Ferill 110. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 119  —  110. mál.




Frumvarp til laga



um lausafjárkaup.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)



I. KAFLI
Gildissvið.
1. gr.
Almennt gildissvið laganna.

    1. Lög þessi gilda um kaup að svo miklu leyti sem ekki er á annan veg mælt fyrir í lögum. Lögin gilda ekki um fasteignakaup.
    2. Lög þessi gilda einnig um skipti eftir því sem við getur átt.

2. gr.
Pöntunarkaup. Þjónustusamningar.

    1. Lög þessi gilda um pöntun hlutar sem búa skal til þegar sá sem pantar lætur ekki í té verulegan hluta efnis til framleiðslunnar. Lögin gilda hvorki um samninga um að reisa byggingar né önnur mannvirki á fasteign.
    2. Lögin gilda ekki um samninga þegar sá sem afhendir hlut skal jafnframt láta í té vinnu eða aðra þjónustu og þar er um að ræða mestan hluta af skyldum hans.

3. gr.
Samningar og viðskiptavenjur.

    Ákvæði laga þessara eiga ekki við þegar annað leiðir af samningi, fastri venju milli aðila, viðskiptavenju eða annarri venju sem telja verður bindandi í millum aðila.

4. gr.
Neytendakaup.

    1. Í neytendakaupum er ekki unnt að semja um eða bera fyrir sig kjör sem eru kaupanda óhagstæðari en leiða mundi af lögum þessum.
    2. Með neytendakaupum er átt við kaup þar sem seljandinn hefur atvinnu sína af sölu og söluhlutur er aðallega ætlaður til persónulegra nota fyrir kaupandann, fjölskyldu hans, heimilisfólk eða þá sem hann umgengst, nema seljandinn hafi við samningsgerð hvorki vitað né mátt vita að hluturinn var keyptur í því skyni. Kaup á kröfum og réttindum teljast ekki til neytendakaupa.
    3. Um sölu í atvinnustarfsemi er að ræða þegar seljandinn eða umboðsmaður hans koma fram sem atvinnumenn í viðkomandi starfsemi.

5. gr.
Alþjóðleg kaup.

    1. Lög þessi gilda um alþjóðleg kaup með þeim sérreglum sem í lögunum felast, sbr. einkum ákvæði XV. kafla.
    2. Sérreglur um alþjóðleg kaup gilda ekki í kaupum þegar seljandinn hefur atvinnustöð sína í Danmörku, Finnlandi, á Íslandi, í Noregi eða Svíþjóð og kaupandinn hefur atvinnustöð sína í einhverju þessara landa (norræn kaup).
    3. Sérreglurnar eiga ekki heldur við um:
     a.      neytendakaup og sambærileg kaup milli neytenda,
     b.      kaup á uppboði,
     c.      sölu í framhaldi af fullnustugerð eða samkvæmt lagaboði,
     d.      kaup á verðbréfum, peningum, kröfum eða réttindum,
     e.      kaup á farartækjum, loftförum eða loftpúðaskipum.

II. KAFLI
Afhendingin.
6. gr.
Reiðukaup.

    1. Söluhlut skal hafa til reiðu til viðtöku á þeim stað þar sem seljandi hafði atvinnustöð sína (eða heimili, sbr. 83. gr.) þegar kaup voru gerð. Ef aðilar vissu þá að söluhlutur eða sá vörulager eða framleiðslustaður sem hlut átti að taka frá var á öðrum stað skal hafa hlutinn til reiðu þar.
    2. Söluhlutur telst afhentur þegar kaupandi hefur veitt honum viðtöku.

7. gr.
Staðarkaup og sendingarkaup.

    1. Ef söluhlut skal færa kaupanda á sama stað eða innan þess svæðis þar sem seljandi er vanur að sjá um að flytja slíka hluti (staðarkaup) telst hlutur afhentur þegar honum er veitt viðtaka þar.
    2. Ef senda skal söluhlut til kaupanda í öðrum tilvikum (sendingarkaup) og annað leiðir ekki af flutningsskilmálum eða öðrum samningi telst hlutur afhentur þegar hann hefur verið fenginn þeim flytjanda í hendur sem tekið hefur að sér flutning frá sendingarstað. Ef seljandinn sér sjálfur um flutninginn telst afhending þá fyrst hafa átt sér stað þegar kaupandi hefur veitt hlutnum viðtöku.
    3. Ef hlutur er seldur „frítt“, „afhentur“ eða „afhentur frítt“ og gefinn er til kynna ákveðinn staður telst hluturinn ekki afhentur fyrr en hann er kominn þangað.
    4. Í neytendakaupum telst hlutur afhentur þegar kaupandi hefur veitt honum viðtöku. Eigi kaupandi að sækja hlut á ákvörðunarstað telst afhending einnig hafa farið fram þegar sá tími er kominn að kaupanda var skylt að sækja hlutinn þangað.

8. gr.
Viðbótarskyldur við sendingarkaup.

    1. Ef seljandi á að sjá um að senda hlut er honum skylt að gera þá samninga sem nauðsynlegir eru til þess að hann verði fluttur á ákvörðunarstað með viðeigandi hætti og samkvæmt venjulegum skilmálum um slíka flutninga.
    2. Ef seljandi á ekki að kaupa tryggingar vegna flutnings hlutarins verður hann, ef kaupandinn æskir þess, að gefa þær upplýsingar sem kaupandanum eru nauðsynlegar til þess að hann geti keypt sér slíka tryggingu.
    3. Ef seljandi afhendir flutningsmanni hlut án þess að greinilega komi fram með auðkenningu, í flutningsskjali eða á annan skýran hátt, að hluturinn eigi að fara til kaupanda verður seljandi að tilkynna kaupanda greinilega hvar hann eigi að veita hlutnum viðtöku.
    

9. gr.
Afhendingartími.

    1. Ef hlut á ekki að afhenda samkvæmt kröfu eða án tafar og afhendingartímann leiðir ekki heldur með öðrum hætti af samningi skal afhenda hlutinn innan sanngjarns tíma frá því að kaup voru gerð.
    2. Ef samið hefur verið um svigrúm varðandi afhendingartíma á seljandinn rétt á að velja hann, nema atvik sýni að kaupandi eigi að velja hann.
    3. Ef seljanda í reiðukaupum er rétt að velja afhendingartíma skal hann tilkynna kaupanda með nægum fyrirvara hvenær sækja megi hlutinn.

10. gr.
Heimild seljanda til að halda eigin greiðslu.

    1. Ef seljandi hefur ekki veitt lán eða greiðslufrest er hann ekki skyldur til að afhenda hlutinn, framselja skjöl eða á annan hátt að yfirfæra ráðstöfunarrétt yfir hlutnum, nema því aðeins að kaupverðið sé samtímis greitt.
    2. Ef seljandi á að senda hlut til annars staðar getur hann ekki látið það hjá líða, en hann getur komið í veg fyrir að kaupandinn fái umráðin þar til kaupverðið er greitt.

11. gr.
Útgjöld.

    1. Seljandi greiðir útgjöld vegna söluhlutar þar til hann hefur verið afhentur. Ákvæði þetta gildir ekki um útgjöld sem stafa af því að afhendingu seinkar vegna atvika sem varða kaupanda.
    2. Þegar um neytendakaup er að ræða og söluhlut skal senda til kaupanda má, þrátt fyrir ákvæði 4. gr., semja um það að kaupandi greiði til viðbótar kaupverðinu útgjöld vegna sendingarinnar.

III. KAFLI
Áhættan af söluhlut.
12. gr.
Um það hvað í áhættu felst.

    Þegar áhættan af söluhlut hefur flust yfir til kaupanda fellur skylda hans til þess að greiða kaupverðið ekki niður þótt hluturinn eftir það farist, skemmist eða rýrni ef um er að ræða atvik sem ekki verða rakin til seljanda.

13. gr.
Áhættuflutningur.

    1. Áhættan flyst yfir til kaupanda þegar söluhlutur hefur verið afhentur í samræmi við ákvæði samnings eða í samræmi við ákvæði 6. eða 7. gr.
    2. Ef hlutar er ekki vitjað eða honum veitt viðtaka á réttum tíma og það má rekja til kaupanda eða atvika sem hann varða flyst áhættan yfir á kaupandann þegar hlutur er honum til ráðstöfunar og vanefnd verður af hans hálfu við það að veita hlutnum ekki viðtöku. Í neytendakaupum ber kaupandi þó ekki áhættuna af tilviljunarkenndum atburði sem verður meðan hluturinn er hjá seljanda, enda sé ekki unnt að rekja atburðinn til eiginleika hlutarins sjálfs.
    3. Ef kaupandi á að vitja söluhlutar annars staðar en hjá seljanda flyst áhættan yfir til kaupanda þegar afhendingartíminn er kominn og kaupanda er kunnugt um að hluturinn er honum heimill til ráðstöfunar á afhendingarstaðnum.

14. gr.
Auðkenning söluhlutar.

    Áhættan flyst ekki yfir til kaupanda fyrr en söluhlutur hefur verið auðkenndur honum með merkingu á flutningsskjölum eða það hefur á annan hátt verið gert ljóst að hlutur er ætlaður honum.

15. gr.
Söluhlutur í flutningi.

    1. Ef kaup eru gerð um söluhlut sem er í flutningi flyst áhættan yfir til kaupanda við lok samningsgerðar, nema leiða megi af atvikum að kaupandi hafi tekið á sig áhættuna þegar frá þeirri stundu er hlutur var afhentur flutningsmanni þeim sem gaf út flutningsskjalið. Seljandi ber þó ávallt áhættuna af tjóni sem hann vissi eða mátti vita um við kaupin en upplýsti kaupanda ekki um.
    2. Ákvæði 1. mgr. gilda ekki í neytendakaupum.

16. gr.
Skil hlutar sem keyptur er með skilarétti.

    Ef söluhlutur hefur verið keyptur eða afhentur til reynslu eða á annan hátt með rétti til að skila honum aftur ber kaupandi áhættuna samkvæmt ákvæðum þessa kafla þar til seljandinn hefur aftur veitt hlutnum viðtöku. Þetta gildir þó ekki þegar kaupandinn hefur rétt til að skila söluhlut samkvæmt ákvæðum í lögum nr. 96/1992, um húsgöngu- og fjarsölu.

IV. KAFLI
Eiginleikar söluhlutar, gallar o.fl.
17. gr.
Eiginleikar söluhlutar.

    1. Söluhlutur skal, hvað varðar tegund, magn, gæði, aðra eiginleika og innpökkun, fullnægja þeim kröfum sem leiðir af samningi.
    2. Ef annað leiðir ekki af samningi skal söluhlutur:
     a.      henta í þeim tilgangi sem sambærilegir hlutir eru venjulega notaðir til;
     b.      henta í ákveðnum tilgangi sem seljandinn vissi eða mátti vita um þegar kaup voru gerð, nema leiða megi af atvikum að kaupandi hafi ekki byggt á sérþekkingu seljanda og mati hans eða hafi ekki haft sanngjarna ástæðu til þess;
     c.      hafa þá eiginleika til að bera sem seljandi hefur vísað til með því að leggja fram prufu eða líkan;
     d.      vera í venjulegum eða öðrum forsvaranlegum umbúðum sem nauðsynlegar eru til að varðveita og vernda hann.
    3. Í neytendakaupum skal söluhlutur einnig vera í samræmi við þær kröfur opinbers réttar sem gerðar eru í lögum eða opinberum ákvörðunum sem teknar eru á grundvelli laga á þeim tíma sem kaup eru gerð. Þetta gildir þó ekki ef aðstæður sýna að kaupandi byggði ekki á sérþekkingu seljanda og mati hans eða hafði ekki sanngjarna ástæðu til þess.
    4. Hafi seljandi í neytendakaupum tekið að sér samsetningu hins selda hlutar telst hann gallaður ef orsök gallans er rakin til rangrar samsetningar seljanda. Sama á við ef neytandi skal annast samsetningu hlutarins og orsök gallans er rakin til rangra eða ófullnægjandi leiðbeininga af hálfu seljanda.
    5. Söluhlutur telst gallaður ef hann er ekki í samræmi við þær kröfur sem fram koma í 1.–4. mgr.

18. gr.
Upplýsingar um eiginleika eða notkun.

    1. Reglurnar um galla gilda einnig þegar söluhlutur svarar ekki til þeirra upplýsinga sem seljandi hefur við markaðssetningu eða á annan hátt gefið um hlutinn, eiginleika hans eða notkun og ætla má að hafi haft áhrif á kaupin.
    2. Regla 1. mgr. gildir með sama hætti þegar söluhlutur svarar ekki til þeirra upplýsinga sem annar en seljandi hefur gefið á umbúðum hlutarins, í auglýsingum eða við aðra markaðssetningu á vegum seljanda eða fyrri söluaðila. Í öðrum kaupum en neytendakaupum gildir þetta þó ekki ef seljandi hvorki vissi né mátti vita að upplýsingarnar voru gefnar.
    3. Reglur 1. og 2. mgr. gilda ekki þegar upplýsingarnar eru leiðréttar á skýran og skilmerkilegan hátt og með nægum fyrirvara.
    

19. gr.
Hlutur seldur „í því ástandi sem hann er“.
Sala á uppboði.

    1. Þótt söluhlutur sé seldur „í því ástandi sem hann er“ eða með öðrum áþekkum almennum fyrirvara er um galla að ræða þegar:
     a.      hluturinn svarar ekki til þeirra upplýsinga sem seljandi hefur gefið um hann, eiginleika hans eða not og ætla má að þessi atriði hafi haft áhrif á það að kaup gerðust;
     b.      seljandi hefur við kaupin vanrækt að gefa upplýsingar um atriði sem verulegu máli skipta varðandi hlutinn eða not hans og seljandi hlaut að þekkja til og kaupandi mátti ætla að hann fengi upplýsingar um, enda megi ætla að vanrækslan hafi haft áhrif á kaupin eða
     c.      ástand söluhlutar er til muna verra en kaupandi hafði ástæðu til að ætla miðað við kaupverð og atvik að öðru leyti.
    2. Ef notaðir hlutir eru seldir á uppboði gilda ákvæði 1. mgr. eftir því sem við getur átt.

20. gr.
Vond trú kaupanda, rannsókn fyrir kaup o.fl.

    1. Kaupandi getur ekki borið neitt það fyrir sig sem galla sem hann vissi eða mátti vita um þegar kaupin voru gerð.
    2. Hafi kaupandi rannsakað söluhlut áður en kaupin voru gerð eða hafi hann án gildrar ástæðu látið undir höfuð leggjast að sinna hvatningu seljanda um slíka rannsókn getur kaupandi ekki borið fyrir sig neitt það sem hann hefði þá átt að veita athygli. Þetta gildir þó ekki ef seljandi hefur sýnt af sér vítavert gáleysi eða framferði hans að öðru leyti verið andstætt heiðarleika og góðri trú.
    3. Reglur 2. mgr. gilda einnig hafi kaupandi fyrir kaup rannsakað sýnishorn af hlutnum eða látið það hjá líða án gildrar ástæðu og gallinn varðar eiginleika sem sjá mátti á sýnishorninu.
    

21. gr.
Tímamark galla.

    1. Við mat á því hvort söluhlutur er gallaður skal miðað við það tímamark þegar áhættan af söluhlut flyst yfir til kaupanda, jafnvel þótt gallinn komi ekki fram fyrr en síðar.
    2. Seljandi ber einnig ábyrgð á galla sem kemur fram síðar ef ástæðu gallans má rekja til vanefnda af hans hálfu. Sama á við þegar seljandi hefur með ábyrgðaryfirlýsingu eða öðrum hætti ábyrgst að hluturinn hefði tiltekna eiginleika eða að hlut mætti nota með venjulegum eða sérstökum hætti tiltekinn tíma eftir afhendingu.

V. KAFLI
Úrræði kaupanda vegna vanefnda seljanda.
Greiðsludráttur.
22. gr.
Almenn ákvæði.

    1. Ef hlutur er ekki afhentur eða hann er afhentur of seint og ekki er kaupanda um að kenna eða atvikum sem hann varða getur kaupandi samkvæmt ákvæðum 23.–29. gr. krafist efnda, riftunar og skaðabóta ásamt því að halda eftir kaupverðinu skv. 42. gr. Réttur kaupanda til skaðabóta fellur ekki niður þótt hann setji fram aðrar kröfur eða ekki sé unnt að halda slíkum kröfum fram.
    2. Ef seljandi fullnægir að öðru leyti ekki nógu snemma skyldum sínum samkvæmt samningnum gilda ákvæðin um greiðsludrátt, eftir því sem við getur átt, þó ekki ákvæði 2. og 3. mgr. 25. gr. Um annað má semja, einnig í neytendakaupum.

23. gr.
Réttur til efnda.

    1. Kaupandi getur haldið fast við kaup og krafist efnda. Þetta gildir ekki ef um er að ræða hindrun sem seljandi ræður ekki við og heldur ekki ef efndir hefðu í för með sér slíkt óhagræði eða kostnað fyrir seljanda að það væri í verulegu ósamræmi við hagsmuni kaupanda af efndum.
    2. Ef úr vandkvæðum greiðist innan hæfilegs tíma getur kaupandi krafist efnda. Það er þó skilyrði að efndir verði ekki, miðað við þann tíma sem liðinn er, mun örðugri eða leiði til annars eðlis en þess sem seljandi gat vænst eða að öðru leyti sé ósanngjarnt að krefjst efnda.
    3. Kaupandi glatar rétti sínum til efnda ef hann dregur óhæfilega lengi að krefjast þeirra.
    

24. gr.
Fyrirspurnir.

    Nú beinir seljandi fyrirspurn til kaupanda um það hvort hann vilji veita hlut viðtöku þrátt fyrir seinkun eða hann tilkynnir kaupanda að hann muni afhenda hið selda innan tiltekins tíma, en kaupandi svarar ekki innan hæfilegs tíma frá því að hann fékk tilkynninguna. Getur kaupandi þá ekki rift kaupunum ef efndir verða innan þess tíma sem nefndur var.

25. gr.
Riftun.

    1. Kaupandi getur rift kaupum þegar greiðsludráttur hefur í för með sér verulegar vanefndir.
    2. Einnig er unnt að rifta kaupum ef seljandi afhendir ekki söluhlut og efndir dragast fram yfir sanngjarnan viðbótarfrest sem kaupandi hefur sett.
    3. Meðan viðbótarfrestur er að líða getur kaupandi ekki rift kaupum, nema því aðeins að seljandinn hafi lýst því yfir að ekki verði af efndum á þeim tíma.

26. gr.
Riftun pöntunarkaupa.

    Ef kaup varða hlut sem er útbúinn sérstaklega fyrir kaupanda samkvæmt fyrirmælum hans eða óskum, og geti seljandi af þeim sökum ekki ráðstafað hlutnum á annan hátt án verulegs tjóns, getur kaupandi því aðeins rift kaupunum að greiðsludráttur leiði til þess að tilgangur hans með kaupunum raskist verulega. Ákvæði þetta gildir ekki um alþjóðleg kaup.

27. gr.
Skaðabætur.

    1. Kaupandi getur krafist skaðabóta vegna þess tjóns sem hann bíður vegna greiðsludráttar af hálfu seljanda. Þetta gildir þó ekki ef seljandi sýnir fram á að greiðsludráttur hafi orðið vegna hindrunar sem hann fékk ekki ráðið við eða ekki er með sanngirni unnt að ætlast til að hann hefði haft hindrunina í huga við samningsgerð eða getað komist hjá eða sigrast á afleiðingum hennar.
    2. Ef greiðsludrátt má rekja til þriðja manns sem seljandi hefur falið að efna kaupin að nokkru leyti eða öllu er seljandi því aðeins laus undan ábyrgð að þriðji maður væri það einnig samkvæmt reglu 1. mgr. Sama gildir ef greiðsludrátt má rekja til afhendingaraðila sem seljandi hefur notað eða til einhvers annars á fyrra sölustigi.
    3. Lausn undan ábyrgð er til staðar meðan hindrun er fyrir hendi. Falli hún brott er unnt að koma fram ábyrgð, enda sé seljanda þá skylt að efna kaupin, en hann láti það hjá líða.
    4. Reglur í 1.–3. mgr. eiga ekki við um sams konar óbeint tjón og nefnt er í 2. mgr. 67. gr. Í alþjóðlegum kaupum ná reglurnar þó einnig til óbeins tjóns, nema annað leiði af 3. mgr. 70. gr.
    5. Kaupandi getur ávallt krafist skaðabóta ef greiðsludrátt eða tjón má rekja til mistaka eða vanrækslu af hálfu seljanda.

28. gr.
Upplýsingaskylda um hindrun.

    Ef hindrun kemur í veg fyrir að seljandi geti efnt kaupin á réttum tíma skal hann tilkynna kaupanda um hindrunina og áhrif hennar á möguleika sína til að efna kaupin. Fái kaupandi ekki slíka tilkynningu innan hæfilegs tíma frá því að seljandi fékk eða gat fengið vitneskju um hindrunina getur kaupandi krafist þess að það tjón sé bætt sem unnt hefði verið að komast hjá ef hann hefði fengið tilkynninguna með nægum fyrirvara.

29. gr.
Riftunarfrestur.

    Ef hlutur er afhentur of seint getur kaupandi ekki rift kaupum, nema hann tilkynni það seljanda innan sanngjarns tíma frá því að hann fékk vitneskju um afhendinguna.

Gallar.
30. gr.
Almenn ákvæði.

    1. Ef söluhlutur reynist gallaður og gallinn er hvorki sök kaupanda né stafar af aðstæðum sem hann varða getur kaupandi samkvæmt ákvæðum 31.–40. gr. krafist úrbóta, nýrrar afhendingar, afsláttar, riftunar og skaðabóta ásamt því að halda eftir greiðslu kaupverðs samkvæmt ákvæði 42. gr. Réttur kaupanda til skaðabóta fellur ekki niður þótt hann geri aðrar kröfur eða þótt ekki sé unnt að halda slíkum kröfum fram.
    2. Reglurnar um galla gilda einnig um aðra ágalla á efndum seljanda, eftir því sem við á. Unnt er að semja um annað, og gildir það einnig í neytendakaupum.

31. gr.
Rannsókn kaupanda eftir afhendingu.

    1. Eftir afhendingu skal kaupandi, jafnskjótt og sanngjarnt tækifæri gefst, rannsaka söluhlut á þann hátt sem góð venja stendur til.
    2. Ef flytja á hlut frá afhendingarstað getur kaupandi beðið með rannsókn þar til hluturinn er kominn á ákvörðunarstað.
    3. Breyti kaupandi ákvörðunarstað meðan hlutur er í flutningi eða sendi hlut áfram án þess að hafa haft sanngjarnt tækifæri til að rannsaka hann, og hafi seljandi við kaupin vitað eða mátt vita um möguleikann á slíkri breytingu eða framsendingu, má láta rannsókn bíða þar til hluturinn er kominn á hinn nýja ákvörðunarstað.
    4. Grein þessi gildir ekki í neytendakaupum.

32. gr.
Tilkynning.

    1. Kaupandi glatar rétti sínum til þess að bera fyrir sig galla ef hann tilkynnir ekki seljanda innan hæfilegs tíma frá því að hann varð galla var eða mátti verða hans var í hverju gallinn er fólginn. Í neytendakaupum er jafnframt heimilt að tilkynna þeim aðila um galla sem í samningi við seljanda hefur tekið að sér að bæta úr honum.
    2. Ef kaupandi leggur ekki fram kvörtun innan tveggja ára frá þeim degi er hann veitti söluhlut viðtöku getur hann ekki síðar borið gallann fyrir sig. Þetta gildir ekki ef seljandi hefur í ábyrgðaryfirlýsingu eða öðrum samningi tekið á sig ábyrgð vegna galla í lengri tíma.
    3. Ef um sölu á byggingarefni er að ræða er tilkynningarfrestur fimm ár.

33. gr.
Undantekningar frá reglum um tilkynningar.

    Þrátt fyrir ákvæði 31. og 32. gr. getur kaupandi borið fyrir sig galla ef seljandi hefur sýnt af sér vítavert gáleysi eða framferði hans er á annan hátt ekki í samræmi við heiðarleika og góða trú.

34. gr.
Krafa um úrbætur og nýja afhendingu.

    1. Kaupandi getur krafist þess að seljandi bæti úr galla á eigin reikning ef það verður gert án þess að valda seljanda ósanngjörnum kostnaði eða óhagræði. Seljandi getur þess í stað afhent nýja greiðslu í samræmi við ákvæði 36. gr.
    2. Kaupandi getur krafist nýrrar afhendingar ef galli er verulegur. Þetta á ekki við ef fyrir hendi er hindrun eða sams konar ósamræmi og um ræðir í 23. gr. Þá er ekki heldur unnt að krefjast nýrrar afhendingar þegar um er að ræða hlut sem var til staðar við kaup og er þannig miðað við væntingar aðila að ekki er unnt að krefjast þess með sanngirni að hann verði bættur með öðrum hlut.
    3. Ef seljandi fullnægir ekki þeirri skyldu sinni að bæta úr galla eða afhenda nýjan hlut getur kaupandi krafist skaðabóta fyrir eðlileg útgjöld við að fá bætt úr galla.

35. gr.
Tilkynning um kröfu um úrbætur og nýja afhendingu.

    1. Kaupandi glatar rétti sínum til þess að krefjast úrbóta eða nýrrar afhendingar ef hann tilkynnir ekki seljanda um þá kröfu sína samtímis tilkynningu skv. 32. gr. eða innan sanngjarns frests frá þeim tíma. Kaupandi heldur þó rétti sínum ef seljandi hefur sýnt af sér vítavert gáleysi eða framferði hans stríðir á annan hátt gegn heiðarleika og góðri trú.
    2. Í neytendakaupum má tilkynna þeim aðila um galla sem í samningi við seljanda hefur tekið að sér að bæta úr honum.

36. gr.
Réttur seljanda til úrbóta og nýrrar afhendingar.

    1. Þótt kaupandi krefjist þess ekki er seljanda heimilt að bæta á eigin kostnað úr galla eða afhenda annan hlut ef það er unnt án verulegs óhagræðis fyrir kaupanda og án þeirrar áhættu að kaupandi fái ekki bætt útgjöld sín hjá seljanda.
    2. Nú spyr seljandi kaupanda hvort hann samþykki úrbætur eða nýja afhendingu eða seljandi skýrir kaupanda frá því að hann vilji bæta úr eða afhenda annan hlut innan tiltekins tíma. Ef kaupandi svarar ekki áður en hæfilegur tími er liðinn frá því að hann fékk slíka vitneskju getur seljandi gert nauðsynlegar ráðstafanir innan þess tíma sem nefndur var.
    3. Seljandi getur ekki borið fyrir sig að hann hafi ekki fengið tækifæri til úrbóta eða nýrrar afhendingar þegar kaupandinn hefur séð um að bæta úr gallanum og það yrði talið ósanngjarnt, miðað við aðstæður, að krefjast þess af kaupanda að hann biði eftir úrbótum seljanda eða nýrri afhendingu.
    

37. gr.
Afsláttur eða riftun þegar ekki verður
af úrbótum eða nýrri afhendingu.

    1. Ef úrbætur eða ný afhending koma ekki til álita eða ekki verður af þeim innan hæfilegs tíma frá því að kaupandi kvartaði yfir galla getur hann krafist afsláttar af kaupverði eða rift kaupunum samkvæmt ákvæðum 38. eða 39. gr. Þetta gildir ekki ef kaupandi hafnar úrbótum sem hann er skyldur til að þiggja.
    2. Kaupandi getur ekki krafist afsláttar þegar um er að ræða kaup á notuðum hlutum á uppboði.

38. gr.
Afsláttur af kaupverði.

    Ef hlutur er gallaður getur kaupandi krafist afsláttar af kaupverði. Skal afslátturinn reiknaður þannig að hlutfallið milli hins lækkaða verðs og samningsverðsins svari til hlutfallsins milli verðgildis hlutarins í gölluðu og umsömdu ástandi á afhendingartíma.

39. gr.
Riftun.

    1. Kaupandi getur rift kaupum ef meta má galla til verulegra vanefnda.
    2. Kaupandi getur ekki rift kaupum, nema hann tilkynni seljanda um riftun innan hæfilegs tíma frá því að hann fékk eða hefði átt að fá vitneskju um gallann eða eftir að frestur sá er útrunninn sem leitt getur af kröfu eða tilkynningu samkvæmt ákvæðum 34. eða 36. gr. Þetta gildir þó ekki ef seljandi hefur sýnt af sér vítavert gáleysi eða framferði hans stríðir að öðru leyti gegn heiðarleika og góðri trú.

40. gr.
Skaðabætur.

    1. Kaupandi getur krafist skaðabóta fyrir það tjón sem hann bíður vegna galla á söluhlut, nema seljandinn sanni að þá megi rekja til hindrana þeirra sem nefndar eru í 27. gr. Reglur 27. og 28. gr. eiga hér við.
    2. Reglur 1. mgr. eiga ekki við um sams konar óbeint tjón og nefnt er í 2. mgr. 67. gr. Í alþjóðlegum kaupum eiga reglurnar þó einnig við um óbeint tjón, nema annað leiði af ákvæðum 3. mgr. 70. gr.
    3. Kaupandi getur ávallt krafist skaðabóta ef
     a.      gallann eða tjónið má rekja til mistaka eða vanrækslu seljanda eða
     b.      hlutur var ekki þegar við samningsgerð í samræmi við það sem heitið var af seljanda.

Vanheimild o.fl.
41. gr.
Vanheimild. Aðrar kröfur þriðja manns.

    1. Ef þriðji maður á eignarrétt, veðrétt eða annan rétt yfir söluhlut (vanheimild) gilda reglurnar um galla eftir því sem við á, nema leiða megi af samningi að kaupandi hafi átt að taka við hlutnum með þeim takmörkunum sem leiðir af rétti þriðja manns. Reglan um tveggja ára tilkynningarfrest skv. 2. mgr. 32. gr. gildir þó ekki.
    2. Kaupandi getur í öllum tilvikum krafist skaðabóta fyrir tjón af völdum vanheimildar sem var til staðar við kaupin, enda hafi hann hvorki vitað né mátt vita um vanheimildina.
    3. Ef þriðji maður gerir tilkall til réttar yfir söluhlut og kröfu hans er andmælt gilda ákvæði 1. og 2. mgr. eftir því sem við á, nema augljóst sé að krafa þriðja manns eigi ekki við nein rök að styðjast.
    4. Reglur 1. mgr. gilda eftir því sem við á þegar krafa þriðja manns byggist á hugverka- eða auðkennarétti hans, sbr. ákvæði 96. gr. Um annað má semja, einnig í neytendakaupum.

Önnur ákvæði.
42. gr.
Réttur kaupanda til að halda kaupverði.

    Ef kaupandi á kröfu á hendur seljanda vegna vanefnda hins síðarnefnda getur kaupandinn haldið eftir þeim hluta kaupverðsins sem nægir til þess að tryggja kröfu hans.

43. gr.
Vanefndir að því er varðar hluta hins selda.

    1. Ef vanefndir seljanda varða einvörðungu hluta hins selda eiga reglur þessa kafla við að því er þann hluta varðar. Kaupandi getur rift kaupunum með öllu ef vanefndir eru verulegar á samningnum í heild sinni.
    2. Ef ráða má af atvikum að seljandi hafi lokið afhendingu af sinni hálfu, þótt umsamið magn hafi ekki allt verið afhent, eiga reglurnar um galla við.

44. gr.
Afhending í áföngum.

    1. Ef seljandi á að afhenda hið selda í áföngum og vanefndir verða á tiltekinni afhendingu getur kaupandi rift kaupum að því er hana varðar samkvæmt reglunum um riftun.
    2. Ef vanefndir veita kaupanda réttmæta ástæðu til að ætla að vanefndir verði á afhendingum síðar þannig að riftunarréttur skapist getur kaupandi á þeim grundvelli einnig rift að því er síðari afhendingar varðar ef það gerist áður en sanngjarn frestur er liðinn.
    3. Ef kaupandi riftir kaupum að því er eina afhendingu varðar getur hann samtímis rift kaupunum varðandi fyrri eða síðari afhendingar ef slíkt samhengi er milli þeirra að þær nýtist ekki í þeim tilgangi sem gert var ráð fyrir við samningsgerðina.
    

VI. KAFLI.
Skyldur kaupanda.
Fjárhæð kaupverðs.
45. gr.

    1. Ef kaup eru gerð án þess að kaupverðið leiði af samningi skal kaupandi greiða fyrir söluhlut það gangverð sem er á sams konar hlutum, seldum við svipaðar aðstæður, við samningsgerðina, enda sé verðið ekki ósanngjarnt. Ef ekki er um neitt slíkt gangverð að ræða skal kaupandi greiða það verð sem sanngjarnt er miðað við eðli hlutar, gæði hans og atvik að öðru leyti.
    2. Í neytendakaupum getur seljandi ekki til viðbótar kaupverðinu krafist þóknunar fyrir að gefa út og senda reikning. Þetta gildir ekki þegar augljóst er að kaupverðið er staðgreiðsluverð en seljandi hefur eigi að síður veitt greiðslufrest.

46. gr.

    1. Ef kaupverðið á að ráðast af fjölda, máli eða þyngd skal við þetta miðað á þeim tíma þegar áhættan af söluhlutnum flyst frá seljanda til kaupanda.
    2. Þegar kaupverðið er ákveðið eftir þyngd skal fyrst draga frá þyngd umbúða.


47. gr.

    Ef kaupandi hefur fengið reikning eða orðsendingu er hann bundinn við það verð sem þar kemur fram ef hann segir ekki til um það innan sanngjarns tíma að hann samþykki verðið ekki. Þetta á ekki við þegar lægra verð leiðir af samningi eða uppsett verð er ósanngjarnt.

Greiðsla kaupverðsins.
48. gr.

    1. Kaupverðið skal greiða á atvinnustöð seljanda. Ef greiðsla á að fara fram gegn afhendingu söluhlutar eða skjals skal greiðslan innt af hendi á afhendingarstaðnum.
    2. Í skyldu til þess að greiða kaupverðið felst einnig skylda til þess, í samræmi við ákvæði samningsins, að samþykkja víxil, leggja fram bankatryggingu, bankaábyrgð eða aðra tryggingu og gera aðrar þær ráðstafanir sem greiðsla kaupverðsins er komin undir.
    3. Seljandinn ber ábyrgð á auknum kostnaði við greiðslu sem stafar af því að hann hefur flutt atvinnustöð sína eftir að kaupin voru gerð.
    

49. gr.

    1. Leiði greiðslutíma ekki af kaupsamningnum skal kaupandinn greiða kaupverðið þegar seljandinn krefst þess, en þó ekki fyrr en hluturinn er afhentur kaupanda eða stendur honum til ráðstöfunar í samræmi við samninginn og lög þessi.
    2. Áður en kaupandinn greiðir kaupverðið á hann þó rétt á að rannsaka hlutinn á venjulegan hátt ef það er ekki ósamrýmanlegt umsaminni aðferð við afhendingu og greiðslu kaupverðsins.
    3. Nú er farmbréf notað við flutning söluhlutar til ákvörðunarstaðarins eða flutningurinn fer að öðru leyti fram með þeim skilmálum að seljandinn getur ekki ráðið yfir hlutnum eftir greiðslu. Má þá krefjast greiðslu gegn afhendingu flutningsskjals, farmbréfs eða annarrar sönnunar fyrir því að hluturinn verði fluttur með slíkum skilmálum. Þetta gildir þótt hluturinn sé ekki kominn fram eða kaupandinn hafi ekki haft tækifæri til að rannsaka hann.

Atbeini kaupanda að efndum kaupa.
50. gr.

    Kaupanda er skylt
     a.      að stuðla fyrir sitt leyti að því, eftir því sem sanngjarnt er að ætlast til af honum, að seljandi geti efnt skyldur sínar og
     b.      taka við hlutnum með því að sækja hann eða veita honum viðtöku.

VII. KAFLI
Úrræði seljanda vegna
vanefnda af hálfu kaupanda.
51. gr.
Almenn ákvæði.

    1. Ef kaupandi greiðir ekki kaupverðið eða fullnægir ekki öðrum skyldum sínum samkvæmt samningnum eða lögum þessum, og það verður hvorki rakið til seljanda né atvika sem hann varða, getur seljandinn krafist efnda, riftunar og skaðabóta í samræmi við ákvæði þessa kafla. Hann getur einnig haldið eftir greiðslum skv. 10. gr. og krafist vaxta skv. 71. gr.
    2. Sinni kaupandi ekki þeirri skyldu sinni að veita söluhlut viðtöku, og það verður hvorki rakið til seljanda né atvika sem hann varða, gilda ákvæði 55. gr., 2. mgr. 57. gr. og 58. gr.
    3. Réttur seljanda til skaðabóta og vaxta fellur ekki brott þótt hann neyti annarra úrræða eða við það að slík úrræði verði ekki höfð uppi.

52. gr.
Réttur til efnda með því að krefjast greiðslu.
Afpöntun.

    1. Seljandi getur haldið fast við kaupin og krafið kaupanda um greiðslu kaupverðsins. Þetta gildir þó ekki á meðan ekki er unnt að greiða vegna stöðvunar samgangna eða greiðslumiðlunar eða vegna annarra atvika sem kaupandi getur hvorki stjórnað né yfirunnið.
    2. Nú afpantar kaupandi hlut sem skal sérstaklega útbúinn fyrir hann. Getur seljandi þá ekki haldið fast við kaupin með því að halda gerð hlutarins áfram eða gert aðrar ráðstafanir til afhendingar ásamt því að krefjast greiðslu, nema því aðeins að stöðvun hafi í för með sér verulegt óhagræði fyrir hann eða hættu á því að hann fái ekki bætt það tjón sem afpöntun hefur í för með sér. Ef seljandi getur ekki haldið fast við kaupin skal ákveða skaðabætur fyrir það tjón, sem afpöntunin veldur, samkvæmt reglum X. kafla.
    3. Ef hlutur hefur ekki verið afhentur glatar seljandi rétti sínum til þess að krefjast efnda ef hann bíður óhæfilega lengi með að setja slíka kröfu fram.

53. gr.
Krafa um að kaupandi stuðli að efndum.

    Um rétt seljanda til að krefjast efnda á þeirri skyldu kaupanda að hann stuðli að efndum gilda ákvæði 23. gr. eftir því sem við á.

54. gr.
Riftun þegar kaupandi greiðir ekki.

    1. Seljandi getur rift kaupum vegna dráttar á greiðslu kaupverðsins þegar um verulegar vanefndir af hálfu kaupanda er að ræða.
    2. Einnig er unnt að rifta kaupum þegar kaupandi greiðir ekki kaupverðið innan sanngjarns viðbótarfrests sem seljandi hefur sett til efndanna.
    3. Seljandi getur ekki rift kaupum meðan viðbótarfrestur er að líða, nema því aðeins að kaupandi hafi lýst því yfir að hann muni ekki efna kaupin á þeim tíma.
    4. Ef kaupandi hefur þegar veitt söluhlut viðtöku getur seljandi því aðeins rift kaupunum að hann hafi gert um það fyrirvara eða kaupandi hafnar hlutnum. Í alþjóðlegum kaupum er þó unnt að rifta kaupum án slíks fyrirvara ef riftun hefur ekki áhrif á þann rétt sem þriðji maður, þ.m.t. bú kaupanda, hefur yfir hlutnum.

55. gr.
Riftun þegar kaupandi stuðlar ekki að kaupum.

    1. Seljandi getur rift kaupum ef kaupandi stuðlar ekki að þeim og vanefndir hans eru verulegar. Seljandi getur með sömu skilyrðum rift kaupunum þegar kaupandi veitir hlut ekki viðtöku skv. b-lið 50. gr. og seljandi hefur sérstaka hagsmuni af því að losna við hlutinn.
    2. Einnig er unnt að rifta kaupunum þegar kaupandinn innan sanngjarns viðbótarfrests, sem seljandinn hefur sett honum til efnda,
     a.      stuðlar ekki að kaupum eða
     b.      veitir ekki söluhlut viðtöku þegar seljandi hefur sérstaka hagsmuni af því að losna við hlutinn.
    3. Meðan viðbótarfrestur er að líða getur seljandi ekki rift kaupum, nema því aðeins að kaupandi hafi lýst því yfir að hann muni ekki efna kaupin á þeim tíma.

56. gr.
Afhending í áföngum.

    1. Ef seljandi á að afhenda í áföngum og kaupandi að greiða eða stuðla að efndum varðandi hverja afhendingu og vanefndir verða af kaupanda hálfu á tiltekinni afhendingu getur seljandi rift að því er hana varðar samkvæmt reglum 54. og 55. gr.
    2. Ef vanefndir veita seljanda réttmæta ástæðu til að ætla að slíkar vanefndir verði á síðari afhendingum að riftunarréttur skapist getur seljandi á þeim grundvelli einnig rift kaupum að því er þær afhendingar varðar ef það gerist áður en sanngjarn frestur er liðinn.

57. gr.
Skaðabætur.

    1. Seljandi getur krafist skaðabóta fyrir tjón af völdum greiðsludráttar kaupanda. Þetta á þó ekki við meðan kaupandi sýnir fram á að greiðsludráttur stafi af stöðvun almennra samgangna eða greiðslumiðlunar eða annarri hindrun sem kaupandi hefur ekki stjórn á og ekki er með sanngirni hægt að ætlast til að hann hafi getað haft í huga við samningsgerðina, komist hjá afleiðingunum af eða yfirunnið. Reglur 2. og 3. mgr. 27. gr. gilda eftir því sem við á.
    2. Seljandi getur krafist skaðabóta samkvæmt reglum 27. gr. fyrir það tjón sem hann bíður og stafar af því
     a.      að kaupandi stuðlar ekki að efndum á kaupunum eða
     b.      kaupandi veitir hlut ekki nógu snemma viðtöku skv. b-lið 50. gr. og seljandi hefur af því sérstaka hagsmuni að losna við hlutinn.

58. gr.
Upplýsingaskylda um hindrun.

    Ef hindrun tálmar því að kaupandi geti efnt kaupin á réttum tíma skal hann tilkynna seljanda um hindrunina og áhrif hennar á möguleika sína til efnda. Fái seljandi ekki slíka tilkynningu innan sanngjarns tíma frá því að kaupandinn vissi eða mátti vita um hindrunina getur seljandi krafist bóta fyrir það tjón sem hann hefði getað komist hjá ef hann hefði fengið tilkynninguna í tíma.

59. gr.
Riftunarfrestur seljanda.

    Ef kaupverðið hefur verið greitt getur seljandi ekki rift kaupunum, nema hann hafi tilkynnt kaupanda um það
     a.      þegar um drátt á efndum af hálfu kaupanda er að ræða áður en seljandi fékk að vita um efndir kaupanda eða
     b.      þegar um aðrar vanefndir er að ræða innan hæfilegs tíma frá því að hann vissi eða mátti vita um vanefndir eða eftir að hæfilegur viðbótarfrestur skv. 2. mgr. 55. gr. er liðinn.

60. gr.
Ákvörðun um einkenni hlutar.

    1. Nú á kaupandi að ákveða lögun hlutar, mál eða aðra eiginleika hans og gerir það ekki á umsömdum tíma eða innan hæfilegs tíma frá því að hann fékk um það hvatningu frá seljanda. Getur seljandi þá sjálfur ákveðið þessi einkenni í samræmi við það sem hann má ætla að séu hagsmunir kaupanda. Þetta kemur ekki í veg fyrir að seljandi geti haldið fram öðrum kröfum sem hann á.
    2. Seljandi skal upplýsa kaupanda um þau einkenni sem hann ákveður skv. 1. mgr. og veita kaupanda hæfilegan frest til að gera á þeim breytingar. Geri kaupandi það ekki innan hæfilegs tíma, eftir að hafa fengið tilkynningu frá seljanda, verður ákvörðun seljanda um einkennin bindandi.
    

VIII. KAFLI
Sameiginlegar reglur um
fyrirsjáanlegar vanefndir, greiðsluþrot o.fl.
61. gr.
Stöðvun greiðslu vegna fyrirsjáanlegra vanefnda o.fl.

    1. Ef í ljós kemur eftir kaup vegna framferðis samningsaðila eða vegna alvarlegs brests á greiðslugetu hans eða möguleikum til efnda að hann muni ekki efna verulegan hluta af skyldum sínum getur gagnaðili stöðvað efndir af sinni hálfu og haldið eftir sinni greiðslu.
    2. Ef seljandi hefur þegar sent hlutinn og í ljós koma þau atriði varðandi kaupanda sem um getur í 1. mgr. getur seljandi varnað því að söluhlutur verði afhentur kaupanda eða búi hans. Þetta á við þótt kaupandi eða bú hans hafi veitt flutningsskjölum viðtöku.
    3. Sá aðili, sem stöðvar efndir eða varnar því að hlutur sé afhentur, skal strax tilkynna gagnaðila sínum það. Farist það fyrir getur gagnaðili krafist skaðabóta fyrir það tjón sem unnt hefði verið að komast hjá ef tilkynning hefði verið send.
    4. Samningsaðili, sem hefur stöðvað efndir eða varnað því að hlutur yrði afhentur, verður að halda efndum áfram ef gagnaðili setur fullnægjandi tryggingar fyrir efndum af sinni hálfu.

62. gr.
Riftun vegna fyrirsjáanlegra vanefnda.

    1. Ef ljóst er fyrir efndatíma að koma muni til vanefnda sem veita aðila rétt til riftunar getur hann rift kaupunum áður en efndatíminn er kominn. Varna má riftun ef gagnaðili setur strax fullnægjandi tryggingar af sinni hálfu fyrir því að staðið muni verða við kaupin.
    2. Ef tími vinnst til skal sá aðili, sem rifta vill kaupum, vara gagnaðila sinn við þannig að honum gefist færi á að verða sér úti um tryggingar til að varna riftuninni.

63. gr.
Gjaldþrot.

    Um rétt til að ganga inn í kaup, halda eftir greiðslu eða rifta kaupum vegna gjaldþrots samningsaðila fer eftir lögum um gjaldþrotaskipti.


IX. KAFLI
Sameiginlegar reglur um
riftun eða nýja afhendingu.
64. gr.
Réttaráhrif.

    1. Þegar kaupum er rift falla skyldur aðila til að efna þau niður.
    2. Hafi kaup verið efnd að fullu eða að hluta af hálfu samningsaðila má krefjast skila á því sem móttekið hefur verið. Aðili getur þó haldið því sem hann hefur móttekið þar til gagnaðili skilar því sem hann hefur tekið við. Sama á við þegar aðili á rétt til skaðabóta eða vaxta og fullnægjandi trygging er ekki sett.
    3. Ef seljandinn á að afhenda á ný getur kaupandi haldið hjá sér því sem hann hefur móttekið þar til afhending hefur átt sér stað að nýju.
    4. Riftun hefur engin áhrif á samningsákvæði um atvinnuleyndarmál, um lausn ágreiningsefna eða um réttindi og skyldur aðila sem leiðir af riftuninni.

65. gr.
Afrakstur og vextir
þegar greiðslum er skilað.

    1. Þegar kaupum er rift skal kaupandi færa seljanda þann afrakstur til tekna sem hann hefur haft af hlutnum og greiða hæfilegt endurgjald fyrir veruleg not sem hann hefur að öðru leyti haft af honum.
    2. Ef seljandi á að endurgreiða kaupverðið ber honum að greiða vexti í samræmi við ákvæði 71. gr. frá þeim degi er hann tók við greiðslunni.

66. gr.
Missir réttar til riftunar og afhendingar á ný.

    1. Kaupanda er því aðeins heimilt að rifta kaupum eða krefjast afhendingar á ný að hann geti skilað hlutnum að öllu verulegu leyti í sama ástandi og magni og hluturinn var í þegar kaupandi veitti honum viðtöku. Kaupandi glatar þó ekki rétti sínum til þess að krefjast riftunar eða nýrrar afhendingar þegar
     a.      ástæður þess að ekki er unnt að skila hlutnum að öllu verulegu leyti í sama ástandi og magni má rekja til eiginleika hans eða annarra aðstæðna sem ekki varða kaupandann;
     b.      hluturinn hefur í heild eða að hluta eyðilagst eða rýrnað og það má rekja til verknaðar sem gera varð til að ganga úr skugga um hvort hann væri gallaður; eða
     c.      hluturinn hefur verið seldur í heild eða að hluta í venjulegum viðskiptum eða hann hefur verið notaður eða honum breytt af kaupanda við fyrirhuguð not áður en kaupanda varð ljós eða mátti verða ljós galli sá sem leiðir til riftunar eða kröfu um afhendingu á ný.
    2. Kaupandi glatar ekki heldur réttinum til riftunar eða nýrrar afhendingar ef hann við skilin bætir þá verðmætisrýrnun sem orðin er á hlutnum. Ákvæði þetta gildir ekki í alþjóðlegum kaupum.

X. KAFLI
Umfang skaðabóta. Vextir.
67. gr.
Almennar reglur.

    1. Skaðabætur vegna vanefnda af hálfu annars samningsaðila skulu svara til þess tjóns, þ.m.t. vegna útgjalda, verðmunar og tapaðs hagnaðar, sem gagnaðili bíður vegna vanefndanna. Þetta gildir þó einungis um það tjón sem aðili gat með sanngirni séð fyrir sem hugsanlega afleiðingu vanefndar.
    2. Með óbeinu tjóni er átt við:
     a.      tjón sem rekja má til samdráttar eða stöðvunar í framleiðslu eða viðskiptum (rekstrarstöðvun);
     b.      tjón sem rekja má til þess að hlutur kemur ekki að þeim notum sem að var stefnt;
     c.      tjón sem rekja má til tapaðs hagnaðar, þegar samningur við þriðja mann fellur brott eða verður ekki réttilega efndur, en aðeins að því marki sem kaupandi lætur án sanngjarnrar ástæðu hjá líða að gera samning við annan aðila eða gera aðrar ráðstafanir til að koma í veg fyrir eða draga úr tjóni sínu;
     d.      tjón sem rekja má til skemmda á öðru en söluhlutnum sjálfum, svo og hlutum sem hann er notaður til framleiðslu á eða standa í nánu og beinu sambandi við fyrirhuguð not hans.
    3. Reglur 2. mgr. eiga ekki við um kostnað vegna:
     a.      venjulegra ráðstafana sem bæta eiga úr þegar söluhlut seinkar eða hann er gallaður eða
     b.      ráðstafana sem takmarka annað tjón en það sem 2. mgr. nær til.
    4. Í neytendakaupum má um það semja að ekki skuli greiða skaðabætur fyrir óbeint tjón sem fellur undir 2. mgr.

68. gr.
Verðmunur við staðgönguráðstafanir.

    Ef kaupum er rift og kaupandi kaupir af öðrum (staðgöngukaup) eða seljandi selur öðrum (staðgöngusala) með forsvaranlegum hætti og innan sanngjarns tíma frá riftun skal, þegar verðmunur er reiknaður út, leggja til grundvallar kaupverðið og verðið við staðgönguráðstöfunina.

69. gr.
Verðmunur þegar ekki er um
staðgönguráðstafanir að ræða.

    1. Ef kaupum er rift án þess að gerðar séu staðgönguráðstafanir þær sem um ræðir í 68. gr. og unnt er að staðreyna gangverð söluhlutar skal, þegar verðmunur er reiknaður út, leggja til grundvallar kaupverðið og gangverðið á riftunartímanum. Ef kaupum er rift eftir að söluhlut hefur verið veitt viðtaka skal í þess stað miða við gangverðið þegar afhendingin átti sér stað.
    2. Gangverð er það verð sem er á sambærilegum hlutum á afhendingarstað. Þegar ekki er um gangverð að ræða á afhendingarstað skal miða við verðið á öðrum stað sem með sanngirni má jafna til afhendingarstaðarins, þó þannig að taka skal tillit til munar á flutningskostnaði.

70. gr.
Skylda til að takmarka tjón.
Mildun ábyrgðar. Alþjóðleg kaup.

    1. Samningsaðila, sem ber fyrir sig vanefndir af hálfu gagnaðila, er með sanngjörnum ráðstöfunum skylt að takmarka tjón sitt. Vanræki hann það ber hann sjálfur þann hluta tjónsins sem af því leiðir.
    
2. Skaðabætur má lækka ef þær teljast ósanngjarnar fyrir hinn bótaskylda þegar litið er til fjárhæðar tjónsins í samanburði við það fjártjón sem venjulega verður í sambærilegum tilvikum og atvika að öðru leyti.
    3. Í alþjóðlegum kaupum ná skaðabætur eingöngu til þess tjóns sem samningsaðili gat með sanngirni búist við að leiða mundi af vanefndum hans í ljósi þeirra atvika sem hann þekkti eða mátti þekkja þegar samningur var gerður. Skaðabætur í slíkum kaupum verða ekki lækkaðar samkvæmt ákvæðum 2. mgr.

71. gr.
Vextir.

    Ef kaupverðið eða önnur vangoldin fjárhæð er ekki greidd á réttum tíma ber skuldara að greiða vexti af fjárhæðinni í samræmi við ákvæði vaxtalaga.

XI. KAFLI
Umönnun söluhlutar.
72. gr.
Skylda seljanda til umönnunar.

    Nú sækir kaupandi ekki söluhlut eða veitir honum ekki viðtöku á réttum tíma eða önnur atvik, sem kaupanda varða, leiða til þess að hann fær hlutinn ekki afhentan. Skal seljandi þá á kostnað kaupanda annast um hlutinn með þeim hætti sem sanngjarnt er miðað við aðstæður, enda hafi hann hlutinn í vörslum sínum eða geti með öðrum hætti annast hann.

73. gr.
Skylda kaupanda til umönnunar.

    1. Hafni kaupandi söluhlut sem hann hefur veitt viðtöku skal hann á kostnað seljanda annast um hlutinn á þann hátt sem sanngjarn er miðað við aðstæður.
    2. Hafni kaupandi söluhlut sem hefur verið sendur til hans honum til ráðstöfunar á ákvörðunarstað skal hann annast um hlutinn á kostnað seljanda, enda sé honum það kleift án þess að greiða kaupverðið eða baka sér með því ósanngjörn útgjöld eða óhagræði. Þetta á þó ekki við ef seljandi sjálfur eða einhver á hans vegum getur annast hlutinn á ákvörðunarstað.
    

74. gr.
Umönnun af hálfu þriðja manns.

    Samningsaðili, sem annast skal um söluhlut, getur falið það þriðja manni á kostnað gagnaðila, enda sé ekki óhæfilegur kostnaður því samfara. Samningsaðili er laus undan ábyrgð sinni hafi vörslumaður verið valinn með forsvaranlegum hætti og veitt hlutnum viðtöku.

75. gr.
Skaðabætur og trygging fyrir kostnaði.

    Samningsaðili, sem annast um söluhlut á kostnað gagnaðila, á rétt til endurgreiðslu hæfilegs kostnaðar sem af því hlýst. Hann getur haldið hlutnum hjá sér þar til kostnaðurinn hefur verið greiddur eða nægileg trygging sett.

76. gr.
Sala.

    1. Samningsaðila, sem skylt er að annast um söluhlut, er heimilt að selja hlutinn ef hann getur ekki annast um hann án þess að baka sér verulegan kostnað. Sama gildir ef gagnaðili dregur óhæfilega lengi að taka við hlutnum eða greiða kaupverðið og geymslukostnað.
    2. Ef hætt er við að hlutur rýrni fljótt eða eyðileggist eða kostnaður við geymslu hans verði óhæfilega mikill ber að selja hlutinn ef þess er nokkur kostur.
    3. Standa skal að sölu með forsvaranlegum hætti. Ef kostur er skal gera gagnaðila viðvart um það með hæfilegum fyrirvara að hluturinn muni verða seldur.

77. gr.
Önnur ráðstöfun en sala.

    Ef aðili hefur heimild til sölu samkvæmt ákvæðum 76. gr., en hluturinn selst ekki eða ljóst er að söluandvirðið nægir ekki fyrir sölukostnaði, er aðila heimilt að ráðstafa hlutnum með öðrum forsvaranlegum hætti. Vara skal gagnaðila við sé þess kostur.

78. gr.
Reikningsgerð og reikningsfærsla.

    Samningsaðili, sem annast hefur um söluhlut, skal reikningsfæra gagnaðila fyrir því sem fékkst fyrir hlutinn við sölu eða með öðrum hætti og gera honum reikning fyrir kostnaði sínum. Það sem umfram er fellur til gagnaðila.

XII. KAFLI
Arður og annar afrakstur.
79. gr.
Afrakstur af söluhlut.

    Afrakstur af söluhlut, sem verður til fyrir umsaminn afhendingartíma, fellur til seljanda, enda hafi ekki verið ástæða til að ætla að afraksturinn félli til síðar. Afrakstur, sem síðar verður til, fellur til kaupanda, enda hafi ekki verið ástæða til að ætla að hann félli til fyrr. Heimilt er að semja á annan veg, einnig í neytendakaupum.

80. gr.
Hlutir.

    Kaup á hlutum ná til þess arðs sem ekki var gjaldfallinn fyrir kaupin. Sama gildir um réttinn til áskriftar að nýjum hlutum, enda hafi ekki verið unnt að nýta réttinn fyrir kaupin.

81. gr.
Krafa sem ber vexti.

    Kaup á kröfu sem ber vexti ná til áfallinna vaxta sem ekki eru gjaldfallnir á umsömdum afhendingartíma. Greiða skal jafnvirði vaxtanna sem viðbót við kaupverðið, enda hafi krafan ekki verið seld sem óvís krafa.

XIII. KAFLI
Nokkur almenn ákvæði.
82. gr.
Áhættan af sendingu tilkynninga.

    Nú sendir samningsaðili tilkynningu í samræmi við ákvæði laga þessara og á þann hátt sem forsvaranlegt er miðað við aðstæður. Komi annað ekki fram getur sendandinn byggt á því að tilkynningin hafi verið send nógu snemma þótt henni seinki, mistök verði við sendinguna eða hún nái ekki til gagnaðila.

83. gr.
Atvinnustöð.

    1. Ef samningsaðili hefur fleiri en eina atvinnustöð og atvinnustöð hans skiptir máli skal miðað við þá atvinnustöð sem kaupunum er tengdust þegar litið er til þeirra atvika sem aðilar miðuðu við þegar kaup voru gerð.
    2. Ef samningsaðili hefur ekki atvinnustöð sem tengist kaupunum skal miða við heimili hans.

XIV. KAFLI.
Krafa á hendur fyrri söluaðila.
84. gr.
Skilyrði kröfu á hendur fyrri söluaðila.

    1. Í öðrum kaupum en neytendakaupum getur kaupandi, ef annað leiðir ekki af samningi, gert kröfu vegna galla á söluhlut á hendur fyrri söluaðila ef seljandi getur gert sams konar kröfu vegna gallans.
    2. Í neytendakaupum getur kaupandi í öllum tilvikum borið gallakröfu sína á hendur seljanda fram gegn fyrri söluaðila, sem hefur atvinnu sína af sölunni, ef sams konar krafa vegna gallans verður höfð uppi af seljanda eða öðrum sem öðlast hefur hlutinn frá fyrri söluaðila. Sama regla gildir í kaupum milli neytenda.
    3. Samningi við fyrri sölu, sem takmarkar rétt seljanda eða annars framsalshafa, verður ekki beitt gegn kröfu kaupanda í neytendakaupum skv. 2. mgr. í víðtækara mæli en unnt hefði verið að semja um í skiptum neytandans og seljandans.

85. gr.
Tilkynning.

    1. Kaupandi skal setja kröfu sína á hendur fyrri söluaðila fram innan hæfilegs tíma frá því að honum varð kunnugt um eða mátti vera kunnugt um gallann. Í síðasta lagi skal hann setja kröfu sína fram áður en liðnir eru þeir tilkynningarfrestir sem gilda í samskiptum seljanda og fyrri söluaðila.
    2. Um kröfu á hendur fyrri söluaðila skv. 2. mgr. 84. gr. gilda reglur 32. gr. um tilkynningar. Ef notaður hlutur hefur einnig áður verið seldur neytanda reiknast frestur skv. 2. mgr. 32. gr. gagnvart sérhverjum söluaðila frá þeim degi er næsti neytandi á undan veitti hlutnum viðtöku.
    3. Kaupandi skal svo fljótt sem tilefni gefst tilkynna fyrri söluaðila hvers hann krefst.

86. gr.
Ábyrgð á upplýsingum skv. 18. gr.

    Þegar sá er hlut hefur búið til eða annar fyrri söluaðili hefur gefið upplýsingar þær sem nefndar eru í 2. mgr. 18. gr. ber hann ábyrgð á því tjóni sem kaupandinn verður fyrir vegna upplýsinganna, eftir atvikum óskipt með seljanda. Reglur 40. gr. eiga við með sama hætti.

XV. KAFLI
Sérreglur um alþjóðleg kaup.
87. gr.
Alþjóðleg kaup.

    Með alþjóðlegum kaupum er í lögum þessum átt við kaup milli aðila sem hafa atvinnustöð sína í mismunandi ríkjum, enda komi þetta fram í samningi, leiði af fyrri viðskiptum aðila eða megi ráða af upplýsingum sem þeir hafa veitt áður eða á þeim tíma er kaup voru gerð.

88. gr.
Túlkun laganna. Óleyst álitaefni. Beinar efndir.

    1. Í alþjóðlegum kaupum skal við túlkun á ákvæðum laganna taka tillit til þess að nauðsynlegt er að samræma beitingu þeirra reglna sem byggðar eru á samningi Sameinuðu þjóðanna frá 1980 um alþjóðleg lausafjárkaup, svo og alþjóðlegs eðlis þeirra. Einnig skal taka tillit til nauðsynjar á heiðarleika og góðrar trúar í alþjóðlegum viðskiptum.
    2. Úr álitaefnum vegna atvika, sem samningur Sameinuðu þjóðanna fjallar um en hann leysir ekki úr með afgerandi hætti, skal leysa í samræmi við meginreglur samningsins og að öðru leyti í samræmi við þau landslög sem beita ber samkvæmt reglum alþjóðlegs einkamálaréttar.
    3. Um kröfu um beinar efndir, sem ákvarða skal hér á landi eða á grundvelli íslenskra réttarreglna, gilda ávallt ákvæði laga þessara, sbr. 28. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna.

89. gr.
Túlkun á yfirlýsingum aðila.

    1. Yfirlýsingu aðila og aðrar athafnir skal túlka í samræmi við vilja hans þegar gagnaðili vissi eða mátti vita hver ætlunin var. Ella ber að leggja þann skilning til grundvallar sem skynsamur maður í sömu aðstöðu mátti með sanngirni hafa við sambærilegar aðstæður.
    2. Þegar ákveða skal ætlun eða skilning skv. 1. mgr. skal taka tillit til allra atvika málsins sem þýðingu hafa, svo sem viðræðna, fyrri framkvæmdar milli aðila, verslunarvenju og síðari athafna aðila.

90. gr.
Verslunarvenja.

    Ef annað leiðir ekki af samningi eru aðilar bundnir af verslunarvenjum sem þeir þekktu eða máttu þekkja og eru vel þekktar í alþjóðlegum viðskiptum og er yfirleitt fylgt af aðilum í sambærilegum viðskiptasamböndum. Telst verslunarvenjan þá hluti af samningi aðila.

91. gr.
Munnlegur eða skriflegur samningur.

    1. Kaup þarf hvorki að gera né staðfesta skriflega, og um þau gilda engar aðrar formkröfur. Sönnur má leiða að kaupum með sérhverju tiltæku sönnunargagni, þ.m.t. vitnum.
    2. Samningi má breyta eða ljúka ef aðilar eru um það sammála sín í milli.
    3. Skriflegum samningi, sem ákveður að breytingu eða lok samnings skuli gera skriflega, verður ekki breytt eða honum lokið með öðrum hætti. Aðili getur þó með athöfnum sínum fyrirgert rétti sínum til að byggja á slíkum ákvæðum ef gagnaðili hefur gert ráðstafanir í trausti þeirra athafna.
    

92. gr.
Erlend löggjöf sem krefst skriflegs samnings.

    Ákvæði 91. gr. eiga ekki við í alþjóðlegum kaupum ef annar samningsaðilinn hefur atvinnustöð sína í samningsríki þar sem ekki eru í löggjöf viðurkenndir aðrir samningar en þeir sem eru gerðir skriflega, enda hafi ríkið gefið yfirlýsingu í samræmi við 96. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um alþjóðleg lausafjárkaup frá 1980.

93. gr.
Símskeyti og telexskeyti.

    Ákvæði 91. og 92. gr. laga þessara standa því ekki í vegi að nota megi símskeyti, telexskeyti, símbréf og aðrar rafrænar sendingar manna á milli, enda sé unnt að sannreyna falsleysi yfirlýsingar og staðfesta það.

94. gr.
Verulegar vanefndir.

    Vanefndir samningsaðila teljast verulegar ef þær leiða til slíks tjóns fyrir gagnaðila að hann telst af þeirra völdum mun verr settur en hann mátti með réttu vænta samkvæmt samningnum, nema því aðeins að sá aðili, sem vanefnir, hafi ekki getað séð það fyrir og ekki heldur skynsamur maður í sömu stöðu og við sömu aðstæður gat með sanngirni séð fyrir.

95. gr.
Afhending og leiðrétting skjala.

    Ef seljanda er skylt að afhenda skjal er varðar hlutinn skal hann afhenda það á þeim tíma og stað og í því ástandi sem um var samið. Hafi seljandi afhent skjalið fyrir umsaminn tíma getur hann, áður en afhendingartími er kominn, leiðrétt galla á skjalinu ef það veldur gagnaðila ekki óréttmætu óhagræði eða kostnaði. Kaupandi glatar þrátt fyrir það ekki rétti sínum til skaðabóta.

96. gr.
Höfundarréttur þriðja manns, iðnaðarréttindi o.fl.

    1. Seljandi skal afhenda söluhlut án takmarkana sem rekja má til höfundarréttar þriðja manns, réttinda þriðja manns á sviði iðnaðar eða annarra hugverkaréttinda sem seljandinn vissi eða mátti vita um á samningstímanum ef réttinn eða kröfuna má rekja:
     a.      til laga í því ríki þar sem hlutinn skal endurselja eða nota ef það var skilningur aðila við samningsgerðina að hlutinn skyldi selja eða nota í því ríki eða
     b.      í öðrum tilvikum til laga í því ríki þar sem kaupandi hefur atvinnustöð sína við samningsgerðina.
    2. Skyldur seljanda skv. 1. mgr. eiga ekki við þegar:
     a.      kaupandi vissi eða mátti vita við samningsgerðina um réttinn eða kröfuna eða
     b.      rétturinn eða krafan er afleiðing þess að seljandinn hefur fylgt tæknilegum teikningum, lýsingum, fyrirsögnum, hönnun eða öðrum leiðbeiningum sem kaupandi hefur lagt til.

97. gr.
Undantekningar frá reglum um tilkynningar.

    1. Seljandi getur ekki borið fyrir sig að kaupandi hafi vanrækt rannsókn skv. 31. gr. eða vanrækt að senda tilkynningar skv. 32. gr. ef seljandi vissi eða mátti vita um þau atvik er varða gallann án þess að upplýsa kaupandann um þau.
    2. Þegar um vanheimild eða aðra kröfu þriðja manns skv. 41. eða 96. gr. er að ræða getur seljandi ekki borið fyrir sig að kaupandi hafi sýnt slíka vanrækslu sem um ræðir í 1. mgr. ef seljandi vissi um réttinn eða kröfuna og inntak þeirra. Regla 2. mgr. 32. gr. um tveggja ára tilkynningarfrest gildir ekki um slíkar kröfur.
    3. Þótt kaupandi hafi ekki sent tilkynningar þær sem um ræðir í 1. mgr. 32. gr. getur hann krafist afsláttar eða skaðabóta fyrir annað tjón en missi hagnaðar hafi hann haft sanngjarna ástæðu til að láta hjá líða að senda slíkar tilkynningar.

98. gr.
Afhending of snemma eða í of miklu magni.

    1. Ef söluhlutur er afhentur of snemma getur kaupandi samþykkt afhendinguna eða hafnað henni, enda gæti hann umönnunarskyldu sinnar.
    2. Ef afhent er meira magn en um var samið getur kaupandi samþykkt afhendinguna eða hafnað því sem umfram er. Samþykki kaupandi það magn sem umfram hefur verið afhent, í heild eða að hluta, skal kaupverðið fyrir umframmagnið reiknast hlutfallslega á grundvelli þess verðs sem leiðir af samningnum.

XVI. KAFLI
Gildistaka, brottfall eldri laga o.fl.
99. gr.

    1. Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2000.
    2. Frá sama tíma falla úr gildi lög nr. 39 19. júní 1922, um lausafjárkaup.
    3. Lög þessi gilda einvörðungu um þá samninga sem gerðir verða eftir gildistöku laganna.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


     1.      Aðdragandinn að samningu frumvarps til nýrra laga um lausafjárkaup og meginefni þess.
    Á árinu 1992 fól viðskiptaráðherra Magnúsi Þ. Torfasyni, fyrrverandi hæstaréttardómara, að endurskoða lög nr. 39 frá 19. júní 1922, um lausafjárkaup. Skyldi endurskoðun laganna hafa það að markmiði að færa ákvæði þeirra til samnorræns horfs, en Íslendingar tóku um skeið, eins og síðar verður nánar rakið, þátt í störfum norræns vinnuhóps sem fékk það verkefni að endurskoða norrænu kaupalögin frá fyrri hluta þessarar aldar, og skilaði vinnuhópurinn áliti sínu á árinu 1984. Einnig skyldi Magnús kanna hvort og þá hvernig lögfestar yrðu hér á landi alþjóðlegar reglur um lausafjárkaup sem samdar voru að tilstuðlan Sameinuðu þjóðanna árið 1980. Magnús Þ. Torfason lést á árinu 1993, og var endurskoðun hans á lögum nr. 39/1922 þá skammt á veg komin.
    Þá fól iðnaðar- og viðskiptaráðherra þeim Stefáni Má Stefánssyni og Þorgeiri Örlygssyni, prófessorum við lagadeild Háskóla Íslands, að vinna að endurskoðun laga nr. 39/1922 í þeim anda sem að framan var lýst. Nánar segir í erindisbréfi þeirra að þeir skuli semja fyrir ráðuneytið „frumvarp til laga um lausafjárkaup, sem leysi af hólmi gildandi lög um það efni nr. 39/1922. Skal frumvarpið hafa að fyrirmynd samnorrænt nefndarálit um sama efni frá árinu 1984.“ Þá kemur fram í erindisbréfinu að í þeim tilvikum þar sem nýleg löggjöf í Skandinavíu um lausafjárkaup sé ólík um einstök efnisatriði skuli frumvarpshöfundar meta, í samráði við ráðuneytið, hvaða leið sé heppilegast að fara í lagasetningu hér á landi. Einnig segir í erindisbréfinu, að samhliða samningu frumvarps til nýrra kaupalaga skuli höfundar gera athugun á því hvort æskilegt sé að Ísland gerist aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna um lausafjárkaup frá 1980 með tilliti til fullgildingar samningsins og lögleiðingar hans og hver áhrif EES-samningurinn komi til með að hafa á þá endurskoðun.
    Drög að frumvarpi þessu voru með bréfi iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins, dags. 16. september 1997, send til umsagnar 26 aðila, þ.e. Bandalags háskólamanna, Félags íslenskra stórkaupmanna, Kaupmannasamtakanna, Bílgreinasambandsins, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samtaka iðnaðarins, Seðlabanka Íslands, Útflutningsráðs, dóms- og kirkjumálaráðuneytis, fjármálaráðuneytis, Lögmannafélags Íslands, Neytendasamtakanna, Samkeppnisstofnunar, Íslenskrar verslunar, Verslunarráðs, Alþýðusambands Íslands, Vinnuveitendasambands Íslands, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Innkaupastofnunar Reykjavíkurborgar, Ríkiskaupa, Vinnumálasambands samvinnufélaga, utanríkisráðuneytis, ríkistollstjóra, forsætisráðuneytis, Samtaka samvinnuverslana og Félags löggiltra endurskoðenda. Var umsagnaraðilum veittur frestur til 31. október 1997 að koma á framfæri athugasemdum sínum. Fyrir það tímamark skiluðu átta aðilar umsögnum, þ.e. Samtök verslunarinnar, Seðlabanki Íslands, Kaupmannasamtök Íslands, dóms- og kirkjumálaráðuneytið, ríkistollstjóraembættið, Innkaupastofnun Reykjavíkurborgar, Félag löggiltra endurskoðenda og Samband íslenskra sveitarfélaga. Í framhaldi af því að umsagnir framangreindra aðila bárust iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu efndi ráðuneytið til fundar 5. nóvember 1997 þar sem umsagnaraðilum gafst færi á að óska skýringa og koma á framfæri frekari athugasemdum við frumvarpsdrögin. Höfðu frumvarpshöfundar framsögu á fundinum þar sem þeir gerðu grein fyrir meginefni frumvarpsdraganna og svöruðu fyrirspurnum frá fundarmönnum. Síðar barst umsögn frá Neytendasamtökunum.
    Frumvarp það til laga um lausafjárkaup, sem hér liggur fyrir, byggist í meginatriðum á þeim tillögum til nýrra norrænna kaupalaga sem norræni vinnuhópurinn kom fram með á árinu 1984. Tillögur vinnuhópsins voru birtar í samnorrænu nefndaráliti, NU 1984: 5 NORDISKA KÖPLAGAR, Förslag av den nordiska arbetsgruppen för köplagstiftning. Þó er rétt að hafa í huga að í ýmsum greinum er reynt að taka tillit til séríslenskra aðstæðna. Þá leiðir það af ákvæðum frumvarpsins, svo sem síðar verður rakið, að lagt er til að ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um sölu á vöru milli ríkja frá 1980, The 1980 United Nations Convention for the International Sale of Goods (CISG), verði leidd í lög hér á landi með svokallaðri aðlögun (transformation). Í því felst að einstakar efnisreglur frumvarpsins, sem eins og fyrr segir byggjast að meginstefnu til á norræna nefndarálitinu frá 1984, hafa verið aðlagaðar CISG-samningnum sem í athugasemdum þessum verður eftirleiðis nefndur SÞ- samningurinn. Samhliða frumvarpi þessu er lögð fram tillaga til þingsályktunar um að Ísland gerist aðili að SÞ-samningnum.
    Frumvarp þetta var lagt fram á 123. löggjafarþingi 1998–99 og er nú lagt fram að nýju. Við undirbúning málsins hefur viðskiptaráðuneytið tekið tillit til þeirra breytingartillagna sem komu fram við umræður í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis á 123. löggjafarþingi. Breytingar af því tagi er að finna í 32. og 49. gr., kaflaheiti X. kafla og 93. gr. frumvarpsins. Jafnframt hefur nýlega verið samþykkt á vettvangi Evrópusambandsins tilskipun 99/44/EB, um tilteknar hliðar á sölu vöru til neytenda og ábyrgðaryfirlýsingar í því sambandi. Viðskiptaráðuneytið hefur haft hliðsjón af framangreindri tilskipun við endurskoðun frumvarpsins nú þegar það er lagt fram öðru sinni. Reyndar telur ráðuneytið að ákvæði frumvarpsins eins og það var upphaflega lagt fram fullnægi að mestu leyti ákvæðum hinnar nýju tilskipunar en í nokkrum tilvikum þótti rétt að geta þess í athugasemdum við einstakar greinar að greinina bæri að túlka í samræmi við reglur tilskipunar 99/44/EB. Í 17. gr. frumvarpsins hefur þó verið bætt inn í efnisatriði vegna ákvæða í 2. gr. (5) tilskipun 99/44/EB.

2.     Þróun íslensks kauparéttar — stutt yfirlit.
    Í Grágás, hinum fornu lögum íslenska þjóðveldisins, var nokkur ákvæði að finna um kaupgerninga. Ítarlegri ákvæði um slíka gerninga voru hins vegar í lögbókunum Járnsíðu og Jónsbók frá síðari hluta 13. aldar, en þau ákvæði voru að mestu sniðin að norskri fyrirmynd. Ákvæði Jónsbókar um kaup og skipti voru síðan gildandi réttur í þeim efnum hér á landi um aldir þótt sum þeirra yrðu reyndar úrelt eftir því sem tímar liðu fram vegna breyttra viðskiptahátta og þjóðlífsbreytinga að öðru leyti.
    Hinn 11. júlí 1911 öðluðust gildi hér á landi almenn viðskiptalög, nr. 31/1911, en þau lög höfðu það að markmiði að færa íslenskan kauparétt til samræmis við þá endurskoðun norrænna kaupalaga sem hófst við upphaf aldarinnar og síðar verður nánar fjallað um. Voru dönsku kaupalögin frá 1906 höfð sem fyrirmynd í þeim efnum. Frumvarp til laganna var fyrst lagt fram á Alþingi árið 1909 en varð ekki útrætt þá (Alþt. 1909, A, bls. 481 o.áfr.). Frumvarpi þessu fylgdu nánast engar athugasemdir, og var það síðan endurflutt lítið breytt tveimur árum síðar, þ.e. árið 1911, og samþykkt sem lög nr. 31/1911. Í athugasemdum með því frumvarpi kom fram að það væri nákvæm þýðing dönsku laganna (Alþt. 1911, A, bls. 83–84).
    Fljótlega eftir setningu viðskiptalaganna árið 1911 komu fram efasemdir um það hversu vel hefði tekist til við samningu þeirra, m.a. vegna þess hve þýðing dönsku kaupalaganna væri ónákvæm. Þótti nokkur efnismunur vera á dönsku og íslensku lögunum, auk þess sem ekki hefði verið nægilegt tillit tekið til íslenskra aðstæðna. Því varð úr að á Alþingi árið 1922 lagði ríkisstjórnin fram frumvarp til laga um viðeigandi breytingar og leiðréttingar á viðskiptalögunum frá 1911, en það frumvarp ásamt greinargerð var samið af Ólafi Lárussyni prófessor (Alþt. 1922, A, bls. 137). Gerði frumvarpið ráð fyrir að texti hinna nýju laga yrði felldur inn í texta laga nr. 31/1911, og voru lögin þannig breytt gefin út sem lög um lausafjárkaup, nr. 39 frá 19. júní 1922. Frumvarpi því, sem Ólafur Lárusson samdi, fylgdu, auk örstuttra almennra athugasemda, aðeins athugasemdir við þær greinar laga nr. 31/1911 sem lagt var til að breytt yrði. Þetta hafði hins vegar þær afleiðingar að heildargreinargerð með íslensku kaupalögunum var aldrei samin. Með gildistöku laga nr. 39/1922 má segja að komist hafi á réttareining milli Íslands og annarra þjóða á Norðurlöndum á sviði kauparéttar. Hélst svo allt þar til gerðar voru breytingar á kaupalögum Dana, Svía og Norðmanna á árunum 1973–1979 í átt til aukinnar neytendaverndar og í kjölfar þess setning nýrra kaupalaga í Finnlandi (1987), Noregi (1988) og Svíþjóð (1989) svo sem nánar verður rakið síðar.
    Nýja kaupalagafrumvarpið hefur fimm meginmarkmið að leiðarljósi, þ.e. í fyrsta lagi að aðlaga íslenska viðskiptalöggjöf breyttum viðskiptaháttum og breyttri þjóðfélagsumgjörð, enda bráðum 80 ár frá lögfestingu gildandi kaupalaga, í öðru lagi að efla réttarstöðu neytenda, í þriðja lagi að tryggja norræna réttareiningu á sviði kauparéttar og í fjórða lagi að leiða í lög hér á landi efnisákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um sölu á vöru milli ríkja frá 1980, United Nations Convention for the International Sale of Goods (CISG). Æskilegt er að sem mest samræmi sé á milli þjóðlegra og alþjóðlegra reglna á sviði lausafjárkaupa. Ástæðan er m.a. sú að þeir sem viðskipti stunda geta þá fremur reitt sig á að svipaðar reglur gildi í megindráttum um sömu réttaratriðin, hvort sem kaupin gerast á innlendum eða erlendum vettvangi. Er hinu nýja frumvarpi ætlað að tryggja þetta. Í fimmta lagi hefur við undirbúning frumvarpsins verið litið til tilskipunar 99/44/EB um tilteknar hliðar á sölu vöru til neytenda og ábyrgðaryfirlýsingar í því sambandi, frá 25. maí 1999. Samkvæmt beinum ákvæðum tilskipunarinnar er aðildarríkjunum ekki skylt að leiða í lög ákvæði hennar fyrr en 1. janúar 2002, en þar sem efni hennar varðar frumvarpið þótti eðlilegt að tekið væri tillit til hennar nú þegar það er endurflutt á 125. löggjafarþingi.

3.     Almennt um þörfina fyrir endurskoðun laga nr. 39/1922, um lausafjárkaup.
    Óhætt er að segja að þjóðfélagsaðstæður hér á landi hafa breyst mjög mikið á þeim tæpu 80 árum sem liðin eru frá því að gildandi lög um lausafjárkaup voru lögfest. Auk þess sem þjóðfélagsumgjörðin hefur öll breyst hafa hinar miklu framfarir í tæknisviði einnig haft umtalsverð áhrif á verslun og viðskipti manna í milli. Í upphafi aldarinnar voru það einkum landbúnaðarafurðir, hráefni og aðrar undirstöðuvörur sem gengu kaupum og sölum manna í milli, en í dag eru það fyrst og fremst fjöldaframleiddar og sérhannaðar iðnaðarvörur sem eru ráðandi á markaðnum. Enn fremur hafa átt sér stað miklar breytingar við markaðssetningu á vörum. Dreifingarnetið er t.d. orðið flóknara, og þar koma oft margir aðilar við sögu sem semja sín á milli um einkarétt á dreifingu. Þetta getur í vissum tilvikum takmarkað mjög möguleika kaupandans á því að velja sjálfur við hvern hann verslar, og slíkt getur einnig takmarkað mjög möguleika hans á því að rekja vanefndir í kaupum til þess aðila sem upphaflega bar ábyrgð á henni. Þá er og til þess að líta að bættir samskiptamöguleikar hafa aukið möguleikana á verslun milli aðila sem búsettir eru á mismunandi stöðum, og enn fremur hafa bættar samgöngur aukið stórlega möguleikana til alþjóðlegra viðskipta. Loks hafa greiðari samskiptaleiðir einnig haft mikil áhrif á þær aðferðir sem menn beita við gerð samninga.
    Segja má að gildandi kaupalög hafi að ákveðnu marki lagað sig að þeirri samfélagsþróun sem hér var lýst, m.a. vegna þess hve lögin eru sveigjanleg í uppbyggingu sinni. Þá eru lögin frávíkjanleg, en það hefur aftur leitt til þess að venjur hafa myndast á ákveðnum sviðum viðskipta, og hefur þannig verið vikið frá ýmsum ákvæðum laganna í framkvæmd þeirra. Á hinn bóginn verður ekki fram hjá því horft að tilvist SÞ-samningsins hefur tvímælalaust aukið þörfina fyrir endurskoðun laganna, og áhrif í sömu átt hefur EES-samningurinn haft og reyndar einnig samningarnir um ESB. Þá verður einnig að telja að ný samnorræn kaupalög einfaldi mjög verslunarviðskipti milli ríkja á Norðurlöndum og að þau séu jafnframt til þess fallin að stuðla að því að gera Norðurlöndin að einsleitu markaðssvæði innan Evrópubandalagsins og hins Evrópska efnahagssvæðis.
    Mikilvægur þáttur í endurskoðun íslenskra kaupalaga hlýtur jafnan að vera að varðveita norræna réttareiningu á þessu mikilvæga sviði réttarins, en fyrir slíkri réttareiningu er löng hefð. Eins og síðar verður rakið hefur lengi verið samstarf með Norðurlandaþjóðunum um lagasetningu á sviði fjármunaréttar og þá ekki hvað síst á sviði samninga- og kauparéttarins. Markmiðið með því að hafa einsleitar reglur á Norðurlöndum er fyrst og fremst það að skapa einsleitan markað á þessu svæði, auðvelda samningagerð og skapa viðskiptaaðilum réttaröryggi við kaup, þannig að þeir geti jafnan vitað hvaða lög koma til með að gilda í lögskiptum þeirra. Ekki er nægjanlegt að líta til norrænnar réttareiningar einvörðungu, heldur verður einnig að líta til hins Evrópska efnahagssvæðis. Ísland og Noregur eru aðilar að EES- samningnum, en önnur ríki á Norðurlöndum eru aftur á móti aðilar að ESB. Þetta breytir þó ekki því að ætla verður að sömu eða svipaðar reglur komi í framtíðinni til með að gilda á EES- og ESB-svæðunum að því marki sem tilskipanir eða aðrar gerðir koma til með að verða settar þar um einstök atriði varðandi lausafjárkaup. Slíkar reglur hafa enn sem komið er ekki verið settar svo nokkru nemi, en búast má við breytingu í þeim efnum í framtíðinni. Loks ber þess að geta að öll aðildarríki ESB og EES eru aðilar að SÞ-samningnum, og eykur það enn á þörf Íslendinga til að fullgilda samninginn og leiða hann í lög. Um lýsingu á efni sáttmálans að öðru leyti vísast til þess sem síðar segir í athugasemdum þessum.

4.     Alþjóðlegt samstarf á sviði kauparéttar.
4.1.     Haag-samningarnir.
    Lengi vel var það skoðun manna á Norðurlöndum að reglur norrænu kaupalaganna frá upphafi aldarinnar væru í góðu samræmi við þær reglur sem almennt giltu í alþjóðlegum kaupum þótt frá því væru undantekningar að því er varðaði þau lönd sem byggja á engilsaxneskum lagahefðum. Eigi að síður fylgdust norrænu ríkin vel með því alþjóðlega samstarfi sem hófst um miðbik þessarar aldar og miðað hefur að því að koma á réttareiningu á sviði kauparéttarins í alþjóðlegum samskiptum, ýmist með samræmdum lagaskilareglum á þessu réttarsviði eða samræmdum efnisreglum.
     Árið 1955 var gerður alþjóðlegur samningur sem kenndur er við Haag í Hollandi og ber hann heitið Convention on the Law Applicable to International Sales of Goods. Meginregla samnings þessa er sú að aðilar kaupsamnings geta samið um það lögum hvaða lands beita skuli um kaup þeirra. Ef slíku samningsákvæði er ekki til að dreifa skal samkvæmt samningi þessum leggja til grundvallar lög í því ríki þar sem seljandinn hafði aðsetur þegar hann tók við pöntun varðandi kaupin. Ef útibú frá aðalstöðvum seljanda tók við pöntun skal miða við lög í því ríki þar sem útibúið er. Þá er einnig í samningnum að finna ákvæði um það lög hvaða lands skuli gilda varðandi skoðun á söluhlut og mörg fleiri atriði sem ekki er ástæða til að rekja frekar hér.
    Árið 1964 voru gerðir tveir alþjóðlegir samningar sem einnig eru kenndir við Haag. Annar þeirra ber heitið Convention Relating to a Uniform Law on the Formation of Contracts for the International Sale of Goods (skammstafað ULFIS), og hinn nefnist Convention Relating to a Uniform Law on the International Sale of Goods (skammstafað ULIS). Samningar þessi voru gerðir að frumkvæði stofnunar þeirrar í Róm sem starfar að samræmingu reglna á sviði einkaréttarins, The International Institute for Unification of Private Law (skammstafað UNIDROIT).
    Ísland hefur ekki gerst aðili að framangreindum samningum frá 1955 og 1964, og löggjöf hér á landi hefur ekki verið færð til samræmis við efni þeirra. Danir, Svíar, Finnar og Norðmenn hafa hins vegar gerst aðilar að samningnum frá 1955 og sett samhljóða lög um efni hans. Af öðrum Evrópuþjóðum, sem fullgilt hafa samning þennan, má nefna Ítali, Frakka, Svisslendinga og Belga. Á ráðstefnu sendierindreka, sem haldin var í Haag í Hollandi, var 30. október 1985 gengið frá nýjum samningi um sama efni og Haag- samningurinn frá 1955, en með breyttu efni. Óvíst er hins vegar hverja þýðingu sá samningur kemur til með að hafa í framtíðinni, m.a. vegna tilkomu SÞ-samningsins frá 1980. Samningarnir frá 1964 öðluðust formlega gildi árið 1972, en fá ríki hafa enn sem komið er fullgilt þá. Þau eru Belgía, Þýskaland, Stóra-Bretland, Gambía, Ísrael, Ítalía, Holland og San Marínó sem öll fullgiltu ULIS-samninginn, og flest þeirra hafa einnig fullgilt ULFIS- samninginn. Aðild fimm ríkja var skilyrði fyrir gildistöku samninga þessara og þær þjóðir, sem fullgilt hafa samningana, hafa einnig lögfest efnisreglur þeirra.

4.2.     SÞ-samningurinn.
    Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti í desember 1966 ályktun þess efnis að sett skyldi á laggirnar sérstök nefnd á vegum samtakanna sem hafa skyldi það hlutverk að efla og styrkja samræmingu alþjóðlegrar viðskiptalöggjafar. Nefndin, sem tók til starfa skömmu síðar, var kölluð The United Nations Commission on International Trade (UNCITRAL) og hefur hún aðsetur í Vínarborg í Austurríki. Hún fékk það verkefni að undirbúa gerð áðurnefnds alþjóðasamnings um kaup, þ.e. SÞ-samninginn frá árinu 1980. Gerð þess samnings tók tæpa tvo áratugi, og hafði sú vinna það m.a. að markmiði að koma fram með nýjan samning á þessu réttarsviði sem leyst gæti af hólmi Haag samningana frá 1964.
    Fyrstu drög hins nýja samnings voru kynnt árið 1974 og endurskoðaðar gerðir voru kynntar árin 1975, 1976, 1977 og 1978. Að gerð þessara samningsdraga vann starfshópur skipaður fulltrúum 14 ríkja sem tilheyrðu mismunandi réttarkerfum. Drögin voru rædd á þingum UNCITRAL og voru þau samþykkt á þingi stofnunarinnar árið 1978. Eftir það boðaði allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna til alþjóðlegrar ráðstefnu sem haldin var vorið 1980 í Vínarborg í Austurríki þar sem saman komu fulltrúar 62 ríkja og átta alþjóðastofnana. Á ráðstefnunni var gengið frá nýjum samningi um alþjóðleg lausafjárkaup, þ.e. CISG. Ráðstefnan hófst 10. mars 1980 og lauk henni 11. apríl sama ár. Undirbúningsvinna ráðstefnunnar fór að mestu fram í tveimur starfsnefndum. Hafði önnur það hlutverk að semja drög að efnisreglum, en hin samdi drög að lokaákvæðum samningsins. Við lok ráðstefnunnar voru drögin sameinuð og fram fór atkvæðagreiðsla um hverja einstaka grein og að því loknu atkvæðagreiðsla um samninginn í heild sinni. Var hann samþykktur á ráðstefnunni án verulegra athugasemda eða efnisbreytinga.
    Í 99. gr. SÞ-samningsins eru ákvæði um gildistöku hans. Þar kemur fram að hann öðlast gildi fyrsta dag þess mánaðar þegar liðnir eru tólf mánuðir frá því að 10 ríki hafa afhent framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna skjöl um fullgildingu eða samþykki hans. Þessu marki var náð 1. janúar 1988, en þá höfðu m.a. Bandaríkin, Argentína, Egyptaland, Frakkland, Ítalía, Júgóslavía, Kína, Lesótó, Sýrland, Ungverjaland og Zambía fullgilt samninginn. Finnland og Svíþjóð gerðust aðilar að samningnum 15. desember 1987, Noregur 20. júlí 1988 og Danmörk 14. febrúar 1989. Hinn 30. september 1998 voru aðildarríkin 53. Þótt SÞ-samningurinn hafi formlega séð ekki verið endurskoðun á Haag samningunum frá 1964 er honum eigi að síður í framtíðinni ætlað það hlutverk að vera eina réttarheimildin við úrlausn ágreiningsefna á sviði alþjóðlegra kaupa. Sést þetta m.a. á því að í 99. gr. samningsins er gert ráð fyrir að þær þjóðir, sem gerst hafa aðilar að samningnum og eru jafnframt aðilar að Haag-samningunum, skuli segja upp síðarnefnda samningnum. Einnig kemur þetta fram í því að í SÞ-samningnum er að finna efnisreglur sem ætlað er að leysa af hólmi efnisákvæði beggja Haag-samninganna frá 1964, þ.e. bæði ULFIS og ULIS. Í heild má því segja að reglur SÞ-samningsins séu bæði skýrari og afmarkaðri en reglur Haag- samninganna frá 1964 þótt á þeim hafi vissulega verið byggt í mörgum atriðum.

4.3.     Nánar um SÞ-samninginn.
    SÞ-samningurinn gildir um alþjóðleg lausafjárkaup, þ.e. kaup á lausafjármunum þar sem aðilar hafa atvinnustöð sína í mismunandi ríkjum og bæði ríkin eru aðilar að samningnum, eða þegar reglur alþjóðlegs einkamálaréttar leiða til þess að beita ber kauparéttarreglum eins samningsríkjanna. Neytendakaup og ákveðnar aðrar tegundir kaupa, t.d. kaup á skipum og loftförum, falla utan gildissviðs samningsins. Utan gildissviðs hans falla einnig álitaefni er varða gildi kaupsamnings og afstöðuna gagnvart þriðja manni, t.d. afstöðuna gagnvart fyrri söluaðila og gagnvart þrotabúi aðila. Ákvæði samningsins eru þar að auki frávíkjanleg, þ.e. aðilar geta samið um aðrar reglur en þær sem leiðir af samningnum.
    SÞ-samningurinn er í fjórum hlutum. Í I. hluta eru reglur um gildissvið hans og almenn ákvæði. Þar eru reglur um túlkun samningsins, yfirlýsingar aðila og athafnir þeirra. Einnig er þar fjallað um þýðingu verslunarvenju og við hverja af fleiri atvinnustöðvum skuli miða við beitingu samningsins. Meginregla SÞ-samningsins er sú að kaupsamningar eru óformbundnir, en um það má gera fyrirvara. Í II. hluta eru nánari reglur um samningsgerðina, m.a. um gerð og afturköllun tilboðs og samþykkis.
    Efnisreglur um kaup er að finna í III. hluta SÞ-samningsins, en hann skiptist í fimm kafla sem hér verður gerð nánari grein fyrir. Í 1. kafla í III. hluta eru almennar reglur um kaup. Þar er m.a. að finna almenna skilgreiningu á því hvað telja beri verulega vanefnd og einnig eru þar reglur um hver skuli bera áhættuna af sendingu tilkynninga til gagnaðila. Í 2. kafla eru reglur um skyldur seljanda, bæði að því er varðar afhendingu á réttum tíma og um galla, og skiptist kafli þessi upp í þrjá undirkafla. Í undirkafla 1 eru reglur um afhendingu söluhlutar og afhendingu skjala. Í undirkafla tvö eru nánari reglur um ástand söluhlutar og um rannsóknar- og tilkynningarskyldu kaupanda, auk reglna um hvað teljast skuli réttarágallar. Í undirkafla 3 eru ákvæði um úrræði vegna vanefnda seljanda, m.a. sameiginleg ákvæði um bæði greiðsludrátt og galla, og reglur um heimild kaupanda til að krefjast úrbóta og um heimildir hans til að setja viðbótarfrest. Einnig eru þar reglur um riftun og afslátt af kaupverði. Ákvæðin í 3. kafla í III. hluta fjalla um skyldur kaupanda. Þar eru ákvæði um greiðslu kaupverðs, undirkafli 1, og um skyldu kaupanda til að veita hlut viðtöku, undirkafli 2. Í skyldu kaupanda til þess að veita hlut viðtöku felst bæði að taka á móti hlut og gera allar þær ráðstafanir sem með sanngirni má krefjast af honum til að gera seljanda kleift að afhenda. Í undirkafla 3 eru reglur um úrræði seljanda í tilefni vanefnda af hálfu kaupanda. Þeim úrræðum má beita þegar kaupandi hvorki greiðir kaupverð né veitir söluhlut viðtöku og þegar hann vanefnir aðrar skyldur sínar (aukaskyldur). Ákvæðin veita seljanda rétt til að þess að krefjast efnda, riftunar og skaðabóta. Einnig eru reglur um heimild seljanda til að setja kaupanda viðbótarfrest til að efna skyldur sínar. Í 4. kafla í III. hluta eru reglur um áhættuskipti, og í 5. kafla eru sameiginleg ákvæði um skyldur seljanda og kaupanda. Í undirkafla 1 í 5. kafla eru ákvæði um fyrirsjáanlega vanefnd og samninga þar sem afhenda á hið selda smátt og smátt. Í undirkafla 2 eru reglur um útreikning skaðabóta, í undirkafla 3 eru reglur um vexti og í undirkafla 4 eru reglur um ástæður sem leysa undan skaðabótaábyrgð og um umönnun söluhlutar. Aðalreglan um skaðabótaábyrgð er sú að aðili ber ekki ábyrgð á vanefndum á skyldum sínum ef hann sannar að þær má rekja til hindrunar sem hann réði ekki við. Í undirkafla 5 eru reglur um áhrif riftunar.
    Í IV. hluta SÞ-samningsins eru lokaákvæði hans. Þar eru m.a. reglur um heimildir til að gera fyrirvara varðandi tiltekin ákvæði samningsins. Þannig getur ríki t.d. skv. 92. gr. gert fyrirvara varðandi II. hluta samningsins um samningsgerð eða varðandi III. hluta um kaup. Sérstaka þýðingu fyrir norrænu löndin hefur sá kostur að gera fyrirvara samkvæmt ákvæðum 94. gr. (nágrannalandaákvæðið). Samkvæmt þessu ákvæði geta eitt eða fleiri ríki, sem hafa sömu eða svipaðar réttarreglur á því sviði sem samningurinn tekur til samþykkt að samningurinn skuli ekki gilda milli aðila sem hafa atvinnustöð sína í þessum löndum. Enn fremur getur ríki samkvæmt ákvæðum 95. gr. samningsins gert fyrirvara um það að samningurinn skuli aðeins gilda milli aðila sem hafa atvinnustöð í ríkjum sem eru aðilar að samningnum. Ef ekki er gerður slíkur fyrirvari gildir samningurinn, jafnvel þótt aðeins annað ríkjanna hafi gerst aðili að honum, þegar reglur alþjóðlegs einkamálaréttar leiða til þess að leggja ber lög þess ríkis til grundvallar.
    Á þessu löggjafarþingi verður lögð fyrir Alþingi tillaga til þingsályktunar um staðfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um sölu á vöru milli ríkja. Samningurinn mun fylgja þingsályktunartillögunni.

5.     Norrænt löggjafarsamstarf á sviði kauparéttar.
5.1.     Skipun norrænnar sérfræðinganefndar árið 1901.
    Fyrir gildistöku norrænu kaupalaganna á fyrri hluta þessarar aldar voru réttarreglur Norðurlandaþjóðanna um lausafjárkaup að mörgu leyti ófullkomnar og ósamstæðar. Lög þau um lausafjárkaup, sem Svíar, Norðmenn og Danir settu sér á fyrstu árum þessarar aldar, urðu til í samvinnu sérfræðinganefnda sem settar voru á laggirnar að frumkvæði stjórnvalda í löndum þessum árið 1901, en í nefndunum áttu sæti bæði lögfræðingar og fulltrúar viðskiptalífsins. Á þessum tíma var mikil samvinna meðal Norðurlandaþjóðanna um setningu samræmdrar löggjafar á ýmsum sviðum sem síðar leiddi til þess að lögfestir voru í löndum þessum lagabálkar á mörgum þýðingarmiklum sviðum réttarins. Það voru í reynd sænsk stjórnvöld sem áttu frumkvæði að samvinnu norrænu þjóðanna um samningu kaupalaga í upphafi aldarinnar, en þegar árið 1894 hafði sænsk nefnd, sem stjórnvöld þar í landi skipuðu, samið frumvarp til laga um kaup og skipti, en það frumvarp varð reyndar ekki að lögum.
    Við undirbúning að setningu norrænna laga um lausafjárkaup í upphafi aldarinnar leituðust norrænu samstarfsnefndirnar m.a. við að hafa ákvæði frumvarpanna með þeim hætti að þau væru í sem bestu samræmi við viðskiptahætti í löndum þessum. Þá var og við lagasmíðina reynt að taka mið af ýmsum eldri kauparéttarákvæðum í norrænni löggjöf, auk þess sem litið var til nýlegra ákvæða í kauparéttarlöggjöf ýmissa Evrópuríkja, t.d Þjóðverja. Var eftir fremsta megni leitast við að semja heildarstæðar reglur um helstu efnisatriði á sviði kauparéttarins þótt reglunum væri engan veginn ætlað að vera tæmandi. Fyrst og fremst var það markmiðið að samræma rétt norrænu þjóðanna á þessu sviði, þannig að kaupalög þeirra gætu orðið sem næst samhljóða. Í upphafi mun ætlunin hafa verið að hafa ákvæði um gerð kaupsamninga í kaupalagafrumvörpunum, en frá því var horfið, og voru síðar settir sérstakir lagabálkar um það efni, þ.e. samnorrænu samningalögin, sbr. hér á landi lög nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, með síðari breytingum.
    Kaupalaganefndirnar, sem skipaðar voru í Danmörku, Noregi og Svíþjóð í upphafi aldarinnar, luku að mestu störfum árið 1903, og voru frumvörp þeirra kynnt skömmu síðar. Var frumvörpunum yfirleitt ágætlega tekið, bæði meðal hagsmunaaðila og á þjóðþingum landanna. Í Svíþjóð voru kaupalög, sem byggðu á þessum samnorræna grunni, lögfest árið 1905, í Danmörku árið 1906, í Noregi árið 1907 og á Íslandi árið 1922. Á þessum tíma var stjórnskipuleg staða Finnlands hins vegar slík að Finnar gátu ekki tekið þátt í lagasamstarfi þessu, og voru kaupalög ekki lögfest í Finnlandi fyrr en árið 1987 og þá í kjölfar samnorræns endurskoðunarstarfs.
    Eins og nánar verður rakið síðar stóðu norrænu kaupalögin frá fyrsta áratug þessarar aldar óbreytt í áratugi. Í Svíþjóð voru árið 1973 sett lög um neytendakaup, en ákvæði þeirra laga þrengdu efni margra ákvæða í almennu kaupalögunum. Í Noregi var árið 1974 gerð breyting á norsku kaupalögunum sem aðallega fólst í því að ýmis ákvæði laganna voru gerð ófrávíkjanleg í neytendakaupum, nema þar sem undanþágan var neytandanum til hagsbóta. Svipuð lagabreyting var gerð í Danmörku árið 1979, en þá var nýjum kafla um neytendakaup bætt við lögin, þ.e. 72.–86. gr. Í Finnlandi voru árið 1978 sett sérstök lög um neytendavernd, en í 5. kafla þeirra laga er m.a. að finna ákvæði um neytendakaup.

