Ferill 475. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 475 . mál.


1264. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 18 11. maí 1977, um járnblendiverksmiðju í Hvalfirði, sbr. l. nr. 45 11. maí 1982, nr. 95 28. maí 1984 og nr. 28 9. maí 1989.

Frá meiri hluta iðnaðarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fengið á sinn fund Jón Sveinsson, stjórnarformann Íslenska járnblendifélagsins hf., Halldór J. Kristjánsson, Jón Ingimarsson og Guðjón A. Guðjónsson frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu, Indriða H. Þorláksson frá fjármálaráðuneytinu, Ólaf Magnússon og Jón Gíslason frá Samtökum um óspillt land í Hvalfirði, Guðbrand Hannesson, oddvita Kjósarhrepps, Jónas Vigfússon, sveitarstjóra Kjalarneshrepps, Jón Valgarðsson, oddvita Hvalfjarðarstrandarhrepps, Marínó Þór Tryggvason, oddvita Skilmannahrepps, Anton Ottesen, oddvita Innri-Akraneshrepps, Sigurð Valgeirsson, oddvita Leirár- og Melahrepps, Gunnar Sigurðsson, forseta bæjarstjórnar á Akranesi, Jónas A. Aðalsteinsson hrl., Hermann Sveinbjörnsson, Ólaf Pétursson og Þór Tómasson frá Hollustuvernd ríkisins, Halldór Jónatansson, Jóhann Má Maríusson, Elías Elíasson og Kristján Gunnarsson frá Landsvirkjun, Baldur Guðlaugsson hrl., Þórð Friðjónsson, forstjóra Þjóðhagsstofnunar, Alfreð Þorsteinsson, formann veitustofnana Reykjavíkur, Ingólf Hrólfsson og Eystein Jónsson frá Hitaveitu Reykjavíkur, Valdimar K. Jónsson prófessor, Má Guðmundsson og Ólaf Ísleifsson frá Seðlabanka Íslands, Geir A. Gunnlaugsson og Garðar Ingvarsson frá Markaðsskrifstofu iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar (MIL), Magnús Jóhannesson, ráðuneytisstjóra umhverfisráðuneytisins, og Guðmund Einarsson frá Elkem ASA. Auk þess fékk nefndin mikið af skriflegum gögnum til skoðunar.
    Með lögum nr. 18/1977 var ríkisstjórninni falið að beita sér fyrir stofnun hlutafélags, sem reisa skyldi og reka verksmiðju að Grundartanga í Hvalfirði og hafa með höndum framleiðslu á kísiljárni og tengdan atvinnurekstur, Íslenska járnblendifélagsins hf. Frá árinu 1984 hafa hluthafar verið þrír, íslenska ríkið með 55% eignarhlut, norska fyrirtækið Elkem með 30% eignarhlut og japanska fyrirtækið Sumitomo sem á því ári keypti 15% eignarhlut í fyrirtækinu af Elkem. Með samþykkt laga nr. 28/1989 var fyrirtækinu heimilað að taka þátt í öðrum atvinnurekstri en bræðslu kísiljárns. Í greinargerð með frumvarpi til þeirra laga (þskj. 768 á 111. löggjafarþingi) kemur fram að af lagaheimildum og samþykktum um Íslenska járnblendifélagið hf. sé ljóst að fyrirtækinu sé ætlaður vöxtur í framleiðslu á kísiljárni. Voru skipulag og stærð verksmiðjusvæðisins við það miðuð að verksmiðjuna mætti stækka mjög verulega. Á þeim tíma var stækkun hins vegar ekki talin tímabær.
