Ferill 338. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 427 – 338. mál.



Frumvarp til laga



um breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)



1. gr.

    Á eftir 4. mgr. 14. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Hagnaður af sölu þeirra réttinda sem um ræðir í 50. gr. A telst að fullu til tekna á söluári og skiptir ekki máli hve lengi skattaðili hefur átt hin seldu réttindi. Hagnaður af sölu telst mismunur á söluverði annars vegar og kaupverði, eftir að frá því hafa verið dregnar fengnar fyrningar og niðurfærsla skv. 6. mgr., og að teknu tilliti til verðbreytinga samkvæmt ákvæðum 26. gr. hins vegar. Þegar ákveða skal hagnað af sölu aflahlutdeildar eða sambærilegra réttinda í sjávarútvegi skal á hverjum tíma litið svo á að fyrst sé seldur sá hluti aflahlutdeildar í sömu fisktegund sem skattaðili keypti fyrst en úthlutaðri aflahlutdeild sé ráðstafað eftir að öll keypt aflahlutdeild í tegundinni hefur verið seld.
    Á því ári sem skattskyldur hagnaður af sölu aflahlutdeildar eða sambærilegra réttinda í sjávarútvegi skv. 5. mgr. færist til tekna er skattaðila heimilt að færa niður stofnverð afla hlutdeildar, sem keypt hefur verið á tekjuárinu eða á síðustu 12 mánuðum áður en salan fór fram, um fjárhæð sem nemur hinum skattskylda söluhagnaði. Þá getur skattaðili farið fram á frestun skattlagningar söluhagnaðarins um tvenn áramót, enda kaupi hann aflahlutdeild í sjávarútvegi innan þess tíma og færi hana niður um fjárhæð sem nemur hinum skattskylda söluhagnaði. Ef aflahlutdeild er ekki keypt innan tilskilins tíma samkvæmt þessari málsgrein telst söluhagnaðurinn með skattskyldum tekjum á öðru ári frá því er hann myndaðist, fram reiknaður samkvæmt ákvæðum 26. gr. til þess árs þegar hann er tekjufærður, að viðbættu 10% álagi. Niðurfærsla eða frestun tekjufærslu samkvæmt þessari málsgrein er því aðeins heimil að yfirfæranleg rekstrartöp hafi verið jöfnuð.

2. gr.

    Á eftir 50. gr. laganna kemur ný grein, 50. gr. A, svohljóðandi:
a.    Stofnkostnað við kaup á réttindum sem ekki rýrna vegna notkunar er eigi heimilt að fyrna. Til stofnkostnaðar samkvæmt þessari málsgrein telst m.a. keyptur réttur til nýtingar á náttúruauðæfum svo sem kaup á varanlegri aflahlutdeild og sambærilegum réttindum.
         Keypt leyfi til veiða í atvinnuskyni skv. 5. gr. laga nr. 38/1990 skal þó heimilt að telja til stofnkostnaðar með því skipi sem það er tengt og fer þá um fyrningar þess skv. 1. tölul. 32. gr., sbr. 1. tölul. 38. gr.
         Um hagnað vegna sölu á ófyrnanlegum réttindum skv. 1. mgr. fer skv. 5. og 6. mgr. 14. gr. Verðmæti keyptra réttinda sem ekki er heimilt að fyrna er eigi heimilt að færa til frádráttar skattskyldum tekjum. Þó skal heimilt að telja til rekstrarkostnaðar skv. 31. gr. verðmæti þessara réttinda ef þau falla niður.
b.     Fyrirsögn á undan greininni orðast svo: Ófyrnanleg réttindi.

3. gr.

