýrsla hans.

8. gr.

    1. málsl. 2. mgr. 13. gr. laganna orðast svo:
    Stjórn Landsvirkjunar setur gjaldskrá fyrir Landsvirkjun.

9. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Umboð núverandi stjórnar Landsvirkjunar skal haldast þar til á fyrsta ársfundi fyrirtækisins eftir gildistöku laga þessara, en fellur þá niður.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið á vegum sérstakrar viðræðunefndar eignaraðila að Landsvirkjun um endurskoðun á eignarhaldi, rekstrarformi og hlutverki Landsvirkjunar sem iðnaðarráðherra skipaði 23. febrúar 1996. Til viðræðnanna var stofnað að ósk borgarstjórans í Reykjavík og bæjarstjórans á Akureyri, en Reykjavíkurborg á 44,525% eignarhluta í Landsvirkjun og Akureyrarbær 5,475%. Ríkissjóður á 50% eignarhluta í Landsvirkjun.
    Í viðræðunefndina voru skipaðir: Halldór J. Kristjánsson, nú ráðuneytisstjóri, formaður, Alfreð Þorsteinsson, borgarfulltrúi í Reykjavík, og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarfulltrúi í Reykjavík, báðir samkvæmt tilnefningu borgarráðs Reykjavíkur, Jakob Björnsson, bæjarstjóri á Akureyri, og Sigurður J. Sigurðsson, bæjarfulltrúi á Akureyri, báðir samkvæmt tilnefningu bæjarráðs Akureyrar, og Guðmundur Jóhannsson viðskiptafræðingur, fulltrúi fjármálaráðuneytisins við nefndarstarfið.
    Með nefndinni starfaði Halldór Jónatansson, forstjóri Landsvirkjunar. Ritari nefndarinnar var Örn Marinósson, framkvæmdastjóri fjármála- og markaðssviðs Landsvirkjunar, en að auki naut nefndin aðstoðar Stefáns Péturssonar, deildarstjóra fjármála- og markaðsdeildar Landsvirkjunar, Baldurs Guðlaugssonar hrl. og Stefáns Svavarssonar endurskoðanda.
    Nefndin lauk störfum í októbermánuði 1996. Lagði hún til að rekstrarform Landsvirkjunar yrði óbreytt að sinni, en fyrir 1. janúar 2004 færi fram athugun á því hvort ástæða væri til að stofna hlutafélag um Landsvirkjun. Þá lagði nefndin til að framlög þau sem eigendur Landsvirkjunar hafa lagt fyrirtækinu til í formi stofnframlaga og sérstakra eiginfjárframlaga yrðu endurmetin miðað við árslok 1995, sett yrðu tiltekin arðgjafar-, gjaldskrár- og arðgreiðslumarkmið fyrir Landsvirkjun, fækkað í stjórn fyrirtækisins og breyting gerð á tilhögun á vali stjórnarmanna ríkisins og loks að verkaskipting stjórnar fyrirtækisins og forstjóra og tilhögun endurskoðunar ársreiknings yrði færð nær því sem gildir í hlutafélögum.
    Eigendur Landsvirkjunar hafa fyrir sitt leyti samþykkt niðurstöður og tillögur nefndarinnar. Undirrituðu þeir 28. október 1996 samning um breytingu á sameignarsamningi um Landsvirkjun og bókun um samkomulag um frumvarp það sem hér liggur fyrir, en með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar sem gera þarf á lögunum um Landsvirkjun svo að unnt sé að hrinda tillögum nefndarinnar í framkvæmd.
    Helstu breytingar frá núgildandi lögum um Landsvirkjun sem í frumvarpi þessu felast eru eftirfarandi:
    Lögfest er heimild Landsvirkjunar til að hagnýta þá sérþekkingu sem fyrirtækið ræður yfir á sviði orkumála, með verktöku og sölu tækniþekkingar og annarrar sérþekkingar til innlendra og erlendra aðila og með eignaraðild að fyrirtækjum erlendis. (1. gr.)
    Framlög eigenda Landsvirkjunar til fyrirtækisins eru endurmetin miðað við 31. desember 1995 og mynda endurmetin eigendaframlög nýjan stofn til arðgreiðslu. Arðgreiðslur skulu ákveðnar með hliðsjón af afkomu fyrirtækisins eins og nú er, en jafnframt með hliðsjón af yfirfærðum hagnaði frá fyrri árum. (2. gr.)
    Stjórnarmönnum fækkar úr níu í sjö. Fulltrúum ríkisins í stjórn fækkar úr fjórum í þrjá og eignaraðilar velja ekki lengur sameiginlega einn stjórnarmann, sem jafnframt hefur verið formaður stjórnarinnar. Ráðherra orkumála skipar fulltrúa ríkisins, en þeir eru nú kosnir hlutfallskosningu á Alþingi. Í samræmi við þetta er lagt til að brott falli úr lögunum ákvæði um að ráðherra tilnefni einn mann til setu á stjórnarfundum sem hafi þar málfrelsi og tillögurétt. Við breytinguna verða fulltrúar ríkisins í stjórn Landsvirkjunar þrír, en fulltrúar Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar fjórir, svo sem verið hefur. Til að vega þar upp á móti er lagt til að atkvæði stjórnarformanns sem ráðherra skipar úr hópi fulltrúa ríkisins vegi tvöfalt. Kjörtímabil stjórnarinnar verður eitt ár í senn, en er nú fjögur ár. Umboð núverandi stjórnar Landsvirkjunar helst þar til á fyrsta ársfundi fyrirtækisins eftir gildistöku laganna. (3. gr. og ákvæði til bráðabirgða.)
    Ákvæði laganna um starfssvið stjórnar og forstjóra Landsvirkjunar eru löguð að ákvæðum hlutafélagalaga um verkaskiptingu stjórnar og framkvæmdastjóra í hlutafélagi. (4. gr.)
    Gert er ráð fyrir að árlega verði haldinn sérstakur ársfundur eigenda Landsvirkjunar þar sem skýrsla stjórnar og ársreikningur verði lögð fram til afgreiðslu, ákvörðun tekin um arðgreiðslur til eigenda og um aðra meðferð hagnaðar eða taps á reikningsárinu, ákvörðun tekin um þóknun til stjórnarmanna, lýst kjöri stjórnar og kosinn löggiltur endurskoðandi eða endurskoðunarfélag fyrir fyrirtækið. Atkvæðisréttur eignaraðila á ársfundi verður í samræmi við eignarhluta hvers þeirra. (5. gr.)
    Þegar að loknum ársfundi ár hvert skal haldinn sérstakur samráðsfundur og er gert ráð fyrir að fulltrúar á samráðsfundi og dagskrá fundarins verði sú sama og nú er á ársfundum. (6. gr.)
    Ákvæði um endurskoðun ársreiknings Landsvirkjunar eru færð til samræmis við ákvæði hlutafélagalaga og laga um ársreikninga. Endurskoðandi Landsvirkjunar verður eftirleiðis kosinn á ársfundi eigenda fyrirtækisins, en hann er nú ráðinn af stjórn fyrirtækisins. Því er ekki lengur gert ráð fyrir að eignaraðilum sé hverjum um sig heimilt að tilnefna endurskoðanda til að endurskoða reikningana. (7. gr.)
    Felld eru úr gildi ákvæði um að aflað skuli tillögu Þjóðhagsstofnunar áður en stjórn Landsvirkjunar setur gjaldskrá fyrir fyrirtækið. (8. gr.)

