Ferill 521. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1089  —  521. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 50/1997, um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt Árnason og Jónínu S. Lárusdóttur frá viðskiptaráðuneyti, Gunnar Viðar frá Landsbanka Íslands hf., Árna Tómasson frá Búnaðarbanka Íslands hf., Friðbert Traustason frá Sambandi íslenskra bankamanna, Helgu Jónsdóttur frá Félagi starfsmanna Landsbanka Íslands, Jón Ágúst Sigurðsson frá Starfsmannafélagi Búnaðarbanka Íslands, Eirík Guðnason og Tryggva Pálsson frá Seðlabanka Íslands, Finn Sveinbjörnsson frá Verðbréfaþingi Íslands, Guðjón Rúnarsson frá Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja, Sigríði Andersen frá Verslunarráði Íslands, Pál Gunnar Pálsson og Ragnar Hafliðason frá Fjármálaeftirlitinu, Þórð Friðjónsson, Magnús Harðarson og Pál Harðarson frá Þjóðhagsstofnun, Tryggva Má Herbertsson frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, Jón Sveinsson, Guðmund Ólason og Skarphéðinn Steinarsson frá framkvæmdanefnd um einkavæðingu, Ara Edwald frá Samtökum atvinnulífsins, Vilhjálm Bjarnason frá Samtökum fjárfesta og sparifjáreigenda og Guðmund Sigurðsson og Guðlaug Stefánsson frá Samkeppnisstofnun. Jafnframt bárust umsagnir um málið frá Verðbréfaþingi Íslands, Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, Alþýðusambandi Íslands, Sambandi íslenskra bankamanna, Félagi starfsmanna Landsbanka Íslands og Starfsmannafélagi Búnaðarbanka Íslands, Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja, Þjóðhagsstofnun, Seðlabanka Íslands, Búnaðarbanka Íslands hf., Landsbanka Íslands hf., Verslunarráði Íslands, Fjármálaeftirlitinu, Íslandsbanka-FBA, Landssamtökum lífeyrissjóða og Neytendasamtökunum. Einnig bárust nefndinni gögn frá viðskiptaráðuneytinu.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir því að heimild verði veitt til að selja hlutafé ríkissjóðs í Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. Hlutur ríkissjóðs í Landsbanka Íslands hf. er rúm 68%, en í kringum 72,5% í Búnaðarbanka Íslands hf. Með frumvarpinu er fylgt eftir þeirri stefnu að selja beri hlut ríkisins í fyrirtækjum sem stunda starfsemi sem einkaaðilar geta stundað með eðlilegum hætti þegar virk samkeppni er fyrir hendi.
    Meiri hlutinn bendir á að framkvæmdanefnd um einkavæðingu vinnur um þessar mundir að undirbúningi tillagna um fyrirkomulag sölu bankanna tveggja með fyrirvara um heimild Alþingis og mun í vinnu sinni taka afstöðu til atriða á borð við áfangaskiptingu og tímasetningu sölunnar, fyrirkomulag útboðs, þ.e. hvort um almennt útboð með dreifðri sölu verði að ræða eða tilboðssölu hérlendis og erlendis, um sölu til innlendra eða erlendra kjölfestufjárfesta og hlutfall milli einstakra söluaðferða. Jafnframt mun framkvæmdanefnd um einkavæðingu taka afstöðu til þess hvort um samhliða sölu í báðum bönkunum verði að ræða eða ekki og meta líklegt framboð og eftirspurn eftir hlutabréfum í þeim.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt.


Alþingi, 6. apríl 2001.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson.


Sigríður A. Þórðardóttir.



Gunnar Birgisson.


Ragnheiður Hákonardóttir.


Daníel Árnason.