Ferill 445. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 445 . mál.


1308. Nefndarálit



um frv. til l. um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga.

Frá minni hluta iðnaðarnefndar.



    Mörg atriði vekja spurningar í tengslum við frumvarpið um álver á Grundartanga. Aðalatriði málsins eru þessi:
    Aðdragandi málsins og framkoma stjórnvalda gagnvart íbúum Kjósarsýslu, í Hvalfirði sunnanverðum, er skólabókardæmi um hrokafulla afstöðu stjórnvalda. Íbúarnir stofnuðu samtökin SÓL í Hvalfirði og óskuðu eftir því að farið yrði að settum leikreglum. Stjórnvöld svöruðu engu og fóru sínu fram af fyllsta tillitsleysi; meðal annars báru þau því við að íbúarnir hefðu mátt búast við öðru stóriðjuveri á Grundartangasvæðinu samkvæmt settu aðalskipulagi. Íbúarnir bentu á að þeim væri ljóst að þarna væri iðnaðarsvæði en þeim hefði aldrei verið gerð grein fyrir því að þarna ætti að vera stærsta stóriðjusvæði á Íslandi.
    Annar aðalþáttur málsins er staðarvalið sem er umdeilanlegt af mörgum ástæðum. Í fyrsta lagi er álitamál hvort rétt er að setja fyrirtækið niður í Hvalfirði við hliðina á öðru stóriðjuveri. Þannig er verið að hlaða á einn stað stóriðjuverum sem skynsamlegra væri að dreifa um landið. Í nefndinni kom fram að stjórnvöld vísuðu eigendum álversins á Grundartanga og ekkert annað. Í öðru lagi er staðsetning fyrirtækisins álitamál frá byggðasjónarmiði. Í þriðja lagi er staðsetning fyrirtækisins vafasöm út frá umhverfissjónarmiði.
    Þriðji aðalþáttur málsins er sú staðreynd að fyrirtækið Columbia Ventures Corporations er lítið fyrirtæki sem á bersýnilega erfitt með að tryggja fjármögnun verkefnisins og kvað svo rammt að áhyggjum manna í þessum efnum að efnahags- og viðskiptanefnd kannaði fjárhagsstöðu þess sérstaklega. Verður að benda á að enn mun ekki allt í höfn að því er varðar fjárhagsstöðu fyrirtækisins og þó er ætlunin að hefja raforkusölu til þess þegar 1. júní á næsta ári.
    Í fjórða lagi ber í þessu sambandi að benda á að hreinsibúnaður fyrirtækisins er ekki eins og best verður á kosið. Þess vegna flytur minni hlutinn breytingartillögur við frumvarpið um að komið verði upp vothreinsibúnaði.
    Í fimmta lagi er ljóst að raforkuverð til fyrirtækisins er lágt eða á mörkunum. Sérstaklega er verðið umhugsunarvert með hliðsjón af því að verð á raforku til stóriðju fer nú hækkandi annars staðar; má benda á Noreg í þessu sambandi.

Raforkuverðið verður að hækka.


    Á fundi iðnaðarnefndar við lok umfjöllunar um frumvarp til laga um álver á Grundartanga fjallaði iðnaðarráðherra m.a. um nokkur lykilatriði þeirra mála sem hér eru til meðferðar. Það sem fram kom í þeirri umfjöllun af hálfu ráðherrans og ráðuneytisins var m.a. þetta:
    Næstu samningar fyrir stóriðju hljóta að verða á mun hærra verði eða 21–23 mills á kílówattstundina. Þessi mál eru stöðugt til meðferðar í ráðuneytinu og samkvæmt þeim upplýsingum sem fram komu hjá ráðherranum o.fl. eru margir aðilar stöðugt að leita hófanna hér á landi um ný álver. Greinilegt er að hækkandi raforkuverð í Noregi og Svíþjóð hefur það í för með sér að stóriðjufyrirtækin munu í vaxandi mæli sækja til Íslands. Ástæðurnar fyrir hækkandi raforkuverði á Norðurlöndum eru í meginatriðum þrjár. Í fyrsta lagi er stefnt að því að leggja umhverfisskatta á raforku frá orkugjöfum sem ekki eru umhverfisvænir eða skaða umhverfið að einhverju leyti. Í öðru lagi er reiknað með því að kjarnorkuverum verði lokað á næstu árum og það mun þýða hærra raforkuverð og í þriðja lagi hafa skipulagsbreytingar á orkumarkaðnum haft það í för með sér að verð á raforku í Noregi og víðar annars staðar hefur hækkað mjög verulega að undanförnu. Þetta mun verða til að þessir aðilar munu í vaxandi mæli leita hingað til Íslands. Ef á annað borð er léð máls á frekari uppbyggingu stóriðju hér á landi skapar þetta Íslendingum möguleika til þess að knýja fram miklu hærra raforkuverð en þeir til þessa hafa fengið í þeim stóriðjusamningum sem gerðir hafa verið. Dæmi þessu til sönnunar er sú ákvörðun Gränges-fyrirtækisins að loka álveri sem þeir eiga í Svíþjóð; þetta stafar af því að þessir aðilar þurfa núna að sæta mikið hærra raforkuverði þar sem ákveðið hefur verið að loka kjarnorkuverum sem framleiða raforku í Svíþjóð. Þetta segir einnig að stóriðjusamningar, sem gerðir hafa verið í Svíþjóð um sölu á raforku, eru þannig að þeir verða að sæta breytingum á orkuverði og jafnvel sköttum sem tekin er ákvörðun um í viðkomandi landi. Þetta er grundvallarmunur frá því sem er varðandi stóriðjusamningana hér á landi; í öllum tilvikum er um að ræða sérsamninga þar sem raforkuverð er mismunandi, og þar sem skattar eru mismunandi og þess vegna gilda hér sérlög um hvert einasta stóriðjufyrirtæki sem er starfandi hér á landi. Það er auðvitað óeðlilegt og fráleitt fyrirbæri. Sérstaklega er þó fráleitt að þessi fyrirtæki skuli geta samið um óbreytt eða lítið breytt orkuverð innan ákveðins ramma og óbreytta eða lítið breytta skatta innan ákveðins ramma til margra áratuga án þess að þurfa að sæta breytingum eins og stóriðjufyrirtæki á Norðurlöndum eru núna að taka á sig í þó nokkrum mæli.
    Fram kom í nefndinni að stóriðjufyrirtæki eru í vaxandi mæli að sækja á hér. Atlantsálshópurinn var síðast sóttur heim í New York í janúar sl. Hópnum finnst verðið, sem rætt er um, þ.e. 21–23 mills, vera of hátt en greinilegt er að hann hefur engu að síður frekari áhuga á því að starfa á Íslandi vegna þess að orkuverð sem stóriðju er boðið, t.d. í Noregi, er nú í kringum 30 mills á kílówattstundina. Forstjóri Norsk Hydro hefur einnig leitað viðræðna á Íslandi og hefur látið hafa það eftir sér að hann telji að tvö lönd í Evrópu eigi mesta möguleika til framþróunar í málmiðnaði; annað þeirra er Ísland. Það slæma í stöðunni fyrir okkur er hins vegar að það er greinilega stefna stjórnvalda að leggja fyrst áherslu á lágt orkuverð áður en aðrir kostir Íslands eru dregnir fram í dagsljósið; það er í raun og veru mjög alvarleg staðreynd en engu að síður staðreynd sem liggur fyrir í framhaldi af umfjöllun þessa máls, m.a. í iðnaðarnefnd.
    Í rauninni hafa stjórnvöld nú sterka stöðu til að knýja fram hátt orkuverð miðað við það sem verið hefur og þau hafa stöðu til að knýja fram bestu umhverfisvarnir sem hugsast geta. Hvorugt gerist. Íslensk stjórnvöld eru enn í þeim heimi að Íslendingar þurfi að una lægsta verðinu og lakasta mengunarvarnabúnaðinum.