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 2. gr. gildandi laga um Landsvirkjun er kveðið á um tilgang fyrirtækisins. Tilgangur Landsvirkjunar er samkvæmt lögunum að vinna, flytja og selja í heildsölu raforku til almenningsrafveitna og stóriðjufyrirtækja, að byggja og reka raforkuver og meginstofnlínukerfi landsins, að annast áætlanagerð um ný raforkuver og stofnlínur á orkusvæði Landsvirkjunar, að vinna að því í samvinnu við aðrar rafveitur að raforka komi í stað annarra orkugjafa eftir því sem hagkvæmt er talið og að hafa með viðunandi hætti tiltæka nægilega raforku til þess að anna þörfum viðskiptavina sinna á hverjum tíma.
    Landsvirkjun ræður yfir margvíslegri sérþekkingu á sviði orkumála. Þar sem ekki er í Landsvirkjunarlögunum með beinum hætti kveðið á um að fyrirtækinu sé heimilt að hagnýta slíka þekkingu á viðskiptalegum grundvelli, hvort heldur hér á landi eða erlendis, hefur þótt varlegast að líta svo á að þess háttar heimild sé ekki fyrir hendi.
    Í grein þessari er lagt til að í 2. gr. laganna verði tekið ákvæði sem heimili Landsvirkjun að hagnýta þá þekkingu sem fyrirtækið ræður yfir á sviði orkumála utan eiginlegs starfssviðs fyrirtækisins sjálfs. Heimildir þær sem Landsvirkjun eru veittar til að hagnýta sérþekkingu sína eru þó mismunandi eftir því hvort um er að ræða starfsemi hér á landi eða erlendis. Er Landsvirkjun með grein þessari veitt heimild til að stofna og eiga hlut í fyrirtækjum erlendis, sem annast rannsóknir, ráðgjöf eða aðra þjónustu á sviði orkumála eða aðra starfsemi tengda orkumálum, auk þess sem Landsvirkjun verður heimil verktaka og sala tækniþekkingar og annarrar sérþekkingar til fyrirtækja erlendis, hvort sem um er að ræða fyrirtæki sem Landsvirkjun á hlut í eða aðra aðila. Heimildir Landsvirkjunar innan lands verða á hinn bóginn þrengri að því leyti að ekki er gert ráð fyrir að til beinnar eignaraðildar Landsvirkjunar geti komið að öðrum fyrirtækjum hérlendis. Til slíkrar þátttöku þyrfti því, að óbreyttum ákvæðum þeim sem í þessari grein frumvarpsins felast, sérstaka lagaheimild. Hins vegar eru tekin af öll tvímæli um að Landsvirkjun megi hagnýta sérþekkingu sína á sviði orkumála með verktöku og sölu tækniþekkingar og annarrar sérþekkingar til annarra innlendra aðila. Slík starfsemi Landsvirkjunar yrði þá á viðskiptalegum grundvelli. Er gert ráð fyrir að þess verði gætt að þessi þáttur í starfsemi Landsvirkjunar verði ekki niðurgreiddur af annarri starfsemi fyrirtækisins. Miðað er við að heimild Landsvirkjunar til verktöku samkvæmt þessari grein takmarkist við ráðgjafarþjónustu og aðra sérfræðiþjónustu á sviði orkumála, en feli ekki í sér heimild fyrir Landsvirkjun til að taka að sér framkvæmdir við mannvirkjagerð sem verktaki.

