Ferill 38. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 281  —  38. mál.




Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um rekstrarkostnað Rafmagnsveitna ríkisins.

    Eftirfarandi svör eru byggð á upplýsingum sem aflað var hjá Rafmagnsveitum ríkisins. Við vinnslu fyrirspurnarinnar hefur verið höfð hliðsjón af sjónarmiðum um meðferð persónuupp­lýsinga. Þá hefur Ríkisendurskoðun yfirfarið og staðfest fjárhagsupplýsingar sem fram koma í svarinu.

     1.      Hver eru laun, lífeyrisréttindi og önnur starfskjör stjórnenda Rafmagnsveitna ríkisins, sundurliðað eftir stöðuheitum, fjölda stjórnenda og kynjum, föstum launum, öðrum greiðslum eins og stjórnargreiðslum og hvers konar þóknunum og hlunnindum, þ.m.t. bílahlunnindum og risnu?
    Stjórn Rafmagnsveitna ríkisins er skipuð sjö mönnum, sex körlum og einni konu. Að auki situr fulltrúi iðnaðarráðuneytisins stjórnarfundi. Laun þessara aðila eru samtals 271.692 kr. á mánuði. Sama mánaðarlega fjárhæð er greidd öllum stjórnarmönnum og fulltrúa iðnaðar­ráðuneytisins, en þóknun stjórnarformanns er tvöföld.
    Stjórnendur Rafmagnsveitnanna eru þrír karlmenn, rafmagnsveitustjóri og tveir fram­kvæmdastjórar, og eru laun þeirra nú samtals 1.313.732 kr. á mánuði. Laun rafmagnsveitu­stjóra eru ákveðin af kjaranefnd. Hvorki stjórnarmenn, rafmagnsveitustjóri, framkvæmda­stjórar né aðrir starfsmenn fá bílahlunnindi eða risnugreiðslur frá Rafmagnsveitunum. Fastir bifreiðastyrkir voru afnumdir árið 1995, en nokkrir starfsmenn höfðu samning þar að lútandi, og í stað þeirra voru eftir atvikum teknar upp greiðslur fyrir afnot af bifreiðum starfsmanna samkvæmt akstursdagbók og reglum ferðakostnaðarnefndar um kílómetragjald.
    Rafmagnsveitustjóri og annar framkvæmdastjórinn eru í B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, en hinn framkvæmdastjórinn í lífeyrissjóði Verkfræðingafélags Íslands.

     2.      Hver hefur verið ferðakostnaður erlendis árin 1993–97, að báðum árum meðtöldum, hve margar ferðir voru farnar hvert ár um sig, hvernig sundurliðast kostnaðurinn milli flug­fargjalda, gistikostnaðar og dagpeningagreiðslna? Sérstaklega er óskað eftir sundur­liðun á fjölda ferða stjórnenda og maka þeirra, svo og árlegum sundurliðuðum kostnaði við þær.
    Um ferðalög erlendis á vegum Rafmagnsveitna ríkisins gilda almennar reglur ríkisins. Raf­magnsveitustjóri ákveður hvaða utanlandsferðir eru nauðsynlegar vegna rekstrar fyrirtækisins og framkvæmda. Iðnaðarráðuneytið staðfestir síðan hverja ferð fyrir sig með áritun á ferða­heimild. Rafmagnsveiturnar greiða ekki fargjöld eða dagpeninga fyrir maka og hafa ekki gert það.

    Ferðakostnaður erlendis undanfarin fimm ár hefur verið sem hér segir (fjárhæðir í kr.):

1993 1994 1995 1996 1997
Ferðakostnaður 2.825.535 1.923.403 2.054.104 2.722.446 1.478.669
Almennir dagpeningar 4.976.884 3.761.093 3.357.582 4.105.877 3.030.545
Námsleyfisdagpeningar 1.578.405 1.199.774 1.150.231 0 0
Gistikostnaður 831.200 363.736 281.612 945.141 644.823
Alls 10.212.024 7.248.006 6.843.529 7.773.464 5.154.037

    Þar af ferðakostnaður stjórnar og stjórnenda:

1993 1994 1995 1996 1997
Ferðakostnaður 1.453.436 528.039 368.339 789.802 407.301
Almennir dagpeningar 1.521.752 966.395 535.730 555.837 378.164
Námsleyfisdagpeningar 1.578.405 0 0 0 0
Gistikostnaður 831.200 363.736 190.429 585.848 435.091
Alls 5.384.793 1.858.170 1.094.498 1.931.487 1.220.556

    Fjöldi ferða tilgreind ár var sem hér segir:

1993 1994 1995 1996 1997
Alls 39 30 28 37 27
Þar af ferðir stjórnar og stjórnenda 17 10 5 9 5

     3.      Hvaða reglur gilda um bifreiðahlunnindi og risnu- og ferðakostnað stjórnenda?
    Um meðferð bifreiða og risnu vegna starfa á vegum Rafmagnsveitnanna gilda almennar reglur ríkisins. Starfsmenn Rafmagnsveitnanna fá hvorki bifreiðahlunnindi né fasta risnu. Að öðru leyti vísast til 1. liðs um bifreiðahlunnindi og 2. liðs um ferðakostnað.
    Rafmagnsveitustjóri veitir heimild til að stofna til risnukostnaðar í samræmi við reglur rík­isins og samþykkir slíkan kostnað.

     4.      Hver var árlegur risnukostnaður 1993–97, að báðum árum meðtöldum, sundurliðaður eftir
                  a.      fastri risnu greiddri einstökum stjórnendum,
                  b.      risnu greiddri samkvæmt reikningi,
                  c.      helstu þáttum risnunnar og kostnaði við hvern þeirra, auk helstu tilefna hennar?

    Stjórnendur fá ekki greidda fasta risnu eins og fram kemur í 3. lið. Risnukostnaður var eft­irfarandi á árunum 1993–97:

Ár Kr.
1993
3.812.287
1994
4.087.712
1995
4.606.623
1996
3.404.241
1997
5.551.671

    Helstu tilefni risnukostnaðar tengjast ýmsum ráðstefnum, t.d. á vegum Samorku, Nordel o.fl., kynnisferðum stjórnar, móttökum, ársfundi, árshátíðum og öðrum slíkum tilefnum sem varða starfsmenn, svo og viðskiptum við erlenda og innlenda aðila. Um 2 millj. kr. af risnu­kostnaði 1997 voru vegna 50 ára afmælis fyrirtækisins.

     5.      Hefur verið farið í laxveiðiferðir á vegum Rafmagnsveitna ríkisins? Ef svo er, hvernig skiptist árlegur kostnaður af þeim sl. fimm ár milli laxveiðileyfa og annarra útgjalda? Hve margar ferðir voru farnar á ári hverju, hvert var farið, hverjir voru þátttakendur í slíkum ferðum og hver voru tilefni þeirra?
    Ekki hefur verið farið í laxveiðiferðir á vegum Rafmagnsveitna ríkisins á því tímabili sem óskað er upplýsinga um. Hins vegar var árið 1991 farin ein slík ferð á vegum Rafmagnsveitn­anna í tengslum við stjórnarfund og fund með iðnaðarráðherra. Heildarkostnaður vegna þessa nam 382.420 kr. og voru veiðileyfi þar af 120.000 kr.
    Rétt er að geta þess einnig að þegar Rafmagnsveiturnar keyptu raf- og hitaveitu Siglufjarð­ar og Skeiðsfossvirkjun 1991 var hluti af kaupsamningi að starfsmenn Siglufjarðarveitna héldu laxveiðihlunnindum, sem þeir höfðu haft, í tvö ár, þ.e. 1992 og 1993. Kostnaður vegna þessa var 200.000 kr. árið 1993.

     6.      Hverjir taka ákvarðanir um ferðir stjórnenda erlendis og laxveiðar sé um þær að ræða?
    Iðnaðarráðuneytið staðfestir ferðir stjórnenda RARIK erlendis, sem og annarra starfs­manna, með áritun á ferðaheimild, sbr. 2. lið. Hins vegar tekur rafmagnsveitustjóri ákvarðanir um laxveiðiferðir á vegum rafmagnsveitnanna.