Ferill 341. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 430 – 341. mál.



Frumvarp til laga



um breyting á umferðarlögum, nr. 50 30. mars 1987 (ábyrgðar- og slysatryggingar).

(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 91. gr. laganna:
     a.      Í stað „250.000.000 kr.“ í 2. mgr. kemur: 1.000 millj. kr., og í stað „50.000.000 kr.“ kemur: 175 millj. kr.
     b.      Í stað „Tryggingaeftirlitsins“ í 3. mgr. kemur: Vátryggingaeftirlitsins.

2. gr.

    92. gr. laganna orðast svo:
    Auk ábyrgðartryggingar skv. 91. gr. skal hver ökumaður sem ökutækinu stjórnar tryggður sérstakri slysatryggingu, enda hafi hann ekki notað ökutækið í algeru heimildarleysi, sbr. 2. mgr. 90. gr.
    Vátryggingin skal tryggja bætur fyrir líkamstjón af völdum slyss, sem ökumaður verður fyrir við stjórn ökutækisins, enda verði slysið rakið til notkunar ökutækis í merkingu 88. gr.
    Slasist vátryggingartaki sem farþegi í eigin ökutæki eða af völdum þess skal hann eiga rétt til bóta úr vátryggingu þessari, enda verði líkamstjónið rakið til notkunar ökutækis í merkingu 88. gr.
    Vátryggingin skal tryggja hverjum tjónþola bætur allt að 75 millj. kr. vegna hvers einstaks tjónsatburðar. Vátryggingarfjárhæðin skal breytast í samræmi við reglu 3. mgr. 91. gr. Vátryggt skal hjá sama vátryggingafélagi og ábyrgðartryggir ökutækið.
    Ef tjónþoli á rétt á skaðabótum vegna slyssins eftir lögum þessum eða öðrum skaðabóta reglum lækka bætur úr þessari vátryggingu sem því nemur.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1998. Jafnframt fellur úr gildi ákvæði til bráðabirgða í lög um nr. 48 22. maí 1997.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu eru lagðar til tvennar breytingar á umferðarlögunum. Annars vegar eru lagðar til breytingar á vátryggingarfjárhæðum ábyrgðartryggingar ökutækja og slysatrygg ingar ökumanns. Hins vegar eru lagðar til nokkrar breytingar á slysatryggingunni.
    Vátryggingarfjárhæðir vegna ábyrgðartryggingar ökutækja og slysatryggingar ökumanns, sem ákveðnar voru með umferðarlögunum 1987, hafa árlega tekið breytingum í samræmi við verðlagsbreytingar. Fjárhæðir í ábyrgðartryggingunni eru frá 1. mars 1997 495 millj. kr. vegna líkamstjóns eða missis framfæranda og 108 millj. kr. vegna munatjóns. Fjárhæð slysa tryggingar ökumanns frá sama tíma er 20 millj. kr. Með skaðabótalögum, nr. 50/1993, er tóku gildi 1. júlí 1993, voru hæstu bætur til einstaklings vegna alvarlegra slysa hækkaðar verulega. Með hækkun á margföldunarstuðli skaðabótalaganna samkvæmt lögum nr. 42/1996 geta hámarksbætur vegna slysa nú orðið um 54 millj. kr. Ekki er kunnugt um tjón í slysatryggingu ökumanns sem áætlað er að muni nema hærri fjárhæð en nemur vátryggingarfjárhæðinni. Hins vegar hafa orðið nokkur slysatjón í ábyrgðartryggingu ökutækja þar sem bætur eru áætlaðar hærri eða á bilinu 20–30 millj. kr. Án lagabreytingar er ekki unnt að hækka vátryggingar fjárhæðir umferðarlaganna umfram verðlagsbreytingar. Nauðsynlegt er hins vegar að vátryggingarfjárhæðirnar séu jafnan það háar að þær hrökkvi almennt fyrir bótum sem leiðir af tjóni og að tillit sé tekið til vaxta og kostnaðar sem við kann að bætast. Er því lagt til að vátryggingarfjárhæð í slysatryggingu ökumanns verði ákveðin 75 millj. kr. Jafnframt er lagt til að vátryggingarfjárhæð ábyrgðartryggingar vegna líkamstjóns eða missis framfæranda verði ákveðin 1.000 millj. kr. og að vátryggingarfjárhæð í munatjónum ábyrgðartryggingar verði ákveðin 175 millj. kr. Ekki er talið að þessar breytingar á vátryggingarfjárhæðum ökutækjatrygginganna einar sér hafi teljandi áhrif á iðgjöld fyrir vátryggingar þessar.
    Slysatrygging ökumanns var lögfest með umferðarlögunum 1987. Slysatryggingin veitir ökumanni bætur vegna slyss sem hann verður fyrir, jafnvel þótt hann beri sjálfur ábyrgð á slysinu. Lagt er til að ákvæði um slysatrygginguna verði skýrð frekar og að bótasvið hennar verði tengt bótasviði ábyrgðartryggingarinnar með því að taka notkunarhugtak ábyrgðar tryggingarinnar upp í reglur slysatryggingarinnar. Jafnframt er lagt til að kveðið verði á um að slysatryggingin nái ekki til ökumanns sem notar ökutæki í algeru heimildarleysi. Loks er lagt til að inn í slysatrygginguna komi ákvæði þess efnis að hún nái einnig til vátryggingartaka sem slasast sem farþegi í eigin ökutæki eða á annan hátt af völdum eigin ökutækis.
    Breytingar á vátryggingarfjárhæðum og á slysatryggingunni eru lagðar til í samráði við Vátryggingaeftirlitið.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Lagt er til að vátryggingarfjárhæðir vegna ábyrgðartryggingar ökutækja skv. 2. mgr. 91. gr. verði hækkaðar umfram þá heimild sem leiðir af verðlagsbreytingum, sbr. 3. mgr. sömu greinar. Þetta þykir rétt með hliðsjón af hækkun bóta í kjölfar nýrra skaðabótalaga og eftirfarandi hækkun margföldunarstuðuls þeirra laga og að öðru leyti til að tryggja að vátrygg ingarfjárhæðir hrökkvi nú, ekki síður en þegar grunntölur vátryggingarfjárhæðanna voru lögfestar 1987, til að greiða bætur í alvarlegum umferðarslysum.
    Þá er lagt til að heiti Tryggingaeftirlitsins í 3. mgr. 91. gr. verði breytt í samræmi við ný lög um vátryggingastarfsemi.