Um 2. gr.


    Í grein þessari er lögð til sú breyting að greiða beri eigendum Landsvirkjunar arð af öllum framlögum sem þeir hafa lagt og munu leggja Landsvirkjun til, óháð því hvort framlög þessi eru í formi stofnframlaga, þ.e. raforkuvera og annarra mannvirkja, vatnsréttinda og búnaðar, eða í formi sérstakra eiginfjárframlaga. Er lagt til að öll slík framlög eigenda nefnist einu nafni eigendaframlög. Skv. 5. gr. gildandi laga greiðir Landsvirkjun eigendum sínum einungis arð af sérstökum eiginfjárframlögum.
    Í greininni felst enn fremur staðfesting á að eigendaframlög, svo sem þau hafa verið endurmetin miðað við 31. desember 1995 samkvæmt samningi eigenda Landsvirkjunar frá 28. október 1996 um breytingu á sameignarsamningi aðila frá 27. febrúar 1981, skuli mynda nýjan stofn til arðgreiðslu, sem síðan verði framreiknaður á sama hátt og eiginfjárframlögin til þessa. Í endurmati á eigendaframlögum var miðað við að eigendaframlögin, framreiknuð samkvæmt vísitölu byggingarkostnaðar frá innborgunarári til ársloka 1995, hafi að meðaltali borið 3% vexti á ári. Endurmetin eigendaframlög miðað við 31. desember 1995 nema samkvæmt þessu um 14 milljörðum kr., en eigið fé Landsvirkjunar samkvæmt ársreikningi nam þá 25,7 milljörðum kr. Er gert ráð fyrir að arðgreiðslan verði ákveðin sem hundraðshluti framreiknaðra eigendaframlaga á hverjum tíma. Samkvæmt samkomulagi eigenda Landsvirkjunar um arðgreiðslumarkmið fyrirtækisins sem var hluti samnings þeirra frá 28. október 1996 skal stefnt að því að reiknaður arður til eigenda verði 5,5% á ári af eigendaframlögum. Jafnframt var samið um viðmiðanir varðandi það hversu hátt hlutfall reiknaðs arðs skuli koma til útborgunar til eigenda og hversu hátt hlutfall bætast við eigendaframlög og hækka arðgreiðslustofn.
    Í greininni felst að árlegur fundur eignaraðila Landsvirkjunar ákveði arðgreiðslur að fenginni tillögu stjórnar fyrirtækisins, en samkvæmt gildandi lögum ákveður stjórn Landsvirkjunar arðgreiðsluna.
    Loks felst í greininni sú breyting að auk þess sem arðgreiðslur skulu ákveðnar með hliðsjón af afkomu Landsvirkjunar eins og nú er skal hafa hliðsjón af yfirfærðum hagnaði frá fyrri árum. Verður því eins og í fyrirtækjum almennt unnt að taka ákvörðun um arðgreiðslur, þótt fyrirtækið hafi verið rekið með tapi árið á undan, ef hagnaði fyrri ára hefur í nægjanlegum mæli verið haldið eftir í fyrirtækinu.

Um 3. gr.


    Í grein þessari eru lagðar til breytingar á skipan stjórnar Landsvirkjunar. Samkvæmt núgildandi lögum er stjórn fyrirtækisins skipuð níu mönnum. Kýs Alþingi fjóra stjórnarmenn hlutfallskosningu, borgarstjórn Reykjavíkur þrjá og bæjarstjórn Akureyrar kýs einn. Eignaraðilar skipa sameiginlega níunda manninn sem jafnframt er formaður stjórnarinnar. Lagt er til að stjórnarmönnum fækki úr níu í sjö. Er gert ráð fyrir að fulltrúum ríkisins í stjórn fækki úr fjórum í þrjá og eignaraðilar velji ekki lengur sameiginlega einn stjórnarmann. Jafnframt er lögð til sú breyting að ráðherra orkumála skipi fulltrúa ríkisins í stað þess að þeir séu kosnir hlutfallskosningu á Alþingi. Þykir sú tilhögun betur samrýmast eðlilegri verkaskiptingu löggjafarvalds og framkvæmdarvalds. Af þessu leiðir og að gert er ráð fyrir að brott falli úr lögunum ákvæði um að ráðherra orkumála tilnefni einn mann til setu á stjórnarfundum, sem hafi þar málfrelsi og tillögurétt. Við fækkun stjórnarmanna samkvæmt framansögðu verða fulltrúar ríkisins í stjórn Landsvirkjunar þrír, en fulltrúar Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar, sem samanlagt eiga 50% eignarhlut í fyrirtækinu á móti 50% eignarhlut ríkisins, fjórir svo sem verið hefur. Til þess að ná fram hvoru tveggja, að fækka í stjórn fyrirtækisins þannig að störf stjórnarinnar geti orðið markvissari, en viðhalda jafnframt eðlilegu jafnvægi á milli eignaraðila, er lagt til að ráðherra skipi formann stjórnar úr hópi fulltrúa ríkisins í stjórn og að atkvæði stjórnarformanns vegi tvöfalt.
    Í greininni felst að kjörtímabil stjórnar sem nú er fjögur ár, verði eitt ár í senn, frá ársfundi til ársfundar. Þá er lagt til að ársfundur ákveði þóknun stjórnarmanna.

