Ferill 264. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 264 . mál.


1337. Skýrsla



forsætisráðherra um þróun og umfang fátæktar á Íslandi, samkvæmt beiðni.

(Lögð fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996–97.)



    Á þingskjali 516 er þess óskað að forsætisráðherra flytji Alþingi skýrslu um fátækt á Íslandi. Er þess vænst að í skýrslunni verði lagt mat á umfang, orsakir og afleiðingar fátæktar og hvernig hún hefur þróast sl. tíu ár. Þess er sérstaklega óskað að í skýrslunni verði leitast við að svara eftirfarandi spurningum:
    Hver má ætla mánaðarleg útgjöld til brýnustu nauðþurfta hjá fjölskyldugerðum sem miðað er við í neyslukönnun Hagstofunnar? Með nauðþurftum er átt við fæði, klæði, húsnæði, barnagæslu, skólagöngu barna, heilsuvernd og lágmarksferðakostnað.
    Hve stór hluti þjóðarinnar, skipt eftir þjóðfélagshópum og fjölskyldugerðum, hefur tekjur undir nauðþurftarmörkum, sbr. l. tölul., annars vegar miðað við atvinnutekjur og hins vegar miðað við ráðstöfunartekjur?
    Hvernig hefur hlutfall annarra tekna en atvinnutekna, svo sem framfærsluaðstoðar og bótagreiðslna frá hinu opinbera, þróast árlega á þessu tímabili hjá þeim sem skilgreindir eru undir fátæktarmörkum? Miðað verði annars vegar við skilgreind fátæktarmörk, þ.e. tekjur undir helmingi af meðaltekjum, og hins vegar við nauðþurftir skv. 1. tölul.
    Hver hefur verið árleg þróun skattgreiðslna, þjónustugjalda, eigna- og skuldastöðu hjá þessum hópi sl. tíu ár?
    Hver hefur almenn þróun tekju- og eignaskiptingar verið sl. tíu ár, sem og þróun tekjumunar milli þjóðfélagshópa?
    Hvert er hlutfall eftirtalinna þátta í afkomu heimilanna:
         
    
    atvinnutekna,
         
    
    bótagreiðslna og framfærsluaðstoðar,
         
    
    fjármagnstekna?
    Hverjar eru helstu orsakir og afleiðingar fátæktar á Íslandi, félagslegar og fjárhagslegar?
    Hafa stjórnvöld uppi áform um að bæta stöðu fátækra og jafna tekjuskiptinguna?
    
Inngangur.
    Hér á landi hefur ekki verið unnið mikið að sérstökum athugunum á fátækt. Það er fyrst og fremst vegna þess að almennt hefur ekki verið talið að fátækt, sérstaklega eins og hana má skilgreina og mæla á algildan kvarða, væri vandamál hér á landi. Önnur ástæða er sú að slíkar athuganir, einkum þær sem krefjast sérstakra kannana, eru mjög viðamiklar og dýrar. Ýmsar athuganir sem gerðar hafa verið hér á landi, hafa því beinst að tilteknum þáttum velferðarkerfisins eða einstökum aðgerðum á því sviði fremur en að heildarathugunum á fátækt. Af þessum sökum er ekki fyrir hendi heildstætt efni í skýrslu á borð við þá sem óskað er eftir. Jafnframt er ljóst að það mundi útheimta mikla vinnu, umfangsmiklar athuganir og mikinn kostnað að ná saman svo miklu efni sem skýrslubeiðendur æskja. Hér á eftir verður því fyrst og fremst leitast við að gera grein fyrir tiltæku efni og svara þeim beinu spurningum, sem fram koma í skýrslubeiðninni, að svo miklu leyti sem það er unnt. Fyrst verður þó vikið að fátæktarmælingum almennt og rætt stuttlega um eðli þeirra, markmið, takmarkanir og ýmis þau vandamál sem við er að etja í þessu sambandi.

Mælingar á fátækt.
    Hugtakið fátækt má skilja og skilgreina á ýmsa lund og víst er að mjög er mismunandi hvað átt er við í almennri þjóðfélagsumræðu um þetta efni.

Afstæð eða algild fátækt.
    Fátækt má ýmist skilgreina sem afstætt (relative) eða algilt (absolute) hugtak. Hvað fyrri skilgreininguna snertir er oft litið svo á að sá sé fátækur sem vegna ónógra efna hafi ekki tækifæri til að taka þátt í venjulegum athöfnum eða atferli og eigi aukinheldur þess ekki kost að afla sér þeirra gæða eða lífskjara sem eru algeng í þjóðfélaginu. Samkvæmt þessari skilgreiningu verða hinir fátæku að neita sér um að taka þátt í venjulegu samfélagsatferli eða neita sér um gæði sem flestir þjóðfélagsþegnar taka sem gefin, þar sem þeir hafa ekki næg efni til þess.
    Með þessari skilgreiningu er fátækt afstætt hugtak. Það að vera fátækur á Íslandi er þá eitthvað allt annað en að vera fátækur í Afríku svo dæmi sé tekið og það að vera fátækur á Íslandi nú á dögum er allt annað en að vera það á síðustu öld. Það sem skiptir máli er staða einstaklingsins eða heimilisins í samanburði við mikinn meiri hluta manna eða heimila í hlutaðeigandi þjóðfélagi. Þess má geta að við afstæðar fátæktarmælingar er oft miðað við tiltekin lágtekju- og fátæktarmörk þannig að maður teljist fátækur séu tekjur hans (eða neysla) minni en helmingur meðaltekna eða miðtekna í þjóðfélaginu.
    Rétt er að benda á að þessi mælikvarði á að sýna hversu margir eru undir viðmiðunarmörkum. Í þessu felst að hér er ekki síður um að ræða mælingu á tekjudreifingu en mælingu á fátækt. Breyting á tekjudreifingu í þjóðfélaginu veldur því breytingu á fjölda undir fátæktarmörkum samkvæmt skilgreiningunni.
    Því er oft haldið fram að réttara sé að skilgreina fátækt sem algilt hugtak en afstætt. Þá er til dæmis litið svo á að sá sé fátækur sem getur ekki aflað sér nægs matar til þess að hann búi ekki við svelti eða vannæringu, eða nægra klæða eða húsnæðis til þess að skýla sér fyrir veðri og vindum. Samkvæmt þessari skilgreiningu er hlutaðeigandi ekki fátækur hafi hann efni á tilteknum nauðþurftum, án tillits til þess hver lífskjör hans eru í samanburði við það sem almennt gerist í þjóðfélaginu. Fátæktarmörk í þessum skilningi eru oft skilgreind sem tiltekin lágmarkskjör en skilgreining þeirra byggist á tilteknum forsendum um kaup á matvöru, sem fullnægi ákveðinni hitaeiningaþörf, að viðbættu einhverju lágmarki til kaupa á fatnaði, vegna húsaleigu o.fl. Fyrir kemur að menn miði fátækt við tilteknar greiðslur sem hið opinbera innir af hendi, t.d. lágmarkslífeyri. Skilgreining af því tagi þykir yfirleitt óheppileg vegna þess að slík útgjöld eru ákveðin á mjög misjöfnum forsendum og þar sem hækkun á slíkum greiðslum hefði í för með sér fjölgun fátækra samkvæmt skilgreiningu.

Beinar eða óbeinar mælingar.
    Í þeim skilgreiningum, sem hér hafa verið raktar, felst að viðkomandi teljist því aðeins fátækur að lífskjör hans eða neysla sé langt undir því sem algengt er eða eðlilegt í samfélaginu, að hann hafi mjög lítil efni og að þessi litlu efni séu ástæðan fyrir knöppum kjörum eða lítilli neyslu. Óvenjulegt er að þessar upplýsingar séu allar fyrir hendi þegar mæla á eða meta fátækt. Oft hafa menn eingöngu upplýsingar um efni hlutaðeigandi en oftar þó aðeins um hluta þeirra. Í öðrum tilvikum eru einungis tiltækar upplýsingar um neyslu, lífskjör eða lífsstíl. Því verður oft að miða einungis við eitt þeirra þriggja framangreindra skilyrða um hvenær maður teljist fátækur.
    Gjarnan er gerður greinarmunur á óbeinum og beinum fátæktarmælingum. Þannig eru tekjur skilgreindar sem óbeinn mælikvarði en neysla eða lífstíll skoðast aftur á móti sem beinn mælikvarði. Báðar þessar aðferðir hafa kosti og galla. Sé litið á neysluna til dæmis er ekki víst að sá sem ver litlu til neyslu geri það vegna lítilla efna. Tiltölulega lítil neysla getur stafað af því að menn leggi megináherslu á að leggja fyrir fé eða telji sig ekki þarfnast meira en þess sem þeir neyta. Hvað tekjumælingum viðvíkur má halda því fram að menn hafi mismunandi þarfir á mismunandi tímum á æviskeiði sínu og nái því ekki sömu lífskjörum með sömu tekjum. Þetta á sérstaklega við þegar fólk er að stofna heimili og afla sér húsnæðis; það ver hluta ævinnar í að greiða niður lán en býr síðan skuldlaust eða skuldlítið í húsnæði sínu síðari hluta ævinnar. Fólk sem er að koma sér fyrir þarf þannig að hafa mun hærri tekjur en skuldlaus lífeyrisþegi til að ná sömu lífskjörum.

