Ferill 367. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1214 – 367. mál.



Nefndarálit



um frv. til l. um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kristján Andra Stefánsson frá for sætisráðuneyti, Allan Vagn Magnússon héraðsdómara, Tryggva Gunnarsson hrl., Karl Axelsson hrl., Magnús Sigurðsson, Davíð Þór Björgvinsson, dósent við Háskóla Ísland, Stefán Thors, skipulagsstjóra ríkisins, Trausta Valsson frá Háskóla Íslands, Vilhjálm Þ. Vil hjálmsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Jónas Egilsson frá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Jón Gunnarsson og Guðjón Guðmundsson frá Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum og Jóhann Guðmundsson, oddvita Svínavatnshrepps. Þá bárust nefndinni um sagnir um málið frá félagsmálaráðuneyti, landbúnaðarráðuneyti, Neytendasamtökunum, Náttúruvernd ríkisins, Sambandi sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, Félagi íslenskra nátt úrufræðinga, Landgræðslu ríkisins, Skógrækt ríkisins, Arkitektafélagi Íslands, Landssam bandi stangaveiðifélaga, Ferðaklúbbnum 4x4, Veðurstofu Íslands, Hollustuvernd ríkisins, Náttúruverndarráði, Orkustofnun, Alþýðusambandi Íslands, Ferðafélagi Íslands, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Skipulagsstofnun, héraðsnefnd Austur-Húnvetninga, héraðsnefnd Eyjafjarðar, Ferðamálaráði, Akureyrarbæ, iðnaðarráðuneyti, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Bændasamtökum Íslands, Landsvirkjun, héraðsnefnd Rangárvallasýslu, hér aðsnefnd Árnesinga, Skotveiðifélagi Íslands, Náttúruverndarsamtökum Austurlands, Nátt úrufræðistofnun Íslands, héraðsnefnd Þingeyjarsýslu, Náttúruverndarsamtökum Íslands, Landssambandi veiðifélaga, héraðsnefnd Vestur-Húnavatnssýslu, Reykjavíkurborg, Samtök um sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Jónasi Egilssyni og Eyþingi.
    Í frumvarpinu er lagt til að settar verði í lög reglur um eignarhald á þeim landsvæðum sem talin eru til afrétta og almenninga. Lagt er til að eignarhaldi á landi verði skipt í tvo flokka, annars vegar eignarlönd, sem eru háð einkaeignarrétti, og hins vegar þjóðlendur, sem eru landsvæði utan eignarlanda, þar sem einstaklingar eða lögaðilar geta átt takmörkuð eignar réttindi. Lagt er til að því verði lýst með lögum að íslenska ríkið sé eigandi lands og lands réttinda í þjóðlendum sem eru ekki þegar háð einkaeignarrétti og að settar verði sérstakar reglur um stjórn og meðferð þjóðlendna. Í frumvarpinu er lagt til að forsætisráðherra fari með stjórnsýslu og forræði málefna þjóðlendna sem ekki eru með lögum lögð til annarra ráðuneyta. Þá er sveitarstjórnum ætlað að fara með skammtímaráðstöfun afnota innan þjóð lendna. Loks er stjórnvöldum með frumvarpinu falið að hafa frumkvæði að því að skera með skipulögðum hætti úr um hver séu mörk eignarlanda og þjóðlendna og mörk afrétta innan þjóðlendna og úrskurða um önnur eignarréttindi innan þjóðlendna. Lagt er til að sérstakri stjórnsýslunefnd, óbyggðanefnd, verði falið að sinna þessu verkefni og miðað er við að því verði lokið árið 2007.
    Í nefndinni var nokkuð rætt um það hvort lengja ætti málshöfðunarfrest skv. 19. gr. frum varpsins. Eins og fram kemur í frumvarpinu er óbyggðanefnd ætlað að ljúka verki sínu á nokkuð skömmum tíma. Langur málshöfðunarfrestur gæti leitt til þess að fulllangan tíma tæki að fá úrlausn dómstóla um álitaefni sem kunna að hafa almenna þýðingu og að einstök mál yrðu ekki afgreidd í nefndinni á meðan. Með tilliti til þessa og þar sem að hér er um að ræða frest vegna frekari aðgerða á grundvelli úrlausnar, sem aðila á í flestum tilvikum að hafa verið kunnugt um vegna krafna og athugasemda sem þeir hafa komið á framfæri við meðferð málsins fyrir nefndinni, gerir allsherjarnefnd ekki tillögu um að málshöfðunarfrestur verði lengdur frá því sem frumvarpið gerir ráð fyrir.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Helstu efnisatriði breytinganna eru eftirfarandi:
     1.      Í fyrsta lagi er lögð til breyting á 4. gr. frumvarpsins. Samkvæmt ákvæðinu skal starfa á vegum forsætisráðherra samstarfsnefnd um málefni þjóðlendna skipuð fulltrúum fimm ráðherra og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Með hliðsjón af hagsmunum ferðamanna-þjónustu af notkun svæða sem líklegt er að talin verði til þjóðlendna er lagt til að fulltrúi samgönguráðherra eigi jafnframt sæti í nefndinni.
