Ferill 399. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 657  —  399. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um átaksverkefni um framleiðslu og markaðssetningu vistvænna og lífrænna afurða, nr. 27/l995.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)



1. gr.

    4. gr. laganna orðast svo:
    Ríkissjóður leggur átaksverkefninu til 25 millj. kr. á ári á fjárlögum árin 2000–2002.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með lögum nr. 27/l995 var stofnað til átaksverkefnis um framleiðslu og markaðssetningu vistvænna og lífrænna afurða. Stjórn verkefnisins skal stuðla að verkefnum á sviði fræðslu um vistvæna og lífræna framleiðslu, gæðastjórnunar, áætlanagerðar, vöruþróunar og markaðssetningar íslenskra afurða undir merkjum hollustu, hreinleika og gæða. Í 4. gr. laganna er kveðið á um að ríkissjóður leggi átaksverkefninu til 25 millj. kr. á fjárlögum árin 1995– 99. Á fjárlögum fyrir árið 2000 fékkst 25 millj. kr. framlag til áframhaldandi starfs að verkefninu á þessu ári. Þetta frumvarp er flutt í samræmi við þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að tryggja einnig fjármagn til verkefnisins árin 2001 og 2002.
    Á tæplega fimm ára starfstíma verkefnisins hefur stjórn þess lagt áherslu á kynningu meðal bænda, söluaðila og almennings á gildi vistvænnar og lífrænnar gæðastýringar í landbúnaði. Veittir hafa verið fjölmargir styrkir til rannsókna á þessu sviði, einkum rannsókna sem eru fallnar til þess að draga fram sérstöðu íslenskra afurða hvað gæði og hreinleika snertir, svo og styrkir til rannsókna á lífrænni ræktun við íslenskar aðstæður. Þá hafa verið veittir styrkir til markaðskannana hér heima og erlendis fyrir íslenskar afurðir undir merkjum hollustu, hreinleika og gæða og hafinn er útflutningur á vistvænum og lífrænum afurðum.
    Af hálfu landbúnaðarráðuneytisins hefur jafnframt verið lögð áhersla á að treysta lagalega umgjörð lífrænnar framleiðslu og samræma hana stöðlum Evrópusambandsins og alþjóðlegum stöðlum IFOAM — Alþjóðasamtaka lífrænna ræktenda. Sama á við um lagalegan grunn vistvænnar framleiðslu. Reglugerð um lífræna framleiðslu og reglugerð um vistvæna framleiðslu komu báðar út í endurskoðaðri gerð á síðasta ári.
    Árangur af því starfi sem að framan er lýst kemur m.a. fram í því :
          að Alþingi samþykkti í mars sl. ályktun um að stefna bæri að því að öll hefðbundin matvælaframleiðsla á Íslandi skyldi vottuð á forsendum sjálfbærrar þróunar; jafnframt skyldi stefnt að því að auka hlut landbúnaðarafurða sem vottaðar eru sem lífrænar,
          að í nýjum samningi milli ríkisins og Bændasamtaka Íslands samkvæmt búnaðarlögum, nr. 70/1998, er í fyrsta sinn gert ráð fyrir framlögum til aðlögunar að lífrænni og vistvænni framleiðslu,