    Við 74. gr. laganna bætist nýr töluliður sem orðast svo: Ófyrnanleg réttindi skv. 50. gr. A skal telja til eignar á stofnverði, sbr. 2. mgr. 10. gr. að frádregnum fengnum fyrningum og að frádreginni niðurfærslu skv. 6. mgr. 14. gr., eftir að stofnverð, fyrningar og niðurfærslur hafa verið hækkaðar eða lækkaðar í samræmi við ákvæði 26. gr.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Þó er rekstraraðilum, sem hafa keypt aflahlutdeild í sjávar útvegi fyrir gildistöku laga þessara, heimilt að fyrna þessi réttindi um allt að 20% á framtali vegna tekjuársins 1998, um allt að 15% á framtali vegna tekjuársins 1999 og um allt að 10% á framtali vegna tekjuársins 2000 og færa stofnverð keyptra aflahlutdeilda niður um þær fyrningar og fyrri fyrningar. Þó er ekki heimilt að fyrna þessi réttindi lengur en í fimm ár frá og með kaupári.
    Þeim sem selt hafa aflahlutdeild fyrir gildistöku laga þessara og frestað skattlagningu sölu hagnaðarins er heimilt að fara með söluhagnaðinn samkvæmt ákvæðum 13. gr.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Í dómi Hæstaréttar Íslands 18. nóvember 1993 í málinu Hrönn hf. gegn fjármálaráðherra var það niðurstaða réttarins að heimilt væri að færa keypta aflahlutdeild til gjalda eins og um væri að ræða fyrnanlega eign samkvæmt lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Niðurstaða þessi var hliðstæð afstöðu úrskurðaraðila í skattkerfinu að því leyti að litið var svo á að gjaldfærsla stofnkostnaðar vegna kaupa á aflahlutdeild væri heimil en ágreiningur var um það á hve löngum tíma heimilt væri að dreifa gjaldfærslunni. Þegar álitamálið kom til kasta dómstóla, sbr. framangreint dómsmál, ákvað fjármálaráðherra að gerð yrði krafa um að litið yrði á aflaheimildir sem ófyrnanleg réttindi og fyrir dómstólunum var því gerð sú aðalkrafa að synja bæri um gjaldfærslu stofnkostnaðarins. Þeirri kröfu var hafnað. Niðurstaða Hæstaréttar og skattyfirvalda var byggð á túlkun á ákvæðum laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, m.a. með þeim rökum að ekki væri í þeim lögum að finna ákvæði sem kveða berum orðum á um skattalega meðferð veiðiheimilda.
    Þótt dómur Hæstaréttar hafi skorið úr um túlkun gildandi laga hefur það verið álitamál hvort niðurstaðan sé eðlileg með tilliti til þeirrar meginreglu skattalaganna að til rekstrar kostnaðar skuli aðeins telja þann kostnað sem lagt er í vegna viðkomandi atvinnustarfsemi. Samkvæmt þeirri reglu skal einungis gjaldfæra stofnkostnað eigna í samræmi við þá verð mætarýrnun sem hlýst af notkun þeirra við framleiðsluna. Á það hefur verið bent að lítil rök standi til þess að ætla að verðmæti aflahlutdeildar rýrni við notkun og almennt hefur þróunin verið sú að verð aflahlutdeildar hefur farið hækkandi. Þannig hefur verðmæti aflahlutdeilda í hendi þeirra sem þær keyptu ekki rýrnað heldur farið vaxandi. Skattaleg meðferð í samræmi við niðurstöðu hæstaréttardómsins er hins vegar að kaupverð aflahlutdeildar hefur verið gjaldfært að hluta eða alveg og skattskyldar rekstrartekjur og eign því lækkaðar sem því nemur. Þá hafa menn ekki verið á einu máli um þau rök sem fram komu í meðferð málsins fyrir skattyfirvöldum og dómstólum um að óvissa um varanleika fiskveiðistjórnunarkerfisins réttlæti afskrift keyptrar aflahlutdeildar. Bent hefur verið á að óvissa í þessu efni komi væntanlega fram í verði aflahlutdeildanna og að óvissa af einhverju tagi tengist flestum eignum, einnig ófyrnanlegum eignum, án þess að það verði tilefni til afskrifta. Með vísan til þessa er afar þýðingarmikið að löggjafarvaldið taki af skarið og setji skýrar reglur í þessum efnum.
