Ferill 637. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1235  —  637. mál.



Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 22/1968, um gjaldmiðil Íslands, og lögum nr. 36/1986, um Seðlabanka Íslands, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



Breyting á lögum um gjaldmiðil Íslands
nr. 22/1968, með síðari breytingum.

1. gr.

    Við 1. mgr. 5. gr. laganna bætist nýr málsliður er orðast svo: Jafnframt er bankanum heimilt, með leyfi ráðherra, að slá sérstaka tilefnismynt samkvæmt lögum um Seðlabanka Íslands.


Breyting á lögum um Seðlabanka Íslands,
nr. 36/1986, með síðari breytingum.
2. gr.

    Á eftir 2. mgr. 5. gr. laganna kemur ný málsgrein er orðast svo:
    Tilefnismynt sem bankinn gefur út skal vera lögeyrir til allra greiðslna með fullu ákvæðisverði. Seðlabankanum er heimilt að ákveða að tilefnismynt sé seld með álagi á ákvæðisverð hennar. Ágóða af sölu tilefnismyntar skal varið til lista, menningar eða vísinda samkvæmt ákvörðun ráðherra.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Á þessari öld hefur merkilegra atburða í sögu þjóðarinnar nokkrum sinnum verið minnst með útgáfu sérstakrar tilefnismyntar. Slík mynt var fyrst slegin árið 1930 til að minnast þúsund ára afmælis Alþingis og síðast fyrr á þessu ári í tilefni af þúsund ára kristni á Íslandi. Um útgáfu slíkrar tilefnismyntar hafa tvisvar verið sett sérstök lög, en eftir setningu laga nr. 22/ 1968, um gjaldmiðil Íslands, hefur þess háttar útgáfa stuðst við þau. Útgáfa myntar af þessu tagi þjónar í raun tvíþættum tilgangi. Auk minjagildis, sem slíkri mynt er umfram allt ætlað að hafa, hafa ýmis þjóðþrifamál notið góðs af þeim ágóða sem orðið hefur af sölu hennar. Frá stofnun Þjóðhátíðarsjóðs árið 1977 hafa slíkar tekjur runnið þangað og framlögum úr hún honum verið varið í samræmi við þann tilgang sjóðsins að styrkja verkefni sem til þess eru fallin að varðveita menningararfleifð þjóðarinnar.




Prentað upp.

    Í samvinnu við bandarísk stjórnvöld hefur að undanförnu verið unnið að sameiginlegri minnispeningaútgáfu helgaðri Leifi Eiríkssyni og fundi Norður-Ameríku. Í því skyni er fyrirhugað að gefa síðar á þessu ári út tvær sams konar myntir, annars vegar með verðgildi í íslenskum krónum og hins vegar í bandarískum dölum, og verja ágóða af sölu þeirra til að stofna sérstakan sjóð er veiti námsstyrki í tvíhliða stúdentaskiptum á milli landanna. Hefur Bandaríkjaþing þegar samþykkt sérstaka löggjöf í þessu skyni.
    Svo sem fyrr segir hefur myntslátta af þessu tagi stuðst við gjaldmiðilslögin frá 1968. Af síðastgreindu tilefni þykir hins vegar við hæfi að leita nú eftir atbeina Alþingis til að styrkja slíka minnispeningaútgáfu enn frekar í sessi sem mikilvægan lið í að minnast sögulegra viðburða og stuðla að framfaramálum í þágu almannaheilla. Með frumvarpinu er lagt til að Seðlabanka Íslands verði útvegaðar skýrar heimildir til að selja mynt sem slegin er af slíku tilefni með álagi á ákvæðisverð hennar, enda er það forsenda þess að útgáfa hennar geti þjónað tvíþættum tilgangi sínum.
    Við afgreiðslu máls nr. 548, um virðisaukaskatt, lagði nefndin til að frumsala myntar með slíku álagi verði undanþegin virðisaukaskatti, enda er ráðstöfun söluhagnaðar bundin við sams konar málefni og þegar njóta slíkrar undanþágu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Samkvæmt 5. gr. laga nr. 22/1968, um gjaldmiðil Íslands, skal myntslátta Seðlabankans taka mið af eðlilegri þörf á skiptimynt á hverjum tíma. Hér er lagt til að í lögin verði tekin sérstök heimild til að slá auk þess hina sérstöku tilefnismynt. Með því að útgáfa slíkrar myntar stjórnast augljóslega af öðrum þörfum en skiptimynt þykir rétt að atbeina ráðherra þurfi til útgáfu hennar. Að öðru leyti er lagt til að ákvæði um tilefnismyntina verði í lögum um Seðlabankann, sbr. 2. gr. frumvarpins.

Um 2. gr.


    Í 5. gr. laga nr. 36/1986, um Seðlabanka Íslands, eru áréttuð ákvæði gjaldmiðilslaganna um einkarétt bankans til seðla- og myntútgáfu. Hér er lagt til að við þessa grein laganna verði bætt sérstöku ákvæði um þá tilefnismynt sem bankinn gefur út. Samkvæmt því er lagt til að tilefnismyntin geti eins og gangmynt verið lögeyrir til allra greiðslna með því verðgildi sem á hana er letrað. Er því m.a. ætlað að tryggja söfnunargildi myntarinnar enda þótt henni sé umfram annað fyrst og fremst ætlað að hafa minjagildi. Til að útgáfa slíkrar myntar geti jafnframt þjónað því hlutverki að skapa tekjur til framfaramála er enn fremur lagt til að bankanum verði heimilað að selja slíka mynt yfir því verði sem fást mundi í skiptum fyrir hana sem gangmynt. Tekið skal fram að þessi heimild er bundin við tilefnismyntina þegar hún er seld sem slík, en tekur að sjálfsögðu ekki til þeirrar gangmyntar sem allir geta fengið sem lögeyri á fullu ákvæðisverði. Lagt er til að álagið verði reiknað sem tiltekið hlutfall af ákvæðisverði viðkomandi tilefnismyntar, en með því að verðlagning hennar hlýtur a.m.k. að einhverju marki að stjórnast af kostnaði af gerð myntarinnar, verðmæti þess málms sem hún er slegin úr, eftirspurn á markaði í samkeppni við aðra safnaramynt og verði sambærilegra mynta á heimsmarkaði þykir ekki unnt að festa nákvæmari leiðbeiningar um verðmyndun í lög þrátt fyrir einkarétt bankans til myntútgáfu af þessu tagi. Loks er lagt til að ráðstöfun söluhagnaðar verði samkvæmt ákvörðun ráðherra varið til þeirra málefna sem tilgreind eru í niðurlagi greinarinnar.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.