Ferill 333. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 419 – 333. mál.



Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 84/1997, um búnaðargjald.

(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)



1. gr.

    4. gr. laganna orðast svo:
    Fyrirframgreiðsla upp í væntanlega álagningu skal fara fram með fimm jöfnum mánaðar legum greiðslum mánuðina ágúst til desember á tekjuárinu. Fyrirframgreiðslan skal nema 2,65% af búnaðargjaldsstofni á næstliðnu tekjuári.
    Gjalddagar fyrirframgreiðslu skv. 1. mgr. skulu vera fyrsti dagur mánaðanna ágúst til og með desember. Heimilt er gjaldanda að sækja um breytingu á fyrirframgreiðslu sem honum hefur verið gert að greiða skv. 1. mgr. Slíka umsókn skal senda skattstjóra er úrskurðar um breytingu greiðsluskyldunnar. Skattstjóri skal að jafnaði taka til greina umsókn gjaldanda ef fyrirsjáanlegt er að búnaðargjald breytist um sem nemur a.m.k. 25%, þó að lágmarki 10.000 kr. á milli ára.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      4. mgr. orðast svo: Frá álögðu búnaðargjaldi skal draga þá fjárhæð sem greidd hefur verið fyrir fram skv. 4. gr. Greiði gjaldskyldur aðili ekki fyrirframgreiðslu á tilskildum tíma eða vangreiði hann skal innheimtumaður ríkissjóðs reikna hæstu leyfilegu dráttarvexti samkvæmt auglýsingu Seðlabanka Íslands á þá fjárhæð sem vangoldin er frá gjalddaga, sbr. 4. gr. Ef álagning er hærri en ákvörðuð fyrirframgreiðsla skal gjaldandi greiða mismuninn með sem næst jöfnum greiðslum á gjalddögum þinggjalda. Við mismun sem á rætur að rekja til of hárrar fyrirframgreiðslu skal bæta 2,5% álagi.
     b.      Á eftir orðinu „greiðslu“ í 5. mgr. kemur: innheimtu.

3. gr.

    Við 6. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Fjármálaráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari reglur um fyrirframgreiðslur, álagningu, innheimtu og annað er varðar skattalega framkvæmd laga þessara.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. málsl. 7. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „innheimtu“ kemur: fyrirframgreiðslna.
     b.      Orðin „í staðgreiðslu“ falla brott.


5. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1998.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Fyrirframgreiðsla búnaðargjalds á árinu 1998 skal þrátt fyrir ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 4. gr. laganna nema 2,65% af veltu gjaldanda á árinu 1997 skv. 11.–13. gr. laga um virðisauka skatt, nr. 50/1988.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp til laga um búnaðargjald varð að lögum frá Alþingi 26. maí 1997. Í stórum dráttum má segja að lögin geri ráð fyrir að við álagningu þinggjalda leggi skattstjórar bún aðargjald á gjaldstofn framleiðenda í landbúnaði og að gjaldið verði að uppistöðu til innheimt í staðgreiðslu á gjalddögum virðisaukaskatts. Í þessu felst að gjaldskyldir aðilar greiða staðgreiðslu af sama gjaldstofni og síðar kemur til álagningar. Þannig ættu flestir að hafa greitt gjaldið að fullu þegar álagning fer fram.
    Við undirbúning að framkvæmd laganna hefur komið í ljós að hagkvæmara yrði að tengja innheimtu búnaðargjaldsins við annað innheimtukerfi sem fyrir er, fremur en það sem mælt er fyrir um í lögunum. Hægt er að nýta álagningar- og innheimtukerfi fyrir sérstakan tekjuskatt manna (hátekjuskatt) með tiltölulega litlum breytingum til að leggja á og innheimta fyrirframgreiðslu búnaðargjalds. Þetta hafði ekki verið kannað áður þar sem um ólíka skatta er að ræða, en fyrst og fremst hafði verið litið til tengingar við innheimtukerfi laga um virðis aukaskatt og laga um markaðsgjald. Með breytingunni ætti framkvæmd á fyrirframgreiðslu búnaðargjalds að geta orðið mun einfaldari auk þess sem pappírs- og útsendingarkostnaður sparast og gera þarf minni breytingar á hugbúnaði en ella. Gert er ráð fyrir að falla frá því að beita sérstöku vanskilaálagi en reikna í staðinn dráttarvexti á hverja þá fjárhæð sem gjald fellur en er ekki greidd á gjalddaga. Ekki yrði um að ræða álag á mismun álagningar og fyrirframgreiðslu en greitt yrði 2,5% álag á oftekna fyrirframgreiðslu eins og lögin um sérstaka tekjuskattinn gera ráð fyrir.
    Ekki er stefnt að breytingu á endanlegri álagningu búnaðargjalds. Skattstjórar mundu eftir sem áður leggja það á gjaldendur einu sinni á ári þegar álagning þinggjalda fer fram. Aftur á móti er gert ráð fyrir að búnaðargjald verði innheimt árlega fyrir fram á fimm gjalddögum frá ágúst til desember á árinu næst á undan álagningarári í stað sérstakrar innheimtu samhliða skilum á virðisaukaskatti eins og lögin gera ráð fyrir. Við álagningu verði síðan gerður upp sá mismunur sem kann að koma fram á fyrirframgreiddu og álögðu búnaðargjaldi. Við sér stakar aðstæður, t.d. þegar hætt er rekstri eða veruleg breyting verður á umfangi hans, geti gjaldandi sótt um lækkun á fyrirframgreiðslunni.
    Kostir við þessa breytingu eru einkum eftirfarandi: Eins og þegar hefur komið fram má spara bæði pappírs- og útsendingarkostnað og kostnaður við breytingar á hugbúnaði verður óverulegur. Því til viðbótar má nefna að gjaldskyldir aðilar þurfa ekki að reikna eða ákvarða gjaldstofn sinn við hverja greiðslu, gjaldið skilar sér fyrr, nýta má innheimtukerfi sem fyrir er og minna þarf að hafa fyrir framkvæmdinni á skattstofunum. Loks má nefna að gjalddagar fyrirframgreiðslunnar verða hinir sömu hjá öllum, þ.e. fimm á ári, en lög um búnaðargjald gera ráð fyrir að aðilar innan sömu atvinnugreinar geti haft mismunandi gjalddaga eins lög um virðisaukaskatt kveða á um.
    Helsti ókostur breytingarinnar er að horfið er frá því að miða fyrirframgreiðslu við samtímagjaldstofn, þ.e. fyrirframgreiðslan miðast við gjaldstofn ársins á undan, en lögin gera ráð fyrir staðgreiðslu búnaðargjalds af veltu sama rekstrarárs og álagning miðast við. Þá má nefna að frá sjónarhorni gjaldandans greiðist gjaldið fyrr en lögin gera ráð fyrir, sækja þarf um lækkun ef veruleg breyting verður á gjaldstofni og nokkur óvissa verður um stofn fyrir framgreiðslunnar í fyrsta sinn.
    Upphaflega var að því stefnt að hafa lögin einföld og innheimtuna ódýra. Kostir þessarar breytingar þykja ótvíræðir og því ekki verjandi annað en leggja til umræddar breytingar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Í þessari grein felst sú meginbreyting sem kynnt er í almennum athugasemdum hér að framan. Lagt er til að núverandi ákvæði um fyrirframgreiðslu í 4. gr. verði fellt brott í heild sinni og greinin umorðuð. Í því felst að horfið verði frá því að innheimta gjaldið í staðgreiðslu á gjalddögum virðisaukaskatts. Greiðslan er þar að auki rofin úr tengslum við þann gjaldstofn sem endanleg álagning mun miðast við og hún í stað þess miðuð við gjaldstofn fyrra árs. Þessi leið hefur þann kost gagnvart gjaldanda að fyrirkomulagið krefst ekki sérstaks uppgjörs vegna búnaðargjalds á gjalddögum virðisaukaskatts eins og ella yrði raunin. Þá er það ótvírætt einfaldara í framkvæmd að hafa gjalddaga þá sömu fyrir alla aðila í stað þess að þeir ráðist af skilamáta gjaldenda í virðisaukaskattskerfinu. Þannig verður unnt að nýta ríkjandi innheimtukerfi þinggjalda, bæði að því er varðar hugbúnað og innheimtuseðla.
    Líkt og gildir um fyrirframgreiðslu hátekjuskatts er lagt til að gjaldandi geti sótt um breytingu frá þeirri fjárhæð sem honum ber að greiða miðað við gjaldstofn fyrra árs. Til leiðbeiningar og viðmiðunar er gert ráð fyrir að skattstjórar hafni beiðnum sem varða minni breytingar en 10.000 kr. á milli ára og einnig ef þær eru innan við 25% frá gjaldi síðasta árs.
    Lagt er til að horfið verði frá því að kveða á um dráttarvexti í þessari grein, enda verði teknar upp sömu reglur og gilda um hátekjuskatt, sbr. umfjöllun um breytingar á 5. gr. laganna.
                                  