Aðrir stóriðjukostir á næstunni.


    Það hefur komið fram að helstu verkefni fram undan að mati stjórnvalda í stóriðjumálum séu í fyrsta lagi Atlantsálshópurinn, en þar eru enn fundir eins og áður segir, og í öðru lagi undirbúningsvinna við að kortleggja samstarf við Norsk Hydro eins og iðnaðarráðherra hefur komist að orði. Þar er lágt orkuverð bersýnilega grundvallaratriði. Í þriðja lagi eru nefndir aðrir möguleikar en þeir eru bersýnilega aftar á blaði að mati stjórnvalda. Í flokki þeirra verkefna er magnesíumverksmiðjan sem er reyndar aðallega á snærum Hitaveitu Suðurnesja. Í nefndinni kom fram að hugmyndir um álver á vegum Kaiser Aluminium eða zinkframleiðslu í Áburðarverksmiðjunni eru úr sögunni.

Sérlög um skatta allra stóriðjufyrirtækjanna.


    Á fundi nefndarinnar var einnig fjallað sérstaklega um skattamálin og bent á hvort það væri ekki nokkuð sérkennileg staða að tiltölulega mjög lítil sveitarfélög högnuðust verulega á stóriðju en nágrannasveitarfélögin hefðu lítið upp úr krafsinu; sum þeirra að vísu atvinnutækifæri en önnur lítið annað en mengun. Spurt var hvort ekki væri eðlilegt að hafa heildarlög, samfelld lög, í gildi fyrir öll þessi fyrirtæki. Fram kom að viðræður hafa verið í gangi á milli fjármálaráðuneytisins og iðnaðarráðuneytisins um þessi mál en engar niðurstöður liggja fyrir. Bent er á að eftir að aðstöðugjaldið var lagt niður þá hafi staðan breyst í þessum málum en það er viðurkennt af stjórnvöldum að núverandi fyrirkomulag í þessum efnum er ekki heppilegt.

Hvar á stóriðjan að vera? — Öll í Hvalfirði?


    Í umræðum um málið í nefndinni, og reyndar víðar, hafa komið fram ýmsar upplýsingar um staðarval verksmiðjanna á Grundartanga. Greinilegt er að stjórnvöld líta þannig á að staðirnir á Íslandi sem um er að ræða séu fjórir, þ.e. Grundartangi nr. 1, Keilisnes nr. 2, Dysnes í Eyjafirði nr. 3 og Reyðarfjörður nr. 4. Fram hefur komið opinberlega að það er skoðun stjórnvalda að ríkið eigi ekki að leggja fjármuni í undirbúning að stofnun stóriðjufyrirtækja nema staðbundin stjórnvöld vilji og hafi tryggt stóriðju á viðkomandi svæði. Til þess að fá óafturkræft framlag úr ríkissjóði þurfi staðbundin stjórnvöld með öðrum orðum að hafa tryggt stóriðjuna. Augljóst er hversu fráleitt þetta er vegna þess að greinilegt er að með þessu móti verða öll stóriðjufyrirtæki framtíðarinnar sett niður á Grundartanga eða Keilisnesi. Langlíklegast er að þau verði fleiri á Grundartanga þannig að þeim verði með öðrum orðum raðað inn eftir öllum Hvalfirði ef svo fer fram sem horfir. Í nefndinni kom einnig fram að iðnaðarráðherra hefur í hyggju að stofna nefnd með umhverfisráðuneytinu um staðarval fyrir stóriðju og hefur sú nefnd ekki skilað neinu áliti en er í þann veginn að hefja störf að því er fram kom í nefndinni.

Rafmagnsverð í Reykjavík.


    Í nefndinni fóru fram umræður um hlut Reykjavíkurborgar í virkjunum vegna framkvæmda í Hvalfirði. M.a. var fullyrt að Nesjavallavirkjun mundi engin áhrif hafa á verð á heitu vatni frá Hitaveitu Reykjavíkur en verð á raforku mundi þróast í takt við þá verðlagsþróun á raforku sem um væri að ræða í landinu í heild. Bersýnilega var ekki gert ráð fyrir að verðlag á raforku yrði lækkað sérstaklega í Reykjavík vegna Nesjavallavirkjunarinnar. Fram kom að núvirði arðs Nesjavallavirkjunar er talið 1.260 millj. kr. og að arður af eigin fé er talinn vera yfir 7,66%. Í umræðum um málið kom fram að ekki hefur verið ákveðið hvað gert verður við hagnaðinn af Nesjavallavirkjun en ljóst er að borgaryfirvöld ráða því og verða að taka þar sérstaka ákvörðun fyrst ákveðið er að láta raforkuverð í Reykjavík ekki lækka meira en gerist annars staðar í landinu.


Sól í Hvalfirði.


