Ferill 151. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 151  —  151. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 36/1978, um stimpilgjald, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)


1. gr.

    35. gr. laganna orðast svo:
    Eftirtalin skjöl eru stimpilfrjáls:
     1.      Húsbréf og húsnæðisbréf.
     2.      Skuldabréf og víxlar sem gefin eru út af ríkissjóði, enda séu bréfin skráð á skipulögðum markaði.
     3.      Skuldabréf og tryggingarbréf sem gefin eru út til Lánasjóðs íslenskra námsmanna samkvæmt lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna.
     4.      Skuldabréf sem gefin eru út til Íbúðalánasjóðs vegna viðbótarláns, samkvæmt lögum um húsnæðismál. Sama gildir um skuldabréf sem gefin eru út til Íbúðalánasjóðs vegna lána til byggingar eða kaupa leiguhúsnæðis, sbr. VIII. kafli laga um húsnæðismál.
     5.      Heimildarbréf fyrir íbúð þegar viðbótarlán úr Íbúðalánasjóði, sbr. 4. tölul., er veitt til kaupa á henni.
     6.      Húsaleigusamningar.
     7.      Skjöl sem leggja höft eða bönd á kaupskip eða loftfar við skráningu eða afskráningu þess hérlendis, enda sé skráningin tímabundin og skipið eða loftfarið í eigu aðila sem ekki er heimilisfastur hér á landi.
     8.      Afsalsgerningar og skjöl sem leggja höft eða bönd á kaupskip sem eru einkum ætluð til farmflutninga og rekin af skipafélögum sem stunda reglubundnar áætlunarsiglingar eða leigusiglingar innan lands eða milli landa. Skilyrði stimpilfrelsisins er að skjalið sé annaðhvort gefið út vegna afhendingar á skipinu úr landi eða afhendingar á skipinu til landsins og skjalinu sé þá þinglýst innan sex mánaða frá því að skipið er fyrst skráð hér á landi.
     9.      Skjöl sem leggja höft eða bönd á loftfar, enda hafi eigandi loftfarsins flugrekstrarleyfi og loftfarið sé ætlað til nota í reglubundið áætlunarflug eða leiguflug innan lands eða milli landa. Skilyrði stimpilfrelsisins er að skjalið sé annað hvort gefið út vegna sölu loftfarsins úr landi eða vegna kaupa á því og skjalinu sé þá þinglýst innan sex mánaða frá því að loftfarið er fyrst skráð hér á landi.
     10.      Samningar landbúnaðarráðherra við bændur um töku jarða til nytjaskógræktar eða um niðurskurð sauðfjár sem þinglýst er sem kvöðum á viðkomandi jarðir.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1999. Frá sama tíma falla úr gildi 17. gr. laga nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, og 46. gr. laga nr. 44/1998, um húsnæðismál.



Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að hin almenna heimild fjármálaráðherra til að ákvarða hvort ríkissjóður greiði stimpilgjald, sem er í 35. gr. núgildandi laga, falli brott en í staðinn verði undanþágur tilgreindar þegar það þykir eiga við í lögunum. Gert er þannig ráð fyrir að ríkið greiði framvegis stimpilgjald vegna t.d. kaupa á fasteignum á sama hátt og það greiðir virðisaukaskatt í viðskiptum eins og aðrir. Jafnframt felst í frumvarpinu að ýmsar undanþágur sem hingað til hafa verið í sérlögum eða fjárlögum verði framvegis í lögum um stimpilgjald.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er kveðið á um stimpilfrelsi einstakra skjala.
    Í 1., 2. og 10. tölul. eru talin upp skjöl sem nú eru stimpilfrjáls á grundvelli 35. gr. laganna um stimpilgjald en ástæða þykir til að þessi skjöl verði áfram stimpilfrjáls.
    Í 3. tölul. er kveðið á um stimpilfrelsi námslána. Efnislega samhljóða ákvæði er nú í 17. gr. laga nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna.
    Í 4. og 5. tölul. er fjallað um stimpilgjald af viðbótarlánum Íbúðalánasjóðs og heimildarbréfum fyrir íbúðir sem viðbótarlán er veitt til kaupa á. Í ákvæðinu felst að lánin sjálf eru stimpilfrjáls og að kaupsamningar um íbúðir verða stimpilfrjálsir þegar viðbótarlán er veitt vegna kaupanna. Verði íbúð sem viðbótarlán hvílir á seld til aðila sem ekki á rétt á slíku láni yrði að greiða stimpilgjöld við þau kaup. Jafnframt er lagt til að skuldabréf sem gefin eru út til vegna byggingar eða kaupa leiguíbúða skv. VIII. kafla laga um húsnæðismál verði stimpilfrjáls. Efnislega samhljóða ákvæði er nú í 46. gr. laga nr. 44/1998, um húsnæðismál.
    Í 6. tölul. er tekið fram berum orðum að húsaleigusamningar séu stimpilfrjálsir en samkvæmt gildandi lögum verður það einungis ráðið af greinargerð með eldri lögum um stimpilgjald og lögum um húsaleigu að svo sé.
    Í 7. tölul. er kveðið á um að skjöl sem leggja höft eða bönd á kaupskip eða loftfar við skráningu eða afskráningu þess hérlendis séu stimpilfrjáls. Á undanförnum árum hefur sambæri­leg heimild oft verið í fjárlögum vegna loftfara og þá tekið til tiltekinna fyrirtækja en heppilegra þykir að hafa almennt ákvæði um þetta í lögum um stimpilgjald.
    Í 8. tölul. er fjallað um kaupskip sem notuð er til farmflutninga og rekin af félögum sem stunda reglubundnar áætlunarsiglingar eða leigusiglingar innanlands eða milli landa. Lagt er til að afsöl vegna slíkra skipa verði stimpilfrjáls, svo og lánsskjöl og tryggingarbréf sem þinglýst er á slík skip og tengjast fjármögnun þeirra. Getur hér bæði verið um að ræða leiguskip og skip sem eru í eigu skipafélaga sem starfa hérlendis.
    Í 9. tölul. er fjallað um stimpilfrelsi skjala sem leggja höft eða bönd á loftför en þar mundi einkum vera um að ræða skuldabréf og tryggingarbréf. Ákvæðið er sambærilegt við 8. tölul. og tekur eingöngu til þeirra sem stunda flugrekstur í atvinnuskyni í reglubundnu áætlunarflugi eða leiguflugi innan lands eða milli landa. Í fjárlögum hafa á undanförnum árum verið nokkrar slíkar heimildir og er þessu ákvæði ætlað að ná til sömu aðila. Jafnframt er sett það skilyrði að skjöl þau sem hér um ræðir tengist fjármögnun vélakaupanna og þeim sé þinglýst innan sex mánaða frá skráningu loftfarsins eða að þau séu gefin út vegna sölu loftfarsins úr landi. Þessu ákvæði og sambærilegu ákvæði 8. tölul., er ætlað að koma í veg fyrir að þeir aðilar sem hér um ræðir geti þinglýst skjölum vegna almennra viðskiptaskulda sem ekki tengjast slíkum fjárfestingum eða sölu úr landi á loftfar eða skip í því skyni að komast hjá því að greiða stimpilgjald af skjölunum.

Um 2. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 36/1978,
um stimpilgjald, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að í lögum um stimpilgjald verði tilgreindar allar heimildir til undanþágu frá greiðslu stimpilgjalds og að almenn heimild fjármálaráðherra til að ákveða hvort ríkissjóður greiði gjaldið falli niður ásamt ýmsum undanþágum sem tilteknar eru í sérlögum eða fjárlögum.
    Frumvarpið snýr að breytingum á tekjum ríkissjóðs og hefur ekki áhrif á útgjöld ríkissjóðs verði það að lögum.