Um 2. gr.

    Lagt er til að nokkrar breytingar verði gerðar á 92. gr. Með greininni var lögfest sú regla að ökumaður skuli slysatryggður sérstakri vátryggingu. Með því voru ökumanni tryggðar bæt ur vegna slyss sem hann verður fyrir, jafnvel þótt hann bæri sjálfur ábyrgð á tjóninu. Var með því stefnt að því að svipaðar reglur giltu að þessu leyti um farþega og ökumann. Í raun hefur bótasvið slysatryggingarinnar þó orðið rýmra þar sem notkunarhugtak 88. gr. umferðarlaga sem er grundvöllur ábyrgðartryggingarinnar vantar í 92. gr. Er því lagt til að notkunarhugtakið í 88. gr. verði einnig tekið upp í 92. gr. Þá er lagt til að tekin verði af öll tvímæli um að slysatryggingin taki ekki til ökumanns sem notar ökutæki í algeru heimildarleysi og verði þá vísað til 2. mgr. 90. gr. laganna þar sem kveðið er á um að fébótaskylda færist yfir á þann sem notar ökutæki í algeru heimildarleysi. Þá er enn fremur lagt til að slysatryggingin taki einnig til þess ef vátryggingartaki (eigandi/umráðamaður) slasast sem farþegi í eigin ökutæki eða á annan hátt af völdum eigin ökutækis, en samkvæmt orðalagi greinarinnar fellur vátryggingartaki nú ekki undir slysatrygginguna. Loks er lagt til að tilvísun til slysatryggingar ökumanns samkvæmt lögum um almannatryggingar í greininni verði felld brott. Ökumannstrygging almannatryggingalaga var felld niður með lögum nr. 104 1992, m.a. með vísun til þess að sú trygging væri óþörf eftir tilkomu slysatryggingar 92. gr.
    Auk þessa er lagt til að vátryggingarfjárhæð slysatryggingarinnar verði hækkuð í 75 millj. kr. Með skaðabótalögum hafa hæstu bætur til einstaklinga vegna alvarlegra slysa hækkað verulega þannig að vátryggingarfjárhæð skv. 1. mgr. 92. gr. hrekkur ekki til greiðslu hæstu bóta. Þykir nauðsynlegt að vátryggingarfjárhæð slysatryggingarinnar sé það há að hún nægi almennt fyrir bótum sem leiðir af tjóni.     


Um 3. gr.

    Lagt er til að lagabreytingarnar taki gildi 1. janúar 1998, þar á meðal hækkun vátryggingar fjárhæða, og að þær taki þannig til tjóna sem verða 1. janúar 1998 eða síðar, óháð gildistíma vátryggingarsamnings.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á umferðarlögum, nr. 50/1987.

    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á vátryggingarfjárhæðum ábyrgðartryggingar ökutækja og slysatryggingar ökumanns. Einnig eru lagðar til nokkrar breytingar á slysatrygging unni sem miða að því að ákvæðið verði skýrt frekar en nú er og tengt bótasviði ábyrgðartrygg ingarinnar. Ekki verður séð að frumvarpið hafi í för með sér breytingu á útgjöldum ríkissjóðs verði það óbreytt að lögum.