    Talsmenn samtakanna Sól í Hvalfirði voru spurðir af hverju þeir hefðu ekki verið fyrr á ferðinni með mótmæli þar sem fyrir hafði legið um alllangt skeið að til stæði að þróa enn frekari stóriðju á Grundartanga. Þeir svöruðu því til að stjórnvöld hefðu mjög lengi verið að ræða um stóriðju og álver út um allt og því hefði ekki verið talin nein sérstök ástæða til þess að bregðast við þessu máli á Grundartanga fyrr en núna. Fram kom hjá talsmönnum Sólar í Hvalfirði að þeir töldu að stjórnvöld hefðu ekki sinnt grundvallarkynningu í málinu og hefðu í raun og veru komið aftan að fólkinu með ákvörðun um álver á Grundartanga. Spurt var hvort vothreinsibúnaður við verksmiðjuna í Hvalfirði mundi ekki hafa alvarlegar afleiðingar fyrir lífríkið í Hvalfirði og fram kom í viðræðum við sérfræðinga að engin ástæða væri til að ætla að lífríki í Hvalfirði spilltist sérstaklega vegna vothreinsibúnaðar við álverið. Einnig kom mjög skýrt fram frá forráðamönnum Sólar í Hvalfirði að þeir töldu að rekstur álvers samrýmdist ekki þeim rekstri sem fyrir er í Hvalfirði. Þar hefðu menn m.a. lagt áherslu á þróun lífrænnar ræktunar og atvinnulífs eins og ferðamennsku þannig að bersýnilega væri verið að breyta félagslegu og atvinnulegu umhverfi Hvalfjarðar í grundvallaratriðum og það snerti auðvitað ekki aðeins þá sem eru Hvalfjarðarstrandarmegin heldur einnig þá sem eru Kjósarmegin í Hvalfirði.
    Sólarmenn gagnrýndu aðallega að ekki hefði verið talað við fólkið í Hvalfirði, þ.e. í Kjósinni, með eðlilegum hætti á undirbúningsstigi og var greinilegt að Kjósarmenn töldu sig sárt leikna af viðskiptum við stjórnvöld.
    Forráðamenn Sólar í Hvalfirði gáfu ítarlegt yfirlit yfir þróun mála, m.a. samskipti þeirra við umhverfisráðherra og skipulagsyfirvöld sem virtust ekki hafa verið með eðlilegum hætti. Fram kom í nefndinni að landbúnaðarþátturinn hefði ekki verið tekinn með í umhverfismati og skipulagsstjóri hefði viljað skoða hann betur. Hins vegar hefði umhverfisráðherra fullyrt að sá þáttur hefði verið skoðaður og væri þess vegna ástæðulaust að fara nánar yfir hann. Því er haldið fram að ekki hafi verið beðið um skoðun á landbúnaðarþættinum á undirbúningsstigi málsins, en Kristján Oddsson, bóndi á Neðra-Hálsi hafði þó sent inn boð sem vissulega munu hafa komið í tæka tíð samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum. Greinilegt er að héraðið er sérstaklega viðkvæmt fyrir stóriðju og á það einkum við um landbúnaðinn. Einnig hefur komið fram hjá þingmönnum stjórnarflokkanna að þeir skilja þessi sjónarmið vel, svo vel reyndar að þeir vildu ekki hafa álver í sínu nábýli þótt Kjósverjar megi búa við þetta.
    Við annan tón kvað hjá íbúum í Borgarfirði sunnan Hvalfjarðar. Akurnesingar voru að vísu óhressir með það hversu lítið þeir hefðu fengið að koma að málinu og sögðu að óeðlilegt væri að járnblendið hefði áfram forgang að Grundartangahöfninni. Einnig kom fram að byggðarlögin í kringum verksmiðjurnar hafa miklar tekjur af þeim og voru færðar fram tölur því til sönnunar.
    Spurt var að því í nefndinni hversu miklar tekjur hrepparnir, þ.e. Skilmannahreppur og Hvalfjarðarstrandarhreppur, hefðu af þessum verksmiðjum en talsmenn verksmiðjanna voru ekki með handbærar upplýsingar um það.
    Aftur og aftur hefur þeim Sólarmönnum verið borið það á brýn að þeir hefðu mátt vita að gert væri ráð fyrir stóriðju í Hvalfirði. Þeir viðurkenna það en segja að í aðalskipulagi hafi ekki verið gert ráð fyrir stærsta stóriðjusvæði á Íslandi. Þess vegna sé hægt að halda því fram að komið hafi verið aftan að þeim. Þeir leggja aðaláherslu á það að áhrif á landbúnað og vatnsbúskap verði rannsökuð betur en gert hefur verið. Þeir skýrðu frá því að þeir væru að láta vinna fyrir sig greinargerð til rökstuðnings kröfum um vothreinsibúnað og sú greinargerð fylgir áliti þessu sem fylgiskjal I.

Óánægja á Akranesi.


    Greinilegt er að Akranesbær dregur ýmis mál inn í umræður um álverið á Grundartanga í samþykkt sem gerð er í bæjarstjórn Akraness 13. janúar 1997. Þar segir t.d. að framkvæmdir megi ekki hefjast „fyrr en samkomulag hefur náðst milli sveitarfélaga á svæðinu, ríkisins og álfyrirtækisins um lausn á þeim málum þannig að vatnstaka vegna núverandi byggðar sunnan Skarðsheiðar verði tryggð“. Í samþykkt bæjarstjórnarinnar beinir hún þeirri áskorun til Hollustuverndar ríkisins að tekjur af mengunareftirliti við iðnaðarfyrirtæki við Hvalfjörð og á Akranesi verði látnar standa undir starfi eftirlitsmanns á svæðinu sunnan Skarðsheiðar.
    Þá segir bæjarstjórn Akraness m.a. að hún telji að „rannsóknir á mengunaráhrifum nýs álvers á Grundartanga séu ekki eins ítarlegar og æskilegt væri, sérstaklega veðurrannsóknir, svo sem fram kemur í mati á umhverfisáhrifum vegna byggingar álvers á Grundartanga, sbr. 6.4. Þó að hætta á mengun vatnsbóls Akurnesinga sé ekki mikil er hún þó fyrir hendi.“ Í ályktuninni gera þeir kröfu um að nýtt vatnsból verði kostað ef þörf verður á því vegna álversins. Í lok samþykktar sinnar 13. janúar 1997 segja þeir eftirfarandi: „Komi hins vegar í ljós að vatnsbólið mengast af álverinu, þó svo að álfyrirtækið uppfylli það starfsleyfi sem gefið verður út, áskilur Akraneskaupstaður sér rétt til skaðabóta fyrir öllu fjárhagslegu tjóni, beinu og óbeinu, úr hendi íslenska ríkisins.“ Þessari samþykkt beina þeir til félagsmálaráðherra og verður gengið eftir því í 2. umræðu um frumvarpið hvar þau mál eru á vegi stödd.
    Bæjarstjórn Akraness gerði einnig mjög alvarlegar athugasemdir við starfsleyfi fyrir álverksmiðju á Grundartanga þar sem segir t.d. um grein 2.1.7: „Setja þarf strangari ákvæði um að fyrirtækið dragi úr útblástursmengun ef það fer umfram viðmiðunarmörk greinar 2.1.6. og að fyrirtækið sé ábyrgt fyrir hugsanlegu tjóni sem hljótast kann af því að starfsleyfum sé ekki fylgt. Orðalag greinarinnar um að Hollustuverndinni sé heimilt að krefjast aðgerða til úrbóta er ómarkvisst en eðlilegra er að kveða þannig að orði að Hollustuvernd ríkisins sé skylt að fylgja ákvæðum laga nr. 81 frá 1988, sbr. lög nr. 28 frá 1990, og sjá um að úrbætur verði gerðar án tafar.“ Um grein 2.3.2 segir: „Um almenna förgun fastra efna í fjörunni er nauðsynlegt að skilgreina mun betur þau efni sem heimilt verður að farga, það svæði sem heimilt verður að nota til förgunar, hvernig aðgangi að svæðinu skuli háttað og að binda slíka förgun skilyrðum um að hún valdi ekki mengun. Gera þarf ráð fyrir samráði við Hollustuvernd ríkisins, Heilbrigðiseftirlit Akraness, hafnaryfirvöld og samþykki sveitarstjórnar.“ Síðan segir um grein 2.3.4: „Nauðsynlegt er að kveða á í greininni að óheimilt sé að skila spilliefnum frá starfseminni á annan stað en til viðurkenndrar spilliefnamóttöku.“ Enn fremur leggur bæjarstjórn Akraness áherslu á að farið verði að tillögum skipulagsstjóra ríkisins frá 19. febrúar 1996 um athuganir og mælingar en þær eru tilgreindar í 15 liðum þeirrar tillögu þannig að greinilegt er að í raun og veru hafa Akurnesingar miklar áhyggjur af málinu.