5.2.     Skipun sérfræðinganefndar árið 1962.
    Á 22. norræna lögfræðingamótinu, sem haldið var í Reykjavík árið 1960, voru að frumkvæði Finna ræddar hugmyndir um endurskoðun norrænu kaupalaganna frá upphafi aldarinnar. Skömmu áður (1957) hafði Knut Rodhe birt hugleiðingar um það efni í tímariti finnskra lögfræðinga. Fljótlega eftir lögfræðingamótið í Reykjavík komst fyrir alvöru hreyfing á mál þetta því árið 1961 var í Finnlandi skipuð nefnd til að semja frumvarp til kaupalaga, en af ástæðum þeim, sem áður er frá greint, tóku Finnar ekki þátt í samstarfi norrænu ríkjanna við upphaf aldarinnar um setningu samnorrænna kaupalaga.
    Árið 1962 skipuðu dómsmálaráðherrar Svíþjóðar, Danmerkur og Noregs nefnd sem vinna skyldi ásamt fulltrúum frá finnska dómsmálaráðuneytinu að athugun á því hvort tímabært væri að endurskoða norrænu kaupalögin og eftir atvikum koma fram með nýtt frumvarp í þeim efnum. Nefndarstarfi þessu seinkaði af ýmsum ástæðum, m.a. vegna tilkomu Haag- samninganna frá 1964 og umræðu sem hófst um líkt leyti um þörfina fyrir lögfestingu sérstakra ófrávíkjanlegra reglna um neytendakaup. Á sameiginlegum fundi norrænu kaupalaganefndanna í Stokkhólmi árið 1965 lagði finnska kaupalaganefndin fram drög að frumvarpi til kaupalaga, sem samstaða náðist í sjálfu sér um, en endurskoðunarstarfinu var þó haldið áfram.
    Árið 1967 var skipulagi og starfsemi norsku, sænsku og dönsku kaupalaganefndanna komið í fastara form. Það ár var í Noregi skipuð ný nefnd sérfræðinga til að endurskoða norsku kaupalögin, og hið sama var einnig gert í Danmörku og Svíþjóð árið 1967. Tæpum tíu árum síðar eða á árinu 1976 sendu norsku og sænsku nefndirnar hvor um sig frá sér tillögur sínar, sbr. norska álitið NOU 1976:34 og sænska álitið SOU 1976:66. Á árinu 1973 kynnti finnska kaupalaganefndin drög að frumvarpi til kaupalaga ásamt greinargerð sem að meginstefnu til byggðist á efni og efnisskipan norrænu kaupalaganna frá upphafi aldarinnar þótt nokkur nýmæli væri þar einnig að finna. Árið 1975 skipaði finnska dómsmálaráðuneytið enn á ný nefnd sem endurskoða skyldi frumvarpsdrögin frá 1973, og lagði hún til árið 1977 að frumvarpsdrögunum yrði breytt í ýmsum atriðum þótt ekki væri þar gert ráð fyrir neinum grundvallarbreytingum. Má segja að finnska frumvarpið hafi í öllum aðalatriðum haft að geyma sömu efnisreglur og voru í sænsku, dönsku og norsku tillögunum þótt framsetning væri með nokkuð öðrum hætti.
    Tillögur norrænu nefndanna á þessum tíma byggðu í aðalatriðum á efni norrænu kaupalaganna frá upphafi aldarinnar þótt ákveðnar breytingar væru lagðar til. Nefndarálitin voru send til umfjöllunar og umsagnar hjá ýmsum hagsmunaðilum, en ekki kom til lagabreytinga í kjölfar þeirra þar sem ákveðið var að bíða eftir niðurstöðum þeirrar vinnu sem þá var hafin á vegum Sameinuðu þjóðanna um gerð alþjóðlegs samnings um lausafjárkaup. Þó voru í hinum einstöku löndum kynntar tillögur að ófrávíkjanlegum reglum um neytendakaup og neytendavernd eins og áður hefur verið drepið á. Má að því er Danmörk varðar vísa til Betænkning om forbrugerköb nr. 845/1978 og hvað Svíþjóð viðvíkur til greinargerðar í SOU 1976:66. Í Svíþjóð voru árið 1973 sett lög um neytendakaup. Í Noregi var árið 1974 gerð breyting á norsku kaupalögunum sem aðallega fólst í því að ýmis ákvæði laganna voru gerð ófrávíkjanleg í neytendakaupum, nema þar sem undanþágan var neytandanum til hagsbóta. Í Finnlandi voru sett sérstök lög um neytendavernd árið 1978, og dönsku tillögurnar um nýjar reglur í neytendakaupum voru eins og fyrr segir lögfestar árið 1979 með þeim hætti að bætt var nýjum kafla um neytendakaup við kaupalögin frá 1906.

5.3.     Skipun sérfræðinganefndar árið 1980.
    Eftir samþykkt SÞ-samningsins um alþjóðleg lausafjárkaup 11. apríl 1980 varð um það sammæli meðal norrænna ríkja að hefja skyldi á nýjan leik endurskoðun norrænu kaupalaganna. Á fundi norrænna dómsmálaráðherra sem haldinn var í Helsinki 10. júní 1980, var komið á laggirnar samnorrænum vinnuhópi sem fékk það verkefni að kanna möguleika þess að setja samræmd kaupalög fyrir Danmörku, Noreg, Svíþjóð og Finnland. Vinnuhópurinn fékk einnig það verkefni að kanna afstöðu norrænu landanna til SÞ- samningsins. Í vinnuhópnum áttu sæti þrír fulltrúar frá Danmörku, þrír frá Finnlandi, þrír frá Svíþjóð, en fjórir fulltrúar frá Noregi, auk áheyrnarfulltrúa frá Íslandi, sem tóku þátt í starfi vinnuhópsins um nokkurt skeið frá árinu 1982, en þó ekki samfellt. Í tengslum við starf norræna vinnuhópsins voru settir upp vinnuhópar í hinum einstöku löndum, þ.e. í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi.
    Á fundi vinnuhópsins í Helsinki, sem haldinn var 12.–13. nóvember 1980, var gengið frá skýrslu til dómsmálaráðherra landanna þar sem ákveðið var að mæla með því að norrænu löndin gerðust aðilar að SÞ-samningnum. Jafnframt var mælt með því að gerður yrði fyrirvari varðandi II. hluta samningsins um samningsgerðina, og var SÞ-samningurinn með þessum fyrirvörum undirritaður af Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð 26. maí 1981. Í skýrslu vinnuhópsins kom einnig fram að æskilegt væri að setja samnorræn kaupalög sem yrðu í samræmi við SÞ-samninginn, en til þess þyrfti lengri tíma. Skýrsla vinnuhópsins var til umfjöllunar á fundi dómsmálaráðherra Norðurlanda sem haldinn var í Ósló 25. nóvember 1980. Þar var samþykkt að vinnuhópurinn skyldi halda áfram starfi sínu og semja frumvarp til nýrra samnorrænna kaupalaga. Vinnuhópurinn hélt í framhaldi af þessu allmarga fundi, og kom það í hlut Finnlands að halda utan um vinnuna, þ.m.t. að sjá um samningu greinargerðar með frumvarpinu, en í þeim efnum var haft náið samband við fulltrúa annarra ríkja í vinnuhópnum. Vinnuhópurinn hélt síðasta fund sinn í Helsinki 29.–30. október 1984, og voru tillögur að nýjum kaupalögum eins og áður segir lagðar fram og kynntar í samnorrænu nefndaráliti, NU 1984:5.
    Norræni vinnuhópurinn athugaði það gaumgæfilega hvaða áhrif reglur SÞ-samningsins frá 1980 ættu að hafa á efni nýrra norrænna kaupalaga. M.a. var um það rætt hvort ekki væri hægt að hafa norrænu kaupalögin svo samhljóða að ónauðsynlegt væri að lögtaka SÞ- samninginn sérstaklega. Nýjum norrænum kaupalögum var samkvæmt þessu sjónarmiði ætlað að vera allt í senn þjóðleg, samnorræn og alþjóðleg. Það reyndist hins vegar ekki létt að hrinda hugmyndum um margþætt eðli norrænna kaupalaga í framkvæmd, enda hefur SÞ- samningurinn að geyma ýmis ákvæði sem ekki falla að norrænum viðhorfum á sviði kauparéttar. Staðan var í reynd sú, ef lögtaka átti norræn kaupalög sem einnig skyldu gilda um alþjóðleg kaup, að í slíkum lögum hefði þurft að gera margvíslegar undantekningar sem giltu aðeins í alþjóðlegum kaupum, en þær undantekningar hefðu að mati margra gert lögin óþarflega flókin í allri framsetningu. Við þetta bættist að fram kom ósk frá samtökum norrænna atvinnurekenda þess efnis að samningurinn yrði staðfestur í heild sinni, en til grundvallar þeirri afstöðu lá það sjónarmið að mun auðveldara væri fyrir viðskiptaaðila að átta sig á ákvæðum samningsins ef samningurinn væri lögtekinn á þann hátt, auk þess sem slík aðferð væri hagkvæmari með tilliti til alþjóðlegra viðskipta.

5.4.     Árangurinn af starfi norræna sérfræðingahópsins sem skipaður var árið 1980.
    Í Finnlandi og Svíþjóð varð niðurstaðan sú að sett voru sérstök lög sem gilda þegar um alþjóðleg kaup er að ræða og byggjast þau á SÞ-samningnum. Samhliða voru sett í þessum löndum önnur sjálfstæð lög sem gilda þegar um kaup innlendra aðila er að ræða. Finnsku kaupalögin eru nr. 355 frá 27. mars 1987, og sænsku lögin voru samþykkt 30. maí 1990, birt 6. september 1990 og öðluðust gildi 1. janúar 1991. Í Danmörku voru einnig sett sérstök lög sem gilda þegar um alþjóðleg kaup er að ræða, þ.e. International köbelov, 1988-12-07-L. 733. Í Danmörku hefur hins vegar verið frestað gildistöku almennra (þjóðlegra) kaupalaga, og búa Danir því enn við kaupalögin frá 1906 þegar um kaup innlendra aðila er að ræða. Í Noregi voru hins vegar lögtekin kaupalög sem eru í senn bæði þjóðleg og alþjóðleg, þ.e. Lov om kjöp av 13. mai 1988 nr. 27. En með þeim frávikum, sem hér voru nefnd, leitaðist norræni vinnuhópurinn við, að svo miklu leyti sem unnt var, að samræma norræn kaupalög SÞ-samningnum. Í Danmörku var enn fremur skoðað í þessu sambandi hvort sérreglur um neytendakaup ætti að fella inn í ný samnorræn kaupalög eða hvort setja ætti um þau sjálfstæð neytendakaupalög. Kosturinn við sjálfstæð lög þótti sá að auðveldara væri fyrir neytendur og aðra að fá yfirlit yfir reglurnar með þeim hætti. Ókosturinn væri hins vegar sá að sérstök neytendakaupalög hefðu óhjákvæmilega að geyma margar endurtekningar á ákvæðum almennra kaupalaga. Niðurstaðan varð sú að frestað var gildistöku nýrra kaupalaga en bætt inn í gildandi lög ákvæðum um neytendakaup. Noregur valdi á hinn bóginn þá leið að fella reglurnar um neytendakaup í almennu kaupalögin, en Finnland og Svíþjóð halda þessu tvennu aðskildu eins og áður er fram komið í athugasemdum þessum.
    Frumvarp til nýrra norrænna kaupalaga ásamt greinargerð var birt í samnorrænni greinargerð, þ.e. NORDISKA KÖPLAGAR, NU 1984:5. Eftir útgáfu nefndarálitsins var það til umfjöllunar hjá mörgum stofnunum og hagsmunaaðilum í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Á grundvelli athugasemda sem bárust gerði norræni vinnuhópurinn ýmsar breytingar á upphaflegum tillögum sínum. Árangurinn varð síðan sá, eins og áður segir, að í Finnlandi voru almenn kaupalög lögtekin á þessum grundvelli árið 1987, í Noregi árið 1988 og í Svíþjóð árið 1990, en Danmörk og Ísland hafa enn ekki gert breytingar á sínum kaupalögum. Eftir að samningu norræna nefndarálitsins lauk ráðgerðu Danir að setja ný kaupalög í anda hins norræna samstarfs ekki seinna en á þinginu 1992–93, en af því varð ekki. Ástæður þess dráttar, sem varð í Danmörku, er fyrst og fremst að rekja til þess að um það leyti sem vinnu við samnorræna nefndarálitið lauk ákvað framkvæmdastjórn ESB að leggja fram tillögu að tilskipun sem varðar neytendakaup, þ.e. „Directive of the European Parliament and of the Council on the sale of consumer goods and associated guarantees“. Danmörk var á þessum tíma eina ríkið á Norðurlöndum sem átti aðild að ESB, og var því þar í landi ákveðið að doka við með setningu nýrra kaupalaga og bíða eftir nýrri tilskipun um þetta efni sem enn hefur ekki verið sett.
    
6.     Meginatriði í áliti samnorræna vinnuhópsins, sbr. NU 1984:5.
6.1.     Almennt um norræna nefndarálitið.
    Í tillögum sínum byggði norræni vinnuhópurinn, sem skipaður var árið 1980, að hluta til á SÞ-samningnum og þeim tillögum til nýrra norrænna kaupalaga sem settar höfðu verið fram á árinu 1976. Eftir fremsta megni var reynt að ná samræmi í löggjöf þeirra ríkja sem aðild áttu að vinnuhópnum, og varð samkomulag um öll helstu efnisatriði nýrra kaupalaga þótt ekki næðist það markmið að koma fram með tillögur um lagafrumvörp sem væru í öllu tilliti efnislega samræmd. Vinnuhópurinn lagði einnig mikla áherslu á samræmi í framsetningu efnisákvæðanna, þ.e. að um sama álitaefnið væri fjallað í sömu greinum frumvarpanna, þ.e. að þau væru „parallell“, og tókst það að mestu. Þó eru nokkur frávik frá þessu í danska frumvarpstextanum, en hvað norska textann varðar eru einungis frávik hvað varðar reglur 56. og 57. gr., þ.e. varðandi afhendingu í áföngum og um skaðabætur.
    Tillögur vinnuhópsins til samnorrænna kaupalaga, sbr. NU 1984:5, fólu í sér nokkur frávik frá þágildandi reglum norræns kauparéttar, bæði hvað varðar form og efni. Þar var m.a. gert ráð fyrir því að afnuminn yrði munurinn á tegundarkaupum og einstaklega ákveðnum kaupum. Í finnsku, norsku og sænsku frumvarpstextunum voru að auki sérstakar reglur fyrir hvert land varðandi skaðabótaábyrgð seljanda, um rétt kaupanda til riftunar og um rétt hans til að krefjast nýrrar afhendingar í pöntunarkaupum. Í frumvarpi vinnuhópsins var einnig lagt til að afnuminn yrði munurinn á almennum kaupum og verslunarkaupum þótt við túlkun ýmissa reglna frumvarpsdraganna skyldi eigi að síður heimilt að taka tillit til þess hvort aðilar samnings störfuðu að viðskiptum eður ei. Í samanburði við þágildandi rétt var það nýmæli í norska frumvarpstextanum að settar voru sérstakar reglur um vanefndir aukaskyldna af hálfu seljanda og kaupanda. Einnig var þar gert ráð fyrir ýmsum nýjum reglum, m.a. um viðbótarfresti og réttarágalla, og almennri reglu um mildun ábyrgðar og um kröfur á hendur fyrri söluaðila. Skaðabótareglum var auk þess breytt með hliðsjón af fyrirmynd úr fyrrgreindum SÞ-samningi.
    Þótt efnisreglurnar væru í aðalatriðum þær sömu í norrænu frumvarpstextunum hafði norska frumvarpið eigi að síður að geyma sérlausnir um ýmis atriði sem ekki var að finna í frumvarpstextum hinna landanna. Þetta byggðist m.a. á því að norska frumvarpinu var ætlað gilda í alþjóðlegum kaupum, og er þeirri stefnu einnig fylgt í frumvarpi því sem hér liggur fyrir. Í norska frumvarpinu var því meiri þörf á fyllri samræmingu við ákvæði SÞ- samningsins en í frumvörpum hinna landanna. Í norska frumvarpinu var farin sú leið að leggja til reglur á einstökum sviðum sem voru ítarlegri og fyllri en í hinum frumvörpunum. Í þessu fólst þó ekki að frumvörpin væru í raun ólík, heldur var fyrst og fremst um það að ræða að settar voru fram reglur um ýmis atriði sem ella hefði þurft að komast að niðurstöðu um með túlkun, en hin frumvörpin létu ósagt um. Dæmi þessa má í frumvarpi því, sem hér liggur fyrir og fylgir hinni norsku fyrirmyndi, m.a. sjá í 2. mgr. 12., 17., 2. mgr. 22., 3. mgr. 22., 2. mgr. 25., 3. mgr. 29., 3. mgr. 36., 2. mgr. 38., 2. mgr. 44., 3. mgr. 54., 3. mgr. 58., 2. mgr. 66., 2. mgr. 71., 2. mgr. 72. og 87. gr., og vísast til nánari skýringa um þessi atriði í athugasemdum við hinar tilvitnuðu greinar.

6.2.     Nánar um norrænu tillögurnar.
    Í I. kafla norska frumvarpstextans eru ákvæði um gildissvið nýrra kaupalaga, og þar kemur fram að lögin skuli gilda um kaup og skipti. Þar er einnig á því byggt að til viðbótar því að gilda um kaup á almennu lausafé skuli lögin enn fremur gilda um kaup á kröfum og öðrum réttindum, en fasteignakaupum er haldið utan við umfjöllunina. Dönsku og norsku frumvörpin ná og til neytendakaupa. Í Svíþjóð eru hins vegar í gildi sérstök lög sem gilda um það efni, og í Finnlandi eru í gildi sérstök lög um neytendavernd sem gilda í neytendakaupum, og hefur áður verið gerð grein fyrir þessum atriðum. Í norska frumvarpinu var, eins og áður hefur verið rakið, einnig á því byggt að lögin gildi í alþjóðlegum kaupum sem SÞ-samningurinn nær til, en slík ákvæði var hins vegar ekki að finna í frumvarpstextum Dana, Svía og Finna. Í tillögum vinnuhópsins var gert ráð fyrir að kaupalögin skyldu vera frávíkjanleg. Í dönsku og norsku frumvarpstextunum var hins vegar á því byggt að flest ákvæðin væru ófrávíkjanleg í neytendakaupum.
    Í II. kafla norska frumvarpsins voru reglur um afhendingu söluhlutar, og voru þau ákvæði í öllum aðalatriðum í samræmi við þágildandi norrænan rétt. Þó var gert ráð fyrir breytingu á þeim reglum þágildandi réttar, að reglunum um staðarkaup skyldi einnig beita, þótt hlutur væri afhentur utan staðarins, ef afhendingin átti sér stað innan þess svæðis, þar sem seljandi venjulega afhendir slíkan hlut. Að auki voru sérreglur um neytendakaup, sbr. 4. mgr. 7. gr. Um áhættuskipti var fjallað í III. kafla frumvarpstextanna, og voru þeir kaflar í aðalatriðum í samræmi við ákvæði þágildandi réttar. Jafnframt var gert ráð fyrir sérreglu um áhættuskipti í neytendakaupum þegar söluhlutur ferst af tilviljun, sbr. 2. mgr. 13. gr. Í IV. kafla voru reglur um eiginleika söluhlutar, galla o.fl. Meginreglan var sú að söluhlutur skyldi hafa þá eiginleika til að bera sem samningurinn gerði ráð fyrir. Að auki voru reglur um það hvað teldist galli þegar gefnar eru misvísandi upplýsingar eða þegar seljandi vanrækir upplýsingaskyldu sína. Þá voru reglur um það hvað teldist vera réttarlegur ágalli.
    Reglur um heimildir kaupanda í tilefni vanefnda af hálfu seljanda voru í V. kafla. Fyrstar komu reglur um afleiðingar greiðsludráttar af hálfu seljanda. Kaupandi skyldi þá geta valið milli þess annars vegar að krefjast efnda og þess hins vegar að rifta kaupum. Að auki skyldi kaupandi geta krafist skaðabóta. Kaupandi skyldi einnig geta beitt þessum úrræðum, eftir því sem við gæti átt, varðandi vanefndir seljanda á aukaskyldum, t.d. vegna vanefnda seljanda á því að setja hlut upp eða vátryggja hann. Rétturinn til þess að krefjst efnda gilti ekki ef um var að ræða hindrun sem seljandi gat ekki yfirunnið. Sama skyldi einnig gilda ef um væri að ræða tilvik þar sem efndir hefðu í för með sér mikið óhagræði eða ótilhlýðilegan kostnað í samanburði við efndahagsmuni kaupanda. Þótt ekki væri fullnægt skilyrðum kaupanda til þess að krefjast efnda gat hann krafist skaðabóta.
    Það skyldi vera meginregla að kaupandi gæti því aðeins rift að greiðsludráttur hefði í för með sér verulega vanefnd á samningsskyldunum. Því til viðbótar mætti krefjast riftunar ef efndir hefðu ekki farið fram innan hæfilegs tíma frá ákveðnum viðbótarfresti sem kaupandi hefði sett. Að auki skyldu gilda sérreglur um riftun í pöntunarkaupum. Seljandi skyldi vera bótaskyldur ef hann sannaði ekki að um væri að ræða greiðsludrátt sem rekja mætti til hindrunar sem hann gat ekki yfirunnið og atvik væru með þeim hætti að ekki væri með sanngirni hægt að ætlast til að hann hefði haft þau í huga við samningsgerð eða gæti losnað undan eða yfirunnið afleiðingarnar af. Ákvæðið átti sér fyrirmynd í 79. gr. SÞ-samningsins um undanþágu ábyrgðar. Ef greiðsludrátt var að rekja til þriðja manns, sem seljandi hefði í heild eða að hluta falið að efna samninginn, var seljandinn laus úr ábyrgð ef greiðsludrátturinn var utan þess sem seljandinn og þriðji maður gátu ráðið við. Samkvæmt norska frumvarpstextanum átti þetta þó ekki við um ábyrgð seljanda á almennum undirafhendingaraðila ( underleverandör). Ábyrgð seljanda í slíkum tilvikum skyldi fara eftir hinni almennu stjórnunarreglu ( kontrollansvarsregel). Lagt var til að stjórnunarreglan væri sveigjanleg, og við beitingu hennar skyldi heimilt að taka tillit til mismunandi eðlis kaupsamninga. Gert var ráð fyrir að slík stjórnunarábyrgð seljanda væri strangari eftir því sem tegundareinkenni skyldunnar yrðu meiri. Í þessum kafla voru að auki reglur um galla, þ.m.t. skyldu kaupanda til þess að rannsaka söluhlut, og um tilkynningar. Tilkynningu skyldi senda innan hæfilegs tíma og í síðasta lagi tveimur árum eftir að kaupandi móttók söluhlut. Ef um galla var að ræða gat kaupandi krafist úrbóta, þ.e. viðgerðar og nýrrar afhendingar, afsláttar og riftunar. Bóta fyrir annað tjón varð einnig krafist.
    Í samanburði við þágildandi rétt fólu tillögurnar að því er varðar rétt til úrbóta í sér rýmkun að því leyti til að þær skyldu einnig gilda utan neytendakaupa. Því var slegið föstu að seljandinn skyldi bera kostnaðinn af slíkum úrbótum, en seljandi skyldi þó eiga val um það hvort hann vildi frekar bæta úr með nýrri afhendingu. Um kaupanda gilti það að hann gat því aðeins krafist nýrrar afhendingar að gallinn væri verulegur. Nýrrar afhendingar varð heldur ekki krafist ef um var að ræða hindrun sem leysti seljanda undan efndum eða um var að ræða hluti sem voru sérsniðnir fyrir kaupanda eða aðra einstaklega ákveðna hluti. Kaupandi skyldi að auki geta krafist afsláttar og riftunar. Riftunar yrði þó aðeins krafist að galli hefði í för með sér verulega vanefnd. Um kröfur til skaðabóta skyldi sú meginregla gilda að seljandi væri bótaskyldur ef hann sannaði ekki að ástæður galla væri að rekja til atvika sem hann gat ekki ráðið við. Um pöntunarkaup og aðra álíka einstaklega ákveðna hluti skyldi hins vegar ekki gilda eins ströng regla. Í slíkum tilvikum væri seljandi ekki ábyrgur ef hann sannaði að galla væri ekki að rekja til mistaka eða vanrækslu af hans hálfu. Að auki voru reglur um það að þrátt fyrir eiginleika söluhlutar væri hægt að krefjast skaðabóta ef söluhlutur var ekki í samræmi við það sem ætla mátti að heitið hefði verið og einnig þegar upplýsingaskylda hafði verið vanrækt. Einnig voru reglur um skaðabótaábyrgð seljanda vegna mistaka eða vanrækslu við úrbætur.
    Sérstakar reglur voru í tillögunum um heimildir kaupanda þegar um var að ræða réttarágalla, réttindi þriðja manns og aðra þess háttar ágalla á efndum af hálfu seljanda. Reglurnar um réttarágalla voru víðtækari en reglur þágildandi réttar sem einvörðungu fjölluðu um skaðabótaábyrgð vegna upprunalegrar og algjörrar vanheimildar. Ef um réttarágalla var að ræða skyldi kaupandi í öllum aðalatriðum geta gert sömu kröfur og þegar um galla var að ræða. Í slíku tilviki gilti hin fortakslausa tveggja ára regla þó ekki. Ef galli var til staðar þegar við samningsgerð gat grandlaus kaupandi að auki krafist skaðabóta án tillits til þess hverjar ástæður voru fyrir gallanum. Þegar um annars konar réttindi þriðja manns var að ræða, t.d. höfundarrétt og önnur hugverkaréttindi, giltu sömu reglur og um réttarágalla ef frá eru taldar reglurnar um hina ströngu bótaábyrgð. Bóta yrði hér krafist samkvæmt almennum reglum um ábyrgð á göllum. Um aðra ágalla á efndum seljanda, þ.e. brot á nokkrum aukaskyldum, gilti sú regla að reglurnar um galla skyldu gilda, svo langt sem þær næðu. Að lokum voru í þessum kafla tillagnanna ákvæði um heimild kaupanda til þess að halda eigin greiðslu í tilefni af vanefndum seljanda, og reglur um vanefndir sem snerta hluta greiðslu og það tilvik þegar afhent er smátt og smátt.
    Í VI. kafla voru ákvæði um skyldur kaupanda. Í upphafi var að finna ákvæði um fjárhæð kaupverðs. Þar var meginviðmiðunin sú að kaupandi skyldi greiða gangverð hlutarins ef ekki hafði verið samið um annað. Ef ekki væri um gangverð að ræða skyldi kaupandi greiða það verð sem sanngjarnt teldist með tilliti til tegundar hlutar og gæða, verðlista seljanda og atvika að öðru leyti. Að auki voru reglur um greiðslu kaupverðsins og skyldu kaupanda til að veita söluhlut viðtöku. Í VII. kafla voru reglur um heimildir seljanda í tilefni vanefnda af hálfu kaupanda. Samkvæmt þeim reglum gat kaupandi valið milli þess annars vegar að krefjast efnda og hins vegar þess að rifta kaupunum. Að auki skyldi seljandi geta krafist skaðabóta fyrir það tjón sem hann hefði orðið fyrir. Þessar reglur voru sameiginlegar fyrir þau tilvik þegar kaupandi vanefndi greiðsluskyldu sína og aðrar skyldur, t.d. þá skyldu að veita hlut viðtöku. Heimild seljanda til þess að krefjast beinna efnda átti þó einungis við um skyldu kaupanda til greiðslu kaupverðs. Rétturinn til þess að krefjast enda féll þó brott þegar um var að ræða truflanir í samgöngum og greiðsluaðferðum eða aðrar truflanir sem kaupandi fékk ekki ráðið við. Réttur seljanda til að rifta var háður því skilyrði að vanefnd væri veruleg. Riftunarúrræðinu skyldi að auki hægt að beita þegar kaupverðið var ekki greitt eða hlut var ekki veitt viðtaka innan hæfilegs viðbótarfrests. Rétt eins og samkvæmt þágildandi rétti skyldi riftun að meginstefnu til ekki beitt þegar kaupandi hefði þegar veitt hlut viðtöku. Í VII. kafla voru einnig ákvæði um afpöntun hlutar sem búa skyldi til fyrir seljanda eða honum útvegaður. Afpöntun gat leitt til þess að seljanda bæri að hætta vinnu sinni að gerð hlutar. Hann gat á hinn bóginn krafist skaðabóta fyrir tjón sitt samkvæmt almennum reglum. Sem dæmi um tilvik utan þess sem seljandi fengi ráðið við var það nefnt þegar samgöngur teppast eða stöðvun verður í greiðslumiðlun. Að lokum voru í þessum kafla ákvæði sem voru ný í samanburði við þágildandi rétt. Það voru ákvæði um skyldu seljanda til þess að sérgreina hluti (spesifikation) ef kaupandi lét slíkt hjá líða.
    Í VIII. kafla tillagnanna voru sameiginlegar reglur um fyrirsjáanlegar vanefndir, greiðsluþrot o.fl. Þar var mælt fyrir um heimildir samningsaðila til þess að halda eigin greiðslu ef ætla mátti að gagnaðili mundi ekki efna verulegan hluta af sínum skyldum, t.d. vegna þverrandi greiðslugetu. Samningsaðili skyldi einnig geta rift kaupum í tilefni fyrirsjáanlegra vanefnda. Í norska frumvarpstextanum voru að auki ítarleg ákvæði um það að hvaða marki þrotabú gjaldþrota samningsaðila hefði rétt til að ganga inn í kaupsamninginn. Reglur um framkvæmd og réttaráhrif riftunar voru í IX. kafla frumvarpstextanna. Meginsjónarmiðið var það að rétturinn til riftunar og nýrrar afhendingar glataðist ef kaupandi gæti ekki skilað hlut í sama ástandi og magni. Þar var hins vegar lögð til sú nýja regla miðað við þágildandi rétt að kaupandinn glataði þrátt fyrir þetta ekki framangreindum rétti sínum ef hann bætti seljanda þá verðmætisrýrnun sem orðið hafði á hlut. Í X. kafla voru ákvæði um fjárhæð skaðabóta og vexti. Reglurnar um fjárhæð skaðabóta og útreikning þeirra voru nákvæmari en reglur þágildandi réttar. Í norska frumvarpstextanum var að auki löglíkindaregla um það hvað telja bæri óbeint tjón ef fyrirvari hafði verið gerður um slíkt tjón. Lagt var til að lögfestar yrðu reglur um skyldu samningsaðila til þess að draga úr tjóni sínu þegar hann sæi fyrir vanefnd af hálfu gagnaðila. Að auki voru reglur um takmörkun bótaábyrgðar þegar skaðabætur hefðu við mat á aðstæðum sérstaklega íþyngjandi áhrif á hagsmuni aðila. Vexti skyldi greiða í samræmi við almennar reglur vaxtalaga.
    Í XI. kafla voru ákvæði um skyldu til umönnunar. Þar var m.a. kveðið á um rétt umönnunarðila til skaðabóta vegna útgjalda sinna, og skyldi í þeim efnum gilda ströng hlutlæg bótaregla. Til tryggingar skaðabótum var mælt fyrir um haldsrétt aðila í söluhlut. Að auki voru reglur um heimildir umönnunaraðila til þess að selja hlut og framkvæma aðrar ráðstafanir varðandi hlutinn. Tillögurnar voru í öllum aðalatriðum í samræmi við ákvæði þágildandi réttar.
    Í XII. kafla voru reglur um arð og annan afrakstur af söluhlut. Voru reglurnar í öllum aðalatriðum í samræmi við ákvæði þágildandi réttar. Í XIII. kafla voru tiltekin almenn ákvæði um það hvor samningsaðila skyldi bera áhættuna af sendingu tilkynninga. Jafnframt voru ákvæði um það, hvað skyldi telja atvinnustöð aðila þegar það skipti máli samkvæmt reglum frumvarpstextanna.
    Í XIV. kafla norska frumvarpstextans voru ákvæði um kröfur á hendur fyrri sölulið, sbr. ákvæði 84.–86. gr. Slíka reglur var ekki að finna frumvarpstextum hinna landanna. Hin almenna regla byggðist á því að kaupandi gæti gert kröfu á hendur fyrri söluaðila að því tilskildu að seljandi gæti gert slíka kröfu gildandi. Kröfuna varð að setja fram innan hæfilegs tíma frá því að uppvíst varð um gallann og í síðasta lagi innan þeirra tilkynningarfresta sem giltu í skiptum framseljanda og fyrri söluliðar. Í neytendakaupum skyldi kaupandi að auki geta borið fram kröfu á hendur fyrri viðskiptasöluaðila í nokkuð rýmra mæli en almennt gilti. Þeim rétti yrði seljandi ekki sviptur með ákvæðum í samningi. Í viðskiptum milli neytenda skyldi kaupandi hafa samsvarandi rétt og neytendakaupandi hefði gagnvart fyrri söluaðila til að gera kröfu gildandi gagnvart fyrri söluaðila.
    Í XV. kafla í norska frumvarpsins voru sem fyrr segir ákveðnar sérreglur um alþjóðleg kaup sem áttu sér fyrirmynd í SÞ-samningnum og voru nauðsynleg svo að lögunum yrði einnig beitt í alþjóðlegum kaupum. Þau ákvæði skyldu hins vegar ekki gilda í þjóðlegum kaupum og heldur ekki í norrænum kaupum.
    
7.     Nánar um efni frumvarps til nýrra íslenskra kaupalaga.
7.1.     Almenn atriði.
    Frumvarp það, sem hér liggur fyrir, byggist í meginatriðum á þeim tillögum til nýrra norrænna kaupalaga sem birtar voru í hinu samnorræna nefndaráliti, NU 1984:5, og gerð er grein fyrir í 6. kafla hér að framan. Þar sem leiðir skildi í hinum norrænu tillögum með einstökum ríkjum hefur að meginstefnu til verið fylgt þeirri leið sem Norðmenn völdu. Það felur í aðalatriðum í sér tvennt: Í fyrsta lagi eru ákvæði um neytendavernd í kaupalögunum sjálfum, en ekki í sjálfstæðum lögum um það efni. Í öðru lagi felst í þessu að almennar kauparéttarreglur, byggðar á hinum samnorræna grundvelli, hafa verið aðlagaðar ákvæðum SÞ-samningsins eftir því sem kostur er þótt einnig sé að finna í frumvarpinu sérákvæði sem eingöngu eiga að gilda í alþjóðlegum kaupum.
    Norrænu ríkin byggja á tvíeðli þjóðaréttar og landsréttar. Í því felst að reglur þjóðaréttarins verða ekki sjálfkrafa landslög í hefðbundnum skilningi, heldur þarf að lögfesta reglurnar samkvæmt reglum stjórnskipunarréttarins. Lögleiðing þjóðréttarreglna í landsrétt getur aðallega gerst með tvennu móti. Annars vegar með svonefndri aðlögun (transformation) sem felst í því að þjóðréttarreglan er umskrifuð í þau lög sem samþykkt eru hverju sinni. Hins vegar getur þetta gerst með beinni lögleiðingu (inkorporation), en í því felst að sett eru stutt lög sem hafa nánast þann eina tilgang að vísa í viðkomandi þjóðréttarsamning, en hann hefur aftur að geyma efnisreglur þær sem lögfesta skal. SÞ-samningurinn gerir engar kröfur um það til aðildarríkja sinna hvernig hann skuli gerður að lögum landsins.
    Í norræna vinnuhópnum voru eins og áður segir skiptar skoðanir um það á sínum tíma hvernig SÞ-samningurinn skyldi leiddur í landslög. Norðmenn héldu því fram að það skyldi gert með aðlögun, enda er fyrir því rík hefði í Noregi, en hin norrænu ríkin töldu réttara að gera það með beinni lögleiðingu. Hér á Íslandi er eins og í Noregi rík hefð fyrir því að aðlaga þjóðréttarsamninga íslensku lögum þegar þeir eru á annað borð lögteknir þótt frá því séu að vísu þó nokkrar undantekningar, og nægir í þeim efnum að vitna til 7. gr. meginmáls EES- samningsins. Með þetta í huga og þá staðreynd að hinn almenni borgari á almennt mun auðveldara með að tileinka sér alþjóðlegar reglur, ef þær eru aðlagaðar innlendum lögum, er í frumvarpi þessu á því byggt að efnisákvæði SÞ-samningsins verði aðlöguð almennum kaupalögum. Verður að telja þá aðferð að öllu leyti einfaldari til yfirlits og í framkvæmd. Þá ber og að hafa í huga í þessu sambandi að æskilegt er að sem mest samræmi sé á milli þjóðlegra og alþjóðlegra reglna á sviði lausafjárkaupa. Ástæðan er m.a. sú að þeir sem viðskipti stunda geta þá fremur reitt sig á að sömu eða svipaðar reglur gildi að meginstefnu til um sömu réttaratriðin hvort sem þau gerast á innlendum eða erlendum vettvangi. Þá skal og bent á að SÞ-samningurinn felur í sér ákveðna málamiðlun milli ólíkra viðhorfa þeirra ríkja sem að honum standa, og verður því að telja að aðlögun sé betur til þess fallin að tryggja nauðsynlegt samræmi í þessum efnum.
    Lög um lausafjárkaup nr. 39/1922 gilda hvorki um fasteignakaup né um húsagerð og önnur mannvirki á fasteign, og breytir frumvarp þetta því ekki, sbr. 1. og 2. gr. þess. Frumvarp þetta gerir ekki ráð fyrir því að kaupalögum verði beitt um skaðsemisábyrgð, þ.e. skaðabótaábyrgð framleiðanda og dreifingaraðila á tjóni sem hlýst af ágalla á vöru sem þeir hafa framleitt eða dreift. Í þeim efnum gilda lög nr. 25/1991, en vissulega geta ávallt komið upp tilvik þar sem áhorfsmál er hvort beitt skuli ákvæðum þeirra laga eða almennra kaupalaga, og er það hlutverk dómstóla að draga nánari markalínur í þeim efnum.
    Lög nr. 39/1922 eru frávíkjanleg, og verður það einnig meginregla nýrra kaupalaga ef frumvarp þetta verður að lögum. Frá því er þó undantekning að því er neytendakaup varðar, en þar er heimildin til að víkja frá ákvæðum laganna mjög takmörkuð. Í gildandi lögum er ekki að finna sérstök ákvæði um neytendakaup, en í frumvarpi þessu er á því byggt að lögin gildi um neytendakaup með þeim frávikum, sem þar koma fram. Er nánari grein gerð fyrir þeim frávikum í skýringum við einstakar greinar.
    Í gildandi lögum um lausafjárkaup er víða gerður greinarmunur á einstaklega ákveðnum kaupum og tegundarkaupum, m.a. að því er skaðabætur varðar. Telja verður að þau rök, sem á sínum tíma lágu til grundvallar þessari aðgreiningu, eigi ekki lengur við, og því er í frumvarpi þessu frá því horfið að gera þennan mun í lögum. Aðgreiningin getur þó haft þýðingu í einstökum tilvikum, eins og nánar verður vikið að í skýringum við einstakar greinar. Í gildandi lögum er einnig greint á milli verslunarkaupa og almennra kaupa. Þau kaup eru verslunarkaup sem gerast milli kaupmanna í verslunarrekstri þeirra eða í þágu hans. Sérreglur um verslunarkaup fela í sér strangara mat á ýmsum sviðum, m.a. að því er varðar tilkynningar og rannsókn söluhlutar. Telja verður að þessi aðgreining gildandi laga hafi ekki lengur við rök að styðjast, og er því ekki á henni byggt í frumvarpinu. Hins vegar er ástæða til að greina á milli neytendakaupa og annarra kaupa, sbr. 4. gr. frumvarpsins. Það getur samt sem áður haft þýðingu í einstökum samböndum hvort um viðskipti milli manna í verslunarrekstri er að ræða, t.d. að því er varðar tilkynningar, og verður nánar vikið að þessu í skýringum við einstakar greinar.
    Hvorki er í gildandi lögum né öðrum lögum að finna sérstök ákvæði sem gilda þegar um alþjóðleg kaup er að ræða. Úr því er bætt með ákvæði 5. gr. frumvarpsins, en þar kemur fram að ný kaupalög munu gilda um alþjóðleg kaup með þeim sérreglum sem í lögunum felast, sbr. einkum ákvæði XV. kafla.
    Lengst af höfðu kaupalög á Norðurlöndum engin ákvæði að geyma um neytendakaup eða neytendavernd. Samnorræn vinnuhópurinn, sem samdi NU 1984:5, hafði ekki umboð til að fjalla sérstaklega um neytendakaup í tillögum sínum. Því var einstökum löndum heimilt að fara sínar eigin leiðir í þeim efnum og ákveða hvar reglum um neytendakaup skyldi skipað í lög og hvert skyldi vera nánara efni þeirra. Af því leiddi að í hinu samnorræna nefndaráliti fylgdi hvert land sinni stefnu í þessum efnum.
     Öll ríki á Norðurlöndum að Íslandi frátöldu tóku á áttunda áratugnum upp í löggjöf sína viss ófrávíkjanleg ákvæði þegar í hlut áttu neytendur og kaupmenn. Í Danmörku og Noregi var sérstökum ákvæðum um þetta efni bætt í kaupalögin. Í Svíþjóð voru sett sérstök neytendakaupalög, og í Finnlandi voru settar reglur um neytendavernd í almennum lögum um það efni. Sú sérstaða, sem reglur um neytendakaup fengu með þessum hætti, byggðist ekki á efni reglnanna, heldur lýsti hún sér fyrst og fremst í því að óheimilt var að víkja frá vissum reglum laganna neytendum til tjóns.
    Danir og Norðmenn fóru þá leið að láta kaupalagafrumvörp sín gilda um neytendakaup, og hafa þau að geyma nokkrar sérreglur um það efni. Þar að auki er stór hluti ákvæðanna ófrávíkjanlegur að því leyti sem frávik eru neytendum til tjóns. Í finnska frumvarpinu er gert ráð fyrir að það gildi í neytendakaupum að svo miklu leyti sem annað leiðir ekki af ákvæðum í almennum lögum um neytendavernd. Í sænska frumvarpinu er við það miðað að um neytendakaup séu sett sérstök lög þar sem við túlkun og fyllingu sé litið til almennra kaupalaga.
    Eins og áður er komið fram hefur sú stefna verið mótuð í frumvarpi þessu að láta það einnig ná til neytendakaupa. Öðru fremur réði þeirri niðurstöðu það sjónarmið að heppilegra sé til yfirlits og glöggvunar fyrir hinn almenna borgara að hafa lagareglur um almenn kaup og neytendakaup í einum lagabálki. Yfirsýnin geti á hinn bóginn glatast ef lagareglunum yrði skipað í mismunandi bálka. Hins vegar má velta því fyrir sér hvort það sé ekki heppilegt langtímamarkmið að setja sérstök neytendakaupalög ef þróun á sviði Evrópuréttar stefnir í þá átt. Ekki þykir hins vegar rétt að láta endurskoðun almennra kaupalaga bíða niðurstöðu varðandi þá þróun.

7.2.     Yfirlit um efni einstakra kafla frumvarpsins.
    Í I. kafla frumvarpsins (1.–5. gr.) er fjallað um gildissvið nýrra kaupalaga. Þar kemur fram að lögin gilda almennt um kaup lausafjár, þ.m.t. í neytendakaupum. Þau gilda hins vegar ekki fremur en gildandi lög um fasteignakaup, enda verður það að teljast viðfangsefni sérstakrar lagasetningar svo sem þróunin hefur orðið með öðrum þjóðum á Norðurlöndum. Kaflinn hefur einnig að geyma reglur um svið laganna gagnvart samningum um vinnu og aðra þjónustu, en ráðgert er af hálfu iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins að leggja fram samhliða frumvarpi þessu sérstakt lagafrumvarp um þjónustukaup. Í frumvarpi þessu er lagt til að lögin verði frávíkjanleg, þ.e. annað samið eða annað leiðir af verslunarvenju eða annarri venju. Í frumarpinu er þó gengið út frá því að í neytendakaupum verði ekki hægt að víkja frá ákvæðum laganna neytendum til tjóns. Þá er einnig lagt til að kaupalögin gildi í alþjóðlegum kaupum. Í því felst, ef frumvarp þetta verður að lögum, að ákvæði SÞ-samningsins verða leidd í íslenskan rétt með aðlögun. Af þessari ástæðu er í XV. kafla frumvarpsins að finna ákveðnar sérreglur um alþjóðleg kaup, auk þess sem á öðrum stöðum í frumvarpinu er að finna sérreglur sem eingöngu gilda í alþjóðlegum kaupum. Sérreglurnar um alþjóðleg kaup gilda ekki um kaup milli aðila í mismunandi ríkjum á Norðurlöndum.
    Í II. kafla frumvarpsins (6.–11. gr.) eru reglur um afhendingu söluhlutar sem í aðalatriðum eru í samræmi við gildandi rétt. Reglurnar eru hins vegar nokkuð fyllri en í gildandi lögum, og er nánari grein gerð fyrir því í athugasemdum við einstakar greinar.
    Reglur III. kafla frumvarpsins (12.–16. gr.) fjalla um áhættuna af söluhlut. Eins og í gildandi rétti er það aðalreglan samkvæmt frumvarpinu að áhættan af því að söluhlutur ferst, skemmist eða rýrnar af tilviljun flyst frá seljanda til kaupanda við afhendinguna. Eigi að síður eru í kaflanum sérreglur um ákveðin tilvik, auk þess sem kaflinn hefur að geyma nokkuð af nýjum og fyllri reglum, og er nánar að því vikið í athugasemdum við einstakar greinar.
    Í IV. kafla frumvarpsins (17.–21. gr.) eru reglur um eiginleika söluhlutar, galla o.fl. Þar kemur fram hvaða eiginleika söluhlutur skal hafa til að bera og hvenær galli telst vera til staðar. Sérstakar reglur eru um ábyrgð seljanda á þeim upplýsingum sem hann gefur um hlutinn, um eiginleika hans og notkun. Auk þess hefur gaflinn að geyma ákvæði um þýðingu þess þegar hlutur er seldur „í því ástandi sem hann er“ eða með öðrum álíka fyrirvara af hálfu seljanda. Enn fremur eru ákvæði um skyldur kaupanda til að rannsaka söluhlut og um það tímamark sem þýðingu hefur þegar það er metið hvort galli er til staðar eða ekki. Í aðalatriðum eru reglur kaflans svipaðar reglum gildandi réttar um sama efni, en í athugasemdum við einstakar greinar eru nýmæli skýrð.
    Í V. kafla frumvarpsins (22.–44. gr.) eru ákvæði um úrræði kaupanda vegna vanefnda seljanda. Aðalreglan er sú að kaupandinn hefur öll sömu vanefndaúrræði og nú gilda samkvæmt lögum nr. 39/1922. Þar er þó það mikilvæga nýmæli að finna að kaupandinn hefur ótvíræðan rétt til þess að krefjast úrbóta af hálfu seljanda í tilefni galla, og réttur seljanda til að bæta úr göllum er rýmkaður. Að öðru leyti eru skilyrði vanefndaúrræða í stórum dráttum þau sömu og í gildandi rétti. Ekki er í lögunum gerður neinn eðlismunur á almennum kaupum og verslunarkaupum varðandi skilyrðin til þess að beita vanefndaúrræðum. Að því er varðar skaðabætur vegna vanefnda á samningi eru lagðar til nýjar reglur, bæði hvað varðar greiðsludrátt og galla. Munurinn á milli tegundarkaupa og einstaklega ákveðinna kaupa er felldur brott. Meginviðmiðunin samkvæmt frumvarpinu er sú að seljandinn er skaðabótaskyldur gagnvart kaupanda vegna vanefnda af sinni hálfu. Þetta gildir þó ekki ef vanefndina má rekja til hindrunar sem seljandinn gat ekki haft áhrif á og ekki er með sanngirni hægt að ætlast til að seljandinn hafi haft hindrunina í huga við samningsgerðina, hann getað komist hjá hindruninni eða yfirunnið afleiðingar hennar. Hvað afleitt tjón varðar (óbeint tjón) ber seljandi samkvæmt frumvarpinu einungis ábyrgð gagnvart kaupanda að því tilskildu að um sé að kenna mistökum hans eða vanrækslu. Að öðru leyti er í kaflanum að finna almenn ákvæði um ábyrgð vegna réttarágalla og annarra krafna þriðja manns. Er hér um að ræða verulega rýmkun reglnanna miðað við gildandi rétt, og er ábyrgð vegna réttarágalla í aðalatriðum sú sama og vegna raunverulegra galla.
    Í VI. kafla frumvarpsins (45.–50. gr.) eru ákvæði um skyldur kaupanda. Þar eru sérstök ákvæði um skyldur kaupanda til að ljá atbeina sinn að réttum efndum og um skyldu hans til að veita söluhlut viðtöku. Ákvæði þessi ber m.a. að skoða í því ljósi að frumvarpið hefur þann tilgang að hafa tæmandi ákvæði um skyldur aðila í réttarsambandi kaupanda og seljanda.
    Í VII. kafla frumvarpsins (51.–60. gr.) eru reglur um kröfur seljanda vegna vanefnda af hálfu kaupanda. Ákvæði kaflans veita seljanda í aðalatriðum allar sömu heimildir og þær sem kaupandinn hefur samkvæmt frumvarpinu í tilefni vanefnda af hálfu seljanda
    Í VIII. kafla frumvarpsins (61.–63. gr.) eru sameiginlegar reglur um fyrirsjáanlegar vanefndir, greiðsluþrot o.fl. sem í aðalatriðum eru þær sömu og að gildandi rétti.
    Í IX. kafla frumvarpsins (64.–66. gr.) eru sameiginlegar reglur um riftun og skil á greiðslum sem í öllum aðalatriðum eru sambærilegar reglum gildandi réttar.
    Í X. kafla frumvarpsins (67.–71. gr.) eru ítarlegar reglur um umfang skaðabóta og um kröfur til vaxta. Aðalreglan er sú að skaðabætur skulu bæta það tjón sem aðili hefur orðið fyrir, þar á meðal vegna útgjalda, verðmismunar og tapaðs hagnaðar sem aðili hefur beðið vegna vanefndarinnar. Kaflinn hefur og að geyma sérstaka skilgreiningu á því hvað sé óbeint tjón, en það hefur bæði þýðingu varðandi ákvörðun bótagrundvallar og við túlkun ábyrgðarleysisákvæða.
    Í XI. kafla frumvarpsins (72.–78. gr.) eru ákvæði um umönnunarskyldur aðila. Reglur kaflans eru fyllri en ákvæði gildandi laga um sama efni og orðaðar með öðrum hætti, en þær eru þó ekki verulega frábrugðnar þeim efnislega. Í XII. kafla frumvarpsins (79.–81. gr.) er fjallað um skiptingu arðs og hagnaðar af söluhlut, og í XIII. kafla (82.–83. gr.) eru nokkur almenn ákvæði. Ákvæði XIV. kafla (84.–86. gr.) hafa að geyma nýjar reglur sem veita kaupanda rétt til þess að beina kröfum sínum að fyrri söluaðila með tilteknum skilyrðum. Í XV. kafla (87.–98. gr.) eru ákvæði um alþjóðleg kaup, og í XVI. kafla (99. gr.) eru ákvæði um gildistöku o.fl.

7.3.     Ýmis nýmæli.
7.3.1.     Ábyrgð vegna aukaskyldna.
    Gildandi lög um lausafjárkaup hafa einvörðungu að geyma reglur um aðalskyldur aðila kaupsamnings og um afleiðingar vanefnda á slíkum skyldum. Aðalskylda seljanda samkvæmt lögunum felst í því að afhenda söluhlut í samningsbundnu ástandi á réttum stað og réttum tíma, en mikilvægasta skylda kaupanda felst í því að greiða umsamið kaupverð á réttum tíma. Gildandi kaupalög fjalla að vissu marki einnig um aðrar skyldur samningsaðila, t.d. þá skyldu kaupanda að veita söluhlut viðtöku og um ábyrgð seljanda vegna vanheimildar.
    Í SÞ-samningnum er að finna reglur um ýmsar aðrar skyldur aðila en þær sem leiðir beint af samningi þeirra, t.d. skylduna til að framselja skjöl og senda söluhlut, og vanefndareglur SÞ-samningsins hafa einnig í huga brot á slíkum skyldum. Við samningu samnorræna nefndarálitsins skildi leiðir með Norðmönnum annars vegar og Dönum, Finnum og Svíum hins vegar hvað þetta atriði varðar. Afstaða Norðmanna var sú að kaupalög skyldu hafa að geyma reglur um allar skyldur aðila sem leiða má af kaupunum. Reglurnar um greiðsludrátt seljanda skyldu samkvæmt því einnig ná til dráttar á því að efna aðrar skyldur en þá að afhenda hlutinn. Með sama hætti skyldu gallareglurnar einnig ná til annarra ágalla á efndum af hálfu seljanda en þess að afhenda hlutinn. Að því er kaupanda varðar skyldu reglurnar um vanefndir einnig ná til vanefnda á öðrum skyldum en þeim að greiða kaupverðið. Afstaða Danmerkur, Svíþjóðar og Finnlands, var hins vegar sú að reglurnar um vanefndir skyldu einvörðungu eiga við um brot samningsaðila á mikilvægustu skyldum sínum samkvæmt kaupsamningi, þ.e. vegna afhendingardráttar, galla á söluhlut, vanheimildar réttarágalla og dráttar á greiðslu kaupverðs. Til viðbótar skyldi seljanda játaður réttur til riftunar og skaðabóta í ákveðnum tilvikum þegar kaupandi veitir ekki söluhlut viðtöku á umsömdum tíma, en um aðrar skyldur er ekki bein ákvæði að finna í tillögum þessara ríkja.
    Í frumvarpi því, sem hér liggur fyrir, er tekið mið af því að þróun í framleiðslu, verslun og viðskiptum hefur haft það í för með sér að ýmsar aukaskyldur gegna í vissum tilvikum sífellt þýðingarmeira hlutverki í samskiptum samningsaðila. Því þykir eðlilegt að ný kaupalög hafi að geyma ákvæði um brot á slíkum skyldum. Aukaskyldur geta að vísu verið af margvíslegum toga sem erfitt er að sjá fyrir í öllum tilvikum, en eigi að síður þykir rétt að taka afstöðu til þeirra í frumvarpinu, eftir því sem unnt er, fremur en að láta réttarframkvæmdinni það alfarið eftir að móta reglur um það efni. Því er svo við þetta að bæta að reglurnar um aukaskyldur víkja í engum verulegum atriðum frá meginreglunum um aðalskyldurnar, heldur er þar að mestu um sömu reglur að ræða. Með þessari aðferð eru einnig styrkt tengslin við SÞ-samninginn.

7.3.2.     Viðbótarfrestir.
    Norska kaupalaganefndin kom á sínum tíma fram með þá tillögu að kaupandi skyldi hafa rétt til að setja seljanda viðbótarfrest þegar svo stóð á að vara var ekki afhent á réttum tíma. Áhrif viðbótarfrestsins skyldu vera þau að kaupandi gæti rift ef seljandi efndi ekki fyrir lok sanngjarns viðbótarfrests. Með sama hætti skyldi seljandi eiga rétt á að setja kaupanda viðbótarfrest í tilefni dráttar á greiðslu kaupverðsins. Að auki var við það miðað að kaupandi gæti sett sambærilegan frest til úrbóta í tilefni galla. Í 47. og 63. gr. SÞ-samningsins eru ákvæði sem með sama hætti veita kaupanda og seljanda rétt til að setja sanngjarnan viðbótarfrest til efnda af hálfu gagnaðila. Meðan fresturinn er að líða getur sá aðili, sem frestinn setti, ekki gert kröfur í tilefni vanefnda en getur þess í stað rift kaupum ef þau eru ekki efnd áður en viðbótarfresturinn rennur út.
    Í samnorræna nefndarálitinu eru reglur um viðbótarfresti í norska frumvarpinu, og eru þau í samræmi við ákvæði SÞ-samningsins. Danir, Finnar og Svíar töldu hins vegar ekki þörf á að setja sérstakar reglur um viðbótarfresti, en frumvarpstextar þessara landa hafa eigi að síður að geyma reglur um afleiðingar þess að slíkum frestum er ekki sinnt, sbr. 27. og 60. gr. í frumvörpum landa þessara. Í frumvarpi því, sem hér liggur fyrir, eru eins og í norska frumvarpinu sérstakar reglur um viðbótarfresti, og eiga þær sér fyrirmynd í SÞ-samningnum. Þannig kemur t.d. fram sú regla í 2. mgr. 25. gr. að kaupandi getur rift kaupunum ef seljandi afhendir ekki söluhlut innan sanngjarns viðbótarfrest fyrir efndum, sem kaupandi hefur sett. Með svipuðum hætti er í 2. mgr. 54. gr. sú regla, að hægt er að rifta kaup, þegar kaupandi greiðir ekki kaupverðið innan sanngjarns viðbótarfrests sem seljandi hefur sett til efnda, og skv. 3. mgr. sömu greinar getur seljandi ekki rift kaupum meðan viðbótarfrestur er að líða. Að baki reglum frumvarpsins um viðbótarfresti býr fyrst og fremst það sjónarmið að slíkar reglur séu hentugar til að skapa hreinni línur í skiptum samningsaðila og að þær séu til þess fallnar að auka líkurnar á því að réttar efndir fari fram þótt eitthvað hafi farið úrskeiðis, og hlýtur það að teljast eftirsóknarvert.

7.3.3.     Úrbætur og ný afhending.
    Norræni vinnuhópurinn lagði ekki til neinar verulegar breytingar á reglum þágildandi réttar um heimildir kaupanda í tilefni greiðsludráttar af hálfu seljanda. Þá var og út frá því gengið í áliti vinnuhópsins að kaupandi skyldi eiga rétt til afsláttar, riftunar eða nýrrar afhendingar og skaðabóta ef greiðslan væri haldin galla, auk þess sem lagt var til að reglan um rétt kaupanda til að halda eigin greiðslu yrði lögfest. Hins vegar þótti ástæða til að breyta reglum þágildandi réttar um skilyrðin fyrir beitingu þessara úrræða og framsetningu reglna um þau að öðru leyti.
    Norræni vinnuhópurinn lagði til að seljandi skyldi eiga rétt á að bæta úr galla ef það gæti gerst án verulegs óhagræðis fyrir kaupanda og án þess að kaupandi væri settur í þá áhættu að fá ekki kostnað sinn greiddan hjá seljanda. Ef það gæti gerst án ósanngjarns kostnaðar eða óhagræðis fyrir seljanda var lagt til að seljandinn væri skyldur til að bæta úr göllunum. Úrbætur ættu í öllum tilvikum að fara fram á kostnað seljanda og innan hæfilegs tíma frá því að kaupandi kvartaði.
    Að því er nýja afhendingu varðar lagði norræni vinnuhópurinn til, í samræmi við reglur þágildandi réttar á Norðurlöndum, að forsendan fyrir rétti kaupanda til að krefjast nýrrar afhendingar væri sú að gallinn væri verulegur. Samkvæmt þágildandi rétti gat kaupandi aðeins krafist nýrrar afhendingar í tegundarkaupum. Þótt horfið hafi verið frá aðgreiningunni milli tegundarkaupa og einstaklega ákveðinna kaupa gat krafan um nýja afhendingu ekki átt við um allar tegundir kaupa eðli málsins samkvæmt. Þannig yrði nýrrar afhendingar t.d. ekki krafist þegar um var að ræða hlut sem var sérstaklega tilsniðinn fyrir kaupanda samkvæmt ákvörðunum hans sjálfs eða þörfum eða þegar hlutur var þess eðlis að annar hlutur gat ekki komið í hans stað. Það skyldi sem endranær vera skilyrði að ekki væri til staðar hindrun sem leysti seljandann undan þeirri skyldu að efna in natura.
    Á framangreindum sjónarmiðum er byggt í frumvarpi þessu. Að baki reglum frumvarpsins býr það sjónarmið að sanngjarnt sé að kaupandi geti krafist þess að seljandi bæti úr göllum. Í mörgum tilvikum eru úrbætur hagkvæm lausn fyrir báða aðila, og því er ekki sanngjarnt að mótþrói seljanda geti staðið því í vegi. Hins vegar er einnig sanngjarnt að krafa um úrbætur geti ekki náð fram að ganga þegar slíkt hefur í för með sér óhæfilegan kostnað eða óhagræði fyrir seljanda. Enn fremur býr það sjónarmið að baki reglum frumvarpsins að seljandinn eigi að njóta rýmri réttar en samkvæmt gildandi lögum til að bæta úr göllum eða til að afhenda nýja hluti, sbr. 49. gr. gildandi laga. Í frumvarpinu er litið svo á að reglurnar um úrbætur og afhendingu nýrra hluta auki almennt líkur á því að réttar efndir fari fram þótt eitthvað hafi farið úrskeiðis, og hlýtur það einnig að vera eftirsóknarvert.

7.3.4.     Skaðabætur.
    Í gildandi rétti er bótaábyrgð seljanda vegna afhendingardráttar og galla mismunandi eftir því hvort um er að ræða tegundarkaup eða einstaklega ákveðin kaup. Í tegundarkaupum er aðalreglan sú að seljandi ber hlutlæga ábyrgð, en frá því eru þó undantekningar ef afhendingardrátt eða galla má rekja til nánar tilgreindra hindrana sem standa efndum í vegi, sbr. 24. gr. og 3. mgr. 43. gr. laga nr. 39/1922. Hindrun verður að vera með þeim hætti að efndir séu útilokaðar, og hún verður að auki að vera almenn, en í því felst að hindrun, sem snertir einungis hagsmuni viðkomandi seljanda en ekki annarra, nægir ekki til að leysa undan ábyrgð. Loks verða aðstæður að vera með þeim hætti að seljandi hafi ekki haft ástæðu til að hafa hindrunina í huga þegar kaup voru gerð.
    Í einstaklega ákveðnum kaupum ber seljandi samkvæmt gildandi rétti ábyrgð á afhendingardrætti nema því aðeins að „drátturinn var ekki honum að kenna“. Seljandinn ber með öðrum orðum sakarábyrgð með öfugri sönnunarbyrði. Í framkvæmd hefur seljandi einnig samkvæmt reglunni verið gerður ábyrgur vegna gáleysis starfsmanna sinna og annarra sem hann hefur falið að efna kaup fyrir sína hönd. Þá getur seljandi einnig orðið ábyrgur ef hann sýnir af sér gáleysi við samningsgerð. Loks er ábyrgð lögð á seljanda á grundvelli ábyrgðaryfirlýsingar, auk þess sem hann ber ábyrgð á því að fjárskortur hindri ekki efndir.
    Þegar einstaklega ákveðinn hlutur er haldinn galla ber seljandi bótaábyrgð ef gallann er að rekja til vanrækslu eða svika af hans hálfu, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga nr. 39/1922. Þar að auki ber seljandi ábyrgð án sakar ef söluhlutur hefur ekki þá eiginleika til að bera sem seljandi hefur ábyrgst sérstaklega. Seljandi ber hér einnig ábyrgð á þeim mönnum sem hann hefur falið að annast samninga fyrir sína hönd. Samkvæmt 30. gr. gildandi laga ber kaupandi hlutlæga ábyrgð vegna dráttar á greiðslu kaupverðs, en sú ábyrgð takmarkast með þeim hætti sem greinir í 24. gr. laganna.
    Norræni vinnuhópurinn var á sínum tíma þeirrar skoðunar að reglur gildandi laga á Norðurlöndum um bótaábyrgð seljanda í lausafjárkaupum vegna greiðsludráttar væru ófullnægjandi. Benti vinnuhópurinn á að almennt væri viðurkennt að sú regla að aðeins almennur ómöguleiki gæti leyst seljanda undan ábyrgð í tegundarkaupum væri allt of ströng. Þar við bættist að mismunandi bótaábyrgð, eftir því hvort um væri að ræða tegundarkaup eða einstaklega ákveðin kaup, væri of formföst og tæki lítið tillit til þeirra kaupa þar sem erfitt er að byggja á þessari aðgreiningu. Þá taldi hópurinn einnig æskilegt að færa reglurnar um ábyrgð vegna greiðsludráttar til samræmis við reglur SÞ-samningsins.
    Reglur frumvarps þessa um bótaábyrgð seljanda vegna greiðsludráttar og galla fela í sér talsverða breytingu miðað við gildandi rétt. Með þeim er lagt til að meginreglan sé sú að seljandinn beri svokallaða stjórnunarábyrgð í báðum tilvikum, og er það í samræmi við reglur SÞ-samningsins. Ekki er þó eingöngu byggt á slíkri ábyrgð að því er galla varðar, sbr. 3. mgr. 40. gr. frumvarpsins.
    Að því er varðar galla sérstaklega samkvæmt frumvarpinu gildir áfram sú regla gildandi réttar að kaupandi á ávallt rétt til skaðabóta ef hlutur var þegar við samningsgerð ekki í samræmi við það sem heitið var af seljanda. Þá er hann einnig ábyrgur ef hlutur svarar ekki til þeirra upplýsinga sem seljandi hefur gefið um hlutinn, eiginleika hans og not. Þá ber seljandi einnig bótaábyrgð ef hann vanrækir að bæta úr göllum eða sýnir af sér saknæmt atferli við úrbæturnar.
    Ekki var farin sú leið í frumvarpinu að byggja á mismunandi bótaábyrgð eftir því hvers eðlis tjónið er. Í því felst að stjórnunarábyrgðin gildir bæði fyrir seljanda og kaupanda og um allar tegundir vanefnda. Óbeint tjón bætist þó því aðeins að samningsvanefnd sé að rekja til mistaka eða vanrækslu. Þegar um galla er að ræða er áfram byggt á ábyrgð vegna þeirra eiginleika sem seljandi hefur heitið sérstaklega.
    Í stjórnunarábyrgðinni felst að samningsaðili ber ábyrgð á efndum kaupsamningsins, nema því aðeins að einhver sú hindrun standi efndum í vegi sem hann getur ekki yfirunnið, og verður þessum hindrunum nánar lýst síðar. Ábyrgðarreglan hefur einkenni vísireglu, og geta áhrif hennar samkvæmt því verið mismunandi, allt eftir því í hvers konar samböndum henni er beitt, og þar hefur eðli kaupa ekki hvað síst þýðingu. Samkvæmt því má segja að ábyrgð seljanda sé strangari eftir því sem tegundareinkenni skyldunnar eru meiri og möguleikinn og þörfin á staðgönguráðstöfunum er meiri. Þetta þýðir að þegar um er að ræða vörur sem ákveðnar eru eftir tegund og þær eru almennt til á þeim markaði sem um ræðir er yfirleitt um bótaábyrgð seljanda að ræða. Þá er og ástæða til að undirstrika að sé hindrun fyrir hendi leysir hún ekki undan bótaábyrgð í lengri tíma en hún varir, sbr. 3. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 40. gr. frumvarpsins.
    Munurinn á reglum frumvarpsins og gildandi lögum er helstur sá að reglur frumvarpsins eru fyllri og ábyrðin er heldur mildari í samanburði við tegundarkaup samkvæmt gildandi lögum. Það birtist í því að ekki er þess fortakslaust krafist að ómöguleikinn sé algerlega hlutlægur, og þær tegundir hindrana, sem leyst geta undan ábyrgð, eru ekki takmarkaðar með sama hætti og í gildandi lögum. Í einstaklega ákveðnum kaupum leiðir stjórnunarábyrgðarreglan til heldur strangari ábyrgðar en samkvæmt gildandi rétti, m.a. vegna þess að ekki er krafist sakar hjá seljanda. En þar sem inntak stjórnunarábyrgðar er mismunandi eftir eðli kaupa verður munurinn þó ekki ýkja mikill í dæmigerðum einstaklega ákveðnum kaupum. Stjórnunarábyrgðarreglan nær til allra þeirra tilvika sem nú falla undir 23. gr. gildandi laga.
    Að því er samanburð við gildandi rétt varðar verður að auki að hafa í huga að samkvæmt frumvarpinu bætist óbeint tjón eingöngu ef um er að ræða sök. Það sem hér hefur verið sagt um ábyrgð seljanda gildir með sama hætti um ábyrgð kaupanda vegna greiðsludráttar og vanefnda á öðrum skyldum samkvæmt kaupsamningnum. Þegar um er að ræða greiðsludrátt af hálfu kaupanda er regla frumvarpsins um ábyrgð kaupanda í 57. gr. frumvarpsins þó orðuð með nokkuð öðrum hætti en í 27. gr. þess, og í því tilviki er engin sérregla um óbeint tjón.
    Til þess að seljandinn losni undan skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum frumvarpsins þarf fjórum skilyrðum að vera fullnægt. Í fyrsta lagi þarf að vera fyrir hendi hindrun, sem veldur seinkun á afhendingu og stendur umsömdum efndum í vegi. Í öðru lagi þarf hindrunin að vera seljandanum ofviða. Í þriðja lagi þarf hindrunin að vera þess eðlis að ekki sé með sanngirni hægt að ætlast til þess að seljandinn hafi átt að hafa hana í huga við samningsgerðina. Í fjórða lagi er það skilyrði að ekki sé hægt að ætlast til þess að seljandinn geti komist hjá eða yfirunnið hindrunina. Það er ekki skilyrði að um sé að ræða hlutlægan ómöguleika í þeim skilningi að ómöguleikinn eigi við um hvaða seljanda sem er. Þótt orðalagið „hindrun“ geti bent til þess að það eigi í raun og veru að vera ómögulegt fyrir seljandann að efna samninginn er ekki að öllu leyti hægt að gera svo strangar kröfur. Því er það ekki skilyrði að um algjöran ómöguleika sé að ræða. Til staðar geta verið atvik sem gera efndir ekki algjörlega ómögulegar, en þessi atvik það eigi að síður svo sérstaklega erfitt að efna að atvikið á grundvelli hlutlægs mats leiðir af sér hindrun á efndum. Dæmi um atvik, sem geta leitt til efndahindrana, eru stríð, náttúruhamfarir eða alvarlegur bruni, verkföll eða útflutnings- og innflutningsbönn. Að öðru leyti má að mestu vísa til þess sem segir í athugasemdum við 27. gr. og 40. gr. frumvarpsins um bótaábyrgð þessa.

7.3.5.     Óbeint tjón.
    Um óbeint tjón er fjallað í 2. mgr. 67. gr. frumvarpsins, og þar er að finna skilgreiningu á því hugtaki. Ástæður þess að óbeint tjón er skilgreint eru tvær. Í fyrsta lagi leiðir það af skilgreiningunni að allt tjón annað en óbeint tjón fellur undir stjórnunarábyrgðarregluna. Í öðru lagi hefur skilgreiningin þýðingu sem leiðbeiningarregla við túlkun ábyrgðarleysisákvæða með tilliti til óbeins tjóns, sbr. t.d. 4. mgr. 27. gr. frumvarpsins.
    Hugmyndin að baki ákvæðinu er að afmarka fjarlægar og lítt útreiknanlegar tjónsáhættur sem erfitt var að sjá fyrir þegar hið fjárhagslega tjón er metið. Hafa verður í huga að ekki er um óbein tjónn að ræða, nema aðili hafi með sanngirni séð það fyrir sem hugsanlega afleiðingu vanefndar, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 67. gr. Krafa þessi um hugsanlega afleiðingu setur því í fyrsta lagi takmörk hvaða tjón skuli bætt sem beint tjón. Hún takmarkar í öðru lagi einnig ábyrgð bæði varðandi beint og óbeint tjón í alþjóðlegum kaupum, sbr. 3. mgr. 70. og 74. gr. SÞ-samningsins. Skilgreiningin á óbeinu tjóni á að meginstefnu til við hvort heldur sem um vanefnd af hálfu kaupanda eða seljanda er að ræða, en í framkvæmd reynir sjálfsagt fyrst og fremst á óbeint tjón þegar um vanefnd af hálfu seljanda er að ræða. Ekki kemur beinlínis fram í ákvæðinu hvað telst beint tjón, en þá ályktun má draga með gagnályktun frá ákvæðinu. Hefðbundið beint tjón er t.d. þeir kostnaðarliðir sem nefndir eru í 1. mgr., glataður ávinningur seljanda vegna riftunar og minnkað verðgildi gallaðs hlutar hjá kaupanda. Skilgreiningunni á óbeinu tjóni er skipt upp í fjórar ólíkar tegundir í 2. mgr. frumvarpsgreinarinnar, og vísast til þess sem þar segir.

7.3.6.     Vanheimild og aðrar kröfur þriðja manns.
    Í gildandi kaupalögum, nr. 39/1922, er engin almenn ákvæði að finna um vanheimild og önnur ósamrýmanleg réttindi þriðja manns, en í 59. gr. er mælt fyrir um skaðabótaskyldu þegar um ákveðna tegund vanheimildar er að ræða. Full þörf er á því að ný kaupalög hafi að geyma fyllri reglur um vanheimild og önnur ósamrýmanleg réttindi þriðja manns en er að finna í gildandi lögum, enda er það í samræmi við SÞ-samninginn. Nú er það mjög algengt að stofnað sé til takmarkaðra réttinda yfir lausafé, ekki síst þegar um er að ræða hluti af ákveðinni stærð og verðgildi. Þá má og búast við því að gildistaka nýrra laga um samningsveð hér á landi 1. janúar 1998 leiði til aukinna veðsetninga á lausafé, enda er meginmarkmið þeirra laga að auka heimildir til sjálfsvörsluveðsetninga í lausafé.
    Takmörkuð réttindi yfir lausafé, sem kaupandi verður að virða, geta verið jafnbagaleg fyrir hann og raunverulegur galli á söluhlut. Það verður því að teljast mikill fengur að skýrum lagareglum um þessi tilvik, þar á meðal um það tilvik þegar þriðji maður heldur því fram að hann eigi réttindi yfir söluhlut, en það hefur ekki verið staðfest, sbr. 3. mgr. 41. gr. frumvarpsins. Réttindi þau, þar sem þriðji maður kann að eiga í hlut, geta verið margvísleg. Kröfur, sem byggjast á því að þriðji maður eigi hugverka- eða auðkennaréttindi yfir hlut, eru ekki eins algengar og venjulegar vanheimildarkröfur, en þær geta eiga að síður verið raunhæfar og valdið kaupanda vandkvæðum. Afstaða gildandi réttar til slíkra krafna er óljós, og er því fyllsta þörf á skýrum lagareglum einnig um það efni, svo sem ráðgert er í 4. mgr. 41. gr. frumvarpsins. Hins vegar þykir ekki ástæða til að hafa að öllu leyti eins strangar reglur um bótaábyrgð í þessum tilvikum og almennt gildir um vanheimild, sbr. 2. mgr. 41. gr. frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er ekki að finna almenna skilgreiningu á vanheimild svo sem var í tillögum norræna vinnuhópsins. Af ákvæðum 1. mgr. 42. gr. leiðir þó óbeint hvenær vanheimild telst vera til staðar. Ákvæðið nær bæði til þess tilviks þegar annar maður er eigandi hlutar (fullkomin vanheimild) og þess tilviks þegar þriðji maður á veðrétt eða annars konar takmörkuð réttindi yfir honum (vanheimild að hluta). Þegar um fullkomna vanheimild er að ræða er hugsanlegt að seljandinn eigi engan rétt yfir hlutnum, t.d. vegna þess að hlut hefur verið stolið. Einnig er hugsanlegt að seljandinn eigi aðeins óbein eignarréttindi yfir hlutnum.
    
7.3.7.     Atbeini kaupanda að efndum.
    Í frumvarpinu er að finna margvísleg ákvæði um skyldur kaupanda til að ljá atbeina sinn að efndum, sbr. ákvæði 50. gr., 2. mgr. 51. gr., 53. gr. og 60. gr. frumvarpsins. Ákvæði þessi, sem ekki er að finna í gildandi lögum, verður að skoða í því ljósi að frumvarpið hefur ekki einungis að geyma ákvæði um aðalskyldur aðila í samningssambandinu, heldur einnig um aukaskyldur þeirra, eins og áður er rakið í almennum athugasemdum hér að framan. Ákvæði af þessu tagi eiga sér fyrirmynd í SÞ-samningnum. Að öðru leyti verður að vísa til skýringa við framangreindar frumvarpsgreinar.

7.3.8.     Krafa á hendur fyrri söluaðila.
    Eins og fram kemur í skýringum við 84. gr. frumvarpsins hér á eftir er í gildandi lögum ekki að finna ákvæði um rétt kaupanda til þess að koma fram með kröfur á hendur fyrri söluaðila í tilefni galla. Í fræðikenningum og réttarframkvæmd hefur verið umdeilt að hve miklu leyti slíkur almennur réttur getur verið til staðar. Við endurskoðun norsku kaupalaganna 1974 var í 49. gr. a lögfest ákvæði sem veitti kaupanda í neytendakaupum heimild til að koma fram með kröfur á hendur fyrri söluaðila í tilefni galla. Rök reglunnar voru þau að sá aðili, sem seljandi keypti af, ætti ekki að geta losnað undan galla sem rekja mátti til hans þótt kaupandinn gæti af einhverri ástæðu ekki komið fram kröfu sinni á hendur seljandanum.
    Í norræna vinnuhópnum var ágreiningur um það hvort og að hvaða marki ný kaupalög ættu að hafa að geyma ákvæði um þetta efni. Af hálfu Dana, Svía og Finna var ekki talin ástæða til að lögfesta reglur um annað en réttarsamband seljanda og kaupanda. Því gera lög í þessum löndum ráð fyrir að kaupandi geti aðeins komið fram með kröfu á hendur þeim aðila sem hann er í beinu samningssambandi við. Af hálfu Norðmanna var hins vegar talin fyllsta ástæða til að hafa reglur um þetta efni í nýjum kaupalögum. Aðalrökin voru þau að galla í söluhlut væri oft að rekja til fyrri söluaðila, t.d. framleiðanda. Hagkvæmt gæti verið fyrir kaupanda að beina kröfum sínum beint að slíkum aðila í stað seljanda. Kaupandi gæti í það minnsta haft þörf fyrir slíka heimild þegar atvik væru með þeim hætti að erfitt væri að koma fram ábyrgð á hendur viðsemjanda sínum. Þörfin væri einkum til staðar þegar seljandi væri í greiðsluvandræðum.
    Á framangreind rök Norðmanna má fallast, og er því í frumvarpinu að finna ákvæði sem veita kaupanda, að vissum skilyrðum fullnægðum, rétt til þess að beina kröfum sínum beint að fyrri sölulið. Er hér um ákveðna tegund af hinum svonefnda „springende regres“ að ræða. Þá skal og vakin athygli á því að í frumvarpinu er að finna sérreglur um beitingu þessarar heimildar í neytendakaupum, sbr. nánar 2. mgr. 84. gr. Um skýringu þess ákvæðis vísast til þess sem fram kemur í athugasemdum við þá grein.

8.     Lokaorð.
    Neytendaréttur hefur verið í örri þróun á síðustu árum jafnt á Íslandi sem í öðrum ríkjum á Norðurlöndum. Eins og getið var um í 5. kafla hér að framan voru gerðar lagabreytingar í öðrum ríkjum á Norðurlöndum á áttunda áratugnum í þá átt að auka vernd neytenda, ýmist með setningu sérstakra laga um neytendakaup eða með því að gera ýmis ákvæði í kaupalögum þessara ríkja ófrávíkjanleg, ef um var að ræða neytendakaup. Á Íslandi varð niðurstaðan hins vegar sú að bíða átekta með lagasetningu á þessu réttarsviði, enda var þá þegar hafin umræða um nauðsyn þess að endurskoða gildandi lög um lausafjárkaup, m.a. með hliðsjón af réttarþróun á Norðurlöndum, svo og annars staðar.
    Á undanförnum árum hefur mikil áhersla verið lögð á aukna vernd fyrir neytendur á öllum sviðum, og hefur umfang neytendaverndar vaxið ört hér á landi. Í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið var ákveðið að eitt svið samninganna skyldi vera um neytendavernd, og með aðild Íslands að EES skuldbundu stjórnvöld sig til þess að setja í innlendan rétt ýmsar tilskipanir EB, þar á meðal á þessu réttarsviði. Í viðauka XIX (neytendavernd) í EES- samningnum er að finna upptalningu þeirra EB-gerða sem felldar hafa verið inn í EES- samninginn.
    Ný lagafyrirmæli hafa verið sett til þess að fullnægja framangreindum samningsskyldum Íslands og/eða gerðar nauðsynlegar breytingar á gildandi lögum til þess að innleiða ákvæði tilskipananna. Frá gildistöku samningsins hafa því verið sett lög um vernd neytenda gegn villandi auglýsingum, lög um húsgöngu- og fjarsölu og lög um neytendalán, reglur settar um verðmerkingar og ótvírætt einingaverð á vöru, lög um alferðir, lög um gerð samninga um hlutdeild í afnotarétti orlofshúsnæðis (time-share) svo dæmi séu nefnd af þessu réttarsviði. Auk þess hefur ákvæðum samningalaganna verið breytt í því skyni að styrkja réttarstöðu neytenda gagnvart óréttmætum samningsskilmálum í viðskiptum, en spor í þá átt hafði áður verið stigið með setningu laga nr. 11/1986.
    Jafnframt því að efnisréttur hér á landi hefur þróast samkvæmt framansögðu að mestu leyti til samræmis við efnisrétt annarra ríkja á Norðurlöndum hefur einnig verið lögð áhersla á annars konar samstarf um málefni neytenda, t.d. á vettvangi norrænu ráðherranefndarinnar, svo sem með þátttöku í ýmsum fastanefndum, sem fjalla um neytendamál o.fl., enda rík hefð fyrir náinni samvinnu milli norrænu landanna á sviði kaupa- og neytendaréttar. Ísland tekur einnig þátt í samvinnu aðildarríkja ESB á sviði neytendamála, en í bókun 31 við EES- samninginn er að finna ályktun ráðsins frá 13. júlí 1992 um mikilvægustu framtíðarverkefni við mótun stefnu um neytendavernd, sbr. 92/C 186/01.
    Í frumvarpi því, sem hér liggur fyrir, er sem fyrr segir að finna margvísleg ákvæði um neytendakaup sem verða nýmæli í íslenskri löggjöf ef frumvarpið verður að lögum. Horfa ákvæði þessi öll tvímælalaust í þá átt að styrkja mjög og efla réttarstöðu neytenda. Lögfesting slíkra reglna mun því samkvæmt framansögðu fylla inn í þá eyðu sem myndast hefur hér á landi í annars heildstæðri löggjöf á sviði neytendaverndar. Vernd neytenda á Íslandi verður þá orðin sambærileg að lögum og tíðkast í nágrannaríkjum okkar. Framvegis mun því verða unnt að leggja áherslu á að innlend löggjöf fylgi réttarþróun í grannríkjum okkar og á fjölþjóðlegum vettvangi, auk þess sem áherslan mun í framtíðinni beinast að ýmsum atriðum sem varða framkvæmd neytendaverndar hér á landi.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um I. kafla.

    Í I. kafla frumvarpsins eru ákvæði um gildissvið laganna. Þar kemur m.a. fram að þau gilda um kaup nema á annan veg sé mælt í lögum eða samningur eða viðskiptavenja leiði til annarrar niðurstöðu. Þó er sérstaklega tekið fram að lögin gilda ekki um fasteignakaup. Hins vegar gilda þau um skipti eftir því sem við á. Einnig er gert ráð fyrir því að lögin gildi um svonefnd pöntunarkaup, en þau gilda ekki um þjónustusamninga, sbr. 2. mgr. 2. gr.
    Lögin ná einnig til neytendakaupa, en þau eru skilgreind í 4. gr. frumvarpsins. Oft gilda þó sérreglur um neytendakaup, og er nánari grein gerð fyrir því í öðrum ákvæðum laganna. Loks gilda lögin um alþjóðleg kaup. Ákvæði um þau eru einkum í 5. gr. og XV. kafla. Nýmæli kaflans felast einkum í ákvæðunum um neytendakaup og alþjóðleg kaup.

Um 1. gr.


    Ákvæði þetta er orðað með nokkuð öðrum hætti en 1. gr. gildandi kaupalaga, en þó er ekki stefnt að efnisbreytingu. Greinin fjallar um gildissvið kaupalaganna. Í 1. gr. frumvarpsins er ekki fjallað um það að hve miklu leyti kaupalögin eru frávíkjanleg, en um það efni eru ákvæði í 3. og 4. gr., sbr. einnig ákvæði 2. og 5. gr. frumvarpsins.
    Hugtakið kaup er ekki skilgreint í frumvarpinu. Ástæðan er sú að hugtakið kaup hefur til þessa haft tiltölulega skýra merkingu í daglegu máli og lagamáli. Með kaupum er venjulega átt við gagnkvæman samning þar sem annar aðili (seljandi) lætur af hendi eða lofar að láta af hendi einhverja eign til hins aðilans (kaupanda), en kaupandi greiðir eða lofar að greiða seljanda peninga sem endurgjald fyrir eignina. Gjafagerningar falla utan gildissviðs kaupalaganna. Samt sem áður er eðlilegt að nokkur ákvæði frumvarpsins taki einnig til gjafaloforða, einkum þegar um svonefnda gjafasölu er að ræða, þ.e. þegar segja má að eitthvert endurgjald komi á móti.
    Samningar um leigu og önnur afnot hlutar falla ekki undir gildissvið kaupalaganna. Ef samið hefur verið um leigu eða kaupleigu með rétti til handa leigutaka eða kaupleigutaka til þess að kaupa hlutinn í lok leigutíma getur verið erfitt að greina á milli leigu og kaupa. Það leikur tæpast vafi á því að ákvæðum kaupalaganna verður beitt ef leigjandinn beitir rétti sínum til þess að kaupa. Engu að síður gilda ákvæði frumvarpsins ekki án fyrirvara um leigusambandið meðan rétturinn til kaupa hefur ekki verið notaður. Samningar um hugsanleg kaup og samningar um forkaupsrétt teljast ekki til kaupa. Aftur á móti ná kaupalögin til skilyrtra kaupsamninga.
    Af ákvæðum 1. mgr. leiðir þá meginreglu að kaupalögin gilda um allar tegundir kaupa. Þau gilda því í neytendakaupum, alþjóðlegum kaupum og kaupum með afborgunarskilmálum. Um neytendakaup verður nánar rætt í skýringum við 4. gr., og um alþjóðleg kaup verður nánar rætt í skýringum við 5. gr. og XV. kafla frumvarpsins.
    Skírskotun 1. mgr. til þess að annað geti leitt af lögum snýr bæði að öðrum ákvæðum í kaupalögunum sjálfum og að ákvæðum í öðrum lögum. Í kaupalögunum koma slíkar takmarkanir á gildissviðinu t.d. fram í 2.–5. gr., 2. mgr. 15. gr. og lokamálslið 26. gr. frumvarpsins. Erfitt er að finna dæmi um önnur lög sem kveða svo á að kaupalögin skuli ekki gilda um tiltekin kaup. Aftur á móti getur frekar komið fyrir að önnur lagaákvæði komi þá í stað ákvæða kaupalaganna eða til viðbótar þeim. Dæmi um þetta er lög um húsgöngusölu.
    Kaupalögin gilda ekki um fasteignakaup. Engu að síður má beita ýmsum ákvæðum þeirra við fasteignakaup með lögjöfnun. Á hinn bóginn eru fasteignakaup þess eðlis að mörg álitaefni verða aðeins leyst á grundvelli sérstaks eðlis þeirra. Enginn vafi leikur á að kaup á einstökum hlutum til húsbygginga teljast til kaupa samkvæmt frumvarpinu þótt ætlunin sé að fella þá saman í hús eða önnur mannvirki.
    Allir lausafjármunir falla undir gildissvið laganna. Þau ná til áþreifanlegra hluta eins og húsgagna og verðbréfa og óáþreifanlegra hluta eins og munnlegra krafna og réttinda. Skiptir ekki máli í því sambandi þótt notuð séu hugtökin söluhlutur eða hlutur, sbr. t.d. 12. og 13. gr. Gildissvið kaupalaganna er því að þessu leyti rýmra en gildissvið 5. gr. SÞ-samningsins. Enn fremur ná lögin til kaupa á tölvuforritum. Slík forrit kunna að vera á disklingi, en þau geta einnig verið á hörðum diski sem fylgir við kaup á tölvuvélbúnaði. Í slíkum tilvikum liggur verðmætið í forritinu sjálfu og eiginleikum þess.
    Sumir hlutir eru þess eðlis að þeir verða ekki framseldir, svonefndir „res extra commercium“. Ekki er eðlilegt að kaupalögin gildi um slíka hluti. Sem dæmi um þetta má nefna lifandi menn eða lík manna. Viðskipti með einstaka líkamshluta lifandi eða látinna manna geta þó verið raunhæf í tengslum við líffæraígræðslu og í öðrum svipuðum tilvikum. Einstök sérlagaákvæði setja þó slíkum viðskiptum ákveðin takmörk, m.a. vissar kröfur um samþykki, sbr. lög um brottnám líffæra og krufningar. Hlutur getur einnig verið óframseljanlegur vegna þess að litið er á hann sem helgan eða óskerðanlegan, t.d. ýmsir kirkjulegir munir. Framsalstakmarkanir kunna einnig að gilda samkvæmt sérstökum lögum, t.d. samkvæmt þjóðminjalögum.
    Suma hluti má ekki selja vegna skaðlegra eiginleika þeirra eða annarra ástæðna, t.d. fíkniefni eða heimabruggað áfengi. Samningur um kaup eða sölu á heimabruggi getur ekki öðlast lögvernd fyrir íslenskum dómstólum. Af þeim sökum er heldur ekki eðlilegt að kaupalögin gildi um slík kaup. Aðstaðan er önnur ef unnt er að fá sérstakt leyfi til þess að selja viðkomandi vöru en það leyfi er ekki fyrir hendi þegar sala fer fram. Sem dæmi má nefna það tilvik þegar kaupmaður selur vindlinga sem hefur verið smyglað inn í landið. Kaupalögin gilda þá um slík viðskipti, en segja má að eins konar vanheimild yfir hlutnum sé til staðar.
    Samningar um sölu á raforku teljast ekki til kaupa. Ástæðan er sú að rafmagn er að jafnaði afhent í órofinni starfsemi, og raforka verður ekki afmörkuð á sama hátt og aðrir hlutir. Svipuð sjónarmið eiga við um sjónvarpssendingar með leiðara. Hér má segja að afhendingin sé skyldari leigu þar sem hún er órofin. Kapalfyrirtækið er yfirleitt eingöngu miðlari merkja frá sjónvarpsfyrirtæki, og aðstaðan líkist því talsvert afhendingu á raforku. Miðlun upplýsinga með tölvutengingu er hins vegar skyldari kaupum, t.d. beinlínutenging við upplýsingabanka. Hér er um að ræða vissar upplýsingar, sem pantaðar eru fyrir fram, og greitt er fyrir þær, eftir atvikum með áskrift. Þessi viðskipti hafa einkum sérstöðu varðandi afhendingu hins selda, en það þykir þó ekki geta valdið neinum úrslitum í þessu efni. Nefna má til samanburðar að afhending á gasi, olíu og vatni fer fram í gegnum leiðslur, en þar hefur þó verið talið að um kaup sé að ræða. Að því er heitt og kalt vatn varðar gilda um það sérstök lög og gjaldskrár. Sú afhending er því háð sérstökum lögum, en ekki er útilokað að einstakar reglur kaupalaganna geti átt við um hana ef eðlisrök leiða til slíkrar niðurstöðu.
    Í 2. mgr. greinarinnar kemur fram að kaupalögin gilda einnig um skipti, eftir því sem við getur átt. Efnislega sambærilegt ákvæði er í 2. mgr. 2. gr. gildandi kaupalaga. Þegar um skipti er að ræða er oft eðlilegt að líta á hvorn aðila um sig sem seljanda að því er snertir það verðmæti sem hann hefur lofað að láta af hendi og jafnframt að telja hvorn um sig sem kaupanda að því er varðar það verðmæti sem hann hefur fengið loforð um að fá framselt. Því gilda t.d. samtímis reglurnar um forrannsókn og um skyldu til þess að veita hlutnum viðtöku af beggja hálfu. Hins vegar eiga ekki allar reglur kaupalaganna við um skipti. Það á t.d. við um ákvæði laganna um kaupverð og fleiri ákvæði.
     Samningar, sem í daglegu tali eru venjulega kallaðir skipti, geta í raun verið tvenn sjálfstæð kaup samkvæmt kaupalögum. Þetta gildir t.d. þar sem maður hefur keypt nýjan bíl og seljandinn tekur gamla bílinn upp í sem hluta kaupverðs. Yfirleitt er ekki nauðsynlegt að gera mun á þessum tilvikum sérstaklega þar sem lögin gilda einnig um skipti. Svipuð sjónarmið virðast gilda þegar önnur greiðslan er viðskiptabréf. Þó skal tekið fram að erfitt getur verið að leysa úr því að hve miklu leyti ákvæði laganna eiga við um slíkar aðstæður.
    Ákvæði 2. mgr. gilda einungis um skipti á hlutum. Ef hlutur er seldur gegn öðru gagngjaldi en peningum, t.d. fasteign eða vinnuframlagi, er vafasamt hvort kaupalögin eiga beint við. Ákvæði kaupalaganna um skyldur kaupanda eru sett með það í huga að endurgjaldið sé peningar. Þrátt fyrir þetta er þó einnig eðlilegt að beita hér kaupalögunum svo langt sem þau ná á samninga þar sem endurgjaldið er fólgið í öðru en peningum.

Um 2. gr.


    Ákvæðið fjallar um pöntunarkaup og þjónustusamninga. Af ákvæðinu leiðir að pöntunarkaup falla undir gildissvið laganna, en þjónustusamningar utan þeirra. Í gildandi kaupalögum er fjallað um pöntunarkaup í 1. mgr. 2. gr., en ekki er þar að finna neina skilgreiningu gagnvart þjónustusamningum. Í heild er ekki stefnt að neinum meginbreytingum að því er gildandi rétt varðar.
    Ákvæði 1 mgr. á við, þegar sá sem pantar hlut er búa skal til lætur ekki í té verulegan hluta efnis til framleiðslunnar. Sem dæmi má nefna það tilvik þegar maður pantar eldhúsinnréttingu. Ef smiðurinn leggur jafnframt til efnið í eldhúsinnréttinguna er um kaup að ræða. Ef sá sem pantar leggur jafnframt til efnið er hins vegar ekki um kaup að ræða, heldur verksamning. Í framkvæmd eiga pöntunarkaup helst við þegar um er að ræða einstaklingsbundna handverksframleiðslu eða verksmiðjuframleiðslu, t.d. samninga um smíði skipa, byggingu flotbryggja og kaup á sérhönnuðum vélum. Raðsmíðaðir hlutir geta einnig fallið hér undir. Pöntunarkaup geta einnig falist í efnasamruna og gróðurrækt. Sem dæmi má nefna þegar kaupandi pantar ákveðinn fjölda skrautblóma í garðyrkjustöð sem eiga að ná vissri stærð áður en þau eru afhent.
    Í ákvæðinu kemur fram skilyrði um „verulegan hluta efnis“. Ef kaupandinn lætur í hlut allt efnið eða verulegan hluta þess eiga ákvæði kaupalaganna ekki við. Við skýringu hinna tilvitnuðu orða ber ekki aðeins að meta hina fjárhagslegu þýðingu viðkomandi hlutar, heldur einnig hina notkunarlegu þýðingu hans.
    Í 2. málsl. er tekið fram að lögin gildi hvorki um samninga um að reisa byggingar né önnur mannvirki á fasteign. Þessi undantekning er ófrávíkjanleg, og hún gildir án tillits til þess hver lætur í té efnið. Reglan er í samræmi við gildandi rétt. Undantekningin gildir um allar gerðir bygginga eða annarra mannvirkja, svo og framkvæmdir við byggingar og mannvirki sem eru varanlega skeytt við fasteignir. Samningar um framkvæmdir við fasteignir, svo sem að leggja flísar á gólf eða annað gólfefni, falla því utan laganna. Önnur mannvirkjagerð getur t.d. verið smíði brúar eða varanlegra mannvirkja í sjó. Jafnvel þótt slík mannvirki séu oft smíðuð að verulegu leyti á landi og síðan dregin á haf út falla samningar um þau utan ramma laganna. Á hinn bóginn er ljóst að lögin taka til einstakra byggingarhluta sem skeyta á við mannvirkið, nema því aðeins að viðskeytingin teljist „verulegur hluti“ af samningsskyldunni.
    Ákvæði 2. mgr. er skylt 1. mgr. greinarinnar að því leyti að 2. mgr. skilgreinir hvenær ekki er um pöntunarkaup er að ræða. Ef sá sem pantar hlut útvegar sjálfur efnið til hans verður sjálfur tilbúningur hlutarins aðalefnið í skyldu seljanda, og kaupalögin eiga þá ekki við. Ákvæði 2. mgr. hefur í sjálfu sér ekki mikla sjálfstæða þýðingu, heldur ber fremur að líta á það sem nánari útfærslu á 1. mgr. greinarinnar. Það getur þó haft sjálfstæða þýðingu, ef vinnu- eða þjónustuskyldur seljanda eru ekki tengdar gerð hlutarins sem slíks, t.d. ef um er að ræða skyldur í tengslum við afhendingu hlutar eða skyldur eftir afhendingu.

Um 3. gr.


    Eins og áður er fram komið í almennum athugasemdum eru lög þessi frávíkjanleg eins og gildandi lög. Það gildir þó að meginstefnu til ekki um neytendakaup.
    Ákvæði laganna víkja í fyrsta lagi fyrir því sem leiðir af samningi aðila. Lögin víkja ekki einungis fyrir því sem berum orðum er kveðið á um í samningi, heldur líka fyrir því sem eftir atvikum má ætla að hafi verið gengið út frá við samningsgerðina. Einnig er til í dæminu að aðilar komi sér saman um nýja skilmála eftir að til samnings hefur stofnast. Víkja þá ákvæði laganna einnig fyrir slíkum síðari samningsskilmálum og forsendum þeirra. Aðilar geta á hinn bóginn ekki samið um hvað sem er í skiptum sínum. Samningsfrelsi þeirra takmarkast af þeim ákvæðum laganna sem ófrávíkjanleg eru, sbr. t.d. 4. gr., og einnig setja ófrávíkjanlegar reglur í öðrum lögum samningsfrelsi aðila skorður. Sem dæmi slíkra lagareglna má t.d. nefna 36. gr. samningalaganna og 10. gr. samkeppnislaganna.
    Auk samnings aðila getur föst venja í skiptum þeirra vikið til hliðar ákvæðum kaupalaganna, og er þetta í sjálfu sér ný regla í samanburði við gildandi lög. Þá leiðir það oft af forsendum aðila við samningsgerðina að þeir leggja til grundvallar lögskiptum sínum fyrri samskiptavenjur. Regla þessi um gildi fastrar venju er hliðstæð reglu 1. mgr. 9. gr. SÞ- samningsins.
    Eins og í gildandi lögum víkja ákvæði frumvarpsins fyrir viðskiptavenju eða annarri venju. Það er að jafnaði skilyrði fyrir því að um viðskiptavenju geti verið að ræða að hún sé almennt viðurkennd og henni fylgt innan viðkomandi greinar. Stundum getur verið að ólíkar venjur hafi myndast á vissum stöðum eða mörkuðum. Meta verður hvert tilvik fyrir sig þegar ákveðið er hvaða venja skuli gilda í slíkum tilvikum.
    Það er einnig nýmæli samkvæmt frumvarpinu í samanburði við gildandi lög að taka með venju „sem telja verður bindandi í millum aðila“. Það að seljandi hafi gert fyrirvara um ábyrgð sína varðandi tiltekna galla í eitt skipti veitir honum ekki skilyrðislaust sama rétt í næstu kaupum við sama aðila. Eðli venjunnar getur að vissu marki ráðið því hvort hún verður lögð til grundvallar. Venja, sem er augljóslega ósanngjörn, getur því ekki vikið ákvæðum laganna til hliðar, sbr. og 3. mgr. 36. gr. c samningalaganna. Í alþjóðlegum kaupum eru að auki sett sérstök skilyrði fyrir því að viðskiptavenja verði lögð til grundvallar, sbr. 90. gr. frumvarpsins og skýringar við þá grein.
    Ákvæði 4. gr. frumvarpsins setja því takmörk að hve miklu leyti venja verður lögð til grundvallar í neytendakaupum. Viðskiptavenja verður t.d. aldrei lögð til grundvallar í neytendakaupum þar sem kaupandinn er ekki viðskiptaaðili í þeirri merkingu sem hugtakið viðskiptavenja áskilur. Eigi að síður má hugsa sér að aðrar venjur geti gilt í slíkum kaupum.

Um 4. gr.