    Í tengslum við ýmsar ráðstafanir og athuganir í sjávarútvegsmálum sem sjávarútvegs ráðherra beitti sér fyrir í árslok 1996 beindi hann þeim tilmælum til fjármálaráðherra að skattaleg meðferð keyptrar aflahlutdeildar og hliðstæðra réttinda yrði tekin til athugunar. Í framhaldi af því skipaði fjármálaráðherra með bréfi, dags. 27. febrúar 1997, nefnd til að fjalla um málið og semja lagafrumvarp til að koma breytingu samkvæmt tillögum sínum til framkvæmda. Hefur nefndin samið frumvarp þetta.
    Í upphafi nefndarstarfsins var leitað eftir upplýsingum í nokkrum löndum þar sem vitað var að veiðiheimildir eru framseljanlegar. Upplýsingar fengust frá Noregi, Bretlandi og Nýja-Sjálandi. Samkvæmt þeim upplýsingum sem nefndin fékk virðist það vera meginregla í þessum löndum að ekki sé heimilt að afskrifa stofnkostnað veiðiheimilda.
    Niðurstaða nefndarinnar var sú að margt mæli með því að breyta núgildandi reglum í þessum efnum á þann veg að keypt aflahlutdeild verði ekki frádráttarbær frá rekstrartekjum og verði með hana farið að flestu leyti eins og ófyrnanlegar eignir, svo sem lönd og lóðir. Nefndin leggur enn fremur til að kveðið verði með beinum hætti á um að hagnaður af sölu aflahlutdeildar sé skattskyldur og að um ákvörðun þessa hagnaðar verði settar nánari reglur og þess þá m.a. gætt að skipti á aflaheimildum og breyting á samsetningu þeirra verði ekki hindruð af skattalegum ástæðum. Þá leggur nefndin einnig til að sett verði ákvæði um lagaskil þar sem kveðið verði á um með hvaða hætti núverandi fyrirkomulag verði lagt af. Tillaga nefndarinnar felur í sér að fyrning vegna aflahlutdeildar sem keypt var fyrir gildistöku laganna verði lækkuð í áföngum.
    Vegna síðastnefndrar tillögu nefndarinnar hefur komið til álita að sú breyting kunni að vera í ósamræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar þar sem um kunni að vera afturvirka skattlagningu. Ekki er talið að svo sé. Enn fremur er þess að gæta að um er að ræða ívilnandi reglu sem fól í sér skattfrestun, en ekki er með henni verið að leggja á skatt. Þá er þess að gæta að breyting þessi snertir eingöngu skattlagningu tekna sem aflað verður eftir gildistöku laganna, en sú tekjuöflun ræður skattskyldu.
    Nefndin telur aftur á móti sanngjarnt að taka tillit til þess að þeir sem fest hafa kaup á aflahlutdeild á síðustu árum kunni að hafa litið til þess að þeir mundu eiga þess kost að draga kaupverðið frá rekstrartekjum. Hins vegar sé einnig nauðsynlegt að gæta að því að samræmi sé í skattalegri meðferð á hverjum tíma og jafnræði milli fyrirtækja í sams konar starfsemi. Því þurfi að eyða sem fyrst því misræmi sem verður á milli þeirra aðila sem keyptu aflaheimildir fyrir gildistöku laganna og þeirra sem gera það eftir þann tíma. Nefndin leggur því til að núverandi heimildir þeirra sem keypt hafa aflahlutdeild fyrir gildistöku laganna til að færa stofnkostnað við þau kaup til gjalda í rekstri og færa þær niður verði afnumdar í áföngum og falli að fullu niður eftir árið 2000.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Í greininni er lagt til að ákvæði um skattlagningu hagnaðar af sölu á réttindum sem um ræðir í 2. gr. frumvarpsins, svo sem aflahlutdeild og öðrum hliðstæðum réttindum í sjávarútvegi, verði fært undir 14. gr. laganna þar sem er að finna almennu ákvæðin um skattlagningu söluhagnaðar ófyrnanlegra eigna.
    Rétt þykir að vera með sérákvæði um þessi réttindi í 14. gr. þar sem fram að þessu hefur verið litið á þetta sem fyrnanlega eign og eins er nauðsynlegt að taka tillit til fyrninga þegar um er að ræða sölu á aflahlutdeild sem keypt verður fyrir gildistöku laga þessara. Þá þykir heldur ekki ástæða til að láta öll ákvæði núgildandi 14. gr. taka til söluhagnaðar aflahlut deildar. Þetta á til dæmis við reglu 3. mgr. 14. gr. um að skattaðila sé jafnan heimilt að telja helming söluverðs til skattskyldra tekna. Ákvæði 3. mgr. 14. gr. kom inn í lögin á sínum tíma þar sem ljóst var að varðandi ýmsar eignir yrði erfitt að koma því við að miða við fasteignamat 1979 eða framreiknað stofnverð. Þessi vandamál eiga ekki við um aflahlutdeildina þar sem ekki eru erfiðleikar við að framreikna upphaflegt stofnverð.