Um 2. gr.

    Hér er lagt til að orðalagi 4. mgr. 5. gr. verði breytt með hliðsjón af breytingu á 4. gr. Í því felst að fellt er brott ákvæði um sérstakt vanskilaálag á mismun álagningar og fyrirfram greiðslu. Þess í stað verði dráttarvextir reiknaðir á ákvarðaða fyrirframgreiðslu frá og með gjalddaga hennar sé hún ekki greidd á réttum tíma eða vangreidd. Hafi fyrirframgreiðsla verið of lág dreifast eftirstöðvarnar á þá gjalddaga þinggjalda sem eftir eru á árinu og gilda þá almennar reglur þinggjalda um beitingu dráttarvaxta. Við mismun sem má rekja til of hárrar fyrirframgreiðslu skal bæta 2,5% álagi.

Um 3. gr.

    Ekki er fyrir hendi í lögunum almenn reglugerðarheimild um nánari útfærslu á skattfram kvæmd svo sem venja er í skattalögum og er lagt til að úr því verði bætt. Gefur það færi á nánari útfærslu á framkvæmd laganna ef þörf krefur. Gert er ráð fyrir að fjármálaráðherra fari með þessa heimild en landbúnaðarráðherra hafi hins vegar heimild til reglugerðarsetningar skv. 3. mgr. 3. gr. laganna.

Um 4. og 5. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Hér er kveðið á um frávik frá framkvæmd fyrirframgreiðslu á árinu 1998 þar sem ekki er unnt að framfylgja ákvæði 4. gr. á fyrsta ári laganna því ekki mun liggja fyrir gjaldstofn fyrra árs. Lagt er til að gjaldstofninn verði miðaður við virðisaukaskattsveltu árins 1997.
    Ljóst er að þessi gjaldstofn víkur frá gjaldstofni laganna í tveimur tilvikum. Annars vegar getur verið um að ræða sölu varanlegra rekstrarfjármuna gjaldenda á þessu ári. Hins vegar getur velta vegna annarra atvinnugreina en búrekstrar skv. 2. gr. laganna falist í veltu viðkomandi aðila. Af þeim sökum og vegna hugsanlegra breytinga á starfsemi er gert ráð fyrir að gjaldendur geti sótt um breytingu á fyrirframgreiðsluskyldu í þeim tilvikum sem framangreint á við í samræmi við ákvæði 4. gr. laganna.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu
á lögum nr. 84/1997, um búnaðargjald.

    Frumvarp þetta felur í sér nokkrar breytingar á lögum um búnaðargjald. Við undirbúning að framkvæmd þeirra hefur komið í ljós að hagkvæmara yrði við innheimtu búnaðargjaldsins að nota álagningar- og innheimtukerfi sérstaks tekjuskatts (hátekjuskatts) frekar en innheimtu kerfi laga um virðisaukaskatt eða laga um markaðsgjald.
    Tilgangur breytinganna er að draga úr kostnaði við innheimtuna og munar þar mest um minni pappírs- og útsendingarkostnað og minni kostnað við breytingar á hugbúnaði.
    Sem fyrr munu 1% af óskiptum tekjum búnaðargjalds renna í ríkissjóð á árunum 1998 og 1999 til að standa straum af kostnaði við framkvæmd laganna eða um 4 m.kr. hvort ár. Eftir það munu 0,5% af óskiptum tekjum búnaðargjalds renna í ríkissjóð eða um 2 m.kr. árlega. Ekki verður séð að samþykkt þessa frumvarps hafi í för með sér frekari kostnað fyrir ríkissjóð.