    Tilgangurinn með sérreglum um neytendakaup er einkum sá að vernda kaupanda sem stendur höllum fæti í samningssambandinu. Í SÞ-samningnum er vikið að neytendakaupum í a-lið 2. gr., sbr. 3. mgr. 5. gr. frumvarpsins. Það er meginregla samkvæmt frumvarpinu að ekki verður vikið frá ákvæðum laganna neytendum til tjóns. Sú regla kemur fram í 1. mgr. 4. gr. Hins vegar er gert ráð fyrir því í tilteknum ákvæðum frumvarpsins að ákvæðin um neytendakaup séu frávíkjanleg í ákveðnum tilvikum, sbr. 2. mgr. 11. gr.; 2. mgr. 22. gr.; 2. mgr. 30. gr.; 4. mgr. 41. gr.; 4. mgr. 67. gr. og 79. gr. Þar við bætist að stundum er ljóst af orðalagi að einstök ákvæði eru frávíkjanleg. Sem dæmi um þetta má nefna ákvæði 8. gr. um viðbótarskyldu við sendingarkaup, ákvæði 1. mgr. 45. gr. um fjárhæð kaupverðs og ákvæði 49. gr. um gjalddaga.
    Ákvæði 1. mgr. 4. gr. leggur ekki einungis bann við samningsskilmálum sem eru neytendum óhagstæðir, heldur hindrar það einnig að seljandinn byggi t.d. á venju sem er kaupanda í neytendakaupum óhagstæðari en ákvæði frumvarpsins, sbr. athugasemdir við 3. gr. hér að framan. Af ákvæðum greinarinnar leiðir því að heimilt er að semja um kjör sem eru neytendum hagstæðari en vera mundi samkvæmt lögunum. Fyrir þau réttindi, sem kaupandi nýtur samkvæmt bindandi lagareglum, verður hann þó ekki látinn greiða sérstaklega. Hins vegar má gegn gjaldi falla frá löglegum fyrirvara, t.d. fyrirvara þess efnis að hlutur sé seldur „í því ástandi, sem hann er“.
    Í 2. mgr. er skilgreint hvaða kaup teljast til neytendakaupa. Í skilgreiningunni kemur í fyrsta lagi fram að seljandinn þarf að hafa sölustarfsemi að atvinnu svo að um neytendakaup geti verið að ræða. Af því leiðir að innbyrðis sala milli neytenda telst ekki vera neytendakaup í skilningi laganna. Á hinn bóginn skiptir ekki máli hvort umsvif seljanda eru lítil eða mikil eða hver er tilgangur hans með sölustarfseminni. Af þeim sökum útilokar það ekki að um neytendakaup geti verið að ræða þótt arður af sölustarfsemi skuli renna til viðskiptamanna eða til einhvers góðgerðamálefnis. Í öðru lagi er áskilið að um „persónuleg not“ sé að ræða. Orðasambandið ber að túlka rúmum skilningi. Þannig mundu t.d. þar undir falla hlutir sem keyptir eru til tækifærisgjafa. Einnig hlutir sem t.d. nemendafélög, húsfélög og ýmis almenn félög kaupa til persónulegra nota fyrir félagsmenn sína. Sú staðreynd að fleiri en einn einstaklingur skipuleggja sameiginleg innkaup útilokar ekki að um neytendakaup sé að ræða ef tilgangur kaupanna er persónuleg not. Yfirleitt má þó segja að því stærri sem þau félagssamtök eru sem að innkaupum standa, þeim mun meiri líkur eru til þess að kaupin fái á sig blæ kaupa í atvinnustarfsemi. Vera má einnig að hlutur sé að nokkru leyti keyptur til persónulegra nota, en að öðru leyti til atvinnurekstrar. Dæmi um það er þegar keypt er bifreið sem kaupandi hyggst að sumu leyti nota persónulega en að öðru leyti við atvinnustarfsemi sína. Hér verður að leggja til grundvallar hver sé aðaltilgangur kaupanna. Ef hann er aðallega sá að kaupa bifreið til persónulegra nota verður að telja að um neytendakaup sé að ræða og öfugt. Akstur bifreiðar til og frá vinnu telst til persónulegra nota í þessu sambandi.
    Fram kemur í 2. mgr. að jafnvel þótt kaup falli undir skilgreininguna á neytendakaupum er þó ekki unnt að líta á þau sem slík ef seljandi hvorki vissi né gat vitað að kaupin hefðu slíkan tilgang þá er þau gerðust. Rétt er þó að leggja á það áherslu að ákvæðið felur ekki í sér reglu um sönnunarbyrði. Eigi að síður gefur orðalagið vísbendingu um að það er seljandinn sem ber sönnunarbyrðina þegar sú spurning vaknar hvort hann vissi ekki eða mátti ekki vita um tilgang kaupanda. Við mat á vitneskju seljanda hefur það þýðingu hvers konar hlut var um að ræða og hver kaupandinn var. Ef t.d. kaupmaður kaupir skrifstofuhúsgögn án þess að upplýsa að hann ætli að nota þau heima hjá sér til persónulegra nota mundu kaupin að öllu jöfnu falla utan neytendakaupa.
    Í málsgreininni er tekið fram að kaup á kröfum og réttindum teljist ekki til neytendakaupa. Helgast það af því að slík kaup, t.d. kaup á hlutabréfum, eru alla jafna ekki til persónulegra nota í þeim skilningi sem hér um ræðir. Undantekningin gildir, jafnvel þótt unnt sé að sýna fram á í einstökum tilvikum að slíkar kröfur eða réttindi hafi verið keypt til persónulegra nota.
    Þýðing 3. mgr. frumvarpsgreinarinnar felst einkum í því að hún skilgreinir nánar hvað sé atvinnustarfsemi. Það ræður úrslitum með hvaða hætti seljandinn kemur fram, þ.e. hvort hann kemur fram sem atvinnumaður við kaupin eða ekki. Þetta felur í sér að sami maður getur ýmist komið fram vegna atvinnustarfsemi sinnar eða sem neytandi. Þegar það er metið hvort komið er fram í þágu atvinnustarfsemi verður að leggja heildarmat til grundvallar með hliðsjón af stöðu seljanda og starfsemi. Kjarninn í þessu mati er hvort seljandinn hefur sölustarfsemi eða svipaða starfsemi að atvinnu. Þegar um tilviljunarkennda sölu í fyrirtæki er að ræða verður að meta þetta atriði m.a. út frá því hvort sambærilegar sölur eigi sér a.m.k. stað öðru hverju í fyrirtækinu. Rétt er að taka af öll tvímæli um það að sala í atvinnustarfsemi ríkis, sveitarfélaga og opinberra stofnana fellur hér undir. Sama gildir um sölu í tengslum við starfsemi allra stærri félagasamtaka, jafnvel þótt þar sé um hugsjónastarfsemi að tefla, t.d. sölu á vegum skátahreyfingarinnar.
    Verið getur að í fyrirtæki sé stunduð tiltekin atvinnustarfsemi sem ekki verður felld undir sölustarfsemi, en samt sem áður við og við stunduð sala sem kalla má hliðarstarfsemi. Dæmi um þetta er stórt fyrirtæki í þjónustustarfsemi sem vegna endurnýjunar selur öll skrifstofuhúsgögn sín. Í slíkum tilvikum er sanngjarnt að líta svo á að um atvinnustarfsemi séð að ræða, a.m.k. ef slík sala fer fram öðru hverju.

Um 5. gr.


    Í 1. mgr. er tekið fram að ákvæði laganna gildi einnig í alþjóðlegum kaupum. Því til grundvallar liggur sú aðferð sem ákveðið hefur verið með þessu frumvarpi að beita við lögleiðingu SÞ-samningsins í íslenskan rétt, sbr. það sem áður segir um það efni í almennum athugasemdum hér að framan. Eigi að síður er óhjákvæmilegt að í lögunum séu sérákvæði sem einungis gilda í alþjóðlegum kaupum. Þær sérreglur eru í XV. kafla laganna og í einstökum ákvæðum annarra kafla eins og nánar er gerð grein fyrir í almennum athugasemdum. Skilgreiningin á því hvað séu alþjóðleg kaup er í 87. gr. frumvarpsins. Þegar svo hagar til að enginn samningsaðila hefur atvinnustöð á Íslandi er forsenda þess að íslenskum lögum verði beitt að slíkt leiði af samningi aðila eða reglum alþjóðlegs einkamálaréttar.
    Í 2. mgr. er undantekning að því er varðar norræn kaup. Samkvæmt 94. gr. SÞ- samningsins er samningsríkjum, sem hafa svipaðar reglur í landsrétti sínum, heimilt að ákveða að SÞ-samningurinn skuli ekki gilda um kaup milli aðila í þeim ríkjum. Ákvæði frumvarps þessa eru svo lík ákvæðum í kaupalögum annarra norrænna ríkja að líta verður svo á að skilyrðum 94. gr. SÞ-samningsins sé fullnægt að þessu leyti. Afstaða Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar til þessa er hin sama. Þegar um norræn kaup er að ræða ber því eingöngu að beita kaupalögum þess norræna ríkis sem í hlut á.
    Í 3. mgr. er ákvæði sem svarar til 2. gr. SÞ-samningsins og felur í sér að sérreglur laganna um alþjóðleg kaup gilda ekki um ákveðnar tegundir alþjóðlegra kaupa. Í þessu felst t.d., að þótt um neytendakaup milli aðila hverra í sínu landi sé að ræða eru það reglur íslensku laganna sem gilda ef þau eiga á annað borð við án tillits til þeirra sérákvæða sem m.a. leiðir af XV. kafla laganna.
    Undantekningin í 2. gr. a í SÞ-samningnum nær einnig til sölu milli neytenda. Það er skýring þess að ákvæði a-liðar 3. mgr. 5. gr. frumvarpsins nær einnig til sambærilegra kaupa „milli neytenda“. Skilgreining neytendakaupa í 2. mgr. 4. gr. er þrengri að því leyti að hún nær aðeins til seljanda sem hefur atvinnu sína af sölu. Ákvæði b-liðar á við um frjáls uppboð. Ástæðan fyrir undantekningunni er sú að seljandi getur ekki vitað hver er kaupandi fyrr en uppboði lýkur. Þetta mundi skapa of mikla óvissu um gildissvið SÞ-samningsins. Ákvæði c-liðar á við nauðungarsölu eða sölu samkvæmt sérstökum lagaákvæðum, sbr. t.d. lög um sölu á óskilamunum og fundnu fé. Ákvæði d-liðar gildir hvort sem litið verður á kröfu sem hlut eða ekki. Ástæðan er sú að margar reglur kaupalaganna falla illa að slíkum kaupum, t.d. reglurnar um galla á söluhlut. SÞ-samningurinn gerir sérstaka undantekningu að því er rafmagn varðar, sbr. f-lið 2. gr. Engu síður er þetta ekki tekið með í 5. gr., enda fellur sala á rafmagni utan gildissviðs kaupalaganna.
    Þegar svo er tekið til orða í 2. og 3. mgr. að sérreglurnar um alþjóðleg kaup gildi ekki er í fyrsta lagi átt við það að þær sérstöku reglur, sem aðeins eiga við í alþjóðlegum kaupum, t.d. 87.–99. og 3. mgr. 70. gr., gilda ekki. Í öðru lagi felst í þessu að þær undantekningar, sem mælt er fyrir um í einstökum greinum og varða alþjóðleg kaup, gilda ekki heldur, t.d. 2. mgr. 66. gr. Í þeim tilvikum, sem um ræðir í 2. og 3. mgr., gilda því fullum fetum sömu reglur og í þjóðlegum kaupum.

Um II. kafla.


    Í kaflanum eru þau ákvæði laganna sem varða skyldur seljanda í tengslum við afhendinguna, en hún hefur grundvallarþýðingu að því er varðar ýmsar aðrar reglur laganna. Í fyrsta lagi er það afhendingin sem skiptir máli varðandi það hvenær áhættan af söluhlut flyst frá seljanda til kaupanda, sbr. ákvæði III. kafla. Í öðru lagi skiptir afhendingin máli varðandi skiptingu kostnaðar milli samningsaðila, sbr. 11. gr. Í þriðja og fjórða lagi skiptir afhendingin miklu máli varðandi mat á því hvort um galla eða greiðsludrátt er að ræða, sbr. 21. og 22. gr. Í öllum aðalatriðum eru ákvæði kaflans hliðstæð ákvæðum gildandi laga, sbr. ákvæði 9.–16. gr. gildandi laga. Þó eru þar á ferðinni nokkur nýmæli, auk þess sem reglur frumvarpsins eru að ýmsu leyti nákvæmari en reglur gildandi laga.

Um 6. gr.


    Ákvæðið svarar til 9. gr. gildandi laga, og kemur þar fram meginreglan um það hver sé afhendingarstaður í lausafjárkaupum. Í fyrirsögn frumvarpsgreinarinnar eru þau kaup, sem hér um ræðir, nefnd reiðukaup, og er það hugtak í frumvarpinu notað í sömu merkingu og hugtakið „hentekjöp“ í norsku lagamáli, „henteköb“ í dönsku lagamáli og „hamtningsköp“ í sænsku og finnsku lagamáli. Felst í þessari hugtaksnotkun umfram allt skírskotun til þess að seljandinn skuli hafa söluhlut til reiðu fyrir kaupanda á atvinnustöð sinni eða eftir atvikum heimili, þ.e. þangað skal kaupandinn sækja hlutinn.
    Það er grundvallarregla samkvæmt greininni að hafi ekki um annað verið samið er seljandi ekki skyldugur til að senda hlut til kaupanda, en seljandi skal hafa hlut til reiðu fyrir kaupanda á atvinnustöð sinni eða heimili ef ekki er um atvinnustöð að ræða. Í þessu felst einnig að seljandi skal hafa pakkað hlut inn á viðeigndi máta, sbr. nánar ákvæði 17. gr.
    Þess verður ekki krafist að seljandi hafi hlut til reiðu allan sólarhringinn þegar afhendingartími er kominn, heldur nægir að hlutur sé til reiðu á venjulegum afgreiðslutíma. Það er lágmarkskrafa að kaupandinn geti með sanngirni átt þess kost að ná í hlut. Heimili seljanda sem afhendingarstaður er aðeins nefnt með tilvísun til 83. gr. Á það reynir ef seljandinn hefur enga atvinnustöð sem tengist kaupunum. Það leiðir af orðalagi ákvæðisins um afhendingarstað að hann breytist ekki þótt seljandi flytji atvinnustöð sína (eða heimili) eftir að kaupin gerðust, sbr. orðalagið „þegar kaup voru gerð“.
    Ef aðilar vissu við kaupin að hlutur var annars staðar en á atvinnustöð eða heimili seljanda skal hafa hlutinn til reiðu þar. Sem dæmi um þetta má nefna það tilvik þegar maður sem er búsettur á Akureyri, selur skútu sem aðilar vita að er í höfn í Reykjavík. Í ákvæðinu er við það miðað sem aðilar raunverulega vissu, en ekki það sem þeir máttu vita, enda mundi gagnstæð regla geta stefnt hagsmunum kaupanda um of í hættu. Vitneskja aðila verður ekki einungis að ná til þess að hlut sé annars staðar að finna, heldur einnig til þess hvar hann er. Sá áskilnaður að um raunverulega vitneskju sé að ræða er í samræmi við ákvæði SÞ- samningsins og ákvæði í kaupalögum annarra ríkja á Norðurlöndum.
    Ákvæði greinarinnar eiga einnig við þegar söluhlutur eða sá vörulager eða framleiðslustaður, sem söluhlut átti að taka frá, var á öðrum stað en atvinnustöð seljanda og aðilar vita um það. Gengið er út frá að það leiði (beint eða óbeint) af samningi að hlut skuli sækja þangað. Í greininni er auk vörulagers vitnað til framleiðslustaðar. Í frumvarpsgrein þessari er átt við það tilvik þegar sá framleiðslustaður, sem hlut átti að taka frá, var á öðrum stað en atvinnustöðin. Samkvæmt því nægir ekki að aðilar viti við kaupin að hlutur er á framleiðslustað, heldur verður einnig að vera áskilið samkvæmt samningi að hlut eigi að taka þaðan. Reglan tekur umfram allt mið af pöntunarkaupum.
    Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. telst hlutur afhentur þegar kaupandi hefur veitt honum viðtöku. Kaupandi telst hafa veitt hlut viðtöku þegar hann sjálfur eða annar fyrir hans hönd hefur tekið hlutinn í vörslur sínar. Í þessu felst einnig að hlutur telst ekki afhentur meðan seljandinn hefur hann í vörslum sínum. Hafi afhending ekki farið fram á réttum tíma af ástæðum sem rekja má til kaupanda hefur það þýðingu við skiptingu kostnaðar milli aðila skv. 11. gr. frumvarpsins. Hins vegar fellur á seljandann umönnunarskylda í samræmi við ákvæði XI. kafla frumvarpsins. Þar við bætist að áhættan af söluhlut flyst frá seljanda yfir til kaupanda skv. 2. mgr. 13. gr. frumvarpsins.

Um 7. gr.


    Í greininni, sem í raun felur í sér undantekningu frá meginreglu 6. gr. frumvarpsins um afhendingarstað, eru sambærilegar reglur og þær sem fram koma í 10., 11. og 65. gr. gildandi laga. Ákvæði greinarinnar eiga ekki við nema það komi fram í samningi aðila eða leiði af öðrum atvikum að hlut skal senda til kaupanda, og á það bæði við um 1. og 2. mgr. Sé slíkur samningur ekki fyrir hendi gildir meginreglan í 6. gr. um afhendinguna. Í frumvarpsgreininni eru notuð hugtökin „staðarkaup“ og „sendingarkaup“. Um staðarkaup er fjallað í 1. mgr., og er hugtakið staðarkaup þýðing á norska lagahugtakinu „plasskjöp“ og danska hugtakinu „pladsköb“, en hugtakið sendingarkaup í 2. mgr. er þýðing á norska lagahugtakinu „sendekjöp“ og danska hugtakinu „forsendelsesköb“. Í finnsku og sænsku lagamáli er notað hugtakið „transportköp“ um þau tilvik, sem um er fjallað í 7. gr. frumvarpsins.
    Í 1. mgr. 7. gr. frumvarpsins, sem svarar til 11. gr. gildandi laga, kemur fram sú regla um staðarkaup að hlutur telst afhentur þegar kaupandi hefur veitt honum viðtöku, en áður var viðmiðunin sú að hlutur væri kominn í vörslur kaupanda. Í ákvæðinu er fólgin rýmkun gildissviðs staðarkaupa í samanburði við gildandi rétt þar sem reglan gildir einnig innan þess svæðis þar sem seljandi er vanur að afhenda slíka hluti. Ekki er það skilyrði þess að ákvæði greinarinnar eigi við að það sé venja í viðkomandi viðskiptum að afhenda slíka hluti á svæðinu, heldur nægir að það sé sá seljandi sem hlut á að máli sem er vanur að gera slíkt. Ákvæðið á við þegar seljandinn notar starfsmann eða sjálfstæðan flutningsaðila til þess að koma hlut til skila, og það gildir einnig þegar hlutur er sendur með póstsendingum. Af þessu leiðir að þegar póstsendingarfyrirtæki afhendir hlut hefur afhending ekki farið fram fyrr en kaupandi veitir hlut viðtöku, jafnvel þótt hann sé sendur frá einum landshluta til annars. Það að hlutur telst þá fyrst afhentur þegar kaupandi hefur veitt honum viðtöku þýðir að seljandi ber ábyrgð á honum fram að þeim tíma, og hann ber einnig ábyrgð á göllum sem verða á hlut meðan á flutningi stendur. Það leiðir einnig af ákvæðum 11. gr. að seljandi ber kostnað af flutningi.
    Ákvæði 2. mgr. 7. gr. svarar til 10. gr. gildandi laga og hefur ekki í för með sér neina meginbreytingu þótt orðalag frumvarpsgreinarinnar sé nokkuð á annan veg en í gildandi lögum. Sérstök ákvæði um flutning með skipi eru felld niður. Á ákvæði 2. mgr. reynir þegar senda á hlut til kaupanda frá einum stað til annars og atvik eru þannig að ákvæði 1. mgr. eiga ekki við. Ekki skiptir máli hvers konar tæki er notað til flutningsins og ekki heldur hvort flutningi er skipt á milli margra sjálfstæðra flutningsaðila. Af orðalagi ákvæðisins leiðir að hlutur telst þá fyrst afhentur þegar hann hefur verið fenginn í hendur þeim flutningsaðila sem tekið hefur að sér flutning frá sendingarstað . Í 31. gr. a SÞ-samningsins er sambærileg viðmiðun orðuð með nokkuð öðrum hætti, þ.e. „in handing the goods over to the first carrier for transmission to the buyer,“ en merkingin er sú sama. Nægilegt er að hlutur sé afhentur flutningsaðila, t.d. á vörumóttökustöð, á flugvelli, hjá skipafélagi eða öðru flutningsfyrirtæki. Hugtakið „afhentur“ getur verið nokkuð óljóst, einkum ef tjón verður á söluhlut í tengslum við fermingu eða affermingu, og verður það því nokkuð að fara eftir atvikum hverju sinni hver skuli bera áhættuna af tjóni í slíku tilviki.
    Sérstakt álitaefni er þegar notaður er umboðsmaður sem tekur að sér flutning vörunnar fyrir reikning umbjóðanda síns, þ.e. notaður er svokallaður „speditor“. Venjulega er litið svo á að afhending til slíks umboðsmanns geti ekki talist afhending hlutar í skilningi greinarinnar. Atvik geta þó leitt til þess að öðruvísi verði litið á, t.d. þegar slíkur umboðsmaður kynnir sig sem flutningsaðila eða hann tekur fast verð fyrir allan flutninginn.
    Þótt seljandi fái einhvern til að sjá um flutning á sendingarsvæðinu felst ekki í því að hluturinn hafi þar með verið afhentur. Ef seljandi notar t.d. bifreið af sendibílastöð til að flytja vöru til hafnar á sendingarstað telst vara ekki afhent fyrr en hún hefur verið afhent skipafélaginu. En ef sá flytjandi, sem fenginn hefur verið til verksins, tekur bæði að sér flutninginn á staðnum og áfram til afhendingarstaðarins telst afhending hafa átt sér stað þegar flytjandi hefur tekið við hlutnum. Fyrri málslið 2. mgr. ber einnig að skýra þannig að hlutur teljist ekki afhentur ef það er seljandinn sjálfur sem sér um flutninginn á sendingarsvæðinu. Ef seljandinn sér um allan flutninginn telst hlutur ekki afhentur fyrr en kaupandi hefur veitt honum viðtöku, sbr. síðari málslið 2. mgr. frumvarpsgreinarinnar.
    Taki seljandi að sér hluta flutningsins hefur afhending ekki farið fram fyrr en seljandi afhendir hlutinn sjálfstæðum flytjanda. Ef seljandi annast allan flutninginn fer afhending fram þegar kaupandi hefur veitt hlutnum viðtöku. Sjái kaupandinn sjálfur um allan flutninginn er um reiðukaup að ræða skv. 6. gr. frumvarpsins. Eigi kaupandinn að sjá um hluta flutningsins er afhending háð því hvernig honum er háttað fyrsta hluta leiðarinnar. Sjái seljandi um flutninginn miðast afhendingin við viðtöku kaupanda. Hafi seljandinn notað sjálfstæðan flytjanda frá sendingarstað miðast afhending við það að hinn síðarnefndi hafi veitt vörunni viðtöku.
    Í 3. mgr. er kveðið á um þýðingu ýmissa söluskilmála sem varða afhendingu. Ákvæðið svarar til 1. mgr. 65. gr. gildandi laga, en í því eru þó ekki fyrirmæli um kostnaðarskiptingu. Ákvæðið á því aðeins við að hlutur sé seldur „frítt“, „afhentur“ eða „frítt afhentur“ og jafnframt sé gefinn til kynna ákveðinn staður. Ekki skiptir máli í þessu sambandi með hvaða hætti hluturinn hefur verið fluttur þangað. Ákvæðið afmarkar það í sjálfu sér ekki nákvæmlega hvenær afhending hefur átt sér stað, og er því svo hagað af ásettu ráði. Það verður að meta í hverju tilviki fyrir sig, m.a. með hliðsjón af samningum og atvikum að öðru leyti. Í mörgum tilvikum er eðlilegt að krefjast þess að hlutur sé aðgengilegur kaupanda á staðnum, t.d. á vöruflutningastöð eða í útibúi seljandans á staðnum. Um ábyrgð seljanda á kostnaði fer samkvæmt þessu eftir því sem segir í 11. gr. frumvarpsins. Í 62.–65. gr. gildandi laga eru ákvæði um þýðingu ýmissa söluskilyrða sem ekki eru í frumvarpi þessu umfram það sem segir í 3. mgr. 7. gr. Er í þessum efnum fylgt norrænni réttarþróun hvað þetta varðar, og einnig skal tekið fram að í SÞ-samningnum er ekki heldur að finna sérstök ákvæði um þýðingu ýmissa söluskilmála. Það leiðir þó af hinu frávíkjanlega eðli SÞ-samningsins að beita ber slíkum skilmálum ef um þá hefur verið samið.
    Ákvæði 4. mgr., sem er nýmæli, felur í sér þá reglu að hlutur telst þá fyrst afhentur í neytendakaupum þegar kaupandinn hefur veitt honum viðtöku. Ef kaupandinn á að sækja hlutinn telst hann afhentur þegar sá tími er kominn að skylt var að sækja hann. Í ákvæðinu felst að sama regla gildir í staðarkaupum og sendingarkaupum. Það leiðir m.a. af 4. mgr. að í neytendakaupum er ekki heimilt að semja um að afhending skuli hafa átt sér stað þegar hlutur er afhentur flytjanda. Notkun ýmissa söluskilmála hefur heldur ekki þýðingu gagnvart seljanda umfram það sem lögin heimila.
    Í tilskipun 99/44/EB, um tilteknar hliðar á sölu vöru til neytenda og ábyrgðaryfirlýsingar í því sambandi, er í 5. gr. (3) að finna ákvæði sem leggur til sönnunarreglu í neytendakaupum. Í ákvæðinu er tekið fram að komi galli fram í vöru á fyrstu sex mánuðum frá því að hún var afhent skuli hann teljast hafa verið fyrir hendi „við afhendinguna“ nema annað verði augljóslega ráðið af eðli vörunnar sem er afhent eða þeim galla sem á henni er. Í framkvæmd yrði því höfð hliðsjón af framangreindu ákvæði tilskipunarinnar við túlkun á þessu ákvæði frumvarpsins.

Um 8. gr.


    Ákvæði hliðstætt 8. gr. frumvarpsins er ekki í gildandi lögum, en það er í samræmi við 32. gr. SÞ-samningsins. Eigi að síður verður að telja að reglur þær, sem fram koma í 8. gr. frumvarpsins, séu í samræmi við það sem talið hefur verið ólögfestur gildandi réttur á þessu sviði. Í greininni er gert ráð fyrir að samið sé um það að seljandinn eigi að senda hlutinn. Slíkur samningur getur t.d. verið í samræmi við afhendingarskilmála (cif, cf) eða aðra ótvíræða samningsskilmála eða hann getur leitt af forsendum aðila eða fyrri venjum.
    Ákvæði 1. mgr. 8. gr. er í samræmi við 2. mgr. 32. gr. SÞ-samningsins og leggur seljandanum þá skyldu á herðar að gera þá samninga sem nauðsynlegir eru til þess að hlutur komist á ákvörðunarstað. Ef hlutinn þarf að senda með mismunandi flutningstækjum verður seljandinn samkvæmt því að gera samninga um alla flutningana. Það er skilyrði samkvæmt greininni að flutningssamningar séu gerðir á viðeigandi hátt og með vanalegum kjörum. Svar við því hvað telst viðeigandi og vanalegt fer eftir því um hvers konar kaup er að ræða. Þar skiptir m.a. máli tegund söluhlutar og tilgangur kaupa. Eigi t.d. að selja ferskar vörur verður seljandinn að útvega flutningstæki sem skilar vörunni hratt. Almennt verður að forðast ónauðsynlegar umhleðslur og flóknar flutningsleiðir, og sama gildir um óvanalega samningsskilmála.
    Í 2. mgr. eru ákvæði sem eru í samræmi við 3. mgr. 32. gr. SÞ-samningsins. Hér er sú skylda lögð á herðar seljanda að veita kaupanda þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að hann geti keypt vátryggingu. Er þá að sjálfsögðu forsenda að vátryggingarskyldan hvíli ekki á seljandanum. Vátryggingarskyldu seljanda getur t.d. leitt af cif-söluskilmála. Eigi seljandi ekki að tryggja vöruna hefur kaupandinn hagsmuni af því að tryggja hana sjálfur. Þetta gildir án tillits til þess hver ber ábyrgðina á því ef hluturinn ferst af tilviljun meðan á flutningi stendur. Í þessu tilviki getur kaupandinn hins vegar þurft á vissum upplýsingum að halda um hlutinn og flutninginn, og það eru þessar upplýsingar sem seljanda ber að láta í té samkvæmt ákvæðinu.
    Ákvæði 3. mgr. eru að öllu leyti í samræmi við 1. mgr. 32. gr. SÞ-samningsins. Af skyldu seljanda til að senda hlutinn leiðir að hann verður líka að sjá um nauðsynlegar merkingar og farmbréf þannig að hluturinn verði nægilega auðkenndur kaupanda. Þetta leiðir ekki af sjálfu sér þegar um sameiginlega heildarsendingu til margra viðtakenda er að ræða, og í því tilviki hefur greinin þýðingu. Ákvæðið segir hins vegar ekkert til um það hvenær seljandinn á að tilkynna um sendingu. Eðlilegt er að krefjast þess að það sé gert innan sanngjarns tíma frá afhendingu eða hleðslu á flutningstækið. Þegar um stuttar vegalengdir er að ræða verður þó að tilkynna um sendingu fyrr.

Um 9. gr.

    Í 9. gr. frumvarpsins eru ákvæði sem svara til 12. og 13. gr. gildandi laga. Í SÞ- samningnum er mælt fyrir um afhendingartímann í 33. gr. Afhendingartíma leiðir að jafnaði af samningi aðila með beinum eða óbeinum hætti, og á reglu 9. gr. reynir því aðeins að slíku samningsákvæði sé ekki til að dreifa. Í neytendakaupum er einnig fullt frelsi til þess að semja um afhendingartíma, en neytendur geta þó ekki afsalað sér rétti til tilkynningar þegar skilyrði 3. mgr. liggja fyrir.
    Í 1. mgr. 9. gr. kemur fram sú meginregla að hlut skal afhenda innan sanngjarns tíma frá því að kaup voru gerð. Er hér um nýmæli að ræða í samanburði við gildandi rétt þar sem afhending skal, ef ekki hefur verið um annað samið, fara fram þegar þess er krafist, sbr. 12. gr. gildandi laga. Er í samræmi við réttarþróun á Norðurlöndum á því byggt að ástæðulaust sé að skylda kaupanda til að koma fram með kröfu um afhendingu ef slíkt á sér ekki stoð í samningnum. Hin nýja regla er einnig í góðu samræmi við ákvæði SÞ-samningsins. Það hvað telst sanngjarn tími verður að meta hverju sinni með hliðsjón af því hvers konar kaup er um að ræða og atvikum að öðru leyti. Upphaf frests miðast við samningsgerðina. Ef um pöntunarkaup er að ræða er sanngjarnt að seljandinn hafi lengri tíma til afhendingar en þegar vara er afhent beint af lager. Atvik geta eigi að síður verið ærið mismunandi í pöntunarkaupum. Einnig getur verið um að ræða marga hluti sem keyptir eru í einu lagi og seljandi verður að panta hjá mörgum birgjum. Einnig skiptir máli hvort um er að ræða kaup á innanlandsmarkaði eða erlendis frá. Ástæða er til að ætla að jafnan verði samið um afhendingartímann þegar um flókin og umfangsmikil kaup er að ræða. Í framkvæmd verður því „sanngjarn tími“ oft fremur stuttur.
    Ákvæði 2. mgr. eiga við þegar samið hefur verið um svigrúm til afhendingar. Eins og í 13. gr. gildandi laga er það seljandinn sem hefur rétt til að velja tímamarkið nema leiða megi af atvikum að valið sé kaupandans. Seljandi getur t.d. verið háður uppskeru þegar um landbúnaðarvörur er að ræða eða verið háður afhendingartíma ef hann þarf að fá vörur frá öðrum aðila. Af samningi getur leitt að það sé kaupandans að velja tímamarkið. Það á t.d. við þegar kaupandi skal útvega tæki til flutnings vörunnar. Einnig getur verið að afhending eigi að vera í samræmi við þarfir kaupanda eða möguleika hans á að veita vörunni viðtöku. Sem dæmi um þetta má nefna að kaupandi getur þurft að tæma lager sinn áður en hann getur veitt vörunni viðtöku.
    Sérreglan í 3. mgr., sem ekki á sér fyrirmynd í gildandi lögum, er takmörkuð við reiðukaup. Ef það er seljandinn sem í slíkum tilvikum skal velja afhendingartíma skal hann með nægum fyrirvara tilkynna kaupanda hvenær sækja má hlutinn. Sá áskilnaður, að tilkynna skuli um það með nægum fyrirvara, felur það í sér að kaupandinn fái sanngjarnan tíma til að ganga frá því sem nauðsynlegt er til undirbúnings flutningi. Ekki kemur fram í ákvæðinu áskilnaður um sérstakt form tilkynningar. Hún getur því bæði verið munnleg og skrifleg. Enn fremur er einungis gerð krafa um það að tilkynning segi til um það hvenær sækja má hlut. Það leiðir hins vegar af samningi aðila eða ákvæðum 6. gr. hvar sækja á hlutinn. Áhættan af sendingu tilkynningar er hjá kaupandanum, sbr. 82. gr. Ef tilkynning hefur farist fyrir eða kemur of seint verður aðstæðum kaupanda ekki kennt um þá seinkun á afhendingu sem af því leiðir. Þetta getur haft þýðingu m.a. með hliðsjón af flutningi áhættu, sbr. 2. mgr. 13. gr., og varðandi það hvort seljandi geti gert kröfu vegna vanefnda.
    Í ákvæðinu eru ekki fyrirmæli um skyldu kaupanda til að tilkynna seljanda þegar það er kaupandinn sem á að velja afhendingartíma. Sjálfsagt er að kaupandinn tilkynni um slíkt, og vanræki hann það glatar hann venjulega rétti til að bera fyrir sig seinkun sem af því leiðir.

Um 10. gr.


    Í 10. gr. frumvarpsins er sama meginreglan og byggt er á í 14., sbr. 15., 16. og 71. gr. gildandi kaupalaga., þ.e. að hönd selji hendi, en þó þannig að einungis er í ákvæðinu fjallað um heimildir seljanda að þessu leyti. Sambærilegt ákvæði er í 1. og 2. mgr. 58. gr. SÞ- samningsins. Ekkert er í sjálfu sér því til fyrirstöðu að fjalla um heimildir seljanda og kaupanda í einu lagi í sama ákvæðinu, en sú aðferð að greina í þessum efnum á milli heimilda seljanda og kaupanda á sér fyrirmynd í SÞ-samningnum. Meginreglan um að hönd selji hendi gildir þegar ekki er um annað samið. Þetta leiðir af ákvæði 3. gr. frumvarpsins. Í neytendakaupum, sbr. 4. gr., er einnig unnt að semja um greiðslufrest, enda er slíkt ekki andstætt hagsmunum neytandans. Það leiðir þó einnig beint af 10. gr. að veita má greiðslufrest.
    Ákvæði 1. mgr. 10. gr. felur í sér reglu sem eins og áður segir samsvarar í aðalatriðum 14. gr. núgildandi laga, sbr. einnig 16. og 71. gr. laganna. Ákvæði 1. mgr. 10. gr. heimilar seljanda að láta hjá líða að færa ráðstöfunarréttinn yfir hlut til kaupanda, nema seljandi hafi samtímis fengið kaupverðið greitt. Yfirfærsla ráðstöfunarréttarins frá seljanda til kaupanda gerist venjulega með þeim hætti að kaupandinn fær hlutinn afhentan. Yfirfærslan getur líka tengst öðru, t.d. flutningsbréfi og farmskírteini, og þá er það afhending þessara skjala sem ræður yfirfærslu ráðstöfunarréttarins. Í sumum tilvikum getur réttarverndin gagnvart þriðja manni verið háð því að yfirfærslan sé skráð opinberri skráningu, t.d. í skipa- eða ökutækjaskrá. Í slíkum tilvikum getur seljandinn gert það að skilyrði fyrir skráningu heimildar að kaupverðið sé greitt sem í raun er það sama og að segja að seljandi geti neitað að afhenda heimildarskjalið nema kaupverðið sé greitt.
    Regla 1. mgr. gildir ekki þegar í upphafi hefur verið samið um greiðslufrest eða seljandi hefur eftir samningsgerð veitt greiðslufrest í heild eða að hluta. En hafi greiðslufrestur verið veittur með því skilyrði að kaupandinn t.d. samþykki víxil eða setji tryggingu fyrir fjárhæðinni getur seljandinn gert það að skilyrði að kaupandinn samþykki víxilinn eða gangi frá tryggingunni áður en hann fær hlutinn afhentan.
    Fræðilega má halda því fram að reglan um það að hönd selji hendi geti leitt til þess að báðir aðilar haldi að sér höndum um afhendingu og bíði þess að gagnaðili taki frumkvæði að efndum. Því er hins vegar til að svara að það leiðir óbeint af ýmsum öðrum reglum, sem afhendinguna varða, hvor aðila það er sem á að taka það frumkvæði.
    Í 2. mgr. er að finna sérreglu um þau tilvik þegar seljandi á að senda hlut til annars staðar. Reglan á sér hliðstæðu í 15. gr. núgildandi laga. Í þessu tilviki hefði regla 1. mgr. ein sér leitt til þess að ekki væri unnt að hrinda kaupunum í framkvæmd. Skv. 2. mgr. getur seljandinn á hinn bóginn ekki látið hjá líða að senda hlutinn, en hann getur komið í veg fyrir að kaupandinn fái hann í hendur þar til kaupverðið hefur verið greitt. Sending í póstkröfu er dæmi um tilvik þar sem kaupandi getur því aðeins fengið vöru afhenta að hann greiði kaupverðið. Þegar vara er send með öðrum hætti er oft unnt að ganga þannig frá málum að kaupandi fái því aðeins afhenta vöru að hann greiði andvirði hennar.

Um 11. gr.


    Í 11. gr. frumvarpsins er fjallað um ábyrgð aðila á kostnaði, en sambærilegt ákvæði er hvorki í gildandi lögum né í SÞ-samningnum. Hins vegar má fullyrða að regla 1. mgr. 11. gr. frumvarpsins sé í samræmi við það sem talið hefur verið gildandi regla í íslenskum rétti samkvæmt ólögfestum reglum. Rétt er að leggja á það áherslu að í 11. gr. er einvörðungu um það fjallað hver beri á endanum ábyrgð á kostnaði. Samkvæmt því er ekki tekin afstaða til þess í ákvæðinu á hvorum aðilanna hvílir skylda til þess að leggja út fé í fyrstu.
    Í 1. mgr. felst að seljandinn ber kostnaðinn af hlutnum þar til hann hefur verið afhentur. Regla 11. gr. á ekki einungis við um flutningskostnað, heldur líka annan kostnað eins og vegna geymslu, pökkunar, tryggingar og jafnvel útflutningsgjalda. Ekki eru ákvæði um það hver eigi að bera kostnaðinn eftir þann tíma, en venjulega er gert ráð fyrir því að kaupandinn geri það nema annað leiði beinlínis af samningi.
    Ákvæðið á ekki við þegar seinkun hefur orðið af ástæðum sem rekja má til kaupandans, sbr. síðari málslið 1. mgr. 11. gr. frumvarpsins. Er þá talið eðlilegt að kaupandinn beri ábyrgð á þeim kostnaði sem af því stafar. Þessi undanþága á aðeins við um þann aukakostnað sem seinkunin veldur beinlínis, t.d. aukaútgjöld vegna geymslu eða aukaútgjöld vegna þess að tryggja þarf hlutinn lengur en upphaflega var gert ráð fyrir. Í framkvæmd er í flestum tilvikum unnt að leysa þetta álitaefni út frá reglu 75. gr. um skaðabætur vegna umönnunarkostnaðar ásamt reglunni í 57. gr. um skaðabótaábyrgð kaupandans þegar hann ljær ekki atbeina sinn til efnda.
    Í 2. mgr. er sérregla sem varðar neytendakaup, og er hún nýmæli. Þar kemur fram að þegar söluhlut í neytendakaupum skal senda til kaupanda er þrátt fyrir ákvæði 4. gr. heimilt að semja um það að kaupandinn greiði til viðbótar kaupverðinu útgjöld vegna sendingarinnar. Ákvæðið þarfnast ekki frekari skýringar.

Um III. kafla.


    Í III. kafla eru ákvæði um áhættuna af söluhlut. Í 12. gr. er kveðið á um, hver séu aðaláhrif þess að áhættan flyst yfir til kaupanda, en þau eru að greiðsluskylda hans stendur óhögguð hver sem verða örlög söluhlutar síðar, eftir að áhættan hefur flust yfir til hans. Það er hins vegar ekki skilgreint nánar hvað í áhættunni felist. Í 13. gr. er því lýst hvenær áhættan flyst yfir til kaupanda, og 14. gr. kveður á um sérreglur um auðkenningu söluhlutar í tengslum við áhættu. Í 15. gr. eru reglur um áhættuflutning þegar kaup eru gerð um söluhlut sem er í flutningi, og loks er í 16. gr. kveðið á um hvenær áhættuskiptin verða þegar keyptur er hlutur með skilarétti.

Um 12. gr.


    Í 12. gr. er ákvæði sem er efnislega samhljóða 17. gr. gildandi laga, þó þannig að í 17. gr. er tekið mið af því að áhættan af því að söluhlutur farist sé hjá seljanda þar til hann hefur skilað hlut af sér eða afhent hann. Þá hafa orðin „farist af tilviljun“ einnig verið felld niður í frumvarpsgreininni þar sem þau þóttu að ýmsu leyti óljós. Í ákvæðinu er ekki nákvæmlega skilgreint hvað í áhættu felst, en þar kemur þó fram hver séu aðaláhrif þess að áhættan flyst yfir til kaupanda, þ.e. greiðsluskylda hans stendur óhögguð, hver svo sem síðari örlög söluhlutar verða. Það leiðir því af ákvæðinu að þegar kaupandinn ber áhættuna af söluhlut fellur skylda hans til þess að greiða kaupverðið ekki brott þótt söluhlutur farist, skemmist eða rýrni. Er þá jafnan skilyrði að slíkt leiði af atvikum sem ekki verða rakin til seljanda.
    Í framangreindri reglu felst í fyrsta lagi að kaupandinn verður að greiða kaupverðið ef hann sjálfur eða fólk á hans vegum ber ábyrgð á eða hefur valdið eyðileggingu söluhlutar. Í öðru lagi fellur greiðsluskyldan ekki niður þegar tilviljunarkenndur atburður veldur eyðileggingu, t.d. þegar hlutur brennur eða hann glatast í skipskaða. Sama gildir þegar ekki er hægt að staðreyna ástæðu þess að hlutur hefur farið forgörðum.
    Ef atvik, sem valda því, að hlutur ferst, skemmist eða rýrnar, verða rakin til seljanda er um vanefndir af hans hálfu að ræða, enda hafi atvikið tengsl við kaupin eða efndir þeirra. Skylda kaupandans til þess að greiða kaupverðið ræðst þá af reglunni um afleiðingar greiðsludráttar , sbr. 49. gr. og 1. mgr. 64. gr., reglunum um gallaða afhendingu, sbr. 21., 22. og 42. gr., eða reglum 2. mgr. 21. gr. Með orðasambandinu „rakin til seljanda“ er átt við að atvik, sem seljandi ber ábyrgð á, hafi gerst í tengslum við kaupin. Hafi athöfn seljandans hins vegar engin tengsl við þau kaup sem fóru fram reynir á hinar almennu skaðabótareglur, t.d. ef seljandi eyðileggur söluhlut á heimili kaupanda í boði sem hann er staddur í.
    Sérstök álitaefni koma upp þegar um er að ræða samverkandi áhrif mistaka og tilviljunarkenndra atvika, oft nefnt „casus mixtus“. Þau geta oft valdið miklum vafa, bæði varðandi reglur um áhættuskipti og skaðabótaábyrgð. Ekki er fyllilega ljóst samkvæmt gildandi rétti hversu langt ábyrgð og áhætta seljanda nær í þessum tilvikum. Lágmarksskilyrði hlýtur þó ætíð að vera að um orsakasamband sé að ræða á milli vanrækslu eða mistaka seljanda og þess tilviljunarkennda tjóns sem síðar verður. Í þessu felst að komast hefði mátt hjá tjóni eða skaða ef ekki hefði verið um vanrækslu af hálfu seljanda að ræða. Ekki er ástæða til að tíunda nákvæmlega í lagatexta öll þau tilvik sem fallið geta undir þetta ákvæði. Mestu máli skiptir hins vegar að orðalag þess veitir heimild til þess að losa kaupandann úr ábyrgð á grundvelli reglunnar um „casus mixtus“, en nánari útfærslu verður að fela réttarframkvæmdinni. Sem dæmi um tilvik af þessu tagi má nefna að hlutur farist af tilviljun í flutningi sem seljandi á að sjá um. Hlut á t.d. að flytja með skipi, en hleðslu skipsins er ábótavant, og á því ber seljandi ábyrgð. Af því leiðir að skipið þarf að leita hafnar á leiðinni svo að endurhleðsla geti farið fram. Eftir þetta lendir skipið í sjávarháska, sem það annars hefði komist hjá, og varan ferst. Hér liggur fyrir orsakasamband, en ekki er fullnægt skilyrðinu um sennilega afleiðingu. Í þessu tilviki virðist skilyrðinu um „casus mixtus“ vera fullnægt og seljandinn því að öllum líkindum ábyrgur.
    Í ákvæðinu segir ekki beinlínis hvað í því felst að áhættan sé áfram hjá seljandanum ef undan er skilin reglan um greiðslu kaupverðsins. Niðurstaðan að öðru leyti ræðst af almennum reglum um ábyrgð á vanefndum samnings. Ef tilviljunarkenndur atburður veldur því t.d. að hlutur eyðileggst áður en áhættan hefur flust yfir getur það leitt til þess að greiðslu seinki og kaupandinn geti af þeirri ástæðu beitt ákvæðum 22.–29. gr. frumvarpsins. Ef seljanda tekst nógu snemma að útvega annan hlut í stað þess sem eyðilagðist verður hann ekki talinn ábyrgur fyrir vanefndaafleiðingum, en seljandinn getur ekki krafist greiðslu fyrir hlut þann sem eyðilagðist.
    Reglurnar um áhættuskiptin ráða ekki úrslitum þegar leitað er svara við því hver beri ábyrgð á afhendingardrætti sem rekja má til útflutnings- eða innflutningsbanns eða annarra sambærilegra ákvarðana yfirvalda, sbr. skilgreininguna á greiðsludrætti í 22. gr. Svipuð sjónarmið geta átt við ef lagt er hald á söluhlut.
    Áhættuskipti takmarka ekki rétt kaupanda til þess að rifta kaupum eða halda eigin greiðslu vegna vanefnda af hálfu seljanda sem til eru komnar eftir áhættuskiptin.

Um 13. gr.


    Í 1. mgr. frumvarpsgreinarinnar kemur fram meginreglan um það hvenær áhættan af söluhlut flyst frá seljanda yfir til kaupanda. Eins og í 1. mgr. 17. gr. gildandi laga er það meginregla samkvæmt frumvarpinu að áhættan flyst yfir við afhendinguna. Er hér höfð í huga hin raunverulega afhending, en ekki tíminn þegar afhending átti að eiga sér stað. Það hvenær afhending á að eiga sér stað getur komið fram í samningi, en að öðrum kosti gilda um það reglur 6. og 7. gr. frumvarpsins.
    Í reiðukaupum, sbr. 6. gr., flyst áhættan yfir þegar kaupandinn eða einhver á hans vegum hefur tekið við hlutnum hjá seljandanum. Sé hlutur keyptur í búð flyst áhættan við það að hlutur er afhentur kaupanda yfir búðarborðið. Kaupandi verður því sjálfur að bera áhættuna ef hluturinn ferst þegar hann er á leið út úr versluninni. Í verslunum, þar sem er sjálfsafgreiðsla, t.d. áfengisverslun, ber að líta svo á að áhættan flytjist yfir á kaupanda þegar kaupandi hefur veitt hlutnum viðtöku, eftir atvikum innpökkuðum, og greitt hann, þ.e. eftir að kaupandinn hefur farið framhjá búðarkassa og innpökkunarstað. Ef hlut á að sækja annað en til seljanda gilda ákvæði 3. mgr. 13. gr. frumvarpsins.
    Í staðarkaupum, sbr. 1. mgr. 7. gr. frumvarpsins, telst áhættan flytjast yfir til kaupanda þegar hann hefur veitt hlutnum viðtöku í samræmi við ákvæði greinarinnar. Sama gildir í neytendakaupum, jafnvel þótt hlut skuli senda á annan stað, sbr. 4. mgr. 7. gr. Í sendingarkaupum flyst áhættan í meginatriðum yfir til kaupanda þegar hlutur er afhentur þeim flytjanda sem tekið hefur að sér flutninginn frá sendingarstaðnum, sbr. 2. mgr. 7. gr. Annað getur þó leitt af samningsskilmálum, og í því tilviki verður áhættuflutningur þegar hlutur er afhentur í samræmi við það sem samið hefur verið um. Í stöðluðum afhendingarskilmálum er venjulega gert ráð fyrir því að afhendingarstaðurinn ráði úrslitum um áhættuflutninginn, sbr. 3. mgr. 7. gr. frumvarpsins.
    Í 2. mgr. 13. gr. er um það tilvik fjallað þegar afhending fer ekki fram eins og ráð var fyrir gert, og það má rekja til kaupandans eða atvika sem hann varða. Tímamarki áhættuskipta í þessum tilvikum er lýst á mismunandi hátt í nýju norrænu kaupalögunum . Í norsku lögunum er í meginatriðum miðað við það að hlutur sé kaupanda heimill til ráðstöfunar, og vanefndir af hans hálfu verða við það að hann veitir hlutnum ekki viðtöku. Viðmiðunarreglu norsku laganna verður að skoða í ljósi skyldu kaupanda til að veita hlut viðtöku, sbr. b-lið 50. gr., 51. gr. og b-lið 2. mgr. 57. gr. norsku laganna. Er farin sú leið í frumvarpi þessu. Samkvæmt þessu er það aðalsjónarmiðið að seljandinn ber áhættuna þar til hlutur hefur verið settur kaupanda til ráðstöfunar og að kaupandinn skuli bera áhættuna eftir þann tíma. Ástæðan er sú að sá sem hefur ráðstöfunarréttinn hefur jafnan bestu aðstöðuna til þess að varðveita hlutinn, þ.m.t. að tryggja hann. Þegar svo hagar til að hlut skal sækja til þriðja manns nægir að kaupanda sé kunnugt um að hlutur sé honum þar heimill til ráðstöfunar, sbr. 3. mgr. Þessi aðgreining er í bestu samræmi við 69. gr. SÞ-samningsins og endurspeglar eðlilega áhættuskiptingu milli seljanda og kaupanda.
    Regla 2. mgr. felur það í sér að áhættan getur flust yfir til kaupanda áður en raunveruleg afhending hefur átt sér stað ef hlutur er kaupanda heimill til ráðstöfunar og afhendingartími er kominn.
    Ákvæði 2. mgr. eiga ekki aðeins við í því tilviki þegar kaupandinn neitar að veita hlut viðtöku eða sækja hann, heldur líka þegar seljandinn heldur eigin greiðslu með heimild í 10. gr. frumvarpsins. Sama gildir þegar ástæðan er sú að kaupandinn hefur ekki léð annan atbeina sinn sem nauðsynlegur er til þess að afhending geti farið fram.
    Ef kaupandi veitir ekki hlut viðtöku á réttum tíma flyst áhættan eins og nefnt hefur verið yfir til hans þegar hlutur er honum heimill til ráðstöfunar. Það viðbótarskilyrði kemur þó fram í greininni að það að veita hlutnum ekki viðtöku feli í sér vanefnd af hálfu kaupanda. Hér er því miðað við að kaupandinn hafi vanefnt þá skyldu sína að veita hlut viðtöku. Því nægir ekki að kaupandinn megi sækja hlut eða veita hlut viðtöku, heldur verður að koma fram af samningi að það sé beinlínis skylda hans. Það getur t.d. komið fram í samningi að kaupandi skuli veita honum viðtöku í síðasta lagi á tilteknum degi eða í tilteknum mánuði. Í slíku tilviki verður áhættuflutningurinn þegar sá tími er útrunninn.
    Í 2. málsl. 2. mgr. kemur fram sérregla sem gildir í neytendakaupum. Felst í þeirri reglu að kaupandinn ber ekki áhættuna af tilviljunarkenndum atburðum, sem verða meðan hlutur er hjá seljandanum, og atburðinn er ekki unnt að rekja til eiginleika hlutarins sjálfs. Rökin fyrir reglunni eru þau að seljandinn hefur meiri möguleika en kaupandinn til þess að fá slíkt tjón bætt, t.d. með vátryggingu eða á annan sambærilegan hátt. Þá má og segja að í neytendakaupum sé það að öllu jöfnu eðlilegast að leggja áhættuna af tilviljunarkenndum atburði á seljandann meðan hann hefur hlutinn undir höndum. Með hliðsjón af ákvæðum 72. gr. frumvarpsins er það og eðlilegast að seljandinn sjái um vátryggingu. Þetta er að vísu ekki það sem ræður áhættuskiptunum, en seljandinn er í flestum tilvikum sá sem á auðveldast með að komast hjá eða draga úr afleiðingum tilviljunarkenndra atvika.
    Í 2. málsl. 2. mgr. eru nefnd þrjú skilyrði sem fullnægja þarf svo að ákvæði greinarinnar eigi við: Í fyrsta lagi verður atburðurinn að vera tilviljunarkenndur. Seljandi ber því áhættuna af tjóni sem verður t.d. vegna bruna hjá honum og enn fremur áhættuna af tjóni vegna verknaðar þriðja manns, t.d. þjófnaði, en ekki tjóni sem má rekja til kaupanda sjálfs eða manna á hans vegum. Í öðru lagi verður hlutur að vera hjá seljanda. Í þessu felst að hlutur sé á lager hans, verkstæði eða annarri atvinnustöð. Ef hlut skal sækja á annan stað gildir regla 3. mgr. 13. gr. Neytandinn ber þá áhættuna þegar afhendingartími kemur og hann veit að hluturinn er fullbúinn og honum til ráðstöfunar. Í þriðja lagi á greinin því aðeins við að tjón verði ekki rakið til eiginleika hlutarins sjálfs, t.d. ef matvörur skemmast.
    Í 3. mgr. er sérregla sem fjallar um það tilvik þegar kaupandi á að sækja hlutinn á annan stað en til seljanda, þ.e. til þriðja manns, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 6. gr. Áhættan flyst þá yfir til kaupanda þegar afhendingartími er kominn og kaupanda er kunnugt um að hlutur er honum heimill til ráðstöfunar á umsömdum afhendingarstað. Það er nóg að afhendingartími sé kominn skv. 3. mgr. 9. gr., þ.e. að hlut megi sækja samkvæmt samningnum. Það er ekki forsenda áhættuskipta að kaupandinn hafi haft hæfilega langan tíma til að sækja hlutinn, en kaupandinn þarf að hafa fengið raunverulega vitneskju um að hlutur sé honum til reiðu. Slíka vitneskju kann hann að hafa fengið frá seljanda, en það nægir að hann hafi fengið vitneskjuna með öðrum hætti, t.d. frá þeim sem annast um hlutinn fyrir seljandann. Ákvæðið svarar til 2. mgr. 69. gr. SÞ-samningsins.

Um 14. gr.


    Í ákvæði þessu kemur fram viðbótarskilyrði fyrir flutningi áhættu frá seljanda til kaupanda þegar um tegundarákveðna hluti er að ræða. Ákvæðið á því ekki við þegar keyptir eru einstaklega ákveðnir hlutir eða þegar um pöntunarkaup er að ræða. Í slíkum tilvikum hefur sérgreining farið fram þegar við kaup. Nauðsynleg sérgreining getur farið fram með merkingu vörunnar eða auðkenningu geymslustaðar, með því að sérgreina hana í flutningsskjali eða með tilkynningu til kaupanda. Ef varan sjálf er ekki merkt verður að taka hana frá fyrir kaupanda eða sérgreina fyrir hann með öðrum hætti. Þegar sérgreining fer fram með tilkynningu verður hún að hafa verið send í samræmi við ákvæði 82. gr. Eins og áður greinir felur sérgreiningin í sér viðbótarskilyrði varðandi flutning áhættu skv. 13. gr.
    Að því er varðar aðalregluna í 1. mgr. 13. gr., þ.e. að áhætta flytjist yfir við afhendingu, skal tekið fram að sé vara send án þess að hún sé sérgreind, t.d. afhent sem búlkaður farmur, getur áhættuflutningur fyrst orðið þegar búið er taka hið keypta frá fyrir kaupanda. Með vöruflutningum er oft verið að fullnægja mörgum pöntunum samtímis og stundum er flutt meira magn en pantað er. Tilgangurinn með sérgreiningarkröfunni er að hindra að menn geti skotið sér undan ábyrgð ef tjón verður á hluta farmsins meðan á flutningi stendur.

Um 15. gr.


    Í frumvarpsgreininni felst nýmæli sem ekki á sér hliðstæðu í gildandi lögum. Regla, sem fram kemur í ákvæðinu, varðar það hvenær áhættuskipti verða þegar keyptur er hlutur sem aðilar vita að er í flutningi þegar samningur er gerður, t.d. olíufarmur í skipi eða annar fljótandi varningur. Er meginreglan þá sú að áhættuskipti verða þegar við kaupin. Sem dæmi um þetta má nefna að tjón verður t.d. vegna óveðurs, stríðs eða áreksturs.
    Á það hefur verið bent að ákvæði þetta geti leitt til sönnunarvandkvæða því að oft er ómögulegt að staðreyna í hvaða ástandi hlutur var við samningsgerðina, t.d. þegar vatnsskaði verður, vörur rotna o.s.frv. Þetta á sérstaklega við þegar hlutir eru fluttir í gámi. Á það má í sjálfu sér fallast að sönnunarvandkvæði geti komið upp, en telja verður að þau séu ekki óyfirstíganleg. Þar við bætist að meginregluna verður að skoða í því ljósi að kaupandinn ber áhættuna frá fyrra tímamarki, ef það er ljóst samkvæmt atvikum að hann hefur tekið slíka áhættu á sig.
    Sú undantekning að kaupandi beri áhættuna frá fyrra tímamarki getur því aðeins átt við að slíkt megi leiða af samningi aðila. Í því sambandi er nægilegt að hlutlæg túlkun á tilgangi samningsins fái samrýmst vilja aðilanna. Tiltekin ytri atvik geta legið fyrir sem létta sönnunina að þessu leyti. Sem dæmi um þetta má nefna flutningsskilríki eða vátryggingarskírteini, sem afhent eru kaupandanum, þótt í þeim séu ekki bein ákvæði um áhættuna. Svipað gildir þegar það er upplýst að seljandinn hefur tryggt eða á að tryggja vöruna. Má þá eftir atvikum telja líklegt að hann geri það vegna áhættu kaupanda og allt frá byrjun ferðarinnar.
    Í síðari málslið 1. mgr. kemur fram að seljandi beri í öllum tilvikum áhættuna af því tjóni sem hann vissi eða mátti vita um við kaupin en upplýsti kaupanda ekki um. Álitamál er hvernig með á að fara ef hin vonda trú á einungis við um hluta af tjóninu. Sennilegt er að þá gildi sama regla, a.m.k. þegar það tjón, sem á eftir kemur, stendur í tilteknu samhengi við það tjón eða þá áhættu sem vonda trúin á við um. Þetta getur t.d. átt við um leka eða vatnsskaða sem síðan breiðist út eða endurtekur sig hvað eftir annað.
    Samkvæmt 2. mgr. gildir regla 1. mgr. ekki í neytendakaupum.

Um 16. gr.


    Ákvæði þetta er hliðstætt 2. mgr. 60. gr. gildandi laga og fjallar um áhættuskipti þegar hlutur er seldur til reynslu eða um annars konar skilarétt er að ræða, t.d. eftir skoðun. Kaup til reynslu eiga sér stað á grundvelli sérstaks samnings eða venju sem mælir fyrir um að kaupandinn þurfi ekki að standa við kaupin en hafi þess í stað rétt til þess að skila hlutnum innan tiltekins frests. Raunhæft dæmi um þetta er þegar kaupandinn fær bækur, föt, tæki o.fl. með rétti til að skila hlutunum eða skipta þeim. Algengt er að póstpantanir séu með skilarétti.
    Áhættan flyst á venjubundinn hátt yfir til kaupanda við afhendinguna, sbr. ákvæði 13.–15. gr. Ef kaupandinn ákveður að skila hlutnum flyst áhættan aftur yfir til seljanda þegar hann hefur veitt hlutnum viðtöku. Seljandi telst hafa veitt hlut viðtöku þegar hann hefur sótt hlutinn eða tekið við honum, sbr. nánar b-lið 50. gr. Kaupandinn ber samkvæmt þessu áhættuna af tilviljunarkenndum atvikum sem verða á leið hlutarins til seljandans, jafnvel þótt hann sé sendur í pósti eða með sjálfstæðum flytjanda, og er þetta í samræmi við ákvæði í kaupalögum annarra norrænna ríkja.
    Ákvæði 16. gr. eiga ekki við þegar kaupandinn hefur rétt til að skila hlutnum í samræmi við ákvæði laga um húsgöngu- og fjarsölu, nr. 96/1992. Gilda þá ákvæði þeirra laga.
    Í frumvarpinu er ekki tekin afstaða til þess að hvaða marki kaupandi hefur rétt til að taka hlutinn úr umbúðum og reyna hann. Heimildir í þeim efnum geta verið mismunandi frá einu sviði viðskipta til annars og eru auk þess háðar samningi eða forsendum hans og þá alveg sérstaklega tilganginum með reynslukaupunum. Þó má segja að það sé almenn regla að leyft sé að vara sé tekin upp með gát og hún reynd.
    Það að kaupandi beri áhættuna felur í sér að hlutnum verður að skila án slits eða óhreinkunar, þ.e. í stuttu máli í óbreyttu ástandi og án þess að bera merki notkunar. Undantekningu frá þessu verður þó að gera þegar breyting eða rýrnun má rekja til aðstæðna sem varða seljanda. Þó verður kaupandi sennilega að bera áhættu af rýrnun sem rekja má til eiginleika söluhlutar.
    Reglur 66. gr. um missi réttar til riftunar gilda ekki í þessu tilviki, enda eru þær reglur byggðar á því að á söluhlut sé verulegur galli sem seljandi beri ábyrgð á.
    Það fer eftir samningi aðila hve reynslutími og frestur til að skila hlutnum er langur. Ef ekkert er um þetta samið verður um það að fara eftir því sem sanngjarnt má telja þegar litið er til tegundar hlutar, þarfa aðila og hugsanlegrar venju á því viðskiptasviði, sem um er að ræða, og loks með hliðsjón af fyrri venjum í viðskiptum milli aðilanna.

Um IV. kafla.


    Í kafla þessum eru ákvæði um eiginleika söluhlutar, galla o.fl. Í 17. gr. eru grundvallarreglur um hvenær galli telst vera til staðar. Meginreglan er sú að hlutur skal vera í samræmi við það sem leiðir af samningi en einnig er þar skilgreint hvað skuli teljast gallar ef slíkt kemur ekki fram í samningnum. Í 18. gr. kemur fram að reglurnar um galla gilda einnig þegar hlutur svarar ekki til þeirra upplýsinga sem um hann hafa verið gefnar. Í 19. gr. er fjallað um þýðingu þess þegar söluhlutur er seldur „í því ástandi sem hann er“ eða með öðrum áþekkum almennum fyrirvara. Í 20. gr. er getið nokkurra skilyrða fyrir því að kaupandi geti komið fram með kröfur á hendur seljanda vegna galla á söluhlut. Meginreglan er sú að kaupandinn getur ekki borið neitt það fyrir sig sem galla sem hann vissi um eða mátti vita um þegar kaupin voru gerð. Sama gildir hafi kaupandi rannsakað söluhlut eða sýnishorn áður en kaup voru gerð eða látið slíka rannsókn undir höfuð leggjast án gildrar ástæðu. Í 21. gr. er fjallað um það tímamark sem miða skal við þegar metið er hvort söluhlutur sé gallaður. Meginreglan er sú að miðað skal við það tímamark þegar áhættan af söluhlut flyst frá seljanda yfir til kaupanda. Frá þessu eru nokkrar undantekningar í 2. mgr. 21. gr.

Um 17. gr.


    Í 17. gr. frumvarpsins eru grundvallarreglur þær sem varða eiginleika söluhlutar og þar með hvenær galli telst vera til staðar. Sambærileg ákvæði eru ekki í gildandi lögum, en hins vegar í 35. gr. SÞ-samningsins.
    Í 1. mgr. kemur fram sú meginregla að söluhlutur skal vera í samræmi við það sem leiðir af samningi. Á það bæði við um tegund hlutar, magn, gæði og aðra eiginleika auk innpökkunar hlutarins. Tilvísun til magnsins verður að skoða með hliðsjón af ákvæði 2. mgr. 43. gr. frumvarpsins, sem felur það í sér að unnt er að beita reglunum um galla þegar afhendingu er áfátt hvað magn varðar. Með öðrum eiginleikum í ákvæðinu er t.d. átt við geymsluþol vöru.
    Hvað innpökkun varðar er ljóst að tjón, sem verður á umbúðum, leiðir ekki sjálfkrafa til þess að kaupandi geti beitt gallaúrræðum ef söluhluturinn sjálfur hefur ekki orðið fyrir neinum skemmdum. Í því tilviki hefur innpökkunin einmitt náð tilgangi sínum, þ.e. að varna því að hluturinn verði fyrir tjóni. Þetta getur þó horft öðruvísi við þegar um hlut er að ræða sem ætlaður er til áframhaldandi flutnings í sömu umbúðunum. Innpökkun vöru getur einnig haft sjálfstæða þýðingu í öðrum samböndum. Ef það leiðir t.d. af samningi að hlut skal pakka inn fyrir flutning og það hefur ekki verið gert þegar kaupandi kemur til að sækja hann er um galla að ræða í skilningi 17. gr. Innpökkun hefur stundum sjálfstæða þýðingu fyrir kaupanda sem hyggst endurselja söluhlut. Þetta á við um gjafavörur, t.d. ýmiss konar skrautvörur, en einmitt þar hefur innpökkunin sjálf mikla þýðingu við markaðssetningu.
    Ef hlutur hefur ekki til að bera þá eiginleika, sem leiða má af samningi, telst galli vera til staðar. Það getur t.d. verið að ekki sé fullnægt þeirri tæknilegu útfærslu sem samningur gerir ráð fyrir. Ef seljandi hefur ábyrgst eða heitið tilteknum eiginleikum varðandi hlutinn er um galla að ræða ef þessir eiginleikar eru ekki til staðar. Skiptir þá í sjálfu sér ekki máli hvort hlutur sá, sem afhentur var, hefur sama verðmæti og notagildi samkvæmt tilgangi sínum og hinn umsamdi hlutur. Hafi maður t.d. keypt rauða skyrtu en fær bláa afhenta er um galla að ræða. Eins má nefna það dæmi að jafnvel þótt hlutur sé í sjálfu sér í lagi og geti þjónað hlutverki sínu er samt sem áður um galla að ræða ef ekki er hægt að setja hann upp með þeim einfalda hætti sem samningurinn gerir ráð fyrir. Þetta getur t.d. átt við um vél sem erfitt reynist að setja í skip eða bíl.
    Í þeim áskilnaði að hlutur skuli vera í samræmi við það sem „leiðir af samningi“ felst ekki einungis tilvísun til texta samningsins heldur og forsendna aðila, auk þess sem önnur atvik í sambandi við kaupin geta haft þýðingu. Sem dæmi um þetta má nefna að kaupandi gengur út frá því að dráttarvél megi bæði nota til venjulegra landbúnaðarverka og malarnáms. Þýðing samnings og samningsforsendna kemur oft vel í ljós þegar tilgangurinn með samningnum er annar en vanalegt er. Ef samningurinn snýst t.d. um kaup á bílum til niðurrifs getur kaupandinn ekki borið það fyrir sig að ekki sé unnt að fá bílinn skráðan til aksturs. Í mörgum tilvikum er söluhlut ekki nákvæmlega lýst í samningi. Í slíkum tilvikum verður söluhlutur að hafa þá eiginleika sem slíkir hlutir hafa venjulega. Samningskjör veita oft vísbendingu um hvernig þessu er nánar varið, t.d. það verð sem hlutur er keyptur á.
    Í 2. mgr. er fjallað um þær kröfur, sem gerðar eru til eiginleika söluhlutar, þótt ekki leiði þá af samningnum sjálfum eða forsendum hans eins og getið er um í 1. mgr. Skilyrði 2. mgr. hafa því sjálfstæða þýðingu gagnvart 1. mgr., en þó ber þess að geta að sömu skilyrði leiðir yfirleitt af samningi. Á hinn bóginn verður að hafa í huga að upptalning 2. mgr. er ekki tæmandi, heldur eru þar nefnd í dæmaskyni nokkur mikilvæg atriði sem þýðingu hafa við mat á eiginleikum söluhlutar. Venjulegur stóll verður t.d. að þola þyngd fullorðins manns, og nýr einkabíll verður að vera rykþéttur og hafa sömu lita- og lakkeiginleika og nýir bílar hafa yfirleitt. Það að hlutur hefur ekki venjulega endingu getur verið galli. Of stuttur endingartími getur t.d. stafað af því að ekki hefur verið komið í veg fyrir að bíll ryðgi óeðlilega. Takmarkað öryggi getur líka talist galli í þessum skilningi, t.d. ef hlutur hefur ekki þá öryggiseiginleika sem kaupandinn gat búist við samkvæmt markaðsauglýsingum. Ákvæði 2. mgr. víkja að sjálfsögðu ef annað leiðir af samningi, svo sem berum orðum er tekið fram í upphafsorðunum.
    Í a-lið 2. mgr. er sá áskilnaður gerður að hlutur skuli henta í þeim tilgangi sem sambærilegir hlutir eru venjulega notaðir til. Hlutur skal með öðrum orðum fullnægja ákveðnum almennum lágmarksskilyrðum hvað eiginleika varðar. Hins vegar er ljóst að ólíkir hlutir geta verið mismunandi að gæðum án þess þó að sá lakasti teljist gallaður. Við mat í þeim efnum verður að taka sanngjarnt tillit til ýmissa atvika við kaupin, t.d. verðsins. Ákvæðið felur það að öðru leyti í sér að hafi hlutur ekki þá eiginleika til að bera sem sambærilegir hlutir venjulega hafa telst hann gallaður, jafnvel þótt hann megi nota í þeim tilgangi sem kaupandinn ætlaðist til. Sem dæmi má nefna kaup á bíl og í ljós kemur að hann eyðir óeðlilega miklu bensíni. Bensíneyðslan er í sjálfu sér ekki því til fyrirstöðu að nota megi bílinn, en ekki er úr vegi að telja bensíneyðsluna galla, ef annað leiðir ekki af samningi.
    Í b-lið er ákvæði sem fjallar um það tilvik þegar kaup eru af kaupanda hálfu gerð í sérstökum tilgangi og ekki er venjulegt að nota hlutinn í samræmi við hann. Skv. b-lið á hluturinn einnig að henta í þessum tilgangi. Það er skilyrði þess að b-liður eigi við að seljandinn hafi við kaupin vitað eða mátt vita um tilgang kaupanda. Samkvæmt ákvæðinu er það vitneskja seljanda við kaupin sem máli skiptir. Ef seljandi veit eða má vita á grundvelli slíkrar vitneskju að söluhlutur hentar ekki í þessum sérstaka tilgangi verður seljandi að upplýsa kaupanda um það. Fái seljandi hins vegar ekki þessa vitneskju fyrr en eftir að kaup gerðust, en áður en afhendingin átti sér stað, getur kaupandinn ekki borið galla fyrir sig, jafnvel þótt hluturinn henti ekki í þeim tilgangi sem hann á að nota til. Í því orðalagi að seljandi „mátti vita“ um tilgang kaupanda felst að ekki má vera til staðar nein sanngjörn ástæða sem afsakar ókunnugleika seljanda um hinn sérstaka tilgang. Í b-lið 2. mgr. 35. gr. SÞ-samningsins er orðalag um þetta efni með nokkuð öðrum hætti, en þar er skírskotað til „particular purpose expressly or impliedly made known to the seller“. Telja verður að þetta orðalag leiði til sömu niðurstöðu og orðalag b-liðar.
    Ákvæði b-liðar hefur sérstaka þýðingu þegar kaupandi getur ekki tilgreint nákvæmlega sérstaka eiginleika söluhlutar á annan veg en að lýsa tilgangi kaupanna. Seljandinn hefur oft þá sérkunnáttu sem nauðsynleg er til þess að velja þann hlut sem hentar í þeim tilgangi sem lýst var. Vöruúrval er nú á tímum oft svo fjölbreytt og ýmsar vörur miðaðar svo mjög við sérstakar notkunarþarfir einstaklinga að það er vandasamt fyrir óreyndan kaupanda að velja hið rétta. Jafnvel þótt nota mætti aðra hluti í staðinn getur verið að þeir séu óhentugri eða dýrari í rekstri en þeir sem henta best. Þegar svo stendur á ber seljandi ábyrgð á því að gefa kaupanda réttar upplýsingar um val hlutar. Þegar pantaðir eru varahlutir verða þeir auðvitað að hæfa aðalhlut, bæði með hliðsjón af því að fella þessa hluti saman og því hlutverki sem aðalhlut er ætlað að gegna. Þannig verða hjólbarðar t.d. að vera af réttri stærð fyrir felgurnar og fullnægja þeim öryggiskröfum sem gerðar eru til bifreiðarinnar.
    Í sumum tilvikum hefur kaupandinn mesta sérþekkingu til að bera þegar metið er hvaða eiginleika söluhlutur skal hafa svo að tilgangi kaupanna verði náð. Birtist það þá gjarnan þannig gagnvart seljanda að kaupandinn treystir ekki á sérþekkingu hans. Í slíkum tilvikum er lítil sanngirni í því að seljandinn beri ábyrgð á því að ekki hefur náðst hinn sérstaki tilgangur með kaupunum þótt honum hafi mátt vera um það kunnugt . Því er gerð undantekning varðandi þau tilvik þar sem atvik bera það með sér að kaupandinn hefur ekki, hvað hinn sérstaka tilgang varðar, byggt á sérþekkingu seljanda eða mati hans eða hafði ekki sanngjarna ástæðu til þess. Undantekning þessi á t.d. við þegar kaupandi hefur lagt fram nákvæma tæknilega sundurliðun á eiginleikum hlutar. Ef hluturinn er gæddur þessum eiginleikum getur kaupandinn ekki borið það fyrir sig gagnvart seljanda að hann geti ekki notað hlutinn.
    Í c-lið felst að hlutur verður að hafa sömu eiginleika og prufur og líkön. Einungis prufur og líkön, sem seljandinn hefur lagt fram, hafa þýðingu í þessu sambandi. Þá á áskilnaður greinarinnar einungis við um þá eiginleika sem seljandinn hefur vísað til með því að leggja fram prufur eða líkön. Ákvæðið fjallar ekki um þýðingu þess að kaupandi hefur lagt fram prufur eða líkön. Samningur getur eigi að síður borið það með sér að hlutur skuli vera í samræmi við þá eiginleika sem framlagðar prufur og líkön kaupanda hafa til að bera. Í framkvæmd kemur stundum fyrir að eiginleikar vörunnar eiga að fullnægja mati sérfróðra eftirlitsmanna eða annarra slíkra. Þessi tilvik falla ekki beint undir ákvæði c-liðar, en geta eftir atvikum fallið undir 1. mgr.
    Í d-lið eru ákvæði um innpökkun söluhlutar og tengjast þau tilgangi innpökkunar. Skylda seljanda nær því einungis svo langt sem nauðsynlegt er til þess að varðveita og vernda hlutinn. Ef hlut er pakkað inn á venjulegan hátt er það að öllu jöfnu nægilegt ef ekki má leiða af sérstökum atvikum að meira þurfi til þess að vernda hlutinn og varðveita. Ákvæðið felur ekki í sér að söluhlutur þurfi alltaf að vera pakkaður inn. Bílar og sandur eru söluhlutir sem að jafnaði þarf ekki að pakka inn. Að öðru leyti verður að skýra hugtakið umbúðir rúmri skýringu. Dýrum er t.d. venjulega ekki pakkað inn þótt þau séu send frá einum stað til annars, en þess í stað er sú krafa gerð að flutningur fari fram í forsvaranlegum búrum eða með áþekkum hætti.
    Í 3. mgr. er skírskotað til þeirra eiginleika söluhlutar sem leiðir af lögum eða öðrum opinberum ákvörðunum á þeim tíma sem kaup áttu sér stað, og er gildissviðið takmarkað við neytendakaup. Ákvæðið hefur mesta þýðingu þegar um öryggisráðstafanir og ýmis stöðluð ákvæði í lögum og reglugerðum er að ræða. Þetta á einkum við um almennar reglur, t.d. um eiginleika rafmagnshluta. Ákvæðið á einnig við um einstakar ákvarðanir, t.d. samþykkt eða dóm sem bannar sölu tiltekinnar framleiðslu.
    Ákvæði 3. mgr. fjallar einungis um eiginleika söluhlutar. Kröfur, sem varða þær upplýsingar sem veita skal um tiltekna framleiðslu, falla utan ákvæðisins. Sem dæmi um þetta má nefna ákvæði laga um skyldu til þess að auglýsa hættu á heilsutjóni við tóbaksreykingar. Eftir atvikum getur það verið galli skv. 18. gr. ef slíkar upplýsingar vantar. Opinberar reglur, sem kveða á um notkun hlutar í tilteknu skyni, falla einnig utan ákvæðisins því að beiting reglnanna hvílir á athöfnum kaupandans eftir að kaup áttu sér stað. Seljandi snjósleða ber því ekki ábyrgð á því að kaupandinn fái heimild til þess að aka snjósleðanum um eignarlönd annarra manna. Sama er um þann sem kaupir skotvopn. Hann getur ekki ætlast til þess að seljandinn beri ábyrgð á því hvort hann fær skotvopnaleyfi eða ekki.
    Kröfur, sem verða til eftir að kaup eru gerð, falla utan ákvæðisins, en það getur hins vegar leitt af samningi að slíkar kröfur hafi þýðingu. Þar við bætist að atvik, sem verða til þess að notkun hlutarins er bönnuð, geta leitt til þess að ekki sé unnt að ná því markmiði sem að var stefnt með kaupunum.
    Í 3. mgr. er gerð sú undantekning viðvíkjandi eiginleikum söluhlutar að aðstæður kunni að sýna að kaupandi byggi ekki á sérfræðiþekkingu og mati seljanda með tilliti til þeirra. Þetta getur t.d. átt við um sérfróðan neytanda sem kaupir bíl í óökuhæfu ástandi, hyggst nota sérþekkingu sína til að gera við hann og láta skrá hann á nýjan leik.
    Ekki kemur fram í 3. mgr. neitt um það hvernig með skal fara þegar söluhlutur fullnægir ekki kröfum opinbers réttar, sem fram koma í lögum eða opinberum ákvörðunum, þegar ekki er um neytendakaup að ræða. Það útilokar samt sem áður ekki að unnt sé að beita gallareglunum varðandi slíka annmarka. Oftast verður að gera ráð fyrir að annmarkar af því tagi reiknist sem gallar ef önnur skilyrði 17. gr. eru fyrir hendi.
    Í 4. mgr. er að finna ákvæði sem sett er inn í samræmi við tilskipun 99/44/EB, sbr. 2. gr. (5) í tilskipuninni. Þetta ákvæði hefur oft verið nefnt IKEA-ákvæðið en það felur í sér að það er á ábyrgð seljanda að veita greinargóðar og skýrar leiðbeiningar til neytanda þegar hinn síðarnefndi á að setja vöruna saman sjálfur. Fullnægi seljandi ekki þessari skyldu og neytanda tekst ekki að setja hlutinn rétt saman af þeim sökum telst varan gölluð af hendi seljanda. Í ákvæðinu er einnig tekið fram að hafi seljandi tekið að sér samsetningu hlutar þegar um neytendakaup er að ræða teljist hann gallaður ef orsök gallans er rakin til rangrar samsetningar seljanda. Með orðinu samsetningu er einnig litið svo á að undir það geti jafnframt fallið uppsetning hlutar af hálfu seljanda.
    Í 5. mgr. segir að hlutur teljist gallaður ef hann er ekki í samræmi við þær kröfur sem fram koma í 1.–4. mgr., og þarfnast ákvæðið ekki frekari skýringa.

Um 18. gr.


    Regla 18. gr. er viðbót við 17. gr. að því leyti að í 18. gr. kemur fram að reglurnar um galla gilda einnig þegar hlutur svarar ekki til þeirra upplýsinga sem um hann hafa verið gefnar. Í núgildandi löggjöf er ekki sambærilegt ákvæði við það sem hér er lagt til að lögtekið verði. Ákvæðið ber að skoða með hliðsjón af 86. gr. frumvarpsins um ábyrgð á upplýsingum skv. 18. gr. Í SÞ-samningnum er ekki ákvæði sem er beinlínis sambærilegt 18. gr. frumvarpsins. Að vissu marki mundi hins vegar ábyrgð vegna upplýsinga leiða af ákvæðum 17. gr., sbr. 35. gr. SÞ-samningsins. Að því marki sem 18. gr. gengur lengra en 17. gr. verður að líta á 18. gr. sem nánari útfærslu 17. gr. um atriði sem ekkert er sagt um í SÞ- samningnum.
    Í 1. mgr. er fjallað um þær upplýsingar sem gefnar eru að frumkvæði seljanda. Þær kunna að hafa komið fram við almenna markaðssetningu en einnig á anna hátt, t.d. beint gagnvart kaupanda. Ekki er það skilyrði samkvæmt ákvæðinu að upplýsingarnar hafi verið gefnar skriflega. Þær kunna t.d. að hafa komið fram gagnvart kaupanda í samningsskjali, í bréfaskiptum eða munnlega við samningsgerð. Markaðssetning getur t.d. gerst með auglýsingum, í kvikmyndum, á myndböndum o.s.frv.
    Til þess að upplýsingar geti verið grundvöllur ábyrgðar verða þær að hafa verið afmarkaðar og að vissu marki sérgreindar. Oft eru upplýsingar, sem fram koma við markaðssetningu, svo almennar og óljósar að þær geta ekki orðið grundvöllur kröfugerðar á hendur seljanda vegna galla . Slíkar upplýsingar geta þó haft vissa þýðingu við mat á því hverra gæða varðandi hlutinn kaupandinn gat vænst.
    Í ákvæðinu er ekki berum orðum getið um neina tímaviðmiðun varðandi upplýsingarnar. Þar sem það er skilyrði að um sé að ræða upplýsingar sem ætla má að áhrif hafi haft á kaupin segir það sig sjálft að ákvæðið tekur aðeins mið af þeim upplýsingum sem gefnar voru fyrir eða við kaupin.
    Ekki er það skilyrði að seljandinn hafi sjálfur persónulega gefið upplýsingarnar, enda er það svo í mjög mörgum tilvikum að seljandinn er ekki einstaklingur, heldur félag eða fyrirtæki. Seljandinn ber ábyrgð á þeim upplýsingum, sem hann sjálfur, starfsmenn hans eða aðrir þeir, sem fram koma fyrir hans hönd, hafa gefið, enda hafi þeir haft umboð eða heimild til þess. Þetta getur t.d. átt við um starfsmenn í söludeildum eða stjórnarmenn sem gefa upplýsingar í tengslum við kaup. Það er ekki skilyrði að viðkomandi hafi umboð til þess að gera sjálfan kaupsamninginn, heldur nægir að hann haft umboð til þess að gefa upplýsingarnar sjálfar. Sem dæmi um þetta má nefna að mörg fyrirtæki hafa sérstakar markaðsdeildir sem eiga að annast markaðssetningu en hafa hins vegar enga heimild til þess að gera kaupsamninga.
    Ákvæðið kveður aðeins á um það hvað teljist til galla, en segir ekkert um afleiðingar þess að galli er til staðar. Það er ekki skilyrði þess að ákvæðið eigi við að seljandinn hafi sýnt af sér gáleysi við upplýsingagjöf eða gefið upplýsingar gegn betri vitund. Þótt seljandanum hafi ekki verið ljóst að upplýsingar væru rangar, eða hann eftir atvikum hefur verið í góðri trú, getur eigi að síður verið unnt að líta svo á að söluhlutur sé gallaður ef hann er ekki í samræmi við upplýsingarnar. Þegar hins vegar kemur að afleiðingum gallans getur huglæg afstaða seljandans haft þýðingu eins og við galla annars.
    Upplýsingar um hlutinn og notkun hans koma margar fram í leiðbeiningum sem fylgja honum við afhendinguna. Venjulega er það svo að hluti þessara upplýsinga hefur ekki komið fram í tengslum við kaupin. Upplýsingar í leiðbeiningunum falla því ekki beint undir orðalag ákvæðisins. Ef hlutur er í samræmi við samningsskilmála, eða öðrum skilyrðum 17. gr. er fullnægt, skiptir ekki máli hvort upplýsingar í leiðbeiningum eru réttar eða rangar. Hins vegar er hugsanlegt að upplýsingar þær, sem fram koma í slíkum leiðbeiningum, leiði til þess að hlutur verði notaður á rangan hátt og það leiði til tjóns á hlutnum. Sem dæmi um þetta má nefna það tilvik þegar rangar upplýsingar í leiðbeiningum um vinnslugetu heimilistækis leiða til þess að það er notað meira en það þolir.
    Að söluhlutur svari ekki til þeirra upplýsinga, sem seljandinn hefur gefið, tekur í fyrsta lagi til allra upplýsinga sem eru rangar. Skiptir þá ekki máli hvort það er einungis tiltekinn hlutur sem ekki hefur þá eiginleika sem í upplýsingunum fólust eða hvort það er öll framleiðslan sem eiginleikana skortir. Til dæmis er hugsanlegt að öll framleiðslan sé seld undir heiti sem ekki svarar til innihalds hennar. Í öðru lagi tekur ákvæðið til upplýsinga sem eru í sjálfu sér réttar en eru settar fram villandi hátt. Reglur um upplýsingaskyldu seljanda verður að öðru leyti ávallt að skoða í ljósi reglna um rannsóknarskyldu kaupandans og öðru leyti vitneskju hans um hlutinn, sbr. 20. gr. frumvarpsins.
    Í 2. mgr. er fjallað um þær upplýsingar sem annar en seljandinn hefur gefið á hans vegum eða gefnar hafa verið á fyrri sölustigum. Gildissviðið er takmarkað við þær upplýsingar sem veittar eru við markaðssetningu, en ekki skiptir máli hvernig hún hefur farið fram. Í 18. gr. eru umbúðir söluhlutar og auglýsingar nefndar sérstaklega, en það er einungis í dæmaskyni. Seljandinn ber samkvæmt ákvæðinu ekki ábyrgð á upplýsingum, sem veittar eru í öðru samhengi en við markaðssetningu. Þegar um markaðssetningu söluhlutar er að ræða ber seljandinn ekki einungis ábyrgð á fyrri söluaðilum, heldur einnig á öðrum sem sjá um markaðssetningu hlutarins, t.d. framleiðandanum eða innflytjanda, en orðalagið takmarkar þetta þó við þá sem annast markaðssetningu á vegum seljanda eða fyrri söluaðila. Af þessu leiðir að utan gildissviðs ákvæðisins falla upplýsingar sem samkeppnisaðilar hafa gefið um sambærilega hluti.
    Til sanns vegar má færa að sú regla að seljandinn beri ábyrgð á upplýsingum sem gefnar hafa verið við markaðssetningu af hálfu fyrri söluaðila sé nokkuð ströng í garð seljandans. Á hinn bóginn er til þess að líta að það er ekki óeðlileg krafa til seljanda að við kaup af sinni hálfu kynni hann sér þær upplýsingar sem fyrri söluaðilar hafa gefið. Þá er heldur ekki ósanngjarnt að krefjast þess af honum að hann fylgist með nýjungum á sínu sviði, m.a. með eigin markaðssetningu í huga. Í öðrum kaupum en neytendakaupum er hins vegar ekki eðlilegt, að seljandinn beri ábyrgð á upplýsingum sem aðrir hafa gefið ef hann hvorki vissi né mátti vita að upplýsingarnar voru gefnar eins og í ákvæðinu segir. Í neytendakaupum er hins vegar þörf á strangari reglum.
    Tilvísun 2. mgr. til 1. mgr. 18. gr. felur í sér að upplýsingar þær, sem nefndar eru í 2. mgr., þurfa að vera þess eðlis að ætla megi að þær hafi haft áhrif á kaupin.
    Í 3. mgr. kemur fram sú undantekning að reglur 1. og 2. mgr. eiga ekki við þegar réttar upplýsingar koma fram á skýran og skilmerkilegan hátt og með nægum fyrirvara. Ákvörðun um það hvenær upplýsingar koma nógu skýrt fram veltur m.a. á efni þeirra, á hvern hátt þær voru gefnar, af hverjum og í hvaða tilgangi. Almennt verður að krefjast þess að leiðréttar upplýsingar séu veittar á álíka áhrifaríkan hátt og hinar upprunalegu upplýsingar voru veittar. Hafi upphaflegar upplýsingar verið veittar kaupandanum beint og milliliðalaust er því ekki nóg að leiðrétting komi fram í auglýsingu. Á hinn bóginn er einnig unnt að hugsa sér þau tilvik að ekki nægi að leiðrétta upplýsingar í auglýsingum þótt upphaflegu upplýsingarnar hafi verið gefnar með þeim hætti.
    Til þess að unnt sé að halda því fram að leiðréttar upplýsingar hafi verið gefnar með nægum fyrirvara verða þær að hafa verið til staðar á réttan hátt áður en kaup voru gerð. Ekki er það skilyrði að leiðréttar upplýsingar séu komnar til vitundar kaupanda, heldur nægir að þær hafi verið gefnar í tíma með þeim hætti að slíkt sé almennt til þess fallið að geta leiðrétt rangan skilning kaupanda í sambærilegum tilvikum. Ef seljandanum er ljóst í sambandi við kaupin að kaupandinn hefur ekki skilið leiðréttinguna getur seljandinn ekki hagnýtt sér það.

Um 19. gr.


    Sambærilegt ákvæði er hvorki í gildandi lögum né í SÞ-samningnum, en reglur 2. mgr. frumvarpsgreinarinnar svara að nokkru til 48. gr. gildandi laga.
    Í 1. mgr. 19. gr. er fjallað um þau tilvik þegar seljandinn hefur gert þann fyrirvara að hlutur sé seldur „í því ástandi sem hann er“, eða fram kemur annar álíka almennur fyrirvari af hans hálfu. Af orðalagi ákvæðisins leiðir að gera verður sérstakan fyrirvara um þetta efni og gildir það því yfirleitt ekki um sölu nýrra eða notaðra hluta án slíks fyrirvara. Það leiðir af ákvæðum 3. gr. frumvarpsins að seljandi getur almennt gert fyrirvara um ábyrgð sína vegna galla. Ákvæði þetta gerir einnig ráð fyrir því að fyrirvarar, jafnvel þótt þeir séu almennir, séu venjulega gildir. Það felst í ákvæðinu að almenna fyrirvara er ekki unnt að túlka bókstaflega því að seljandinn ber ávallt ábyrgð á ákveðnum göllum, þ.e. þeim göllum sem nefndir eru í a–c-liðum 1. mgr. Rétt er hins vegar að hafa í huga að ákvæði 1. mgr. eru frávíkjanleg í öðrum kaupum en neytendakaupum ef að er staðið með sérgreindum hætti. Eftir atvikum er þó unnt að víkja slíkum ákvæðum til hliðar, m.a. með stoð í 36. gr. samningalaga. Í þessu felst m.a. að innan marka almennra gildisskilyrða er unnt að semja um sérstakan fyrirvara, sem einnig nær til þeirra galla sem um er fjallað í a–c-liðum 1. mgr. 19. gr. Ákvæði þetta ber ekki að skilja sem neins konar takmörkun á upplýsingaskyldu seljanda. Þá ber að hafa það í huga að ákvæðið afmarkar ekki umfang upplýsingaskyldunnar heldur umfang ákveðinna fyrirvara.
    Í a-lið 1. mgr. er um það fjallað þegar hlutur svarar ekki til þeirra upplýsinga sem seljandinn hefur gefið. Ákvæðið er í flestu í samræmi við 1. mgr. 18. gr. og ætlað að hafa jafnvíðtækt umfang og það ákvæði.
    Samkvæmt b-lið 1. mgr. er um galla að ræða ef seljandinn hefur við kaupin vanrækt að gefa upplýsingar um atriði sem verulegu máli skipta varðandi söluhlut eða notkun hans. Orðasambandið „sem verulegu máli skipta“ verður að meta með hliðsjón af því að hluturinn er keyptur „í því ástandi sem hann er“ eða með sambærilegum fyrirvara. Slíkt gefur talsvert svigrúm til að meta hvað teljist verulegt í þessu sambandi.
    Í framkvæmd felst í þessari reglu skylda seljanda til að gefa upplýsingar um alla þá galla söluhlutar, sem máli skipta, eða óheppilega eiginleika hans. Ákvæðið verður að skoða sem lágmarksreglu, sem ekki er unnt að víkja til hliðar með almennri tilvísun eins og þeirri að hlutur sé „seldur í því ástandi sem hann er“.
    Það er skilyrði skv. b-lið að ætla megi að vanræksla seljanda hafi haft áhrif á það að kaup voru gerð. Sá fyrirvari að hlutur sé seldur „í því ástandi sem hann er“ getur aðeins að takmörkuðu leyti leyst seljandann undan því að gefa upplýsingar um atriði sem þýðingu hafa fyrir kaupandann. Upplýsingaskylda seljanda nær ekki aðeins til atvika sem hann þekkir heldur líka atvika sem hann má vita um, þ.e. atvika sem ekki er afsakanlegt að seljandinn viti ekki um. Láti seljandinn hjá líða að upplýsa um slík atvik eru afleiðingarnar eftir atvikum þær að söluhlutur telst gallaður.
    Ákvæði þetta verður að skoða í samhengi við reglur 20. gr. um rannsóknarskyldu kaupanda. Yfirleitt er ekki um upplýsingaskyldu seljanda að ræða varðandi þau atriði sem kaupandinn hefði átt að sjá við venjulega skoðun á söluhlut. Ákvæðið hefur því helst þýðingu varðandi mikilvæga eiginleika söluhlutar sem ekki er hægt að sjá við venjulega skoðun eða þegar kaupandinn hefur ekki möguleika á að komast að upplýsingunum á annan hátt. Sem dæmi slíks má nefna upplýsingar um það að seldur bíll hafi lent í alvarlegum árekstri, en það sést ekki við venjulega skoðun.
    Samkvæmt c-lið er seljandinn ávallt ábyrgur ef í ljós kemur að söluhlutur er að verulegu leyti í miklu verra ástandi en kaupandinn hafði ástæðu til að ætla. Við mat í þeim efnum verður m.a. að styðjast við kaupverðið, en einnig atvik að öðru leyti. Ekki er það skilyrði þess að ákvæðið eigi við að um óheiðarleika af hálfu seljanda sé að ræða, en ósamræmið milli raunverulegs ástands söluhlutar og þess sem kaupandinn mátti ætla verður að vera ótvírætt. Segja má með öðrum orðum að seljandi geti ekki með því að gera almennan fyrirvara firrt sig ábyrgð þegar söluhlutur fullnægir ekki tilteknum lágmarksskilyrðum.
    Ákvæði 1. mgr. er ekki takmarkað við neytendakaup heldur nær það til kaupa yfirleitt. Í framkvæmd mun ákvæðið þó án efa hafa mesta þýðingu í neytendakaupum.
    Í 2. mgr. er fjallað um sölu notaðra hluta á uppboði og er ákvæðið svipaðs efnis og 48. gr. gildandi laga. Ákvæðið gengur þó lengra en gildandi réttur gerir þar sem því er slegið föstu að reglur 1. mgr. gildi á sama hátt við sölu á uppboði eftir því sem við getur átt. Ákvæðið á bæði við um sölu á frjálsu uppboði og nauðungarsölu, en þó ganga ákvæði laga um nauðungarsölu framar þar sem í millum skilur.
    Rétt er að hafa það í huga að sala á uppboði lýtur að mörgu leyti öðrum lögmálum en önnur sala, enda er gert ráð fyrir því í ákvæðinu með orðunum „eftir því sem við getur átt“. Helst tíðkast að hlutur sé boðinn til sölu „eins og hann er“ og er bjóðendum ætlað að meta eiginleika hans og verðleggja hann í samræmi við það. Ekki er ástæða til að gera seljandann ábyrgan þótt hlutur henti ekki til þeirra nota sem slíkir hlutir eru venjulega notaðir til. Enn síður er ástæða til að leggja ábyrgð á seljandann af því tilefni að hlutur hentar ekki til þeirra sérstöku nota sem kaupandinn ætlaði að hafa af honum, enda er það ekki fyrr en við sölulok að seljandinn veit hver kaupandinn er.

Um 20. gr.


    Í 20. gr. frumvarpsins er getið um nokkur skilyrði sem fullnægja þarf til að kaupandinn geti komið fram með kröfur á hendur seljanda vegna galla á söluhlut. Í 1. mgr. kemur fram meginreglan í þeim efnum, en ákvæði 2. og 3. mgr. fela í sér nánari útfærslu þeirrar meginreglu.
    Ákvæði sambærilegt 1. mgr. 20. gr. er ekki í gildandi lögum, en hins vegar er slíkt ákvæði í 3. mgr. 35. gr. SÞ-samningsins. Ákvæði 2. og 3. mgr. svara efnislega til 2. og 3. mgr. 47. gr. gildandi kaupalaga.
    Í ákvæði 1. mgr. felst að kaupandinn getur ekki komið fram með kröfu vegna galla ef um er að ræða atvik sem hann vissi eða mátti vita um þegar kaup áttu sér stað. Ef kaupandi vitandi vits gerir samning þótt hann viti um tiltekinn eiginleika söluhlutarins getur hann ekki síðar borið það fyrir sig að þennan eiginleika beri að telja galla. Í ákvæðinu felst ekki aðeins að kaupandanum hafi verið kunnugt um viðkomandi atvik heldur líka að hann hafi áttað sig á þýðingu þess sem galla. Ef kaupandi naut ekki nauðsynlegrar sérfræðilegrar aðstoðar til að skilja þýðingu tiltekins eiginleika, sem seljandinn vakti athygli hans á, er eftir atvikum samt sem áður ekki útilokað að kaupandinn geti af því tilefni komið fram með kröfu á hendur seljanda vegna galla. Er þetta án efa oft reyndin í neytendakaupum.
    Ákvæðið útilokar ekki kröfu af hálfu kaupanda vegna galla ef ráð var fyrir því gert að seljandinn bætti úr gallanum eftir að kaup gerðust.
    Tímamarkið sem miðað er við í 1. mgr. 20. gr. er það þegar kaupin voru gerð. Ákvæðið á samkvæmt því ekki við þegar kaupandinn fékk vitneskju um atvik eftir kaup, en áður en afhending átti sér stað. Sem dæmi um þetta má nefna það tilvik að kaupandi bíls kemst að því eftir kaup, en áður en hann veitir bílnum viðtöku, að bíllinn hefur áður lent í tjóni. Getur kaupandi þá borið slíkt fyrir sig sem galla.
    Ákvæði 1. mgr. fjallar ekki einungis um það sem kaupandinn vissi um heldur einnig það sem hann mátti vita um þegar kaup voru gerð. Tilvísun ákvæðisins til þess sem kaupandi „mátti vita um“ svarar til þess sem kaupandi „could not have been unaware of“ í 3. mgr. 35. gr. SÞ-samningsins og ber að túlka á sama veg. Sjá að öðru leyti skýringar við b-lið 2. mgr. 17. gr. frumvarpsins.
    Ákvæði þetta gildir óháð því hvort kaupandinn hefur rannsakað söluhlut eða ekki og einnig óháð því hvernig kaupandinn hefur fengið vitneskju um eiginleika hlutarins. Hafi kaupandinn rannsakað hlutinn felur það oft í sér að hann hafi einnig mátt vita um tiltekna eiginleika.
    Ákvæði 2. mgr. fjallar um afleiðingar þess að kaupandinn hefur rannsakað hlut eða látið slíkt hjá líða án gildrar ástæðu. Meginreglan er þá sú að hafi kaupandinn rannsakað söluhlut áður en kaup gerðust getur hann ekki borið fyrir sig neina þá galla sem hann hefði átt að veita athygli við slíka rannsókn. Sama gildir ef hann án gildrar ástæðu lætur hjá líða að sinna hvatningu seljanda um að rannsaka söluhlutinn. Kaupandinn getur haft gilda ástæðu til þess að rannsaka ekki söluhlut, t.d. þar sem hann má treysta sérþekkingu seljanda eða þar sem rannsókn yrði óhæfilega tímafrek eða óhæfilegur kostnaður henni samfara, t.d. vegna þess að hlut er að finna á öðrum stað. Hafi seljandinn heitið tilteknum eiginleikum hefur kaupandinn yfirleitt ekki ástæðu til þess að rannsaka frekar hvort þeir eru fyrir hendi. Einnig getur verið að kaupandinn rannsaki hlut, en atvik gefi honum gilda ástæðu til þess að takmarka rannsókn sína. Í slíkum tilvikum glatar kaupandinn ekki rétti til þess að koma fram með kröfur vegna galla sem hann hefði átt að komast að við nákvæmari rannsókn.
    Í ákvæði 2. mgr. kemur ekki fram bein skylda kaupanda til þess að rannsaka söluhlut að eigin frumkvæði fyrir kaup. Þykir ekki ástæða til þess að lögleiða slíka reglu, enda mundi hún hafa litla raunhæfa þýðingu í mörgum tilvikum, t.d. þegar kaup eiga sér stað í venjulegri búðarverslun. Ef um neytendakaup er að ræða án þess að sérfræðileg þekking sé fyrir hendi er varla unnt að gera meiri kröfur en þær að kaupandinn athugi að umbúðir séu heilar. Hins vegar leiðir það af ákvæðum 31. gr. frumvarpsins að á kaupanda hvílir rannsóknarskylda eftir að hlutur hefur verið afhentur. Það getur á hinn bóginn leitt af samningi aðila eða venju að kaupandi eigi að rannsaka söluhlut fyrir kaup. Í pöntunarkaupum er eðli málsins samkvæmt ekki unnt að rannsaka söluhlut fyrir kaup, en í því tilviki ætti að vera unnt að skoða efni o.fl. í hlutnum.
    Í 2. mgr. kemur fram fyrirvari sem við á þegar seljandinn hefur sýnt af sér vítavert gáleysi eða framferði hans að öðru leyti stríðir á móti heiðarleika og góðri trú. Í þessu felst að vöntun rannsóknar eða ófullnægjandi rannsókn af hálfu kaupanda kemur honum ekki í koll ef seljandinn hefur sýnt af sér vítavert gáleysi eða framferði hans að öðru leyti er andstætt heiðarleika og góðri trú.
    Ekki er ástæða til þess að gera mjög strangar kröfur um aðgæslu af hálfu kaupanda í neytendakaupum þegar mat er lagt á rannsóknarskyldu hans. Orðalag 2. mgr. er með þeim hætti að það gefur tækifæri til mats í hverju einstöku tilviki. Á það bæði við um mat í þeim efnum hvort kaupandinn hafi haft gilda ástæðu til að láta hjá líða að rannsaka hlutinn og einnig mat á því hvað hann hefði átt að komast að raun um við rannsókn. Í báðum tilvikum skiptir máli tegund og eðli hlutar, venjur á viðkomandi sviði, staða aðilanna og sérþekking þeirra ásamt atvikum öllum við kaupin. Í venjulegum neytendakaupum þar sem keyptar eru nýjar framleiðsluvörur og við kaup yfir búðarborð hefur neytandinn yfirleitt ekki neinn raunhæfan möguleika eða sérþekkingu til að rannsaka nákvæmlega það sem hann kaupir.
    Stundum eru atvik með þeim hætti að aðilar verða sammála um að láta óháðan þriðja mann rannsaka söluhlut, t.d. þegar verkstæði er látið athuga bíl sem selja á. Ef seljandinn leitar eftir slíkri rannsókn fellur tilvikið utan 2. mgr. 20. gr., en hins vegar kemur niðurstaða rannsóknarinnar þá væntanlega í ljós við kaupin. Ef hins vegar kaupandinn leitar eftir slíkri rannsókn á ákvæðið ekki beint við samkvæmt orðanna hljóðan, en því má beita með lögjöfnun.
    Ákvæði 3. mgr. 20. gr. gilda þegar kaupandinn hefur rannsakað sýnishorn af söluhlut eða fengið tækifæri til þess, en lætur það hjá líða án gildrar ástæðu. Getur kaupandi þá ekki borið fyrir sig neina þá galla sem hann sá eða hefði átt að sjá við slíka rannsókn á sýnishorninu. Hins vegar glatar kaupandinn ekki neinum rétti vegna galla sem ekki var unnt að komast að raun um við rannsókn á sýnishorninu.