    Í 1. málsl. 1. efnismgr. 1. gr. frumvarpsins er að finna ákvæði þess efnis að hagnað af sölu ófyrnanlegra réttinda skuli almennt telja til tekna á söluári. Á það við án tillits til þess hve lengi skattaðili hefur átt hin seldu réttindi. Tekur ákvæðið þannig t.d. til aflahlutdeildar sem skattaðili selur, hvort sem hann hefur fengið hana með úthlutun eða kann að hafa keypt hana fyrir eða eftir gildistöku laga þessara. Með sölu og kaupum í þessu sambandi er einnig átt við skipti á aflahlutdeildum sbr. einnig 24. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.
    Í 2. málsl. 1. efnismgr. er að finna skilgreiningu á hagnaði af sölu ófyrnanlegra réttinda. Um er að ræða sambærilegt ákvæði og er að finna í 2. mgr. 14. gr. laganna að öðru leyti en því að gera verður ráð fyrir breytingu á stofnverði vegna fenginna fyrninga auk niðurfærslu samkvæmt þeim reglum sem lagt er til að gildi um aflahlutdeild. Þær fyrningar sem hér um ræðir eru eingöngu þær fyrningar sem heimilar kunna að hafa verið fram að gildistöku þessara laga og heimilar verða samkvæmt gildistökuákvæði þeirra en eftir það verða ekki aðrar fyrningar leyfilegar. Þær niðurfærslur sem um ræðir eru hins vegar þær sem heimilar verða til jafns við hagnað af sölu á aflahlutdeild, sbr. ákvæði 3. málsl. Enn fremur er í 3. málsl. 1. mgr. sérákvæði um útreikning á hagnaði af sölu á aflahlutdeild þar sem kveðið er á um að við sölu á aflahlutdeild verði litið svo á að innan hverrar tegundar séu fyrst seldar þær heimildir sem fyrst voru keyptar en úthlutaðar aflaheimildir komi síðastar til álita.
    Í 2. efnismgr. 1. gr. frumvarpsins er að finna ákvæði sem felur í sér frávik frá 1. efnismgr. 1. gr. um að söluhagnaður ófyrnanlegra réttinda verði skattlagður að fullu á söluári þegar um er að ræða aflahlutdeild eða sambærileg réttindi. Um er að ræða frestunarákvæði, þ.e. stofnverð sambærilegra réttinda sem keypt eru á sama tíma, er lækkað sem nemur söluhagnaði þeirra réttinda, sem seld voru, þannig að það verður ekki fyrr en við sölu þeirra að söluhagnaður verður reiknaður af þeim hluta. Á þetta við þegar skattaðili, sem selt hefur aflahlutdeild eða sambærileg réttindi, kaupir á tekjuárinu eða hafði keypt á síðustu 12 mánuðum sambærilegar heimildir. Kaupi skattaðili ekki sambærileg réttindi innan framan greindra tímamarka er honum heimilt að óska eftir frestun skattlagningar um tvenn áramót. Hann hefur þannig nokkurt svigrúm til að afla sambærilegra réttinda. Geri hann það ekki bætist við 10% álag á fjárhæð söluhagnaðarins þegar hann er tekjufærður. Að flestu leyti er um að ræða sambærilegt ákvæði og er að finna í 13. gr. núgildandi laga varðandi fyrnanlegar eignir. Ákvæðið er þó þrengra að því leyti að einungis er gert ráð fyrir að heimilt sé að færa kaup á nýrri aflahlutdeild niður um söluhagnaðinn. 13. gr. núgildandi laga heimilar hins vegar fyrningu allra tegunda fyrnanlegra eigna.
    Með ákvæði 2. efnismgr. 1. gr. frumvarpsins er reynt að koma í veg fyrir að söluhagnaðarreglurnar varðandi aflahlutdeildina virki hamlandi á framsal aflahlutdeildar milli útgerðar aðila sem gert er í eðlilegum rekstrartilgangi. Þannig er gert ráð fyrir að aðilar geti skipst á sambærilegri aflahlutdeild án þess að það leiði til skattlagningar. Niðurfærsla eða frestun tekjufærslu er háð því skilyrði að yfirfæranleg töp hafi verið jöfnuð. Sé hún ekki notuð telst söluhagnaðurinn með skattskyldum tekjum á öðru ári frá því er hann myndaðist að viðbættu 10% álagi.

