Ferill 302. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 302 . mál.


558. Frumvarp til laga



um breyting á lögum um biskupskosningu, nr. 96 31. desember 1980 (kosningarréttur við biskupskjör).

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996–97.)



1. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
    1. tölul. orðast svo:
        1.    Biskup Íslands, þjónandi vígslubiskupar, sóknarprestar og prófastar, svo og aðstoðarprestar og sérþjónustuprestar ráðnir af ráðherra, kennarar guðfræðideildar Háskóla Íslands sem eru í föstum embættum eða störfum (prófessorar, dósentar, lektorar) og rektor Skálholtsskóla, enda séu þeir guðfræðikandídatar, svo og biskupsritari og aðrir starfsmenn biskupsstofu í föstu starfi með sama skilorði, aðstoðarprestar ráðnir af sóknarnefndum og prestar sem ráðnir eru af stjórn sjúkrastofnana til prestþjónustu þar og lúta yfirstjórn kirkjulegra stjórnvalda í kirkjulegum efnum, enda gegni þeir því starfi sem aðalstarfi, og prestvígðir menn sem ráðnir eru til sérstakra starfa innan þjóðkirkjunnar á vegum biskups og kirkjuráðs, eftir því sem nánar segir í reglugerð, sbr. 7. gr.
    3. tölul. orðast svo:
        3.    Enn fremur einn leikmaður fyrir hvert prófastsdæmi, kjörinn af leikmönnum, sem sæti eiga á héraðsfundi, til fjögurra ára í senn, og skulu varamenn einnig kjörnir á sama hátt.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í lögum um biskupskosningu, nr. 96/1980, er m.a. mælt fyrir um hverjir eigi kosningarrétt við biskupskjör, sem og við vígslubiskupskjör, sbr. 43. gr. laga um skipan prestakalla og prófastsdæma og um starfsmenn þjóðkirkju Íslands, nr. 62/1990.
    Á undanförnum árum hefur fjölgað prestvígðum mönnum sem ekki eru ráðnir til starfa af kirkjulegum yfirvöldum. Á þetta einkum við sérþjónustupresta á sjúkrastofnunum. Prestar þessir eru í langflestum tilvikum ráðnir til starfa af viðkomandi stofnun og eru laun þeirra greidd af sama aðila. Álitaefni hafa komið upp um hvort þessir prestar eigi að lögum kosningarrétt við biskupskjör og vígslubiskupskjör. Við vígslubiskupskjör 1994 voru þeir ekki teknir á kjörskrá og höfðu því ekki kosningarrétt. Í kjölfarið kvörtuðu tveir sjúkrahúsprestar undan þeirri meðferð til umboðsmanns Alþingis sem lét í ljós það álit að sjúkrahúsprestar ættu samkvæmt gildandi lögum kosningarrétt við biskupskjör og vígslubiskupskjör, sbr. álit umboðsmanns í máli nr. 1105/1994. Rétt þykir að eyða öllum vafa varðandi þetta atriði og tryggja þeim sérþjónustuprestum, sem ráðnir eru til starfa af sjúkrastofnunum, kosningarrétt við biskupskjör og vígslubiskupskjör, enda lúti þeir yfirstjórn kirkjulegra stjórnvalda í kirkjulegum efnum.
    Þær breytingar, sem lagðar eru til með frumvarpi þessu, eru í fyrsta lagi að tryggja framangreindum sérþjónustuprestum kosningarrétt við biskupskjör og þar með jafnframt kosningarrétt við kjör vígslubiskupa. Í öðru lagi er lagt til að aðstoðarprestum, sem ráðnir eru af sóknarnefndum, verði tryggður sami réttur, en hann hafa þeir ekki samkvæmt gildandi lögum. Í þriðja lagi er lagt til að rektor Skálholtsskóla verði skipað við hlið kennara guðfræðideildar Háskólans og guðfræðikandídötum á biskupsstofu við hlið biskupsritara. Er frumvarpið lagt fram til að taka af öll tvímæli um kosningarrétt þessara starfsmanna kirkjunnar. Breytingarnar miða að öðru leyti að því að gera ákvæði laganna skýrari að því er varðar kosningarrétt presta og annarra guðfræðinga.
    Þá er lagt til að 3. tölul. 2. gr. laganna um biskupskosningu, þar sem fjallað er um kjör leikmanna, verði breytt í samræmi við skiptingu Reykjavíkurprófastsdæmis í tvö prófastsdæmi.
    Fyrirhugað er að leggja fram á yfirstandandi þingi frumvarp til laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar. Í því frumvarpi er gert ráð fyrir að kirkjuþing setji reglur um biskupskosningu. Verði það frumvarp samþykkt er gert ráð fyrir að þegar kirkjuþing hefur sett reglur um biskupskosningu falli lögin um biskupskosningu úr gildi. Í ljósi þess að ekki er víst hver afdrif þess frumvarps verða á yfirstandandi þingi, auk þess sem ekki er miðað við að þær breytingar sem þar eru lagðar til öðlist þegar gildi, er nauðsynlegt að breyta gildandi lögum um biskupskosningu nú til að tryggja sérþjónustuprestum sem ráðnir eru til starfa á sjúkrastofnunum og aðstoðarprestum sem ráðnir eru af sóknarnefndum umræddan kosningarrétt, svo og að taka af önnur tvímæli um kosningarrétt einstakra starfsmanna kirkjunnar, en gert er ráð fyrir að biskupskjör fari fram á árinu.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum
um biskupskosningu, nr. 96 31. desember 1980.

    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar til að taka af öll tvímæli um hverjir eru kjörgengir til biskupskjörs. Til dæmis hefur á undanförnum árum fjölgað prestvígðum mönnum sem ekki eru ráðnir til starfa af kirkjulegum yfirvöldum og hefur risið ágreiningur um rétt þeirra í þessum efnum. Ekki verður séð að frumvarpið hafi kostnaðarauka í för með sér verði það óbreytt að lögum.