Ferill 480. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 815 — 480. mál.



Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi.

(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)



    

1. gr.

    Við 1. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. skulu vörur sem innihalda meira en 2,25% af vínanda, en eru óhæfar til neyslu og ekki er hægt að gera neysluhæfar, undanþegnar áfengisgjaldi. Ráðherra getur með reglugerð ákveðið nánar hvaða vörur falla hér undir.

2. gr.

    3. gr. laganna orðast svo:
    Áfengisgjald skal vera sem hér segir á hvern sentilítra af vínanda í hverjum lítra hins áfenga drykkjar samkvæmt flokkun hans í tollskrá:
1.    Af öli sem flokkast í vörulið 2203, svo og af vörum sem innihalda blöndur af öli og óáfengum drykk og flokkast í vörulið 2206: 58,70 kr. á hvern sentilítra umfram 2,25 sentilítra.
2.    Af víni og öðrum gerjuðum drykkjarvörum sem flokkast undir vöruliði 2204, 2205 og 2206 og eru að hámarki 15% að styrkleika, enda innihaldi varan eingöngu vínanda sem myndast hefur við gerjun, án hvers kyns eimingar: 52,80 kr. á hvern sentilítra umfram 2,25 sentilítra.
3.    Af öðru áfengi: 57,50 kr.
    Gjald skv. 1. mgr. skal reiknast hlutfallslega á brot af sentilítra af vínanda og brot af lítra hins áfenga drykkjar.
    Ef umbúðir vöru greina ekki magn eða styrkleika áfengis sem aðilar sem tilgreindir eru í 2. mgr. 2. gr. flytja til landsins eða fá sent erlendis frá er tollyfirvöldum heimilt að meta magn eða styrkleika áfengis og ákvarða gjald samkvæmt því.


3. gr.

    4. gr. laganna fellur brott og númeraröð annarra greina breytist til samræmis við það.


4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
a.    Í stað orðanna „skattstjóra þar sem þeir eru heimilisfastir“ í 1. mgr. kemur: ríkisskattstjóra.
b.    Í stað orðanna „Skattstjórar skulu hver í sínu umdæmi“ í 3. mgr. kemur: Ríkisskattstjóri skal.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
a.    1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Áfengisgjald skal fellt niður eða endurgreitt í eftirtöldum tilvikum.
b.    5. tölul. 1. mgr. orðast svo: Af áfengi sem ferðamenn og farmenn hafa með sér inn í landið til eigin nota, að tilteknu hámarki sem fjármálaráðherra kveður á um í reglugerð.
c.    Við 1. mgr. bætast tveir nýir töluliðir er orðast svo:
    6.    Af áfengi, sem talið er upp í lyfjaskrá, til lækna og lyfsala til sölu sem lyf.
    7.     Af áfengi til iðnþarfa samkvæmt nánari skilgreiningu fjármálaráðherra.
d.    Orðin „svo og lækna og lyfsala vegna áfengis sem talið er upp í lyfjaskrá og selt er sem lyf, sbr. 7. tölul. 1. mgr. 11. gr. áfengislaga, og áfengis sem selt er skv. 8. tölul. 1. mgr. 11. gr. sömu laga“ í 2. mgr. falla brott.
e.     Við greinina bætist ný málsgrein er orðast svo:
         Fjármálaráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessarar greinar, m.a. um skilyrði niðurfellingar eða endurgreiðslu.

6. gr.     

             8. gr. laganna orðast svo:
    Af innheimtu áfengisgjaldi þeirra sem eru gjaldskyldir skv. 1. mgr. 2. gr. skal 1% renna í Forvarnasjóð. Tilgangur sjóðsins skal vera að stuðla að forvörnum gegn áfengis- og fíkni efnaneyslu. Styrki skal veita úr sjóðnum til forvarnastarfa á verkefnagrundvelli. Áfengis- og vímuvarnaráð gerir tillögur til heilbrigðisráðherra um veitingu styrkja úr Forvarnasjóði.
    Af innheimtu áfengisgjaldi þeirra sem eru gjaldskyldir skv. 1. mgr. 2. gr. skulu 0,3% renna til áfengiseftirlits lögregluyfirvalda.

7. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júní 1998. Við gildistöku laganna falla úr gildi lög nr. 58/1970, um skemmtanaskatt.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Almennt.