Um 21. gr.


    Ákvæði 21. gr. frumvarpsins er byggt á 36. gr. SÞ-samningsins og endurspeglar um margt þau sjónarmið sem fram koma í 44. gr. gildandi laga. Þar er þó hvergi vísað til yfirlýsingar seljanda um ábyrgð eða annað þess háttar. Það leiðir hins vegar af frávíkjanlegu eðli gildandi kaupalaga að seljandinn getur orðið ábyrgur á grundvelli yfirlýsingar um ábyrgð eða annarrar áþekkrar yfirlýsingar sem leiða má af samningnum. Samkvæmt þessu er í frumvarpsgreininni ekki um neina efnisbreytingu frá gildandi rétti að ræða.
    Af 21. gr. leiðir að það hefur ekki þýðingu varðandi kaupin þótt hlutur sé gallaður samkvæmt ákvæðum 17.–20. gr. meðan áhættan af söluhlutnum hvílir á seljanda. Um það atriði hvenær áhættan af söluhlut flyst frá seljanda yfir til kaupanda vísast til athugasemda við 12.–16. gr. frumvarpsins. Í pöntunarkaupum er það venjulega svo að hluturinn er ekki í umsömdu ástandi fyrr en afhendingartími nálgast. En einnig að öðru leyti getur hlutur verið gallaður áður en að afhendingu kemur án þess að það feli í sér galla í tengslum við kaupin þar sem kaupandinn nær því að búa hlut í umsamið ástand fyrir afhendingu og getur kaupandi þá ekki komið fram með kröfur af því tilefni. Í sumum tilvikum getur hins vegar augljóslega verið um fyrirsjáanlegar vanefndir að ræða í skilningi 61.–62. gr. frumvarpsins og í þeim tilvikum getur kaupandinn gripið til vanefndaúrræða án þess að bíða þess að áhættan flytjist yfir til hans. Þetta getur t.d. átt við um einstaklega ákveðinn hlut sem verður fyrir tjóni þannig að ljóst sé að hann verði ekki afhentur í umsömdu ástandi.
    Í 1. mgr. 21. gr. felst að ákvörðun um það hvort hlutur er gallaður eða ekki skal tekin með hliðsjón af ástandi hans á því tímamarki þegar áhættan af hlutnum fluttist yfir til kaupandans. Ekki skiptir máli hver er orsök gallans. Því á ákvæðið jafnt við hvort heldur sem gallann má rekja til tilviljunarkenndra atvika eða ástands hlutarins sjálfs. Af ákvæðum 1. mgr. leiðir að ekki skiptir máli hvort gallinn kemur fram seinna ef hann var til staðar á áhættuskiptatímamum sem yfirleitt miðast við afhendingu. Seljandinn ber með öðrum orðum einnig ábyrgð á hinum svokölluðu leyndu göllum og er þetta einnig í samræmi við gildandi rétt. Hönnunar- eða smíðagalli getur t.d. leitt til þess að söluhlutur eyðileggist eftir stutta notkun þótt ekki hafi verið unnt að staðreyna gallann við afhendinguna. Á þetta einnig við um skemmt fóður sem gefið er dýrum eftir afhendingu og þau veikjast síðan af og sama gildir um stiga sem á er leyndur galli og fellur saman um leið og farið er að nota hann.
    Seljandinn getur einnig borið ábyrgð á göllum sem koma fram eftir flutning áhættu yfir til kaupanda. Er þar um tvö tilvik að ræða og er fjallað um þau í 2. mgr. Fyrra tilvikið er það að gallann megi rekja til vanefnda seljanda, t.d. vegna skyldna hans, sem samkvæmt samningnum ná til tímans eftir afhendingu, en seljandi vanrækir að sinna. Sem dæmi má nefna skyldu seljanda til þess að setja hlutinn upp, pakka honum inn eða sjá um flutning hans. Seljandinn getur einnig hafa tekið á sig þær skyldur að hafa ákveðið eftirlit með hlutnum og að halda honum við í ákveðinn tíma eftir afhendingu. Þetta ákvæði gengur lengra en gildandi lög því að samkvæmt þeim ber seljandi því aðeins ábyrgð á göllum, sem fram koma eftir afhendingu, að vanrækslu af hans hálfu sé um að kenna. Í frumvarpinu er því gengið heldur lengra í þessum efnum því að um vanefndir getur verið að ræða samkvæmt frumvarpsgreininni þótt seljanda sé ekki um að kenna. Á hinn bóginn felst það í orðalagi ákvæðisins að seljandinn verður ekki ábyrgur á grundvelli kaupalaga vegna tjóns sem hann veldur á hlutnum eftir að skyldum hans í tengslum við kaupin er lokið. Sem dæmi má nefna það tilvik þegar seljandi kemur í heimsókn til kaupanda og veldur tjóni á söluhlut eða hann ekur á bíl sem hann hefur selt og afhent kaupanda fyrir nokkrum dögum. Í slíkum tilvikum mundi ábyrgð seljanda ekki verða reist á reglum kaupalaganna heldur á almennum reglum um bótaábyrgð utan samninga.
    Seinna tilvikið kemur fram í síðari málslið 2. mgr. 21. gr., en þar er gert ráð fyrir því að seljandi geti borið ábyrgð ef hann með yfirlýsingu eða á annan sambærilegan hátt hefur ábyrgst að hluturinn hafi tiltekna eiginleika eða að hann megi nota með venjulegum eða sérstökum hætti. Algengt dæmi um ábyrgð af þessu tagi er yfirlýsing um ryðvörn og ábyrgð í því sambandi eða þegar ábyrgst er að skíði geti ekki brotnað. Yfirlýsingar um það að matvöru megi neyta fram til ákveðins dags felur líka í sér ábyrgð af þessu tagi.
    Ætlast er til þess að hugtakið „tiltekið tímabil“ í ákvæðinu nái einnig til ábyrgðaryfirlýsinga sem eru takmarkaðar við tiltekna notkun. Hér má sem dæmi nefna það þegar ábyrgð á seldri bifreið er takmörkuð við fyrstu 50 þúsund kílómetrana sem bifreiðinni er ekið.

Um V. kafla.


    Í kafla þessum er fjallað um úrræði kaupanda vegna vanefnda seljanda. Í 22. gr. er í upphafi almennt yfirlit um þau vanefndaúrræði sem standa kaupanda til boða þegar seljandi afhendir ekki söluhlut eða afhendir hann of seint. Í 23. gr. er rætt um þann rétt sem kaupandi á til efnda og skilyrði fyrir honum, og í 24. gr. er fjallað um hvernig með skuli fara þegar seljandi beinir fyrirspurn til kaupanda um það hvort hann vilji veita söluhlut viðtöku þrátt fyrir seinkun. Í 25. gr. er rætt um rétt kaupanda til riftunar þegar greiðsludráttur hefur í för með sér verulegar vanefndir, en í 26. gr. er fjallað um riftunarréttinn sérstaklega þegar um pöntunarkaup er að ræða. Í 27. gr. koma fram skilyrði fyrir skaðabótum vegna greiðsludráttar af hálfu seljanda og í 28. gr. er m.a. mælt fyrir um skyldu seljanda til að skýra frá hindrun ef hún kemur í veg fyrir að seljandinn geti efnt kaupin á réttum tíma. Loks koma fram í 29. gr. reglur um riftunarfrest ef hlutur hefur verið afhentur of seint.
    Í 30. gr. frumvarpsins er yfirlit um heimildir kaupanda vegna þess að söluhlutur er gallaður. Í 31. gr. koma fram reglur um rannsókn kaupanda á söluhlut eftir afhendingu. Aðalreglan er sú að kaupandi skal rannsaka hlutinn á þann hátt sem góð venja stendur til. Í 32. gr. er að finna reglur um tilkynningar. Þar kemur fram að kaupandi glati rétti sínum til að bera fyrir sig galla ef hann tilkynnir ekki seljanda um gallann innan þeirra tímamarka sem þar koma fram. Í 33. gr. er ákvæði um undantekningar frá reglum um tilkynningar. Í 34. gr. er rætt um úrbætur og afhendingu að nýju. Samkvæmt ákvæðinu getur kaupandi krafist þess að seljandi bæti úr galla ef það verður gert án þess að valda seljanda ósanngjörnum kostnaði og óhagræði. Enn fremur getur kaupandi krafist nýrrar afhendingar ef galli er verulegur. Um nánari skilyrði fyrir hvoru úrræðinu fyrir sig vísast til greinarinnar. Í 35. gr. ræðir hins vegar um tilkynningu um kröfu um úrbætur og afhendingu að nýju. Samkvæmt ákvæðinu getur kaupandi glatað rétti sínum til að krefjast úrbóta eða nýrrar afhendingar ef hann tilkynnir ekki seljanda um þá kröfu sína samkvæmt fyrirmælum ákvæðisins.
    Í 36. gr. er fjallað um rétt seljanda til úrbóta og nýrrar afhendingar. Aðalreglan er sú að seljanda er heimilt að bæta á eigin kostnað úr galla eða afhenda annan hlut ef það verður gert án verulegs óhagræðis fyrir kaupanda. Í 37. gr. er rætt um afslátt eða riftun þegar ekki verður af úrbótum eða afhendingu að nýju. Í 38. gr. er rætt um skilyrði afsláttar af kaupverði ef hlutur reynist gallaður og í 39. gr. er rætt um rétt kaupanda til riftunar ef söluhlutur er verulega gallaður. Í 40. gr. er fjallað um rétt kaupanda til skaðabóta fyrir það tjón sem hann bíður vegna galla á söluhlut.
    Í 41. gr. er fjallað um rétt kaupanda vegna vanheimildar að því er söluhlut varðar. Í 42. gr. er fjallað um rétt kaupanda til að halda kaupverði vegna vanefnda seljanda. Í 43. gr. eru reglur um úrræði kaupanda ef vanefndir seljanda varða aðeins hluta hins selda. Loks er í 44. gr. að finna ákvæði um úrræði kaupanda þegar afhenda á hið selda í áföngum.

Um 22. gr.


    Ákvæði 22. gr. frumvarpsins á sér ekki beina hliðstæðu í gildandi kaupalögum, en það svarar þó að nokkru til 21. gr. þeirra laga. Sambærilegt ákvæði er hins vegar í 45. gr. SÞ- samningsins.
    Í 1. mgr. frumvarpsgreinarinnar er almennt yfirlit um þau úrræði sem standa kaupanda til boða þegar seljandinn afhendir ekki hlutinn eða afhendir hann of seint. Kaupandi getur þá krafist efnda, riftunar og skaðabóta með þeim skilyrðum sem fram koma í 23.–29. gr. Hann getur einnig skv. 42. gr. haldið eftir greiðslum kaupverðsins. Skilyrði er að kaupanda sé ekki um greiðsludrátt að kenna eða atvikum sem hann varða og ákvæðið á því einungis við um greiðsludrátt af hálfu seljanda. Sem dæmi um greiðsludrátt sem rekja má til kaupanda er það tilvik þegar kaupandinn lætur hjá líða að sækja hlutinn eins og um var um samið eða þegar kaupandinn gefur seljandanum ekki þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til þess að hluturinn verði sendur. Tilvísun ákvæðisins til atvika sem kaupandann varða tekur ekki eingöngu mið af atvikum þar sem greiðsludráttur er beinlínis afleiðing vanrækslu af hálfu kaupanda heldur er og miðað við atvik sem kaupandinn ber áhættuna af. Það getur t.d. verið að tilviljunarkenndur atburður valdi því að kaupandinn getur ekki sótt hlutinn. Annað dæmi er það þegar kaupandinn fær ekki nauðsynleg innflutningsleyfi.
    Upptalning úrræðanna í 1. mgr. er í sjálfu sér ekki tæmandi. Til þess að fá heildarsýn yfir stöðu kaupanda verður að líta til þeirra skilyrða, sem gilda um beitingu einstakra úrræða, sbr. ákvæði 23., 24. og 28. gr. um efndir, ákvæði 25., 26. og 29. gr. um riftun, ákvæði 27. gr. um skaðabætur og ákvæði 42. gr. um rétt til að halda kaupverði. Einnig ber hér að líta til ákvæða 43. og 44. gr. um vanefndir varðandi hluta hins selda og um afhendingu í áföngum, sbr. og ákvæði 61.–63. gr. um fyrirsjáanlegar vanefndir. Kaupandinn hefur samkvæmt gildandi rétti allar sömu heimildir, en upptalningin hér og framsetning einstakra heimilda er víðtækari og nákvæmari.
    Það segir sig sjálft að kaupandinn getur ekki samtímis rift kaupum og krafist efnda, en að öðru leyti útilokar einstök vanefndaheimild ekki beitingu annarrar heimildar án þess að annað og meira komi til. Um nánara samband hinna einstöku vanefndaheimilda fer eftir viðkomandi ákvæðum, þó þannig að í 2. málsl. frumvarpsgreinarinnar er sérstaklega tekið fram að rétturinn til þess að krefjast skaðabóta falli ekki niður þótt kaupandi setji fram aðrar kröfur eða ekki sé unnt að halda slíkum kröfum fram.
    Venjulega er það ekki vandkvæðum bundið að skýra hvað felst í hugtakinu greiðsludráttur. Þó getur verið erfitt að fullyrða í sumum tilvikum hvenær greiðsludráttur hefur orðið þegar greiðslutími hefur ekki verið nákvæmlega tilgreindur í samningi. Sem dæmi um þetta má nefna að afhenda eigi vöru samkvæmt samningi „um páskana“. Ef alls ekki hefur verið samið um afhendingartímann gildir ákvæði 1. mgr. 9. gr. Álitamál getur verið hvort um greiðsludrátt eða galla er að ræða. Í ákvæðinu er tekið af skarið um þetta því að sé hlutur alls ekki afhentur er um greiðsludrátt að ræða. Stundum má vera að söluhlutur sé aðeins afhentur að hluta. Í slíkum tilvikum verður að taka mið af því hvort ætla megi að seljandinn hafi lokið afhendingu sinni, sbr. 2. mgr. 43. gr.
    Rétturinn til skaðabóta er sem áður sagði í öllum tilvikum óháður því hverjar aðrar kröfur eru gerðar eða unnt er að gera. Er þetta ótvírætt tekið fram í síðari málslið ákvæðisins, sbr. og 2. mgr. 45. gr. SÞ-samningsins. Ákvæðið segir í sjálfu sér ekki annað og meira en það sem leiða má af fyrri málsliðnum með túlkun, en hentugt þykir að taka þetta fram í upplýsingaskyni, m.a. að því er varðar tengslin við 24. gr.
    Samkvæmt 2. mgr. frumvarpsgreinarinnar er unnt að beita ákvæðum um greiðsludrátt varðandi aðrar skyldur seljanda en þær sem gagngert varða afhendingu söluhlutar. Er ákvæðið nauðsynlegt vegna þeirrar stefnu að láta frumvarpið fela í sér ákvæði um allar skyldur aðila í kaupum. Getið er um slíkar aðrar skyldur seljanda í 2. mgr. 30. gr. og 1. mgr. 51. gr. Aðalreglan skv. 2. mgr. er sú að reglunum um greiðsludrátt er einnig beitt varðandi aðrar skyldur en afhendingu sjálfs söluhlutarins. Slíkar skyldur geta t.d. verið tengdar flutningi hlutarins, uppsetningu hans eða leiðbeiningu varðandi notkun hans.
    Ákvæði 2. mgr. felur í sér rýmkun á reglum gildandi laga, sem í raun fjalla aðeins um greiðsludrátt við afhendingu. Ákvæðið mun á hinn bóginn að fæstu leyti leiða til annarrar niðurstöðu en þeirrar sem leiðir af gildandi rétti. Í fyrsta lagi getur greiðsludráttur varðandi aukaskyldur oft leitt til þess að dráttur verður á afhendingu aðalgreiðslunnar. Þetta getur t.d. átt við þegar seljandinn sér ekki um nauðsynlegar merkingar á söluhlut í tengslum við sendingu hans. Í öðru lagi er ekki unnt að útiloka að seljandinn geti orðið ábyrgur vegna brota á aukaskyldum á grundvelli almennra reglna kröfuréttarins eða samkvæmt lögjöfnun frá ákvæðum kaupalaganna. Ef seljandinn á t.d. að setja hlutinn upp eftir afhendingu getur hann að öllum líkindum orðið ábyrgur vegna dráttar á uppsetningu án tillits til þess hvort afhending fór fram á réttum tíma eða ekki.
    Í 2. mgr. kemur fram undantekning þess efnis að ákvæði 2. og 3. mgr. 25. gr. frumvarpsins um riftun þegar settur hefur verið viðbótarfrestur skuli ekki gilda. Nauðsynlegt er að línur séu skýrar varðandi riftunarheimildina. Riftun er afdrifaríkt vanefndaúrræði og reglurnar um viðbótarfrestinn verður að skoða í samhengi við það skilyrði að riftunar verði aðeins krafist þegar vanefnd er veruleg. Í þessu sambandi skiptir bæði máli hversu lengi greiðsludráttur varir og hvers eðlis hann er. Það væri ekki sanngjarnt ef kaupandinn gæti jafnan rift í lok viðbótarfrestsins ef skylda sú sem greiðsludrátturinn nær til er óveruleg eða veigalítil. Því verður jafnan að skoða réttinn til riftunar vegna brota á aukaskyldum í tengslum við meginregluna í 1. mgr. 25. gr. þótt seljandinn hafi farið fram yfir viðbótarfrestinn. Er þetta í samræmi við reglu b-liðar 1. mgr. 49. gr. SÞ-samningsins.
    Orð 2. mgr., „eftir því sem við getur átt“, gefa tilefni til mats í hverju einstöku tilviki. Er það notað til þess að leggja á það áherslu að við beitingu hinna einstöku heimilda verður að taka mið af því hvers konar skylda það er sem hefur verið vanefnd. Þetta hefur t.d. þýðingu skv. 1. mgr. 23. gr. þegar metinn er kostnaður seljanda og óhagræði í samanburði við hagsmuni kaupanda af efndum. Á sama hátt skiptir tegund skyldunnar máli við mat á því hvort um verulega vanefnd er að ræða í skilningi 25. gr.
    Síðari málsliður 2. mgr. kveður á um að ákvæðið sé frávíkjanlegt, einnig að því er neytendakaup varðar. Seljandi getur því samið sig frá ábyrgð vegna greiðsludráttar varðandi aukaskyldur umfram það sem annars leiðir af ákvæðum laganna.

Um 23. gr.


    Í 23. gr. frumvarpsins er fjallað um rétt kaupanda til þess að krefjast efnda í samræmi við efni samnings (efndir in natura). Aðalatriðið í því efni er afhending söluhlutar, en ákvæðið nær einnig til allra aukaskyldna seljanda samkvæmt samningnum, sbr. 2. mgr. 22. gr. Eðlilegt er að kaupandi eigi rétt til efnda þar sem tilgangur kaupanna er einmitt sá að seljandinn fullnægi skyldum sínum samkvæmt kaupsamningnum. Hlutverk ákvæðisins er samkvæmt því ekki umfram allt það að kveða á um rétt kaupandans heldur miklu fremur að mæla fyrir um við hvaða aðstæður seljandinn getur komist hjá því að fullnægja þessum skyldum sínum.
    Um rétt kaupanda í þessum efnum er fjallað í 1. mgr. 46. gr. SÞ-samningsins. Um takmarkanir á rétti til þess að krefjast efnda in natura er ekki fjallað með tæmandi hætti í samningnum heldur ráðast þær takmarkanir af reglum landsréttar hvers samningsríkis, sbr. 28. gr. SÞ-samningsins. (Sjá til athugunar skýringar við 88. gr. frumvarpsins.)
    Í fyrri málslið 1. mgr. 23. gr. kemur fram sú meginregla að kaupandi getur haldið fast við kaup og krafist afhendingar eða annarra efnda. Í 21. gr. gildandi kaupalaga er heimildinni til þess að heimta söluhlut stillt upp sem kosti við hlið þess úrræðis að rifta kaupum. Í gildandi kaupalögum eru þó ekki ótvíræð ákvæði um takmarkanir á rétti kaupanda til þess að krefjast efnda in natura. Á hinn bóginn felst það í bótareglum gildandi laga að seljandinn getur, að fullnægðum ákveðnum skilyrðum, losnað undan bótaábyrgð þegar greiðsludráttur verður eða greiðsla er ekki afhent. Þegar svo hagar til er lagt til grundvallar samkvæmt gildandi rétti að seljandi verði ekki heldur dæmdur til efnda in natura. Frumvarpsgreinin felur í sér skýra og ótvíræða reglu um það hvenær seljandi er laus undan efndaskyldunni og er hún í 2. málsl. 1. mgr.
    Ef kaupandinn á þess kost að útvega sér hlutinn annars staðar er sjálfsagt eðlilegast að hann rifti kaupum. Hins vegar getur líka verið að hann hafi gert kaup með góðum kjörum eða að seljandinn sé nánast í einokunarstöðu á markaðinum. Getur þá mun fremur reynt á efndir, og sama á við þegar um er að ræða sérstaklega mikilvæga og einstaklega ákveðna hluti.
    Í 2. málsl. 1. mgr. er getið um undantekningu frá meginreglunni um rétt kaupanda til efnda in natura. Mikilvægt er að hafa í huga að það er aðeins sjálf skyldan til efnda sem seljandinn getur losnað undan, en hann losnar ekki undan öðrum skyldum samkvæmt samningnum nema því aðeins að slíkar skyldur séu beinlínis háðar aðalskyldunni, t.d. sú skylda að pakka vöru og merkja hana. Þar fyrir utan er litið á það sem vanefnd að láta hjá líða að fullnægja efndaskyldunni. Af því leiðir að kaupandi getur gripið til annarra vanefndaúrræða þegar skilyrðin eru til staðar.
    Samkvæmt 2. málsl. frumvarpsgreinarinnar er seljandinn í fyrsta lagi laus undan efndaskyldunni ef um er að ræða efndahindrun sem hann ræður ekki við. Öll atvik, sem í raun hindra efndir, hafa þýðingu í þessu sambandi. Ástæða hindrunar ræður ekki úrslitum um skylduna til afhendingar, en hefur á hinn bóginn mikla þýðingu varðandi skaðabótaábyrgð. Því á ákvæðið jafnt við hvort sem hindrun er honum að kenna eða ekki. Sem dæmi um efndahindrun má nefna það tilvik þegar vörusending sú sem hlutur er í eyðileggst, t.d. þegar frosin matvörusending skemmist vegna bilunar í kælibúnaði seljanda.
    Hindrun verður að vera með þeim hætti að seljandinn ráði ekki við hana. Í þessu felst á engan hátt krafa um algjöran ómöguleika. Atvik verða hins vegar að vera þannig að seljandinn fái ekki með skömmum fyrirvara ráðið við hindrunina án mjög sérstakra vandkvæða. Á hinn bóginn er til þess að líta að ekki geta öll vandkvæði eða aukakostnaður talist efndahindrun samkvæmt ákvæðinu. Það er grundvallarskylda sem leiðir af samningnum að seljandinn verður að ljá atbeina sinn til að sigrast megi á þeim hindrunum sem standa í vegi fyrir efndum samningsins. Það getur t.d. gerst með því að gert er við hlut sem bilað hefur eða hann er bættur með öðrum hlut jafngóðum. Meðan unnt er að komast hjá erfiðleikum eða ráða má við þá með öðrum úrræðum er ekki hægt að líta svo á að um efndahindrun í skilningi ákvæðisins sé að ræða. Það skiptir með öðrum orðum máli hvers eðlis erfiðleikarnir eru. Fjárskortur seljanda er undir öllum venjulegum kringumstæðum ekki efndahindrun í skilningi 23. gr. frumvarpsins, þ.e. seljandinn getur með öðrum orðum ekki losnað undan skyldum sínum samkvæmt samningi með því einu að vísa til þess að hann sé kominn í fjárhagsvandræði.
    Það fer að mestu eftir skyldum seljanda samkvæmt samningnum hver tilvik geta fallið undir efndahindrun í skilningi ákvæðisins. Því afmarkaðri og sérgreindari sem skyldur seljanda eru þeim mun meiri eru líkurnar til þess að fram komi hindranir sem seljandinn ræður ekki við. Ef t.d. er um að ræða kaup á ákveðnum stóðhesti verða möguleikar seljanda til efnda að engu ef hesturinn deyr. Ef á hinn bóginn er um að ræða greiðslu sem að öllu leyti er ákveðin eftir tegundareinkennum, kaup eru t.d. gerð um 5 tonn af sandi, hefur seljandinn góða möguleika á því að geta efnt þótt ekki sé þess kostur að fá nákvæmlega þann sand sem seljandinn hafði í huga. Sama á við um valkvæðar greiðslur, en í því felst að meðan efndahindrun nær ekki til einnar greiðslunnar helst skylda seljanda til efnda að því er þá greiðslu varðar. Í því að seljandi sé skyldugur til þess að reyna að sigrast á efndahindrun felst á hinn bóginn ekki það að hann hafi rétt til þess að reiða fram sem greiðslu eitthvað annað en það sem leiðir af samningnum, nema því aðeins að um það hafi verið samið að greiðslu megi breyta.
    Samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. er seljandi í öðru lagi laus undan efndum ef þær hafa í för með sér slíkt óhagræði eða kostnað fyrir seljanda að það væri í verulegu ósamræmi við hagsmuni kaupanda að fá réttar efndir. Ef kostnaður eða óhagræði við efndir verður úr hófi fram má í sjálfu sér segja að fyrir hendi sé efndahindrun sem seljandinn ræður ekki við. En jafnvel þótt hindrun sé ekki þess eðlis getur seljandinn eigi að síður losnað undan skyldunni samkvæmt þeirri viðmiðun sem fram kemur í niðurlagi ákvæðisins. Ákvörðun í þeim efnum ræðst af mati á hagsmunum, þar sem annars vegar er litið til óhagræðis og kostnaðar seljanda og hins vegar hagsmuna kaupanda af því að seljandinn efni skyldur sínar.
    Við hagsmunamat samkvæmt framansögðu skiptir í sjálfu sér ekki máli hver ástæða liggur til grundvallar efndahindrunum seljanda. Það sem úrslitum ræður er fyrst og fremst það hvort um verulegt misræmi er að ræða milli óhagræðis og kostnaðar seljanda annars vegar og hagsmuna kaupanda af efndum hins vegar. Matið ræðst af einstökum atvikum varðandi samninginn, m.a. því hvers eðlis kaupin eru og hver söluhluturinn er. Ef um er að ræða vöru sem er viðkvæm fyrir verðsveiflum verður að telja að það leiði af atvikum í tengslum við kaupin að seljandinn verði að sætta sig við verðhækkanir að ákveðnu marki, áður en unnt er að halda því fram að um efndahindrun í skilningi ákvæðisins sé að ræða. Sama gildir ef seljandinn hefur tekið að sér að mjög flóknar og kostnaðarsamar efndir. Þá getur hann ekki seinna borið það fyrir sig að hann sé laus undan afhendingu af þeirri ástæðu að það hafi verið mjög kostnaðarsamt að efna samninginn. Aðalreglan er sú að seljandi er aðeins laus undan efndum í mjög sérstökum undantekningartilvikum. Þess vegna er t.d. almenn hækkun verðlags ekki ástæða sem leyst getur seljanda undan efndum í þessum skilningi. Aftur á móti getur mjög óvenjuleg verðmyndun skapað verulegt misræmi milli hagsmuna aðilanna. Þetta gildir sér í lagi ef kaupandinn getur útvegað sér sambærilegan hlut frá öðrum aðilum sem ekki eru háðir umræddri verðlagsþróun.
    Við mat á hagsmunum kaupanda af efndum verður m.a. að taka tillit til þess hverja möguleika hann hefur á að fá sama hlut annars staðar. Þetta leiðir í sjálfu sér af orðalaginu því að það sem úrslitum ræður er hagsmunir kaupanda af því að seljandinn efni það sem honum ber. Hagsmunamatið getur því að verulegu leyti ráðist af því hversu tegundarlega ákveðin greiðslan er.
    Þótt seljandi sé laus undan efndum skv. 1. mgr. 23. gr. er í sjálfu sér um vanefndir að ræða í skilningi 22. gr. Afsökunarástæður 1. mgr. 23. gr. hafa með öðrum orðum aðeins þýðingu varðandi skyldu seljanda til efnda og útiloka engan veginn að kaupandinn geti neytt annarra vanefndaúrræða. Þar sem skilyrði fyrir lausn undan skaðabótaskyldu skv. 27. gr. eru strangari en skilyrðin fyrir lausn undan efndaskyldunni getur kaupandinn í mörgum tilvikum krafist skaðabóta fyrir tjón sitt, þótt hann geti ekki krafist efnda samkvæmt aðalefni samningsins.
    Við hagsmunamat samkvæmt niðurlagsákvæði 2. málsl. 1. mgr. er ljóst að heimilt er að líta til fleiri atriða en þeirra sem aðeins snerta fjárhag. Hvað seljanda varðar leiðir þetta beint af því að „óhagræði“ er sérstaklega nefnt, og þegar kemur að mati á hagsmunum kaupanda geta önnur atriði en fjárhagsleg atriði einnig skipt máli. Við kaup á einkabíl er t.d. í vissum tilvikum unnt að halda því fram að kaupandinn hafi ekki fjárhagslega hagsmuni af því að fá bílinn afhentan þar sem hagkvæmara sé fyrir hann að nýta sér almenningssamgöngur. Þetta eru þó í sjálfu sér engin rök fyrir því að seljandi geti á auðveldari hátt losnað undan afhendingarskyldunni við slíka sölu en kaupandi sem ætlar að nota bílinn vegna atvinnustarfsemi sinnar. Eiga þessi sjónarmið alveg sérstaklega við í neytendakaupum. Fjárhagslegir hagsmunir af efndum njóta í sjálfu sér engrar sérstöðu, en geta án efa í sumum tilvikum haft mikla þýðingu. Niðurstaðan ræðst af sameiginlegu mati á hinum ólíku hagsmunum.
    Samkvæmt 2. mgr. getur lausn undan efndum aðeins átt við meðan afsökunarástæðan er fyrir hendi. Það er jafnframt skilyrði að hún falli brott innan hæfilegs tíma. Þegar langur tími er liðinn er lítil ástæða til þess að seljandinn sé áfram skyldur til efnda. Við mat á því hvað teljist hæfilegur tími skiptir bæði máli hvers eðlis greiðslan er og hagsmunir kaupanda af efndum seljanda. Upphaf frestsins hlýtur að miðast við umsaminn afhendingartíma. Það sem telst „hæfilegur tími“ í þessu samhengi getur bæði verið lengra og styttra en það sem leiðir af samsvarandi orðalagi í reglunum um tilkynningarskyldu, sbr. 1. mgr. 32. gr.
    Samkvæmt 2. mgr. verður efnda heldur ekki krafist ef þær væru, með hliðsjón af þeim tíma sem liðinn er, til muna örðugri eða annars eðlis en seljandinn gat vænst. Sama gildir ef það væri að öðru leyti ósanngjarnt að krefjast efnda af hálfu seljanda. Meginmáli skiptir skv. 2. mgr. að þau atvik, sem leyst hafa undan efndaskyldu skv. 1. mgr., séu fallin brott. Seljandinn er þá skyldur til efnda nema óhæfilega langur tími hafi liðið. Við mat á því hvað sé hæfilegur tími í þessu sambandi verður eins og áður segir að líta til efnis samnings og hagsmuna kaupanda af efndum. Þótt tímalengdin sé innan þeirra marka, sem telja má hæfileg, geta eigi að síður hafa komið til ný atvik sem valda því að ósanngjarnt er að krefjast efnda af seljanda. Sem dæmi má nefna það tilvik þegar bruni veldur framleiðslustöðvun og þar með efndahindrun af hálfu seljanda. Seljandi hefur síðan aftur framleiðslu með nýjum vélum, en þær geta ekki tryggt að framleiðslan hafi þá eiginleika sem gert var ráð fyrir í samningi. Framleiðsla fyrir kaupandann getur af þessari ástæðu einungis farið fram með auknum mannafla og á sérstaklega kostnaðarsaman hátt að öðru leyti. Þótt skilyrðum skv. 1. mgr. sé í sjálfu sér ekki fullnægt getur í tilviki sem þessu verið ástæða til þess að leysa seljandann undan efndaskyldunni. Þetta kemur ekki í veg fyrir að kaupandinn geti neytt annarra úrræða sem til boða standa, t.d. þess úrræðis að halda eftir greiðslu kaupverðsins. Skaðabóta getur kaupandi á hinn bóginn ekki krafist ef hindrunin er þess eðlis sem um ræðir í 1. mgr. 27. gr.
    Í 3. mgr. er að finna tómlætisreglu. Ef kaupandinn dregur óeðlilega lengi að setja fram kröfu um efndir glatar hann þeim rétti sínum. Það hve lengi kaupandi getur dregið að setja fram kröfu veltur á atvikum hverju sinni, t.d. eðli kaupa og framferði seljanda eftir að greiðsludráttur varð. Yfirleitt má þó segja að frestur til að krefjast efnda sé lengri en frestur til þess að rifta kaupum eða krefjast skaðabóta eftir afhendingu.

Um 24. gr.


    Ákvæðið fjallar um fyrirspurnir og tilkynningar seljanda til kaupanda og svarar til 2. mgr. 48. gr. SÞ-samningsins.
    Samkvæmt 26. gr. gildandi kaupalaga glatar kaupandinn réttinum til þess að halda fast við kaupin ef hann svarar ekki án ástæðulausrar tafar fyrirspurn um þetta efni frá seljanda. Í 24. gr. frumvarpsins er þessu snúið við. Í því felst að kaupandinn glatar réttinum til þess að rifta kaupum ef hann svarar ekki innan hæfilegs tíma fyrirspurn seljanda um það hvort kaupandinn muni veita hlut viðtöku. Sama gildir ef seljandi tilkynnir að hann vilji afhenda hið selda innan tiltekins tíma og kaupandi svarar ekki innan hæfilegs tíma.
    Gerðar eru ákveðnar kröfur um skýrleika fyrirspurnar eða tilkynningar seljanda, því að skilyrði er að seljandinn hafi í báðum tilvikum tilgreint ákveðinn tíma til efnda. Þar að auki er það skilyrði að efndir hafi í raun orðið á þeim tíma sem nefndur var. Ef tilgreining seljanda á tíma er ónákvæm eiga við ákvæði 3. mgr. 23. gr. og 29. gr. Óljósar yfirlýsingar seljanda um erfiðleika við efndir fullnægja ekki skilyrðum greinarinnar og kalla því ekki á viðbrögð af hálfu kaupanda samkvæmt þessari grein.
    Hvað telst „hæfilegur tími“ hjá kaupanda í þessum efnum ræðst af mati á atvikum og aðstæðum í hverju tilviki, en yfirleitt verður að krefjast skjótra viðbragða af hans hálfu. Gera má strangari kröfur til atvinnurekenda í þessu sambandi en gerðar eru til neytenda, en þegar kaupandinn hefur fengið slíka tilkynningu er ekki ástæða til þess að veita honum mjög langan umhugsunarfrest til þess að svara.
    Réttur kaupanda til þess að krefjast riftunar fellur ekki alltaf niður þótt hann svari of seint. Hafi seljandinn t.d. tiltekið afhendingartíma er riftun samt sem áður hugsanleg ef afhending verður ekki á þeim nýja tíma sem seljandinn hefur tiltekið og sá dráttur er verulegur, sbr. 1. mgr. 25. gr. Einnig má vera að loks þegar seljandinn afhendir hlutinn komi í ljós að á honum sé verulegur galli sem réttlæti riftun.
    Ef fyrirspurn seljanda fullnægir ekki kröfum 24. gr. eiga við eins og áður segir ákvæði 3. mgr. 23. og 29. gr. Kaupandinn heldur þá rétti sínum til þess að krefjast efnda in natura meðan frestur skv. 3. mgr. 23. gr. er ekki útrunninn og riftunarfresturinn skv. 29. gr. hefst ekki fyrr en hluturinn er afhentur. Af orðum 24. gr. leiðir að seljandi ber áhættuna af því að tilkynning samkvæmt greininni komist til kaupanda og af ákvæðum 82. gr. leiðir að seljandinn ber áhættuna af því að svar kaupanda komist til skila.
    Því sjónarmiði hefur verið hreyft að regla 24. gr. frumvarpsins geti verið óþarflega ströng í garð kaupanda í neytendakaupum þar sem reglur af þessu tagi séu yfirleitt lítt þekktar og geti því hæglega leitt til réttindamissis fyrir kaupanda. Þetta má að einhverju leyti til sanns vegar færa en til hins er að líta að í 24. gr. er getið um svo sérstakt tilvik að ekki er ósanngjarnt að leggja svarsskyldu á kaupandann. Í því sambandi skiptir mestu máli að greiðsludráttur hefur orðið af hálfu seljanda. Kaupandinn hefur þegar svo hagar til yfirleitt mesta hagsmuni af því að fá söluhlut afhentan, en hann fær vegna fyrirspurnar eða tilkynningar seljanda tækifæri til þess að skýra frá því hvort hann óski einhvers annars. Þá er og vert að leggja á það áherslu sem áður segir að frestur kaupanda til að svara byrjar að líða þegar hann hefur fengið tilkynninguna, þ.e. áhættan af því að tilkynningin komist ekki til skila er hjá seljandanum, sbr. 82. gr. Með þessi sjónarmið í huga er ekki unnt að fallast á þau rök að hér sé um óþarflega stranga reglu að ræða.
     Í 25. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir rétti til þess að setja viðbótarfrest og þar eru einnig tilgreind þau réttaráhrif sem slíkur frestur hefur. Reglunni í 24. gr. er einnig unnt að beita þegar kaupandinn hefur sett viðbótarfrest og seljandinn svarar því til að hann geti ekki afhent það sem um var samið fyrr en viðbótarfresturinn er liðinn. Er eðlilegt að líta svo á að kaupandinn verði einnig að svara fyrirspurn seljanda undir slíkum kringumstæðum, t.d. með því að kaupandinn hald fast við upphaflegan viðbótarfrest.

Um 25. gr.


    Í 25. gr. er mælt fyrir um rétt kaupanda til riftunar vegna greiðsludráttar seljanda og svarar ákvæðið til 1. mgr. 49. gr. SÞ-samningsins, sbr. og 47. gr. hans. Að því er aðrar riftunarreglur frumvarpsins varðar skal þess getið að í 26. gr. felst sérregla um riftun, sem varðar greiðsludrátt við pöntunarkaup, og í 29. gr. er fólgin regla um riftunarfrest. Ákvæði 39. gr. felur í sér reglu um rétt til riftunar vegna galla á söluhlut og í 54.–55. gr. felst regla um rétt seljanda til að riftunar. Loks eru í 44. gr. og 62. gr. ákvæði um rétt til að rifta kaupum við fyrirsjáanlegar vanefndir þegar afhenda á hið selda í áföngum. Um afleiðingar riftunar og missi riftunarréttar gilda 64.–66. gr. frumvarpsins.
    Í gildandi kaupalögum er mælt fyrir um rétt kaupanda til riftunar vegna greiðsludráttar af hálfu seljanda í 21. gr. laganna. Samkvæmt því ákvæði getur kaupandinn ekki rift kaupum ef drátturinn hefur haft lítil áhrif eða óveruleg á hagsmuni kaupanda eða seljandi hlaut að álíta að svo væri nema hann hafi áskilið að hluturinn yrði afhentur sér á nákvæmlega tilteknum tíma. Í verslunarkaupum er sérhver dráttur metinn verulegur nema það sé aðeins lítill hluti hins selda sem afhending hefur dregist á. Með ákvæðum 25. gr. frumvarps þessa er stefnt að einföldun framangreindra reglna gildandi réttar um skilyrði riftunar vegna greiðsludráttar, m.a. á þann hátt að ekki er mælt fyrir um neina sérreglu sem gilda skuli í þeim efnum í verslunarkaupum.
    Þegar um er að ræða kaup þar sem krafist er afhendingar á nákvæmlega tilgreindum tíma stendur frumvarpsgreinin ekki í vegi fyrir því, þrátt fyrir orðalag um að unnt sé að rifta kaupum ef efndir fara ekki fram á þeim tíma. Hafi kaupandinn krafist afhendingar á nákvæmlega tilgreindum tíma og áskilið sér rétt til riftunar ef því skilyrði er ekki fullnægt hefur allur dráttur, sem ekki verður rakinn til kaupanda samkvæmt þessu, þau áhrif að kaupandi getur rift kaupum. Sama gildir þegar leiða má af samningi að sérhver dráttur geti haft veruleg áhrif á hagsmuni kaupandans þótt þetta sé ekki sérstaklega tekið fram. Hafi kaupandinn þannig áskilið að afhending skuli fara fram á nákvæmlega tilgreindum tíma, en án þess að gera fyrirvara um rétt til riftunar, leiðir það af skilyrðinu um verulegar vanefndir að kaupandinn getur rift kaupum, jafnvel þótt greiðsludrátturinn sé skammur ef skilyrðið hefur verið sett með hagsmuni og þarfir kaupandans í huga. Þetta getur t.d. átt við ef kaupandinn ætlar að nota söluhlut til efnda á samningi við áframhaldandi sölu og einnig í neytendakaupum þegar kaupandi ætlar að nota hlutinn til sérstakra þarfa sinna.
    Riftun verður að fara fram með sérstakri yfirlýsingu til seljandans, sbr. einnig 26. gr. SÞ- samningsins. Fyrir fram yfirlýsing eða aðvörun nægir ekki í þessu sambandi og ekki heldur fyrirspurn sem er hlutlaus að þessu leyti. Yfirlýsing af þessu tagi er send á áhættu viðtakanda samkvæmt aðalreglunni í 82. gr. frumvarpsins. Hins vegar tekur hún ekki gildi gagnvart seljandanum fyrr en hún er komin til hans. Þetta þýðir að yfirlýsingin er ekki bindandi fyrir kaupandann fyrr en hún er komin til seljandans. Eftir það verður hún hins vegar ekki einhliða afturkölluð.
    Meginregluna um riftunarrétt kaupanda er að finna í 1. mgr. 25. gr. frumvarpsins. Þar kemur fram það skilyrði að greiðsludráttur hafi í för með sér verulegar vanefndir. Mat á því hvað séu verulegar vanefndir veltur í fyrsta lagi á samningi aðila og atvikum við kaup. Þýðing greiðsludráttar fyrir viðkomandi kaupanda er einnig mikilvægt atriði, sbr. og það sem áður segir þegar kaupandi áskilur sér efndir á nákvæmlega tilsettum tíma. Það er með öðrum orðum ekki huglæg afstaða kaupanda sem þýðingu hefur við matið heldur umfram allt það atriði hvort greiðsludrátturinn hefur í raun og veru haft veruleg áhrif á hagsmuni kaupandans. Einnig skiptir máli hvort seljandinn sá eða mátti sjá að greiðsludráttur mundi hafa veruleg áhrif á hagsmuni kaupanda. Ef riftun kemur mjög illa við seljanda, t.d. vegna óvæntra verðsveiflna, getur verið ástæða til þess að herða á skilyrðinu um verulegar vanefndir. Á þetta sérstaklega við ef riftunarrétturinn veitir kaupandanum í raun færi á spákaupmennsku eða til þess að beita seljanda þvingunum. Þá getur það og skipt máli í þessu sambandi hvort hagsmunum kaupanda teldist nægilega borgið með greiðslu skaðabóta vegna greiðsludráttarins án þess að jafnframt sé um riftun að ræða.
    Það er ekki skilyrði riftunar að um sök seljanda sé að ræða. Sök getur á hinn bóginn haft vissa þýðingu við mat á því hvort vanefndir teljist verulegar.
    Í 94. gr. frumvarpsins er sérregla um hvað nánar felst í skilyrðinu um verulegar vanefndir í alþjóðlegum kaupum. Það ákvæði getur einnig skipt máli við túlkun á 1. mgr. 25. gr. og vísast því til skýringa á 94. gr.
    Sérstök álitaefni koma upp þegar til viðbótar greiðsludrætti kemur í ljós að söluhlutur er gallaður. Er í slíku tilviki sanngjarnt við mat á skilyrðum fyrir riftun að líta til þeirra heildaráhrifa sem vanefndirnar hafa sameiginlega haft.
    Ákvæði 2. mgr. 25. gr. veitir heimild til þess að rifta kaupum að liðnum sanngjörnum viðbótarfresti þegar svo stendur á að afhending hefur ekki farið fram í samræmi við efni samnings. Ákvæðið veitir heimild til riftunar þegar sanngjarn viðbótarfrestur er liðinn ef greiðsla fer ekki fram innan þess tíma. Þegar svo stendur á, þ.e. hlutur er ekki afhentur áður en viðbótarfrestur er liðinn, getur kaupandinn rift kaupum strax, jafnvel þótt ekki sé liðinn svo langur tími að vanefndin teldist ella veruleg. Að öðru leyti hefur ákvæðið um viðbótarfrestinn þann tilgang að leggja áherslu á hagsmuni kaupanda af skjótri afhendingu og að skilgreina tímamark riftunar.
    Það er skilyrði riftunar hér að viðbótarfresturinn sé sanngjarn. Hvað telst sanngjarnt í þessum efnum verður eins og endranær að meta út frá aðstæðum hverju sinni, m.a. með hliðsjón af eðli hlutar, hvort um verslunarkaup eða almenn kaup er að ræða og með hliðsjón af hagsmunum kaupanda af því að fá hlutinn afhentan. Liggur áherslan á því hvað telja má viðunandi greiðsludrátt metið út frá hagsmunum kaupanda. Í ákvæðinu felst að það ræður ekki úrslitum hvort um verulegan greiðsludrátt er að ræða. Ákvæðið tekur mið af því að aðilar kaupsamnings sýni hvor öðrum sanngjarnt tillit. Því á ekki að vera unnt að misnota ákvæðið með því að áskilja sér riftunarrétt vegna óverulegrar seinkunar.
    Þá kröfu verður að gera að viðbótarfrestur sé afmarkaður með tiltölulega skýrum og ótvíræðum hætti. Sveigjanleg tilgreining hans getur þó fullnægt skilyrðum ákvæðisins ef ljóst er að um tiltölulega stuttan og afmarkaðan tíma er að ræða. Þó væri hvatning til seljanda um að efna sinn hlut „fljótlega“ of óljós til þess að geta haft þýðingu í sambandi við riftunarrétt skv. 2. mgr.
    Ætla má að höfð verði hliðsjón af afhendingartímanum þegar viðbótarfrestur er settur. Ef það er á hinn bóginn fyrir fram alveg ljóst að greiðsludráttur verði er í sjálfu sér ekkert í vegi fyrir því að kaupandinn geti þegar á því tímamarki sett frest skv. 2. mgr.
    Í 3. mgr. kemur fram að kaupandinn getur ekki rift kaupum meðan viðbótarfresturinn er að líða. Ef kaupandinn hefur sett frest sem nær yfir lengri tíma en þann sem teljast mundi ástæða verulegrar vanefndar er hann að sjálfsögðu bundinn af því. En lýsi seljandinn því yfir að hann muni ekki efna sinn hlut áður en fresturinn er liðinn getur kaupandinn rift kaupunum. Ef seljandinn lýsir því yfir að hann muni ekki afhenda það sem honum ber áður en fresturinn er útrunninn geta ástæður þess verið þær að hann telji frestinn of skamman. Einnig er hugsanlegt að hann leggi til lengri frest. Í þeim tilvikum getur reynt á ákvæði 24. gr.
    Regla 3. mgr. á einungis við um rétt til riftunar vegna greiðsludráttar. Ef kaupandinn hefur rétt til riftunar af öðrum ástæðum getur hann notað sér það, jafnvel þótt umræddur viðbótarfrestur sé ekki liðinn.

Um 26. gr.


    Ákvæði þetta á sér hvorki hliðstæðu í gildandi kaupalögum né í SÞ-samningnum og gildir því ekki í alþjóðlegum kaupum eins og reyndar er sérstaklega tekið fram í niðurlagi þess. Í alþjóðlegum kaupum gilda hins vegar venjuleg riftunarskilyrði, sbr. 25. gr. frumvarpsins.
    Reglur þær, sem fram koma í ákvæðinu, styðjast við þau rök að sérsjónarmiða hljóti ávallt að gæta eðli málsins samkvæmt varðandi heimild til riftunar í pöntunarkaupum, þannig að riftunarrétturinn verði þar þrengri en ella mundi vera samkvæmt almennum reglum. Augljóst er að riftun af hálfu kaupanda getur í pöntunarkaupum komið mjög illa við seljandann því að hann á það á hættu að sitja uppi með hlut sem enginn annar getur notað. Á hinn bóginn er ekki ástæða til þess að þrengja riftunarréttinn í slíkum kaupum umfram það sem leiðir af framangreindu sjónarmiði. Kemur því fram í ákvæðinu það viðbótarskilyrði að seljandinn geti ekki „af þeim sökum“, þ.e. vegna þess að um pöntunarkaup er að ræða, ráðstafað hlutnum á annan hátt án verulegs tjóns. Af orðalaginu leiðir að það er eðli pöntunarkaupanna sem veldur því að hlutnum verður ekki ráðstafað á annan hátt.
    Ákvæðið á því aðeins við að kaup varði hlut sem er útbúinn sérstaklega fyrir kaupanda miðað við fyrirmæli hans eða óskir. Af þessu er ljóst að ákvæðið getur ekki átt við í öllum tilvikum sem teljast til pöntunarkaupa. Um pöntunarkaup er t.d. að ræða þegar kaupandi pantar nokkra stóla frá húsgagnaframleiðanda ef það er forsendan að verksmiðjan framleiði stólana eftir að kaup voru gerð. Ef um er að ræða stóla af tiltekinni gerð, sem verksmiðjan framleiðir einnig í öðrum tilvikum, er ekki unnt að beita 26. gr. án þess að fleira komi til. Ef þeir eru hins vegar sérstaklega framleiddir fyrir tiltekinn kaupanda miðað við fyrirmæli hans og óskir á greinin við.
    Það getur einnig verið álitamál hvenær 26. gr. á við þegar kaupandinn getur valið á milli ýmissa staðalstærða eða gerða af hlutum. Dæmi um þetta er t.d. matarkaup á veitingahúsi þar sem kaupandinn getur valið af matseðli. Hér verður að meta það, m.a. með hliðsjón af valmöguleikum kaupandans, hvort ákvæði 26. gr. eigi við. En þar fyrir utan kemur síðara skilyrði 26. gr. einnig mjög til athugunar, þ.e. hvort seljandi geti ráðstafað hlutnum á annan hátt án verulegs tjóns.
    Ákvæðið gildir aðeins ef seljandi getur ekki ráðstafað hlutnum á annan hátt án verulegs tjóns. Erfiðleika seljanda við að ráðstafa hlutnum ber því að meta með hliðsjón af því að hann var útbúinn fyrir kaupanda sérstaklega samkvæmt fyrirmælum hans og óskum. Möguleikar seljanda að ráðstafa hlutnum eru að mörgu leyti undir því komnir að hve miklu leyti hann er útbúinn sérstaklega fyrir kaupandann, svo sem áður sagði. Tegund hlutarins og umsvif viðskipta á markaðnum með slíka hluti skipta einnig máli. Sem dæmi um þetta má nefna að hafi gestur á veitingahúsi pantað nautasteik en vilji hana síðan ekki af því að það tekur of langan tíma að framreiða hana má vera að hægt sé að bjóða steikina einhverjum öðrum, en sá möguleiki er að sjálfsögðu að verulegu leyti háður því hversu margir aðrir gestir eru á staðnum sem ekki hafa fengið afgreiðslu. Einnig má nefna kaup á gleraugum. Lítill vandi er að setja annað gler í umgjörð en aftur á móti er glerið sjálft mjög oft sérstaklega hannað fyrir kaupandann. Af þeim sökum hefur seljandinn aðeins mjög takmarkaða möguleika á að ráðstafa því.
    Annað sérstakt skilyrði riftunar af hálfu kaupanda í pöntunarkaupum er að tilgangur hans með kaupunum raskist verulega vegna greiðsludráttarins. Það nægir því ekki að greiðsludráttur sé verulegur eða valdi kostnaði og óþægindum ef því skilyrði er engu síður ekki fullnægt að tilgangur kaupanna haldist að öðru leyti .
    Ákvæði greinarinnar eiga þá fyrst við þegar gerð hlutar hefur hafist að marki eða seljandinn hefur gert svipaðar ráðstafanir til undirbúnings efndum. Ef seljandinn hefur á hinn bóginn hvorki lagt í umtalsverða vinnu né kostnað, sem ónýtist við riftun, er ekki ástæða til þess að takmarka riftunarrétt kaupanda. Þótt ekki leiði þetta beinlínis af orðalaginu er til þessara atriða að líta við beitingu ákvæðisins.

Um 27. gr.


    Frumvarpsgreinin á sér fyrirmynd í 79. gr. SÞ-samningsins. Í henni er aðeins fjallað um skilyrði fyrir skaðabótum, en um ákvörðun bótafjárhæðar er fjallað í 67.–70. gr. frumvarpsins. Í gildandi lögum er fjallað um skaðabótaskyldu seljanda vegna greiðsludráttar í 23. og 24. gr.
    Með greiðsludrætti í frumvarpinu er átt við það þegar söluhlutur er ekki afhentur eða hann er afhentur of seint, sbr. 22. gr. Ákvæði frumvarpsgreinarinnar gilda einnig þegar greiðsludráttur verður að hluta til, þ.e. þegar einungis hluti greiðslunnar er afhentur. Um ábyrgð seljanda á göllum er fjallað í 40. gr. og um ábyrgð á vanheimild í 41. gr. Um ábyrgð kaupanda vegna greiðsludráttar af hans hálfu er fjallað í 57. gr. frumvarpsins.
    Í gildandi rétti er bótaábyrgð seljanda vegna afhendingardráttar og galla mismunandi eftir því hvort um er að ræða tegundarkaup eða einstaklega ákveðin kaup. Í tegundarkaupum er aðalreglan sú að seljandi ber hlutlæga ábyrgð, en frá því eru þó undantekningar ef afhendingardrátt eða galla má rekja til nánar tilgreindra hindrana, sem standa í vegi fyrir efndum, sbr. 24. gr. og 3. mgr. 43. gr. gildandi laga. Hindrun verður að vera með þeim hætti að efndir séu útilokaðar og hún verður að auki að vera almenn, en í því felst að hindrun, sem snertir einungis hagsmuni viðkomandi seljanda en ekki annarra, nægir ekki til að leysa undan ábyrgð. Loks verða aðstæður að vera þannig að seljandi hafi ekki haft ástæðu til að hafa hindrunina í huga þegar kaup voru gerð.
    Í einstaklega ákveðnum kaupum ber seljandi samkvæmt gildandi rétti ábyrgð á afhendingardrætti nema því aðeins að „drátturinn var ekki honum að kenna“. Seljandinn ber með öðrum orðum sakarábyrgð með öfugri sönnunarbyrði og unnt er samkvæmt reglunni að gera hann ábyrgan vegna gáleysis starfsmanna sinna og annarra sem hann hefur falið að efna kaup fyrir sína hönd. Þá getur seljandi einnig orðið ábyrgur ef hann sýnir af sér gáleysi við samningsgerð. Loks er ábyrgð lögð á seljanda á grundvelli ábyrgðaryfirlýsingar, auk þess sem hann ber ábyrgð á því að fjárskortur hindri ekki efndir.
    Þegar einstaklega ákveðinn hlutur er gallaður ber seljandi bótaábyrgð ef gallann má rekja til vanrækslu eða svika af hans hálfu, sbr. 2. mgr. 42. gr. gildandi laga. Þar að auki ber seljandi ábyrgð án sakar ef söluhlutur hefur ekki þá eiginleika til að bera sem seljandi hefur ábyrgst sérstaklega. Seljandi ber hér einnig ábyrgð á þeim mönnum sem hann hefur falið að annast samninga fyrir sína hönd. Skv. 30. gr. gildandi laga ber kaupandi hlutlæga ábyrgð vegna dráttar á greiðslu kaupverðs, en sú ábyrgð takmarkast með þeim hætti sem greinir í 24. gr. laganna.
    Reglur frumvarps þessa um bótaábyrgð seljanda vegna greiðsludráttar og galla fela í sér talsverða breytingu miðað við gildandi rétt. Samkvæmt þeim er meginreglan sú að seljandinn ber svokallaða stjórnunarábyrgð („kontrollansvar“ á Norðurlandamálum) í báðum tilvikum og er það í samræmi við reglur SÞ-samningsins. Ekki er þó eingöngu byggt á slíkri ábyrgð að því er galla varðar, sbr. 3. mgr. 40. gr. frumvarpsins.
    Ekki er farin sú leið í frumvarpinu að byggja á mismunandi bótaábyrgð eftir því hvers eðlis tjónið er. Í því felst að stjórnunarábyrgðin gildir bæði fyrir seljanda og kaupanda og um allar tegundir vanefnda. Óbeint tjón bætist þó því aðeins að vanefndir sé að rekja til mistaka eða vanrækslu. Þegar um galla er að ræða er áfram byggt á ábyrgð vegna þeirra eiginleika hlutar sem seljandi hefur heitið sérstaklega.
    Í stjórnunarábyrgðinni felst að samningsaðili ber ábyrgð á efndum kaupsamningsins nema því aðeins að einhver sú hindrun standi í vegi fyrir efndum, sem hann getur ekki sigrast á og verður þessum hindrunum nánar lýst síðar. Ábyrgðarreglan hefur einkenni vísireglu og geta áhrif hennar samkvæmt því verið mismunandi eftir því í hvers konar samböndum henni er beitt og þar hefur eðli kaupa ekki hvað síst þýðingu. Samkvæmt því má segja að ábyrgð seljanda sé strangari eftir því sem tegundareinkenni skyldunnar eru meiri og möguleikinn og þörfin á staðgönguráðstöfunum er meiri. Þetta þýðir að þegar um er að ræða vörur sem ákveðnar eru eftir tegund og þær eru almennt til á þeim markaði, sem um ræðir, er yfirleitt um bótaábyrgð seljanda að ræða. Þá er og ástæða til að benda skýrt á að sé hindrun fyrir hendi leysir hún ekki undan bótaábyrgð í lengri tíma en hún varir, sbr. 3. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 40. gr. frumvarpsins.
    Munurinn á reglum frumvarpsins og gildandi lögum er helstur sá að reglur þess eru fyllri og ábyrgðin er heldur mildari í samanburði við tegundarkaup samkvæmt gildandi lögum. Það birtist í því að þess er ekki fortakslaust krafist að ómöguleikinn sé algerlega hlutlægur og þær tegundir hindrana, sem leyst geta undan ábyrgð, eru ekki takmarkaðar á sama hátt og í gildandi lögum. Í einstaklega ákveðnum kaupum leiðir stjórnunarábyrgðarreglan til heldur strangari ábyrgðar en samkvæmt gildandi rétti, m.a. vegna þess að ekki er krafist sakar hjá seljanda. En þar sem inntak stjórnunarábyrgðar er mismunandi eftir eðli kaupa verður munurinn í framkvæmd þó ekki ýkja mikill í dæmigerðum einstaklega ákveðnum kaupum. Stjórnunarábyrgðarreglan nær til allra þeirra tilvika sem nú falla undir 23. gr. gildandi laga.
    Í 1. málsl. 1. mgr. greinarinnar kemur fram meginreglan um skaðabótaábyrgð seljanda gagnvart kaupanda vegna greiðsludráttar og er þar um hlutlæga reglu að ræða . Þar kemur fram að kaupandi getur krafist skaðabóta vegna þess tjóns sem hann bíður vegna greiðsludráttar. Þetta gildir þó ekki skv. 2. málsl. ef seljandi sýnir fram á að greiðsludrátturinn hafi orðið vegna hindrunar sem hann fékk ekki ráðið við og ekki er með sanngirni unnt að ætlast til að hann hefði hindrunina í huga við samningsgerð, eða hefði getað komist hjá eða sigrast á afleiðingum hennar. Það er með öðrum orðum meginsjónarmiðið að kaupandinn eigi rétt til skaðabóta vegna þess tjóns, sem greiðsludráttur veldur honum, sbr. ákvæði 1. málsl. ákvæðisins, en hann getur á hinn bóginn losnað undan bótaskyldu á grundvelli þeirra skilyrða sem fram koma í 2. málsl. 1. mgr.
    Til þess að seljandinn losni undan skaðabótaábyrgð skv. 1. málsl. 1. mgr. þarf fjórum mismunandi skilyrðum, sem fram koma í 2. málsl. ákvæðisins, að vera fullnægt. Í fyrsta lagi þarf að vera fyrir hendi hindrun sem veldur afhendingardrætti og stendur í vegi fyrir umsömdum efndum. Í öðru lagi þarf hindrunin að vera þess eðlis að seljandinn fái ekki við hana ráðið, þ.e. hún sé honum ofviða. Í þriðja lagi þarf hindrunin að vera þess eðlis að ekki sé með sanngirni unnt að ætlast til þess að seljandinn hafi haft hana í huga við samningsgerðina. Í fjórða lagi er það skilyrði að ekki sé með sanngirni unnt að ætlast til þess að seljandinn geti komist hjá eða sigrast á afleiðingum hindrunarinnar. Verður nú gerð grein fyrir hinum einstöku skilyrðum.
     Fyrsta skilyrði þess að um ábyrgðarleysi geti verið að ræða skv. 2. málsl. 1. mgr. er það að til staðar sé hindrun sem veldur afhendingardrætti og stendur í vegi fyrir efndum. Eins og áður er rakið er það ekki skilyrði að um sé að ræða hlutlægan ómöguleika í þeim skilningi að afhending á réttum tíma sé útilokuð fyrir hvaða seljanda sem er. Þótt orðalagið „vegna hindrunar“ geti bent til þess að það eigi í raun og veru að vera ómögulegt fyrir seljandann að efna samninginn er ekki að öllu leyti unnt að gera svo strangar kröfur. Atvik geta verið til staðar sem ekki gera efndir algjörlega ómögulegar en gera þær eigi að síður svo einstaklega torveldar að atvikin á grundvelli hlutlægs mats koma í veg fyrir efndir.
    Sem dæmi um atvik sem geta hindrað efndir má nefna stríð, náttúruhamfarir, alvarlegan bruna eða sprengingar, sem hafa áhrif á starfsemi seljandans, verkföll, útflutnings- og innflutningsbönn eða önnur stjórnvaldsboð. Atvik, sem eru einvörðungu fjárhagslegs eðlis, geta í sjálfu sér einnig hindrað efndir, t.d. óvenjulegar útgjaldahækkanir eða verðhækkanir. Hins vegar er það ekki nóg að samningurinn standist ekki samkvæmt þeim fjárhagsáætlunum, sem seljandi hefur gert, eða að það sé verulega miklu dýrara fyrir seljanda að efna samninginn en gera mátti ráð fyrir. Ef selt er á föstu verði verður seljandinn venjulega sjálfur að bera afleiðingarnar af óvæntri verð- eða útgjaldaþróun. Ef efndir hafa í för með sér óþægindi eða kostnað sem ekki er í sanngjörnu hlutfalli við hagsmuni kaupanda af efndum getur seljandinn eftir atvikum komist hjá afhendingarskyldu samkvæmt ákvæðum 23. gr. Hins vegar er ekki um að ræða hindrun í skilningi 27. gr. í því tilviki. Hún getur því aðeins átt við að kostnaðaraukinn sé slíkur að efndir samningsins valdi seljandanum byrði sem hlutlægt séð liggur utan við forsendur þess kaupsamnings sem um er að tefla. Ávallt er skilyrði að hindrun valdi því í raun og veru að seljandinn geti ekki efnt kaupin. Skilyrðið verður einnig að skoða í samhengi við þann áskilnað að ekki sé með sanngirni hægt að ætlast til þess að seljandinn geti komist hjá eða sigrast á afleiðingum hindrunarinnar.
    Ákvæði 36. gr. samningalaganna veita heimild til þess víkja samningi til hliðar í heild eða að hluta þegar ósanngjarnt er að bera hann fyrir sig. Heimilt er samkvæmt ákvæðinu að taka tillit til atvika sem urðu eftir samningsgerðina. Ákvæðið er til viðbótar reglum frumvarpsins um lausn undan skaðabótaskyldu.
    Að hvaða marki unnt er að segja að atvik hindri efndir á réttum tíma mun í mörgum tilvikum fara eftir því hvenær atvikið ber að höndum. Þótt um sé að ræða gjaldgengan einstaklega ákveðinn hlut, sem auðveldlega verður bættur með öðrum, getur tilviljunarkennt tjón, sem verður í flutningi til afhendingarstaðar, gert það ókleift fyrir seljanda að afhenda hann á réttum tíma. Hafi tjón orðið meðan hlutur var enn á lager seljanda er á hinn bóginn ekki um neina hindrun að ræða ef seljandinn getur afhent annan hlut af sama lager.
    Við mat á því hvað telst hindrun skiptir efni samningsins ekki síst máli og þá umfram allt eðli þeirrar greiðslu sem seljandinn á að láta í té samkvæmt samningnum. Að þessu verður nánar vikið síðar því að eðli kaupanna hefur einnig þýðingu varðandi skilyrði annarra ábyrgðarleysisástæðna.
     Annað skilyrði þess að um ábyrgðarleysi skv. 2. málsl. 1. mgr. 27. gr. frumvarpsins geti verið að ræða snýst um það að hindrun sé þess eðlis að seljandinn fái ekki við hana ráðið, þ.e. hún sé honum ofviða. Seljandinn er ávallt ábyrgur vegna atvika og aðstæðna er falla innan þeirra marka sem hann fær ráðið við, og skiptir þá ekki máli hvort um sök er að ræða af hans hálfu eða ekki. Hér verður því ekki um neitt gáleysismat að ræða. Það nægir að vanefndir megi rekja til atvika sem rúmast innan þeirra marka sem seljandinn fær ráðið við.
    Dæmigerð tilvik, sem það á við um, eru öll atvik sem rekja má til seljandans sjálfs, starfsmanna hans eða manna sem hann samkvæmt almennum reglum ber ábyrgð á. Er þá ekki átt við afhendingaraðila, sbr. um það efni ákvæði 2. mgr. 27. gr. Öll atvik, sem gerast í fyrirtæki seljanda, má því að jafnaði rekja til þess sem hann getur haft stjórn á samkvæmt framansögðu. Þó mundu verkföll til þess að knýja fram almennar launahækkanir í viðkomandi starfsgrein falla utan þess sem seljandinn fær ráðið við í skilningi ákvæðisins. Annað mundi þó að öllum líkindum gilda um ólögmætt verkfall í fyrirtæki seljanda, en við það yrði seljandinn talinn fá ráðið í þessum skilningi.
    Atvik, sem beint eða óbeint eru komin undir eigin aðgerðum eða ráðstöfunum seljanda, er hann einnig talinn fá ráðið við í þessu sambandi. Þetta á við um allt sem unnt er að hafa stjórn á eða hafa áhrif á með skipulagningu, stjórnun eða eftirliti í því fyrirtæki sem um er að tefla. Því verður seljandi alltaf ábyrgur ef ástæður atvikanna má rekja til þess hvernig fyrirtæki hans er stjórnað. Hér getur t.d. verið um að tefla ranga útreikninga á framleiðslugetu fyrirtækis eða tæknileg vandamál við framleiðsluvélar fyrirtækisins o.fl. Einnig mundu hér undir falla hrein óhappatilvik, t.d. þegar vélar gefa sig eða þegar bruni verður, nema unnt sé að segja að seljandinn hafi alls ekki getað haft stjórn á þessu. Ef bruna má rekja til skammhlaups í rafleiðslum er í eðli sínu um að ræða atvik sem seljandi gat haft stjórn á. Hins vegar er seljandi ekki talinn fá ráðið við atvik í skilningi ákvæðisins ef brennuvargur á leið um hverfi hans kveikir í fyrirtækinu.
    Svipuð sjónarmið leiða til þess að seljandi ber ábyrgð á því hvernig hann útvegar hráefni og annað sem á þarf að halda til að efna kaupin. Bregðist samningur um kaup á hráefni ber seljandinn ábyrgð á því ef vanefndina má rekja til þess að hann var að öllu leyti háður einum tilteknum birgi um afhendinguna. Sama gildir þegar í ljós kemur að vörur sem seljandi hefur pantað frá fyrri söluaðila nægja ekki til þess að fullnægja afhendingarskyldu samkvæmt samningum sem seljandinn hefur gert. Seljandinn er venjulega ekki heldur laus úr ábyrgð þótt þeir sem hann notar til að sjá um þjónustu og viðgerðir í fyrirtæki hans bregðist honum og vanefnd gagnvart kaupanda má rekja til þess.
    Fjárhagsstaða seljanda sjálfs er einnig meðal þess sem hann fær ráðið við í skilningi ákvæðsins. Greiðsluþrot eða annar brestur í greiðslugetu seljanda leysir hann ekki úr ábyrgð. Ef seljandi getur t.d. vegna bágs fjárhags ekki staðgreitt vörur og honum er neitað um lánafyrirgreiðslu hjá þeim sem hann kaupir af er hann ekki laus úr ábyrgð gagnvart viðsemjendum sínum af þeirri ástæðu. Annað mundi hins vegar gilda þegar greiðslumiðlun stöðvast, t.d. vegna verkfalls í banka.
     Þriðja skilyrði þess að um ábyrgðarleysi geti verið að ræða byggist á því að hindrunin sé þess eðlis að ekki sé með sanngirni unnt að ætlast til þess að seljandinn hafi haft hana í huga á þeim tíma sem samningurinn var gerður. Af þessu leiðir að seljandi getur borið ábyrgð á greiðsludrætti, jafnvel þótt hindrun hafi verið honum ofviða ef hann mátti sjá hana fyrir á þeim tíma sem samningur var gerður. Vandinn er hins vegar að ákveða hvað seljandinn gat séð fyrir við samningsgerðina.
    Niðurstaða um það hvað seljandinn hefði átt að hafa í huga við samningsgerðina byggist á mati á aðstæðum í hverju tilviki fyrir sig. Dæmi um þetta er að hafi seljandi getað séð fyrir hugsanlegt verkfall sem kynni að seinka afhendingu og þar með getað tekið tillit til þess við samningsgerðina getur hann ekki borið slíka hindrun fyrir sig. Einnig má hugsa sér atvik sem oft verða í viðkomandi atvinnugrein og seljandinn á því að hafa í huga og gera ráð fyrir. Dæmigert tilvik af því tagi er kaup þar sem afhendingin er komin undir góðu veðri. Ef seljandinn hefur það ekki í huga og setur ekki fyrirvara að þessu leyti í samninginn getur hann ekki án þess að annað og meira komi til losnað undan ábyrgð. Sá sem ræktar og selur grænmeti getur ekki gert ráð fyrir góðri langtímaverðurspá á þeim tíma sem samningur um sölu grænmetis var gerður og þannig hliðrað sér hjá allri ábyrgð á afleiðingum þess að veðrið reyndist í raun ekki samkvæmt spám. Öðru máli kann hins vegar að gegna ef veður reynist mjög afbrigðilegt og mun óhagstæðra en mátti búast við, t.d. ef frosthörkur verða í júlí. Annað dæmi er möguleikinn á mikilli geislavirkni. Ef kjarnorkuslys verður í viðskiptalöndunum má á sama hátt búast við því að erfitt geti reynst að fá grænmeti og vissa matvöru frá þeim svæðum þar sem geislavirkni gætir. Verður þá seljandi að hafa þetta í huga við samningsgerðina. En möguleikinn á geislavirkni er að öllu jöfnu svo lítill að ekki er ástæða til fyrir seljanda að hafa slíkt í huga nema atvik hafi orðið sem veiti vísbendingu um slíkt.
    Yfirleitt verður þess ekki krafist að seljandi hafi annan sambærilegan hlut á lager með það í huga að hinn seldi hlutur kunni að skemmast fyrir afhendingu. Eftir atvikum er slíkt þó ekki óhugsandi.
     Fjórða skilyrðið fyrir ábyrgðarleysi er að ekki sé unnt að ætlast til þess að seljandinn geti komist hjá eða sigrast á afleiðingum hindrunar. Þetta skilyrði er einnig háð því til hvers var unnt að ætlast af seljanda. Hér er um það að ræða hvað seljandi getur gert til að komast hjá eða sigrast á afleiðingum hindrunar. Af öðru skilyrðinu hér að framan leiðir hins vegar að hafi seljandi getað komist hjá eða yfirunnið sjálfa hindrunina er honum það skylt, enda er þá ekki um að ræða hindrun sem seljandi fær ekki ráðið við. Fjórða skilyrðið á m.a. við þegar svo stendur á að hindrun verður á tímabilinu frá því að kaup gerðust og fram að afhendingartíma. Seljanda er þá skylt að gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að afstýra afleiðingum hindrunarinnar. Þetta getur t.d. þýtt að heildsali verði að velja annan framleiðanda en hann hafði ákveðið ef augljóst verður að sá framleiðandi muni ekki geta efnt skyldur sínar vegna verkfalla eða annarra slíkra hindrana. Eftir atvikum geta möguleikar og jafnframt skyldur seljanda legið í því að byggja upp nógu mikinn vörulager til þess að mæta hugsanlegum vandamálum af þessu tagi eða þá að leita til annarra birgja. Það nægir seljanda ekki í þessu efni að sýna fram á að slík vöruútvegun sé dýrari en sú sem hann hugsaði sér upphaflega. Hugsanlegt er að hindrun verði eftir að vöruafhendingu hefur þegar seinkað af annarri ástæðu. Hindrun við þessar aðstæður leysir seljanda ekki undan ábyrgð hefði hún ekki haft nein áhrif ef afhendingin hefði farið fram samkvæmt samningnum.
    Það skal tekið fram að áðurnefnd fjögur skilyrði eru nátengd innbyrðis. Í öllum tilvikum skiptir tegund kaupanna miklu máli. Því meira sem söluhlutur er tegundarákveðinn þeim mun meiri möguleika hefur seljandi að jafnaði að útvega aðra hluti í staðinn. Ábyrgð hans verður því metin á strangari mælikvarða í slíkum tilvikum. Sé auðvelt að útvega aðra tegundarákveðna hluti nálgast ábyrgð seljanda að vera hlutlæg. Sé um einstaklega ákveðin kaup að ræða er oft ekki auðvelt að útvega aðra hluti í staðinn ef söluhlutur eyðileggst, t.d. fyrir afhendingu.
    Eins og ákvæði 1. mgr. 27. gr. er orðað er gert ráð fyrir því að seljandinn þurfi að sanna að þau skilyrði séu fyrir hendi sem leysa hann undan bótaábyrgð.
    Í 2. mgr. er rætt um ábyrgð seljanda á greiðsludrætti sem rekja má til þriðja manns. Þriðji maður í þessu samhengi telst sá eða þeir sem ekki eru beinlínis starfsmenn eða aðstoðarmenn seljanda í hans eigin fyrirtæki því að þá fellur tilvikið undir 1. mgr. Ákvæði 1. málsl. 2. mgr. á við um þriðja mann sem seljandi hefur falið að efna kaupin að nokkru leyti eða öllu. Ákvæði 2. málsl. 2. mgr. á hins vegar við þegar seljandi hefur notað afhendingaraðila eða einhvern annan á fyrra sölustigi. Það er því ekki skilyrði samkvæmt greininni að umræddum þriðja manni sé skylt gagnvart seljanda að fullnægja samningi af sinni hálfu. Það nægir að þriðja manni sé skylt að efna sinn hluta samkvæmt samningi við einhvern annan, t.d. afhendingaraðila. Aftur á móti er seljandi ekki ábyrgur skv. 2. mgr. vegna afhendingaraðila sem kaupandi hefur valið. Samkvæmt þessu getur þriðji maður verið framleiðandi eða afhendingaraðili söluhlutar, en hann getur einnig verið framleiðandi að hluta eða undirafhendingaraðili eða undirframleiðandi hráefnis. Hann getur einnig verið dreifingarfyrirtæki, flytjandi eða uppsetningaraðili. Sé um þessi tilvik að ræða er það áskilið í ákvæðinu að seljandi verði því aðeins laus úr ábyrgð að skilyrði 1. mgr. eigi bæði við um seljanda og þriðja mann (tvöfaldur „force majeure“). Þetta þýðir að seljandi getur í vissum tilvikum orðið að bera rýmkaða ábyrgð, sem nær einnig til þriðja manns, jafnvel þótt svo standi á að skilyrði 1. mgr. um ábyrgðarleysi eigi við um seljanda sjálfan. Einnig hér er gert ráð fyrir því að seljandi beri sönnunarbyrðina fyrir því að skilyrðunum um ábyrgðarleysi sé fullnægt í báðum tilvikum. Hafi seljandi samkvæmt þessu gert samning við fyrirtæki um afhendingu á tiltekinni framleiðsluvöru, t.d. hluta af vél sem seljandi hugðist síðan afhenda, er samkvæmt þessu ekki nóg að seljandi geti sýnt fram á að vanefndir þriðja manns hafi falið í sér hindrun fyrir seljandann. Hann verður einnig að sýna fram á að hindrun þriðja manns sé þess eðlis sem um getur í 1. mgr. Á hinn bóginn kann að vera að ekki sé heldur nóg að sýna fram á að slík skilyrði séu fyrir hendi að því er varðar þriðja mann ef seljandi gat engu síður sigrast á hindrun með því að fá annan aðila til að afhenda sömu framleiðsluvöru í vélarhlutann.
    Í 3. mgr. kemur fram sú regla að seljandi sé aðeins laus undan ábyrgð þann tíma sem hindrun varir. Hindrun, sem varir skamman tíma, útilokar þess vegna ekki ábyrgð ef sá tími, sem til ráðstöfunar er eftir að hindrun féll brott, nægir til þess að efna samninginn í tíma. Ef hindrun stendur fram yfir umsaminn afhendingartíma getur seljandi þó orðið bótaskyldur fyrir þann hluta seinkunar sem varð eftir að afleiðingar hindrunar féllu brott. Þó getur þetta því aðeins orðið að seljandi hafi haft þá skyldu til að efna kaupin skv. 23. gr., en hann látið það hjá líða. Samkvæmt þessu á ákvæðið því aðeins við að hindrun sé tímabundin en ekki varanleg.
    Með 4. mgr. er gildissvið málsgreinanna á undan þrengt. Ákvæði 1.–3. mgr. 27. gr. nær þannig ekki til óbeins tjóns, en það hugtak er skýrt í 2. mgr. 67. gr. Stjórnunarábyrgðin gildir því aðeins um beint tjón. Um röksemdir fyrir þessu skal vísað til almennra athugasemda, sbr. einnig athugasemdir við 2. mgr. 67. gr. Það leiðir af 2. málsl. 4. mgr. að stjórnunarábyrgðin gildir almennt í alþjóðlegum kaupum, bæði varðandi beint og óbeint tjón, sbr. ákvæði 79. gr. SÞ-samningsins. Af 1. mgr. 67. gr., sbr. einnig 74. gr. SÞ-samningsins, leiðir þó að viss takmörk eru fyrir því hvaða tjón verður bætt. Ákvæði 4. mgr. 27. gr. eru ekki hugsuð sem nein rýmkun á þessu. Því er til öryggis vísað í 3. mgr. 70. gr. til að tryggja slíkan skilning.
    Í 5. mgr. er því slegið föstu að kaupandi geti ávallt krafist skaðabóta ef greiðsludrátt eða tjón má rekja til mistaka eða vanrækslu af hálfu seljanda. Skipir ekki máli hvort um er að ræða beint eða óbeint tjón. Orðasambandið „af hálfu seljanda“ vísar til þess að hann beri ekki aðeins ábyrgð á eigin mistökum og vanrækslu heldur einnig á starfsmönnum sínum og sjálfstæðum verktökum sem hann hefur notað til að efna samninginn. Þess vegna getur seljandi orðið ábyrgur fyrir vanrækslu undirverktaka eða flytjanda.
    Mistök eða vanræksla geta legið fyrir þegar á þeim tíma sem samningur var gerður, t.d. ef þá þegar var ljóst að efndir mundu valda vandkvæðum fyrir seljanda. Sama getur einnig átt við um val á aðila til að aðstoða við efna samninginn. Enn fremur geta mistök eða vanræksla átt sér stað við sjálfar efndirnar, t.d. falist í skertu eftirliti með framleiðslu eða vanrækslu við að undirbúa flutning. Mistök eða vanræksla geta einnig átt sér stað eftir athendingu, t.d. við efndir á viðbótarskyldum. Það kann að vera álitamál að hvaða marki má telja fjárskort til mistaka eða vanrækslu. Aðalreglan um bótaskyldu í samningum leiðir til þess að skortur á fjármagni leysir ekki undan bótaskyldu. Ef seljandi getur því ekki greitt það sem til þarf til að fullnægja samningi vegna fjárskorts, eða vegna þess að hann hefur ekki lánstraust, verður hann bótaskyldur fyrir því tjóni sem kaupandi beið vegna þeirrar seinkunar sem varð á afhendingu.
    Ákvæðið felur ekki í sér neina reglu um sönnunarbyrði. Álitamál varðandi sönnunarbyrði verða því leyst út frá almennum réttarreglum um sönnun. Frumvarpið felur ekki í sér neina sérstaka vísbendingu í því efni.
    Ákvæði 5. mgr. hefur litla þýðingu að því er varðar beint tjón. Sé unnt að líta svo á að seljandi beri ábyrgð á grundvelli mistaka eða vanrækslu ber seljandi venjulega einnig ábyrgð skv. 1. mgr. Sé hins vegar unnt að líta svo á að um mistök eða vanrækslu sé að ræða hjá starfsfólki seljanda, aðstoðarmönnum eða sjálfstæðum verktökum mundi seljandi bera ábyrgð skv. 1.–3. mgr. Ákvæðið hefur því fyrst og fremst þýðingu að því er varðar óbeint tjón. Ákvæðið í 5. mgr. svarar til 3. mgr. 40. gr. um skaðabætur vegna galla. Eðlilegt þykir að hafa lagareglur eins að þessu leyti, hvort sem um er að ræða greiðsludrátt eða galla.

Um 28. gr.

    Í gildandi lögum er ekki ákvæði sem er beinlínis sambærilegt 28. gr. frumvarpsins, en svipuð regla kemur hins vegar fram í 4. mgr. 79. gr. SÞ-samningsins.
    Það getur haft mikla þýðingu fyrir kaupanda í lausafjárkaupum að fá um það upplýsingar ef upp kemur hindrun sem stendur í vegi fyrir efndum á réttum tíma. Í mörgum tilvikum getur kaupandinn gripið til tímabundinna eða varanlegra aðgerða til þess að koma í veg fyrir skaðlegar afleiðingar greiðsludráttar, sé hann aðeins varaður við í tíma. Í frumvarpsgreininni er því lögð sú skylda á herðar seljanda að upplýsa kaupandann um hindrun sem stendur í vegi fyrir efndum.
    Tilkynningarskylda verður raunhæf þegar hindrun hefur orðið eða þegar búast má við að hindrun verði sem skiptir máli fyrir réttar efndir. Ekki skiptir máli hvers eðlis hindrun er og ekki heldur hvort hún stafar af ástæðum sem seljandi gat haft áhrif á skv. 27. gr. Tilkynningarskylda stofnast hins vegar ekki þegar seljandi getur með réttu gert ráð fyrir því að afstýra megi yfirvofandi hindrun.
    Í tilkynningu seljanda skal koma fram hver hindrunin er og hver áhrif hún hefur á möguleika hans til efnda. Ber þá m.a. að taka fram hvort seinkun er tímabundin eða ekki, hvort hún varðar allt hið keypta eða aðeins hluta þess og hvort hugsanlega sé unnt að efna kaupin á annan hátt.
    Í 2. málsl. greinarinnar er regla sem mælir fyrir um bætur til handa kaupanda fái hann ekki slíka tilkynningu sem að framan greinir. Í mörgum tilvikum mundi seljandi bera skaðabótaábyrgð gagnvart kaupanda á grundvelli 27. gr. frumvarpsins. Bótaregla 2. málsl. 28. gr. er hins vegar sjálfstæð bótaregla óháð bótareglu 27. gr. og hefur hún helst sjálfstæða þýðingu þegar um er að ræða hindrun sem leysa mundi undan bótaskyldu skv. 27. gr. frumvarpsins.
    Skilyrði skaðabóta samkvæmt bótareglu 2. málsl. 28. gr. frumvarpsins er í fyrsta lagi að kaupandinn hafi ekki fengið tilkynningu um hindrun innan hæfilegs tíma. Af framsetningu ákvæðisins leiðir að tilkynningin er send á áhættu seljandans andstætt því sem almennt gildir um áhættuna af sendingu tilkynninga skv. 82. gr. frumvarpsins. Ef seinkun verður á póstsamgöngum eða öðrum samgöngum, eða þær falla niður af óviðráðanlegum atvikum, t.d. vegna verkfalla, er þó hugsanlegt að líta svo á að seljandi geti orðið laus úr ábyrgð með lögjöfnun frá 27. gr.
    Frestur byrjar að líða um leið og seljandinn hefur fengið eða gat fengið vitneskju um hindrunina. Hvað telst hæfilegur tími verður að meta út frá atvikum og aðstæðum í hverju tilviki fyrir sig, en almennt verður líklega að krefjast skjótra viðbragða af hálfu seljanda. Segja má að í þeim tilvikum þar sem frumvarpsgreinin á við sé komin upp aðstaða sem breyti grundvallaratriði samnings (afhendingartímanum) og hefur seljandinn í slíkum tilvikum augljósa ástæðu til þess að skýra kaupandanum frá því.
    Í öðru lagi er það skilyrði skaðabóta skv. 28. gr. að kaupandinn hefði getað komist hjá tjóni ef hann hefði fengið tilkynninguna með nægum fyrirvara. Seljandinn verður með öðrum orðum ekki ábyrgur fyrir tjóni sem hefði orðið, hvað sem líður tilkynningu um hindrun.
    Hér getur verið um að ræða tjón sem stafar af því að kaupandinn getur ekki takmarkað það tjón sem verður vegna hindrunar á efndum. Slíkt tjón fellur undir gildissvið 67. gr. Reglan í 28. gr. á hins vegar við væri seljandinn ábyrgðarlaus samkvæmt reglunni í 27. gr. og réttlætir það tilvist hennar.

Um 29. gr.

    Ákvæði 29. gr. frumvarpsins svarar til a-liðar 2. mgr. 49. gr. SÞ-samningsins. Í 27. gr. gildandi kaupalaga kemur fram sú regla að kaupandi verður að skýra frá því að hann ætli að bera fyrir sig greiðsludrátt (hlutlaus tilkynning) ef í ljós kemur að söluhlutur hefur verið afhentur of seint. Í verslunarkaupum verður að tilkynna slíkt þegar í stað, en ella án ástæðulauss dráttar. Ætli kaupandinn að rifta kaupum verður hann að skýra sérstaklega frá því án óþarfrar tafar, ella missir hann þann rétt. Á hinn bóginn er ekki þörf sérstakrar tilkynningar þegar um aðrar kröfur er að ræða.
    Segja má að regla 29. gr. frumvarpsins sé ekki eins ströng og regla gildandi laga því að kaupandinn þarf ekki að senda hlutlausa tilkynningu vegna greiðsludráttar (um galla gilda aðrar tilkynningarreglur, sbr. 32. gr. frumvarpsins). Ekki þótti ástæða til þess að krefjast sérstakrar tilkynningar varðandi skaðabætur þegar söluhlutur er afhentur of seint. Seljandanum er í flestum tilvikum ljós greiðsludráttur og hann getur því alltaf búist við skaðabótakröfum af því tilefni. Riftun er á hinn bóginn svo afdrifaríkt úrræði að ekki er óeðlilegt að krefjast þess að kaupandinn skýri frá því innan sanngjarns tíma ef hann ætlar að neyta þess úrræðis. Á það einnig við í neytendakaupum þegar neytandi hefur tekið við hlut sem hann vill skila. Þá verður einnig að hafa í huga að tilkynningarfresturinn er ekki eins strangur og þegar um hlutlausa tilkynningu er að ræða samkvæmt gildandi rétti.
    Ákvæði 29. gr. gilda þegar hlutur er afhentur of seint. Á meðan afhending hefur ekki farið fram hefur kaupandi það í hendi sér hvenær hann setur fram riftunarkröfu. Það þýðir að hann getur rift kaupum án nokkurrar fyrir fram gefinnar tilkynningar þegar greiðsludrátturinn er orðinn svo langur að almennum skilyrðum riftunar er fullnægt, sbr. 25.–26. gr., 43. gr. og 44. gr. frumvarpsins.
    Ef hlutur er alls ekki afhentur hefur kaupandi ekki sömu ástæðu til að hefjast handa, og hann getur beðið og séð hverju fram vindur. Hann þarf því ekki að taka afstöðu til þess hvenær seinkun er veruleg eða hvort hann vill rifta fyrr en hann setur riftunarkröfu fram.
    Hugsanlegt er að rétturinn til efnda falli niður samkvæmt almennum reglum um aðgerðaleysisáhrif ef kaupandi bíður óhæfilega lengi og án réttmætrar ástæðu með að hefjast handa um þær. Ber þá oftlega að líta svo á að réttur til að krefjast efnda sé einnig fallin brott vegna hliðstæðs aðgerðarleysis af hálfu seljanda. Niðurstaðan í þessum tilvikum er þá svipuð og þegar rift er kaupum.
    Tilkynningarfresturinn byrjar ekki að líða við sjálfa afhendinguna heldur frá þeim tíma er kaupandinn fékk vitneskju um hana. Það skiptir á hinn bóginn ekki máli hvernig kaupandinn öðlaðist vitneskju sína. Þegar hann hefur fengið vitneskju um afhendinguna verður hann þó að hefjast handa án tafar. Mat í því hvað teljist „innan sanngjarns tíma“ ræðst af eðli söluhlutar og aðilum samningsins. Í verslunarkaupum er eðlilegt að krefjast tiltölulega skjótra viðbragða, en í neytendakaupum er sanngjarnt að fresturinn sé heldur lengri, sérstaklega þegar ekki er um að ræða kaup ýmissa gjaldgengra vara. Kaupandinn verður ávallt að hafa ákveðinn tíma til að taka afstöðu til þess hvers konar heimildum hann vill beita.
    Af ákvæðum 82. gr. frumvarpsins leiðir að það er seljandinn sem ber áhættuna af því að tilkynning um riftun samkvæmt þessari frumvarpsgrein komi fram. Samkvæmt orðanna hljóðan á greinin aðeins við þegar dráttur verður á afhendingu aðalgreiðslunnar og hún á eðli málsins samkvæmt illa við um vanefndir aukaskyldna.

Um 30. gr.

    Frumvarpsgreinin svarar til 45. gr. SÞ-samningsins. Rétt er að hafa í huga að gildissvið þeirrar greinar takmarkast ekki við galla eina heldur á hún einnig við um greiðsludrátt og aðrar vanefndir samnings. Ákvæði frumvarpsgreinarinnar eiga sér ekki beina samsvörun í gildandi kaupalögum en þó fela 1. mgr. 42. gr. og 1. mgr. 43. gr. að vissu leyti í sér svipaða upptalningu vanefndaúrræða. Hvað uppbyggingu og framsetningu varðar er frumvarpsgreinin svipuð 22. gr. frumvarpsins og með sambærilegu efni og má því almennt vísa til athugasemda við þá grein.
    Greinin gildir þegar um er að ræða galla, sbr. 17.–21. gr. frumvarpsins. Engu máli skiptir hver er ástæða gallans, en það er þó skilyrði að hann sé hvorki sök kaupanda né stafi af aðstæðum sem hann varða. Hvorki hugtakið sökaðstæður sem kaupanda varða vísa til vondrar trúar, sbr. 1. og 2. mgr. 20. gr. frumvarpsins. Ber að túlka hugtakið í ljósi þess sem sagt er í athugasemdum við 22. gr. frumvarpsins.
    Í 1. mgr. frumvarpsgreinarinnar eru taldar upp heimildir kaupanda þegar svo stendur á að söluhlutur er gallaður. Þar eru nefndar úrbætur, afhending að nýju, afsláttur, riftun og skaðabætur, ásamt rétti til þess að halda eftir greiðslu kaupverðs. Ákvæði 1. mgr. felur ekki í sér nein skilyrði þess að unnt sé að beita einstökum vanefndaúrræðum sem þar eru nefnd, en um nánari skilyrði er fjallað í viðeigandi greinum, 34. og 35. gr. (úrbætur og ný afhending), 38. gr. (afsláttur), 39. gr. (riftun), 27. gr. (skaðabætur) og 42. gr. (réttur til að halda eigin greiðslu).
    Beiting einnar vanefndaheimildar útilokar ekki beitingu annarra heimilda og gildir í þeim efnum hið sama og skv. 22. gr. frumvarpsins. Upptalning frumvarpsgreinarinnar er heldur ekki tæmandi, sbr. einnig athugasemdir við 22. gr. Í 2. málsl. 1. mgr. er sérákvæði um það að réttur kaupanda til skaðabóta falli ekki niður þótt aðrar kröfur séu gerðar eða þótt ekki sé unnt að halda slíkum kröfum fram.
    Regla 2. mgr. 30. gr. svarar til 2. mgr. 22. gr. frumvarpsins. Þar kemur fram að reglurnar um galla gilda einnig um aðra ágalla á efndum af hálfu seljanda, eftir því sem við á, þ.e. við vanefndir á aukaskyldum. Sem dæmi um þetta má nefna að keyptur er krani á flutningatæki en hann reynist ónothæfur vegna rangrar uppsetningar af hálfu seljanda. Um þýðingu fyrirvarans „eftir því sem við á“ vísast til athugasemda við 22. gr. Regla frumvarpsgreinarinnar er frávíkjanleg með sömu rökum og regla 2. mgr. 22. gr. og á það einnig við í neytendakaupum.

Um 31. gr.

    Ákvæði 31. gr. svarar til 51. gr. gildandi laga, sem þó varðar aðeins verslunarkaup, sbr. einnig 5. mgr. 62. gr. Í 38. gr. SÞ-samningsins er að finna sambærilegt ákvæði.
    Í 20. gr. frumvarpsins er fjallað um afleiðingar þess að kaupandi lætur hjá líða að rannsaka söluhlut áður en samningur er gerður. Ákvæðið leggur þó ekki neina sérstaka skyldu á kaupandann til að rannsaka söluhlut á þessu tímamarki. Í 31. gr. er á hinn bóginn lögð sú almenna skylda á kaupanda að rannsaka söluhlut eftir afhendingu. Vanræksla á þeirri skyldu getur skv. 32. gr. leitt til þess að kaupandinn glati rétti sínum til þess að bera fyrir sig galla með þeim hætti sem í 32. gr. segir. Að öðru leyti verður að skoða reglu 31. gr. með hliðsjón af 2. mgr. 49. gr., sem veitir kaupandanum rétt til þess að rannsaka söluhlut áður en kaupverðið er greitt. Tilgangurinn með síðarnefndu greininni er að vernda rétt kaupanda til þess að halda eftir eigin greiðslu samkvæmt meginreglunni um að hönd selji hendi, en að öðru leyti er ekkert sérstakt samhengi á milli ákvæðanna. Kaupandi getur að sjálfsögðu gætt réttar síns bæði skv. 31. og 2. mgr. 49. gr. með einni og sömu rannsókninni.
    Í 1. mgr. 31. gr. kemur fram meginreglan um rannsóknarskyldu kaupanda. Skyldan verður virk eftir afhendingu og þá jafnskjótt og kaupanda eftir öllum aðstæðum gefst sanngjarnt tækifæri til að fullnægja henni. Hversu fljótt rannsókn getur farið fram ræðst m.a. af því hvers konar hlut er um að ræða og hvar hann er afhentur. Ef kaupandi á að sækja hlutinn til seljanda sem býr á sama stað, t.d. við kaup hjá kaupmanninum á horninu, getur kaupandi í meginatriðum beðið með að rannsaka söluhlut þar til hann er kominn heim. Ef um flókinn tæknilegan útbúnað er að ræða eða annað þess háttar verður kaupandinn einnig að hafa sanngjarnan tíma til rannsóknar, en þess verður að krefjast að hún gangi hraðar fyrir sig ef auðvelt er að koma henni við.
    Sambærilegar reglur gilda einnig þegar kaupandinn sækir hlut á flutningamiðstöð eða annan sambærilegan stað. Í slíkum tilvikum getur kaupandinn beðið með rannsókn þar til hann er kominn til síns heima eða á atvinnustöð sína. Kemur þar einnig til að umbúðir getur þurft að fjarlægja og er oft ekki unnt að gera það fyrr en heim er komið. Á hinn bóginn getur það haft þýðingu við mat skv. 32. gr. hvort kaupandinn lætur lengi hjá líða að sækja hlutinn, eftir að hann hefur fengið tilkynningu um að hann sé kominn á flutningamiðstöð.
    Í 1. mgr. er það ekki afmarkað nákvæmlega hversu ítarleg rannsókn kaupanda á að vera, en þar kemur þó fram að hún skuli vera samkvæmt því sem góð venja stendur til. Samkvæmt 51. gr. gildandi laga, sem á aðeins við um verslunarkaup, ber kaupanda að rannsaka hlut svo sem „góð verzlunatízka heimtar“. Í frumvarpsgreininni er gert ráð fyrir því að orðalag hennar beri að þessu leyti að túlka á sama hátt og gert er í gildandi lögum þegar um kaup milli viðskiptaaðila er að ræða. Hvað að öðru leyti felst í hugtakinu góð venja fer m.a. eftir eðli söluhlutar, til hverra nota hann er ætlaður, umbúðunum utan um hlutinn og því hvaða söluaðila er um að ræða. Ef hlutur er ætlaður til endursölu kann það að vera áskilið að umbúðir séu ekki fjarlægðar og þá takmarkast að sama skapi rannsóknarskylda kaupanda við það sem sjá má við ytri skoðun einvörðungu. Þegar smásali kaupir kaffi í lofttæmdum umbúðum verður þess almennt ekki krafist að hann rannsaki innihald einstakra kaffipakka, en ef um er að ræða innkaup á miklu magni, t.d. á heilli vörusendingu, getur eftir atvikum verið eðlilegt að kaupandi rannsaki einstaka sýnishorn sem oft er nefnt „stikkprufa“. Í öllum tilvikum verður þess þó krafist að hann rannsaki hvort umbúðir eru óskemmdar. Ef um kaup á flóknum vélbúnaði er að ræða getur verið að góð venja leiði til þess að fram fari víðtæktar prófanir.
    Vera kann að góð venja í einstaka tilviki leiði til þess að kaupandi þurfi í rauninni ekki að rannsaka söluhlut. Það getur t.d. átt við þegar kaupandinn kemur einvörðungu fram sem milliliður án þess að söluhlutur fari um hans hendur. Þá geta atvik og verið þannig að kaupandinn leggi hlut til hliðar án þess að fjarlægja umbúðirnar, þar til hann er tekinn í notkun, t.d. þegar mælt er með því að umbúðir séu ekki fjarlægðar fyrr en hlutur er tekinn í notkun svo að hann rýrni ekki eða eyðileggist. Að öðru leyti verður almennt að taka tillit til þess hver kaupandinn er og hvað telst góð venja í því tilviki sem um er að ræða.
    Það leiðir loks af frávíkjanlegum ákvæðum frumvarpsins að samningar um annars konar skoðun eða skoðun á öðrum tíma en leiðir af fyrrgreindu ákvæði eru leyfilegir. Þannig getur t.d. verið um það samið að tiltekin tæki, sem seljandi sér um að setja upp, séu skoðuð og prófuð af hálfu kaupanda að lokinni uppsetningu.
    Hugsanlegt er að söluhlutur hafi verið afhentur of seint og að dráttur sé metinn verulegur. Kann þá að vera að kaupandi krefjist riftunar. Rétturinn til riftunar glatast þá ekki þó að kaupandi kunni að hafa vanrækt að rannsaka hlutinn. En ætli kaupandi jafnframt að bera fyrir sig vanefndakröfur vegna gallans eiga ákvæði 31. gr. frumvarpsins við.
    Í 2. mgr. kemur fram að þegar hlut á að flytja frá afhendingarstað getur kaupandi beðið með rannsókn þar til hluturinn er kominn á ákvörðunarstað. Þegar hlutur er þangað kominn fer það eftir ákvæðum 1. mgr. hversu fljótt skoðun á að fara fram.
    Í 2. mgr. greinarinnar eru einkum höfð í huga sendingarkaup, sbr. 2. mgr. 7. gr., en ákvæðið getur einnig átt við í staðarkaupum þar sem seljandi og kaupandi eiga ekki heima á sama stað. Í báðum þessum tilvikum getur kaupandinn beðið með rannsókn á söluhlutnum þar til hann er kominn til ákvörðunarstaðar. Með „ákvörðunarstað“ er hér ekki átt við heimili eða atvinnustöð kaupanda heldur er þar átt við þann stað þar sem kaupandi býr. Ef hlutur er seldur með fob-skilmálum felst það í 2. mgr. 31. gr. að kaupandi er ekki skyldugur til að rannsaka hlutinn fyrr en hann er kominn til skipaafgreiðslunnar á ákvörðunarstað. Að hvaða marki kaupandi getur með öllu látið hjá líða að rannsaka hlutinn þar til kaupandinn hefur fengið hlutinn heim til sín veltur á því hvort hann hefur „sanngjarnt tækifæri“ til að rannsaka hlutinn hjá skipaafgreiðslunni, sbr. og það sem segir í athugasemdum við 1. mgr.
    Regla 3. mgr. á við um þau tilvik þegar kaupandinn breytir ákvörðunarstað meðan hlutur er í flutningi eða sendir hlutinn áfram án þess að hann hafi haft sanngjarnt tækifæri til þess að rannsaka hann. Rannsókn má þá fresta þar til hluturinn er kominn á hinn nýja ákvörðunarstað. Greinin gildir í fyrsta lagi þegar kaupandi breytir ákvörðunarstað meðan söluhlutur er í flutningi og skiptir ekki máli hver var ástæða þess að hann ákvað þessa breytingu. Í annan stað gildir ákvæðið þegar kaupandi sendir hlutinn áfram og í þessu tilviki verður því skilyrði að hafa verið fullnægt að kaupandi hafi ekki haft sanngjarnt tækifæri til að rannsaka söluhlut. Hér hefur hlutur komið til upphaflegs ákvörðunarstaðar, en hann verið sendur þaðan á nýjan ákvörðunarstað . Ástæða þess að kaupandi rannsakaði ekki söluhlut á upphaflegum stað getur t.d. hafa verið sú að ekki hafi þótti hagkvæmt að opna umbúðir þar sem kaupandi var þegar búinn að selja hlutinn nýjum kaupanda á öðrum stað.
    Skilyrði þess að fresta megi rannsókn er það að seljandinn hafi við kaupin vitað eða mátt vita um möguleikann á því að ákvörðunarstað kynni að verða breytt eða hlutur sendur áfram. Seljandinn veit t.d. að kaupandinn er heildsali og að hann er oft vanur að selja hlutinn beint án þess að taka hann fyrst inn í vörugeymslur hjá sér. Annar möguleiki er sá að seljandinn viti að kaupandinn er með fleiri en eina atvinnustöð og að hluturinn getur verið ætlaður til nota á mörgum þeirra.
    Í 4. mgr. greinarinnar er tekið fram að regla 31. gr. gildi ekki þegar um neytendakaup er að ræða. Þótt á kaupanda í neytendakaupum hvíli ekki sú beina lagaskylda að rannsaka söluhlut samkvæmt umræddu ákvæði getur eigi að síður hvílt viss skylda á honum til slíkrar rannsóknar samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 32. gr. frumvarpsins.