     2.      Þá eru lagðar til breytingar á 10. gr., en skv. 1. mgr. ákvæðisins ber óbyggðanefnd að birta tilkynningu um að hún hafi ákveðið að taka tiltekið svæði lands til meðferðar í Lögbirtingablaði til að þeim sem telja sig eiga réttindi á viðkomandi svæði gefist kostur á að lýsa kröfum sínum fyrir nefndinni. Nefndin telur æskilegt að tryggja enn betur að slík tilkynning fari ekki fram hjá þeim sem hún á erindi til og leggur til að slíkar ákvarð anir verði einnig auglýstar í dagblöðum, svo sem tíðkast um kynningu skipulagstillagna. Til að taka af allan vafa þykir þó rétt að réttaráhrif tengd birtingu slíkra tilkynninga verði einungis bundin við birtingu Lögbirtingablaðs. Einnig vill nefndin benda á að sam kvæmt frumvarpinu getur óbyggðanefnd eftir atvikum verið skylt að eiga frumkvæði að því að leita eftir viðhorfi þeirra sem henni er kunnugt um að kunni að telja til réttinda á viðkomandi svæði en hafa ekki gefið sig fram við nefndina, sbr. 3. mgr. 10. gr. frum varpsins og 13. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
             Þegar auglýsing skv. 1. mgr. 10. gr. frumvarpsins hefur verið birt í Lögbirtingablaði hafa þeir sem telja til réttinda á viðkomandi svæði þrjá mánuði til að lýsa kröfum sínum fyrir óbyggðanefnd og leggja fram gögn og aðrar heimildir þeim til stuðnings. Í ljósi þess að óbyggðanefnd er ætlað að ljúka störfum sínum á tiltölulega skömmum tíma og þess að hér er um að ræða frest í upphafi málsmeðferðar hennar þykir ekki ástæða til að leggja til að hann verði lengri en lagt er til í frumvarpinu. Nefndin telur þó rétt að hnykkja á því að fresturinn byrji ekki að líða fyrr en á útgáfudegi þess Lögbirtingablaðs sem tilkynning nefndarinnar birtist í.
     3.      Einnig er lögð til breyting á 12. gr. frumvarpsins, en samkvæmt ákvæðinu skal óbyggðanefnd færa yfirlit um heimildir og lýstar kröfur á svæði, sem hún hefur tekið til meðferð ar, inn á uppdrátt og skal slíkur uppdráttur liggja frammi á sýsluskrifstofu í því eða þeim umdæmum sem svæðið er á í að minnsta kosti einn mánuð. Samkvæmt frumvarpinu skulu athugasemdir við yfirlitið hafa borist innan 15 daga. Þykir nefndinni rétt að lengja þennan frest um aðra 15 daga þannig að fresturinn vari í 30 daga eftir að kynningu lýk ur. Þar sem að kynning skal hafa varað í a.m.k. 30 daga er í heild um að ræða 60 daga frest frá því að kynning hefst.
     4.      Loks eru lagðar til breytingar á 17. gr. frumvarpsins, en þar er fjallað um málskostnað í málum sem rekin eru fyrir óbyggðanefnd. Telja verður líklegt að málarekstur fyrir nefndinni geti orðið kostnaðarsamur fyrir aðila, m.a. vegna gagnaöflunar, gerðar upp drátta og kaupa á sérfræðilegri aðstoð. Í starfi nefndarinnar verður ráðið til lykta álita efnum sem hafa mikla almenna þýðingu og varða mikilsverða hagsmuni einstaklinga og lögaðila. Enda þótt almennt sé ekki gert ráð fyrir að menn hafi gjafsókn þegar mál eru til meðferðar fyrir stjórnsýslunefndum verður að líta til þess að frumkvæði að því að mál verði tekin til meðferðar kemur frá ríkisvaldinu og að því starfi er markaður ákveðinn tími. Jafnframt er til þess að líta að mál af þessu tagi hefur þurft að reka fyrir al mennum dómstólum samkvæmt núgildandi rétti, en úrlausn þeirra flyst til stjórnvalda verði frumvarp þetta að lögum. Almennar reglur um gjafsókn samkvæmt lögum um með ferð einkamála hafa því náð til slíkra mála fram að þessu, en sá möguleiki félli niður að óbreyttu. Því þykir nefndinni gild rök vera fyrir því að heimila gjafsókn á þessu sviði þó að um undantekningu sé að ræða frá almennum reglum. Í ljósi þess að hér er um að ræða gjafsókn fyrir stjórnvöldum á afmörkuðu og jafnframt tímabundnu sviði innan stjórnsýslunnar þykir rétt að leggja til að óbyggðanefnd, en ekki gjafsóknarnefnd, meti sjálf hvort skilyrði gjafsóknar séu fyrir hendi og geri tillögu þar að lútandi til þess ráð herra sem fer með mál er varða stjórnarfar, þ.e. forsætisráðherra.
         Bryndís Hlöðversdóttir, Guðný Guðbjörnsdóttir og Jóhanna Sigurðardóttir skrifa undir álit þetta með fyrirvara og áskilja sér rétt til að flytja og fylgja breytingartillögum sem fram kunna að koma.

Alþingi, 21. apríl 1998.



Sólveig Pétursdóttir,


form., frsm.


Valgerður Sverrisdóttir.



Bryndís Hlöðversdóttir,


með fyrirvara.



Árni R. Árnason.



Jón Kristjánsson.



Kristján Pálsson.



Jóhanna Sigurðardóttir,


með fyrirvara.


Guðný Guðbjörnsdóttir,


með fyrirvara.