Mismunandi neysla.
    Dæmi eru um að mismunandi neyslusamsetning sé notuð sem velferðarmælikvarði. Undanfarna áratugi hefur hlutdeild matvöru í heildarútgjöldum til neyslu farið stöðugt minnkandi og er þetta talið skýrt merki um lífskjarabata. Út frá þessu hefur verið miðað við að sá sé fátækur sem verji til matarkaupa meira en tilteknu hlutfalli heildarutgjalda.
    En mismunandi neyslusamsetning getur vitaskuld stafað af mismunandi lífsstíl eða mismunandi vali á lífsins gæðum. Þá hafa margir og ólíkir þættir og kostir áhrif á neysluþörf og tekjuöflun á lífsleiðinni. Þetta á m.a. við um stofnun hjónabands, skilnað, barneignir, menntunarval, íbúðarkaup o.fl. Vali manna um þessi atriði verður tæpast breytt eftir á. Á hinn bóginn geta forsendur valsins breyst. Til dæmis geta greiðslur af húsnæðislánum orðið meiri en reiknað var með við íbúðarkaupin, vegna hækkunar vaxta eða misgengis verðlags og launa. Samsetning útgjalda endurspeglar því ekki aðeins val neytenda heldur einnig raunverulegar aðstæður heimila. Því meira sem heimilin binda í föstum útgjöldum, svo sem greiðslum vegna húsnæðis, þeim mun minna hafa þau úr að spila til annarra þarfa. En þá þarf að hafa í huga að það er ekki sama að vera fátækur og blankur.

Hlutlæg eða huglæg fátækt.
    Algengast er að reynt sé að mæla fátækt á hlutlægan hátt. Þá gildir einu hvort sá sem í hlut á telur sig fátækan eða ekki. Þannig er t.d. sá sem hefur tekjur eða neyslu undir tilteknum viðmiðunarmörkum eða skilgreindum nauðþurftum talinn fátækur án tillits til þess hvað hann álítur sjálfur. Önnur aðferð er að kanna hvað fólki finnst sjálfu um stöðu sína eða hvað það telji sig þurfa miklar tekjur til framfærs1u. Þess háttar athuganir eru sagðar beinast að huglægu mati. Slíkar kannanir þykja oft hæpnar, ekki síst þar sem niðurstöður þeirra kunna að endurspegla fyrri reynslu manna eða væntingar þeirra fremur en raunverulega efnahagslega stöðu. En hlutlægu aðferðirnar eru heldur ekki lausar við huglægt mat. Þannig ræður huglægt mat þess sem skilgreinir og framkvæmir fátæktarkönnun því hvar fátæktar- eða nauðþurftarmörk eru dregin og pólitískt mat ræður miklu um ákvörðun 1ágmarkslífeyris.

Tekjur og útgjöld sem mælikvarði á fátækt.
    Einn helsti vandinn við athuganir á fátækt er öflun haldgóðra upplýsinga um tekjur og útgjöld einstaklinga eða heimila. Hvað tekjurnar áhrærir má í fyrsta lagi nefna að einar sér duga þær illa til fátæktarathugana vegna þess að taka þarf tillit til eigna auk tekna. Skattframtöl eru helsta uppspretta upplýsinga um tekjur og eignir. Þessar heimildir eru ekki einhlítar. Tekjur skila sér ekki allar til skatts sem kunnugt er. Tekjuupplýsingar á framtölum eru enn fremur mjög misgóðar jafnvel þótt ekki sé um undanskot að ræða. Þetta á ekki síst við um tekjur lífeyrisþega. Þá má ætla að töluverð vanhöld séu á framtali eignatekna. Reiknaðar tekjur eigenda í atvinnurekstri valda einnig vandkvæðum.
    Upplýsinga um útgjöld er yfirleitt aflað með neyslukönnunum. Þær upplýsingar sem þar fást eru hins vegar háðar ýmsum takmörkunum. Sérstaklega er um það að ræða að ólaunuð þjónusta, sem heimilin njóta, kemur ekki fram og sama gildir um ýmiss konar þjónustu hins opinbera sem er án endurgjalds eða niðurgreidd. Þá er ljóst að útgjöld heimila á tilteknu mælingartímabili eru mjög háð bæði vali manna í fortíðinni og stöðu þeirra á æviferlinum eins og áður er rakið.
    Af þeim ástæðum, sem hér hefur verið tæpt á og ýmsum öðrum, eru bæði tekju- og eignamælingar og neyslukannanir takmarkaðir mælikvarðar á velferð. Því er oft leitað annarra leiða í þessu skyni, m.a. svonefndra tímanotakannana og sérstakra lífskjarakannana. Þær síðastnefndu eru yfirleitt yfirgripsmestar og taka til flestra þátta lífskjara. Markmiðið með þeim er oftast að bera saman lífskjarastig, yfir tímann eða milli þjóðfélaga og þær þykja einkum gefa haldgóðar vísbendingar um hvort þjóðfélögum hafi farið fram eða aftur eða hvar þau standi í samanburði við önnur. Þessar athuganir eru háðar ýmsum annmörkum. Meðal annars er tæpast hægt að draga af þeim eina algilda niðurstöðu um heildarlífskjör heldur fremur um ýmsa þætti þeirra. Þá eru þær yfirleitt ekki taldar heppilegar til að greina fátækt sérstaklega. Til þess eru þær of almennar og ná oft til minni hóps en svo að slíkri greiningu verði við komið. Þetta stafar ekki síst af geysimiklum kostnaði við gerð slíkra kannana en hann er einmitt helsti annmarki þeirra.

Kannanir hér á landi
    Hér á landi hefur könnunum verið beitt í mun minna mæli en í nágrannalöndunum til að afla tölulegra gagna um efnahags- og félagsmál. Að hluta til er þetta eðlilegt vegna smæðar þjóðfélagsins sem veldur hvoru tveggja; að slíkar kannanir verða eðli málsins samkvæmt viðkvæmari en í stórum samfélögum og að minni ástæða er talin til að gera þær vegna þess að menn hafa mun betri yfirsýn og þekkingu á svo litlu samfélagi en við verður komið meðal fjölmennra þjóða. Meginástæðan er þó kostnaðurinn; hann verður óheyrilega mikill í svo litlu þjóðfélagi. Þetta stafar af því að til þess að könnun verði tölfræðilega marktæk þarf hlutfallslega margfalt fleiri þátttakendur í smáþjóðfélagi en í stóru. Þetta verður sérstaklega tilfinnanlegt ef fara á út í mjög nákvæma greiningu en þá verður fjöldinn að vera miklum mun meiri en ella. Sem dæmi um þetta má nefna vinnumarkaðskönnun Hagstofu Íslands. Vegna þarfa á tiltölulega mikilli greiningu á atvinnu og atvinnuleysi, t.d. eftir hjúskaparstétt, atvinnugrein, starfsstétt, búsetu, menntun o.fl., er úrtak könnunarinnar mjög stórt, um 4.400 manns. Sambærilegt úrtak í Noregi, sem er 16 sinnum fjölmennara land en Ísland, þyrfti ekki að vera stærra en hið íslenska til þess að færi gæfist á sambærilegri greiningu miðað við svipaða skiptingu. Ef greina ætti niðurstöður eftir kjördæmum hér á landi yrði úrtakið að vera þrefalt til fjórfalt stærra en nú er.
    Af reglubundnum könnunum sem snerta lífskjör hér á landi má helst nefna árlegar tekjuathuganir Þjóðhagsstofnunar, vinnumarkaðs- og neyslukannanir Hagstofu Íslands og þjóðmálakannanir Félagsvísindastofnunar. Meiriháttar lífskjarakönnun hefur aðeins verið gerð einu sinni hér á landi, árið 1988, en sú könnun var liður í samnorrænu verkefni. Tímanotakönnun hefur ekki verið gerð hér á landi. Hins vegar hafa með óreglubundnum hætti verið gerðar ýmsar kannanir sem snerta tiltekna þætti lífskjara, t.d. heilbrigði, eða kannanir sem hafa snúist um huglægt mat á lífsfyllingu.
    Hér á eftir verður fjallað um athuganir framangreindra þriggja stofnana og hugað sérstaklega að því að hve miklu leyti þær veita svör við þeim beinu spurningum sem fram koma í skýrslubeiðni Jóhönnu Sigurðardóttur o.fl.