Um 32. gr.

    Ákvæði greinarinnar svarar til 39. gr. SÞ-samningsins, en í gildandi lögum er ákvæði um það efni í 52. og 54. gr. Helstu nýmæli frumvarpsgreinarinnar eru þau að tilkynningarreglurnar eru hinar sömu í öllum tegundum kaupa. Hámarkstilkynningarfrestur er lengdur úr einu ári í tvö, sbr. 54. gr. gildandi laga, og eftir atvikum getur hann verið fimm ár í neytendakaupum.
    Í 1. mgr. er mælt fyrir um hinn afstæða (relativ) tilkynningarfrest. Í ákvæðinu felst að sé um galla að ræða verður kaupandinn að tilkynna um það innan hæfilegs tíma. Fresturinn byrjar að líða þegar kaupandinn varð galla var eða mátti verða hans var. Hafa verður í huga að tilkynningarfrestur samkvæmt ákvæði þessu getur aldrei byrjað að líða fyrr en áhættan af söluhlut hefur flust frá seljanda til kaupanda, þ.e. venjulega við afhendingu. Við sendingarkaup er reglan sú að hluturinn hefur verið afhentur og áhættan er komin yfir á kaupanda, e.t.v. löngu áður en hann hefur nokkur afskipti af hlutnum, sbr. 2. mgr. 7. gr. frumvarpsins. Í þessum tilvikum hefur kaupandi sjaldnast raunhæfa möguleika á að uppgötva galla fyrr en hlutur er kominn til hans. Vitneskja kaupanda um eiginleika söluhlutar fyrir afhendingu getur skipt máli í sambandi við það hvort hann sé gallaður eða ekki. Hafi kaupandi hins vegar vitað um eiginleika söluhlutar fyrir afhendingu er einnig ljóst að hann veit um ástand hans við afhendinguna.
    Það fer m.a. eftir rannsóknarskyldunni skv. 31. gr. hvenær kaupandinn mátti verða galla var. Þótt góð venja í skilningi þess ákvæðis veiti í sjálfu sér ekki vísbendingu um það hvenær kaupandi á að rannsaka söluhlut nánar getur galli hafa verið svo augljós að kaupandinn hefði átt að komast að raun um hann fyrr en raun varð á. Í neytendakaupum hefur neytandi vissa rannsóknarskyldu, eins og getið var í athugasemdum við 31. gr. frumvarpsins. Venjulegur neytandi getur því ekki heldur lokað augunum fyrir vissum staðreyndum sem augljósar eru.
    Leyndan galla, sem ekki kemur í ljós fyrr en hlutur hefur verið notaður í ákveðinn tíma, er engin leið að uppgötva við venjulega rannsókn. Tilkynningarfrestur byrjar þá að líða þegar galla verður vart með þeim hætti að kaupandinn á að verða hans var. Ef kaupandinn (A) hefur selt hlutinn áfram til annars manns (B) getur það komið fyrir að hann (A) verði ekki galla var fyrr en sá sem af honum keypti (B) kvartar við A.
    Annað dæmi um galla af þessu tagi er það þegar um er að ræða vörur sem geymast ekki lengi. Hafi t.d. kjöt verið geymt í of miklum hita en síðan verið selt má búast við að tilkynningarfrestur byrji að líða þegar gallinn kemur í ljós, þ.e. þegar varan skemmist með þeim hætti að kaupandi átti að uppgötva það. Loks má nefna að sumar vörur eru þannig að gallinn kemur ekki í ljós fyrr en fara á að neyta þeirra, e.t.v. eftir langa geymslu. Svo er t.d. um niðursoðna ávexti sem eru skemmdir í umbúðunum.
    Það getur verið merki um galla að hlutur virkar ekki eins og skyldi. Slíkt getur getur einnig verið að rekja til rangrar notkunar, slits, skorts á viðhaldi o.s.frv. Það að hlutur virkar ekki sem skyldi leiðir því ekki sjálfkrafa til þess að tilkynningarfrestur byrji að líða, nema því aðeins að kaupanda hafi mátt vera ljóst að galla var um að kenna.
    Hvað telst „innan hæfilegs tíma“ í skilningi 1. mgr. 32. gr. fer eftir atvikum hverju sinni og ekki hvað síst eftir því hver kaupandinn er. Ef hlutur er keyptur af atvinnurekanda til nota í rekstri hans verður að krefjast skjótari viðbragða en þegar um er að ræða kaup af hálfu neytanda. Þó má vera að orðalag ákvæðisins, „innan hæfilegs tíma“, gefi meira svigrúm en nú gildir í verslunarkaupum, en skv. 52. gr. gildandi laga á að skýra seljanda frá göllum „þegar í stað“. Í neytendakaupum geta einstaklingsbundin atvik, t.d. fjarvistir og veikindi, auðveldlega skipt máli. Þá getur einnig skipt máli í sambandi við frestinn hvers konar kaup er um að ræða. Sé um að ræða hluti með stuttan endingartíma er tilkynningarfrestur að öðru jöfnu styttri en ella. Sé hins vegar um að ræða flókna hluti, sem setja þarf upp, má vera að mun lengri tíma þurfi til að ganga úr skugga um gallana og eðli þeirra . Hér hefur einnig sérþekking kaupanda sérstaka þýðingu. Ef kaupanda skortir sérþekkingu getur verið nauðsynlegt fyrir hann að fá aðstoð sérfróðs manns til þess að ganga úr skugga um hvort í raun og veru sé um að ræða galla sem unnt er að bera fyrir sig.
    Samkvæmt ákvæðinu er einungis gerð krafa um hlutlausa tilkynningu. Í því felst að ekki er nauðsynlegt fyrir kaupanda að geta þess í tilkynningu sinni hvaða kröfur hann hyggst gera í tilefni vanefndanna. Er þessi regla frábrugðin því sem gildir skv. 1. mgr. 35. gr. og 2. mgr. 39. gr., en þar er um að ræða sérstakar tilkynningarreglur varðandi kröfur um úrbætur og afhendingu að nýju ásamt riftun. Þessar reglur gilda óháð reglu 32. gr.
    Það er á hinn bóginn ekki fullnægjandi tilkynning skv. 1. mgr. 32. gr. frumvarpsins ef kaupandinn kvartar einungis almennt yfir söluhlut. Samkvæmt orðanna hljóðan er sú krafa gerð að fram komi í tilkynningu í hverju gallinn er fólginn. Þetta má þó ekki túlka of bókstaflega, því að ekki er ávallt hægt að krefjast þröngrar og nákvæmrar tilgreiningar. Oft geta atvik borið með sér augljós einkenni galla án þess að unnt sé að staðreyna hvers eðlis gallinn er. Í slíkum tilvikum verður að láta nægja að því sé lýst í hverju gallinn birtist.
    Ekki eru gerðar ákveðnar formkröfur til tilkynningar. Af sönnunarástæðum getur þó verið hagkvæmt að hún sé skrifleg, en réttaráhrif tilkynningar eru ekki við það bundin. Af ákvæðum 82. gr. leiðir að það er seljandinn sem ber áhættuna af því ef tilkynningin kemst ekki til skila. Afleiðingar þess að tilkynningarfrestur líður eru þær að kaupandinn glatar rétti til þess að bera gallann fyrir sig.
    Álitamál er hvort seljandi glati rétti sínum til að bera fyrir sig tilkynningarskort ef hann ræðir fyrirvaralaust við kaupanda um það efni sem í tilkynningu greinir. Þessu álitaefni er ekki svarað í ákvæðum frumvarpsins heldur verður að leysa úr því eftir atvikum hverju sinni á grundvelli almennra reglna um aðgerðarleysi. Framkoma seljanda getur þar að auki verið með þeim hætti að hana megi skilja þannig að hann muni ekki bera fyrir sig tilkynningarskortinn.
    Tilkynningu um galla í neytendakaupum má beina að þeim sem í samningi við seljanda hefur tekið að sér að bæta úr gallanum. Í 2. málsl. 1. mgr. er kveðið á um tilkynningar í neytendakaupum. Þeim má beina til seljanda en auk hans má beina tilkynningum um galla að þeim sem í samningi hefur tekið að sér að bæta úr gallanum. Samkvæmt ákvæði í 4. gr., sbr. 5. gr. tilskipunar 99/44/EB, ber síðasti seljandi ábyrgð gagnvart neytanda ef hinn seldi hlutur reynist gallaður. Það er á ábyrgð seljandans að meðstefna öðrum aðilum sem eru í samningskeðjunni ef hann telur að þeir kunni að bera ábyrgð í málinu, svo sem fyrri seljanda, framleiðanda o.s.frv. Að öðru leyti vísast til ákvæða XIV. kafla um ábyrgð á hendur fyrri söluaðila.
    Ákvæðið um tveggja ára frestinn í 2. mgr. frumvarpsgreinarinnar líkist að sumu leyti fyrningarfresti. Krafa kaupanda fellur brott eftir vissan tíma án tillits til annarra atriða. Þetta er ólíkt fresti skv. 1. mgr. þar sem tekið er tillit til huglægra atriða er varða aðila.
    Í 54. gr. gildandi kaupalaga segir: „Nú er ár liðið frá því er kaupandi fékk söluhlut í hendur og hann hefir ekki skýrt seljanda frá að hann ætli að bera fyrir sig að söluhlutnum hafi ábótavant verið og getur hann þá ekki síðar komið fram með neina kröfu af því tilefni, nema seljandi hafi skuldbundið sig til að ábyrgjast hlutinn lengri tíma, eða haft svik í frammi.“ Regla þessi hefur verið umdeild í íslenskum rétti þar sem hinn skammi tilkynningarfrestur hefur þótt óþarflega harður í garð kaupanda og á það sérstaklega við þegar um leynda galla er að ræða. Má tilfæra dæmi úr réttarframkvæmdinni þar sem þessi skammi frestur hefur leitt til ósanngjarnrar niðurstöðu í garð kaupanda. Því er í 2. mgr. frumvarpsgreinarinnar lagt til að hámarkstilkynningarfrestur vegna galla miðist við tvö ár og byrjar fresturinn að líða þegar kaupandinn veitir hlutnum viðtöku. Tekið skal fram að af ákvæðum 3. gr. frumvarpsins leiðir að semja má um lengri tilkynningarfrest. Eins leiðir það af ákvæðum 3. gr. að unnt er, í öðrum kaupum en neytendakaupum, að semja um skemmri frest en tveggja ára frestinn.
    Yfirleitt verður að telja heppilegt að hafa tiltölulega þröng tímamörk til þess að tilkynna um galla. Fyrir seljandann er það þýðingarmikið að geta losnað frá kaupunum eftir ákveðinn tíma án þess að þurfa að eiga á hættu síðbúnar kvartanir vegna galla. Þar sem ákvörðun um það hvort söluhlutur er gallaður eða ekki ræðst af ástandi hlutarins á því tímamarki þegar áhættuskipti verða er hætt við að sönnunarvandamál komi til sögunnar ef kvartanir vegna galla berast löngu eftir að afhending hefur átt sér stað. Telja verður að tveggja ára regla frumvarpsgreinarinnar sé hentugur viðmiðunartími þegar litið er til hagsmuna allra þeirra sem hlut eiga að máli, þ.e. hagsmuna seljanda og viðskiptalífsins af því að búa við öryggi og hagsmuna kaupanda af því að geta borið fyrir sig galla sem koma í ljós jafnvel löngu eftir afhendingu. Reglan er einnig í samræmi við 2. mgr. 39. gr. SÞ-samningsins.
    Til sanns vegar má færa að tveggja ára reglan geti verið ströng í garð kaupanda þegar um er að ræða leynda galla við kaup á hlut sem á að endast lengi. Það gerist oft að verulegir gallar koma ekki í ljós fyrr en löngu eftir afhendingu. Getur þá verið ósanngjarnt ef kaupanda er með öllu ómögulegt að bera gallann fyrir sig ef hann tilkynnir um gallann innan hæfilegs tíma frá því að hann varð gallans var. Hvað sem því líður er nauðsynlegt að hafa skýrar og afmarkaðar reglur um tilkynningarfresti vegna galla. Því er hér lagt til að tveggja ára reglan verði meginregla, þó þannig að hún gildi ekki undantekningalaust í neytendakaupum. Í Noregi og Svíþjóð er tveggja ára reglan meginregla. Í Finnlandi hafa kaupalög enga almenna hámarksreglu um tilkynningarfrest. Í Danmörku gildir enn eins árs tilkynningarreglan, sbr. 54. gr. dönsku kaupalaganna, sem meginregla, en frá meginreglunni gilda hins vegar mikilvægar undantekningar þegar um kaup byggingarefnis er að ræða, þ.e. í fimm ár frá afhendingu og í vissum tilvikum sex ár .
    Umræddur tveggja ára tilkynningarfrestur líkist venjulegum fyrningarfresti í því að krafa kaupanda fellur alveg niður þegar liðinn er ákveðinn tími, óháð öðrum aðstæðum. Það er þetta sem greinir hinn fortakslausa tveggja ára frest frá hinum afstæða tilkynningarfresti, en þegar um hann er að ræða fer lengd frestsins m.a. eftir huglægum atriðum sem varða aðila kaupsamnings.
    Í 2. mgr. er tilkynningarfresturinn tvö ár og byrjar hann að líða þegar kaupandi veitir hlutnum viðtöku. Hér er upphaf frestsins samkvæmt orðalagi ákvæðisins miðað við það tímamark þegar kaupandi veitir hlutnum viðtöku, en hvorki afhendingu söluhlutar né það tímamark þegar áhættan flyst yfir til kaupanda. Yfirleitt mundi hér samt sem áður vera um sama tímamark að ræða. Í þessu kemur fram að fresturinn byrjar ekki að líða fyrr en kaupandi hefur átt þess kost að rannsaka hvort gallar voru á söluhlut eða ekki.
     Frestir skv. 1. og 2. mgr. líða samtímis. Krafa vegna gallans fellur brott þótt aðeins annar þeirra sé liðinn. Sjaldgæft er að afstæði fresturinn geti orðið tvö ár og þess vegna er krafan oftast fallin niður áður en tveggja ára tímamarkinu er náð. Þetta þarf þó ekki að gilda þegar um leynda galla er að ræða. Hins vegar glatast krafan í öllum tilvikum þegar tvö ár eru liðin frá afhendingu söluhlutarins.
     Rétt er að taka fram að hafi afhending að nýju í skilningi 36. gr. frumvarpsins átt sér stað byrjar nýr tveggja ára frestur að líða frá því tímamarki er hinum nýja hlut var veitt viðtaka.
    Álitamál er hvernig líta ber á tilkynningu sem berst of seint þegar svo stendur á að seljandinn hefur byrjað samningaviðræður við kaupandann vegna galla án þess að gera fyrirvara um tilkynningarskortinn. Tilhneiging er til þess að líta svo á að seljandinn glati ekki rétti sínum til að bera fyrir sig galla við þetta eitt þótt það geti valdið vafa í ákveðnum tilvikum.
    Í síðari málslið 2. mgr. kemur fram að tveggja ára fresturinn á ekki við þegar seljandinn hefur í ábyrgðaryfirlýsingu eða öðrum samningi tekið á sig ábyrgð vegna galla í lengri tíma en tvö ár. Síðari málsliður 2. mgr. 32. gr. hefur m.a. þá þýðingu að hafi seljandi ábyrgst söluhlut í lengri tíma en tvö ár felur það einnig í sér að tilkynningarfresturinn verður lengri þótt ekkert segi berum orðum um hann í samningnum sjálfum. Það ræðst af túlkun ábyrgðaryfirlýsingar hvort tilkynningarfresturinn fellur niður samtíms því að ábyrgðin fellur úr gildi eða hvort hann fellur ekki úr gildi fyrr en liðinn er hæfilegur tími frá lokum ábyrgðartímabilsins. Ekki er unnt að setja fram neina löglíkindareglu hvað varðar seinni kostinn. Það fer eftir túlkun samningsins hvort seljandi telst hafa tekið á sig ábyrgð á göllum í lengri tíma og einnig um hvers konar ábyrgð er að ræða.
    Í vissum tilvikum er unnt að túlka yfirlýsingu um ábyrgð þannig að hún nái einnig til þess að söluhlutur starfi rétt, þannig að seljandinn teljist hafa tekið á sig ábyrgð á vissum ágöllum á ábyrgðartímanum sem ekki er beinlínis hægt að rekja til galla á söluhlutnum sjálfum. Yfirlýsingar, sem seljandi hefur gefið í sambandi við söluhlut, geta haft sérstaka þýðingu í þessu sambandi þegar um er að ræða hluti sem augljóslega eiga að endast lengi. Upplýsingar seljanda um endingartíma hlutar geta verið þannig að í þeim felist ábyrgð á hinum tilgreinda endingartíma. Þó er það svo að ekki má túlka allar yfirlýsingar seljanda um endingu sem ábyrgðaryfirlýsingu af hans hálfu. Ef um er að ræða almennar upplýsingar um endingu er ekki unnt að túlka þær sem sérstaka ábyrgðaryfirlýsingu, en að sjálfsögðu er þetta m.a. komið undir því hvernig orð hafa fallið milli samningsaðila og hvaða væntingar seljanda mátti vera ljóst að kaupandi hefði í þessu sambandi. Í vissum tilvikum er ekki óhugsandi að framferði seljanda teljist vera andstætt heiðarleika og góðri trú, þannig að fresturinn lengist samkvæmt ákvæðum 33. gr.
    Við umræður um frumvarpið í efnahags- og viðskiptanefnd á 123. löggjafarþingi kom fram eindregin ósk um að tilkynningarfrestur skyldi vera lengri en tvö ár þegar um byggingarefni væri að ræða. Í 3. mgr. er því nú lagt til að tilkynningarfrestur skuli í slíkum tilvikum vera fimm ár.

Um 33. gr.

    Í frumvarpsgreininni segir að þrátt fyrir ákvæði 31. og 32. gr. geti kaupandi borið fyrir sig galla ef seljandinn hefur sýnt af sér vítavert gáleysi eða framferði hans er á annan hátt ekki í samræmi við heiðarleika og góða trú. Í gildandi lögum eru sambærileg ákvæði í 47. gr. (rannsókn á göllum) og 53. og 54. gr. (tilkynningarfrestir). Í gildandi lögum eru skilyrðin þó nokkuð ólík. Þannig er stundum miðað við svik og stundum vítavert gáleysi. Ákvæði 33. gr. frumvarpsins felur hins vegar í sér sameiginleg skilyrði varðandi vanefndarúrræði og rýmkar rétt kaupanda nokkuð. Frumvarpsgreinin er svipaðs efnis og 40. gr. SÞ-samningsins, sbr. þó 97. gr. frumvarpsins.
    Ákvæðið felur í sér undantekningu sem varðar afleiðingu þess að ekki fór fram rannsókn á söluhlut (31. gr.) eða ekki var tilkynnt um galla í tíma (32. gr.) þegar þau skilyrði eru fyrir hendi að seljandi hafi sýnt af sér vítavert gáleysi eða framferði hans er að öðru leyti ekki í samræmi við heiðarleika og góða trú.
    Sú háttsemi, sem talin er ámælisverð, verður að tengjast meintum galla á söluhlut samkvæmt ákvæðinu. Því skiptir ekki máli þótt seljandi hafi að öðru leyti sýnt af sér vítavert gáleysi eða háttsemi sem fer í bága við heiðarleika og góða trú.
    Ákvæðið nær einkum yfir það tilvik sem nefnt er í 40. gr. SÞ-samningsins, þ.e. galla sem rekja má til atvika sem seljandinn vissi um eða gat ekki verið ómeðvitaður um en skýrði kaupanda ekki frá. Sem dæmi um þetta má nefna þegar seljandi bifreiðar upplýsir ekki að bifreiðin hafi áður skemmst mikið í árekstri ef einmitt það atriði skiptir máli við mat á gallanum. Sama gildir ef seljandi selur framleiðanda efni sem hann veit að ekki er unnt að nota við þá framleiðslu sem kaupandi stundar.
    Ákvæði 33. gr. felur það ekki í sér að kaupandi geti dregið von úr viti að tilkynna um þá galla sem hann veit um. Ef kaupandinn hefur dregið það mjög lengi stendur 33. gr. ekki í vegi fyrir því að hann geti glatað rétti til þess að bera fyrir sig galla á grundvelli almennra tómlætis- og fyrningarreglna

Um 34. gr.

    Ákvæði þetta er sama efnis og 2. og 3. mgr. 46. gr. SÞ-samningsins, sbr. og 28. gr. hans. Í gildandi lögum er sambærilegt ákvæði í 43. gr. sem tekur þó aðeins til tegundar ákveðinna greiðslna, sbr. orðalagið „eða heimtað aðra hluti ógallaða í hinna stað“ í 1. mgr. og orðalagið „né annarra hluta krafist í staðinn“ í 2. mgr.
    Í 1. mgr. frumvarpsgreinarinnar er mælt fyrir um rétt kaupanda til að krefjast þess að seljandi bæti úr galla, t.d. með viðgerð. Úrbætur geta þó líka farið fram með þeim hætti að afhentir eru þeir fylgihlutir sem vantar með söluhlut. Kaupandi á aðeins rétt á því að úrbæturnar svari til samningsskilmálanna. Hann getur því ekki krafist nýrrar vélar frá verksmiðju í gamla bifreið í stað þeirrar sem reyndist ónýt.
    Kaupandi getur krafist úrbóta án tillits til þess hvers eðlis gallinn er eða hvort hann er verulegur eða ekki. Ákvæðið á ekki hvað síst við um minni háttar galla á söluhlut þar sem viðgerð er oft einfaldasta lausnin og á margan hátt erfiðara fyrir kaupanda að leita annarra vanefndaúrræða. Þetta á t.d. við um rafmagnslampa, sem kaupandi hefur fest kaup á, þegar rafmagnssnúran reynist gölluð. Úrbætur samkvæmt ákvæðinu eru á kostnað seljanda. Í því felst að seljandi ber kostnað af sjálfum úrbótunum og nauðsynlegum kostnaði af sendingu hlutarins.
    Ábyrgð seljanda samkvæmt ákvæðinu er hrein hlutlæg ábyrgð með hliðstæðum hætti og gildir um afslátt skv. 38. gr. frumvarpsins. Kosturinn við hlutlæga ábyrgð er sá að seljandi getur ekki borið fyrir sig vítaleysisástæður þær, sem nefndar eru í 27. gr. frumvarpsins, eins og vera mundi ef hann væri sóttur til greiðslu skaðabóta.
    Ef úrbætur eiga að fara fram hjá kaupanda ber seljandanum að standa straum af ferðakostnaði sínum og starfsmanna sinna í því sambandi. Þá verður seljandinn og að bæta óhjákvæmileg útgjöld sem kaupandinn hefur haft af úrbótum, svo sem sendingarkostnað og símakostnað, ef því er að skipta. Einnig getur komið til álita að seljandi verði að bæta leigu af öðrum hlut meðan söluhlutur er í viðgerð. Seljandi ber þó ekki ábyrgð á þeim kostnaði sem kaupandi hefur af því að rannsaka söluhlut, sbr. 31. gr. Ef sérstök rannsókn er nauðsynleg til þess að ganga úr skugga um hve gallarnir eru miklir getur kaupandi e.t.v. krafið seljanda um bætur af því tilefni samkvæmt ákvæði 40. gr. Kaupanda ber af sinni hálfu að aðstoða seljanda með sanngjörnum hætti við úrbæturnar, t.d. með því að sjá um að senda hlut til seljanda ef eftir því er óskað. Á kaupanda hvílir þó ekki skylda til þess að leggja út fyrir sendingarkostnaði, en í framkvæmd mun hann án efa oftast gera það og krefja síðan seljandann um endurgreiðslu. Ef um er að ræða kaup á varningi sem keyptur er af seljanda í næsta nágrenni kaupanda er yfirleitt sanngjarnt að kaupandinn sjái um að koma hlutnum til seljanda og sækja hann þangað að úrbótum loknum.
    Skilyrði þess að kaupandi geti krafist úrbóta er að þær geti farið fram án þess að valda seljanda ósanngjörnum kostnaði eða óhagræði. Hvað telst ósanngjarn kostnaður og óhagræði í þessu sambandi ræðst af heildarmati á aðstæðum. Vissulega er hér um matskennda viðmiðun að ræða, en hún er þó ekki frábrugðin viðmiðun í ýmsum öðrum greinum frumvarpsins, t.d. varðandi mat á sanngjörnum tíma til tilkynninga og hvað teljist verulegar vanefndir, en að því hefur áður verið vikið. Er erfitt að orða reglu um þetta efni með nákvæmari hætti, þannig að fyllstu sanngirni sé gætt í öllum þeim tilvikum sem að höndum getur borið. Í framkvæmd ber þó við túlkun þessa ákvæðis að taka tillit til ákvæðis í 3. gr. (2) tilskipunar nr. 99/44/EB, um tilteknar hliðar á sölu vöru til neytenda og ábyrgðaryfirlýsinga í því sambandi, sbr. einnig athugasemdir við 36. gr. frumvarpsins.
    Skylda seljanda til þess að bæta úr galla ræðst af tæknilegum og framkvæmdatengdum þáttum og getur bæði eðli gallans, söluhluturinn sjálfur og sérþekking seljanda skipt máli í því sambandi. Seljandi í atvinnurekstri hefur oft yfir að ráða eigin tólum og tækjum sem notuð eru til viðgerða og á slíkum aðila hvílir þá eðli málsins samkvæmt ríkari skylda til úrbóta en öðrum seljendum. Það er á hinn bóginn ekkert skilyrði fyrir úrbótaskyldu seljanda að hann hafi yfir slíkum tækjakosti að ráða að því þó tilskildu að hann geti fengið viðgerð eða úrbætur annars staðar. Gallinn getur t.d. verið þess eðlis að auðvelt sé að bæta úr honum án nokkurrar sérþekkingar eða auðvelt sé fyrir seljanda að fá aðra til þess að bæta úr galla, t.d. með viðgerð. Svo einfalt dæmi sé tekið má nefna það þegar einstaklingur selur bíl ásamt eðlilegum fylgihlutum, en bíllinn er afhentur án þess að varadekkið fylgi með. Ef varadekkið er heima hjá seljanda er enginn vafi á því að seljanda ber að bæta úr gallanum og þar sem hér er um gjaldgenga verslunarvöru að ræða sem auðvelt er að útvega annars staðar, t.d. hjá bifreiðaumboði, ber seljanda að kaupa sambærilegt varadekk ef það gamla er týnt. Í ýmsum tilvikum af þessum toga getur það verið einfaldara og hagkvæmara fyrir kaupandann að bæta úr gallanum sjálfur með því að kaupa það sem á vantar og krefja síðan seljandann um skaðabætur vegna þess kostnaðar sem hann hefur af þessu haft.
    Þótt í sjálfu sér megi bæta úr galla með viðgerð getur kostnaðurinn sem er því samfara verið svo mikill að hann verði ekki lagður á seljandann. Það gæti t.d. átt við þegar kaupandinn er búsettur erlendis og seljandinn yrði að senda starfsmenn sína þangað til viðgerðar. Oft verður einnig að líta til kostnaðar af viðgerð samanborið við söluverð hlutarins. Af þessum sökum verður viðgerð oft óhóflega kostnaðarsöm miðað við verð nýs hlutar af sömu tegund. Þetta á við um margar vörutegundir sem ætlaðar eru til daglegrar notkunar. Sú staðreynd að kaupandi bjó á sama stað og seljandi þegar kaup áttu sér stað en kaupandinn flytur eftir kaup hefur enga þýðingu í þessu sambandi og leiðir því ekki til ríkari úrbótaskyldu en ella af hálfu seljanda. Skylda hans til úrbóta í slíkum tilvikum ræðst af heildarmati á því hvort kostnaður og óhagræði af úrbótum telst ósanngjarnt. Með sama hætti getur seljandi losnað undan úrbótaskyldunni ef úrbætur krefjast óvenju mikillar vinnu við að setja hlutinn upp og taka hann niður eða gera við hann.
    Á hinn bóginn losnar seljandinn ekki, án þess að annað og meira komi til, undan úrbótaskyldunni við það eitt að það er kostnaðarsamt að útvega varahluti og fylgifé sem átti að fylgja með samkvæmt samningnum. Ef samningur gerir ráð fyrir því að fjórir vetrarhjólbarðar fylgi seldum bíl en bíllinn er afhentur án þess að hjólbarðarnir fylgi getur seljandinn ekki neitað að útvega hjólbarðana af þeirri ástæðu einni að þeir eru dýrir í innkaupum. Seljandinn getur samkvæmt þessu ekki komið sér hjá kostnaði sem hann í öllum tilvikum hefði þurft að bera til þess að hlutur yrði afhentur gallalaus. Ef ráð var fyrir því gert í samningi að fjórir notaðir vetrarhjólbarðar skyldu fylgja með við sölu bílsins er seljandinn ekki skyldugur til þess að útvega fjóra nýja hjólbarða til réttra efnda á samningnum. Ef ekki er unnt að útvega fjóra hjólbarða í því ástandi sem um var samið verður kaupandinn að láta sér nægja skaðabætur eða afslátt.
    Atvik geta verið með þeim hætti að úrbætur á ákveðnu tímamarki hafi í för með sér óhæfilegan kostnað eða óhagræði fyrir seljandann ef bæta á úr strax eða mjög fljótt. Þannig getur það t.d. verið þegar þörf er á viðgerð utan venjulegs verslunartíma, eða þar sem söluhlutur er tímabundið fjarri atvinnustöð seljanda. Raunhæft dæmi um þetta er söluhlutur sem eðli sínu samkvæmt er ætlaður til nota á ákveðnum stöðum eða á ferðalögum,eins og algengt er með t.d. bíla og báta. Í þessum tilvikum getur seljandinn ekki skilmálalaust hafnað úrbótum, en hann getur eftir atvikum farið fram á frest eða krafist þess að hluturinn sé fyrir reikning kaupanda fluttur á einhvern þann stað þar sem hentugra er að gera við eða bæta úr á annan hátt.
    
Í 2. málsl. 1. mgr. 34. gr. frumvarpsins kemur fram sú regla að seljandi getur boðið fram nýja greiðslu ef kaupandi setur fram kröfu um úrbætur. Þetta gildir án tillits til þess hvort skilyrði 1. mgr. 34. gr. eru fyrir hendi eða ekki, en hins vegar verða skilyrði 36. gr. um heimild seljanda til afhendingar að nýju að vera fyrir hendi. Oft er mun auðveldara fyrir seljanda að afhenda nýjan hlut en að gera við þann gallaða. Þetta á sérstaklega við ef viðgerðarkostnaður er hlutfallslega hár miðað við verð söluhlutar.
    Í 2. mgr. 34. gr. er fjallað um rétt kaupanda til að krefjast nýrrar afhendingar. Meginskilyrðið er að galli á söluhlut sé verulegur. Litið er svo á að almennt sé þetta vanefndarúrræði þungbærara fyrir seljanda en viðgerð eða aðrar úrbætur og af þeim sökum eru skilyrðin strangari. Um hugtakið verulegar vanefndir má vísa til þess sem segir í athugasemdum við 94. gr. frumvarpsins, sbr. einnig athugasemdir við 25. gr. þess. Hvort galli teljist verulegur eða ekki ber að meta í hverju tilviki. Skiptir m.a. máli í því sambandi hvaða þýðingu gallinn hafði hlutlægt séð fyrir kaupanda sjálfan. Einnig hefur það þýðingu hvort seljandi sá eða mátti sjá að gallinn var verulegur, sbr. 94. gr.
    Samkvæmt þessu verður í fyrsta lagi að miða við þá vitneskju sem seljandi hafði um aðstæður kaupanda eða þá vitneskju sem hann mátti hafa um þetta atriði skv. 94. gr. frumvarpsins. Í öðru lagi verður að hafa í huga hvaða möguleikar voru til úrbóta á hinum gallaða söluhlut og við pöntunarkaup verður auk þess að taka mið af því hvort seljandi sitji eftir atvikum uppi með ófullgerðan hlut sem hann getur ekki losnað við. Við slíkar aðstæður verður að taka aukið tillit til möguleikans á að bæta úr.
    Í 2. málsl. 2. mgr. 34. gr. kemur fram að regla 1. málsl. eigi ekki við ef slík hindrun er til staðar sem nefnd er í 23. gr. Skyldan til að afhenda nýjan söluhlut er því takmörkuð á sama hátt og skyldan til að efna kaupsamning samkvæmt aðalefni sínu. Sem dæmi um erfiðleika við að afhenda nýjan hlut má nefna galla í vöruframleiðslu fyrirtækis sem varðar ekki aðeins hið selda heldur alla framleiðsluna. Tilvísunin til 23. gr. frumvarpsins felur það m.a. í sér að greinin á við þegar óhagræði eða kostnaður seljanda við að afhenda nýja hluti er í verulegu ósamræmi við hagsmuni kaupanda af réttum efndum. Þetta getur t.d. átt við ef krafist er afhendingar á gamalli árgerð hlutar sem hætt er að framleiða.
    Í núgildandi lögum er aðeins unnt að krefjast afhendingar að nýju þegar um er að ræða hluti sem tilgreindir eru eftir tegund, sbr. 42. og 43. gr. Í frumvarpinu er ekki gerður greinarmunur á kaupum um einstaklega ákveðinn hlut og hluti ákveðna eftir tegund. Í 3. málsl. 2. mgr. 34. gr. frumvarpsins er þó að finna undantekningu frá þessu, en þar er gert ráð fyrir því að ekki sé unnt að krefjast afhendingar að nýju að því er varðar einstaklega ákveðinn hlut sem er þannig, þ.e. hefur slíka eiginleika að ekki er með sanngirni unnt að krefjast þess út frá væntingum aðila að hann verði bættur með öðrum hlut. Þetta ákvæði mun helst hafa þýðingu þegar keyptir eru gamlir hlutir, en þeir eru oft þannig að ekki er auðvelt að bæta þá með öðrum hlut. Sem dæmi um þetta má nefna hest sem ætlaður er til ákveðinnar notkunar. Hér mundi það að jafnaði vera forsenda aðila að aðeins væri afhentur hestur sem gæti fullnægt tilgreindum þörfum. Ákvæði þetta gæti einnig átt við um sölu gamalla bifreiða. Að jafnaði er ekki unnt að krefjast afhendingar annarrar gamallar bifreiðar með hliðstæðum eiginleikum. Hins vegar á annað við um nýja staðlaða hluti sem mikið er framleitt af.
    Í 2. mgr. 34. gr. er ekki tekin afstaða til þess hver skuli bera kostnað af afhendingu nýrra hluta. Hins vegar er hér gert ráð fyrir því að seljandi beri þennan kostnað. Það er forsenda afhendingarinnar að kaupandi skili gallaða hlutnum. Hér ber þó að hafa í huga 64.–66. gr. frumvarpsins. Ekki er heldur tekin afstaða til þess hver beri áhættuna af því að hlutur farist af tilviljun við sendingu nýs hlutar. Að því er varðar seinni afhendinguna gildir 13. gr. beint. Hins vegar eru rök til þess að seljandi sem hefur vanefnt kaupsamninginn beri áhættuna af því að gamli hluturinn, sem skilað er til hans, farist af hendingu.
    Í 3. mgr. 34. gr. er fjallað um bótarétt kaupanda ef seljandi fullnægir ekki skyldum sínum skv. 1. og 2. mgr. Um er að ræða skaðabætur fyrir eðlileg útgjöld við að fá bætt úr galla. Hér er átt við kostnað við sjálfar úrbæturnar og t.d. kostnað við flutninga sem reynst hafa nauðsynlegir. Hafi kaupandi látið fara fram viðgerð sem reynist óþarflega dýr, eða hún reynist óforsvaranleg, ber seljandi ekki ábyrgð á þeim kostnaði sem af því leiðir. Hann á aðeins rétt á skaðabótum sem geta svarað til venjulegs kostnaðar. Í því sambandi ber einnig að hafa í huga að kostnaður við viðgerð má ekki fara fram úr því sem telja má eðlilegt miðað við verðgildi hlutarins. Bótaskilyrðin eru eingöngu þau að seljandi hafi ekki fullnægt þeim skyldum sínum að bæta úr eða afhenda nýja hluti.

Um 35. gr.

    Greinin svarar til 2. málsl. 52. gr. gildandi laga þar sem segir að hafi kaupandi orðið þess var að hlutnum er áfátt, eða hann hefði átt að verða þess var og hann skýrir eigi seljanda frá, svo sem fyrir er mælt í ákvæðinu, geti hann eigi síðar borið það fyrir sig að hlutnum hafi verið áfátt. Sambærilegar reglur og fram koma í frumvarpsgreininni eru í 2. og 3. mgr. 46. gr. SÞ-samningsins.
    Í 1. mgr. frumvarpsgreinarinnar kemur fram að kaupandinn verður að tilkynna um kröfu sína varðandi úrbætur eða afhendingu að nýju, annaðhvort samtímis tilkynningu skv. 32. gr. eða innan sanngjarns frests þar á eftir. Hér er því um tvenns konar viðmiðunarmörk að ræða. Skilyrðum 1. mgr. 35. gr. er í fyrsta lagi fullnægt ef kaupandi tilkynnir um kröfu sína um úrbætur eða afhendingu að nýju ásamt almennri tilkynningu skv. 32. gr. Tilkynningarfresturinn er í því tilviki „innan hæfilegs tíma“ eftir að kaupandi varð gallanna var eða hefði átt að verða þeirra var. Í annan stað fullnægir kaupandi skilyrðum 1. mgr. 35. gr. ef hann tilkynnir „innan sanngjarns frests“ eftir að fresti lauk skv. 32. gr. Hér er því um að ræða viðbótarfrest sem byrjar að líða eftir að tilkynningarfrestur skv. 32. gr. rann út.
    Rétt eins og varðandi tilkynningu skv. 32. gr. er það seljandinn sem ber áhættuna af því að tilkynningin komi ekki fram, sbr. 82. gr.
    Meta verður út frá aðstæðum í hverju tilviki hvað telst innan „sanngjarns frests“ í skilningi ákvæðisins, sbr. og athugasemdir við 1. mgr. 32. gr. Til þess er þó að líta að það eru nokkuð aðrar ástæður sem réttlæta viðbótarfrestinn í 1. mgr. 35. gr. en frestinn skv. 32. gr. og því þarf hann ekki nauðsynlega að vera jafnlangur og frestur skv. 32. gr. Tilgangur viðbótarfrestsins er sá að veita kaupanda ákveðið svigrúm til að meta hvers konar vanefndaúrræði heppilegast er fyrir hann að bera fyrir sig. Viðbótarfresturinn er við það miðaður að tilkynning skv. 32. gr. hafi þegar verið send og þess vegna á viðbótarfresturinn ekki að vera allt of langur. Á hinn bóginn verður að hafa í huga að seljandinn hefur þegar fengið tilkynningu skv. 32. gr. og má hann því af þeim sökum búast við því að vanefndakröfur geti komið fram.
    Annar málsliður 1. mgr. er orðaður á svipaðan hátt og 33. gr. og vísast til þess sem segir um vítavert gáleysi og heiðarleika og góða trú í skýringum við þá grein.
    Ákvæði 2. mgr. 35. gr. á einungis við um neytendakaup og því verður beitt þegar seljandi hefur samið við annan mann um að bæta úr galla á söluhlut. Ákvæðið svarar til 2. málsl. 3. mgr. 32. gr. og vísast um skýringar til athugasemda við þá grein.

Um 36. gr.

    Í gildandi lögum er fjallað um heimildir seljanda til úrbóta í 49. gr., en þar segir að bjóðist seljandi til að bæta úr göllum sem eru á seldum hlut, eða láta annan hlut ógallaðan koma í hans stað, verði kaupandinn að sætta sig við það ef það verður gert áður en frestur sá er úti sem hann var skyldur til að bíða afhendingar, sbr. 21. gr., enda sé það augljóst að hann hafi engan kostnað eða óhagræði af þessu. Frumvarpsgreinin fjallar um svipað efni og svarar til 48. gr. SÞ-samningsins.
    Ákvæði 36. gr. kveður á um rétt seljanda til þess að bæta úr galla á söluhlut eða afhenda aðra hluti í stað þess gallaða. Þetta ákvæði ásamt ákvæðinu í 34. gr. gerir þau úrræði að bæta úr söluhlut eða afhenda hlut á ný að sérstöku úrræði, sem bæði seljandi og kaupandi eiga rétt á að grípa til.
    Í 1. mgr. frumvarpsgreinarinnar kemur fram meginreglan um rétt seljanda til þess að bæta úr galla eða afhenda annan hlut. Skilyrði þessa réttar er í fyrsta lagi það að þetta sé gert á kostnað seljanda. Í því felst að seljandinn á að bera allan kostnað sem úrbætur hafa í för með sér, þ.m.t. flutningskostnað, sbr. og athugasemdir við 1. mgr. 34. gr. Þessi regla er einnig í samræmi við 3. gr. (2) í tilskipun 99/44/EB en þar er kveðið á um rétt neytanda til að fá vöru skipt eða bætt úr galla honum að kostnaðarlausu. Útgjöld vegna nauðsynlegrar leigu á öðrum hlutum, meðan hið selda er í viðgerð, falla einnig hér undir. Hins vegar fellur ekki sá kostnaður eða útgjöld undir ákvæðið sem kann að leiða af því að kaupandi verður fyrir framleiðslutjóni eða hann missir af samningi við þriðja mann. Í þessum tilvikum yrði kaupandi að sækja skaðabætur eftir ákvæðum 40. gr. Þegar afhending að nýju á sér stað ber seljanda að bæta kostnað, sem er því samfara að útvega þarf aðra hluti ef seljandi hyggst afhenda þá í stað þeirra sem afhentir voru í upphafi.
    Í öðru lagi er það skilyrði að úrbætur geti átt sér stað án þess að kaupandi bíði verulegt óhagræði af. Slíkt óhagræði getur m.a. lýst sér í því að kaupandinn geti ekki án söluhlutar verið meðan úrbætur eiga sér stað og þess er ekki sanngjarn kostur að útvega annan hlut á meðan. Þetta getur t.d. átt við þegar gallinn snýst um öryggisatriði, t.d. ef öryggisgrind við stiga eða op reynist gölluð. Einnig getur verið að hið verulega óhagræði lýsi sér í því að framleiðsluröskun verði hjá kaupanda, t.d. ef úrbætur seljanda mundu leiða til þess að framleiðslu seinkar eða hún stöðvast, eða kaupandi missir af mikilvægum samningum við þriðja mann. Eins getur hugsast að úrbætur taki svo langan tíma að það fari fram úr því sem teldist verulegur dráttur á afhendingu söluhlutar. Kaupandinn getur einnig hafnað úrbótum ef það er fyrir fram augljóst að tilraun til úrbóta er dæmd til þess að mistakast.
    Þótt seljandinn hafi áður bætt úr göllum á söluhlut veitir það ekki kaupandanum heimild til þess að hafna úrbótum af hálfu seljanda á göllum sem síðar koma í ljós. Ef hins vegar um mjög mörg tilvik er að ræða þar sem úrbætur hafa verið nauðsynlegar getur óhagræði kaupandans á heildina litið verið svo mikið að hann hafi réttmæta ástæðu til að hafna úrbótum.
    Þriðja skilyrðið fyrir beitingu ákvæðisins er það að kaupandi eigi ekki á hættu að fá ekki bætt útgjöld sín hjá seljandanum. Reynt getur á þetta skilyrði þegar kaupandi þarf að leggja út fjármuni vegna fyrirhugaðra úrbóta eða nýrrar afhendingar. Ákvæðið felur ekki í sér að kaupandinn geti neitað að leggja út fyrir ákveðnum útgjöldum nema þau séu veruleg. Það gildir hér eins og varðandi 34. gr. að á kaupandanum hvílir ákveðin skylda til að veita seljanda aðstoð, en í því getur m.a. falist að hann verði að leggja út fjármuni. Ef hann á t.d. að sjá um að senda hlutinn til seljanda til viðgerðar getur það oft því aðeins gerst að kaupandinn leggi út fyrir flutningskostnaði. Einnig getur verið að kaupandinn verði að leigja annan hlut meðan söluhlutur er til viðgerðar og verður kaupandinn þá að leggja út fyrir leigukostnaði. Enn eitt dæmi um þessar skyldur má nefna það þegar kaupandi verður að þola óhagræðið af því að seljandi taki gallaða uppþvottavél og fari með hana á viðgerðarverkstæði sitt og setji hana síðan upp aftur hjá kaupanda að viðgerð lokinni. Þegar um er að ræða minni hluti, svo sem myndavélar, rakvélar, skó o.fl., verður kaupandi samkvæmt þessu að færa hlutina á verkstæði seljanda ef seljandi krefst þess.
    Við mat á því skilyrði, sem hér um ræðir, þ.e. áhættu kaupanda af því að fá ekki bætt útgjöld sín hjá seljanda, verður m.a. að líta til fjarlægðar milli aðila, tegundar hlutarins og þyngdar hans og þess kostnaðar, sem um er að ræða.
    Ef fullnægt er skilyrðum skv. 1. mgr. 36. gr. getur seljandinn valið um hvort hann bætir úr galla, t.d. með viðgerð, eða afhendir annan hlut ógallaðan í stað söluhlutar. Kaupandinn getur því ekki mótmælt úrbótum og krafist afhendingar að nýju í þeirra stað, nema því aðeins að úrbætur hafi verulegt óhagræði í för með sér fyrir hann.
    Sambærilegt ákvæði og 2. mgr. 36. gr. er í 2. og 3. mgr. 48. gr. SÞ-samningsins. Í ákvæðinu felst að spyrji seljandi kaupanda hvort hann samþykki úrbætur eða afhendingu að nýju verður kaupandinn að taka afstöðu til slíkrar fyrirspurnar. Sama gildir ef seljandinn skýrir kaupanda frá að hann vilji bæta úr eða afhenda að nýju. Það er skilyrði að seljandinn tilgreini þann tíma þegar úrbætur eða afhending að nýju eiga að fara fram og að hann geti lokið aðgerðum sínum á þeim tíma sem hann hefur tiltekið. Svari kaupandinn ekki seljanda áður en hæfilegur tími er liðinn frá því að hann fékk slíka vitneskju getur seljandi gert nauðsynlegar ráðstafanir innan þess tíma sem nefndur var.
    Ákvæðið er orðað með svipuðum hætti og 24. gr. frumvarpsins og það ber að skilja á sama hátt, sbr. og athugasemdir við þá grein.
    Í 3. mgr. frumvarpsgreinarinnar er um það tilvik fjallað þegar kaupandinn hefur sjálfur reynt að fá bætt úr galla án þess að gefa seljandanum tækifæri til þess að nýta rétt sinn skv. 1. mgr. Það er grundvallaratriði í þessu sambandi að komist kaupandinn að því að söluhlutur sé haldinn galla verður hann að tilkynna seljandanum um það og gefa honum færi á að bæta úr eða afhenda annan hlut. Seljandinn getur sjálfur haft af því hagsmuni að bæta úr eða afhenda annan hlut í því skyni að komast hjá eða takmarka skaðabótakröfu kaupandans. Ef kaupandinn bætir sjálfur úr án þess að taka tillit til þessa réttar seljanda getur komið til greina að lækka skaðabótakröfu hans á þeirri forsendu að hann hafi ekki takmarkað tjón sitt eins og fyrir er mælt í 70. gr. frumvarpsins.
    Í vissum tilvikum getur verið ósanngjarnt að ætlast til þess að kaupandinn bíði eftir því að seljandinn bæti úr galla eða afhendi nýjan hlut og er ákvæði 3. mgr. við þetta miðað. Það getur verið nauðsynlegt að bæta fljótt úr, en erfitt getur reynist að ná í seljandann á þeim stað og tíma sem máli skiptir. Ef um kaup á bíl er að ræða getur það komið fyrir að kaupandinn sé að aka bílnum í útlöndum þegar gallinn kemur í ljós og nauðsynlegt sé að gera við bílinn til þess að ferðinni megi halda áfram. Sama er ef keyptur er bátur sem reynist lekur í fyrstu siglingu. Hér er réttlætanlegt að láta gera við lekann á fyrsta stað þar sem það er unnt. Seljandinn getur ekki í tilvikum sem þessum krafist þess að kaupandinn bíði eftir úrbótum hans eða afhendingu að nýju af hans hálfu. Þessa niðurstöðu má í sjálfu sér einnig leiða af því skilyrði 1. mgr. að úrbætur eða afhending að nýju geti farið fram „án verulegs óhagræðis fyrir kaupanda“. Ákvæði 3. mgr. þjónar þeim tilgangi að taka af öll tvímæli í tilvikum þar sem oft er um vafa að ræða í framkvæmd.
    Í ákvæðinu er ekki fjallað um skaðabætur vegna kostnaðar kaupanda af úrbótum. Álitaefni um skaðabætur af hálfu kaupanda verður því að leysa á grundvelli almennu reglunnar í 40. gr., sbr. 70. gr. frumvarpsins, þó þannig að seljandi getur ekki krafist lækkunar bótanna skv. 70. gr. ef það var ósanngjarnt að krefjast þess að kaupandi biði eftir því að seljandi bætti úr göllunum.

Um 37. gr.

    Í gildandi lögum er ekki sambærilegt ákvæði og frumvarpsgrein þessi, en 1. mgr. 42. gr., 1. mgr. 43. gr. og 49. gr. má túlka á þann veg að þær leiði til svipaðrar niðurstöðu og hún. Greinin á sér ekki nákvæma fyrirmynd í SÞ-samningnum en svipaðar reglur og fram koma í greininni má leiða af ákvæðum 49.–50. gr. hans.
    Í frumvarpsgreininni ræðir um heimildir kaupanda þegar ekki er bætt úr galla með úrbótum eða afhendingu að nýju innan hæfilegs tíma frá því að kaupandi kvartaði yfir galla. Greinin felur ekki í sér tæmandi upptalningu á afleiðingum þess að ekki er orðið við kröfu um að gera við gallaðan söluhlut eða afhenda annan. Kaupandi getur því óháð greininni krafist skaðabóta skv. 1. mgr. 30. gr. Enn fremur er í 38. gr. fjallað um almenn skilyrði þess að unnt sé að krefjast afsláttar og í 39. gr. um skilyrði þess að unnt sé að krefjast riftunar. Þau ákvæði gilda jafnframt ákvæðum 37. gr. Þýðing greinarinnar er umfram allt að taka afstöðu til sambandsins á milli reglnanna um úrbætur og afhendingu að nýju annars vegar og reglnanna um rétt til að krefjast afsláttar eða riftunar hins vegar.
    Skilyrði fyrir beitingu 1. mgr. 37. gr. eru þau að úrbætur eða afhending að nýju hafi ekki komi til álita, eða ekki hafi orðið af þeim innan hæfilegs tíma. Úrræðin hafa í fyrsta lagi ekki komið til álita ef hvorki eru fyrir hendi skilyrði 34. eða 36. gr. og í öðru lagi á hið sama við ef hvorki kaupandi né seljandi óska eftir því að beita þessum réttindum sínum. Síðara skilyrðið, að ekki hafi orðið af úrbótum eða afhendingu að nýju innan hæfilegs tíma, tekur einkum til þeirra tilvika þar sem kaupandi hefur krafist úrbóta eða afhendingar að nýju, en seljandi gerir annaðhvort misheppnaða tilraun til að fullnægja kröfunni eða alls ekki neitt. Í ákvæðinu kemur einnig fram að kaupandi þarf ekki að bíða von úr viti eftir úrbótum eða afhendingu að nýju heldur aðeins í hæfilegan tíma. Hvað telst hæfilegur tími verður að meta með hliðsjón af því hvers konar kaup var um að ræða og tegund gallanna. Seljandi hefur samkvæmt þessu vissan tíma til að undirbúa og framkvæma úrbætur eða afhendingu að nýju. Það leiðir enn fremur af þessu að kaupandi getur krafist afsláttar eða rift kaupunum, jafnvel þótt fyrir liggi að bæta eigi úr göllum á söluhlut eða afhenda annan hlut ef það tekur of langan tíma samkvæmt þeirri viðmiðun sem fram kemur í ákvæðinu.
    Afleiðing þess að ekki er bætt úr eða annar hlutur afhentur þegar skilyrði greinarinnar eru fyrir hendi er sú að kaupandi getur krafist afsláttar eða rift kaupunum. Eins og áður segir er það þó forsenda að skilyrðum 38. eða 39. gr. sé fullnægt. Þetta þýðir að skilyrði afsláttar eru oftast fyrir hendi þar sem unnt er að krefjast hans á hlutlægum forsendum. Þó verður að gera þann fyrirvara að gallinn hafi í raun valdið verðrýrnun hlutarins. Ef um er að ræða riftun eru aðstæður nokkuð öðruvísi því að skilyrði riftunar eru þau að gallinn sé verulegur. Hafi kaupandi krafist úrbóta vegna smávægilegra galla, eins og oft er raunin, er ekki unnt að krefjast riftunar þó að seljandinn sinni ekki slíkri kröfu. Hins vegar getur verið að endurteknar viðgerðir á söluhlut, sem ekki bera árangur, geti í raun bent til þess að galli sé ekki svo óverulegur sem seljandi vill vera láta. Svo sem áður er getið getur kaupandi ávallt krafist skaðabóta að svo miklu leyti sem tjón hans er ekki að fullu bætt með afslættinum, að því tilskildu að skilyrðum 40. gr. sé fullnægt. Í því tilviki getur kaupandi einnig krafist skaðabóta vegna útgjalda sem hann hefur orðið fyrir vegna árangurslausra tilrauna við að fá úrbætur eða aðra hluti afhenta.
    Samkvæmt síðari málslið 1. mgr. á fyrri málsliður ekki við ef kaupandi hefur hafnað úrbótum sem hann var skyldur til að þiggja. Skilyrði fyrir þessu eru þau að seljandi hafi óskað eftir því að fá að laga söluhlut og að skilyrðum 36. gr. hafi að öðru leyti verið fullnægt. Ef kaupandi neitar beiðni seljanda þrátt fyrir þetta getur hann hvorki rift kaupum né krafist afsláttar, jafnvel þótt skilyrðum 38. eða 39. gr. hafi verið fullnægt. Þessi takmörkun kann að virðast ósanngjörn, en á hinn bóginn er augljóst að þegar skilyrði 36. gr. eru fyrir hendi hefur kaupandi möguleika á því að fá ógallaðan hlut, en þeim möguleika hefur hann hins vegar hafnað. Við þær aðstæður er ekki eðlilegt að hann haldi rétti sínum til að krefjast afsláttar eða riftunar. Hér ber þó að taka fram að kaupandi missir ekki rétt sinn til skaðabóta þótt hann hafni úrbótum eða afhendingu að nýju við þessar aðstæður. Hins vegar kunna að vera skilyrði til að lækka bótakröfu hans með hliðsjón af reglu 70. gr.
    Í ákvæði 2. mgr. frumvarpsgreinarinnar felst sérregla sem varðar sölu notaðra hluta á uppboði. Rökin fyrir henni eru þau að hér er um að ræða sérstaka aðferð við sölu þar sem hlutur er venjulega seldur í því ástandi sem hann er og kaupandi ákveður sjálfur að nokkru endurgjaldið fyrir hlutinn.

Um 38. gr.

    Ákvæðið svarar til 50. gr. SÞ-samningsins. Í gildandi lögum eru sambærileg ákvæði í 1. mgr. 42. gr. og 1. mgr. 43. gr. Þótt orðalag og framsetning frumvarpsgreinarinnar sé með nokkuð öðrum hætti en í gildandi lögum hefur það ekki efnisbreytingar í för með sér.
    Í frumvarpsgreininni eru engar takmarkanir á réttinum til þess að krefjast afsláttar að öðru leyti en því að galli þarf að vera til staðar. Meginsjónarmiðið, sem liggur til grundvallar ákvæðinu, er að kaupandinn á ekki að greiða fyrir meira en hann hefur fengið. Um galla er rætt í 17.–21. gr. og um réttarágalla í 41. gr. Þess er ekki krafist samkvæmt ákvæðinu að galli sé verulegur og ákvæðið getur átt við þegar um leyndan galla er að ræða.
    Eins og fram kemur í athugasemdum við 37. gr. felst þýðing hennar fyrst og fremst í því að hún tekur afstöðu til sambandsins milli reglnanna um úrbætur og afhendingu að nýju annars vegar og reglnanna um rétt til þess að krefjast afsláttar eða riftunar hins vegar. Af því leiðir að innan þeirra marka, sem 37. gr. setur, getur kaupandi á grundvelli 38. gr. krafist afsláttar á hlutlægum grunni og óháð því hver orsök gallans er. Það er ekki skilyrði að kaupandi komi fram með sérstaka tilkynningu varðandi afsláttarkröfuna, en krafan er þó háð því að sett sé fram hlutlaus tilkynning skv. 32. gr. frumvarpsins, sbr. einnig 33. gr., 1. mgr. 41. gr. og 91. gr.
    Eins og í gildandi kaupalögum veitir frumvarpsgreinin heimild til þess að krefjast afsláttar af kaupverðinu. Hlutfallið milli hins lækkaða verðs (afsláttarverðsins) og kaupverðsins skal vera hið sama og hlutfallið milli verðmætis hlutarins í gölluðu og umsömdu ástandi. Ef kaupandinn hefur keypt hlutinn undir markaðsverði verður afslátturinn lægri en sem nemur verðmætisrýrnun hlutarins, því að hann reiknast ekki af markaðsvirðinu heldur út frá umsömdu kaupverði. Á sama hátt verður afslátturinn hærri en sem nemur verðmætisrýrnunni ef kaupandinn hefur keypt hlutinn yfir markaðsverði.
    Þegar um er að ræða hluti sem ekki eru ætlaðir til áframhaldandi sölu heldur fyrst og fremst til eigin nota kaupanda getur verið erfitt að staðreyna ákveðið markaðsverð. Verður útreikningur afsláttar þá nokkuð að álitum, m.a. með hliðsjón af þýðingu gallans fyrir kaupanda. Þegar seljandinn hefur ekki gefið kaupandanum réttar upplýsingar um eiginleika söluhlutar, sbr. 18. gr., getur einnig verið nauðsynlegt að ákvarða afslátt að álitum.
    Í gildandi lögum eru ekki afdráttarlaus ákvæði um hvaða tímamark skal leggja til grundvallar við ákvörðun á verðmæti hlutarins. Samkvæmt frumvarpinu er það afhendingartíminn sem miða skal við, þ.e. hinn raunverulegi afhendingartími, en ekki umsaminn afhendingartími ef hann er ekki sá sami.
    Afsláttarkrafa stendur ekki í vegi fyrir því að kaupandinn geti einnig krafist skaðabóta. En þýðingarmikið er í því sambandi að hafa í huga að kaupandinn getur ekki fengið skaðabætur fyrir þann hluta tjóns sem afslátturinn bætir.

Um 39. gr.

    Reglur um riftun vegna galla eru í 1. mgr. 42. gr. og 1. og 2. mgr. 43. gr. gildandi kaupalaga. Sambærilegar reglur og fram koma í frumvarpsgreininni eru í 49. gr. SÞ- samningsins. Í 25.–26. gr. frumvarpsins eru reglur um riftun kaupanda vegna greiðsludráttar af hálfu seljanda og í 54. og 55. gr. eru ákvæði um rétt seljanda til riftunar þegar kaupandi greiðir ekki eða ljær ekki atbeina sinn til kaupanna. Í 2. mgr. 34. gr. er fjallað um skilyrði fyrir því að kaupandi geti krafist úrbóta og nýrrar afhendingar. Skilyrði riftunar þegar afhenda á hið selda í áföngum koma fram í 44. og 62. gr. og í 64.–66. gr. eru reglur um réttaráhrif riftunar og kröfu um skil hlutar í svipuðu ástandi o.fl.
    Í 1. mgr. frumvarpsgreinarinnar kemur fram meginskilyrði riftunar. Framsetningin er sú sama og í ákvæðum frumvarpsins um riftun vegna greiðsludráttar og afhendingu að nýju vegna galla, sbr. 1. mgr. 25. gr. og 2. mgr. 34. gr., og ber að túlka með sama hætti. Vísast því til skýringa í athugasemdum við þær greinar.
    Ákvörðun þess hvort um verulegan galla er að ræða eða ekki verður að byggjast á ákveðnu heildarmati þar sem m.a. verður að líta til þess hvort unnt er að bæta úr gallanum eða ekki. Hér ber einnig að líta til þess tíma og óhagræðis sem kaupandi hefur af úrbótum. Ef seljandi vanrækir úrbætur, eða ekki tekst að bæta úr söluhlut, hefur það þýðingu fyrir heildarmatið. Á það einkum við þegar um er að ræða hluti sem sérstaklega eru búnir til eða útvegaðir kaupanda. Þar sem seljandinn hefur í slíkum kaupum sérstaka hagsmuni af því að kaupandinn veiti söluhlut viðtöku verður mat í þeim efnum hvort um verulegan galla er að ræða heldur strangara í þessum kaupum en ella. Hugtakið „veruleg vanefnd“ er skilgreint í 94. gr. að því er varðar alþjóðleg kaup og í 25. gr. SÞ-samningsins. Túlkun þeirra ákvæða getur haft þýðingu við túlkun 39. gr.
    Ef um er að ræða galla samhliða greiðsludrætti verður að líta til þeirra heildaráhrifa sem slíkt hefur fyrir kaupandann þegar metið er hvort skilyrði riftunar eru fyrir hendi eða ekki. Ef hið selda er samsett úr mörgum einingum ræðst þýðing gallans eða gallanna af heildarmati á því hvaða þýðingu afhending hinna gölluðu vara hafði á kaupin í heild sinni.
    Almennt skiptir ekki máli í tengslum við riftunarréttinn hver er orsök gallans eða þess að úrbætur takast ekki eða eru ekki gerðar. Því geta vanefndir oft verið verulegar þótt þær sé að rekja til atvika sem seljandi fékk engu ráðið um.
    Í 2. mgr. er sérstök regla um tilkynningar vegna riftunar. Riftun er að jafnaði svo afdrifaríkt vanefndaúrræði að sanngjarnt er að mæla fyrir um sérstaka riftunartilkynningu til viðbótar hinni hlutlausu tilkynningu skv. 32. gr. Á þetta í sjálfu sér einnig við í neytendakaupum. Þar verður þó út frá sanngirnissjónarmiðum að beita reglunni með ákveðinni varúð.
    Það er meginregla að upphafstíma tilkynningarfrests verður að miða við það tímamark þegar kaupandinn fékk eða mátti fá vitneskju um gallann. En hafi kaupandinn veitt ákveðinn frest til úrbóta í tengslum við kröfu eða tilkynningu skv. 34. eða 35. gr., eða hafi seljandinn tilgreint ákveðinn tíma til úrbóta í samæmi við 2. mgr. 36. gr., eru það lok þess tímamarks sem úrslitum ráða.
    Hvað telst „hæfilegur tími“ til tilkynningar verður sem endranær að meta með hliðsjón af aðstæðum, sjá t.d. athugasemdir við 29. gr. frumvarpsins. Ákvæði 2. málsl. 2. mgr. er orðað með svipuðum hætti og 33. gr. og 2. mgr. 35. gr. og ber að túlka á sama hátt.

Um 40. gr.

    Í SÞ-samningnum eru reglurnar um skaðabætur vegna galla í 79. gr., sbr. b-lið 1. mgr. og 2. mgr. 45. gr. Í gildandi lögum um lausafjárkaup eru reglur um sama efni í 2. mgr. 42. gr. og 3. mgr. 43. gr.
    Reglurnar um galla gilda einnig um aðra ágalla á efndum af hálfu seljanda, svo langt sem þeir ná, sbr. 2. mgr. 30. gr. Sem dæmi um slíkt má nefna skyldu til að senda vörusendingu, tryggja hana eða merkja, sbr. 8. gr., eða að útbúa nauðsynleg skjöl varðandi hlut, sbr. 95. gr.
    Forsenda þess að galli geti haft þýðingu í sambandi við grein þessa er sú að gallinn sé ekki kaupanda að kenna eða hann stafi af atvikum, sem varða kaupanda, sbr. 1. mgr. 30. gr. Ákvæðin í 40. gr. gilda á sama hátt þegar hið selda er aðeins gallað að hluta til, sbr. 2. mgr. 43. gr., eða þegar aðeins hluti hins selda er afhentur, sbr. 44. gr. Ákvæði 41. gr. gilda um réttarágalla. Ákvæði 40. gr. gilda aðeins um skaðabótaábyrgðina, en í 66.–70. gr. eru ákvæði um fjárhæð og umfang bótanna.
    Eins og fram kemur í almennum athugasemdum eru reglurnar um skaðabótaábyrgð seljanda vegna galla mismunandi eftir því hvers eðlis tjónið er. Í því felst að seljandinn ber svokallaða stjórnunarábyrgð vegna beins tjóns (1. mgr.) og sakarábyrgð vegna óbeins tjóns (2., sbr. 3. mgr.). Í þessu felst m.a. að ekki er um neinar sérreglur að ræða í pöntunarkaupum og tegundarákveðnum kaupum. Þá þykir ekki heldur ástæða til þess að hafa sérstaka reglu um skaðabótaábyrgð vegna brota á upplýsingaskyldu. Sama gildir um mistök eða vanrækslu í sambandi við úrbætur, sbr. þó 3. mgr. 34. gr.
    Í 1. mgr. frumvarpsgreinarinnar kemur fram almenna reglan um stjórnunarábyrgð. Skilyrði þess að seljandi losni úr ábyrgð eru þau sömu og skv. 27. gr. Ákvæðið felur einnig í sér almenna tilvísun til annarra fyrirmæla í 27. og 28. gr. Í því felst m.a. að seljandinn ber ábyrgð á þriðja manni, sem hann hefur falið það verkefni að efna kaupin (2. mgr. 27. gr.); að undanþága frá ábyrgð gildir aðeins meðan hindrun varir (3. mgr. 27. gr.) og að á seljandanum hvílir upplýsingaskylda gagnvart kaupanda um þær hindranir sem standa í vegi fyrir efndum (28. gr.). Vísast um skýringar til athugasemda við þessar greinar.
    Eins og áður segir eru skilyrði þess að seljandinn geti losnað úr ábyrgð þau sömu og skv. 27. gr. Svo sem rætt er um í athugasemdum við 27. gr. verða fjögur skilyrði að vera fyrir hendi til að seljandi geti losnað undan skaðabótaábyrgð. Í fyrsta lagi þarf að vera fyrir hendi hindrun sem veldur gallanum og stendur í vegi fyrir umsömdum efndum. Í öðru lagi þarf hindrunin að vera seljandanum ofviða. Í þriðja lagi þarf hindrunin að vera þess eðlis að ekki sé með sanngirni unnt að ætlast til þess að seljandinn hafi haft hana í huga við samningsgerðina. Í fjórða lagi er það skilyrði að ekki sé unnt að ætlast til þess að seljandinn geti komist hjá eða sigrast á hindruninni.
    Ákvæðið mælir fyrir um það hvernig með skal fara þegar í ljós kemur að söluhlutur, sem afhentur hefur verið, er gallaður. Ef þannig stendur hins vegar á að afhending dregst vegna þess að seljandinn kemst á síðustu stundu að raun um galla sem hann þarf að bæta úr eru það í sjálfu sér reglurnar um skaðabætur vegna greiðsludráttar sem við eiga. En vegna þess hversu reglurnar um skaðabætur vegna galla annars vegar og greiðsludráttar hins vegar eru líkar hefur aðgreining þar á milli ekki raunhæfa þýðingu.
    Það nægir ekki til ábyrgðarleysis samkvæmt ákvæðinu þótt ekki sé unnt að bæta úr gallanum. Þess er krafist að gallann megi rekja til hindrunar sem er seljandanum ofviða, þ.e. hann fær ekki við hana ráðið. Ef hindrunina má rekja til eigin starfsemi seljanda, eða hafi hindrunin tengsl við þá starfsemi, má yfirleitt líta svo á að seljandi beri ábyrgð á henni. Í sumum tilvikum má þó líta öðru vísi á þetta, t.d. ef um bruna er að ræða í fyrirtæki seljanda, sem hann ber ekki ábyrgð á. Sama gildir um sprengingar, verkföll og annað slíkt sem hann telst engu geta ráðið um.
    Ábyrgð seljanda á söluhlut sem afhentur hefur verið er ávallt fyrir hendi þegar gallinn var sjáanlegur við afhendingu, án tillits til þess hver var orsök gallans. Hugsanlegt er þó að gera vissar undantekningar frá þessu ef galli kemur ekki fram á söluhlut fyrr en við afhendinguna eða rétt fyrir afhendingu. Orsök gallans hefur einungis þýðingu þegar um er að ræða leyndan galla. Um ábyrgðarleysi seljanda getur verið að ræða ef orsök gallans stafar af hindrun sem er honum ofviða og ef hann getur ekki bætt úr honum, sbr. skilyrði 1. og 2. mgr. 27. gr. Ef orsakir gallans liggja eða geta legið hjá seljanda verður hann ekki laus úr ábyrgð þótt honum hafi reynst ókleift að átta sig á gallanum. Hann verður einnig bótaskyldur ef unnt var að skipta á hinni gölluðu vöru fyrir ógallaða og einnig ef unnt var að laga gallann, en það var ekki gert.
    Á sérstök álitaefni reynir þegar tegundarákveðinn söluhlutur verður af tilviljun fyrir tjóni sem rekja má til óyfirstíganlegrar hindrunar rétt fyrir afhendingu, t.d. í flutningi til afhendingarstaðar. Seljandinn getur þá staðið frammi fyrir þeirri spurningu hvort hann eigi að afhenda gallaðan hlut eða afhenda hið umsamda of seint þar sem ekki reynist unnt að útvega annan hlut gallalausan í stað söluhlutar. Ef seljandinn velur þann kostinn að afhenda ekki söluhlut getur hann komist hjá ábyrgð vegna óhjákvæmilegrar seinkunar ef ekki er með sanngirni unnt að ætlast til þess af honum að hann hafi mátt búast við þeim atburði sem tjóninu olli, sbr. 27. gr. Í slíkum tilvikum er ekki um neina ábyrgð vegna galla að ræða. Ef seljandinn á hinn bóginn velur þann kostinn að afhenda hlutinn með galla ber hann ábyrgð á gallanum skv. 40. gr. ef unnt er að útvega annan hlut gallalausan. Þetta getur átt við þótt afhending hafi farið fram í samráði við kaupanda. En bæti seljandinn síðar úr galla eða afhendi annan hlut gallalausan má vera að unnt sé að takmarka tjón kaupanda.
    Við sölu á hálftegundarákveðnum hlutum gilda sambærilegar reglur og þegar um hrein tegundarákveðin kaup er að ræða. Í slíkum tilvikum getur seljandinn komist hjá bótaábyrgð vegna tilviljunarkennds tjóns eða eyðileggingar á vörulager þeim þar sem söluhlut er að finna. Sem dæmi má nefna tjón á innpökkuðum ferskvörum sem gert er ráð fyrir að sækja skuli á lager seljandans sjálfs. Tímabundið rafmagnsleysi, sem verður á svæði seljanda nóttina fyrir afhendingu, getur slökkt á kælibúnaði seljanda og valdið skemmdum eða eyðileggingu á vörunni sem ekki kemur í ljós fyrr en eftir að kaupandi hefur veitt þeim viðtöku. Hér gæti seljandinn komist hjá ábyrgð ef ekki var með sanngirni unnt að ætlast til þess af honum að hann viðhefði öryggisráðstafanir vegna slíkra atburða, t.d. með því að hafa vararafstöð eða annan álíka varnarbúnað.
    Þegar um kaup á einstaklega ákveðnum hlut er að ræða, t.d. við kaup á málverki eða tilteknum notuðum bíl, á seljandinn þess ekki kost að bæta úr galla með öðrum söluhlut. Möguleikar hans til þess að komast hjá eða yfirvinna afleiðingar efndahindrana eru því miklu takmarkaðri en þegar um tegundarákveðin kaup er að ræða.
    Leyndur galli, sem er til staðar við samningsgerð, leiðir í einstaklega ákveðnum kaupum almennt til efndahindrana sem seljandinn fær ekki ráðið við. Hér má sem dæmi nefna það tilvik þegar seljandi selur málverk sem er eftir annan málara en samningsaðilar töldu, a.m.k. ef gert er ráð fyrir því að seljandi hafi ekki ábyrgst höfund málverksins sérstaklega. Sama á við um stóðhest sem síðar kemur í ljós að er ófrjór. En hafi gallinn orðið sýnilegur fyrir afhendingu getur seljandinn orðið ábyrgur ef hann átti þess þá kost að bæta úr gallanum. Ef gallinn var sýnilegur við kaupsamningsgerð getur það einnig haft þýðingu í þessu sambandi hvort seljandinn sinnti upplýsingaskyldu sinni eða ekki.
    Ef galli verður á hlut hjá seljanda eftir að samningur var gerður, en áður en hlutur var afhentur, er yfirleitt rétt að gera ráð fyrir því að seljandinn fái ráðið við gallann og orsök hans hvort sem gallinn var sýnilegur eða ekki. Þetta getur þó ekki gilt ef galli verður með einhverjum þeim hætti, sem seljandinn hafði ekki áhrif á, t.d. þegar um tilviljunarkennda ytri ástæðu er að ræða, svo sem eldingu.
    Í pöntunarkaupum eru aðstæður þannig að hvorki söluhlutur né galli eru til staðar þegar samningur er gerður. Því er meginviðmiðunin sú að seljandinn beri ábyrgð á galla sem rekja má til handbragðs og efnis, meðan á gerð hlutar stendur hjá seljanda, hvort heldur sem um hreinan framleiðslugalla er að ræða, hönnunargalla eða galla sem rekja má til lélegrar áætlunargerðar eða skorts á framleiðslueftirliti. Þegar um er að ræða aðra efnisgalla og þess háttar hefur það áhrif hvers eðlis efni er, hvernig þess er aflað og hvaða eftirlitskerfi seljandinn getur notað og honum ber að nota. Ekki er með sanngirni unnt að ætlast til þess að seljandinn beri, án þess að annað og meira komi til, ábyrgð á galla í efni sem kaupandinn hefur lagt til.
    Við sölu notaðra hluta getur í reynd verið erfitt að staðreyna hvort orsök galla rúmist innan þess sem seljandinn fær ráðið við. Leyndir vankantar þurfa þar fyrir utan í slíkum tilvikum ekki endilega að teljast galli í kauparéttarlegum skilningi. Ef um kaup á nokkurra ára gömlum bíl er að ræða geta oft komið í ljós vankantar sem hvorki seljanda né kaupanda var kunnugt um við kaupin. Ef vankantarnir eru ekki meiri en kaupandinn mátti búast við miðað við aldur bílsins getur hann ekki borið þá fyrir sig án þess að annað og meira komi til. Ef unnt er að telja vankanta til galla ræður úrslitum hvort líta megi svo á að seljandinn hafi getað ráðið við orsakirnar eftir atvikum þannig að uppgötva hefði mátt gallana við reglubundið eftirlit af hálfu seljanda. Sem dæmi má nefna þegar seljandinn eyðileggur eitthvað tiltekið í söluhlutnum þegar hann er að gera við annað í honum eða tjóni er valdið á annan þann máta sem við mátti ráða meðan hlutur var á verkstæði eða lager seljanda.
    Upplýsingar, sem seljandinn veitir um söluhlut, rúmast yfirleitt innan þess sem seljandinn fær ráðið við. Rangar upplýsingar um hlutinn leiða því ávallt til ábyrgðar þótt það sé í sjálfu sér ókleift fyrir seljandann að útvega söluhlut með þá eiginleika sem lýsingar höfðu verið gefnar um að hann ætti að hafa. Ef seljandinn hefur t.d. gefið þær upplýsingar að málverk, sem hann er að selja, sé málað af Jóhannesi Kjarval, en síðar kemur í ljós að málverkið er falsað er seljandinn ábyrgð gagnvart kaupanda þótt hann hafi verið í góðri trú.
    Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. getur einnig verið um galla að ræða þegar söluhlutur svarar ekki til þeirra upplýsinga sem um hann hafa verið gefnar af öðrum en seljandanum. Ef upplýsingarnar eru gefnar fyrir hönd seljanda er um að ræða atvik sem seljandinn fær ráðið við. Þegar um er að ræða upplýsingar sem gefnar hafa verið af hálfu fyrri söluaðila ræðst það af mati í hverju tilviki fyrir sig hvort seljandinn verður ábyrgur eða ekki. Í öðrum kaupum en neytendakaupum gildir regla 2. mgr. 18. gr. ekki ef seljandinn hvorki vissi né mátti vita að upplýsingarnar voru gefnar. Í því tilviki er ekki um neinn galla að ræða og ekki heldur bótaábyrgð.
    Ef gallinn stafar frá þriðja manni, sem seljandi hefur falið að efna kaupin, gilda reglur 2. mgr. 27. gr. Seljandinn ber því ábyrgð á þessum aðilum með sama hætti og endranær, nema því aðeins að undantekningarskilyrðin frá ábyrgðarreglunum eigi einnig við um þriðja mann. Að öðru leyti verður hér látið nægja að vísa til athugasemda við 2. mgr. 27. gr. um þetta atriði.
    Í 2. mgr. kemur fram sú regla að stjórnunarábyrgðin nær ekki til óbeins tjóns. Ákvæðið er orðað með sama hætti og 4. mgr. 27. gr. og ber að túlka það eins. Hugtakið óbeint tjón er skýrt í 2. mgr. 67. gr.
    Í a-lið 3. mgr. felst að seljandinn ber ábyrgð á bæði beinu og óbeinu tjóni ef galla eða tjón má rekja til mistaka hans eða vanrækslu. Ákvæðið svarar til 5. mgr. 27. gr. og ber að túlka með sama hætti.
    Um gáleysi fyrir samningsgerð getur verið að ræða, t.d. við framleiðslu vörunnar eða við kynningu hennar fyrir væntanlegum kaupendum.
    Um gáleysi í tengslum við samningsgerð getur verið að ræða, t.d. þegar seljandi vanrækir upplýsingaskyldu sína. Seljandinn getur hafa gefið upplýsingar um hlutinn sem voru rangar eða hann hefur þagað um tiltekna eiginleika hlutarins sem máli skiptu fyrir kaupandann. En seljandinn verður því aðeins ábyrgur skv. a-lið 3. mgr. 40. gr. að hann hafi vitað eða mátt vita að upplýsingar sem voru gefnar voru rangar eða hann vissi eða mátti vita að þær upplýsingar sem þagað var yfir skiptu máli fyrir kaupandann.
    Seljandinn getur auk þess hafa sýnt af sér gáleysi við efndirnar, t.d. í tengslum við undirbúning og skipulagningu framleiðslunnar, þannig að framleiðslugalli verður. Eins getur verið um vanrækslu að ræða í sambandi við innpökkun og flutning hlutarins, eða vegna þess að leiðbeiningar eru ekki fullnægjandi. Þá getur verið um vanrækslu að ræða af hálfu seljanda eftir afhendingu, t.d. í sambandi við úrbætur á söluhlut.
    Þau dæmi, sem nefnd hafa verið, ná til atvika og aðstæðna sem yfirleitt rúmast innan þess sem seljandinn fær ráðið við og hann ber því ábyrgð á skv. 1. mgr. Ákvæði a-liðar 3. mgr. hefur því umfram allt sjálfstæða þýðingu varðandi óbeint tjón.
    Samkvæmt b-lið 3. mgr. getur kaupandinn ávallt krafist skaðabóta þegar söluhlutur er þegar við samningsgerðina ekki í samræmi við það sem heitið var af seljanda. Er þá um ábyrgð seljanda að ræða á hinum sérstöku eiginleikum söluhlutar sem ábyrgðin nær til . Það hvort um slíka ábyrgð af hálfu seljanda er að ræða ræðst fyrst og fremst af túlkun á samningi aðila. Af ákvæðum 17. og 18. gr. leiðir að söluhlutur á að hafa þá eiginleika sem seljandinn hefur vísað til og frá er skýrt í upplýsingum sem hann hefur að öðru leyti gefið. Á hinn bóginn er ekki unnt að líta á allar upplýsingar sem seljandinn gefur sem yfirlýsingu um ábyrgð af hans hálfu. Það skilyrði verður að setja að kaupandinn hafi, með hliðsjón af þýðingu upplýsinganna og aðferðinni við að koma þeim á framfæri, haft sérstaka ástæðu til að ætla að hlutur væri í samræmi við það sem skýrt var frá. Sem dæmi má nefna það tilvik þegar eiginleikar söluhlutar eru nákvæmlega tilgreindir í samningi. Sama gildir einnig þegar seljandinn hefur í markaðssetningu sinni eða samningaviðræðum lagt sérstaka áherslu á tiltekna eiginleika með þeim hætti að framferði hans er til þess fallið að skapa traust hjá kaupandanum á því að nákvæmlega þessir eiginleikar séu til staðar. Sérstaka þýðingu hlýtur jafnan að hafa ef notuð eru orð eins og „ábyrgð“ eða „trygging“ í samningnum. En yfirleitt verður að krefjast þess að ábyrgð taki til ákveðinna og afmarkaðra eiginleika. Í almennu hrósi um söluhlutinn þarf því ekki að felast nein ábyrgð í þessum skilningi, jafnvel þótt það orð sé notað. Með ákvæðinu er því ekki að þessu leyti stefnt að neinni efnisbreytingu miðað við gildandi rétti, sbr. reglu 2. mgr. 42. gr.
    Það er skilyrði ábyrgðar samkvæmt ákvæðinu að frávikin frá því sem heitið var hafi verið til staðar þegar við samningsgerðina. Seljandinn verður því ekki á þessum grundvelli ábyrgur ef tilviljunarkenndur atburður veldur seinna tjóni á hlutnum, þannig að hluturinn við afhendingu verður ekki í samræmi við það sem heitið var. En um ábyrgð getur hins vegar verið að ræða skv. 1. mgr. eða hana leitt af túlkun ábyrgðaryfirlýsingarinnar.
    Ef litið er svo á að um ábyrgðaryfirlýsingu hafi verið að ræða og söluhlutur vék í gæðum frá því sem heitið var þegar við samningsgerðina ber seljandinn í raun hlutlæga ábyrgð bæði á beinu og óbeinu tjóni. Þetta kemur þó ekki í veg fyrir að túlka megi ábyrgðaryfirlýsinguna svo að í henni felist eigi að síður viss takmörkun bótaábyrgðar. Þannig getur t.d. hafa verið tekinn inn í ábyrgðaryfirýsingu skýr „force majeure“ fyrirvari eða það má með öðrum hætti leiða af ábyrgðaryfirlýsingu seljanda að ábyrgð hans á hinum lofuðu kostum sé ekki algjör. Það sem leiða má með þessum hætti af ákvæðum ábyrgðaryfirlýsingarinnar gengur í slíkum tilvikum framar ákvæðum laganna
    Sérstakt álitamál rís þegar söluhlutur hefur eiginleika sem leiða til þess að hann veldur tjóni á mönnum eða öðrum munum en söluhlutnum sjálfum. Um þetta gilda nú lög nr. 25/ 1991, um skaðsemisábyrgð. Í 1. gr. þeirra laga segir að þau gildi um skaðabótaábyrgð framleiðenda og dreifingaraðila á tjóni sem hlýst af ágalla á vöru sem þeir hafa framleitt eða dreift (skaðsemistjóni). Í 2. mgr. 2. gr. laganna kemur fram að greiða skuli bætur fyrir tjón á hlut ef hann er samkvæmt gerð sinni venjulega ætlaður til einkanota, enda hafi sá er fyrir tjóni varð aðallega haft hlutinn til einkanota. Lögin taka ekki til skemmda á hinni gölluðu vöru sem tjón hlaust af. Samkvæmt þessu er ljóst að lögin um skaðsemisábyrgð gera ráð fyrir því að vörur hafi verið settar í umferð, en ekki er það skilyrði að um samningssamband sé að ræða svo að til bótaábyrgðar geti stofnast.
    Hugsanlegt er að ábyrgðarregla 40. gr. frumvarpsins skarist við reglur laga nr. 25/1991, um skaðsemisábyrgð. Hér verður að hafa í huga að 40. gr. tekur einkum til söluhlutarins sjálfs, svo og tjóns á öðrum hlutum sem eru í nánum raunverulegum eða starfslegum tengslum við söluhlutinn, þannig að fyrirsjáanlegt hafi verið við samningsgerð hve tjónið yrði mikið. Dæmi um þetta eru föt sem skemmast í gallaðri þvottavél eða kúlupenni sem skemmir föt. Önnur dæmi eru hlutir sem verða fyrir skemmdum af gölluðu lakki eða hreinsiefnum. Í vissum tilvikum getur verið vafi um það hvort bætur eigi að sækja á grundvelli kaupalaga eða laga um skaðsemisábyrgð og er það hlutverk dómstóla að draga markalínur í þeim efnum.

Um 41. gr.

    Í frumvarpsgreininni er fjallað um vanheimild og aðrar kröfur þriðja manns. Það leiðir af ákvæðum 1. mgr. hvað telst vanheimild og af ákvæðum 4. mgr. leiðir að „aðrar kröfur þriðja manns“ eru kröfur sem byggjast á hugverka- og auðkennarétti hans, sbr. ákvæði 4. mgr. Í núgildandi kaupalögum, nr. 39/1922, er engin almenn ákvæði að finna um vanheimild og önnur ósamrýmanleg réttindi þriðja manns, þótt í 59. gr. sé að vísu mælt fyrir um skaðabótaskyldu þegar um ákveðna tegund vanheimildar er að ræða. Um rök fyrir almennri reglu 41. gr. frumvarpsins um vanheimild og önnur ósamrýmanleg réttindi þriðja manns vísast til þess sem fram kemur í almennum athugasemdum hér að framan. Í SÞ-samningnum eru reglur um vanheimild og önnur ósamrýmanleg réttindi þriðja manns í 41. og 42. gr. Sjá einnig 96. gr. frumvarpsins.
    Í ákvæðinu er ekki að finna almenna skilgreiningu á hugtakinu vanheimild, en af ákvæðum 1. mgr. leiðir hins vegar óbeint hvenær vanheimild telst vera til staðar. Ákvæðið á bæði við um þau tilvik þegar þriðji maður er eigandi hlutar (fullkomin eða algjör vanheimild) og þess tilviks þegar þriðji maður á veðrétt eða annars konar rétt yfir honum (vanheimild að hluta).
    Þegar um fullkomna vanheimild er að ræða er hugsanlegt að seljandinn eigi alls engan rétt yfir hlutnum, t.d. vegna þess að hlut hefur verið stolið. Einnig er hugsanlegt að seljandinn eigi aðeins afnotarétt yfir hlutnum eða hann hefur hlutinn á kaupleigu. Með hugtakinu „annar réttur“ í 1. mgr. er fyrst og fremst átt við önnur takmörkuð réttindi en veðréttindi, t.d. leiguréttindi, haldsréttindi, ítök o.fl.
    Þegar um er að ræða bann samkvæmt samningi við því að selja hlut eða aðrar svipaðar takmarkanir á ráðstöfunarrétti, koma sérsjónarmið til greina. Líta má á slíkar takmarkanir sem neikvæð ítök og gilda þá reglurnar um vanheimild ef samningsákvæðið á að fylgja hlutnum og takmarka ráðstöfunarrétt kaupanda.
    Traustfangsreglur geta leitt til þess að kaupandi vinni rétt yfir hlutnum í samræmi við efni samnings hans og seljanda, þrátt fyrir vanheimildina. Þetta kemur þó ekki sjálfkrafa í veg fyrir að kaupandinn geti borið fyrir sig vanheimild. Jafnvel þótt kaupandinn sé í góðri trú, er ekki hægt að þvinga hann til að bera fyrir sig traustfangsreglur þegar hann fær vitneskju um að þriðji maður á rétt yfir hlutnum. Þetta gildir örugglega þegar seljandinn hefur verið í vondri trú við kaupin, en hugsanlega getur kaupandinn einnig í öðrum tilvikum valið að bera fyrir sig vanheimild gagnvart seljandanum.
    Það er forsenda fyrir beitingu reglnanna um vanheimild að um sé að ræða rétt sem þriðji maður getur borið fyrir sig gagnvart kaupandanum. Ef réttur þriðja manns er þess eðlis að alls ekki sé unnt að bera hann fyrir sig gagnvart kaupanda hvort sem kaupandinn er í góðri trú eða ekki, er ekki um vanheimild að ræða. Réttindi þriðja manns verða með öðrum orðum að snúast um rétt, sem takmarkar ráðstöfunarrétt kaupandans miðað við það sem samið hefur verið um.
    Það tímamark, sem skiptir máli við mat á því hvort um vanheimild sé að ræða, er þegar áhættan af söluhlut flyst frá seljanda til kaupanda. Þetta segir ekki berum orðum í ákvæðinu, en tilvísun þess til reglna um galla felur í sér að ákvæði 21. gr. gildir hér eftir því sem við á. Seljandinn er því ábyrgur bæði vegna upprunalegrar vanheimildar, þ.e. vanheimildar sem var til staðar við samningsgerð og eftirfarandi vanheimildar.
    Ef afhendingu söluhlutar hefur seinkað vegna þess að þriðji maður hefur borið fyrir sig rétt yfir hlutnum gilda reglurnar um greiðsludrátt. Sama gildir ef söluhlutur eftir kaup er seldur öðrum manni sem hefur veitt hlutnum viðtöku í góðri trú. Reglurnar um greiðsludrátt eiga einnig við ef hluturinn eftir kaup en fyrir afhendingu hefur verið seldur nauðungarsölu eða þrotabú seljanda hefur tekið umráð hans.
    Sérstök álitamál koma upp þegar um er að ræða aðgerðir af hálfu opinberra aðila. Ef stjórnvald hefur lagt hald á hlut fyrir afhendingu, eða afhending hlutar getur ekki átt sér stað vegna innflutnings- eða útflutningsbanns stjórnvalda, er eðlilegt að fella tilvikið undir greiðsludrátt. Ef ákvarðanir eða aðgerðir yfirvalda leiða til þess að afhenda verður hlut í annarri gerð en upphaflega var gert ráð fyrir, eða söluhlut verður að afhenda án tiltekinna aukahluta, er ýmist unnt að líta á tilvikið sem hreint gallatilvik eða sem greiðsludrátt varðandi aukahlutina, sbr. 43. gr.
    Þegar um vanheimild er að ræða gilda, eins og í 1. mgr. segir, reglurnar um galla eftir því sem við getur átt. Er með því fyrst og fremst átt við reglurnar í 30.–40. gr. um kröfur kaupanda vegna gallaðrar afhendingar. Hins vegar eiga hér ekki að öllu jöfnu við með sama hætti reglur IV. kafla frumvarpsins um eiginleika söluhlutar, galla o.fl. Við mat á því hvort um vanheimild er að ræða verður sem áður segir að leggja það tímamark til grundvallar, sem leiðir af 21. gr. Á kaupandanum hvílir almenn skylda til þess að rannsaka söluhlut fyrir fram, sbr. ákvæði 20. gr., og einnig eftir afhendingu, sbr. 31. gr. Hafa ber þó í huga að ekki er sjálfgefið að vanheimild komi í ljós við venjulega rannsókn söluhlutar.
    Hafi kaupandinn vitað um kvöð á samningstímanum glatar hann ekki kröfu sinni vegna vanheimildar ef hann hafði ástæðu til þess að ætla að kvöðinni yrði aflétt fyrir afhendingu.
    Í framkvæmd er það stundum svo að kaupandi gerir alls ekki ráð fyrir því að hlutur sé afhentur án allra kvaða, t.d þegar hann yfirtekur áhvílandi veðskuldir á bát sem keyptur er. Í slíkum tilvikum eiga við reglur 1. mgr. sem gera ráð fyrir því að kaupandinn geti ekki borið fyrir sig kvaðir og takmarkanir, sem leiða af samningi, sbr. orðalagið „nema leiða megi af samningi“. Stundum geta aðstæður verið þær að kaupanda má vera það öldungis ljóst að kvöð verði ekki aflétt. Gangi kaupandinn samt sem áður til samninga án þess að gera nokkurn fyrirvara að þessu leyti má líta svo á að hann hafi samþykkt kvöðina.
    Í 2. málsl. 1. mgr. frumvarpsgreinarinnar kemur fram að reglan um tveggja ára tilkynningarfrest skv. 2. mgr. 32. gr. gildir ekki að því er vanheimild varðar. Í málsgreininni er engin tilvísun til 3. mgr. 32. gr. að því er varðar fimm ára tilkynningarfrest. Það leiðir þó af samhenginu milli 32. og 41. gr. að fimm ára fresturinn á heldur ekki við um vanheimild. Af þessu leiðir að almennur tilkynningarfrestur skv. 1. mgr. 32. gr. gildir hér.
    Í 2. mgr. er sérstök bótaregla sem á við um tjón af völdum upprunalegrar vanheimildar sem kaupandinn hvorki vissi né mátti vita um. Á slíku tjóni ber seljandi hlutlæga ábyrgð og skiptir ekki máli hvort um beint eða óbeint tjón er að ræða. Reglan svarar til 59. gr. laga nr. 39/1922 sem gildir þó aðeins samkvæmt orðanna hljóðan um fullkomna vanheimild, sbr. orðalagið: „Nú kemur það fram að söluhlutur var annars manns eign en seljanda, þá er kaupin gerðust.“
    Ef vanheimild verður eftir kaup, eða kaupandinn var ekki í góðri trú um vanheimild sem var til staðar við kaup, leiðir það af ákvæðum 1. mgr. að úrlausn um bótaskyldu fer eftir ákvæðum 40. gr. Í alþjóðlegum kaupum gildir stjórnunarábyrgð þó einnig að því er varðar upprunalegan galla.
    Í 3. mgr. kemur fram að reglur 1. og 2. mgr. gilda eftir því sem við getur átt þegar þriðji maður gerir tilkall til réttar yfir hlutnum og því er andmælt. Reglan styðst við þau rök að kaupandi þurfi ekki óvænt að sæta því að blandast inn í deilur seljanda og þriðja manns. Krafa þriðja manns getur auk óvissu haft í för með sér kostnað og óhagræði fyrir kaupandann, jafnvel þótt síðar komi í ljós að krafa hans átti ekki við nein rök að styðjast. Krafa þriðja manns getur einnig takmarkað ráðstöfunarrétt kaupanda yfir hlutnum, þar til úr deilu seljanda og þriðja manns hefur verið skorið. Af þessu leiðir að kaupandinn getur í slíkum tilvikum borið fyrir sig sömu úrræði og þegar réttur þriðja manns er óumdeildur.
    Kaupandinn getur ekki komið fram með kröfur skv. 1. og 2. mgr. ef augljóst er að krafa þriðja manns á við engin rök að styðjast. Fullyrðing þriðja manns um rétt sinn nægir ein sér ekki til þess að kaupandi geti gert vanefndakröfur gildandi. Sama á við þegar fullyrðingar þriðja manns eru augljóslega ekki á rökum reistar. Samt sem áður er ekki unnt að gera of strangar kröfur í þessum efnum, því það getur tekið tíma að leiða í ljós að krafan er órökstudd.
    Í 4. mgr. kemur fram að reglur 1. mgr. gilda eftir því sem við getur átt þegar um er að ræða kröfu þriðja manns sem byggist á hugverka- eða auðkennarétti. Gildandi kaupalög hafa engar sérreglur að geyma um slíkar kröfur þriðja manns. Samkvæmt SÞ-samningnum gilda reglurnar um galla þegar þriðji maður byggir á hugverka- og auðkennarétti, sbr. 42.–44. gr. samningsins. Sjá einnig 96. gr. frumvarpsins.
    Rökin, sem búa að baki ákvæði 4. mgr., eru þau að réttaráhrif þess fyrir kaupanda að þriðji maður á hugverka- eða auðkennarétt yfir hlutnum, geta verið jafnóheppileg fyrir kaupanda og þegar um vanheimild er að ræða. Af þeim sökum hefur kaupandinn hagsmuni af því að geta borið vanefndina fyrir sig og gert kröfur af því tilefni gildandi. Í 2. málsl. 4. mgr. kemur fram að um annað má semja, einnig í neytendakaupum.

Um 42. gr.

    Í SÞ-sáttmálanum er ekkert ákvæði sem svarar beinlínis til frumvarpsgreinarinnar, en svipaðar reglur má leiða af ákvæðum 58. gr. hans. Í 14. gr. gildandi kaupalaga kemur fram að kaupandinn er ekki skyldur að greiða kaupverðið, nema hann fái samstundis hlutinn til umráða, þ.e. hann getur haldið eigin greiðslu til tryggingar því að hann fái greiðslu gagnaðila. Það ákvæði veitir kaupanda hins vegar ekki rétt til þess að halda eigin greiðslu til tryggingar skaðabótum í tilefni greiðsludráttar eða galla á söluhlut.
    Í ákvæðum frumvarpsgreinarinnar felst regla um almenna heimild kaupanda til þess að halda eigin greiðslu til tryggingar kröfum sem leiðir af vanefndum seljanda. Ákvæðið er almennt orðað og á það við um allar kröfur, sem kaupandinn öðlast í tilefni vanefnda skv. V. kafla frumvarpsins. Það á einnig við um kröfur kaupanda til efnda í tengslum við greiðsludrátt á hinu selda, galla, réttarágalla o.fl. Rétturinn til að halda eigin greiðslu í tilefni greiðsludráttar hefur hér enga sérstöðu.
    Réttur kaupanda samkvæmt frumvarpsgreininni nær til þess að halda eftir svo miklu af kaupverðinu að nægi til að tryggja vanefndakröfu hans. Það er matsatriði hverju sinni hversu stórum hluta kaupverðsins kaupandi getur haldið eftir og gerir frumvarpið ráð fyrir því að í þeim efnum sé ákveðnu svigrúmi til að dreifa. Þegar krafa kaupanda er fyrst og fremst um efndir samkvæmt aðalefni samnings, t.d. efndir eða úrbætur á galla, getur verið erfitt að meta hversu stórum hluta kaupverðsins krafa kaupanda samsvarar. Orð greinarinnar útiloka ekki að kaupandinn hafi ákveðið svigrúm við mat í þeim efnum. Þar sem umræddur réttur er hugsaður sem trygging fyrir öllum kröfum sem kaupandinn getur öðlast getur hann eftir atvikum haldið öllu kaupverðinu eftir þegar um greiðsludrátt seljanda er að ræða.
    Ef kaupandi heldur eftir augljóslega hærri fjárhæð en sem nemur þeirri kröfu, sem hann átti á hendur seljanda, verður afleiðingin sú að hann verður að greiða dráttarvexti af mismuninum, sbr. 71. gr. frumvarpsins.
    Stundum kann að vera óljóst eða umdeilt hvort kaupandi eigi tiltekna vanefndakröfu og getur slíkt valdið vafa um það hvort heimilt sé að beita þessu ákvæði. Því til viðbótar ber að hafa í huga að stundum getur verið freistandi fyrir kaupanda að grípa til þessa úrræðis ef hann getur ekki greitt kaupverðið. Af því leiðir að hér er um vandmeðfarið úrræði að ræða.
    Það er kaupandinn sem ber áhættuna af því að hann eigi í raun og veru kröfu sem stafar af vanefnd seljanda. Komi í ljós að kaupandinn átti enga slíka kröfu getur seljandinn beitt vanefndaúrræðum í tilefni þess að kaupverðið er ekki greitt.
    Ef til staðar eru skilyrði til þess að halda eftir greiðslu kaupverðsins er ekki um vanefnd af hálfu kaupanda að ræða þegar hann beitir því úrræði. Seljandinn getur því hvorki krafist skaðabóta vegna tjóns né vaxta af þeirri fjárhæð sem með réttu var haldið eftir.

Um 43. gr.

