Ferill 119. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 514  — 119. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 57 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum.

Frá sjávarútvegsnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Árna Múla Jónasson og Auðun Sæmundsson frá Fiskistofu og Jón B. Jónasson frá sjávarútvegsráðuneyti. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Eyþingi–Sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Hafrannsóknastofnuninni, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Byggðastofnun, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Landssambandi smábátaeigenda, Þjóðhagsstofnun, Verslunarráði Íslands, Vélstjórafélagi Íslands og Sjómannasambandi Íslands.
    Með frumvarpinu er leitað nýrra leiða til að kanna brottkast á afla og jafnframt til að koma í veg fyrir það. Er því lagt til að Fiskistofu sé heimilað í ákveðnum tilvikum að setja eftirlitsmenn um borð á kostnað útgerðar. Miðað er við að afli tiltekins skips skeri sig að einhverju leyti úr afla annarra skipa sem stunda sambærilegar veiðar og því sé ástæða til að ætla að fiski hafi verið hent fyrir borð. Í slíkum tilvikum skal Fiskistofa setja veiðieftirlitsmann um borð í skipið til að fylgjast með veiðum þess. Þegar veiðieftirlitsmaður hefur verið um borð í skipi í sjö daga skal Fiskistofa ákveða hvort hann skuli vera áfram um borð. Ef ákveðið er að veiðieftirlitsmaður skuli vera áfram um borð í skipi greiðir útgerð þess allan kostnað af veru hans um borð frá og með áttunda degi en fram að því er hann um borð á kostnað Fiskistofu.
    Nefndin vekur athygli á að heimild Fiskistofu nær til þess að afli tiltekins skips sé að gæðum frábrugðinn afla annarra skipa sem stunda sambærilegar veiðar og bendir á að slík heimild sé matskennd og vandasöm úrlausnar. Leggur nefndin til að Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins verði falið að móta gæðastaðla sem miða skuli við þegar heimildinni er beitt.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þegar veiðieftirlitsmaður hefur verið um borð í skipi í sjö daga geti Fiskistofa ákveðið að hann skuli vera þar áfram. Innan nefndarinnar var rætt hvernig heimildinni skyldi beitt þegar um dagróðrabáta væri að ræða. Telur nefndin eðlilegt að í slíkum tilvikum sé miðað við sjö einstakar veiðiferðir á fiskveiðiári. Til að taka af tvímæli leggur nefndin til breytingu í samræmi við það. Jafnframt leggur nefndin áherslu á að með orðinu veiðiferðir er verið að taka af allan vafa um að hver veiðiferð þurfi ekki að standa yfir í heilan sólarhring þegar um dagróðrabáta er að ræða.
    Innan nefndarinnar var talsvert rætt hvort fortakslaus skylda Fiskistofu, samkvæmt orðanna hljóðan í frumvarpinu, til að setja veiðieftirlitsmann um borð mundi íþyngja stofnuninni um of og hvort almenn heimild væri nægjanleg í þessu skyni. Í 3. mgr. 17. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, sbr. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum, er almenn heimild fyrir Fiskistofu til að setja veiðieftirlitsmenn um borð í skip. Telur nefndin að auk þessarar almennu heimildar sé nauðsynlegt að kveðið sé skýrt á um að Fiskistofa skuli grípa til aðgerða gefi samsetning afla skips tilefni til þess.
    Nefndin ræddi einnig ýmis atriði er snúa almennt að framkvæmd veiðieftirlitsins. Ekki síst þau er lúta að tímabundinni sviptingu veiðileyfa vegna brota er augljóslega stafa af gáleysi eða mannlegum mistökum. Af þeim sökum hefur sjávarútvegsráðherra hafið vinnu við endurskoðun þessara þátta sem framkvæmd verður í samráði við hagsmunaaðila. Leggur nefndin áherslu á að því starfi verði hraðað.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:



     1.      2. málsl. efnismálsgreinar 1. gr. orðist svo: Hafi veiðieftirlitsmaður í þessu skyni verið um borð í veiðiskipi sjö daga eða sjö veiðiferðir samtals á sama fiskveiðiári skal Fiskistofa ákveða hvort ástæða sé til að fylgjast sérstaklega með veiðum skipsins áfram.
     2.      Í stað orðanna ,, Verði eftirlitsmaður áfram um borð í skipinu í lokamálslið efnismálsgreinar 1. gr. komi: Hafi veiðieftirlitsmaður á sama fiskveiðiári verið fleiri en sjö daga eða sjö veiðiferðir um borð í veiðiskipi samkvæmt þessari grein.

    Vilhjálmur Egilsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Árni Steinar Jóhannsson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu með fyrirvara.
    Svanfríður Jónasdóttir, Jóhann Ársælsson og Guðjón A. Kristjánsson skrifa undir álitið með fyrirvara.

Alþingi, 12. des. 2000.



Einar K. Guðfinnsson,


form., frsm.


Árni R. Árnason.



Guðmundur Hallvarðsson.



Jónas Hallgrímsson.


Hjálmar Árnason.


Jóhann Ársælsson,


með fyrirvara.



Svanfríður Jónasdóttir,


með fyrirvara.


Guðjón A. Kristjánsson,


með fyrirvara.