Um 4. gr.


    Í grein þessari er lagt til að ákvæði 9. gr. laganna um hlutverk stjórnar og forstjóra Landsvirkjunar verði löguð að ákvæðum hlutafélagalaga um verkaskiptingu stjórnar og framkvæmdastjóra í hlutafélagi. Stjórn og forstjóri fara saman með stjórn félagsins. Báðir þessir aðilar bera því ábyrgð á starfsemi fyrirtækisins. Er því gert ráð fyrir samvinnu stjórnar og forstjóra um stjórn fyrirtækisins, en um leið tiltekinni verkaskiptingu. Stjórnin mótar stefnu fyrirtækisins, tekur þær ákvarðanir sem lögin fela henni sérstaklega og ákvarðanir í öðrum mikilvægum málum fyrirtækisins, hefur eftirlit með störfum forstjóra og annast um að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna fyrirtækisins. Forstjóri annast daglegan rekstur, en skal í þeim efnum fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem stjórnin hefur gefið. Þá skal forstjóri sjá um að bókhald fyrirtækisins sé fært í samræmi við lög og venjur og meðferð eigna fyrirtækisins sé með tryggilegum hætti.

Um 5. gr.


    Í grein þessari er lagt til að árlega verði haldinn sérstakur ársfundur eigenda Landsvirkjunar, sem svipi til aðalfundar í hlutafélagi eða atvinnufyrirtæki í öðru félagsformi. Gert er ráð fyrir að á ársfundi staðfesti eigendur ársreikning Landsvirkjunar, taki að fenginni tillögu stjórnar fyrirtækisins ákvörðun um arðgreiðslur og um aðra meðferð hagnaðar og taps fyrirtækisins á reikningsárinu, ákveði þóknun til stjórnarmanna fyrir liðið kjörtímabil og velji löggiltan endurskoðanda eða endurskoðunarfélag til að annast endurskoðun reikninga fyrirtækisins. Þá er miðað við að á ársfundi verði lýst kjöri stjórnar fyrir næsta kjörtímabil, en eiginlegt val hvers eignaraðila á fulltrúum sínum til setu í stjórn Landsvirkjunar er þá áður búið að eiga sér stað á vettvangi viðkomandi eignaraðila í samræmi við reglur laganna þar um. Loks er gert ráð fyrir að ársfundur geti orðið vettvangur eigenda til umræðna um önnur mál er varða Landsvirkjun. Atkvæðisréttur eignaraðila á ársfundi fyrirtækisins verður í samræmi við eignarhlut hvers og eins þeirra.

Um 6. gr.


    Í grein þessari er lagt til að þegar að loknum ársfundi ár hvert skuli haldinn sérstakur samráðsfundur Landsvirkjunar. Fundur þessi gegnir í raun sama hlutverki og ársfundir Landsvirkjunar samkvæmt gildandi lögum. Er lagt til að skipan fulltrúa á samráðsfundi og dagskrá fundarins verði sú sama og nú er á ársfundum.

Um 7. gr.