Neyslukönnun.
    Hagstofan gerir neyslukönnun á fimm ára fresti. Meginmarkmiðið með neyslukönnun er að afla upplýsinga um neyslusamsetningu heimila til þess að mynda og endurnýja grundvöll vísitölu neysluverðs sem er algengasti mælikvarði á verðlagsbreytingar hér á landi. Með neyslu er átt við hvers kyns heimilisútgjöld. Útgjöldin ná ekki eingöngu til daglegra innkaupa á matvöru, hreinlætisvöru, fatnaði o.þ.h. heldur einnig til kostnaðar vegna rafmagns, hita, síma, reksturs á einkabíl, ferðalaga, tómstundaiðkana og fleira. Hér er því um að ræða flest útgjöld sem snerta heimilisrekstur og daglegt líf fólks. Ekki er á neinn hátt reynt að meta hvort viðkomandi útgjöld teljast nauðsynleg eða ekki.
    Síðasta neyslukönnun Hagstofunnar var gerð árið 1995. Úrvinnslu hennar er ekki lokið til fulls. Meginniðurstöður liggja fyrir og voru nýttar til að endurnýja grunn vísitölu neysluverðs marsmánuð 1997. Gerð var grein fyrir þeim í sérstakri greinargerð í aprílmánuði. Þá mun greinargerð um neyslukönnunina og endurnýjun vísitölugrunnsins birtast í aprílblaði Hagtíðinda 1997 og kemur útdráttur úr henni hér fram í viðauka I.
    Í 1. tölulið skýrslubeiðni Jóhönnu Sigurðardóttur o.fl. er spurt hver megi ætla að séu mánaðarleg útgjöld til brýnustu nauðþurfta hjá fjölskyldugerðum sem við er miðað í neyslukönnun Hagstofunnar. Í 2. tölulið er síðan spurt hve stór hluti þjóðarinnar, skipt eftir þjóðfélagshópum og fjölskyldugerðum, hafi tekjur undir nauðþurftarmörkum, sbr. 1. tölulið.
    Neyslukönnunin gefur sem slík ekki færi á svörum við þessum spurningum. Eins og áður hefur komið fram beinist hún að því að kanna hver útgjöldin séu en ekki hver þau þurfi að vera. Í þessu sambandi verður enn fremur að hafa í huga að þótt könnunin gefi mjög haldgóðar niðurstöður um raunveruleg útgjöld er ekki þar með sagt að að þær séu mælikvarði á fátækt eða efni manna. Hér má minna á það sem áður var nefnt um annmarka neysluútgjalda til fátæktarmælinga. Neysluútgjöldin eru háð því hvar í lífshlaupi sínu einstaklingurinn er staddur, vali manna fyrr á lífsleiðinni, t.d. um fjárfestingu, og vali manna á könnunartímanum milli mismunandi tegunda neyslu eða milli neyslu og fjárfestingar eða sparnaðar. Nauðþurftir eru að auki naumast algilt hugtak, a.m.k. ekki við þau kjör sem Íslendingar búa. Við athuganir á lífskjörum þjóða sem hvað fátækastar eru og búa við sult og seyru í fyllstu merkingu þeirra orða, hafa menn skilgeint nauðþurftir í fjölda hitaeininga í fæðu og lágmarksskjóli í klæðum og húsnæði. Slíkar mælingar eiga ekki við íslenskt þjóðfélag og myndu ekki varpa ljósi á lífskjör landsmanna.
    Neyslukönnun sú sem hér er gerð eða svipaðar kannanir meðal nágrannaþjóða, svara ekki spurningum um hvað séu nauðþurftir eða hvað sé æskilegt að tilteknar fjölskyldugerðir hafi til framfærslu eða verji til framfærslu. Hún leiðir vissulega í ljós mismunandi útgjöld innan sömu fjölskyldugerða og jafnvel innan sama tekjubils en hún svarar engum spurningum um það af hverju mismunurinn stafi, hvort hann stafi af vali manna á könnunartímanum eða aðstæðum manna sem ráðist af fyrri gerðum þeirra. Niðurstöður könnunarinnar eru reiknaðar eftir útgjaldabilum og tekjubilum þannig að vissir möguleikar eru á að greina mjög lítil útgjöld og útgjöld þeirra sem hafa lágar tekjur samkvæmt skattframtölum. Af henni verður hins vegar ekki dregnar ályktanir um hvað megi telja fátækt. Og jafnvel þótt menn treystust til þess háttar skilgreiningar gefur neyslukönnun naumast vitneskju um útbreiðslu slíkrar „fátæktar“ eftir mismunandi þjóðfélagshópum.
    Auk þess sem hér hefur verið rakið má benda á að hugtakið nauðþurftir er ekki aðeins afstætt yfir æviskeiðið og frá einum tíma þess til annars heldur er það fyrst og fremst háð huglægu mati manna. Ekki verður séð að nokkrar leiðbeiningar séu tiltækar um það efni og ætla verður að um það verði skoðanir jafnan mjög skiptar.
    Sem fyrr segir er úrvinnslu úr neyslukönnun Hagstofunnar ekki lokið til fulls. Henni verður lokið síðar á þessu ári og þá gefið út sérstakt rit um könnunina og niðurstöður hennar. Efni hennar getur þá nýst til frekari athugana en það svarar ekki þeim spurningum sem fram koma í 1. og 2. tölulið skýrslubeiðni Jóhönnu Sigurðardóttur o.fl.

Tekjur undir fátæktarmörkum – kannanir Félagsvísindastofnunar.
    Í 3. tölulið skýrslubeiðninnar er óskað eftir upplýsingum um þróun tekna annarra en af atvinnu hjá þeim sem skilgreindir eru undir fátæktarmörkum. Á þá annars vegar að miða við „skilgreind fátæktarmörk, þ.e. tekjur undir helmingi af meðaltekjum“, en hins vegar við nauðþurftir samkvæmt 1. tölulið fyrirspurnarinnar.
    Sem fyrr segir er ekki talið mögulegt að skilgreina nauðþurftir eins og óskað er eftir og verður spurningu í 3. tölulið því ekki svarað á þeim grundvelli. Spurningunni verður heldur ekki svarað á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Ýmsar upplýsingar eru fyrir hendi um þróun bótagreiðslna almannatrygginga og fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga sem hafa má til hliðsjónar eins og vikið er að hér á eftir. Sérstakar athuganir hafa hins vegar ekki verið gerðar á slíkum greiðslum til þess hóps sem lendir undir „skilgreindum fátæktatmörkum“ á hverjum tíma. Á sama hátt er ekki unnt að svara spurningu í 4. tölulið skýrslubeiðninnar um þróun skattgreiðsina, þjónustugjalda, eigna- og skuldastöðu hjá þessum hópi sl. tíu ár. Hér á eftir verður hins vegar fjallað stuttlega um tekjuathuganir þar sem miðað hefur verið við þau fátæktarmörk sem um er rætt í fyrirspurninni.
    Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands hefur frá því á árinu 1986 gert svonefndar þjóðmálakannanir og nýtt við fátæktarathuganir. Þessar kannanir eru þversniðskannanir, úrtaksstærð hefur verið l.500 manns og svörnun um og yfir 70% en nokkru lægri hvað snertir spurningar um tekjur. Um er að ræða símakannanir og hafa svarendur verið spurðir um heildartekjur sínar í tilteknum mánuði. Þessar niðurstöður hafa síðan verið nýttar til afstæðra fátæktarmælinga þannig að athugað er hve mikill hluti þátttakenda lendir undir fátæktarmörkum sem eru skilgreind sem helmingur af miðtekjum/meðaltekjum allra þátttakenda. Niðurstöður hafa verið birtar í greinargerðum stofnunarinnar. Stofnunin hefur m.a. nýtt upplýsingar úr þessum könnunum til að taka þátt í norrænu verkefni um þróun fátæktar á Norðurlöndum tímabilið 1971–1993 (Den nordiska fattigdomens utveckling och struktur, TemaNord 1996:583).
    Óvíst er hversu marktækar tekjuathuganir Félagsvísindastofnunar eru. Fjöldi svarenda hefur verið tiltölulega lítill. Jafnframt má draga í efa að símakannanir einar sér séu heppileg aðferð til að afla upplýsinga um tekjur. Reynsla er af þeim, m.a. úr lífskjarakönnuninni 1988, að þátttakendur gefi ónákvæm svör og þeim hætti til að vantelja tekjur sínar fremur en að oftelja þær. Þá er það annmarki á þessum könnunum að allt fram til ársins 1996 hefur í þeim verið miðað við heildartekjur fyrir skatt. Breytingar á skattlagningu hafa því ekki haft áhrif á niðurstöður og samanburður yfir tímann því minna virði en ella. Þetta rýrir sambærileika á niðurstöðum kannana Félagsvísindastofnunar við niðurstöður tekjuathugana sem gerðar hafa verið annars staðar á Norðurlöndum og birtar eru í áðurnefndri skýrslu. Tekjuupplýsingar hinna landanna eru fengnar úr skattskrám eða byggðar á skattframtölum auk þess sem aðrar skrár eru nýttar, t.d. skrár almannatrygginga. Þá byggjast athuganir annars staðar á Norðurlöndunum aðallega á ráðstöfunartekjum, þ.e. heildartekjum að beinum sköttum frátöldum.
    Helstu niðurstöður kannana Félagsvísindastofnunar fyrir árin 1986–95 eru birtar í fyrrnefndri norrænni skýrslu. Þar kemur fram að miðað við að fátæktarmörk séu dregin við 50% af fjölskyldutekjum hafi um 10% þjóðarinnar verið undir þessum mörkum árið 1986. Þetta hlutfall hafi síðan farið lækkandi í um 8% árið 1989 en hækkað eftir það í um 12% árið 1995. Þessar tölur verða ekki bornar með beinum hætti saman við tölur frá öðrum Norðurlöndum. Norrænu tölurnar sýna að því að virðist fyrst og fremst að fjöldi undir fátæktarmörkum helst að miklu leyti saman við hagsveifluna í hverju landi, ekki síst atvinnuástandið.

