Ferill 558. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 860  —  558. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um staðfesta samvist, nr. 87 12. júní 1996.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     1.      2. mgr. orðast svo:
              Staðfesting samvistar getur aðeins farið fram ef:
                  a.      báðir einstaklingarnir eða annar þeirra er íslenskur ríkisborgari sem hefur fasta búsetu hér á landi, eða
                  b.      báðir einstaklingarnir hafa haft fasta búsetu hér á landi síðustu tvö árin fyrir staðfestingu samvistar þeirra.
     2.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
             Ríkisborgararéttur í Danmörku, Noregi og Svíþjóð er lagður að jöfnu við íslenskan ríkisborgararétt skv. a-lið 2. mgr. Dómsmálaráðherra getur ákveðið í reglugerð að ríkisborgararéttur í öðru landi þar sem í gildi eru lög um staðfesta samvist, sem eru hliðstæð lögum þessum, verði einnig lagður að jöfnu við íslenskan ríkisborgararétt.

2. gr.

    Á eftir 1. mgr. 6. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Lagaákvæði, sem hafa sérstakar reglur um annan makann í hjúskap og bundin eru við kynferði hans, gilda ekki um staðfesta samvist.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í dómsmálaráðuneytinu. Markmið frumvarpsins er að breyta skilyrðum til að stofna til staðfestrar samvistar. Um er að ræða rýmkun sem eðlilegt og sanngjarnt þykir að gera með tilliti til borgara annarra ríkja. Sambærileg breyting og hér er lögð til hefur þegar verið gerð á dönsku lögunum um staðfesta samvist. Stjórnarfrumvarp, sem er efnislega eins og dönsku lögin og þetta lagafrumvarp, er nú til meðferðar í þinginu í Noregi. Í Svíþjóð hefur einnig komið fram stjórnarfrumvarp þar sem lögð er til rýmkun skilyrða til að stofna til staðfestrar samvistar með tilliti til borgara annarra norrænna ríkja. Þar sem löggjöf í Danmörku, Noregi og Svíþjóð um staðfesta samvist er hliðstæð íslenskri löggjöf þykir rétt að leggja ríkisborgararétt í einhverju þessara ríkja að jöfnu við íslenskan ríkisborgararétt.
    Með tilliti til annarra ríkja sem kunna að lögleiða hliðstæð ákvæði og í gildi eru hér á landi þykir rétt að dómsmálaráðherra geti ákveðið í reglugerð að ríkisborgararéttur í ríki þar sem löggjöf um staðfesta samvist er hliðstæð íslenskri löggjöf verði lagður að jöfnu við íslenskan ríkisborgararétt með sama hætti og danskur, norskur eða sænskur ríkisborgararéttur verður ef frumvarp þetta verður að lögum. Sem dæmi má nefna að í finnska dómsmálaráðuneytinu hefur löggjöf um staðfesta samvist verið til athugunar og er þar litið til annarra norrænna ríkja um fyrirmynd. Rétt er að geta þess að ekki er lagt til að ríkisborgararéttur í öllum ríkjum sem þegar hafa löggjöf um staðfesta samvist verði lagður að jöfnu við íslenskan ríkisborgararétt. Framangreind heimild dómsmálaráðherra er bundin því skilyrði að löggjöf í því ríki sem um er að ræða sé hliðstæð þeirri íslensku. Hefur hér verið valin sama leið og farin var í Danmörku og lögð er til í norska frumvarpinu, þ.e. að leggja að jöfnu í lögunum ríkisborgara Danmerkur, Íslands, Noregs og Svíþjóðar, en í sænska frumvarpinu er hins vegar gengið lengra og þar er hollenskur ríkisborgararéttur að auki lagður að jöfnu við sænskan í þessu efni.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Með þeirri breytingu sem hér er lögð til verður ríkisborgararéttur í Danmörku, Noregi og Svíþjóð lagður að jöfnu við íslenskan ríkisborgararétt sem skilyrði fyrir stofnun staðfestrar samvistar. Þessi rýmkun verður að teljast eðlileg og sanngjörn þar sem gildandi ákvæði laganna takmarkar mjög heimildir borgara annarra ríkja, sem einnig viðurkenna staðfesta samvist, til þess að stofna til staðfestrar samvistar á Íslandi. Sem dæmi um áhrif framangreindrar lagabreytingar sem gerð var í Danmörku má nefna að tveir Íslendingar af sama kyni, sem eiga lögheimili í Danmörku, geta nú fengið samvist staðfesta þar í landi, en áður gátu þeir það hvorki í Danmörku né á Íslandi vegna kröfunnar um ríkisborgararétt og lögheimili. Með þeirri breytingu sem hér er lögð til verður dómsmálaráðherra enn fremur heimilt að ákveða að ríkisborgararéttur í öðru ríki en Danmörku, Noregi eða Svíþjóð verði lagður að jöfnu við íslenskan ríkisborgararétt í þessu sambandi, þó því aðeins að löggjöf um staðfesta samvist í því ríki sé hliðstæð íslenskri löggjöf.
    Með vísun til framanritaðs er lagt til að gerð verði sambærileg breyting á íslensku lögunum um staðfesta samvist og gerð hefur verið á dönsku lögunum að því er varðar norræna ríkisborgara og heimild fyrir dómsmálaráðherra til að ákveða í reglugerð um borgara annarra landa sem hafa lög um staðfesta samvist er hliðstæð eru íslensku lögunum. Í gildandi lögum er það skilyrði sett til að staðfesta megi samvist að a.m.k. annar einstaklingurinn sé íslenskur ríkisborgari sem eigi lögheimili hér á landi. Í greinargerð með frumvarpi til gildandi laga er tekið fram að í 2. mgr. 2. gr. sé átt við lögheimili í skilningi 1. mgr. 1. gr. laga um lögheimili, nr. 21/1990, þ.e. stað þar sem maður hefur fasta búsetu. Það er því ekki gerð breyting á gildandi rétti þótt hér sé lagt til að í texta laganna sé mælt sé fyrir um fasta búsetu í stað lögheimilis, en í 2. og 3. mgr. fyrrgreindrar 1. gr. laga um lögheimili kemur fram hvað felst í fastri búsetu. Þykir rétt að taka í lögunum sjálfum af allan vafa um að skráning lögheimilis hér á landi í tvö ár fullnægir ekki skilyrðum ákvæðisins nema um raunverulega búsetu hér á landi hafi verið að ræða.
    Þá er lagt til í b-lið að lögfest verði sambærilegt ákvæði og er í dönsku lögunum um að nægilegt sé að báðir einstaklingarnir hafi haft búsetu í landinu í tvö ár, án tillits til ríkisfangs, en ákvæðið miðar að því að auka réttindi þeirra sem hér hafa fasta búsetu. Ef hvorugur einstaklinganna hefur íslenskan ríkisborgararétt, eða ríkisborgararétt í Danmörku, Noregi eða Svíþjóð, verður það skilyrði til stofnunar staðfestrar samvistar að báðir einstaklingarnir hafi átt fasta búsetu hér á landi síðustu tvö árin. Í sænska frumvarpinu, sem fyrr er sagt frá, er lagt til að nóg sé að annar aðilinn hafi búið í Svíþjóð síðustu tvö ár þótt hvorugur sé ríkisborgari í Svíþjóð eða hafi ríkisborgararétt sem lagður er að jöfnu við sænskan ríkisborgararétt í frumvarpinu. Hér hefur hins vegar verið valin sama leið og farin var í Danmörku og lögð er til í norska frumvarpinu og það gert að skilyrði fyrir stofnun staðfestrar samvistar að báðir einstaklingarnir hafi haft fasta búsetu hér á landi í a.m.k. tvö ár ef hvorugur þeirra er íslenskur, danskur, norskur eða sænskur ríkisborgari. Rétt er að benda á að með fáum undantekningum hefur staðfest samvist enn ekki gildi í öðrum ríkjum en hér hafa verið nefnd, án tillits til ríkisfangs aðila.