    Í grein þessari er lagt til að kveðið verði á um það í Landsvirkjunarlögum að um gerð ársreiknings fyrir fyrirtækið og um endurskoðun ársreiknings fari samkvæmt almennum lögum og góðri reikningsskila- og endurskoðunarvenju. Sett hafa verið sérstök lög um ársreikninga, nr. 144/1994, sem m.a. gilda um sameignarfélög, en víkja fyrir ákvæðum um ársreikninga í sérlögum, þó að því tilskildu að slík sérlög geri jafnmiklar eða meiri kröfur til ársreikningsgerðar en ársreikningalögin. Ársreikningalögin geyma m.a. ítarleg ákvæði um efnahags- og rekstrarreikning, um matsreglur, skýringar með ársreikningi og um endurskoðun. Ekki er talin þörf á lögfestingu neinna sérreglna að því er varðar ársreikning Landsvirkjunar eða endurskoðun hans.
    Þar sem gert er ráð fyrir að endurskoðandi Landsvirkjunar verði eftirleiðis kosinn á ársfundi eignaraðila í stað þess að vera ráðinn af stjórn fyrirtækisins eins og verið hefur er lagt til að úr 12. gr. laganna falli brott heimild hvers eignaraðila til að tilnefna sérstakan endurskoðanda til að endurskoða reikningana. Einnig er lagt til að brott falli úr 12. gr. laganna ákvæði þess efnis að ársskýrsla Landsvirkjunar skuli lögð fyrir eignaraðila til staðfestingar innan þriggja mánaða frá lokum hvers reikningsárs, enda nú gert ráð fyrir að haldinn sé ársfundur eignaraðila þar sem skýrsla stjórnar og ársreikningur fyrirtækisins komi til afgreiðslu.

Um 8. gr.


    Í grein þessari er lagt til að brott falli úr 2. mgr. 13. gr. laganna ákvæði um að aflað skuli tillögu Þjóðhagsstofnunar áður en stjórn Landsvirkjunar setur gjaldskrá fyrirtækisins. 2. mgr. 13. gr. laganna geymir efnislegar viðmiðanir sem stjórn fyrirtækisins ber að fylgja við setningu gjaldskrár. Er þar kveðið á um að í gjaldskrá skuli raforkuverðið við það miðað að eðlilegur afrakstur fáist af því fjármagni sem á hverjum tíma er bundið í rekstri fyrirtækisins. Einnig skal skv. 2. mgr. 13. gr. laganna að því stefnt að fyrirtækið skili nægilegum greiðsluafgangi til þess að það geti jafnan með eigin fjármagni og hæfilegum lántökum tryggt notendum sínum næga raforku. Stjórn Landsvirkjunar setur gjaldskrá fyrir fyrirtækið og ber því sjálf ábyrgð á að þessara viðmiðana sé gætt, óháð tillögu Þjóðhagsstofnunar. Þykir rétt að skerpa á skyldum stjórnarinnar í þessu sambandi með því að fella út aðild Þjóðhagsstofnunar að undirbúningi ákvarðana. Mál er varða framkvæmd 2. mgr. 13. gr. falla eins og önnur ákvæði laganna undir ráðherra orkumála og geta því komið til kasta hans, auk þess sem sett hafa verið samkeppnislög sem reynt gæti á í þessu sambandi.
    Samningur eignaraðila Landsvirkjunar frá 28. október 1996 um breytingu á sameignarsamningi um Landsvirkjun fól m.a. í sér sérstakt samkomulag um arðgjafar-, gjaldskrár- og arðgreiðslumarkmið. Hefur áður verið gerð grein fyrir arðgreiðslumarkmiðunum, sbr. skýringar við 2. gr. Samkvæmt arðgjafarmarkmiði eignaraðila skal stefnt að því að arðgjöf af því eigin fé sem í Landsvirkjun er bundið verði að jafnaði 5–6% á ári. Samkvæmt gjaldskrármarkmiðum skal stefnt að því að gjaldskrá Landsvirkjunar til almenningsrafveitna verði í meginatriðum óbreytt að raungildi til ársins 2000, en lækki síðan að raungildi um 2–3% á ári á árunum 2001–2010. Stjórn Landsvirkjunar setur eftir sem áður gjaldskrá fyrir fyrirtækið og tekur á hverjum tíma ákvarðanir um breytingar á henni á grundvelli þeirra ákvæða 2. mgr. 13. gr. laganna sem áður voru rakin og með hliðsjón af markmiðum eignaraðila samkvæmt sameignarsamningi.