          að starfshópur á vegum landbúnaðarráðherra leggur til að stefnt verði að því að allar íslenskar búvörur verði vottaðar vistrænar eða lífrænar,
          að landbúnaðarráðherra hefur ákveðið að unnið skuli að framgangi þessara tillagna starfshópsins á næstu fimm árum,
          að búnaðarþing l999 fól stjórn Bændasamtaka Íslands að beita sér fyrir því að gerð verði framkvæmdaáætlun með markvissri stefnu um stuðning við lífrænan búskap og aðlögun að honum,
          að í ályktun aðalfundar Landssamtaka sauðfjárbænda l998 er hvatt til þess að sem flestir sauðfjárbændur og sláturleyfishafar útvegi sér vistvæna vottun á framleiðslu sína hið fyrsta og að þeir bændur sem hafi aðstöðu til hefji lífræna framleiðslu og
          að umræður eru hafnar um vottun íslenskra sjávarafurða sem vistvænna á grundvelli þeirrar verndarstefnu sem fólgin er í íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu.
    Þess má geta að í nóvember l998 hófst í Noregi á vegum landbúnaðarráðuneytisins, bændasamtakanna, samtaka afurðastöðva o.fl. átak sem miðar að því að allur norskur landbúnaður verði undir gæðastjórn fyrir árslok 2000.
    Þrátt fyrir það sem áunnist hefur er mikið verk fram undan við að fylgja þeim árangri eftir sem þegar hefur náðst. Þar sem magn innlendra lífrænna og vistvænna afurða er enn mjög takmarkað hefur til þessa ekki verið hægt að greina viðbrögð markaðarins nægilega vel, enda þótt erlend markaðsreynsla gefi mikilvægar vísbendingar í jákvæða átt. Meðal bænda hefur því af eðlilegum ástæðum gætt nokkurrar varfærni gagnvart þessum hugmyndum og er nauðsynlegt að hefja markvisst kynningarstarf meðal bænda og innan afurðastöðvanna. Á hinn bóginn eru vaxtarmöguleikar íslenskrar búvöruframleiðslu (matvælaframleiðslu) að flestra dómi bundnir því að takast megi að vinna þeim markað erlendis sem vottaðri hágæðavöru. Jafnframt eru gæði innlendra búvara helsta vörn bænda gagnvart innfluttum vörum í baráttunni um innlenda markaðinn. Á grundvelli þeirra rannsóknarniðurstaðna sem fengist hafa er nú lag að hefja markvisst kynningar- og sölustarf á erlendum og innlendum markaði.
    Að óbreyttum lögum lýkur starfi Áforms — átaksverkefnis um næstu áramót. Ekki verður séð að neinn á vegum hins opinbera eða innan landbúnaðarins hafi til þess fjármuni né sé að öðru leyti í stakk búinn að fylgja eftir því frumkvöðulsstarfi sem unnið hefur verið á vegum verkefnisins og því hætt við að verulegur afturkippur komi í alla þróun á þessu sviði. Því er lagt til að ákvæði 4. gr. laga nr. 27/l995, þar sem kveðið er á um framlög til átaksverkefnisins á fjárlögum, verði framlengt og að fé verði veitt til verkefnisins á fjárlögum árin 2000– 2003.