Um 2. gr.

    Lagt er til að við lögin bætist ný grein með yfirskriftinni ófyrnanleg réttindi. Með tilliti til uppbyggingar laganna þykir eðlilegast að hafa þessa grein næst á eftir umfjöllun um fyrnanlegar eignir. Ákvæði þessarar greinar eru almenn í þeim skilningi að þau taka til allra keyptra réttinda sem ekki rýrna við notkun. Til nánari skýringar er tekið fram að þau taki til keyptra réttinda til nýtingar á náttúruauðæfum, svo sem aflaheimildum og sambærilegum réttindum. Er það m.a. gert í þeim tilgangi að augljóst verði að verið er að breyta því réttarástandi sem verið hefur í þeim efnum.
    Í greininni er tekið beint fram að ekki sé heimilt að fyrna réttindi sem ekki rýrna við notkun. Með henni eru tekin af öll tvímæli um það hvort heimilt sé að fyrna keypta aflahlutdeild. Skv. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, er heimildum til veiða á þeim fiskitegundum, þar sem heildarafli er takmarkaður, úthlutað til einstakra skipa. Skal hverju skipi úthlutað tiltekinni hlutdeild af leyfðum heildarafla tegundarinnar og nefnist það aflahlutdeild. Aflahlutdeild skips helst að meginstefnu til óbreytt milli ára. Því er ekki um að ræða verðmætarýrnun vegna notkunar eða aldurs líkt og kemur fram í skilgreiningu 32. gr. varðandi fyrnanlegar eignir. Þá er enn síður um það að ræða að með kaupunum sé verið að leggja út í kostnað sem á árinu á að ganga til að afla tekna, tryggja þær eða halda þeim við, og því ekki um að ræða rekstrarkostnað í skilningi 31. gr. laganna. Af þeirri ástæðu er í 3. mgr. tekið fram að gjaldfærsla sé ekki heimil. Þar sem hér getur verið um að ræða réttindi sem kostað hefur verið verulega til þykir hins vegar rétt að heimilað verði að gjaldfæra þann kostnað ef réttindin falla niður, t.d. með því að núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi verði lagt af. Er hér komið til móts við þau sjónarmið sem nokkru réðu um það að gera keypta aflahlutdeild fyrnanlega. Er hér um eðlislíka reglu að ræða og þá sem er að finna í 34. gr. gildandi laga um fyrnanlegar eignir.
    Með kaupum og sölu á réttindum er átt við hvers kyns framsal eða afhendingu þeirra í viðskiptum. Þannig ber að líta á skipti á aflahlutdeildum sem makaskipti, sbr. 24. grein laga um tekjuskatt og eignarskatt og skulu þau færð í reikninga á því verði sem almennt gerist í hliðstæðum viðskiptum þar sem um beina sölu eða kaup er að ræða. Það telst einnig kaup og sala ófyrnanlegra réttinda þegar þau eru seld og keypt sem ósérgreindur hluti af viðskiptum sem einnig taka til annarra verðmæta. Þannig telst sala skips með aflahlutdeild vera hvort tveggja sala fyrnanlegrar eignar, þ.e. skips, og sala ófyrnanlegra réttinda, þ.e. sala aflahlut deildar. Í þeim tilvikum þarf að sérgreina verð hvors hluta um sig og skal stofnverð aflahlut deildarinnar þá ákveðið sem það verð sem almennt gerist í viðskiptum þegar um aðgreinda sölu aflahlutdeildar er að ræða.
    Í ákvæðinu eru tilgreind ein frávik frá hinni almennu reglu þar sem kveðið er á um að keypt leyfi til veiða í atvinnuskyni, svokölluð rúmmálsréttindi, skuli talin með hinu keypta skipi og falli þar með undir fyrningarreglur sem um það gilda. Meginrökin fyrir þessu fráviki eru að í viðskiptum með fiskiskip er í flestum tilvikum ekki gerður greinarmunur á kaupverði skips og rúmmálsréttinda og eru verðmæti þessara réttinda ekki metin sérstaklega við ákvörðun á verði fiskiskipa. Viðskipti með rúmmálsréttindi eru lítil og er því vafasamt að leggja þau fáu viðskipti til grundvallar við mat á markaðsverði þeirra. Þá hafa reglur um rúmmálsréttindi tekið breytingum á undanförnum árum sem leitt hefur til sveiflna í markaðsverði þeirra. Var það niðurstaða nefndarinnar að ekki væri framkvæmanlegt að aðgreina verðmæti rúmmálsréttinda sérstaklega, heldur bæri að fara með réttindi þessi eins og fiskiskip og fyrna þau með sama fyrningarhlutfalli.