Álit minni hluta umhverfisnefndar.


    Á fundi umhverfisnefndar Alþingis 3. febrúar 1997 var samþykkt að taka sérstaklega til umfjöllunar drög að starfsleyfistillögum fyrir álver á Grundartanga. Að lokum skilaði nefndin tvískiptu áliti. Meiri hluti stjórnarflokkanna og þingflokks jafnaðarmanna skilaði sérstöku áliti sem lýsir stuðningi við stofnun álversins og jafnframt að umhverfiskröfur séu nægjanlegar. Þó gætir í texta meiri hlutans margvíslegra fyrirvara við málið sem benda til þess að einstakir þingmenn séu áhyggjufullir yfir ástandinu í umhverfismálum. Þar er t.d. viðurkennt að ekki hafi verið gerðar nægilegar rannsóknir á lífríki í nágrenni stóriðju hér á landi. Þá kemur fram að óbirt rannsókn, sem gerð var um miðjan níunda áratuginn, áður en fullkominn hreinsibúnaður var settur upp, bendi til þess að mengun frá álverinu hafi þá haft greinileg áhrif á tiltekinn gróður. Þessi síðbúna játning er mikilvæg vegna þess að þegar álverið var reist var öllum hugmyndum um mengunarkröfur hafnað sem fjarstæðu. Þá kemur fram að meiri hlutinn hefur áhyggjur af því að ekki verður settur upp vothreinsibúnaður því að hann viðurkennir í nefndarálitinu að endurskoða þurfi starfsleyfi hvað varðar mengunarkröfur og hreinsibúnað ef í ljós kemur að áætlanir um loftmengun standast ekki. Þannig að meiri hluti nefndarinnar hefur bersýnilega áhyggjur af stöðunni, kannski vegna þess að Kjósverjar hafa í raun og veru vakið menn til lífsins í þessum efnum; a.m.k. sést það á nefndaráliti meiri hlutans að hann býr við verulega vanlíðan í þessu efni að ekki sé meira sagt. T.d. tekur meiri hlutinn undir kröfur um það að starfsaðstaða Hollustuverndarinnar verði bætt mjög verulega og eins og fram kemur í áliti þess er minnt á nauðsyn þess að taka sérstaklega á vatnsmálum Akraneskaupstaðar í framhaldi af starfsemi álversins. Meiri hlutinn ákveður, eða lýsir því yfir, að hann muni leggja sérstaka áherslu á að nýta sér reynsluna af ferli þessa máls í tengslum við breytingarnar á skipulags- og byggingarlögum sem hafa verið til umræðu í nefndinni. Í lokaorðum meiri hlutans segir enn fremur að orðalag „starfsleyfistillögu mætti í mörgum tilfellum vera afdráttarlausara þannig að eftirlit og aðhald stjórnvalda yrði auðveldara“. Þá leggur meiri hlutinn áherslu á að „eftirlit með stóriðju, rannsóknir á áhrifum á lífríki landsins verði efld til muna“. Því er alveg augljóst að hér er meiri hlutinn að gera nýjar kröfur á stjórnvöld í þessu máli og þar örlar jafnvel á því að æskilegt hefði verið að hafa álverið annars staðar en einmitt á Grundartanga. Í nefndarálitinu leggur meiri hlutinn enn fremur áherslu á að gengið verði „tryggilega frá þessum málum“ að því er varðar vatnsmál Akraneskaupstaðar og verður gengið eftir því við umræður um málið við 2. umræðu hvort á þeim málum hefur verið tekið með eðlilegum hætti.
    Nefndarálit minni hluta umhverfisnefndar um þetta mál, umhverfismál álversins á Grundartanga, þ.e. álit Kristínar Halldórsdóttur og Hjörleifs Guttormssonar, er einkar ítarlegt og vel unnið. Þar er í fyrsta lagi bent á að grunnrannsóknir á lífríki og fleiri umhverfisþáttum í Hvalfirði vantar. Í öðru lagi er lögð á það áhersla að málsmeðferð hefur verið slæm, sérstaklega er gagnrýnd framganga markaðsskrifstofu iðnaðarráðuneytisins og talað er um að þáttur umhverfisráðuneytisins í málsmeðferð vegna tillagnanna að starfsleyfi hafi verið afleit sem m.a. birtist í ítrekaðri lögleysu við breytingar á mengunarvarnareglugerð. Í greinargerð minni hlutans segir að tillögur að starfsleyfi gangi í mörgum atriðum gegn því sem réttmætt geti talist og þær taki ekki mið af eðlilegum tillögum um umhverfisvernd. Talað er um að mörk fyrir losun flúoríðs séu óhæfilega rúm og engin hreinsun ráðgerð á brennisteinsdíoxíði. Með verksmiðjunni í fullri stærð eykst losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi um 373 þús. tonn á ári sem svarar til 13% aukningar miðað við losun árið 1990. Enn fremur segir minni hlutinn að afstaða Hollustuverndar ríkisins til eftirlits með stóriðjurekstri sé allsendis ófullnægjandi. Bent er á að með álbræðslu á Grundartanga vaxi mengunarálag á Faxaflóasvæðinu og loftgæðum muni hraka. Í greinargerð minni hlutans er rakinn ferill málsins, m.a. bent á að nýja verksmiðjan á Grundartanga muni fá tæki úr Töging-álverinu í Þýskalandi sem hafi keypt raforku frá vatnsorkuveri í ánni Inn sem rennur í Dóná. Miklar deilur hafi ítrekað orðið milli fyrirtækisins sem rak verksmiðjuna og bænda í nágrenni hennar vegna mengunar, einkum á tímabilinu 1950 til 1980, m.a. vegna verulegra skemmda á skóglendi vegna rykmengunar og svo sýkingar búfjár af völdum flúormengunar. Hafi staðið langvinn málaferli út af þessari verksmiðju sem enduðu með dómsátt í Landgericht í Bonn. Þá hafi verið ákveðið að loka verksmiðjunni. Því segir minni hlutinn að ljóst sé að verið sé að flytja hingað til landsins notaða verksmiðju og hætt er við að fleiri slíkar fylgi í kjölfarið. Í áliti minni hlutans er það sérstaklega gagnrýnt að svæðisskipulag skuli ekki hafa verið unnið samtímis fyrir Hvalfjarðarsvæðið í heild, þ.e. að Kjósarhreppur skuli ekki hafa átt hlutdeild í svæðisskipulaginu. Hvalfjörður er ein óskipt heild, m.a. með tilliti til stórframkvæmda í formi orkufreks iðnaðar, og væri auðvitað eðlilegt að þetta svæði væri skipulagt í heilu lagi. Í nefndaráliti minni hluta umhverfisnefndar er framganga markaðsskrifstofu iðnaðarráðuneytis og Landsvirkjunar gagnrýnd harðlega og vísast til 6. kafla umsagnar minni hlutans. Í 7. kaflanum er bent á að sjö aðilar, m.a. framkvæmdaaðilar, hafi kært úrskurð skipulagsstjóra og umhverfisráðherra hafi fallist á kröfur þeirra og ógilt í meginatriðum úrskurðarorð skipulagsstjóra. M.a. hafi ráðuneytið hafnað því sjónarmiði að tengja allar framkvæmdir saman og takmarka eina framkvæmd við aðra eins og það er orðað í niðurstöðu