Ferill 460. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1070  —  460. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Frá minni hluta sjávarútvegsnefndar.



    Alþingi samþykkti þann hluta laganna um stjórn fiskveiða sem hér um ræðir í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli nr. 145/1998, í svokölluðu Valdimarsmáli. Stjórnvöld túlkuðu niðurstöðu dómsins á þann veg að úreldingarreglur á fiskiskipum væru í andstöðu við stjórnarskrá og afléttu þeim strax nema af þeim hluta flotans sem hér um ræðir. Smábátarnir skyldu búa áfram við úreldingarreglur af sama tagi og verið höfðu og skyldi svo vera til 1. september 2000. Var að sumu leyti hert á þessum reglum m.a. með reglu um að ef útgerðarmenn stækkuðu báta sína skyldu þeir úrelda þrefalda mælieiningu á móti stækkun. Með þessari lagasetningu var í raun gengið gegn túlkun stjórnvalda á fyrrnefndum dómi. Þeir lögmenn sem stjórnarmeirihlutinn hafði sér til ráðgjafar í þessu máli töldu Alþingi hafa það svigrúm til að koma til móts við dóm Hæstaréttar að brjóta mætti stjórnarskrána tímabundið meðan annari skipan væri komið á. Af áliti þeirra mátti draga þá ályktun að hér væri hæfilegur tími valinn og verjanlegur í ljósi þeirrar aðstöðu sem stjórnvöld væru í. Nú er með þessu frumvarpi ætlunin að fresta gildistöku þeirra lagaákvæða sem varða umrædd brot á stjórnarskránni í ár til viðbótar með þeim rökum að yfir standi endurskoðun á stjórn fiskveiða. Fram hefur komið opiberlega sú skoðun sjávarútvegsráðherra að líklega verði ekki nægur tími til að ljúka umfjöllun um það mál á næsta þingi. Verður þá að telja líklegt miðað við þau rök sem færð hafa verið fram fyrir frestun gildistöku þessara laga að henni verði aftur frestað um ár og muni því þau ákvæði sem varða brot á stjórnarskránni ekki falla úr gildi fyrr en haustið 2002. Fari svo hafa lög sem eru samkvæmt dómi Hæstaréttar brot á stjórnarskránni verið í gildi í hátt á fjórða ár. Nefndarmenn í sjávarútvegsnefnd fóru ítrekað fram á að fá fund með þeim lögfræðilegu ráðgjöfum sem kallaðir voru til við setningu þessara lagaákvæða til að fræðast um álit þeirra á því hve lengi teldist hæfilegt að brjóta stjórnarskrána eftir dóma Hæstaréttar en af einhverjum ástæðum vildu umræddir lögmenn ekki mæta til fundar við nefndina. Það er skoðun minni hlutans að þau vinnubrögð sem hér eru viðhöfð séu óvirðing við stjórnarskrá landsins og Hæstarétt og ekki sæmandi Alþingi.
    Í 3. gr. frumvarpsins var lagt til að óheimilt yrði að stækka báta sem verða á krókaaflamarki upp fyrir 6 brúttótonn. Meiri hlutinn leggur nú til á þskj. 1047 að báta sem stunda veiðar með krókaaflamarki megi stækka ótakmarkað. Meðan ekki liggur fyrir stefnumörkun um stjórn fiskveiða er mjög óskynsamlegt að eyðileggja þann möguleika að láta annars konar reglur gilda um smábáta en um stærri skip, en það gerist verði þessi breytingartillaga meiri hlutans samþykkt. Minni hlutinn telur að vel komi til greina að hækka stærðarmörk smábáta upp fyrir 6 tonn en skynsamlegt sé þó að hafa ákveðin mörk til staðar þannig að smábátaflotinn sé skilgreindur og mögulegt að hafa aðrar reglur um veiðar hans en um aðra hluta flotans og mun því greiða atkvæði gegn breytingartillögu meiri hlutans við 3. gr. frumvarpsins.
    Þingflokkur Samfylkingarinnar hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til breytinga á lögum nr. 38 15 maí 1990 sem ef að lögum verður gerir þetta frestunarfrumvarp óþarft og getur ekki tekið þátt í því að óvirða stjórnarskrána. Þingflokkurinn mun því sitja hjá við lokaafgreiðslu málsins.

Alþingi, 27. apríl 2000.



Jóhann Ársælsson,


frsm.


Svanfríður Jónasdóttir.