Ferill 214. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 225  —  214. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um jöfnun flutningskostnaðar á sementi, nr. 62 30. apríl 1973, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



1. gr.

    2. mgr. 2. gr. laganna orðast svo:
    Flutningsjöfnunargjaldið skal reikna og greiða á hvert selt tonn af sementi. Skulu innlendir framleiðendur og innflytjendur sem stunda endursölu á sementi á minnst tveimur verslunarstöðum sem jafnframt eru aðaltollhafnir greiða gjaldið til flutningsjöfnunarsjóðs sements af sölu í hverjum mánuði eigi síðar en á síðasta virka degi að tveimur mánuðum liðnum frá lokum sölumánaðar. Flutningsjöfnunargjald af öðru innfluttu sementi skal innheimt með aðflutningsgjöldum. Annast tollstjórar innheimtuna og skulu þeir skila gjaldinu til flutningsjöfnunarsjóðs sements.

2. gr.

    1. málsl. 5. gr. laganna orðast svo: Viðskiptaráðherra skipar til fjögurra ára í senn flutningsjöfnunarsjóði þriggja manna stjórn án tilnefningar og skipar viðskiptaráðherra formann sjóðstjórnar.

3. gr.

    2. málsl. 1. mgr. 6. gr. laganna orðast svo: Er stjórninni meðal annars heimilt að ákveða að jöfnun flutningskostnaðar milli tiltekinna verslunarstaða, þar á meðal framleiðslustaðar eða aðaltollhafnar og annarra verslunarstaða, skuli takmörkuð við kostnað af þeim flutningsháttum sem ódýrastir eru á hverjum tíma og skemmstu flutningsleið.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Lögin um jöfnun flutningskostnaðar á sementi eru að stofni til frá árinu 1973. Þegar lögin voru sett voru í gildi lög nr. 35 frá 1. apríl 1948, um sementsverksmiðju, en Sementsverksmiðja ríkisins starfaði á grundvelli þeirra laga. Með lögum nr. 28 frá 13. apríl 1993 yfirtók hlutafélagið Sementsverksmiðjan hf. Sementsverksmiðju ríkisins 1. janúar 1994, sbr. 11. gr. laganna. Þegar lög nr. 62 frá 30. apríl 1973, um jöfnun flutningskostnaðar á sementi, voru sett var einungis einn starfandi seljandi á sementi á markaðinum, þ.e. Sementsverksmiðja ríkisins. Þótti því eðlilegt að mæla svo fyrir í 5. gr. laganna að Sementsverksmiðja ríkisins tilnefndi einn mann í flutningsjöfnunarsjóð sements. Eftir að Sementsverksmiðja ríkisins var gerð að hlutafélagi 1. janúar 1994 og fleiri en einn aðili starfar nú á sementsmarkaðnum er ekki eðlilegt að Sementsverksmiðjan hf. tilnefni mann í stjórn flutningsjöfnunarsjóðs sements.
    Í ljósi þess sem að framan er rakið samþykkti stjórn flutningsjöfnunarsjóðs sements á fundi sínum 30. maí 2000 að koma með eftirfarandi ábendingu um stjórnarsetu í sjóðnum til viðskiptaráðherra og var hún samþykkt samhljóða: „Stjórn Flutningsjöfnunarsjóðs sements beinir því til viðskiptaráðherra að kannað verði hvort nauðsynlegt sé að endurskoða lög um jöfnun flutningskostnaðar á sementi þar með talið skipun stjórnar sjóðsins í ljósi þess að fleiri en einn söluaðili er nú starfandi á sementsmarkaðnum.“
    Í frumvarpi því sem hér liggur fyrir er lagt til að viðskiptaráðherra skipi stjórn flutningsjöfnunarsjóðs sements án tilnefningar, þar með talið formann stjórnar. Að öðru leyti er gert ráð fyrir því að stjórnin skipti sjálf með sér verkum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Lögum samkvæmt er gert ráð fyrir því að Sementsverksmiðjan hf. greiði flutningsjöfnunargjald af sölu sements til viðskiptaráðuneytisins sem sér um endurgreiðslu á flutningskostnaði sements. Í greininni er lagt til að greiðslan fari nú beint til flutningsjöfnunarsjóðs sements sem sér um endurgreiðslu á flutningskostnaði.
    Þá er nauðsynlegt vegna tilkomu innflutnings á sementi til endursölu að jafna samkeppnisstöðu innlendra framleiðenda og þeirra sem flytja inn sement. Með þessari frumvarpsgrein er greiðslufrestur á flutningsjöfnunargjaldi með lögum færður til þess horfs sem hann hefur verið í framkvæmd.

Um 2. gr.

    Í ljósi þess að fleiri en einn aðili eru nú virkir á sementsmarkaðnum þykir eðlilegt að ráðherra skipi án tilnefningar stjórn flutningsjöfnunarsjóðs sements. Um ákvæði þessarar greinar vísast að öðru leyti til almennra athugasemda hér að framan.

Um 3. gr.

    Með tilkomu innflutnings á sementi er nauðsynlegt að jafna flutningskostnað ekki eingöngu frá framleiðslustað sements hér innan lands heldur einnig frá aðaltollhöfn til tiltekinna verslunarstaða.

Um 4. gr.

    Í þessari grein er gildistökuákvæði og þarfnast hún ekki skýringa.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 62/1973,
um jöfnun flutningskostnaðar á sementi, með síðari breytingum.

    Tilgangur frumvarpsins er að laga gildandi lög að samkeppni á sementsmarkaði. Í ljósi þess að fleiri en einn aðili eru virkir á markaðnum þykir nú eðlilegt að viðskiptaráðherra skipi stjórn flutningsjöfnunarsjóðs sements án tilnefningar framleiðenda.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.