Um 3. gr.

    Í 74. gr. laganna, er að finna nánari útfærslu á því hvernig meta skuli þær eignir sem taldar eru falla undir 73. gr. Ástæða þykir til að fjalla sérstaklega í 74. gr. um hvernig meta skuli aflahlutdeild og önnur hliðstæð réttindi. Stofnverð eins og það er skilgreint í 2. mgr. 10. gr. laganna er lagt til grundvallar en tekið tillit til fenginna fyrninga eða niðurfærslu auk verðbreytinga skv. 26. gr. Eins og tekið er fram í skýringum við 1. gr. um mat á söluhagnaði er þar einungis um að ræða fyrningar sem heimilar voru fyrir gildistöku þessara laga eða verða það skv. 4. gr., svo og niðurfærslu sem heimiluð er á móti söluhagnaði. Þannig er ljóst að keypt aflahlutdeild og önnur sambærileg réttindi eru metin til eignarskatts á bókfærðu verði þeirra hverju sinni. Kvótaréttindi sem að fullu hafa verið fyrnd eða færð niður mynda því ekki eignarskattsstofn.

Um 4. gr.

    Á undanförnum árum hafa fjölmargir aðilar keypt aflahlutdeild og gert ráð fyrir að þeir fengju að gjaldfæra kaupverðið á nokkrum árum. Gagnvart þessum aðilum þykir rétt að við gildistöku þeirra breytinga sem eru í frumvarpi þessu verði ekki í einni svipan tekið fyrir þær gjaldfærslur sem aðilar hafa gert ráð fyrir. Á hinn bóginn þykir einnig óæskilegt að fyrri reglum sé viðhaldið lengur en óhjákvæmilegt er, m.a. vegna þess misræmis sem það skapar á milli aðila eftir því hvort þeir keyptu aflahlutdeild fyrir eða eftir gildistöku laga þessara. Er því gert ráð fyrir að á næstu þremur árum eftir gildistökuna verði heimildir til fyrningar á stofnkostnaði vegna aflahlutdeildar sem keypt var fyrir gildistöku laganna lækkaðar í áföngum og rekstraraðilum heimiluð allt að 45% fyrning á árunum 1998 til 2000 til viðbótar við allt að 20% fyrningu vegna rekstrar á árinu 1997. Þeir sem kaupa aflahlutdeild á því ári geta því fengið allt að 65% fyrningu þrátt fyrir að frá 1. janúar 1998 verði litið á keypta aflahlutdeild sem ófyrnanlega eign.
    Í síðari málsgrein greinarinnar er gert ráð fyrir að þeim sem selt hafa aflahlutdeild fyrir gildistöku laganna og hafa frestað skattlagningu söluhagnaðarins verði heimilt að fara með söluhagnaðinn samkvæmt ákvæðum 13. gr. Hér er um að ræða sanngirnismál þar sem þær reglur hafa gilt að heimilt hefur verið að fyrna eignir skv. 32. gr. um sem nemur skattskyldum söluhagnaði aflahlutdeildar, fyrir gildistöku laganna. Þykir nauðsynlegt að taka af öll tvímæli um að þær reglur muni gilda varðandi söluhagnað aflahlutdeildar sem myndaðist fyrir gildistöku laganna.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 75/1981,
um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

    Frumvarp þetta snýr að breytingum á tekju- og eignarsköttum lögaðila og er ekki gert ráð fyrir að það hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.