Þróun tekju- og eignaskiptingar, svo og þróun tekjumunar milli þjóðfélagshópa sl. tíu ár.
    Þjóðhagsstofnun birtir árlega upplýsingar um tekju- og eignadreifingu milli einstaklinga sem byggðar eru á skattframtölum. Til eru nokkuð heildstæðar upplýsingar um dreifingu atvinnutekna frá árinu 1986. Undanfarin ár hefur Þjóðhagsstofnun einnig gert athuganir á dreifingu ráðstöfunartekna hjóna. Kostir þess að nota framtölin til úrvinnslu upplýsinga um tekjur eru hversu víðfeðm gögnin eru og upplýsingarnar samræmdar. Þá er kostur að skattframtölin gefa nokkur færi á greiningu heimilistekna samhliða athugunum á tekjum einstaklinga, og nota má þau til skoðunar á ráðstöfunartekjum.
    En einnig eru ýmsir annmarkar á notkun þessara gagna. Í fyrsta lagi eru engar upplýsingar um vinnutíma sem liggur að baki launatekjum og upplýsingar um atvinnuþátttöku eru takmarkaðar. Í öðru lagi eru tekjur misvel taldar fram til skatts. Annars vegar er um að ræða undanskot frá skatti og má ætla að það dreifist misjafnt eftir atvinnustéttum. Hins vegar er misbrestur á því að eignatekjur séu taldar fram, en þær eru framtalsskyldar en ekki skattskyldar nema að takmörkuðu leyti. Þá má nefna að erfitt er að flokka framteljendur eftir atvinnugreinum og starfsstéttum. Loks er þess að geta að í þjóðskrá, sem myndar grunn að skrá um framteljendur, er ekkert heimilishugtak og er því ógjörningur að skoða heimili sem tekjueiningu. Það hefur m.a. í för með sér að athuganir á tekjum allra framteljenda felur í sér samanburð t.d. á tekjum foreldra við tekjur barna sem hjá þeim búa. Í staðinn hefur Þjóðhagsstofnun notað hjón sem viðmiðun og skoðað einstaka aldurshópa.
    Reiknuðum launum er sleppt í greiningu á atvinnutekjum og þannig er reynt að nálgast atvinnutekjur launþega. Þeim sem telja fram einhver reiknuð laun er jafnan sleppt í úrvinnslu atvirmutekna. Hér er litið svo á að reiknuð laun séu viðmiðun skattstjóra fremur en raunvernlegar tekjur. Þá er ófullkomnum framtölum sleppt, þar sem skattstjóri hefur áætlað tekjuskattsstofn eða að framteljandi hefur takmarkaða skattskyldu hér á landi vegna búsetu erlendis.
    Greining á tekjudreifingu er afar vandasöm og margt ber þar að varast. Það hefur t.d. engan tilgang að draga ályktanir um launamun í þjóðfélaginu með því að finna laun þess tekjuhæsta og bera þau saman við tekjur þess tekjulægsta. Í stað þessa er alvanalegt að raða framteljendum í 10 jafnstóra hópa, frá þeim tekjulægsta til þess tekjuhæsta. Þá er reiknað hversu stór hluti teknanna kemur í hlut hvers hóps. Væri tekjum svo til jafnt skipt yrði hlutdeild allra hópa hin sama, eða um 10% af tekjum. En mikilvæg greining á tekjudreifingu felst einmitt í að skoða mismun á hlut einstakra hópa eða tíunda hluta þegar um 10 hópa er að ræða og bera hann saman við hnífjafna tekjuskiptingu. Hin þekktasta af þessum aðferðum byggst á útreikningi á svonefndum Ginikvarða. Gini er tölfræðilegur mælikvarði á tekjujöfnuð. Hann tekur gildi frá 0 til 1 og því hærri sem hann er þeim mun meiri er ójöfnuður, en hann tæki gildið 0 ef allir væru með sömu tekjur.
    Í athugunum sínum á dreifingu atvinnutekna sem Þjóðhagsstofnun birtir árlega í Frétt hefur verið litið á nokkra hópa. Í viðauka II eru sýndar helstu töflur sem þar birtast. Í töflu 1 er litið á dreifingu tekna allra framteljenda, því næst er skoðuð dreifing tekna allra á aldrinum 25 til 65 ára, en þannig er skólafólk og lífeyrisþegar undanskildir. Þá er litið á tekjudreifingu sömu aldurshópa hjóna og kvæntra karla.
    Hóparnir eru táknaðir með rómverskum tölum. Um hóp I gildir að 90% framteljenda eru með hærri tekjur en sá tekjuhæsti í hópnum og um hóp II gildir að 10% framteljenda eru með lægri tekjur en sá tekjulægsti í hópnum og 80% eru með hærri tekjur en hinn tekjuhæsti.
    Sem vænta má er jöfnuður minnstur þegar allir framteljendur eru skoðaðir og jöfnuður eykst því samlitari sem hóparnir eru. Þannig leikur Ginikvarðinn á bilinu 0,4–0,43 þegar allir framteljendur eru skoðaðir, en þegar yngstu og elstu aldurshópunum er sleppt lækkar gildið niður í 0,35–0,37. Þegar eingöngu tekjur kvæntra karla á aldrinum 25–65 ára eru lagðar til grundvallar leikur Gini á bilinu 0,24–0,28 og þegar tekjum eiginkvennanna er bætt við er kvarðinn á bilinu 0,20–0,25.
    Þegar litið er á Ginimælingarnar yfir þetta 10 ára tímabil kemur í ljós að Gini fer hækkandi hjá öllum hópum. Einnig kemur fram að aukningin er mest á árunum 1989–90, en einmitt á þeim árum fer atvinnuleysi að gera vart við sig hér á landi.
    Í mynd er hér fylgir eru þessar upplýsingar dregnar saman. Myndin sýnir hlutfallið á milli meðalatvinnutekna framteljenda í efsta og neðsta fimmtungi. Hækkun hlutfallsins er merki um vaxandi tekjumun. Myndin sýnir að tekjumunur vex jafnt og þétt, nema frá 1991 til 1992 og svo milli 1994 og 1995. Þannig hafa meðaltekjur hjóna í efsta fimmtungi vaxið úr því að vera þrefaldar tekjur hinna sem eru með lægstar tekjur árið 1986 í það að vera 3,5-faldar. Mikilvægt er að hafa hér í huga að ekki er tekið tillit til mismunandi vinnuframlags manna í þessum tölum og þannig hefur breyting á atvinnuástandi á þessum árum veruleg áhrif.