    Með þeim samningum, sem nú hafa náðst milli eigenda Íslenska járnblendifélagsins hf., er stefnt að stækkun verksmiðjunnar með ofni III og jafnframt er stjórn félagsins falið að kanna grundvöllinn fyrir enn frekari stækkun. Stækkun verksmiðjunnar um einn ofn þýðir að afkastageta hennar eykst úr 70 þús. tonnum í 110 þús. tonn og er slík stækkun talin styrkja samkeppnisstöðu verksmiðjunnar þegar til lengri tíma er litið. Vegna þessa munu skapast um 30–35 ný störf. Ef járnblendiverksmiðjan verður stækkuð enn frekar verður hún sú stærsta sinnar tegundar í heiminum. Ljóst er að ef ekki hefði orðið af breytingum á eignarhaldi í fyrirtækinu hefðu áform um stækkun verksmiðjunnar verið úr sögunni sem aftur hefði leitt til fækkunar starfsmanna og verri afkomu Landsvirkjunar, sbr. það sem síðar segir í áliti þessu um rafmagnssamning. Samkomulag er um hækkun hlutafjár að nafnvirði 423,9 millj. kr. sem Elkem greiðir að fullu fyrir með 932,5 millj. kr. Þar með eignast Elkem 51% hlut í fyrirtækinu, íslenska ríkið mun eiga 38,5% hlut og hlutur Sumitomo verður 10,5%. Heildarverðmæti alls hlutafjár í verksmiðjunni er metið á 2.548 millj. kr. áður en arður fyrir árið 1996 hefur verið greiddur út. Eftir hlutafjáraukningu mun Elkem eiga fjóra menn í stjórn félagsins, íslenska ríkið tvo og Sumitomo einn. Í samningnum er kveðið á um að Íslenska járnblendifélagið hf. verði skráð á Verðbréfaþingi Íslands og hefur íslenska ríkið rétt til þess að selja hluta af sinni eign með almennu útboði. Nefndin hefur sérstaklega kannað mat á verðmæti hlutafjár í félaginu og gerir meiri hlutinn ekki athugasemdir við það.
    Þjóðhagsleg áhrif af stækkun verksmiðjunnar eru meðal annars þau að á framkvæmdatímanum aukast fjárfestingar um 6 milljarða kr. Áður hefur verið getið um ný störf og þegar tillit er tekið til innfluttra aðfanga má ætla að stækkunin ein skili u.þ.b. einum milljarði kr. til landsframleiðslunnar, eða um 0,3%. Þjóðhagsstofnun bendir á að varanleg heildaraukning þjóðarframleiðslu vegna stóriðju á Grundartanga geti orðið allt að 0,7% með traustri hagstjórn. Í því sambandi bendir stofnunin á að mikilvægt er að stuðla að auknum þjóðhagslegum sparnaði á næstu árum með því að gæta ýtrasta aðhalds í ríkisfjármálum og taka nægilega þétt í taumhaldið á peningamálum til að halda aftur af aukningu þjóðarútgjalda.
    Elkem ASA er stærst fyrirtækja í heiminum í framleiðslu á kísiljárni með um 13% markaðshlutdeild og á kísilmálmi með um 18% markaðshlutdeild. Af þessu leiðir að fyrirtækið er stór aðili á heimsmarkaði með þessar afurðir. Vegna fyrirhugaðrar meirihlutaeignar Elkem í Íslenska járnblendifélaginu hf. kallaði iðnaðarnefnd Guðmund Einarsson, framkvæmdastjóra kísiljárn- og kísilmálmdeildar Elkem, á sinn fund frá Noregi. Félagið rekur á annan tug verksmiðja, flestar í Noregi en einnig í Kanada og Bandaríkjunum. Fram kom að Elkem leitast við að fela heimamönnum framkvæmdastjórn og daglegan rekstur hverrar verksmiðju og að fyrirtækið telur að samkeppnishæfni þess byggist á góðu og hæfu vinnuafli. Því sé fyrirtækinu akkur í að halda góðum tengslum við starfsmenn sína. Varðandi verksmiðju Íslenska járnblendifélagsins hf. kom fram að Elkem vænti sér góðs af samstarfi við starfsmenn fyrirtækisins og teldi að rekstur þess væri góður. Þá væri rannsókna- og þróunardeild fyrirtækisins öflug og yrði enn efld. Hefur deildin sýnt sérstakt áræði í þróunarstarfi að mati Elkem. Varðandi umhverfismál kom fram að Elkem legði áherslu á að búnaður fyrirtækisins fylgdi ströngustu kröfum og taldi Guðmundur að þeim kröfum sem gerðar væru hérlendis svipaði til krafna sem gerðar væru í Noregi.