Um 9. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Í bráðabirgðaákvæðinu felst að þrátt fyrir gildistökuákvæði frumvarpsins og þá breytingu á skipan stjórnar sem það gerir ráð fyrir helst umboð núverandi stjórnar Landsvirkjunar þar til á fyrsta ársfundi fyrirtækisins eftir gildistöku laganna. Ný stjórn fyrirtækisins tekur því ekki við fyrr en þá. Ákvæði um fækkun stjórnarmanna og tvöfalt atkvæðavægi stjórnarformanns koma því ekki til framkvæmda fyrr en með nýrri stjórn sem þá tekur við.



Fylgiskjal I.


Skýrsla sérstakrar viðræðunefndar eignaraðila Landsvirkjunar um endurskoðun


á eignarhaldi, rekstrarformi og hlutverki Landsvirkjunar.


(28. október 1996.)



(16 bls. myndaðar.)



Halldór J. Kristjánsson formaður.


Alfreð Þorsteinsson.


Jakob Björnsson.


Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson.


Sigurður J. Sigurðsson.


Guðmundur Jóhannsson.




Fylgiskjal II.


Samningur milli ríkisstjórnar Íslands, Reykjavíkurborgar og


Akureyrarbæjar um breytingu á sameignarsamningi sömu aðila


um Landsvirkjun, dags. 27. febrúar 1981.


(28. október 1996.)





(2 bls. myndaðar.)






Reykjavík               Reykjavík     Akureyri

F.h. ríkisins          F.h. Reykjavíkurborgar     F.h. Akureyrarbæjar

Finnur Ingólfsson     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir     Jakob Björnsson
iðnaðarráðherra     borgarstjóri     bæjarstjóri
                                       með fyrirvara um samþykki     með fyrirvara um samþykki
                                       borgarráðs/borgarstjórnar     bæjarráðs/bæjarstjórnar


Fskj. E.

(1 bls. mynduð.)




Fskj. F.

(1 bls. mynduð.)






Fylgiskjal III.


Sameiginleg bókun eignaraðila Landsvirkjunar til staðfestingar á samkomulagi


um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 42/1983, um Landsvirkjun.


(28. október 1996.)





(1 bls. mynduð.)





Reykjavík               Reykjavík     Akureyri

F.h. ríkisins          F.h. Reykjavíkurborgar     F.h. Akureyrarbæjar

Finnur Ingólfsson     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir     Jakob Björnsson
iðnaðarráðherra     borgarstjóri     bæjarstjóri
                                       með fyrirvara um samþykki     með fyrirvara um samþykki
                                       borgarráðs/borgarstjórnar     bæjarráðs/bæjarstjórnar



Fylgiskjal IV.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 42/1983,


um Landsvirkjun, með síðari breytingum.


    Með frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um Landsvirkjun í kjölfar yfirferðar viðræðunefndar eignaraðila um endurskoðun á eignarhaldi, rekstrarformi og hlutverki Landsvirkjunar.
    Þær breytingar sem hér eru lagðar til hafa engin útgjaldaáhrif á ríkissjóð, en hins vegar komu eignaraðilar sér saman um arðgjafar-, gjaldskrár- og arðgreiðslumarkmið Landsvirkjunar í tengslum við þessa endurskoðun. Stefnt skal að því að reiknaður arður verði 5,5% af eigendaframlögum á ári að jafnaði. Til grundvallar arðgreiðslumarkmiði er lagt það mat að eigendaframlög nemi um 14 milljörðum króna í árslok 1995 og myndi þau stofn til útreiknings arðs. Miðað við 14 milljarða króna eigendaframlag, sem ríkissjóður á þá 7 milljarða króna af sem eigandi að 50% hlut í fyrirtækinu, ætti árleg arðgjöf að nema 5,5% af þeim hlut, þ.e. um 385 m.kr. fyrir ríkissjóð. Sjálf arðgreiðslumarkmiðin stefna að því að arðgreiðsla geti numið frá 25% til 60% af hinum reiknaða arði eða u.þ.b. 95 til 230 m.kr. árlega. Það fer því eftir hreinum rekstrartekjum hvers árs og heildarskuldum hverju sinni hversu mikið ríkissjóður ber úr býtum.