    Í frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi. Tillögurnar byggjast að mestu á niðurstöðum nefndar sem skipuð var fulltrúum fjármála ráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis, dómsmálaráðuneytis og viðskiptaráðuneytis um nýskipan í áfengis- og tóbaksmálum. Tillögur nefndarinnar miða meðal annars að því að eftirlit með dreifingu og markaðssetningu áfengis hér á landi verði aukið, spornað við neyslu og henni stýrt með gjaldtöku á vörurnar.
    Samhliða frumvarpinu eru lögð fram önnur frumvörp þar sem kveðið er á um ýmsar breytingar í áfengismálum hér á landi, í samræmi við tillögur nefndarinnar.
    Helstu breytingar sem frumvörp þessi miða að eru sem hér segir: Í fyrsta lagi að rekstur áfengisútsala verði háður eftirliti og sambærilegum skilyrðum og rekstur vínveitingastaða. Í öðru lagi að leyfisveitingar vegna innflutnings og heildsölu áfengis, svo og yfirumsjón eftirlits með allri verslun með áfengi, verði á vegum lögregluyfirvalda. Jafnframt verði leyfi til rekstrar vínveitingahúsa og áfengisútsala háð samþykki viðkomandi sveitarstjórnar. Í þriðja lagi að áfengi verði flokkað í þrjá flokka, þ.e. öl, létt vín og annað áfengi, og að tekið verði upp mishátt áfengisgjald eftir flokkum.

II. Helstu atriði frumvarpsins.

    Gert er ráð fyrir þeirri breytingu í frumvarpinu að áfengi verði flokkað í þrjá meginflokka við ákvörðun áfengisgjalds. Þar er um að ræða í fyrsta lagi öl, í öðru lagi vín og aðrar gerjaðar drykkjarvörur að hámarki 15% að styrkleika og í þriðja lagi annað áfengi. Tilgangurinn með slíkri flokkun er að löggjafarvaldinu sé kleift að beita mismunandi gjaldtöku á einstaka flokka áfengis og hafa þannig áhrif á neysluna.     
    Ekki er lögð til breyting á gjaldi af öli. Hins vegar er lagt til að áfengisgjald af víni lækki um 10% frá því sem nú er. Gera má ráð fyrir að útsöluverð á algengum tegundum af rauðvíni lækki um 5–6% við þá breytingu.
    Af öðru áfengi en öli og víni lækki gjald á hvern sentilítra vínanda í hverjum lítra áfengis lítillega, en leggist á móti á allt vínandamagn. Sú breyting leiðir til nokkurrar hækkunar á áfengi. Hækkunin er mest á veiku áfengi, til að mynda áfengisblöndum og áfengum gosdrykkjum, en með auknum styrkleika áfengis dregur úr áhrifum breytingarinnar. Þessi breyting þýðir um 60–90 kr. hækkun áfengisgjalds á hverja flösku af flestum tegundum áfengis. Gera má ráð fyrir að útsöluverð á algengum tegundum af vodka hækki um 3–4%.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að 0,3% af gjaldi af áfengi sem flutt er inn til sölu eða vinnslu renni til áfengiseftirlits lögregluyfirvalda.
    Í gildistökuákvæði frumvarpsins er kveðið á um að lög nr. 58/1970, um skemmtanaskatt, falli brott. Skemmtanaskattur er lagður á ýmiss konar skemmtanastarfsemi sem aðgangur er seldur að og veitinga- og samkomuhús þar sem vínveitingar eru hafðar um hönd. Lögin þykja um margt orðin úrelt sökum breytinga sem orðið hafa á skemmtanastarfsemi undanfarin ár.

III. Áhrif á tekjur ríkissjóðs.

     Gert er ráð fyrir að lækkun á áfengisgjaldi af víni lækki tekjur ríkissjóðs um allt að 70 m.kr. á ári. Breyting á gjaldtöku af öðru áfengi en öli og víni leiðir á hinn bóginn til hækkun ar á gjaldi af áfenginu. Ljóst er að tekjur ríkissjóðs munu aukast nokkuð við þá breytingu og má ætla að sá tekjuauki geti numið um 100–120 millj. kr. Í heildina má því gera ráð fyrir að tekjuaukning vegna breytinga á fjárhæð áfengisgjalds muni nema um 30–50 millj. kr.
    Eins og áður segir er gert ráð fyrir að af tekjum af áfengisgjaldi renni 0,3% til áfengis- og tóbakseftirlits, en það svarar til um 15 millj. kr.
    Eins og áður segir er gert ráð fyrir að lög nr. 58/1970, um skemmtanaskatt, falli brott við gildistöku frumvarpsins. Árlegar tekjur af skemmtanaskatti hafa numið um 70 millj. kr. Auknum tekjum af áfengisgjaldi er ætlað að vega að hluta til upp tekjutap ríkissjóðs við það að skemmtanaskattur leggst af.
    

