Ferill 73. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 73 . mál.


402. Nefndarálit



um frv. til l. um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga.

Frá minni hluta iðnaðarnefndar.



    Minni hluti nefndarinnar hefur tekið þátt í umfjöllun um frumvarp til laga um raforkuvirki o.fl. sem hefur verið til meðferðar í nefndinni alllengi. Mikill fjöldi manna hefur komið á fund nefndarinnar og hafa athugasemdir margra verið mjög gagnrýnar; aðrir, og ekki síst skoðunarstofurnar, hafa hins vegar lýst ánægju með frumvarpið í meginatriðum. Opinberir aðilar hafa hins vegar aðallega gagnrýnt gjaldtöku þá sem frumvarpið gerir ráð fyrir.
    Frumvarpið á sér nokkurn aðdraganda. Árið 1993 var sett reglugerð um breytingar á raforkueftirliti í landinu og sú reglugerð var aftur byggð á niðurstöðu Hagsýslu ríkisins sem frá september 1991 hafði unnið að því að gera úttekt á fyrirkomulagi rafmagnseftirlits í landinu og hlutverki og rekstri Rafmagnseftirlits ríkisins og mótað tillögur um framtíðarskipan þess. Á grundvelli þessara tillagna, sem komu fram 1992, var síðan, sem fyrr segir, gefin út reglugerð um breytingar á rafmagnseftirliti. Þessi reglugerð kom hvað eftir annað til meðferðar í iðnaðarnefnd Alþingis. Þrátt fyrir það má segja að meginefni reglugerðarinnar hafi smátt og smátt verið að taka gildi og það lagafrumvarp sem hér liggur fyrir er að nokkru leyti staðfesting á reglugerðinni sem sett var á árinu 1993. Þær deilur, sem urðu um málið á síðasta kjörtímabili, komu m.a. fram í því að fulltrúar Framsóknarflokksins í iðnaðarnefnd töldu að hér væri um mjög gallaða reglugerðarsmíð að ræða og létu rafmagnseftirlitsmenn vita að Framsóknarflokkurinn mundi beita sér gegn þessu kerfi þegar hann fengi aðstöðu til. Nú hefur Framsóknarflokkurinn eins og kunnugt er tekið sér bólfestu í iðnaðarráðuneytinu og bundu ýmsir vonir við að þá yrði fylgt þeirri stefnu sem fulltrúar hans í iðnaðarnefnd kynntu á síðasta kjörtímabili. Núverandi iðnaðarráðherra skipaði átta manna nefnd til þess að fjalla um málið. Hún skilaði áliti og þegar til kom reyndist það vera efnislega eins og það sem unnið hafði verið eftir á síðasta kjörtímabili. Verður ekki annað sagt en að þessi niðurstaða ráðherranefndarinnar hafi valdið rafmagnseftirlitsmönnum vonbrigðum en þeir höfðu fest trúnað á þá afstöðu sem Framsóknarmenn kynntu á síðasta kjörtímabili.
    Í umfjöllun nefndarinnar hefur því m.a. verið haldið fram að kostnaður aukist verulega samkvæmt þeim breytingum sem hér er gert ráð fyrir. Í sjálfu sér er því ekki mótmælt af aðilum málsins. Birst hefur dæmi um kostnað miðað við að hver eftirlitsmaður Rafmagnseftirlits ríkisins hafi „kostað“ 3 millj. kr. á ári meðan það kerfi var við lýði. Á árunum 1988, 1989 og 1990 mun hafa verið starfandi 41 maður við rafmagnseftirlit á landinu öllu. Fimm starfsmenn Rafmagnseftirlits ríkisins störfuðu eingöngu við eftirlit, fimm til sjö eftirlitsmenn hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja störfuðu að mestu við eftirlit. Eftirlitsmenn annarra rafveitna munu hafa að meðaltali unnið um 30% af sínum vinnutíma við eftirlit sem þýðir eftirfarandi: 14 menn unnu að mestu við rafmagnseftirlit, 27 menn unnu 30% af sínum vinnutíma við rafmagnseftirlit sem þýðir samtals átta menn í fullu starfi. Samanlagt var því hér um að ræða 22 ársverk. Miðað við þessar staðreyndir er niðurstaðan sú að fjöldi skoðaðra veitna á árinu 1988 var 8.166. Kostnaður á hverja veitu reynist hafa verið 8.082 kr. því að heildarkostnaðurinn var 66 millj. kr. Á árinu 1989 voru skoðaðar 10.107 