ráðuneytisins. Þetta verður að telja varhugaverða niðurstöðu sem gæti skapað hættulegt fordæmi. Geta menn séð til hvers það leiðir ef hafnar eru t.d. framkvæmdir við verksmiðju án þess að búið sé að fjalla um mat og tryggja orkuöflun til hennar. Þannig skapast auðvitað óeðlilegur þrýstingur á málsmeðferð við mat á þeirri framkvæmd sem röðin kemur síðar að í mati. Í áliti minni hluta umhverfisnefndar varðandi tillögu að starfsleyfi kemur fram að athugasemdir hafi borist um það frá 54 aðilum sem sýni hversu umdeilt málið sé. Ráðherra hafi síðan gefið út reglugerð en aðdragandi málsins sé þó enn þá umdeildari. Ráðherra hafi gefið út reglugerð nr. 394 1996 sem breytti vissum atriðum mengunarvarnareglugerðar frá 1994 og síðan hafi ráðherra verið rekinn með það til baka, m.a. fyrir málafylgju Hjörleifs Guttormssonar. Síðan gaf ráðherrann enn út nýja reglugerð, nr. 26 1997. Um þessi mál hefur verið rætt utan dagskrár í vetur, síðast í dag, 15. maí 1997.
    Fráleitt er að ætla nú að veita starfsleyfi fyrir þrjá byggingaráfanga verksmiðjunnar, allt upp í 180 þús. tonn, og eðlilegra hefði verið að takmarka það við 60 þús. tonn að sinni. Það er einnig alveg fráleitt að mati minni hluta iðnaðarnefndar að gefa starfsleyfið út til tíu ára en ekki fjögurra ára eins og lagt var til af minni hluta stjórnar Hollustuverndar ríkisins. Það hefur reyndar verið regla um starfsleyfi sem Hollustuvernd hefur sjálf gefið út og þau hafa gilt í fjögur ár. Hér er verið að gefa út starfsleyfi til tíu ára sem er algerlega fráleitt, m.a. væri nauðsynlegt að setja inn í starfsleyfið ákvæði um heimild og möguleika til endurskoðunar ef Íslendingar gerast aðilar að alþjóðasamþykktum um strangari mengunarvarnir og ef íslenskar reglur um þau efni yrðu strangari en nú. Í nefndaráliti minni hluta umhverfisnefndar segir að heildarflúor í losun samkvæmt heimiluðum mörkum svari til þess að allt að 108 tonn af flúroríði berist árlega frá verksmiðjunni. Full rök eru til þess, segir í nefndaráliti minni hluta umhverfisnefndar, að heimila ekki meiri losun heildarflúoríðs frá verksmiðjunni en 0,4 kg á tonn af áli í stað 0,6 kg á tonn af áli; það er að þrengja losunarmörkin um 50% frá því sem starfsleyfið gerir nú ráð fyrir. Raunar hefði mátt ganga lengra því að víða erlendis er krafið 0,3 kg á tonn af áli. Parcom-viðmiðunin frá 1994 segir ekki nóg í þessu sambandi því að hún er málamiðlun ríkja við ólíkar aðstæður en við undirbúning þeirrar viðmiðunar gerðu Norðmenn tillögu um 0,4 kg af flúoríði á tonn af áli að hámarki þegar beitt er vothreinsun til viðbótar við þurrhreinsun. Og í greinargerð Högna Hanssonar, forstöðumanns Hollustu- og heilbrigðiseftirlitsins í Landskrona í Svíþjóð, kemur fram að mörkin eru 0,3 kg á tonn af áli. Í tillögu meiri hluta stjórnar Hollustuverndar ríkisins að starfsleyfi er ekki gert ráð fyrir neinni hreinsun á brennisteinstvíoxíði frá verksmiðjunni og tilgreind mörk samkvæmt starfsleyfinu byggjast á því að brennisteinsinnihald í forskautum fari ekki yfir 2%. Verði það hærra gilda ákvæði 2. gr. í starfsleyfinu sem hljóðar svo: „Ef rafskaut með nægilega lágu innihaldi brennisteins til þess að standast útblástursmörk skv. 2.1.6 eru ekki fáanleg á samkeppnishæfu verði á heimsmarkaði skal þetta starfsleyfi endurskoðað.“ Sú endurskoðun getur ekki verið nema í eina átt, þ.e. til að heimila vaxandi mengun, nema menn hafi í huga að krefjast vothreinsunar. Hér er því um fráleitt ákvæði að ræða og allt of veikt. Minni hluti stjórnar Hollustuverndar ríkisins hefur tekið undir sjónarmið meiri hluta stjórnarinnar um að nauðsynlegt sé að afla gagna um mengun af völdum brennisteinsdíoxíðs hér á landi en ekki þurfi að bíða eftir slíkri úttekt til að gera kröfur til vothreinsunar um framangreind sjónarmið. Minni hluti iðnaðarnefndar tekur undir þessi sjónarmið. Tilgreind losunarmörk fyrir brennisteinstvíoxíð eru 10–20 sinnum hærri en tíðkast í starfsleyfum álbræðsla á Norðurlöndum þar sem hvarvetna utan Íslands er notuð vothreinsun auk þurrhreinsunar. Full rök eru fyrir því að beita sömu aðferð hérlendis nema menn vilji kalla yfir sig vandamál vegna sýringar af völdum brennisteinssambanda. Með vothreinsun er jafnframt unnt að draga enn frekar úr flúoríðmengun. Röksemdir, sem haldið er fram gegn vothreinsun, eru að mati minni hluta nefndarinnar ekki haldbærar og unnt að koma í veg fyrir skaðlega mengun í sjó af hennar völdum.
    Í nefndaráliti minni hlutans er bent á að Hollustuverndin hafi verið þeirrar skoðunar að ef álver yrði sett upp í Eyjafirði eða Reyðarfirði yrði að gera kröfur um vothreinsibúnað. „Hvers á Hvalfjörður að gjalda?“ spyr minni hluti iðnaðarnefndar.
    Í skýrslu Skipulags ríkisins er fjallað um sambýli stóriðjuveranna tveggja á Grundartanga þar sem segir: „Ef ná ætti einhverjum árangri með vothreinsun útblásturs á iðnaðarsvæðinu á Grundartanga væri nauðsynlegt að setja slíkan búnað einnig á búnað á útblástur frá verksmiðju Íslenska járnblendifélagsins hf.“ Spurningin er: Getur verið að þessi nauðsyn og sambýlið við Íslenska járnblendifélagið hf. hafi orðið til þess að menn kröfðust ekki vothreinsibúnaðar af álverinu í Hvalfirði?
    Í greinargerð minni hluta umhverfisnefndar er fjallað rækilega um alþjóðasamninga þá sem Íslendingar eru aðilar að í þessu sambandi og verður sú umfjöllun ekki endurtekin hér. Þar er einnig fjallað um föst úrgangsefni frá verksmiðjunni, sjónmengun, vatnsöflun, ófullnægjandi aðbúnað Hollustuverndar til eftirlits og þar er farið rækilega yfir nauðsyn þess að hefja grunnúttekt og rannsóknir á lífríki Hvalfjarðar. Þar er einnig þakkað fyrir öflugt viðnám heimafólks og er hér tekið undir þær þakkir. Einnig er minnt á að átökin um álverið í Hvalfirði snúast kannski ekki bara um lífríkið heldur séu þau fyrst og fremst almennt um atvinnustefnu, umhverfisgæði og ímynd Íslands. Undir það skal tekið hér.

