Ferill 181. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 181 . mál.


363. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 92 24. maí 1994, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, með síðari breytingum.

Frá minni hluta sjávarútvegsnefndar.



    Minni hluti nefndarinnar gerir ekki athugasemd við þau áform að fjármagna nýtt hafrannsóknaskip með þróunarsjóðsgjaldi. Minni hlutinn styður einnig þá breytingu á frumvarpinu að árið 1996 verði síðasta árið sem fiskvinnslunni verði gert að greiða til Þróunarsjóðsins. Minni hlutinn telur hins vegar gagnrýnivert hvernig ákvæðin um úreldingu fiskvinnsluhúsa hafa verið túlkuð.
    Minni hlutinn hefur allan vara á varðandi hringl með önnur ártöl í frumvarpinu og hefur litla trú á að sólarlagsákvæði frumvarpsins haldi þegar þar að kemur. Þá bendir minni hlutinn á að einfalda hefði mátt það gjald sem innheimt er af útgerðinni þannig að einungis væri innheimt skv. 6. gr. Aðeins hefði þurft að hækka upphæðina sem þar er tilgreind, 1 kr. fyrir hvert þorskígildiskíló, í 1 kr. og 27 aura til að fá sömu fjárhæð og nú á að ná með því að innheimta einnig gjald miðað við stærð skipa, sbr. 4. gr. Sú aðferð gerir innheimtuna flóknari en efni standa til auk þess sem hún leiðir til mismununar þar sem hámark er á gjaldinu og stærstu skipin greiða þar með hlutfallslega minna en þau litlu og meðalstóru. Breytingartillögur meiri hlutans gera ráð fyrir framlengingu á ákvæðinu um úreldingu krókabáta. Þar er um að ræða framhaldssögu sem þingheimi er kunn, en þetta er í þriðja skipti á einu og hálfu ári sem lögum um Þróunarsjóðinn er breytt til þess að stuðla að fækkun í smábátaflotanum. Þessi breyting á frumvarpinu er á ábyrgð meiri hlutans, enda ekki ljóst hver staða smábátaflotans verður þótt lögunum sé breytt nú hans vegna eina ferðina enn. Minni hlutinn mun greiða atkvæði um einstakar greinar frumvarpsins eftir efni þeirra.
    Guðný Guðbjörnsdóttir hefur setið fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 13. des. 1996.



Steingrímur J. Sigfússon,

Lúðvík Bergvinsson,

Svanfríður Jónasdóttir.


form.

frsm.









Prentað upp.