    Nefndin hefur kynnt sér rafmagnssamning Landsvirkjunar og Íslenska járnblendifélagsins hf. vegna stækkunar verksmiðju félagsins. Stækkun járnblendiverksmiðjunnar mun styrkja fjárhagsstöðu Landsvirkjunar og stuðla að því markmiði að raforkuverð til almenningsveitna lækki um 3% árlega frá árinu 2001 til ársins 2010 en haldist síðan óbreytt, en þetta telur meiri hlutinn mjög mikilvæga forsendu fyrir stækkuninni.
    Mengunarvarnir járnblendiverksmiðjunnar hafa bæði verið ræddar í iðnaðarnefnd og umhverfisnefnd, enda eru strangar kröfur til mengunarvarna og umhverfismála mikilvægar í rekstri stóriðju, jafnt hér á landi sem annars staðar. Í tengslum við gerð skýrslu umhverfisnefndar um starfsleyfistillögur fyrir álver á Grundartanga (470. mál, þskj. 796), sem iðnaðarnefnd hefur haft til skoðunar, fór umhverfisnefnd í heimsókn í járnblendiverksmiðjuna og kynnti sér mengunarvarnir sérstaklega. Bæði meiri og minni hluti umhverfisnefndar benda á nauðsyn þess að svo verði búið að Hollustuvernd ríkisins að hún geti sinnt eftirliti með mengunarvörnum betur en nú. Undir þetta sjónarmið tekur meiri hlutinn. Þá bendir meiri hluti umhverfisnefndar á að óvenjutíðar sleppingar á reyk frá járnblendiverksmiðjunni stöfuðu af bilunum og endurnýjun á mengunarvarnabúnaði í verksmiðjunni og að rekstrartími reykhreinsivirkja hefði á árinu 1996 verið 99,28% á reykhreinsivirki 1 og 98,97% á reykhreinsivirki 2. Fram kemur að samkvæmt upplýsingum frá járnblendiverksmiðjunni og Hollustuvernd ríkisins er sá reykur sem sést frá verksmiðjunni ryk sem ekki veldur meiri mengun en ryk yfirleitt. Hinar mengandi lofttegundir séu hins vegar ekki sjáanlegar. Á fundi með iðnaðarnefnd upplýstu umhverfisráðuneyti og Hollustuvernd ríkisins að vinna við endurskoðun hins tuttugu ára gamla starfsleyfis járnblendiverksmiðjunnar væri þegar hafin. Við stækkun verksmiðjunnar (ofn III) verður gefið út nýtt starfsleyfi fyrir rekstur Íslenska járnblendifélagsins hf. í heild. Þær upplýsingar komu fram að strangari kröfur verða gerðar varðandi brennisteinsmagn í kolum en í núverandi starfsleyfi. Þá verða verulega hertar kröfur varðandi losun á ryki og jafnframt verða sett mörk fyrir tímalengd losunar ef bilun verður í tækjabúnaði. Meiri hlutinn leggur áherslu á endurskoðun starfsleyfis járnblendiverksmiðjunnar og að í nýju starfsleyfi verði gerðar strangar, en um leið eðlilegar, kröfur til mengunarvarna er taki mið af staðháttum.
    Meiri hlutinn vekur athygli á því að lög um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993, ná ekki til framkvæmda samkvæmt leyfum útgefnum fyrir 1. maí 1994. Telur hann eðlilegt að fyrir hugsanlega framtíðarstækkun járnblendiverksmiðjunnar (IV. og V. ofn) verði gert mat á umhverfisáhrifum með tilliti til starfsemi á svæðinu í heild.
    Í tengslum við umfjöllun málsins fór iðnaðarnefnd í vettvangsferð í járnblendiverksmiðjuna og ræddi við framkvæmdastjórn og trúnaðarmenn starfsmanna.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 13. maí 1997.



Stefán Guðmundsson,

Guðjón Guðmundsson.

Sighvatur Björgvinsson.


form., frsm.



Árni R. Árnason.

Sigríður A. Þórðardóttir.

Hjálmar Árnason.



Pétur H. Blöndal.

Jóhanna Sigurðardóttir.