veitur. Kostnaður á veitu reynist vera 7.618 kr. þar sem heildarkostnaðurinn var 66 millj. kr. Árið 1990 var heildarkostnaðurinn 66 millj. kr. Fjöldi skoðaðra veitna var 8.584 og var kostnaður á veitu því 7.688. Árið 1996 var hins vegar tekið upp nýtt kerfi og þá er talið að skoðaðar veitur í úrtaksskoðun hafi verið 228 og kostnaður á veitu 22.877 kr. Heildarkostnaðurinn við úrtaksskoðanir hafi því verið 5.215.934 kr. Ef gert er ráð fyrir að alls hafi 8.500 veitur verið skoðaðar á þessu ári og kostnaðurinn við hverja veitu hafi verið 22.877 kr. þá nemur heildarkostnaðurinn á þessu ári 195 millj. kr. eða um það bil þrisvar sinnum hærri upphæð en í gamla kerfinu. Þessar upplýsingar og þessar tölur komu fram á fundum nefndarinnar. Þar komu einnig fram margþættar aðrar upplýsingar sem verða ekki raktar hér í einstökum atriðum en tæpt á fáeinum atriðum.
    Þingmenn Austurlands og iðnaðarnefnd Alþingis fengu áskorun frá rafverktökum á Austurlandi þar sem óskað var eftir að frumvarpið yrði ekki að lögum og þar sagði svo:
    „Að okkar dómi leysir samruni RER og Löggildingarstofunnar ekki vanda rafmagnseftirlitsmála í landinu. Trúlega mundi þessi sameining verða til þess að festa enn frekar í sessi rándýrt og illa virkt kerfi, öllum til tjóns.“ Undir þetta álit skrifar fjöldi rafmagnseftirlitsmanna á Austurlandi.
    Þá barst iðnaðarnefndinni ljósrit af áskorun frá rafverktökum á Norðurlandi, dagsett 25. október 1996, og er þar um að ræða efnislega sömu atriði og fram komu í áliti þeirra austanmanna sem var vitnað til hér á undan. Í álitinu segir: „Sú breyting, sem gerð var á þessum öryggisþætti fyrir þremur árum, að því er virðist með einkahagsmuni skoðunarstofa að markmiði, ætlar ekki að heppnast að því er reynslan sýnir og hefur þegar valdið skaða. Sú reglugerð, sem tók gildi 1993 og gildir enn, var samin af nefnd hagsmunaaðila, m.a. eigendum einkarekinna skoðunarstofa. Nefnd þessi sniðgekk öll sjónarmið er vörðuðu hagsmuni almennings og neytenda. . . .  Komin er upp ýmiss konar sjálfsbjargarviðleitni manna til að leggja sínar eigin raflagnir og er svo að sjá að alls konar fúsk geti nú viðgengist í rafiðnaði notendum til stórhættu. Fjölda annarra dæma mætti nefna sem ekki verður gert að sinni.“
    Rafverktakar á Vesturlandi sendu einnig ítarlega áskorun til iðnaðarráðherra, undirritaða af fjölda rafverktaka á Vesturlandi, má segja allra þeirra sem best þekkja til þessara mála þar og kvað þar við sama tón.
    Þar segir m.a. svo: „Faggilding er hugtak sem gengur illa upp í því rekstrarumhverfi einyrkja og smáfyrirtækja sem við búum við. Þess vegna verður að tryggja það að rafverktakar lendi ekki í því að verða innheimtuaðilar skoðunargjalda eins og hugmyndir eru uppi um. Við undirritaðir rafverktakar á Vesturlandi förum fram á það við þig, ráðherra iðnaðarmála, að þetta mál verði tekið til gaumgæfilegrar endurskoðunar áður en það verður lögfest á Alþingi.“
    Samband sveitarfélaga í Norðurlandskjördæmi vestra segir svo í lok álits sem er samþykkt á Hvammstanga 10. desember 1996: „Varað er við útþenslu eftirlits iðnaðarins og bent í því sambandi á þá þróun sem orðið hefur á eftirliti sem tengt er sjávarútvegi með stórauknum kostnaði.“
    Samband sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi sendi frá sér ítarlegt bréf þar sem segir svo m.a.:
    „Framkvæmdaráðið hefur ákveðnar efasemdir um ágæti framangreindrar lagabreytingar og biður þingmenn að huga að eftirtöldum atriðum og ígrunda náið áður en þeir ljá frumvarpinu brautargengi:
    Öryggi neytenda verði tryggt með virku rafmagnseftirliti en ekki úrtaksskoðunum sem hljóta að skapa hættu á aukinni bruna- og slysatíðni verði dregið úr eftirliti því sem þar var best.
    Tryggja ber að gjaldtaka vegna þjónustu raforkuskoðunarstofa verði hin sama hvar sem er á landinu óháð staðsetningu hennar.
    Verður hægt að tryggja samræmda og sambærilega þjónustu allra hinna einkareknu skoðunarstofa sem væntanlega verður komið á laggirnar?
    Hefur verið kannað til hlítar hvort breyting sem gerð var á rafmagnseftirliti 1993 hafði í för með sér hækkun skoðunargjalda?
    Ef svo er, hvernig á að tryggja að ekki komi til frekari hækkana með fyrirhuguðum breytingum?
    Hefur þjónustan batnað eftir breytinguna 1993?
    Hvatt er til þess að menn flýti sér hægt í afgreiðslu frumvarpsins í stað þess að eiga á hættu að yfirvofandi lagasetningu verði hraðað í tímaskorti fyrir jólahlé þingmanna og lögin e.t.v. síðar meir minnismerki um óvandvirkni hins háa Alþingis en ekki lýsandi dæmi um ígrundaða meðferð mála stofnunarinnar.
    Beinskeyttur texti kom frá Kára Einarssyni rafmagnsverkfræðingi sem þekkir afar vel til þeirra mála sem hér um ræðir. Rafmagnseftirlit ríkisins sendi frá sér álit sem var veikburða af skiljanlegum ástæðum. Félag ráðgjafarverkfræðinga sendi einnig frá sér álit sem fagnaði frumvarpinu. Rafmagnsveita Reykjavíkur taldi að kerfið sem gerð er tillaga um gæti verið til bóta. Skoðunarstofur voru að sjálfsögðu hlynntar málinu. Varðandi það var hins vegar bent á að krafan um faggildingu hefði það í för með sér að faggiltar skoðunarstofur yrðu eingöngu á höfuðborgarsvæðinu og þess vegna væri hætt við því að menn væru að flytja störf utan af landi í stórum stíl; sumir töluðu um tuttugu störf eða svo. Meistarafélag rafeindavirkja var í meginatriðum hlynnt málinu. Landssamband íslenskra rafverktaka gerði ýmsar athugasemdir, einkum varðandi gjaldtöku. Hið sama er að segja um Hitaveitu Suðurnesja. Orkubú Vestfjarða gagnrýndi skattlagningu á rafveitur. Landsvirkjun gagnrýndi fjöldamörg atriði í frumvarpinu og auk alls þessa sem hér hefur verið talið komu fram athugasemdir frá einstökum mönnum sem komu á fund nefndarinnar. Að sjálfsögðu mun minni hlutinn gæta trúnaðar við þann fjölmenna hóp og því ekki vitna til orða hans beint en ljóst er að veruleg óánægja er með málið víða.
    Meiri hlutinn hefur komið til móts við þessa gagnrýni með því að flytja marga tugi breytingartillagna við frumvarpið og er það vissulega þakkarvert hvað hann hefur lagt sig fram við að koma til móts við sjónarmið gagnrýni sem heyrst hafa. Engu að síður stendur meginhluti gagnrýninnar óhaggaður.
    Minni hlutinn leggur til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Fyrir því eru eftirfarandi rök:
—    kostnaður af eftirliti virðist aukast með því kerfi sem gert er ráð fyrir að taka upp samkvæmt frumvarpinu sem gæti leitt til hærra rafmagnsverðs fyrir neytendur;
—    kostnaður við skoðun húsveitna getur aukist verulega;
—    kostnaður eykst mest á landsbyggðinni nái breytingarnar fram að ganga;
—    kerfisbreytingin byggist á því að flytja tugi starfa frá dreifbýli til þéttbýlis;
—    ekki er ljóst að rafmagnseftirlit aukist og því er haldið fram að úr því geti dregið;
—    ekki hefur verið gengið frá því hvernig breytingin kemur við starfsmenn Rafmagnseftirlitsins;
—    frumvarpið felur í sér víðtækt valdframsal til ráðherra og það virðist almennt illa undirbúið.
    Nánar verður fjallað um málið í framsögu.
    Guðný Guðbjörndóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 17. des. 1996.



Svavar Gestsson,

Jóhanna Sigurðardóttir.


frsm.