    Í 51. gr. SÞ-sáttmálans er ákvæði, sem svarar til 1. mgr. frumvarpsgreinarinnar, en þar er hins vegar ekki að finna ákvæði samsvarandi 2. mgr. Í gildandi lögum eru engin ákvæði sambærileg 1. mgr., en 2. mgr. frumvarpsgreinarinnar svarar til 50. gr. núgildandi laga.
    Ákvæðið á við um þau tilvik þegar seljandi afhendir aðeins hluta hins selda, en þá er hinn hlutinn annaðhvort ekki afhentur eða afhentur of seint. Getur þar bæði verið um greiðsludrátt og magngalla að ræða. Einnig gildir ákvæðið þegar hluti hinnar afhentu greiðslu er gallaður (galli á eiginleikum söluhlutar/gæðagalli).
    Ákvæði 1. mgr. eiga eins og áður segir við þegar ákveðinn fjöldi eintaka eða ákveðin eintök úr tiltekinni sendingu eru afhent of seint eða reynast gölluð. Í slíkum tilvikum getur kaupandinn beitt vanefndaúrræðum að því er varðar þann hluta. Orðasambandið „hluta hins selda“ gerir ráð fyrir því að unnt sé að skipta hinu selda upp í tilgreindar sendingar eða hluta, t.d. sekki eða tunnur eða því um líkt, þannig að unnt sé að afmarka vanefndakröfur við ákveðna þætti. Ákvæðið á hins vegar ekki við um tilvik þar sem galli er á hluta hins selda og sá hluti er í svo nánum raunverulegum og starfslegum tengslum við hinn hlutann að ekki er með sanngirni unnt að greina þar á milli. Sem dæmi um þetta má nefna það tilvik þegar tilteknir hlutar í tölvuvélbúnaði eru gallaðir. Í slíkum tilvikum verður að líta á gallann sem galla á hlutnum í heild sinni. Sama gildir þegar senda á vélbúnaðinn til kaupanda í mörgum hlutum og seinkun verður á einni sendingunni.
    Ákvæði þetta getur átt við um flestar vanefndakröfur, t.d. kröfu um efndir skv. 23. gr., kröfu til úrbóta og nýrrar afhendingar skv. 36. gr. og kröfu til afsláttar skv. 38. gr., svo og um skaðabótakröfu. Þó verður að ætla að ákvæðið hafa mesta þýðingu varðandi riftun. Kaupandinn getur þá rift að því er snertir þann hluta greiðslunnar sem vanefnd varðar, en haldið afgangnum. Það er þó forsenda að fyrir hendi séu skilyrði riftunar að því er varðar þann hlutann sem riftun tekur til. Þegar það er metið hvort galli er verulegur eða ekki ber að meta það með hliðsjón af þeim hluta sem vanefndin varðar. Hafi t.d. verið keyptir 100 sekkir af kartöflum og varði seinkun eða galli einungis einn sekk getur kaupandinn samkvæmt fyrrgreindu rift að því er umræddan sekk varðar. Þetta getur hann þótt vanefndin verði ekki talin veruleg þegar litið er til kaupanna í heild sinni.
    Ákvæði þetta getur einnig haft þýðingu þegar um er að ræða nýja afhendingu. Kaupandinn getur á grundvelli þeirra skilyrða, sem fram koma í 2. mgr. 34. gr., krafist nýrrar afhendingar að því er varðar hluta hins selda, en haldið því sem eftir er, t.d. í dæminu hér að framan krafist nýrrar afhendingar að því er varðar hinn gallað sekk.
    Á hinn bóginn leiðir það af ákvæðum 1. mgr. að kaupandinn getur ekki, án þess að annað og meira komi til, borið fyrir sig vanefndaúrræði að því er varðar greiðsluna í heild. Ef vanefnd er á hinn bóginn veruleg þegar litið er til kaupanna í heild sinni getur kaupandinn með vísan til 2. málsl. ákvæðisins krafist riftunar á öllum kaupunum. Er þetta í sjálfu sér sama regla og fram kemur í 39. gr. frumvarpsins.
    Sem fyrr greinir er það skilyrði að vanefndir séu verulegar á samningnum í heild. Í dæminu hér að ofan gæti slíkt t.d. átt við ef helmingur sendingarinnar er ekki afhentur eða reynist gallaður.
    Ákvæði 2. mgr. eiga við um magngalla. Þegar seljandinn hefur aðeins afhent hluta hins selda verður álitamál hvort meta eigi tilvikið eftir reglum um galla eða samkvæmt reglum um greiðsludrátt að því er varðar þann hluta sem ekki hefur verið afhentur. Samkvæmt ákvæðinu ræður það úrslitum hvort ráða má af atvikum að seljandinn hafi lokið afhendingu af sinni hálfu eða ekki.
    Reglurnar um galla gilda samkvæmt ákvæðinu t.d. um það tilvik þegar seljandinn hefur vegna misskilnings afhent of lítið, án þess að vera það ljóst. Ef hins vegar má ráða af atvikum að seljanda hafi verið ljóst, t.d. vegna þess magns sem afhent var, að afhendingu var ekki lokið verður að leggja til grundvallar reglurnar um greiðsludrátt. Í flestum tilvikum er eðlilegast að líta svo á að um magngalla sé að ræða.
    Ef gallareglum er beitt hefur það þá mikilvægu þýðingu að tilkynningarskylda kaupanda samkvæmt ákvæðum 32. gr. verður virk. Þá er afleiðingin einnig sú að reglur um úrbætur eða afhendingu nýrra hluta gilda, en það getur hins vegar ekki átt við þegar um er að ræða greiðsludrátt.

Um 44. gr.

    Í 44. gr. koma fram reglur um riftunarrétt kaupanda þegar seljandinn á að afhenda hið selda í áföngum eða smátt og smátt eins og það er orðað í gildandi lögum. Ákvæðið svarar til 73. gr. SÞ-sáttmálans. Í gildandi lögum er sambærileg ákvæði að finna 22. gr. (greiðsludráttur) og 46. gr. (galli).
    Ákvæði þetta gildir um riftun við hvers konar vanefnd varðandi afhendingu í áföngum. Það á við þegar samið er um afhendingar í áföngum hvort sem þar er um heimild eða skyldu að ræða. Ákvæði 43. gr. á við þegar um er að ræða verulegar afhendingar í áföngum án þess að kveðið sé á um það í samningi. Óljóst er hvort og í hvaða mæli kaupandi getur valið milli þess að beita ákvæðum 43. og 44. gr. Beiting ákvæðis 44. gr. kemur einkum til álita þegar um tiltölulega skýr ákvæði er að ræða varðandi afhendingu í áföngum.
    Í 1. mgr. kemur fram að þegar afhenda á hið selda í áföngum, ber að líta á einstakar afhendingar sem sjálfstæð kaup með hliðsjón af riftunarreglum. Hver einstök afhending er því skoðuð sem sjálfstæð kaup að þessu leyti. Kaupandi getur rift að því er tekur til þeirrar afhendingar sem vanefnd varðar ef almenn riftunarskilyrði eru fyrir hendi, m.a. það skilyrði að vanefnd sé veruleg. Skilyrðið um verulega vanefnd verður að meta með hliðsjón af viðkomandi afhendingu, en ekki með hliðsjón af kaupunum í heild. Ákvæðið rýmkar því rétt kaupanda til riftunar miðað við það sem vera mundi ef litið væri á kaupin sem eina heild. Á hinn bóginn getur kaupandi ekki rift að því er varðar þær afhendingar sem eru í samræmi við samning.
    Ákvæði 1. mgr. á einkum við þegar unnt er að nota þá hluta, sem afhentir eru, hvern fyrir sig og án tillits til annarra, t.d. olíu eða annað hráefni. Ákvæðið á hins vegar síður við þegar afhentir hlutar eru í raunverulegum og starfslegum tengslum við aðra hluta, t.d. vélarbúnaður.
    Ákvæði 2. mgr. veitir kaupanda með vissum skilyrðum rétt til þess að rifta að því er varðar síðari afhendingar. Slíkur riftunarréttur gæti einnig byggst á ákvæðum 62. gr., þ.e. riftun vegna fyrirsjáanlegra vanefnda. Ákvæði þetta gerir hins vegar ráð fyrir því, gagnstætt ákvæðum 62. gr., að vanefnd hafi þegar orðið að því er varðar hluta greiðslunnar. Þegar þau skilyrði eru fyrir hendi fær kaupandi nokkuð rýmri riftunarrétt en leiða mundi af ákvæðum 62. gr. Kemur þetta fram í orðalagi ákvæðanna. Þannig er í 62. gr. sagt: „Ef ljóst er fyrir efndatíma að koma muni til vanefnda,“ en í 2. mgr. 44. gr. segir hins vegar: „Ef vanefndir veita kaupanda réttmæta ástæðu til að ætla að vanefndir verði á afhendingum síðar.“ Í síðari tilvitnuninni (2. mgr. 44. gr.) felst að líkurnar fyrir vanefnd í framtíðinni eru miðaðar við að vanefnd hafi þegar orðið að því er varðar hluta afhendingar. Þar að auki er það eitt ekki nægjanlegt að ástæða sé til að ætla að vanefnd verði heldur verður vanefndin að vera þess eðlis að hún muni veita rétt til riftunar. Það er hins vegar ekki skilyrði að hin fyrirsjáanlega vanefnd sé sömu tegundar og sú fyrri. Ef verulegur galli við fyrstu afhendingu veitir réttmæta ástæðu til að ætla að verulegur greiðsludráttur verði á þeirri næstu er unnt að rifta að því er báðar afhendingarnar varðar.
    Ekki er það skilyrði til riftunar skv. 2. mgr. að kaupandi hafi beitt riftunarrétti að því er tiltekna afhendingu varðar. Sem dæmi um þetta má nefna kaup þar sem seljandinn á að greiða með fimm afhendingum. Ef verulegur greiðsludráttur verður varðandi aðra sendinguna má vera að kaupandinn líti svo á að þrátt fyrir allt sé best fyrir hann að krefjast efnda. Ef eftir þetta verður seinkun á þriðju afhendingu getur verið að kaupandinn sjái hagsmunum sínum best borgið með því að rifta kaupunum að því er varðar fjórðu og fimmtu sendinguna, hvort heldur hann velur að rifta varðandi þriðju sendinguna eða ekki.
    Það er skilyrði riftunar að því er varðar síðari afhendingar að það gerist áður en sanngjarn tími er liðinn frá því sú vanefnd varð sem veitti rétt til riftunar. Ef vanefnd verður við hverja afhendinguna eftir aðra byrjar nýr frestur að líða við hverja vanefnd fyrir sig.
    Í 3. mgr. kemur fram sú regla að kaupandi á rétt til að rifta kaupum, bæði að því er varðar fyrri og síðar afhendingar, þegar um er að ræða ákveðið samhengi milli þessara afhendinga og þeirrar afhendingar sem vanefnd varð um. Það er þá skilyrði að kaupandinn rifti varðandi þá greiðslu sem vanefnd varðar.
    Það er skilyrði skv. 3. mgr. að slíkt samhengi sé milli afhendinganna að þær geti ekki nýst í þeim tilgangi sem gert var ráð fyrir við samningsgerðina. Dæmi um þetta er þegar afhenda í áföngum hráefni af tilteknum gæðum og í slíku magni að sambærileg magn eða gæði er ekki unnt að fá annars staðar.
    Þegar um er að ræða riftun að því er varðar síðari afhendingu getur kaupandi oft valið að beita ákvæðum 2. mgr. 44. gr. og rift aðeins að því er síðari greiðslur varðar, án tillits til samhengisins milli greiðslnanna.

Um 45. gr.

    Ákvæði þetta svarar til 55. gr. SÞ-sáttmálans. Í 5. gr. laga nr. 39/1922, um lausafjárkaup, eru ákvæði um fjárhæð kaupverðs. Þar kemur fram að kaupanda ber að greiða það verð, sem seljandinn setur upp, nema það verði talið ósanngjarnt þegar ekkert hefur verið fastákveðið um verðið við kaupin.
     Í frumvarpsgreininni er eins og í norsku kaupalögunum og SÞ-samningnum gengið út frá þeirri meginreglu að miða skuli við gangverð sambærilegra hluta á samningstímanum. Þegar slíkt gagnverð liggur ekki fyrir ber að miða við það verð sem sanngjarnt er. Er þetta nokkuð önnur nálgun en í 5. gr. gildandi laga, en í því felst þó ekki nein veruleg efnisbreyting. Í sænsku og finnsku kaupalögunum og danska kaupalagafrumvarpinu er sanngirnismatið hins vegar lagt til grundvallar í öllum tilvikum.
    Í 1. mgr. er um það fjallað þegar kaupverðið leiðir ekki af samningi aðila. Ef heildarverð kemur skýrt fram í samningi eða verð á einingu ber að sjálfsögðu að leggja það verð til grundvallar. Verðið getur einnig komið fram á annan hátt, t.d. með því að skírskotað er til verðskráningar á tilteknum markaði. Ef seljandi hefur verðlista sem tekur einnig til þeirra kaupa, sem um er að ræða, má oft ganga út frá því að samið hafi verið um það verð sem fram kemur á verðlistanum. Hafi seljandinn eða annar á hans vegum gefið upp tiltekið verð við markaðssetningu á vöru má yfirleitt líta svo á að um það verð hafi verið samið, nema því aðeins að gerðar hafi verið á því breytingar fyrir kaupin eða samið hafi verið um annað verð berum orðum. Fyrri samningar milli aðila geta einnig gefið vísbendingar um kaupverð.
    Í frumvarpsgreininni er í fyrsta lagi gert ráð fyrir því að kaupsamningur hafi verið gerður. Ef ekki hefur verið samið um kaupverðið verður í sumum tilvikum ekki litið svo á að samningur hafi komist á. Í öðru lagi er í ákvæðinu gert ráð fyrir því að ekki hafi verið samið um verð. Þegar þessar forsendur eru til staðar ber kaupanda skv. 1. mgr. 45. gr. frumvarpsins að greiða það gangverð, sem sams konar hlutir, seldir við svipaðar aðstæður, hafa á samningstímanum, enda sé verðið ekki ósanngjarnt. Með hugtakinu gangverð er yfirleitt átt við það verð, sem söluaðili tekur af öðrum viðskiptavinum fyrir sambærilega hluti, nema söluaðili selji á hærra verði en aðrir innan greinarinnar. Þetta þýðir m.a. að nauðsynlegt er að bera saman verð á sambærilegu sölustigi, en eigi að síður verður að hafa í huga að á sambærilegu sölustigi getur verðið verið mismunandi. Þá verður einnig að taka tillit til annarra greiðsluskilmála, t.d. hvort um staðgreiðslu eða kaup með greiðslufresti var að ræða. Eins verður að líta til gæða vörunnar, þeirrar þjónustu sem fylgir, hvar afhenda á vöruna o.s.frv. Þá verður að taka tillit til mismunandi verðlags á staðnum. Yfirleitt mundi vera eðlilegt að leggja til grundvallar gangverð þar sem atvinnustöð seljanda er, eftir atvikum heimili. En hafi seljandinn hins vegar markaðssett hlutinn þar sem atvinnustöð kaupandans er getur verið alveg jafnsanngjarnt að styðjast við gangverðið þar.
    Það er gangverðið við samningsgerðina sem leggja ber til grundvallar skv. 1. mgr. 45. gr. Hafi seljandi gert almennan fyrirvara um verðbreytingar er þó eðlilegast að leggja til grundvallar verðið á afhendingartíma. Gangverð það, sem um ræðir, má ekki vera ósanngjarnt. Yfirleitt mundi mega telja gangverðið sanngjarnt, en í vissum tilvikum þarf ekki svo að vera, t.d. þar sem um er að ræða fákeppni eða einokunaraðstöðu. Orð 1. mgr. 45. gr. „án þess að kaupverðið leiði af samningi“ fela það í sér að ákvæðið er frávíkjanlegt, einnig í neytendakaupum. Þannig ber ávallt að leggja til grundvallar það verð, sem samið er um, nema því aðeins að lagaákvæði standi því í vegi, sbr. t.d. 36. gr. samningalaga eða önnur svipuð ákvæði.
    Ákvæði 1. mgr. á ekki beint við ef aðilar hafa samið um verð, en þeir eru ekki á sama máli um hvaða verð það var. Ágreining um slíkt verður að leysa á grundvelli almennra sönnunarreglna.
    Í síðari málslið 1. mgr. er mælt fyrir um hvaða verð kaupandi skuli greiða ef ekki er um neitt gangverð á söluhlut að ræða. Ber þá að miða við það verð sem sanngjarnt er miðað við eðli hlutarins, gæði hans og aðrar aðstæður. Með orðunum „atvik að öðru leyti“ er t.d. átt við verðlista.
    Ákvæði 2. mgr. 45. gr. er nýmæli í íslenskum rétti. Þar kemur fram að í neytendakaupum getur seljandinn ekki til viðbótar kaupverðinu krafist þóknunar fyrir að gefa út og senda reikninga. Reglan er á því byggð að seljandinn eigi ekki að geta krafið kaupandann um hærri fjárhæð en sem nemur umsömdu verði söluhlutarins. Sú tilhneiging hefur aukist í viðskiptalífi bæði hérlendis og erlendis að seljendur krefjist sérstakra greiðslna fyrir útgáfu og sendingu reikninga. Regla 2. mgr. 45. gr. byggist á því að eðlilegra sé að seljandinn beri þennan kostnað fremur en kaupandinn. Ákvæðið fjallar ekki um annan kostnað en þann sem nefndur er í ákvæðinu, þ.e. kostnað við útgáfu og sendingu reiknings. Slíkur annar kostnaður eða viðbót við kaupverð getur t.d. verið tengdur sendingu hlutar og verður hans heldur ekki krafist til viðbótar kaupverðinu, nema slíkt eigi sér stoð í samningi eða venju.
    Í 2. málsl. 2. mgr. kemur fram undantekning frá meginreglu fyrri málsliðar og á hún við þegar augljóst er að kaupverðið er það verð, sem seljandinn krefst við staðgreiðslu, en hann hefur engu síður veitt kaupanda greiðslufrest. Það getur t.d. komið skýrt fram í sölubæklingi sem lagður er fram við kaupin að verðið gildi aðeins við staðgreiðslu. Ef kaupandinn fær samt sem áður greiðslufrest getur seljandinn krafið um sérstakan aukakostnað sem leiðir af þessu, t.d. kostnað við það að gera reikning og senda hann. Einnig í þessu tilviki gilda þær forsendur sem nefndar eru í fyrri málsliðnum. Í því felst að seljandinn getur ekki krafist útgjalda nema því aðeins að líta megi svo á að slíkt leiði af samningnum. Sú staðreynd að seljandinn hefur gefið upp staðgreiðsluverð veitir ein og sér seljandanum ekki sjálfstæðan rétt til þess að krefja um þóknun fyrir að gefa út og senda reikninga.

Um 46. gr.

    Í SÞ-sáttmálanum er ekki að finna ákvæði sem er beinlínis sambærilegt 1. mgr. frumvarpsgreinarinnar, en ákvæði 2. mgr. eru hins vegar í samræmi við 56. gr. sáttmálans. Frumvarpsgreinin felur ekki í sér neina breytingu frá ákvæðum 7. og 8. gr. gildandi laga, nr. 39/1922.
    Í 1. mgr. er fjallað um það tímamark sem miða skal við þegar kaupverð ræðst af fjölda, máli eða þyngd. Ákvæðið getur t.d. haft þýðingu þegar magn söluhlutar ræðst af eiginleikum söluhlutar, flutningi hans o.fl. Dæmi um þetta er það þegar seldur er sandur sem dælt er upp úr sjó. Í því tilviki getur vatn fylgt sandinum í miklum mæli meðan verið er að dæla sandinum upp.
    Í 2. mgr. kemur fram að þegar kaupverð er ákveðið eftir þyngd skal fyrst draga frá þyngd umbúða. Athygli er vakin á því að 2. mgr. á einungis við um þyngd en hvorki fjölda né mál. Í mörgum atvinnugreinum má gera ráð fyrir því að venja sé fyrir því að þyngd umbúða sé með í kaupverðinu. Þetta getur t.d. átt við venjulegar matvörur þar sem verð og þyngd kemur fram á umbúðunum.

Um 47. gr.

    Frumvarpsgreinin svarar til 6. gr. laga nr. 39/1922, en gildissvið hennar er þó takmarkað við verslunarkaup. Í SÞ-sáttmálanum er ekki að finna neitt ákvæði sem er beinlínis sambærilegt frumvarpsgreininni. Gildissvið ákvæðisins miðast við það að ekki hafi verið samið um kaupverð. Í slíkum tilvikum verður kaupandi að mótmæla sérstaklega við seljanda ef hann vill komast hjá því að greiða það verð sem fram kemur á reikningi eða í orðsendingu.
    Í hugtökunum „reikningur“ og „orðsending“ felst í raun ekki nein efnisbreyting miðað við gildandi lög. Ekki skiptir máli hvað skjal er kallað ef það er sama efnis og reikningur. Þó verður að skilja ákvæðið þannig að átt sé við skriflegt skjal. Munnlegar upplýsingar um verðið falla því ekki undir gildissvið ákvæðisins og því þarf ekki að mótmæla þeim sérstaklega.
    Ákvæðið gildir því aðeins að kaupandi hafi „fengið“ reikning eða orðsendingu. Af því leiðir að ákvæði 82. gr. á hér ekki við og seljandinn ber því ábyrgð á að reikningur eða orðsending komist til kaupanda.
    Frumvarpsgreinin á við um öll kaup, þ.m.t. neytendakaup, og er gildissvið hennar því ekki takmarkað við verslunarkaup eins og er samkvæmt gildandi lögum. Ekki þykir ósanngjarnt í neytendakaupum að leggja þá skyldu á kaupanda að mótmæla uppgefnu verði ef svo ber undir. Fresturinn til þess að bera fram mótmæli fer hins vegar eftir því um hvers konar kaup er að ræða og ræðst ekki hvað síst af því hverjir eru aðilar að kaupunum. Það verður því ekki krafist eins skjótra viðbragða af hálfu kaupanda í neytendakaupum eins og kaupanda í verslunarkaupum.
    Ákvæði frumvarpsgreinarinnar eiga ekki við þegar lægra verð leiðir af samningi eða uppsett verð er ósanngjarnt. Afmörkunin hér svarar til þeirrar afmörkunar sem fram kemur í 1. málsl. 1. mgr. 45. gr., og vísast því til athugasemda við þá grein varðandi það hvort tiltekið verð leiði af samningi. Krafan um sanngirni hlýtur almennt að vera heldur ströng í neytendakaupum.

Um 48. gr.

    Ákvæði 1. og 3. mgr. frumvarpsgreinarinnar svara til 57. gr. SÞ-sáttmálans, en 2. mgr. er sambærileg 54. gr. hans. Í gildandi lögum er ekkert ákvæði beinlínis sambærilegt frumvarpsgreininni, en þó er í 1. mgr. 28. gr. byggt á þeirri skyldu sem fram kemur í 2. mgr.
    Í 1. mgr. er fjallað um greiðslustað. Aðalreglan er sú að greiðsla skal fara fram á atvinnustöð seljanda, nema um annað hafi verið samið. Það leiðir af 83. gr. frumvarpsins að hafi seljandi ekki atvinnustöð á greiðsla að fara fram á heimili hans. Þegar ákveða skal hvar sé atvinnustöð, eftir atvikum heimili, ber að miða við það tímamark þegar greiðsla fer fram, sbr. nánar athugasemdir við 3. mgr. hér á eftir.
    Það getur leitt af samningi eða venju að kaupandi skuli greiða eða sé heimilt að greiða í banka eða með póstgírói. Jafnvel þótt hvorki hafi verið um slíkt samið sérstaklega, né heldur sé fyrir hendi venja í þeim efnum getur kaupanda eftir atvikum verið heimilt að greiða kaupverðið beint inn á reikning seljanda eða með annarri greiðslumiðlun.
    Þegar greiðsla fer fram í banka eða annari sambærilegri stofnun hefur greiðslustaður í sjálfu sér ekki sömu þýðingu og endranær. Slíkur greiðsluháttur er nú almennt viðurkenndur þótt samningi um það sé ekki til að dreifa. Fyrsti málsliður ákvæðisins getur samt sem áður haft sjálfstæða þýðingu, einkum með tilliti til reglnanna um greiðsludrátt af hendi kaupanda, og er ástæðan sú að kaupandinn ber áhættuna af því að peningarnir séu í raun og veru til ráðstöfunar fyrir seljanda áður en greiðslufrestur er liðinn. Hann ber því áhættuna af þeirri röskun sem getur orðið við greiðslumiðlunina, og því er ekki nægjanlegt að hann greiði í banka á gjalddaga ef greiðslan er seljanda ekki til ráðstöfunar á gjalddaga.
    Víkja má frá ákvæðum 1. mgr. með samningi, t.d. þannig að kaupveðið megi greiða á atvinnustöð kaupanda eða beint til ákveðins þriðja manns. Um samninga í neytendakaupum vísast til athugasemda við 4. gr. frumvarpsins.
    Þegar um er að ræða kaup milli aðila í mismunandi löndum getur greiðslustaður haft þýðingu varðandi gjaldeyrishömlur. Greiðslustaður getur einnig haft þýðingu varðandi það í hvaða mynt greiða skal kaupverðið.
    Í síðari málslið 1. mgr. er sérregla sem fjallar um það tilvik þegar greiðsla skal samkvæmt samningi fara fram gegn afhendingu söluhlutar eða skjals, t.d. gegn afhendingu farmbréfs eða farmskírteinis. Reglan á einnig við þegar um er að ræða kaup gegn póstkröfu. Í þessum tilvikum er greiðslustaður sá staður þar sem afhending á að fara fram.
    Þegar sagt er að greiðsla skuli fara fram gegn afhendingu söluhlutar eða skjals verður að hafa í huga þann fyrirvara sem leiðir af 2. og 3. mgr. 49. gr. um rétt kaupanda til að rannsaka söluhlut.
    Vera kann að kaupandi greiði kaupverðið áður en afhending á sér stað, t.d. með því að greiða inn á reikning seljanda í banka. Í slíkum tilvikum er nægjanlegt að hann leggi fram kvittun fyrir greiðslu, nema því aðeins að ekki hafi verið samið um slíka greiðsluaðferð og hún andstæð hagsmunum seljandans.
    Í 2. mgr. kemur fram sú regla að í skyldu til að greiða kaupverðið felist einnig skylda til þess af hálfu kaupanda að samþykkja víxil, leggja fram bankatryggingu, bankaábyrgð eða aðra tryggingu. Einnig nær skyldan til þess að gera aðrar þær ráðstafanir sem greiðsla kaupverðsins er komin undir og leiða má af samningnum. Ákvæðið felur það í sér að brot á slíkum skyldum er ekki einungis fyrirsjáanleg vanefnd heldur einnig sjálfstæð vanefnd á greiðsluskyldu kaupanda. Ákvæðið hefur ekki afgerandi þýðingu fyrir réttarstöðu seljanda þar sem 50. gr. frumvarpsins um atbeina kaupanda að efndum gildir í öllum tilvikum.
    Ákvæði 3. mgr. á við þegar seljandi hefur flutt atvinnustöð sína, eftir atvikum heimili, eftir að kaupin voru gerð. Yfirleitt mundi flutningur af þessu tagi ekki valda kaupanda neinum aukaútgjöldum, en ef svo er ber seljandinn ábyrgð á auknum kostnaði sem af því leiðir.
    Um svipað álitaefni er að ræða þegar úr því skal skera hver beri áhættuna af greiðsludrætti sem er að rekja til þess að seljandi hefur flutt atvinnustöð sína. Rétt er að líta svo á að kaupandinn beri ekki bótaábyrgð í slíkum tilvikum samkvæmt ákvæði 1. mgr. 51. gr. Ef seljandinn hefur ekki látið kaupandann vita um flutninginn og kaupandinn hefur heldur ekki átt þess kost að afla sér upplýsinga um það á annan hátt er rétt að líta svo á að greiðsludráttur sé á ábyrgð seljanda og leiði því ekki til ábyrgðar fyrir kaupanda.

Um 49. gr.

    Ákvæðið svarar til 58. gr. SÞ-sáttmálans. Í 1. mgr. er fjallað um greiðslutíma kaupverðsins og er reglan þar sambærileg reglum þeim sem leiða má af 12. og 14. gr. gildandi kaupalaga. Ákvæði 2. mgr. eiga sér ekki hliðstæðu í gildandi lögum, sbr. þó 1. mgr. 71. gr., eins og síðar verður rakið. Ákvæði 3. mgr. svarar að vissu marki til ákvæða 16. og 71. gr.
    Ákvæði 1. mgr. eiga ekki við þegar greiðslutíminn kemur fram í samningi og á það einnig við í neytendakaupum, sbr. athugasemdir við 4. gr. frumvarpsins. Þetta á ekki einungis við um þau tilvik þegar greiðslutíminn kemur beinlínis fram í samningi heldur einnig þegar leiða má af atvikum að kaupverðið skuli greitt á ákveðnum tíma. Þegar greiðslutíminn kemur fram í samningi þarf seljandinn ekki að beina greiðsluáskorun til kaupanda. Er kaupanda því skylt í slíkum tilvikum að greiða af eigin frumkvæði, sbr. og ákvæði 59. gr. SÞ-sáttmálans.
    Ef greiðslutíminn kemur ekki fram í samningi aðila er reglan sú að kaupandinn á að greiða kaupverðið þegar seljandinn krefst þess, t.d. með því að senda reikning. Ef ekki kemur fram neinn frestur af hálfu seljanda þegar hann krefst greiðslu ber kaupanda að greiða um hæl.
    Stundum er samið um ákveðið svigrúm til greiðslu kaupverðsins, t.d. þannig að greiða megi í maímánuði eða eftir páska. Þegar svo hagar til er hugsanlegt að beita svipuðum sjónarmiðum og fram koma í 2. mgr. 9. gr. frumvarpsins, þó þannig að kaupandinn hafi val á greiðslu innan þess tíma sem svigrúmið nær til.
    Regla 1. mgr. takmarkast af þeirri grundvallarreglu 10. gr. að hönd selji hendi, sbr. einnig 22. og 51. gr. frumvarpsins. Seljandinn getur ekki krafist greiðslu fyrr en hlutur er afhentur kaupanda eða stendur honum til reiðu í samræmi við efni samningsins og ákvæði laganna. Það nægir ekki að seljandinn bjóði aðeins fram efndir að hluta. Í þessari reglu felst m.a. að seljandinn getur ekki krafist greiðslu fyrir fram, nema slíkt megi leiða af samningi.
    Ákvæði 1. mgr. 49. gr. takmarkast af ákvæðum 2. og 3. mgr. sömu greinar.
    Ákvæði 2. mgr. mælir fyrir um rétt kaupanda til þess að rannsaka söluhlut og er ekkert ákvæði að finna í gildandi lögum sem er beinlínis sambærilegt. Þar kemur réttur kaupanda til að rannsaka söluhlut einungis óbeint fram í 1. mgr. 71. gr., sem fjallar um greiðslu gegn afhendingu farmskírteinis o.fl.
    Í 2. mgr. er kaupanda veittur réttur til þess að rannsaka söluhlut á venjulegan hátt, áður en greiðsla fer fram. Hugtakið á „venjulegan hátt“ vísar til aðferðarinnar við rannsókn kaupanda. Ekki er skilyrði að um sé að ræða venju varðandi réttinn til rannsóknar og hversu umfangsmikil hún er. En ef um slíka venju er að ræða er rétt að líta svo á að hún marki það hvað teljist venjulegt í þessum efnum. Ef ekki er um slíka venju að ræða verður að líta svo á að umfang rannsóknar fari eftir aðstæðum.
    Kaupandinn hefur engan rétt til að rannsaka söluhlut ef það er ósamrýmanlegt þeirri aðferð sem samið hefur verið um varðandi afhendingu og greiðslu kaupverðs. Um það getur t.d. verið að ræða þegar hlutur er sendur gegn póstkröfu. Þótt umsaminn aðferð við afhendingu og greiðslu útiloki ekki rannsókn af hálfu kaupanda getur hin umsamda aðferð eigi að síður haft þýðingu varðandi umfang rannsóknarinnar. Réttur kaupanda samkvæmt ákvæðinu hlýtur í það minnsta að takmarkast við yfirborðsrannsókn. Þannig má t.d. vera að kaupandi hafi rétt til þess að opna umbúðir ef unnt er að framkvæma það án þess að skemma umbúðirnar, en kaupandi mundi að öðru jöfnu ekki rétt til þess að hluturinn yrði fluttur á atvinnustöð hans til rannsóknar. Ef annað leiðir ekki af venju verður að líta svo á að rannsóknin skuli vera takmarkaðri en leiðir af ákvæðum 31. gr.
    Í 3. mgr. eru sérstakar reglur um það þegar notað er farmbréf við flutning söluhlutar til ákvörðunar eða þegar flutningurinn að öðru leyti gerist með þeim hætti að seljandinn getur ekki ráðið yfir hlutnum eftir greiðslu. Seljandinn getur þá krafist greiðslu gegn afhendingu farmbréfs eða annarrar sönnunar um það að hluturinn verði fluttur með slíkum skilmálum. Ákvæðið gildir ekki aðeins þegar hlut á að senda frá afhendingarstað heldur einnig þegar afhenda á hlut á þeim stað sem kaupandinn hefur atvinnustöð sína.
    Í 3. mgr. felst undantekning frá ákvæðum 1. og 2. mgr. að því leyti að unnt er að krefjast greiðslu í þessum tilvikum, áður en hlutur er kominn til kaupandans og stendur honum til ráðstöfunar, og jafnvel þótt kaupandinn hafi ekki haft tækifæri til þess að rannsaka hlutinn. Ef seljandi hefur vanefnt skyldur sínar getur kaupandi beitt ákvæðum 42. gr. til að halda kaupverðinu eða beitt öðrum vanefndaúrræðum án tillits til ákvæðis þessa.
    Ákvæðið á ekki við um það álitamál hvort kaupandinn getur haldið eftir greiðslu sinni vegna vanefnda af hálfu seljanda. Það tilvik fer eftir reglum 42. gr. og öðrum ákvæðum um afleiðingar af vanefndum seljanda.

Um 50. gr.

    Frumvarpsgreinin svarar til 53. gr, sbr. 60. gr. SÞ-sáttmálans. Í gildandi lögum er engin ákvæði að finna sem svara beinlínis til þessarar greinar. Í almennum athugasemdum hér að framan eru raktar ástæður þess að tekin eru í frumvarpið sérstök ákvæði um atbeina kaupanda að efndum og vísast þangað.
    Kaupandi hefur í fyrsta lagi skv. a-lið almenna skyldu til þess að ljá atbeina sinn að efndum að því marki sem sanngjarnt er. Er hér um atbeina að ræða sem á sér stað fyrir efndir og er forsenda þess að seljandinn geti fullnægt skyldum sínum. Slíkur atbeini kemur ekki hvað síst til álita þegar um pöntunarkaup er að ræða. Atbeini kaupanda getur t.d. falist í því að skilgreina vissar þarfir, sbr. 60. gr., eða útvega tilskilin leyfi. Við pöntunarkaup er stundum samið um að kaupandinn eigi að útvega hluta efnis. Ef seljandinn á að sjá um uppsetningu söluhlutar eða annað sambærilegt eftir afhendingu hans verður kaupandinn að ljá atbeina sinn til þess að seljandinn fái aðgang að hlutnum og þeim stað þar sem setja á hlut upp. Þegar um flókin og umfangsmikil pöntunarkaup er að ræða, t.d. þegar um er að ræða kaup á skipi, sem á að smíða, geta aukaskyldur kaupandans verið mjög þýðingarmikið atriði við efndir samningsins.
    Skylda seljanda til að ljá atbeina sinn að efndum kann að vera nánar skilgreind í samningi, en hún getur einnig komið óbeint fram af efni samnings eða aðstæðum að öðru leyti. Umfang skyldu kaupandans takmarkast við það sem með sanngirni er hægt að ætlast til af honum. Þess vegna verður að meta það í hverju tilviki fyrir sig hversu langt skylda kaupanda nær.
    Í öðru lagi er kaupandi skyldur skv. b-lið að taka við hlut með því að sækja hann eða veita honum viðtöku. Skylda kaupandans gengur fyrst og fremst út á að fullnægja því sem er tilgangur seljandans með sölunni, þ.e. að losna frá hlutnum. Rökin að baki ákvæðinu eru einkum þau að í VII. kafla frumvarpsins er mælt fyrir um önnur réttaráhrif vegna vanefnda kaupanda á að veita hluta viðtöku en á öðrum aukaskyldum hans.

Um VII. kafla.

    Í VII. kafla er fjallað um úrræði seljanda vegna vanefnda af hálfu kaupanda. Almenna ákvæðið er í 51. gr., en þar kemur fram að seljandi getur krafist efnda, riftunar, skaðabóta o.fl. ef kaupandinn greiðir ekki kaupverðið eða fullnægir ekki öðrum skyldum sínum og það verður hvorki rakið til seljanda né atvika sem hann varða. Í 52. gr. ræðir um rétt seljanda til efnda með því að krefja kaupanda um greiðslu kaupverðsins. Þar er einnig fjallað um afpöntun kaupanda á hlut sem er sérstaklega útbúinn fyrir hann. Í 53. gr. er fjallað um rétt seljanda til að krefja kaupanda um atbeina að efndum. Í 54. gr. er fjallað um skilyrði þess að seljandi geti rift kaupum þegar kaupandi greiðir ekki og í 55. gr. ræðir um rétt hans til riftunar þegar kaupandi stuðlar ekki að efndum. Þá er í 56. gr. fjallað um skilyrði riftunar þegar hið selda er afhent í áföngum. Í 57. gr. er rætt um rétt seljanda til skaðabóta vegna greiðsludráttar kaupanda. Í 58. gr. er kveðið á um upplýsingaskyldu kaupanda þegar hindrun hefur áhrif á möguleika til efnda. Í 59. gr. er rætt um riftunarfrest seljanda þegar kaupverðið hefur verið greitt og í 60. gr. er fjallað um réttarstöðuna ef kaupandi ákveður ekki einkenni söluhlutar þegar honum er það skylt samkvæmt samningi.

Um 51. gr.

    Ákvæðið svarar til 61. gr. SÞ-samningsins. Í gildandi lögum, nr. 39/1922, er ekki sambærilegt ákvæði.
    Ákvæði 1. mgr. gefur yfirlit um heimildir seljanda vegna vanefnda af hálfu kaupanda. Ákvæðið er byggt upp á sama hátt og hefur sama hlutverk og 1. mgr. 22. gr. (greiðsludráttur af hálfu seljanda) og 1. mgr. 30. gr. (galli á söluhlut) og vísast því til athugasemda við þær greinar. Skyldur kaupanda skv. VI. kafla eru greiðsla kaupverðsins (48. og 49. gr.), atbeini að efndum (a-liður 50. gr.) og að veita hlut viðtöku (b-liður 50. gr.). Til viðbótar þessu geta hvílt aðrar skyldur á kaupanda samkvæmt samningi eða samkvæmt lögum þessum, t.d. skv. IX. kafla.
    Ákvæði 1. mgr. á í fyrsta lagi við ef „kaupandi greiðir ekki kaupverðið“. Er með því bæði átt við það þegar kaupverðið er alls ekki greitt og eins þegar dráttur verður á greiðslu þess. Um það hvenær um greiðsludrátt af hálfu kaupanda er að ræða vísast til athugasemda við 48. gr. Hér undir geta einnig fallið aðrar vanefndir varðandi greiðsluna, t.d. þegar greitt er með röngum gjaldmiðli eða á röngum stað.
    Í öðru lagi á ákvæði 1. mgr. við ef kaupandi „fullnægir ekki öðrum skyldum sínum samkvæmt samningi eða lögum þessum“. Hér er t.d. átt við þær skyldur sem nefndar eru í 50. gr. um atbeina kaupanda að efndum.
    Skilyrði þess að kaupandinn geti borið fyrir sig vanefndaúrræði skv. 1. mgr. er að vanefndir verði hvorki raktar til seljanda né atvika sem hann varða. Hér er um að ræða sama orðalag og í 22. og 30. gr. frumvarpsins og vísast til skýringa við þær greinar. Til viðbótar skal þess þó getið að meginmáli skiptir hvar orsaka vanefndanna er að leita, en ekki hvort öðrum hvorum samningsaðila er um að kenna.
    Í 2. málsl. 1. mgr. kemur fram að seljandi getur haldið eftir greiðslum skv. 10. gr. ásamt því að krefjast vaxta skv. 71. gr. Þessi réttur getur verið virkt úrræði til þess að þvinga fram greiðslu. Í þeim tilvikum þar sem kaupandinn neitar að ljá atbeina sinn að efndum mun réttur seljanda til þess að halda eftir greiðslu þó hafa litla sjálfstæða þýðingu.
    Þær kröfur, sem seljandi getur sett fram þegar fyrir liggja vanefndir af hálfu kaupanda, eru í fyrsta lagi krafa um efndir skv. 52. gr., í öðru lagi að rifta kaupum skv. 54. og 55. gr. og í þriðja lagi að krefjast skaðabóta skv. 57. gr. Að lokum getur seljandi haldið greiðslu sinni samkvæmt ákvæðum 10. gr. og krafist vaxta skv. 71. gr. Það segir sig sjálft að seljandi getur ekki samtímis rift kaupum og krafist efnda, en að öðru leyti útiloka mismunandi vanefndaúrræði ekki fyrirvaralaust beitingu hvert annars.
    Það er undir skilyrðum viðkomandi ákvæða komið að hvaða marki einstökum úrræðum verður beitt í tilefni vanefndar. Þannig verður t.d. vaxta aðeins krafist af kaupverði þegar um greiðsludrátt er að ræða.
    Ákvæði 2. mgr. tengjast því álitaefni að hvaða marki seljandi á rétt á að krefjast efnda samkvæmt aðalefni samnings á þeirri skyldu kaupanda að veita söluhlut viðtöku. Fram kemur í ákvæðinu að sinni kaupandi ekki þeirri skyldu sinni að veita söluhlut viðtöku og það verður hvorki rakið til seljanda né atvika, sem hann varða, getur seljandinn einungis krafist riftunar skv. 55. gr. eða skaðabóta skv. 2. mgr. 57. gr. eða 58. gr. Af þessum tilvísunum og með samanburði við 52. og 53. gr. sést að meginreglan er sú að seljandinn getur ekki krafist þess að kaupandinn efni samninginn in natura með því að veita söluhlut viðtöku. Að öðru leyti eiga við ákvæðin í XI. kafla um umönnun söluhlutar ef kaupandi veitir honum ekki viðtöku. Það felur m.a. í sér að seljandinn á rétt á skaðabótum vegna kostnaðar sem hann hefur haft af því að annast söluhlut.
    Í 3. mgr. frumvarpsgreinarinnar er tekið fram að réttur seljanda til skaðabóta og vaxta falli ekki brott, þótt hann neyti annarra úrræða eða slíkra úrræða verði ekki neytt. Af því leiðir að þær heimildir, sem standa seljanda til boða, útiloka eins og áður segir ekki endilega hver aðra. Um röksemdir fyrir ákvæðinu vísast til þess sem segir um 1. mgr. 22. gr.

Um 52. gr.

    Ákvæði þetta svarar til 79. gr., sbr. 28. gr. SÞ-samningsins. Í ákvæðinu er fjallað um rétt seljanda til þess að krefjast greiðslu, en um rétt seljanda til þess að krefjast þess af kaupanda að hann stuðli að efndum er fjallað í 53. gr. Ákvæði 52. og 53. gr. eiga sér hliðstæðu í 23. gr. frumvarpsins, sem fjallar um rétt kaupanda til þess að krefjast efnda. Í gildandi lögum er ekki ákvæði sambærilegt við frumvarpsgreinina, en í 28. gr. þeirra kemur fram að seljandinn á rétt á að halda fast við kaupin. Þá er 3. mgr. frumvarpsgreinarinnar að hluta svipaðs efnis og 31. gr. gildandi laga.
    Í 1. mgr. 52. gr. kemur fram sú meginregla að seljandinn getur haldið fast við kaupin og krafist þess að kaupandinn greiði kaupverðið. Frá þessu er þó gerð undantekning ef um greiðsludrátt er að ræða sem rekja má til stöðvunar samgangna, greiðslumiðlunar eða annarra þeirra atvika sem kaupandi getur ekki stjórnað og hann fær ekki unnið bug á. Sem dæmi um atvik af þessu tagi eru t.d. verkfall í banka eða miklar vélarbilanir sem valda því að greiðsla getur ekki farið fram. Í ákvæðinu er einnig nefnd stöðvun „vegna annarra atvika“. Þar gæti t.d. verið um að ræða gjaldeyrishömlur. Undantekningar þessar þykja nægilega rökstuddar með hliðsjón af samsvarandi undanþágum til handa seljanda skv. 23. gr. frumvarpsins. Tilvikin, sem hér eru höfð í huga, eru ekki með öllu óraunhæf því að gera má ráð fyrir því að óyfirstíganlegar hindranir geti staðið í vegi fyrir greiðslu á réttum tíma. Hins vegar er ljóst að þær ástæður, sem afsakað geta kaupanda, eru færri en þær sem afsaka seljandann og afhendingardrátt af hans hálfu.
    Það er skilyrði skv. 1. mgr. 52. gr. að umrædd atvik valdi því að greiðsla geti ekki farið fram. Atvikin verða því að vera hindrun fyrir greiðslu. Að auki koma fram þau skilyrði að kaupandi geti ekki haft stjórn á umræddum atvikum og að hann geti ekki sigrast á þeim. Um skýringu svipaðra hugtaka má vísa til athugasemda við 1. mgr. 27. gr.
    Í 2. mgr. 52. gr. er rætt um rétt kaupanda til þess að afpanta hlut og felur ákvæðið í raun í sér undantekningu frá meginreglu 1. mgr. um rétt seljanda til að krefjast efnda. Hvorki gildandi lög né SÞ-samningurinn hafa að geyma sambærilegt ákvæði og fram kemur í 2. mgr. um rétt til þess að afpanta hlut á tímabilinu frá því að kaup gerðust og þar til afhending fer fram.
    Segja má að ákvæðið byggist á samspili tveggja aðalsjónarmiða. Fyrra sjónarmiðið er það að gerða samninga beri að halda. Hitt sjónarmiðið er að það stríði gegn samfélagslegum hagsmunum að láta verðmæti fara forgörðum. Regla frumvarpsins er á því byggð að síðara sjónarmiðið eigi að gilda að því er varðar pöntunarkaup, en seljandi getur hins vegar átt rétt á skaðabótum. Frá þessu er þó sú undantekning gerð að hafi stöðvun í för með sér verulegt óhagræði fyrir seljanda, eða hættu á því að hann fái ekki bætt það tap sem afpöntun hefur í för með sér, getur seljandinn haldið fast við kaupin. Afpöntun hefur svipuð áhrif og riftun að því leyti til að seljandi getur ekki haldið áfram efndum samningsins. Skilyrði riftunar og afpöntunar eru hins vegar ekki hin sömu, sem m.a. kemur fram í því að unnt er að beita afpöntun þótt ekki sé um neinar vanefndir af hálfu seljanda að ræða.
    Ákvæði 1. mgr. á aðeins við um kaup á hlut sem er sérstaklega útbúinn fyrir kaupanda. Hafi kaupandi afpantað hlutinn getur seljandi samkvæmt ákvæðinu ekki haldið fast við kaupin í þrenns konar skilningi. Í fyrsta lagi getur hann ekki haldið áfram gerð hlutarins. Í öðru lagi getur hann ekki gert aðrar ráðstafanir til afhendingar hans, t.d. pantað flutning á honum. Í þriðja lagi getur seljandi ekki krafist greiðslu. Rétturinn til afpöntunar getur verið áhættusamur fyrir seljanda þar sem hann situr e.t.v. uppi með hlut sem hvorki hann sjálfur né aðrir geta nýtt. Af þeim sökum gerir ákvæðið ráð fyrir því að hann geti haldið fast við kaupin í vissum tilvikum, sem nánari grein er gerð fyrir síðar.
    Ljóst er af orðum ákvæðsins að það gildir einnig í neytendakaupum. Ekki er ástæða til þess að gera undantekningu að þessu leyti varðandi þau kaup því að það sjónarmið að halda beri gerða samninga hefur þar einnig mikla þýðingu. Hins vegar leiðir það af eðli neytendakaupa að oft má líta svo á að seljandi hafi þar samþykkt rýmri afpöntunarrétt.
    Eins og áður segir þarf seljandi ekki að sætta sig við afpöntun ef stöðvun hefur í för með sér verulegt óhagræði fyrir hann eða hættu á því að hann fái ekki bætt það tjón sem afpöntun hefur í för með sér. Það síðarnefnda getur t.d. átt við ef kaupandinn stendur fjárhagslega höllum fæti og einnig þegar verðmæti hlutarins er lítið sem ekkert í því ástandi, sem hann er, en líkur eru til að verðmætið aukist eftir því sem verkinu vindur fram.
    Í lokamálslið 2. mgr. ræðir um skaðabætur til handa seljanda ef hann getur ekki haldið fast við kaupin. Rökin fyrir þessari reglu eru þau að afpöntunarréttuinn felur í sér frávik frá þeirri meginreglu að gerða samninga beri að halda. Af þeim sökum er eðlilegt að seljandi eigi rétt á bótum. Kaupandi verður því að greiða bætur í samræmi við þær almennu reglur sem notaðar eru við mat á fjárhæð skaðabóta í kafla X.
    Í 3. mgr. kemur fram sú regla að hafi hlutur enn ekki verið afhentur glati seljandi rétti sínum til þess að krefjast efnda ef hann bíður óhæfilega lengi með að setja fram slíka kröfu. Af ákvæðum 3. mgr. leiðir að hún gildir aðeins þegar hlutur hefur ekki verið afhentur, þ.e. í þeim tilvikum þegar endurgjaldið hefur verið greitt fyrir fram að öllu leyti eða nokkru. Eftir að hlutur hefur verið afhentur á 3. mgr. hins vegar ekki við. Rökin fyrir því eru þau að með afhendingu kemur fram skýr viljayfirlýsing um það af hálfu seljanda að hann vænti efnda af hálfu kaupanda.

Um 53. gr.

    Ákvæði þetta ásamt ákvæði 52. gr. frumvarpsins svarar til 79. gr, sbr. 28. gr. SÞ- samningsins. Í ákvæðinu segir að um rétt seljanda til að krefjast efnda á þeirri skyldu kaupanda að stuðla að efndum gildi ákvæði 23. gr. eftir því sem við á.
    Ákvæðið tekur einkanlega til þess atbeina kaupanda sem nefndur er í a-lið 50. gr. Verið getur að kaupandinn hafi í samningi tekið á sig aðrar skyldur til að ljá atbeina sinn til efnda og á ákvæðið þá einnig við. Aftur á móti fellur skylda kaupanda til þess að veita hlut viðtöku skv. b-lið 50. gr. utan ákvæðisins, sbr. athugasemdir við 2. mgr. 51. gr. frumvarpsins. Hugtakið „að stuðla að efndum“ nær sennilega til flestra skyldna sem geta hugsanlega hvílt á kaupanda samkvæmt samningnum. Ef um fleiri skyldur er að ræða er eftir atvikum unnt að beita 53. gr. með lögjöfnun.
    Rétturinn til þess að krefjast efnda á þeirri skyldu kaupanda að hann stuðli að efndum er hliðstæður rétti kaupanda til þess að krefjast efnda skv. 23. gr. frumvarpsins. Við hagsmunamat skv. 23. gr. verður að taka sérstakt tillit til þess að atbeini kaupandans getur við ákveðnar aðstæður verið algjör forsenda þess að seljandi geti fullnægt skyldum sínum samkvæmt samningnum. Að öðru leyti vísast til athugasemda við 23. gr. frumvarpsins.

Um 54. gr.

    Hvað riftun sem vanefndaúrræði varðar þykir hentugt að greina á milli greiðsluskyldunnar annars vegar og annarra skyldna hins vegar. Ákvæði þetta á því aðeins við um vanefndir á greiðsluskyldunni, en um skilyrði riftunar þegar kaupandi stuðlar ekki að efndum er rætt í 55. gr., sbr. einnig 59. gr. sem fjallar um riftunarfrest. Af öðrum riftunarreglum frumvarpsins má nefna 25., 26. og 39. gr. um riftunarrétt kaupanda við afhendingardrátt seljanda eða galla á söluhlut. Um riftun þegar afhenda á hið selda í áföngum eða vegna fyrirsjáanlegra vanefnda ræðir í 56. og 62. gr.
    Um skilyrði riftunar vegna vanefnda kaupanda er fjallað í 64. gr. SÞ-samningsins. Í 28. gr. gildandi kaupalaga, nr. 39/1922, ræðir aðeins um rétt til riftunar vegna greiðsludráttar kaupanda. Þótt ekki komi það beinlínis fram í orðalagi 54. gr. frumvarpsins er það ætlunin að ákvæðið nái einnig til annarra ágalla varðandi greiðsluna en greiðsludráttar, t.d. þegar greitt er í rangri mynt, sbr. og athugasemdir við 48. gr.
    Í 1. mgr. 54. gr. kemur fram meginreglan um rétt seljanda til riftunar. Þess er krafist að kaupandi hafi vanefnt verulega greiðsluskyldu sína samkvæmt samningi eða ákvæðum laga. Vanefndin getur ýmist verið til komin vegna þess að greitt er of seint eða alls ekki og vanefndin getur einnig varðað innihald greiðsluskyldunnar, t.d. að greitt sé á röngum stað, með röngum hætti eða með röngum greiðslumiðli. Skilyrði riftunar er að vanefndir kaupanda séu verulegar. Riftunin sjálf verður að fara fram með munnlegri eða skriflegri yfirlýsingu og ber kaupandi áhættuna af sendingu tilkynningarinnar, sbr. 82. gr.
    Yfirlýsing seljanda verður að vera ótvíræð um að hann rifti kaupum. Viðvörun vegna hugsanlegrar riftunar síðar er ekki nægileg í þessu efni og ekki heldur fyrirspurn. Riftunin er bindandi fyrir seljandann þegar yfirlýsingin er komin til kaupanda og hann getur ekki afturkallað hana eftir það tímamark. Þetta þýðir með öðrum orðum að afturköllun fær því aðeins gildi að hún komi til kaupanda samtímis eða áður en sjálf riftunaryfirlýsingin.
    Um skilgreiningu á því hvenær vanefndir teljast verulegar vísast til athugasemda við 25. og 39. gr. Sá áskilnaður að vanefndir þurfi að vera verulegar á við hvort heldur sem kaupandinn á að staðgreiða kaupverðið gegn móttöku söluhlutar eða t.d. greiða það gegn móttöku skjala. Eigi að síður geta greiðsluskilmálarnir haft þýðingu við mat á því hvort skilyrðinu um verulegar vanefndir er fullnægt eða ekki. Einnig getur í því sambandi verið rétt að líta til eðlis kaupanna. Í verslunarkaupum getur greiðsludráttur, þótt stuttur sé, haft veruleg áhrif á hagsmuni seljanda. Þá skiptir það og máli hvort um greiðsludrátt varðandi allt kaupverðið er að ræða eða einungis lítinn hluta þess.
    Í 2. mgr. er fjallað um rétt seljanda til riftunar þegar kaupandi greiðir ekki kaupverðið innan sanngjarns viðbótarfrests, sem seljandinn hefur sett honum til efnda. Gildir þá ekki sá áskilnaður að vanefndir séu verulegar. Málsgreinin á aðeins við um það tilvik þegar kaupandi greiðir ekki kaupverðið. Hún á ekki við um seinkun sem verður áður en viðbótarfrestur rennur út. Ef kaupandi greiðir röngum aðila eða á röngum stað eða með röngum greiðslueyri, þannig að seljandi er ekki skyldur til að veita greiðslu viðtöku, á málsgreinin ekki beint við, en sennilega má þó fella þessi tilvik undir hana með lögjöfnuði. Riftun getur ekki farið fram fyrr en eftir að viðbótarfresturinn er úti, en einnig fyrir þann tíma ef seljandi hefur veitt tilkynningu viðtöku frá kaupanda um að hann ætli ekki að efna skuldbindingar sínar. Ákvæði þetta er að öðru leyti sambærilegt við 2. mgr. 25. gr. frumvarpsins og ber að skýra á svipaðan hátt.
    Í 3. mgr. kemur fram að seljandi getur ekki rift kaupum meðan viðbótarfrestur líður nema því aðeins að kaupandinn hafi lýst því yfir að hann muni ekki efna sinn hlut á þeim tíma. Um skýringu þessa ákvæðis vísast til athugasemda við sambærilegt ákvæði í 3. mgr. 25. gr.
    Í 4. mgr. kemur fram takmörkun á rétti seljanda til riftunar þegar kaupandinn hefur þegar veitt söluhlut viðtöku. Seljandinn getur þegar svo stendur á því aðeins rift að hann hafi gert um það fyrirvara eða kaupandinn hafni hlutnum. Til viðbótar verður almennum skilyrðum riftunar skv. 1.–3. mgr. einnig að vera fullnægt. Fyrirvari af því tagi, sem hér var nefndur, getur verið orðaður beint eða óbeint.
    Framangreind skírskotun til þess að kaupandinn hafni hlutnum á við þegar kaupandinn hafnar honum af öðrum ástæðum en vegna vanefnda af hálfu seljanda. En ákvæðið getur einnig átt við ef kaupandinn hafnar hlutnum með vísun til vanefnda af hálfu seljanda, sem seljandinn mótmælir, jafnhliða því að seljandinn riftir kaupum vegna greiðsludráttar.
    Í síðari málslið 4. mgr. 54. gr. kemur fram nokkru rýmri réttur til riftunar í alþjóðlegum kaupum. Seljandinn getur rift kaupum á grundvelli almennra skilyrða þegar kaupandinn hefur veitt söluhlut viðtöku, án þess að hafa gert um það sérstakan fyrirvara. Það er þó jafnan skilyrði að riftunin hafi ekki áhrif á rétt þriðja manns yfir hlutnum. Samkvæmt greininni er bú kaupanda einnig talið til þriðja manns. Reglu þessari er bætt við ákvæðið vegna tengslanna við SÞ-samninginn, sbr. 64. og 4. gr. hans.

Um 55. gr.

    Um tengsl 55. gr. frumvarpsins við SÞ-samninginn vísast til athugasemda við 54. gr. hér að framan. Ákvæði 54. gr. gilda um riftun vegna greiðsludráttar, en 59. gr. fjallar um riftunarfrest. Af öðrum riftunarákvæðum má einnig nefna 25., 26. og 39. gr. um riftunarrétt kaupanda við afhendingardrátt seljanda og vegna galla á söluhlut. Um riftun þegar afhenda á hið selda í áföngum og vegna fyrirsjáanlegra vanefnda er rætt í 56. og 62. gr., sbr. 44. gr. Samkvæmt gildandi lögum hefur seljandi ekki rétt til riftunar þegar kaupandi stuðlar ekki að efndum, nema svo hafi sérstaklega verið um samið, sbr. 33. gr.
    Í 1. mgr. kemur fram almennt skilyrði riftunar þegar kaupandinn stuðlar að efndum. Fyrri málsliður 1. mgr. á við um þann atbeina, sem nefndur er í a-lið 50. gr., og eftir atvikum annan atbeina sem um kann að hafa verið samið. Ef kaupandinn hefur tekið á sig aðrar skyldur sem ekki er unnt að skilgreina sem atbeina að efndum er eftir atvikum hægt að beita ákvæðinu með lögjöfnun. Vísast að öðru leyti til athugasemda við 53. gr. frumvarpsins.
    Skilyrði riftunar er sambærilegt þeim skilyrðum, sem fram koma í 1. mgr. 25., sbr. 1. mgr. 39. og 1. mgr. 54. gr., og vísast til skýringa við þær greinar. Þar sem ákvæði þetta fjallar um vanefndir á aukaskyldum kaupanda er yfirleitt sanngjarnt að leggja hér til grundvallar nokkuð strangara mat varðandi skilyrðið um verulegar vanefndir en þegar um vanefndir á afhendingar- eða greiðsluskyldunni sjálfri er að ræða. Riftun getur t.d. verið raunhæft úrræði þegar seljandinn á að búa hlutinn til og vanræksla kaupanda á því að ljá atbeina sinn að efndum hefur skaðleg áhrif á athafnir eða rekstur seljanda að öðru leyti. Þetta getur t.d. átt við þegar um er að ræða kaup á skipi sem á að smíða fyrir kaupanda og vanræksla kaupanda veldur því að skipið stendur í slipp hjá seljanda, tekur þar pláss og stendur í vegi fyrir því að seljandi geti tekið að sér önnur verkefni.
    Það er ekki hvað síst í pöntunarkaupum, sem sú staða getur komið upp að kaupandinn vanefnir bæði skylduna til þess að ljá atbeina sinn að efndum og skylduna til þess að greiða hluta verðsins, meðan á tilbúningi hlutar stendur. Í slíkum tilvikum er yfirleitt sanngjarnt að meta réttinn til riftunar með hliðsjón af þeim sameiginlegu áhrifum sem vanefndirnar valda.
    Í síðari málslið 1. mgr. 55. gr. ræðir um riftunarrétt seljanda þegar kaupandinn veitir ekki söluhlut viðtöku í samræmi við fyrirmæli b-liðar 50. gr. Þegar kaupandi lætur hjá líða að veita söluhlut viðtöku getur það oft verið vísbending um að hann muni ekki heldur greiða kaupverðið. Í því tilviki getur seljandinn eftir atvikum rift kaupunum í samræmi við ákvæði 62. gr. Þótt skilyrði til þess að rifta kaupum áður en að afhendingu kemur séu ekki fyrir hendi, getur seljandinn borið fyrir sig ákvæði 54. gr. ef vanræksla kaupanda á að veita söluhlut viðtöku verður samtímis því að hann greiðir ekki. Ef kaupandinn greiðir kaupverðið án þess þó að vilja veita söluhlut viðtöku veldur það seljanda yfirleitt engum vandkvæðum. Að því marki sem slíkt veldur kostnaði vegna geymslu hlutarins á seljandinn þó rétt á skaðabótum af því tilefni, sbr. ákvæði 72.–78. gr.
    Seljandinn hefur ekki þörf fyrir að rifta kaupum af þeirri ástæðu einni að kaupandi veitir söluhlut ekki viðtöku, nema því aðeins að hann hafi sérstaka hagsmuni af því að losna við hlutinn og er riftunarrétturinn samkvæmt ákvæðinu því takmarkaður við slík tilvik. Þess konar sérstakra hagsmuna á seljandinn einkum að gæta þegar það að losna við hlutinn er sjálfstæður tilgangur kaupanna ásamt þeim hagsmunum að fá greiðslu. Sem dæmi um slíkt má nefna kaup um hús sem selt er til niðurrifs og sölu á vörum af lager sem á að tæma. Slíkt dæmi er einnig sala verksmiðju á eitruðum úrgangsefnum sem á að endurvinna.
    Seljandinn hefur rétt til að rifta kaupum skv. 2. mgr. 55. gr. þegar kaupandinn stuðlar ekki að efndum innan hæfilegs viðbótarfrests, sem seljandinn hefur sett honum til efnda. Sama á við þegar kaupandinn veitir ekki hlut viðtöku áður en slíkur frestur er liðinn. Í því tilviki gildir sama skilyrði og fram kemur í 1. mgr., þ.e. að seljandinn hafi sérstaka hagsmuni af því að losna við hlutinn. Ákvæðið svarar til 2. mgr. 25. gr. og 2. mgr. 54. gr. og vísast um skýringar til athugasemda við þær greinar.
    Við mat á því hvað telst sanngjarn viðbótarfrestur verður að líta til þess um hvers konar skyldu er að ræða. Fresturinn verður að veita kaupanda — eða kaupendum yfirleitt í svipaðri stöðu — sanngjarnt og raunverulegt færi á því að efna viðkomandi skyldu. Ekki er unnt að ætlast til þess að seljandinn taki tillit til einstaklingsbundinna þarfa og stöðu kaupanda. En það gildir hér sem endranær að réttinn til þess að setja viðbótarfrest á ekki að vera unnt að nota til þess að skapa stöðu til riftunar á grundvelli vanefnda sem eru augljóslega óverulegar.
    Um skýringar á 3. mgr. 55. gr. frumvarpsins vísast til athugasemda sem fram koma í skýringum við 3. mgr. 54. gr.

Um 56. gr.

    Frumvarpsgreinin svarar til 73. gr. SÞ-samningsins. Ákvæði 29. gr. laga nr. 39/1922 er sambærilegt við 2. mgr., en í gildandi lögum er hins vegar ekki regla sambærileg 1. mgr. Frumvarpsgreinin á ekki aðeins við um greiðsluvanefndir heldur einnig vanefndir kaupanda á skyldunni til að stuðla að efndum. Þau réttindi, sem seljandinn hefur samkvæmt frumvarpsgreininni, eru mjög hliðstæð réttindum kaupanda skv. 44. gr. Greinin á við um riftun vegna allra vanefnda kaupanda við áfangaskyldur hans. Um vanefndir er því ekki aðeins að ræða þegar kaupandi vanrækir greiðsluskyldu sína, sbr. 54. gr. heldur einnig þegar hann hefur vanefnt aðrar skyldur í sambandi við kaupin, sbr. 55. gr., sbr. einnig 50. gr. og 1. mgr. 51. gr. frumvarpsins.
    Í 1. mgr. er fjallað um tilvik þegar seljandinn á að afhenda hið selda í áföngum og efndir af hálfu kaupanda haldast í hendur við afhendingu seljanda. Í ákvæðinu felst hið sama og í 1. mgr. 44. gr., litið er á hverja afhendingu sem sjálfstæð kaup að því er riftunarréttinn varðar. Seljandinn getur við vanefndir rift kaupum að því er hverja einstaka afhendingu varðar og skilyrði þessa eru metin út frá viðkomandi afhendingu. Tilvísun 1. mgr. 56. gr. til 54. gr. frumvarpsins felur það m.a. í sér að vanefndir þær, sem hér um ræðir, verða að vera verulegar, eða að viðbótarfresti hafi ekki verið sinnt. Enn fremur felst í tilvísuninni að riftun kann að taka til afhendinga sem kaupandi hefur þegar veitt viðtöku, sbr. 4. mgr. 54. gr. Loks eiga ákvæði 59. gr. við um riftunarfresti.
    Ákvæði 2. mgr. heimila seljanda rétt til riftunar að því er síðari afhendingar varðar með sömu skilyrðum og fram koma í 2. mgr. 44. gr. varðandi riftunarheimild kaupanda. Ólíkt því sem gildir um riftun skv. 62. gr. er það skilyrði að þegar séu til staðar vanefndir varðandi eina einstaka afhendingu. Vanefndir verða að vera slíkar, þ.e. þess eðlis og með þeim hætti að þær veiti „réttmæta ástæðu til að ætla“ að riftunarréttur skapist að því er síðari afhendingar varðar. Hugtakið „réttmæt ástæða“ ber að skýra með hliðsjón af því sem segir í athugasemdum við 2. mgr. 44. gr. Sem dæmi um það þegar ekki er ástæða til að óttast frekari vanefndir varðandi síðari afhendingar má t.d. nefna það tilvik þegar vanefndir eiga rót að rekja til misskilnings milli samningsaðila, eða hún er vegna tímabundinnar hindrunar, sem kaupandi gat ekki með góðu móti komið í veg fyrir og ekki er um að kenna vilja- eða getuleysi hans til þess að greiða.
    Það er ekki skilyrði riftunar skv. 2. mgr. að seljandinn rifti kaupum einnig að því er fyrstu afhendingu varðar. Að öðru leyti vísast til athugasemda við 2. mgr. 44. gr.

Um 57. gr.

    Í SÞ-samningnum er mælt fyrir um skilyrðin fyrir lausn undan bótaskyldu í 79. og 80. gr. Í 30. gr. gildandi kaupalaga er aðeins rætt um bótaábyrgð í því tilviki þegar seljandi riftir kaupum. Í 57. gr. er aðeins fjallað um bótaskylduna, en reglur um fjárhæð bóta eru í 67.–70. gr. Ákvæði 1. og 2. mgr. eiga við hvort heldur seljandinn hefur rift kaupum eða ekki. Það hvort kaupum hefur verið rift eða ekki hefur hins vegar áhrif á það hvað fæst bætt og hvað ekki. Samsvarandi ákvæði um ábyrgð seljanda eru í 27. og 28. gr. (greiðsludráttur) og í 40. gr. (gallar). Ákvæði um vexti eru í 71. gr.
    Ákvæði 1. og 2. málsl. 1. mgr. eru í öllum aðalatriðum orðuð líkt og 1. mgr. 27. gr. frumvarpsins. Skaðabótaábyrgð kaupanda á greiðsludrætti byggist á hinni svokölluðu stjórnunarábyrgð. Eins og í 1. mgr. 52. gr. eru stöðvun samgangna og greiðslumiðlunar sérstaklega nefnd sem dæmi um efndahindranir sem kaupandinn fær ekki ráðið við, enda eru þetta þau tilvik sem ætla má að hvað raunhæfust séu.
    Í afpöntun af hálfu kaupanda skv. 2. mgr. 52. gr. felst bæði að hann vill hvorki veita söluhlut viðtöku né fullnægja greiðsluskyldu sinni. Ástæður þess að kaupandi afpantar byggjast yfirleitt ekki á því að hindrun komi í veg fyrir greiðslu. Kaupandinn ber því jafnan skaðabótaábyrgð gagnvart seljanda vegna tjóns sem afpöntunin veldur, eins og fram kemur í 2. mgr. 52. gr. Þegar um er að ræða kostnað við að annast um söluhlut fer um bótaábyrgð skv. 75. gr. Um nánara inntak stjórnunarábyrgðar vísast til almennra athugasemda og skýringa við 27. gr.
    Samkvæmt 3. málsl. 1. mgr. 57. gr. gilda ákvæði 2. og 3. mgr. 27. gr. eftir því sem við getur átt. Kaupandinn ber með öðrum orðum sambærilega ábyrgð á aðstoðarmönnum sínum og seljandinn gerir. Í tilvísuninni felst einnig að greiðsluhindrun leysir aðeins undan ábyrgð meðan hún varir.
    Í frumvarpsgreininni er ekki vísað til 4. og 5. mgr. 27. gr. Í því felst að þegar um vanefndir á greiðslum er að ræða ber kaupandinn sömu ábyrgð hvort sem um beint eða óbeint tjón er að ræða. Það styðst að hluta til við þau rök að slíkar vanefndir munu nánast í öllum tilvikum óhjákvæmilega valda seljanda beinu tjóni. Þá er að hluta tekið tillit til eðlis greiðsluskyldunnar, en af því eðli leiðir að ekki er rétt að láta sömu sjónarmið gilda um hana og skyldur seljanda vegna dráttar á afhendingu söluhlutar.
    Ákvæði 2. mgr. eiga í fyrsta lagi við þegar kaupandi stuðlar ekki að efndum á þann hátt sem um ræðir í a-lið 50. gr. Þar að auki gildir ákvæðið einnig þegar kaupandi stuðlar ekki að efndum að öðru leyti, sbr. athugasemdir við 53. gr. Einnig tekur ákvæðið til þess þegar kaupandi veitir hlut ekki nógu snemma viðtöku samkvæmt ákvæðum í b-lið 50. gr. Í öllum þessum tilvikum ber kaupandi ábyrgð samkvæmt ákvæðum 27. gr. Þetta felur í sér þann mun í samanburði við 1. mgr. að kaupandi ber hér aðeins sakarábyrgð að því er varðar óbeint tjón.
    Að öðru leyti er ábyrgð kaupanda svipuð hvort sem um er að ræða 1. eða 2. mgr. Þó er vakin athygli á því að í b-lið 2. mgr. er það skilyrði bótaábyrgðar að seljandi hafi sérstaka hagsmuni af því að losna við söluhlut. (Sjá athugasemdir við 55. gr.)
    Ákvæðið felur ekki í sér reglur um rétt seljanda til að krefjast bóta fyrir að annast söluhlut í þeim tilvikum þegar kaupandi veitir hlut ekki viðtöku. Bætur vegna slíka útgjalda verða að styðjast við 75. gr.

Um 58. gr.

    Frumvarpsgrein þessi, sem er nýmæli, leggur þær skyldur á kaupanda að tilkynna seljanda um hindrun og áhrif hennar á möguleika sína til að efna kaupin. Samkvæmt greininni ber seljandi hlutlæga ábyrgð á því tjóni sem unnt var að komast hjá ef tilkynnt hefði verið skv. 58. gr. Tilkynningarskyldan gildir einnig að því er varðar hindranir sem kaupandi ber ekki ábyrgð á skv. 57. gr. Orðalag 58. gr. er í samræmi við orðalag 28. gr. um upplýsingaskyldu seljanda í sambærilegum tilvikum og vísast því til skýringa við þá grein.

Um 59. gr.

    Ákvæðið svarar til 2. mgr. 64. gr. SÞ-samningsins. Í gildandi kaupalögum er sambærilegt ákvæði í 32. gr., en það ákvæði á þó aðeins við um drátt er varðar greiðslu kaupverðs.
    Ákvæði þetta á við um frest seljanda til að rifta kaupum þegar kaupverðið hefur verið greitt og skilyrði riftunar skv. 54. og 55. gr. og 1. mgr. 56. gr. eru fyrir hendi. Af ákvæðinu leiðir að seljandi glatar rétti sínum til að rifta kaupum ef það er ekki gert innan þeirra tímamarka sem fram koma í 59. gr.
    Meðan kaupverðið hefur ekki verið greitt getur seljandinn krafist riftunar að því tilskildu að skilyrðin séu fyrir hendi. Á það við hvort heldur grundvöllur riftunar er greiðsludráttur eða annars konar vanefndir af hálfu kaupanda. Þegar svo hagar til byrjar enginn frestur samkvæmt frumvarpsgreininni að líða. Rökin eru þau að seljandi á að geta beðið eftir greiðslu án þess að glata vanefndarúrræðum. Hér kemur einnig til að seljandi hefur oft ekki næga yfirsýn yfir vanefndirnar og afleiðingar þeirra fyrr en greiðsla hefur átt sér stað.
    Þegar greiðsla hefur í raun verið innt af hendi hefur seljandinn veitt aðalgreiðslu kaupandans viðtöku. Það er því ekki sanngjarnt í slíkum tilvikum að seljandinn geti dregið það óeðlilega lengi að setja fram kröfu um riftun.
    Riftunarfrestir samkvæmt frumvarpsgreininni eiga einnig við um greiðslu í áföngum. Þegar samið er um afhendingu og greiðslur í áföngum skv. 56. gr. getur verið erfitt að beita 59. gr. Sanngjarnt virðist að láta reglurnar í 59. gr. gilda um hverja einstaka afhendingu skv. 1. mgr. 56. gr., þannig að frestur skv. 59. gr. verði virkur þegar viðkomandi greiðsla hefur farið fram, en ekki þá fyrst er heildargreiðslan hefur verið innt af hendi. Engir frestir gilda hins vegar þegar um er að ræða fyrirsjáanlegar vanefndir skv. 62. gr.
    Skilyrðið um það að frestir byrji ekki að líða fyrr en kaupandi hefur greitt gildir eins og áður segir án tillits til þess hvaða skylda kaupanda er vanefnd. Þannig skiptir t.d. ekki máli hvort um er að ræða skyldu kaupanda til að veita hlutnum viðtöku eða aðrar skyldur.
    A-liður frumvarpsgreinarinnar er þannig orðaður að hann á almennt við um drátt á efndum af hálfu kaupanda, hvort sem um er að ræða drátt er varðar greiðsluskylduna, viðtöku söluhlutar eða annan atbeina að efndum. Seljandinn verður í þessum tilvikum að hafa tilkynnt um riftun áður en hann fékk vitneskju um efndir viðkomandi skyldu. Gegn slíkri reglu má halda því fram að hún geti haft það í för með sér að riftunarrétturinn ráðist af tilviljunarkenndum atvikum, t.d. því hversu oft viðskiptabanki seljanda tilkynnir um greiðslur inn á reikning seljanda. Á hinn bóginn má leiða að því rök að lítil sanngirni sé í því fólgin að útiloka réttmæta riftunarkröfu eftir að dráttur á efndum hefur í raun átt sér stað, þ.e. riftunarkröfu sem seljandinn hefur sett fram í góðri trú um vanefndir kaupanda.
    Dráttur á efndum getur orðið með þeim hætti að greitt er of seint eða að greitt er með ófullnægjandi hætti, t.d. ef seljandi hefur hafnað greiðslu þar sem greitt er á röngum stað eða með röngum gjaldmiðli. Ef seljandi hafnar ekki strax slíkri tilraun til efnda á b-liður við ætli seljandi samt sem áður að bera fyrir sig vanefndina. Umræddur stafliður, þ.e. a-liður, gildir einnig um skylduna til að veita hlut viðtöku og þegar aukaskyldum er fullnægt of seint. Hugsanlegt er að þessar skyldur skiljist að, t.d. þegar kaupandi greiðir vöru en veitir henni ekki viðtöku. Í slíku tilviki glatar seljandi ekki rétti sínum til riftunar fyrr en hann hefur fengið vitneskju um að kaupandi hefur veitt hlut viðtöku. Hugsanlegt er loks að greiðsludráttur varði fleiri en eina skyldu t.d. bæði skylduna til að greiða kaupverðið og skylduna til að veita hlut viðtöku. Seljandinn glatar hér rétti til riftunar þegar hann hefur fengið greiðslu, en hann heldur eftir atvikum rétti sínu til riftunar vegna viðtökudráttar, þar til hann fær að vita að kaupandi hefur veitt hlut viðtöku.
    Í b-lið er skírskotað til annars konar vanefnda en greiðsludráttar, t.d. skorts á því að ljá atbeina sinn að efndum. Hér miðast upphafstími frestsins við það tímamark þegar seljandinn fékk vitneskju um vanefndina, eða það tímamark þegar viðbótarfrestur skv. 2. mgr. 52. gr. er liðinn. Seljandinn verður í því tilviki að rifta kaupum innan hæfilegs tíma þar á eftir. Aðrar vanefndir en dráttur geta t.d. verið þegar kaupandi afhendir „gallaða“ greiðslu, sem seljandi veitir viðtöku, t.d. þegar greiðsla fer fram á röngum stað eða með röngum gjaldmiðli. Ekki þykir ástæða til þess að mæla fyrir um sérstaka tilkynningu varðandi skaðabótakröfur, sbr. athugasemdir við 29. gr. Eru ákvæði frumvarpsgreinarinnar að þessu leyti í samræmi við 2. mgr. 64. gr. SÞ-samningsins.

Um 60. gr.


    Frumvarpsgrein þessi veitir seljanda rétt til að ákveða lögun söluhlutar, mál eða aðra eiginleika hans þegar svo stendur á að kaupandi ákveður ekki þessi einkenni samkvæmt ákvæðum samningsins. Ákvæði þetta á við þegar eiginleikar söluhlutar eru ekki tilgreindir í einstökum atriðum í samningi, en eigi að síður er ráð fyrir því gert eða um það samið að kaupandinn skuli tilgreina eiginleikana seinna. Hefur ákvæðið sérstaka þýðingu í pöntunarkaupum, en það á einnig við þegar seljandinn á að útvega hlut sérstaklega fyrir kaupanda. Greinin er í samræmi við 65. gr. SÞ-samningsins. Í gildandi kaupalögum, nr. 39/1922, er ekki sambærilegt ákvæði.
    Í mörgum tilvikum er eðlilegt fyrir seljanda að rifta kaupum og krefjast skaðabóta ef kaupandi sérgreinir ekki eiginleika söluhlutar í samræmi við skyldu sína, þ.e. hann tekur ekki afstöðu til þess hver skuli vera einkenni hans eða eiginleikar. Vanræksla kaupanda í þessum efnum þarf ekki alltaf að skipta miklu máli, eða hún gefur ekki tilefni til riftunar. Þá er að vísu sá möguleiki fyrir hendi að sækja kaupanda til skaðabóta, en einnig í því tilviki má vera að seljandi megi búast við mótmælum eða gagnkröfum. Almennt má segja að 60. gr. feli í sér úrræði sem geti komið í veg fyrir riftun eða skaðabótakröfur og deilur milli samningsaðila.
    Sérgreining getur snúist um lögun hlutar, mál eða aðra eiginleika, t.d. gæði, tæknilega útfærslu, árgerð, lit, tísku o.fl. Frumvarpsgreinin getur sérstaklega skipt máli við pöntun á árstíðabundnum vörum. Það er skilyrði samkvæmt greininni að kaupandi hafi samningsbundnar skyldur til að ákveða nánari sérgreiningu hlutarins.
    Þegar kaupandi hefur sérgreint söluhlut í samræmi við ákvæði samnings, verður sérgreiningin hluti samningsins og bindandi fyrir báða aðila. Af því leiðir að kaupandi getur ekki síðar breytt sérgreiningunni einhliða.
    Í 1. mgr. kemur fram heimild til handa seljanda, að ákveðnum skilyrðum fullnægðum, til að ákveða eiginleika hins selda. Frumskilyrði er að kaupandinn hafi ekki gert það á umsömdum tíma eða innan hæfilegs tíma eftir að hafa fengið um það hvatningu frá seljanda. Umsaminn tími getur verið ákveðinn beint í samningnum, t.d. með tiltekinni dagsetningu eða ákveðnum fresti.
    Seljandinn hefur ekki að öllu leyti frjálsar hendur til að ákveða eiginleika hins selda því að það verður að gerast í samræmi við það sem seljandi telur vera hagsmuni kaupanda. Ella getur niðurstaðan af ákvörðunum seljanda í þeim efnum orðið sú að kaupandinn fái í hendur hlut, sem ekki nýtist honum og teljist eftir atvikum gallaður. Það er því mikilvægt að seljandinn sýni varkárni í þessum efnum. Skv. 2. málsl. 1. mgr. er seljandinn bundinn við það sem hann „má ætla“ að séu hagsmunir kaupanda. Í flestum tilvikum má leggja til grundvallar þekkingu seljanda og starfsmanna hans á hagsmunum kaupandans miðað við samningaviðræður aðila og þau viðskiptaskjöl sem fyrir liggja. Yfirleitt verður einnig að leggja til grundvallar þá hagsmuni sem kaupendur í samsvarandi stöðu hafa venjulega. Ef seljandi gætir ekki þessara sjónarmiða verður afleiðingin sú að sérgreiningin verður ekki bindandi fyrir kaupandann. Seljandi á venjulega ekki í miklum erfiðleikum með sérgreiningu þegar um er að ræða hluti sem hann hefur á lager og seldir eru á venjulegum markaði. Í pöntunarkaupum og þegar um sérhannaða hluti er að ræða er staðan hins vegar önnur. Í sumum tilvikum má vera að sérgreining hlutar sé komin undir sérstökum smekk kaupanda. Jafnvel í þessum tilvikum getur kaupandi orðið bundinn við sérgreiningu seljanda ef hann víkur sér hjá henni sjálfur. Hins vegar er ljóst að seljandi er í miklum vanda staddur í þessum tilvikum, m.a. vegna þess að óhagstæð sérgreining fyrir seljanda gerir rétta framkvæmd samningsins óöruggari. Af þessum sökum m.a. kemur það ekki undarlega fyrir sjónir að skv. 3. málsl. 1. mgr. stendur réttur seljanda til að sérgreina ekki í vegi fyrir því að hann geti kosið að beita öðrum vanefndarúrræðum, jafnvel þótt hann hafi séð um sérgreininguna. Af þessu sökum gæti hann t.d. tekið þá ákvörðun að rifta kaupsamningnum og krefjast skaðabóta skv. 2. mgr. 57. gr.
    Í 2. mgr. koma fram frekari skilyrði gangvart seljanda í þeim tilvikum þegar hann sjálfur ákvarðar einkenni hins selda. Seljandinn verður að upplýsa kaupandann um þau einkenni, sem hann hefur tekið ákvörðun um, og veita jafnframt kaupanda færi á að breyta þeim. Ef kaupandinn neytir ekki slíkra úrræða verður ákvörðun seljanda bindandi. Í því felst að kaupandinn getur ekki borið fyrir sig vanefndaúrræði af því tilefni að eiginleikar hins selda séu ekki í samræmi við óskir hans.
    Kaupandinn getur heldur ekki losnað undan skyldum sínum samkvæmt samningnum með því að halda því fram að kaupin hafi verið bundin því skilyrði að kaupandinn tæki sjálfur ákvörðun um eiginleika hins selda. Ákvæðið veitir samkvæmt þessu seljandanum heimild til þess að halda fast við kaupin, einnig í þeim tilvikum þar sem skortur á atbeina kaupanda byggðist einmitt á óskinni um að losna frá samningnum. Seljandinn getur á hinn bóginn ekki með vísun til 60. gr. frumvarpsins komið í veg fyrir að kaupandinn afpanti hlut með vísan til reglu 2. mgr. 52. gr., svo fremi sem skilyrði afpöntunar eru til staðar.
    Skilyrði þess að ákvarðanir seljanda um eiginleika söluhlutar verði bindandi fyrir kaupanda er að kaupandi hafi fengið tilkynningu frá seljanda þar sem honum er veittur hæfilegur frestur til að breyta einkennunum. Leiðir þetta ótvírætt af 2. málsl. 2. mgr. sem í þessu tilviki gengur framar almennum ákvæðum 82. gr. um áhættuna af sendingu tilkynninga. „Hæfilegur frestur“ reiknast frá þeim tíma þegar kaupandi veitti tilkynningu viðtöku. Við mat á frestinum ber að taka tillit til hagsmuna beggja aðila.

Um VIII. kafla.

    Ákvæði þessa kafla eiga fyrst og fremst við um þau tilvik þegar enn er ekki um neinar vanefndir á samningsskyldu að ræða, en slíks er að vænta. Þá eiga ákvæði kaflans einnig við þegar um gjaldþrotaskiptameðferð á búi annars samningsaðila er að ræða. Ákvæði kaflans gilda bæði um kaupanda og seljanda. Í 61. gr. kemur fram sú regla að samningsaðili getur stöðvað efndir af sinni hálfu og haldið eftir greiðslu sinni vegna fyrirsjáanlegra vanefnda gagnaðila. Í 62. gr. er fjallað um riftun aðila vegna fyrirsjáanlegra vanefnda gagnaðila og í 63. gr. ræðir um áhrif gjaldþrots samningsaðila á efndir samnings.

Um 61. gr.

    Ákvæðið veitir aðila rétt til að stöðva efndir og halda eftir eigin greiðslu þegar vænta má vanefnda af hálfu gagnaðila. Þó verða nánar ákveðin atvik að liggja fyrir, sem skjóta stoðum undir þær ályktanir að um vanefndir muni verða að ræða. Ákvæði þetta er sambærilegt 71. gr. SÞ-samningsins. Í gildandi kaupalögum, nr. 39/1922, er að nokkru fjallað um sama álitaefni í 39. gr.
    Rétturinn skv. 61. gr. nær í fyrsta lagi til þess að stöðva efndir og í öðru lagi til þess að halda eftir greiðslum. Í víðri merkingu tekur hugtakið „stöðvunarréttur“ til beggja þessara heimilda. Líta má á þennan rétt sem stuðning við aðalregluna um að greiðsla skuli koma á móti greiðslu.
    Hugtakið að „stöðva“ efndir táknar bæði að hætta þeim alveg og einnig að fresta þeim um stundarsakir. Hugtakið tekur einnig til þess að hætta frekari undirbúningi efnda sem þegar var hafinn.
    Að því er varðar kaupanda getur verið raunhæft að stöðva undirbúning að greiðslum og/eða undirbúning þess að veita vöru viðtöku. Hér getur t.d. verið um það að ræða að fresta lántöku, frestun á því að gefa út skuldaskjal eða frestun þess að greiða fyrir fram. Varðandi seljanda gefur ákvæðið færi á að fresta framleiðslu, fresta því að panta hráefni í framleiðsluvörur eða fresta afhendingu.
    Hins vegar veitir ákvæðið ekki rétt til þess að gera endanlegar ráðstafanir sem koma í veg fyrir efndir. Þannig má t.d. seljandi ekki ráðstafa vörunni til þriðja aðila eða rifta samningnum nema skilyrði 62. gr. séu fyrir hendi.
    Umræddur réttur gildir aðeins þar til efndir hafa farið fram. Eftir það er ekki um að ræða stöðvunarrétt skv. 1. mgr., en hugsanlega er þó unnt að koma í veg fyrir afhendingu skv. 2. mgr.
    Samningsbundin greiðslukjör geta verið því til fyrirstöðu að stöðva greiðslu, t.d. þegar óafturkallanlegt skuldabréf hefur verið gefið út og afhent. Venjulegur samningur um greiðslufrest er hins vegar ekki til fyrirstöðu stöðvunarréttinum. Kaupandi getur og haldið greiðslu sinni jafnvel þótt hann hafi lofað að greiða fyrir fram.
    Frumvarpsgrein þessi fjallar eins og áður greinir um hinn svokallaða „stöðvunarrétt“. Þegar um staðgreiðsluviðskipti er að ræða eiga samningsaðilar þess kost á grundvelli 10. og 42. gr. frumvarpsins að halda eftir greiðslum sínum. Þeir geta samt sem áður haft af því hagsmuni að beita heimildum sínum skv. 61. gr. Skv. 61. gr. getur t.d. seljandinn ekki aðeins varnað því að hluturinn sé afhentur kaupanda heldur getur hann einnig látið hjá líða að senda hlutinn. Á sama hátt getur kaupandinn ekki aðeins haldið kaupverðinu hjá sér heldur getur hann líka stöðvað undirbúning greiðslu, áður en umsaminn efndatími rennur upp.
    Samkvæmt 1. mgr. 61. gr. frumvarpsins eiga aðilar með þeim skilyrðum, sem þar eru nánar greind, rétt til að stöðva efndir af sinni hálfu og halda eftir greiðslum sínum. Ef um pöntunarkaup er að ræða, þar sem tilbúningi hlutar er ekki lokið, getur seljandinn stöðvað frekari vinnu af sinni hálfu og haldið hinum hálfgerða söluhlut hjá sér, einnig fram yfir umsaminn afhendingartíma. Eins getur kaupandinn hætt að ljá atbeina sinn til efnda eða haldið eftir greiðslu kaupverðsins.
    Forsenda þess að unnt sé að beita stöðvunarrétti samkvæmt ákvæðinu er sú að það komi ljós eftir kaup að gagnaðili muni ekki efna verulegan hluta af skyldum sínum. Hvað telst verulegt í þessu sambandi fer eftir aðstæðum hverju sinni. Þannig er ekki einungis um að ræða hreint fjárhagslegt mat heldur verður einnig að líta til notkunargildis þess sem ekki verður afhent.
    Í orðalaginu „í ljós kemur“ felst að hinar fyrirsjáanlegu vanefndir komi fyrst í ljós eftir samningsgerð. Ákvæðinu verður því ekki beitt ef báðir aðilar vissu um hina fyrirsjáanlegu hindrun þegar við samningsgerð. Þetta atriði kemur t.d. í veg fyrir að aðila samnings, sem stendur fjárhagslega tæpt, verði sett ný skilyrði um tryggingar þegar efndatími er kominn.
    Hin tilvitnuðu orð merkja það einnig að óljósar grunsemdir um að ekki verði af efndum, nægja ekki. Sá sem beita vill stöðvunarrétti verður að hafa tiltölulega örugga vissu fyrir því að gagnaðili hans muni ekki efna verulegan hluta af skyldum sínum. Ágiskanir eða óljós grunur er því ekki nægilegur. Sá sem beitir stöðvunarrétti verður því að hafa rökstuddan grun um að gagnaðili muni ekki fullnægja verulegum hluta skyldna sinna. Þó eru ekki gerðar jafnstrangar kröfur og fram koma í 1. mgr. 62. gr., sbr. athugasemdir við þá grein hér á eftir.
    Til viðbótar framangreindu eru einnig sett viðbótarskilyrði varðandi ástæður fyrirsjáanlegra vanefnda. Ástæðurnar verður annaðhvort að vera að rekja til alvarlegs brests í greiðslugetu gagnaðila eða á möguleikum hans til efnda, eða þær má rekja til framferðis hans. Ástæðurnar geta með öðrum orðum ýmist legið í vilja- eða getuleysi gagnaðila til efnda. Ekki skiptir máli hvort þessar ástæður eru af fjárhagslegum toga eða hvort þær varða önnur atriði, t.d. að samningsaðili hafi ekki yfir nægri þekkingu eða tæknikunnáttu að ráða, vöntun sé á hæfu starfsfólki, viðeigandi tækjabúnaði o.fl.
    Það verða að teljast augljósar vísbendingar um heimild til að beita stöðvunarrétti þegar bú gagnaðila er tekið til gjaldþrotaskipta, greiðslustöðvunar eða annarrar skuldaskilameðferðar. Stöðvunarréttur skv. 39. gr. gildandi kaupalaga tekur ótvírætt til gjaldþrots og fjárnáms, en þá eingöngu til hagsbóta fyrir seljanda.
    Þegar aðili stöðvar greiðslur eða lýsir sig ógjaldfæran getur slíkt í samræmi við það sem nú gildir skv. 2. mgr. 39. gr. gildandi kaupalaga heimilað viðsemjanda hans að fresta efndum af sinni hálfu. Sama gildir ef aðrir kröfuhafar hafa gert árangurslaust fjárnám hjá skuldaranum. Af öðrum atvikum sem geta veitt vísbendingu um getu- eða viljaleysi til efnda má nefna það þegar aðila er vísað burt úr atvinnuhúsnæði sínu eða þegar víxill á hendur viðkomandi aðila er afsagður. Ekkert þeirra tilvika sem hér voru nefnd veitir þó sjálfkrafa heimild til að stöðva greiðslur eða halda hlut eftir. Það verður að meta út frá aðstæðum hverju sinni hvort atvikið muni hafa áhrif á möguleika viðkomandi til efnda. Þannig má sem dæmi nefna að jafnvel alvarlegur brestur í greiðslugetu seljanda þarf ekki að hafa áhrif á möguleika hans til að efna samninginn, t.d. þegar afhending á að fara fram í vörugeymslu seljanda og kaupandinn á að greiða flutningskostnaðinn.
    Þegar víxill á hendur kaupanda er afsagður vegna greiðslufalls hans gagnvart öðrum kröfuhafa en seljandanum getur það verið vísbending um að kaupandinn muni heldur ekki vera í færum að greiða seljandanum kaupverðið. En felist þær skyldur kaupandans sem eftir eru að stærstum hluta í því að ljá á einhvern hátt atbeina sinn að efndum er engan veginn sjálfgefið að víxilafsögn veiti vísbendingu um að þær skyldur verði ekki efndar.
    Þá er heldur engan veginn sjálfgefið að víxilafsögn á hendur seljanda veiti, án þess að annað og meira komi til, nokkra vísbendingu um yfirvofandi hættu á því að seljandi verði ekki fær um að efna afhendingarskyldu sína. En hafi seljandi stöðvað greiðslur er yfirvofandi hætta á því að innan skamms tíma verði bú hans tekið til gjaldþrotaskipta eða annarrar skuldaskilameðferðar og getur það þá haft þær afleiðingar í för með sér að greiðslan verði ekki afhent.
    Ef söluhlutur er tekinn af seljandanum með beinni aðför eða vegna nauðungarsölu er það sjálfsagt augljós vísbending um að afhending mun ekki geta átt sér stað, að því tilskildu að um einstaklega ákveðin kaup sé að ræða.
    Í pöntunarkaupum eru meiri líkur til að versnandi fjárhagsstaða seljanda hafi áhrif í þessu sambandi en þegar kaup snúast um vörur sem afhentar eru úr birgðum seljanda þar sem þverrandi greiðslugeta seljanda getur haft áhrif á möguleika seljandans til að afla sér efnis til hlutarins. En í pöntunarkaupum verður einnig að líta til þess að hve miklu leyti það er hlutverk kaupanda að útvega efni til hlutarins.
    Brestur á möguleikum samningsaðila til efnda verður að hafa viss tengsl við þann samning sem um er að ræða. Ef aðili fullnægir ekki öðrum óskyldum samningum getur það auðvitað styrkt þann grun að einnig muni verða vanefndir á þeim samningi sem um er að tefla. Þannig geta slík atvik undir vissum kringumstæðum gefið ástæðu til að ætla að aðili muni heldur ekki vera í færum að efna kaup það sem um er að ræða. Sem dæmi í því sambandi má nefna hönnunar- eða framleiðslugalla sem nær til allra eða flestra afhendinga seljanda og hann getur ekki bætt úr í tíma.
    Dæmi þess að framferði seljanda veiti ástæðu til að ætla að vanefndir muni að höndum bera er það tilvik þegar seljandinn eftir kaup vanrækir að gera það sem er nauðsynlegt til þess að afhending geti farið fram nógu snemma. Seljandinn hefur t.d. vanrækt að panta hráefni sem nauðsynlegt er til gerðar hlutarins, eða hann hefur tekið önnur verkefni fram yfir og lætur hjá líða að hefja gerð hlutar. Ástæður slíks framferðis af hálfu seljanda geta bæði verið skortur á vilja og getu til efnda.
    Af hálfu kaupanda geta sambærilegar aðstæður komið upp þegar hann lætur hjá líða að ganga frá bankatryggingu, senda teikningar eða panta efni sem hann á að útvega til gerðar hlutarins. Einnig þegar hann vanrækir að sækja um nauðsynleg innflutningsleyfi o.s.frv.
    Sem áður segir skiptir ekki máli til hverra atvika má rekja getuleysi til að efna samning. Það getur byggst á persónulegum ástæðum, en einnig á almennum ástæðum, t.d. náttúruhamförum, verkföllum, viðskiptahömlum o.fl. Ekki skiptir heldur máli hvernig aðili verður var við getuleysið. Það getur t.d. orðið ljóst vegna orða gagnaðila, athafna eða athafnaleysis, t.d. í tengslum við undirbúning að efndum eða efndirnar sjálfar. Sem dæmi um þetta má nefna að seljandi hyggst nota óhæfar framleiðsluaðferðir eða ónothæft hráefni til þess að framleiða þá vöru sem kaupandi hyggst kaupa. Getuleysi kaupanda getur hins vegar komið í ljós með þeim hætti að hann gengur ekki frá þeirri bankatryggingu sem honum bar eða hann sendir ekki þær teikningar eða efni sem hann á að koma með og er nauðsynlegt svo að unnt sé að framleiða vöruna.
    Réttur aðila til að stöðva efndir af sinni hálfu eða halda eftir greiðslum er til staðar svo lengi sem þau atvik eru fyrir hendi sem heimila beitingu réttarins. Ef skilyrðin eru ekki lengur til staðar verður sá aðili, sem réttinum beitti, að byrja efndir af sinni hálfu, sbr. einnig ákvæði 4. mgr. um fullnægjandi tryggingar. En atvik geta sjálfsagt einnig þróast á þann veg að aðili öðlist rétt til riftunar á grundvelli 62. gr. frumvarpsins. Seinkun sú, sem verður vegna þess að stöðvunarrétti er beitt, veitir ekki gagnaðila rétt til að beita vanefndaúrræðum. En það er viðkomandi aðili sjálfur sem ber ábyrgðina á því að skilyrðin til þess að beita stöðvunarréttinum séu til staðar. Hafi honum missýnst um það efni er um vanefndir af hans hálfu að ræða og getur gagnaðili þá beitt vanefndaúrræðum.
    Í 2. mgr. 61. gr. er sérákvæði um það tilvik þegar seljandinn hefur þegar sent hlutinn og í ljós koma þau atvik varðandi kaupanda sem um ræðir í 1. mgr. Seljandinn getur þá varnað því að hluturinn verði afhentur kaupanda eða búi hans. Ákvæðið felur í sér rýmkun stöðvunarréttarins skv. 1. mgr. að því er seljandann varðar þar sem rétturinn fellur ekki niður fyrr en hluturinn hefur raunverulega verið afhentur kaupanda eða búi hans.
    Það er skilyrði fyrir beitingu málsgreinarinnar að fyrir liggi þau atriði sem fram koma í 1. mgr. um vilja- eða getuleysi til að efna samning. Þegar þessi atriði eru metin verður að miða við þann tíma þegar hluturinn var sendur. Seljandinn getur samkvæmt þessu sent hlutinn án þess að missa stöðvunarréttinn, jafnvel þótt hann hafi grun um að fjárhagur kaupandans standi ekki of traustum fótum. En skilyrði er þá alltaf að vilja- eða getuleysi kaupanda og áhrif þess á efndir samningsins verði ljós nokkru seinna.
    Fyrri málsliður 2. mgr. 61. gr. er ekki frábrugðinn því sem leiðir af ákvæðum 39. gr. gildandi laga. Síðari málsliðurinn er á hinn bógin nýmæli og í honum felst hvað stöðvunarréttinn varðar að ekki ræður úrslitum hvort kaupandinn eða bú hans hefur veitt flutningsskjölum viðtöku sem eftir venjulegum reglum hefði veitt kaupandanum rétt til þess að fá hlutinn afhentan. Það er með öðrum orðum aðeins afhending söluhlutar sem máli skiptir í þessu sambandi.
    Í samanburði við gildandi lög felur 3. mgr. 61. gr. í sér nýmæli, en þar er lögð sú skylda á þann aðila, sem beitir rétti skv. 1. og 2. mgr., að aðvara gagnaðila sinn. Viðvörun verður að gefa þegar í stað eftir að efndir hafa verið stöðvaðar eða hlut hefur verið haldið eftir. Ekki eru gerðar neinar kröfur um það hvernig viðvörun skuli gefin eða hvers vegna stöðvunarrétti er beitt. Þótt á viðvaranir skorti hefur það ekki áhrif á rétt aðila til að halda áfram beitingu stöðvunarréttarins, en gagnaðili getur í slíku tilviki fengið bætt það tjón sem hann hefði getað komist hjá ef hann hefði verið varaður við. Sem dæmi um slíkt tjón má nefna kostnað kaupanda af flutningi hlutar sem gagnslaus verður af því að seljandinn skýrði ekki frá því að hann héldi hlutnum eftir.
    Í 4. mgr. er lögð sú skylda á þann aðila, sem stöðvar efndir eða heldur hlut hjá sér, að halda áfram efndum ef gagnaðili setur fullnægjandi tryggingar fyrir efndum af sinni hálfu. Sambærileg regla kemur fram í 39. gr. gildandi kaupalaga að því er varðar stöðvunarrétt seljanda. Segja má að þá skyldu að halda áfram efndum við þessar aðstæður leiði af ákvæðum 1. mgr. Þegar settar eru fullnægjandi tryggingar fyrir efndum er ekki lengur ljóst að viðkomandi aðili muni ekki efna af sinni hálfu. Eigi að síður er hagræði í því fólgið að taka það fram með ótvíræðum hætti að fullnægjandi tryggingar komi í veg fyrir beitingu stöðvunarréttarins.
    Meta verður það hverju sinni hvað telst fullnægjandi trygging. Þegar um greiðsluskyldu kaupanda er að ræða mundi bankaábyrgð eða önnur álíka trygging vera fullnægjandi. Eftir atvikum getur það einnig verið nóg að greiðsluskilmálum sé breytt þannig að greiðslufrestur kaupanda sé felldur niður og honum gert að staðgreiða verðið.
    Hvað seljanda varðar mundi það eitt ekki nægja að hann gæfi loforð um afhendingu. Í slíkri „tryggingu“ felst ekki annað og meira en það sem þegar má leiða af samningi. Hins vegar gæti það eftir atvikum verið nægilegt ef lagt er fram gæðavottorð eða annað sem sýnir að ekki er hætta á afhendingu gallaðrar greiðslu. Að öllu jöfnu verður þó trygging að felast í formi ábyrgðar, t.d. frá banka, varðandi hugsanlegt tjón sem leiðir af vanefndum á samningi.