Um 2. gr.


    Hér er lagt til að bætt verði í 6. gr. laganna ákvæði um að lagaákvæði sem hafa sérstakar reglur um annan makann í hjúskap og bundin eru við kynferði hans gildi ekki um staðfesta samvist. Ákvæðinu er ætlað að taka af allan vafa um réttarstöðuna þegar þannig hagar til að kynferði maka hefur eðli málsins samkvæmt þýðingu. Þetta getur t.d. átt við um feðrun barna, en feðrunarreglur um börn giftra foreldra og sambúðarforeldra í barnalögum geta ekki gilt um staðfesta samvist því að óhugsandi er að kona í staðfestri samvist geti verið faðir barns sem maki hennar elur. Þessi tillaga byggist á eðli máls og þarfnast ekki skýringa. Tekið er fram að þessi breyting haggar ekki þeirri réttarstöðu að annar einstaklingurinn í staðfestri samvist fer með forsjá barns hins sem hann eða hún hefur forsjá fyrir, sbr. 3. mgr. 30. gr. barnalaga.

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum
um staðfesta samvist, nr. 87 12. júní 1996.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að gerðar verði breytingar á skilyrðum til að stofna til staðfestrar samvistar til samræmis við ákvæði laga sem gilda á þessu sviði í öðrum löndum. Ekki er talið að frumvarpið hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs verði það óbreytt að lögum.