Margfeldi atvinnutekna framteljenda í efsta og neðsta fimmtungi.



(Tafla, mynduð.)



    Sú þróun sem hér er lýst er svipuð og í öðrum vestrænum ríkjum. Víðast hvar hefur tekjudreifingin hneigst til meiri ójafnaðar. Þetta á einkum við í Bandaríkjunum, Bretlandi og Ástralíu en þessa verður einnig vart á Norðurlöndum.
    Breytingar á tekjudreifingu og tekjuskiptingu hafa verið mikið ræddar á alþjóðavettvangi að undanförnu. Almennt er talið að þær eigi sér margvíslegar orsakir. Auk atvinnuleysis hefur því ekki síst verið haldið fram að við skilyrði hagvaxtar skýrist vaxandi ójöfnuður í tekjudreifingu af kerfisbreytingum í atvinnulífmu. Þetta stafi ekki síst af auknu vægi atvinnugreina sem nýta hátækni og þar með hlutfallslegri fjölgun hálaunastarfa. Ljóst er að þessarar þróunar hefur einnig gætt hér á landi.
    Aðrar athuganir, einkum prófessors Stefáns Ólafssonar og Gylfa Arnbjörnssonar hagfræðings, sýna nokkuð aðra mynd. Í athugun Stefáns eru tekjur tiltekinna starfsstétta bornar saman, annars vegar 1987 og hins vegar 1991. Niðurstaða Stefáns virðist vera sú að mjög lítil breyting hafi orðið á hlutfallslegum tekjum milli þessara stétta. Ekki mun vera til athugun með sama hætti á tekjum starfsstétta eftir 199l. Gylfi skoðar hins vegar eingöngu tímakaup landverkafólks innan Alþýðusambands Íslands eins og það er metið af kjararannsóknarnefnd. Niðurstaða hans er sú að launamunurinn innan ASÍ-hópsins hafi aukist frá 1981 til 1987, þó einkum frá 1984, en á tímabilinu frá 1987 til 1992 hafi hann minnkað á ný. Ekki hefur verið gerð samsvarandi athugun eftir 1992.
    Það er líklegt að skýringin á þessum mun á athugunum Þjóðhagsstofnunar og ofangreindra liggi í atvinnuleysi og breytingum á vinnutíma. Í greiningu Þjóðhagsstofnunar er litið til alls í senn; launa á klst., vinnutíma og atvinnu. Það þarf ekki að vera mótsögn milli þessara athugana, heldur gæti dreifing mánaðarlauna fyrir dagvinnu verið næsta óbreytt, en þróun vinnutíma og atvinnu leitt til ójafnari dreifingar árlegra atvinnutekna.
    Endanleg skipting teknanna í velferðarþjóðfélaginu ræðst ekki af atvinnutekjum heldur af ráðstöfunartekjum. Því hugtaki er ekki hægt að gera full skil á grundvelli skattframtala og valda því brotakenndar upplýsingar um eignatekjur manna. Ráðstöfunartekjur eru hér nálgaðar sem tekjuskattsstofn að viðbættum vaxtabótum og barnabótum, en að frádregnum tekju- og eignarskatti.
    Meðfylgjandi mynd sýnir tekjuskattsstofn, ráðstöfunartekjur og skattbyrði hjóna eftir tíundum árið 1995. Meðal fjárhæðir eru reiknaðar út frá heildar fjölda í hvern tíund en ekki út frá fjölda þeirra sem fá viðkomandi tekjur. Skattbyrðin sem sýnd er í töflunni er reiknuð sem hlutfall skatta, að frádregnum bótum, og tekjuskattsstofns. Þessi tafla sýnir vel þau tekjujöfnunaráhrif sem felast í tekjuskattskerfnu. Meðalskattbyrðin er 19,4%, en hins vegar er skattbyrði efstu tíundarinnar rúm 32,6%. Þetta má einnig setja fram með því að horfa til hlutfalls meðaltekjuskattsstofns tveggja neðstu tíunda á móti tveggja efstu. Munurinn er fjórfaldur þegar horft er til tekjuskattsstofns og 2,88-faldur á ráðstöfunartekjum. Um 21,5% tekjuskattsstofns í heild fellur tekjuhæsta hópnum í skaut og hann greiðir 31,7% af heildartekjuskatti hjóna. Þessi hópur fær hins vegar 6,5% af barnabótum og 5,5% af vaxtabótunum og þegar upp er staðið er hlutur hans í ráðstöfunartekjum 18%.

(Tafla, mynduð.)





    Samanburður á ráðstöfunartekjum hjóna 1994 og 1995 sýna að þær jukust um 3,4% og ráðstöfunartekjur hjóna með börn jukust um 3,7%. Skattbyrðin var 19,4% af tekjuskattsstofni 1995, 19,2% 1994 og 18,6% árið 1993. Þegar hjónunum er skipt í tvo jafna helminga eftir ráðstöfunartekjum kemur í ljós að tekjuskattsstofn hjóna í lægri helmingnum hækkaði um 3,1% en um 3,6% í efri helmingnum. Ráðstöfunartekjurnar hækkuðu um 3,5% í lægri helmingnum en um 4% í þeim efri. Nettóskattbyrði tekjulægri helmingsins þyngdist úr 5,6% í 5,9% og þess tekjuhærri úr 23,2% í 23,4%.
    Framtaldar eignir og skuldir gefa færi á greiningu á dreifingu þeirra. Rétt er að minna á að ýmsar innstæður og fjármálakröfur einstaklinga eru ekki eignarskattskyldar og koma því ekki inn í eignarskattstofn. Þannig eru til að mynda öll markaðsverðbréf útgefin af ríkissjóði skattfrjáls, sem og húsbréf. Innstæður í innlánsstofnunum eru að fullu skattfrjálsar hjá þeim sem ekkert skulda, en skattfrelsið skerðist um skuldirnar. Hlutabréf eru færð til eignar á nafnvirði. Almennt má segja að virðing eigna sé verulegri óvissu háð. Af þessum ástæðum hefur eignadreifingunni verið mun minna sinnt en tekjudreifingunni hér á landi og eiga þessir annmarkar einnig við víða um lönd.
    Meðfylgjandi mynd sýnir dreifingu eignarskattstofns hjóna. Um 9.800 hjón voru annað hvort eignalaus eða með skuldir umfram eignir. Meðaleignarskattsstofn þeirra hjóna sem töldu fram jákvæðan stofn reyndist um 7,5 milljónir króna og voru tæplega 11.000 hjón með eignarskattsstofn yfir 10 milljónum króna. Framteljendum sem eru með skuldir umfram eignir hefur fjölgað umtalsvert þegar til nokkurs tíma er litið. Árið 1995 var í þessum hóp 23.145 manns og fjölgaði í honum um 4,7% frá árinu áður. Árið 1988 voru 11.212 framteljendur með neikvæðan eignarskattstofn og 20.509 árið 1993. Margvíslegar ástæður eru að baki þessarar þróunar, mikil skuldasöfnun, þróun eignaverðs, vaxandi námsskuldir o.s.frv. Rétt er að draga sérstaklega fram að skuldir sjálfstæðra atvinnurekenda sem eru umfram eignir á efnahagsreikningi eru færðar með persónulegum skuldum á skattframtal. Athugun sýnir að um 3% af skuldum heimila í árslok 1995 eru af þessum toga.

Hlutfallsleg dreifing eignarskattstofns hjóna árið 1995.



(Tafla, mynduð.)





Hlutfall framfærsluaðstoðar og einstakra tekjuliða í heildartekjum heimila.
    Auðveldast er að skoða hlut einstakra tekjuþátta í heildartekjum í gögnum Þjóðhagsstofnunar sem notuð eru til að reikna ráðstöfunartekjur heimilanna. Heimildir að þeim gögnum eru margvíslegar. Atvinnutekjurnar styðjast við skattframtöl. Tilfærslutekjurnar eru byggðar á upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins, lífeyrissjóðum, ríkisbókhaldi, Hagstofu Íslands o.fl. Fjármagnstekjur eru fyrst og fremst byggðar á gögnum Seðlabanka Íslands. Reynt er að nálgast raunvaxtatekjur við mat á fjármagnstekjum, en umtalsverðar sveiflur eru í þeim frá einu ári til annars. Hlutur einstakra tekjuliða í heildartekjum heimilanna er sýndur í töflu 2 í viðauka II. Í töflunni kemur fram að litlar breytingar eru frá einu ári til annars. Yfir þetta 10 ára tímabil lækkar hlutur launatekna en tilfærslutekjurnar aukast. Þessi þróun skýrist annars vegar af mikilli atvinnuþátttöku í upphafi tímabilsins og hins vegar af vaxandi atvinnuleysi fram til ársins 1995.