Fylgiskjal I.


Verkefni sem Áform — átaksverkefni
hefur hvatt til og styrkt árin l995–l999.

    Rannsóknir á íslenskum lækningajurtum.
    Kynbætur á alaskalúpínu sem beitarjurt.
    Tilraun með áburðarnotkun í lífrænni ylrækt.
    Setning reglugerða fyrir lífræna og vistvæna framleiðslu.
    Tilraun með lífræna framleiðsla á mjólk og dilkakjöti hjá þremur bændum í Mýrdal.
    Framleiðsla á lífrænni AB-mjólk.
    Könnun á möguleikum fyrir lífræna sauðfjárrækt á Vestfjörðum.
    Framleiðsla á hráefni í lífrænan barnamat.
    Kynning kokkalandsliðsins á lífrænum afurðum á Ólympíuleikum matreiðslumanna.
    Úttekt á stöðu nokkurra þéttbýliskjarna með tilliti til sjálfbærrar þróunar.
    Stuðningur við Sólheima í Grímsnesi vegna vottunar sem sjálfbær byggðarkjarni.
    Rannsókn á íslensku byggi til fóðurs fyrir mjólkurkýr.
    Gerð námsefnis í lífrænni ræktun á vegum Bændaskólans á Hvanneyri.
    Endurvinnsla lífræns úrgangs til áburðarframleiðslu á vegum Bændaskólans á Hvanneyri.
    Kynning á handverki og fleiri afurðum úr íslenskum sveitum.
    Framleiðsla ófitusprengdrar lífrænnar mjólkur.
    Kynnisferð íslenskra bænda til lífrænna bænda í Þýskalandi og á BIO-fach sýninguna í Frankfurt.
    Rannsókn á snefilefnum í íslenskum matvælum.
    Rannsókn Líffræðistofnunar Háskóla Íslands á fitusýrum í dilkakjöti.
    Ferð íslenskra sérfræðinga á alþjóðlega ráðstefnu um lífræna framleiðslu í Danmörku.
    Rannsókn á íslensku grænmeti í samanburði við innflutt.
    Gerð kynningarefnis á vegum vottunarstofa.
    Gerð fræðsluefnis um sjálfbæra byggðarkjarna.
    Heimsókn stjórnar Alþjóðasamtaka lífrænna bænda til Íslands og ráðstefna um lífræna ræktun.
    Útgáfa á bæklingi um íslenskt kjöt fyrir innkaupastjóra verslana (bæklingurinn var fyrst prentaður í l.000 eintökum og síðan endurprentaður í sama upplagi).
    Könnun á fyrirkomulagi aðlögunarstyrkja til lífrænna bænda innan ESB.
    Stefnumörkun fyrir íslenskan landbúnað með tilliti til upprunavottunar matvæla.
    Gerð lífræns vottunarkerfis fyrir sjávarafurðir í samráði við IFOAM, IFOMA (International Fishmeal- and Oilmanufacturers Association) og Fiskifélag Íslands.
    Könnun John Hopkins háskólans á framleiðslu lífræns grænmetis.
    Kynning á íslenskum matvælum, fatnaði og ferðaþjónustu á BIO-fach sýningunni í Frankfurt.
    Þátttaka í ráðstefnu um markaðssetningu vottaðra afurða í Oxford.
    Kynning á gæðastjórnunarkerfinu Origen fyrir kjötvinnslur.
    Gerð merkis fyrir lífrænar og vistvænar afurðir.
    Gerð vottunarkerfis fyrir ull.
    Stofnun samtakanna „Small island organic communities“.
    Myndun viðskiptasambanda við kjötkaupmenn í Danmörku og Belgíu og stuðningur við markaðsstarf þar.
    Markaðsstarf í Bandaríkjunum með áherslu á sérverslanir sem einungis selja vottuð matvæli.
    Könnun á möguleikum á sölu lambakjöts í verslunum á austurströnd Bandaríkjanna.
    Kynning á íslensku dilkakjöti í verslunum á Manhattan í New York.
    Rannsókn á fitusýrum í lambakjöti (omega 6 og omega 3).
    Tilraunir með nýja tækni við niðurfellingu á húsdýraáburði.
    Markaðssetning á lífrænu grænmeti.
    Markaðssetning á lífrænu dilkakjöti innan lands.
    Markaðssetning á lífrænu dilkakjöti í Englandi og Danmörku.
    Undirbúningur að vottunarkerfi fyrir lífrænan eldisfisk.
    Markaðssetning á lífrænum snyrtivörum erlendis.
    Tilraunir með lífræna berjarækt.
    Umhverfisátak á vegum „Græna hersins“ o.fl.
    Stuðningur við áform Hríseyinga við að fá eyjuna vottaða sem lífræna.
    Stuðningur við framkvæmd „Global Action Plan“ á Íslandi.



Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um átaksverkefni um
framleiðslu og markaðssetningu vistvænna og lífrænna afurða, nr. 27/1995.

    Lögin nr. 27/1995 kváðu á um 100 m.kr. opinberan stuðningi við framleiðslu og markaðssetningu á vistvænun og lífrænum afurðum árin 1996–1999. Lögð er fram breytingartillaga sem framlengir framlag ríkisins í þrjú ár til viðbótar.
    Beinn kostnaður ríkisins er 75 m.kr. ef frumvarpið verður óbreytt að lögum. Framlagið greiðist með þremur jöfnum 25 m.kr. greiðslum árin 2000–2002.