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Í greininni er kveðið á um að vörur sem innihalda meira en 2,25% af vínanda, en eru óhæfar til neyslu og ekki er hægt að gera neysluhæfar, skuli undanþegnar áfengisgjaldi. Gert er ráð fyrir að fjármálaráðherra geti með reglugerð ákveðið nánar hvaða vörur falla hér undir.


Um 2. gr.

    Gert er ráð fyrir að áfengi verði flokkað í þrennt til gjaldskyldu, þ.e. öl, vín og aðrar gerjaðar drykkjarvörur og loks annað áfengi. Æskilegt þykir að greina á milli einstakra flokka áfengra drykkja með þessum hætti í því skyni að löggjafinn geti kveðið á um mis munandi hátt áfengisgjald eftir því um hvers kyns áfengi er að ræða og þannig beitt gjaldtöku til neyslustýringar. Þess háttar neyslustýringu hefur verið beitt í ýmsum nágrannaríkjum. Flokkun til gjaldskyldu ræðst af flokkun vöru í tollskrá, en það þykir nauðsynlegt til að tryggja að ekki verði vafi á flokkun einstakra áfengistegunda til gjaldskyldu. Rétt er að taka fram að vöruflokkun tollskrárinnar byggist á alþjóðlegri tollflokkun vara.
     Öl flokkast undir vörulið 2203 í tollskrá. Þá er gert ráð fyrir að vörur sem innihalda blöndur af öli og óáfengum drykkjum flokkist með öli hvað áfengisgjald varðar. Gert er ráð fyrir að gjald af öli verði óbreytt frá því sem nú er.
    Við afmörkun hugtakanna vín og aðrar gerjaðar drykkjarvörur er við það miðað í fyrsta lagi að vara flokkist undir vöruliði 2204, 2205 eða 2206 í tollskrá, í öðru lagi að áfengis styrkur sé að hámarki 15% og í þriðja lagi að varan innihaldi eingöngu vínanda sem myndast hefur við gerjun, án hvers kyns eimingar. Hér undir falla einkum vín úr þrúgum, t.d. rauðvín, hvítvín o.fl. (vöruliður 2204), og aðrir gerjaðir drykkir en vín og öl, t.d. eplavín, peruvín og kirsuberjavín (vöruliður 2206). Drykkir sem eru meira en 15% að styrkleika falla þó utan við hugtökin. Lagt er til að gjald af vörum sem falla hér undir verði 52,80 kr. á hvern sentilítra umfram 2,25 sentilítra af vínanda af hverjum lítra áfengis og lækki samkvæmt því um 5,90 kr. eða um rúm 10% frá því sem nú er.
    Gert er ráð fyrir að annað áfengi en öl og vín og aðrar gerjaðar drykkjarvörur flokkist sérstaklega til gjaldskyldu. Hér undir fellur því allt vín sem er sterkara en 15%. Hér undir fellur einnig allt áfengi sem inniheldur einhvern vínanda sem myndast hefur við eimingu, þar með talin styrkt vín, líkjörar og hvers kyns áfengisblöndur og áfengir gosdrykkir sem innihalda vínanda sem myndast hefur við eimingu. Lagt er til að gjaldtöku af vörum sem flokkast hér undir verði breytt nokkuð. Þannig muni gjaldið reiknast af öllum vínanda í drykknum. Gjaldið lækkar jafnframt úr 58,70 kr. í 57,50 kr. Þetta leiðir til nokkurrar hækk unar á gjaldi af áfenginu. Þessari breytingu er í fyrsta lagi ætlað að leiðrétta þá röskun er gjaldfrelsismörk (2,25%) þykja hafa á gjaldtöku af brenndu áfengi í þeim tilvikum sem áfengi hefur verið blandað með gosdrykk eða ávaxtasafa, en við það verður hlutfallslega stór hluti vínandamagns undanþeginn gjaldi. Í annan stað þykir æskilegt út frá áfengisvarna sjónarmiðum að beina neyslu frá slíkum drykkjarvörum.
    Eins og fram kemur í almennum athugasemdum má gera ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs aukist í heildina um 30–50 millj. kr. við breytingar á áfengisgjaldi og er þeirri tekjuaukningu ætlað að draga að hluta til úr tekjutapi ríkissjóðs við niðurlagningu skemmtanaskatts.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að gjald af áfengi skuli reiknast hlutfallslega á brot af sentilítra af vínanda og brot af lítra hins áfenga drykkjar. Ekki er um að ræða neina breytingu frá núverandi framkvæmd.