Orsakir fátæktar.
    Engar þær athuganir hafa verið gerðar hér á landi sem leyfa að dregnar séu einhlítar ályktanir um orsakir fátæktar, hvort sem hugtakið er skilgreint með algildum eða afstæðum hætti. Allt bendir til að mælt á algildan mælikvarða heyri fátækt til hreinna undantekninga hér á landi og hennar gæti fyrst og fremst hjá þeim sem telja má olnbogabörn þjóðfélagsins, þ.e. þeim sem ekki eru færir um að ala önn fyrir sér af einhverjum ástæðum. Í þessu sambandi má minna á að hér á landi er til staðar velferðarkerfi, almannatryggingar ríkisins og félagsaðstoð sveitarfélaga.
    Orsakir lágra tekna eða fátæktar á afstæðan mælikvarða má að líkindum rekja að hluta a.m.k. til ríkjandi efnahagsástands á hverjum tíma.
    Í norrænu skýrslunni sem áður var getið kemur fram að nokkrar meginniðurstöður norrænu rannsóknanna séu sem hér segir:
„–    Efnahagsástandið hefur áhrif á umfang fátæktarinnar á flestum Norðurlandanna.
–    Fyrir marga er fátæktin skammvinn. En á sama tíma eru sterk tengsl milli þess að vera fátækur á einu tímabili og á næsta tímabili.
–    Í stóru löndum Norðurlandanna hefur fátækt meðal eldri einstaklinga minnkað mikið frá miðjum áttunda áratugunum. Þess í stað er tilhneiging til að fleiri ungir séu fátækir.
–    Yfirfærslur frá opinbera geiranum hafa mjög mikla þýðingu fyrir að hlutfallslega fáir á heimsmælikvarða eru fátækir á Norðurlöndum.“
    Hvað snertir áhrif efnahagsástands á tekjudreifingu er oft talið að atvinnuleysi sé ein meginskýringin á breytingum á tekjudreifingu undanfarinna ára. Hér á landi jókst atvinnuleysi nokkuð á árunum 1989–1991 og síðan að mun árin 1992–1994 en hefur minnkað töluvert síðan. Samkvæmt vinnumarkaðskönnun Hagstofu Íslands mælist atvinnuleysi 2,5% árið 1991, 4,3% árið 1992, 5,3% árin 1993 og 1994, 4,9% árið 1995 og 3,8% árið 1996.
    Tekjubresti af völdum atvinnuleysis hefur verið mætt með ýmsu móti, með atvinnuleysistryggingabótum, ýmsum staðbundnum og tímabundnum verkefnum svo og með fjárhagsaðstoð við heimili. Bótagreiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs jukust úr 485 millj. kr. árið 1987 í 3.243 millj. kr. árið 1995, reiknað á föstu verðlagi síðara ársins. Á sama tíma jukust útgjöld sveitarfélaga til fjárhagsaðstoðar heimila úr rösklega 360 millj. kr. í u.þ.b. 900 millj. kr.
    Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga er ætlað að vera síðasta haldreipi fólks sem býr við knöpp kjör. Í viðauka III eru sýndar þrjár töflur um þróun fjárhagsaðstoðar. Við athugun þeirra skal hafa í huga að hluti af fjölgun viðtakenda og aukningu útgjalda stafar af rýmkum á skilyrðum til fjárhagsaðstoðar í mörgum sveitarfélögum.
    Fyrsta taflan sýnir þann fjölda heimila sem notið hefur fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga árin 1987–1995. Samkvæmt þessu yfirliti hefur heimilum sem nutu fjárhagsaðstoðar fjölgað úr rösklega 2.700 árið 1987 í um 6.000 árið 1995. Önnur taflan sýnir heildarútgjöld sveitarfélaga til þessa málaflokks svo og meðalgreiðslu á heimili árin 1987–1995. Meðalgreiðsla á heimili, reiknuð á verðlagi ársins 1995, var 12% hærri en á árinu 1987. Samkvæmt þessu er ljóst að aukning fjárhagsaðstoðarinnar felst fyrst og fremst í fjölgun viðtakenda hennar og þar með líklega fyrst og fremst af fjölgun atvinnulausra. Þetta kemur skýrast fram í töflu 3 um styrkþega Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar. Sú tafla sýnir annars vegar verulega fjölgun styrkþega tímabilið 1986–95. Hins vegar er afar greinilegt hversu náin tengsl eru milli fjölda atvinnulausra og styrkþega. Þá kemur fram hve stór hluti atvinnulausra hefur þegið fjárhagsaðstoð þetta tímabil.
    Auk þess sem hér hefur verið rakið um atvinnuleysi má nefna fleiri þætti. Lægstu laun eru lág og þeir sem eru á lægstu töxtum einum og hafa ekki aðrar tekjur, eru við þau fátæktarmörk sem Félagsvísindastofnun hefur miðað við. Þetta á ekki síst við um einstæða foreldra með þunga framfærslu. Þá hafa háir jaðarskattar og brött tekjutenging í vissum tilvikum valdið því að aukið sjálfsaflafé leiðir ekki eða aðeins í litlum mæli til aukinna ráðstöfunartekna.
    Aðstæður þær sem hér um ræðir eru vafalaust misjafnar á æviskeiðum. Norrænu rannsóknirnar benda til að þær geti verið skammvinnar en jafnframt séu sterk tengsl milli þess að vera fátækur á einu tímabili og hinu næsta. Gögn um þetta efni hér á landi eru ekki fyrir hendi.
    Athyglisverð er sú niðurstaða að fátækt, eins og nú mælist í norrænu rannsóknunum, hafi minnkað meðal eldri einstaklinga frá miðjum áttunda áratugnum á Norðurlöndunum að Íslandi undanskildu. Í stað þess falli nú æ fleiri ungir einstaklingar, einkum námsfólk, í þann hóp sem hefur tekjur undir hinum skilgreindu fátæktarmörkum. Rannsóknir Félagsvísindastofnunar benda til þess að í hópi fátækra samkvæmt skilgreiningu hennar hafi lífeyrisþegum fjölgað. Óvíst er að þetta sé traust niðurstaða. Er þá haft í huga hversu mikill misbrestur er á því að lífeyristekna og eignatekna sé getið á skattframtölum og að hið sama kunni að vera uppi á teningnum í símakönnunum Félagsvísindastofnunar. Samkvæmt upplýsingum Seðlabanka Íslands jukust lífeyrisgreiðslur úr lífeyrissjóður úr 5.800 millj. kr. árið 1986 í 10.300 millj. kr. árið 1996 á verðlagi þess árs.

Hafa stjórnvöld uppi áform um að bæta stöðu fátækra og jafna tekjuskiptinguna?
    Tekjuskiptingin ræðst af fjölmörgum þáttum. Sumir þeirra eru á valdi stjórnvalda en aðrir ekki. Með ýmsum aðgerðum á sviði almannatrygginga og skattamála hafa stjórnvöld komið til móts við helstu áhættuhópa. Nefna má fyrirhugaðar breytingar á barnabótum, en sýnt hefur verið fram á að tekjutengdar barnabætur séu vænlegar til að jafna tekjuskiptingu. Þá mun lækkun jaðarskatta draga umtalsvert úr þeim fátæktargildrum sem samspil bóta- og skattkerfis hafa lagt.
    Varanlegur árangur næst best með almennum aðgerðum sem treysta undirstöður þjóðarbúsins og efla atvinnu í landinu. En í þessari skýrslu hefur einmitt verið bent á sterk tengsl á milli atvinnu og ójafnrar tekjuskiptingar. Árangur stjórnvalda í atvinnumálum er ótvíræður; atvinnuleysi hefur minnkað töluvert að undanförnu og spár benda til að atvinnuleysi muni enn minnka á næstu árum. Með nýgerðum kjarasamningum hefur verið lagður grunnur að efnahagslegum stöðugleika og kaupmáttaraukningu á næstu árum sem mun koma öllum til góða. Til lengri tíma litið eru menntamál mikilvægur þáttur. Á þeim vettvangi þarf að treysta undirstöður og auka fjölbreytni í framboði menntunarkosta í samræmi við kröfur hátækni nútímans og atvinnulífsins.


Viðauki I.


Útdráttur úr greinargerð um neyslukönnun 1995


og upptöku nýs vísitölugrunns.


Úr aprílblaði Hagtíðinda 1997.



