Ferill 97. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 97 . mál.


250. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940, með síðari breytingum (vernd gegn mismunun).

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þorstein A. Jónsson, skrifstofustjóra í dóms- og kirkjumálaráðuneyti. Þá studdist nefndin við umsagnir sem henni bárust á 120. löggjafarþingi um mál sem að hluta til var sambærilegt.
    Frumvarpið felur í sér tvíþætta breytingu á almennum hegningarlögum. Annars vegar snýr breytingin að því að samræma löggjöf alþjóðlegum skuldbindingum um afnám kynþáttamisréttis og hins vegar felur frumvarpið í sér sambærilega refsivernd fyrir fólk gegn mismunun á grundvelli kynhneigðar.
    Samkvæmt f-lið 5. gr. samnings um afnám alls kynþáttamisréttis skuldbinda aðildarríki sig til þess að tryggja öllum, án nokkurs greinarmunar vegna kynþáttar, litarháttar, þjóðernis eða þjóðlegs uppruna, jafnan rétt til aðgangs að öllum stöðum eða þjónustu sem veitt er almenningi, svo sem að samgöngutækjum, hótelum, veitingahúsum, kaffihúsum, leikhúsum og almenningsgörðum. Engar breytingar hafa verið gerðar á íslenskri löggjöf til samræmis við framangreint ákvæði andstætt þeirri þróun sem átt hefur sér stað annars staðar á Norðurlöndum. Því þykir eðlilegt að leggja til í 1. gr. frumvarpsins að veita réttindum til jafns aðgangs að þjónustu og opinberum stöðum sérstaka refsivernd. Samhliða því að koma með þessu til móts við þjóðréttarlegar skuldbindingar er einnig lagt til að mismunun á grundvelli kynhneigðar verði gerð refsiverð, líkt og gert hefur verið í nágrannalöndum okkar.
    Leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 3. des. 1996.



Sólveig Pétursdóttir,

Valgerður Sverrisdóttir.

Jóhanna Sigurðardóttir.


form., frsm.



Kristján Pálsson.

Ögmundur Jónasson.

Einar Oddur Kristjánsson.



Guðný Guðbjörnsdóttir.

Ólafur Örn Haraldsson.