Um 62. gr.

    Frumvarpsgrein þessi svarar til 72. gr. SÞ-sáttmálans. Sambærilegt ákvæði er ekki í gildandi kaupalögum, nr. 39/1922, en reglur um skylt efni er þó að finna í 39. gr. þeirra. Ákvæði 62. gr. frumvarpsins er til viðbótar reglunni í 61. gr. um stöðvunarrétt. Af riftunarákvæðum, sem þýðingu hafa, má nefna 44. og 56. gr. þar sem ræðir um riftun samnings þegar afhenda á í áföngum, og í 64. og 66. gr. eru sameiginlegar reglur um áhrif riftunar og skilyrði hennar. Í 94. gr. er loks að finna skilgreiningu á hugtakinu „veruleg vanefnd“ þegar um alþjóðleg kaup er að ræða.
    Ákvæði 1. mgr. frumvarpsgreinarinnar veitir báðum aðilum samnings heimild til riftunar vegna fyrirsjáanlegra vanefnda af hálfu gagnaðila. Er þá skilyrði að ljóst sé að vanefndir, sem veita heimild til riftunar, muni að höndum bera. Hinar fyrirsjáanlegu vanefndir verða auk þess að vera verulegar og fullnægja að öðru leyti skilyrðum riftunar skv. 25., 26., 39., 54. og 55. gr.
    Gerðar eru mjög strangar sönnunarkröfur í þessum efnum, sbr. það orðalag frumvarpsgreinarinnar að ljóst sé fyrir umsaminn efndatíma að vanefndir muni að höndum bera. Það eru með öðrum orðum gerðar meiri kröfur um líkindi fyrir vanefndum samkvæmt frumvarpsgrein þessari en gilda skv. 61. gr. varðandi réttinn til að stöðva efndir.
    Sá aðili, sem lýsir yfir riftun, ber áhættuna af því að skilyrði riftunar séu til staðar. Hann getur því orðið bótaskyldur ef í ljós kemur að þeim skilyrðum var ekki fullnægt.
    Réttur til riftunar samkvæmt ákvæðinu er óháður því hver er raunveruleg ástæða hinna fyrirsjáanlegu vanefnda. Riftunarrétturinn er þannig ekki takmarkaður við þau tilvik sem nefnd eru í 61. gr., heldur er hann einnig til staðar þegar um er að ræða tilvik sem samningsaðili fær ekki ráðið við.
    Þótt það sé í sjálfu sér ljóst að verulegar vanefndir muni að höndum bera getur sá aðili, sem riftunarkrafan beinist gegn, staðið í vegi fyrir kröfunni með ráðstöfunum sem minnka líkurnar á vanefndum. Slíkar ráðstafanir verða þá að koma til framkvæmda áður en viðsemjandi hans setur fram riftunarkröfu.
    Grunur um fyrirsjáanlegar vanefndir geta vaknað vegna framkomu gagnaðila hvort heldur sem er í orðum eða athöfnum eða vegna þess að gagnaðili verður skyndilega fjárvana. Aðrar ástæður geta einnig leitt til slíkra grunsemda, t.d. ef bruni eða flóð valda því að litlar líkur eru á efndum. Almenn atvik geta einnig skotið stoðum undir slíkar líkur fyrir vanefndum, t.d. verkföll, stríð, gjaldeyristakmarkanir o.fl. Eins og áður er fram komið, er ekki nóg að um grunsemdir sé að ræða heldur verður að vera ljóst að koma muni til vanefnda.
    Sá aðili, sem riftir vegna fyrirsjáanlegra vanefnda, ber eins og áður er fram komið áhættuna af því að grunur hans hafi reynst réttur. Hann þarf með öðrum orðum að sanna að skilyrði riftunar hafi legið fyrir. Fullnægi hann sjálfur ekki skyldum sínum getur hann orðið ábyrgur vegna vanefnda ef skilyrði riftunar reyndust ekki vera fyrir hendi. Þegar það er metið hvort grunur um fyrirsjáanlegar vanefndir hafi reynst á rökum reistur verður að miða við þann tíma þegar riftun fór fram. Lögmæt riftun samkvæmt þessu verður ekki ólögmæt vegna þess að síðari atburðarás veldur einhverjum nýjum straumhvörfum, þannig að ný staða komi upp sem út af fyrir sig gæfi ekki næg tilefni til riftunar. Dæmi um þetta er ef annar aðili var greinilega þannig kominn fjárhagslega að lögmæt ástæða var til riftunar sem gripið var til í framhaldi af því. Síðar atvikast mál gagnaðila þannig að hann vinnur stóran happdrættisvinning og verður skyndilega fær um að efna samninginn.
    Í 2. málsl. 1. mgr. er sérstakt ákvæði sem veitir aðila færi á að varna riftun með því að setja fullnægjandi tryggingar fyrir efndum. Ákvæðið veitir heimild til þess að varna þegar fram kominni riftunarkröfu með tryggingu, en það er að sjálfsögðu skilyrði að trygging sé sett strax.
    Meta verður það með hliðsjón af aðstæðum hverju sinni hvað telst fullnægjandi trygging í skilningi ákvæðisins. Ef sett er trygging fyrir greiðsluskuldbindingunni er matið í þeim efnum í sjálfu sér einfalt. Sé sett bankatrygging hlýtur það að teljast fullnægjandi, enda nái hún til alls kaupverðsins. Þegar hins vegar er um að ræða afhendingarskyldu seljanda eða aðrar skyldur, sem ekki fela í sér greiðslu, getur verið erfiðara að meta hvort tryggingin er næg eða ekki. Trygging fyrir efndum afhendingarskyldunnar gæti t.d. verið fólgin í því að ábyrgjast að kaupandinn bíði ekki tjón, en slík ábyrgð tryggir ekki að seljandinn efni in natura. Sumar skyldur geta líka verið þess eðlis að það sé yfirleitt ekki unnt að setja tryggingu fyrir efndum þeirra. En það verður í öllum tilvikum að meta út frá aðstæðum hverju sinni hvort trygging er næg til þess að varna riftun.
    Ákvæði 2. mgr. varða möguleikann á því að setja tryggingu samkvæmt síðari málslið 1. mgr. Möguleikinn á því að mæta riftunarkröfu strax með tryggingu ræðst gjarnan af því að viðkomandi aðili hafi fengið ákveðna viðvörun um að til riftunar geti komið af hálfu gagnaðila . Ef tími vinnst til verður því annar aðilinn að gefa út viðvörun um að litið sé svo á að kaupunum hafi verið rift.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir tvenns konar tímaviðmiðunum. Í fyrsta lagi þarf eins og áður segir að vinnast tími til að gefa slíka viðvörun. Hugsanlegt er að aðili samnings þurfi nauðsynlega að fá efndir á réttum tíma og að efndartími sé svo nærri að ráðrúm til viðvörunar sé lítið eða ekkert. Í öðru lagi verður fresturinn að vera nógu langur til þess að gagnaðili geti orðið sér úti um tryggingar. Lengd þessa frests verður að miða við þarfir aðilanna, þ.e. hversu langan tíma kaupandi þarf til þess að útvega sér nýja hluti og þann tíma sem kaupandi þarf til að útvega sér tryggingu. Viðvörunina má senda í hvaða formi sem er, munnlega eða skriflega. Hún er send á áhættu viðtakanda skv. 82. gr.

Um 63. gr.


    Í 63. gr. frumvarpsins er fjallað um áhrif gjaldþrots samningsaðila á efndir kaupsamnings. Er ákvæðið hvað efni og orðalag varðar samhljóða 63. gr. danska kaupalagafrumvarpsins. Í frumvarpsgreininni kemur fram að um rétt til að ganga inn í kaup, halda eftir greiðslu eða rifta kaupum vegna gjaldþrots samningsaðila fari eftir lögum um gjaldþrotaskipti. Um það efni gilda nú ákvæði XV. kafla laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. og vísast þangað.

Um IX. kafla.


    Kafli þessi fjallar um sameiginlegar reglur um riftun og um nýja afhendingu. Í 64. gr. eru ákvæði um réttaráhrif riftunar. Þar kemur fram sú meginregla að þegar kaupum er rift falla niður skyldur aðila til að efna kaupin. Í 65. gr. eru ákvæði um það hvernig fara skuli með afrakstur af söluhlut og vexti þegar greiðslum er skilað. Ákvæði 66. gr. mælir fyrir um missi réttar til riftunar og afhendingar á ný. Þar kemur fram sú meginregla að kaupanda er því aðeins heimilt að rifta kaupum eða krefjast afhendingar á ný að hann geti skilað hlutnum að öllu verulegu leyti í sama ástandi og magni og hann var í þegar kaupandi veitti honum viðtöku.

Um 64. gr.


    Í frumvarpsgreininni eru sameiginlegar reglur um áhrif þess að kaupum er rift og um skil á greiðslum. Um afrakstur og vexti þegar greiðslum er skilað er hins vegar fjallað í 65. gr. Efni 1., 2. og 4. mgr. greinarinnar svarar til 81. gr. SÞ-sáttmálans. Ákvæði 2. mgr. 64. gr. svarar til 57. gr. núgildandi laga, en önnur ákvæði greinarinnar eru nýmæli í íslenskum lögum.
    Ákvæði greinarinnar gera ráð fyrir því að krafan um riftun eða um skil á greiðslum sé á rökum reist. Ljóst er að aðili samnings getur ekki frestað samningsskyldum sínum með því að rifta kaupum, nema skilyrði þess séu til staðar. Fari riftun fram án þess að skilyrði séu til staðar er hún ólögmæt. Riftun fer því fram á ábyrgð þess sem riftir. Ef ágreiningur er um réttmæti riftunarkröfu verða aðilar að leita úrlausnar á þeim ágreiningi hjá dómstólunum. Annað mál er að samþykki gagnaðili að kaupin gangi til baka án þess að skilyrði riftunar séu fyrir hendi er eðlilegt að fara að öðru leyti eftir ákvæðum greinarinnar, nema aðilar semji beinlínis um aðra tilhögun.
    Ákvæði 1. mgr. kveður á um að skyldur aðila falli niður þegar kaupum er rift. Þetta gildir um allar skyldur aðila samkvæmt kaupsamningi, en ekki aðeins um skylduna til að afhenda söluhlut og greiða hann. Sumir samningar kunna þó að vera þess eðlis að þetta getur ekki átt við að öllu leyti, sbr. 4. mgr. frumvarpsgreinarinnar. Þar fyrir utan getur verið að riftun hafi samkvæmt lögum í för með sér sérstakar skyldur fyrir aðila, t.d. skyldu til að annst söluhlut skv. 73. gr.
    Ákvæði 2. mgr. kveður á um að hafi kaupin verið efnd að fullu eða að hluta af hálfu annars hvors aðila megi krefjast skila á því sem móttekið hefur verið. Í ákvæðinu felst því að aðili á rétt á að krefjast þess að gagnaðili skili því sem hann hafði veitt viðtöku áður en riftun fór fram. Venjulega felst í þessu að seljandi verður að skila kaupverðinu og kaupandi verður að skila söluhlut. Sumar greiðslur eru þess eðlis að ekki verður um nein skil á þeim að ræða. Hafi seljandi t.d. innt af höndum vinnu við að setja upp söluhlut verður vinnuframlaginu sjálfu ekki skilað aftur í bókstaflegum skilningi. Af þeim sökum verður að leysa úr slíku með greiðslu skaðabóta skv. 1. mgr. 65. gr.
    Í ákvæðinu er ekki tiltekinn sá staður þar sem aðilar skulu skila greiðslum sínum. Eðlilegt er að gera ráð fyrir því að greiðslum skuli skilað á þeim stað þar sem þeim var veitt viðtaka, nema um annað sé samið beinlínis. Samkvæmt þessu þarf kaupandi tæpast að skila söluhlut á öðrum stað en þeim þar sem hann veitti hlutnum viðtöku. Í vissum tilvikum getur þó verið eðlilegt að kaupandinn sjái um að senda hlutinn alla leið til seljanda þótt um reiðukaup hafi verið að ræða. Samsvarandi reglur gilda um kaupverðið, þ.e. seljandi á að endurgreiða það hjá kaupanda.
    Útgjöld vegna skila á greiðslum af hálfu aðila verða sérstakir liðir við skaðabótauppgjör þeirra í millum. Sá sem ábyrgð ber á vanefndum verður að standa straum af þeim útgjöldum sem þær hafa í för með sér.
    Þegar kaupandi riftir kaupum getur réttur seljanda til að krefjast skila á því sem hann hefur afhent takmarkast samkvæmt ákvæðum 66. gr., sbr. athugasemdir við þá grein.
    Ákvæði 66. gr. gildir hins vegar ekki þegar seljandi riftir kaupum. Riftunarréttur seljanda er takmarkaður af ákvæðum 4. mgr. 54. gr. þegar hlutur hefur verið afhentur kaupanda. Þar fyrir utan mun seljandi oft hafa lítinn áhuga á riftun ef kaupandi getur ekki skilað söluhlut aftur í sama ástandi og hann tók við honum.
    Í 2. málsl. 2. mgr. kemur fram regla um haldsrétt. Hún mælir fyrir um það að samningsaðili geti haldið því sem hann hefur tekið við þar til gagnaðili skilar því sem hann hefur móttekið. Skv. 3. málsl. gildir réttur þessi einnig um skaðabætur og vexti. Reglan tekur einnig til skaðabóta skv. 65. gr. og kröfu um vexti skv. 2. mgr. 65. gr. Haldsrétturinn skv. 3. málsl. gildir þó ekki ef trygging hefur verið sett. Í ákvæðinu kemur ekkert fram um það hvaða hlutfall skuli vera milli þeirrar kröfu sem haldsréttarhafi á og þeirra verðmæta sem haldið er. Hér verður auðvitað að hafa í huga að gagnaðili á alltaf það úrræði að setja tryggingu og komast þannig hjá óþægindum. Í öðrum tilvikum er ekki útilokað að túlka ákvæðið þröngt með hliðsjón af reglunni í 42. gr.
    Í 3. mgr. kemur fram regla um að eigi seljandi að afhenda eitthvað á ný geti kaupandi haldið því sem sem hann hefur móttekið þar til afhending hefur átt sér stað að nýju. Ákvæðið veitir því kaupanda rétt til þess að halda söluhlut þar til ný afhending hefur átt sér stað. Ákvæðið á bæði við þegar afhending á ný fer fram að kröfu kaupanda, sbr. 34. gr. og þegar seljandi afhendir á ný skv. 36. gr. frumvarpsins. Seljandi hefur auðvitað ekki tilsvarandi haldsrétt í kaupverðinu. Ákvæðið byggist á þeirri forsendu að seljandinn eigi rétt á því að fá hinn gallaða hlut aftur til baka þegar hann afhendir á ný.
    Í 4. mgr. segir að riftun hafi engin áhrif á samningsákvæði um atvinnuleyndarmál, um lausn ágreiningsefna eða um réttindi og skyldur aðila sem leiðir af riftuninni. Af þessu ákvæði leiðir með öðrum orðum að við riftun falla ekki allar skyldur aðila brott. Í þessu sambandi skal sérstaklega tekið fram að ákvæði í samningum um afleiðingar vanefnda gilda að sjálfsögðu þó að samningi sé rift og á þetta t.d. við um skaðabótaskyldu vegna riftunar. Ákvæði málsgreinarinnar eiga m.a. við um lausn deilumála samkvæmt ákvæðum samningsins, um varnarþing, gerðardóma o.fl. Sama á við um samningsákvæði, sem takmarka bótaskyldu, févítisákvæði o.fl. Sérstaklega er minnst á atvinnuleyndarmál og er þá haft í huga að þótt samningi sé rift breytir það ekki þeim skyldum sem aðilar hafa tekið á sig í sambandi við atvinnuleyndarmál sem þeir hafa komist að vegna kaupanna.

Um 65. gr.

    Frumvarpsgreinin svarar til 84. gr. SÞ-samningsins, en í gildandi kaupalögum er ekkert sambærilegt ákvæði. Greinin felur í sér reglur um áhrif þess þegar kaupum er rift og er því til fyllingar ákvæðum 64. gr. Gildissvið greinarinnar er takmarkað við riftun og á hún því ekki við um afhendingu á ný. Munur riftunar og nýrrar afhendingar er m.a. sá að tilgangur riftunar er sá að kaupandinn hafi ekki vörslur hlutarins, en tilgangurinn með afhendingu nýrrar greiðslu er sá að kaupandinn fái annan hlut í stað þess sem afhentur var. Ef kaupandi krefst nýrrar afhendingar, t.d. á mjólkurkú, er ekki sanngjarnt að færa eigi seljandanum til tekna afrakstur þeirrar mjólkur, sem kaupandinn hefur haft frá afhendingu fyrri kýrinnar. Ástæðan er sú að kaupandinn átti að fá mjólkina ef kaupin hefðu verið réttilega efnd með fyrstu afhendingunni.
    Samkvæmt ákvæðum 1. mgr. á kaupandinn að færa seljanda til tekna þann afrakstur sem hann hefur haft af hlutnum. Ákvæðið á aðeins við um venjulegan afrakstur sem ekki er beinlínis háður því að kaupandinn hafi látið í té sérstakt framlag af sinni hálfu, t.d. vexti af kröfu eða arð af hlutabréfum, verðmæti mjólkur o.s.frv. Ákvæðið nær hins vegar ekki til hagnaðar af sölu hlutar eða verðmætisaukningar vegna endurbóta á hlut.
    Afrakstur af hlut, sem keyptur hefur verið til útleigu, kemur hér til athugunar. Hann má ýmist meta sem venjulegan arð eða sem endurgjald fyrir „veruleg not“ í síðari hluta ákvæðisins. Svipuð sjónarmið gilda t.d. um spilakassa eða önnur slík tæki sem keypt eru til afnota fyrir almenning. Sem dæmi um tilvik, sem mikillar sérstöðu njóta, eru t.d. útsæðiskartöflur. Þær gefa vissulega verulegan afrakstur eftir að þær eru komnar í jörðu og fara að fjölga sér. Það er hins vegar hæpið að tala um afrakstur af hlut í þessu tilviki heldur frekar um ákveðna framleiðslu þar sem útsæðiskartöflurnar eru hráefni til framleiðslunnar.
    Í annan stað gerir ákvæðið ráð fyrir því að kaupandinn skuli greiða hæfilegt endurgjald fyrir veruleg not sem hann hefur haft af hlut. Þessi regla er studd þeim rökum að langur tími geti liðið frá því að hlutur er móttekinn og þar til honum er skilað. Það eru aðeins veruleg not sem hér koma til álita. Það hugtak ber að meta í hverju einstöku tilviki út frá tegund hlutarins, kaupverði og aðstæðum að öðru leyti. Þegar fyrir liggja veruleg not verður að meta hæfilegt endurgjald fyrir þau í hverju tilviki fyrir sig. Leggja ber til grundvallar þau not sem kaupandinn hefur haft af hlutnum að frádregnum þeim kostnaði sem hann hefur haft. Í slíku mati er heimilt að líta bæði til beins kostnaðar kaupanda og þeirra óþæginda sem hann hefur haft.
    Hugtakið „hæfilegt endurgjald“ ber að skilja þannig að endurgjaldið getur venjulega ekki orðið hærra en sú verðmætisrýrnun sem not kaupanda hafa leitt af sér. Á hinn bóginn leiðir af framansögðu að kaupandandum ber ekki án fyrirvara að greiða fulla verðrýrnun hlutarins. Endurgjaldi skal almennt svara fyrir tímabilið frá því að söluhlut var veitt viðtaka og þar til honum er skilað aftur. Af samningi aðila getur þó leitt að afrakstur af söluhlut eigi að koma kaupandanum til góða frá fyrra tímamarki og þegar svo hagar til ber að sjálfsögðu að miða við það tímamark.
    Ef það er kaupandinn sem riftir kaupum verður að taka sérstaka afstöðu til þess hvort hann eigi að greiða bætur fyrir notkun, sem hann hafði af hlutnum, eftir að gallinn kom í ljós, t.d. meðan deilt var um hvort riftunarréttur væri til staðar. Hér sem endranær verður að meta hvað telst hæfilegt endurgjald.
    Samkvæmt 2. mgr. ber seljanda að greiða vexti í samræmi við ákvæði 71. gr. ef hann á að endurgreiða kaupverðið. Ber þá að miða upphafstíma vaxta við þann dag sem seljandi tók á móti greiðslunni. Ef kaupandinn hefur greitt kaupverðið með afborgunum verður að miða vexti við hverja einstaka afborgun. Sama gildir hafi kaupverðið verið greitt fyrir fram, þ.e. þá ber seljanda að greiða vexti frá því hann tók við greiðslunni. Rétt til frekari greiðslna en vaxta á kaupandi hins vegar ekki samkvæmt ákvæði þessu.

Um 66. gr.

    Frumvarpsgreinin svarar til 82. gr. SÞ-samningsins og 1. mgr. 57. gr. og 58. gr. gildandi laga nr. 39/1922. Greinina verður að skoða í samhengi við 2. mgr. 64. gr. sem að sumu leyti er byggð á svipuðum viðhorfum, en þar kemur fram að kaupandi þarf í vissum tilvikum ekki að afhenda söluhlut í því ástandi og magni sem hann veitti honum viðtöku. Í greininni koma fram skilyrði fyrir því að kaupandi geti rift kaupum eða krafist afhendingar á ný og felur hún því í sér takmörkun á ákvæðum 25., 34. og 39. gr.
    Í 1. mgr. kemur fram sama meginregla og í gildandi lögum, þ.e. að kaupandinn getur því aðeins rift kaupum eða krafist afhendingar á ný að hann geti skilað hlutnum að öllu verulegu leyti í sama ástandi og magni og hluturinn var í þegar kaupandinn veitti honum viðtöku.
    Hvað telst verulegt í þessu sambandi verður að ráðast af mati í hverju einstöku tilviki. Hafi kaupandi t.d. fest kaup á nýjum bíl og eigi hann rétt til riftunar telst það ekki veruleg breyting á ástandi bílsins sem staðið gæti riftun í vegi þótt læsing vinstri hurðar hafi farið úr lagi. Sé bifreiðin hins vegar tæpast í ökufæru ástandi vegna slæmrar meðferðar horfir málið öðru vísi við. Einnig skiptir máli hvort um nýjan hlut er að ræða eða gamlan. Hafi orðið lakkskemmdir í meðferð kaupanda á tuttugu ára gamalli bifreið sem hann vill rifta kaupum á verður ekki sama mat lagt til grundvallar eins og um væri að ræða nýjan bíl.
    Í a–c-liðum 1. mgr. eru undantekningar frá þeirri meginreglu sem fram kemur í ákvæðinu. Í fyrsta lagi leiðir af a-lið að rétturinn til riftunar eða nýrrar afhendingar glatast ekki þegar ástæður þess að ókleift er að skila hlutnum að öllu verulegu leyti í sama ástandi og magni má rekja til eiginleika hlutarins eða annarra aðstæðna sem ekki varða kaupandann. Sem dæmi má nefna ferskvörur sem eyðileggjast áður en skil geta farið fram, t.d. blóm sem lifa aðeins stuttan tíma. Oft getur verið samhengi milli riftunarástæðunnar og þess atviks sem veldur því að hlutur eyðileggst. Ef sending af ávöxtum er t.d. afhent of seint getur það veitt rétt til riftunar, en jafnhliða veldur seinkunin því beinlínis að vörusendingin eyðileggst.
    Í öðru lagi glatast rétturinn til riftunar og nýrrar afhendingar ekki þegar ástæður þess að hlutur rýrnar má rekja til aðstæðna sem ekki varða kaupandann, þ.e. hvorki er um að kenna athöfnum eða athafnaleysi kaupanda, sbr. einnig a-lið 2. mgr. 82. gr. SÞ-sáttmálans. Þetta á við um tilvik þar sem hlutur verður fyrir skemmdum af hálfu seljandans, t.d. í sambandi við úrbætur á galla eða í tengslum við uppsetningu sem seljandinn á að sjá um eftir afhendingu. Þá getur einnig komið fyrir að seljandinn gefi rangar upplýsingar um meðferð og notkun hlutarins og það leiðir til þess að hann verður fyrir skemmdum. Þá fellur einnig hér undir það tilvik þegar þriðji maður veldur tjóni á hlut. Sama gildir þegar tilviljunarkenndur atburður veldur skemmdum á hlut þótt ekki sé þess sérstaklega getið í ákvæðinu, en það leiðir eigi að síður af orðalaginu „aðstæðna sem ekki varða kaupandann.“ Hér má sem dæmi nefna það tilvik þegar söluhlutur eyðileggst í bruna eða bíl er stolið og hvorki kaupanda né seljanda er um að kenna í því sambandi. Um takmarkatilvik getur hins vegar verið að ræða þegar um „casus mixtus“ er að ræða, þ.e. tjón verður af tilviljunarkenndri samverkan ólíkra ástæðna.
    Í samræmi við ákvæði 12.–16. gr. frumvarpsins leiðir það af ákvæði þessu í raun að seljandinn ber áhættuna af hlutnum einnig eftir afhendingu þegar kaupandinn hefur réttmæta ástæðu til riftunar.
    Í ákvæðum b-liðar 1. mgr. felst að kaupandinn getur rift kaupum eða krafist nýrrar afhendingar þegar hluturinn eyðileggst í heild eða að hluta eða rýrnar og það má rekja til verknaðar sem nauðsynlegt var að framkvæma til þess að ganga úr skugga um hvort hluturinn væri gallaður eða ekki. Samkvæmt þessu á ákvæðið ekki við um greiðsludrátt.
    Regla þessi styðst við þau rök að það eigi ekki að geta leitt til þess að riftunarrétturinn glatist þótt kaupandinn rannsaki hlutinn annaðhvort strax eða síðar ef rannsóknin gengur ekki lengra en góð venja segir til um og um er að ræða nauðsynlega rannsókn til að ganga úr skugga um hvort hluturinn sé gallaður. Í ákvæðinu felst m.a. að seljandinn getur ekki andmælt riftun eða nýrri afhendingu á þeirri forsendu að kaupandinn hefur tekið umbúðirnar utan af hlutnum eða prófað hann með venjulegum hætti.
    C-liður fjallar í fyrsta lagi um tilvik þegar hlutur er seldur áfram í venjulegum viðskiptum. Þarna eru fyrst og fremst höfð í huga tilvik þegar hlutir eru keyptir með endursölu í huga. Ákvæðið nær þó einnig til þeirra tilvika þegar hlutir eru keyptir með eigin not kaupanda í huga, en kaupandi kemst síðar að þeirri niðurstöðu að hann vilji selja hlutinn, t.d. vegna þess að komin er ný tegund á markaðinn sem hann vill frekar eiga. Þegar hlutur er seldur áfram verða álitaefni um riftun og nýja afhendingu yfirleitt því aðeins raunhæf að seinni kaupandinn beri slíka kröfu fram við upphaflegan kaupanda.
    Að öðru leyti fjallar c-liður um tilvik þegar hlutur hefur verið notaður eða honum breytt af kaupanda við fyrirhuguð not. Ef ekki kemur annað fram má seljandinn alltaf búast við því að hlutur verði notaður í samræmi við það sem fyrirhugað og venjulegt er að nota slíka hluti til. Að auki nær ákvæðið til þess þegar seljanda var ljóst að hlutur var ætlaður til ákveðinna eða sérstakra nota. Í ákvæðinu felst með öðrum orðum að seljandinn getur ekki hafnað riftunarkröfu eða kröfu um nýja afhendingu af þeirri ástæðu einni að kaupandinn hefur notað hlutinn. Bíll, sem keyptur hefur verið nýr, fellur t.d. nokkuð hratt í verði við notkun. Þótt verðrýrnunin sé í sjálfu sér nokkuð mikil þegar kaupum er rift verður seljandinn að sætta sig við riftun þegar kaupandinn hefur notað bílinn eins og til stóð.
    Umrætt ákvæði hefur einkum þýðingu við kaup á neysluvörum í þrengri merkinu, t.d. matvörum og öðrum vörum sem neytt er strax eða fljótlega. Ákvæðið gildir þó einnig í öðrum tilvikum eins og nefnt hefur verið, t.d. við kaup á nýjum bíl.
    Það skilyrði gildir bæði um endursölu og notkun að salan eða notin hafi átt sér stað áður en kaupandanum varð ljós eða mátti verða ljós galli sá sem er ástæða þess að hann hafnar söluhlut. Hafi kaupandinn selt hlutinn þrátt fyrir vitneskju sína um verulegan galla getur hann ekki síðar rift kaupum eða krafist nýrrar afhendingar á grundvelli gallans, nema hann sjái til þess að hlutnum verði skilað. Með sama hætti stendur það riftun og nýrri afhendingu í vegi ef not kaupanda, eftir að honum varð galli ljós, hafa leitt til verulegrar rýrnunar á ástandi hlutar og magni. Í þessu felst að kaupandinn verður að hætta við að selja eða nota hlutinn ef hann ætlar að rifta kaupum eða krefjast nýrrar afhendingar.
    Ákvæði 2. mgr. er nýmæli samanborið við gildandi lög og felst í því rýmkun réttarins til þess að rifta kaupum eða krefjast nýrrar afhendingar þótt hlut verði ekki skilað aftur í sama ástandi eða magni. Samkvæmt ákvæðinu glatar kaupandinn ekki þeim réttindum sínum ef hann bætir þá verðmætisrýrnun sem orðin er á hlutnum.
    Þegar um er að ræða not hlutar áður en kaupandinn mátti verða gallans var fellur tilvikið undir 1. málsl. í c-lið 1. mgr. Það má t.d. hugsa sér að kaupandinn sjá sig tilneyddan að nota hlutinn að ákveðnu marki eftir að gallinn kom í ljós, t.d. vegna þess að hann getur ekki án hlutarins verið í rekstri sínum þótt gallaður sé. Í slíkum tilvikum getur verið ástæða til að veita kaupandanum heimild til riftunar með því skilyrði að verðmætisrýrnun verði bætt. En ákvæðinu má einnig beita um önnur tilvik, þar sem engar af undantekningunum í a–c-liðum eiga við.
    Af því sem að framan segir leiðir að ákvæðið á við hver svo sem ástæða verðmætisrýrnunar er. Almenn skilyrði riftunar eða réttar til að krefjast nýrrar afhendingar verða að vera til staðar. Ákvæðið verður að túlka með þeirri takmörkun að því verði ekki beitt þegar hlutur er með öllu ónýtur eða hann hefur verið seldur áfram á þann hátt að engu verður skilað til baka.
    Í ákvæðinu felast ekki fyrirmæli um „skyldu“ kaupanda til að bæta seljandanum verðmætisrýrnun þegar kaupum er rift. Um það efni vísast einnig til athugasemda við 65. gr. frumvarpsins.
    Af síðari málslið 2. mgr. leiðir að ákvæðið á ekki við í alþjóðlegum kaupum.

Um X. kafla.

    Í X. kafla er fjallað um umfang skaðabóta og vexti. Meginreglan kemur fram í 67. gr. Samkvæmt henni skulu skaðabætur vegna vanefnda samningsaðila svara til þess tjóns sem gagnaðili bíður vegna vanefndanna. Af ákvæðum 1. mgr. 67. gr. má ráða hvað telst beint tjón, en í 2. mgr. er talið upp hvað telst óbeint tjón. Skaðabótaskilyrði eru ekki hin sömu hvað varðar beint tjón annars vegar og óbeint tjón hins vegar. Í 68. gr. er fjallað um verðmun við svokallaðar staðgönguráðstafanir. Ákvæðið felur í sér fyrirmæli um hvernig ákvarða skal skaðabætur þegar tjónþoli riftir kaupum og gerir jafnframt staðgönguráðstafanir, þ.e. ýmist kaupir af eða selur öðrum aðila. Ákvæði 69. gr. fjallar á hinn bóginn um verðmun þegar ekki er um staðgönguráðstafanir að ræða. Þar kemur fram sú regla að leggja eigi til grundvallar kaupverðið og svonefnt gangverð á riftunartíma. Í 70. gr. er rætt um skyldu samningsaðila til að takmarka tjón þegar vanefndir verða og um mildun bótaábyrgðar. Í 71. gr. ræðir um vexti ef kaupverðið eða önnur vangoldin fjárhæð er ekki greidd á réttum tíma.

Um 67. gr.


    Í gildandi lögum er ekkert almennt ákvæði um útreikning skaðabóta, en þar er ákvæði um skaðabætur á grundvelli verðmunar, sbr. ákvæði 25., 30. og 45. gr. Í ákvæðinu felast meginreglur um hvaða liðir það eru sem bættir eru og hvernig ákvarða skal skaðabæturnar. Reglur um bótagrundvöllinn eru hins vegar í 27., 40., 41. og 57. gr.
    Ákvæði 1. mgr. svarar til 74. gr. SÞ-samningsins. Meginreglan er sú að tap og útgjöld, sem er að rekja til vanefnda, skal bæta að fullu. Sá sem fyrir vanefndum verður skal í fjárhagslegu tilliti verða eins settur og gagnaðili hefði réttilega efnt samninginn. Meginreglan takmarkast m.a. af almennum vávænissjónarmiðum og af reglu síðari málsliðar 1. mgr., sbr. sérregluna um alþjóðleg kaup í 3. mgr. 70. gr. Regla 70. gr. um skyldu til að draga úr tjóni og um mildun ábyrgðar felur einnig í sér takmörkun meginreglunnar.
    Ákvæðið gildir um tjón á söluhlut og afleiðingar þess. Um tjón, sem verður á öðrum hlutum en söluhlut, er rætt í athugasemdum við 40. gr., sbr. einnig athugasemdir við d-lið 2. mgr. þessarar greinar. Ákvæðið gildir einvörðungu um fjárhagslegt tjón og að jafnaði aðeins um einstaklingsbundið tjón sem aðili kaupsamnings verður fyrir. Við ákvörðun tjónsins er aðalreglan sú að fullt tjón er bætt fyrir tap og útgjöld sem leiðir af vanefndum. Því er þess krafist að orsakasamband sé milli vanefndar og tjónsins sem af hlýst. Vísað er til almennra skaðabótareglna um hvað þetta felur nánar í sér.
    Skaðabætur eiga einvörðungu að bæta það sem stundum er nefnt „nettó tjón“. Í því felst m.a. að hafi tjónþoli vegna vanefnda komist hjá kostnaði, sem hann hefði orðið að bera ef samningur hefði verið réttilega efndur, ber að draga þá fjárhæð frá við ákvörðun skaðabóta. Þetta kemur ekki berum orðum fram í frumvarpsákvæðinu en leiðir af almennum reglum um skaðabætur innan samninga. Ákvæði 69. gr. felur í sér undantekningu frá þeirri reglu að það sé einungis hið raunverulega tjón sem bæta skal. Tjónþoli getur samkvæmt því ákvæði, þ.e. 69. gr., krafist þess að fá bættan muninn á kaupverðinu og gangverði hlutarins án þess að þurfa að sýna fram á að mismunurinn sé raunverulegt tjón hans.
    Ef aðilar hafa samið um févíti í einni eða annarri mynd vegna greiðsludráttar vaknar sú spurning hvort það eigi að koma til frádráttar kröfu um bætur fyrir raunverulegt fjárhagslegt tjón. Samningsákvæði um févíti er yfirleitt hugsað sem valkostur við hlið skaðabótareglna, annaðhvort þannig að þær útiloka aðrar tegundir skaðabóta eða þannig að aðilar hafa valið milli þessara tveggja úrræða. Févíti getur á hinn bóginn einnig verið hugsað sem sérstök heimild eða úrræði til viðbótar hefðbundnum úrræðum laganna. Er ekki ástæða til að takmarka slíkt og því verður samband févítis og venjulegra skaðabóta að ákvarðast út frá túlkun á samningi aðila.
    Í fyrri málslið 1. mgr. eru nefndir þrír ólíkir liðir, sem skaðabætur skulu bæta, þ.e. útgjöld, verðmunur og tapaður hagnaður. Upptalningin er ekki tæmandi og hún segir heldur ekkert til um skilyrði þess að krefjast bóta fyrir hvern einstakan lið, en það fer eftir öðrum ákvæðum, t.d. 2. málsl. 1. mgr. frumvarpsgreinarinnar og ákvæðum 68. og 69. gr. Ef vanefndir verða ekki raktar til mistaka eða vanrækslu af hálfu gagnaðila ræður það að öðru leyti úrslitum hvort um þess háttar óbeint tjón er að ræða sem nefnt er í 2. mgr. eða ekki.
    Með útgjöldum í 1. mgr. er átt við kostnað sem aðili hefur orðið fyrir vegna vanefndanna. Sem dæmi má nefna kostnað vegna póst- og skeytasendinga, flutninga og ferðalaga. Kaupandinn hefur e.t.v. farið erindisleysu um langan veg til að sækja hlut sem ekki var tilbúinn til afhendingar. Þá má einnig hugsa sér kostnað við að staðreyna tjón og umfang þess eða kostnað við að senda hlutinn aftur til seljanda til viðgerðar. Kaupandinn getur einnig hafa lagt í kostnað við að draga úr afleiðingum vanefnda, t.d. með því að leigja hlut í stað þess sem bæta skal. Ef það er kaupandinn sem hefur vanefnt samninginn getur seljandinn hafa orðið fyrir kostnaði við að selja hlutinn öðrum eða haft kostnað af því að innheimta kaupverðið. Útgjöld þau, sem hér eru nefnd, er unnt að fá bætt, jafnvel þótt sá sem fyrir vanefndum verður rifti kaupum og losni þar með við tjón sem má rekja til þess að samningurinn er honum óhagstæður.
    Erfitt er að orða sanngjarna reglu sem fullnægir þörfum kaupanda fyrir bætur vegna ófjárhagslegs tjóns sem leiðir af vanefnd, t.d. vegna óhagræðis, tapaðs tíma og eigin vinnuframlags. Ekki þykir gerlegt að ákveða staðlaðar bætur fyrir óhagræði af þessu tagi. Þótt ekki sé í frumvarpinu nein almenn regla um skaðabætur fyrir ófjárhagslegt tjón stendur það ekki í vegi fyrir að greiddar verði í sanngjörnum mæli bætur fyrir vinnu sem innt hefur verið af hendi í frítíma og þess háttar, en telja verður eðlilegast að láta réttarframkvæmdinni eftir að móta reglur um það efni. Eftir stendur þó sem aðalregla að sé ekki unnt að staðreyna neitt fjárhagslegt tjón getur ekki orðið um bætur að ræða.
    Vilji seljandi ekki bæta úr vegna gallaðs söluhlutar getur kaupandi krafist uppgjörs á grundvelli afsláttar, sbr. 38. gr., eða skaðabóta á grundvelli 67.–70. gr., sem grundvallast á verðmuninum milli verðmætis hlutarins með eða án galla. Ef kaupandi gerir við hlut á verkstæði verða útgjöld hans í því sambandi skaðabætur hans, þó innan þeirra marka sem verðrýrnunin nemur. Vilji kaupandinn ekki láta aðra gera við hlut eftir reikningi verður að meta tjónið á grundvelli fyrrnefndra ákvæða. Slíkt mat yrði þó væntanlega miðað við hvað viðgerð mundi kosta hjá fyrirtæki sem tæki slíkar viðgerðir að sér.
    Tjón í formi verðmunar getur komið til vegna verðsveiflna á markaði. Einnig getur verið um að ræða verðmun hjá hinum ýmsu afhendingaraðilum. Það er forsenda skaðabóta vegnar verðmunar að samningsaðili hafi orðið fyrir tjóni af þeim sökum, en ekki er það skilyrði að hann hafi gert staðgönguráðstafanir, sbr. 69. gr. Skaðabætur vegna verðmunar geta orðið raunhæfar, t.d. þegar kaupandinn riftir kaupum vegna greiðsludráttar og verð fer hækkandi eftir samningsgerðina, þannig að hlut er nú einungis unnt að kaupa á hinu hærra verði. Með sama hætti getur seljandinn fengið skaðabætur vegna verðmunar þegar kaupum er rift og verð fer lækkandi eftir gerð samningsins.
    Um skilyrði skaðabóta vegna verðmunar vísast að öðru leyti til athugasemda við 68. og 69. gr. frumvarpsins.
    Ef kaupandi hefur orðið fyrir tjóni til viðbótar verðmuninum er einnig unnt að fá það tjón bætt samkvæmt ákvæðum 67. gr. Ef hlutur er afhentur gallaður, en kaupum er ekki rift, verður við ákvörðun bóta að leggja til grundvallar verðmuninn milli ógallaðs hlutar og þess gallaða sem afhentur var. Hugsanlega má þá miða við hvort unnt sé að útvega annan ógallaðan hlut í staðinn, jafnvel þótt riftunarskilyrði 68. gr. sé ekki fullnægt. Þetta getur t.d. verið valkostur með hliðsjón af öðrum úrræðum, einkum nýrrar afhendingar eða viðgerðar. Slíkt uppgjör fer þá ekki fram beint eftir ákvæðum 68. eða 69. gr. frumvarpsins. Ef kaupandi bætir sjálfur úr ástandi söluhlutar fær hann að jafnaði bætt sanngjarnt framlag vegna þessa og að auki verðmun á ógölluðum hlut og söluhlut í bættu ástandi. Þar fyrir utan gæti hann hugsanlega fengið bætur fyrir missi hagnaðar eða vegna rekstrarstöðvunartjóns ef skilyrði bóta skv. 2. mgr. eru fyrir hendi. Sjálft kaupverðið skiptir ekki máli í þessu sambandi. Tilgangur bótaákvæðanna er að gera kaupanda eins settan fjárhagslega eins og hann hefði verið ef samningurinn hefði verið efndur réttilega.
    Skaðabætur vegna tapaðs hagnaðar geta verið raunhæfar að því marki sem hann verður ekki bættur á grundvelli verðmunar. Sem dæmi um þetta má nefna það tilvik að kaupandi, sem rift hefur kaupum vegna greiðsludráttar, kemur ekki við staðgöngukaupum áður en sá sem hann hefur selt hlutinn riftir kaupunum eða krefst skaðabóta. Um sambærilegt tilvik er að ræða þegar vanefndir seljanda leiða til þess að kaupandinn verður að selja hlutinn áfram á lægra verði en orðið hefði ef samningurinn hefði verið réttilega efndur.
    Um skaðabætur vegna tapaðs hagnaðar getur einnig verið að ræða þegar kaup varða hlut sem hefur verið sérstaklega búinn til fyrir kaupanda. Hluturinn er þá oft þannig í eðli sínu að seljandinn hefur litla möguleika á að selja hann öðrum. Þegar seljandinn riftir kaupunum eða kaupandinn afpantar hlutinn, sbr. 2. mgr. 52. gr., verður seljandinn því af hagnaði sem hann á kröfu til að fá bættan.
    Ákvæðið mælir ekki nánar fyrir um hvernig ákvarða á skaðabætur þegar um pöntunarkaup er að ræða. Það verður því á endanum hlutverk dómstóla að ákvarða hvort leggja beri til grundvallar kaupverðið og draga frá því útgjöld sem komist var hjá og verðmæti þess sem búið hefur verið til eða hvort leggja á saman einstaka kostnaðarliði. En útreikningi verður að haga þannig að raunverulegt tjón aðila sé bætt. Að öðru leyti vísast til athugasemda við 2. mgr. 52. gr.
    Eins og áður hefur verið nefnt er upptalning þeirra atriða eða liða, sem bæta skal, ekki tæmandi í 1. mgr. Þannig verður t.d. það óbeina tjón, sem nefnt er í 2. mgr., bætt þó að sum þeirra tjónstilvika, sem þar eru nefnd, verði hvorki talin útgjöld, verðmunur eða tapaður hagnaður. Sem dæmi um annað tjón af þessu tagi má nefna tjón sem verður vegna gengistaps.
    Síðari málsliður 1. mgr. takmarkar réttinn til skaðabóta við það tjón sem aðili gat með sanngirni séð fyrir sem hugsanlega afleiðingu vanefndanna. Sambærilegt ákvæði er einungis í norsku kaupalögunum en ekki í laga- eða frumvarpstextum annarra Norðurlandaþjóða. Ákvæðið á sér nokkra hliðstæðu í 2. málsl. 74. gr. SÞ-samningsins.
    Rétt er að leggja á það áherslu í þessu sambandi að mikilvægt er að greina á milli bótagrundvallar og ákvörðunar skaðabóta. Reglur 27., 40. og 57. gr. eiga við um grundvöll skaðabótanna. Skilyrði lausnar samkvæmt þessum ákvæðum eru háð því hver er ástæða vanefndanna (hindrun fyrir efndum). Ákvæði 1. mgr. 67. gr. eiga við um ákvörðun skaðabótanna og á beitingu þess reynir því aðeins að fyrir hendi sé skaðabótaskylda skv. 27., 40. eða 57. gr., eftir atvikum í tengslum við sérstök samningsákvæði. Þær takmarkanir, sem leiðir af síðari málsliðnum, tengjast eðli tjónsins og umfangi þess. Þetta verður að hafa í huga þegar reglur þessar eru bornar saman.
    Ákvæðið felur ekki í sér neins konar sakarreglu heldur fyrst og fremst reglu um það að tjónþoli geti ekki krafist skaðabóta fyrir sérhvert það tjón sem hægt er að rekja til vanefnda. Slíka takmörkun leiðir af hinni hefðbundnu vávænisreglu og gengur regla ákvæðisins í sömu átt. Ákvæðið er því fyrst og fremst ákveðinn vegvísir eða leiðbeining við ákvörðun skaðabóta sem útilokar skaðabætur fyrir fjarlægar og óvissar afleiðingar vanefnda. Ákvæðið gerir ráð fyrir mati á því hvort eðli tjóns og umfang mátti með sanngirni sjá fyrir sem afleiðingu vanefndanna. Hvað aðili í raun og veru sá fyrir eða mátti sjá skiptir í sjálfu sér ekki máli. Ákvæðið ber að skilja svo að bætur séu ekki takmarkaðar að neinu leyti við það tjón sem kallast má „venjulegt“ heldur er miðað við það hvað með sanngirni mátti sjá fyrir sem hugsanlega afleiðingu vanefndanna, þ.e. einstaklingsbundið tjón.
    Niðurstaða um það hvenær sjá mátti afleiðingarnar fyrir verður að ráðast af eðli vanefnda og hvenær þær urðu. Ef vanefndir eru vegna atburðar sem ekki verður rakinn til sakar aðila er sanngjarnt að miða við atvik sem aðilar þekktu eða máttu þekkja við samningsgerðina. Ef vanefndin er hins vegar afleiðing mistaka eða vanrækslu af hálfu aðila, eftir að kaup voru gerð, verður matið að taka mið af því tímamarki þegar vanefnd varð. Hvað alþjóðleg kaup varðar kemur þessi takmörkun einnig fram í 3. mgr. 70. gr. frumvarpsins.
    Í 2. mgr. er óbeint tjón skilgreint. Ákvæðið á sér hvorki hliðstæðu í SÞ-samningnum né gildandi kaupalögum. Um rök þau sem liggja að baki ákvæðinu og efni þess vísast til almennra athugasemda hér að framan.
    Eins og áður hefur verið nefnt hefur skilgreiningin mikla þýðingu varðandi mat á því hvort fyrir hendi séu skilyrði skaðabóta skv. 27. og 40. gr., sbr. og 57. gr. Beint tjón lýtur skilyrðum stjórnunarreglunnar, en óbeint tjón verður aðeins bætt þegar tjón verður vegna mistaka eða vanrækslu. Í 2. mgr. er tæmandi upptalningu óbeinu tjóni. Allt annað tjón, sem af vanefndum leiðir, ber að telja beint tjón samkvæmt lögunum. Skilgreining ákvæðisins á óbeinu tjóni hefur þar að auki þýðingu sem leiðbeiningarregla við túlkun ákvæða í samningum, t.d. þar sem óbeint tjón, tapaður hagnaður og þess háttar er undanskilið ábyrgð.
    Hugmyndin að baki ákvæðinu er að afmarka fjarlæga og lítt útreiknanlega tapsáhættu, sem erfitt er að reikna út þegar hið fjárhagslega tjón er metið. Krafa 2. málsl. 1. mgr. um „tjón sem aðili gat með sanngirni séð fyrir sem hugsanlega afleiðingu vanefndar“ sem skilyrði bóta hefur einnig sína þýðingu hér og setur almennar takmarkanir fyrir bótaábyrgð. Þessi áskilnaður setur því í fyrsta lagi mörk í hvaða mæli tjón skuli bætt sem beint tjón. Hún takmarkar einnig ábyrgð, bæði varðandi beint og óbeint tjón í alþjóðlegum kaupum, sbr. 3. mgr. 70. gr. og 74. gr. SÞ-samningsins.
    Skilgreiningin á óbeinu tjóni á í meginatriðium við hvort sem um vanefndir af hálfu kaupanda eða seljanda er að ræða. Í framkvæmd reynir sjálfsagt einkum á óbeint tjón þegar um vanefndir af hálfu seljanda er að ræða, eins og reyndar má sjá af framsetningu ákvæðisins, sbr. t.d. b- og c-liði.
    Hvað telst beint tjón kemur ekki beinlínis fram í ákvæðinu en leiðir af því með gagnályktun. Hefðbundið beint tjón er t.d. þess konar útgjöld sem nefnd eru í 1. mgr., tapaður hagnaður seljanda vegna riftunar og minnkað verðgildi gallaðs hlutar hjá kaupanda. Verðmunur sá, sem nefndur er í 68. og 69. gr., mundi einnig teljast beint tjón. Þegar gerðar eru staðgönguráðstafanir skv. 68. gr. mundi kostnaður þeim samfara einnig teljast beint tjón.
    Við mat á því hvort tjón teljist beint eða óbeint ræður það ekki úrslitum hvort tjónþoli hefur orðið fyrir útgjöldum gagnvart þriðja manni, eða hvort tjónið birtist sem aukakostnaður í starfsemi tjónþolans. Ef kaupandinn hefur t.d. sent bíl til að sækja söluhlut og hann farið erindisleysu eiga útgjöld því samfara að bætast sem beint tjón, óháð því hvort kaupandinn hefur notað eigin bíl eða leigt bíl í þessum tilgangi. Á hinn bóginn verður tjónþoli að sýna fram á að innri ráðstafanir hans hafi haft sérstakan kostnað í för með sér. Fyrir það sem starfsmenn tjónþola hafa gert og fellur undir venjubundna starfsemi er ekki unnt að krefjast bóta, án þess að annað og meira komi til.
    Ákvæði frumvarpsins veita samningsaðila í vissum tilvikum ótvíræðan rétt til að fá bættan nánar tiltekinn kostnað, sbr. 3. mgr. 34. og 75. gr. Skaðabótaskyldan byggist þá ekki á hinum almennu ákvæðum um skaðabætur og í slíkum tilvikum á ekki við skiptingin í beint og óbeint tjón. Sama á t.d. við þegar seljandinn notar rétt sinn til að bæta úr galla skv. 36. gr. Úrbætur fara þá fram á kostnað seljanda. Augljóst er að seljandinn verður að bæta öll þau útgjöld, sem kaupandinn hefur orðið fyrir í þessu sambandi, óháð því hvort þau verða talin beint tjón eða óbeint.
    Skilgreiningunni á óbeinu tjóni er skipt í fjóra mismunandi flokka í 2. mgr. greinarinnar:
    Í a-lið er fjallað um það tjón sem rekja má til rekstrarstöðvunar, þ.e. tjón sem leiðir af stöðvun eða samdrætti í framleiðslu eða öðrum viðskiptum. Hér undir mundi t.d. falla tjón sem vanefndir seljanda valda kaupanda við að kaupandinn missir af framtíðarsamningum eða hann getur ekki efnt samninga um vöruafhendingar sem gerðir hafa verið.
    Um óbeint tjón er einnig að ræða þegar viðskipti dragast saman vegna þess að framleiðslu- og geymslugeta minnkar. Vanefndir seljanda valda því t.d. að kaupandinn missir af samningi vegna þess að hann stendur verr að vígi en ella í samkeppni við aðra. Álitamál er hvort a-liður geti átt við þegar vanefndir valda því að dregur úr gæðum framleiðsluvöru. Hér má sem dæmi nefna það tilvik þegar seljandi afhendir gallað framleiðslutæki og það veldur því að dregur úr gæðum framleiðslunnar hjá kaupanda. Eðlilegt er að líta svo á að slíkt tjón falli einnig undir þennan lið. Svipað gildir sennilega þegar afhending söluhlutar dregst og markaðsverð hans minnkar eftir umsamdan afhendingartíma. Geti kaupandinn sýnt fram á minnkað verðgildi hlutarins, óháð áframhaldandi sölu hans, er eðlilegt að líta svo á að um beint tjón sé að ræða.
    Kaupandi getur í mörgum tilvikum takmarkað framleiðslu- eða viðskiptatjón sitt með því að taka á leigu annan hlut í stað söluhlutar. Einnig getur hann keypt þjónustu frá þriðja manni eða reynt með eigin aðgerðum að takmarka tjón af völdum vanefndanna. Ekki er útilokað samkvæmt orðalagi a-liðar að slík tilvik geti átt þar undir eða eftir atvikum undir b-lið.
    Ákvæði b-liðar eiga við um tjón sem rekja má til þess að hlutur kemur ekki að þeim notum sem að var stefnt. Liðurinn tekur til alls þess tjóns sem ekki er beinlínis tengt framleiðslu eða viðskiptum. Sem dæmi má nefna að upp komi gallar í tölvubúnaði sem keyptur hefur verið. Slíkir gallar gera skrifstofuhald kaupanda erfiðari en ella, án þess þó að þeir valdi þess háttar tjóni sem um ræðir í a-lið. Á sama hátt má vera að búrekstur verði erfiðari en annars vegna þess að dráttarvél, sem hefur verið pöntuð, er ekki afhent á réttum tíma. Ekki er víst að þetta hafi beinlínis áhrif á framleiðsluna, en tjón getur hins vegar orðið af öðrum orsökum. Á sama hátt getur neytandi orðið fyrir svipuðu tjóni, t.d. þegar hann hefur fest kaup á bíl sem ekki er afhentur á réttum tíma.
    Það er skilyrði fyrir bótum skv. b-lið að fyrir liggi bótaskylt tjón. Í neytendakaupum getur verið erfitt að sýna fram á tjón sem rekja má til þess að hlutur hefur ekki komið að fyrirhuguðum notum. Að jafnaði getur neytandi ekki sýnt fram á annað en að hann hafi orðið fyrir óþægindum og angri eða að áætlanir hans hafi farið úr skorðum, en slíkt er aldrei bótaskylt.
    Oft er unnt að komast hjá tjóni, sem fellur undir b-lið, með því að leigja hlut í staðinn fyrir þann sem keyptur var eða með öðrum álíka úrræðum. Útgjöld, sem af slíku leiðir, teljast beint tjón.
    Í c-lið er fjallað um óbeint tjón vegna tapaðs hagnaðar sem verður þegar samningur við þriðja mann fellur brott eða verður ekki réttilega efndur. Dæmi um þetta er þegar kaupandinn hefur samið um sölu til þriðja manns á þeim hlut sem hann hafði pantað hjá seljanda og vanefndir seljanda leiða til þess að síðari samningnum verður rift.
    Það er aðeins tapaður hagnaður sem telst óbeint tjón samkvæmt þessu ákvæði. Því ber að líta á annað tjón vegna viðskiptanna við þriðja mann sem beint tjón, nema aðrir stafliðir 2. mgr. geti átt við um það. Þetta felur m.a. í sér að bætur fyrir beint tjón vegna afhendingardráttar og galla, sem kaupandinn verður að greiða þriðja manni, verða beint tjón með tilliti til ábyrgðar seljanda.
    Tjón vegna tapaðs hagnaðar telst því aðeins óbeint tjón að kaupandi, án sanngjarnrar ástæðu, láti hjá líða að gera samning við annan aðila eða gera aðrar ráðstafanir til þess að draga úr tjóni sínu. Láti kaupandi slíkt hjá líða er um óbeint tjón að ræða.
    Ákvæðið á því aðeins við að kaupandi hafi „án sanngjarnrar ástæðu“ látið hjá líða að gera tilteknar ráðstafnir. Það getur t.d. verið sanngjörn ástæða fyrir kaupanda að láta hjá líða að útvega annan hlut í stað söluhlutar ef þriðji maður hefur rift kaupunum áður en kaupandanum gafst ráðrúm til slíks.
    Í d-lið er mælt svo fyrir að óbeint sé það tjón sem rekja má til skemmda á öðru en söluhlut sjálfum og hlutum sem hann er notaður til framleiðslu á eða stendur í nánu og beinu sambandi við fyrirhuguð not hans. Liður þessi á því við þegar söluhlutur hefur eiginleika sem valda tjóni á öðrum hlutum. Ákvæði þetta er í sjálfu sér ekki hugsað til þess að afmarka gildissvið kaupalaga annars vegar og laga um skaðsemisábyrgð hins vegar, en eigi að síður felast í því ákveðnar leiðbeiningarreglur um mörk milli gildissviða þessara reglna. Eðlilegt má telja að tekin sé afstaða í kaupalögum til ákveðins tjóns sem verður á öðru en söluhlut sjálfum. Aðalreglan er hins vegar sú að ábyrgð á slíku tjóni heyri undir almennar reglur um skaðsemisábyrgð. Hins vegar skarast gildissvið þessara reglna og geta mörk milli þeirra aldrei orðið nákvæm. Hvort ákvæði kaupalaganna eiga við fer eftir mati á aðstæðum hverju sinni, sbr. sjónarmið þau sem rakin eru í athugasemdum við 40. gr. frumvarpsins.
    Tjón, sem verður á söluhlutnum sjálfum, telst beint tjón og fellur því ekki undir d-lið. Þá telst einnig vera um beint tjón að ræða þegar skemmdir verða á hlutum sem söluhlutur er notaður til framleiðslu á. Einnig telst vera um beint tjón að ræða þegar tjón verður á öðrum hlutum sem hafa náið og beint samband við fyrirhuguð not söluhlutar. Sem dæmi um beint tjón af því tagi, sem hér var nefnt, má nefna það þegar rafhlöður eyðileggja hlut sem þær eru notaðar í eða þvottavél eyðileggur föt sem sett eru í hana til þvottar. Sama gildir um efni sem sett eru í málningu við framleiðslu hennar ef þau leiða til þess að mikilvægir eiginleikar málningarinnar fara forgörðum.
    Óbeint er hins vegar tjón á öðrum hlutum sem eru í nálægð við söluhlut ef ekki eru fyrir hendi þau tengsl sem að framan getur. Sem dæmi um tjón af þessum toga má nefna þegar vél í verksmiðju veldur tjóni á öðrum vélum í sama húsi. Annað dæmi er þegar laxaseiði í eldisstöð smitar stofna í öðrum kerum stöðvarinnar. Þriðja dæmið er þegar galli í þvottavél veldur því að úr henni flæðir vatn og það veldur tjóni á gólfi og veggjum. Slíkt tjón telst óbeint tjón.
    Bein tjón samkvæmt ákvæðinu fellur undir gildissvið kaupalaganna. Ákvæðið gerir hins vegar ráð fyrir því að fjarlægara tjón geti eftir atvikum einnig fallið undir gildissvið kaupalaga. Meðal annars getur svo hafa verið um samið milli aðilanna. Samt sem áður hlýtur aðalreglan að vera sú að slíkt tjón eigi fyrst og fremst að fara eftir reglunum um skaðsemisábyrgð. Segja má að þetta leiði þegar af ákvæðum 2. málsl. 1. mgr. og er gildissvið d-liðar því fremur þröngt.
    Í ákvæði 3. mgr. felast tvær almennar undantekningar frá ákvæðum 2. mgr. A-liður felur í sér að kostnaður við venjulegar ráðstafanir til að bæta úr galla á söluhlut eða ráðstafanir til að bæta úr afleiðingum seinkunar telst beint tjón. Hér er um að ræða ráðstafanir til að bæta úr þeim vandkvæðum, sem vanefndir hafa í för með sér. Ekki skiptir máli hvort ráðstöfun hefur verið gerð til að ráða bót á beinu eða óbeinu tjóni og það skiptir heldur ekki máli hvort ráðstafanir hafa verið gerðar til að koma í veg fyrir fjárhagslegt tjón. Ráðstafanir þær, sem hér um ræðir, geta þess vegna komið til greina til þess að hamla á móti óþægindum sem vanefndir valda. Þær geta t.d. verið fólgnar í því að taka hlut á leigu í staðinn fyrir söluhlut eða kaupa þjónustu frá þriðja manni. Hafi t.d. afhendingu á vélgröfu seinkað getur kaupandinn leigt aðra gröfu þannig að honum verði kleift að vinna tiltekið verk sem hann hefur tekið að sér og ætlaði að nota gröfuna til eða hann getur fengið gröfufyrirtæki til að vinna verkið fyrir sig.
    Í mörgum tilvikum getur kaupandi ráðið bót á afleiðingum vanefnda með eigin ráðstöfunum, t.d. með því að auka yfirvinnu. Eftir atvikum er unnt að líta svo á að sanngjarn kostnaður í þessu sambandi sé beint tjón, a.m.k. meðan það fellur undir „venjulegar ráðstafnir“. Ákvæði 1. mgr. 70. gr. setur því vissar skorður hvaða kostnað aðilar geta lagt í til þess að draga úr tjóni.
    Í b-lið í 3. mgr. segir efnislega að kostnaður vegna ráðstafana, sem takmarka beint tjón, skuli einnig teljast beint tjón. Rökin fyrir þessari undantekningu eru sú skylda sem aðili hefur til þess að takmarka tjón sitt samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 70. gr. Í aðalatriðum má líta svo á að kostnaður við ráðstafanir til þess að draga úr tjóni falli alveg utan gildissviðs 2. mgr. frumvarpsgreinarinnar og sé af þeim sökum beint tjón. Kostnaði við slíkar ráðstafanir má í stórum dráttum skipa á bekk með staðgönguráðstöfunum, sem teljast beint tjón, enda hafa þær sömu áhrif. Það er ekki sanngjarnt að slíkur kostnaður falli í annan flokk en útgjöld skv. 1. mgr. Líta verður á ákvæði b-lið í tengslum við a-lið. Aðila samnings ber skylda til þess að takmarka tjón sitt með þeim hætti sem samræmist best tilgangi kaupanna og því má líta á kostnaðinn sem beint tjón þrátt fyrir reglurnar í 2. mgr. Ef til greina koma fleiri en ein ráðstöfun, sem allar eru vænlegar til árangurs, gilda sömu reglur um ákvörðun skaðabóta án tillits til þess til hvaða ráðstafana hefur verið gripið.
    B-liður felur í sér að líta ber á kostnað af ráðstöfun, sem takmarkar beint tjón, sem beint tjón, jafnvel þótt ráðstöfunin geti einnig haft þýðingu varðandi tjón sem fellur fyrst og fremst undir 2. mgr., þ.e. óbeint tjón. Ef um galla er að ræða telst kostnaðar af viðgerðum, leigu á öðrum hlut o.s.frv. vera beint tjón án tillits til þess hvort gallinn hafi leitt til óbeins tjóns. Sama gildir um afhendingardrátt.
    Í 4. mgr. kemur fram að í neytendakaupum má semja svo um að ekki skuli greiða skaðabætur fyrir óbeint tjón sem fellur undir 2. mgr. Talið er sanngjarnt að seljandinn geti ávallt undanþegið sig ábyrgð á slíku ófyrirsjáanlegu tjóni sem hér um ræðir.

Um 68. gr.

    Ákvæði þetta fjallar um verðmun sem grundvöll fyrir ákvörðun fjárhæðar tjóns þegar aðili hefur gert staðgönguráðstöfun, eftir að hafa rift kaupum. Ákvæðið á við hvort sem það er kaupandi eða seljandi sem riftir kaupunum og gerir staðgönguráðstafanir sínar í framhaldi af því. Staðgönguráðstafanir eru að jafnaði fólgnar í því að kaupandinn útvegar sér hlut í stað upphaflegs söluhlutar eða seljandi selur öðrum þann hlut sem hann upphaflega seldi kaupanda.
    Ákvæðið svarar til 75. gr. SÞ-samningsins, en sambærilegt ákvæði er ekki í núgildandi lögum. Ákvæðið felur sem fyrr segir í sér fyrirmæli um það hvernig ákvarða á skaðabætur vegna verðmunar í þeim tilvikum þegar tjónþoli riftir kaupum og gerir jafnframt staðgönguráðstafanir. Ákvæðið segir ekkert til um það hvaða aðra tjónsliði aðili getur fengið bætta, en um það atriði er hins vegar fjallað í 67. gr. frumvarpsins. Við það er miðað að tjónþoli eigi val um hvort hann vill beita reglunum um verðmun eða ekki. Þegar raunverulegt tjón hans er reiknað út samkvæmt reglum 67. gr. er unnt að taka tillit til hugsanlegs verðmunar. Geti gagnaðili sannað að gerðar hafi verið staðgönguráðstafanir sem leiði til minni verðmunar verður að leggja þann verðmun til grundvallar.
    Tjónþoli getur einnig valið um hvort hann vill beita ákvæðum 68. eða 69. gr. Eins og fram kemur í athugasemdum við 2. mgr. 67. gr. telst verðmunur skv. 68. gr. beint tjón. Með því að gera staðgönguráðstöfun getur sá aðili, sem riftir kaupum, takmarkað tjón sem vanefndir gagnaðila hafa í för með sér. Með skaðabótum fyrir verðmun er samningsaðila bætt tjón sem verðbreytingar á markaði eftir kaup valda.
    Ákvæðið gefur tjónþola alls engin fyrirmæli um að gera staðgönguráðstafanir. Skyldu til slíks getur þó leitt af verslunarvenju, sbr. 3. gr., eða af hinni almennu skyldu tjónþola skv. 70. gr. frumvarpsins til að takmarka tjón sitt. Þegar aðili hefur í raun og veru gert staðgönguráðstafnir með forsvaranlegum hætti og innan sanngjarns tíma getur hann samkvæmt ákvæðinu krafist skaðabóta vegna þess verðmunar sem er á kaupverðinu annars vegar og því verði sem leiddi af staðgönguráðstöfuninni hins vegar. Það er aftur á móti skilyrði að um tjón hafi verið að ræða. Ef staðgönguráðstöfun hefur leitt til hagnaðar fyrir þann sem riftir kaupum á ákvæðið ekki við því að tilgangur þess er ekki að leiðrétta kaupverðið.
    Sem áður segir skal þegar verðmunur er reiknaður út leggja til grundvallar kaupverðið annars vegar og verðið við staðgönguráðstöfunina hins vegar. Þannig er gert ráð fyrir að staðgönguráðstöfun hafi í raun verið gerð. Í ákvæðinu koma engar takmarkanir fram með hliðsjón af tegund kaupanna og skiptir því ekki máli hvort um er að ræða verslunarkaup, neytendakaup eða alþjóðleg kaup.
    Aðalskilyrðið fyrir beitingu ákvæðisins er að sá sem riftir kaupum hafi í raun gert staðgönguráðstöfun, þ.e. ráðstöfun sem hefur bæði efnisleg og tímaleg tengsl við upphaflegu kaupin og er í raun ætlað að mæta sömu þörfum. Stundum má vera að erfitt sé að staðreyna þetta, einkum þegar um stóra viðskiptaaðila er að ræða sem hafa á lager og kaupa og selja mikið af vörum. Í slíkum tilvikum má oft styðjast við hugmyndir tjónþola sjálfs í þeim efnum.
    Það er skilyrði að tegund staðgönguhlutar og eiginleikar séu svipuð tegund og eiginleikum þess hlutar sem upphaflega var keyptur. Af þessu leiðir að hafi upphaflegur söluhlutur verið sérhannaður eða sérútbúinn eru staðgöngukaup útilokuð. Þetta getur t.d. átt við um sölu gamalla hluta, sérstakar árgerðir, sýningareintök og tilboðsvörur. Staðgöngukaup eru þó ekki útilokuð þegar um almennar útsölur eða vörur með afslætti er að ræða. Þar getur því ákvæðið átt við ef öðrum skilyrðum þess er fullnægt.
    Tjónþoli verður að leitast við að gera svo hagkvæmar staðgönguráðstafanir sem mögulegt er. Ekki er nauðsynlegt að þær séu gerðar með nákvæmlega sömu kjörum, t.d. varðandi magn, kaupskilyrði, afhendingarkjör o.fl. Þegar bætur eru metnar má taka tillit til þess aukna kostnaðar sem leiða kann af dýrari flutningi hlutarins eða öðrum óhagstæðari kjörum. Hins vegar verður á sama hátt einnig að taka tillit til þess ef kjör eru hagstæðari, t.d. minni kostnaður við vörusendingu. Með þessu má segja að vissar „lagfæringar“ séu heimilar þegar sá verðmunur er reiknaður út sem ákvæðið gerir ráð fyrir.
    Skilyrði fyrir beitingu ákvæðisins er að staðgönguráðstöfun hafi verið forsvaranleg. Þetta felur í sér að kaupandi getur ekki fengið greiddan verðmun sem leiðir af óeðlilega kostnaðarsömum staðgönguráðstöfunum. Hins vegar þarf kaupandi alls ekki alltaf að velja ódýrustu lausnina. Á sama hátt þarf seljandi heldur ekki alltaf að selja hlutinn á hæsta hugsanlega verði sem hann getur fengið. Skilyrðið verður að meta út frá því hvað sé forsvaranlegt miðað við allar aðstæður þar sem m.a. er tekið tillit til verðs, möguleika til að kaupa eða selja vöru, kostnaðar við ráðstöfun og ekki síst þess tíma sem til ráðstöfunar er.
    Einnig er skilyrði samkvæmt ákvæðinu að staðgönguráðstöfun sé gerð innan sanngjarns tíma frá riftun. Þetta kemur til viðbótar því skilyrði að um raunverulega staðgönguráðstöfun sé að tefla sem hafi tengsl við upphaflegu kaupin. Með umræddu tímaskilyrði er hamlað gegn því að tjónþoli bíði óhæfilega lengi með að gera staðgönguráðstöfun til að geta séð hvernig mál þróast og náð þannig hærri bótafjárhæðum. Verður að meta í hverju tilviki hvað telst sanngjarn tími í þessu sambandi, en sá frestur er þó að jafnaði ekki lengri en leiðir af reglunum í 1. mgr. 32. gr. um tilkynningar.
    Ekki kemur fram í ákvæðinu hverjar geti orðið afleiðingar þess ef staðgönguráðstafanir eru ekki forsvaranlega gerðar eða innan sanngjarns tíma. Eðlilegast er að líta svo á að þá falli tilvikið utan gildissviðs 68. gr., en hins vegar getur 69. gr. þá átt við og eftir atvikum einnig ákvæði 67. gr.
    Báðir aðilar geta krafist fullra bóta skv. 67. gr. eða 69. gr. um leið og tjón hefur orðið. Þá þarf ekki að bíða eftir að sá tími líði sem leiðir óhjákvæmilega af ákvæðum 68. gr. Hafi staðgönguráðstöfun hins vegar verið gerð má beita 68. gr. þegar í stað.

Um 69. gr.

    Frumvarpsgreinin svarar til 76. gr. SÞ-samningsins. Í gildandi lögum eru sambærileg ákvæði í 25. gr., 2. málsl. 30. gr. og 45. gr.
    Í ákvæðinu er fjallað um ákvörðun verðmunar þegar kaupum er rift, en staðgönguráðstafanir eru ekki gerðar. Það á einnig við þegar gerð hefur verið staðgönguráðstöfun sem ekki fullnægir skilyrðum 68. gr., t.d. þegar ráðstöfun er ekki gerð á forsvaranlegan hátt eða innan sanngjarns tíma. Þetta getur sérstaklega átt við þegar söluhlutur er tegundarlega ákveðinn og kaupandinn hefur keypt marga slíka hluti eða seljandi selt marga hluti af svipaðri tegund og erfitt er að átta sig á hvaða kaup eða sölu tiltekin staðgönguráðstöfun á við. Slíkt er ekki óalgengt, t.d. þegar kaupandi endurnýjar stöðugt vörulager sinn og þar er um að ræða eðlilegan lið í veltu.
    Skilyrði þess að 69. gr. eigi við er að gangverð sé á söluhlut. Forsendan er að söluhlutur sé tegundarákveðinn og í vissri viðskiptaveltu, en verð hans þarf ekki að vera skráð. Ef ekki er um gangverð vöru að ræða er hugsanlegt að reikna bætur út á annan hátt, þ.e. samkvæmt ákvæðum 67. og 68. gr.
    Samkvæmt 1. mgr. er verðmunur reiknaður út þannig að lagt er til grundvallar kaupverð annars vegar og gangverð hlutarins á riftunartíma hins vegar. Ef kaupum er hins vegar rift, eftir að söluhlut hefur verið veitt viðtaka skal miða gangverð við það verð sem á honum var þegar afhending átti sér stað. Við verðsamanburðinn verður að leggja til grundvallar hina samningsbundnu vöru, gæði, magn, o.s.frv., svo og samningsbunda skilmála að öðru leyti, svo sem stað, tíma, lánskjör o.fl. Taka verður enn fremur tillit til minni háttar atriða, svo sem flutningskostnaðar. Með sama hætti og á við um 68. gr. getur tjónþoli krafist bóta fyrir annað tjón samkvæmt ákvæðum 67. gr. Því getur verið um að ræða útgjöld og tjón sem afleiðingu greiðsludráttar. Verðmunur hlutanna tekur venjulega einnig til tjóns sem verður vegna tapaðs hagnaðar og því verður hér ekki um sérstakan tjónslið að ræða skv. 67. gr. Hins vegar getur kaupandinn hugsanlega krafist skaðabóta vegna óbeins tjóns, t.d. samdráttar eða stöðvunar í framleiðslu ef skilyrði þess eru fyrir hendi.
    Í 2. málsl. 1. mgr. kemur fram að miða skuli gangverð við þann tíma þegar afhending átti sér stað ef kaupum er rift eftir að söluhlut hefur verið veitt viðtaka. Þessi nýja viðmiðun dregur úr öryggisleysi og spákaupmennsku. Hafi galli á söluhlut ekki uppgötvast fyrr en nokkru eftir afhendingu má vera að gangverð á viðtökutíma henti ekki vel. Einnig getur verið að kaupandi bíði með riftun einhvern tíma í von um úrbætur, sbr. 2. mgr. 39. gr. Í þessum tilvikum hefur kaupandi það úrræði að gera staðgönguráðstöfun skv. 68. gr. eða krefjast bóta skv. 67. gr.
    Í 2. mgr. er skilgreining á því hvað sé gangverð. Gangverð er í fyrsta lagi það verð sem sambærilegir hlutir hafa á afhendingarstað, sbr. ákvæði 6. og 7. gr. frumvarpsins. Í mörgum tilvikum hefur vara sama gangverð á stórum svæðum. Hins vegar getur verið verðmunur á milli einstakra staða og þá ræður afhendingarstaður úrslitum.
    Ef ekki er um gangverð að ræða á afhendingarstað gilda ákvæði 2. málsl. 2. mgr. Þá skal miða gangverð við annan stað sem með sanngirni má jafna til afhendingarstaðar. Slíkur staður getur eftir atvikum ýmist verið framleiðslustaður hlutarins, ákvörðunarstaður, viðtökustaður eða viðurkenndur markaðsstaður á umræddu viðskiptasviði. Hvað telst sanngjarnt í þessu tilliti ber að meta í hverju tilviki fyrir sig með hliðsjón af viðskiptavenjum á umræddu sviði og hagsmunum aðilanna. Tekið skal fram að ákvæði 2. málsl. á því aðeins við að ekki sé um að ræða neitt gangverð á afhendingarstað. Það skipir því engu máli í þessu sambandi hvort verð sé „eðlilegra“ eða sanngjarnara á öðrum stöðum ef það skilyrði er fyrir hendi.
    Við verðsamanburð skv. 2. málsl. 2. mgr. skal taka tillit til mismunandi flutningskostnaðar til leiðréttingar. Fer eftir samningum aðila hverju sinni hvers konar flutningskostnaður kemur til álita í þessu sambandi. Með þessum hætti er unnt að nálgast verulega það verð sem hefði hvort sem er leitt af staðgönguráðstöfunum. Sé ekki um neitt gangverð að ræða samkvæmt framansögðu er eina úrræðið að leita bóta samkvæmt ákvæðum 67. gr.

Um 70. gr.

    Efni 1. mgr. 70. gr. frumvarpsins er í samræmi við 77. gr. SÞ-samningsins, en í gildandi kaupalögum er ekkert sambærilegt ákvæði.
    Samkvæmt 1. mgr. hvílir sú almenna skylda á tjónþola að gera sanngjarnar ráðstafanir til þess að takmarka tjón sitt. Vanræki hann þá skyldu ber hann sjálfur þann hluta tjónsins sem því nemur. Þótt í gildandi kaupalögum séu ekki sambærilegt ákvæði má segja að regla frumvarpsgreinarinnar sé í samræmi við almennt viðurkennd sjónarmið, sem lögð eru til grundvallar við ákvörðun fjárhæðar skaðabóta, bæði innan og utan samninga. Ákvæðið leggur þá skyldu á aðila að þeir reyni með beinum aðgerðum að takmarka tjón sitt.
    Það ræðst af atvikum og aðstæðum í hverju tilviki hvaða aðgerða verður krafist af aðilum við að takmarka tjón sitt. Riftun og staðgönguráðstafanir eru dæmi um aðgerðir sem eðlilegt getur verið að grípa til í því skyni að takmarka tjón sitt. Af ákvæðinu leiðir að til slíkra aðgerða getur verið nauðsynlegt að grípa fljótt ef meira tjón mundi ella af hljótast, sbr. og athugasemdir við 68. gr.
    Við mat í framangreindum efnum verður að taka tillit til þess sem með sanngirni mátti ætlast til af samningsaðila á því tímamarki þegar vanefnd varð. Þótt eftirfarandi skoðun leiði í ljós, með hliðsjón af því hvernig mál þróuðust, að samningsaðili hafi átt að bregðast við ólíkt því sem hann gerði er ekki sjálfgefið að hægt hafi verið að ætlast til hins sama af honum á því tímamarki þegar vanefnd varð. Þá verður einnig að líta til þess að aðili getur þurft ákveðinn tíma til þess að átta sig á hvaða úrræðum sé hentugast að beita.
    Að öðru leyti verður að taka tillit til eðlis kaupanna og þess sem venjulegt má telja í umræddri tegund viðskipta. Þannig verða t.d. að meginstefnu til ekki gerðar sömu kröfur til kaupenda í neytendakaupum og þeirra sem hafa verslun og viðskipti að atvinnu sinni þegar um staðgöngukaup er að ræða.
    Oft getur verið nauðsynlegt fyrir samningsaðila að hafa samband við gagnaðila sinn til þess að geta metið til hvaða ráðstafana sé hentugast að grípa. Seljandi getur t.d. átt þess kost að útvega kaupanda annan hlut sem getur til bráðabirgða komið í stað söluhlutar.
    Í 2. mgr. frumvarpsgreinarinnar er að finna almenna reglu um mildun bótaábyrgðar. Hvorki er í gildandi kaupalögum né heldur í SÞ-samningnum að finna sambærileg ákvæði. Skaðabætur má samkvæmt ákvæðinu lækka ef þær teljast ósanngjarnar fyrir hinn bótaskylda aðila. Augljóst þarf að vera að skaðabætur leiði til ósanngjarnrar niðurstöðu svo að mildun bótaábyrgðar samkvæmt ákvæðinu geti komið til greina. Við matið verður að taka tillit til fjárhæðar tjóns í samanburði við tjón sem venjulega verður í sambærilegum tilvikum og miðað við atvik að öðru leyti.
    Eins og leiða má af texta frumvarpsgreinarinnar getur mildun bótaábyrgðar komið til greina þegar um er að ræða lítt fyrirsjáanlegar afleiðingar vanefnda á samningsskyldu. Tjón, sem óbeint má rekja til vanefnda og leiðir að meira eða minna leyti af einstaklingsbundum atvikum og aðstæðum hjá tjónþola, getur gagnaðili almennt séð ekki gert ráð fyrir og takmarkað. Því er meiri ástæða en ella til að lækka skaðabætur vegna slíks tjóns en þegar um er að ræða það sem kalla má venjulegar afleiðingar vanefnda, jafnvel þótt um verulegt tjón sé að ræða. Mikilvægur þáttur við mat í þessum efnum er samanburður á viðkomandi tjóni og því sem kalla má venjulegt tjón í sambærilegum tilvikum.
    Í greininni er gert ráð fyrir að taka megi tillit til „atvika að öðru leyti“. Sem dæmi um slíkt má nefna atriði eins og tegund kaupa, hverjir samningsaðilar eru og ástæður vanefndanna, þ.m.t. hversu mikla vanrækslu sá hefur sýnt sem vanefnir samninginn og framferði tjónþola. Þar til viðbótar verður að líta til fjárhæðar tjóns og fyrirliggjandi möguleika á vátryggingum. Þá verður einnig að taka tillit til þess að hve miklu leyti tjónþoli vakti við samningsgerðina athygli viðsemjanda síns á sérstakri hættu sinni á að verða fyrir tjóni.
    Þörfin fyrir mildun ábyrgðar getur einnig ráðist af því um hvers konar vanefndir er að ræða. Þannig má sem dæmi nefna að yfirleitt verður síður um mikið ófyrirsjáanlegt tjón að ræða af völdum greiðsludráttar af hálfu kaupanda en það tjón sem leitt getur af vanefndum seljanda.
    Mildun ábyrgðar verður aðeins raunhæft að meta að því marki sem skaðabætur takmarkast ekki samkvæmt öðrum reglum, t.d. 1. mgr. 67. gr., 1. mgr. 70. gr. og 3. mgr. 70. gr. frumvarpsins.
    Í 3. mgr. frumvarpsgreinarinnar er sérregla um alþjóðleg kaup. Fyrsti málsliður er í samræmi við 2. málsl. 74. gr. SÞ-samningsins. Málsliður þessi er einnig í samræmi við 2. málsl. 1. mgr. 67. gr. samningsins með þeirri viðbót að matið á að fara fram í ljósi þeirra atvika, sem aðili þekkti eða mátti þekkja þegar samningur var gerður. Af ákvæðinu getur leitt að skaðabætur í alþjóðlegum kaupum verði ákvarðaðar heldur lægri en ella yrði gert. Á hinn bóginn leiðir það af 2. málsl. að mildunarreglu 2. mgr. verður ekki beitt í alþjóðlegum kaupum.

Um 71. gr.

    Ákvæði þetta svarar til 78. gr. SÞ-samningsins. Um greiðslu vaxta er fjallað í 38. gr. laga nr. 39/1922.
    Í samanburði við gildandi lög felst í ákvæði þessu ákveðin rýmkun, þar sem það á ekki einungis við um drátt á greiðslu kaupverðs heldur einnig aðrar vangoldnar fjárhæðir. Þar má sem dæmi nefna skaðabætur af hálfu kaupanda vegna dráttar af hálfu seljanda.
    Tilvísun ákvæðisins til vaxtalaga felur bæði í sér að vaxtafótur, upphafstími vaxta og útreikningur að öðru leyti skal vera í samræmi við það sem fyrir er mælt í vaxtalögum.
    Í 78. gr. SÞ-samningsins eru hvorki reglur um vaxtafót eða upphafstíma vaxta og fer um þessi atriði samkvæmt lögum hvers lands.

Um XI. kafla.

    Í þessum kafla er fjallað um skyldur seljanda og kaupanda til umönnunar söluhlutar sem hann hefur í vörslum sínum vegna vanefnda af hálfu gagnaðila. Meginreglan er sú að seljandi eða kaupandi skuli annast um hlutinn á kostnað gagnaðila á þann hátt sem sanngjarn er miðað við aðstæður. Um umönnunarskyldu seljanda eru nánari ákvæði í 72. gr., um skyldu seljanda í 73. gr. og um umönnun af hálfu þriðja manns eru ákvæði 74. gr. Í 75. gr. eru ákvæði um skaðabætur og tryggingu vegna kostnaðar sem umönnunaraðili þarf að bera. Í 76. gr. ræðir um rétt og skyldu samningsaðila (umönnunaraðila) til að selja söluhlut sem hann annast og í 77. gr. er fjallað um annars konar ráðstöfun á söluhlut en sölu. Í 78. gr. er loks fjallað um reikningsfærslu og reikningsgerð af hálfu umönnunaraðila á hendur viðsemjanda sínum.


    Um 72. gr.

    Ákvæði þetta svarar til 85. gr. SÞ-samningsins og 33. gr. gildandi kaupalaga. Þar er í fyrsta lagi fjallað um það, sem kallað er „mora accipiendi“ af hálfu kaupanda, þ.e. þegar kaupandi lætur hjá líða að sækja söluhlut eða veita honum viðtöku. Ákvæðið á einnig við þegar önnur atvik, sem kaupanda varða, leiða til þess að hann fær ekki söluhlutinn afhentan á réttum tíma. Með hinu síðastnefnda er t.d. átt við það þegar afhendingin er undir því komin að kaupverðið sé greitt, en það er ekki gert. Seljandinn getur þá samkvæmt ákvæðum 10. gr. haldið söluhlut hjá sér, en á hann fellur jafnframt umönnunarskylda samkvæmt ákvæðum þessarar greinar. Annað dæmi er það þegar afhendingu seinkar af þeirri ástæðu að kaupandinn ljær ekki atbeina sinn að efndum, t.d. að gerð hlutarins eða flutningi hans, eins og áskilið hefur verið.
    Umönnunarskylda seljanda gildir án tillits til huglægrar afstöðu kaupandans til vanefnda og án tillits til þess hvort aðilar hafa sett fram vanefndakröfur eða ekki. Kaupandanum er skylt skv. 50. gr. að stuðla að sínu leyti að því að seljandinn geti efnt skyldur sínar og að taka við hlutnum með því að sækja hann eða veita honum viðtöku. Af 2. mgr. 57. gr. leiðir að seljandi getur átt bótarétt ef kaupandi veitir ekki söluhlut viðtöku. Vanefndir kaupandans samkvæmt ákvæðinu eru undir því komnar að aðgerðarleysi hans verði ekki rakið til seljanda eða atvika sem hann varða, sbr. 51. gr.
    Skylda seljanda samkvæmt ákvæðinu felst í því að annast um söluhlut með sanngjörnum hætti. Hvað telst sanngjarnt í þeim efnum fer ekki hvað síst eftir því um hvers konar hlut er að ræða og atvikum að öðru leyti.
    Ef seljandi hefur hlut í vörslum sínum er umönnunarskylda hans skilyrðislaus. Að öðru leyti fer skyldan eftir því hvort seljandinn hefur möguleika á því að annast hlutinn. Ef hlutur er á öðrum stað getur seljandinn e.t.v. annast um hlutinn, t.d. ef hann er með útibú eða umboðsmann á þeim stað. En hafi banki á afhendingarstað fengið það hlutverk að sjá um innheimtu kaupverðsins verður bankinn ekki af þeirri ástæðu talinn umboðsmaður seljanda með þeim afleiðingum að á seljandann falli umönnunarskylda samkvæmt ákvæðum þessarar greinar.
    Seljandi annast söluhlut á kostnað kaupanda, sbr. einnig ákvæði 75. gr. um skaðabætur og tryggingar fyrir kostnaði. Umönnun getur leitt til tímabundinna útgjalda fyrir seljanda, sem kaupandinn verður síðar að endurgreiða.
    Í frumvarpsgreininni er umönnunarskylda seljanda ekki bundin neinum tímatakmörkunum. Seljandinn getur á hinn bóginn öðlast rétt til að rifta kaupum samkvæmt ákvæðum 55. gr. Þar að auki getur seljandinn neytt réttar síns skv. 76. eða 77. gr. til að selja hlutinn eða ráðstafa honum með öðrum hætti.
    Af ákvæðum 2. mgr. 13. gr. leiðir þá meginreglu að kaupandinn ber áhættuna af söluhlutnum á þeim tíma sem seljandinn annast um hann samkvæmt ákvæðum 72. gr. Í neytendakaupum gildir þetta þó ekki, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 13. gr. Þótt það sé kaupandinn sem almennt ber áhættuna af söluhlut getur það eigi að síður verið þáttur í umönnunarskyldu seljanda að vátryggja söluhlutinn meðan skyldan varir.
    Í frumvarpsgreininni er ekki um það fjallað hvaða afleiðingar það hefur ef seljandinn sinnir ekki umönnunarskyldu sinni. Hið raunhæfa er þá að seljandinn geti orðið bótaskyldur, sbr. til hliðsjónar ákvæði 2. mgr. 30. gr. Það leiðir hins vegar af 2. mgr. 21. gr. að seljandinn ber einnig ábyrgð á göllum sem koma í ljós eftir að áhættan hefur flust yfir til kaupandans ef galla má rekja til vanefnda af hálfu seljandans. Nær þetta einnig til vanefnda sem felast í því að seljandinn hefur ekki sinnt umönnunarskyldu sinni. Ef galli kemur í ljós á söluhlut og gallann er að rekja til vanrækslu seljanda á umönnunarskyldu skv. 72. gr. getur kaupandinn beitt venjulegum vanefndaúrræðum.

Um 73. gr.

    Ákvæði þetta er í samræmi við 86. gr. SÞ-samningsins. Ákvæði 1. mgr. svarar til 55. gr. gildandi laga og ákvæði 2. mgr. svara til 56. gr. laga nr. 39/1922.
    Í 1. mgr. er um það tilvik fjallað þegar kaupandinn vill hafna söluhlut sem hann hefur veitt viðtöku, þ.e. móttekið eða sótt. Er kaupandinn þá skyldur til að annast um hlutinn eins og sanngjarnt er miðað við aðstæður. Ákvæðið er orðað eins og 72. gr., enda er ætlunin sú að umönnunarskyldan sé hin sama í báðum tilvikum. Umönnun kaupanda er á kostnað seljanda, sbr. einnig 75. gr. og athugasemdir við 72. gr.
    Það er skilyrði svo að ákvæði greinarinnar eigi við að kaupandinn hafi rétt til að hafna söluhlut. Ef slíkum rétti er ekki til að dreifa verður kaupandinn að annast um hlutinn í þágu eigin hagsmuna og getur hann þá ekki gert það fyrir reikning seljandans. Þar sem 1. mgr. á við um þau tilvik þegar kaupandinn hefur veitt söluhlut viðtöku er það kaupandinn sem ber áhættuna af hlutnum, sbr. þó ákvæði 74. gr. Hugtakið „hafnar“ er ekki skilgreint, en í því felst að kaupandinn vill ekki halda hlut. Kaupandinn hefur rétt til að hafna hlut þegar beinlínis er um það samið, þegar afhending er verulega gölluð eða þegar afhent er of snemma eða of mikið, sbr. 98. gr.
    Ákvæði 2. mgr. eiga við þegar kaupandinn vill hafna söluhlut sem hefur verið sendur til hans honum til reiðu á ákvörðunarstað. Er kaupandinn þá skyldur til að annast um hlutinn fyrir reikning seljanda. Það er einnig skilyrði hér að kaupandinn eigi rétt á að hafna hlutnum.
    Í ákvæðinu felst að kaupandi í sendingarkaupum getur með ákveðnum skilyrðum verið skyldur til að annast um söluhlut sem er á leið til hans og er kominn til hans eftir að kaupandinn fékk ástæðu til að hafna honum.
    Kaupandinn er aðeins skyldur til að annast um hlutinn ef það getur gerst án þess að hann þurfi jafnframt að greiða kaupverðið. Ef hluturinn er t.d. sendur í póstkröfu fellur engin umönnunarskylda á kaupanda. Þá verður umönnunarskyldan heldur ekki virk ef kaupandinn getur ekki sinnt henni nema því aðeins að verða fyrir ósanngjörnum útgjöldum eða óhagræði. Þar við bætist að á kaupandann fellur ekki umönnunarskylda ef seljandinn eða einhver á hans vegum getur annast um hlut á ákvörðunarstað. Þetta á t.d. við þegar seljandinn er með umboðsmann á ákvörðunarstaðnum, sbr. athugasemdir við 72. gr.
    Þótt kaupandinn sé ekki skyldur til að annast um söluhlut getur hann eftir atvikum verið skyldugur að tilkynna seljandanum eða umboðsmanni hans um það að hann hafni söluhlut, þannig að seljandinn geti gert nauðsynlegar ráðstafanir til þess að annast um hlutinn.
    Þótt 2. mgr. eigi við um tilvik þar sem söluhlut hefur ekki verið veitt viðtaka hefur áhættan yfirleitt þegar flust yfir til kaupanda áður en söluhlut er hafnað (sjá 13. gr., sbr. 2. mgr. 7. gr.). Kaupandinn ber því áhættuna af hlutnum meðan hluturinn er í vörslum hans, sbr. einnig 74. gr.
    Hvorki í 1. né 2. mgr. 73. gr. er fjallað um afleiðingar þess ef kaupandinn vanrækir umönnunarskyldu sína. Samkvæmt ákvæðum 66. gr. getur slíkt vanræksla leitt til þess að kaupandinn glatar riftunarrétti sínum. Vanræksla á umönnunarskyldu getur einnig leitt til þess að heimilt er að beita venjulegum vanefndaúrræðum, t.d. krefjast skaðabóta skv. 2. mgr. 57. gr., sbr. athugasemdir við þá grein.

Um 74. gr.

    Ákvæði 1. málsl. greinarinnar er í samræmi við 87. gr. SÞ-samningsins, en í gildandi kaupalögum, nr. 39/1922, er ekkert sambærilegt ákvæði að finna. Þó verður að ætla að samkvæmt gildandi rétti hafi aðili, sem annast skal um söluhlut, að ákveðnu marki rétt til að fela öðrum manni að annast um hann.
    Samkvæmt fyrri málslið 74. gr. er þeim aðila, sem annast skal um söluhlut samkvæmt ákvæðum 72. og 73. gr., heimilt að fela það þriðja manni á kostnað gagnaðila. Þetta getur oft verið hagkvæmt úrræði, t.d. þegar hlutur er á öðrum stað en atvinnustöð þess sem umönnunarskyldan hvílir á eða þegar hlut þarf að varðveita með sérstökum hætti eða aðferðum sem umönnunarðilinn hefur ekki færi á að beita.
    Eitt af skilyrðum þess að hlut megi varðveita hjá þriðja manni á kostnað seljanda er að útgjöld því samfara verði ekki óhæfilega mikil og er það sérstaklega tekið fram í ákvæðinu. Sá samningsaðili, sem umönnunarskyldan hvílir á, þ.e. umönnunaraðilinn, verður ekki talinn hafa brotið skyldur sínar ef hann sjálfur er fús til að greiða þann kostnað sem fer fram úr því sem hæfilegt má telja. En ákvæðið getur t.d. fengið sjálfstæða þýðingu ef geymslumaður (þriðji maður) krefur seljandann beint um kostnaðinn, eða hann heldur hlut hjá sér vegna greiðsludráttar af hálfu kaupandans.
    Í síðari málslið ákvæðisins kemur fram að samningsaðili er laus undan skyldu sinni, hafi vörslumaður verður valinn á forsvaranlegan hátt og veitt hlutnum viðtöku. Í þessu sambandi verður að hafa í huga að umönnunarskylda samningsaðila verður virk við vanefndir af hálfu gagnaðila og er í hans þágu. Eins og áður er komið fram er oft óhjákvæmilegt að varðveita hlut hjá þriðja manni. Því er eðlilegt að líta svo á að samningsaðili sé laus úr ábyrgð sinni þegar söluhlutur er kominn til þriðja manns og samningsaðilinn hefur ekki lengur tök á að hafa eftirlit með honum. Á þetta við hvort sem umönnunarskyldan hvílir á kaupanda eða seljanda. Geymslumaður getur verið hvort heldur sem er einkaaðili eða sjálfstæður atvinnurekandi sem tekur slíkt að sér sérstaklega, t.d. eigandi geymsluhúsnæðis. Sá sem umönnunarskyldan hvílir á verður að meta hæfni geymslumanns og eftir atvikum hvort geymslustaður er hentugur til að geyma á hlut af þeirri tegund og með þeim eiginleikum sem um er að ræða.
    Af frumvarpsgreininni leiðir að samningsaðili ber ekki ábyrgð á tjóni sem verður meðan hlutur er hjá vörslumanni, t.d. vegna gáleysis af hálfu vörslumanns. Á hinn bóginn verður umönnunaraðilinn ábyrgur ef val hans á vörslumanni hefur ekki verið forsvaranlegt. Þegar vörslumaður hefur verið valinn á forsvaranlegan hátt og hefur veitt hlut viðtöku telst umönnunaraðili hafa fullnægt skyldu sinni og hún nú komin í hendur þriðja aðila.

Um 75. gr.

    Ákvæði þetta er í samræmi við 2. málsl. 85. gr. og 2. málsl. 1. mgr. 86. gr. SÞ- samnþingsins. Í gildandi kaupalögum frá 1922 er sambærilegt ákvæði í 36. og 55. gr.
    Samkvæmt fyrri málslið frumvarpsgreinarinnar á samningsaðili, sem annast um söluhlut á kostnað gagnaðila, rétt til endurgreiðslu hæfilegs kostnaðar sem af því hlýst. Ábyrgð gagnaðila vegna slíks kostnaðar er á hreinum hlutlægum grunni. Þær ástæður, sem leyst geta undan skaðabótaábyrgð skv. 27., 40. og 57. gr., eiga því ekki við hér.
    Ábyrgð samkvæmt frumvarpsgreininni nær einungis til þess kostnaðar sem aðili hefur orðið fyrir í tengslum við umönnun skv. 72., 73. og eftir atvikum 74. gr. Sem dæmi má nefna kostnað við leigu á geymsluhúsnæði eða flutning til þriðja manns sem á að varðveita hlutinn. Ef í ljós kemur, eftir að seljandinn hefur flutt söluhlut á afhendingarstað, að kaupandinn vill ekki veita hlutnum viðtöku er heimilt að líta á kostnað seljanda við að flytja hlutinn til baka sem hluta umönnunarkostnaðar. Ef afhending verður raunhæf síðar gildir hið sama sennilega einnig um kostnað við að flytja hlutinn á afhendingarstað á nýjan leik. Ef um kostnað er að ræða, sem ekki stendur í sambandi við umönnun hlutarins heldur má alfarið rekja til þeirra vanefnda sem leiddu til umönnunarskyldunnar, fæst hann bættur samkvæmt reglum 27., 40. og 57. gr. Hvað telst forsvaranlegt í þessu sambandi fer eftir mati á aðstæðum hverju sinni og ber þá sérstaklega að hafa í huga tegund hlutar, staðsetningu hans, stöðu og möguleika seljanda. Kostnaður getur t.d. falist í fermingu og affermingu í tengslum við flutninga, geymslu hjá seljanda eða þriðja manni, viðhaldi hlutar, ráðstöfunum til að forða hlut frá tjóni, tryggingarkostnaði og eftir atvikum sölu samkvæmt ákvæðum 76. gr.
    Síðari málsliður ákvæðisins veitir þeim aðila, sem umönnunarskyldan hvílir á, heimild til að halda hlutnum hjá sér til tryggingar kröfu sinni samkvæmt ákvæðinu. Hvað kaupandann varðar felur ákvæði þetta í sér rýmkun miðað við ákvæði 55. gr. gildandi laga, sem ekki tekur sérstaka afstöðu til þessa álitaefnis.
    Samningsaðili getur varnað því að gagnaðili hans haldi hlut hjá sér samkvæmt heimild frumvarpsgreinarinnar með því annaðhvort að greiða kostnaðinn eða setja tryggingu fyrir greiðslu hans. Trygging getur verið hentugt úrræði fyrir gagnaðila, t.d. ef upp kemur deila um það hvort kostnaður, sem á er fallinn, telst hæfilegur eða ekki.

Um 76. gr.