Nýr vísitölugrunnur.
    Í gildandi lögum um vísitölu neysluverðs, nr. 12/1995, segir að Hagstofan skuli eigi sjaldnar en á fimm ára fresti gera athugun á heimilisútgjöldum, neyslukönnun. Í samræmi við þessi ákvæði var gerð neyslukönnun árið 1995 en slík könnun hafði síðast verið gerð árið 1990. Frá því könnuninni sjálfri lauk í árslok 1995 hefur verið unnið að skráningu, samræmingu og úrvinnslu gagna og gerð nýs grunns fyrir vísitölu neysluverðs. Útreikningur neysluverðsvísitölu samkvæmt hinum nýja grunni fór fram í fyrsta sinn í mars 1997. Þá var eldri grunnur vísitölunnar jafnframt reiknaður í síðasta skipti.
    Notkun vísitölunnar er fjölbreytt og mikilvægt að vel sé vandað til grunnvinnu. Grunnur vísitölunnar er safn hvers kyns heimilisútgjalda. Útgjöldin ná ekki eingöngu til daglegra innkaupa á matvöru, hreinlætisvöru, fatnaði o.þ.h. heldur einnig til kostnaðar vegna rafmagns, hita, síma, reksturs á einkabíl, ferðalaga, tómstundaiðkana og fleira. Í grunni eru því flest útgjöld sem snerta heimilisrekstur og daglegt líf fólks. Ekki er á neinn hátt reynt að meta hvort viðkomandi útgjöld teljast nauðsynleg eða ekki. Megintilgangur neyslukannana er að finna grundvöll fyrir útreikning vísitölunnar, þ.e. meta vægi hinna ýmsu flokka vöru og þjónustu í grundvelli hennar. Neyslumunstur almennings breytist í sífellu. Þess vegna er nauðsynlegt að endurskoða samsetningu vísitölunnar reglulega með neyslukönnun. Upplýsingarnar eru einnig mikilvægar heimildir um breytingar á neysluvenjum landsmanna en auk þess er með þeim hægt að kanna útgjöld og samsetningu þeirra með tilliti til ýmissa félagslegra og efnahagslegra þátta, svo sem búsetu, fjölskyldugerðar, atvinnu og tekna.

Neyslukönnun.
Úrtak og úrtaksaðferð.
    Neyslukönnunin 1995 var með svipuðu sniði og könnunin 1990. Tekið var tilviljanakennt úrtak úr þjóðskrá án tillits til búsetu, heimilisstærðar, tekna eða atvinnu. Í neyslukönnun er leitast við að mæla heimilisútgjöld. Úrtakseiningin er því heimili. Æskilegast væri að geta tekið úrtak úr heimilum á Íslandi þar sem öll heimili hefðu jafnar líkur á að lenda í úrtaki. Í þjóðskrá er ekki unnt að aðgreina heimili í fjölbýlishúsum. Hins vegar eru þar skilgreindar svokallaðar kjarnafjölskyldur sem eru hjón/sambýlisfólk án barna, hjón/sambýlisfólk með börn yngri en 16 ára og einstæðir foreldrar með börn yngri en 16 ára. Hver kjarnafjölskylda hefur eitt fjölskyldunúmer og sama gildir um einhleypa. Við 16 ára aldur eru börn aðskilin frá kjarnafjölskyldu í þjóðskrá og fá sitt eigið fjölskyldunúmer.
    Úrtak neyslukönnunar 1995 var tekið úr fjölskyldunúmerum fólks á aldrinum 18–74 ára með lögheimili hér á landi 1. desember 1994. Gert var ráð fyrir að 16 og 17 ára unglingar byggju enn í foreldrahúsum. Efri aldursmörkin 74 ára voru valin með hliðsjón af því að neyslukönnunin krefst talsverðrar vinnu af þátttakendum og reynslan sýnir að eldra fólk treystir sér síður til þess en hinir yngri eða getur ekki innt þá vinnu af hendi. Einstaklingar 75 ára og eldri eru þó ekki undanskildir í könnuninni ef þeir búa á heimilum sem lentu í úrtakinu. Líkur á að lenda í úrtaki voru ekki þær sömu fyrir öll heimili. Heimili með marga einstaklinga 18 ára og eldri höfðu meiri möguleika á að vera valin í úrtakið en önnur heimili. Þátttakendur urðu allir sem bjuggu á heimili þess sem valinn var. Í úrtakinu áttu ekki að vera einstaklingar sem dveljast á stofnunum, svo sem sjúkrahúsum og elliheimilum.

Svörun.
    Upphaflegt úrtak var 2.910 fjölskyldunúmer. Í ljós kom að 203 heimili hefðu ekki átt að vera í úrtakinu. Þar var aðallega um að ræða fólk sem dvaldist erlendis en hafði skráð lögheimili á Íslandi. Endanlegt úrtak varð 2.707 heimili. Skiptingin var þannig að 1.649 heimili samþykktu að taka þátt í könnuninni, 1.004 heimili höfnuðu þátttöku og ekki náðist í fólk á 54 heimilum. Nothæf gögn bárust frá 1.375 heimilum, 233 heltust úr lestinni og gögn frá 41 heimili reyndust ónothæf. Endanleg svörun í neyslukönnun 1995 var því 50,8%. Til samanburðar má nefna að 790 heimili tóku þátt í neyslukönnun 1990 og 376 heimili í neyslukönnun 1985/86. Á þeim 1.375 heimilum, sem tóku fullan þátt í könnuninni, bjuggu 4.519 einstaklingar eða 1,7% þjóðarinnar miðað við þjóðskrá 1. desember 1995. Mismunandi var eftir gerð heimila hve fúst fólk var til þátttöku. Fólk á heimilum hjóna/sambýlisfólks með börn reyndist fúsast til þátttöku. Þeir sem bjuggu einir sér voru ófúsastir til þátttöku. Ekki kom fram munur á svörun eftir búsetu. Af þeim heimilum sem þátt tóku, voru 857 á höfuðborgarsvæðinu, 351 í öðru þéttbýli og 167 í dreifbýli.

Framkvæmd.
    Könnunin var tvíþætt. Annars vegar héldu þátttakendur búreikning í tvær vikur og skráðu öll útgjöld heimilismanna. Skrá þurfti sérstaklega öll kaup á vöru eða þjónustu. Skila mátti sundurliðuðum kassakvittunum með vörulýsingum og losna þannig við skriftir. Þessi þáttur könnunarinnar stóð yfir í eitt ár samfleytt og á hverju tveggja vikna tímabili hélt nýr hópur heimila búreikning. Búreikningstímabilið stóð aðeins yfir í tvær vikur og var því hætt við að vitneskja um veigamikla en stopula útgjaldaliði tapaðist. Því voru þátttakendur beðnir um upplýsingar um tiltekin veigamikil útgjöld yfir þriggja mánaða tímabil. Slík útgjöld voru t.d. rekstrar- og viðhaldskostnaður húsnæðis og bíls, heimilistækja- og húsgagnakaup, ferðakostnaður o.fl. Þátttakendum úti á landi var send sérstök bók til útfyllingar, en á höfuðborgarsvæðinu fóru spyrlar í heimsókn til þátttakenda og skráðu útgjöldin. Í neyslukönnuninni 1995 notuðu spyrlar Hagstofunnar í fyrsta skipti ferðatölvur í viðtölum við þátttakendur.

Úrvinnsla.
    Endanlegar niðurstöður voru fengnar með því að tengja saman upplýsingar úr ársfjórðungsskýrslum/-viðtölum og búreikningum. Upplýsingar um kaup á matvöru, drykkjarvöru; fatnaði, hreinlætis- og snyrtivöru voru einungis fengnar úr búreikningum. Úr ársfjórðungsgögnum voru einkum notaðar upplýsingar um rekstur húsnæðis og bíls; kostnað vegna skólagöngu, barnagæslu og ferðalaga. Útgjöld voru reiknuð til ársútgjalda.

Mismunandi úrtakslíkur og svörun.
    Vegna þess að heimili höfðu ekki jafna möguleika á að lenda í úrtaki og svörun var mismikil eftir heimilisgerð voru niðurstöður könnunarinnar leiðréttar með tilliti til þessa. Því var m.a. aflað sérstakra upplýsinga um heimili sem ekki reyndust fáanleg til að taka þátt í könnuninni. Fyrir hvert heimili, sem tók þátt í könnuninni, var búin til vog. Þar var tekið tillit til hvaða líkur voru á að heimilið lenti í úrtaki og til svörunar viðkomandi heimilisgerðar. Útgjöld heimilanna voru vegin með þessari vog. Þessi leiðrétting veldur því að niðurstöður könnunarinnar eru mun áreiðanlegri en ella væri.

