Ferill 501. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 796  —  501. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 2/1990, um Íslenska málnefnd, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)



1. gr.

    1. gr. laganna orðast svo:
    Íslensk málnefnd er málræktar- og málverndarstofnun og rekur Íslenska málstöð.

2. gr.

    4. gr. laganna, sbr. 121. gr. laga nr. 83/1997, orðast svo:
    Menntamálaráðherra skipar forstöðumann Íslenskrar málstöðvar til fimm ára í senn. Forstöðumaðurinn skal hafa lokið meistaraprófi eða jafngildu prófi í íslenskri málfræði. Leita skal álits Íslenskrar málnefndar um umsækjendur um stöðu forstöðumanns áður en hann er skipaður í stöðuna. Forstöðumaður ræður annað starfsfólk. Hann stjórnar daglegum rekstri málstöðvarinnar og gefur árlega skýrslu um starfsemi stöðvarinnar.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið á vegum menntamálaráðuneytisins. Við undirbúning frumvarpsins var leitað umsagnar Háskóla Íslands og Íslenskrar málnefndar sem hafa lýst sig sammála þeim breytingum sem frumvarpið gerir ráð fyrir en leggja áherslu á áframhaldandi tengsl stofnananna. Með frumvarpinu er lagt til að gerðar verði breytingar á lögum um Íslenska málnefnd er varða ráðningu forstöðumanns og rekstrargrundvöll stofnunarinnar. Forstöðumaður verði skipaður af menntamálaráðherra til fimm ára í samræmi við þá meginreglu laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkissins, að forstöðumenn skuli skipaðir til starfa af ráðherra. Þá er gert ráð fyrir að Íslensk málstöð verði sjálfstæð stofnun og ekki rekin í lögbundinni samvinnu við Háskóla Íslands.
    Frumvarpið gerir ekki ráð fyrir að forstöðumaðurinn sé jafnframt prófessor í íslenskri málfræði í heimspekideild Háskóla Íslands. Starfsskyldur forstöðumannsins verði þannig einvörðungu við Íslenska málstöð.
    Í 1. gr. er lagt til að sjálfstæði Íslenskrar málstöðvar verði áréttað með því að fella niður áskilnað um að rekstur málstöðvarinnar skuli vera í samvinnu Íslenskrar málnefndar og Háskóla Íslands. Það útilokar þó ekki að unnt verði að viðhalda starfstengslum Íslenskrar málstöðvar við háskólann eða einstakar háskólastofnanir á grundvelli sérstaks samkomulags ef þörf krefur en minnt er á að háskólaráð Háskóla Íslands, heimspekideild Háskóla Íslands og Orðabók Háskólans tilnefna fulltrúa sína í Íslenska málnefnd.
    Í 2. gr. er lagt til að forstöðumaður verði skipaður af menntamálaráðherra til fimm ára í samræmi við þá meginreglu laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, að forstöðumenn skuli skipaðir til starfa af ráðherra. Fellt er niður það skilyrði að forstöðumaðurinn sé jafnframt prófessor í íslenskri málfræði í heimspekideild Háskóla Íslands, en gerðar þær hæfiskröfur að forstöðumaður hafi lokið meistaraprófi eða jafngildu prófi í íslenskri málfræði, sbr. almennar hæfiskröfur til kennara í háskólum samkvæmt lögum nr. 136/1997, um háskóla. Er þar komið til móts við það sjónarmið íslenskuskorar Háskóla Íslands að þótt forstöðumaðurinn verði ekki starfsmaður Háskóla Íslands leiði það ekki til þess að hæfiskröfur til hans minnki að ráði. Gert er ráð fyrir að starfsskyldur forstöðumannsins verði þannig einvörðungu við Íslenska málstöð er verði sjálfstæð stofnun.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 2/1990,
um Íslenska málnefnd, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu er lagt til að Íslensk málstöð sem rekin er af Íslenskri málnefnd verði gerð að sjálfstæðri stofnun en samkvæmt gildandi lögum er málstöðin rekin í samvinnu við Háskóla Íslands. Þá gerir frumvarpið ekki ráð fyrir að forstöðumaður málstöðvarinnar sé jafnframt prófessor við Háskóla Íslands eins og í gildandi lögum.
    Verði frumvarpið að lögum má gera ráð fyrir að Háskóli Íslands leggi Íslenskri málstöð ekki lengur til endurgjaldslaust húsnæði og þjónustu. Bein útgjöld málnefndarinnar námu 20 m.kr. árið 1998 en að auki er áætlað að Háskóli Íslands greiði 2–3 m.kr. árlegan kostnað þar sem hann lætur málnefndinni í té um 150 fermetra húsnæði auk þess að greiða póstburðargjöld hennar. Sé gengið út frá þeim forsendum að þessi kostnaður flytjist frá háskólanum yfir á málstöðina sem verði áfram í húsnæði háskólans og að háskólinn fari ekki fram á greiðslur fyrir húsgögn sem hann hefur lagt til starfseminnar hefur frumvarpið ekki í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð þegar á heildina er litið. Gangi þetta ekki eftir gæti kostnaðarauki ríkissjóðs numið 2–3 m.kr. á ári.