Um 3. gr.

    Lagt er til að fellt verði brott ákvæði 4. gr. núgildandi laga, en þar er kveðið á um gjald af áfengi sem er flutt eða sent til landsins til eigin nota. Í þeim tilvikum hefur gjaldið reiknast sem tiltekin fjárhæð á hvern lítra vörunnar. Gjaldið er óháð styrkleika þegar um öl eða vín er að ræða, en af öðru áfengi hækkar gjaldið í þrepum við aukinn styrkleika. Mismunandi gjaldtaka af áfengi sem flutt er inn í atvinnuskyni annars vegar en til eigin nota hins vegar hefur haft í för með sér að umtalsverður munur hefur verið á gjaldtöku af sams konar vöru eftir því í hvaða skyni hún er flutt til landsins. Lagt er til að sérreglur um gjaldtöku af áfengi til eigin nota verði afnumdar.
    Ekki verður talið að þessi breyting leiði til nokkurs óhagræðis við innflutning þeirra sem flytja inn áfengi til eigin nota. Kemur þar bæði til að auðvelt er að reikna gjaldið út og hitt að við innflutninginn leggst virðisaukaskattur ætíð ofan á tollverð gjaldskyldrar vöru að viðbættu áfengisgjaldi, og þarf því hvort eð er að reikna þann skatt út og leggja á hverju sinni. Er breyting þessi því lögð til. Í 3. mgr. er kveðið á um að ef umbúðir vöru greini í slíkum tilvikum ekki magn eða styrkleika áfengis sé tollyfirvöldum heimilt að áætla magn eða styrkleika þess og ákvarða gjald samkvæmt því. Mat á styrkleika mundi einkum byggjast á því um hvers konar vöru er að ræða og hver sé algengur styrkleiki slíkrar vöru.

Um 4. gr.

    Samkvæmt núverandi framkvæmd á innheimtu áfengisgjalds af innlendri framleiðslu annast einstakir skattstjórar álagningu gjaldsins, en eftirlit er hins vegar í höndum ríkisskatt stjóra. Lagt er til að framkvæmd álagningar og eftirlits vegna gjalds á innlenda framleiðslu á áfengi og tóbaki verði alfarið í höndum ríkisskattstjóra. Við það annast einn og sami aðilinn framkvæmdina á landsvísu, en það skapar sérþekkingu á einum stað sem nýtist fyrir landið allt og léttir á verkefnum einstakra skattstjóra. Þessi breyting er í samræmi við þá þróun að færa ýmis sértæk gjöld og skatta frá skattstjórum og í hendur ríkisskattstjóra.

Um 5. gr.

    Lagðar eru til tvenns konar breytingar á 7. gr. laganna.
    Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að kveðið verðiótvírætt á um það í lögunum að gjaldið skuli lækkað eða fellt niður ef tiltekin skilyrði eða aðstæður eru fyrir hendi í stað þess að kveða á um heimild fjármálaráðherra til að lækka eða fella niður gjaldið. Hins vegar er gert ráð fyrir að fjármálaráðherra setji í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessarar greinar, m.a. um skilyrði niðurfellingar eða endurgreiðslu.
    Í öðru lagi er lagt til að við lögin bætist ný ákvæði um niðurfellingu gjalda í tilteknum tilvikum. Þannig er lagt til að áfengisgjald skuli fellt niður af áfengi sem talið er upp í lyfjaskrá til lækna og lyfsala til sölu sem lyf. Í gildandi lögum er kveðið á um að fjármála ráðherra sé heimilt að lækka gjald af slíku áfengi. Rök þykja til þess að fella gjaldið alfarið niður af slíkum vörum. Auk þess er lagt til að áfengi til iðnþarfa verði undanþegið áfengis gjaldi. Gert er ráð fyrir að fjármálaráðherra skilgreini í hvaða tilvikum áfengi teljist vera til iðnþarfa. Í núgildandi lögum er að finna heimild til að lækka gjald af slíku áfengi, en eðlilegt þykir að slíkt áfengi verði alfarið undanþegið gjaldi.

Um 6. gr.

