Ferill 10. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 10 – 10. mál.



Beiðni um skýrslu



frá viðskiptaráðherra um viðskipta- og samkeppnishætti í banka-, olíu-, trygginga- og flutn ingsviðskiptum.

Frá Jóhönnu Sigurðardóttur, Ágústi Einarssyni, Ástu R. Jóhannesdóttur,


Gísla S. Einarssyni, Guðmundi Árna Stefánssyni, Jóni Baldvini Hannibalssyni,
Lúðvík Bergvinssyni, Rannveigu Guðmundsdóttur, Sighvati Björgvinssyni,
Svanfríði Jónasdóttur og Össuri Skarphéðinssyni.


    Með vísan til 46. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að viðskiptaráðherra flytji Alþingi skýrslu um viðskipta- og samkeppnishætti í banka-, olíu-, trygginga- og flutningsvið skiptum.
    Í skýrslunni komi m.a. fram hvort haft sé samráð um verð vöru og þjónustu og hvernig hagsmunatengslum og valdasamþjöppun innan þessara fjögurra atvinnugreina sé háttað. Skýrslan leiði í ljós hvort samkeppnishættir í fyrrgreindum atvinnugreinum hamli gegn eðli legum viðskiptaháttum og leiði til hærra verðs á vöru og þjónustu fyrir neytendur.
    Í skýrslunni sé rakin þróun þessara mála síðustu ár og greint frá núverandi stöðu þeirra. Í henni komi m.a. fram upplýsingar um eftirfarandi atriði:
1.      Hver er markaðshlutdeild helstu fyrirtækja í hverri af hinum fjórum atvinnugreinum?
2.      Eru sömu einstaklingar í ábyrgðarstöðum (stjórn/framkvæmdastjórn) hjá fleiri en einu af þeim fyrirtækjum sem getið er í lið 1? Eru sömu eignaraðilar, og þá hverjir, sem eiga yfir 5% hlut í fleiri en einu af þessum fyrirtækjum? Sérstaklega er spurt um hvort um sé að ræða stjórnar- eða eignaraðild að fyrirtækjum sem eiga í samkeppni.
3.      Bendir svar við liðum 1 og 2 til þess að um sé að ræða samþjöppun valds eða óeðlileg hagsmunatengsl sem hamli samkeppni og leiði til hærra verðs á vöru og þjónustu, t.d. með verðsamráði?
4.      Hver er eignarhlutdeild og stjórnarþátttaka helstu fyrirtækja í fyrrgreindum fjórum atvinnugreinum í annarri atvinnustarfsemi og má ætla að slík eignaraðild og stjórnarþátttaka skapi óeðlileg hagsmunatengsl?
5.      Hefur dregið úr samkeppni innan atvinnugreinanna fjögurra undanfarin tíu ár og má ætla að einstök fyrirtæki eða stofnanir, og þá hver, hafi í krafti markaðsstöðu eða verðsamráðs samið um skiptingu markaða eða verðlagningu á vöru og þjónustu?
6.      Bendir samvinna stærri fyrirtækja í flutningsstarfsemi og eignaraðild þeirra að fyrirtækjum í ferðaþjónustu eða landflutningum til þess að samkeppni sé hamlað og öðrum aðilum sé gert nær ókleift að halda uppi samkeppni við eðlileg skilyrði?
7.      Hvert er umfang lánastarfsemi stærstu tryggingafélaganna og hefur henni verið beitt sem tæki í samkeppni? Má ætla að stærstu tryggingafélögin samræmi vátryggingaskilmála sína og verðlagningu þannig að þeir hamli samkeppni?
8.      Hve mikið hafa olíufélögin aukið umfang starfsemi sinnar sl. fimm ár. Má ætla að sú aukning og þátttaka í annarri starfsemi en dreifingu á olíu og bensíni, svo sem sala ýmiss konar varnings á bensínstöðvum, hafi leitt til hærra verðs á bensíni og myndað óeðlilega sam keppni við aðra smásöluverslun?
    Þess er óskað að skýrslan verði tekin til umræðu á Alþingi þegar henni hefur verið dreift meðal þingmanna.

Greinargerð.


    Til að frjáls samkeppni í atvinnu- og viðskiptalífi nái tilgangi sínum og neytendur njóti hennar í lægra vöruverði og betri þjónustu er grundvallaratriði að koma í veg fyrir fákeppni, óeðlilegar viðskiptahindranir og samþjöppun valds í atvinnulífinu. Margt bendir til þess að á liðnum árum hafi tilhneigingar gætt til þess að leggja stein í götu frjálsrar samkeppni. Hringamyndun, valdasamþjöppun og óeðlileg hagsmunatengsl sem takmarkað geta samkeppni verða sífellt sýnilegri og meira áberandi í þjóðfélaginu. Slík þróun er andstæð hagsmunum neytenda, en stjórnvöldum ber skylda til að sjá til þess að leikreglur frjálsrar samkeppni séu þannig að neytendur fái notið hennar í lægra vöruverði og betri þjónustu.
    Samþjöppun t.d. á flutningsmarkaði, bæði í loft-, sjó- og landflutningum, er farin að ógna alvarlega eðlilegri samkeppni. Fyrirtæki á flutningsmarkaðnum tengjast líka með beinni eignaraðild trygginga- og olíufélögum sem þau eiga mikil viðskipti við.
    Sömu tilhneigingar gætir líka í bankakerfinu þar sem ríkisviðskiptabanki er orðinn stór eignaraðili í vátryggingastarfsemi. Olíufélögin teygja anga sína og umsvif æ meira inn í óskylda starfsemi og liggja undir ámæli fyrir verðsamráð. Hagsmuna- og stjórnunartengsl milli samkeppnisaðila eru algeng og í atvinnulífinu hafa myndast markaðsráðandi fyrirtækja blokkir sem tengjast eigna- og stjórnunarlega. Ekki síst eru það olíufélög, trygginga- og flutn ingsfyrirtæki, útflutningsfyrirtæki sjávarafurða og ferðaþjónustufyrirtæki sem tengjast með gagnkvæmu eignarhaldi. Stjórnunartengsl eru áberandi þar sem sömu aðilar sitja í stjórnum þessara fyrirtækja sem oft eru í samkeppni.
    Öll þess þróun hefur leitt til mikillar samþjöppunar valds og auðs á fárra manna hendur á kostnað almennings og skapað trúnaðarbrest og tortryggni milli atvinnu- og viðskiptalífsins annars vegar og almennings hins vegar.
    Alþingi ber að fylgjast vel með þróuninni sem orðið hefur og hvert stefnir í framtíðinni þannig að löggjafinn geti gripið inn í ef ástæða er til. Í þeim tilgangi er beðið um þessa skýrslu, til að Alþingi hafi möguleika á að leggja mat á þá þróun sem orðið hefur á síðustu árum. Með því móti getur löggjafarvaldið lagt mat á þróunina og þá hvernig eigi að bregðast við sé það talið nauðsynlegt.
    Samkeppnisráð gerði úttekt á stjórnunar- og eignatengslum fyrirtækja er starfa á íslenskum markaði á árunum 1993–94 sem nýtast mun í þeirri athugun sem hér er beðið um á banka-, olíu-, trygginga- og flutningsviðskiptum. Athuguninni er einkum ætlað að beinast að þeim breytingum sem hafa orðið í viðskiptalífinu síðan úttekt samkeppnisráðs var gerð, auk þess sem í beiðninni er beðið um athugun á nýjum þáttum sem ekki komu til skoðunar þá.