Okkur var boðið þetta svæði!


    Fyrir Norðurál komu á fund iðnaðarnefndar Jón Sveinsson og Sigurður Arnalds og voru þeir m.a. spurðir um fjármögnun fyrirtækisins. Þeir bjuggust við að þeirri fjármögnun yrði lokið í maí. Þeir voru spurðir hvers vegna svo mikið hafi legið á, af hverju hafi endilega þurft að hefja framkvæmdir um páskana og efna þannig til enn frekari ófriðar en ella hefði verið. Þeir viðurkenndu að það að fá starfsleyfið og að sýna að framkvæmdir væru hafnar væri grundvallaratriði til að geta lokið fjármögnunarferlinum. Það var með öðrum orðum þrýstingur um fjármuni sem réði starfsleyfisútgáfunni og vonandi er umhverfisráðuneytið ekki aðili að slíkri niðurstöðu. Þeir voru spurðir um viðbrögð Kjósverja og því var svarað svo að forstöðumenn Norðuráls hefðu oft hitt Kjósverja en samtök Kjósverja væru vandamál stjórnvalda.
    Þeir sögðust aðspurðir ekkert vita um það hvort forusta fyrirtækisins yrði íslensk eða útlend en upplýstu að framkvæmdastjóri fyrirtækisins yrði bandarískur. Þeir sögðust ekki vita hvort á dagskrá væri að selja fyrirtækið eins og það lægi fyrir, Peterson væri einn eigandi fyrirtækisins. Þeir sögðu að spurningin um það hversu mikið eigið fé yrði lagt í fyrirtækið væri hluti af fjármögnunarviðræðum en þeir sögðust ímynda sér að eigið fé yrði 20–30% af heildarfjárfestingunni.
    Þeir sögðust ekki vita mikið um staðarákvörðun en sögðu að svæðið hefði greinilega alltaf verið ætlað fyrir stóriðju: „Okkur var boðið þetta svæði.“ Þeir sögðust hafa byrjað á laugardegi fyrir páska því að þeir hefðu þekkt hjátrú verktaka að byrja alltaf á laugardögum og sögðu enn fremur að þeir væru sáttir við ákvæði starfsleyfisins um urðun úrgangsefna.
    Þá viðurkenndu þeir að það væri alls ekki hugmyndin að málið kæmi aftur fyrir Alþingi, þ.e. þegar 60 þús. tonna verksmiðjan hefur verið byggð er ekki meiningin að málið komi aftur fyrir Alþingi þótt ákveðið yrði að fara í 180 þús. tonn. Hann skýrði frá því að 16,5 millj. kr. hefðu verið greiddar fyrir um 130 hektara lands. Um tvær spildur væri um að ræða og verðlagningin væri miðuð við sambærileg landakaup á þessu svæði áður. Annar kostnaður sem ríkið greiddi væri helst við flutning vegarins og um það væri ekkert sérstakt að segja.
    Í nefndinni var fjallað um gjöld til sveitarfélaganna Hvalfjarðarstrandarhrepps og Skilmannahrepps vegna fyrirhugaðrar álbræðslu á Grundartanga. Verðmæti nýju bygginganna er áætlað 2 milljarðar 393 millj. kr., þ.e. húsnæðismannvirkis og lóðar. Þetta er álagningargrunnur. Fasteignarskattur, miðað við 0,75% af þessu, er því 17,9 millj. kr. Skatturinn verður bundinn íslenskri byggingarvísitölu frá 1. desember 1994 sem þá var 217,8 stig. Þá fá sveitarfélögin byggingarleyfisgjald. Gert er ráð fyrir að byggingarleyfisgjald fyrir fyrsta áfanga álbræðslunnar á Grundartanga, sem miðast við framleiðslugetuna 60 þús. smálestir af áli á ári, nemi 7,1 millj. kr. eða sem samsvarar 100 þús. dollurum. Þreföldun verksmiðjunnar þýðir væntanlega þrisvar sinnum hærri tölu eða 21–22 millj. kr.
    Nefndinni barst bréf frá Jóni Sveinssyni lögmanni þar sem hann gerði grein fyrir kaupum á landi fyrir verksmiðjuna.

Skattar fyrirtækisins.


    Minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar, Steingrímur J. Sigfússon, taldi í sérstöku áliti að ýmsa þætti þessa máls, þ.e. skattana, hefði þurft að skoða betur. Í fyrsta lagi sé álitamál hvort yfirleitt eigi að stefna að sérsamningum af þessu tagi í stað þess að láta íslensk skattalög gilda, en í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sé heimild til sérsamninga nýtt skuli þeir gilda í að lágmarki 20 ár. Um ákvæði 5. gr. um undanþágu frá lögum og skattlagningu er það að segja að mörg atriði eru í sjálfu sér eðlileg, segir Steingrímur í áliti sínu, ef farið er út í sérsamninga um skattamál á annað borð. Annað orkar tvímælis. Þá eru ákvæði 6.–8. tölul. 5. gr. um ýmis gjöld til ríkis og sveitarfélaga hæpin. Sérstaklega er það skattstofninn, að skattarnir séu í reynd gerðir að samningsatriði, sbr. niðurlag 6. tölul. 5. gr., og tekur minni hlutinn undir tillögu meiri hlutans í því sambandi. Ljóst er einnig að ekki mun gæta jafnræðis milli sveitarfélaga á svæðinu hvað varðar ávinning af tilkomu verksmiðjunnar þannig að framkvæmdirnar geta samkvæmt frumvarpinu fært þeim tveimur sveitarfélögum sem eiga lóðina sem verksmiðjan verður reist á miklar tekjur en nágrannasveitarfélögin fá ekkert í sinn hlut. Mesta athygli minni hlutans vekur þó lokamálsgrein 5. gr. þar sem gert er ráð fyrir að félagið geti á hverju ári samningstímans frá og með árinu 2000 valið hvort það færir sig alfarið undir íslensk skattalög eða ekki. Félaginu verður þannig kleift að velja hvorn kostinn sem því verður hagstæðari á þeim tíma, þ.e. sérsamninginn eða hin almennu ákvæði íslenskra skattalaga. Ekki er gert ráð fyrir að íslenska ríkið hafi slíkan valrétt og verður það því bundið til 20 ára ef félagið ákveður að halda sig við samninginn. Loks er vert að vekja athygli á framtalsákvæði 9. gr. frumvarpsins sem sýnir í hnotskurn þann rúma rétt sem viðsemjendum Íslendinga er ætlaður í þessum samningum. Með ákvæðinu er félaginu heimilt að framselja t.d. lánveitanda alla skattasamninga sem það hefur gert við ríkið. Er þetta sagt nauðsynlegt vegna væntanlegrar verkefnafjármögnunar. Niðurstaða minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar er því sú að málið sé vanbúið til afgreiðslu og mun hann því ekki styðja lögfestingu frumvarpsins. Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar gerði einnig athugasemdir við 6. tölul. 1. mgr. 5. gr. frumvarpsins þar sem gert er ráð fyrir að hlutaðeigandi sveitarfélögum verði heimilt að leggja á fasteignaskatt „sem skal vera 0,85% af verðmæti bygginga, athafnasvæðis og mannvirkja eins og það er nánar skilgreint og um samið í samningum sem gerðir eru innan ramma þessara laga“. Meiri hlutinn telur að umrætt ákvæði feli í sér ákveðið framsal á skattlagningarvaldi yfir til sveitarfélaganna og telur eðlilegra að binda skattinn við fastákveðna fjárhæð eða afmarka hann betur á annan máta í frumvarpinu.
    Hér koma þess vegna fram mjög alvarlegar athugasemdir við skattlagningarþátt frumvarpsins sem nauðsynlegt er að taka til frekari skoðunar.

Ekki endanleg þýðing til meðferðar.


    Nefndin fjallaði um og fékk til meðferðar sérstaklega drög að fjárfestingarsamningi milli Íslands og Columbia Ventures Corporations og Norðuráls á íslensku og ensku. Þessir textar reyndust vera trúnaðarmál. Þegar þeir voru lagðir fyrir nefndina var þýðingu í raun og veru ekki lokið þannig að nefndin fékk ekki í hendur endanlegan texta á íslensku. Það eitt út af fyrir sig er alvarlegt umhugsunarefni.

MIL.


    Talsmenn markaðsskrifstofu Landsvirkjunar og iðnaðarráðuneytisins komu einnig á fund iðnaðarnefndar, Geir A. Gunnlaugsson og Garðar Ingvarsson. Þeir gerðu grein fyrir því sem var í gangi, því sem væri fram undan o.fl. Fram kom að líklegt væri að sama tækni yrði notuð í stækkuninni í járnblendiverksmiðjunni og verið hefði. Þeir töldu mjög líklegt að álverið yrði stækkað í 180 þús. tonn og yrði notuð svokölluð 180 kílóamperatækni sem hefði gefist vel. Ljóst væri að hagkvæmnin yrði þeim mun meiri sem fyrirtækið væri stærra og þess vegna væru allar líkur á því að það yrði stækkað. Þeir voru spurðir af hverju Grundartangi hefði verið valinn og sögðu þeir að tvennt hefði ráðið: Litið hefði verið á Keilisnes og kostnaður við 60 þús. tonna álver á Keilisnesi hefði verið mjög mikill, það hefði þurft að endurbyggja höfn o.fl. sem hefði kostað verulega fjármuni, höfnin t.d. 25 millj. dollara. Aðalatriðið var að fá ódýrari hafnaraðstöðu og ýmsa þjónustu sem er til staðar á Grundartanga. Spurt hefur verið: Fór MIL út fyrir starfssvið sitt með því að standa fyrir umhverfisathugun á Grundartanga fyrir verksmiðjuna? Svarið var að þeir sögðust einnig hafa sett í gang umhverfiskönnun í Straumsvík. Atlantsál hefði staðið fyrir öllum umhverfisathugunum á Keilisnesi sem þeir eiga þar með. Íslendingar hefðu átt athuganirnar upp frá og ekkert hefði orðið úr framkvæmdum þannig að það væri í raun og veru skynsamlegt að fara þessa leið. Þeir sögðu að Columbia-menn hefðu farið frá Þýskalandi vegna þess að raforkuverðið hefði hækkað verulega.
    Þeir ræddu um Atlantsál, sögðu að það mundi taka langan tíma og kallaði á Austurlandsvirkjanir. Það væri stöðugt samband á milli íslenskra aðila og Atlantsálsaðilanna og yrði áfram. Þá greindu þeir frá því að rætt hefði verið við aðila í Þýskalandi og í Bandaríkjunum um að koma hér upp efnaiðnaði, rætt væri um magnesíumverksmiðju og rætt hefði verið um slípiefnaiðnað. Enn fremur hefði verið rætt við ýmis önnur fyrirtæki í Bandaríkjunum um efni til að framleiða siliconmálma o.fl. Þá nefndu þeir einnig stálbræðsluna í Hafnarfirði, sögðu að öll þessi verkefni væru í athugun, tækju út af fyrir sig langan tíma og væri fátt í hendi annað en það sem fyrir lægi.
    Að öllu því samanlögðu sem hér hefur verið rakið leggur minni hlutinn til að frumvarpinu í því formi sem nú liggur fyrir verði vísað til ríkisstjórnarinnar þar sem þess verði freistað að semja á ný um mengunarvarnir, staðsetningu og stærð álversins. Samningum verði lokið fyrir 30. júní 1997 og þing þá kallað saman á ný til að fjalla um málið.
    Verði frávísunartillögunni hafnað flytur minni hlutinn til vara tvær breytingartillögur, aðra um að tillögur um stækkun álversins umfram 60 þús. tonn verði að leggja fyrir Alþingi á ný og hina um að alltaf verði notaður besti hugsanlegur mengunarvarnabúnaður við verksmiðjuna og að fyrirtækið verði búið vothreinsibúnaði við stofnun.
    Verði þessar tillögur allar felldar mun minni hlutinn snúast gegn málinu í heild við 3. umræðu.
    Guðný Guðbjörnsdóttir sat fundi nefndarinnar og er samþykk nefndaráliti þessu.

