Ferill 367. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 580  —  367. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19 26. mars 1991.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



1. gr.

    Við 4. mgr. 66. gr. laganna, sbr. lög nr. 36/1999, bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Sá sem á hagsmuna að gæta getur kært ákvörðun ríkissaksóknara til dómsmálaráðherra. Nú er ákvörðun ríkissaksóknara felld úr gildi og setur ráðherra þá sérstakan saksóknara til að fara með málið.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í dómsmálaráðuneytinu að undangengnu samráði við réttarfarsnefnd. Með því er lagt til að unnt verði að kæra til dómsmálaráðherra ákvörðun ríkissaksóknara um hvort opinber rannsókn á grundvelli 4. mgr. 66. gr. laganna skuli fara fram eða ekki.
    Með 20. gr. laga nr. 36/1999 var nýju ákvæði bætt í 4. mgr. 66. gr. laganna um rannsókn opinberra mála. Samkvæmt ákvæðinu er ríkissaksóknara heimilt, þegar sérstaklega stendur á, að mæla fyrir um rannsókn opinbers máls þótt ætla megi að refsingu verði ekki við komið, svo sem vegna þess að sök sé fyrnd, ef ríkir almanna- og einkahagsmunir mæla með því.
    Samkvæmt 1. mgr. 66. gr. laganna er rannsókn opinberra mála í höndum lögreglu nema öðruvísi sé ákveðið í lögum. Skal lögregla hefja rannsókn hvenær sem þess er þörf út af vitneskju eða grun um að refsivert brot hafi verið framið hvort sem henni hefur borist kæra eða ekki. Ríkissaksóknari getur gefið fyrirmæli í þeim efnum, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Skv. 1. mgr. 76. gr. er ákvörðun lögreglu um hvort rannsókn fer fram kæranleg til ríkissaksóknara. Almennt sætir því ákvörðun um rannsókn opinberra mála endurskoðun hjá æðra settu stjórnvaldi.
    Í 4. mgr. 66. gr. laganna er ríkissaksóknara falið að taka ákvörðun um hvort opinber rannsókn fari fram. Ákvörðun ríkissaksóknara um hvort opinber rannsókn skuli fara fram eða ekki er fullnaðarákvörðun og verður því ekki kærð til æðra stjórnvalds, sbr. 1. mgr. 76. gr. Með frumvarpi þessu er lagt til að unnt verði að endurskoða ákvörðun ríkissaksóknara skv. 4. mgr. 66. gr. Þetta er til samræmis við almennar reglur um að mál geti fengið skoðun öðru sinni. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ráðherra geti fellt úr gildi ákvörðun ríkissaksóknara og sett sérstakan saksóknara til að taka ákvörðun um hvort rannsókn fari fram og til að fara síðan með málið. Þetta fyrirkomulag um kæru á ákvörðunum ríkissaksóknara á sér hliðstæðu í 2. mgr. 26. gr. laganna en samkvæmt því ákvæði er unnt að kæra ákvörðun ríkissaksóknara um að fella niður mál að lokinni lögreglurannsókn. Það skal áréttað sérstaklega að hér er um mjög þrönga undantekningu að ræða frá meginreglunni um sjálfstæði ákæruvaldsins. Helgast hún af sérstöðu þeirra mála sem 4. mgr. 66. gr. á við um og nauðsyn þess að unnt sé að endurskoða slíka ákvörðun eins og á almennt við um ákvarðanir um rannsókn opinberra mála.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum
um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991.

    Frumvarp þetta miðar að því að heimilt verði að kæra til dómsmálaráðherra ákvörðun ríkissaksóknara um hvort opinber rannsókn skuli fara fram þótt ætla megi að refsingu verði ekki við komið, svo sem þegar sök er fyrnd. Gera má ráð fyrir að rannsóknir mála af þessum toga verði sjaldgæfar. Ógerlegt er að áætla kostnaðinn fyrir fram þar sem hann fer eftir eðli máls, umfangi rannsóknar og hvaða aðilar koma að rannsókn mála. Gera má ráð fyrir að til lengri tíma verði kostnaðurinn innan útgjaldaramma ráðuneytisins þótt frávik kunni að verða vegna einstakra mála.