    Í greininni er kveðið á um nýtt orðalag 8. gr. laganna. Um er að ræða breytingar á orðalagi greinarinnar frá því sem hún hljóðar nú, auk þess sem ný málsgrein bætist við hana. Til einföldunar þykir að orða alla greinina á ný.
    Breytingar frá núverandi grein felast annars vegar í því að gert er ráð fyrir að breytt verði tilvísun í lagaákvæði, en það er gert vegna breytingar sem gert er ráð fyrir að verði á 3. gr. laganna, sbr. 2. gr. frumvarpsins. Ekki er um efnisbreytingu að ræða.Hins vegar er lagt til að í stað þriggja síðustu málsliða greinarinnar komi nýr málsliður um að Áfengis- og vímu varnaráð geri tillögur til heilbrigðisráðherra um veitingu styrkja úr Forvarnasjóði.
    Þá er lagt til að við greinina bætist ný málsgrein um að 0,3% af innheimtu gjaldi af áfengi sem flutt er inn til sölu eða vinnslu, eða sem svarar um 15 millj. kr., verði ráðstafað til lög regluyfirvalda vegna áfengiseftirlits. Er þeirri fjárhæð ætlað að standa straum af nýjum verkefnum sem lögregluyfirvöldum er ætlað að sinna vegna áfengiseftirlits, m.a. eftirliti með birgðageymslum áfengisheildsala og sölu og dreifingu áfengis í vínveitingahús.

Um 7. gr.

    Í gildistökuákvæði frumvarpsins er kveðið á um brottfall laga nr. 58/1970, um skemmt anaskatt. Skemmtanaskattur hefur verið innheimtur af veitinga- og samkomuhúsum þar sem vínveitingar eru hafðar um hönd, kvikmyndasýningum og af skemmtanahaldi sem aðgangur er seldur að. Skemmtanastarfsemi hefur tekið miklum breytingum frá því að lög nr. 58/1970 tóku gildi á sínum tíma. Veitinga- og samkomuhúsum sem bjóða upp á vínveitingar hefur fjölgað mikið á undanförnum árum og eru þau jafnframt orðin fjölbreytilegri. Lögin hafa ekki tekið mið af þessu og þykja um margt orðin úrelt. Enn fremur þykja lögin ekki uppfylla þær kröfur sem nú eru gerðar til skattlagningarheimilda þar sem þau fela ráðherra ákvörðun um skattlagningu.
    Innheimtur skemmtanaskattur hefur á undanförnum árum verið um 70 millj. kr. á ári. Sam kvæmt lögum nr. 58/1970 er skattinum ráðstafað til áfengis- og fíkniefnavarna en einnig rennur hluti hans til Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Menningarsjóðs félagsheimila. Með skemmtanaskatti hefur einnig verið innheimt gjald í Menningarsjóð sem hefur verið um 10 millj. kr. á ári.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að tekjuaukning vegna hækkunar áfengisgjalds komi að hluta til í stað þeirra tekna sem ríkissjóður hefur haft af skemmtanaskattinum. Miðað er við að þær stofnanir sem notið hafa tekna af skemmtanaskatti samkvæmt fjárlögum fái áfram framlög úr ríkissjóði.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á
lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi.

    Í frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi. Lagt er til að áfengi verði flokkað í þrjá flokka til ákvörðunar áfengisgjalds, þ.e. öl, vín og aðrar gerjaðar drykkjarvörur og annað áfengi. Gert er ráð fyrir að áfengisgjald af víni og öðrum gerjuðum drykkjarvörum lækki. Af öðru áfengi er gert ráð fyrir að gjald á hvern senti lítra áfengis lækki eilítið en að gjaldfrelsismörk, 2,25%, verði afnumin. Áætlað er að tekjur af áfengisgjaldi aukist um 30–50 millj. kr. við breytinguna. Þá er lagt til að 0,3% af áfengis gjaldi sem flutt er til landsins til sölu eða vinnslu, eða sem svarar til um 15 millj. kr., verði ráðstafað til áfengiseftirlits lögregluyfirvalda. Loks er lagt til í frumvarpinu að lög nr. 58/1970, um skemmtanaskatt, falli brott. Gert er ráð fyrir að þær stofnanir sem notið hafa tekna af skemmtanaskatti samkvæmt fjárlögum fái áfram framlög úr ríkissjóði.
    Ákvæði frumvarpsins beinast einkum að þáttum sem varða tekjuhlið ríkissjóðs og er ekki ástæða til að ætla að þau hafi umtalsverð útgjaldaáhrif.