Ferill 526. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 1190  —  526. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998.

(Eftir 2. umr., 11. mars.)



1. gr.


    1. mgr. 11. gr. laganna orðast svo:
    Landið skiptist í eftirlitssvæði og skal heilbrigðisnefnd, kosin eftir hverjar sveitarstjórnar­kosningar, starfa á hverju svæði. Í hverri nefnd skulu eiga sæti sex menn, fimm kosnir af hlutaðeigandi sveitarstjórnum, þar af skal einn vera formaður, og einn tilnefndur af samtök­um atvinnurekenda á eftirlitssvæðinu. Atkvæði formanns ræður úrslitum ef atkvæði falla jafnt í nefndinni. Náttúruverndarnefndir sveitarfélaga á eftirlitssvæðinu eiga rétt á að til­nefna einn fulltrúa í nefndina til viðbótar en hann hefur ekki atkvæðisrétt við afgreiðslu mála í nefndinni. Sömu reglur gilda um varamenn.

2. gr.

    3. mgr. 12. gr. laganna orðast svo:
    Heimilt er sveitarfélögum að setja gjaldskrá og innheimta gjald fyrir eftirlitsskylda starf­semi, svo sem fyrir eftirlit, útgáfu starfsleyfa og vottorða, sé eftirlitið á vegum sveitarfélaga. Leita skal umsagnar hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar og hollustuháttaráðs áður en gjaldskrá er sett. Upphæð gjaldsins skal byggð á rekstraráætlun þar sem þau atriði eru rökstudd sem ákvörðun gjalds við viðkomandi eftirlit byggist á og má gjaldið ekki vera hærra en sá kostn­aður. Hvert eftirlitssvæði skal hafa sameiginlega gjaldskrá og skal hlutaðeigandi heilbrigðis­nefnd láta birta hana í B-deild Stjórnartíðinda. Gjöld má innheimta með fjárnámi. Gjöld skulu tryggð með lögveðsrétti í viðkomandi fasteign tvö ár eftir gjalddaga þegar leyfi eða þjónusta er tengd notkun fasteignar. Heimilt er utanríkisráðherra að setja gjaldskrá og inn­heimta gjald á varnarsvæðum. Umhverfisráðherra skal gefa út leiðbeinandi reglur um upp­byggingu gjaldskráa sveitarfélaga.

3. gr.

    25. gr. laganna orðast svo:
    Sveitarfélög geta sett sér eigin samþykktir um atriði sem ekki er fjallað um í reglugerðum eða gert um einstök atriði ítarlegri kröfur en fram koma í þeim, enda falli þau undir lögin. Heimilt er auk annars að setja í slíkar samþykktir ákvæði um:
     1.      bann eða takmörkun gæludýrahalds og húsdýrahalds,
     2.      meðferð úrgangs og skolps,
     3.      gjaldtöku fyrir leyfi, leigu eða veitta þjónustu,
     4.      ábyrgðartryggingar.
    Heilbrigðisnefnd semur drög að samþykktum og breytingum á þeim og leggur fyrir við­komandi sveitarstjórn sem afgreiðir þau í formi samþykktar til ráðherra. Sé um að ræða nýmæli í samþykktum sveitarfélaga skal ráðherra leita umsagnar Hollustuverndar ríkisins áður en hann staðfestir samþykktina.
    Synji ráðherra staðfestingar endursendir hann samþykktina til sveitarstjórnar með leið­beiningum um hvað þurfi til að til staðfestingar komi.
    Samþykktir samkvæmt þessari grein skulu birtar í B-deild Stjórnartíðinda á kostnað hlut­aðeigandi sveitarfélaga.
    Heimilt er sveitarfélögum að setja gjaldskrá um innheimtu gjalda skv. 1. mgr. að fenginni umsögn hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar. Gjöld mega aldrei vera hærri en sem nemur rök­studdum kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum. Gjöld skulu tryggð með lögveðsrétti í viðkomandi fasteign tvö ár eftir gjalddaga þegar leyfi, leiga eða þjónusta er tengd notkun fasteignar. Sveitarfélag skal láta birta gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda. Gjöld má innheimta með fjárnámi.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.