Ferill 286. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 357 – 286. mál.



Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti.

(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)



1. gr.

    A-liður 10. tölul. 2. gr. laganna orðast svo: Kauphöll sem hlotið hefur starfsleyfi hér á landi og hliðstæðar kauphallir innan Evrópska efnahagssvæðisins.


2. gr.

    Í stað 2., 3. og 4. málsl. 1. tölul. 3. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Sé um að ræða verðbréfafyrirtæki sem stundar starfsemi skv. 8. gr. skal innborgað hlutafé nema að lágmarki 65 milljónum króna en þó aldrei lægri fjárhæð en sem nemur 730.000 ECU miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni. Sé um að ræða verðbréfamiðlun sem stundar starfsemi skv. 9. gr. skal innborgað hlutafé nema að lágmarki 4,5 milljónum króna en þó aldrei lægri fjárhæð en sem nemur 50.000 ECU miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni, sbr. þó 2. mgr. 9. gr., en þar skal innborgað hlutafé nema að lágmarki 10 milljónum króna en þó aldrei lægri fjárhæð en sem nemur 125.000 ECU miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni.

3. gr.

    1. mgr. 26. gr. laganna orðast svo:
    Ákvæði þessa kafla taka til viðskipta með verðbréf í kauphöll og á tilboðsmarkaði sem hlotið hefur starfsleyfi hér á landi. Jafnframt taka þau til viðskipta með verðbréf utan skipulegra verðbréfamarkaða.

4. gr.

    Lög þessi öðlist þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í tengslum við endurskoðun laga um Verðbréfaþing Íslands. Nefnd sú, sem samið hefur frumvarp til laga um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða, hefur lagt til að um leið og það frumvarp væri lagt fram á Alþingi yrðu gerðar þær breytingar á lögum nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti, sem lagðar eru til í þessu frumvarpi.
    Í 10. tölul. 2. gr. gildandi laga um verðbréfaviðskipti er vísað til Verðbréfaþings Íslands. Verði frumvarp til laga um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða samþykkt er eðlilegt að breyta orðalagi greinarinnar eins og gerð er tillaga um í 1. gr. frumvarpsins.
    Í frumvarpi til laga um kauphöll og starfsemi skipulegra tilboðsmarkaða er í 4. gr. að finna ákvæði um lágmarkskröfur sem rétt þykir að gera um innborgað hlutafé í félagi sem sækir um slíkt starfsleyfi. Rétt þykir að gætt sé samræmis í lögum að þessu leyti og er þá bæði átt við efni slíkra ákvæða og orðalag sem notað er. Í 2. gr. frumvarpsins er aðeins lögð til breyting á orðalagi 3. gr. laganna, en áfram er byggt á þeim viðmiðunum sem gerðar eru í tilskipunum ESB að þessu leyti, sbr. tilskipun 93/22 um fjárfestingarþjónustu, svo og 3. gr. tilskipunar 93/6 um eigið fé lánastofnana.
    Í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að ákvæði IV. kafla laganna skuli taka til viðskipta sem fram fara á verðbréfamarkaðnum. Gildir því einu hvort viðskiptin eru gerð í kauphöll eða innan skipulegs tilboðsmarkaðar eða utan hans. Mikilvægt er að ákvæði um meðferð trúnaðar upplýsinga taki almennt til viðskipta á verðbréfamarkaðnum og er þessi breyting því þýðingarmikill liður í því að viðskipti þar njóti þess trausts sem telja verður að sé nauðsynlegt að tryggt sé í lögum.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Frumvarp til laga um breytingu
á lögum nr. 13/1993, um verðbréfaviðskipti.

    Frumvarp þetta er flutt samhliða frumvarpi til laga um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarka. Tekur það til nokkurra orðalagsbreytinga á lögum um verðbréfaviðskipti og verður ekki séð að samþykkt þess hafi kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.