Alþingi, 15. maí 1997.



Svavar Gestsson.






Fylgiskjal I.

Greinargerð Sólarmanna


til rökstuðnings kröfu um vothreinsibúnað.







Fylgiskjal II.


Álit efnahags- og viðskiptanefndar.


(18. apríl 1997.)



    Efnahags- og viðskiptanefnd hefur fjallað um frumvarp til laga um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga (445. mál).
    Frumvarpið gerir ráð fyrir því að almennar íslenskar skattareglur muni gilda að langmestu leyti um byggingu og starfsemi hins fyrirhugaða álvers. Þó er vikið frá því í nokkrum atriðum. Hluti þess markast af því að um erlenda eignaraðila er að ræða. Þannig verður félaginu ekki heimilt að draga allt að 7% útborgaðs arðs frá skattskyldum tekjum. Það ákvæði íslenskra skattalaga hefði leitt til tekjutaps fyrir ríkissjóð. Á móti íþyngjandi áhrifum þessa fyrir félagið eru veittar ívilnanir á öðrum sviðum. Þegar heildaráhrifin eru metin kemur í ljós að skatttekjur ríkisins verða svipaðar og ef almenn skattalög hefðu gilt óbreytt.
    Meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar þykir sérstök ástæða til að gera athugasemdir við 6. tölul. 1. mgr. 5. gr. frumvarpsins þar sem gert er ráð fyrir að hlutaðeigandi sveitarfélögum verði heimilt að leggja á fasteignaskatt „sem skal vera 0,85% af verðmæti bygginga, athafnasvæðis og mannvirkja eins og það er nánar skilgreint og um samið í samningum sem gerðir eru innan ramma þessara laga“ eins og segir orðrétt í ákvæðinu. Meiri hlutinn telur að umrætt ákvæði feli í sér ákveðið framsal á skattlagningarvaldi yfir til sveitarfélaganna og telur eðlilegra að binda skattinn við fastákveðna fjárhæð eða afmarka hann betur á annan máta í frumvarpinu. Meiri hlutinn sér að öðru leyti ekki ástæðu til að gera efnislegar athugasemdir við 5. gr., 6. gr. og 8. gr. frumvarpsins.
    Minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar, Steingrímur J. Sigfússon, telur að ýmsa þætti málsins hefði þurft að skoða betur. Í fyrsta lagi sé álitamál hvort yfirleitt eigi að stefna að sérsamningum af þessu tagi í stað þess að láta íslensk skattalög gilda, en í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ef nýtt er heimild til sérsamninga þá skuli þeir gilda í að lágmarki 20 ár. Um ákvæði 5. gr. um undanþágur frá lögum og skattlagningu er það að segja að mörg atriði eru í sjálfu sér eðlileg, ef farið er út í sérsamninga um skattamál á annað borð. Annað orkar tvímælis. Þá eru ákvæði 6.–8. tölul. 5. gr. um ýmis gjöld til ríkis og sveitarfélaga hæpin. Sérstaklega það að skattstofninn sé í reynd gerður að samningsatriði, sbr. niðurlag 6. tölul. 5. gr., og tekur minni hlutinn undir tillögur meiri hlutans í því sambandi. Ljóst er einnig að ekki mun gæta jafnræðis milli sveitarfélaga á svæðinu hvað varðar ávinning af tilkomu verksmiðjunnar þar sem framkvæmdirnar geta samkvæmt frumvarpinu fært þeim tveimur sveitarfélögum sem eiga lóðina sem verksmiðjan verður reist á miklar tekjur meðan nágrannasveitarfélög fá ekkert í sinn hlut.
    Mesta athygli minni hlutans vekur þó lokamálsgrein 5. gr. þar sem gert er ráð fyrir að félagið geti á hverju ári samningstímans, frá og með árinu 2000, valið hvort það færi sig alfarið undir íslensk skattalög eða ekki. Félaginu verður þannig gert kleift að velja hvorn kostinn sem því verður hagstæðari á þeim tíma, þ.e. sérsamninginn eða hin almennu ákvæði íslenskra skattalaga. Ekki er gert ráð fyrir að íslenska ríkið hafi slíkan valrétt og verður það því bundið til 20 ára ef félagið ákveður að halda sig við samninginn. Loks er rétt að vekja athygli á framsalsákvæði 9. gr. frumvarpsins sem sýnir í hnotskurn þann rúma rétt sem viðsemjendum Íslendinga er veittur í þessum samningum. Með ákvæðinu er félaginu heimilt að framselja, t.d. til lánveitenda, alla skattasamninga sem það hefur gert við ríkið. Er þetta sagt nauðsynlegt vegna væntanlegrar verkefnafjármögnunar.
    Niðurstaða minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar er því sú að málið sé vanbúið til afgreiðslu og mun hann því ekki styðja lögfestingu frumvarpsins.




Fylgiskjal III.


Hollustuvernd ríkisins:

Upplýsingar um losun CO2/gróðurhúsalofttegunda frá stóriðju.


(10. apríl 1997.)







Fylgiskjal IV.

Seðlabanki Íslands,
alþjóðasvið:


Alþjóðlegt mat á lánshæfi ríkissjóðs.


(12. apríl 1997.)





Fylgiskjal V.


Þjóðhagsstofnun:

Stóriðja og efnahagshorfur.


(15. apríl 1997.)






Fylgiskjal VI.

Landsvirkjun:

Aðferðafræði Landsvirkjunar við útreikning


á orkuverði til stóriðju.





Fylgiskjal VII.


Kröfugerð Samtakanna óspillt land í Hvalfirði (SÓL).






Fylgiskjal VIII.



Greinargerð um vothreinsibúnað er birt sem fylgiskjal með nefndarálitinu.