    Frumvarpsgreinin svarar til 88. gr. SÞ-samningsins. Sambærilegar reglur eru í 34. og 35., sbr. 55. gr. gildandi kaupalaga. Þegar hlutur hefur verið seldur, eins og áskilið er í grein þessari, hefur umönnunarskyldu verið fullnægt og tekur þá við uppgjör skv. 78. gr.
    Í 76. gr. er þeim umönnunarðila, sem umönnunarskylda hvílir á skv. 72. eða 73. gr., veitt heimild til að selja söluhlut, en stundum getur þó verið um skyldu til slíks að ræða. Greinin gerir ráð fyrir fjórum ólíkum skilyrðum fyrir heimild til þess að selja.
    Sala má í fyrsta lagi fara fram ef umönnunaraðili getur ekki annast um hlutinn án þess að baka sér verulegan kostnað. Þar sem 75. gr. veitir rétt til skaðabóta vegna hæfilegs kostnaðar við umönnun er það fyrst og fremst kostnaður sem aðili hefur þurft að leggja út fyrir sem getur verið íþyngjandi fyrir umönnunarðilann.
    Í öðru lagi er heimilt að selja söluhlut ef gagnaðili dregur það óhæfilega lengi að taka við hlutnum. Við mat á því hvað telst óhæfilegt í þessum efnum hefur tímalengdin sjálf þýðingu. Eðli söluhlutar og hver umönnunaraðilinn er getur einnig haft þýðingu. Sá sem hefur verslun og viðskipti að atvinnu má reikna með því að endrum og sinnum þurfi að annast um söluhluti vegna vanefnda viðsemjanda og slíkur aðili er yfirleitt að ákveðnu marki fær um að varðveita sérhæfðar og viðkvæmar vörur. Sama gildir á hinn bóginn ekki um venjulegan neytanda án þess að annað og meira komi til. Þótt gagnaðili endurgreiði kostnað við umönnun getur umönnunaraðili samt sem áður þurft að binda fé í langan tíma vegna umönnunarinnar, sem þá fer að taka á sig einkenni lánsviðskipta og ekki er sanngjarnt að hann þurfi að hlíta. Undan slíku getur umönnunaraðili þá losnað með því að selja hlutinn.
    Umönnunaraðili getur í þriðja lagi selt hlutinn ef gagnaðili dregur það óhæfilega lengi að greiða kaupverðið. Dráttur á greiðslu kaupverðsins er sjálfsagt aðeins raunhæfur þegar það er seljandinn sem annast um hlutinn. Seljandinn mundi að öllu jöfnu í slíkum tilvikum geta varið hagsmuni sína með því að rifta kaupunum, en hann getur þess í stað ákveðið að halda fast við kaup en selja söluhlutinn skv. 76. gr.
    Umönnunaraðili getur í fjórða lagi selt hlutinn ef gagnaðili dregur óhæfilega lengi að greiða geymslukostnað. Skilyrði þetta viðvíkjandi geymslukostnaði er nátengt fyrsta skilyrðinu og verður ekki frekar um það fjallað hér.
    Andstætt því sem gildir skv. 34. gr. gildandi laga er sú skylda ekki lögð á umönnunaraðila að hann skori á gagnaðila að taka hlutinn í sínar vörslur. En hafi slík áskorun verið gefin getur það haft þýðingu við mat á því hvort gagnaðili hafi dregið það óeðlilega lengi að taka hlutinn í sínar vörslur.
    Samkvæmt 2. mgr. er umönnunaraðila við vissar aðstæður skylt að selja söluhlutinn. Það er í fyrsta lagi ef hætt er við að hlutur eyðileggist fljótt eða rýrni. Slíkt getur t.d. verið tilfellið þegar um sölu á ferskvörum er að ræða. Ef kaupandinn vill ekki veita viðtöku sendingu af tómötum verður seljandinn að reyna að selja tómatana öðrum, áður en sendingin eyðileggst. Í öðru lagi er skylt að selja hlutinn ef hætt er við að kostnaður við geymslu hans verði óhæfilega mikill. Hvað telst hæfilegt í þessum efnum ræðst einkum af tegund hlutarins, verðgildi hans og ástandi annars vegar og hins vegar þeim tíma sem umönnunin varir. Í því sambandi þarf að meta hvort kostnaðurinn stendur í eðlilegu samhengi við verðmæti söluhlutarins. Misvægi á milli kostnaðarins og verðmætis hlutarins getur hæglega komið upp ef verulega langur tími líður áður en gagnaðili efnir samninginn eða veitir hlut viðtöku. Skilyrði þetta fellur að öllu verulegu leyti saman við skilyrði 75. gr. Í því felst að um skyldu til sölu er yfirleitt ekki að ræða ef kostnaður við umönnun fer ekki fram úr því sem er hæfilegt skv. 75. gr.
    Í fyrri málslið 3. mgr. er því slegið föstu að standa skuli að sölu með forsvaranlegum hætti. Gagnstætt því sem fram kemur í 34. gr. gildandi laga eru engin fyrirmæli um það í ákvæðinu hvernig standa skal að sölu. Salan verður að fara fram á þeim stað sem hæfir og með þeim hætti sem forsvaranlegt má telja. Í því sambandi skiptir máli hvað telst hagkvæmt, forsvaranlegt og ákjósanlegt miðað við aðstæður. Hafa verður í huga tegund hlutarins og ástand ásamt hagsmunum aðila. Sá sem umönnunarskyldan hvílir á hefur hvorki heimild til að selja sjálfum sér söluhlut né heldur þeim sem honum standa nærri. Ef hann vill sjálfur kaupa hlut verður það að jafnaði að gerast með sérstöku samkomulagi við gagnaðila.
    Mótbárum gegn söluverðinu verður ekki vísað á bug með því einu að benda á að sala hafi farið fram á uppboði. Í mörgum tilvikum leiðir það af kröfu frumvarpsgreinarinnar um sölu með forsvaranlegum hætti að hún fari fram eftir hefðbundnum söluleiðum og aðferðum aðilanna, þar sem slíkt getur leitt til þess að hærra verð fáist en við uppboðssölu. Í 88. gr. SÞ- samningsins er ekki beinn áskilnaður um það að sala skuli fara fram með forsvaranlegum hætti. Slíkt skilyrði er þó að meira eða minna leyti sjálfgefið, sbr. 1. mgr. 88. gr. sáttmálans, þar sem talað er um sölu „by any appropriate means“.
    Ef kostur er skal gefa gagnaðila með hæfilegum fyrirvara viðvörun um að hluturinn muni verða seldur. Tilgangurinn með ákvæðinu er að tryggja gagnaðila lokatækifæri til að gera það sem nauðsynlegt er til að fá umráð hlutarins. Skilyrðið „ef kostur er“ hefur í framkvæmd helst þýðingu í sambandi við 2. mgr., en þar skiptir tíminn verulegu máli varðandi möguleikann á því að takmarka tjón sitt. Viðkomandi aðili verður þá ef nauðsynlegt reynist að geta selt hlutinn án þess að senda viðvörun til gagnaðila. Óraunhæft getur verið að gera gagnaðila viðvart ef nauðsynlegt er að selja þegar í stað til að koma í veg fyrir eyðileggingu. Þetta á t.d. við um matvörur. Í flestum tilfellum er það á hinn bóginn unnt að veita gagnaðila viðvörun beint, áður en sala fer fram, t.d. símleiðis. Þegar viðvörun er send með forsvaranlegum hætti er áhættan af sendingunni móttakandans. Ef umönnunaraðili fullnægir ekki söluskyldu sinni á forsvaranlegan hátt getur hann orðið bótaskyldur vegna þeirrar vanrækslu.

Um 77. gr.

    SÞ-samningurinn hefur ekkert ákvæði sambærilegt við frumvarpsgrein þessa, en umönnunarskylda skv. 86. gr. sáttmálans er takmörkuð eins og í 73. gr. frumvarpsins. Þegar komið er út fyrir mörk umönnunarskyldunnar og sala getur ekki farið fram með góðu móti verður það ekki talið andstætt ákvæðum sáttmálans þótt gerð sé í þágu beggja samningsaðila önnur ráðstöfun en sala. Frumvarpsgreinin svarar að öðru leyti til síðasta málsliðar 34. gr. gildandi laga, sbr. og ákvæði 55. gr. þeirra laga.
    Fyrsta skilyrðið samkvæmt frumvarpsgreininni er það að aðili hafi heimild til sölu hlutar samkvæmt ákvæðum 76. gr. Þetta nær einnig til þeirra tilvika þar sem um skyldu til sölu er að ræða samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 76. gr.
    Annað skilyrðið er að söluhlutur annaðhvort seljist ekki eða ljóst sé að söluandvirðið nægi ekki fyrir sölukostnaði. Það nægir með öðrum orðum ekki til að fullnægja skilyrðinu að óvíst sé hvort nokkur hagnaður verði af sölunni. Þá verður einnig að taka tillit til þess að aðili hefur oft lítinn tíma til að meta hvað er hagkvæmast í þessum efnum.
    Samkvæmt 34. og 55. gr. gildandi kaupalaga er seljanda og kaupanda eftir atvikum „rétt að flytja hlutinn burt ef hann vill“. Í frumvarpsgreininni kemur ekki fram hvernig aðilar mega ráðstafa hlut að öðru leyti en því að það skal gert með forsvaranlegum hætti. Forsvaranlegur háttur í þessu sambandi gæti það t.d. verið ef aðili tekur hlutinn í notkun fyrir sig, eftir atvikum gegn hæfilegu endurgjaldi. Það yrði hins vegar alltaf talið neyðarúrræði að farga hlut, en ef t.d. um er að ræða ofþroskaða banana, geta bæði magnið og gæðin leitt til þess að eðlilegra teldist að farga þeim en að neyta þeirra.
    Í 2. málsl. kemur fram að gera skal gagnaðila viðvart ef þess er kostur. Á sama hátt og gildir um viðvörun skv. 3. mgr. 76. gr. skal gera gagnaðila viðvart áður en aðili grípur til slíkra ráðstafana sem hér um ræðir. Tilgangur viðvörunar er einnig sá sami, sbr. athugasemdir við 3. mgr. 76. gr.

Um 78. gr.

    Í ákvæðinu kemur fram að samningsaðili, sem annast hefur um söluhlut, skuli reikningsfæra gagnaðila fyrir því sem fékkst fyrir hlutinn við sölu eða með öðrum hætti ásamt því að gera honum reikning fyrir kostnaði sínum. Það sem umfram er fellur til gagnaðila. Ákvæðið er í samræmi við 3. mgr. 88. gr. SÞ-samningsins. Í 34. gr. gildandi laga er því einungis slegið föstu að sala skuli fara fram fyrir reikning gagnaðila. Það leiðir á hinn bóginn til sömu niðurstöðu og regla frumvarpsgreinarinnar.
    Samkvæmt frumvarpsgreininni skal sá aðili, sem annast hefur um söluhlut, reikningsfæra gagnaðila fyrir því sem fékkst fyrir hlutinn við sölu eða með öðrum hætti, ásamt því að gera honum reikning fyrir kostnaði sínum. Það sem fengist hefur „með öðrum hætti“ geta verið tekjur sem fengist hafa við ráðstafanir skv. 77. gr., en það nær einnig til annars arðs sem aðili hefur haft af hlutnum.
    Eins og fyrr segir skal aðili gera gagnaðila reikning fyrir kostnaði sínum. Þetta nær bæði til umönnunarkostnaðar, sbr. 75. gr., og kostnaðar við að selja hlut eða gera aðrar ráðstafanir skv. 76. og 77. gr., t.d. útgjalda í sambandi við auglýsingar, þóknunar til þriðja manns, sem kann að sjá um sölu, flutningskostnaðar til sölustaðar, kostnaðar til hins opinbera o.fl. Ef umönnunaraðili sjálfur stendur fyrir sölu getur hann krafist hæfilegrar þóknunar fyrir þá þjónustu.
    Það sem umfram er kostnað skal falla til gagnaðila. Á hinn bóginn getur umönnunaraðilinn notað það sem umfram er til skuldajafnaðar gegn öðrum kröfum sem hann kann að eiga á hendur gagnaðila. Sem dæmi má nefna kröfu seljanda um kaupverð með vöxtum eða kröfu kaupanda um skaðabætur vegna galla.

Um XII. kafla.

         Í kafla þessum er fjallað um skiptingu arðs og annars afraksturs milli samningsaðila. Ákvæði 79. gr. fjallar um skiptingu afraksturs af söluhlut milli samningsaðila. Í 80. gr. ræðir um skiptingu arðs þegar seldir eru hlutir og í 81. gr. er fjallað um skiptingu arðs þegar seldar eru arðberandi kröfur.

Um 79. gr.

    Frumvarpsgreinin svarar til 18. gr. gildandi kaupalaga, en í SÞ-samningnum er ekkert ákvæði sem fjallar um skiptingu afraksturs af söluhlut ef frá eru talin umönnunartilvikin, sbr. 3. mgr. 88. gr. Því verður að líta á ákvæði þetta sem fyllingu á ákvæðum sáttmálans og verður ákvæðinu því einnig beitt í alþjóðlegum kaupum. Sjá til hliðsjónar ákvæði 1. mgr. 5. gr. og 2. mgr. 88. gr. frumvarps þessa.
    Afrakstur sá, sem frumvarpsgreinin nær til, getur t.d. verið nyt af dýri sem selt hefur verið. Ef kaupsamningur hefur verið gerður um kú fer það eftir ákvæðum frumvarpsgreinarinnar hver á réttinn til mjólkurinnar úr kúnni. Að öðru leyti fjallar ákvæðið t.d. um afrakstur fyrirtækis sem selt er. Eins og í gildandi lögum er fjallað sérstaklega um arð af hlutabréfum og um vexti, sbr. ákvæði 80. og 81. gr. frumvarpsins.
    Samkvæmt 1. málsl. frumvarpsgreinarinnar tilheyrir afrakstur, sem fellur til fyrir umsaminn afhendingartíma, seljanda. Þetta gildir þó ekki hafi verið ástæða til að ætla að hann félli til síðar. Ef afhending dregst hefur það ekki áhrif á skiptingu afraksturs.
    Í 2. málsl. kemur fram að afrakstur, sem fellur til síðar, þ.e. eftir umsaminn afhendingartíma, tilheyri kaupanda, enda hafi ekki verið ástæða til að reikna með að hann félli til fyrr.
    Það sem máli skiptir samkvæmt ákvæðinu er með öðrum orðum það hvenær afrakstur fellur til eða hvenær ætla mátti að það gerðist.
    Í 3. málsl. kemur fram að heimilt er að semja á annan veg og gildir það einnig í neytendakaupum, sbr. og 4. gr. frumvarpsins og athugasemdir við hana. Verður að telja eðlilegt að aðilum sé heimilt að semja um skiptingu afraksturs á þann hátt sem þeir sjálfir telja sér hagkvæmast.

Um 80. gr.

    Frumvarpsgreinin fjallar um skiptingu arðs þegar keypt eru hlutabréf og um skiptingu réttar til áskriftar að nýjum hlutum. Frumvarpsgreinin er í samræmi við 19. gr. gildandi kaupalaga, en þar kemur fram í 1. mgr. að kaupi maður hlutabréf sé í kaupinu sá arður sem ekki var í gjalddaga fallinn þegar kaup gerðust. Í 2. mgr. 19. gr. gildandi laga segir að fylgi hlutabréfinu réttur til að skrifa sig fyrir nýju hlutabréfi eða hlutabréfið fær þann rétt síðar njóti kaupandi þeirra hagsmuna. SÞ-samningurinn tekur ekki til kaupa á hlutabréfum, sbr. d-lið 2. gr., og þar er því ekkert sambærilegt ákvæði.
    Í frumvarpsgreininni er því slegið föstu að kaup á hlutabréfum nái einnig til þess arðs sem ekki var gjaldfallinn fyrir kaupin. Kaupandinn hefur með öðrum orðum rétt til arðs frá fyrra tímamarki en því sem leiðir af ákvæðum 79. gr. frumvarpsins. Ekki skiptir máli í þessu sambandi hvort félag hefur verið búið að ákveða arðgreiðslu ef arður er ekki í gjalddaga fallinn. Í 31. gr. gildandi hlutafélagalaga, sbr. 4. mgr. 19. gr. laga um einkahlutafélög, eru ákvæði um það hvenær hluthafi getur beitt réttindum sínum gagnvart félagi, þar á meðal um greiðslu arðs.
    Af ákvæðum 2. málsl leiðir að hið sama gildir einnig um réttinn til áskriftar að nýjum hlutum, enda hafi ekki verið unnt að nýta réttinn fyrir kaupin. Í þessu felst ákveðin breyting í samanburði við gildandi lög sem lætur réttinn fylgja með þótt unnt hafi verið að nýta hann fyrir kaupin. Í V. kafla hlutafélagalaga, sbr. V. kafla laga um einkahlutafélög, eru ákvæði um það hvenær hluthafar eiga rétt á því að skrá sig fyrir nýjum hlutum og um réttarstöðu þeirra í því sambandi.
    Ef rétturinn til áskriftar er skilinn frá hlutabréfinu og gerður að sjálfstæðu verðbréfi fellur hann utan gildissviðs ákvæðisins. Verður þá að meta það sjálfstætt hverju sinni hver á réttinn til áskriftar.
    Samkvæmt 45. gr. hlutafélagalaga getur hluthafafundur ákveðið útgáfu áskriftarréttinda. Slík áskriftarréttindi falla utan gildissviðs laganna.

Um 81. gr.

     Ákvæði þetta fjallar um skiptingu arðs milli aðila þegar um er að ræða kaup á kröfum sem bera vexti. Ákvæðið svarar til 20. gr. gildandi kaupalaga, en SÞ-samningurinn fjallar á hinn bóginn ekki um kaup af þessu tagi, sbr. d-lið 2. gr. Frumvarpsgreinin á við um allar vaxtaberandi kröfur óháð því hvort þær eru tengdar verðbréfi eða ekki.
    Í fyrri málslið greinarinnar er því slegið föstu að kaup á kröfu sem ber vexti nái til þeirra vaxta sem eru áfallnir en ekki fallnir í gjalddaga á umsömdum afhendingartíma. Tímamark til viðmiðunar er því hið sama og í 79. gr. Vextir af slíkum kröfum falla yfirleitt í gjalddaga með fastákveðnu millibili og því er gjalddagi þeirra yfirleitt ljós.
    Í ákvæðum 2. málsl. felst að kaupandi skal greiða sem viðbót við kaupverðið jafnvirði þeirra vaxta sem eru áfallnir en ekki fallnir í gjalddaga á umsömdum afhendingaratíma. Þetta gildir þó ekki hafi krafan verið seld sem óvís krafa, en að hve miklu leyti það er reyndin fer eftir túlkun samnings.
    Rökin fyrir ákvæðum frumvarpsgreinarinnar eru þau að þegar um slíkar kröfur er að ræða liggur yfirleitt ljóst fyrr á hverjum tíma hversu há fjárhæð er fallin á sem vextir. Rökin fyrir því að ólíkar reglur gilda að því er varðar skiptingu arðs af hlutum, sbr. 80. gr., eru þau að hlutir ganga oft kaupum og sölum áður en unnt er að staðreyna hversu mikinn arð þeir gefa af sér á reikningsárinu.

82. gr.

    Frumvarpsgrein þessi er að flestu leyti í samræmi við 27. gr. SÞ-samningsins og í gildandi lögum er ákvæði um sama efni í 61. gr.
    Hið almenna viðhorf samningaréttarins er að sá aðili, sem sendir tilkynningu, ber áhættuna af því að tilkynningin berist ekki gagnaðila í tíma og í því formi sem hún var send. Í 61. gr. gildandi kaupalaga er byggt á sama viðhorfi, en þar kemur þó fram að móttakandinn beri áhættuna af tilkynningum sem sendar eru í samræmi við nánar tilgreind ákvæði laganna. Í 61. gr. segir að sé slík tilkynning frá kaupanda, sem um getur í 6., 26., 27., 52. og 54. gr. afhent til flutnings með ritsíma eða pósti eða með öðrum þeim flutningstækjum, sem gilt þykir að nota, missir tilkynnandi engan rétt við það að tilkynningunni seinkar eða hún kemur eigi til skila. Skv. 2. mgr. 61. gr. gildir hið sama um tilkynningar frá seljanda, sem um er rætt í 31. og 32. gr. laganna.
    Í 27. gr. SÞ-samningsins felst að sendandi getur almennt borið það fyrir sig að tilkynning hafi verið send þótt hún komi ekki nógu snemma fram eða ekki í réttu formi. Skilyrði er þá að tilkynningin hafi verið send með forsvaranlegum hætti og í samræmi við ákvæði sáttmálans. Frá meginreglu sáttmálans eru þó gerðar undantekningar í einstökum greinum hans, þannig að niðurstaðan verður ekki ólík því sem leiðir af ákvæðum gildandi laga nr. 39/1922.
    Við samningu norrænu kaupalaganna, sem eru fyrirmynd frumvarps þessa, skildi leiðir með Norðmönnum annars vegar og Dönum, Svíum og Finnum hins vegar um það hvernig haga skyldi reglum um áhættuna af sendingu tilkynninga. Niðurstaða Norðmanna var sú að byggja á fyrirmynd SÞ-samningsins sem meginreglu, en hin ríkin fylgdu þeirri reglu sem áður gilti og fram kemur í 61. gr. gildandi laga. Á þau rök Norðmanna má fallast að regla 27. gr. SÞ-samningsins sé eðlileg meginregla í gildum kauparéttarsamböndum, þ.e. að móttakandinn beri áhættuna af því að tilkynningin komi ekki fram nógu snemma og í réttu formi.
    Ákvæðið tekur til „tilkynninga“. Þetta hugtak ber að túlka vítt og í stórum dráttum nær það einnig til fyrirspurna og svipaðra athafna þótt tilkynning sé ekki nefnd þar sérstaklega. Yfirlýsing um riftun skv. 25. gr. er dæmi um þetta.
    Forsenda þess að sendandi geti byggt á því að tilkynning hafi verið send nógu snemma, þótt henni seinki, mistök verði við sendingu eða hún nái ekki til gagnaðila, er samkvæmt frumvarpsgreininni í fyrsta lagi sú að hún hafi verið gefin í samræmi við ákvæði laganna. Í öðru lagi verður hún að hafa verið send á forsvaranlegan hátt miðað við aðstæður allar. Það fer með öðrum orðum eftir aðstæðum í hverju tilviki hvort munnleg tilkynning, t.d. símleiðis, telst nægileg, eða hvort krefjast verður skriflegrar tilkynningar og öfugt hvort skrifleg tilkynning sé nægileg þegar munnleg tilkynning kemst fyrr til skila. Ef deilur verða þarf sendandi að sanna að tilkynning hafi verið send og á forsvaranlegan hátt.
         Samkvæmt ákvæðinu ber móttakandinn áhættuna bæði af seinkun, mistökum við sendingu (t.d. þegar efnið brenglast) og því að tilkynningin kemur alls ekki fram. Þetta er breyting samanborið við reglu 61. gr. gildandi laga, sem einungis nefnir það tilvik þegar tilkynningu seinkar eða hún kemur eigi til skila.
    Með orðalagi 82. gr., „komi ekki annað fram“, er í fyrsta lagi höfðað til tilvika þar sem það leiðir af lagatextanum sjálfum að sendandinn beri áhættuna, t.d. með því að þess er krafist að móttakandinn hafi „fengið“ tilkynningu. Sem dæmi má hér nefna 24. gr., 28. og 2. mgr. 60. gr. Í öðru lagi getur það leitt af sjálfu sambandinu, sem tilkynningin varðar, að það sé sendandinn sem beri áhættuna. Þar má nefna tilkynningar sem gefnar eru í tengslum við gerð eða breytingu samnings, t.d. upplýsingar frá seljanda um fyrirvara skv. 19. gr. og afpöntun kaupanda skv. 2. mgr. 52. gr.
    Ákvæði frumvarpsgreinarinnar munu í framkvæmd ekki hafa í för með sér verulegar breytingar miðað við það sem leiðir af 61. gr. gildandi laga. Þær tilkynningar, sem skv. 61. gr. gildandi laga sendast á áhættu móttakanda, verða áfram hinar sömu samkvæmt frumvarpsgreininni. Undantekningarnar frá meginreglu ákvæðisins munu á hinn bóginn ná til flestra þeirra tilvika þar sem tilkynning samkvæmt gildandi lögum er á áhættu sendanda. En í nokkrum einstökum tilvikum munu hinar ólíku viðmiðanir hafa þýðingu, t.d. að því er varðar tilkynningar skv. 3. mgr. 9. gr.

Um 83. gr.

    Ákvæði þetta fjallar um þau tilvik þegar samningsaðili hefur fleiri en eina atvinnustöð eða enga atvinnustöð. Það svarar til 10. gr. SÞ-samningsins, en í gildandi lögum er ekkert sambærilegt ákvæði þótt líkum reglum sé í raun fylgt í réttarframkvæmdinni. Ákvæði þessa efnis er í 83. gr. norsku kaupalaganna, en ekki í hinum nýju kaupalögum Finna og Svía. Er réttarframkvæmdinni í Svíþjóð og Finnlandi ætlað að meta við hvaða atvinnustöð skuli miða í hverju tilviki. Í 1. mgr. 6. gr. kemur fram sú meginregla að söluhlut skal hafa til reiðu til viðtöku á þeim stað þar sem seljandi hafði atvinnustöð sína þegar kaup voru gerð. Í 48. gr. kemur fram að kaupverðið á að greiða á atvinnustöð seljanda á greiðslutímanum, sbr. 1. og 3. mgr. þess ákvæðis.
    Atvinnustöð aðila getur samkvæmt frumvarpinu haft þýðingu, m.a. þegar úr því skal skera hvort um þjóðleg eða alþjóðleg kaup er að ræða, sbr. 5. og 87. gr. Atvinnustöðin getur einnig haft þýðingu við ákvörðun þess hvar skal afhenda hlut, sbr. 6. gr., og hvar kaupverðið á að greiða, sbr. 48. gr. Þá getur atvinnustöð einnig haft þýðingu í tengslum við 92. gr. og 1. mgr. 96. gr.
    Hugtakið atvinnustöð er ekki skilgreint í ákvæðinu, en þar er fyrst og fremst átt við skipulagðan og viðvarandi atvinnustað þar sem samningar í tengslum við atvinnureksturinn eru að jafnaði gerðir. Því getur ekki hvaða staður sem er fullnægt þessu skilyrði, jafnvel þótt samningar séu gerðir þar. Þannig mundi t.d. hótelherbergi, sem aðili ræður yfir, ekki teljast atvinnustöð án þess að annað og meira komi til og heldur ekki póstfang eitt og sér eða annar skráður staður. Hins vegar má telja útibú og umboðsskrifstofur og aðra slíka staði til atvinnustöðvar í skilningi frumvarpsgreinarinnar.
    Í 1. mgr. er fjallað um tilvik þar sem atvinnustöð skiptir máli og viðkomandi samningsaðili hefur fleiri en eina atvinnustöð. Samkvæmt ákvæðinu skal þá miða við þá atvinnustöð sem hefur sterkust tengsl við kaupin þegar litið er til þeirra atvika sem aðilar gengu út frá þegar kaup voru gerð. Um heildstætt mat er að ræða þar sem máli skipta atvik sem bæði varða gerð og efndir kaupanna. Það hefur t.d. ekki úrslitaþýðingu hvar aðalskrifstofa aðilans er. Matið getur ráðist af því í hvaða sambandi álitaefnið kemur upp. Ekki er sjálfgefið að sömu atriðin skipti máli við mat á atvinnustöð skv. 87. gr. annars vegar og hins vegar skv. 6. gr.
    Í ákvæðinu er ótvírætt tekið fram að líta skuli til þeirra atvika sem aðilar gengu út frá þegar kaup voru gerð. Í þessu felst að ekki skiptir máli þótt atvik breytist síðar, nema því aðeins að aðilar hafi gert ráð fyrir breytingum þegar við samningsgerðina.
    Í 2. mgr. 83. gr. segir að hafi samningsaðili ekki atvinnustöð, sem tengist kaupunum, skuli miða við heimili hans. Ákvæðið höfðar fyrst og fremst til tilviks þar sem aðilinn hefur ekki atvinnu af verslun og viðskiptum. Einnig getur ákvæðið átt við þegar aðili, sem hefur atvinnu af verslun og viðskiptum, kaupir eða selur án þess að viðskiptin hafi tengsl við atvinnurekstur hans. Rétt er að hafa í huga að bæði í 6. og 48. gr. er vísað til ákvæða 83. gr. frumvarpsins.

Um XIV. kafla.

    Í þessum kafla koma fram sameiginleg ákvæði um kröfu á hendur fyrri söluaðila, en sambærileg ákvæði eru ekki í gildandi lögum. Aðalreglan kemur fram í 84. gr., en þar segir að kaupandi geti gert kröfu vegna galla á söluhlut á hendur fyrri söluaðila ef seljandi getur gert sams konar kröfu vegna gallans. Ákvæði 85. gr. fjalla um tilkynningar í þessu sambandi. Þar kemur m.a. fram að kaupandi skuli setja fram kröfu sína á hendur fyrri söluaðila innan hæfilegs frests, en nánari reglur þar að lútandi er að finna í ákvæðinu. Loks eru í 86. gr. reglur um með hvaða skilyrðum fyrri söluaðili beri ábyrgð gagnvart kaupanda á upplýsingum sem hann hefur gefið um vöruna skv. 2. mgr. 18. gr.
    Þegar söluhlutur er gallaður og kaupandi (C) getur komið fram með kröfu af því tilefni, beinir hann kröfu sinni venjulega að þeim sem hann hefur átt viðskipti við (B). Oft er það hins vegar svo að galla er að rekja til atvika við fyrri sölu og er þá æskilegt að ábyrgðin lendi þar sem hún á helst heima. Slíkt getur gerst með þeim hætti að seljandinn (B) bæti kaupandanum (C) tjón hans í fyrstu atrennu en endurkrefji síðan heimildarmann sinn, þ.e. þann sem seldi honum (A). Til sanns vegar má hins vegar færa að í þeim tilvikum þegar seljandinn (B) getur velt tjóninu yfir á aðra sé engin ástæða til þess að meina kaupandanum (C) að beina kröfu sinni beint að heimildarmanni seljandans (A). Heimildarmaður seljanda hefur enga sérstaka hagsmuni af því að standa slíku í vegi og þetta fyrirkomulag tryggir mjög hagsmuni kaupandans. Þessi sjónarmið mæla með því að kaupandi geti beint kröfum sínum að fyrri söluaðila (stundum nefnt „springende regres“ á Norðurlandamálum) eða gengið inn í kröfu seljanda á hendur fyrri söluaðila (á Norðurlandamálum oft nefnt „subrogasjon“). Ákvæði XIV. kafla frumvarpsins koma til móts við framangreind sjónarmið og veita kaupanda rétt til þess að beina kröfu sinni beint að heimildarmanni seljanda.

Um 84. gr.

    Frumvarpsgrein þessi á sér ekki hliðstæðu í gildandi lögum. Hliðstætt ákvæði er hvorki í SÞ-samningnum, danska kaupalagafrumvarpinu, né í sænsku og finnsku lögunum. Frumvarpsgrein þessi, sem og önnur ákvæði XIV. kafla, eiga sér hins vegar fyrirmynd í norsku kaupalögunum frá 1988 og er þeirri fyrirmynd fylgt í frumvarpi þessu. Í íslenskri lagaframkvæmd hefur verið óljóst hvort og að hvaða marki kaupandi getur gert kröfu á hendur fyrri söluaðila og þykir rétt að taka af skarið í þessu efni.
    Frumvarpsgrein þessi fjallar ásamt 85. og 86. gr. um rétt kaupanda til þess að gera gallakröfu á hendur fyrri söluaðila. Í lögfræðiritum og kenningum er oft notað heitið „springende regres“ um þetta tilvik. Um rökin fyrir því að hafa í frumvarpinu ákvæði um kröfur á hendur fyrri söluaðila vísast til þess sem fram kemur í almennum athugasemdum.
    Í 1. mgr. kemur fram meginreglan sem á við um allar tegundir kaupa. Við það er miðað að kaupandinn gangi inn í rétt seljanda og er ekki gerð nein krafa um það að seljandinn framselji kaupanda kröfu sína.
    Ákvæðið veitir kaupanda almenna heimild til að gera kröfu vegna galla á hendur fyrri söluaðila. Þrenns konar skilyrði eru þó sett í þessu efni:
    Í fyrsta lagi er greinin takmörkuð við kröfu vegna galla á söluhlut. Hún á því ekki við í öðrum tilvikum þar sem bótakrafa getur skapast, t.d. þegar um kröfu vegna greiðsludráttar er að ræða. Af ákvæðum 1. og 4. mgr. 41. gr. leiðir hins vegar að ákvæðið nær einnig til krafna sem rekja má til vanheimildar og krafna þriðja manns sem byggjast á hugverka- og auðkennaréttindum.
    Í öðru lagi er skilyrði að annað leiði ekki af samningi í öðrum kaupum en neytendakaupum. Það leiðir út af fyrir sig beint af ákvæðum 3. gr. frumvarpsins að kaupandinn getur gagnvart seljandanum fallið frá rétti sínum til að beina kröfu sinni að fyrri söluaðila, þ.e. seljandinn getur gert slíkan fyrirvara. Fyrirvari um slíka samninga gildir hins vegar ekki í neytendakaupum. Einnig leiðir af ákvæðum 4. gr. að seljandinn getur ekki sett fyrirvara í neytendakaupum sem útilokar rétt kaupanda til þess að koma fram með kröfur á hendur fyrri söluaðila. Af orðalagi 1. mgr. 84. gr., sbr. 4. gr., leiðir að auki að kaupandi í neytendakaupum getur ekki afsalað sér beinum aðgangsrétti á hendur fyrri söluaðila
    Í þriðja lagi er skilyrði að seljandi geti gert sams konar kröfu vegna gallans. Kaupandinn hefur með öðrum orðum ekki, án þess að annað og meira komi til, sams konar kröfu á hendur fyrri söluaðila og á hendur seljandanum. Réttur kaupanda getur því verið minni á hendur fyrri söluaðila en gagnvart seljandanum, t.d. á grundvelli ábyrgðarleysisákvæðis eða söluskilmála við fyrri sölu. Sem dæmi má nefna að hafi fyrri söluaðili selt hlutinn „í því ástandi sem hann er“, sbr. ákvæði 19. gr., gildir það einnig gagnvart kröfu kaupandans þótt slíku samningsákvæði sé ekki til að dreifa í millum seljanda og kaupanda.
    Einungis verður um að ræða kröfu kaupanda á hendur fyrri söluaðila ef seljandinn sjálfur getur gert gallann gildandi gagnvart viðkomandi aðila og réttur kaupanda er ekki sérstaklega útilokaður með samningi við fyrri sölu sem bindur seljandann. En að því er neytanda varðar leiðir það af ákvæðum 4. gr. að hann á sömu kröfu og sá sem seldi honum. Samningar við fyrri sölu binda þess vegna neytandann að því marki sem þeir útiloka sams konar kröfur frá seljandanum.
    Krafa kaupanda á hendur fyrri söluaðila getur einnig náð lengra en krafan á hendur seljandanum. Þetta getur t.d. átt við í því tilviki þegar kaupandinn hefur keypt hlutinn með fyrirvara sem ekki gilti við fyrri sölu. Bifreiðaumboð selur t.d. bíl með venjulegum skilmálum og bíllinn er síðar seldur „í því ástandi sem hann er“ eftir að hafa verið notaður um hríð. Síðasti kaupandinn getur í þessu tilviki gert venjulegar gallakröfur á hendur bifreiðaumboðinu, en ákvæði 19. gr. takmarkar rétt hans gagnvart seljandanum.
    Með orðalaginu „sams konar kröfu“ er bæði verið að vísa til eðlis kröfu og umfangs. Krafa á hendur fyrri söluaðila verður aðeins borin fram að því marki sem fyrri söluaðili ber ábyrgð á galla gagnvart seljanda. Bæði krafa um afslátt og skaðabætur við riftun getur verið hærri í hendi kaupanda en í hendi seljanda. Mismuninn verður kaupandinn í slíkum tilvikum að reyna að fá hjá öðrum söluaðilum, t.d. seljandanum.
    Hvern unnt er að telja fyrri söluaðila verður að meta út frá kaupandanum. Sá sem selt hefur seljandanum hlutinn, eftir atvikum heildsali eða framleiðandi, er því einnig fyrri söluaðili samkvæmt ákvæðinu.
    Í ákvæðinu er ekki tekin bein afstaða til uppgjörs í endurkröfuferlinu milli fyrri söluaðila. En fyrri söluaðili, sem verður ábyrgur gagnvart kaupandanum, getur á sjálfstæðum grundvelli borið ákvæðið fyrir sig gagnvart söluaðila sem er enn framar í söluferlinu.
    Í 2. mgr. er að finna sérreglu sem gildir í neytendakaupum og við sölu milli neytenda. Gildir málsgreinin um slík kaup til viðbótar ákvæðum 1. mgr., sbr. orðalagið „í öllum tilvikum“. Seljandinn getur samkvæmt þessu ekki fellt niður rétt kaupandans til þess að koma fram með kröfu á hendur fyrri söluaðila samkvæmt ákvæðinu. Slíkur réttur verður heldur ekki felldur niður með samningi beint á milli kaupanda og fyrri sölaðila. Um ábyrgðarleysisyfirlýsingu við fyrri sölu fer á hinn bóginn eftir ákvæðum 3. mgr., sbr. umfjöllun hér á eftir. Með sama hætti og á við um 1. mgr. gildir ákvæði þetta einvörðungu um gallakröfur. Það hverjir teljast fyrri söluaðilar fer eftir sömu sjónarmiðum og gilda skv. 1. mgr.
    Í orðalaginu „gallakröfu sína“ felst að krafa kaupanda á hendur fyrri söluaðila er háð því að kaupandi eigi samsvarandi kröfu á hendur seljanda.
    Það er nægjanlegt að samsvarandi gallakrafa verði borin fram af seljanda eða öðrum sem fengið hefur hlutinn framseldan frá fyrri söluaðila. Ef seljandinn A hefur í atvinnustarfsemi sinni selt hlutinn um hendur B og C til neytandans D getur D komið fram með kröfu á hendur A ef annaðhvort B eða C geta komið fram með samsvarandi kröfu. Orðalagið „sams konar krafa“ verður að skilja með sama hætti og í 1. mgr.
    Ákvæði 2. mgr. á því aðeins við að unnt sé að gera kröfu á hendur fyrri söluaðila sem hefur „atvinnu sína af sölunni“. Krafa á hendur neytanda, sem framar stendur í söluferlinu, verður því aðeins byggð á 1. mgr. Í þessu felst að hugsast getur að kaupandinn eigi víðtækari kröfu á hendur söluaðila sem hefur atvinnu sína af slíkri starfsemi og framar stendur í söluferlinu en á hendur neytanda við síðari sölur.
    Samkvæmt síðari málslið 2. mgr. gilda sömu reglur í kaupum innbyrðis milli neytenda og gilda í neytendakaupum. Í þessu kemur fram það meginsjónarmið að neytandi hafi sama rétt til að gera kröfu á hendur fyrri söluaðila hvort sem hluturinn er keyptur af neytanda eða aðila sem hefur atvinnu sína af söluastarfsemi.
    Ákvæði 3. mgr. eiga einungis við um neytendakaup og fjalla um sambandið milli krafna skv. 2. mgr. og samninga við fyrri sölur. Í ákvæðinu felst að kröfu neytandans á hendur fyrri söluaðila verður ekki vikið til hliðar í samningi milli þessa söluaðila og seljandans í ríkara mæli en hægt hefði verið að semja um milli seljandans og kaupanda í neytendakaupum. Kaupandinn öðlast þar með sömu ófrávíkjanlegu gallaheimildirnar á hendur fyrri söluaðila eins og á hendur seljandanum. Samkvæmt þessu verður neytandi t.d. bundinn af samningsákvæði við fyrri sölu um að hlutur sé seldur „í því ástandi sem hann er“, sbr. 19. gr., en ekki t.d. styttri tilkynningarfresti en um ræðir í 32. gr.

Um 85. gr.

    Í 1. mgr. er fjallað um tilkynningar af hálfu kaupanda vegna krafna skv. 1. mgr. 84. gr. Það er að meginstefnu til nægjanlegt að kaupandinn tilkynni kröfu sína gegn fyrri söluaðila innan hæfilegs tíma frá því að honum varð kunnugt um gallann eða mátti vera um hann kunnugt. Kemur hér fram sama regla og um getur í 1. mgr. 32. gr. Byrjar fresturinn yfirleitt að líða þegar kaupandinn hefur veitt hlutnum viðtöku. Hafa verður í huga að þeir tilkynningarfrestir, sem gilda í sambandi seljanda og fyrri söluaðila, setja frestinum ákveðinn ramma, sbr. 2. málsl. 1. mgr. greinarinnar. Samkvæmt því er krafa kaupanda á hendur fyrri söluaðila fallin niður ef seljandinn hefur farið fram úr frestinum skv. 1. mgr. 32. gr. eða tveggja ára frestinum skv. 2. mgr. 32. gr. áður en kaupandi veitir hlut viðtöku.
    Ákvæði 2. mgr. frumvarpsgreinarinnar hefur að geyma sérreglu um kröfur skv. 2. mgr. 84. gr. og gildir það því bara í neytendakaupum og við kaup og sölu milli neytenda. Meginreglan er sú að kaupandinn verður að tilkynna innan þeirra tímamarka, sem um ræðir í 32. gr. Tilkynningu verður að beina að þeim söluaðila sem kröfunni er beint gegn. Upphafstími frestsins skv. 1. mgr. 32. gr. er það tímamark þegar kaupandanum varð kunnugt um eða mátti verða kunnugt um gallann. Frestur skv. 2. og 3. mgr. 32. gr., þ.e. fimm ár í ákveðnum neytendakaupum en tvö ár ella, byrjar að líða þegar kaupandinn hefur veitt hlut viðtöku.
    Í síðari málslið 2. mgr. kemur fram undantekningarregla sem á við í þeim tilvikum þegar notaður hlutur hefur einnig áður verið seldur neytanda. Reglan er í þessum tilvikum sú að frestur skv. 2. mgr. 32. gr. fyrir hvern einstakan söluaðila reiknast frá þeim degi þegar næsti neytandi á undan veitti hlutnum viðtöku.
    Ákvæðið vísar aðeins til tveggja ára frestsins í 2. mgr. 32. gr. en ekki til hins sérstaka fimm ára frests í 3. mgr. 32. gr.
    Í 3. mgr. er gerð krafa um sérstaka tilkynningu gagnvart viðkomandi söluaðila. Ákvæðið á við um öll kaup. Ákvæðið hér veitir kaupandanum umþóttunartíma til að gera það upp við sig hvers hann ætlar að krefjast af fyrri söluaðila. Skiptir ekki máli hvers konar kröfu kaupandinn hyggst setja fram. Hér er ekki um mjög stranga frestreglu að ræða, því að samkvæmt ákvæðinu skal kaupandinn svo fljótt sem tilefni gefst tilkynna fyrri söluaðila hvers hann krefst.

Um 86. gr.

    Ábyrgð þriðja manns fellur almennt utan gildissviðs almennra skaðabótareglna í kaupalögunum. Þrátt fyrir það þykir ástæða til að hafa þar sérstakt ákvæði um ábyrgð aðila, sem komu að málum fyrr í söluferlinu, á upplýsingum sem þeir hafa gefið um söluhlutinn. Ákvæðið gengur ekki lengra en leiða mundi af almennum skaðabótareglum, en rétt þykir að afmarka þessa ábyrgð nánar. Hentugast þykir að hafa slíkt ákvæði með öðrum ákvæðum sem varða kröfur á hendur fyrri söluaðila.
    Í frumvarpsgreininni felst að sá sem búið hefur hlut til eða annar fyrri söluaðili ber ábyrgð á tjóni sem kaupandinn verður fyrir, á grundvelli þeirra upplýsinga sem nefndar eru í 2. mgr. 18. gr. Er hér um að ræða upplýsingar á umbúðum söluhlutar, í auglýsingum eða við aðra markaðssetningu.
    Ef seljandinn er einnig ábyrgur vegna tjónsins skv. 40. gr. geta seljandinn og fyrri söluaðili, sem í hlut á, borið óskipta ábyrgð.

Um XV. kafla.

    Eins og rakið er í almennum athugasemdum hér að framan, var sú stefna mörkuð við samningu frumvarps þessa að ný íslensk kaupalög skyldu einnig gilda um alþjóðleg kaup. Kemur þetta berum orðum fram í 5. gr., sbr. og athugasemdir við þá grein. Um rök fyrir þeirri stefnumörkun vísast til almennra athugasemda hér að framan.
    Skilgreiningu á hugtakinu alþjóðleg kaup er að finna í 87. gr. frumvarpsins, en sú grein svarar til 1. gr. SÞ-samningsins. Í greininni kemur fram að með alþjóðlegum kaupum er átt við kaup milli aðila sem hafi atvinnustöð hver í sínu ríki, enda sé jafnframt fullnægt tilteknum öðrum skilyrðum greinarinnar. Í 1. mgr. 5. gr. frumvarpsins ræðir um gildissvið laganna gagnvart alþjóðlegum kaupum og kemur þar fram að lögin gildi í alþjóðlegum kaupum með þeim sérreglum sem í þeim felast, sbr. einkum ákvæði XV. kafla. Sjá einnig skýringar við 87. gr., 5. gr. og 1. gr.
    Til viðbótar skal þess getið að í einstökum greinum frumvarpsins er að finna sérstakar reglur eða undantekningar að því er varðar alþjóðleg kaup. Á það einkum við um 26. gr., 4. mgr. 27. gr., 2. mgr. 40., 4. mgr. 54., 2. mgr. 66. gr. og 3. mgr. 70. gr. laganna.
    Þótt lagt sé til í frumvarpinu að reglur SÞ-samningsins verði leiddar í íslenskan rétt með aðlögun (transformasjon) er eigi að síður nauðsynlegt að styðjast við sérstakar skilgreiningar og sérreglur hvað alþjóðleg kaup varðar, umfram það sem þegar hefur verið nefnt. Svo að tryggð sé samsvörun frumvarps þessa við texta og framsetningu kaupalaga annarra ríkja á Norðurlöndum er ákvæðum um alþjóðleg kaup í frumvarpinu skipað með sama hætti og gert er í norsku kaupalögunum, þ.e. í sérstakan kafla sem er XV. kafli frumvarpsins.
     Í reglum XV. kafla eru í raun endurteknar í íslenskri þýðingu nokkrar reglur SÞ- samningsins. Má því segja að í raun sé um að ræða beina lögleiðingu ákvæðanna. Á það að hluta til við um ákveðnar grundvallarreglur sáttmálans, einkum ákvæði 88.–94. gr., sem að því er alþjóðleg kaup varðar koma til viðbótar reglum kafla sem á undan koma. Að hluta til eru í kaflanum sérreglur sem víkja frá reglum annarra kafla laganna og á það einkum við um ákvæði 96. og 97. gr. Að öðru leyti er um ýmis ákvæði að ræða sem hafa minni þýðingu. Nokkrar af þeim sérreglum, sem hér koma fram, eru í samræmi við almennar reglur og réttarvitund á þessu sviði, þannig að í framkvæmd gilda að mestu sömu reglur um þjóðleg og norræn kaup, sbr. t.d. ákvæði 89. og 90. gr.
    Vissar reglur SÞ-samningsins er ekki nauðsynlegt að endurtaka í frumvarpinu í heild þar sem reglur þessar má leiða af ýmsum öðrum reglum frumvarpsins. Sem dæmi um slíkar reglur má t.d. nefna ákvæði 4., 5., 28. og 30. gr., 3. mgr. 45. gr., 53. og 59. gr., 3. mgr. 61. gr. og 80. og 83. gr. Þá ber þess og að geta að norrænu þjóðirnar hafa ekki gerast aðilar að II. kafla SÞ-samningsins um samningsgerð og eru reglur hans þar að lútandi því ekki endurteknar í frumvarpi þessu.
    Ef reglur alþjóðlegs einkamálaréttar leiða til þess að beita ber íslenskum lagareglum um álitaefni sem varða alþjóðleg kaup eru það reglur SÞ-samningsins eins og þær eru endursagðar í frumvarpinu sem beita ber. Þetta er afleiðing þess að lagt er til að reglur SÞ- samningsins verði leiddar í íslenskan rétt með aðlögun og gildir þetta hvort heldur sem mál er dæmt af íslenskum eða erlendum dómstól.

Um 87. gr.

    Í frumvarpsgreininni er á einfaldari máta endurtekin regla 1. gr. SÞ-samningsins. Skilgreiningin afmarkar gildissvið sérreglna um alþjóðleg kaup og á það sérstaklega við um XV. kafla, sbr. og 5. gr.
    Til þess að um alþjóðleg kaup geti verið að ræða þurfa aðilar að hafa atvinnustöð hver í sínu ríki. Lögunum verður því ekki, án þess að annað og meira komi til, beitt um réttarsamband tveggja aðila sem búa í sama erlenda ríkinu. Ef þeir hafa samt sem áður samið svo að íslenskum lögum skuli beita um samband þeirra fer það eftir túlkun samnings þeirra og atvikum að öðru leyti hvort það eru reglurnar um þjóðleg eða alþjóðleg kaup sem beita skal.
    Að öðru leyti felst það í ákvæðum greinarinnar að reglum frumvarpsins um alþjóðleg kaup ber að beita þótt einn samningsaðilanna eiga heima í erlendu ríki sem ekki er aðili að SÞ- samningnum. Í því felst að leiði samningur aðila eða reglur alþjóðlegs einkamálaréttar til þess að íslenskum lögum beri að beita um kaup milli aðila hvers í sínu ríki eru það reglur frumvarpsins um alþjóðleg kaup sem beita ber.

Um 88. gr.

    Í 1. mgr. er endursagt efni 1. mgr. 7. gr. SÞ-samningsins. Í alþjóðlegum kaupum skal við túlkun á ákvæðum laganna taka tillit til nauðsynjar á samræmdri beitingu þeirra reglna sem á samningnum byggjast. Í þessu felst m.a. að opinberir textar samningsins hafa þýðingu við túlkun laganna. Einnig verður að taka tillit til útbreiddrar venju eða framkvæmdar sem myndast hefur í aðildarríkjunum við beitingu reglna samningsins. Með þeirri aðferð, sem valin er við að leiða ákvæði samningsins í lög hér á landi, er sérstaklega mikilvægt að taka tillit til nauðsynjar á samræmdri beitingu reglna sáttmálans. Ákvæðið hefur að öðru leyti að geyma tilvísun til alþjóðlegs eðlis reglnanna og þar er lögð áhersla á að höfð sé í huga þörfin fyrir heiðarleika og góða trú í alþjóðlegum viðskiptum.
    Í 2. mgr. er endursagt efni 2. mgr. 7. gr. SÞ-samningsins. Í ákvæðinu felst að leiði hvorki texti SÞ-samningsins né heldur grundvallarsjónarmið þau sem að baki honum búa til ákveðinnar niðurstöðu ber að leysa álitaefnið í samræmi við þau landslög sem beita ber samkvæmt reglum alþjóðlegs einkamálaréttar.
    Í 3. mgr. er að finna tilvísun til ákvæða 28. gr. SÞ-samningsins þess efnis að úr kröfu um beinar efndir („specific performance“) skuli ávallt leysa samkvæmt lögum dómstólslandsins. Segir í 3. mgr. að um kröfu um beinar efndir, sem ákvarða skuli hér á landi eða á grundvelli íslenskra réttarreglna, gildi ávallt ákvæði laganna, sbr. 28. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna.
    Ákvæði 28. gr. SÞ-samningsins má skilja á þann veg að um réttinn til að krefjast efnda in natura skuli fara eftir þjóðlegum reglum. Dómstól er því í alþjóðlegum kaupum ekki heimilt að veita dóm um efndir in natura í víðtækara mæli en heimilt er samkvæmt þjóðlegum reglum. Er þetta lagt til grundvallar við framsetningu þessa ákvæðis.
    Meginsjónarmið frumvarpsins er það að unnt er að krefjast efnda in natura, en á þeim rétti eru eigi að síður nokkrar takmarkanir. Sjá einkum ákvæði 22., 23., 30., 34. og 51. gr., 1. mgr. 52. gr. og einnig 53. gr.
    Regla 3. mgr. frumvarpsgreinarinnar hefur fyrst og fremst þýðingu að því er varðar réttinn til að krefjast afhendingar, sbr. 22. og 23. gr.; úrbóta, sbr. 34. gr.; greiðslu kaupverðsins, sbr. 1. mgr. 51. og 1. mgr. 52. gr. Einnig að því er varðar skyldu kaupanda til að stuðla að efndum, sbr. ákvæði 53. gr. frumvarpsins.
    Það sjónarmið býr m.a. að baki ákvæði 3. mgr. að oft getur verið sanngjarnt og jafnvel nauðsynlegt að hafna kröfu um efndir in natura. Á það sérstaklega við þegar slíkri kröfu verður annaðhvort ekki við komið eða hún mundi hafa í för með sér óhæfilegan kostnað eða vandkvæði. Sjá áður tilvitnuð ákvæði frumvarpsins um efndir in natura, einkum ákvæði 23. gr.

Um 89. gr.

    Í frumvarpsgrein þessari er endursögð regla 8. gr. SÞ-samningsins. Í norrænum samninga- og kauparétti er ekki almenn regla um túlkun samninga. Segja má að í síðari tíma fræðiskoðunum sé lagt til grundvallar hlutlægt túlkunarsjónarmið þar sem markmiðið er að ná fram því sem hlutlægt séð er í samræmi við sanngjarnan og skynsamlegan tilgang samningsákvæðis. Er þá tekið tillit til allra atvika sem í umræddu samningssambandi geta verið til upplýsingar um skilninginn og aðgengileg eru fyrir aðila. Þótt ávallt megi gera ráð fyrir minni háttar frávikum þegar orðað er túlkunarsjónarmið eins og það sem hér var nefnt má ganga út frá því að túlkunarregla SÞ-samningsins muni í framkvæmd ekki leiða til annarrar niðurstöðu en þeirrar sem hér var nefnd og einkennandi er fyrir norrænan rétt.

Um 90. gr.

    Í greininni er í aðalatriðum endursagt efni 2. mgr. 9. gr. SÞ-samningsins.
    Regla 6. gr. SÞ-samningsins veitir aðilum heimild til þess að semja svo um sín í milli að vikið skuli frá ákvæðum SÞ-samningsins. Í ákvæðum 1. mgr. 9. gr. SÞ-samningins felst á hinn bóginn að reglur samningsins víkja fyrir viðteknum verslunarvenjum. Í 2. mgr. 9. gr. eru afmörkuð nánar þau skilyrði sem fullnægja þarf svo að aðilar teljist bundnir af viðskiptavenju.
    Ákvæði 3. gr. frumvarpsins svara til 6. og. 1. mgr. 9. gr. SÞ-samningsins. Á hinn bóginn þykir ekki nauðsynlegt að endursegja ákvæði 2. mgr. 9. gr. SÞ-samningsins í 3. gr. frumvarpsins, þar sem sömu niðurstöðu mundi í öllum tilvikum leiða af almennum lagasjónarmiðum.
    Það álitaefni hvort viðskiptavenja sé að öðru leyti gild og bindandi fer hvorki eftir reglum frumvarpsins né SÞ-samningnum, sbr. 4. gr. a. Sama á við um gildi annarrar venju. Úr þessum álitaefnum verður því að leysa á grundvelli annarra reglna, m.a. 36. gr. samningalaganna. Að öðru leyti vísast til athugasemda við 3. gr.

Um 91. gr.

    Í 1. mgr. greinarinnar felst efni 11. gr. SÞ-samningsins en efni 29. gr. í 2. og 3. mgr.
    Ákvæði 1. og 2. mgr. verður að telja í samræmi við gildandi íslenskan rétt, en hins vegar þykir ekki ástæða til að láta reglu 3. mgr. gilda í þjóðlegum og norrænum kaupum.

Um 92. gr.

    Í greininni felst meginefni 12. gr. SÞ-samningsins. Í nokkrum ríkjum Austur-Evrópu er þess krafist að samningar séu skriflegir og á það einnig við um nokkur lönd sem byggja löggjöf sína á „common law“. Í ákvæðinu kemur fram að regla í landsrétti um skriflega samninga nægir ein og sér ekki til þess að koma í veg fyrir beitingu 91. gr. frumvarpsins. Viðkomandi ríki verður að auki að hafa gert fyrirvara í samræmi við 96. gr. sáttmálans. Í tilvísunin til 91. gr. felst að ekki er unnt að semja sig undan ákvæðum greinarinnar.

Um 93. gr.

    Greinin samsvarar 13. gr. SÞ-samningsins. Í þeim samningi er reglan orðuð sem nánari útfærsla á því að símskeyti og telexskeyti falli undir hugtakið skriflegur. Símbréf og aðrar rafrænar sendingar manna á milli falla hér einnig undir ef unnt er að sannreyna falsleysi yfirlýsingar og staðfesta það.

Um 94. gr.

    Greinin samsvarar 25. gr. SÞ-samningsins. Hvorki er skilgreint í núgildandi kaupalögum né í frumvarpi þessu hvað þurfi til að koma svo að vanefndir teljist verulegar eða óverulegar, sbr. í þessu sambandi 25. og 26. gr., 2. mgr. 34. gr., 39., 54. og 55. gr. og 1. mgr. 61. gr. frumvarpsins. Þótt skiptar skoðanir kunni að vera um orðalag 25. og 94. gr. frumvarpsins verður að líta svo á að ekki sé stefnt að neinni efnisbreytingu að þessu leyti miðað við gildandi löggjöf.
    Eðlilegt er að líta svo á að unnt sé að nota skilgreiningu þá sem fram kemur í ákvæðinu með lögjöfnuði í þjóðlegum og í norrænum kaupum.
    Í gildandi rétti hefur verið ákveðin tilhneiging til að virða aðstæður í heild sinni þegar tekin er afstaða til þess hvort riftunarheimild sé fyrir hendi eða ekki, þ.e. hvort vanefndirnar sem slíkar gefi réttmæta ástæðu til riftunar. Umfang og eðli vanefndar er þá m.a. metið með hliðsjón af öðrum þáttum, t.d. með hliðsjón af afleiðingum sem riftun hefur fyrir aðila, sök sem liggur að baki vanefndum, tilkynningum sem gengið hafa á milli aðila, valkosti sem kann að felast í öðrum vanefndaúrræðum, t.d. afslætti eða úrbótum, tíma sem kann að hafa liðið og loks erfiðleikum sem kunna að vera á því að gera upp kaupin endanlega.

Um 95. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 34. gr. SÞ-samningsins. Skylda til að afhenda skjöl sem varða söluhlut verður reist á samningi, verslunarvenju eða annarri venju. Í slíkum tilvikum er afhendingin hluti af samningsskyldum seljanda. Regla 1. málsl. leiðir af eðli máls og hefur hún því ekki verið orðuð sérstaklega í fyrri köflum. Að öðru leyti munu ákvæði 36. og 40. gr., sbr. 2. mgr. 30. gr., leiða til sömu niðurstöðu og ákvæðin í 2. og 3. málsl. greinarinnar.

Um 96. gr.

    Greinin er í samræmi 42. gr. SÞ-samningsins sem kveður á um það í alþjóðlegum kaupum við hvaða aðstæður krafa þriðja manns, sem reist er á hugverkarétti, teljist takmörkun sem feli í sér vanefndir. Gera má ráð fyrir að hugverkaréttindi þriðja manns í alþjóðlegum kaupum séu aðeins í undantekningartilvikum því til fyrirstöðu að kaupandi geti ráðstafað hlut með venjulegum og fyrirhuguðum hætti. En komi það fyrir er um eins konar vanheimild að ræða sem byggist á kröfu þriðja manns vegna hugverkaréttar.
    Ákvæði 42. gr. SÞ-samningsins tekur til sérstakra álitamála í alþjóðlegum kaupum. Af þessum sökum var ekki talið eðlilegt að taka ákvæðið inn í almennu reglurnar í V. kafla, en skipa þeim þess í stað í XV. kafla, þar sem eru sérreglur um alþjóðleg kaup. Það kemur hins vegar greinilega fram í 4. mgr. 41. gr. að kaupandi getur að nánari skilyrðum fullnægðum gert kröfu sem reist er á því að hugverkaréttur hvílir á söluhlut, en gildissvið hennar er þó ekki sama og 96. gr.
    Samkvæmt 1. mgr. er það í fyrsta lagi skilyrði fyrir beitingu ákvæðisins að seljandi hafi verið í vondri trú á samningstímanum um réttindi þriðja manns. Í öðru lagi er það skilyrði að krafa um hugverkaréttindi eigi stoð í þeim lögum sem gerð er grein fyrir í a- eða b-liðum og að henni megi beita gagnvart kaupanda samkvæmt þeim. Í þriðja lagi gilda skyldur seljanda ekki skv. a-lið 2. mgr. hafi kaupandi vitað eða mátt vita um réttinn eða kröfuna og í fjórða og síðasta lagi verður seljandi ekki ábyrgur ef hann hefur fylgt þeim auðkennum sem kaupandi hefur lagt til.
    Gert er ráð fyrir því að unnt sé að beita 96. gr. með lögjöfnuði að því er þjóðleg og norræn kaup varðar.
    Í ákvæðinu kemur fram, eins og áður segir, skylda seljanda til að á afhenda söluhlut án takmarkana sem rekja má til hugverkaréttinda þriðja manns. Hins vegar hefur ákvæðið ekki að geyma fyrirmæli um áhrif þess að hlutur er afhentur andstætt þeirri skyldu. Ákvæði 4. mgr. 41. gr. um áhrif slíkra vanefnda eiga hins vegar beint við í alþjóðlegum kaupum, sbr. þó 97. gr.

Um 97. gr.

    Ákvæði 1. mgr. endurspegla 40. gr. SÞ-samningsins. Af 33. gr. frumvarpsins leiðir að kaupandi getur borið fyrir sig galla óháð ákvæðum 31. eða 32. gr. ef seljandi hefur sýnt af sér vítavert gáleysi eða framferði hans er á annan hátt ekki í samræmi við heiðarleika og góða trú. Sennilegt er að ákvæði 1. mgr. 97. gr. leiði til sömu niðurstöðu og ætti því að vera óþarft. Engu að síður kann að vera að hugtökin „heiðarleiki“ og „góð trú“ séu túlkuð nokkuð mismunandi í alþjóðlegum kaupum. Af þeim sökum er hér miðað við að seljandi hafi vitað eða mátt vita um þau atvik, sem gallann varða.
    Ákvæði 2. mgr. svarar til 2. mgr. 43. gr. SÞ-samningsins og mælir fyrir um sömu reglu og kemur fram í 1. mgr. um galla að því er tekur til vanheimildar eða annarra krafna þriðja manns skv. 41. eða 96. gr. Þó kemur fram sá munur hér að seljandi getur borið fyrir sig að kaupandi hafi vanrækt rannsókn eða tilkynningar, jafnvel þótt hann hafi „mátt vita“ um réttinn eða kröfuna ef hann vissi ekki um þessi atriði í raun og veru. Í framkvæmd er þó líklegt að ekki verði gerðar strangar sönnunarkröfur um vitneskju seljanda, þannig að munurinn þar á milli er ekki eins mikill og ætla má í fljótu bragði. Í 2. málsl. 2. mgr. er ákvæði síðustu málsgreinar 1. mgr. 41. gr. SÞ-samningsins í raun tekið upp. Þetta er gert til að taka af tvímæli í ljósi þess að í 1. málsl. 2. mgr. er vísað í 1. mgr. 97. gr., en þar er miðað við tveggja ára frest til tilkynninga.
    Ákvæði 3. mgr. endurspeglar ákvæði 44. gr. SÞ-samningsins. Í ákvæðinu felst að kaupandi heldur rétti sínum vegna vanefnda gagnaðila þó að hann hafi vanrækt að senda tilkynningar skv. 1. mgr. 32. gr. ef hann hafði sanngjarna ástæðu til að láta hjá líða að senda slíka tilkynningu. Sjá hér athugasemdir við 44. og 39. gr. Litið er svo á að ákvæði þetta gildi ekki í þjóðlegum og norrænum kaupum.

Um 98. gr.

    Greinin er í samræmi við 52. gr. SÞ-samningsins og hefur að geyma efni sem leiðir af eðli málsins. Af þeim sökum hefur ekki þótt ástæða til að hafa sambærilegt ákvæði í almennum ákvæðum fyrri kafla frumvarpsins. Tilgangurinn með ákvæðinu í þessum kafla er að gera ljóst að um þetta atriði gilda sömu reglur og samkvæmt SÞ-samningnum.
    Ákvæði 1. mgr. gildir þegar söluhlutur er afhentur of snemma. Fyrir skýrleika sakir er vísað til umönnunarskyldu. Ákvæði 1. mgr. 52. gr. SÞ-samningsins kveður ekki skýrt á um þetta atriði, en 73. gr. gerir hins vegar ráð fyrir umönnunarskyldu.
    Ákvæði 2. mgr. á við þegar afhent er meira magn en um var samið. Getur kaupandi þá samþykkt sendinguna eða hafnað því sem umfram er. Samþykki kaupandinn það magn, sem umfram er hið umsamda, skal kaupverð umframmagnsins reiknað hlutfallslega á grundvelli þess verðs sem leiðir af samningnum.

Um XVI. kafla.

    Í kaflanum er aðeins ein grein, þ.e. 99. gr. Þar er m.a. kveðið á um að lögin öðlist gildi 1. janúar árið 2000. Ætla má að nokkurn tíma geti tekið að undirbúa gildistöku nýrra laga, eftir að þau hafa verið samþykkt og tekur þessi dagsetning mið af því. Til grundvallar er lagt að lögin taki aðeins til þeirra samninga sem gerðir verða eftir gildistöku þeirra.

Um 99. gr.

    Frumvarpsgreinin er í samræmi við 99. og 100. gr. SÞ-samningsins. Ákvæði 1. og 2. mgr. skýra sig sjálf.
    Eðlilegast þykir að miða við samningsgerðina sjálfa þegar ákveðið er hvort tiltekin samningur skuli falla undir gildissvið núgildandi laga eða ákvæði nýrra laga. Skv. 3. mgr. tekur frumvarpið því, ef að lögum verður, einungis til þeirra samninga sem gerðir verða eftir 1. janúar árið 2000.



Fylgiskjal I.


Lög um lausafjárkaup, nr. 39 19. júní 1922.



Almenn ákvæði.


1. gr.

    Ákvæðum laga þessara skal þá aðeins beita, er ekkert annað er um samið berum orðum eða verður álitið fólgið í samningi eða leiðir af verslunartísku eða annarri venju.
    Lög þessi gilda ekki um fasteignakaup.

2. gr.

    Nú eru hlutir pantaðir, þeir er búa þarf til, og á sá að leggja efnið til, sem hlutinn býr til, þá skal pöntunin talin kaup. Þó gilda lög þessi ekki um húsgerð og önnur mannvirki á fasteign.
    Ákvæði laga þessara um kaup gilda einnig eftir því sem við á, um skipti.

3. gr.

    Þegar í lögum þessum er talað um kaup á hlutum, sem tilteknir eru eftir tegund, þá er ekki aðeins átt við kaup á tiltekinni mergð, þyngd eða stærð hluta af tilgreindri tegund, heldur og við kaup á tiltekinni mergð, þyngd eða stærð úr ákveðnum hóp eða magni hluta.

4. gr.

    Þá er talað er í lögum þessum um verslunarkaup, er átt við kaup, sem gerast milli kaupmanna í verslunarrekstri þeirra eða í þágu hans.
    Kaupmaður er í lögum þessum hver sá talinn, sem rekur það starf að selja vörur, sem hann hefir í því skyni keypt, er rekur víxlarastarf eða bankastarf, vátryggingarstarf, umboðsverslun eða forlagsverslun, lyfsölu, veitingar, handiðn, verksmiðjuiðnað eða námugröft, mannvirkjagerð eða flutning fólks, muna eða orðsendinga. Þó er sá maður ekki talinn kaupmaður, er rekur veitingar, handiðn eða flutninga, svo framarlega sem eigi vinna aðrir að því starfi með honum en konan með manni sínum, maðurinn með konu sinni, börn hans innan 16 ára aldurs og vinnuhjú hans.

Um ákvæði kaupverðs.


5. gr.

    Nú eru kaup gerð, en ekkert fastákveðið um hæð kaupverðsins, og ber þá kaupanda að greiða það verð, sem seljandi heimtar, ef eigi verður að telja það ósanngjarnt.

6. gr.

    Nú er í verslunarkaupum reikningur sendur kaupanda og hann mótmælir ekki verði því, sem tilgreint er í reikningnum, svo fljótt sem hann fær því við komið, og er hann þá skyldur að gjalda það verð, sem í reikningnum stendur, nema sannað verði, að um annað lægra verð hafi verið samið, eða reikningurinn er bersýnilega ósanngjarn.

7. gr.

    Nú á að reikna kaupverð eftir tölu, máli eða þyngd, og skal þá leggja til grundvallar þá tölu, mál eða þyngd, sem varningurinn hafði á þeirri stundu, er hættan við að varan farist, flyst yfir á kaupanda.

8. gr.

    Ef kaupverð er miðað við þunga vöru, skal svo meta sem umbúðir beri frá að draga.

Um staðinn, þar sem skila ber seldum hlut (afhendingarstaðinn).


9. gr.

    Seljandinn á að skila af sér seldum hlut á þeim stað, þar sem hann átti heima þegar kaupin gerðust. Ef hann rak þá atvinnu og salan stóð í sambandi við hana, þá á hann að skila hlutnum af sér á atvinnustöð sinni.
    Ef hluturinn var á öðrum stað á þeim tíma, er kaupin gerðust og vissu báðir samningsaðiljar um það, eða áttu að vita, þá skal svo álíta, að hlutnum eigi þar að skila, sem hann þá var.

10. gr.

    Ef seljandi á að senda seldan hlut frá einum stað til annars, til að skila honum þar í hendur kaupanda, þá er svo álitið, að hann hafi skilað hlutnum, þá er hann hefir afhent hann í hendur flutningsmanns þess, er tekist hefir á hendur að flytja hlutinn þaðan, sem hann tekur við honum. Eigi að senda hlutinn á skipi, þá skal telja honum skilað, er hann er kominn á skipsfjöl.

11. gr.

    Nú eiga seljandi og kaupandi báðir heima í sama bæ, kauptúni eða þorpi, og á seljandi að sjá um sendingu selds hlutar til kaupanda, og skal þá hlutnum eigi talið skilað fyrr en hann er kominn í vörslur kaupanda.

Um eindaga samninga.


12. gr.

    Ef ekkert hefir verið ákveðið um það, hvenær kaupverð skuli greitt eða seldum hlut skilað, og atvik liggja eigi svo til, að af þeim megi ráða, að þetta skuli gera svo fljótt sem unnt er, skal líta svo á, að kaupverðið beri að greiða og hlut að afhenda, hvenær sem krafist er.

13. gr.

    Nú er frestur ákveðinn fyrir því, hvenær seldum hlut skuli skila, og er þá seljanda rétt að skila hlutnum á hverjum þeim tíma, er hann kýs innan þess frests, nema atvik liggi svo til, að af þeim sjáist, að tímafresturinn var tiltekinn kaupanda í hag.

Um rétt til að krefjast, að hönd selji hendi á báðar hliðar.


14. gr.

    Ef enginn frestur hefir veittur verið af hendi hvorugs aðilja, þá er seljandi ekki skyldur að láta af hendi seldan hlut, nema kaupverðið sé samtímis greitt, enda er kaupandi ekki skyldur að greiða kaupverðið nema hann fái samstundis hlutinn til umráða.

15. gr.

    Nú hefir svo verið um samið, að hlutinn skuli senda frá afhendingarstað, og heimila þá ummæli næstu greinar hér á undan seljanda ekki að láta vera að senda hlutinn, en varna má hann því, að kaupandi fái hlutinn í sínar vörslur meðan kaupverðið er ógreitt.

16. gr.

    Nú er um verslunarkaup að tefla, og er við sendingu hlutarins frá afhendingarstað til ákvörðunarstaðar notað farmskírteini eða farmbréf, er svo er lagað, að seljandi missi umráð yfir hlutnum þá er farmskírteinið eða farmbréfið er afhent kaupanda, og skal þá kaupverðið greitt um leið og farmskírteinið eða farmbréfið er afhent, samkvæmt reglum þeim, er settar eru í 71. gr. hér á eftir.

Um ábyrgð á hættu fyrir seldan hlut.


17. gr.

    Hættan á því, að seldur hlutur farist af tilviljun, skemmist eða rýrni, er á ábyrgð seljanda, þar til hann hefir skilað hlutnum af sér eða afhent hann (sbr. 9.–11. gr.)
    Ef það er ákveðinn hlutur, sem seldur var, og kaupandi átti að sækja hann, enda kominn sá tími, er sækja mátti hlutinn, og hann er á reiðum höndum, þá ber kaupandi ábyrgð á hættunni og verður því að gjalda kaupverðið, þó að svo atvikist, að hluturinn farist eða skemmist af hendingu.

Um arð af seldum hlut.


18. gr.

    Nú ber seldur hlutur arð áður en afhendingartími er kominn, og á þá seljandi þann ágóða, nema ástæða hafi verið til að ætla, að sá ágóði mundi ekki falla til fyrr en síðar.
    Þann ágóða, sem af seldum hlut fæst eftir að afhendingartími er kominn, eignast kaupandi, nema ástæða hafi verið að ætla, að sá ágóði mundi fyrri til falla.

19. gr.

    Ef maður kaupir hlutabréf, þá er í kaupinu sá arður, sem ekki var í gjalddaga fallinn, þegar kaup gerðust.
    Nú fylgir hlutabréfinu réttur til að skrifa sig fyrir nýju hlutabréfi, eða hlutabréfið fær þann rétt síðar, þá nýtur kaupandi þeirra hagsmuna.

20. gr.

    Ef maður kaupir skriflega skuldakröfu, sem ber vöxtu, þá eru í kaupinu vextir þeir, sem á voru fallnir, en ekki komnir í gjalddaga, þá er kaup gerðust, eða á afhendingardegi, ef afhending á síðar að fara fram en kaup. Ef það sést ekki af atvikum, að krafa hafi verið seld sem óvís krafa, þá á kaupandi að greiða umfram kaupverðið og samtímis því svo mikið fé, sem vöxtunum svarar.

Um drátt af hendi seljanda.


21. gr.

    Nú afhendir seljandi ekki seldan hlut á réttum tíma, enda sé þetta ekki kaupanda að kenna eða neinum ósjálfráðum atburði, sem kaupandi ber ábyrgð af hættunni við, og á þá kaupandi kost að kjósa, hvort hann vill heldur heimta hlutinn eða rifta kaupið.
    Hafi drátturinn haft lítil áhrif eða óveruleg á hagsmuni kaupanda eða seljandi hlaut að álíta að svo væri, þá getur kaupandi ekki rift kaupið, nema hann hafi áskilið sér, að hluturinn yrði afhentur sér á nákvæmlega tilteknum tíma.
    Í verslunarkaupum er sérhver dráttur metinn verulegur, nema það sé aðeins lítill hluti hins selda, sem afhending hefir dregist á.

22. gr.

    Nú er svo um samið, að seljandi skuli afhenda smátt og smátt, og ber svo til, að ein sérstök afhending dregst, þá á kaupandi samkvæmt næstu grein á undan aðeins rétt á að rifta kaupin að því er til þeirrar afhendingar kemur. Þó getur hann einnig rift kaup, að því er til síðari afhendinga kemur, ef vænta má, að drætti á afhendingum muni halda áfram, og hann getur jafnvel rift allt kaupið í heild sinni, ef það samband er í milli afhendinganna, að það veiti tilefni til þess.

23. gr.

    Nú er kaup gert um ákveðinn hlut, en hann ekki afhentur á áskildum tíma, og á þá seljandi að svara skaðabótum, nema það sannist, að drátturinn var ekki honum að kenna.

24. gr.

    Ef um þá hluti er að tefla, sem tilteknir eru eftir tegund, þá er seljandi skyldur að svara skaðabótum, enda þótt drátturinn sé ekki honum að kenna, nema hann hafi áskilið sér að vera undan þessari skyldu þeginn, eða telja verður að atvik, sem ekki voru þess eðlis, að seljandi hefði átt að hafa þau í huga, er kaupin gerðust, hafi valdið því, að honum var alls eigi auðið að efna það, sem hann hafði um samið, og má til slíkra atvika telja það, er svo ber undir, að allir hlutir af hinni tilteknu tegund eða þeim vöruhóp, er kaup er um gert, hafa af óviðráðanlegum orsökum farist; svo er og ef styrjöld tekur fyrir efndir, eða aðflutningsbann eða því um líkt.

25. gr.

    Nú hefir kaup verið rift og svara ber skaðabótum samkvæmt 23. eða 24. gr., og skulu þá skaðabæturnar nema því, sem verð hluta af sömu tegund og gæðum sem hinir seldu hlutir er hærra, þá er afhending átti fram að fara, heldur en kaupverðinu nemur, nema sannað sé, að meira tjón eða minna hafi af hlotist.

26. gr.

    Nú er afhendingarfrestur út runninn, en hinn seldi hlutur hefir eigi verið afhentur, og verður kaupandi þá, ef hann vill halda fast á kaupinu og eigi rifta það, að svara án ástæðulausrar tafar fyrirspurn um þetta frá seljanda. Geri hann það ekki, missir hann rétt sinn til að heimta hlutinn sér afhentan. Sama er og í verslunarkaupum, þótt hann hafi enga fyrirspurn fengið, ef hann skýrir ekki frá því innan sennilegs tíma, að hann æski að kaupið haldist.

27. gr.

    Nú hefir seldur hlutur verið afhentur eftir að afhendingarfrestur var liðinn, og verður kaupandi þess vís, þá er hluturinn kemur honum í hendur, eða af því að seljandi skýrir honum frá því, að hluturinn hefir verið afhentur síðar en um var samið, og verður hann þá að skýra seljanda frá því þegar í stað, ef um verslunarkaup er að tefla, en ella án óþarfrar tafar, að hann ætli sér að neyta réttar síns út af drættinum. Geri hann það ekki, missir hann rétt sinn til að bera fyrir sig dráttinn. Ætli kaupandi sér að neyta réttar síns til að rifta kaupið, þá verður hann að skýra seljanda frá því án óþarfrar tafar, ella missir hann þann rétt sinn.

Um drátt af kaupanda hendi.


28. gr.

    Ef kaupverð er ekki greitt í ákveðna tíð, eða kaupandi gerir ekki í tæka tíð þá ráðstöfun, sem greiðsla kaupverðsins er undir komin, þá má seljandi gera hvort er hann vill, halda upp á hann kaupinu eða rifta það. Sé drátturinn óverulegur, verður kaupið þó ekki rift. Í verslunarkaupum er sérhver dráttur talinn verulegur.
    Nú er það, sem selt var, þegar komið í vörslur kaupanda, og getur seljandi þá ekki rift kaupið, nema annaðhvort sé, að álíta verður, að hann hafi áskilið sér þennan rétt, eða þá kaupandi neitar að taka við hlutnum.

29. gr.

    Sé svo um samið, að seljandi afhendi smátt og smátt, og andvirði skuli greitt við hverja afhendingu, en svo verður dráttur á greiðslu andvirðis, sá, er meta má verulegan eftir fyrri málsgrein 28. gr., þá á seljandi rétt á að rifta kaupin á öllu því, er síðar skyldi afhent, nema engin ástæða sé til að óttast, að dráttur muni aftur að höndum bera. Þetta á sér stað, þó að seljandi geti ekki samkvæmt síðari hluta 28. gr., rift kaupið er kemur til þeirrar sendingar, sem andvirði dróst fyrir.

30. gr.

    Nú riftir seljandi kaup samkvæmt því, sem fyrir er mælt í 28. eða 29. gr., og á hann þá rétt til skaðabóta samkvæmt reglunum í 24. gr. Bæturnar skal svo meta að þær svari mismuninum á því, hve miklu kaupverðið er hærra heldur en verð hins selda á þeim tíma, er drátturinn varð, nema sannað verði, að seljandi hafi meira tjón eða minna af hlotið.

31. gr.

    Nú er kaupverð ekki greitt, þó að eindagi sé liðinn, eða kaupandi hefir látið hjá líða að gera slíka ráðstöfun, sem um er getið í 28. gr., en hinn seldi hlutur er enn ekki afhentur kaupanda, þá verður seljandi, ef hann vill halda kaupinu upp á kaupanda, að svara án ástæðulausrar tafar fyrirspurn frá kaupanda um þetta. Sé um verslunarkaup að ræða, skal seljandi, ef hann vill halda kaupinu upp á kaupanda, tilkynna honum það innan hæfilegs tíma, enda þótt kaupandi hafi enga fyrirspurn gert um það.

32. gr.

    Nú er kaupverðið greitt of seint eða ráðstöfun sú, sem um er getið í 28. gr., gerð of seint, og verður seljandi þá, ef hann vill rifta kaupið af þeirri ástæðu, að skýra kaupanda frá því þegar í stað, ef um verslunarkaup er að tefla, en annars án óþarfs dráttar. Geri hann það ekki, missir hann rétt sinn til að rifta kaupin.

33. gr.

    Nú lætur kaupandi hjá líða að vitja hins keypta hlutar eða veita honum viðtöku á réttum tíma, eða hann er þess valdandi á annan hátt, að hluturinn er ekki afhentur í hans hendur í ákveðna tíð, og skal þá seljandi annast hlutinn á kaupanda kostnað þar til er drætti þessum lýkur, eða seljandi neytir þess réttar, sem 28. gr. kann að veita honum til að rifta kaupið. Nú er hluturinn sendur og kominn á viðtökustað, og eiga þá fyrirmæli þessi því aðeins við, að þar sé einhver, sem fyrir seljanda hönd getur tekið hlutinn til varðveislu, enda valdi það seljanda eigi verulegum kostnaði eða óþægindum.

34. gr.

    Geti seljandi ekki haldið áfram að annast hlutinn, án verulegs kostnaðar eða óþæginda, eða ráðstafi kaupandi honum ekki innan sennilegs tíma eftir að hann hefir fengið áskorun um það, þá er seljanda rétt að selja hlutinn fyrir kaupanda reikning; en gera skal hann kaupanda viðvart áður í tæka tíð, ef auðið er. Ef hluturinn er seldur á uppboði, sem auglýst er og haldið á viðunanlegan hátt, þá getur kaupandi ekki mótmælt því verði, sem við söluna fæst. Ef eigi er auðið að selja hlutinn, eða það er sýnilegt, að söluverðið muni eigi hrökkva fyrir sölukostnaði, þá er seljanda rétt að flytja hlutinn burt, ef hann vill.

35. gr.

    Nú er hlutnum hætt við bráðum skemmdum eða geymsla hans hefir í för með sér ýkjumikinn kostnað tiltölulega, og er þá seljanda skylt að selja hann, þó með þeirri takmörkun, sem leiðir af niðurlagi 34. gr.

36. gr.

    Nú hefir dráttur af kaupanda hálfu valdið seljanda útgjöldum til varðveislu hlutarins eða öðrum auknum kostnaði, og á seljandi þá rétt á skaðabótum, og getur hann haldið hlutnum til tryggingar fyrir þeim.

37. gr.

    Ef seldur hlutur er í ábyrgð seljanda, en kaupandi hefir gerst þess valdur, að hluturinn verður ekki afhentur á réttum tíma, þá flyst ábyrgðin yfir á kaupanda, ef um þá hluti er að tefla, sem ákveðnir eru eftir tegund, þó ekki fyrr en ákveðnum hlutum hefir verið af skipt og þeir til teknir handa kaupanda.

Um vöxtu af kaupverði.


38. gr.

    Um skyldu til að greiða vexti af kaupverðinu og öðrum greiðslum, sem ekki eru greiddar á gjalddaga, fer eftir ákvæðum laga um vexti.

Um það, er kaupandi getur eigi staðið í skilum.


39. gr.

    Nú verður kaupandi gjaldþrota eftir að kaup voru gerð, þá er seljanda rétt að halda hinum selda hlut, þó að gjaldfrestur hafi áskilinn verið, og sé hluturinn sendur frá afhendingarstaðnum, þá má seljandi varna því, að hann sé afhentur búinu, uns nægileg trygging er sett fyrir greiðslu kaupverðsins í gjalddaga. Ef afhendingartími er kominn og búið hefir ekki sett slíka tryggingu, þó að seljandi hafi á það skorað, þá má hann rifta kaup, ef hann vill.
    Þessum fyrirmælum skal einnig beita, ef það kemur fram við fjárnám eftir að kaup eru gerð, að kaupandi hefir eigi efni á að greiða skuld sína, eða fjárhagur hans að öðru leyti reynist slíkur, að ætla má, að hann geti eigi greitt kaupverðið, þá er það fellur í gjalddaga.

40. gr.

    Ef bú kaupanda hefir verið tekið til gjaldþrotaskipta, en hvorki er kominn sá tími, er seldan hlut átti að afhenda, eða gjalddagi kaupverðsins, þá getur seljandi skorað á búið að lýsa yfir því, hvort það vill ganga í kaupin, og lýsi búið þá ekki yfir því svo fljótt sem auðið er og í síðasta lagi innan fjögra vikna eða þá á afhendingardegi eða gjalddaga, ef það tímamark ber fyrr að höndum, að það vilji í kaupið ganga, þá má seljandi rifta kaupið.

41. gr.

    Hafi hinn seldi hlutur verið afhentur þrotabúinu eftir að búið var framselt til gjaldþrotameðferðar, en kaupverðið er eigi greitt, á seljandi rétt á að heimta hlut sinn aftur, nema búið lýsi yfir því, að það vilji í kaupið ganga, enda greiði þá kaupverðið eða setji tryggingu fyrir greiðslu þess í gjalddaga, ef krafist er. Hafi búið látið hlutinn af hendi eða á annan hátt ráðstafað honum þannig fyrir sinn reikning, að eigi er auðið að skila hlutnum aftur í verulega óbreyttu ástandi, þá er seljanda rétt að líta svo á, sem búið hafi gengið í kaupið.

Um það er seldum hlut er áfátt.


42. gr.

    Nú er ákveðinn hlutur seldur, og er honum áfátt eða galli á honum, þá má kaupandi rifta kaupin eða heimta afslátt af kaupverði að tiltölu. Ef gallinn verður að teljast óverulegur, getur kaupandi ekki riftað kaupið, nema seljandi hafi svik í frammi haft.
    Nú skortir hluti, þá er kaup gerðust, einhverja þá kosti, er ætla má að áskildir væru, eða það, sem hlutnum er áfátt, hefir gerst fyrir vanrækt seljanda eftir að kaup voru gerð eða seljandi hefir haft svik í frammi, og getur þá kaupandi krafist skaðabóta.

43. gr.

    Ef um þá hluti er að tefla, sem tilteknir eru eftir tegund, og þeir reynast gallaðir, þá er þeim er skilað, getur kaupandi rift kaupið eða heimtað aðra hluti ógallaða í hinna stað, eða heimtað tiltölulegan afslátt af kaupverði.
    Ef telja verður það óverulegt, sem að hlutunum er, þá verður ekki kaup rift né annarra hluta krafist í staðinn, nema seljandi hafi haft svik í frammi eða vitað um það, sem áfátt var, svo tímanlega, að hann hefði getað útvegað aðra hluti ógallaða án ósanngjarns kostnaðar.
    Enda þótt seljanda sé ekki um að kenna það, sem að söluhlutnum er, þá er hann þó skyldur að greiða skaðabætur, þó svo, að fara skal eftir fyrirmælum 24. gr., eftir því sem við á.

44. gr.

    Nú skal úr því skera, hvort söluhlut sé áfátt, og verður þá að miða við það tímamark, er hluturinn fluttist yfir í ábyrgð kaupanda, nema því aðeins, að vanhirðu seljanda sé um að kenna það, sem áfátt er.

45. gr.

    Nú er kaup rift sakir þess, að söluhlut er áfátt, og skal þá einnig fara eftir fyrirmælum 25. gr., er skaðabætur eru ákveðnar.

46. gr.

    Hafi svo verið um samið, að seljandi afhendi hina seldu muni smátt og smátt, og reynist einni sérstakri afhendingu áfátt, þá getur kaupandi samkvæmt 42. og 43. gr. aðeins rift kaup að því, er til þessarar afhendingar kemur. Þó getur hann einnig rift kaup á því, sem eftir er að afhenda, ef við má búast, að þeim muni einnig áfátt verða; og hann getur jafnvel rift allt kaupið, ef atvik liggja svo til í sambandi afhendinganna hverrar við aðra.

47. gr.

    Hafi kaupandi rannsakað söluhlutinn áður en kaup gerðust eða látið fyrirfarast án sennilegrar ástæðu að rannsaka hlutinn, þó að seljandi skoraði á hann um það, eða honum var færi á gefið að rannsaka sýnishorn af söluhlutnum áður en kaup gerðust, getur hann ekki borið fyrir sig neina þá galla á söluhlutnum, sem hann hefði átt að sjá við þá rannsókn, nema seljandi hafi haft svik í frammi.

48. gr.

    Ef hlutur er seldur á uppboði getur kaupandi ekki borið fyrir sig neinn galla á hlutnum, nema hluturinn svari ekki til þess heitis, er hann var auðkenndur með við söluna, eða seljandi hafi haft svik í frammi. Þessi ákvæði gilda þó ekki þá er kaupmaður selur varning sinn á uppboði.

49. gr.

    Nú býðst seljandi til að bæta úr göllum, sem eru á seldum hlut, eða láta annan hlut ógallaðan koma í hans stað, og verður kaupandi þá að sætta sig við það, ef það verður gert áður en sá frestur er úti, sem hann var skyldur til að bíða afhendingar (sbr. 21. gr.), enda sé það augljóst, að hann hafi engan kostnað eða óhagræði af þessu.
    Þessi fyrirmæli hafa engin áhrif á rétt kaupanda til skaðabóta.

50. gr.

    Fyrirmæli laga þessara um galla á söluhlut eiga einnig við að sínu leyti þá er mergð, stærð eða þungi þess, sem selt var, er minni en áskilið er, ef kaupandi má ganga að því vísu, að ætlast sé til að það, sem afhent er, séu fullar efndir þess, sem um var samið. Þá er þannig stendur á, getur kaupandi ekki samkvæmt 43. gr. krafist annarra hluta í stað þeirra, sem afhentir voru, en í stað þess getur hann heimtað, að sér sé afhent það, sem upp á vantar, hvort sem þetta er meiri eða minni hluti þess, sem afhenda átti.

51. gr.

    Sé um verslunarkaup að tefla, og sé söluhluturinn afhentur og kominn kaupanda í hendur eða sýnishorn, sem um var samið, er komið honum í hendur, þá er hann skyldur til að rannsaka hlutinn svo sem góð verslunartíska heimtar. Eigi að senda hlutinn úr einum stað í annan, er kaupandi þó ekki skyldur að rannsaka hann fyrri en hluturinn er þangað kominn, sem hann á að fara og kaupanda hefir verið gerður kostur á að veita honum viðtöku á þann hátt, að honum hefði verið skylt að annast hlutinn samkvæmt 56. gr.

52. gr.

    Komi það í ljós, að söluhlut er ábótavant og kaupandi vill bera það fyrir sig, þá skal hann skýra seljanda frá því þegar í stað, ef um verslunarkaup er að tefla, en ella án ástæðulauss dráttar. Nú hefir kaupandi orðið þess var, að hlutnum var áfátt eða hann hefði átt að verða þess var, og skýrir hann eigi seljanda frá, svo sem hér er fyrir mælt, þá getur hann eigi síðar borið það fyrir sig, að hlutnum hafi áfátt verið.
    Ef kaupandi vill rifta kaup eða krefjast viðbótar eða nýrra hluta í stað þeirra, sem hann hefir fengið, skal hann skýra seljanda frá því án ástæðulauss dráttar; ella missi hann rétt sinn til þess að hafna hlutnum eða krefjast viðbótar.

53. gr.

    Ákvæði 52. gr. um það, að kaupandi missi rétt sinn til þess að bera fyrir sig, að söluhlut hafi áfátt verið, gilda þó ekki, ef seljandi hefir haft svik í frammi eða sýnt af sér vítaverða vanhirðu, sem hefir í för með sér talsvert tjón fyrir kaupanda.

54. gr.

    Nú er ár liðið frá því er kaupandi fékk söluhlut í hendur og hann hefir ekki skýrt seljanda frá, að hann ætli að bera fyrir sig, að söluhlutnum hafi ábótavant verið, og getur hann þá eigi síðar komið fram með neina kröfu af því tilefni, nema seljandi hafi skuldbundið sig til að ábyrgjast hlutinn lengri tíma, eða haft svik í frammi.

Fyrirmæli um það, er sölumunum er neitað viðtöku, og um rifting kaupa.


55. gr.

    Hafi kaupandi fengið hlut í hendur, þann er hann vill neita viðtöku, þá er hann skyldur að annast um hlutinn, en krafið getur hann seljanda endurgjalds á þeim kostnaði, er af þessu leiðir. Fyrirmæli 34. og 35. gr. eiga við um þetta eftir því sem á stendur.

56. gr.

    Nú hefir hluturinn verið sendur svo, að kaupandi á kost á að taka hann til varðveislu á staðnum, sem hann átti til að fara, en hann vill synja honum viðtöku, og er hann þó skyldugur að taka við honum til varðveislu á kostnað seljanda.
    Þetta á þó ekki við, ef seljandi er sjálfur á viðtökustaðnum eða þar er handhafi farmskírteinis eða annar sá, er fyrir seljanda hönd getur annast um hlutinn. Sama er og ef kaupandi getur ekki fengið hlutinn í sínar vörslur án þess að greiða andvirði hans eða baka sér annan verulegan kostnað eða óþægindi.
    Hafi kaupandi tekið hlutinn í sínar vörslur, eiga við fyrirmælin í næstu grein hér á undan.

57. gr.

    Sé kaup rift, á seljandi ekki rétt á að fá hlutinn aftur, nema hann skili aftur því, er hann hefir fengið af andvirði hans, og kaupandi á ekki rétt á að fá andvirði endurgreitt, nema hann skili aftur því, er hann hafði við tekið, í sama ástandi og mergð eða stærð að öllu verulegu, sem það var í, er hann tók við því.
    Nú riftir kaupandi kaup eða krefst skipta á hlutnum, og á hann þá rétt á að halda þeim hlut, er hann hefir fengið, þar til er seljandi svarar skaðabótum þeim, er honum ber, eða setur nægilega trygging fyrir þeim.

58. gr.

    Jafnvel þótt hluturinn sé forgörðum farinn eða breyttur, getur kaupandi þó rift kaupið þrátt fyrir ákvæðin í næstu grein hér á undan, ef það, að hluturinn fór forgörðum eða breyttist, er ósjálfráðri tilviljun að kenna eða ásigkomulagi hlutarins sjálfs eða ráðstöfunum, sem nauðsynlegar voru til að rannsaka hann, eða voru gerðar áður en það kom í ljós eða hefði átt að koma í ljós, að hlutnum var svo ábótavant, að af því leiddi rétt til að rifta kaupin.

Um vanheimild.


59. gr.

    Nú kemur það fram, að söluhlutur var annars manns eign en seljanda, þá er kaupin gerðust, og getur þá kaupandi krafist skaðabóta af seljanda, og það þótt seljandi hafi eigi betur vitað en að hann ætti hlutinn. Ef kaupandi hafði fullan grun eða vitneskju um vanheimild seljanda, þá er kaupin gerðust, þá á hann engan rétt til skaðabóta.

Um kaup til reynslu.


60. gr.

    Ef hlutur er keyptur til reynslu eða með því skilyrði, að kaupandi megi skoða hlutinn áður en kaupið er fullgert, og hluturinn hefir verið afhentur, þá er kaupandi þó bundinn við kaupin, nema hann skýri seljanda frá innan tiltekins tíma, eða innan hæfilegs frests, ef enginn tími er fastákveðinn, að hann vilji eigi hlutinn hafa.
    Meðan hluturinn er hjá kaupanda til reynslu eða skoðunar, er hann í ábyrgð kaupanda.

Um tilkynningar eftir lögum þessum.


61. gr.

    Ef slík tilkynning frá kaupanda, sem um getur í 6., 26., 27., 52. og 54. gr., er afhent til flutnings með ritsíma eða pósti eða með öðrum þeim flutningstækjum, sem gilt þykir að nota, missir tilkynnandi engan rétt við það, að tilkynningunni seinkar eða hún kemur eigi til skila.
    Hið sama gildir um tilkynningar frá seljanda, sem um er rætt í 31. og 32. gr.

Um þýðingu ýmissa söluskilyrða.


62. gr.

    Ef varningur er seldur „frítt á skipsfjöl“ (fob.) á tilteknum stað, verður kaupandi að útvega skip eða rúm í skipi til að flytja varninginn þaðan.
    Seljandi á að annast um og kosta flutning varningsins til hleðslustaðarins og gera þær ráðstafanir um flutning varningsins á skip, er farmsendanda er skylt að gera, eftir því sem lög áskilja á þeim stað eða venja er til.
    Nú er varningur kominn á skipsfjöl, og er hann þá úr ábyrgð seljanda.
    Þá er um það skal dæma, hvort varningi sé ábótavant, skal dæma eftir ástandi því, sem hann var í á þeirri stund, er hann fór úr ábyrgð seljanda. Sama er um mergð, þyngd og stærð þess varnings, er seldur er eftir tölu, þunga eða máli.
    Þó kaupandi hafi skip til taks eða skiprúm til að taka við varningnum, leiðir ekki af því, að kaupandi sé skyldur til að rannsaka varninginn fyrri en hann er kominn á viðtökustað; ekki hamlar þetta heldur seljanda frá að neyta þess réttar, sem honum er áskilinn í 15., 28. og 39. gr.
    Kaupandi er skyldur að greiða andvirði gegn móttöku farmskírteinis samkvæmt því, sem ákveðið er í 71. gr., þó að ekki sé svo sérstaklega um samið.

63. gr.

    Ef varningur er seldur „flutningsfrítt“ (Cost and freight, c & f, cf) skal seljandi annast og kosta sending hans til viðtökustaðar.
    Nú er varningur afhentur flutningsmanni eða honum komið á skipsfjöl samkvæmt fyrirmælum 10. gr., og er hann úr því í ábyrgð kaupanda.
    Þá er um það skal dæma, hvort varningi sé ábótavant, skal dæma eftir ástandi því, er hann var í á þeirri stund, er hann fór úr ábyrgð seljanda. Sama er um mergð, þyngd eða stærð þess varnings, sem seldur er eftir tölu, þunga eða máli.
    Þó að ekki sé sérstaklega svo um samið, er kaupandi skyldur til að greiða andvirði gegn móttöku farmskírteinis samkvæmt því sem ákveðið er í 71. gr.
    Þótt andvirði sé ekki í gjalddaga komið, þá er varningur kemur til viðtökustaðarins, er kaupandi þó skyldur til að greiða það flutningsgjald, er seljandi hefir eigi greitt, en draga má hann það frá kaupverðinu, án þess að reikna sér þó vöxtu af því.

64. gr.

    Nú er varningur seldur „cif“ (cost, insurance, freight) eða „caf“ (coût, assurance, fret), og gilda þá fyrirmælin í næstu grein á undan.
    Auk þess á seljandi að annast venjulega vátrygging fyrir kaupanda hönd fyrir þann hluta sendingar, sem hann ber ekki sjálfur ábyrgð á. Láti seljandi hjá líða að vátryggja þannig varninginn, enda sé kaup eigi fyrir þá skuld rift, þá getur kaupandi heimtað bætur fyrir það tjón, er hann kynni að hafa beðið af vanhirðu seljanda, eða hann getur sjálfur vátryggt varninginn og dregið þann kostnað frá andvirði varningsins.

65. gr.

    Nú er varningur seldur, „afhentur“ eða „frítt“ (franko) á tiltekinn stað, og telst hann þá ekki afhentur fyrr en hann er á þann stað kominn. Seljandi á þá að annast um og kosta sending varnings þangað, og ber hann ábyrgð á honum meðan á sendingunni stendur.     Þá er um það skal dæma, hvort varningi sé ábótavant, skal dæma eftir ástandi því, er hann var í á þeirri stund, er hann kom til skila. Sama er um mergð, þyngd eða stærð þess varnings, er seldur er eftir tölu, þunga eða máli.
    Sé orðið „afhent“ notað í sambandi við „flutningsfrítt“, „c og f“, „cf“, „cif“ eða „caf“, þá hefir merking orðsins „afhent“ engin áhrif á téð söluskilyrði.

66. gr.

    Ef varningur er keyptur með þeim ákvæðum, er gefa nokkurt svigrúm um mergð hans, þyngd eða stærð, t.d. „cirka“, „frá — til“ eða því um líkt, þá veitir það seljanda frjálst um að kjósa innan þeirra takmarka, nema það sé ljóst af atvikum, að svigrúmið sé ætlað kaupanda til hagsmuna.
    Ef orðið „cirka“ er notað eða „hér um bil“, þá er svigrúmið 10% fyrir ofan eða neðan, ef um heilan farm er að tefla, en 5% ella.

67. gr.

    Nú er seldur „farmur“, og má seljandi þá ekki senda annan varning með sama skipi. Geri hann það engu að síður og kaupandi hafi óhagræði af, getur kaupandi rift kaup. Hvort sem kaupandi riftir kaup eða ekki, á hann rétt á skaðabótum.

68. gr.

    Ef svo er til skilið, að varning skuli afhenda eða við honum taka „í byrjun“ („primo“), „í miðju“ („medio“) eða „í lok“ („ultimo“) mánaðar, er það að skilja eftir því sem á stendur, um fyrsta til tíunda, ellefta til tuttugasta, eða tuttugasta og fyrsta til síðasta dags í mánuðinum.
    Þá er verðskjöl eru seld, merkir „primo“ fyrsta virkan dag í mánuði, „medio“ fimmtánda dag í mánuði, eða næsta virkan dag á eftir, ef sá dagur er heilagur, „ultimo“ síðasta virkan dag í mánuði.

69. gr.

    Hafi seljandi skuldbundið sig til að senda frá sér varning á ákveðnum fresti, skal svo álíta, að varan hafi afhent verið á réttum tíma, ef henni hefir verið komið á skipsfjöl eða önnur þau flutningstæki, er við henni skyldu taka, áður en sá frestur er liðinn.
    Sé farmskírteini gert um sendinguna og beri það ekki með sér, að varan hafi afhent verið á réttum tíma, getur kaupandi hafnað vörunni.

70. gr.

    Ef áskilin er „borgun út í hönd“, er kaupandi skyldur að greiða andvirðið jafnframt og söluhluturinn er boðinn honum til umráða (sbr. 14. og 15. gr.).

71. gr.

    Hafi kaupandi skuldbundið sig til að greiða andvirðið við móttöku farmskírteinis, eða til að samþykkja víxil jafnframt og honum er afhent farmskírteini, má hann ekki neita greiðslu eða samþykki fyrir það, að varningurinn sé ekki enn til skila kominn eða að hann hafi ekki haft færi á að rannsaka hann.
    Þá er greiðslu er krafist eða víxilsamþykkis gegn afhendingu farmskírteinis, verður kaupandi að hafa fengið í hendur reikning yfir varninginn, og hafi seljandi skuldbundið sig til að vátryggja varninginn, verður vátryggingarskírteini að fylgja farmskírteini.
    Það, sem hér er mælt, á einnig við, þegar kaupandi hefir skuldbundið sig til að greiða andvirðið við móttöku slíks farmbréfs, sem um er getið í 16. gr.



Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um lausafjárkaup.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að ný lög komi í stað laga um lausafjárkaup frá 1922. Í frumvarpinu er eingöngu fjallað um viðskipti einkaréttarlegs eðlis og hvergi komið inn á breytingar á umfangi opinberrar starfsemi. Því verður ekki séð að samþykkt frumvarpsins hafi kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.