Meðalstærð heimila.
    Meðalstærð heimila í neyslukönnun 1995 var 2,82 einstaklingar en 3,63 í neyslukönnuninni 1990. Þessar tölur eru ekki sambærilegar. Stafar það af leiðréttingu í könnuninni 1995 vegna mismunandi möguleika á að lenda í úrtaki og mismunandi svörunar. Mismunur á úrtakslíkum var ekki leiðréttur í könnuninni 1990. Heimilisstærð var breytileg eftir búsetu; að meðaltali 2,65 einstaklingar á höfuðborgarsvæðinu, 3,00 einstaklingar á öðrum þéttbýlisstöðum og 3,40 einstaklingar í dreifbýli.

Heimilisgerð.
    Heimilum í neyslukönnuninni var skipt í fimm flokka eftir innbyrðis tengslum heimilismanna. Af 1.375 heimiluin sem tóku þátt í könnuninni voru 185 heimili einhleypra, 209 heimili hjóna án barna; 686 heimili hjóna með börn, 116 heimili einstæðra foreldra og 179 annars konar heimili. Við skilgreiningu á flokknum hjón með börn var miðað við að börn í foreldrahúsum væru ekki eldri en 24 ára gömul, að öðrum kosti lenti heimilið í flokknum önnur heimilisgerð.

Húsnæði.
    Rúmlega 81% þátttakenda bjuggu í eigin húsnæði. Af þeim bjuggu 34% í einbýlishúsum, 28% í fjölbýlishúsum, 22% í 2–5 íbúða húsum, 15% í raðhúsum eða parhúsum og 1 % í stökum herbergjum. Mikill munur var á gerð húsnæðis eftir búsetu. Á höfuðborgarsvæðinu bjuggu 62% þátttakenda í fjölbýlishúsum eða 2–5 íbúða húsum en á landsbyggðinni bjuggu 73% þátttakenda í einbýlis- eða raðhúsum. Meðalstærð húsnæðis var 114,6 m 2 og meðalfjöldi herbergja 4,0. Húsnæði á landsbyggðinni var heldur stærra en húsnæði á höfuðborgarsvæðinu.

Helstu niðurstöður.
     Tafla I sýnir hlutfallslega skiptingu útgjalda í vísitölu neysluverðs í mars 1997 samkvæmt gamla grunninum og hinum nýja. Sé fyrst litið á einstaka yfirflokka hefur hlutfall útgjalda af heildarútgjöldum minnkað í flokkunum matvara og drykkjarvara, áfengi og tóbak; föt og skór, húsnæði, hiti og rafmagn og tómstundir og menning. Hins vegar hefur aukist vægi liðanna húsgögn og heimilisbúnaður, heilsugæsla, ferðir og flutningar, póstur og sími, menntun; hótel og veitingastaðir og ýmsar vörur og þjónusta. Þessar breytingar eru yfirleitt litlar og sumar stafa af breytingum aðferða, skilgreininga og flokkunar fremur en raunverulegri breytingu á samsetningu útgjalda.
    Hlutfallslegur samdráttur matvöruútgjalda stafar m.a. af þeirri breytingu á neyslumunstri að kaup skyndibita, sem fram koma undir veitingalið, hafa farið vaxandi á kostnað matvörukaupa. Innan matvöruliðarins hefur kjöt- og fiskneysla minnkað en kaup á pasta aukist. Þá hefur orðið aukning á neyslu sælgætis, gosdrykkja og ávaxtasafa.
    Óvíst er að samdráttur í liðnum föt sé raunverulegur vegna breytinga á skilgreiningu og könnunaraðferð. Vera má að nokkurs ofmats hafi gætt í könnuninni 1990, einkum vegna vandkvæða á að sundurgreina og flokka gjafir.
    Sem fyrr segir vegur húsnæðisliður vísitölunnar nú minna en í gamla grunninum. Þetta stafar fyrst og fremst af breyttri skilgreiningu á viðhaldi sem leiðir af nýrri útgjaldaflokkun og samræmdri skilgreiningu á alþjóðavettvangi. Samkvæmt því er meiri háttar viðhald og endurnýjun húsnæðis skilgreint sem fjárfesting en til neyslu telst aðeins minni háttar viðhald og viðgerðir. Í eldri grunni var nær allt viðhald talið til neyslu og kom því í húsnæðislið vísitölunnar.
    Liðurinn ferðir og flutningar sýnir aukningu frá síðustu könnun. Hér munar talsverðu um aukin bílakaup frá því sem reiknað var með í gamla grunninum. Í nýjum grunni eru bílakaup miðuð við síðasta heila árið sem upplýsingarnar eru um, árið 1996, og áhrif aukins bílainnflutnings það ár koma því fram. Á móti þessari aukningu kemur fram samdráttur í rekstrarkostnaði bíla. Af öðrum flutningaliðum má nefna að könnunin mælir meiri útgjöld til flutninga í lofti en áður en hluti af því kann að stafa af annars konar sundurgreiningu milli pakkaferða og áætlunarflugs en áður.
    Loks má nefna að veitingaliðir vísitölunnar aukast talsvert og stafar það af aukningu á skyndibitakaupum og útgjöldum á kaffihúsum.
    Í heild mælast verðbreytingar frá ársmeðaltali 1995 til mars 1997 0,2% minni í nýju vísitölunni en hinni eldri.
     Tafla II sýnir meðalútgjöld heimila á ári skipt eftir búsetu. Við samanburð á útgjöldum eftir búsetu verður að hafa í huga að hlutfall heimilisgerða getur verið mismunandi milli svæða. Í niðurstöðum neyslukönnunar kemur t.d. fram að hlutfall einhleypra er hærra á höfuðborgarsvæðinu en annars staðar á landinu. Í dreifbýli eru hjón með börn og önnur heimilisgerð rúmlega 76% heimila en á höfuðborgarsvæðinu er þetta hlutfall rúmlega 58%. Þessar tvær heimilisgerðir eru með flesta heimilismenn, og heimili í dreifbýli eru því stærri en heimili í þéttbýli. Mismunur á útgjaldasamsetningu er því ekki einungis rakinn til búsetu heldur hefur heimilisgerð og heimilisstærð þar líka áhrif. Stærstu útgjaldaflokkarnir eru vegna húsnæðis, matarkaupa og ferða og flutninga en þessir þrír útgjaldaflokkar nema um helmingi af útgjöldum heimilanna. Matarútgjöld heimila eru hlutfallslega minnst á höfuðborgarsvæðinu en mest í dreifbýli. Fleiri eru í heimili í dreifbýli en í þéttbýli og skýrir það meiri matarútgjöld þar. Húsnæðiskostnaður er hlutfallslega hæstur á höfuðborgarsvæðinu. Ef litið er á útgjöld innan húsnæðisliðarins sést að rafmagns- og hitunarkostnaður er lægri á höfuðborgarsvæðinu en utan þess en aftur á móti eru afnotin af húsnæðinu dýrari á höfuðborgarsvæðinu. Afnotin eru reiknuð miðað við fasteignamat sem er lægra úti á landi en á höfuðborgarsvæðinu. Kostnaður vegna ferða og flutninga er hlutfallslega lægstur á höfuðborgarsvæðinu, meðal annars vegna þess að endurgreiðsla bílakostnaðar er algengari þar en annars staðar.
     Tafla III sýnir meðalútgjöld á ári skipt eftir heimilisgerð. Erfitt er að bera saman útgjöld eftir heimilisgerðum vegna þess hve mismargir eru í heimili. Útgjöld breytast mismikið með fjölda heimilismanna. Til að greina mismunandi neyslumunstur er auðveldast að bera saman hlutfallstölur. Matarútgjöld eru hlutfallslega hæst í flokknum hjón með börn og flokknum önnur heimilisgerð. Í þessum flokkum eru stærstu heimilin og flestir fullorðnir í heimili. Matarkostnaður er háður heimilisstærð en annar kostnaður, t.d. vegna húsnæðis, síður. Matarkostnaður einhleypra er að sama skapi hlutfallslega lægri en annarra heimila en húsnæðiskostnaður þeirra hlutfallslega hærri. Einhleypingar búa frekar í leiguhúsnæði en aðrir. Einnig eru útgjöld til áfengis- og tóbakskaupa hlutfallslega hærri hjá þeim. Eðli málsins samkvæmt verja barnafjölskyldur meira fé til menntunar og barnagæslu en aðrar heimilisgerðir.




(Töflur, myndaðar, 10 bls.)